132. löggjafarþing — 46. fundur.
vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, 1. umræða.
frv. MÞH, 86. mál (kanínur, vernd lundans). — Þskj. 86.

[16:23]
Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum. Frumvarpið er stutt og 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við síðari málslið 1. mgr. 18. gr. laganna bætist: eða að þeim stafi ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra.“

Og 2. gr. er:

„Lögin öðlast þegar gildi.“

Virðulegi forseti. Það sem fyrir mér vakir með þessu litla, stutta frumvarpi — sem er í rauninni ekkert annað en umbót á lögunum um veiðar, friðun og vernd á villtum fuglum og villtum spendýrum — er að leggja inn stutt ákvæði sem opnar á heimild fyrir stjórnvöld til að grípa til aðgerða gegn aðfluttum dýrastofnum, tegundum sem á einhvern hátt geta ógnað þeim dýrastofnum sem fyrir eru á svæðinu og teljast íslenskir. Þetta er viðbót við 18. gr. laganna um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum en hún hljóðar svo í heild sinni, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að tegundunum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu sérstaklega viðkvæmar fyrir raski.“

Hér lýkur tilvitnun en við þetta vil ég sem sagt bæta:

„... eða að þeim stafi ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra.“

Skv. 2. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, er óheimilt að flytja dýr inn til landsins nema að fengnu sérstöku leyfi frá ráðherra eða að meðmæli frá yfirdýralækni liggi fyrir. Það er líka óheimilt að sleppa innfluttum dýrum í villta náttúru nema hafa til þess sérstakt leyfi frá umhverfisráðherra samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að við vitum að kanínur hafa verið fluttar inn til Íslands og þær hafa verið ræktaðar hér á landi m.a. vegna ullarinnar og kjötsins. Þær hafa auk þess verið vinsæl gæludýr. Veðurfar hefur hlýnað þó nokkuð hér á landi á undanförnum árum. Kanínur hafa sloppið út í náttúruna og náð að lifa veturna af og myndað stofna, í Öskjuhlíð og víðar í þéttbýli eins og í Vestmannaeyjum. Þar hefur orðið til vandamál sem varð þess valdandi að ég ákvað að útbúa þetta frumvarp. Þar er vandamálið á vissan hátt sérstakt og getur orðið mjög skeinuhætt. Eyjarnar umhverfis Ísland njóta sérstöðu sem búsvæði fyrir sjófugla og við erum hér í miðju Atlantshafi. Hér er mikið af sjófugli. Þessar eyjar eru mjög mikilvægar sem varpstöðvar og uppeldisstöðvar fyrir unga í annars viðkvæmri náttúru.

Auðug fiskimið eru við Vestmannaeyjar og grónar brekkur við bratta hamra og þetta myndar kjörið búsvæði fyrir lundann, en hann er friðaður á varptímanum. Þá eru eyjarnar einangraðar og lundinn hefur því átt auðvelt uppdráttar á þessum svæðum því rándýr, eins og minkar og refir, eru ekki fyrir hendi í Vestmannaeyjum. Þar er líka lítið um vargfugl sem gæti spillt lundavarpinu, til að mynda skúm eða kjóa því þeir verpa ekki í Vestmannaeyjum.

Lundaveiðar eru heimilaðar á tímabilinu frá 1. september til 10. maí á hverju ári. Lundaveiði hefur verið stunduð í Vestmannaeyjum frá örófi alda af manninum og er á vissan hátt auðlind fyrir eyjabúa sem skapar bæði ánægju og tekjur og á sér djúpar rætur í menningu eyjanna og mannlífi.

Síðustu árin hefur ný ógn steðjað að lundanum í Vestmannaeyjum því kanínurnar sem hafa sloppið þar út hafa náð að mynda stofn og hafa aðlagast umhverfinu á Heimaey. Það er sýnt með vísindarannsóknum að kanínurnar hafa náð að nýta lundaholurnar til híbýlis. Þær hafa sest þar að. Þær breyta holunum, grafa þær út og stækka þær og sameina. Þær fara út í miklar framkvæmdir ef svo má segja. Rannsóknir hafa sýnt að þetta fælir lundann í burtu. Hann hrekst burtu úr holunum ef kanínur setjast þar að. Holurnar eru nauðsynlegar fyrir lundann, bæði til varps en líka til að ala þar upp unga þannig að þetta er mjög alvarlegt vandamál. Þessi gröftur kanínanna, sú mikla elja og vinnusemi sem þær sýna við að koma sér upp búsvæði, hefur aftur neikvæð áhrif á gróðurþekju og jarðveg. Kanínurnar naga rætur grassins sem eru inni í lundaholunum og það dregur úr jarðvegsbindingu og getur ásamt venjulegri beit á yfirborði jarðar haft þær afleiðingar að festan í jarðveginum hverfur eða minnkar og þar með eykst hættan á jarðskriði. Þeir sem hafa komið út í Heimaey vita að mörg búsvæði lundanna eru einmitt í mjög bröttum brekkum, grasigrónum brekkum, og ekki þarf mikið að eiga sér stað þar til að jarðvegurinn hreinlega fari á skrið, til dæmis í leysingum á vorin, og steypist þar með í sjó fram og þá eru þessi búsvæði fuglanna glötuð og tekur jafnvel aldir að vinna það aftur upp.

Talið er að heildarstofnstærð lunda sé um 15 millj. fugla en íslenski stofninn er um 60% eða um 9 millj. fugla. Þar af eru um 2–3 millj. varpfugla og 1,5 millj. fugla í Vestmanneyjum. Lundinn er mikil auðlind því hann er einn stærsti fuglastofn Íslands, sjófugl sem lifir aðallega á sandsíli og loðnu. Þetta er farfugl sem kemur á vorin eftir vetrarlanga dvöl úti á hafi og á sér mjög merkilegt líf. Hann verpir einu eggi um miðjan maí sem klekst út eftir 40 daga og unginn er fleygur og fer úr holunni um miðjan ágúst.

Rannsóknir hafa sýnt að fjórðungur tilrauna hjá lunda til að verpa mistekst hvert ár í lundabyggðinni og um 65% af þeim pysjum sem komast á legg ná ekki kynþroskaaldri fyrr en eftir fimm ár. Þannig að þessi atriði, mikil náttúruleg afföll á varptíma og það að hvert par eignast aðeins einn unga á hverju ári, þýða að stofninn getur verið mjög viðkvæmur fyrir áföllum þótt hann virðist stór. Hann getur sýnt mjög miklar sveiflur í stofnstærð. Það bætir ekki úr, ofan á þær hremmingar sem eru fyrir í íslenskri náttúru, að við bætum við þessu aðskotadýri, þessu litla, loðna spendýri, kanínunni.

Kanínur eru félagsdýr sem lifa gjarnan í stórum byggðum neðan jarðar og grafa út völundarhús með göngum, hólfum og herbergjum. Holurnar geta verið mjög stórar. Þær hafa verið myndaðar. Lofthæðin getur verið allt að 30–60 sentimetrar. Kanínan getur fjölgað sér gríðarlega hratt. Í Norður-Evrópu getur hún fengið fang fimm sinnum á ári frá febrúar til september og oftar ef aðstæður leyfa og eru allt frá fimm til tólf ungar í hverju goti. Þarna er því samkeppnin ansi mikið kanínum í hag er við lítum á viðkomu stofnsins þar sem hvert lundapar getur aðeins eignast einn unga á ári en kanínurnar tugi unga, hvert par, ef svo ber við að horfa. Þær verða kynþroska mjög snemma og geta orðið gamlar. Þær geta orðið allt að tíu ára í villtri náttúru. Það eru mjög mörg dæmi um það erlendis frá að þessi dýr geti orðið að mjög mikilli plágu á skömmum tíma ef ekkert er að gert. Þær fjölga sér mjög hratt. Um það finnast dæmi annars staðar frá í heiminum að kanínur hafi hreinlega orðið faraldur og valdið miklu tjóni.

Talið er að í Vestmannaeyjum séu núna um það bil 300–500 villtar kanínur, þ.e. sem hafa sloppið út. Þær finnast víða á Heimaey. Menn hafa reynt að veiða þær og stemma stigu við fjölgun þeirra. Sem betur fer hafa menn gert sér grein fyrir því að þær hafa mjög neikvæð áhrif á náttúrufar Vestmannaeyja, sérstaklega á fuglalífið, lundann. Því hafa menn reynt að gera eins og þeir geta til þess að reyna að fækka þeim. Reynst hefur töluvert erfitt að útrýma þeim alveg en vonir standa til að það verði hægt að gera og í framhaldi af því hægt að setja reglugerð sem bannar — og þetta frumvarp opnar heimildir til þess að settar verði reglur um það — að það verði til að mynda hreinlega bannað að halda kanínur á stöðum eins og Heimaey og öðrum fuglaeyjum umhverfis landið. Við erum ekki bara að tala um Heimaey hér. Þessi hætta gæti komið upp annars staðar, til dæmis á Flatey í Breiðafirði, Vigur í Ísafjarðardjúpi, eyjum við Norðurland og undan Austurlandi, til að mynda í Skrúðnum. Þarna getur strax orðið mjög mikið vandamál ef svo færi að þessi dýr slyppu út og næðu að fjölga sér.

Það sem fyrir mér vakir með þessu frumvarpi er að opna á heimildir fyrir stjórnvöld til að grípa til þess að setja reglur um að farið verði út í sérstakar aðgerðir til þess að útrýma og hamla frekari fjölgun þessara dýra á kostnað tegunda sem réttilega tilheyra íslenskri fánu.

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að þetta frumvarp fari eftir umræðu til meðhöndlunar í hv. umhverfisnefnd og vona ég að það verði litið þar jákvæðum augum því ég tel einsýnt að ef við grípum ekki strax til aðgerða, eins og komið hefur fram í máli mínu, við að stemma stigu við að þessi aðskotadýr séu laus í náttúru Íslands þá geti það valdið miklu tjóni á villtu dýralífi á Íslandi. En það gæti líka orðið okkur sjálfum til tjóns, mannskepnunni, því villtir sjófuglar við Ísland eru í sjálfu sér auðlind, ekki bara sem matur heldur eru þeir okkur öllum til yndisauka, okkur Íslendingum sem búum hér allt árið um kring og síðast en ekki síst ferðamönnum. Ég minni á að lundinn er mjög vinsæll hjá útlendingum, erlendum ferðamönnum, enda er hér um að ræða mjög fallegan og skemmtilegan fugl. Okkur Íslendingum ber að sjálfsögðu skylda til að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að sá fuglastofn verði fyrir óþarfa áföllum.[16:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Viðfangsefnið sem hv. þingmaður og flutningsmaður frumvarpsins, Magnús Þór Hafsteinsson, velti hér upp er í sjálfu sér athyglisvert. Hann flutti ágæt rök fyrir því sem er nú líka, að ég tel, augljóst, þ.e. að þegar svona aðstæður koma upp eins og í Vestmannaeyjum þá er sjálfsagt og eðlilegt að reyna að bregðast við þeim. Í þessu tilfelli er um að ræða kanínuna sem er alla jafna er talin frekar vænt dýr, ef þannig mætti að orði komast. Hún bragðast meira að segja alveg ágætlega. Ég smakkaði slíkt einhvern tímann á Spáni og fór vel í mig. Eðli málsins samkvæmt þegar svona aðstæður koma upp eins og í Heimaey þá verða menn að bregðast við þeim.

Þetta er nú misjafnt. Hérna í Öskjuhlíðinni held ég að menn hafi ekki séð sama vanda og í Vestmannaeyjum. Ég sá einhvers staðar í blöðum að einhverjir höfðu hugmyndir um að kanínur gætu orðið nytjabúskapur hér á landi því þær gætu verið ágætisviðfangsefni fyrir veiðimenn að eltast við. En hvað sem því líður þá skil ég alveg inntakið í máli flutningsmanns og er alveg sammála því að taka verði á vandamálum eins og hann nefndi. En ég vildi spyrja hann hvort hann telji þetta nauðsynlegt til að svo mætti vera. Ef ég skil málið rétt þá hafa Vestmanneyingar nú þegar gripið til aðgerða af þessum ástæðum sem hv. þingmaður og flutningsmaður rakti svo ágætlega og vonandi gengur þeim vel í þeirri baráttu. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þetta nauðsynlegt til að menn geti gengið í málið af fullum krafti?[16:38]
Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel nauðsynlegt að opna á það að yfirvöld hafi víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða þegar svona vandamál kemur upp. Það sem fyrir mér vakir með þessu frumvarpi er í raun að opna fyrir heimildir á það í lagatexta að umhverfisráðherra geti hreinlega sett reglugerð sem bannar kanínuhald á svona stöðum, að bannað sé að vera með kanínur á fuglaeyjum umhverfis landið eins og Vestmannaeyjum, einmitt með tilvísun til þess að þessi dýr, ef þau sleppa út — ég tel að það sé fyrir slysni. Ég er ekki að segja að fólk sé að gera þetta viljandi — geta skapað mjög mikið vandamál, kostnaðarsamt vandamál. Ég veit að Vestmanneyingar hafa orðið fyrir töluverðum kostnaði við að halda þessum dýrum í skefjum. Það kostar mikið að gera út veiðimenn til að sitja fyrir þessum dýrum og reyna að ná þeim. Rannsóknir sem gerðar voru í Vestmannaeyjum og leiddu í ljós að þessi dýr hafa valdið miklu tjóni kosta líka peninga. Þeim peningum hefði verið betur varið í að stunda rannsóknir á lundanum eða öðrum tegundum svartfugls í Vestmannaeyjum eða öðrum rannsóknum á náttúrufari í Eyjum. Við eigum ekki að þurfa að eyða tíma okkar, orku og peningum í að eltast við innflutt gæludýr eða stunda rannsóknir á lífsháttum þeirra. Við eigum miklu frekar að reyna að semja eðlilegar og skilvirkar reglur sem gera það að verkum að komið verði í veg fyrir að svona dýr séu þar sem þau eiga ekki heima og geta valdið miklu tjóni. Hér er ég fyrst og fremst að hugsa um fuglabyggðir.

Hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi Öskjuhlíðina. Þar eru villtar kanínur. Það er alveg rétt. En þar er ekkert fuglavarp. Vel má vera, og ég get svo sem tekið undir það, að kanínur eigi heldur ekki heima þar. Það er trú mín og sannfæring að innflutt aðskotadýr eigi ekki neitt erindi í íslenska náttúru. Minkurinn er gott dæmi um að komið er kvikindi í okkar fánu sem aldrei hefði átt að koma en hefur valdið miklu tjóni.[16:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Án þess að fara að diskútera það neitt sérstaklega þá er, held ég, alveg rétt hjá hv. þingmanni að það hafi nú ekki verið mönnum kærkomið að fá minkinn í íslenska náttúru. En það er nú voðalega erfitt að loka landamærunum fyrir dýrum. Það vill nú svo til að hinir og þessir fuglar lenda hérna án lendingarleyfis og jafnvel koma sér fyrir eins og við þekkjum. Við munum búa við að einhver ný dýr muni koma sér fyrir í íslenskri náttúru.

Ég er svona bara að reyna að fá upplýsingar hjá hv. þingmanni um þetta mál af því ég tók því þannig að þetta tengdist fyrst og fremst heimildum stjórnvalda til að taka á vandanum. En ef ég skil hv. þingmann rétt þá er hann hér að tala um víðtækari heimild varðandi það að fólk geti þá ekki haft dýr eins og þessi og önnur sem gæludýr. Ég vil fá að vita hjá hv. þingmanni hvort ég skil hann rétt í því. Þar sem menn geta nú sett reglur hjá sveitarfélögum t.d. um hundahald og kattahald og ýmislegt annað þá stóð ég einhvern veginn í þeirri meiningu að allar þær heimildir væru til staðar í lögum. Það eru nú oft og tíðum ansi fjörlegar umræður í sveitarstjórnum um slík mál. Ég taldi líka að menn hefðu heimildir til að ráða niðurlögum stofna eins og kanínustofnsins samanber það sem gert hefur verið í Vestmannaeyjum, ef ég skil málið rétt. En það væri ágætt að fá útlistun hjá hv. þingmanni hvort þetta sé misskilningur hjá mér og þá til hvers við þurfum þá að setja þessi lög sem sannarlega hafa góða meiningu, og ég get alveg tekið undir vilja þingmannsins.[16:42]
Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann Guðlaug Þór Þórðarson til að lesa 18. gr. laganna um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum Í 1. mgr. 18. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög ... að kveða á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til.“ — Síðan segir: „Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að tegundunum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða séu sérstaklega viðkvæmar fyrir raski.“

Ég tel einfaldlega að þessi setning í lögunum sé ekki nógu skýr og til að taka af allan vafa vil ég bæta við örfáum orðum, þ.e.: „eða að þeim stafi ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra.“ Hér er einfaldlega verið að bæta við lagatextann þannig að ekkert fari á milli mála að yfirvöld, í þessu tilfelli umhverfisráðherra, hafi til þess lagaheimild að setja reglugerð sem bannar að þessi dýr séu haldin á stöðum þar sem þau geta valdið tjóni á náttúrunni ef þau skyldu sleppa út þó ekki væri nema fyrir slysni.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði áðan með réttu að þetta væru gæludýr. Það kann nefnilega að vera svo að ef stjórnvöld, eins og lagatextinn er í dag, mundu reyna að setja svona bann þá kæmu fram kærur, að fólk mundi kæra slíkar reglugerðir og telja þær ólöglegar því það væri óheimilt að banna fólki að halda þessi sætu, fallegu gæludýr og að ekki væri fyrir hendi nein lagastoð fyrir slíku reglugerðarbanni. Hér er ég einfaldlega að reyna að vera svolítið framsýnn og rétta stjórnvöldum ákveðna hjálparhönd (Forseti hringir.) eða benda þeim á að hér þarf aðeins að laga til lagatextann svo hægt sé að beita skilvirkum aðgerðum.