132. löggjafarþing — 19. fundur.
Vegagerð um Stórasand, fyrri umræða.
þáltill. HBl o.fl., 43. mál. — Þskj. 43.

[15:03]
Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem ég mæli fyrir er hér endurflutt. Hún var lögð fram á síðasta Alþingi en var það seint á ferðinni að ekki vannst svigrúm til að taka hana þá til umræðu. Eigi að síður hefur tillagan fengið verulega umfjöllun í fjölmiðlum, vakið mikla athygli sem eðlilegt er þar sem hér er vakin athygli á að unnt er að stytta leiðina milli Borgarfjarðar og Akureyrar um 40 km eða svo ef farinn er Stórisandur og 40 km til viðbótar ef farið er um Kaldadal.

Ýmsir líta á þessa leið sem óraunhæfa af þeim sökum að Sprengisandur liggur hátt og einnig leiðin frá Kjalvegi niður í Skagafjörð sunnan Blöndulóns. Á hinn bóginn hygg ég að þær athuganir sem gerðar hafa verið bendi til þess að hvorki sé við því að búast að veður séu válynd á þessari leið né verri en á þeim heiðum sem nú eru farnar né víða þar sem vegir liggja um byggð.

Auðvitað má velta því fyrir sér hvort þessi tillaga sé í samræmi við þau nútímaviðhorf sem uppi eru um það að ekki skuli spilla öræfum, ósnortnum víðernum eins og oft er sagt, með því að hugsa sér leiðina um Stórasand. Þá er auðvitað því að svara að þessi eyðisandur er norðan fjalla í töluverðri fjarlægð frá hinu raunverulega hálendi eða jöklunum, sem hefur þann kost vitanlega að þar eru ekki sviptibyljir eða sviptivindar. Auðvitað getur komið þar sterkur stormur en um sviptivind er ekki ræða. Vegagerð er þar auðveld og engar sérstakar gróðurvinjar eða merkilegar fornleifar á þeirri leið. Sá hluti þessa vegar sem liggur frá Kjalvegi að Réttarvatni hefur því í senn þá tvo miklu kosti að vera auðveldur viðfangs, vera ódýr og svo náttúrlega nauðsynlegur.

Hins vegar liggur fyrir spurningin um það hvort verjandi sé eða rétt sé að leggja veg frá Borgarfirði um Hallmundarhraun að Réttarvatni. Ég hygg að þeir menn sem kunnugir eru þörfum ferðaþjónustu eða þekkja til í Borgarfirði geri sér ljóst að mikill þrýstingur er á að sómasamlegur vegur verði lagður að Surtshelli. Ég hygg einnig að menn geri sér grein fyrir því að þegar þangað er komið er skammt á Arnarvatnsheiði. Veiðivötnin þar eru rík af silungi og miklir möguleikar fyrir þá sem vilja reka ferðaþjónustu að afla sér tekna og búa svo um hnútana að þar verði sælureitur bæði fyrir Íslendinga og erlenda menn sem þar vilja dvelja. Á þessum slóðum er ort hið fallega kvæði Jónasar Hallgrímssonar Efst á Arnarvatnshæðum oft hef eg — ja, nú veit ég ekki hvort segja eigi fáki beitt eða klári beitt. Það er svona upp og ofan hvað mönnum þykir um það og er hægt að vitna um það á marga vegu til Jónasar sjálfs:

þar er allt þakið í vötnum,

þar heitir Réttarvatn eitt.

Og undir Norðurásnum

er ofurlítil tó,

og lækur líður þar niður

um lágan Hvannamó.

Á öngum stað eg uni

eins vel og þessum mér;

ískaldur Eiríksjökull

veit allt sem talað er hér.

Það er á þessum slóðum, á þessum fallegu vinjum sem þar eru sem hægt er að nýta til ferðaþjónustu og útivistar. Við vitum að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Eins hefur það í vaxandi mæli orðið vinsælt innan lands að hverfa út úr höfuðborginni, úr borgarysnum og borgarrykinu, til þess að eiga góðar stundir í friði með náttúrunni. Hefur verið á það bent af þeim sem best hafa kynnt sér þessi mál að það sé nauðsynlegt að reyna að dreifa sókninni á þá staði sem vinsælir eru. Við vitum að Landmannalaugar liggja undir skemmdum vegna mikils átroðnings. Hið sama getum við jafnvel sagt um Herðubreiðarlindir og ýmsa aðra staði. Það er því nauðsynlegt að dreifa því sem mest hvar ferðamönnum verður boðið að njóta landsins.

Ég hygg að hv. þingmenn viti og skilji að vegur frá Borgarfirði yfir í Miðfjörð liggur þegar fyrir í vegalögum þannig að ég hygg að þann veg sé hægt að leggja án sérstaks umhverfismats. Það liggur því þegar fyrir vilji til þess að leggja veg um Hallmundarhraun niður í Miðfjörð. Ég hygg að menn eigi líka að velta því fyrir sér sem vilja hugsa um þá stöðu sem Borgfirðingar eru í að eins og haldið hefur verið á málum þá er varla hægt að komast nema á allra stærstu torfærubílum svo vel sé á Arnarvatnshæðir úr Borgarfirði heldur verður að fara úr Miðfirði. Það er af þessum sökum sem bændur úr Borgarfirði hafa sérstaklega rætt við mig nauðsyn þessarar tillögu. Þeir gera sér grein fyrir þeim nýju og miklu möguleikum sem einmitt vegur úr Borgarfirði norður í Skagafjörð mundi hafa fyrir ferðaþjónustu á þessu svæði og fyrir uppbyggingu af margs konar toga.

Hið sama á við um uppsveitir Skagafjarðar. Þeir sem þar búa gera sér grein fyrir því að það er mikilvægt fyrir þá að fá veg beint úr Norðurárdal í Eyjafirði yfir Skagafjörð á Kjalveg norðan við Blöndulón þannig að þarna fara saman hagsmunir Skagfirðinga, uppsveitunga í Skagafirði og Borgfirðinga.

Ég hef orðið var við það að ýmsir af þingmönnum Vesturlands gera sér þetta ekki ljóst og vilja einungis horfa á hagsmuni annarra byggðarlaga í sínu kjördæmi þegar kemur að því að ræða þennan veg og er það miður, bæði vegna þess að alþingismenn eiga að hafa yfirsýn yfir sitt kjördæmi og líka af hinu að alþingismenn eiga ekki að hugsa vegagerð út frá þeim forsendum hvort það komi vel eða illa við einhverja hjá sér, heldur hvort vegurinn í heild gagnist þeim sem um hann fara og gagnist landsmönnum, spari kostnað og dragi úr mengun. Það er einmitt það sem þessi vegur gerir. Með því að stytta leiðina frá Reykjavík til Akureyrar um 40 kílómetra drögum við úr kostnaði og drögum auðvitað stórkostlega úr mengun með því að draga úr útblæstri frá bílum. Þetta vita menn.

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi að orðið er mjög brýnt að ljúka því að leggja veginn yfir Sprengisand með bundnu slitlagi og færi mjög vel saman að tengja þessar tvær framkvæmdir saman, veg um Stórasand og veg yfir Sprengisand. Sunnlendingar leggja á það ríka áherslu að hægt sé að tengja ferðamannaslóðir þar við Mývatnssveit og með sama hætti leggja þeir sem hafa atvinnu af ferðaþjónustu nyrðra áherslu á að hægt sé að komast fljótt suður yfir fjöllin vegna þess að það getur veðrað með þeim hætti að nauðsynlegt sé að geta komist skjótt suður heiðar eða norður. Þetta þekkja menn sem hafa kynnt sér þessi mál.

Menn hafa rætt um það í þessu sambandi að með því að fara þann hluta leiðar sem hef ég bent á, með því að fara Kaldadal og Mosfellsheiði, sé hægt að stytta leiðina til Akureyrar um 40 km til viðbótar. Nú liggur það fyrir í samgönguáætlun að gert er ráð fyrir því að byggja upp veginn um Kaldadal hvað sem þessari áætlun líður. Eins vitum við að verið er að byggja upp veginn um Uxahryggi þannig að beinlínis er unnið að því og hefur verið ákveðið með fjárframlögum frá Alþingi að beina umferð frá Borgarfirði um Þingvelli til Reykjavíkur og suður á land. Þegar menn tala á móti leiðinni yfir Stórasand skulu menn ekki blanda því heim og saman við að með því sé verið að ræða sérstaklega að fara um Þingvelli því að það er ekki rétt. Það er þegar ákveðið að verulegur straumur muni liggja þessa leið inn í Borgarfjörð um Þingvelli. Því er það óhjákvæmilegt, hvað sem þessari tillögu líður, að leggja veg sunnan Gjábakka, sunnan Almannagjár og með fjöllunum utan þjóðgarðsins eins og hægt er til þess að beina umferðinni frá þjóðgarðinum sjálfum.

Með sama hætti liggur það fyrir þegar menn ræða um að leggja bundið slitlag yfir Kjöl eftir að ákveðið hefur verið að byggja upp fullkominn veg frá Laugarvatni til Þingvalla, að straumurinn mun liggja í gegnum hjarta þjóðgarðsins, frá Reykjavík um þjóðgarðinn til Laugarvatns norður eða norðan um Laugarvatn og um þjóðgarðinn þveran og endilangan til Reykjavíkur. Öll umferð mun liggja þá leið vegna þess að það er stysta leiðin.

Þessi tillaga mín um það að byggja upp Stórasand og stytta leiðina norður með þeim hætti mun auðvitað bægja miklum hluta umferðarinnar að norðan, hinni daglegu umferð, frá Kili, frá Þingvöllum og þar fram eftir götunum.

Í síðasta lagi liggur það fyrir að óhjákvæmilegt er að byggja upp hraðbraut til Akureyrar með fullum þunga og þvílíkri breidd að ekki sé stórhætta fyrir vegfarendur. Við vitum hvernig vegurinn er nú. Við vitum að vegurinn norður til Akureyrar eru tæpir 400 km og við vitum að af þessum 400 km eru a.m.k. 200 km og kannski enn þá meira sem óhjákvæmilegt er að byggja upp á nýjan leik ef við ætlum að láta þessa vegi svara þeim kröfum sem gera verður til þeirra samgönguæða sem aðalþungaflutningarnir fara um. Þetta er verulegur kostnaður. Með því að beina þessum hluta umferðarinnar á hinn nýja veg um Stórasand mundi að sjálfsögðu sparast stórkostlegt fé.

Ég vil að síðustu, frú forseti, vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir því að leiðin frá Stórasandi í Borgarfjörð verði í einkafjármögnun þannig að ekki komi til þess að greiða þurfi þann vegargerðarkostnað úr ríkissjóði. Hér er því líka um hreina sparnaðartillögu að ræða sem mun valda því að möguleikar verða á að ráðast í aðrar brýnar vegaframkvæmdir með peningum frá fjárlögum í stað þess að moka peningum í hringveginn úr Skagafirði til Reykjavíkur.

Ég legg til, frú forseti, að málinu verði vísað til síðari umræðu og samgöngunefndar.[15:18]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hnaut um það að í lok greinargerðar með þessari þingsályktunartillögu, sem hv. þm. Halldór Blöndal mælti hér fyrir, er sagt svo, með leyfi forseta:

„Loks er þess að geta, að þess er víða krafist nú, að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður. Fyrirséð er, að áætlunarflug milli Akureyrar og Reykjavíkur leggst niður um leið eða því sem næst.“

Mig fýsir því að vita, virðulegur forseti: Hver er skoðun hv. þm. Halldórs Blöndals á því að Reykjavíkurflugvöllur verði hreinlega lagður niður? Eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu, ég tek eftir því að fjórir þeirra af sjö eru af landsbyggðinni, einfaldlega að búa í haginn fyrir það að Reykjavíkurflugvöllur verði færður úr Vatnsmýrinni? Hafa þessir þingmenn hugsanlega haft einhverja skoðun á því hvort flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni? Hafa þeir jafnvel verið á móti því að flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýrinni og eru þeir þá með þessari þingsályktunartillögu í raun og veru að lýsa yfir uppgjöf í því máli og búa landsmenn undir það að innanlandsflugið leggist nánast af eða a.m.k. hin mikilvæga áætlunarflugleið sem við höfum haft á milli Akureyrar og Reykjavíkur?[15:20]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þakklátur hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að vekja athygli á þessum punkti. Ég hafði ekki tíma í ræðu minni til að víkja sérstaklega að málefnum Reykjavíkurflugvallar en það er rétt að við Akureyringar og þingmenn Norðausturkjördæmis, og allir íbúar á því svæði, höfum þungar áhyggjur af þeim umræðum sem uppi eru um það að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Það er ekki ástæða til að gera lítið úr því, það er beinlínis stefna þeirra sem nú fara með völd í Reykjavík að leggja flugvöllinn niður. (Gripið fram í.) Við munum eftir þeirri sýndaratkvæðagreiðslu og skoðanakönnun sem um það fór fram og er skaði að fyrrverandi borgarstjóri skuli ekki vera hér í salnum til þess að gera grein fyrir því hvernig hún stóð að þeim málum, sem var nú satt að segja ekki með hreinlyndum hætti.

En eins og unnið hefur verið að þeim málum liggur það fyrir að það eru ýmsir hér í Reykjavík sem leggja á það ríka áherslu að flugvöllurinn verði lagður niður og fá dollaraglampa í augun eins og Jóakim von Önd þegar þeir tala um verðmæti þeirrar lóðar sem flugvöllurinn stendur á. Þess vegna er það rétt að ef til þess kemur að Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður þá mun innanlandsflug til Akureyrar í grófum dráttum falla niður. Það er það langt til Austurlands að ég geri ráð fyrir að flug þangað muni að einhverju leyti halda áfram. En auðvitað verður að svara slíkri breytingu með því að leggja höfuðáherslu á að stytta leiðir.[15:22]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir svarið. Ég var samt ekki nógu ánægður með það, mér fannst hann ekki tala nógu skýrt. Ég var að reyna að fiska eftir hans eigin afstöðu til flugvallarmálsins. Hann benti hér á hlut sem mér hafði reyndar yfirsést en það er að þeir landsbyggðarþingmenn sem eru á þessari þingsályktunartillögu eru allir þingmenn Norðausturkjördæmis.

Ég spyr því enn og aftur: Eru þessir þingmenn að draga upp eins konar hvítan uppgjafarfána í þessu máli? Eru þeir að reyna að koma með eitthvert útspil sem segir eitthvað á þá leið: Gott og vel, við ætlum ekki að berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, en gegn því að við drögum uppgjafarfána að húni viljum við fá þennan veg um Stórasand?

Ég held að það væri mikill akkur í því að fá það skýrt fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann er jú þingmaður með mikla reynslu og fyrrverandi samgönguráðherra og hefur verið í fararbroddi í sínu kjördæmi um áratuga skeið. Það væri mikill akkur í því að fá að heyra frá honum skýrt og skorinort hvort hann hyggst berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða hvort hann hefur ákveðið að láta það mál hreinlega falla í hendur yfirvalda í Reykjavíkurborg á hverjum tíma, jafnvel að láta þá sem nú fara með völd í Reykjavík eða þá sem hugsanlega taka við völdum í Reykjavík taka ákvörðun um það hvort landsbyggðin eigi að hafa þennan flugvöll, hvort að þjóðin öll eigi að hafa þennan flugvöll í Vatnsmýrinni áfram eða ekki.[15:24]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef oft kveðið mjög skýrt að orði um það að ég tel að flugvöllurinn eigi að vera kyrr á sínum stað og ég hef bent á þann gífurlega fórnarkostnað sem því fylgir að færa hann þaðan. Jarðgöng sem hönnuð hafa verið hér — ég hygg að það sé gert ráð fyrir þremur eða fjórum akstursreinum í hvora átt ef þarna á að koma 20 þúsund manna byggð, bæði undir Skólavörðuholtið og eins undir Öskjuhlíðina. Það er verið að tala um að setja svo og svo margar götur í stokk og ég kann ekki alla þá þulu. En síðasti áhugamaðurinn um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður sagði við mig, og hafði tvo dollaraglampa í augum, að hann hugsaði sér að Reykjavíkurflugvöllur yrði 40 þúsund manna byggð, svo menn geta nú rétt velt því fyrir sér á hvaða leið menn eru. (Gripið fram í.) Við Gísli Marteinn þekkjumst því miður ekki nógu vel til að við hittumst á hverjum degi, svo að það er nú ekki svo. En ég veit að hv. þm. Kristján Möller er forvitinn og honum finnst best ef það sem honum er sagt er ekki allt of öruggt.

Á hinn bóginn vil ég segja við hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson að í okkur er engin uppgjöf. Við erum að tala hér um það að stytta leiðina um 40–80 km. Það er verið að tala um það í Vopnafirði að stytta leiðina til Egilsstaða, heimta jarðgöng af því að það er 40 km stytting. Rökin fyrir Þverárfjalli frá Sauðárkróki yfir í Skagaströnd, það er nógu nálægt, yfir í Laxárdal, rökin fyrir þeim vegi voru að það væri hægt að stytta leiðina til Reykjavíkur um hvað, 20 til 25 km? Hér erum við að tala um 40–80 km eftir því hvort við tökum Kaldadal með eða ekki.[15:26]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki nýtt að menn hafi áhuga á vegagerð hér í sölum Alþingis og ekkert nema gott um það að segja að menn hugsi stórt í þeim málum. Kannski verður vegurinn sem hér er lagt til að verði undirbúinn að veruleika í framtíðinni. Þegar menn hafa komist að niðurstöðu um framkvæmdir, vegagerð eða hvað sem það nú er, vaknar alltaf spurningin um forgangsröðun.

Að mínu mati getur þessi vegagerð ekki verið mjög framarlega í forgangsröðuninni, a.m.k. ekki í bili, og mig langar til að reyna að færa fram einhver rök fyrir því.

Í fyrsta lagi liggja fyrir ýmsar hugmyndir um styttingar á þjóðvegi 1 á þessari leið til Akureyrar sem er nú kannski efst í huga flutningsmanna. Sú stytting, eftir því sem ég kemst næst á teikniborði Vegagerðarinnar, gæti verið allt að 25 km af leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Það segir okkur að þessi 40 km stytting, sem hv. þingmaður hefur hér verið að tala um, verður þá ekki nema 15 km og það er ekkert óskaplega mikið. Það er vafamál hvort gjaldtaka á þessari leið mundi standa undir sér ef munur á vegalengdum væri ekki meiri en kannski 20 km eða hvað sem það nú yrði. Ef munur á vegalengdum verður innan við 20 til 30 km hljóta menn að velta því mjög fyrir sér hvort það geti staðið undir sér að innheimta veggjöld og hversu lengi menn yrðu þá að greiða niður framkvæmd eins og þessa.

En auðvitað er þetta ekki svona, það kom skýrt fram hjá þeim sem undirbjuggu málið og kynntu það að þeir binda einfaldlega vonir við að leiðin verði stytt meira, þ.e. að það verði farið um Þingvallasvæðið til Reykjavíkur og að þannig styttist leiðin þá frá núverandi vegi um u.þ.b. 80 km. Ef maður dregur svo 25 km frá þeirri styttingu þá gæti hugsanlega verið raunhæft að gera ráð fyrir því að menn gætu innheimt vegskatta á þessari leið. Það þyrfti að haldast í hendur við vegagerð sem tengdi alla leiðina og gerði ráð fyrir því að beina straumnum þessa stystu leið. Ég vil því að menn tali nú a.m.k. um þetta í raunhæfum aðgerðum og þær eru einfaldlega ekki fyrir hendi nema menn klári þá alla þessa leið og stytti hana verulega.

Síðan á eftir að velta því fyrir sér hvort menn vilji breyta umferðinni um landið með þeim hætti sem þarna er lagt til. Ég held alla vega að það sé hægt að segja að vegur um Stórasand með 40 km styttingu, án þess að taka afstöðu til þess hvernig síðan eigi að beina umferðinni um Þingvallasvæðið til Reykjavíkur, sé ekki skynsamleg ákvörðun núna. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, og ég held að flestir séu það nú, að það þurfi að klára veginn um Kjöl og gefa fólki þannig tækifæri til þess að fara þar góðan veg þvert yfir landið. Sá vegur er fyrir hendi og það þarf að koma honum í gagnið. Hann mundi gefa mörgum af þeim sem vilja fara milli landshluta svipuð tækifæri og hv. þingmaður er að leggja til að komi með umræddum vegi um Stórasand.

Ég tel að það hafi verið svolítill tvískinnungur í ræðu hv. þingmanns þegar hann var að tala um umferðina um Þingvallasvæðið og lét liggja að því að menn vildu beina umferð þar um og að mér fannst talaði hann með neikvæðum hætti um það. En hans tillaga er einfaldlega þannig að til þess að hún gangi upp þurfa menn að fara um Þingvallasvæðið, annars gengur þetta ekki, annars er styttingin ekki nógu mikil til þess að laða umferðina að.

Svo er ég reyndar á þeirri skoðun að stytting á þjóðvegi 1 á leiðinni til Akureyrar mundi auðvitað gera miklu meira gagn á næstu árum en umræddur vegur yfir Stórasand vegna þess að hann mundi kalla á gríðarlegar framkvæmdir til viðbótar sem ég er ekki búinn að sjá að menn séu tilbúnir að láta fara fram. Þeir sem hafa talað fyrir veginum um Stórasand hafa eingöngu talað um að fjármagna þann hluta vegarins sem hér er talað um en ekki styttinguna um Þingvallasvæðið til Reykjavíkur. Það á þá eftir að koma því í framkvæmd til þess að þessar fyrirætlanir geti orðið að veruleika.

Mig langar aðeins til þess að nefna hér margumtalaðan flugvöll í Reykjavík, ekki til þess að fara að ræða það mál í þaula heldur vegna þess að mér finnst að umræðan um hann sé ótrúlega mikil miðað við það að ekki stendur til að þessi völlur fari í burtu á næstu árum. Það eru að verða hér miklar breytingar í vegamálum í landinu, það er verið að tengja saman Reykjavík og Keflavík með góðum vegi og það eru að verða aðrar breytingar í vegamálum líka. Við höfum séð alveg gríðarlega þróun hvað varðar flugið á undanförnum árum, flugið hefur bókstaflega verið að hrapa niður. Ætli það væri nú ekki rétt að menn hinkruðu svolítið við því að það stendur ekki til þess að rúlla flugvellinum upp og fara með hann á næstu dögum. Ætli það væri nú ekki rétt að leyfa sér að skyggnast svolítið inn í framtíðina betur hvað varðar þróun flugs á Íslandi áður en menn gleyma sér gjörsamlega í átökum um það hvert flugvöllurinn eigi nú að fara, eins og hefur verið núna undanfarið. Mér finnst sú umræða ekki tímabær með þeim hætti sem hún hefur verið að undanförnu.[15:34]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki skilið hvernig þingmenn geta talað um það sem eitthvað lítið að hægt sé að stytta jafnfjölfarna leið og milli Akureyrar og Reykjavíkur um 40 km. Það er ekkert lítið, það er mjög mikið. Ég skil ekki að menn séu að gera lítið úr því.

Ég vil í annan stað segja að ég áttaði mig heldur ekki á því sem hv. þingmaður sagði þegar hann talaði um að stytting leiðarinnar frá Akureyri eða Skagafirði í Borgarfjörð kæmi ekki að nógu miklum notum nema vegur yrði lagður um Kaldadal til Reykjavíkur um Þingvöll. Sá vegur er til. Hótelbílar komast þá leið, einkabílar komast þá leið. En með því að byggja upp Uxahryggi er verið að beina umferðinni frá Húsafelli sem auðvitað skaðar þá ferðaþjónustu sem þar er verið að reyna að byggja upp. En ég er að tala um það að með því að leggja veg frá Húsafelli til Skagafjarðar yrði þar mjög mikil miðstöð ferðaþjónustu og mundi opna fyrir margvíslega möguleika í tengslum við jökulinn og alla þá jökla sem þar eru og allar þær miklu náttúruminjar sem þarna eru. Þá er ég að tala um Langjökul, ég er að tala um Surtshelli, ég er að tala um Arnarvatnsheiði og þar fram eftir götunum þannig að ég er að tala fyrir því að auka möguleika Vesturlands í ferðaþjónustunni. Ég er undrandi á því að þingmenn Vesturlands taka ekki undir þegar ég er að vekja máls á þessu.[15:36]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki lítið úr 40 km styttingu milli Akureyrar og Reykjavíkur en hún verður kannski ekki eins mikil og hv. þingmaður er að tala um ef tekið er tillit til þeirrar styttingar sem gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda á þjóðvegi 1, sem eru kringum 25 km eftir því sem ég kemst næst. (HBl: Þetta er ...) Og síðan finnst mér eins og hv. þingmaður sé að renna sér fram hjá því að auðvitað verður þessi stytting að verða meiri. Það kom greinilega fram frá hendi forsvarsmanna þessarar leiðar þegar þeir kynntu hugmyndir sínar að þeir gerðu alveg ráð fyrir því að ríkið mundi fara í framkvæmdir, endurbætur á hinum hluta leiðarinnar um Þingvallasvæði til Reykjavíkur, þannig að styttingin yrði enn þá meiri. Þá þurfa menn líka að tala um það eins og það er. Það er ekki eitthvað sem ég er að vísa út í hafsauga eða eitthvað slíkt en það þýðir ekkert annað en horfast í augu við allan pakkann eins og menn komast stundum að orði. Ég geri ekkert lítið úr því að vegur um þetta svæði muni auka möguleika þegar þar að kemur. Spurningin er ekki um það heldur þá forgangsröðun sem við höfum í vegagerð á Íslandi og hvort þessi hugmynd sem hér er sett fram sé raunhæf núna, á næstu árum.[15:38]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í samþykktri samgönguáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að byggja fullkominn veg eftir stöðlum Evrópusambandsins frá Þingvöllum að Húsafelli. Það er í samgönguáætlun þannig að þetta er ekkert sem ég er að finna upp og er rétt að lesa samgönguáætlun áður en menn fara að tala um hana.

Um hitt vil ég segja að hv. þingmaður sagði að eftir því sem hann best vissi væru uppi hugmyndir um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 25 km. Nú veit ég ekki hvað hann hefur í huga en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef liggur fyrir að hægt er að stytta hringveginn milli Reykjavíkur og Akureyrar um 12 km með því að fara sunnan Blönduóss. Það er kannski það sem hann er að leggja til, að færa hringveginn yfir á Svínvetningabraut þannig að Blönduós verði ekki lengur á hringveginum. Það er það sem hv. þingmaður er að mæla fyrir sérstaklega. Það er ágætt að fá það fram. Þá veit maður að hv. þingmaður vill ekki að hringvegurinn sé á þeim slóðum. En ef Sundabrautin er inni í þeim 25 km sem hv. þingmaður er að tala um þá vill nú svo til að sá hluti styttingarinnar kemur líka til góða ef farið er um Borgarfjörð og Stórasand, svo það er ekki hægt að bera hlutina þannig saman. Þá er styttingin um Stórasand eftir því ekki 40 km heldur 55, kannski 53–55 km miðað við hringveginn. Því er rétt að fara rétt með tölur. Það er auðvitað alltaf hægt að leika sér að þeim og snúa upp nýjum og nýjum hliðum ef menn eru á móti máli en það er best að tala skýrt. Á leiðinni frá Hvalfjarðargöngum til Akureyrar er engin stytting sem hægt er að tala um nema fara fram hjá Blönduósi. Þá erum við að tala um 12 km, kannski 13. Málið liggur þannig fyrir en ef farinn yrði Stórisandur erum við að tala um 40–42 km.[15:40]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að Vegagerðin hefur haft uppi hugmyndir um styttingu nálægt Blönduósi. Hún hefur líka haft uppi hugmyndir um breytingu á veginum yfir Holtavörðuheiði og styttingu þar. Það eru fleiri styttingar á leiðinni sem Vegagerðin hefur gert ráð fyrir.

Ég hef ekki talað fyrir þessari styttingu sem þarna er um að ræða. Ég hef hins vegar bent á að það geti verið ástæða til að skoða það hvort breyta eigi þjóðvegi 1 þannig að hann liggi um hlaðið á öllum helstu þéttbýlisstöðum á Norðurlandi og með veggöngum í gegnum Tröllaskaga. Hv. þingmaður þarf því ekki að vera með neinar aðdróttanir að mér hvað þessa hluti varðar.

Mér finnst hins vegar að hér sé talað öðruvísi en forsvarsmenn þeirra sem komu í fjölmiðla og lýstu þessari framkvæmd töluðu í sumar. Það vekur auðvitað athygli mína vegna þess að það var alveg augljóst af orðum þeirra að þeir töldu að það þyrfti að fara í þessa framkvæmd og ætti að fara í hana innan þriggja ára, ef ég man rétt. Og til þess að sú framkvæmd komi að notum er alveg augljóst mál að það þarf að fara í verulega framkvæmdir aðrar sem viðkomandi talsmaður dró ekki neina dul á að þyrfti að gera. Um þetta þurfa menn auðvitað að tala hreinskilnislega þegar verið er að leggja til stórar og dýrar framkvæmdir og líka hvernig vegakerfið mun líta út í framtíðinni, að hverju menn stefna í því. Á það hefur vantað að menn hafi haft langtímaáætlanir í vegagerð þar sem menn hafa horft nokkra áratugi fram í tímann til að hjálpa sér við að taka ekki vitlausar ákvarðanir eins og hefur borið á á undanförnum árum.[15:42]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að gera ágætlega grein fyrir tillögu sinni um vegaframkvæmdir þó að ég verði að deila því með þingheimi að sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að sú tillaga sé einhver versta hugmynd um vegaframkvæmdir sem fram hefur komið lengi.

Ég vil í upphafi máls míns fá að fagna þeirri uppgjöf sem kemur fram hjá tillöguflytjendum hvað varðar staðsetningu innanlandsflugvallar í Reykjavík, og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vakti athygli á að þar er nánast horfst í augu við þann óumflýjanlega veruleika að ungum kynslóðum í höfuðborginni verði fengin Vatnsmýrin til búsetu og atvinnu á komandi árum og áratugum, að innanlandsflugið flytjist eðlilega til Keflavíkur. Vissulega er fagnaðarefni að hv. þm. Halldór Blöndal og meðflutningsmenn hans séu smátt og smátt að gera sér grein fyrir þessum óumflýjanlega veruleika. Það verður þó að hafna þeirri fullyrðingu að það þýði að innanlandsflugið leggist af. Það hefur komið fram áður hjá forstjóra innanlandsflugsins að flutningur þess til Keflavíkur kunni að leiða til 30% samdráttar í fluginu og þó það kunni að vera nokkuð umhendis eru það auðvitað engin endalok fyrir innanlandsflugið.

Sú tillaga sem hér er uppi um vegagerð yfir Stórasand var flutt áður á síðasta þingi og kynnt í almennri umræðu eins og fram hefur komið. Ég held að skemmst sé frá því að segja að sú hugmynd hafi meira og minna sokkið eins og steinn til botns eða a.m.k. fallið í ákaflega grýtta jörð og að hún sé að flestra áliti nú um stundir óraunhæf hugmynd, enda er það ekki svo að hér nenni margir til umræðunnar. Við stöndum frammi fyrir þunnskipuðum þingsal og heldur lítill áhugi orðið á þessum vegagerðarhugmyndum eftir að þær hafa fengið almenna umræðu. Fyrir því eru eins og ég segi margar ástæður. Ein þeirra er sú að vegstæðið sem verið er að leggja til er illa þekkt og lítið kannað á Stórasandi m.a. hvað veðurfar varðar. Það er auðvitað ekki tilviljun að þar uppi eru litlar gróðurvinjar að finna. Það gerir veðráttan í landinu og þau hörðu öfl sem hafa leikið landið þar og geta náttúrlega leikið vegfarendur með sama hætti. Það er takmarkað gagn að styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur ef hún liggur um veðravíti sem vegna slíkra aðstæðna er stóran hluta ársins torfarnari og seinfarnari þó að hún sé styttri í kílómetrum en leiðir niðri á láglendinu í minni hæð yfir hálendið.

Í öðru lagi er, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur bent á, það að nefna að það liggja fyrir ýmsir þættir sem geta orðið til þess að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar á núverandi leið sem eru miklu kostnaðarminni og óumdeildari og liggja um þekktari svæði heldur en þessi og eru því miklu nærtækari.

Í þriðja lagi er rétt að nefna að við stöndum frammi fyrir margvíslegum vegaframkvæmdum sem hljóta að vera miklu framar í forgangsröðinni en þessi.

Í fjórða lagi féll hugmyndin meira og minna í grýtta jörð vegna þeirrar staðreyndar að ef í þá veglagningu yrði farið, og síðan um Þingvöll eins og lýst hefur verið, mundu menn sneiða þessa flutningsleið fram hjá stórum hluta Vesturlands og Norðurlands vestra. Það er auðvitað vond byggðastefna að einangra þau svæði, sérstaklega Norðurland vestra, meira í samgöngum með því að reyna að sneiða hjá því landsvæði. Nær væri að byggja leiðina upp og stytta hana þar sem hún nú er. Það væri nærtækara, a.m.k. um nánustu framtíð.

Í fimmta lagi hafa menn náttúrlega séð ýmsa annmarka á því að beina þungaflutningum sérstaklega um Þingvelli. Þótt það sé rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að viðbúið sé að umferð sumarhúsaeigenda á Laugarvatni muni í ríkari mæli fara um Þingvöll og þjóðgarðssvæðið á næstu árum, með vegabótum sem þar verða, þá er sú umferð náttúrlega annars eðlis en meginflutningabraut til Akureyrar með þeirri þungaflutningaumferð sem menn þekkja af þjóðvegunum, eftir að sjóflutningar hafa meira og minna lagst af og kvartað hefur verið undan.

Í sjötta og síðasta lagi, sem er þó ekki minnst um vert, held ég að það hafi mætt allnokkurri andstöðu að ætla að malbika yfir Arnarvatnsheiðina vöruflutningabraut til Akureyrar þar sem fari um þungaflutningabifreiðar með vöruflutninga til þess þéttbýla staðar. Það eru sannarlega miklar ranghugmyndir ef menn telja að veiðivötnin á Arnarvatnsheiðinni verði sérstök ferðamannaparadís við að leggja vöruflutningaleiðir yfir þau ósnortnu víðerni og þá fallegu náttúru. Það er nánast klám, virðulegur forseti, að fara með ljóð Jónasar Hallgrímssonar undir slíkum tillöguflutningi. Ég held a.m.k. ekki að skáldið hafi haft í huga tíu hjóla trukka þegar hann orti um klárinn eða fákinn, eftir atvikum, sem beita mætti á Arnarvatnsheiði. Sannarlega yrði því svæði enginn greiði gerður með slíkri umferð þar yfir um þótt það kynni að stytta vöruflutningaleiðina til Akureyrar og að um óviss veðrasvæði sé að fara stóran hluta árs.

Þegar ég sá þennan tillöguflutning hv. þingmanns fyrr á þessu kjörtímabili flutti ég með ýmsum öðrum tillögu til þingsályktunar um friðun Arnarvatnsheiðar. Ég tel að það sé kannski stærsta eyðan sem við höfum í náttúruverndaráætlun fyrir þetta land okkar, að sú mikla náttúruperla sem Arnarvatnsheiðin er skuli ekki löngu orðin friðlýst. Hún er einstæð í allri sinni dýrð og þangað er mikla unun og skjól að sækja úr amstri hversdagslífsins. Svæðið hefur mikla sérstöðu fyrir fólk úr öðrum löndum og heimsálfum og vafalaust, ef rétt er að staðið, mun vaxandi áhugi á að sækja þangað eftir því sem samgöngur við Húsafell og það svæði héðan frá höfuðborginni batna.

Virðulegi forseti. Ég held að þeirri hugmynd sem hér er mælt fyrir hafi sem betur fer verið hafnað í hinni almennu umræðu. En það hefur verið gaman að fylgjast með þingreyndum hv. þm. Halldóri Blöndal reyna að sveigja hjá og neita því að þetta snerti nokkuð Þingvelli og Norðvesturland. Það hefur verið fimlega gert en árangurslaust að ég held.[15:50]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti fróðlegt að hlusta á veðurlýsingar hv. 5. þm. Reykv. n., Helga Hjörvar, af Stórasandi. Ég geri ráð fyrir því að honum sé kunnugt um að það hafa farið fram athuganir á veðráttu á tveimur stöðum á þessari leið. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi kynnt sér niðurstöður af þeim athugunum vegna þess að hann ræddi svo kunnuglega um veðurfarið á þeim slóðum.

Nú er það svo eftir þeim upplýsingum sem ég hef — ég vil þó taka fram, frú forseti, að ekki liggur fyrir nákvæm úrvinnsla á þeim gögnum — virðist liggja fyrir að í sumum tilvikum sé veður á Stórasandi ekki verra en á Holtavörðuheiði eða Öxnadalsheiði, jafnvel betra og stundum er það svipað. Fyrir kemur einnig að það er verra þannig að þetta er svona upp og ofan. En samkvæmt, við skulum segja þeirri ófullkomnu vitneskju sem nú liggur fyrir er ekki ástæða til að gera mikið úr þessu.

En ég vil líka að þingheimur viti að ég beitti mér sérstaklega fyrir því að slíkar veðurathuganir yrðu gerðar á Stórasandi. Það er nauðsynlegt að vegagerðarmenn átti sig á því hvort þar sé byljasamt eða ekki og um hvaða svæði er að fara. Ég ræddi þetta mál einnig við fyrrverandi veðurstofustjóra og hann var þeirrar skoðunar að þessi vegur lægi það langt frá fjöllum og jöklum að ekki væri við því að búast að þar yrði byljótt. Þetta tók ég mjög nákvæmlega fram í framsöguræðu minni. En í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er einmitt lögð áhersla á að nauðsynlegt sé að framkvæma verulegar rannsóknir og mælingar áður en ráðist yrði í nokkrar framkvæmdir á þessari leið.[15:53]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þær upplýsingar sem hann veitti um hinar takmörkuðu mælingar og ófullnægjandi upplýsingar, sem hann sjálfur lýsti með þeim orðum, og þær getgátur um þær veðuraðstæður sem hann setti fram.

Ég held að í máli þingmannsins komi ákaflega glögglega fram að því miður, ég veit þó ekki hvort það orðalag á sérlega við, sé sannarlega langt í frá að veðurfar á þessum slóðum sé nægilega þekkt til að hafa uppi yfir höfuð nokkurn tillöguflutning um veglagningu af þessu tagi, hvað þá að ráðast í mikinn kostnað við undirbúning slíkra framkvæmda. Málið er þegar af þeirri ástæðu fullkomlega ófullnægjandi og ófullburða en auðvitað eru fjölmargar aðrar ástæður ríkulegar til að hafna þessum hugmyndum og snúa sér kannski fremur af því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi, að ljúka almennilegri vegagerð um Kjalveg.[15:54]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðari ræða hv. þingmanns er fyrir margra hluta sakir mjög einkennandi fyrir málflutning hans yfirleitt. Hér mælti ég fyrir tillögu um að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum áður en ráðist yrði í veg yfir Stórasand. Aðalárásarefni hv. þingmanns var að þessar rannsóknir skyldu ekki þegar hafa verið unnar. Auðvitað er tillaga um að ráðast í rannsóknir flutt vegna þess að fullnægjandi rannsóknir liggja ekki fyrir. Þetta er svo einfalt, hv. þingmaður. Ég held að það sé óþarfi að vera með einhverjar dylgjur í því sambandi. Ég held að það sé rétt að ræða mál sem hér eru flutt á þeim forsendum, á þeim grunni, sem þau eru flutt en ekki slá úr og í og þykjast búa yfir upplýsingum sem viðkomandi þingmaður hefur ekki, eins og hann gerði í þessum umræðum. Hann hefur ekki hugmynd um það sem hann er að tala um þegar hann fjallar um veðurfar á Stórasandi.

Í annan stað var fróðlegt að heyra hv. þingmann tala um að hann væri andvígur því að leggja þungaflutningaveg yfir Arnarvatnsheiði. Hver er að tala um það? Er einhver að tala um að leggja veg yfir Arnarvatnsheiði? Ég kannast ekki við það. Hér erum við að tala um að fara Hallmundarhraun yfir á Stórasand. En á hinn bóginn er vegurinn yfir Arnarvatnsheiði, Arnarvatnshæðir, í vegalögum og er þá komið niður í Miðfjörð. Má vera að hv. þingmaður sjái fyrir sér mikinn veg þangað niður eftir. Ekki er það mín tillaga.

Aftur á móti vil ég að lokum taka fram að ég geri ekki ráð fyrir að þungaflutningar verði leyfðir um Þingvöll þótt farinn verði Kjölur, þannig að sá þáttur ræðu hans var út í hött.[15:56]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að hv. þm. Halldóri Blöndal þyki ræða mín út í hött, svo mjög sem tillöguflutningurinn allur hefur í umræðunni almennt verið talinn út í hött og fullkomlega ófullburða. Ég held að sem betur fer sé þessi framkvæmd öll slegin af, enda hafa menn ekki aðeins athugasemdir sem lúta að veðurfarinu heldur er við hana auðvitað fjölmargar athugasemdir að hafa: Hvernig Þingvöllur væri með þessum hætti leikinn. Hvernig veglagning yfir sunnanverða Arnarvatnsheiði mundi fara með þá náttúruperlu og þingmaðurinn getur ekki vikið sér undan því að vegarhugmynd hans á að liggja þar um. Að byggðir bæði á Norðvesturlandi og Vesturlandi yrðu einangraðar frá meginflutningsleiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hver yrði kostnaðurinn og væri ekki hægt að skoða fremur allan þann fjölda styttinga á leiðinni sem væri miklu hagkvæmari og nærtækari. Allt leggst þetta á eitt um að gera þessa hugmynd hv. þingmanns fullkomlega óraunhæfa.

Ég treysti því að hún muni einfaldlega fá þá umsögn í meðhöndlun samgöngunefndar og aldrei koma aftur til neinnar alvöruafgreiðslu í þinginu enda, eins og ég hef áður sagt, greinilegt á skipan salarins að hér er enginn áhugi á málinu. Það er lítil þátttaka í umræðunni og nær engir þingmenn mættir til að fylgjast með umræðunni og telja málið trúlega löngu sjálfdautt.[15:58]Útbýting:

[15:59]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um vegagerð um Stórasand. Hún var líka til umræðu á síðastliðnu þingi og hv. þm. Halldór Blöndal er 1. flutningsmaður hennar. Eins og komið hefur fram í umræðunum er markmiðið með tillögunni að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum til þess að hægt sé að setja veg frá Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar í mat á umhverfisáhrifum, sem sagt undirbúa þessa vegalagningu.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu. Hún er svo fráleit að það liggur við að þetta sé svo alvörugamansemi hjá hv. þingmanni að koma með þetta hér inn en hv. þm. Halldór Blöndal hefur ýmsar hliðar til þess að koma með mál inn í þingið sem mörgum þykja skringileg og allt gott um það. En það er ástæða til að taka þessa umræðu alvarlega ekki síst í ljósi þess hversu mikið er enn óunnið í vegagerð, í byggð á milli staða og um landið. Þess vegna á það að mínu viti að vera fullkomið forgangsmál í allri umræðu um vegamál að ræða allar leiðir til þess að koma þeim vegalagningum áfram. Það er verið að takast á um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, um nauðsynlega jarðgangagerð þannig að hægt sé að komast á milli byggða með eðlilegum hætti, fé til vegagerðar er skorið niður til að slá á þenslu vegna stóriðjuframkvæmda fyrir austan og hér á suðvesturhorninu og vegirnir norður, milli Reykjavíkur og Akureyrar sem hv. þingmanni Halldóri Blöndal eru mjög hugleiknir, sú leið ber engan veginn þá umferð sem henni er nú ætlað að gera og bíður þess að þar verði gert átak. Þá væri eðlilegra að hv. þingmaður legðist þar á sveif og styddi að í þá vegi væri lagt aukið fjármagn.

Þó að engar líkur séu til að tillaga eins og hv. þingmaður flytur um veg um Stórasand verði að raunveruleika og eigi engar forsendur til að verða að raunveruleika, þá skaðar hún þá eðlilegu og samfelldu umræðu sem við eigum að halda hér uppi og þann þrýsting sem á að vera um fullkomna vegagerð á milli staða í byggð, vítt og breitt um landið. Ég hefði viljað sjá hv. þingmann flytja tillögu um hvernig hann mætti standa að því að byggja veginn öflugar upp um Borgarfjörð, norður og austur um Húnavatnssýslur og áfram norður og austur á Akureyri. Hvað með að fara að gera áætlun um að hann verði gerður að hluta til þríbreiður? Við vitum að þessir miklu vöruflutningar með löngum aftanívögnum sem fara um vegina eru bæði stórhættulegir og auk þess eru vegirnir engan veginn gerðir til þess að taka þessa miklu flutninga. Vegurinn er það mjór að á löngum köflum er varla hægt að taka fram úr eða mæta bílum af þessari gerð með eðlilegum hætti. Það er því orðið brýnt að taka á því að byggja upp og vera með skipulagða kafla í veginum norður breikkaða þannig að hægt sé að hleypa umferð með eðlilegum hætti áfram og fram hjá þessum stóru bílum. Þess utan er vegurinn svo burðarlítill og bylgjast undan umferðinni eins og hefur hvað eftir annað verið í umræðum bæði hér á þingi og úti í samfélaginu.

Ég vil líka minnast á strandflutningana en það var dapurt að skipulagðir strandflutningar skyldu að mestu vera látnir lognast út af. Það er að vísu eitt skip sem hefur reynt að halda uppi flutningum á Vestfirði en strandflutningar um sjóinn áttu að vera fastur þáttur í flutningakerfi landsmanna, þar sem flutt er þungavara og stórflutningar sem ekki er brýn nauðsyn að láta koma hratt fram með flutningabílum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt tillögu um að skoða ætti möguleika á strandflutningum á ný, skipulögðum strandflutningum og þeir væru þá boðnir út með líkum hætti og flugið er boðið út. Ef menn telja ekki hægt að stunda það á fullkomnum arðsemisgrundvelli þá er þetta svo mikilvægur liður í flutningastarfseminni, í þjónustunni og ég tala ekki um til að létta sliti af vegum og auka öryggi þar. Þannig að strandflutningar eru kannski í sjálfu sér eitt brýnasta málið að skoða.

Ég hef líka viljað heyra hv. þingmann nefna mikilvægi þess að gera átak í innanhéraðsvegum, vegum sem nú kallast safna- og tengivegir sem hafa algerlega legið eftir í umræðunni og í aðgerðum í vegamálum. Þar er stórt verk óunnið.

Frú forseti. Þessi tillaga hv. þm. Halldórs Blöndals um að efna til umræðu um veg um Stórasand er ekki aðeins ótímabær heldur er hún líka að mínu viti röng í þeirri hugmyndafræði og því skipulagi sem við eigum að vinna eftir varðandi vegasamgöngur í landinu. Að setja þetta inn í umræðuna dregur athyglina frá því sem er brýnt að gera og á að gera. Vegagerð er alvörumál og samgöngumál eru alvörumál en ekkert til að flytja tillögur eins og þá sem hv. þingmaður mælir nú fyrir aftur.[16:07]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og oft kemur hv. 8. þm. Norðvest. Jón Bjarnason inn á ýmsa óvænta punkta. Að sumu leyti get ég verið sammála honum. Það er einkum eitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um.

Nú liggur það fyrir að hæstv. samgönguráðherra hefur lagt áherslu á að það sé forgangverkefni að byggja veginn upp yfir Kjöl og það eigi að ganga á undan öðrum leiðum eins og ég hef skilið hæstv. samgönguráðherra en nú þori ég ekki að ábyrgjast að ég skilji hann rétt. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, ef hann er sammála þeirri áherslu að leggja bundið slitlag á veginn yfir Kjöl, hvort hann líti svo á að rétt sé að sveigja veginn niður í Skagafjörð sunnan Blöndulóns til að stytta leiðina til Norðurlands.[16:08]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má velta öllu mögulegu fyrir sér hafi maður fullar hendur fjár, geti leikið sér eins og manni sýnist með að búið sé að leggja alla þá nauðsynlegu vegi í byggð, gera þá bæra til að taka þá umferð sem þar er, vera búinn að gera örugga vegi á milli og innan héraða, á Vestfjörðum, norður um Strandir, Húnavatnssýslur, Skagafjörð, norður um Norðausturland, Austfirði, upp um Suðurland. Ég tel að verkefnið sem á að takast á við sé alfarið þarna og að ekki eigi að vera að drepa umræðunnni á dreif í þessum efnum.

Það er eðlilegt að það sé góður ferðamannavegur yfir Kjalveg sem er fær að sumrinu og allt gott um það en hin raunverulegu heilsárssamgöngumannvirki eru í byggð.[16:09]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að ég get ekki skilið viðbrögð hv. þingmanns öðruvísi en svo að hann sé andvígur því að byggja upp veginn norður Kjöl eða suður Kjöl eins og nú standa sakir, það sé verkefni sem menn geti hugsað sér einhvern tíma löngu síðar og það er alveg heiðarleg og góð afstaða. Að hugsa sér að Kjölur verði ekki ekinn nema að sumri til, alveg heiðarleg afstaða og ég hef ekkert við það að athuga.

Á hinn bóginn svaraði hv. þingmaður ekki þeirri spurningu minni hvort hann telji eðlilegt að vegur sé lagður frá Kili sunnan Blöndulóns niður í Skagafjörð. Nú er það svo að þeir sem búa frammi í Lýtingsstaðahreppi telja þetta mikið hagsmunamál fyrir sig. Þá má velta fyrir sér hvort hv. þingmaður vilji andartak taka þennan tillöguflutning alvarlega þegar hann horfir til þeirra hagsmuna sem umbjóðendur hans í uppsveitum Skagafjarðar hafa. Það er ekki alltaf hægt að drepa öllum málum á dreif eins og hv. þm. Helgi Hjörvar gerði áðan, misskilja allt eða mistúlka, en auðvitað er ekki hægt að gera annað þegar menn setja sig ekki inn í málin.[16:11]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða snýst að meginhluta til um forgangsröðun og sýn á samgöngur í landinu. Ég ætla hv. þm. Halldóri Blöndal ekki það að hann sé á móti jarðgöngum á Austurlandi eða jarðgöngum gegnum Vaðlaheiði eða jarðgöngum á Vestfjörðum þó að þau séu ekki nefnd í þessari tillögu. Eða að hv. þingmaður sé á móti jarðgöngum á Vestfjörðum og telji mikilvægara að fara í vegalagningu yfir Stórasand ef menn fara út í svona umræðu.

Málið snýst um að fjármagn til vegamála er af skornum skammti. Vegafé er skorið niður, vegáætlun er skorin niður til að þjóna öðrum markmiðum ríkisstjórnarinnar. Brýnum vegaframkvæmdum í byggð á Vestfjörðum, á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi er frestað og þær skornar niður. Þá er það að mínu viti, herra forseti, fullkomlega óábyrgt að koma með svona tillögu inn í umræðuna, eins og hv. þm. Halldór Blöndal gerir, um veg yfir Stórasand og ætla að fara að draga athyglina að henni sérstaklega í ljósi þess hversu er fráleitt það er að ætla að leggja veg yfir Stórasand eins og tillögumaður hefur gert grein fyrir hér í þessari tillögu.[16:13]
Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið gagnleg og vaknað hafa mörg tilefni til að draga fram einstök atriði hennar. Hægt er að ljúka athugasemdum við ræðu eins hv. þingmanns með örfáum orðum. Það var innlegg hv. 5. þm. Reykv. n., Helga Hjörvars, sem mér skilst að nú sé orðinn talsmaður Samfylkingarinnar í efnahagsmálum. Það verður að segjast eins og er að hv. þingmaður hafði ekki sett sig inn í málin og er það kannski ekki í fyrsta skipti sem hann talar um samgöngumál dreifbýlisins af nokkurri vanþekkingu og er ekkert við því að segja. Ef menn vilja tala um samgöngumál dreifbýlis af vanþekkingu þá getur enginn við því gert, herra forseti, og hver þingmaður verður að sníða sér stakk eftir vexti.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ummælum hv. 2. þm. Norðvest., Jóhanns Ársælssonar. Ég áttaði mig ekki á því undir ræðu hans hvað hann var að fara þegar hann ræddi um að hægt væri að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 25 km með öðrum hætti en þeim sem ég hef lagt til og rifjaði upp það sem ég veit um það mál. Nokkuð skýrðist það raunar síðar í andsvari hans. Það er rétt að uppi hafa verið ákveðnar hugmyndir um að færa veginn á Holtavörðuheiði niður í Miðfjörð og ná þannig styttingu um nokkra kílómetra, en ég hygg að menn hafi horfið frá því og það sé ekki talinn skynsamlegur kostur. En ef ég fer rangt með það og upp eru komnar nýjar upplýsingar um að hægt sé að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur verulega með því að færa veginn í Holtavörðuheiði niður í Miðfjörð þá hef ég síður en svo á móti því að það sé athugað nánar.

Það liggur einnig fyrir eins og ég sagði að hægt er að stytta leiðina með því að fara hjá Strjúgi eða einhvers staðar á þeim stöðum yfir Blöndu, kannski 12, kannski 15 km með því að sneiða fram hjá Blönduósi. Ef til vill er hægt að stytta leiðina um 2 km eða svo með því að leggja tilmilljarð eða svo í Skagafirði, sem engum dettur í hug, og er hægt að tína svona til. Að öðru leyti eru engar styttingar mögulegar á þessari leið. Og þegar hv. þingmaður ræddi um að hugur hans stæði til þess að vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur ætti að liggja um sem flesta fjölbýlisstaði á Norðurlandi vestra með jarðgöngum í gegnum Tröllaskaga þá var ég ekki lengur með ef fyrir hv. þingmanni vakti að stytta leiðina milli Akureyri og Reykjavíkur. Auðvitað yrði slíkt til að lengja leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki fara menn í jarðgangagerð til að lengja leiðina. Ég held að það sé einhver misskilningur hjá hv. þingmanni ef hann hyggur að hann geti fengið fylgi við slíkar hugmyndir. Það er auðvitað ekki til í dæminu.

Það sem þetta mál snýst um er hvort við teljum æskilegt að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur eða ekki. Við getum aðeins fært okkur lengra austur á bóginn. Það liggur alveg ljóst fyrir að hægt er að stytta leiðina frá Austurlandi til Reykjavíkur með því að fara Sprengisand, mismikið eftir því hvort maður hugsar sér að fara hringveginn eins og hann er nú, hvort maður hugsar sér að fara sunnan Möðrudalsfjalla og stefna á Garð í Mývatnssveit eða fara jafnvel enn sunnar og þá er hægt að ná fram verulegri styttingu fram yfir það sem nú er.

Ég er þeirrar skoðunar eða þeirrar trúar er réttara að segja því auðvitað veit ég það ekki, það hafa ekki farið fram rannsóknir á því vegstæði, að veður geti verið válynd á Sprengisandi, þar geti verið miklir sviptivindar, veðurhæðin gífurleg í sviptivindunum þannig að slíkt sé varasamt. En eftir sem áður eru uppi miklar kröfur um að þetta verði athugað. Í því sambandi er rætt um að koma niður í Mývatnssveit austan við Sellandafjall og ekki er tími hér til að rekja það nánar.

Ljóst er að þessar umræður munu halda áfram og Austfirðingar munu sækja á um það að stytta leiðina til Reykjavíkur. Það er auðvitað líka hægt að stytta leiðina með Vaðlaheiðargöngum sem þýðir kannski 15–20 km. Þessi tillaga lýtur að því hvort hægt sé að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Málið snýr ekki eingöngu að hagsmunum Akureyringa heldur erum við líka að tala um hvar framtíðarviðskipti Akureyringa verða og hvort þeir munu í vaxandi mæli snúa sér til Austurlands og hugsa sér að Reyðarfjörður verði útskipunarhöfn Norðurlands. Ef það á að vera svo til frambúðar að vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur verði 400 km þá er það deginum ljósara að Akureyringar munu sækja á að þjónusta sig á Austurlandi þegar Evrópusiglingar þaðan eru orðnar öruggar og tíðar eftir að álverið hefur risið. Við vitum þegar að stytting um 15 km er möguleg með göngum í gegnum Vaðlaheiði og síðan er hægt að stytta leiðina meir ef við hugsum okkur nýja veglínu frá Mývatnssveit austur í Jökuldal. Jökulsárbrúin er hvort eð er orðin gömul. Hún hefur ekki fullan burð og þarf að endurnýjast og má vera að vegarstæðið allt komi þá til endurskoðunar.

Þegar t.d. borgarfulltrúi Reykjavíkur eins og Helgi Hjörvar talar í hálfkæringi um þessa tillögu þá er hann beinlínis að tala á móti hagsmunum Hafnasambands Akraness og Reykjavíkur því að auðvitað eru það hagsmunir þess hafnasambands að leiðin til Akureyrar sé sem styst og öruggust til að viðskiptin sæki ekki austur á land. En það virðist sem þeir vinstri menn sem hér taka til máls séu eins og dráttarhestur með skyggni fyrir bæði augu til að hann hafi ekki víðsýni. Þeir sjá ekki nema eina braut og það er sú braut sem þeir vilja fara og skilja ekki að aðrir vilji kannski stytta sér leið eða fara öðruvísi að.

Nú liggur fyrir samkvæmt samgönguáætlun Alþingis að leggja á bundið slitlag yfir Kjalveg. Í þessari tillögu er heldur ekki verið að tala um það að öðru leyti en því að um leið og ákvörðun er tekin um bundið slitlag og vegur samkvæmt kröfum Evrópusambandsins kemur um Kjalveg þá hlýtur hann að sveigja niður í Skagafjörð sunnan Blöndulóns.

Það er alger misskilningur þótt svo hafi virst um hríð að stefna í vegamálum hér á landi takmarkist við Norðvesturkjördæmi. Það er ekki svo. Það eru fleiri byggðarlög á landinu og það verður að horfa til þeirra. Þess vegna er það að Kjalvegur mun sveigja niður í Skagafjörð. Það er mjög undarlegt ef þingmenn Skagfirðinga leggjast gegn því sjálfsagða hagsmunamáli Skagfirðinga og einsdæmi í vegagerð ef þingmenn Borgfirðinga og Skagfirðinga leggjast gegn hagsmunum íbúa í sínu eigin kjördæmi. Er reynsla fyrir því að þingmenn sem haga sér þannig, skilji ekki hverjum klukkan glymur hverju sinni, skilji ekki þarfir kjósenda sinna, vilji ekki hlýða kalli umbjóðenda sinna, slíkir þingmenn halda ekki fylgi lengi. Þess vegna er það að þegar vegurinn er kominn frá Kili þvert yfir Skagafjörð yfir í Norðurárdal þá er ekki nema góður spölur þaðan yfir í Borgarfjörð. Hér er ekki verið að tala um að sá vegur verði kostaður af opinberu fé heldur að um þann veg verði stofnað félag og vegurinn verði fjármagnaður með sama hætti og göngin undir Hvalfjörð.

Mér þykir það líka svolítið merkilegt að margir þeir menn sem sátu á þingi með mér þegar ég var að berjast fyrir Hvalfjarðargöngum, og átti ýmsa andstæðinga í þessum þingsal, og hvöttu mig mjög í því máli skuli ekki skilja að það geti verið nauðsynlegt að ráðast víðar í vegaframkvæmdir en undir Hvalfjörð með einkafjármögnun, og skuli ekki standa á bak við önnur kjördæmi þegar þau eru að stytta leiðina til sín. Því þegar ég tala um það að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur með því að fara Stórasand þá er ég að tala um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um hér um bil nákvæmlega sömu vegalengd eins og fyrir Borgnesinga þegar þeir aka til Reykjavíkur og spara sér að fara fyrir Hvalfjörð. Þá skildu þingmenn Vesturlands það, menn frá Stykkishólmi, Borgarnesi, Arnarstapa og Reykholti skildu þá nauðsynina að stytta um 40 km. Því skyldi maður ætla að slíkir þingmenn skildu líka þegar menn úr öðrum kjördæmum tala um nauðsynina á því að stytta um 40 km.

Þingvellir hafa eðlilega blandast nokkuð inn í þessar umræður en ég er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að setja þá reglu að þungaumferð fari ekki um þjóðgarðinn á Þingvöllum svo það sé alveg ljóst. Á hinn bóginn er margvísleg umferð önnur að sumri til og óhjákvæmilegt að leyfa áætlunarbílum og hópferðabílum að aka um þjóðgarðinn Þingvelli eins og um aðra þjóðgarða og auðvitað einkaaðilum. Mjög mikil umferð og nánast örtröð verður því um Þingvelli ef svo fer að bundið slitlag verði lagt um Kjöl. Þeirri umferð er hægt að bægja að verulegu leyti frá þessum helgistað okkar Íslendinga, heilaga stað, með vegi um Stórasand. Það er kjarni þessa máls og því er það lagt hér til.

Að síðustu vil ég vekja athygli á, herra forseti, að ekki er gert ráð fyrir að ráðast í þessa vegaframkvæmd alveg á næstu árum. Ég geri ráð fyrir að taka muni í það minnsta fimm ár að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum á þessari leið til að hægt sé að hanna veg um svæðið. Kannski þarf lengri tíma til að vinna umhverfismat, um það skal ég ekki segja og um það veit ég ekki. Við erum að tala um vegagerð sem e.t.v. verður ráðist í á öðrum áratug 20. aldar. Við erum með öðrum orðum að horfa langt fram og reyna að gera okkur grein fyrir hvaða möguleika við höfum til að stytta leiðir og auka arðsemi og hagkvæmni í samgöngukerfi landsins.

Ég vil bæta þessu við: Auðvitað kemur fullkominn vegur í Surtshelli. Auðvitað veit hv. þm. Jóhann Ársælsson og hver sem er, hv. þm. Helgi Hjörvar eða hver sem er, að óhjákvæmilegt er að góður vegur komi að Surtshelli. Auðvitað vita þessir þingmenn og allur þingheimur að um leið og almennilegur vegur er kominn í Surtshelli verður ekki staldrað þar við heldur haldið áfram eftir þeim vegi sem lög segja til um niður í Miðfjörð og þá er bara eftir þessi spotti, Stórisandur. Og þá spyr ég: Hvers konar meinbægni er það ef þingmenn úr öðrum kjördæmum vilja sjálfir njóta hagræðingarinnar af því að stytta vegalengdir en um leið og kemur yfir einhver kjördæmamörk þá mega þeir sem austan þeirra búa ekki njóta hagræðisins af styttingu vegalengda og betra samgöngukerfi? Við hljótum að hugsa til alls landsins ef við viljum rísa undir því nafni að vera alþingismenn á Íslandi.[16:28]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það ekki svo að ég hafi lagst gegn þessari tillögu þó að ég telji að það gerist ekki á næstunni sem hér er lagt til. Ég held að þeir sem standa vilja fyrir þessum framkvæmdum muni taka afstöðu til þess á ný þegar þeir sjá hvernig vegamálum verður háttað að öðru leyti og hvort þeir telji fjárhagslega skynsamlegt að fara í þá framkvæmd.

Ég ætla líka að leiðrétta það að ég hafi lagst gegn þeirri leið sem hv. þingmaður nefndi að sveigja Kjalveg ofan í Skagafjörð. Það hef ég ekki sagt og tel fulla ástæðu til að skoða, eins og hv. þingmaður nefndi, að þannig verði staðið að málum.

Ég ætla að koma því á framfæri að þótt menn vilji fara þessa leið mun hún ekki spara í neinu uppbyggingu á þjóðvegi 1 á leiðinni Reykjavík – Akureyri vegna þess að sú leið verður auðvitað að svara þeim þörfum sem þar eru allt árið hvernig sem veðri háttar. Menn munu ekki fara um fjallvegi eins og þann sem hér er lagt til að lagður verði yfir hörðustu vetrarmánuðina og þá þarf þjóðvegur 1 að þjóna þeim flutningum sem um er að ræða.

Loks vil ég koma því að að þegar ég talaði um möguleikana á að láta þjóðveg 1 liggja um byggðarlögin fyrir norðan og í gegnum Tröllaskaga þá er það álíka löng leið og leiðin norður er núna á þjóðvegi 1 samkvæmt þeim athugunum sem gerðar voru á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar í sambandi við skipulag sem þar var unnið.[16:30]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það lengri leið að aka um Sauðárkrók til Reykjavíkur en að sleppa Sauðárkróki og þarf ekki langa útreikninga til að sjá það. Ég vil að það sé alveg ljóst.

Þegar við erum að tala um hörðustu vetrarmánuðina verðum við líka að hafa í huga að hinir hörðu vetrarmánuðir eru mjög mismunandi frá ári til árs. Ég hygg t.d. að þessi tvö síðustu ár sem veðurathuganir hafa verið gerðar á Stórasandi munu leiða það í ljós að vegurinn yrði fær allt árið um kring að heita má, a.m.k. hafa ekki orðið nein válynd veður á þessum árum nema kannski brot úr degi eða dag og dag. En slíkar aftökur geta líka gerst þótt reynt sé að fara um byggð. Við sáum hvað gerðist á Fjarðarhálsi nú um daginn. Þar brast á mikil stórhríð, fárviðri eins og við vitum og er ekki einsdæmi. Ég man eftir öðru slíku og heldur verra en nú var, sennilega 1995, þannig að ef sá gállinn er á honum þá geta auðvitað orðið miklar aftökur og ég geri ráð fyrir því að veðurhæðin sé mun meiri og sviptivindar meiri í nágrenni Reykjavíkur en á Stórasandi án þess að ég geti fullyrt það.[16:32]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi það áðan, ég hafði ekki tíma til að nefna það, að Akureyringar mundu kannski sækjast eftir því að koma sínum flutningum til hafna á Austfjörðum í stað Reykjavíkur. Ég held að það sé svo sem ekki endilega af því slæma en ég hef bundið vonir við að Akureyringar fengju meiri siglingar til sín en nú er og satt að segja átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna þeir sem flytja vörur til landsins, versla með þær og flytja út um landið hafi ekki möguleika á því að hafa vöruhótel á Akureyri og dreifa vörum líka þaðan sem mundi auðvitað spara mikla vöruflutninga á landi. Ég tel að vert væri rannsaka hvort ekki sé hægt að breyta því munstri sem er í gangi hvað varðar flutninga á sjó til landsins þannig að stærstur hluti þeirra vara sem koma til landsins og eiga að fara á t.d. Norðurland og Norðausturland gætu komið að landi annaðhvort á Austfjarðahöfnum eða Akureyri og væri dreift þaðan. Ég held að þessir hlutir gætu hugsanlega breyst til betri áttar en nú er.

Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki á móti því að hægt sé að fara í einkaframkvæmdir á vegum á Íslandi ef þær eru hagkvæmar og harmónera við þá vegi sem er verið að leggja á vegum hins opinbera. Þau viðbrögð sem hafa orðið við þessu máli urðu að hluta til vegna þess að samkvæmt kynningu á því kom mjög skýrt fram að til þess að þetta gæti orðið að veruleika þyrfti að fara í aðrar framkvæmdir sem tengdust því. Þetta var kynnt með allt öðrum hætti en hv. þingmaður talar um núna. Það var talað um að fara í þessar framkvæmdir innan þriggja ára og það kom skýrt fram að menn þyrftu á því að halda að klára vegi um Þingvallaleiðina til Reykjavíkur.[16:34]
Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Tillagan eins og hún var lögð fram í fyrra var ekki um leiðina frá Skagafirði til Þingvalla. Samgönguáætlun samgönguráðherra fjallaði um þann hluta leiðarinnar sem er frá Húsafelli til Þingvalla og er samþykkt á Alþingi þannig að það er ekki inni í þessum tillögum, alls ekki. Það er vegagerð sem þegar hefur verið ákveðin.

Sú nýja vegagerð sem þessi tillaga kallar á er annars vegar upp Hvítársíðuna, nokkur kafli sem hvort eð er verður að leggja og síðan eins og ég sagði vegur sunnan Blöndulóns í Skagafjörð. Það getur vel verið þegar þar kemur sögu eftir fimm, sex eða sjö ár, þegar menn svara þeirri spurningu hvort þeir vilji leggja í þessa framkvæmd sem einkahlutafélag að menn sjái ekkert því til fyrirstöðu að taka alla leiðina úr Skagafirði ef dráttur verður á því að ráðist verði í Kjalveg, um það skal ég ekki segja. Hér er eingöngu um rannsókn að tefla. Ég er að óska eftir því að ráðist verði í fullnægjandi rannsóknir til að menn geti áttað sig á því hvort skynsamlegt sé eða fært að leggja veg um Stórasand í Borgarfjörð úr Skagafirði. Um það snýst þetta mál og annað ekki.

Það kemur hins vegar á óvart t.d. varðandi Vaðlaheiðargöng að menn skulu treysta sér til að fara í þau og fá þá ekki nema 500 millj. úr ríkissjóði. Það er einkaframkvæmd sem mér finnst sjálfsagt að ráðast í fyrst heimamenn vilja bera svo mikinn hluta af byrðinni.