131. löggjafarþing — 113. fundur.
meinatæknar og heilbrigðisþjónusta, 2. umræða.
stjfrv., 537. mál (lífeindafræðingar). — Þskj. 811, nál. 1152.

[18:57]
Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. heilbrigðis- og trygginganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meinatækna, nr. 99/1980, og lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Í nefndaráliti er greint frá þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar vegna málsins og eins þeim sem skiluðu umsögnum vegna málsins og vísa ég í nefndarálitið um það.

Með frumvarpinu er ætlunin að breyta starfsheitinu meinatæknir í lífeindafræðingur og einnig að fella brott úr lögunum ákvæði um skilyrði þess efnis að meinatæknir starfi á ábyrgð og undir handleiðslu sérfræðings. Þá er jafnframt lagt til að sett verði í lögin heimild til þess að setja reglugerð um sérfræðiviðurkenningu lífeindafræðings.

Nefndin telur breytinguna á starfsheitinu eðlilega þegar litið er til menntunar, aukinnar sérhæfingar, eðlis starfsins og breytinga hjá sambærilegum stéttum. Flestar umsagnir um þetta atriði frumvarpsins hafa verið jákvæðar.

Nefndin fellst á það sjónarmið að samfara aukinni menntun er ekki rétt að gera skilyrðislausa kröfu um að meinatæknar starfi undir handleiðslu sérfræðings eins og verið hefur, frekar en aðrar heilbrigðisstéttir sem bera ábyrgð á störfum sínum sjálfar, heldur að það verði metið sérstaklega hverju sinni. Telur nefndin því fullnægjandi að leyfi frá ráðherra til starfrækslu rannsóknastofu verði grundvallað á faglegu mati landlæknis um hvort uppfylltar séu þær faglegu kröfur sem gera verður til starfseminnar og að læknisfræðilegar rannsóknir verði ekki framkvæmdar annars staðar en þar sem aðbúnaður og sérþekking er fullnægjandi að mati landlæknis.

Loks leggur nefndin til að landlæknir gefi út viðmiðanir um hvernig flokka skuli rannsóknarstofur eftir starfssviði og eðli. Þar komi fram hvaða lækningarannsóknir megi framkvæma á rannsóknastofu í hverjum flokki og hvaða kröfur skuli gera til þeirra.

Nefndin leggur til smávægilega breytingu á frumvarpinu sem varðar einungis málfar og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Í stað orðanna „gera þurfi“ í 6. gr. komi: gera þarf.

Undir álitið rita allir hv. þingmenn í heilbrigðis- og trygginganefnd, auk þeirrar sem hér stendur, þ.e. Drífa Hjartardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Pétur H. Blöndal, Þuríður Backman, Siv Friðleifsdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir.

Í nefndaráliti segir að hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Ágúst Ólafur Ágústsson hafi verið fjarverandi við afgreiðslu málsins, en í stað þess að það standi Ágúst Ólafur, herra forseti, á að standa Einar Karl Haraldsson. Að þeim frátöldum standa allir nefndarmenn í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd að áliti þessu.