131. löggjafarþing — 124. fundur.
Lánasjóður landbúnaðarins, 2. umræða.
stjfrv., 786. mál (afnám laganna). — Þskj. 1164, nál. 1325 og 1334, brtt. 1326.

[15:25]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum, frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eystein Jónsson frá landbúnaðarráðueyti, Guðmund Stefánsson frá Lánasjóði landbúnaðarins, Jón Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Harald Benediktsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Árna V. Kristjánsson frá Sambandi íslenskra loðdýrabænda, Ólaf Pál Gunnarsson frá Lífeyrissjóði bænda, Þórólf Sveinsson frá Landssambandi kúabænda, Jóhannes Sigfússon frá Landssambandi sauðfjárbænda, Harald Benediktsson frá Bændasamtökum Íslands, Aðalstein Þorsteinsson og Herdísi Á. Sæmundsdóttur frá Byggðastofnun og Rögnvald Ólafsson, formann kjaranefndar á búnaðarþingi 2005.

Þá barst umsögn frá Sambandi íslenskra loðdýrabænda.

Með frumvarpinu er lagt til að starfsemi Lánasjóðs landbúnaðarins verði lögð niður frá og með 31. desember 2005 og að landbúnaðarráðherra verði heimilt að selja allar eignir sjóðsins og gera upp skuldir hans. Lagt er til að söluandvirðið að frádregnum kostnaði við sölu og niðurlagningu sjóðsins renni til Lífeyrissjóðs bænda.

Meiri hlutinn telur að í ljósi breytts rekstrarumhverfis fjármálastofnana sé nauðsynlegt að bregðast við þeim breytingum sem orðið hafa á rekstri sjóðsins. Bændur hafa í auknum mæli verið að greiða upp skuldir sínar við lánasjóðinn og fært viðskipti sín yfir til viðskiptabankanna og þannig er komið að ekki er fært að reka sjóðinn lengur. Fram kom á fundum að langtímarekstrarlán sjóðsins bera hærri vexti en lán á almennum markaði og að útlán sjóðsins hafa minnkað og uppgreiðslur lána aukist mikið síðustu mánuði, enda ætíð heimilt að greiða lánin upp án uppgreiðslugjalds. Sýnt þykir að bændur telja hagsmunum sínum betur borgið á almennum lánamarkaði.

Telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggja þeim bændum fyrirgreiðslu sem vegna búsetu eða búgreinar bjóðast ekki kjör á við þau sem tíðkast á almennum lánamarkaði, t.d. hjá Byggðastofnun. Við teljum það vera verkefni fyrir Byggðastofnun núna í ljósi þess að þar hafa líka orðið miklar breytingar að Byggðastofnun geti komið þarna að, en það hefur verið ákveðin verkaskipting á milli Byggðastofnunar og Lánasjóðs landbúnaðarins, að lánasjóðurinn hefur verið með landbúnaðinn og Byggðastofnun með önnur verkefni á landsbyggðinni. Við beinum því til stjórnar Byggðastofnunar að hugað verði að þessu og að Byggðastofnun gæti þá lánað jafnt til landbúnaðar og til annarra greina. Þá telur meiri hlutinn rétt að hugað verði að lánamöguleikum óðalsbænda sem eftir breytinguna geta einungis sótt um lán hjá Orkusjóði og Lífeyrissjóði bænda. Í lögum um óðalsbændur hafa þeir aðeins mátt taka lán hjá Lánasjóði landbúnaðarins, Lífeyrissjóði bænda og Orkusjóði og nú standa þessir tveir sjóðir eftir og því þarf að huga að þeirra málum, en eins og flestir vita geta menn nú leyst jarðir úr óðalsböndum ef þeir vilja.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem einungis varða uppsetningu frumvarpsins og er gerð tillaga um þær á þingskjali 1326.

Einar Oddur Kristjánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Birkir J. Jónsson, Guðmundur Hallvarðsson og Dagný Jónsdóttir.



[15:30]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst átelja þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í málinu. Það var keyrt inn á þing löngu eftir að frestur var útrunninn til að leggja fram mál, sem átti að vera fyrir 1. apríl, og síðan var það afgreitt með afbrigðum til að koma því á dagskrá sem sýnir hve mikill flumbrugangurinn er í málinu.

Landbúnaðarnefnd hafnaði því að senda málið út til hefðbundinna skriflegra umsagna, annaðhvort ekki þorað eða eitthvað var það, því var alla vega hafnað. Ég vil því átelja vinnubrögðin harðlega. Hér er um stórmál að ræða sem ekki er hægt að líða svona kæruleysislega meðferð á.

Ég ætla að spyrja: Hvers vegna voru ekki kannaðar fleiri leiðir við að finna Lánasjóði landbúnaðarins rekstrargrundvöll og starfsgrundvöll áfram? Það hefur bara verið lögð til sú eina leið að leggja hann niður og selja eignir hans. Hvers vegna voru ekki kannaðar aðrar leiðir eins og við höfðum bent að ætti að gera, eins og t.d. að samreka og afmarka verkefni hans með Lífeyrissjóði bænda, Byggðastofnun eða öðrum? Hvers vegna var það ekki kannað?

Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, sem hv. þingmaður gerði sér ekki grein fyrir, að ákveðinn hópur bænda mun standa utan við möguleika á því að fá eðlilega fjármagnsfyrirgreiðslu og lagt til að skoða hvort (Forseti hringir.) Byggðastofnun geti tekið þau verkefni.



[15:33]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bændur eru almennt mjög góðir lántakendur, þeir standa í skilum hvar sem þeir taka lán. Það eru ekki allar stéttir sem geta hrósað sér af því en þannig orðspor fer af bændum. Ákveðnar greinar í landbúnaði hafa átt í erfiðleikum eins og t.d. loðdýraræktin, en það er alveg gegnumgangandi að bændur hafa staðið í skilum hjá Lánasjóði landbúnaðarins og það geta nefndarmenn vottað eftir yfirferðina.

Það var farið mjög vel yfir málið í landbúnaðarnefnd og fjöldi gesta kom til nefndarinnar. Það kom líka fram að Lífeyrissjóði bænda er óheimilt að taka við Lánasjóði landbúnaðarins, það var allt saman kannað.

Forsaga málsins er að 10. janúar 2005 setti hæstv. landbúnaðarráðherra á stofn verkefnisstjórn sem var falið að endurskoða framtíðarhlutverk og tilgang Lánasjóðs landbúnaðarins í ljósi þeirrar þróunar sem hafði átt sér stað og við höfum rætt um. Staðan var orðin þannig að sjóðnum var að blæða út og það varð að taka á því verkefni. Í verkefnisstjórninni sátu Haraldur Benediktsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Guðmundur Stefánsson, tilnefndur af stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins, og Baldur Erlingsson og Eysteinn Jónsson, fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins.

Tillagan kom eftir þá yfirferð og verið að bregðast við tilteknu ástandi. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason veit hafa uppgreiðslur úr sjóðnum verið gríðarlega miklar og sjóðurinn getur einfaldlega ekki staðið undir því með það litla (Forseti hringir.) fjármagn sem eftir er þegar búið er að greiða allt þetta upp.



[15:35]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo mikill var flumbrugangurinn í vinnunni að það var ekki einu sinni hægt að kynna niðurstöðu nefndarinnar fyrir búnaðarþingi sem haldið var um miðjan mars. Þetta er ekki einkamál ríkisins þó svo að ríkið sé eigandi Lánasjóðs landbúnaðarins. Bændur hafa greitt til sjóðsins og þetta hefur verið einn aðallánasjóður landbúnaðarins um áratugi með Stofnlánadeildina sem forvera sinn. Það er því ekkert sem réttlætir svona flumbrulegt vinnulag.

Varðandi það að kannað hafi verið samstarf við Lífeyrissjóð bænda vil ég benda á að í fyrsta lagi starfar Lífeyrissjóður bænda samkvæmt sérlögum og hægt að kveða á um ákveðin sérverkefni við hliðina á honum, ég hef kannað það, ef vilji er fyrir hendi.

Í öðru lagi upplýsti fulltrúi Lífeyrissjóðs bænda sem kom á fund landbúnaðarnefndar að honum væri ekki kunnugt um að neinar formlegar viðræður hefðu farið fram á milli Lífeyrissjóðs bænda og ráðuneytisins eða annarra út af málinu.

Ég átel öll þau vinnubrögð sem liggja í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að einkavæða og selja Lánasjóð landbúnaðarins. Einkavæðingarfíkn núverandi ríkisstjórnar á sér engin takmörk, frú forseti, því miður.



[15:37]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé einhver flumbrugangur í öðrum en hv. landbúnaðarnefnd. Ég held að hv. þm. Jón Bjarnason geti bara tekið það orð til sín og verið með sinn flumbruhátt.

Það var farið afskaplega vel yfir málið fyrir páska. Þá héldum við fund, eins og hv. þingmaður hlýtur að muna, þar sem farið var yfir þetta með verkefnisstjórninni og öll þau gögn sem lágu fyrir kynnt fyrir okkur í trúnaði, þannig að ég vísa orðum hans til föðurhúsanna.

Búnaðarþing 2005 fjallaði um málið. Hópurinn hafði ekki lokið störfum en búnaðarþingsfulltrúar gera sér grein fyrir að það er orðin gjörbreytt aðstaða í lánastarfsemi í landinu og það er verið að viðurkenna þá staðreynd og það veit hv. þingmaður. Það er enginn að gera þetta að gamni sínu, þetta er bara staðreynd, sjóðnum hefur blætt út, hann er of lítill til að hann geti verið rekstrarlega hagkvæmur. Þess vegna er lánasjóðnum best fyrir komið þannig að einhver lánastofnun kaupi sjóðinn og reki hann áfram. Eins og ég sagði áðan eru bændur góðir lántakendur og eftirsóttir af viðskiptabönkunum sem vilja fá þá í viðskipti. En auðvitað lenda alltaf einhverjir í því að vera ekki metnir eins og aðrir, það er misjafnt hvernig lánstraust manna er metið og það breytist ekkert. Lánasjóður landbúnaðarins lánar heldur ekki hverjum sem er, menn verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá lán hjá honum.



[15:39]
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fallist á það sem fram hefur komið hjá hv. framsögumanni og reyndar í nefndaráliti að mikil þörf var á því að taka með einhverjum hætti á málefnum Lánasjóðs landbúnaðarins. Ákveðið var að fara þá leið sem valin var eftir að sérfræðinganefnd fjallaði um málið og hv. landbúnaðarnefnd. Samt sem áður eru nokkrar spurningar sem ég vil varpa fram.

Þótt skriflegar umsagnir séu ekki margar eru þær þó tvær. Í annarri, frá Sambandi íslenskra loðdýrabænda, kemur fram áhersla á að við breytingu á lánastofnun komi ekki til ný uppgreiðslu-, stimpil- eða lántökugjöld. Það hefur komið fram hjá fleirum sem heimsóttu nefndina að nauðsynlegt sé að líta þannig til með málinu að það verði ekki greidd stimpilgjöld af nýjum lánum við yfirfærslu til annarrar lánastofnunar.

Mér sýnist að lög heimili það ekki. Ef stofnað er til nýrra lána eða yfirfærsla yfir í aðra lánastofnun verði að greiða stimpilgjöld af nýju láni sem og önnur lögbundin gjöld. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig hefur nefndin hugsað þetta sérstaklega?

Töluverður hópur hefur þurft að greiða í Lánasjóð landbúnaðarins sem ekki er í Lífeyrissjóði bænda. Nokkrir garðyrkjubændur og bændur almennt hafa þurft að greiða gjöldin í sjóðinn en hafa hins vegar kosið að vera fyrir utan Lífeyrissjóð bænda. Hvernig verður farið með málefni þeirra? Er það þannig að gjöldin sem þeir hafa greitt verði bara tekin til að styrkja lífeyrissjóðinn til að greiða öðrum?



[15:41]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn geta greitt upp lánin án uppgreiðslugjalds, það er alveg hreinu, og stimpilgjöldin eru óbreytt í lögum eins og þau eru í dag.

Bændur hafa verið að greiða búnaðargjald til Lánasjóðs landbúnaðarins. Það var ekki tekin ákvörðun um að breyta því á þessu stigi, það þarf að reikna það allt saman upp aftur. Bændur hafa einmitt viljað losna við að greiða þetta ákveðna gjald til lánasjóðsins. Búnaðargjaldið fer til Bændasamtakanna í ákveðnum hlutföllum. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma til kasta okkar í haust að breyta, því að með gjaldinu hafa menn verið að greiða niður vexti og ekki allir notið, eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gat um áðan. Ákveðin tegund bænda eins og garðyrkjubændur búa ekki á jörðunum og þeir hafa ekki notið þess að fá fyrirgreiðslu frá Lánasjóði landbúnaðarins. Þetta þarf allt að skoða og var rætt í nefndinni við Bændasamtökin, en þeir báðust undan því að það yrði ákveðið núna með lögum þannig að þeir fengju tíma til að yfirfara málið. Við munum koma með tillögu í haust því auðvitað hlýtur búnaðargjaldið að lækka í kjölfarið á þessu máli.



[15:43]
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að það sé nauðsynlegt að ganga frá því áður en til sölu lánasjóðsins kemur sem hugsanlega ein lánastofnun eða fjármálastofnun mun kaupa. Þó að ég sé ekki endilega sannfærð um að fyrir hann fáist miklir peningar er engu að síður verið að styrkja Lífeyrissjóð bænda, sem ekki er vanþörf á. En það verður að hugsa til þeirra sem hafa greitt gjaldið en eru ekki í lífeyrissjóðnum, með hvaða hætti greiðslur komi til baka til þeirra.

Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns: Á að binda þá bændur sem eru nú þegar í Lánasjóði landbúnaðarins til að skipta við þá stofnun sem kaupir lánasjóðinn?

Einnig vil ég ítreka að það hlýtur að vera vilji þingsins að breyta lögum um stimpilgjald vegna þess að þetta er endurfjármögnun lána með því að flytja á milli stofnana. Það er mikil nauðsyn á að breyta lögunum áður en til sölunnar kemur.

Í þriðja lagi held ég að afar mikilvægt sé fyrir þingið, þá sem hafa starfað í landbúnaðarnefnd og fyrir bændur, Bændasamtökin og réttarstöðu þeirra að strax næsta haust verði skýrslu skilað til þingsins um vinnuna, um einstaka þætti sem fram hafa komið í umsögnum um málið. Að spurningar sem hafa vaknað og ekki eru afgreiddar hér verði teknar fyrir fljótlega í upphafi næsta þings þar sem farið verður yfir þróunina, en réttarstaða bænda verður að vera alveg klár.



[15:45]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða strax næsta haust, að skoða einmitt stöðu þeirra sem greitt hafa inn í sjóðinn. Eins og ég sagði áðan er hægt að greiða lánin upp hvenær sem er. Það er enginn lántakandi í sjóðnum bundinn, hvert sem sjóðurinn fer, hann getur ráðið því sjálfur og getur greitt upp lán sín án uppgreiðslugjalds hvenær sem er og það hefur líka verið þannig hjá Lánasjóði landbúnaðarins.



[15:46]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta landbúnaðarnefndar um Lánasjóð landbúnaðarins. Að því nefndaráliti stend ég sem er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í hv. landbúnaðarnefnd.

Hinn 18. apríl sl. var útbýtt hér í þinginu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins. Frumvarpið felur í sér að heimila landbúnaðarráðherra að selja eignir sjóðsins og leggja hann niður.

Skilafrestur þingmála til að komast á dagskrá þessa þings sem nú stendur og lýkur senn var 1. apríl. Þurfti því að veita afbrigði til að taka málið á dagskrá. Málið kom á dagskrá 19. apríl, daginn eftir að því var útbýtt, og þurfti þá að veita sérstakt afbrigði vegna þess hve skammur tími var liðinn frá útbýtingu þess. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var andvígur því að þessi afbrigði yrðu veitt þar sem ekki var brýnt tilefni til að keyra þetta mál áfram á svo miklum hraða.

Lánasjóðurinn á sér áratuga sögu. Ef landbúnaðarráðherra var umhugað um að leggja fram frumvarp viðvíkjandi sjóðnum og að það fengi vandaða þinglega meðferð átti honum ekki að vera neitt að vanbúnaði að gera það innan tilskilins frests þingsins.

Á fundi landbúnaðarnefndar 26. apríl kom frumvarpið um sölu Lánasjóðsins á dagskrá nefndarinnar. Undirritaður óskaði eftir að leitað yrði skriflegra umsagna um málið til þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta varðandi sjóðinn eða vilja láta málefni hans sig varða. Það er hin hefðbundna vinna við þingmál sem fara til nefndar. Það kom því mjög á óvart að formaður nefndarinnar hafnaði þeirri beiðni og tilkynnti að meiri hlutinn ætlaði sér að keyra málið út úr nefndinni án skriflegra umsagna hagsmunaaðila og annarra sem ég hef hér nefnt. Þessum vinnubrögðum meiri hlutans mótmælti ég harðlega í nefndinni, taldi það alveg fáheyrt að sýna þessu máli svo litla virðingu, telja það svo lítils virði að ekki þyrfti að láta það fá eðlilega og vandaða þinglega meðferð eins og annars er venja til, leita umsagna og gefa til þess hæfilegan frest til að aðilar geti sent inn skriflegar umsagnir. Því var hafnað og ég átel slík vinnubrögð.

Lánasjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum árið 1998 og var hann framhald af Stofnlánadeild landbúnaðarins sem starfaði við hlið Búnaðarbankans. Lánasjóður landbúnaðarins er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir landbúnaðarráðherra.

Við einkavæðingu og sölu atvinnuvegasjóðanna og ríkisbankanna tókst að forða atvinnuvegasjóði bænda frá hremmingum og stofnaður var Lánasjóður landbúnaðarins. Hlutverk hans er skv. 2. gr. laganna „að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla þannig að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Sjóðurinn veitir lán til bænda og þjónustufyrirtækja landbúnaðarins, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“

Samkvæmt 7. gr. laganna veitir hann lán m.a. til eftirtalinna verkefna: til jarðakaupa, ræktunar, bygginga er varða landbúnað, vatns- og varmaveitna í sveitum, bústofns- og vélakaupa, hagræðingarverkefna og til ýmiss annars atvinnustarfs og nýsköpunar í sveitum.

Lánareglur hans hafa verið fullkomlega gagnsæjar og með starfsemi sjóðsins hefur verið reynt að stuðla að því sem kveðið er á um að sé eina hlutverk hans „æskilegri þróun atvinnuvegarins“. Sjóðurinn gegnir því mikilvægu hlutverki í byggðamálum með því að veita lán til landbúnaðar á jafnræðisgrunni óháð búsetu.

Fulltrúar Bændasamtakanna og Byggðastofnunar sem komu fyrir landbúnaðarnefnd viðurkenndu byggðahlutverk sjóðsins og töldu ólíklegt að viðskiptabankar mundu lána bændum á jafnræðisgrunni óháð búsetu. Í nefndaráliti meiri hlutans er einmitt viðurkennd sú staðreynd að það sé líklegt að aðstaða bænda til að leita lána- og fjármálaþjónustu á hinum almenna markaði verði ójöfn og þess vegna er þar lagt til að kanna möguleikana hjá Byggðastofnun. Yrði sjóðurinn lagður niður töldu þessir gestir að til þyrfti að koma annar sjóður eða félagslegar aðgerðir til að tryggja þeim bændum fjármálaþjónustu sem viðskiptabankar höfnuðu viðskiptum við eða byðu afarkosti. Fulltrúar Byggðastofnunar töldu eðlilegt að þeirri stofnun yrði fengið það hlutverk en þá yrði ríkisvaldið að koma með aukið fjármagn inn í stofnunina ef hún ætti að geta sinnt því hlutverki. Er þá spurning hvað er unnið við að leggja niður lánasjóðinn sem ríkisvaldið ber nú þegar ábyrgð á. Ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvernig á þessu hlutverki sjóðsins verður tekið og er það harðlega gagnrýnt að byggðahlutverk sjóðsins skuli skilið eftir í fullkomnu uppnámi ef þessi lög um að einkavæða og selja sjóðinn ná fram að ganga.

Lánasjóður landbúnaðarins, áður Stofnlánadeildin, hefur átt ríkan þátt í að byggja upp og þróa íslenskan landbúnað. Hann hefur aftur og aftur tekið þátt í aðgerðum til að verja einstakar búgreinar og bændur áföllum og hefur lagt drjúgt af mörkum í að tryggja dreifðan sjálfseignarbúskap vítt og breitt um landið. Lánareglur sjóðsins eru fullkomlega gagnsæjar og bændur hafa haft jafnan aðgang að sjóðnum óháð búsetu. Útlánatöp sjóðsins hafa verið nánast hverfandi. Í gegnum áratugina hefur byggst upp ákveðið munstur í fjármögnun búskapar bænda sem hafa verið grunnlán frá Lánasjóði landbúnaðarins, áður Stofnlánadeildinni, og viðbótarfjármögnun frá næsta héraðssparisjóði, bankaútibúi og afurðastöð.

Þótt einstaka bóndi velji nú að segja upp viðskiptum við sjóðinn vegna þess að hann metur aðra möguleika betri á það ekki við um meginþorra bænda. Og framtíð einstakra peningastofnana er mörgum duttlungum háð. Hafa verður þessa sérstöðu í huga við ákvörðun ríkisvaldsins um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Hér er um að ræða 1. veðrétt í nánast öllum jörðum á Íslandi. Í flestum tilvikum er íbúðarhúsið og allt land veðsett fyrir hverju einstöku láni, hvort sem það er vegna útihúsabygginga, dráttarvélakaupa eða annars. Í lagafrumvarpinu eru engar leiðbeiningar tilgreindar um hver skuli vera réttur skuldara, viðskiptavina sem í góðri trú hafa bundið áratuga viðskipti sín við sjóðinn. Það er átalið hér að ekki skuli vera nein leiðsögn eða fyrirmæli um hvernig fara skuli með þessa viðskiptasamninga. Verða þeir t.d., eins og áður hefur verið minnst á í umræðunni, bundnir átthagaböndum við væntanlegan kaupanda? Hvernig verður háttað yfirfærslugjaldi eða stimpilgjöldum hjá nýjum aðila ef hann kaupir upp? Hver verður staðan? Nú tíðkast það þegar viðskiptabankar gera viðskiptasamninga við einstaklinga eða fyrirtæki að þá vilja þeir fá öll viðskipti viðkomandi. Margir bændur úti um land eru líka stórviðskiptavinir sparisjóðanna sinna, sparisjóðanna á Norðausturlandi, Vestfjörðum og víðar. Þegar kaupandi hefur keypt lánasjóðinn er óvíst að bændur hafi sama frjálsræði og frelsi, án þess að ganga á viðskiptakjörin, til að deila viðskiptum sínum við aðila sem þeir hafa gert í áratugi.

Ég heyri að landbúnaðarráðherra gerir lítið úr þessu, frú forseti, og það er hans mál. Ég tel það mikilvægt mál, áratugaviðskiptasambönd við bændur, og ekki eigi að gera lítið úr þeim með einhverju fánýtu hjali og muldri ofan í bringuna, eins og hæstv. ráðherra gerði hér. (Gripið fram í.) Já, já, við eigum allir góða að, syni og feður, hæstv. ráðherra, og mæður og dætur og systur, ef út í það er farið. En ég skal segja ykkur, frú forseti, úr því að hæstv. ráðherra er kominn út í fjölskyldumál, hvernig þetta er í viðskiptasamböndum nú. Það hafði samband við mig maður sem var í sambandi við viðskiptabanka og sjáið nú hvernig hlutirnir gerast á eyrinni. Bankinn bauð honum viðskipti og þann „díl“ að ef hann kæmi með öll viðskipti sín í bankann fengi hann þessi tilteknu kjör. Síðan sagði hann líka og var þá með flettiskrá fyrir framan sig: Þú átt líka syni og bræður þarna. Geturðu kannski líka fengið þá til að koma í viðskipti við bankann? Þá skal ég gera þér enn þá betri díl.

Auðvitað er hægt að ganga langt í slíkum viðskiptamálum þó að mér finnist þetta nokkuð langt gengið, en fyrir stórar fjölskyldur, eins og við Guðni eigum, getur þetta svo sem verið mál. Ég nefni þetta til að sýna og undirstrika að það er allt annað umhverfi sem ræður á hinum almenna viðskiptabankamarkaði. Þar ríkja engar gegnsæjar viðskiptareglur heldur ráða einstaklingsbundnir samningar för og þá er ekki víst að allir sitji jafnir við borðið. En það hefur einmitt verið aðal Lánasjóðs landbúnaðarins að hann hefur verið með gagnsæjar reglur og þótt hann í sumum tilvikum hafi ekki getað sinnt ýtrustu fjármagnsþörfum einstakra búa hefur hann veitt almennan grunn sem hefur verið veittur jafnt fyrir alla.

Frú forseti. Að mínu mati er fullkomið ábyrgðarleysi að afgreiða svo opna heimild til sölu á Lánasjóði landbúnaðarins eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Einkakvæðingarspor ríkisstjórnarinnar hræða, ekki skapa þau traust. Hér er þetta bara afgreitt eins og frumvarpið kveður á um, frú forseti, og sagt: „Landbúnaðarráðherra er heimilt að selja allar eignir og semja um yfirtöku skulda Lánasjóðs landbúnaðarins.“ Það er í sjálfu sér engin leiðsögn um hvernig að skuli farið eða um réttarstöðu viðskiptavinanna.

Í skýrslu sem sérstök nefnd vann á vegum landbúnaðarráðherra, og hér hefur verið minnst á um stöðu lánasjóðsins, er rakinn vandi sjóðsins, m.a. vegna breytts fjármálaumhverfis og nokkuð erfiðrar rekstrarstöðu, minnst á að greidd hafi verið upp lán og einstaka bændur hafi fært sig úr lánasjóðnum og gert samning við aðrar bankastofnanir. Það upplýstist reyndar að verulega hefði hægt á þeim uppgreiðslum. Menn áttuðu sig á að ekki er allt gull sem glóir þó að viðskiptabankar bjóði kannski tímabundið einhver sérstök vildarkjör meðan þeir eru að ná viðskiptum til sín, meðan verið er að brjóta niður þrek lánasjóðsins, hliðstætt því sem við þekkjum núna með Íbúðalánasjóð. Það var gert áhlaup á Íbúðalánasjóð hvað þetta varðar. Sterkir viðskiptabankar geta lagt á sig einhvern ákveðinn fórnarkostnað meðan verið er að brjóta viðskiptin undir sig og þetta voru líka um tíma vandamál Lánasjóðs landbúnaðarins.

Meginþorri bænda er þar samt áfram og hefur ekki breytt til. Ef ekki hefði komið til þessi umræða nú í vetur um sölu sjóðsins tel ég að meiri líkur hefðu verið til að þessar uppgreiðslur hefðu getað staðnæmst og sjóðurinn reynt að ná stöðugleika á ný.

Hitt er alveg rétt sem kemur fram í skýrslunni og hér hefur verið drepið á um stöðu sjóðsins, að vandi hans er að vera fjármagnaður með lánum sem bera milli 5 og 6% vexti og síðan að viðbættu ríkisábyrgðargjaldi er fjármagn sjóðsins sjálfs sem menn eru að lána út með kannski rúmlega 6% vöxtum, og það er allt of hátt. Ég tel að það hefði átt m.a. að leita samninga við þá aðila sem ættu þessi skuldabréf, kanna hvort það væri hægt. Einnig er furðulegt að þetta ríkisábyrgðargjald skuli vera rukkað inn því að í umræðunni hefur komið fram að það hafi verið mjög góð skil. Eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist á og ég get alveg heils hugar tekið undir hafa bændur reynst einhverjir traustustu viðskiptavinir fjármálastofnana og staðið í flestum og meginþorra tilfella og nánast undantekningarlaust við skuldbindingar sínar. Það er fullkomlega athugunarvert að ríkið skuli vera að innheimta ríkisábyrgðargjald af útlánunum, ekki síst þegar það eru bændur sem hafa að stórum hluta fjármagnað þann mismun sem hefur verið í vaxtagreiðslum sjóðsins og gert honum kleift að lána fé á lægri vöxtum.

Mér finnst því að ýmislegt í umgjörð sjóðsins hefði átt að kanna áður en farið var út í svona dramatískar aðgerðir, að leggjast bara með lappirnar upp í loftið, gefast upp, selja sjóðinn og leggja hann niður, eins og landbúnaðarráðherra velur.

Í skýrslunni sem sérstök nefnd vann á vegum landbúnaðarráðherra um stöðu lánasjóðsins er rakinn vandi sjóðsins, eins og ég nefndi áðan. Ekki skal lítið gert úr þeim vanda. En verkefnisstjórn landbúnaðarráðherra leggur bara til þá einu leið að leggja niður sjóðinn og selja eignir hans og skuldbindingar, það er í rauninni eina leiðin sem hún leggur til. Að mínu mati hefði verkefnisstjórnin átt að leggja upp valkosti í framtíðarrekstri sjóðsins sem ríkisvaldið og samtök bænda hefðu getað kynnt sér og tekið afstöðu til. Að mati minni hlutans virðist sem tekin hafi verið ákvörðun um að leggja niður sjóðinn — a.m.k. fær maður sterklega þá tilfinningu — fyrir allnokkru síðan og settur sá ferill í gang sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Annars hefði verkefnisstjórnin lagt fleiri valkosti til, hversu góðir sem þeir annars hefðu verið. Þeir hefðu þurft að leggja mat á það því að sjóðurinn er á forsjá ríkisvaldsins.

Því miður, frú forseti, þarf þessi aðferðafræði ekki að koma mikið á óvart í þeirri einkavæðingarfíkn sem heltekur nú ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í mörgum þeim almannaþjónustumálum sem hafa verið einkavædd og stendur til að einkavæða og selja nú á þessum tímum. Nægir að nefna þar sölu Símans þar sem verið er að keyra fram sölu Símans, þess almannaþjónustufyrirtækis sem hefur skilað miklum arði til ríkissjóðs. Skoðanakannanir hafa sýnt að milli 70 og 80% landsmanna eru andvíg sölu Símans, en samt keyra framsóknarmenn og Sjálfstæðisflokkurinn söluna fram. Einkavæðingarfíknin á sér engin takmörk og núna lendir Lánasjóður landbúnaðarins undir þeim einkavæðingarhníf Framsóknarflokksins.

Það er vissulega ástæða til að endurmeta verkefni og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins og þar með einnig svokallað búnaðargjald sem bændur greiða til sjóðsins. En það framlag er bundið í lögum og mun því væntanlega gilda út þetta ár að óbreyttu því að ekki liggur fyrir frumvarp til laga um breytingar þar á.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að skoðaðar yrðu ýmsar leiðir í rekstri sjóðsins, svo sem að afmarka lánaflokka hans og skera niður stjórnunarkostnað eða að sjóðurinn verði rekinn sem deild í öðrum fjármálastofnunum, t.d. með eða í samstarfi við Lífeyrissjóð bænda, við höfum nefnt það. En vegna hins mikla hraða og þjösnaskapar meiri hlutans í afgreiðslu þessa máls hefur nefndinni ekki gefist tóm til að kanna neinar þessara leiða í rekstri sjóðsins.

Það má og benda á að nú standa yfir alþjóðasamningar um skipan á opinberum stuðningi við landbúnað og verslun með landbúnaðarafurðir. Niðurstaða þeirra viðræðna getur haft víðtæk áhrif á búsetumunstur til sveita, rekstrargrundvöll hinna ýmsu greina landbúnaðarins og jafnframt líka fjárhagslega aðkomu hins opinbera að þróun landbúnaðarins og viðgang hans á næstunni. Þar einmitt gæti lánasjóðurinn í endurskoðaðri mynd, eftir því sem menn þar yrðu ásáttir um, komið til að vera þáttur í.

Þess vegna tel ég það vera mjög óvarlegt og óviturlegt að hlaupa nú til og leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins í þeirri viðkvæmu stöðu sem nú er á innlendum peningamarkaði og einnig í alþjóðasamningum um stöðu landbúnaðarins.

Skemmst er að minnast, frú forseti, umræðna á þingi í fyrra og hittiðfyrra um hvernig viðskiptabankar hafa í auknum mæli komið inn í atvinnurekstur og landbúnað. Hver var það sem keyrði fram kjötstríðið fyrir tveimur, þremur árum? Voru það ekki viðskiptabankarnir sem keyrðu það fram? Þeir voru stærstu aðilarnir í eigendum og rekstri á kjúklingabúum, svínabúum, og enn þá hygg ég að það sé viðskiptabanki sem sé stærsti svínakjötsframleiðandinn í landinu. Hvaða rekstrarform og samkeppnisstaða er það þegar viðskiptabankar eru samtímis að veita lán, veita fjármálafyrirgreiðslu til almenns landbúnaðar og standa einnig sjálfir í rekstri á fyrirtækjum eða búum sem eru þar að hluta til í heildarmyndinni og í samkeppni á markaði? Þeir hafa alla stöðu til þess að keyra niður framleiðslukostnaðinn og keyra niður verð, eins og við upplifðum fyrir nokkru síðan að bankarnir væru að gera. Þetta er því ekki svo einfalt með þeim hætti sem við nú búum við að hleypa svona sjóði, svona verkefnum inn á hinn almenna bankamarkað.

Ég var síðast að hlusta á útvarp í dag á viðtal við mann þar sem einmitt var verið að rekja hvað þetta traust til bankanna væri takmarkað. Menn þyrðu ekki með góðar viðskiptaáætlanir eða -hugmyndir inn í bankann af ótta við að hann mundi komast yfir þær, ná þeim af þeim og geta selt svo öðrum. Slíkt samband að viðskiptabankar geti staðið í samkeppnisatvinnurekstri er ólíðandi, frú forseti.

Við þekkjum þetta úr sjávarútveginum þar sem viðskiptabankarnir deila og drottna. Þeir hafa innleyst, keypt til sín sjávarútvegsfyrirtæki, ákveðið kaupendurna, ákveðið lánskjörin á fjármagninu hjá kaupendunum og þannig stýrt, deilt og drottnað. Hliðstæð mynd gæti blasað við okkur einmitt í landbúnaðinum líka, að sami banki væri með bændurna í viðskiptunum, kannski með rekstur á eigin búum eins og við þekkjum í dag. Hann væri líka einn af aðalfjármögnunaraðilum afurðastöðvanna og þá færi hann að beita sömu aðferð við landbúnaðinn eins og hann gerir nú í sjávarútvegi, að deila og drottna, ákveða hvaða bú, hvaða bændur fái eðlilega fjármagnsfyrirgreiðslu til að kaupa framleiðslurétt, til að byggja ný hús, útihús, vegna þess að hann væri að meta það út frá hagsmunum sínum hvernig því væri best fyrir komið, bæði hvað varðar búreksturinn, vinnsluna og dreifingu varanna eins og nú er beitt í sjávarútvegi. Þetta er ekkert grín, þetta er saga sem við þekkjum vítt og breitt um landið.

Hvernig hefði þetta t.d. orðið á Vestfjörðum, þar sem stóru viðskiptabankarnir áttu hlutdeild í að fiskveiðiheimildirnar voru fluttar í stórum stíl frá Vestfjörðum og annað, ef ekki hefðu þar komið til sparisjóðirnir til að standa á bak við einstaklingana í nýrri atvinnusköpun? Þá hefðu þessi byggðarlög staðið frammi fyrir stórkostlegum vanda.

Samþjöppun á peningamarkaðnum, eins og við höfum horft á undanfarið, er því veruleg ógnun við frjálst atvinnulíf í landinu. Það að ætla að fara að setja svona mikilvægan sjóð, þó að hann sé ekki stór, eins og Lánasjóð landbúnaðarins á þetta markaðstorg með 1. veðrétti í öllum jörðum á Íslandi, þar sem hinn nýi aðili getur deilt og drottnað yfir uppbyggingu íslensks landbúnaðar, hvar framleiðsluheimildirnar eru, hver fær lán, hver fær ekki lán, hver fær lán á viðeigandi kjörum og hver ekki, finnst mér ógnvænlegt

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram á þinginu tillögu um að starfsemi viðskiptabanka verði einskorðuð við fjármálastarfsemi, að þeir hafi ekki heimild til að stunda atvinnurekstur eða reka atvinnufyrirtæki í samkeppnisrekstri um lengri tíma. Þetta hefur ekki fengist rætt.

Skemmst er að minnast orða hæstv. forsætisráðherra, sem hefur ekki hingað til kallað allt ömmu sína í einkavæðingarferlinu. En hann fjallaði, í ræðu á þingi Samtaka atvinnulífsins að mig minnir, um græðgina í þjóðfélaginu, peningagræðgina í þjóðfélaginu. Bragð er að þá barnið finnur, eins og sagt er. Hann vandaði um við banka og fjármálastofnanir sem stæðu allt í kringum borðið og sömdu við sjálfar sig um kjör og kaup og sölu á atvinnufyrirtækjum landsmanna. Hann var að vara við þessu. Honum leist ekki vel á og þó er hann einn af höfundum þeirrar vegferðar, græðgisvæðingar samfélagsins, sem hann nefndi í ræðu sinni. Sá kafli var ágætur en nokkuð seint í rassinn gripið, eins og sagt er.

Skyldu þetta ekki vera varnaðarorð gegn því að fara hægar í að einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins? Sjóðurinn á að starfa a.m.k. út þetta ár, (Gripið fram í.) til næstu áramóta. Hefði ekki verið nær að gefa sér meiri tíma til fara yfir þetta mál í heild sinni? (KÓ: Á að setja sjóðinn í sóttkví?) Sjóðurinn er ekki að fara í þrot. Það er rangt. Ef hann væri að fara í þrot þá væri söluvirði hans ekki mikið, áttið ykkur á því. (Gripið fram í.) Það er ekki samtímis hægt að að tala um gjaldþrota sjóð en hins vegar sé hægt að fá fyrir hann stórfé. Það er fullkomin þversögn í svoleiðis málflutningi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu á þinginu um að skipuð verði þverpólitísk nefnd til að taka á málefnum landbúnaðarins og tryggja og kanna þróunarmöguleika og áframhaldandi sátt. Sú tillaga liggur einmitt í landbúnaðarnefnd og hefði í sjálfu sér líka verið vel þess virði og nær að við hefðum afgreitt hana áfram inn til þingsins. Tillagan hljóðar svo, frú forseti, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.“

Mitt ráð væri að samþykkja þessa tillögu og setja þá vinnu í gang og taka fyrir í nefndinni m.a. hlutverk og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins. Það væru hin einu og réttu vinnubrögð, fremur en að gera þetta með þeim hætti sem hér er gert. Þessi tillaga okkar liggur fyrir landbúnaðarnefnd og ég bara ítreka að nær væri að Alþingi afgreiddi hana í stað þess að höggva niður félagslega grunnstoðir landbúnaðarins, eins og gert er með því að einkavæða og selja Lánasjóð landbúnaðarins fyrirhyggjulaust og nánast skilyrðalaust. Mikilvægt er að skoða málefni landbúnaðarins heildstætt og þar með líka framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins.

Ég mundi leggja til að þessu frumvarpi, um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins, verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Eitt af verkefnum nefndarinnar yrði að gera tillögur um framtíðarhlutverk og stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins.

Frú forseti. Þetta tel ég að væru hin skynsamlegu vinnubrögð í stað þeirra flausturslegu vinnubragða sem hér eru viðhöfð af meiri hlutanum, þ.e. að taka bara ákvörðun um að selja sjóðinn, einkavæða hann og selja hann án þess að taka nokkuð á því hlutverki sem hann hefur gegnt til þessa, byggðahlutverki, jöfnunarhlutverki. Ekki er heldur hugað að stöðu viðskiptamannanna, skuldara sjóðsins. Menn skilja þá bara eftir. Þessi vinnubrögð eru bæði óábyrg og óskynsamleg og því legg ég til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu og við reynum að taka heildstætt á málinu, með heill bænda og landbúnaðarins í fyrirrúmi.



[16:21]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er varla að maður nenni að í andsvar við hv. þingmann en ég verð samt að verja landbúnaðarnefnd. Málið var ekki afgreitt af neinni léttúð eða þjösnahætti, heldur fékk málið mjög góða yfirferð. Eins og fram hefur komið kom fjöldi gesta til nefndarinnar. Við fengum mjög góða yfirferð yfir málið 22. mars, sem hv. þingmaður að sjálfsögðu gat ekki um í sínu máli. Það er mjög mikilvægt að þessu máli ljúki núna í vor.

Staðan var orðin þannig að sjóðnum var að blæða út. Uppkaup hafa verið gríðarlega mikil og þau eru ekki nýtilkomin. Þau hafa líklegast staðið yfir í um tvö ár og með allra mesta móti nú á haustmánuðum. Rökin eru þau að sjóðnum er bara að blæða. Með frumvarpinu er brugðist við ákveðinni staðreynd og við fylgjum því eftir.



[16:22]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki annað en að hin hefðbundnu vinnubrögð við mál sem vísað er til nefndar séu að leitað sé skriflegra umsagna um þau. Það eru hin hefðbundnu vinnubrögð og undirstaða vandaðra vinnubragða. Það er mjög óvenjulegt ef því er hafnað, frú forseti, án nokkurs rökstuðnings. Kannski hefur hv. formaður landbúnaðarnefndar og meiri hluti nefndarinnar ekki þorað það, kannski, en slík vinnubrögð eru undantekning. Ég minnist þess varla að því hafi verið hafnað að senda mál til skriflegrar umsagnar. Eins kom málið seint fram og þurfti að leita sérstakra afbrigða vegna þess að það kom fram á síðasta degi, upp á það að skila því inn til nefndar áður nefndarstörf hófust og er gert var hlé á formlegum fundum þingsins. Þannig er öll aðkoma þessa máls. (Forseti hringir.) Hvernig það er boðið fram ber vott um virðingarleysi og (Forseti hringir.) lítinn áhuga á að það að fái vandaða meðferð.

(Forseti (JBjart): Forseti bendir hv. þingmanni á að hann á annan kost á að halda áfram máli sínu.)



[16:23]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málum er æðioft þannig fram komið í þinginu að þau séu ekki send til skriflegra umsagna. Allir þeir sem komu til nefndarinnar hefðu getað skilað skriflegu áliti hefðu þeir kært sig um. Allir sem beðið var um að kæmu til nefndarinnar voru kallaðir til.

En ég mismælti mig áðan og talaði um uppkaup en þá átti ég að sjálfsögðu við uppgreiðslu. Bændur hafa getað greitt upp lán sín hjá sjóðnum hvenær sem er, án þess að fyrir það hafi verið tekið gjald. Það hafa þeir því miður gert í stórum stíl. Það er ekki nein óskastaða okkar að þannig skuli komið. Bændur kjósa bara að færa viðskipti sín yfir til viðskiptabankanna og við því er nú brugðist.

Einnig er ljóst að bændur vilja ekki lengur greiða búnaðargjald til Lánasjóðs landbúnaðarins. Það er staðreynd. Þeir eru frjálsir að því hvað þeir gera og þeir hafa hafnað því að greiða þetta gjald en þegar lánasjóðurinn verður af (Forseti hringir.) gjaldinu þá eru það hátt á þriðja hundrað milljóna á ári sem sjóðurinn verður án.



[16:25]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það voru engin rök færð fyrir því hvers vegna ekki mátti senda málið til skriflegra umsagna, því var bara einfaldlega hafnað.

Það má vel vera að sjóðurinn hafi brugðist seint við breyttum aðstæðum. Það má vel vera. En í landbúnaðarnefnd voru engir aðrir möguleikar formlega ræddir um hvernig mætti taka á rekstri sjóðsins eða (Gripið fram í.) einstökum verkefnum hans, nema þá að minnst var á að einhver verkefni gætu farið frá honum til Byggðastofnunar, (Gripið fram í.) það er alveg rétt.



[16:25]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gaman að hlusta á hv. þm. Jón Bjarnason. Já, hv. þingmaður hefur þann eiginleika að reyna að hræða fólk, segja að allt sé að farast og komið á heimsenda. Hann brást harkalega við frammíkalli hjá mér er ég benti honum á að skoða það í fjölskyldu sinni og ræða við hinn snjalla hagfræðing, son sinn Ásgeir Jónsson, og fara yfir peninga- og bankamálin.

Hv. þingmaður talar hér um fyrsta veðrétt og hina ógnvænlegu stöðu. (JBjarn: Seldur fyrsti veðréttur.) Það er ekki verið að selja einn einasta veðrétt. Bændur eiga jarðir sínar og skuldir. Allir peningamenn segja: Styrkur bændanna liggur í fyrsta veðréttinum, til að semja um sín mál. Þeir eiga skuldir sínar og jarðir og margir þeirra skulda lítið. Þeir eiga alla möguleika í málinu og fyrsti veðrétturinn er styrkur þeirra.

Síðan liggur fyrir að það er ekki friður um búnaðargjaldið. Fátækir sauðfjárbændur, sem oft eru nefndir hér, sem ekkert eru að framkvæma, vilja ekki borga gjald til að byggja upp stóru fjós o.s.frv. Þannig eru 140 millj. kr. af tekjum sjóðsins farnar og að fara og sjóðurinn mundi bíða verulegt afhroð við þær aðstæður.



[16:27]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra getur talað svona sjóð dauðan og það hefur hæstv. ráðherra gert síðustu vikurnar, sem er mjög alvarlegt mál. Ef hæstv. ráðherra, af sínum sannfæringarkrafti, hefði fylgt málinu eftir á hinn veginn, staðið með sjóðnum og hagsmunum hans, þá væri staðan kannski önnur. Hæstv. ráðherra hefur býsna mikið vald með því í hvaða veruna hann talar.

Ég hef gagnrýnt það að það væri nánast algjörlega talað þannig að sjóðurinn, hlutverk hans og verkefni, ættu sér ekki framtíð. Ég mótmæli því og tel að það hafi ekki verið kannað. Ég átel þann málflutning að engar aðrar leiðir séu til, fyrir utan það að skilja sjóðinn, verkefni hans og viðskiptavini eftir, án leiðsagnar um hvernig með verði farið í lagafrumvarpinu, sem ég tel (Forseti hringir.) mikið kæruleysi.



[16:28]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem betur fer eru bændur skilvísir menn og eiga sér góðar bankastofnanir jafnframt lánasjóðnum. Ég fór yfir allar leiðir í málinu því að mér þykir vænt um sjóðinn og vil landbúnaðinum allt hið besta. Það var farið yfir allar leiðir.

Það þýðir ekkert að standa með sjóðnum, maður verður að standa með atvinnuveginum. Sjóðurinn skiptir ekki öllu máli í því. Það þarf að finna bestu stöðuna fyrir bændurna til að ná nýrri stöðu í fjármálum sínum og sá tími taki við í landbúnaðinum, eins og gert var í iðnaðinum og sjávarútveginum.

Við þessar aðstæður er ég fyrst og fremst að hugsa um þessa peninga bændanna. Það er vilji ríkisstjórnarflokkanna að leggja andvirði þessa sjóðs inn í veikasta lífeyrissjóðinn, Lífeyrissjóð bænda, og styrkja hann. Það er líka mikilvægt í leiðinni, um leið og bændur ná vonandi sem bestri fjármögnun á lán sín og veð verður Lífeyrissjóður bænda styrktur. Þetta eru mikilvæg verkefni sem hér er unnið að. Mér þykir vænt um þennan sjóð og mun sakna hans á margan hátt. (Forseti hringir.) En tíminn er svona. Sagan er svona.



[16:29]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu viti er sjóðurinn enn á lífi og ráðherrann á ekki að skrifa um hann minningargreinar strax. Ég vil líka minna á að því miður slapp hæstv. ráðherra við að vera nemandi minn. En ég kenndi tveimur bræðrum hans á Hvanneyri á sínum tíma og ég held að þeir hafi haft gott af. Ég hefði helst þurft að geta fengið hæstv. ráðherra sem nemanda. Þá hefði hann (Gripið fram í.) kannski verið enn betri.

Málefni Lífeyrissjóðs bænda eru allt annað mál. Það liggur heldur ekkert fyrir hvaða fjármagn kemur fyrir þennan sjóð þegar búið verður að selja hann. Verðmæti hans felast í hlutverki hans, í viðskiptum hans við bændur. Ég er ekkert viss um að söluverð hans verði svo mikið ef búið er að brjóta hann upp. (Landbrh.: Talaðu það ekki niður.) Ég er bara raunsær. Alla vega er það skrýtið hjá ráðherra, annars vegar að tala um að sjóðnum sé að blæða út og hins vegar ætli hann að fá fyrir hann stórfé (Forseti hringir.) til að setja í Lífeyrissjóð bænda. Lífeyrissjóður bænda er allt annað mál.



[16:31]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason flutti hávísindalega ræðu með sínum hætti og niðurstaðan varð náttúrlega eins og alltaf: Það á ekki að gera hlutina svona heldur einhvern veginn öðruvísi.

Það kom mjög skýrt fram í landbúnaðarnefnd hver staða sjóðsins er og menn töldu að það væri mikilvægt að bregðast við. Ég heyri að hv. þingmaður slær á öll þau rök sem þar komu fram. Hins vegar er óvefengjanlegt hver staða sjóðsins er.

Hv. þingmaður talaði fram og til baka um eitt og annað, en ég spyr, og væri mjög gott að fá beint svar við því: Hvað vill hv. þingmaður nákvæmlega gera í málinu annað en bara skoða málið, skipa nefnd og horfa eitthvað fram í tímann án þess að vita hvert hann ætlar? Hvað vilja Vinstri grænir gera varðandi sjóðinn í þeirri stöðu sem hann er?



[16:31]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað vel á ræðu mína. Ég tel að það hefði átt að kanna aðra möguleika, hvort hægt hefði verið að finna afmörkuð hlutverk fyrir sjóðinn, sem er hluti af verkum hans nú, og finna leið til að reka hann með öðrum sjóðum.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni það sem fulltrúar Byggðastofnunar sögðu á nefndarfundi, þar sem voru reyndar líka fulltrúar bænda, að það væri alveg klárt að ákveðinn hluti bænda mundi ekki eiga viðunandi aðgang að fjármagni í gegnum viðskiptabankana og þá var lagt til að stofnuð yrði landbúnaðardeild við Byggðastofnun. Þá segi ég: Það er greinilegt að málin eru bara ekki könnuð ef það á að selja sjóðinn án þess að kanna hvað gæti tekið við hvað varðar einmitt afmörkuð mikilvæg verkefni sjóðsins. Ég vildi að það yrði kannað áður en farið væri að selja sjóðinn.



[16:33]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og venjan er í málflutningi hv. þingmanns kom ekkert svar fram.

Ég vil líka gera athugasemd við annað sem fram kom hjá hv. þingmanni, að það hefði verið tekin ákvörðun um hvaða leið ætti að fara og síðan hafi menn leitað röksemda fyrir henni. Þetta er rangt. Á fundi landbúnaðarnefndar var yfirferð um þetta og skýring á störfum þeirrar nefndar sem vitnað er í og ég bið hv. þingmann að tala ekki með þessum hætti.

Hann talar um einkavæðingarfíkn, eins og hann orðar það. Það er fyrst og fremst verið að reyna að bjarga hagsmunum landbúnaðarins og hagsmunum bænda með því að fara í aðgerðirnar. Það er það sem skiptir máli og ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála þeim sjónarmiðum. Ég sakna þess mjög að hann skuli ekki tala meira út frá þeim þætti málsins.



[16:34]
Frsm. minni hluta landbn. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef tekið undir að skoða þurfi stöðu sjóðsins og kanna framtíð hans og rekstrarmöguleika. Ég hef einmitt bent á að það hafi ekki verið gert til hlítar.

Ég held, alveg sama hvernig hv. þm. Magnús Stefánsson vill snúa sér út úr málinu, að þetta snúist fyrst og síðast um einkavæðingarfíkn Framsóknarflokksins, því miður, (Gripið fram í: Það er rangt.) og að selja þessar eignir. Annars hefði m.a. verið farið rækilegar í að kanna hver framtíðarstaða og framtíðarréttur viðskiptavina sjóðsins yrði. (Gripið fram í: Þetta er óábyrgur málflutningur.)

Ég held því miður, frú forseti, að þetta sé það sem fólkið upplifi í landinu, þessa einkavæðingarfíkn. Sala Símans er á næsta leiti þó að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé afar andvígur sölu Símans, sem skilar miklu fjármagni í ríkissjóð. Það er varla til það sem ekki á að einkavæða og selja, því miður.



[16:35]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrr í vetur, líklega um mánaðamótin febrúar/mars, gerði ég það að umtalsefni úr þessum ræðustóli undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins hversu seint mál frá landbúnaðarráðuneytinu kæmu til þings og taldi upp mál sem kynnt hefðu verið í upphafi vetrar, sérstaklega okkur fulltrúum í landbúnaðarnefnd, og jafnframt að margir fundir hefðu verið felldir niður vegna þess að ekki væru nein mál til að fjalla um og að margir þeir fundir sem haldnir hefðu verið hefðu verið til að fara í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir úti í bæ en ekki til að fjalla um lagafrumvörp frá ráðuneytinu.

Ég rifjaði líka upp vinnubrögðin síðasta vor þegar við fengum stór mál til þings talsvert löngu eftir að frestur til að skila málum var útrunninn, sem er 1. apríl. Ég get nefnt samninga við mjólkurframleiðendur, sem er samningur til sjö ára upp á 4 milljarða í útgjöld á ári. Ég varaði við því að það sama yrði hugsanlega uppi á teningnum í vor. Það reyndist nákvæmlega rétt niðurstaða sem ég hafði komist þar að, því að við fengum inn stór mál löngu eftir að frestur var útrunninn og meðal þeirra er nákvæmlega það mál sem við fjöllum um í dag, þ.e. um Lánasjóð landbúnaðarins.

Það þurfti að taka málið inn með afbrigðum og Samfylkingin samþykkti að hleypa því áfram í þeirri trú að það yrði til þess að málið fengi vandaða umfjöllun og umsagnir héðan og þaðan úr landbúnaðarkerfinu, frá hagsmunaaðilum. En reyndin hefur orðið sú að málið hefur verið keyrt í gegn og nú liggur fyrir nefndarálit, sem ég skrifa að vísu undir, þar sem ég sá að keyra átti málið í gegn hvað sem tautaði og raulaði og ég taldi rétt að reyna að fá fram þær breytingar sem mér sýndust brýnastar og skrifa undir.

Fram hefur komið í umræðunni að hæstv. ráðherra skipaði nefnd til að fara yfir málefni Lánasjóðs landbúnaðarins þann 10. janúar sl. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær sú nefnd skilaði af sér en það kom m.a. fram í máli gesta sem landbúnaðarnefnd fékk til sín að þeir voru orðnir órólegir yfir því hversu seint málið kom til þings því að þeir gerðu sér auðvitað grein fyrir því eins og aðrir að málið þarf að fá vandaða umfjöllun. Tími hefur hins vegar ekki gefist til að senda málið út til umsagnar, heldur komu gestir á fund nefndarinnar og tjáðu sig um málefni sjóðsins auk þess sem við fulltrúar í landbúnaðarnefnd höfum fengið skýrslu í okkar hendur um stöðu sjóðsins.

Það er auðvitað alveg ljóst, frú forseti, að sjóðurinn býr ekki í neinu við aðrar aðstæður en aðrar lánastofnanir hér á landi, eins og t.d. Íbúðalánasjóður, sem hafa þurft að taka lán til lengri tíma og ekki gert sér grein fyrir þeirri þróun sem orðið hefur á lánamarkaði, þ.e. að útlánsvextir mundu lækka jafnmikið og raun ber vitni. Því háttar þannig til að Lánasjóður landbúnaðarins er m.a. með lán til ársins 2024 á miklu hærri vöxtum en gerast á lánamarkaði í dag, þ.e. útlánsvöxtum, en að sjálfsögðu þarf sjóðurinn að lána út með einhverjum lánamun til að hann geti staðið einn og sér, en sú er ekki raunin í dag.

Staðreyndir málsins eru líka þannig að lántakendur hjá sjóðnum geta borgað upp lán sín hvenær sem þeim sýnist án uppgreiðslugjalds, en lán sjóðsins eru öll bundin til lengri tíma og ýmist ekki hægt að greiða þau upp eða það er aðeins hægt með mjög óhagstæðum hætti, þ.e. uppgreiðslugjöldum.

Enn einn þátturinn sem kemur til er samþykkt búnaðarþings í þá veru að bændur vilji ekki lengur greiða búnaðargjald til sjóðsins. Það gjald hefur einmitt byggt upp sjóðinn og verið notað til að greiða niður lán til bænda. Þegar svo er komið er auðvitað ekki margt til ráða. Hitt er svo annað mál að þegar maður stendur í þeim sporum sem við stöndum í núna, þ.e. lánasjóðurinn og við sem höfum með málefni hans að gera og málefni bænda þarf auðvitað að hafa ráðrúm til að skoða hlutina vandlega til að tryggja að þeir sem hafa átt hagsmuna að gæta hjá sjóðnum fari ekki illa út úr breytingunni. Við vitum alveg að svo kann að fara. Það eru mismunandi hagsmunir lántakenda sem þarf að hafa í huga.

Ég ætla að nefna sem dæmi að þegar menn eru að flytja lán úr sjóðnum, þó að þeir þurfi ekki að greiða sjóðnum uppgreiðslugjald, þurfa þeir að borga stimpilgjald af nýjum lánum, hjá nýjum lántakanda. Jafnvel þó að þeir séu að færa af hærri vöxtum yfir á lægri vexti felst umtalsverður kostnaður í að flytja lánin. Sem dæmi get ég nefnt að stimpilgjald af 10 millj. kr. láni nemur 150 þús. kr. í dag. Þetta er þó nokkur biti að kyngja, frú forseti, og nokkuð sem þarf að staðgreiða eftir því sem ég best veit og þá þurfa bændur jafnvel að hækka lán sitt sem þessu nemur.

Þarna hefðum við þurft að hafa ráðrúm til að taka á málum þannig að bændur verði ekki fyrir útgjöldum af þessum sökum.

Ég þekki dæmi um bónda sem var að leita sér að fyrirgreiðslu hjá lánastofnun sinni, banka, og það sem honum stóð til boða hjá viðskiptabanka sínum var lán á 9% vöxtum, verðtryggt. Þetta er dæmi um bónda sem er ekki sérstaklega vel í sveit settur, hann er heldur ekki í neinum afdal en hann býr ekki á svæði sem er í tísku að kaupa jörð á til að leika sér á eða hvað það er sem fólk hefur í huga þegar það er að kaupa jarðir á háu verði og bankarnir meta þannig að hægt sé að lána á lægri vöxtum og betri kjörum en í þessu dæmi.

Við þekkjum líka dæmi um búgreinar sem í gegnum tíðina hafa lent í tímabundnum erfiðleikum. Get ég þar nefnt loðdýrabændur. En þar hefur m.a. Lánasjóður landbúnaðarins komið til og veitt þessum bændum ómetanlega fyrirgreiðslu. Loðdýrabændum búnast vel þessa stundina. En það er margt hverfult í henni veröld og ég tel að það þurfi að tryggja að búgreinar sem slíkar, hvort heldur þessi búgrein eða aðrar sem verða fyrir tímabundnum áföllum — ég get líka nefnt að sauðfjárbændur áttu í miklum erfiðleikum fyrir nokkrum árum og þá kom líka Lánasjóður landbúnaðarins til skjalanna og aðstoðaði þá — bæði búgreinar og bændur sem eru verr í sveit settir en þeir sem fá bestu fyrirgreiðsluna hjá bönkunum þurfa að eiga fyrirgreiðslu vísa á svipuðum kjörum og þeir sem fá góð kjör á hinum almenna lánamarkaði.

Mér fannst ásættanleg niðurstaða og ég skrifaði undir nefndarálitið og er aðili að því í trausti þess að gengið verði til þess verks að Byggðastofnun taki að sér það hlutverk að veita þessum aðilum fyrirgreiðslu þegar eða ef á þarf að halda. Nú vitum við að Byggðastofnun á sjálf í vissum erfiðleikum þannig að það kemur til kasta ríkisvaldsins að sjá til þess að henni sé kleift að sinna þessu hlutverki sínu. Forstjóri Byggðastofnunar og stjórnarformaður komu á fund nefndarinnar og þessir tveir aðilar sáu ekkert því til fyrirstöðu að stofnunin tæki þetta hlutverk að sér. Ég treysti því þá að það verði gengið þannig frá málum að stofnunin geti tekið við.

Frú forseti. Þetta finnst mér höfuðatriði í þessu máli, þ.e. að allir bændur eigi kost á viðunandi fyrirgreiðslu, ekki bara þeir sem búa næst þéttbýli eða á svæðum þar sem jarðir eru í háu verði og bankarnir jafnvel ágirnast jarðirnar.

Það er svo aftur á móti annað mál, frú forseti, að ég er svo sem ekki búin að sjá að það fáist endilega hátt verð fyrir sjóðinn. Það var talað um það hér áðan að hæstv. landbúnaðarráðherra væri að tala sjóðinn dauðan og maður á kannski ekkert að tala í þá veruna. Engu að síður verð ég að segja, frú forseti, að sérhver sem er með lán hjá sjóðnum getur farið til annars lánveitanda þannig að sjóðurinn verður ekki seldur með viðskiptavinum sínum. Það eina sem er tryggt að verður selt eru því skuldirnar því að viðskiptavildin, eða hverju nafni sem við viljum kalla það, er auðvitað bara fyrir hendi svo lengi sem sjóðurinn eða stofnunin býður betur en einhver annar. Þannig er það bara í dag. Fólk leitar þangað sem fyrirgreiðslan er best.

Ég óska þess að gott verð fengist fyrir þessi ímynduðu verðmæti eða kannski raunverulegu þannig að hægt væri að styrkja Lífeyrissjóð bænda vel og dyggilega, en hann mun vera rekinn með miklum halla þessa dagana.

Forsendan fyrir stuðningi mínum við þetta mál eins og það er núna er sem sagt sú að öllum bændum verði tryggð viðunandi fyrirgreiðsla og það er á færi ríkisins að gera það með því að gera t.d. Byggðastofnun það kleift með fjármunum. Byggðastofnun treystir sér til þess og ég held að það væri líka ágætt til þess að styrkja starfsemi þeirrar stofnunar.



[16:50]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara halda því til haga að loðdýrabændur hafa ekki aðeins fengið fyrirgreiðslu í gegnum Lánasjóð landbúnaðarins heldur hefur það líka verið gert beint úr ríkissjóði á fjárlögum og mjög oft og mikið og myndarlega. Sem betur fer er staða þeirra miklu betri einmitt vegna þess að ríkissjóður hefur komið að því að hjálpa þeim oft í erfiðri stöðu. Ég vildi bara halda því til haga að það er ekki aðeins í gegnum Lánasjóð landbúnaðarins.



[16:50]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er alveg fullkunnugt um að ríkið hefur komið að málefnum loðdýrabænda, m.a. þau ár sem ég hef setið á þingi. En mér er líka kunnugt um að bankastofnanir hafa boðið loðdýrabændum betur en lánasjóðurinn í vissum tilvikum. En svo aftur á móti þegar til átti að taka ákvað Lánasjóður landbúnaðarins að gera enn þá betur en viðkomandi banki sem varð til þess að einstaklingarnir sem ráku viðkomandi bú sátu uppi með mjög óhagstætt lán í bankakerfinu og enduðu með því að þurfa að selja frá sér allt sem hægt var til þess að verða ekki gjaldþrota og hætta búskap.

Þetta dæmi sýnir bara hversu fallvölt tilveran er í hinu almenna bankakerfi. Ekki er nú samúðinni fyrir að fara til þeirra sem þar eru að versla ef svo viðrar, sem aftur á móti hefur tíðkast hjá opinberum stofnunum eins og Lánasjóði landbúnaðarins því að þar eru málin skoðuð með viðskiptavinunum til enda og þróunin tekin inn í dæmið.

Það er alkunna, held ég, að loðdýrabændur hafa átt við mjög langvarandi erfiðleika að etja frá upphafi þeirrar búgreinar á Íslandi en ég vona nú að það sjái fyrir endann á þeim erfiðleikum. Lánasjóður landbúnaðarins skipaði virkilega mikið hlutverk í því að endurreisa loðdýrarækt á Íslandi.



[16:52]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er tilveran fallvölt og það er eins í atvinnurekstri bænda og öðrum rekstri að ekki er alltaf góðæri. Saga loðdýraræktarinnar hér á landi er sorgarsaga. Reyndar eru ekki mörg loðdýrabú rekin í landinu í dag en þau eru held ég flestöll sem eru rekin í dag sem betur fer rekin af miklum myndarskap og það var mjög gaman að koma einmitt í heimsókn, eins og við í hv. landbúnaðarnefnd gerðum, í Skagafjörðinn fyrir tveimur árum.

En bara til gamans því hér var verið að ræða um hross áðan og þá sagði hv. þingmaður að merarnar beri. En ég held að þær kasti. Þær gera það alla vega á Suðurlandi. Þær kasta á Suðurlandi.



[16:54]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það skiptir mjög miklu máli að koma því á hreint að hryssur kasti og hefur nú formaður landbúnaðarnefndar kveðið upp úr um það og ekki ætla ég að mótmæla því.

Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég sá afgreiðslu landbúnaðarnefndar á þessu máli. Mér finnst hún heldur fátækleg, rýr í roðinu, ef ég má nota þá samlíkingu, og málinu sem sagt svona kastað hér inn í þingið aftur með öllum endum óhnýttum. Það felst í nefndaráliti meiri hluta landbúnaðarnefndar — og er það þó ekki mikið að vöxtum — það felst þó augljóslega í því ákveðin viðurkenning á því að það séu ýmis vandamál sem ekki sé séð fyrir hvernig taka beri á. Þá grípa menn til gamalkunnugra aðferða því það er sagt að Byggðastofnun gæti kannski tekið þetta og hitt að sér og svo þyrfti svona að athuga þetta og hitt. Þannig ætla menn að láta sig hafa það að afgreiða málið. Svo koma þeir hér upp með stór orð um þá sem mæla fyrir því að þetta ætti nú kannski að athugast betur, eins og minni hluti landbúnaðarnefndar hefur lagt til í nefndaráliti sínu. Hv. þm. Magnús Stefánsson taldi það nú ekki merkilegan málflutning að menn skyldu vera með úrtölur og ekki vera þá bara með tillögurnar um það hvað ætti að gera í staðinn. En hann er væntanlega sáttur við og telur sóma að framgöngu hæstv. ráðherra og meiri hluta landbúnaðarnefndar sem játar þó upp á sig lausu endana og óvissuna sem því er samfara hvernig hluta bænda muni reiða af þegar þeir allt í einu bara sisvona missa sinn fjárfestingarlánasjóð sem hefur verið náttúrlega hornsteinn uppbyggingar og fjárfestinga í íslenskum landbúnaði um áratuga skeið.

Ég verð að segja alveg eins og er að það finnst mér þá málefnalegri og merkilegri málflutningur að velta steinunum við og spyrja sig hvað sé undir þeim og hvernig við ætlum að takast á við þessa hluti heldur en bara að láta vaða á súðum. Aðgerðir af því tagi að selja eða einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins verða ekki auðveldlega aftur teknar. Menn skulu átta sig á því að það er þá eitthvað sem menn gera bara í eitt skipti því að þeir endurheimta hann ekkert út úr einhverjum einkabanka þegar hann er þangað kominn. Því er eins gott að menn fari þá bara vel yfir það hvort þeir séu alveg vissir um að þetta sé rétt skref sem þeir eru hér að taka. Ég hef ekki góða sannfæringu fyrir því nema síður sé. Ég hef miklar áhyggjur af því hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir þróun þessarar greinar sem er náttúrlega í raun í algerri sérstöðu hvað varðar atvinnugreinar í landinu. Talandi um sjávarútveg eða iðnað hverra fárfestingarlánasjóðir voru einkavæddir á sínum tíma, sameinaðir inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðan einkavæddir alla leið þá er þó að mörgu leyti ólíku saman að jafna þar og því sem á við hér, þar sem er þessi atvinnurekstur og þessi uppbygging úti í strjálbýli landsins sem býr auðvitað við afar sérstakar aðstæður, að ætla sér bara að takast á við þann vanda sem menn telja að sé nú kominn upp í sambandi við rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins með þessari ákaflega einföldu leið eða lausn — ef menn vilja kalla það svo — að gefast upp með rekstur sjóðsins og selja hann. Það finnst mér satt best að segja ekki vera mjög vandaður málatilbúnaður fyrr en menn eru þá búnir að fara í gegnum það og tæma það að engir aðrir vænlegri kostir séu í stöðunni. Þetta er auðvitað voðalega einfalt, þægileg leið og það er komin hefð á hana, að bara selja, einkavæða bara. Framsóknarmönnum er orðið þetta ákaflega tamt enda kunnugt að þeir eru orðnir sennilega mesti markaðshyggjuflokkurinn hér í landi og ganga glaðbeittir til þeirra verka að einkavæða eða markaðsvæða hvert svið almannaþjónustunnar á fætur öðru, raforkumál, fjarskipti eða hvað það nú er. Það er auðvitað tímanna tákn og verður kannski ekki öllu lengra gengið að taka nú Lánasjóð landbúnaðarins og ætla að einkavæða hann fyrir árslok.

Ég hef í fyrsta lagi mjög miklar efasemdir um lausu endana, hvort þeim sé endilega vel komið hjá henni Byggðastofnun. Bíddu, þarf nú kannski ekki líka að líta á það hvernig staða mála er á þeim bæ? Það er eins og mig minni að hér hafi hoppað stjórnarformaður Byggðastofnunar inn á þing sem varaþingmaður og var ekki einhver tillaga þar á ferðinni um að setja stórfellda viðbótarfjármuni inn í Byggðastofnun til að halda henni á fótunum? Það er eins og mig rámi í það. Er hún þá í miklum færum til þess að taka á sig erfið verkefni? (Gripið fram í: Hún getur lánað.) Hún getur lánað, já. En á hvaða kjörum? Ætli það verði framför í því endilega fyrir bændur að fara úr Lánasjóði landbúnaðarins yfir í viðskipti hjá Byggðastofnun eins og kjörin hafa verið á þeim lánum sem ég hef séð boðið upp á þaðan? Það er ég nú ekki viss um. Það má velta því fyrir sér einmitt í því tilviki hvaða þörf sé fyrir rekstur á Byggðastofnun að svo miklu leyti sem hún er þá enn þá lánastofnun vegna þess að hún hefur alls ekki verið í færum undanfarin ár til þess að bjóða hagstæð lán. Það liggur nú bara fyrir. Kannski hefur hún tekið áhættu. Það hafa kannski verið helstu rökin fyrir því að það gæti verið gagn að því að hafa hana og að hún hefði einhverja lánsmöguleika, að hún hafi eðli málsins samkvæmt og verkefnis síns samkvæmt og skyldna sinna vegna stundum verið tilbúin til að lána í áhættusamari verkefni en aðrir. En það hefur svo sannarlega ekki verið ókeypis. Svo mikið er víst.

Það er vissulega svo að það er ákveðinn vandi innbyggður í stöðu Lánasjóðs landbúnaðarins eins og hann er í dag og það er augljóst mál að menn hefðu kannski betur þurft að sjá fyrir því á sínum tíma með sama hætti og menn hafa nú verið að reyna að tryggja stöðu Íbúðalánasjóðs, að það geti verið einhvers konar álag á lán, ef menn eiga rétt á að greiða þau upp, til að verja sjóðinn fyrir misgengi vaxta á fjármögnunarlánum og endurlánum. Það er augljós hætta fyrir starfsemi af þessu tagi ef þar getur skapast mikið misgengi og ég tala ekki um ef menn hafa gengið þannig frá málum, sem er þá auðvitað á ábyrgð stjórnenda sjóðsins að undanförnu, að taka lán sem ekki er mögulegt að greiða upp. Það er mjög alvarlegur hlutur ef menn hafa staðið þannig að málum, en þá er sá vandi þar, þá er hann þarna til staðar. Hugsunin að hann hverfi bara með því að selja sjóðinn, ég vil fá einhvern aðstandanda málsins til að útskýra það fyrir mér. Bíddu, eru einhverjir miskunnsamir samverjar úti á þessum markaði sem eru tilbúnir til að kaupa þennan sjóð algjörlega fullu verði með þessa misgengishættu innifalda? Vill hæstv. landbúnaðarráðherra, sem sjálfsagt er ágætlega að sér í hagfræði, útskýra þetta fyrir mér? Ætlar einhver góðgerðarstofnun bara að taka vandann af sjóðnum, af ríkinu, af eigandanum, af landbúnaðinum? Nei, ætli það hljóti þá ekki að koma fram í verðinu? Bíddu, er þetta þá ekki vandi sem er hvort eð er til staðar og þarf að takast á við? Spurningin er bara hvernig. Er endilega víst að forvöltun þessara fjármuna verði betri við að gera þetta svona en að horfast einfaldlega í augu við vandann og takast á við hann? Og hversu mikill er hann? Ja, það er alveg ósýnt, held ég, vegna þess að ég á eftir að sjá að bændur muni í framhaldinu greiða upp lán sín í eins stórum mæli og þróunin að undanförnu bendir kannski til.

Getur ekki einmitt verið að þar hafi farið þeir bændur sem voru í bestri aðstöðu til þess, þeir sem höfðu bestu veðin til að leggja á bak við viðskipti hjá nýjum aðila eða í banka og þeir sem bankarnir töldu æskilegustu og fýsilegustu viðskiptavinina? Gæti ekki verið að þær færu að þorna eitthvað upp þessar uppsprettur þegar frá líður? Gott og vel. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli. Það þarf ósköp einfaldlega að kortleggja þennan vanda og fara yfir hann. Ég sé það ekki í þessu ræfilslega frumvarpi. Það er bara sagt frá því að þessi vandi sé þarna og starf þessarar nefndar haft til marks um það. En ég sé ekki útreikningana á því og ég hef ekki undir höndum eitthvert reikningslegt mat á þessu máli.

Það er eitthvað í þessari hugsun sem ég fæ ekki alveg til að ganga upp, þ.e. að annars vegar sé hægt að nota sem röksemdir fyrir þessum breytingum og þessari aðgerð þennan vanda sem sé innbyggður í sjóðnum, en hins vegar að telja okkur trú um að það sé engu að síður hægt að selja hann á fullu verði og verja allt eigið fé hans eins og ekkert sé að. Það hlýtur að byggja á því að einhvers staðar úti í þjóðfélaginu séu miskunnsamir samverjar tilbúnir til að loka augunum fyrir þessum innbyggða vanda sem geti verið í sjóðnum og kaupa hann á fullu verði engu að síður. En væntanlega eru skuldbindingarnar eins, hver sem eigandinn er, og það verður að virða þau lán sem eru þarna án uppgreiðsluréttar og það verður hinn nýi eigandi að gera, ef hann yfirtekur allt heila klabbið, og hann mun ekki gera það ókeypis. Hann mun reikna það inn í dæmið, annars er hann óvenjulega rausnarlegur.

Það var aðeins nefnt áðan að loðdýraræktin hefði notið góðs af því að gegnum Lánasjóð landbúnaðarins, reyndar aðallega forvera hans Stofnlánadeildina, hefði verið hægt að koma henni til aðstoðar m.a. og beita þessum sameiginlega sjóði bænda í því skyni. Ætli hún sé nú ein um það, þó að það sé vissulega rétt að Stofnlánadeildin og Lánasjóður landbúnaðarins lögðu sitt af mörkum í því. Það skipti mjög miklu máli að lánin voru hjá aðila af því tagi sem laut félagslegu forsvari greinarinnar og hins opinbera og gat tekið þátt í og lagt sitt af mörkum með því að fresta afborgunum og fara í skuldbreytingar o.s.frv. En það er ekki bara loðdýraræktin sem hefur fengið þetta, það er allur landbúnaðurinn, aftur og aftur á umliðnum árum. Sauðfjárræktin og reyndar á köflum bara allir lántakendur í þessum sjóði, þegar erfiðleikaár hafa gengið yfir landbúnaðinn, hafa fengið þar fyrirgreiðslu af því tagi að menn hafa fengið skuldbreytingar og/eða verið heimilað að færa afborganir aftur fyrir og semja sérstaklega um slík kjör. Þetta þekkjum við sem höfum fylgst með þessari sögu nokkuð lengi og vitum vel.

Það er mjög fróðlegt að rifja þá sögu upp og velta henni fyrir sér í sambandi við framhaldið. Hvað ætla menn að gera næst, sem því miður sem verður örugglega ekki bara ef heldur þegar einhver erfiðleikaár, einhverjir erfiðleikatímar ganga yfir einstakar greinar landbúnaðarins eða hann sem slíkan? Þá verður enginn slíkur aðili sem getur ákveðið að fella niður afborganir eða skuldbreyta, og þess vegna með stuðningi opinberra aðila. Þá verður það bara herra markaður sem ræður því og hver og einn bóndi verður að reyna að glíma við það hjá sinni lánastofnun. Menn geta auðvitað sagt að þannig sé það hjá öðrum o.s.frv. En það breytir engu um það að sagan er eins og hún er og hún sannar að mínu mati gildi þess hvers virði það getur verið fyrir atvinnugrein af þessu tagi að eiga sinn fjárfestingarlánasjóð og að það sé hægt að beita slíkum tækjum til stuðnings greininni þegar hún þarf á því halda.

Ég hef áður nefnt það í umræðum um þetta mál að að mínu mati er reynslan af einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða annarra atvinnugreina, Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs, mjög blendin. Sérstaklega veit ég dæmi þess og mörg dæmi þess að iðnaðarstarfsemi og iðnrekendur úti um landið, það sem eftir er af þeim, það hefur gengið hressilega á þá undanfarin 10–15 ár. Það má segja að flutningskostnaður og fleiri slíkar ráðstafanir hafi meira og minna stýrt allri iðnaðaruppbyggingu hér á suðvesturhornið að svo miklu leyti sem hún er þá ekki farin áfram til Eystrasaltsríkjanna eða þaðan af lengra í burtu. En svo mikið er víst og það er að stórkostlega hefur þyngst fyrir fæti hjá þeim sem eru að byggja upp iðnaðarstarfsemi úti á landsbyggðinni við að fá eðlilega fyrirgreiðslu og fjármögnun t.d. til húsbygginga. Það er bara mjög erfitt í dag. Bankarnir telja það eins og hvern annan brandara að þeim bjóðist 1. veðréttur í húsnæði ef póstnúmerið er eitthvað verulega hærra en 1. Það bara er þannig.

Ég veit líka mörg dæmi þess að menn hafi lent í miklum barningi með nýsmíðar á fiskiskipum, að fá eðlilega fjármögnun á þær þó að 1. veðréttur væri í boði í jafnhreyfanlegri og endurseljanlegri eign og nýtísku fiskiskipi. Það er bara ekki lengur þannig að menn eigi sinn eigin fjárfestingarlánasjóð sem láni öllum félagsmönnum á jafnræðisgrundvelli á hagstæðum kjörum, eins og það var t.d. í Fiskveiðasjóði áratugum saman. Það skyldi nú ekki vera að það hafi hjálpað dálítið til við uppbyggingu flotans og þróun fiskiðnaðarins í gegnum tíðina? Árangurinn var ekki lakari en það að flest árin fengu menn síðan vaxtaendurgreiðslur inn á viðskiptareikning sinn hjá sjóðnum þegar búið var að gera árið upp og yfirleitt kom í ljós að sjóðurinn þurfti ekki á öllum þeim vaxtamun að halda sem hann reiknaði sér við lánveitingarnar og hafði rétt til að taka. Þá nutu menn þess beint í formi innlagnar á viðskiptamannareikning sinn hjá sjóðnum eða vaxtainnstæðna sem þá mynduðust. Þetta kerfi var ekki lakara en það.

Mér finnst það svolítið uppgjafarlegt og aumingjalegt að velta því ekki fyrir sér hver sé stærðargráða þessa vanda, hvaða leiðir séu til að takast á við hann. Er endilega víst að það sé besti kosturinn að gefast upp og selja sjóðinn? Er það endilega víst, jafnvel þó svo að búnaðarmálasjóðsgjöldin kynnu að heyra sögunni til innan fárra ára? Menn þurfa væntanlega ekki að taka svona óhagstæð lán og þurfa ekki að hafa þau á þeim kjörum að þau séu óuppgreiðanleg, menn þurfa ekki að sitja uppi með allt of háan rekstrarkostnað á þessum sjóði baráttulaust ef einhver vilji er til þess að hjóla í þau verkefni og takast á við þau.

Hvaða leiðir er hægt að fara í því? Það eru margar leiðir færar í því. Það er í fyrsta lagi ósköp einfaldlega hægt að reyna að reka sjóðinn með hagkvæmari og einfaldari hætti. Hægt er að bjóða út og er algengt að bjóða út umsjón með slíkum sjóðum og það hefur oft verið gert. Þannig var það t.d. með veðdeild Húsnæðisstofnunar á sínum tíma, grunnhúsnæðislánadeildina. Það var einfaldlega boðið út, leitað tilboða í umsjón með henni og lengi vel var það Landsbankinn sem bauð þar best. Það var á þeim grunni. Það er t.d. einn kostur sem menn gætu skoðað hvort hægt sé að stórlækka rekstrarkostnað sjóðsins að breyttu breytanda með því að fela umsjá hans einhverjum öflugum aðila sem getur gert það með hagkvæmum hætti sem hluta af miklu stærri starfsemi. Ákaflega nærtækur kostur að velta fyrir sér væru samlegðaráhrifin af því að samreka Lífeyrissjóð bænda og Lánasjóð landbúnaðarins. Gætu þau verið þannig að það munaði umtalsvert í formi lægri rekstrarkostnaðar og hagkvæmni jafnvel fyrir báða aðila? Gæti það komið báðum til góða að færa þessar einingar saman og styrkja þær í leiðinni? Ég sé að mörgu leyti ekkert því til fyrirstöðu að hreinlega væri hægt að sameina þessa starfsemi, kannski þannig að lánastarfsemin yrði einfölduð í leiðinni, að þetta yrðu grunnfjárfestingarlán, jarðakaupalán og lán t.d. til þeirra sem eru að hefja búskap, sem í löndunum í kringum okkur er víða hefð fyrir að sé skipað með sérstökum hætti, en síðan leiti menn kannski til viðskiptabanka sinna með viðbótarfjármögnun rekstrarins eins og gjarnan er gert. Finnar eru t.d. með alveg sérstakt prógramm sem miðar að því að styðja unga bændur, fólk sem er að hefja búskap. Það nýtur sérstakra kjara og sérstaks stuðnings sem er fyrir komið í kerfinu. Og veitir nú víst ekki af hér ef einhver endurnýjun á að hefjast eða verða loksins í þessari grein.

Það hefur líka verið nefnt í mín eyru sem hugmynd að kannski væri hægt að færa Lánasjóð landbúnaðarins yfir í einhvers konar sparisjóðsform á vegum bænda og semja um rekstur hans sem hluta af sparisjóðastarfseminni í landinu. Það er t.d. öflugur banki sem sparisjóðirnir reka saman, Sparisjóðabankinn, sem er þeirra fjármögnunarbanki, fjárfestingarbanki. Hann hefur verið ágætlega samkeppnisfær í kjörum og nýtur þar auðvitað stærðar samlegðaráhrifanna af því að vera bakhjarl allrar sparisjóðakeðjunnar í landinu, sem er nú stærsta einstaka viðskiptabankakeðjan, merkilegt nokk, með hæstu markaðshlutdeildina þegar kemur að almenningsviðskiptum í landinu, tæp 30%. Það eru sparisjóðir mjög víða á starfssvæði Lánasjóðs landbúnaðarins, þ.e. úti um héruð landsins, og sennilega væri engin ein bankastofnun betur sett í þeim efnum að eiga fleiri afgreiðslustaði vítt og breitt á svæði viðskiptavina sinna en sparisjóðirnir, þ.e. ég býst við að þeir séu til samans fleiri og í fleiri landbúnaðarhéruðum en nokkur einkabankanna þriggja.

Það gætu verið margir möguleikar sem mætti skoða í þessum efnum og ég sé ekki að himinn og jörð væru að farast þó að það væri gert eða hefði verið gert. Nú er það svo að lögin um Lánajóð landbúnaðarins eiga samkvæmt þessu frumvarpi ekki að falla niður fyrr en um næstu áramót. Það má líka velta fyrir sér tímasetningum þessa máls í því sambandi, úr því að það er ekki betur undirbúið og lengra á legg komið en það að vera þá engu að síður að taka þessar lagabreytingar hér í gegn. Ætla menn jafnvel að vera með það í höndunum fram undir næstu áramót að undirbúa sölu á þessum sjóði? Það er ekki mjög heppilegt að vera með mál hans þannig upp í loft í heilt ár og vera þó búinn að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram. Það er ekki endilega víst að það verði honum til mikils framdráttar í rekstri á allra næstu mánuðum ef ljóst er að niðurstaðan er eiginlega gefin fyrir fram.

Menn hafa talað fyrir því, margir, ég held ég muni það rétt að ég hafi heyrt hæstv. landbúnaðarráðherra tala digurbarkalega um það, að bændum verði ekki skotaskuld úr því að fá góða fyrirgreiðslu hjá bönkunum, þeir séu skilvísir menn, vissulega er það rétt, og þeim muni bjóðast góð kjör. Menn nefna gjarnan til samanburðar það sem gerst hefur á íbúðalánamarkaði. Ég vara mjög við því að halda að þetta sé á einhvern hátt sambærilegt við það sem gerðist þegar bankarnir fundu ekki aðra leið til að koma Íbúðalánasjóði á kné en þá að niðurbjóða hann í vöxtum eftir að hafa tapað máli gegn honum á evrópskum vettvangi. En það var þá, síðsumars, sem áhugi bankanna á að bjóða hagstæð íbúðalán með hátt lánshlutfall gaus upp, eins og kunnugt er. Hvað er þar á ferðinni? Jú, þar er það á ferðinni að menn greiða upp öll lán sín hjá fyrri lánveitanda, Íbúðalánasjóði. Menn lofa öllum sínum viðskiptum til viðkomandi lánastofnunar og hvað fær hún? Hún fær fyrsta veðrétt í íbúðarhúsnæði. Hvað er fyrsti veðréttur í íbúðarhúsnæði, frú forseti? Jú, það er sérstaklega hagstæð lán þegar kemur að því að útlánakarfa viðskiptabanka er metin og flokkuð í áhættuflokka. Bankarnir vissu vel hvað þeir voru að gera og þeir reyndu að slá margar flugur í einu höggi, ekki bara knésetja Íbúðalánasjóð heldur löguðu þeir líka hjá sér útlánasamsetninguna og fengu grundvöll útlána í nýjum og lágum áhættuflokki þar sem eru fasteignaveðlán á fyrsta veðrétti.

Þessu verður öðruvísi háttað þegar kemur að landbúnaðinum. Þar verður áhættudreifingin enn þá meiri. Hver verður t.d. staða þeirra sem eru á ákaflega landlitlum afskekktum jörðum, til lántöku í þessu tilviki? Hvernig verður farið með ríkisjarðir? Verður mönnum veitt veð og lántökuheimildir eins og ekkert sé þótt um verði að ræða einkabanka sem leita eigi fjármögnunar hjá í þeim tilvikum? Ætli það verði ekki talsverður munur á stórum bújörðum, vel í sveit settum, ég tala nú ekki um ef menn eru með umtalsverð hlunnindi og framleiðslurétt, t.d. í mjólkurframleiðslu, og aftur hinum sem hafa í raun ekkert af þessu og ætla að byggja upp af búskap á afskekktum jörðum? Það skyldi þó ekki vera? Það gæti átt eftir að reynast þannig að menn gengju ekki að hinum góðu lánskjörum vísum, með sama hætti og sumir vilja vera láta.

Auk þess, frú forseti, hafa vextir verið með afbrigðum lágir um skeið. Alþjóðlegir vextir hafa verið í sögulegu lágmarki í nokkur missiri bæði austan hafs og vestan. Það stafar af slaka í hagkerfinu, auðvitað sérstaklega í Evrópu þar sem menn hafa farið með vextina niður undir ekki neitt. Hér innan lands hefur vöxtunum hins vegar verið haldið uppi til að halda aftur af verðbólgu. Þannig hefur skapast það ástand að menn hafa talið sig getað gert út á vaxtamuninn milli Íslands og nálægra landa, tiltölulega öruggir í skjóli þess að stóriðjustefnan og viðleitni Seðlabankans til þess að halda niðri verðbólgu með háum vöxtum geri það að verkum að óhætt sé að gera út á þennan gróðaveg, vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa.

Þar af leiðandi hefur tímabundið verið hægt að fleyta hinum lágu erlendu vöxtum inn í landið og út í lánskjörin en það er mikil áhætta því samfara. Það er ekki víst að það verði mjög varanlegt. Núna hafa vextir hækkað um tvö prósentustig í Bandaríkjunum á skömmu tíma. Þeir eru á hraðri uppleið þar. Hefur kannski enginn heyrt fréttirnar af því að vegna mikilla erlendra skulda íslenska þjóðarbúsins, sem fáir tala um en er nú staðreynd engu að síður, þá hafi vaxtabyrðin á örfáum mánuðum þyngst um sjö milljarða króna vegna erlendra skulda, bara í dollurum? Bara í dollurum. Síðasta hækkunin hjá bandaríska seðlabankanum, hjá herra Greenspan, kostar tvo milljarða í viðbót í hærri vöxtum á ársgrundvelli af erlendum skuldum þjóðarbúsins í dollurum. Menn skulu því ekki tala eins og þeir geti gengið að lágum alþjóðlegum vöxtum vísum um aldur og ævi.

Það er mjög hættulegt að meta þessa hluti alla út frá núinu og gefa sér að þannig verði það um aldur og ævi. Það er sko ekki í hendi. Því er að mörgu að hyggja í þessum efnum og menn ættu ekki að rasa um ráð fram.

Ég hef ekki góða sannfæringu fyrir því að styðja það að einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins fyrr en aðrir hlutir hafa verið skoðaðir ofan í kjölinn. Ég hefði sjálfur, hefði ég átt að gefa ráð í þessum efnum, látið mér detta flest annað í hug fyrst. Ekki fyrr en ég væri endanlega sannfærður um að aðrar leiðir væru ekki færar færi ég að velta því fyrir mér að leggja hann niður eins og þetta mál snýst um. Þetta er ekkert annað en að leggja niður eða einkavæða þessa starfsemi. Hún hverfur sem slík, verður ekki til. Þetta leysist upp og engum þeim hlutum sem Lánasjóður landbúnaðarins, áður Stofnlánadeild landbúnaðarins, gat komið til framkvæmda verður þá viðkomið eftir að þetta skref verður stigið.

Ég tel, herra forseti, að hér sé langt frá nógu vandaður málatilbúnaður á ferð og þeir hljóta að verða að axla ábyrgð á breytingunni sem hana ætla að gera.



[17:22]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að hornsteinn uppbyggingar í landbúnaði hafi verið Lánasjóður landbúnaðarins. Hins vegar hefur staðan breyst og stór hluti lántakanda hefur greitt upp lán sín. Við búum nú við mjög breytt rekstrarumhverfi og vandi sjóðsins er sá að hann er orðinn of lítill. Lánastofnanir í samkeppni við lánasjóðinn bjóða hagstæðari vexti. Einnig er vert að hafa í huga þá staðreynd að bændur vilja ekki greiða lengur búnaðargjald til Lánasjóðs landbúnaðarins til að greiða niður vexti hver fyrir annan. Þannig er staðan.

Hv. þingmaður gerði að mínu mati lítið úr Byggðstofnun. Byggðastofnun hefur getað lánað og haft svigrúm til að lána þótt hún hafi ekki fjármuni núna til styrkja eða hlutafjárkaupa. Hins vegar ættum við fremur að efla Byggðastofnun en að gera lítið úr henni.

Það kom fram í máli lánasjóðsmanna að að óbreyttu þurfi lánasjóðurinn að hækka vexti sína, a.m.k. um 2%, til að viðhalda eigin fé sjóðsins. Sjóðurinn er orðinn of lítill sem rekstrarleg eining. Við fórum vandlega ofan í það hvort hægt væri að reka hann með hagkvæmari hætti. Það var alls ekki talið unnt. Þar vinna sjö manns. Hann er rekinn með eins mikilli hagkvæmni og hægt er. Það er ekki hægt að reka hann með minni tilkostnaði. Hann er bara orðinn of lítill og of dýrt að reka hann til þess að það sé hægt áfram. Þess vegna var þessi ákvörðun tekin.



[17:24]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili ekki um að takast þurfi á við vanda þann sem blasir við hjá Lánasjóði landbúnaðarins. Það er ekki verið að deila um það. Mér er ljóst að hann er sem slíkur mjög lítil eining og að of hátt hlutfall tekna hans fer í rekstur. Það er eiginlega dæmt til að gerast ef haldið er úti lítilli einingu af þessu tagi. Það skapar honum líka augljósan vanda ef búnaðarsjóðsgjöldin falla niður því þau skipta þar þrátt fyrir allt enn þá miklu máli þótt þau hafi lækkað mikið.

Ég hef reyndar enga sérstaka sannfæringu fyrir því að með breytingum á því fyrirkomulagi hefði ekki áfram getað ríkt samstaða um það innan greinarinnar að þau gjöld væru til staðar. Hins vegar er alveg ljóst að menn horfa til þess að greiðslubyrðin, skoðuð á móti útlánunum, færist til milli greina innan landbúnaðarins. Það er t.d. ljóst að sauðfjárræktin, sem lítið hefur fjárfest undanfarin ár, er nettógreiðandi fremur en þiggjandi á þessu tímabili. En það kann að breytast.

Að mínu mati hefði vel mátt hugsa sér að setja einhverjar skorður við því hve mikil tilfærsla af því tagi geti orðið. Ég ætla a.m.k. ekki að trúa öðru fyrr en mér hefur þá verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti, að félagsþroski bænda hafi minnkað þannig að þeir geti ekki sem slíkir upp til hópa staðið saman um fyrirkomulag af þessu tagi, ef menn lagfærðu það í ljósi aðstæðna.

Síðan vil ég mótmæla því að ég hafi gert lítið úr Byggðastofnun. Það var ekki í mínum huga. (Gripið fram í.) Hún stendur hins vegar illa, það var það sem ég var að segja. Á ekki Byggðastofnun sjálf við umtalsverðan vanda að stríða sem menn þyrftu þá að takast á við fyrst? Það væri a.m.k. æskilegast að gera það áður en upp kemur vandi af þessu tagi, sem menn viðurkenna að geti skapast ef þeir leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins. Á að skilja þá bændur sem veikasta hafa stöðuna til að fá hagstæð lán annars staðar eftir á köldum klaka? Þá er þeim (Forseti hringir.) vanda bara sisvona vísað á Byggðastofnun.



[17:26]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram að útlánatöp hafa í reynd ekki verið mikil hjá Lánasjóði landbúnaðarins. Það er ekki þess vegna sem það væri erfitt fyrir Byggðastofnun að taka við þeim bændum sem ekki fá inni hjá lánastofnunum.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að sameina lánasjóðinn öðrum stofnunum. Verkefnisstjórnin fór ofan í það. (Gripið fram í.) Jú, verkefnisstjórnin fór ofan í það og sagði að fátt benti til þess að slík stofnun gæti boðið bændum betri kjör en þeim bjóðast á almennum lánamarkaði, þótt e.t.v. mætti ná fram einhverjum rekstrarlegum sparnaði við slíka sameiningu. Það var mat verkefnisstjórnarinnar að samkeppnisstaða slíkrar stofnunar yrði ekki betri en staða lánasjóðsins er nú. Í þessu samhengi er einkum hætta á að betri lántakar beini viðskiptum sínum í auknum mæli til bankanna, eins og gerst hefur undanfarið.

Ég held að þetta sé bara viðurkennd staðreynd. Það blasir við að sjóðurinn er kominn í þrot. Sumarið verður notað til að koma honum í sölu og það er ekki betra að draga þessi mál til lengdar.



[17:28]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að það er ekki gott að draga mál af þessu tagi. En það má á móti gagnrýna það að menn fari af stað með svona mál, gera það opinbert og sýna það, fyrr en það er betur undirbúið og menn komnir með það á hreint hvað þeir ætla að gera og geti gert það hratt. Það er auðvitað ekki gott að starfsemi af þessu tagi sé í kastljósi af því tagi sem nú er varpað á lánasjóðinn og verður, kannski fram undir árslok. Það má snúa þessu algjörlega við og segja: Hefðu menn ekki átt að vinna heimavinnuna sína betur og vera klárari á því hvað þeir ætluðu að gera og gera það þá fljótt þegar málið væri gert opinbert með þessum hætti?

Síðan eru innbyggðar í málflutninginn mótsetningar sem enginn hefur getað svarað fyrir, og hæstv. landbúnaðarráðherra gufaður upp eins og stundum áður. Það er ekki auðvelt að láta það ganga upp að segja annars vegar: Þessi sjóður er að komast í þrot og mikinn vanda. En segja hins vegar: Við ætlum að selja hann og fá fullt verð fyrir hann og styrkja Lífeyrissjóð bænda um háar fjárhæðir með söluandvirðinu. (Gripið fram í.) Nei, það er bara eitthvað sem ekki gengur alveg upp í því. Annaðhvort er þessi vandi raunverulegur, áþreifanlegur og útreiknanlegur, hættan á misgengi milli tekinna lána sjóðsins sem ekki eru með uppgreiðslurétti annars vegar og útlánunum hins vegar, eða ekki. Ef vandinn er þarna þá leyfi ég mér að efast um að það gangi um miskunnsamir samverjar úti í fjármálaheiminum íslenska sem séu tilbúnir að baka hann að sér án endurgjalds. Ég hef ekki hitt slíka góðverkamenn. Ég held að þeir í bönkunum séu bara ekki miskunnsamir samverjar, ég hef ekki orðið var við það. Það er eitthvað pínulítið sem gengur ekki alveg upp þarna.



[17:30]Útbýting:

[17:30]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, með síðari breytingum. Ljóst er að Lánasjóður landbúnaðarins á talsvert í vök að verjast. Sjálfsagt verður ekki komist hjá því að gera verulegar breytingar á starfsemi sjóðsins miðað við stöðu hans og jafnvel leggja hann niður eins og verið er að ræða um.

Það verður hins vegar að segjast, hæstv. forseti, þótt ég sé ekki andvígur því að skoða þessi mál og jafnvel fara þá leið sem hér er lögð til að öðrum skilyrðum uppfylltum, þá er ekki þar með sagt að sú málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð sé beinlínis að mínu skapi. Mér finnst í fyrsta lagi að málið hafi komið ákaflega seint í þingið, löngu eftir að frestur var liðinn. Í öðru lagi tel ég að betra hefði verið að málið hefði verið betur unnið til enda og verið búið að ná nokkurn veginn samkomulagi um það milli stjórnmálaflokkanna um hvernig með málið skyldi farið áður en það kæmi í þingið og það hefði verið tekið inn á haustdögum, enda falla lögin samkvæmt frumvarpinu ekki úr gildi fyrr en um áramót.

Með sæmilegu vinnulagi og ferli hefði verið hægt að ná sátt um málið, sem ég held að forsendur séu fyrir, því eins og staða Lánasjóðs landbúnaðarins hefur verið að þróast á undanförnum vikum og missirum verður hún ekki varin óbreytt og kannski ekki skynsamlegt að reyna það. Það er ekki þar með sagt að menn séu alveg sáttir við að fara í það opna ferli sem einkavæðingin býður upp á án þess að menn hafi náð saman um ákveðnar reglur og ákveðin skilyrði.

Ég er t.d. ekki viss um að öllum bændum sem eru viðskiptamenn sjóðsins sé nákvæmlega sama um það hvert sjóðnum verður ráðstafað og menn hafa ekki svarað því í umræðunni í hvaða stöðu einstakir bændur lenda þá. Því hefur heldur ekki verið svarað í umræðunni í hvaða stöðu bændur verða með lánamál sín og fyrirgreiðslur sínar á svæðum þar sem jarðir eru kannski taldar verðminni eða á svæðum þar sem byggð á undir högg að sækja.

Ég held að þetta hefði allt þurft að ræða betur og með hvaða formi yrði staðið að niðurlagningunni og hvaða kosti bændur ættu þá í viðskiptum. Það hefur verið talað um að Byggðastofnun gæti hugsanlega komið að málefnum bænda til að lána m.a. bændum inn á jarðir sem viðkomandi bankar eða lánastofnanir mundu e.t.v. ekki vilja taka þátt í endurfjármögnun á. Allt þetta held ég að menn hefðu þurft að reyna að kortleggja miðað við stöðu lántakanda í Lánasjóði landbúnaðarins og velta því upp að við værum ekki að vega að byggð í landinu með þessari aðgerð. Ég óttast svolítið að með því að leggja sjóðinn niður förum við leið án þess að vera búin að búa til lausnir eða vegvísa sem okkur finnast ásættanlegir fyrir hönd bænda, því þeir eru örugglega misjafnlega settir eftir landshlutum og landsvæðum og auðvitað er skuldastaða bænda og hagur þeirra misjafn eins og allra annarra.

Við megum ekki koma bændum í verri stöðu en þeir eru í dag með niðurlagningu sjóðsins. Ég tel að við hefðum þurft að skoða þau atriði mjög vandlega. Við skulum ekki gleyma því að bankarnir hafa verið í viðskiptum í landbúnaðinum. Ég held að allir hljóti að muna eftir bankastríðinu eða bankakapphlaupinu eða hvernig á að orða það sem varð um fugla- og svínabúin á sínum tíma og hvaða staða kom upp þar. Það er ekki á bætandi ef við lendum í einhverjum sérstökum vandræðum með hinar hefðbundnu greinar landbúnaðarins, mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu.

Þetta vildi ég sagt hafa. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Það liggur auðvitað fyrir að meiri hlutinn vill klára málið með því lagi sem hér er lagt upp með. Ég er búinn að segja mína skoðun á því, ég hefði talið eðlilegt þar sem málið er þannig vaxið eins og ég gat um í upphafi að lögin taka ekki gildi fyrr en um áramót, að þá hefði verið hægt að ná um þetta víðtækari sátt og vinna betur að útfærslunni á bak við tjöldin og koma með málið tilbúið og klára það hér á tiltölulega stuttum tíma. Það held ég að sé alltaf heppilegt að gera þegar við ræðum mál eins og þetta, um lánastofnun og lánaviðskipti einnar stéttar.

Ég hef líka nokkrar áhyggjur af því hvernig þetta muni koma niður á einstökum landsvæðum og hef ekki séð neina kortlagningu á því varðandi stöðu lántakenda í Lánasjóði landbúnaðarins, hvort ákveðin svæði séu þar verr stödd en önnur o.s.frv. Þetta held ég að menn hefðu þurft að skoða og hafa einhverja vegvísa eða viðbrögð við því hvernig með ætti að fara.

Mér finnst rennt svolítið blint í sjóðinn með að fara þá leið sem hér er farin án þess að við vitum hvar viðskiptin lenda eða í hvaða stöðu bændur lenda þegar lögin verða samþykkt.

Að öllu samanlögðu sýnist mér að við hefðum getað unnið að málinu í sumar og undirbúið það vel og náð samkomulagi um það og komið með það tiltölulega vel undirbúið hingað og afgreitt það á stuttum tíma. Ég held að það sé kostur að afgreiða svona mál á stuttum tíma og hafa vegferðina betur kortlagða en hér er gert. Kannski helgast málsmeðferðin aðallega af því að málið kom mjög seint í þing hjá landbúnaðarráðherra og það er auðvitað til mikilla vandræða að fá málið með þessum tímafresti.



[17:39]
Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum umræðu um málið. Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir ágætt starf.

Ég vil svara einu sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á varðandi lántakendur sjóðsins, sem hann hefði trúlegast heyrt ef hann hefði verið við umræðuna í dag. (GAK: Ég hlustaði á megnið af henni, nema þegar ég var á fundi forseta.) Það hefur ekki verið hægt að greina að það sé meiri vandi á einu svæði en öðrum hjá lántakendum hjá Lánasjóði landbúnaðarins, heldur hefur hann verið miklu meiri á milli greina og hefur loðdýraræktin helst átt undir högg að sækja.

Eins og fram hefur komið eru bændur mjög skilvísir greiðendur í sjóðinn og það er ekki mikið um töp hjá Lánasjóði landbúnaðarins.