Herra forseti. Nýlega auglýstu sparisjóðirnir lánveitingar í samstarfi við Íbúðalánasjóð með 4,15% vöxtum, allt að 40 ára lánstíma og 25 millj. kr. hámarki. Fyrirspurn mín til hæstv. félagsmálaráðherra er þessi: Hvernig er þessum samningum milli Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna háttað? Koma aðrar lánastofnanir inn í þá? Getur verið að Íbúðalánasjóður kaupi lánveitingar sem lánaðar eru á 2. veðrétti, þ.e. það sem er umfram hámark Íbúðalánasjóðs á 1. veðrétti þannig að hámarkið sé í raun komið upp í 25 millj. kr.?
Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjanda Pétri H. Blöndal er kunnugt samþykktum við á Alþingi fyrir um hálfu ári ný lög um húsnæðismál og þar með um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Með þeim lögum er sjóðnum gert að ástunda virka fjárstýringu og áhættufjárstýringu þar með. Ég kannast ekki við dæmi þess sem þingmaðurinn nefndi, að Íbúðalánasjóður tæki þátt í að lána umfram þau mörk sem honum eru sett með lögum og reglugerð. Þvert á móti er alveg skýrt hvert hámark lána Íbúðalánasjóðs er. Sjóðurinn hefur heimild til að lána með allt að 90% lánshlutfalli allt að 14,9 millj. kr. og við það hefur sjóðurinn að sjálfsögðu staðið.
Með breyttum lögum lýtur starfsemi Íbúðalánasjóðs líka fyllilega eftirliti Fjármálaeftirlitsins og eftir því sem ég best veit, hæstv. forseti, hafa engar athugasemdir komið af hálfu þess við fjárstýringu sjóðsins.
Herra forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin. Eins og hann kom inn á er ekki um það að ræða að Íbúðalánasjóður kaupi veðbréf sem eru á 2. veðrétti í þeim íbúðum þar sem hann er jafnframt með lán á 1. veðrétti. Þá spyr maður sig náttúrlega: Hver kaupir þau lán? Þau eru að sjálfsögðu miklu áhættusamari en þau lán sem eru á 1. veðrétti.
Ég þakka aftur fyrir svörin og það róar mig að menn skuli ekki hafa farið þessa leið.