132. löggjafarþing — 27. fundur.
rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, 1. umræða.
stjfrv., 288. mál (vatnsaflsrannsóknir, leyfi o.fl.). — Þskj. 304.

[13:53]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Á síðasta þingi lagði ég fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum sem ætlað var að leysa af hólmi lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Afgreiðslu frumvarpsins var frestað en hins vegar lagði iðnaðarnefnd fram nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem kveðið var á um rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum. Frumvarp iðnaðarnefndar hlaut ekki afgreiðslu en er nú lagt fram að nýju með þeirri breytingu að ákvæði til bráðabirgða er fellt niður.

Í því ákvæði var kveðið á um að iðnaðarráðherra skyldi skipa nefnd sem í ættu sæti fulltrúar allra þingflokka auk þriggja fulltrúa frá Samorku og tveggja fulltrúa sem skipaðir væru af iðnaðarráðherra. Hlutverk nefndarinnar átti að vera að gera tillögur um með hvaða hætti valið er á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laganna og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Í bráðabirgðaákvæðinu var jafnframt kveðið á um að iðnaðarráðherra skyldi skipa starfshóp sérfróðra manna sem skyldi vera nefndinni til aðstoðar við greiningu á atriðum sem máli skipta við val á umsóknum um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laganna. Starfshópurinn hefur nú þegar verið skipaður og mun á næstunni skila áfangaskýrslu. Í kjölfarið verður skipuð nefnd sem mun gera tillögur um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um leyfi á grundvelli laganna.

Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins var samkeppni í vinnslu raforku innleidd hér á landi við gildistöku raforkulaga, nr. 65/2003. Var ráðherra jafnframt veitt vald til að veita virkjunarleyfi á grundvelli laganna en fyrir gildistöku þeirra var vald ráðherra bundið því skilyrði að Alþingi hefði áður með sérstökum heimildarlögum veitt honum heimild til slíks. Fyrir gildistöku raforkulaga hafði Landsvirkjun jafnframt forgang til virkjunar vatnsafls í samræmi við skyldu sína til að sjá öllum sem þess óskuðu fyrir raforku. Nú þegar þessi forgangur Landsvirkjunar er ekki lengur til staðar hafa fleiri orkufyrirtæki sýnt vatnsaflsvirkjunum áhuga. Samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar, öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði. Eru orkufyrirtækin tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist. Er því talið nauðsynlegt að tryggja að aðeins einn aðili fái rannsóknarleyfi á hverju svæði og jafnframt að hann geti fengið rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan ef nýtingar- og virkjunarleyfi er veitt öðrum aðila. Einnig verður að ætla að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að fleiri en einn aðili kosti sams konar rannsóknir á sömu stöðum þegar ljóst er að aðeins einu virkjunarleyfi verður úthlutað.

Í samræmi við framangreint er lagt til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu:

Í fyrsta lagi að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Við þessa breytingu munu ákvæði laganna, einkum ákvæði í III. kafla, um rannsóknir og leit, taka til slíkra rannsókna eftir því sem við á.

Í öðru lagi er samhliða þessu í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að rannsóknarleyfi séu veitt einum aðila með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Dæmi eru um slíkt varðandi jarðhita og líklegt talið að slíkt geti komið upp varðandi rannsóknir á vatnsorku. Er því talið rétt að taka af tvímæli um að heimilt sé að veita rannsóknarleyfi sameiginlega til fleiri en eins aðila standi þeir saman að umsókn og hafi áður gert samkomulag sín á milli um kostnaðarskiptingu.

Loks er í 3. gr. frumvarpsins mælt fyrir um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiða beri sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu. Í 7. gr. gildandi laga er einungis kveðið á um að landeigandi geti krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað sem landeigandi eða aðilar á hans vegum hafi haft af rannsóknum á auðlindum á eignarlandi hans. Rétt er að slíkur endurkröfuréttur eigi við um alla þá sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað á grundvelli þess enda geti rannsóknarniðurstöður nýst nýtingarleyfishafa.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja nánar efni frumvarpsins og vænti þess að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.[13:59]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kemur fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra þá er þetta liður í virkjunar- og stóriðjuáformum iðnaðarráðherra, þ.e. að slá saman í eitt rannsóknarleyfi og virkjunarleyfi á vatnsföllum. Áður fóru menn út í rannsóknir án þess að hafa tryggingu fyrir því að þeir fengju líka virkjunarleyfi, eins og ráðherra hefur gert grein fyrir, en nú á að slá þessu saman þannig að þegar rannsóknarleyfi er veitt er í rauninni verið að veita virkjunarleyfi.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem rekur svona ofboðslega á eftir þessu nú að málið er keyrt með þessu offorsi hér inn í þingið? Ég kalla það offors þegar verið er að troða þessu máli inn í ræður formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. utanríkisráðherra og svo aftur hér. Hvað er það sem rekur á eftir þessu? Hefði ekki verið nær hjá ráðherranum að ræða byggðamál, stöðu Byggðastofnunar? Er það ekki meira knýjandi en álvæðing landsins?

Ég vil því spyrja ráðherrann: Hvaða fljót er það sem liggur svona á að fá virkjunarleyfi fyrir? Eru það jökulvötnin í Skagafirði? Er það Skjálfandafljót? Er það kannski Jökulsá á Fjöllum? Er það Langisjór? Hvaða vötn eru það sem ráðherranum hæstv. liggur nú svo á að fá virkjunarleyfi fyrir? Ég vil fá svör við því, frú forseti.[14:01]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hélt hér ákaflega einkennilega ræðu. Málið er að eins og lögin eru í dag þá fer enginn í rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana, í fyrsta lagi vegna þess að þeir hafa engan forgang um það að fá nýtingarleyfi en kannski enn þá frekar vegna þess að þeir hafa enga vissu fyrir því að fá þann kostnað endurgreiddan sem þeir hafa lagt í rannsóknir , fái þeir ekki nýtingarleyfið þegar þar að kemur. Það ríkir óvissuástand og þess vegna reyndi ég síðastliðinn vetur að bæta úr með því að leggja fram frumvarp í þinginu sem var til umfjöllunar í iðnaðarnefnd en varð ekki afgreitt. Þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi andstyggð á öllum virkjunum má hann ekki reyna að koma í veg fyrir að það séu lög í landinu sem kveði á um hvernig skuli halda á málum í þeim tilfellum sem aðilar vilja fara í rannsóknir vegna hugsanlegra vatnsaflsvirkjana og leggja í þær fjármagn. Það er ómögulegt að hafa þetta eins og þetta er. Mér gengur ekki annað til en að koma málum í það horf sem ég tel algerlega nauðsynlegt upp á framtíðina.[14:03]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki því sem hún var spurð um. Ég spurði: Af hverju liggur svo á að fá þessi virkjunarleyfi? Það kom fram í svari ráðherrans að rannsóknarleyfi er það sama og virkjunarleyfi því að enginn vill fara í rannsóknir nema hafa vissu fyrir því að hann fái líka virkjunarleyfi. (Gripið fram í.) Það kom fram hjá ráðherranum. (Gripið fram í: Nei.)

En ég vil fá svör. Liggur svona á og liggja fyrir beiðnir um rannsóknarleyfi á vötnunum í Skagafirði á Skjálfandafljóti, á Langasjó? Er það þetta sem rekur nú á eftir því að ráðherrann vill setja þetta hér fram fyrir alla aðra umræðu í málaflokkum sem heyra undir atvinnu- og byggðamálaráðherrann? Fram fyrir alla aðra umræðu skal þetta mál keyrt, þ.e. heimild til að ráðstafa virkjunarleyfum í jökulsánum í Skagafirði, í Skjálfandafljóti, í Langasjó. Það er þetta sem er forgangsmál hjá hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Hefðum við ekki viljað sjá hér frekar umræðu um byggðamál, stöðuna þar, um stöðu útflutningsatvinnugreinanna í stóriðjuæði Framsóknarflokksins? Ég krefst þess vegna svara, frú forseti. Er það vegna þess að það þarf að úthluta virkjunarleyfum í jökulsánum í Skagafirði (Gripið fram í.) sem er mesta áhugamál framsóknarmanna greinilega og í Skjálfandafljóti? (Gripið fram í.) (BJJ: Þú átt að lesa frumvarpið.) Ég vil fá svör við þessu. Liggja fyrir beiðnir nú þegar um að fá þessi rannsóknar- og virkjunarleyfi? Er það þess vegna sem ráðherrann er að böðla þessu í gegnum þingið sem lið í stóriðju- og álvæðingu landsins?[14:05]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki kynnt sér þetta mál alveg nægilega vel til að taka þátt hér í umræðu. Þetta mál er því algerlega óviðkomandi hvort fyrir liggja beiðnir í iðnaðarráðuneytinu í sambandi við rannsóknarleyfi. Við erum að fjalla um rannsóknarleyfi. Þetta er lagt til til þess að setja lög í landinu sem varða það hvernig eigi að halda á málum í sambandi við vatnsaflsvirkjanir til framtíðar þar sem núna ríkir ekki lengur sú staða sem var þar til raforkulögin voru samþykkt, þ.e. að Landsvirkjun hafði í raun einokun í sambandi við virkjunarframkvæmdir í vatnsafli. (Gripið fram í.) Nú eru breyttir tímar og nú þurfum við að taka tillit til þess og setja lög í landinu þannig að lífið geti haldið áfram. Það er nefnilega eins og hv. þingmenn Vinstri grænna hræðist öll ný frumvörp sem koma fram á hv. Alþingi. Svo er verið að tala um að eitthvert óðagot sé á iðnaðarráðherranum við að leggja fram frumvarp í þessu skyni. Það er náttúrlega bara út í hött. Það hefði átt að vera búið að taka þetta fyrr á dagskrá og forseti lagði sig fram um það. En það tókst ekki fyrir helgina þar sem hv. þingmenn virtust ekki treysta sér til að taka hér kvöldfund.[14:06]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason beindi fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um hvað lægi á og ekki var að heyra að hæstv. ráðherra vildi svara þessu beint út. Ég held að ég verði að svara fyrir hana. Það sem liggur á er einmitt að til umræðu voru þrjú ný álver. Það eru tvö í byggingu. Því virðist liggja mikið á. Það liggur mjög mikið á í Framsóknarflokknum. Þessu máli er kippt fyrst á dagskrá og það er greinilegt að þetta er algert forgangsverkefni. Ég er á því að það verði að ræða hvað liggi á.

Hæstv. ráðherra segir að verið sé að laga eitthvert óvissuástand. Hvaða óvissuástand er verið að ræða? Það er einhver samkeppni fyrirtækja á raforkumarkaði? Hvaða fyrirtæki eru þetta? Þetta eru fyrirtæki í opinberri eigu. Þetta eru fyrirtæki sem eru í eigu Reykjavíkurborgar annars vegar og ríkisins þannig að það er ekki eins og hæstv. ráðherra ráði ekki neinu. Hún er með sína menn í stjórnum þessara fyrirtækja. Ég sé því ekki að þetta mál eigi að vera í forgangi. Ég hefði talið skipta meginmáli fyrir fólkið í landinu sem borgar rafmagnsreikningana að fá skýringar á því hvers vegna reikningarnir hafa hækkað svo. Mig langar þess vegna að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort við ættum ekki einmitt að ræða þau mál áður en við ræðum þessi mál um einhverja samkeppni opinberra fyrirtækja sem ráðherra hefur í hendi sér hvað gera.[14:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var mikill skaði að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skyldi ekki eyða eins og tveimur mínútum í að rekja sögu þessa máls, fara yfir frumvarp sitt frá því í fyrravetur og viðtökurnar sem það fékk og hver urðu þess endalok. Hæstv. ráðherra skaut sér á bak við það að iðnaðarnefnd, sem var reyndar ekki öll iðnaðarnefnd, ef ég man rétt, heldur meiri hluti hennar, hafi flutt frumvarp eða lagt (Gripið fram í.) fram nýtt frumvarp í framhaldi af því að frumvarpi ráðherrans frá því í fyrravetur hinu stóra var hent. Hæstv. ráðherra hefði kannski átt að rekja það aðeins hvað í þeim málatilbúnaði fékk þvílíka falleinkunn að leitun er að öðru eins í sögunni. Það er leitun að öðru eins í þingsögunni, alla vega á seinni árum, að stjórnarfrumvarp frá einum hæstv. ráðherra hafi fengið jafnhroðalega útreið og frumvarp ráðherrans til laga á þskj. 459 á síðasta löggjafarþingi, um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, fékk.

Ég er hér með umsagnabunkann. Hann er nokkuð myndarlegur, frú forseti. Það er kannski ástæða til að bregða honum upp. Þvílík er falleinkunnin sem málatilbúnaður ráðuneytisins fékk frá velflestum umsagnaraðilum að það þarf að leita lengi, tel ég, til að finna (Gripið fram í.) annað eins. Ég veit það, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ég veit hvaða mál ég er að tala um öfugt við kannski suma aðra. Ég er að vísa í frumvarpið sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram í fyrra og var hent eftir allmikla umfjöllun í iðnaðarnefnd. (Gripið fram í.) Það var eins og formaður iðnaðarnefndar sjálfur vitkaðist í störfum nefndarinnar og bar gæfu til að leggja það til að frumvarpinu yrði hent því það væri ónýtt. Þá var saminn þessi litli kálfur, þessi litli bastarður sem endurgengur svo í lífdagana hér fluttur núna af hæstv. ráðherra. Nú eru þessi ósköp orðin stjórnarfrumvarp og það á að fara mikla fjallabaksleið, vægt til orða tekið, til að ná fram meginmarkmiði ráðherrans. Og hvað er það? Það er að úthluta því sem eftir er af virkjanlegum orkukostum í vatnsafli á Íslandi til orkufyrirtækjanna til að þau geti helgað sér land, geti eyrnamerkt sér þau álitleg vatnsföll og stór sem eftir eru og menn hafa ekki þegar komið klónum í í gegnum það að tryggja sér virkjunarréttinn með samningum við landeigendur, uppkaupum á jörðum eða öðrum slíkum hætti. Þess vegna liggur á. Og hver er rökstuðningur ráðherrans? Það kemur hér fram í greinargerð, með leyfi forseta, að: „samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar,“ — aha! — „öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði.“ — Svo kemur aðalatriði málsins. — „Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu“ — já, þeir eru svona vel upplýstir, þeir eru í svona góðum tengslum við orkufyrirtækin — „hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“

Hér er nokkuð huglægt mat á ferðinni. Iðnaðarráðuneytið er óánægt með að ekki skuli vera enn þá meira í gangi, að menn skuli ekki vera bara komnir í öll vatnsföll sem renna á Íslandi. „Það eru nokkur eftir og þetta gengur ekki. Þið verðið að drífa ykkur líka í Skjálfandafljót, jökulvötnin í Skagafirði, í Hólmsá og þetta sem eftir er og þegar er ekki búið að helga.“

Nú vita menn það að orkufyrirtækin hafa verið hér eins og ónefnd dýrategund hlaupandi um landið og míga utan í aðra hverja þúfu til að helga sér hana. En það standa kannski nokkur út af og það er ekki nógu gott, segir iðnaðarráðuneytið. „Áfram með ykkur.“ En er nokkur vá fyrir dyrum gagnvart t.d. orkuöflun í þágu landsmanna á næstu árum? Nei. Það bíða margir fullrannsakaðir virkjunarkostir í velflestum landshlutum. Það er ekki um það sem þetta snýst. En eigi að keyra öll stóriðjuáformin áfram á fullu og samsíða, kannski þrjú stór álversverkefni í viðbót á næstu fimm til tíu árum, þá þarf auðvitað mikið að gerast. Þá þarf að sópa upp hér um bil öllum virkjunarkostum sem álitlegir eru eftir í vatnsaflinu, líka vegna þess að menn treysta því ekki að jarðhitann sé hægt að taka inn í jafnstórum stökkum og einföldum áföngum eins og sumar áætlanir gera þó ráð fyrir. Það er almennt viðurkennt að heppilegra er að taka jarðhitasvæðin þannig í notkun að það sé byrjað rólega og borað og aflað upplýsinga um svæðin og síðan virkjað í áföngum. Þess vegna treysta menn því ekki að hægt verði að mæta öllum þessum gríðarlegu þörfum, þreföldun til fjórföldun álframleiðslu á Íslandi, að gera Ísland eitt af stærstu álútflutningslöndum heimsins með um 5% heimsframleiðslunnar, ef allt gengi eftir sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins dreymir um. Álvæðing Íslands er hér sem sagt í húfi. (Gripið fram í.) Hér er auðvitað byrjað svo gjörsamlega á öfugum enda að ég hef eiginlega sjaldan séð annað eins í lagasetningu.

Hér tókst að hindra frumvarpið í fyrra (Gripið fram í.) sem er til marks um það sem væntanlega er í vændum ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kemur fram vilja sínum. Ég hef ekki mikla trú á því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi skipt mikið um skoðun. Hvað fólst í þessu frumvarpi? (Gripið fram í.) Í þessu frumvarpi fólst — og það er áfram stefna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins samanber frumvarp til vatnalaga — að leggja undir orkugeirann allt forræði á allri auðlindanýtingu á Íslandi og ýta umhverfisstofnunum og umhverfisaðilum burt. Það var það sem þetta snerist um, þ.e. að leggja t.d. undir orkugeirann, undir iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun vatnið eins og það leggur sig með því að skilgreina vatn í fyrsta skipti í lögum sem jarðræna auðlind og það ekki bara svona rennandi vatn eða stöðuvötn, nei, vatn og aðrar orkulindir sem vinna má úr landi og úr jörðu hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Iðnaðarráðuneytið skal ráða þessu öllu og orkugeirinn hafa þetta á sínu forræði. Og út með umhverfishliðina.

Það var að vonum að stofnanir sem fara með umhverfismál á Íslandi létu ekki bjóða sér þetta og lögðu til, sumar hverjar, að frumvarpinu yrði hent. (Iðnrh.: Þær létu einmitt bjóða sér þetta.) Létu nú aldeilis bjóða sér þetta? Þarf að lesa fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra t.d. upp úr umsögn Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar? Ég veit að vísu að hæstv. umhverfisráðherra var svo stór í stykkinu að ráðast á undirmenn sína og skamma þá fyrir að hafa sjálfstæða skoðun og faglegan metnað og láta ekki bjóða sér hvað sem er í umhverfismálum. En svo langt er búið að lemja þetta lið niður í tíð þessarar ríkisstjórnar með skoðanakúgun og ólýðræðislegum vinnubrögðum fram í fingurgóma að maður hrósar því orðið ef menn standa upp fyrir hönd síns málstaðar og síns fags og láta í sér heyra. Þannig er búið að fara með menn með algeru ofríki þeirra sem keyra áfram stóriðjustefnuna. Náttúrufræðistofnun sagði með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun Íslands telur það mikla vankanta á frumvarpinu að rétt sé að afturkalla það.“

Er þetta að láta bjóða sér frumvarpið, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra? Það var lagt til að frumvarpið yrði afturkallað, það væri ónýtt eins og það legði sig. Það var bent á hvernig verið væri að valta yfir allt sem héti eðlileg aðkoma þeirra sem fara með stjórnsýslu, eftirlit og verndarmál á sviði umhverfis í þessum málatilbúnaði. Hér er gamall fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra og hvað segir hann? Ætlar hann að þegja þunnu hljóði um þessi mál? Ég fer bara að lýsa eftir Samfylkingunni? Hvar er hún í þessum efnum? (ÖS: Umræðan er að byrja.) Þessi vinnubrögð og þessi málatilbúnaður er með endemum. Það þarf einhver að segja það, að frekjan í þessu liði gengur ekki. Það er ekki hægt að láta bjóða sér það uppi á Íslandi á árinu 2005 að nýtingarsjónarmið og græðgi vaði yfir allt og ýti öllu til hliðar sem menn hafa þó verið að reyna að byggja upp og þróa í umhverfismálum, a.m.k. alls staðar annars staðar en þá á Íslandi, síðustu 20–25 ár — kröfur um sjálfbæra nýtingu, sjálfbæra þróun, sjálfbæra framvindu um aðild almennings, umhverfisverndarsamtaka og félagasamtaka að þessum málum. Forneskjan er við völd á Íslandi í þessum efnum. Hvar er Árósasamningurinn, svo dæmi sé tekið? Ísland skrifaði undir hann fyrir löngu en honum er haldið niðri í skúffu af því að ekki má hleypa félagasamtökum og umhverfisverndarsamtökum að þessum málum. Nei, iðnaðarráðuneytið verður að fá að ráða þessu. Umhverfisráðherrar á Íslandi eru svo hafðir í því ömurlega hlutskipti að snúa við þá sjaldan að koma faglegar niðurstöður sem falla náttúrunni í vil eins og hjá Skipulagsstofnun um Kárahnjúka. Hvað er þá gert? Þá er pólitísku handafli beitt og því er snúið við, jafnömurlegt og það er. Svo ætlar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á grundvelli þessa kálfs hér, þessa kálfs- eða kvígufrumvarps, að stytta sér svo hrottalega leið en viðurkenna þó að forsendur til að setja leikreglur í þessum efnum vantar. Það á allt eftir að vinna. En það liggur svo á (Gripið fram í: Af hverju sagðirðu kvígur?) — þetta er nú sama dýrategundin, nautkálfar og kvígur eru hvort tveggja kálfar, ég var að tala um kálf. Hefur hv. þingmaður ekki heyrt þá málvenju að kalla litla útgáfu af einhverju kálf? Lítil rúta er t.d. gjarnan kölluð kálfur. (Gripið fram í.) Lítil rúta er gjarnan kölluð kálfur. (Gripið fram í.) Já, já, hafið það eins og þið viljið.

Ég held að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti að svara því, hverju sætir að ákvæði til bráðabirgða, sem var þó í frumvarpi iðnaðarnefndar í fyrra og var í stóra frumvarpi ráðherrans, er allt í einu fallið brott. Hvað segir í því ákvæði? Það er auðvitað til á prenti þó það hafi tapast niður. Í því segir, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.“

Það er ekki lítið undir. Þessi vinna er sem sagt öll eftir. Það þarf ekki að skipa nefnd í þetta nema allt sé eftir. Hlutverk nefndarinnar sem átti að skipa í framhaldi af lagasetningunni var að vinna verkið sem sagt er að þurfi að vinnast til þess að hægt sé að úthluta rannsóknarleyfum og velja á milli mismunandi aðila á einhverjum málefnalegum forsendum. Sú vinna er enn eftir. Samt ætlar hæstv. ráðherra að fara af stað og úthluta rannsóknarleyfum. Á hverju á að byggja, ef fleiri en tveir sækja um, úr því að allar kríteríur vantar til að velja á milli þeirra? Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.

Þetta segir auðvitað allt sem segja þarf. Það á þá að byrja á þessu og bíða með útgáfu leyfa þangað til, enda liggur ekkert á. Það er engin brýn nauðsyn, það er engin þörf sem kallar á flýtimeðferð þessara mála önnur en stóriðjutrúboð ríkisstjórnarinnar. Það eru margir stórir og smáir virkjunarkostir fullbúnir í landinu. Krafla, það er hægt að stækka hana. Tvær virkjanir í Neðri-Þjórsá, Núpavirkjun og Urriðafossvirkjun, meira og minna tilbúnar. Vatnsfellsvirkjun, komin í gagnið. Virkjun niðri í Sigöldulón tilbúin, bíðum bara. Fleiri stækkunarmöguleikar í jarðvarma, minni vatnsaflsvirkjanir hér og þar í landinu. Þetta er allt saman tilbúið þannig að ekki er orkuskortur fram undan, ekki í þágu almennra þarfa. Þótt hingað kæmu mörg lítil eða meðalstór iðnfyrirtæki sem notuðu 10, 20, 50 megavött af raforku í afli, ekkert vandamál. Miklu meira en nóg af fullrannsökuðum virkjunarkostum sem bíða en ef á að hella yfir þjóðina þremur stórum álverum í viðbót og fara í 1.200–1.400 þúsund tonna álframleiðslu innan kannski 10 ára, þá þarf auðvitað mikið til. Það er eins gott að menn átti sig á því. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þá er hægt að tala um tregðu, þá er hægt að tala um að orkufyrirtækin séu fulltreg í að rannsaka því þá þarf meira og minna að fara í alla virkjunarkosti sem eftir eru á Íslandi og ráðstafa þeim í eitt skipti fyrir öll, binda þá í útsöluverði til 40 ára í álframleiðslu og ekkert annað.

Menn skulu átta sig á því að það er ekki þannig að orkuforðinn í jarðvarma og vatnsafli, eins og hann hefur alla vega hingað til verið reiknaður, sé ótakmarkaður. Það gengur hratt á hann þegar menn byggja risavirkjun af því tagi sem nú er í gangi og menn eru farnir að bera víurnar í nánast öll háhitasvæðin og er nú fátt heilagt í þeim efnum. Ég veit ekki betur en Torfajökulssvæðið, Brennisteinsfjöll og hvaðeina sé allt saman fyrir sjónum virkjunaraflanna um þessar mundir þannig að það er ástæða til að staldra aðeins við það.

Auðvitað á að henda þessum málatilbúnaði eins og hann leggur sig. Hann er algerlega óframbærilegur hvernig sem á hann er litið. Ég hef þó ekki nefnt það sem er kannski að verða mesta hneykslið í þessu öllu saman og það er rammaáætlunin. Hvar er rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma? Áætlunin Maður – nýting – náttúra sem fór ágætlega af stað og þar sem merkileg vinna var unnin, að vísu var þetta verkefni illu heilli á forræði iðnaðarráðuneytisins frá byrjun, en hvar er það núna? Það er náttúrlega með endemum að sami ráðherra og á að heita yfirmaður, og er með rammaáætlunarvinnuna á sínu forræði, skuli taka svo til orða í greinargerð með stjórnarfrumvarpi að það sé óheppilega mikil tregða í orkufyrirtækjunum að vaða af stað á nýjum svæðum á sama tíma og rammaáætlunin er afvelta og ekkert virðist með hana gert.

Muna menn ekki hvað átti að gera með rammaáætluninni? Það átti að fara skipulega yfir alla virkjunarkosti í vatnsafli og jarðvarma og gera það sem við hefðum betur gert fyrir 20–30 árum eins og t.d. Norðmenn. Það stóð til að raða þessu upp, skoða umhverfisáhrifin, skoða framleiðslukostnaðinn og setja upp einhverja skynsamlega áætlun um í hvaða röð við vildum fara í þessa kosti. Hverjir koma best út? Hverjir eru bæði hagkvæmir í byggingu og hafa í för með sér lítil umhverfisáhrif, hverjir eru á hinum endanum? Hverjir eru svo slæmir frá sjónarhóli umhverfisins að það komi aldrei til greina að hrófla við þeim? Þessi vinna er eftir, því miður. Þetta verk er afvelta. Það á kannski að heita að það sé komið í einhvern starfshóp á nýjan leik en það hefur lítið af því frést núna um missira skeið. Hvað segja stjórnvöld við þessu? Hvernig stendur á því að þetta er svona? Hvar er núna hæstv. umhverfisráðherra? Af hverju heyrist ekki múkk frá þeirri hlið málanna? Auðvitað segir þetta allt sem segja þarf um áherslur ríkisstjórnarinnar um það hvað ekki er í forgangi. Það er í forgangi að taka virkjunarkostina á Íslandi eins og þeir leggja sig, sullast í þá alla. Því fyrr því betra, því meira því betra og ráðstafa þeim á útsöluprísum til erlendra álfyrirtækja. Draumurinn mikli um álvæðingu Íslands. Álvæðingu sem komi í staðinn fyrir annað atvinnulíf sem er á harðahlaupum úr landi eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti manna best að vita.

Voru það ekki þekkingarfyrirtækin, hugbúnaðarfyrirtækin, sem funduðu síðast nú í vikunni sem leið. Og hver er staðan þar? Þau fá gylliboð frá útlöndum og gengi krónunnar og aðrar aðstæður hrekja þau úr landi í stórum stíl. Þar á meðal hafa tvö þeirra lagt niður nokkra tugi starfa á Íslandi á allra síðustu vikum, eru flutt til Kanada eða eitthvert.

Þetta er veruleikinn. En hæstv. ríkisstjórn keyrir áfram þennan snjóplóg í gegnum hið almenna atvinnulíf í landinu, ryður til hliðar störfum í sjávarútvegi, störfum í ferðaþjónustu, störfum í framleiðsluiðnaði og störfum í samkeppnisiðnaði og ryður hátækni- og þekkingarfyrirtækjunum úr landi. Ég hef spurt að því áður og get gert það enn: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að standa með Framsóknarflokknum í þessum leiðangri til enda? Ætla menn að standa í brunarústum íslensks atvinnulífs í þágu þessarar stóriðjustefnu? Við skulum bara ræða þessa hluti eins og þeir eru. Stækkun í 460–480 þúsund tonn í Straumsvík, 250 þúsund tonna álver í Helguvík. Yfir 200 þúsund tonna álver á Norðurlandi til viðbótar því að í gær bárust fréttir af því að nú ætli menn að stækka hraðar á Grundartanga en áður stóð til, fara í 220 þúsund tonn strax í lok næsta árs. Við þekkjum stærðina 400 þúsund tonn fyrir austan, eða hvað það nú er, og einhverjar aðrar fabrikkur hefur hæstv. iðnaðarráðherra dreymt um eins og rafskautaverksmiðju í Hvalfirði, alveg sérstaklega félegt fyrirtæki sem tæki sinn skerf af mengunarkvótanum ef í það yrði farið. Þetta eru forgangsverkefnin og öllu er rutt til hliðar í þessa þágu. Menn gera ekkert með sjálfa sig og sínar eigin yfirlýsingar, t.d. eins og svardagann um vinnu að rammaáætlun um Maður – nýting – náttúra. Því er bara hent þegar þess þarf. Virkjunarkostir sem þar áttu að vera undir voru auðvitað teknir út þegar að því kom að einhver vildi virkja þar. Það var t.d. þannig. Kárahnjúkavirkjun var í upphafi inni í þeirri vinnu. Svo er bara ákveðið að ráðast í hana þó að það lægi þegar fyrir í bráðabirgðaniðurstöðum að hún kom verst út, næst á eftir Þjórsárverum og Jökulsá á Fjöllum. Það var meira vert að tveir af þremur kostum þarna voru báðir undir í virkjunaráformum stjórnvalda samtímis því að vinnan fór fram.[14:29]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er kominn langt fram úr sjálfum sér í þessari umræðu og fór langt út fyrir umræðuefnið. Hér er verið að tala um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og snýr sérstaklega að rannsóknarleiðum tengdum vatnsfallsvirkjunum. Hv. þingmaður var kominn út í það að tala um virkjunarleyfi og þrjú álver sem hæstv. ríkisstjórn með hæstv. iðnaðarráðherra í broddi fylkingar ætlaði að reisa jafnvel á 5–10 árum. Hv. þingmaður er að tala gegn betri vitund í þessum efnum. Hann veit það t.d. að samkvæmt Kyoto-bókuninni, sem verður tekin til endurskoðunar árið 2012, höfum við einungis svigrúm til þess að byggja eitt slíkt álver upp á 240 þúsund tonn þannig að hv. þingmaður er að afvegaleiða umræðuna hér og það er ósköp eðlilegt að menn vilji horfa til framtíðar í þessum málaflokki sem öðrum og það er hastarlegt að heyra hv. þingmann tala gegn því að heimaaðilar t.d. í Skagafirði í samstarfi við aðra aðila eigi hugsanlega að geta fengið að rannsaka þær auðlindir sem eru fyrir í héraði, að heimamenn vilji horfa kannski til næstu 10–15 ára í þessum efnum. Það verða ekki reist nein þrjú álver á næstu 5–10 árum og hv. þingmaður veit það vel. Hér er einungis verið að koma til móts við heimamenn á þessum stöðum, að rannsakaðar verði þær auðlindir sem fyrir eru í héraðinu, og það var rangt sem hv. þingmaður sagði áðan um það samkomulag sem hér er í gildi. Öll iðnaðarnefndin flutti það mál á síðasta löggjafarþingi og það var undarlegt að heyra hv. þm. Sigurjón Þórðarson tala hálfpartinn gegn þessu máli áðan þar sem hann var flutningsmaður að tillögunni á síðasta löggjafarþingi. Staðreyndin er sú að Vinstri hreyfingin – grænt framboð var ein flokka hér á þingi á móti því að þetta frumvarp næði fram að ganga á síðasta þingi. Hér er um eðlilegt mál að ræða. Það er eðlilegt að fólk fái að rannsaka þær auðlindir sem fyrir eru á heimasvæði þess.[14:31]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli það sé nú mikið út fyrir efnið að ræða aðeins um stóriðjustefnuna og virkjunaráformin og álversáformin í tengslum við þetta mál? Ætli hv. þingmaður, svo maður noti hans eigin orð, viti ekki betur? Ætli hann tali þar ekki gegn betri vitund? Eða hver er tímapressan? Af hverju liggur svona á? Vill hv. þingmaður útskýra það fyrir mér af hverju liggur svona á? Samt er það ekki á nokkurn hátt tengt neinum áformum um virkjanir eða stóriðju. Nei, nei, þetta er bara rannsóknarmál.

Við skulum átta okkur á því fyrir það fyrsta, hv. þingmaður, að málið snýst um virkjunarrannsóknir. Það á að fara að leggja í mikinn kostnað og það er m.a. verið að tryggja væntanlega virkjunaraðila, festa þá í sessi eða tryggja þeim endurgreiðslu ef svo ólíklega vildi til að þeir fengju ekki virkjunarréttinn. Það er ekki eins og þetta séu grunnrannsóknir bara til að auka við þekkingarforða landsmanna almennt á landafræði, jarðfræði eða náttúrufræði á þessum svæðum. Nei, þetta snýst um virkjunarrannsóknir enda er frumvarpið um þá hluti, eins og hv. þingmaður veit. Svo kemur hv. þingmaður hér og segir að talað sé gegn betri vitund, að í undirbúningi séu þrjú ný álver, eða tvö ný og stórfelld stækkun á einu, og allir hljóti að sjá að það rúmist ekki nema eitt innan Kyoto-bókunarinnar. Þá spyr ég á móti: Er verið að hafa menn að fíflum? Er verið að hafa hina tvo að fíflum? Er ekki svo að þessi áform séu í undirbúningi með iðnaðarráðuneytinu? Það er samningsaðili að undirbúningi, bæði í Helguvík og á Norðurlandi. Er hann þá að leika einhvern gráan leik? Er verið að telja þeim í Straumsvík trú um það í einhverri vitleysu að þeir gætu mögulega fengið að stækka? Við skulum þá fá þá umræðu upp á borðið. Hver af þessum þremur á að fá að fara af stað ef aðeins er pláss fyrir einn? Hvernig á að velja hann úr? Er það fyrstur kemur, fyrstur fær? Við þurfum að fá umræðu um málið eins og það leggur sig og eins og það liggur fyrir. Ef ekki er um að ræða nema eitt álver þá er spurning hvort ekki liggi þá þegar fyrir fullrannsakaðir virkjunarkostir (Forseti hringir.) sem út af fyrir sig nægja því.[14:33]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér á óvart ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, náttúruverndarsinninn sjálfur, hefur ekki vitað hvert svigrúm okkar er innan Kyoto-bókunarinnar þar sem hann var á móti á sínum tíma að við bæðum um einhverjar undanþágur í þeim efnum. Ég man ekki betur. Ég held að hv. þingmaður viti þetta allt saman. Hann reynir að þyrla því upp að á næstu 5–10 árum komi þrjú stór álver hér á landi. Hv. þingmaður sagði áðan að þetta væri allt í pípunum en hann veit að af því getur ekki orðið.

Það er rangt sem hv. þingmaður segir hér að eina áhersluatriði ríkisstjórnarinnar sé stóriðja. Við erum að setja 2,5 milljarða í nýsköpun og styðja við hinar ýmsu greinar. Hv. þingmaður rótar því í gruggugu vatni og drepur umræðunni á dreif. Ég fæ bara ekki séð, hæstv. forseti, hvernig stjórnmálahreyfingin Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur verið á móti því að heimamenn fái rannsakaðar þær auðlindir sem eru á viðkomandi svæði. Svo er það reyndar tilfellið að verði þetta að veruleika er ekki endilega víst að álver verði fyrir valinu. Það eru til fleiri kostir í þeim efnum sem tengjast raforkunotkun hér á landi. Við horfum langt fram í tímann.

Það er beinlínis rangt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir hér um gengi krónunnar. Gengi krónunnar er ekki komið til út af álversframkvæmdum hér á landi. Hv. þingmaður veit það. Það eru 35 milljarðar sem streyma inn í hagkerfið á þessu ári í tengslum við álversframkvæmdir og á meðan eru spákaupmenn að versla með íslensk verðbréf úti í heimi fyrir 130–140 milljarða á miklu skemmri tíma. Við skulum setja þetta í heildarsamhengi en hv. þingmaður virðist ekki hafa mikinn áhuga á því.[14:35]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hin nýja hagfræðikenning Framsóknarflokksins gengur út á það að stóriðjan hafi engin áhrif haft þarna. Það sé allt saman misskilningur hjá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD og okkur hinum eða innlendum hagfræðingum sem hafa haldið slíku fram. Það er hagfræðideild Framsóknarflokksins, undir forustu Birkis J. Jónssonar, sem veit betur. Þetta er allt saman misskilningur. Það eru aðrir hlutir sem settu þetta af stað. Ég held að hv. þingmaður ætti að boða til fundar með Seðlabankanum og útskýra þetta fyrir þeim.

Ég veit vel um þessar mengunarkvótahugmyndir og hef m.a. spurt að því hér, ég held að ég hafi meira að segja nefnt það í síðustu viku í þinginu, hvernig menn ætli að takast á við m.a. þau mál. Ég spurði: Er það þannig að fyrstur kemur, fyrstur fær? Er kapphlaup skollið á milli þessara þriggja eða jafnvel fjögurra aðila? Er það m.a. vegna þess að sá þeirra sem fyrstur kemst í gegn vonast til þess að fá ókeypis mengunarkvóta, að fá að menga óbætt?

Staðreyndin er sú að allir þrír aðilarnir vinna samkvæmt því að áform þeirra geti orðið að veruleika. Það er dálítið sérkennilegt að heyra svo talsmenn stjórnarflokkanna eða Framsóknarflokksins koma hér og segja: Nei, nei, þetta er misskilningur, það er bara pláss fyrir einn. Það getur bara einn farið af stað. Hvernig stendur þá á því að iðnaðarráðuneytið er samningsbundið með fyrirtæki á sínum vegum, Markaðsskrifstofan í eigu iðnaðarráðuneytisins og Útflutningsráðs er aðili að samningum um undirbúning álvers, bæði í Helguvík og á Norðurlandi? Ég hygg að það sé reyndar ekki beinn aðili að stækkunaráformum Alcan í Straumsvík en þau áform eru á fullri ferð og verið var að gefa út starfsleyfi um daginn af hálfu umhverfisráðuneytisins. Allir þessir þrír aðilar eru í þeirri trú að þeir geti farið af stað innan eins til þriggja ára og þess vegna verið tilbúnir með framkvæmdir sínar 2010–2012. Þetta liggur fyrir. Þetta er veruleikinn og ráðuneytið er með í þessu og styður að því er virðist öll þessi áform. Eitthvað gengur því ekki alveg upp hér. Og ég held að það sé ekki ég sem á hér í erfiðleikum eða (Forseti hringir.) sé einhverri mótsögn við sjálfan mig heldur talsmenn stjórnmálaflokks sem svona standa að málum.[14:38]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að rifja upp hvernig þessi mál stóðu í fyrravetur. Það var auðvitað þannig, og flest af því kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að hér voru á ferðinni frumvörp, annars vegar um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og hins vegar frumvarp til vatnalaga. Þá lá líka fyrir að frumvarp um vatnsvernd lægi í drögum hjá umhverfisráðuneytinu. Þessi mál öll eru auðvitað hluti af því að taka vatnalagabálkinn til endurskoðunar. Gagnrýnin á meðferð þessara mála er ekki síst sú að menn skuli ekki hafa unnið heildstætt að þeim þannig að hægt væri að gera sér grein fyrir öllum breytingum sem ættu að gerast og stefnumörkunin væri þá í heilu lagi.

Frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum var ekki nógu vel unnið. Það komu gríðarlega margar athugasemdir við það og iðnaðarnefnd fór yfir þær. Það var samt svo að alveg fram á síðustu daga þingsins var því statt og stöðugt haldið fram að það mál skyldi í gegnum þingið. Okkur sem í nefndinni vorum þótti ekki vel að málum staðið þarna og töldum ómaksins vert að reyna að koma í veg fyrir að mál sem svo illa væri á vegi statt yrði gert að lögum. Það er rétt, það var niðurstaðan að ég tók þátt í því í iðnaðarnefnd, og við samfylkingarmenn, að afgreiða frumvarp um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það var gert sem sáttaleið til þess að losna undan því að málið sem ég nefndi fyrr færi í gegn. Það var ekki svo að við værum ánægð með það sem stóð í þessu frumvarpi og að það uppfyllti vonir okkar um endurskoðun á þessum lögum, því að áhersla okkar í þessum málum hefur t.d. alltaf verið sú að gengið yrði frá því með skýrum hætti hvernig velja ætti á milli aðila til að nýta auðlindir. Ég verð að segja alveg eins og er að meðan ekki liggja fyrir almennilegar niðurstöður um það get ég ekki verið ánægður með stöðu þessara mála. Það er gjörsamlega fráleitt að ákveðið sé með einhvers konar handstýrðum hætti hverjir fái að nýta auðlindir á Íslandi. Það er gjörsamlega óviðunandi.

Ég botna ekkert í stjórnarliðum að þeir skuli ekki hafa meiri metnað hvað þetta varðar en fram kemur ítrekað í lagasetningu á þeirra vegum á undanförnum árum. Auðvitað átti að vinna þessi mál þannig að niðurstaða fengist í þau, niðurstaða sem gæti síðan harmónerað við það að setja auðlindir af þessu tagi inn í stjórnarskrána sem sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Um slíkar auðlindir hlýtur að þurfa að gilda að þar séu almennar reglur þar sem jafnræðis verður gætt gagnvart þeim sem nýta þær og þær geti ótvírætt verið þess vegna áfram í eigu þjóðarinnar um aldur og ævi. Það er auðvitað ekki niðurstaðan ef menn gefa út einhver rannsóknarleyfi sem síðan leiða af sér leyfi á leyfi ofan þar til menn hafa nýtingarleyfi um aldur og eilífð. Þannig er málum háttað hvað varðar nýtingu á jarðhita á Íslandi. Ég segi þess vegna að það sé spurning hversu langt sé hægt ganga í því að standa með stjórnarliðum í þessu máli. Við gerðum það í fyrra vegna þess að við mátum stöðuna svo að ef við gerðum það ekki færi málið í heild í gegn eins og það var lagt fyrir, þ.e. um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum.

Ég vildi segja þetta fyrst en mig langar líka til að ræða málið aðeins í framhaldi af þeim umræðum sem fóru fram hér um álver og stóriðju á Íslandi. Að mínu viti er það svo að iðnaðarráðuneytið og stjórnvöld eru að undirbúa í fullri alvöru þau virkjunaráform og stóriðjuáform sem eru í gangi. Vilji þeirra hefur komið fram, annars vegar til þess að ná því fram að Ísland fái meiri undanþágu en það hefur hvað varðar mengun og hins vegar að innflutningur á mengunarkvóta til þess að framleiða ál á Íslandi verði líka til staðar. Mér finnst menn ekki mega hoppa fram hjá þeirri staðreynd að komið hefur fram hjá þeim sem hér ráða að þetta sé það sem menn vilji. Sú umræða hefur ekki verið tekin hvort Íslendingar séu sammála því að ef hægt væri að fá keyptan mengunarkvóta úti í heimi væri sjálfsagt að koma með hann hingað eða hvort eðlilegt sé að Íslendingar sækist eftir mengunarkvóta sem fengist með meiri undanþágu en nú þegar er til staðar.

Mér finnst það bera vott um að hægri höndin viti ekki alltaf hvað sú vinstri gjörir þegar rætt var um umhverfismat áætlana hér fyrir ekki löngu síðan. Í þeirri lagasetningu er ekki gert ráð fyrir neinni áætlun um stóriðju á Íslandi. Auðvitað ætti ekki síður að vera til einhvers konar áætlun um jafngríðarleg áform og þau sem innifalin eru í vilja ríkisstjórnarflokkanna til stóriðjuframkvæmda á Íslandi. Þau ættu nú aldeilis erindi inn í lagatexta af því tagi sem þar var ræddur en þau eru ekki þar.

Það er auðvitað til marks um að þarna eru misvísandi hlutir á ferðinni. Pólitísk niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna var sem sagt sú að mestu mengunarvandamálin sem fyrirfinnast í áætlunum á vegum stjórnvalda ættu ekki heima í því þingmáli sem þarna var til umræðu, enda er áætlunin ekki til. Er það kannski þannig að svoleiðis fari menn að með umhverfismat áætlana að til að sleppa fram hjá vandamálunum verði bara ekki gerð áætlun á viðkomandi sviði? En auðvitað ætti svo að vera og það er spurning hvort ekki ætti hreinlega að vera lögfest að einhver slík framtíðaráform væru sett í form áætlana og tækju þar með við þeim reglum sem menn setja annars um slíkar áætlanir.

Umræðan um þessi mál var töluvert mikil í fyrra og ég segi eins og er að vegna hennar ímyndaði ég mér að stjórnvöld tækju sig á og færu vel yfir málin. Niðurstaðan yrði síðan sú að reyna að vinna þau heildstætt og sjá til þess að menn gætu haft heildaryfirsýn yfir endurskoðunina á þeim lögum sem ég nefndi áðan og tengjast endurskoðuninni á vatnalögunum gömlu og við fengjum að sjá t.d. vatnsverndarfrumvarpið sem hefur verið marglofað. Ekki er hægt að fá neinar upplýsingar um hvar það mál er í raun og veru statt í dag eða hvenær er von á því. Hér eru menn aftur komnir með það mál sem strandaði í þinginu í vor. Það var kannski vanmat mitt og fleiri að standa að því að flytja það í nefndinni og við hefðum bara átt að treysta því að við gætum stöðvað málið í heilu lagi. Ég er svo sem ekkert viss um að við værum neitt betur sett hvað málið varðar núna þess vegna. Ég óttaðist það töluvert að menn stæðu við þau orð að láta frumvarpið til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum fara í gegnum þingið því að meiri hlutinn á hv. Alþingi hefur nú verið tilbúinn til að ganga undir stjórnvöldum með þeim hætti og maður reiknaði með því að sú yrði niðurstaðan. Ég tel að við þurfum að fá góða umfjöllun um þetta mál í nefndinni núna og úr því að það ekki fór í gegnum þingið í vor gefst betri tími til að skoða það nú.

Það vakti athygli mína og ég ætla ekki að gleyma að nefna það að hv. formaður nefndarinnar í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon taldi að rökin fyrir því að málið þyrfti að komast í gegn væru þau að heimamenn biðu eftir því að fá leyfi til að rannsaka þessi mál. Liggur það fyrir að heimamenn fái þetta leyfi? Sækjast ekki einhverjir aðrir eftir því líka? Hvernig ætlar ráðherrann að skera úr því? Er farið eftir heimilisföngum þegar menn eru að sækja um rannsóknarleyfi? Okkur var a.m.k. ekki gerð grein fyrir að svo væri, heldur ætti að líta á allt aðra hluti en sveitfesti manna eða fyrirtækja þegar verið væri að velja um það hverjir fengju að nýta rannsóknarleyfi. Ég held að hv. formaður nefndarinnar hafi farið svolítið fram úr sjálfum sér að láta sjá á það spil sem datt þarna niður á borðið hjá honum. Það bendir a.m.k. til þess að hann hafi upplýsingar um að heimamenn séu manna líklegastir til þess að fá þetta leyfi. Það væri svo sem eftir öðru að menn væru hér ákveðnir í því hvernig þeir ætluðu að ráðstafa þessum leyfum.

Hæstv. ráðherra hefði átt að beita sér fyrir því að fá niðurstöðu í þessu máli sem er mjög mikilvægt, þ.e. að láta nefndina sem hún skipaði í framhaldi af þessu öllu saman þó svo að lagafrumvarpið væri ekki samþykkt, beita sér fyrir því hvort mögulegt væri að ná fram niðurstöðu í nefndinni þannig að málin kæmust hraðar áfram. Ég tel að nefndarmenn ættu að athuga með að fá að tala við þá sem vinna að þessum málum þannig að hægt sé að átta sig á því hvenær væri hægt að klára þau með tillögum frá þessari nefnd. Ég mælist til þess að það verði eitt af því sem nefndin geri, að ræða við þessa aðila um það hvernig málin eru stödd hjá þeim.

Reyndar ætla ég ekki að gefast upp við að halda því fram að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin eigi að sætta sig við að menn fái að klára þessi mál í heilu lagi og hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er til þess að gera það. Það verður ekki gert nema menn fái að halda utan um allar tillögur sem eiga að koma fram og þá nefni ég enn einu sinni frumvarpið um vatnsvernd sem er í smíðum í umhverfisráðuneytinu.

Ég er ekki sannfærður um það enn að einhverjir hlutir sem ættaðir eru úr vatnatilskipun Evrópusambandsins geti ekki haft áhrif á einhvern hluta af þeim lagasetningum sem menn hafa verið með hér í höndunum í tengslum við endurskoðunina á þessum lagabálki frá 1923.

Það er rétt að mikill áhugi, mikið offors er í því að ná þessum málum fram og skýringar á því hafa ekki komið fram með þeim hætti að það sé a.m.k. hægt að segja að hlutirnir hafi verið sagðir skýrt. Við þingmenn höfum verið látnir um það að ráða í hvað rekur menn áfram. Skoðun mín er sú að það sem reki menn áfram sé að orkufyrirtækin í landinu, stjórnvöld í landinu vilji sjá til þess að orkufyrirtækin verði í stakk búin til að ganga frá samningum um afhendingu raforku sem allra fyrst til þess að stóriðjuáformin fái staðist. Það er ekkert sem liggur á borðinu um að stóriðjufyrirtæki geti fengið að vita með vissu hvenær raforka verður til afhendingar í öll þessi álver.

Ég ætla að gera kröfu um það og tel að ástæða sé til að gera þá kröfu að stjórnvöld komi fram á sjónarsviðið og segi nákvæmlega hvað menn ætla sér. Ef ætlunin er að flytja inn mengunarkvóta þá er eins gott að menn fari að ræða það mál hér á landi. Ef svo er ætlunin að berjast fyrir viðbótarkvóta, viðbót við undanþáguna, er líka ástæða til að menn segi frá því hvað þeir eru að meina. Það þarf að komast á hreint hvaða mengunarský það eru sem stjórnvöld hér á landi eru tilbúin að senda upp í loftið. Það liggur ekkert fyrir. Það liggur hins vegar fyrir að verið er að ræða í fúlustu alvöru við fyrirtæki sem ekki geta farið í þá starfsemi sem um er rætt öðruvísi en að mengunarkvótinn sem er hér til staðar verði stækkaður æðimikið.

Hér á Alþingi þurfa menn auðvitað að vera hreinskilnir við þjóðina um þetta. Ég ætla ekki að fullyrða um niðurstöðu af þeim umræðum sem verða um það mál en það er a.m.k. ekki upp á það bjóðandi að hún fari ekki fram. Það er ekki hægt að bjóða upp á það að ekki sé til einhvers konar stefna og helst ætti hún að heita áætlun í dag þannig að menn geti þá meðhöndlað hana með svipuðum hætti og menn vilja meðhöndla aðra hluti í tengslum við áætlanir. Menn tala um áætlanir vegna samgönguáætlana o.s.frv. Það er ekki síður ástæða til að til sé áætlun um þessi stóriðjuáform.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta núna. Við förum yfir þetta í nefndinni og ég endurtek: Ég ætla ekki að missa þá von að menn komist til vits með þeim hætti að hægt verði að taka á þessum málum heildstætt og með þeirri yfirsýn sem er Alþingi samboðin. Það er ekki samboðið Alþingi að endurskoða svo mikilvægan þátt sem hefur verið í lögum á Íslandi, sem eru vatnalögin frá 1923, öðruvísi en að gengið sé frá málinu í heild.[14:57]Útbýting:

[14:57]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt. Af því að hv. þingmaður lagði mikla áherslu á að samfella þyrfti að vera í hlutunum og óþarft væri, heyrðist mér, að leggja þetta frumvarp fram núna, við ættum að bíða eftir öðrum frumvörpum o.s.frv., þá vildi ég að það kæmi fram að samkvæmt 40. gr. raforkulaga, sem fjallar um veitingu rannsóknarleyfa, segir, með leyfi forseta:

„Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gilda um leyfi til þess að kanna og rannsaka orkulindir til undirbúnings raforkuvinnslu. Auk þeirra skilyrða sem þar eru talin skal umsækjandi um rannsóknarleyfi leggja fram mat á því hvernig tengja megi fyrirhugaða virkjun raforkukerfi landsins.“

Það vantar því inn í lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu ákvæði hvað varðar rannsóknarleyfin sem vísað er til í raforkulögunum. Þess vegna er einmitt samfella í hlutunum. Þetta frumvarp verður að verða að lögum til þess að fullnægja þessu ákvæði í raforkulögum.[14:59]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. ráðherra árétti þetta, ég geri mér grein fyrir þessu. Ég teldi hins vegar að meiri ástæða væri fyrir hæstv. ráðherra að svara því hvers vegna ekki var hægt að vinna hraðar að þessum málum en gert hefur verið úr því að svona mikið liggur á. Nú varð það frumvarp sem var til umfjöllunar í vor ekki að lögum og hæstv. ráðherra hefði þá vegna þess hvernig staðan var kannski getað séð til þess að hér lægi fyrir — og ég óska þá eftir útskýringum á því — hvers vegna svo langan tíma þarf til að undirbúa þessi mál að ekki skuli vera hægt að gera þau betur úr garði en þetta. Ég vonast til að hæstv. ráðherra, ef hún fær þetta mál í gegn, sjái þá til þess að við fáum heildstæða niðurstöðu að öðru leyti hvað þá lagabálka varðar sem ég nefndi.[15:00]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög flókið mál eins og hv. þingmaður veit. Það er ekki einfalt að sjá til enda akkúrat núna. Þess vegna höfum við skipað sérfræðinganefnd sem er að kynna sér hvernig staðið er að þessum hlutum erlendis. Við erum að úthluta takmörkuðum gæðum. Það er augljóst. Og þegar sú sérfræðinganefnd hefur lokið sínu starfi eða er komin lengra með sitt starf þá mun ég skipa nefnd sem þá endanlega mun gera tillögu til ráðherra um það hvernig á málum skuli taka.

En það er mjög mikilvægt að þetta litla frumvarp verði að lögum núna sem allra fyrst vegna þess, eins og ég kom inn á áðan, að vísað er til þeirra í raforkulögunum. Núna ríkir um það alger óvissa hvernig eigi að fara í rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana og það er bara ekki gott, með fullri virðingu fyrir skoðunum vinstri grænna í þessum efnum sem ekkert vilja virkja. En þetta er nú svona.[15:01]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki meiri vá fram undan en sú að gert er ráð fyrir því, eftir því sem ég skil best, að þessi mál verði tilbúin til umfjöllunar á hv. Alþingi á næsta vetri. Ég hefði því haldið að mikið væri í gangi í alls konar virkjunum og öðru slíku. Því ætti ekki að vera nein sérstök vá fyrir dyrum.

Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort hún ætlaði að sjá til þess að menn fengju að horfa yfir sviðið í heilu lagi og fengju í hendurnar önnur frumvörp því að auðvitað hljóta menn í ríkisstjórninni að tala saman. Þó um sé að ræða umhverfisráðuneytið að þessu leyti þá eru menn í sameiningu í þessum ráðuneytum að endurskoða allan vatnalagabálkinn. Það er óþolandi að menn skuli ekki fá að sjá hvaða niðurstöður eru þar á leiðinni áður en lokið er við endurskoðun á þessum lögum.[15:02]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Mig langar að spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson. Hann talaði í ræðu sinni áðan um jafnræði til nýtingar á auðlindunum. Hann talar um að ekki liggi nú mikið á að koma þessu frumvarpi í gegn. Mér fannst hann ekki skilja að heimamenn hvarvetna á landinu hafa áhuga á því að hefja orkufrekan iðnað, bæði fyrir norðan og á Suðurlandi. Er hv. þingmaður að reyna að segja að hér verði ekki hafnar framkvæmdir við ný fyrirtæki annars staðar en í Hvalfirði? Hvalfjörðurinn og kjördæmi hans nýtur þess að fá orku frá öðrum kjördæmum. Er þingmaðurinn að reyna að stuðla að því að nýir staðir geti ekki tekið þátt í orkufrekum iðnaði heldur einungis hans kjördæmi?[15:03]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta svolítið merkileg fyrirspurn. Ég held að alþingismenn hljóti yfirleitt að fjalla um málin hér svona út frá almennum sjónarmiðum. Ég veit ekki betur en að það sé akkúrat þannig eins og hv. þingmaður sagði að raforkan sem þar er um að ræða kemur frá öðrum svæðum en frá heimamönnum.

Ég segi hins vegar eins og er að mér finnst mjög undarlegt að menn skuli vera með einhverjar yfirlýsingar um heimamenn. Ég hef ekki upplýsingar um það hverjir hafa óskað eftir því að fá að rannsaka orkulindir í kringum landið. En það virðist ganga í sölum Alþingis að einhverjir heimamenn séu búnir að sækja um og að það liggi nánast í loftinu að þessir heimamenn fái rannsóknarleyfin. Það er mjög merkilegt. Ég held að full ástæða sé til að menn fari yfir það hvort það sé bara þannig að búið sé að eyrnamerkja þetta allt saman og hverjir eigi að fá rannsóknarleyfin.[15:04]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það voru orð hv. þingmannsins sjálfs þetta með heimamennina. Það sem ég var að spyrja um var að vegna þessa frumvarps þarf auðvitað að rannsaka meir og vinna að undirbúningi frekari rannsókna á orkuvinnslu í landinu og það eru einmitt heimaaðilar sem hafa áhuga á að fá að nota þá orku til atvinnuuppbyggingar í sínum kjördæmum. Það var mín fyrirspurn.

Er hv. þingmaður að reyna að stuðla að því að hálfgerð einokun verði á því hvar orkan verði nýtt?[15:05]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki til þess að ræður mínar hafi verið þannig að menn þurfi að taka þær svona. Ég hef talað um þessi mál með almennum hætti og ég ætlast þá til þess að menn hlusti þá á það sem ég er að segja úr því að þeir eru að veita andsvör. Ég tel að illa hafi verið staðið að endurskoðun á þessum lagabálki, að horfa hefði átt heildstætt yfir allt sviðið við þá endurskoðun. Það er ekki gert. Menn eru hér hlaupandi um með frumvörp og síðan eru björgunarbátarnir settir á flot, eins og þetta frumvarp í raun er, þegar þeir sjá að allt er í strandi.

Ég verð að segja það alveg eins og er að Alþingi á að vanda sig við lagasmíð. Þannig á það að vera. Menn eiga ekki að hlaupa til bara vegna þrýstings frá einstökum aðilum, heimamönnum eða hverjir það nú eru. Hv. formaður nefndarinnar talaði um þessa heimamenn sem biðu eftir því að fá leyfið þannig að þangað sótti ég það. En alþingismenn verða að standa í lappirnar og horfa með almennum hætti á það sem er að gerast.[15:06]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er dálítið hissa á málflutningi hv. þingmanns þar sem við erum að tala um frumvarp sem við lögðum fram í sameiningu á síðasta löggjafarþingi. Það hefur efnislega ekkert breyst og engar aðstæður hafa breyst sem geta valdið því að hv. þingmaður styðji ekki málið í dag. Ég vil ekki trúa því.

En hv. þingmaður hefur vitnað mjög til orða minna um áhuga heimamanna á að auðlindir í heimahéraði verði rannsakaðar. Ég sagði það áðan og það er ekkert leyndarmál að áhugi er m.a. í Skagafirði og Þingeyjarsýslum á því að auðlindir þar verði rannsakaðar. En ég hélt að hv. þingmaður væri það vandur að virðingu sinni að hann mundi ekki leggja mér þau orð í munn að búið væri að úthluta leyfum til heimamanna. Það verða margir um hituna. Ég bið hv. þingmann um að leiðrétta þetta. Það getur vel verið að ég hafi mismælt mig í þeim efnum. Ég hef ekki áttað mig á því. En það verða náttúrlega margir um hituna. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður veit að heimamenn hafa áhuga á að þessi mál verði skoðuð.[15:08]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðstæður hafa breyst. Í vor tók ég þátt í að flytja þetta frumvarp með nefndinni vegna þess að það var svona eina vitið sem var hægt að fá í niðurstöðuna. Stjórnarliðarnir ætluðu sér að koma málinu í gegn í heilu lagi eins og það lá fyrir. Eina leiðin virtist því vera að gera samkomulag við þá um að svona yrði staðið að málum með því að leggja þetta fram. Það fór ekki í gegn þá. Ég ætla ekki að gefa neinar yfirlýsingar um hvaða afstöðu ég tek til þessa máls. Við eigum eftir að ræða það í nefndinni.

Hv. þingmaður á alveg leiðréttingu skilda. Ef hann hefur ekki ætlast til þess að menn skildu þetta þannig að heimamenn ættu að fá úthlutun á þessum rannsóknarleyfum þá hefur það bara verið misskilningur frá minni hendi. Það er þá bara gott að leiðrétta það.[15:09]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef túlkað stefnu flokkanna sem vilja kenna sig við miðjuna í dag, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, þannig að við styðjum skynsamlega nýtingu á náttúruauðlindum þjóðarinnar með skynsömum hætti. Það er alveg ljóst að við förum ekkert í slíka skynsamlega nýtingu ef við rannsökum ekki auðlindirnar. Það verður ekkert vit í því að gefa virkjunarleyfi ef menn hafa ekki rannsakað auðlindirnar. Ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það.

Eins og hæstv. iðnaðarráðherra benti á áðan þá er nauðsynlegt að koma þessu frumvarpi í gegn, sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var flutningsmaður að á síðasta þingi, til þess að menn geti hafið þessar rannsóknir. Því er nauðsynlegt að við komum þessu máli í gegn.[15:10]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að skilja það fyrir nokkru síðan að menn telji nauðsynlegt að koma þessu máli í gegn. Ég hef hins vegar tekið eftir því að rannsóknir Landsvirkjunar og annarra aðila á svona málum taka langan tíma. Flestar þær rannsóknir taka mörg ár. Ég hélt því satt að segja ekki að menn væru að bjarga sér fyrir horn gagnvart einstökum verkefnum akkúrat núna hvað þessa hluti varðar. Ég er á þeirri skoðun að vel þurfi að fara yfir það í nefndinni hvaða þarfir séu á þessu og hvernig mál eru stödd að öðru leyti, hvenær við eigum von á þeim frumvörpum sem eiga að koma til viðbótar, hvenær niðurstaðan er væntanleg frá nefndinni. Ég ætla satt að segja að vona að hv. formaður nefndarinnar standi með mér og öðrum í því að skoða þessi mál mjög vandlega til að athuga hvort ekki verði hægt að standa að þessu með heildstæðum hætti sem er Alþingi sæmandi.[15:11]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að mikilvægt er að taka þessi mál heildstætt til skoðunar þegar rædd er ráðstöfun á vatni sem auðlind. Því á fyrst að flytja lög sem lúta að vatnsvernd og því að vatn sé í almannaeigu og hafa það, eins og hv. þingmaður minntist á, jafnvel stjórnarskrárbundið.

Hér hefur komið fram að þetta mál er flutt vegna ákveðinna virkjana í Skagafirði og Skjálfandafljóti. Því vil ég spyrja þingmanninn hvort honum finnist að það eigi að vera forgangsréttur að rannsaka þessi vatnsföll til virkjana, til raforkuframleiðslu. Af hverju mega ekki ferðaþjónustuaðilar í Skagafirði t.d. óska eftir að fá að taka jökulsárnar frá fyrir sig til rannsókna (Forseti hringir.) á ferðamannaígildi og náttúrufarsígildi? Af hverju skal raforkuframleiðsla (Forseti hringir.) njóta svona eindregins forgangs?[15:12]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla alls ekki að mótmæla því. Ég tel fulla ástæðu til þess, ef hv. þingmaður er með hugmyndir um breytingar á þessu frumvarpi t.d. eða þeim frumvörpum sem koma vonandi fyrr en seinna og taka á þessu máli heildstætt, að þar inni geti verið möguleikar á leyfi til að fá að rannsaka út frá öðrum sjónarmiðum en orkunýtingar. Menn hafa margs konar önnur not af vatnsföllum. Það getur verið ferðaþjónusta og það getur verið veiðiskapur. Það getur verið ýmislegt fleira sem menn geta haft þar í huga. Það ætti að skoða það vandlega og ég tek bara undir með hv. þingmanni að ekki eigi að útiloka það.[15:13]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir undirtektir við þessi sjónarmið. En það er nú svo, ef við tökum Skagafjarðarfljótin sem dæmi, jökulsárnar í Skagafirði, þá snýst þetta frumvarp um að úthluta þar rannsóknar- og virkjunarleyfum til orkuframleiðslu, til stóriðju. Þetta frumvarp snýst um það. Það fer bara ekki saman við hagsmuni ferðaþjónustuaðilanna eða annarra sem vilja njóta þessara vatnsfalla með öðrum hætti. Ef búið er að virkja eða stífla jökulsárnar í Skagafirði þá stundum við ekki samtímis fljótasiglingar á þeim eða njótum náttúrufegurðar gljúfranna. Þetta fer bara einfaldlega ekki saman.

En þetta frumvarp kveður svo á um að forgangsréttur sé svo til nánast algjör. Ef einhver vill fá að rannsaka þessi vatnsföll með tilliti til raforkuframleiðslu til stóriðju þá skuli það hafa forgang umfram allt annað. Það (Forseti hringir.) finnst mér afar óásættanlegt og ég er viss um að Skagfirðingar eru mér sammála um það hvað varðar jökulvötnin í Skagafirði.[15:14]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vel kann að vera að hv. þingmaður hafi eitthvað fyrir sér í því að búið sé að ákveða eða það liggi fyrir hvað reki menn áfram með þetta frumvarp, þ.e. að það séu einhver tiltekin atriði, tilteknir virkjunarkostir.

Þó svo að ég sé ekki viss um að þau lög sem eru í gildi um umhverfismat á Íslandi séu nægilega góð þá tel ég þó að í þeim felist möguleikar fyrir menn þegar kemur að því að þeir vilji virkja með þessum hætti, að koma þessum sjónarmiðum að og að tekin verði afstaða til þeirra þegar tekin er ákvörðun um hvort viðkomandi vatnsföll verða virkjuð. Þar hljóta önnur not og náttúruvernd að koma til sögu. Ég ætla satt að segja að vona að þessi lög séu ekki svo afburða slöpp hjá okkur að þau geti ekki þar komið við sögu.[15:16]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er til umræðu, frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, kallar á mun yfirgripsmeiri umræðu heldur en frumvarpið sjálft gefur til kynna. Hvers vegna er það svo? Jú, vegna þess að málið er angi af svo miklu stærri og viðameiri heild en fólk gæti haldið við fyrstu sýn. Þingmenn hér í þessum sal hafa verið að reyna að koma hugleiðingum um það í orð, meira og minna allt síðasta þing og aftur núna það sem af er þessu þingi. Ástæðan er sú að hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt hér fram frumvörp sem öll tengjast með einum og öðrum hætti.

Í fyrsta lagi frumvarp til vatnalaga, sem er risastórt mál og fjallað var um hér fyrir skemmstu.

Í öðru lagi, stórt og viðamikið frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi, um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, sem er í raun og veru frumvarp sem ætlað er að taki við af núgildandi lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Eins og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon gat um í ræðu sinni, var hæstv. ráðherra rekinn til baka með það frumvarp, en í staðinn kemur fram þetta frumvarp sem við ræðum hér nú og hæstv. ráðherra reynir að láta líta svo út að hér sé um afskaplega takmarkað mál að ræða sem snerti ekki hið stóra samhengi. En það er náttúrlega ljóst af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar, að það er ekki svo, hæstv. forseti. Þetta mál sem hæstv. ráðherra tekur hér út úr er einn veigamikill angi í hinni stóru heild. Það sem gagnrýnt hefur verið er áfergja hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum, áfergjan í að sölsa undir sig og sitt ráðuneyti, jafnvel málaþætti sem alls ekki eiga þar heima. Það hefur hæstv. ráðherra verið gagnrýndur fyrir í umræðu um vatnalögin, í umræðunni um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og í umræðunni um þetta frumvarp sem við ræðum nú.

Satt að segja held ég að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll verði að fara að átta sig á því að þessi mál verða ekki slitin úr samhengi og það er ekki ásættanlegt, hæstv. iðnaðarráðherra, að þau fari hér í gegn án þess að við fáum á sama tíma í gegnum þingið, mál sem lýtur að verndarhagsmunum þessara sömu auðlinda sem við hér ræðum. Í áraraðir höfum við þingmenn í þessum sal rætt við hæstv. ríkisstjórn um annars vegar nýtingu og hins vegar vernd náttúruauðlindanna. Og hæstv. ráðherrar hafa iðulega, á tyllidögum og jafnvel ekki, fjallað um það í hástemmdu máli að auðvitað þurfi að ná sáttum um þessi mál. Þannig að þeir gera sér auðvitað fulla grein fyrir því að hér er um eitt grundvallardeilumál þjóðarinnar að ræða, eitt af stærstu deilumálum þjóðarinnar, sem þýðir ekki annað en að nálgast núna á heildstæðan hátt og nálgast á þeim nótum að það sé möguleiki að við getum náð einhverjum viðunandi sáttum. Og upphafið er auðvitað að fá að ræða þessa hluti í samhengi. Þess vegna gagnrýni ég það enn og aftur að hér skuli eiga að vaða fram með frumvarp til laga um rannsóknaleyfi á meðan við erum ekki búin einu sinni svo mikið sem að sjá uppkast af frumvarpi sem hæstv. umhverfisráðherra hefur til skoðunar í ráðuneyti sínu sem tengist inn á öll þessi mál, eins og ég hef nú farið yfir. Ég held því að ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér í alvöru að fylgja eftir einhverju af því sem hún hefur sagt varðandi þörfina á að ná sáttum um þessi mál, þurfi hún að temja sér önnur vinnubrögð. Það heyrir sögunni til að fara fram með því offorsi sem hér um ræðir og að slíta hlutina úr tengslum eins og hér er gert.

Hér hefur í ræðum hv. þingmanna sem á undan mér hafa talað verið farið yfir ákveðin grundvallaratriði í þessum málum. Það hefur verið spurt spurninga eins og: Hvað liggur á? Hvaða umsóknir um rannsóknaleyfi liggja fyrir í iðnaðarráðuneytinu? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. iðnaðarráðherra svari því áður en þessi umræða klárast um hvaða vötn sé að ræða í þessu tilfelli. Er hér verið að tala um hugsanlegt rannsóknaleyfi á Skjálfandafljóti? Ég held að öll rannsóknaleyfi á Langasjó séu komin í höfn, þau séu löngu útgefin. Eða er verið að tala um rannsóknarleyfi á Jökulsá á Fjöllum? Það er alveg sannanlegt að Torfajökulssvæðið og Brennisteinsfjöll eru núna orðin fýsileg í hugum þeirra sem vilja sækja um leyfi af þessu tagi. Við sjáum að það er svo langt seilst af orkufyrirtækjunum að það er eins og þau svífist einskis og náttúruverndarsjónarmið komast hvergi nálægt þeirra sjónarmiðum. Og til þess að náttúruverndarsjónarmið geti komast að borðinu á sama tíma og nýtingarhagsmunir eru til umræðu er algerlega nauðsynlegt að fá stofnanir umhverfisráðuneytisins að þessum málum í meira mæli en gert er ráð fyrir hjá hæstv. iðnaðarráðherra.

Ein af spurningunum sem hér hefur verið varpað fram og er þörf á að ítreka, er spurningin um ákvæði til bráðabirgða sem var í frumvarpinu eins og það var lagt fram hér á síðasta þingi í byrjun maí á síðastliðnu vori. Þar var ákvæði til bráðabirgða, sem var reyndar líka í frumvarpi um rannsóknir og nýtingu á jarðefnaauðlindum, þar sem gert var ráð fyrir því að iðnaðarráðherra mundi skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi og jafnframt mundu þar vera fulltrúar frá Samorku. Iðnaðarráðherra átti svo að skipa tvo fulltrúa og hlutverk nefndarinnar átti að vera að gera tillögu um með hvaða hætti valið yrði á milli umsóknar um rannsóknir og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara, þ.e. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sömuleiðis átti þessi nefnd að marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.

Núna bólar ekkert á þessu ákvæði. Það virðist ekki eiga að stofna neina nefnd þar sem fulltrúar allra þingflokka á Alþingi eiga sæti og þar af leiðandi óttast ég að það eigi heldur ekki að marka neina framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Ástæðurnar sem ég hef fyrir efasemdum mínum eru auðvitað margþættar. Ég hef gert grein fyrir ýmsum þeirra úr þessum ræðustóli áður. En fyrst kemur mér auðvitað í hug rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Rammaáætlunin sem hæstv. ríkisstjórn ýtti úr vör 1999, undir yfirskriftinni: Maður, nýting, náttúra. Ríkisstjórnin fékk mikið hól fyrir að ýta þeirri vinnu úr vör. Hún fékk líka hól þegar skýrsla hæstv. iðnaðarráðherra var birt og hæstv. iðnaðarráðherra talaði fyrir henni hér á þingi fyrir einu og hálfu ári, ef ég man rétt. Markmið þessarar rammaáætlunar var, svo notuð séu orð ríkisstjórnarinnar, „að leggja mat á og flokka virkjunarkosti jafnt vatnsafls og háhita, m.a. með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins, hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á að ég gleymdi að biðja um leyfi hæstv. forseta til að vitna í fréttatilkynningu frá hæstv. ríkisstjórn um rammaáætlunina þegar henni var ýtt úr vör. Hún er dagsett 9. mars 1999 og finnst eflaust á vef Stjórnarráðsins enn þann dag í dag ef vel er leitað. Hér átti sannarlega, eins og orðin sem ég hér vitnaði til segja okkur, að búa til einhvers konar framtíðarstefnu um nýtingu og vernd þessara náttúruauðlinda. Hver hefur svo orðið þróunin eða raunin í þeim efnum? Hæstv. ríkisstjórn hefur auðvitað gjaldfellt alla þessa vinnu. Hæstv. iðnaðarráðherra talaði fyrir áfangaskýrslu rammaáætlunarinnar, verkefnisstjórnin sem ég held að hafi verið skipuð 16 manns ef ég man rétt, skilaði af sér gríðarlega viðamikilli skýrslu til hæstv. ráðherra. Við ræddum hana hér á Alþingi og eins og ég sagði áðan, fékk hæstv. iðnaðarráðherra hól fyrir það. En á sama tíma … (Gripið fram í.) Ég var nú bara fyrir skemmstu, hæstv. forseti, að lesa yfir þær ræður sem fluttar voru og ég get jafnvel vitnað til minna eigin orða í þeim efnum, þar sem ég þakkaði hæstv. ráðherra fyrir að hafa flutt yfirgripsmikla ræðu um rannsóknirnar sem fóru fram á vegum vinnuhópanna í rammaáætluninni. Þó svo ég hafi í lokin gagnrýnt hana líka, fyrst og fremst fyrir að ætla ekki að halda áfram með vinnuna á sömu nótum og hún fór af stað. Og gagnrýni mín stendur enn hvað það varðar. Við í þessum sal vitum það svo sem ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp til að halda áfram vinnunni við rammaáætlunina. En í yfirlýsingum hennar hér á Alþingi á 133. þingi, sagði hún að vinnan mundi halda áfram og að einhvers konar verkefnisstjórn yrði sett á laggirnar sem yrði þó fámennari en sú fyrri og gert var ráð fyrir því að annar áfangi rammaáætlunarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma yrði einfaldari í framkvæmd. Ég hef löngum sagt að þar með hafi hæstv. iðnaðarráðherra verið að gengisfella vinnuna sem fór fram við fyrri hluta rammaáætlunarinnar. Ég stend alveg við þá gagnrýni.

En hæstv. iðnaðarráðherra var fagnandi þegar hún fylgdi skýrslunni um rammaáætlunina úr hlaði og kallaði hana tímamótaplagg. Ég get sannarlega tekið undir það með hæstv. ráðherra. Hún var tímamótaplagg. En það sem upp á vantar er auðvitað að hæstv. ríkisstjórn viðurkenni að síðan þurfi að stýra orkunýtingaráætlun okkar út frá þeim niðurstöðum sem liggja fyrir í rammaáætluninni.

En enn þá hefur ekkert verið ákveðið um formlega stöðu rammaáætlunarinnar, nema ég hef svo sem haldið því fram, og það virðist vera ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætli í sjálfu sér ekkert að gera með þær niðurstöður sem verkefnisstjórnin komst að og þessir fjórir faghópar og skýrslan í raun og veru gefur okkur fyrirheit um. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að það er eðlilegt að maður tortryggi hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún kemur hér fram með mál af því tagi sem við ræðum hér nú. Ég hef líka ástæðu til að tortryggja hæstv. ríkisstjórn á grundvelli náttúruverndaráætlunar sem var samþykkt á síðasta þingi þar sem við ákváðum hér í þessum sal, að friðlýsa 14 svæði í nánustu framtíð, sem öll áttu það sammerkt að vera langt í frá nokkur ógn við hagsmuni orkufyrirtækjanna. Á sama tíma var auðvitað stór og mikil krafa frá náttúruverndarfólki um að inn á náttúruverndaráætlun færu ákveðin svæði sem vitað var að orkufyrirtækin ásældust til orkunýtingar. Þannig að það á ekki að vera hæstv. iðnaðarráðherra neitt undrunarefni að mál af þessu tagi komi af stað umræðum sem þessum, það gera þau ævinlega, þau valda átökum og mér liggur við að segja illindum oft og tíðum og mér finnst í rauninni rótin vera sú að ríkisstjórnin fer hér vitlaust að, steypir öllu á stél og neitar að horfa á heildarmyndina. Ef við horfum til þeirra vatnsaflskosta sem niðurstöður verkefnisstjórnar fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar sögðu okkur að væri til staðar, sýnist mér í sjálfu sér að þeir vatnsaflskostir sem eftir eru í virkjanlegu vatnsafli þyki afar fátæklegir. Á þeim lista sem verkefnisstjórnin skilaði af sér í skýrslunni, sýnist mér einungis tvö stærri vatnsföll vera eftir á listanum yfir óvirkjaðar ár. Og hvaða ár eru það? Jú, annars vegar Jökulsá á Fjöllum og hins vegar Hvítá í Árnessýslu. Það er auðvitað ekkert óeðlilegt þótt þingmenn spyrji hvort það séu rannsóknaleyfi út af þessum tveimur ám sem liggja fyrir í hæstv. iðnaðarráðuneyti og hvort það sé þess vegna sem svona mikið liggur á að lögleiða frumvarpið sem hér er til umfjöllunar.

Ég hef líka sagt það áður að mér finnist það ofmat bæði hjá hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórninni allri að það sé eftir svo mikið magn af óráðstöfuðu og óvirkjuðu vatnsafli að það sé í raun og veru eitthvert svigrúm hér. Ég er ekki viss um að þeir sem starfa núna við að gera annan áfanga rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hafi úr miklu að moða í þeim efnum, kannski einhverjum smáám og þá helstu laxveiðiám Íslands. Menn ætla kannski að fara að virkja þær. Orkufyrirtækin eru kannski farin að seilast í þær, eða hvað? Ætla menn að virkja Selá í Vopnafirði, Eystri-Rangá, Vatnsdalsá í Forsæludal eða Hvítá í Árnessýslu? Þar eru bæði efri og neðri hluti mögulegir virkjunarkostir.

Hæstv. forseti. Auðvitað er ekki raunhæft að tala um miklar virkjanir í vatnsaflinu, það sem eftir stendur er ekki það bitastætt í sjálfu sér nema hæstv. ríkisstjórn ætli að fórna einhverjum af okkar alstærstu og dýrmætustu náttúruauðlindum.

Eins og komið hefur fram í umræðunni, hæstv. forseti, er krafa þingmanna auðvitað sú að hér séu hagsmunir allra þátta vegnir saman, nýtingarþættir og náttúruverndarþættir. Það er óásættanlegt að keyra áfram þrjú veigamikil frumvörp um orkunýtingu án þess að við fáum á sama tíma að fjalla um verndarhagsmunina sem þau sömu mál í raun og veru tengjast.

Það er líka óásættanlegt að hæstv. iðnaðarráðherra skuli setja fram frumvörp þar sem hún talar eins og umhverfisráðuneytið sé búið að sætta sig við allt sem í málum hennar er fólgið. Hæstv. umhverfisráðherra lætur ekki svo lítið að vera við þessa umræðu sem auðvitað væri eðlilegt vitandi hversu miklar deilur eru um þessi mál og vitandi að frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum fól í sér að gríðarlega stór hluti af málefnum umhverfisráðuneytisins yrði settur undir iðnaðarráðuneytið. Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að hæstv. umhverfisráðherra ætli ekkert að berjast í þessum efnum fyrir þeim málaflokki sem henni var falinn í ríkisstjórninni. Ég sé ekki betur en að hæstv. iðnaðarráðherra telji það vera eðlilegt að allt vatn í samfelldu og viðvarandi vatnslagi í vatnsmettuðum jarðlögum, grunnvatn og yfirborðsvatn, orkulindir allar, hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs, eigi bara að heyra gagnrýnislaust undir iðnaðarráðuneytið. Og ekki einasta það heldur allur jarðvarmaforðinn í jarðlögunum, varmastraumur úr iðrum jarðar og heitt grunnvatn sem flytur jarðvarmaorku. Svo ætlast hún til að öll gosefni og önnur steinefni, málmar, málmblendingar og málmsteindir, kol, jarðolía, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna á landi og í jörðu heyri undir iðnaðarráðuneytið. Ég sé ekki annað en að hæstv. iðnaðarráðherra sé farin að seilast svo langt út fyrir sitt verksvið að það sé fullkomlega eðlilegt að málflutningur hennar kalli á þá gagnrýni og þau sterku viðbrögð sem raun ber vitni hér.

Ef hæstv. ráðherra væri að ræða um sjálfbæra þróun og sjálfbærni í orkumálum væri ekki sæmandi að fara fram með þau frumvörp sem hér er verið að fara fram með því þá yrði hæstv. ráðherra að viðurkenna að hér séu hlutirnir svo tengdir að þeir þurfi að fylgjast að í gegnum þingið.

Nýafstaðið er umhverfisþing þar sem mjög mikið var talað um orkunýtingu og sjálfbæra þróun og stefnu í orkumálum. Þar bar á góma hugmyndafræðina um sjálfbæra orkustefnu og ég held að væri sómi að því ef hv. alþingismenn fengju að ræða hér hugmyndafræði um sjálfbæra orkustefnu í stað þess að þurfa að ræða nýtingarásælni hæstv. iðnaðarráðherra og ásælni í alla þá málaflokka sem geta tengst nýtingu á jarðrænum auðlindum. Ég sé ekki annað en að hæstv. ráðherra viðurkenni, í orði kveðnu gerði hún það í andsvari, að hér sé um flókin mál að ræða sem þurfi yfirlegu. Hún viðurkenndi að þetta væri flókið mál en á sama tíma virðist hæstv. ráðherra liggja verulega á að gefa út rannsóknarleyfi hægri vinstri eins og frumvarpið sem við ræðum hér á að heimila henni.

Ég spyr: Ef málin eru eins flókin og hæstv. ráðherra lét í skína í ræðu sinni áðan, hvers vegna má þetta mál þá ekki hinkra og fylgjast að með hinum? Hvað er það sem liggur svona á? Hverjir standa og banka, berja á dyr iðnaðarráðuneytisins með hugmyndir eða óskir um að fara að nýta sér möguleikana á að rannsaka vatnsaflið okkar á þeim nótum sem þetta heimildarfrumvarp fjallar um? Ég held að hæstv. ráðherra skuldi okkur það að segja okkur meira. Hvað er það sem hastar? Af hverju liggur svona á?[15:36]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst geta þess í sambandi við rammaáætlun að annar áfangi er hafinn og stefnt er að því að honum ljúki árið 2009. Farið er aðeins öðruvísi í þetta núna en áður. Stýrihópur er starfandi með þremur einstaklingum sem hafa mikla þekkingu á þessum málum. Síðan eru tveir starfshópar, annar fjallar um landslag og hinn um jarðvarmann. Þetta er því allt í gangi. Ég hélt að það hefði komið fram opinberlega en það er þá a.m.k. eins gott að það komi fram.

Af hverju liggur svona mikið á? spyr hv. þingmaður. Þá vil ég geta þess að m.a. í tengslum við rammaáætlun skiptir máli að orkufyrirtækin rannsaki. Það var þannig með fyrsta áfanga að orkufyrirtækin lögðu fram mikilvæga rannsóknarskýrslu sem skiptir máli í sambandi við þá vinnu og þannig er einnig um annan áfanga. Það er ein ástæða þess að mikilvægt er að þetta frumvarp verði að lögum og ég hef farið yfir aðra þætti sem það varðar.[15:37]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt til þess að vita að hafin skuli vinna við seinni áfanga rammaáætlunar en ég lýsi áhyggjum mínum af því að hún skuli vera í svo fámennum hópi, einungis þrír menn í stýrihópi og tveir starfshópar sem ég á svo sem eftir að komast að hverjir skipa. Ég sé því ekki annað en að gagnrýnisorð mín í þessum efnum standi. Ég tel að halda hefði átt áfram með seinni áfangann á svipuðum nótum og fyrri áfangann, þ.e. að vísindamenn úr öllum geirum yrðu kallaðir til þannig að vinnan gæti talist heildstæð og yfirgripsmikil.

Varðandi orð hæstv. ráðherra um hvað hasti þá sé ég ekki enn af hverju hæstv. ráðherra sættir sig ekki við eða horfist ekki í augu við það að hér eru nýtingarhagsmunirnir af ólíkum toga. Annars vegar nýtingarhagsmunir þeirra sem vilja nýta náttúruauðæfi landsins til orkuframleiðslu og hins vegar nýtingarhagsmunir þeirra sem vilja nýta náttúruna ósnortna. Þetta eru hagsmunir sem skarast og hagsmunir sem stangast á. Ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherra reynir ekki að ná sáttum á milli þessara sjónarmiða og leyfi þá í því augnamiði þeim frumvörpum sem hér um ræðir að fylgjast að í umfjöllun í gegnum þingnefndir.[15:38]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að nýta náttúruna ósnortna. En þegar hv. þingmaður talar um að ná sátt við ríkisstjórnina og sátt vinstri grænna gengur út á það að ekkert megi virkja þá veit ég ekki almennilega hvar við eigum að nálgast.[15:39]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur svo oft farið með þessa rullu í þessum ræðustóli og ævinlega vegna þess að hún er ómálefnaleg. Það er svo erfitt að eiga orðastað við hæstv. ráðherra þegar hún er eins ómálefnaleg og hún er. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðherra veit vel að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögu um sjálfstæða orkustefnu. Hún veit líka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er ekki á móti virkjunum. (Iðnrh.: Hvar má virkja?) Hvar má virkja? spyr hæstv. ráðherra. Ætlast hæstv. ráðherra til að ég standi í ræðustól Alþingis og segi: Það má virkja Jökulsá á Fjöllum? Auðvitað ekki. (Gripið fram í.) Nei. Við skulum ræða þessi mál, hæstv. forseti, á málefnalegum grunni. Við höfum tækifæri til að gera það nú með málum hæstv. iðnaðarráðherra. En við getum ekki látið nýtingarhagsmuni orkufyrirtækjanna einna stjórna þar för. Það er heila málið. Það eru aðrir hagsmunir í húfi. Hæstv. iðnaðarráðherra verður að sætta sig við að hún er ekki ein í heiminum. Ég ætla að fá að ljúka andsvari mínu á því að vitna til orða Sigurðar heitins Þórarinssonar líffræðings sem sagði á sínum tíma, með leyfi forseta:

„Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílóvattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.“

Heimilum okkur nú að ræða um þetta hvort tveggja í einni spyrðu; hagsmuni þeirra sem vilja mæla fossana í unaðsstundum og hagsmuni hinna sem vilja mæla þá í kílóvattstundum. Ræðum þetta saman en ekki á þeim nótum sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur hér til.[15:41]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem felur í sér, eins og hér hefur svo rækilega komið fram, heimild iðnaðarráðherra til þess að veita rannsóknarleyfi á vatnsföllum í því augnamiði að þau geti síðan orðið að virkjunarleyfum.

Það hefur líka komið fram hversu mikla áherslu hæstv. ráðherra leggur á að koma þessum málum áfram. Þetta er liður í álversumræðum iðnaðarráðuneytisins, í þeim viðræðum sem iðnaðarráðuneytið nú stendur í um frekari álversbyggingar hér á landi. Eins og kom fram í máli ráðherrans er nauðsynlegt að koma þessum málum í fastari farveg, þann farveg að rannsaka og mega síðan virkja þau vatnsföll sem ekki eru þegar orðin bundin í virkjunum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, og ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta er frumvarp iðnaðarráðherra sjálfrar: „Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“ Þ.e. að miðað við þau lög sem hafa verið hafa verið gefin út rannsóknarleyfi til að mega rannsaka vatnsföll til virkjana en það hafi ekki sjálfkrafa leitt til virkjunarleyfa. Þetta hefur á máli iðnaðarráðuneytisins orðið til þess að orkufyrirtækin eru tregari en áður til að fara út í það.

Ég held líka að mikilvægt sé að velta fyrir sér í hvaða stöðu við erum í dag varðandi stóriðjuframkvæmdir og stórvirkjanaframkvæmdir. Við erum með í gangi eina stærstu byggingu vatnsaflsvirkjunar hér á landi og þótt víðar væri leitað, Kárahnjúkavirkjun, og henni tengdri er verið að undirbúa og byggja eitt af stærstu álverunum Það er því ekki svo að ekki séu í gangi stór verk á sviði vatnsaflsvirkjana. Ég held að ég deili skoðunum með mörgum landsmönnum í því hvort ekki sé rétt að ljúka þessum virkjunarframkvæmdum, Kárahnjúkavirkjun, áður en við förum að ráðast í að gefa út frekari virkjunarleyfi í vatnsföllum landsins?

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum andvígir því að ráðist væri í Kárahnjúkavirkjun, bæði af umhverfisástæðum og eins að þar væri verið að ráðast í mannvirkjagerð sem seint eða aldrei mundi skila þjóðhagslegum ábata fyrir það fjármagn sem í það var lagt. Af báðum þessum ástæðum væri þetta óráð. En úr því að þessar framkvæmdir eru komnar í gang og með þeim hörmungum sem við höfum mátt upplifa er þá ekki rétt að við ljúkum þessum framkvæmdum áður en iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins fær leyfi til að gefa út frekari virkjunarleyfi í vatnsföllum landsins? Ég spyr, herra forseti: Er ekki rétt að reyna að komast í gegnum það sem nú er í gangi áður en við förum í frekari vatnsaflsvirkjanir í jökulfljótum landsins sem þetta frumvarp snýr að?

Ef við víkjum aftur að frumvarpinu þá hefur hæstv. ráðherra ítrekað verið spurður: Hvað liggur svona á? Hvað liggur svona á að ráðherrann fái heimild til að gefa út rannsóknar- og virkjunarleyfi í vatnsföllunum? Hvað liggur svona á að það megi ekki bíða þess að við ljúkum Kárahnjúkavirkjun eða þess að áætlun um vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir og forgangsröðun vatnsfalla til virkjunar verði raunverulega gerð? Eins og nú er er ráðist í virkjunarframkvæmdir í vatnsföllum óháð því hvað sú rammaáætlun lagði til. Það er ekki neitt samhengi þar á milli, samanber að Kárahnjúkavirkjun var sú virkjun sem var neðst á listanum og var af umhverfisástæðum talin hreint hervirki. En samt var ráðist í hana.

Það kom fram í andsvari hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni hvers vegna menn þyrftu að flýta sér. Jú, vegna þess að einhverjir aðilar biðu eftir því að fá þessum leyfum úthlutað og var þá talað um heimaaðila. En bíðum við: Hæstv. ráðherra sagði að þetta væru almenn lög, eða var ekki svo, herra forseti, að þetta væru almenn lög? Þetta væru ekki lög sem sneru að einhverjum ákveðnum virkjunarkostum. Ég heyrði ekki betur. Svo kemur hv. formaður iðnaðarnefndar og segir: Þetta frumvarp snýr að ákveðnum framkvæmdum sem ákveðnir aðilar í heimahéraði eða annars staðar hafa óskað eftir. Ég held að þeir þurfi nú að tala betur saman, hæstv. ráðherra og hv. formaður iðnaðarnefndar.

En hvað hefur breyst í frumvarpinu frá því að það var lagt fram í vor? Jú, það hefur komið fram að til stóð að skipa nefnd sem átti að fara yfir þessi mál og samræma og gera tillögur um reglur til þess að fara eftir við úthlutun rannsóknar- og virkjunarleyfa. Nefndin átti að vinna úthlutunarreglur sem ráðherra gæti farið eftir. En breytingin er á þann veg að umræddri nefnd og þeirri vinnu sem hún átti að inna af hendi er kastað út. Málið er alfarið fært í hendur ráðherra.

Hvað er það annað sem hefur breyst, herra forseti?

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Er því talið nauðsynlegt að tryggja að aðeins einn aðili fái rannsóknarleyfi á hverju svæði og jafnframt að hann geti fengið rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan sé nýtingar- eða virkjunarleyfi veitt öðrum aðila. Einnig verður að ætla að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að fleiri en einn aðili kosti sams konar rannsóknir á sömu stöðum þegar ljóst er að aðeins einu virkjunarleyfi verður úthlutað.“

Í 2. gr., og þar kemur breytingin, stendur:

„Þó er heimilt að veita fleiri en einum aðila slíkt leyfi sameiginlega hafi þeir staðið saman að rannsóknarleyfisumsókn og gert með sér samning um skiptingu rannsóknarkostnaðar.“

Þetta er breytingin sem gerð er á frumvarpinu frá því að það var flutt í vor.

Að hverju var hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, að ýja? Hann var að ýja að þeim ágreiningi sem var um virkjunarleyfin í jökulánum í Skagafirði í vor þar sem ljóst var að bæði Landsvirkjun og fyrirtæki Kaupfélags Skagfirðinga, hlutafélag á móti Rarik, höfðu sótt um að fá þetta rannsóknar- og virkjunarleyfi og samkvæmt þeim lögum sem þá giltu var einungis hægt að veita einum slíkum aðila leyfi. En nú er búið að handsníða þetta frumvarp að því sem þar var uppi. Hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, var að ýja að því hér að samkomulag virðist komið á milli heimaaðila, eins og hann kallar þá, þ.e. Kaupfélags Skagfirðinga og Rariks, og Landsvirkjunar um að sækja um leyfi saman og þess vegna er þetta frumvarp flutt. Svo einfalt virðist málið vera, a.m.k. ef marka má orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar í andsvari.

Það kom einnig fram að hitt fljótið er Skjálfandafljót, þannig að þetta frumvarp virðist vera meira eða minna sniðið að þessum tveimur fljótum — það þarf þess vegna að hraða því að koma þessu áfram.

Það er því alveg ljóst að ekki er verið að flytja frumvarp til almennra laga enda hefur hv. formaður iðnaðarnefndar komið rækilega inn á það í andsvari sínu að þetta er sérgreint, handafgreiðsla gagnvart ákveðnum afgreiðslum. Þetta er liður í þeim verkefnum sem iðnaðarráðuneytið stendur að í samningi um frekari álverksmiðjur hér á landi.

Mun nú flestum þykja orðið nóg um álbræðslur, álbræðsluna hér í Straumsvík og á Grundartanga, sem er í hraðri stækkun, og auk þess eru þeir ekki búnir að byggja fyrir austan, þar er stór verksmiðja hjá Alcoa í byggingu. En engu að síður er iðnaðarráðuneytið orðið formlegur aðili að undirbúningi að byggingu tveggja nýrra álvera í Helguvík og á Norðurlandi, auk þess sem stækkunin liggur fyrir, beiðni um ferlistækkun í Straumsvík og frekari stækkun á Grundartanga. Ég held, herra forseti, að öllum landsmönnum sé ofboðið. Gott og vel að fá einhvern hluta okkar atvinnulífs í álverksmiðjum til þess að auka fjölbreytni og skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið. En þegar áliðnaðurinn á að fara að ryðja burt atvinnulífi í landinu, öllum öðrum útflutningsgreinum, og binda auk þess fallvötnin og aðrar náttúruauðlindir þá held ég að fólki sé ofboðið.

Hvað ætli það sé nú sem reki á eftir hæstv. ráðherra? Jú, fyrir norðan var að tilhlutan iðnaðarráðherra knúinn í gegn samningur á milli sveitarfélaga á Norðurlandi og iðnaðarráðuneytis og Alcoa um úttekt á mögulegu staðarvali fyrir álverksmiðju á Norðurlandi og jafnframt líka orkukostum fyrir slíkt álver. Nú er sú vinna, áhugi ráðherrans á að koma þessu á, farin að krefjast þess að fyrir liggi úthlutun á virkjunarkostum í jökulánum í Skagafirði og í Skjálfandafljóti og kannski víðar, til þess að hægt sé að halda áfram samningsgerð um álver á Norðurlandi. Þess vegna er verið að knýja þetta í gegn. Álversæðið eða áltrúin, eins og hæstv. forsætisráðherra vildi kalla þetta, á sér engin takmörk í Framsóknarflokknum, áltrúin. Maður hefði haldið miðað við stöðu atvinnumála að ráðherrann mundi setja eitthvert annað mál hér fyrr á dagskrá. Við höfum verið að ræða hér stöðu atvinnumála, stöðu útflutningsgreinanna, sem eru að kikna undan áhrifum stóriðjunnar, hinu háa gengi, ruðningsáhrifum stóriðjunnar. Ruðningsáhrifin geta líka verið af hinu góða, sagði hæstv. iðnaðarráðherra við Vestfirðinga þegar verið var að loka fyrirtækjum þeirra vegna ruðningsáhrifa stóriðjunnar. En áfram skal haldið.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, hvað þessi álstaðarvalsrannsókn og vinna Norðlendinga og iðnaðarráðuneytis kostar? Ég vil gjarnan að iðnaðarráðherra upplýsi hvað þessi samningur kostar í peningum, því að mér er nær að halda að með þessari álstefnu gagnvart Norðlendingum sé í rauninni verið að taka þá í gíslingu. Það er verið að reyna að taka Skagafjörð í gíslingu með því að hóta þeim að Skagafjarðarvötnin, jökulárnar, verði tekin í virkjun fyrir álver. Ferðaþjónustuaðilar og aðrir sem nýta og vilja nýta jökulárnar með öðrum hætti, njóta þeirra með öðrum hætti, eru settir í uppnám því að hver vill lána fjármagn til ferðaþjónustufyrirtækis sem nýtir árnar og fljótin í óbreyttu ástandi ef stefna ríkisins er að stífla þær og eyðileggja þá möguleika? Með þessari stefnu sinni er iðnaðarráðherra í raun og veru að taka þessa aðila í gíslingu.

Akureyringar, Eyfirðingar — hefði nú ekki verið nær hjá hæstv. iðnaðarráðherra, þingmanni Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, að beita sér fyrir auknu fjármagni til Háskólans á Akureyri eða styrkja innviði rannsóknar- og háskólastarfs frekar en að eyða fjármununum í að troða álverum upp á Norðlendinga og stífla og virkja fljótin þeirra, náttúruperlurnar þeirra? Hefði það ekki skapað meiri atvinnu og verið meira í takt við vilja fólksins ef menn hefðu beitt sér í að efla háskólann og rannsóknarumhverfi hans? Nei, Háskólinn á Akureyri verður að loka deildum en peningarnir, fjármunir ríkisins, eru settir í að rannsaka möguleika á álveri og stórvirkjunum. Þetta er forgangsröðun Framsóknarflokksins í atvinnumálum landsmanna.

Þingeyingar, Húsvíkingar, Mývetningar — sem hafa á margan hátt verið í forustusveit í uppbyggingu á náttúru- og menningartengdri ferðaþjónustu og unnið þar stórvirki. Það vita allir að stóriðjustefnan, virkjunarstefnan, gengur þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar. Þeir hagsmunir fara ekki saman.

Hefði það ekki verið betra að hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála, hefði sett sömu fjármuni og nú er verið að leggja í að rannsaka álver við Húsavík í að styrkja stoðkerfi ferðaþjónustunnar á umræddu svæði. Hefði ekki verið betra að setja meiri kraft í Þekkingarsetrið á Húsavík, setja nokkur hundruð millj. kr., sem er bara brot af meðgjöf ríkisins með álveri og stóriðjuframkvæmdum, í að styrkja stoðkerfi ferðaþjónustunnar í Þingeyjarsýslu frekar en að halda Þingeyingum í gíslingu? (Iðnrh.: Hvað finnst Þingeyingum sjálfum?) Ég hygg að þeir mundu frekar vilja fjármuni í ferðaþjónustu og þekkingariðnað yrði þeim boðið að velja á milli þess og álvers frá iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Ég er reyndar ekki í nokkrum vafa um það. (Iðnrh.: Vinstri menn vilja álver.)

Hæstv. iðnaðarráðherra blæs hins vegar á stöðu atvinnugreinanna, blæs á stöðu ferðaþjónustunnar, sem er nú að blæða út fyrir stóriðjustefnuna. Það eina er álver, álver, álver, álver, álver. (Iðnrh.: Þóknast vinstri mönnum.) Hæstv. iðnaðarráðherra þóknast vinstri mönnum? Það er gott hjá hægri flokknum, Framsóknarflokknum, að vera farinn að þykjast þóknast vinstri mönnum með því að byggja álver. Það sýnir veruleikafirringu hæstv. iðnaðarráðherra.

Það er ágætt að vitna hér, frú forseti, í skýrslu sem hæstv. iðnaðarráðherra og ráðuneytið hefur látið vinna um hátækniiðnaðinn, sem líka er að blæða út vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Í þeirri skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Hlutdeild stóriðju í verðmætasköpun er aðeins um 1,2%, sem skýrist af miklum innflutningi á aðföngum til starfseminnar. Í álveri má áætla að 70% virðisaukans fari úr landi.“

En þetta er það sem hæstv. iðnaðarráðherra vill leggja upp sem aðalatriðið og ekkert skal til sparað — fórna jökulánum í Skagafirði, Skjálfandafljóti og hvar það nú er. Það er þó athyglisvert að í þessu hefti, úttekt iðnaðarráðuneytis, um hátækniiðnað og þróun er hvergi minnst einu orði á ferðaþjónustu enda er vistvæn, menningartengd ferðaþjónusta mesta andstæðan við álvers-, virkjunar- og stóriðjuæði Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Þess vegna er ekki minnst á ferðaþjónustuna.[16:01]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Eins og hér hefur komið fram byggir þetta frumvarp á frumvarpi sem kom fram undir vor á síðasta þingi með þeirri undantekningu að sleppt er ákvæði til bráðabirgða sem kom fram í því frumvarpi og var nokkurs konar sáttafrumvarp frá hv. iðnaðarnefnd. Þar er fellt niður ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að: „skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til“.

Hæstv. forseti. Ég vitnaði hér til frumvarpsins sem lagt var fram síðasta vor. Ég tel mikilvægt að þetta ákvæði til bráðabirgða sé alveg skýrt í þessari umræðu því að það frumvarp sem við fjöllum um nú er ekki eins og — þar liggur fiskur undir steini. Það er fært í þann dulbúning að verið sé að leggja fram frumvarp til almennra laga um rannsóknir á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Ég segi í dulbúningi því að orðalagið er almennt en tilgangurinn er sá að auðvelda þeim aðilum sem þegar hafa áhuga á að fara í rannsóknir á vatnsafli til raforkuframleiðslu að komast að svo hægt sé að flýta undirbúningi að raforkuframleiðslu til væntanlegra álvera. Hér liggur fiskur undir steini. Þetta er almennt orðað en það hefur komið fram í umræðunni að í raun er verið að koma til móts við aðila úr og frá ákveðnum sveitarfélögum sem treysta sér til að fara í rannsóknir á ákveðnum svæðum með tilstilli og styrk frá orkugeiranum, fara í rannsóknir sem mundu þá í framhaldinu leiða til þess að vatnsaflið væri nýtt til raforkuframleiðslu.

Það er nú svo, hæstv. forseti, að þeir aðilar sem hafa verið í rannsóknum á gufuafli hafa farið nokkuð drjúgt um heiðar og verið mér liggur við að segja eins og hundar og migið utan í hverja þúfu og þar með eyrnamerkt sér þau svæði sem í framtíðinni megi nota til raforkuframleiðslu, þ.e. rannsóknir á viðkomandi svæði gefi rétt til nýtingar. Það hefur ekki verið með vatnsaflið og því er ljóst að þeir aðilar í orkugeiranum sem vilja komast í að nýta vatnsaflið, vatnsauðlindirnar, vilja fá nokkra tryggingu fyrir því að geta farið í raforkuframleiðslu í framhaldi af þeim kostnaði sem er við rannsóknirnar og það er skiljanlegt.

Ef við byggjum ekki við það ástand sem hér ríkir í skjóli núverandi ríkisstjórnar að ofuráhugi hefur verið lagður á að styrkja álframleiðslu í landinu, ef ekki væri vitað til þess að áhugi væri á og í raun búið að lofa álverum bæði í Helguvík og á Norðurlandi, en til þess þarf frekari orku, og ef við byggjum ekki við það umhverfi að þetta væru þær lausnir sem hæstv. ríkisstjórn býður landsmönnum upp á til frekari atvinnuuppbyggingar, þá hefði maður ekki jafnillan bifur á þessu frumvarpi og raun ber vitni. Auk þess eru ekki sjáanlegar neinar almennar þarfir fyrir að afgreiða þetta frumvarp núna í hasti. Ef þetta væri frumvarp sem væri almennt fyrir rannsókn og nýtingu á auðlindum í jörðu, óháð þeim aðilum sem þegar hafa bankað upp á og vilja fá tryggingu fyrir því að geta haldið áfram eftir að rannsóknum lýkur í raforkuframleiðslu þá væri maður nokkuð rólegur. En þegar við bætist að hæstv. ríkisstjórn gefur sér ekki tíma til að skoða málið heildstætt og taka önnur frumvörp sem hv. Alþingi þarf að fjalla um og fara yfir sem lúta að nýtingu á vatni og verndun náttúruverndarsvæða þá er ekki hægt að búast við því að stjórnmálaafl eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé mjög jákvætt í garð þessa frumvarps. Hér ræður orkunýtingin, hér ræður þörf orkufyrirtækjanna en ekki náttúruverndarsjónarmið, þau eru lögð til hliðar og vatnsverndarsjónarmið eru lögð til hliðar.

Ljóst er að hér er verið að slá saman í eitt rannsóknarleyfi og virkjanaleyfi. Við erum ekki að fjalla um frumvarp til laga sem snýr að grunnrannsóknum sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum og teljum að þurfi að efla til muna. Því er eðlilegt að fram komi krafan um að upplýst verði í þessari 1. umr. og við vinnslu í málinu hvaða beiðnir liggi fyrir um rannsóknarleyfi og hvaða skilyrði viðkomandi aðilar hafi sett fram til að þeir hefji rannsóknir og leggi út í kostnað við rannsóknirnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hæstv. ráðherra finnist eins og orkufyrirtækin séu tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli, séu tregari en „heppilegt getur talist.“ Heppilegt getur talist. Erum við sem þjóð í svo mikilli þörf fyrir frekari raforkuöflun en er í dag? Ekki fyrir almennan iðnað, ekki fyrir almenna notkun. Það er eingöngu til stóriðju sem við þurfum á frekari orku að halda, ekki til almennrar notkunar. Þetta er því eingöngu sett fram til að hvetja þá aðila sem hafa sýnt því áhuga að fara í rannsóknir að því tilskildu að þeir fái raforkuframleiðsluna í framhaldinu. Þetta er eingöngu sett fram til þess að hvetja þá til að gefast nú ekki upp, halda áfram og vera þá búnir að eyrnamerkja sér það vatnsafl eða það svæði sem þeir vilja hefja rannsóknir á. Til hvers ætti í raun að fara í slíkar afmarkaðar rannsóknir nema virkjanaleyfið fylgdi með?

Verið er að fjalla um vatnalögin núna á þinginu en frumvarp til vatnsverndarlaga lætur á sér standa. Það er sjálfsögð krafa að vatnsverndarlögin fari í gegnum þingið samhliða þeim frumvörpum sem fjalla um nýtingu á vatni þannig að heildstæð mynd fáist á þessu sviði. Við höfum flaggað hugtakinu um sjálfbæra þróun. Það var gert á umhverfisþingi sem var um síðustu helgi þar sem umhverfisþingið hafði yfirskriftina Sjálfbær þróun. Í mínum huga er orðin of mikil hugtakanotkun en ekki vinna í raun sem hæstv. ríkisstjórnin innir af hendi. Á mjög mörgum sviðum t.d. í atvinnumálum og í stóriðjumálum er unnið alveg þvert á sjálfbæra þróun í orkustefnu og atvinnugreinum. Ber þar hæst Kárahnjúkavirkjun, Hálslón. Það er hreint ótrúlegt að hlusta á það aftur og aftur að við stundum sjálfbæra orkustefnu, það sé sjálfbær orkustefna að fá rafmagnið úr mengunarlausum uppsprettum á sama tíma og ljóst er að virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun getur aldrei verið sjálfbær, er það ekki og verður það ekki. Verið er að snúa hugtakinu sjálfbær þróun á haus og ég tel að ekki sé hægt til lengdar að flagga hugtakinu sjálfbær þróun en ganga svo gjörsamlega gegn þeirri hugmyndafræði. Það ætti þá frekar að kalla það sínum réttum nöfnum og tala um Kárahnjúkavirkjun sem mengunarlausa virkjun, lausa við loftmengun, og það er það sem verið er að vísa til þegar verið er að dásama hvað það sé gott að fá slíkar stórvirkjanir til Íslands, að þær mengi ekki loftið en sjálfbærar eru þær ekki.

Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, nú á að leyfa orkufyrirtækjunum að eyrnamerkja sér bæði svæði og vatnsföll og ég tel að þetta séu lög sem komi til vegna ákveðinna fyrirhugaðra framkvæmda við stóriðjuna en ekki lögð hérna fram sem almenn lög.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur spurt að því hvar megi virkja, hvar við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að megi virkja, við séum á móti öllum virkjunum. Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra til þess að lesa frumvarp sem var lagt fram á fyrstu dögum þingsins um sjálfbæra orkustefnu, sem er mikið að vöxtum, og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum hér fram. Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að lesa það frumvarp og hætta þá að kalla eftir því hvar megi virkja því að sannarlega má virkja, en við höfum gengið ótæpilega á þá virkjunarkosti sem sátt hefur verið um, og gott betur, samanber Kárahnjúkavirkjun. Því er mikilvægt að ljúka rammaáætlun um nýtingu vatns og jarðvarma. Það verður engin sátt um frekari virkjunarleyfi til stóriðju með vatnsaflsvirkjunum.

Álverin og álversframleiðslan kalla eftir mikilli orku og þar af leiðandi stórum uppistöðulónum eða virkjunum stórfljótanna með tilheyrandi vatnsmiðlunarlónum. Það er alveg ljóst að eftir 2009, þegar annar áfangi rammaáætlunar verður lagður fram, má ætla að gengið verði svo á bestu virkjunarkosti út frá hagsmunum orkufyrirtækjanna að það verði ekkert eftir til þess að raða upp eins og rammaáætlunin segir til um, þ.e. ef orkufyrirtækin og hæstv. iðnaðarráðherra ráða för verður búið að ganga á bestu virkjunarkostina út frá hagsmunum orkufyrirtækjanna.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill sjálfbæra orkustefnu eins og við höfum lagt til og við viljum nýta vatnsorkuna til dreifðari atvinnufyrirtækja, þ.e. við viljum falla frá álversátrúnaði hæstv. iðnaðarráðherra, við viljum falla frá álversátrúnaði í opinberri atvinnustefnu.

Hér hefur verið, hæstv. forseti, aðeins minnt á Kyoto-bókunina og mengunarkvótana. Það hefur líka komið fram að hér eru uppi hugmyndir um að koma a.m.k. þremur nýjum álverum í rekstur. Tímasetningarnar eru ekki ljósar en það er þegar verið að undirbúa frekari álversframkvæmdir og það hefur líka komið fram að sá mengunarkvóti sem við eigum eftir ónýttan mun ekki duga nema fyrir svo sem eins og einu stóru álveri og þá stendur tvennt eftir og það er að þeim álrisum sem eru að leita eftir framkvæmdaleyfum hér á landi hefur verið gefið undir fótinn með að það komist allir að eða þá að við þurfum að fara að kaupa mengunarkvóta. Þetta gengur ekki upp eins og staðan er í dag og ég held, hæstv. forseti, að rétt sé að þessi hlið málsins verði svo skoðuð rækilega áður en frekari rannsóknarleyfi og þar með í framhaldinu virkjunarleyfi verði gefin út.

Ég tel, hæstv. forseti, einnig mjög mikilvægt að fá niðurstöður frá sérskipaðri nefnd eins og lagt var til í frumvarpinu frá því í vor, að sett verði á laggirnar sérskipuð nefnd sem setji reglur um úthlutun á rannsóknarleyfum, því að með rannsóknarleyfinu er næstum sjálffengið virkjunarleyfi og þetta eru verðmæti sem margir vilja komast í og það verður að vera ljóst hvernig reglurnar um úthlutunina eiga að vera áður en farið er að úthluta rannsóknarleyfum.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvað eftirfarandi málsgrein um endurkröfurétt í 3. gr. frumvarpsins þýði, en þar segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiðsla beri sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu.“

Þessi endurgreiðslukostnaður við fyrirhugaða nýtingu, er það áætlaður gróði af rekstri vatnsaflsvirkjunar? Er meiningin sú, hæstv. forseti, að rannsóknaraðila sé endurgreiddur áætlaður gróði af rekstri vatnsaflsvirkjunar sem hann hefði fengið ef virkjunarleyfið hefði fylgt í kjölfarið á rannsóknarleyfinu en falið einhverjum öðrum?[16:22]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég hef mestan áhuga á að spyrja hv. þingmann um, af því að hún á heima á Austurlandi, er hvort hún hafi orðið vör við uppbyggingu á Austurlandi sem tengist nýtingu orkunnar.[16:23]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég teldi það kurteisi að hæstv. iðnaðarráðherra svaraði spurningunni sem ég bar fyrir hana í stað þess að svara með annarri spurningu.

Ég vil ítreka þá spurningu sem ég lagði fyrir hana um hvort það sé áætlaður gróði af rekstri vatnsaflsvirkjunar sem á að endurgreiða rannsóknaraðilum, þ.e. fái þeir ekki úthlutað virkjunarleyfi.

Hvað varðar uppbyggingu á Austurlandi þá bý ég á Austurlandi, á Egilsstöðum, og ég verð vör við mikla uppbyggingu og mikla umferð. Ég verð einnig vör við blendnar tilfinningar hjá fólki og þær verða stöðugt blendnari hvað varðar þær miklu framkvæmdir sem eru í gangi. Það er fólk sem bjóst við að fá mikla atvinnu inn á svæðið fyrir heimamenn og fólk sem hafði ekki áttað sig á þeim miklu óafturkræfu umhverfisspjöllum, umhverfisröskun og tjóni sem hefur orðið uppi á hálendinu en því miður er of seint að átta sig nú á hvílíkt inngrip og röskun er orðin þar. Ég verð vör við bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar.

Það sem skiptir máli, hæstv. forseti, er að spyrja að leikslokum. Hvernig mun samfélagið sem er á miðsvæði Austurlands líta út þegar virkjunarframkvæmdum lýkur? Hvernig munu jaðarsvæðin þróast í framtíðinni, þau svæði sem í dag eru algjörlega að koðna niður og fá ekki mola af þeim miklu framkvæmdum sem eru í gangi á miðsvæðinu? Frú forseti, spyrjum að leikslokum, lærum af reynslunni og höldum ekki áfram inn í frekara álæði og svona stórkostlegt inngrip og skemmdir á náttúru og inngrip inn í lítil samfélög, áður en við sjáum hver niðurstaðan og áhrifin verða af þessum framkvæmdum.[16:24]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Inngrip inn í lítil samfélög, sagði hv. þingmaður. Hún er þá þeirrar skoðunar að samfélagið á Miðausturlandi hafi átt að vera áfram lítið. Ég skil það þannig að hún sé á móti þessari uppbyggingu, fjölgun fólks. Það er með ólíkindum að heyra íbúa á Miðausturlandi tala með þessum hætti þar sem fólkið sem þarna býr — þar sem ég þekki til alla vega — er yfir sig ánægt með það sem er að gerast.

Hv. þingmaður spurði um kostnaðinn, hvað það væri sem væri endurgreitt í þeim tilfellum þegar sá aðili sem rannsakar fær ekki endanlegt virkjunarleyfi. Það er raunhæfur kostnaður sem snertir virkjunina sem endanlega verður byggð. Það er sem sagt ekki hægt að krefjast þess að það sé endurgreitt eitthvað sem nýtist ekki þegar til þess kemur að virkjunin sjálf verður reist.

Ég langar til að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns, sem mér fyndist að væri maður að meiri ef hún viðurkenndi að þessi uppbygging er jákvæð fyrir Austurland frekar en að koma með þessar skýringar sem að mínu mati eru fátæklegar.[16:26]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvær hliðar á öllum málum. Nú eru mikil umsvif á Austurlandi bæði uppi á hálendinu og niðri í byggð. Við höfum fengið fréttir af því hvernig staðið hefur verið að ráðningu starfsmanna uppi á Kárahnjúkavirkjun. Er það jákvætt? Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún sé stolt af því hvernig Impregilo hefur staðið að ráðningum starfsmanna og hvernig verkin hafa gengið fyrir sig.

Er það jákvætt ef þessi þróun hvað varðar ráðningu starfsmanna inn á svæðið hefur svo neikvæð áhrif á allt atvinnulíf, á alla launaþróun í landinu? Ef til lengri tíma er verið að brjóta verkalýðshreyfinguna í þessu landi niður, er það jákvætt? Er það jákvætt að fá svo marga starfsmenn inn á svæði að lítil samfélög eiga í mestu erfiðleikum með að þjónusta þessa aðila og þá vil ég nefna opinberar stofnanir, t.d. heilbrigðisstofnanirnar, lögreglu, Vinnueftirlitið og sveitarfélögin sem hafa fengið mjög takmarkaðan stuðning á þessu uppbyggingartímabili?

Ég vil bara endurtaka það að við skulum spyrja að leikslokum. Auðvitað vona ég eins og allir að þetta fari vel, að það náist að vinna þannig úr málum að þessi risaverksmiðja sem að mínu mati var óheillaspor að reisa, að áhrifin verði sem jákvæðust til lengri tíma litið. En það má ekki stinga höfðinu í sandinn eins og hæstv. iðnaðarráðherra gerir og neitar (Forseti hringir.) að horfast í augu við að þetta hefur líka mikla vaxtarverki (Forseti hringir.) og erfiðleika í för með sér á þessu svæði.[16:28]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu en ég beindi spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra en fékk því miður ekki svör. Hún var eitthvað á þá leið hvað lægi svo mikið á að fara með þetta frumvarp í gegn. Ég nefndi hvort það væru þessi þrjú álver sem hafa verið nefnd til umræðunnar, eitt á Suðurnesjum, eitt á Norðurlandi og síðan í Straumsvík og þess utan minntist ég lítillega á að tvö álver væru í byggingu.

En ég taldi að það væri brýnna að fara að ræða þá háu reikninga sem fólk er að fá við þessar breytingar, fara yfir þá stöðu og ýmis önnur mál sem ég hefði talið miklu brýnna að fara í og hefði viljað fá þá umræðu um þau. Ég hef verið að velta því fyrir mér þessa dagana, hvað er það sem liggur á? Stundum veltir maður því fyrir sér að auðvitað finnur iðnaðarráðherra ýmis mál brenna á sér, t.d. byggðamálin og hún gerir ekkert þar, ég veit ekki hvers vegna það er. Síðan eru það gengismálin í iðnaðinum, hátækniiðnaðurinn sem kvartar og nánast allur útflutningsiðnaðurinn. Þá velti ég því fyrir mér hvort verið sé að fara fram með svona mál til að láta líta út fyrir að eitthvað sé að gerast. Ég veit það ekki. Maður fer óneitanlega að velta þeirri spurningu fyrir sér.

Í sjálfu sér er frumvarpið ekki ósanngjarnt, þ.e. að þeir sem fá að rannsaka hafi forgang að nýtingu orkunnar. Það er ekkert ósanngjarnt í sjálfu sér. En það sem þarf að fara yfir og er gagnrýnisvert er að ríkisstjórnin, með hæstv. iðnaðarráðherra í forustu, leggur öll frumvörp og áætlanir um vatnsvernd til hliðar og einnig er gagnrýnisvert hvernig á að úthluta rannsóknarleyfunum. Mér finnst það ámælisvert. Við ræddum það einmitt þegar frumvarpið var til umræðu síðasta í vor, hvernig ætti að úthluta rannsóknarleyfunum. Það var komið á ákveðinn farveg. Skipa átti nefnd sem í áttu að vera fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum. Nær hefði verið að hæstv. ráðherra hefði gengið frá lausum endum og notað tímann, en það er ekki. Ekki hefur heldur verið gengið frá ýmsum hnökrum á vatnsnýtingarfrumvarpinu sem er nú til umræðu í iðnaðarnefnd og það er mjög ámælisvert.

Hv. formaður iðnaðarnefndar hefur ekki treyst sér til að ræða efni frumvarpsins að miklu marki heldur hefur mál hans snúist um heimaaðila, að þeir fái að virkja. En ef maður les frumvarpið þá er ekki hægt að sjá að þetta snúist um heimaaðila. Ef það eru einhverjir heimaaðilar hljóta að vera einhverjir aðkomumenn líka. Þessi umræða hjá hv. formanni iðnaðarnefndar minnir frekar á umræðu sem fer fram á sveitaböllum. Aðkomumenn og heimaaðilar. Frumvarpið snýst um rannsóknarleyfi. Ég átta mig í rauninni ekki á hvað menn eru að fara með svona umræðu. Ég bý í Skagafirðinum og þessi umræða teygir sig alla leið þangað norður. Þar eru svokallaðir heimaaðilar sem vilja fá að virkja eða rannsaka og mér skilst að þessir umræddu heimaaðilar — það kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar — væru m.a. Kaupfélag Skagfirðinga og aðilar tengdir þeim, Rarik. Það væri fróðlegt að fá það upp hjá hv. formanni iðnaðarnefndar hvort þetta séu aðilarnir, umræddir heimaaðilar, og hverjir séu þá aðkomumenn í þessu máli.

Áður en við höldum lengra með þá umræðu er rétt að rifja upp fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir hæstv. iðnaðarráðherra um orkunýtingu í Skagafirði, eða á Norðurlandi vestra réttara sagt, þ.e. hvar orka sem yrði til í Blönduvirkjun yrði nýtt. Svarið hljóðaði á þá leið að innan við 10% væru nýtt á Norðurlandi vestra. Eins og staðan er þar er því verið að flytja geysilega mikla orku frá Norðurlandi vestra. Það er í rauninni mjög villandi og ómálefnalegur málflutningur sem verið er að fara fram með, m.a. í Skagafirðinum, að virkjun Jökulsár þar sé einhver forsenda fyrir iðnaðinn. Það er hægt að stinga í samband, eins og staðan er núna, iðjuveri sem væri mjög góður kostur eflaust í Skagafirðinum, að fá iðjuver líkt og steinullarverksmiðjuna. En þetta frumvarp sem hér um ræðir er alls ekki nein forsenda, það er langt í frá. Það er bara villandi málflutningur.

Ég vil halda áfram með þá umræðu hvað liggi á. Eru mál einhvers staðar strand í kerfinu? Ég hef hér sjóðheita skýrslu sem kom í þingið í dag, skýrslu um raforkumálefni sem gefin er út af hæstv. iðnaðarráðherra. Nú er ekki að sjá að við séum í flæðiskeri stödd hvað varðar raforku og útgáfu rannsóknarleyfa. Á bls. 62 í skýrslunni kemur fram að gefin hafa verið út leyfi til rannsókna á Hellisheiðarsvæði, vesturhluta Kröflusvæðis, við Þeistareyki og í Köldukvíslarbotnum, á Hágöngusvæði. Þá hefur Hitaveita Suðurnesja fengið nýtingarleyfi og hafið undirbúning fyrir allt að 100 megavatta virkjun á Reykjanesi. Síðan er haldið áfram. Gefin hafa verið út virkjanaleyfi fyrir Búðarhálsvirkjun, 120 megavött, Kárahnjúkavirkjun er í fullum gangi, Nesjavallavirkjun, Hellisheiðarvirkjun og Lagarfoss. Það er ekki að sjá að við séum eitthvað strand, og að þetta sé einmitt frumvarpið sem hæstv. iðnaðarráðherra situr heilan dag og jafnvel fram á kvöld yfir, ég get ekki séð það.

Það eru önnur mál sem brenna á, t.d. byggðamálin og útflutningsgreinarnar. Ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra leggur svona mikla áherslu á þetta. Hún kippir þessu frumvarpi fram fyrir mál sem allir eru sammála um. Það er umdeilt. Þó svo að efni frumvarpsins virðist vera sanngjarnt og er það eflaust, þ.e. að þeir sem leggja í rannsóknir fái að nýta orkuna, þá hefur ráðherrann glatað ákveðnu trausti. Ég verð að segja að traust mitt á hæstv. iðnaðarráðherra og störfum hennar hefur farið síminnkandi og sérstaklega í ljósi þess að öll loforð um að raforkan skyldi ekki hækka hafa ekki gengið eftir. Orkureikningarnir hafa hækkað og mér finnst að í umræðunni drepi hún málefnalegri umræðu oft á dreif í staðinn fyrir að taka á málefnum sem skipta máli.

Ég hefði talið það ábyrgan iðnaðarráðherra sem hefði forgöngu um að hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að standa með sér og leggja fram frumvörp samhliða nýtingarfrumvörpum. En það væri fróðlegt að einhver svör fengjust um hvers vegna engin frumvörp koma fram til að tryggja náttúruna. Ég er alls ekki á móti stóriðju en mér finnst mjög sérstakt að heil ríkisstjórn skuli eingöngu leggja áherslu á þann málaflokk og síðan þegar kemur að náttúruvernd, sem ég er mjög hlynntur, þá má ekki taka þau mál til umfjöllunar, helst ekki. Traust mitt hefur farið hríðminnkandi á störfum ráðherra og einnig í sambandi við byggðamálin. Það virðist ekkert vera að gerast þar.

Við höfum rætt um frumvarp til vatnalaga. Þar er mjög mikilvægt mál sem fjallar m.a. um rétt sveitarfélaga. Sveitarfélög í landinu þurfa jafnvel stundum að geta sótt vatn út fyrir landamörk sín. Mér finnst í umræðunni um þessi mál, bæði vatnsverndina og að sveitarfélög geta tryggt sér ákveðinn nýtingarrétt út fyrir sín mörk, að hæstv. iðnaðarráðherra og starfsmenn hennar séu á bremsunni við að sjá að þetta geti verið skynsamlegt, að tryggja að sveitarfélög hafi nýtingarrétt í forgrunni. Ég átta mig í rauninni ekki fyllilega á því hvað rekur hæstv. ráðherra hér áfram, sérstaklega í ljósi þess að önnur verkefni blasa við. Útflutningsiðnaðurinn glímir við hátt gengi og síðan vantar fjármagn til nýsköpunar.

Fleira forvitnilegt er í þessari skýrslu sem var að koma út sem sýnir að við erum alls ekki stopp í þessum málum eins og ég sagði áðan. Raforkumál og rannsóknir á orkugeiranum eru á fullri ferð. Þess vegna finnst mér vera heiðarlegast fyrir hæstv. ráðherra að svara þessu í rólegheitum hvað það er í rauninni sem kallar akkúrat á þetta. Eru einhver raforkufyrirtæki, sem eru að vísu öllsömul enn sem komið er í opinberri eigu, að merkja sér ákveðin landsvæði með því að tryggja sér rannsóknarleyfi? Mann fer að gruna að málið snúist að einhverju leyti um það að menn séu að merkja sér vissa á til að fá nýtingarleyfi í framtíðinni. En það er í rauninni ekkert sem kemur í veg fyrir að ákveðin fyrirtæki fái einfaldlega nýtingarleyfi strax og geti þá hafið rannsóknir á þeim forsendum eins og staðan er núna. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þessi forgangsröðun eins og staðan er í dag — það er nóg rafmagn í landinu og það er ekki eins og við séum á flæðiskeri stödd, eins og kom fram áðan í allri þeirri upptalningu í skýrslunni um raforkumálefni. Það er í rauninni óskiljanlegt hvað það er sem hvetur ráðherra til að ýta málinu fram með þessum asa án þess að binda þá hnúta sem eru lausir.[16:41]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er annað hægt en að brosa að þessum málflutningi hv. þingmanns þegar hann talar um trúverðugleika hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra því hann tók til máls um frumvarp sem hann var meðflutningsmaður að á síðasta löggjafarþingi. Fyrir örfáum mánuðum var hv. þingmaður meðflutningsmaður að því frumvarpi sem við erum að ræða. Það hefur ekkert breyst á milli þinga og hér kemur hv. þingmaður upp og segir: Hvað liggur á? Halló. Hv. þingmaður var flutningsmaður að málinu. Hvað er í gangi hjá hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins? Eru hv. þingmenn ekki hlynntir skynsamlegri nýtingu á náttúruauðlindum landsins? Hv. þingmaður endaði á því áðan að tala um skynsamlega nýtingu. Þurfum við þá ekki að fara í rannsóknir á þeim auðlindum til að vita hvað er skynsamlegt í þeim efnum? Hvers lags málflutningur hefur farið fram í dag?

Og enn og aftur koma hv. stjórnarandstæðingar hér upp og tala um að fara eigi í þrjú eða fjögur álver á næstu 5–7 eða tíu árum. (ÞBack: Það er búið að lofa því.) Þetta er fáránlegur málflutningur. Það hefur ekki verið skrifað undir neitt í þeim efnum að farið verði í slíkar framkvæmdir. Ég sé að hv. þm. Þuríður Backman hlær. (ÞBack: Það er búið að lofa þessu.) Og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er vafalaust ekki lítið skemmt. Þetta eru þeir þingmenn sem hafa talað hvað mest gegn framkvæmdum til að mynda í eigin kjördæmi á Miðausturlandi. Menn vilja kannski horfa til framtíðar á Norðurlandi. Það hefur ekkert verið tímasett í þessum efnum en ég lofa Norðlendingum því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu berjast með oddi og egg gegn uppbyggingu atvinnutækifæra á Norðurlandi. (JBjarn: Það er rangt.) (ÞBack: Um hvað ertu að tala?) (Gripið fram í: Gegn virkjunarframkvæmdum.)[16:43]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög jákvætt þegar hv. þm. Birkir Jón Jónsson getur gert að gamni sínu og brosað. Ég sagði í umræðunni að í sjálfu sér væri þetta frumvarp ekki óskynsamlegt. En ég spurði hæstv. ráðherra hvað lægi á vegna þess að þegar þetta frumvarp var til umræðu eða fór frá nefndinni var það meðal annars til að bjarga vondu frumvarpi sem kom frá ráðherra.

En einnig lá ljóst fyrir þegar það frumvarp var til umræðu í nefndinni að binda þyrfti lausa enda. En síðan kemur þetta frumvarp óbreytt og ekki er búið að ganga frá þeim endum sem voru lausir. Ég tel að það ætti að vera ákveðið áhyggjuefni. Hvað liggur á? Hvers vegna er ekki búið að binda þá hnúta sem voru lausir?

Í sjálfu sér væri fróðlegt að fá skýringar frá hv. þingmanni vegna þess að hann hefur mikið minnst á heimamenn en ekki aðkomumenn enn varðandi þetta frumvarp. Ég átta mig í rauninni ekki á því hvað heimamenn og jafnvel aðkomumenn koma þessu frumvarpi við. Þetta snýst um rannsóknarleyfi, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, og ég vona að menn fari að átta sig á því í umræðunni og skynsamleg umræða verði um nýtingu á auðlindum þjóðarinnar.[16:45]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður virðast orðaskipti mín og hv. þm. Jóhanns Ársælssonar áðan hafa farið fram hjá þingmanninum. Það er allt gott um það að segja, en þar ræddum við mikið um þennan þátt heimamanna. Ég sagði í andsvari fyrr í dag að mikill áhugi væri hjá heimamönnum, m.a. í Skagafirði og í Þingeyjarsýslum, á því að farið verði út í rannsóknir á auðlindum sem eru í þeim héruðum. Ég hef ekki úthlutað neinum rannsóknarleyfum hvað það varðar og alveg ljóst að aðilar víða um land munu sækja um slík leyfi.

Hv. þingmaður segir: Hvað liggur hér á? Það er mikilvægt að við komum þessari lagabreytingu í gegn svo að menn geti sótt um rannsóknarleyfi og farið í rannsóknir. Það þarf rannsóknir til þess að kveða á um framtíðarnýtingu á auðlindum þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Ég fagna því náttúrlega ef hv. þm. Sigurjón Þórðarson er ekki á móti því frumvarpi sem hann var meðflutningsmaður að fyrir örfáum mánuðum. Ég skildi orð hans hér þannig að hann mundi standa að þessu. Flýtirinn er ekki meiri en svo á málinu að við frestuðum því á síðasta löggjafarþingi. Hv. þingmaður var meðflutningsmaður að málinu. Hann hefur væntanlega viljað fá málið í gegn á síðasta löggjafarþingi. Asinn er því ekki meiri en svo að við ætlum að koma þessu máli í gegn á þessu þingi ef meiri hluti er fyrir því á hinu háa Alþingi.

Ég hef lýst yfir stuðningi mínum við þetta mál. Hér er um framfaraspor að ræða og alveg merkilegt að hlusta á málflutning stjórnarandstöðunnar í dag hvað það varðar að menn vilji horfa til framtíðarnýtingar á þessum auðlindum og rannsaka þær. Það er sjálfsagt mál að menn rannsaki þessar auðlindir til þess að vita hvort hagkvæmt sé, hvort eitthvert vit er í, að fara í einhverjar framkvæmdir í framhaldi af því. Við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður.[16:47]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Umrædd skoðanaskipti fóru ekki fram hjá mér, en ég verð að segja eins og er að ég varð engu nær um hvað heimamenn og jafnvel aðkomumenn koma þessu máli við. Ég á von á því að hv. þingmaður og formaður allsherjarnefndar skýri það út fyrir okkur seinna í umræðunni. Ég studdi frumvarpið í trausti þess að umrædd nefnd, sem átti að vera skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka, yrði skipuð. Það hefur ekki verið gert.

Ég kom einnig inn á það í ræðu minni áðan að traust mitt á hæstv. iðnaðarráðherra fer sífellt þverrandi. Ég er ekki einn um það. Ég finn það á fólki á landsbyggðinni, jafnvel á fólki sem hefur stutt Framsóknarflokkinn til margra ára og fær háa raforkureikninga frá flokknum, að því er ekki sama. En mér finnst algjör vitleysa að blanda heimaaðilum í Skagafirði inn í þetta mál.

Ég vona að hv. þingmaður hafi hlýtt á ræðu mína þar sem ég kom inn á að yfir 90% af allri orku sem er framleidd í Blönduvirkjun er flutt af svæðinu og ekki notuð á Norðurlandi vestra. Eins og staðan er í Skagafirði er því nægileg orka fyrir iðjuver á borð við steinullarverksmiðjuna og nokkrar slíkar, það er hægt að stinga þeim í samband. Það er óþarfi að blanda atvinnuuppbyggingu í Skagafirði inn í þetta mál.[16:50]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var athyglisvert hversu mjög hæstv. ráðherra og kannski ekki síður formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, kveinkuðu sér undan því að þetta mál, þetta litla frumvarp sem svo lítur út fyrir að vera á yfirborðinu, var sett í sitt rétta samhengi. Sett inn í samhengi um stóriðjustefnu og álstefnu ríkisstjórnarinnar. Það var greinilega ekki vinsælt á þeim bæjum að draga upp heildarsamhengi hlutanna svo maður minnist ekki á að vekja athygli á þeirri staðreynd að hæstv. ríkisstjórn byrjar hér eins og venjulega á öfugum enda og skilur allt eftir sem lýtur að umhverfismálum og náttúruvernd, ýtir því út af borðinu, ryður því út úr þessum frumvörpum sínum.

Mikillar tilhneigingar gætir hjá hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og talsmönnum Framsóknarflokksins, til að stilla málum þannig upp: Það er allt eða ekkert. Annaðhvort styðja menn stóriðju, hina blindu, óheftu stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, eða þeir eru algjörlega á móti öllu slíku. Það er allt eða ekkert. Og ég lít svo á að Sjálfstæðisflokkurinn styðji álstefnu Framsóknarflokksins þangað til annað kemur í ljós. Það heyrist ekki múkk í neinum sjálfstæðismanni. Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðnaðarráðherra, er því væntanlega andlegur leiðtogi þeirra í þessum efnum

Þar sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leyfum okkur að hafa efasemdir um eða vera beinlínis andvíg ýmsum virkjunum — teljum sumar virkjanir, t.d. Kárahnjúkavirkjun sem nú er verið að reisa, gjörsamlega óverjandi vegna hinna miklu óafturkræfu umhverfisspjalla — erum við bara á móti virkjunum. Við erum samt sem áður sammála faglegri matstofnun Íslendinga, Skipulagsstofnun, sem gaf framkvæmdinni við Kárahnjúka, eins og kunnugt er, falleinkunn sem var síðan snúið við með pólitísku handafli. En við erum bara á móti virkjunum. Það sagði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hér. Spurði aftur og aftur: Hvað má þá virkja? (Gripið fram í.) Já, ég skal koma með svarið. Hv. þm. Birkir J. Jónsson stillti dæminu þannig upp: Ef menn styðja ekki álversáform ríkisstjórnarinnar þá eru menn á móti atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum. (BJJ: Er það ekki atvinnuuppbygging?) Jú, það er ein tegund hennar, en það er ekki það eina sem er í boði, eða er það? (Gripið fram í.) Er það þá þannig eftir allt saman, þegar dæminu er stillt svona upp, að það sannist að menn sjá enga aðra möguleika en álver, ekkert annað til atvinnuuppbyggingar? Ef allir sem andæfa þeim eru stimplaðir almennir andstæðingar atvinnuuppbyggingar er um leið verið að segja: Það er ekkert annað til.

Ég leyfi mér að votta Framsóknarflokknum samúð mína. Ég votta Framsóknarflokknum samúð mína af þessari hrottalegu málefnafátækt. Það er eiginlega ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að Framsóknarflokkurinn sé um þessar mundir ómálefnalegasti stjórnmálaflokkur Íslands. Ég get ekki komist að annarri niðurstöðu. Ég hef margar fjörurnar sopið í orðaskiptum á Alþingi og ég man varla eftir í annan tíma, nema ef helst skyldi vera fyrstu ár mín á Alþingi þegar maður var að kljást við hörðustu hægri mennina í umræðum um utanríkismál, brennimerkta af anda kaldastríðsáranna, jafnhrottalega átakanlegri tilhneigingu til fullkomlega ómálefnalegrar nálgunar eins og hér gætir hjá Framsóknarflokknum.

Hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra einhverja minnstu ástæðu til að ætla að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé almennt á móti virkjunum? Bara almennt á móti því að virkja? (Gripið fram í.) Er það mjög líkleg nálgun? Er það ekki um það bil jafnfáránlegt eins og þegar formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, sem þjóðin hefur ákveðnar skoðanir á, stóð hér í þessum ræðustóli og sagði að Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri á móti framförum. Hún væri örugglega eini stjórnmálaflokkurinn undir sólinni sem nokkurn tímann hefði verið stofnaður í samanlagðri stjórnmálasögu heimsins sem gengi fram undir þeim formerkjum að vera á móti framförum. Þá kemur auðvitað að því að menn skilgreina hlutina með mismunandi hætti. Fyrir einum eru það framfarir sem annar telur afturför. Það að rústa niður velferðarkerfinu á Íslandi og skera þar niður við trog eru framfarir í augum eins en afturför í augum annarra, er það ekki? Hið sama á við um stóriðjustefnuna og þau hrottalegu ruðningsáhrif og neikvæðu áhrif sem hún hefur í efnahags- og atvinnulegu tilliti og blasa við okkur þessa dagana. Svo maður tali ekki um umhverfisáhrifin. Þetta finnast sjálfsagt einhverjum vera framför en öðrum afturför.

Ég hef oft rætt um orku- og virkjunarmál á Alþingi þau 22 ár sem ég hef verið hér. Það er víða til á prenti þar sem ég fer yfir þessi mál og bendi á hversu góða möguleika Íslendingar eigi á að stunda sjálfbæran orkubúskap. Það er hægðarleikur fyrir okkur Íslendinga að fullnægja okkar þörfum, öllum okkar almennu þörfum og þörfum í þágu almenns iðnaðar, án þess að ráðast í neinar af þeim umdeildu virkjunum sem mestum deilum hafa valdið á Íslandi síðustu ár. Ætli við séum alveg ein á ferð, þingmenn Vinstri grænna, að hafa efasemdir um þær fórnir í íslenskri náttúru sem óhefta stóriðjustefnan er að kalla yfir okkur og á eftir að kalla yfir okkur ef öll áformin um 12–14 þús. tonna framleiðslu á áli hér innan 5–10 ára eiga að ganga eftir? Ætli það muni ekki fleiri en við sjá svolítið eftir Langasjó, sjá svolítið eftir Þjórsárverum, sjá svolítið eftir Aldeyjarfossi, sjá svolítið eftir gljúfrunum með jökulvötnunum í Skagafirði? Jú, ég held að það verði fleiri en við fimm, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Skyldi því Framsóknarflokkurinn ekki aðeins þurfa að líta í eigin barm, velta því fyrir sér hvort þessi grátlega ómálefnalega og ómerkilega nálgun, að reyna með svona einföldum hætti að gera mönnum uppi skoðanir, (Iðnrh.: ... er svarið?) endurspeglist kannski í því trausti (Iðnrh.: Hvaða virkjanir ...?) sem menn bera til flokksins í skoðanakönnunum. Kannski það sé þannig að formaður Framsóknarflokksins (Gripið fram í: Hvernig fóru síðustu kosningar?) standi jafnágætlega og raun ber vitni með þjóðinni, m.a. vegna þess að fólk sér í gegnum svona málflutning.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti réttilega á, og ég kom líka inn á það í minni tölu, að margar meira og minna fullbúnar virkjanir eða virkjunarkostir liggja á lager. Veitt hafa verið rannsóknarleyfi, framkvæmdarleyfi eða nýtingarleyfi fyrir mörgum virkjunum. Þar má t.d. nefna Hellisheiðarsvæðið og að fullnýta Kröflusvæðið. Ég hef sagt áður í þessum ræðustól: Það svæði er sjálfsagður virkjunarkostur þegar búið er að fara inn á það og opna það upp, bæði í umhverfislegu tilliti og hvað hagkvæmni varðar, það er sjálfsagt að fullnýta það þegar við þurfum á orkunni að halda til einhverra þeirra þarfa sem við erum sammála um.

Búðarhálsvirkjun — bráðhagkvæm rennslisvirkjun sem nýtir þær miðlunarframkvæmdir sem komnar eru á Þjórsársvæðinu, sjálfsögð virkjun. Ég er ekki á móti henni, ég styð hana að því gefnu að við þurfum á orkunni að halda til einhverra skynsamlegra nota. Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði. Að fullnýta Nesjavallasvæðið, auðvitað, frekar en að fara í Brennisteinsfjöll eða Torfajökulssvæðið, að sjálfsögðu. Úr því sem komið er er einboðið að fullnýta svæði eins og Nesjavelli. Ég styð það. Þarf hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fleiri virkjunarkosti? Margar hagkvæmar beinar rennslisvirkjanir í bergvatnsám sem valda sáralitlum umhverfisáhrifum og eru afturhverfar í þeim skilningi að það má fjarlægja stíflurnar, taka rörin niður og hleypa vatninu aftur í sinn farveg — sjálfsagðar.

Í skýrslu hæstv. ráðherra eru taldar upp smávirkjanir upp á samtals 7,2 megavött. Sumar þegar byggðar, aðrar í vændum. Þær eru að mörgu leyti sjálfsagður kostur. Hagkvæmt að tappa smáframleiðslu inn á dreifikerfin, það dregur úr tapi í kerfinu o.s.frv. Alveg sjálfsagt. Menn hefðu miklu fyrr átt að horfa á möguleikann á að taka smærri virkjanir í bland inn í kerfið og það væri hagkvæmari rekstur í dag ef stórvirkjanastefnan hefði ekki ráðið lögum og lofum. Það hefur aldrei mátt minnast á að ráðast í minni virkjanir sem féllu að þörfum innlenda markaðarins. Nei. Það hefur alltaf þurft að vera þetta stóra, stóra. Reyndar er hrottalegt fyrir hæstv. ráðherra að vera hér með skýrslu þar sem stendur á bls. 57 í skýrslunni um raforkumál:

,,Undanfarin ár hafa verið lífleg í framkvæmdum og rannsóknum á orkulindum landsins.“

Það stemmir illa við lýsinguna í frumvarpinu á hinni miklu tregðu og á því að ekki sé nóg að gert. Það stendur því ekki steinn yfir steini og eitt rekur sig á annars horn. En mergurinn málsins er þessi: Framsóknarflokkurinn er gjörsamlega helfrosinn í álvæðingu, í álæðisstefnu sinni, kemst ekki frá henni. Þrátt fyrir að nú blasi við okkur að það er verið að ryðja öðru atvinnulífi um koll í landinu skal haldið áfram og hrekja síðustu leifarnar af þekkingarfyrirtækjum, útflutnings- og samkeppnisiðnaði úr landi, leggja þess vegna niður fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Öllu skal til kostað til að stóriðjustefna Framsóknarflokksins fái að hafa sinn gang.[17:00]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hugsa oft um það þegar ég hlusta á hv. þingmann, formann Vinstri grænna, hvað þjóðin má vera þakklát fyrir að hann hefur ekki mikil völd í þessu landi og tapaði miklu fylgi í síðustu kosningum og hann hefur nú ekki náð sér eftir það. (SJS: Tapaði minna en Framsókn.) Hann hefur ekki náð sér eftir það enn þá. Hann tapaði manni meðan framsókn hélt sínum. Það hefur hv. þingmaður ekki komist yfir enn þá og er kannski skiljanlegt.

Það var auðheyrt á hans málflutningi hér að hann vill bara virkja sunnan lands. Hann er þingmaður Norðausturkjördæmis þar sem er mikil uppbygging, þ.e. á Austurlandi vegna orkunýtingar sem hv. þingmaður hlýtur nú að hafa tekið eftir. Það eru áform um það norðan lands jafnvel að virkja og byggja stóriðju vegna áhuga heimamanna, vegna áhuga Norðlendinga, sérstaklega vinstri manna á Húsavík. Þegar við þingmenn vorum þar nýlega á fundi stóð þar í texta frá bæjaryfirvöldum — vinstri menn stjórna bænum — að þeir vonuðust til þess að stjórnvöld kæmu ekki í veg fyrir að reist yrði stóriðja við Húsavík. Mér fannst þetta einkennilegur texti og spurði hvað þetta þýddi því við höfum frekar verið skömmuð fyrir að vera of áhugasöm um að byggja stóriðju heldur en hitt. Þá var svarið að það væri bara vegna ótta við að kannski kæmu aðrir flokkar að völdum á Íslandi. Þetta voru nú flokksbræður hv. þingmanns, ef ég þekki rétt til, sem höfðu þó ekki meira álit á honum en svo hvað varðar atvinnuuppbyggingu á þessu svæði að þeir þurftu að hafa sérstakan fyrirvara um að hætta væri á því að aðrir gætu komið að völdum. Og ég er sammála þeim um það.[17:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir að sanna hér mín orð, sanna þau orð að Framsóknarflokkurinn er alveg örugglega — það er hafið yfir vafa í raun og veru í ljósi t.d. þessara orðaskipta hér í dag — ómálefnalegasti stjórnmálaflokkur á Íslandi. (Gripið fram í.) Talsmenn hans temja sér framgöngu sem er eiginlega harla óvenjuleg í þingsölum. Það er ekki haft svo mikið sem fyrir því að reyna að eiga orðaskipti við menn og láta þá bara viðurkenna að þeir hafi aðrar skoðanir og séu á öndverðum meiði. Nei, nei, það þarf bara að reka málin á þessum nótum eins og við heyrðum hér m.a. áðan.

Já, þjóðin er heppin að vinstri grænir skuli ekki hafa meiri völd. Hver segir það? Það segir Valgerður Sverrisdóttir. Að hennar mati er það alveg rétt. En það vill svo vel til, frú forseti, að þjóðin ræður því sjálf. Það er nefnilega sem betur fer ekki Framsóknarflokkurinn sem ræður því. Hann er á stanslausri niðurleið og hefur tapað fylgi núna þrennar kosningar í röð, ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill fara yfir það út af fyrir sig. Eigum við kannski að rifja upp kosningarnar 1999? Eigum við rifja upp úrslitin í síðustu kosningum í Norðurlandskjördæmi eystra? Þá var hæstv. ráðherra með hýrri há — var það ekki? — og glöð í bragði og í sinni þegar hún tapaði forustunni í því kjördæmi í hendur Sjálfstæðisflokksins og miklu fylgi. Það er nú hægt að rifja upp ýmislegt í þessum efnum.

Við unum alveg ágætlega sátt við okkar hlut í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og finnum fyrir miklum stuðningi úti í þjóðfélaginu sem birtist með ýmsum hætti, m.a. í því að ungt fólk er mjög upptekið af þessum málum. Það hugsar um framtíðina og veltir því fyrir sér hvernig Ísland komi til með að líta út, hvernig við viljum hafa landið okkar, hvernig við viljum umgangast það og hvernig við viljum fara með það. Það vill heldur ekki að Ísland sé dregið inn í stríð í fjarlægum heimsálfum og beri ábyrgð á þeim hörmungum o.s.frv.

Ég tek ekki hreppapólitíska afstöðu í þessum efnum. Hæstv. ráðherra er hér að biðja um að menn taki afstöðu til grundvallarmála af þessu tagi eftir því hvort virkjanirnar kunna að falla í þeirra kjördæmi, þeirra hrepp eða einhvers staðar annars staðar. Þá skal hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vera þannig (Forseti hringir.) stjórnmálamaður en ekki Steingrímur J. Sigfússon. (Forseti hringir.) Þetta er ekki hreppapólitík fyrir mér þegar kemur að náttúru landsins.[17:04]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti miður sú geðillska sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan á þessum fallega degi. Hv. þingmaður talaði mikið til okkar framsóknarmanna í ræðu sinni, nefndi Framsóknarflokkinn nokkuð oft á nafn og talaði um að það sem sumum þættu framfarir væri afturför í augum annarra.

Það er rétt að okkur hv. þingmann greinir á í mörgum málum. En þá skulum við fá á hreint hvað hv. þingmanni finnst um þær framfarir sem við framsóknarmenn teljum einkenna Miðausturland nú. Er þar um afturför að ræða? Þar geislar fólk af bjartsýni. Þar er uppbygging í gangi.

Hæstv. forseti. Ég vil segja við hv. þingmann að við erum að ræða um rannsóknarleyfi, um að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi. Ábyrgir stjórnmálaflokkar sem vilja skynsamlega nýtingu á náttúrauðlindum landsins hljóta að vera samþykkir því að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi til þess að komast að því hvað sé skynsamlegt í þessum efnum. Á ekki að veita fyrirtækjum rannsóknarleyfi til þess að rannsaka nýtingarmöguleika á auðlindum? Hvernig getum við annars komist að niðurstöðu um hvað sé skynsamlegt og hvað sé óskynsamlegt í þessum efnum? Hv. þingmaður talaði mjög mikið um að Framsóknarflokkurinn væri ómálefnalegasti flokkur landsins. Hann verður svo sem að fá hafa þá skoðun. Það er stefna okkar framsóknarmanna að fara skynsamlega með náttúruauðlindir þjóðarinnar. En þá verða menn að fara í rannsóknir og við erum að reyna að heimila aðilum hér á landi að fara í rannsóknir á þessum auðlindum. En vinstri grænir eru á móti því eins og svo mörgu öðru.

Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér atvinnuástand t.d. á Norðausturlandi. Ég hef ekki orðið var við að hv. þingmaður kæmi með neinar lausnir eða tillögur í þeim efnum. Hann gagnrýnir bara og er bara á móti.[17:06]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sömuleiðis kærar þakkir til hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Það er ákaflega notalegt þegar maður hefur haldið fram sjónarmiði og svo koma ræðumenn í pontu í kjölfarið og sanna það sem maður var að segja. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gaf sjálfum sér og málflutningi sínum alveg prýðiseinkunn með þessari snjöllu ræðu, (BJJ: Takk fyrir.) jafnmálefnaleg (Gripið fram í.) og rausnarleg og hún var.

Já, það er nú kannski þannig, eins og hv. þingmaður hafði eftir mér, að það sem einn telur vera framþróun eða til framfara horfa það telur annar kannski ekki. Ég tel það ekki framþróun að ryðja í burtu úr íslensku atvinnulífi hátækni- og þekkingarfyrirtækjunum, hrekja þau úr landi. Ég tel það ekki framþróun að um 500 manns hafa misst atvinnu sína í fiskvinnslu í landinu á einu ári og það rakið beint til gengis krónunnar og óhagstæðra skilyrða sem stóriðjuframkvæmdirnar settu af stað ef marka má t.d. sérfræðinga Seðlabankans. Ég tel það vera afturför. Ég tel að ekki sé hverju sem er fórnandi í hinu almenna íslenska atvinnulífi til þess að stóriðjustefna Framsóknarflokksins geti haldið óheft áfram.

Svo er það uppbyggingin á Miðausturlandi. Hvernig getur hv. þingmaður haldið þessu fram, spyr þingmaðurinn, í ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem er á Miðausturlandi? Hverjum datt annað í hug og hvenær var því mótmælt að auðvitað mundu þessar miklu framkvæmdir hafa mikil svæðisbundin áhrif? Aldrei. Það var ítarlega rætt hér í þingsölum. En hópur þingmanna var þeirrar skoðunar að það væri ekki nægjanlegt til þess að réttlæta hina neikvæðu þætti sem málinu fylgdu, þ.e. hin miklu óafturkræfu umhverfisspjöll og neikvæð efnahagsáhrif og fleira í þessum dúr. Um þetta snýst málið. Þessi er hinn málefnalegi ágreiningur ef menn geta fallist á að ræða það (Forseti hringir.) á þeim nótum. En það getur (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn greinilega ekki og það verður að vera hans vandi.[17:08]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að eiga orðaskipti við hv. þingmann þar sem hann eyðir hálfu andsvarinu í að tala eingöngu um hversu ómálefnalegur málflutningur þess sem hér stendur er án þess að færa fyrir því nokkur rök.

Hv. þingmaður talar um að störf séu að tapast. Ég vil benda hv. þingmanni á að atvinnuástand hér á landi er prýðilega gott heilt yfir litið. Atvinnuleysi er 1,8% núna. Auðvitað veldur staða krónunnar erfiðleikum í sjávarbyggðum landsins. Ég geri mér vel grein fyrir því. En það er rangt að halda því fram að þar sé einvörðungu um ruðningsáhrif vegna stóriðju á Austurlandi og Vesturlandi að ræða. (Gripið fram í.) Útlánaaukning bankanna til að mynda hefur farið að miklu leyti í einkaneyslu landsmanna. Heildarlántaka bankanna í erlendri mynt var um 1.000 milljarðar á milli áranna 2004 og 2005, júlímánaða þá. Heldur hv. þingmaður að það hafi engin áhrif?

Allir eru sammála um að spákaupmennska með íslenskan gjaldmiðil erlendis upp á 130 milljarða hefur haft mikil áhrif á gengi krónunnar. Heldur hv. þingmaður því fram að það hafi engin áhrif á stöðu krónunnar, þ.e. 130 milljarðar í samanburði við 38 milljarða sem streyma inn í landið vegna þeirra framkvæmda sem við höfum rætt í dag? Við hljótum að geta sett þessa hluti í samhengi. Það er ekki hægt að taka einvörðungu einn þátt út í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að okkur hv. þingmann, framsóknarmenn og Vinstri græna greinir allsvakalega á í atvinnustefnu þjóðarinnar. En við höfum varið miklum fjármunum til nýsköpunar og miklum fjármunum til samgöngubóta á landsbyggðinni í kjölfar markaðsvæðingar Símans. Það hefðum við ekki farið út í ef Vinstri grænir hefðu verið við völd. Við hefðum ekki verið búin að markaðsvæða bankana (Forseti hringir.) og þar af leiðandi væri ekki það ástand sem er hér á Íslandi í dag.[17:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Seðlabankinn segir í hefti sínu sem kom út að mig minnir í febrúarmánuði síðastliðnum — hann hefur reyndar sagt það áður eða í öðrum tilvikum bæði fyrr og síðar — að hinar miklu samanþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir sem eru bæði meiri að umfangi og hafa þjappast meira saman í tíma en áður var talið, séu frumorsakavaldur þenslunnar sem við er að glíma. (BJJ: ... ekki einir.) Þær nema, segir Seðlabankinn, um einum þriðja af landsframleiðslu heils árs á einum þrem, fjórum missirum og þetta er í raun og veru sett með handafli inn í hagkerfið hér.

Síðan bætast við hinar mislukkuðu skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sem eru olía á eldinn og allar helstu ráðgjafarstofnanir hafa lagt til að verði frestað eða dregið úr. Þar til viðbótar kemur svo þenslan á fasteignamarkaði og bólan í byggingariðnaði. Þetta leggst vissulega allt saman og magnar upp ástandið. Það er alveg rétt. En frumorsakavaldurinn þarna er stóriðjustefnan. Hún setur ferlið af stað.

Spákaupmennskan sem hv. þingmaður talar svo um er afleiðing af því ástandi sem var orðið, er afleiðing af vaxtamuninum upp á 5–6% milli Íslands og nágrannalandanna sem er komin, er afleiðing af hinu sterka gengi krónunnar sem hitt skapaði. Hv. þingmaður er því á miklum villigötum ef hann ætlar að leita skýringa í spákaupmennskunni sem kemur til sögunnar vegna ástandsins sem þarna er orðið. Stóriðjustefnan er þarna mikil frumorsakavaldur.

Það er alveg rétt að hin beinu efnislegu áhrif hennar, sett í samhengi við stærðirnar í dæminu, eru ekkert svo óskapleg. En allir vita að væntingarnar risu með henni og með þeim ákvörðunum sem þar voru boðaðar. Enginn deilir um það. Og það sem meira er, áframhaldið viðheldur væntingunum. Þegar hæstv. iðnaðarráðherra ríður um héruð og boðar álver hér og álver þar er verið að halda uppi þessum væntingum, þessari spennu. (Forseti hringir.) Og það er að hrekja annað atvinnulíf út á gaddinn, úr landi, leggja það niður. Því erum við á móti. Það teljum við ekki vera framfarir.[17:13]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er búin að vera fróðleg umræða hér í dag. Ýmislegt hefur komið fram í henni, rök með og á móti o.s.frv. Það sem mig langar að vita — og beini ég þá orðum mínum til hæstv. iðnaðarráðherra — er nokkuð sem mér finnst ekki hafa komið fram í umræðunni, þ.e. hvort leiða megi líkur að því varðandi þetta frumvarp að þeir sem rannsóknarleyfi fá geti haldið þeim til jafnvel margra ára og þannig hugsanlega skapað sér sérstaka stöðu til þess að halda hjá sér nýtingarrétti síðar á einhverjum virkjunarkostum eða hvort gert sé ráð fyrir því að um slík leyfi gildi ákveðnar tímatakmarkanir og hvernig þær eru þá settar og á hvaða grundvelli. Ég held að nauðsynlegt sé að velta þessu fyrir sér þegar menn skoða efnisinntak þessara laga, þ.e. hvort ekki geti komið upp sú staða að einhverjir aðilar hafi sótt um rannsóknarleyfi og fengið það, stundi síðan — hvað eigum við að segja? — hægfara rannsóknir í tíu ár eða fimmtán og fái þar af leiðandi forgang að því að nýta viðkomandi vatnsfall, ef menn verða sammála um að það sé hagkvæmt til nýtingar. Reyndin gæti orðið sú, hæstv. forseti, að fyrirtæki sem núna eru greinilega í kapphlaupi um að raða á sig virkjunarkostum fari þá leið að sækja um rannsóknarleyfi, að menn sæki um rannsóknarleyfi í talsverðum mæli, á hverjum læk og hverri sprænu, og haldi síðan rannsóknum áfram. Menn geta byrjað á að mæla vatnsrennsli o.s.frv. og síðan farið að skoða hina ýmsu virkjunarkosti og möguleika, fallhæð og margt fleira. Ég held að menn verði að skoða þetta í nefnd mjög vandlega, hæstv. ráðherra. Ég hef ekki heyrt það hér í umræðunni og sé það ekki í frumvarpstextanum að þessi möguleiki sé inni í myndinni og hann hefur ekki verið ræddur hér í dag. Ég held að nauðsynlegt sé að menn velti þessu fyrir sér þegar verið er að setja þessi ákvæði.

Hér er að vísu tekið fram að annar aðili geti fengið virkjunarleyfi og þurfi þá jafnvel að greiða eitthvað af kostnaði til baka. En það segir hins vegar ekkert um hversu lengi rannsóknaraðilinn hefur stundað einhvers konar rannsóknir. Hver leggur svo mat á hvort þessar rannsóknir verði til þess að koma þessum málum virkilega fram, þ.e. ef menn hafa áhuga á því, eða hvort menn séu hreinlega koma sér í ferli bara til að tryggja þeim forgang að virkjunarkostum síðar? Þeir væru þá í raun að raða upp á sig rannsóknarleyfum. En síðan gætu rannsóknir tekið mjög langan tíma. Það er ekkert í samræmi við þá hugsun sem menn væntanlega hafa í orkumálum, þ.e. að tryggja sér þá virkjunarkosti sem hagkvæmastir teljast og minnstum spjöllum valda.[17:16]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög málefnaleg spurning sem kemur hér fram. Þannig er að verði þetta frumvarp að lögum hefur rannsóknaraðili forgang í tvö ár en ekki lengur og þá mun gilda hið sama um vatnsaflið og jarðvarmann hvað þetta varðar. Rannsóknir geta oft tekið langan tíma eins og við þekkjum í vatnsaflinu, en það sem er aðalatriðið og það sem hv. þingmaður spurði um var þetta með forganginn og gildir í tvö ár eftir að rannsóknum lýkur. Eins og hann sagði er um það að ræða að fái sá sem rannsakar ekki endanlegt nýtingarleyfi þá geti hann gert kröfu á endurgreiðslu vegna þess kostnaðar sem hann hefur lagt í og snýr að virkjuninni sem endanlega verður byggð.[17:17]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör og ég vona að í hv. nefnd beri menn gæfu til að fara vandlega yfir öll þessi mál þannig að þeim verði komið fyrir með sem bestum hætti eins og menn sjá fyrir um nýtingu orkunnar og einnig að virkjunarkostum verði raðað upp með hagsmuni framtíðar í huga og réttri nýtingu á landi.