132. löggjafarþing — 32. fundur.
breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði, 1. umræða.
stjfrv., 371. mál. — Þskj. 427.

[17:36]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lagaumhverfi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað til samræmis við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði, eða úr 10% í 12% í tveimur áföngum á næstu tveimur árum.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu hefur verið samið um 2% hækkun á mótframlagi vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði í tveimur áföngum, eða úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og síðan úr 7% í 8% frá og með 1. janúar 2007. Þessi hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða, sem lögð er til hér er til samræmis við þær breytingar.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða. Með umræddum breytingum er stefnt að því að bæta starfsumhverfi lífeyrissjóða og laga starfsemi þeirra að breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði í því skyni að auðvelda þeim að sinna því hlutverki sínu að ná sem mestri ávöxtun á fjármunum sínum með sem minnstri áhættu.

Í I. kafla frumvarpsins er að finna tillögur um breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fela í sér hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða og breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.

Í II.–V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á sérlögum um einstaka lífeyrissjóði til samræmis við þá hækkun á lágmarksiðgjaldi sem fjallað er um í I. kafla frumvarpsins. Enn fremur eru lagðar til orðalagsbreytingar sem miða að því að gera ákvæði umræddra lagabálka um greiðslu lágmarksiðgjalds efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[17:38]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér finnst það nú alveg verðskulda nokkur orð af hálfu einhverra þingmanna að hæstv. ráðherra mælir hér fyrir þessu frumvarpi. Þó að það sé ekki stórt að vöxtum eða þykkt er það býsna mikilvægt að mínu mati því að hér er verið að festa í lög aðgerð sem tryggir betur en ella stöðu lífeyrissjóðanna og treystir þá í sessi til þess að standa undir þeim skuldbindingum og væntingum sem við þá eru bundnar. Ég held að ástæða sé til að fagna því að í framhaldi af því merka samstarfi sem tókst um afgreiðslu þessara mála á árunum 1996–1998 eða hvenær það nú var … (Gripið fram í: 1971.) Já, ég veit hvenær þetta hófst en síðan var lífeyrissjóðakerfið fest í sessi með mjög afgerandi hætti bæði með samstöðu aðila vinnumarkaðarins og lagasetningu hér á Alþingi sem lögfesti 10% lámarksgreiðslur þannig að á þeim grunni hefur verið byggt síðan.

Ef maður fer aðeins lengra aftur í tímann er náttúrlega alveg ljóst að sú hreyfing sem komst á þessi mál á Íslandi um 1970 og samkomulag aðila vinnumarkaðarins um að hefja uppbyggingu söfnunarsjóða um það leyti var stórmerk aðgerð í íslensku samfélagi og ástæða til að hrósa þeim mönnum sem þar stóðu að verki fyrir framsýni. Það hefur síðan leitt til þess að Ísland er í allt annarri og betri stöðu eða vænlegri stöðu í þessum efnum en flest nálæg ríki vegna þess að við eigum hér öfluga samtryggingarlífeyrissjóði sem byggja á skylduaðild og tryggum greiðslum og byggja á sjóðssöfnun en ekki gegnumstreymi og allt skiptir það máli í þessu sambandi. Það leið hins vegar langur tími þangað til þetta verk var klárað með því að tryggja með lagabreytingum að greitt væri af öllum launum í lífeyrissjóði, ekki bara dagvinnulaunum eða einhverjum hluta af launum, og með því að tryggja að allir skyldu taka þátt í uppbyggingu slíks kerfis, líka sjálfstætt starfandi atvinnurekendur og aðrir hópar sem höfðu verið á vinnumarkaði og höfðu ýmist mun seinna eða jafnvel alls ekki hafið greiðslur í lífeyrissjóði þegar þetta samkomulag var gert ásamt lagabreytingum 1996.

Sú ráðstöfun að hækka lágmarksiðgjöldin úr 10% í 12% er auðvitað heilmikil aðgerð því að þetta er nú býsna mikil hækkun ef horft er til þess hlutfallslega og að mínu mati er ástæða til að fagna því að um þetta hefur tekist samkomulag og ég ætla svo sannarlega að vona að menn beri hér eftir sem hingað til gæfu til og hafi framsýni til þess að verja þetta kerfi. Auðvitað hefur oft á tíðum komið upp sú umræða að því ætti að breyta og það ætti að fara á markaðstorgið og menn færa fram ýmis frelsisrök og guð má vita hvað fyrir því að það eigi bara hver og einn að geta haft þetta eins og hann vill. En algjör undirstaða þessa kerfis er samtryggingin sem í því er fólgin og hún hefur farið vaxandi, m.a. með sameiningu lífeyrissjóða þannig að kerfið hefur styrkst með færri og öflugri sjóðum sem dreifir líka betur ýmsum áhættuþáttum í þessum rekstri.

Þetta var nú aðalerindi mitt hingað, frú forseti, að fagna þessu. Svo að öðru leyti vil ég bara aðeins spyrja um það hvaða lagaráðstafanir aðrar kunni að þurfa að gera sem þessu tengjast. Það er a.m.k. ljóst að félagsmálanefnd hefur upplýsingar um að eitt atriði þarf að laga annaðhvort strax eða síðar og það varðar það að Ábyrgðasjóður launa, sem greiðir laun við gjaldþrot fyrirtækja og greiðir jafnframt gjaldfallin lífeyrisiðgjöld fyrir það tímabil, er samkvæmt þeim lögum sem hann starfar eftir eingöngu skyldugur til að greiða miðað við 10%. Því þarf að kippa í liðinn þannig að menn fái bættan þann lífeyrisrétt sem þeir höfðu áunnið sér á því tímabili sem þeir áttu að fá greidd laun frá fyrirtækjum sem síðan hafa komist í þrot og málin lent hjá Ábyrgðasjóði. Ef það er nú það eina sem þarna kemur við sögu er það auðvitað fljótgert en það kann þó að vera víðar, ég skal ekkert um það segja.

Síðan eru hér einnig á ferðinni minni háttar breytingar sem lúta að þeim reglum sem gilda um fjárfestingarheimildir til lífeyrissjóðanna. Það er nú ekki mikið um þetta sagt hér í greinargerðinni, satt best að segja, enda eru þær kannski ekki stórvægilegar. Þó er talað þar um breyttar aðstæður á fjármálamarkaði og ég hefði haft áhuga á því að heyra aðeins betur hvar skórinn kreppir þar að. Ég gef mér að það sé ekki verið að breyta þessum ákvæðum í þá átt að draga úr þeim lagaskyldum lífeyrissjóðanna að lágmarka áhættu sína í hverju tilviki, sem er mjög mikilvægt atriði og mun mikilvægara í mínum huga en að hafa þessa stífu áherslu á að lífeyrissjóðirnir þurfi alltaf að leita mestu ávöxtunar á hverjum tíma. Ef annað markmiðið á að víkja fyrir hinu þá er ég a.m.k. ekki í neinum vafa hvort það á að vera, þá á að velja þá leiðina sem er almennt séð tryggari og áhættuminni, því að það er ákaflega sárt ef þannig fer með fjármuni af þessu tagi, þ.e. sem safnað er inn á grundvelli skylduaðildar og eiga síðan að standa undir greiðslum fólks, að þeir glatist fyrir einhvern glannaskap.

Hitt er alltaf miklu, miklu umdeilanlegra hvort einhverjar ákvarðanir voru eftir á að hyggja alveg réttar í því skyni að reyna að ná í sem mesta ávöxtun eða hámarksávöxtun enda getur það nú oltið á ýmsa vegu eins og kunnugt er. Það má jafnvel færa fyrir því rök að lífeyrissjóðirnir eigi jafnvel líka að hafa að einhverju leyti félagsleg eða siðræn viðmið þegar þeir ávaxta sjóði sína. Það eru t.d. gerðar kröfur til slíkra hluta sums staðar í nágrannalöndunum. Það hefur ekki mikið komist á dagskrá hér en því skyldi það ekki rætt hér rétt eins og ég veit að t.d. hefur verið rækilega rætt í Svíþjóð hvað varðar ávöxtun af svipuðum toga, að það sé þó aldrei fjárfest í fyrirbærum sem beinlínis reki stefnu, segjum t.d. í umhverfismálum eða í samskiptum við þróunarlönd eða annað því um líkt sem menn vilja ekki leggja nafn sitt við? Þá hafa menn gripið til þess ráðs að setja vissan ramma, kannski siðrænan ramma, um það á hvaða grunni slíkar fjárfestingar eigi að byggja á í þessum efnum.

Frægar eru deilur í Noregi og einnig lyktir þess máls að norska þingið setti reglur um fjárfestingar norska olíusjóðsins þar sem eru alveg skýr fyrirmæli um að hann skuli ekki fjárfesta í starfsemi sem vafasöm getur talist að þeirra dómi og honum er ætlað að halda sig utan við vopnaviðskipti og annað slíkt. Ég nefni þetta nú ekki vegna þess að ég hafi mikla trú á því eða miklar áhyggjur af því að íslenskir lífeyrissjóðir fari að reyna að ávaxta fé sitt í slíku, ég nefni þetta fremur sem vangaveltur um grundvallarviðmið þegar að því kemur að velta þessum reglum fyrir sér, því að auðvitað eru þær ekkert óumbreytanlegar og það má alveg ræða þau ákvæði sem nú er starfað eftir og voru lögfest 1996, eða líklega var það 1997, og voru að verulegu leyti fyrir í eldri lögum.

Spurningin er hvort hæstv. fjármálaráðherra færi aðeins betur yfir það hvað það er sem varðar breyttar aðstæður á fjármálamarkaði og ætlunin er að rýmka eða auðvelda starfsumhverfi lífeyrissjóðanna gagnvart.



[17:48]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæða umfjöllun um frumvarpið. En þau atriði sem hann spurði um varða í meginatriðum 2. gr., a, b og c-lið. Í a-lið er um að ræða að á fasteignamarkaði hafa orðið þær breytingar að lántakendur geta tekið mun hærra lán sem hlutfall af markaðsverði fasteignarinnar en áður var. Talið er rétt að heimila sjóðunum að auka hlutfall sitt í lánveitingum á fasteignamarkaði úr 65% í 75% af metnu markaðsverði til að þeir geti tekið áfram þátt í fjármögnun á þessum markaði.

Í b-lið er um að ræða að heimila hærra hlutfall af fjárfestingum í hlutabréfum og það á rætur sínar að rekja til þess að það eru miklu meiri og fjölbreyttari möguleikar á hlutabréfamarkaði en áður var. Hlutabréf hafa verið að gefa mjög góða ávöxtun að undanförnu. Til að sjóðirnir geti nýtt sér þær aðstæður eða viðlíka aðstæður í framtíðinni er talið rétt að heimila þeim að hækka hlutfall sitt í fjárfestingum í hlutabréfum.

Í c-lið er um að ræða að breyta viðmiðunum eða tímasetningu viðmiðana hvað varðar þau hlutföll sem að framan getur svo hægt sé að miða við árshlutauppgjör en ekki bara uppgjör um áramót. Það hefur auðvitað verið mikil gróska á þessum mörkuðum og það hefur leitt til þess að staða sjóðanna hefur vænkast mjög yfir árið og því er rétt að leyfa þeim að njóta þess í því að geta notað það sem viðmið í hlutföllum í fjárfestingum.



[17:50]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég var að sjálfsögðu fyrst og fremst að spyrja um bakgrunn þessara breytinga. Út af fyrir sig er hægt að átta sig á því í skýringum eða fletta upp á því í lögunum hvaða hlutföllum er þarna verið að breyta. En það hlýtur að vera það sem máli skiptir í sambandi við rökstuðning fyrir þeim hver sé hinn efnislegi bakgrunnur þeirra úti á markaðnum eða gagnvart þeim aðstæðum sem hafa breyst. Ef svarið er t.d. einfaldlega það að verið sé að bregðast við þróuninni í átt til hærra lánshlutfalls eða hærra veðsetningarhlutfalls á fasteignamarkaði þá er auðvitað spurning hvort það sé endilega þróun sem menn vilja elta og hversu langt. Nú er þetta að einhverju leyti að ganga til baka og bankar hafa t.d. verið að lækka lánshlutfall sitt á nýjan leik þannig að það er í sjálfu sér ekki endilega sjálfgefið að lífeyrissjóðirnir eigi að hreyfa sig mikið þarna. En ef menn telja að það hafi háð þeim að geta ekki fylgt með í þróuninni þá eru það að svo sem rök út af fyrir sig. Ég hef jafnvel enn frekar efasemdir um hitt, að það sé endilega gæfulegt að rýmka heimildir lífeyrissjóðanna til að fara enn meira út í ávöxtun í hlutabréfum en þegar hefur verið heimilt. Það er ákaflega sveiflukenndur bransi. Og þó svo að rétt kunni að vera að fjárfestingarmöguleikarnir, væntanlega þá sérstaklega innan lands, séu takmarkaðir í öðrum pappírum — það liggur t.d. fyrir að útgáfa ríkispappíra er orðin mun minni hér en einu sinni var og svigrúmið minna í slíkum hlutum — þá breytir það auðvitað ekki hinu að meginhugsunin hefur alltaf verið áhættudreifingin sem í því er fólgin að leggja aldrei nema vissan hluta í innlend hlutabréf og aðra pappíra á móti því sem sjóðunum er heimilt að fjárfesta erlendis og mér sýnist samkvæmt þessu að sé óbreytt.



[17:53]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki er endilega sjálfgefið að lífeyrissjóðirnir taki þátt í þeirri samkeppni sem er um að lána sem hæst hlutfall af markaðsverði fasteigna. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er kannski rétt að fara varlega í því og ég held reyndar að verið sé að gera það í þessu tilfelli. Ég held reyndar að bankarnir séu allir fyrir ofan þau 75% sem hér er verið að leggja til. Hér er um heimild að ræða en ekki skyldu. Sama á við um fjárfestingarhlutföllin hvað varðar hlutabréf og auðvitað hafa hlutföllin á mörkuðunum eitthvað um þetta að segja líka. Þar er líka um að ræða heimild sem sjóðirnir hafa en ekki skyldu til að fara upp fyrir þessi hlutföll en þeir þurfa auðvitað að meta hvað er hagstæðast fyrir þá.

Ég náði ekki að svara hv. þingmanni hvað varðar spurningar um Ábyrgðasjóð launa. Ég er ekki með það á takteinum að svo stöddu hvort líta þurfi á fleiri þætti aðra en Ábyrgðasjóð launa en auðvitað þarf að gera það og eins og kom fram hjá hv. þingmanni á það ekki að vera neitt stórvandamál að gera það til samræmis við þetta frumvarp þegar og ef það verður að lögum. En ef upp koma einhverjir þættir sem okkur hefur sést yfir þá á ég ekki von á að neinar tafir verði á því að flytja um það frumvörp og ég vona að þau fái jafnjákvæðar móttökur og þetta frumvarp hefur fengið hjá hv. þingmanni.



[17:55]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er hæstv. fjármálaráðherra að festa hér í lög það sem samið hefur verið um í almennum kjarasamningum, þ.e. um 2% hækkun á lágmarksiðgjaldi lífeyrissjóðanna, úr 10 í 12%, sem á að vera komin að fullu til framkvæmda 1. janúar 2007. Út af fyrir sig er það hið besta mál þó að upp komi spurningin: Hvað kostar þetta atvinnurekendur? Ég vil nota tækifærið til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það ef hann hefur þá tölu hér á hraðbergi. Eða að hvetja efnahags- og viðskiptanefnd til þess að það verði kannað þar hvað þessi 2% kosta. Ég held að þetta sé hið besta mál vegna þess að þetta styrkir okkar góðu lífeyrissjóði. Mig minnir að það hafi komið fram í fréttum í dag að við Íslendingar erum ríkari með okkar lífeyrissjóði en Norðmenn með sinn olíusjóð. Ég veit ekki hvernig það er reiknað en ég held að ég hafi heyrt þetta rétt í fréttum í dag og er að auðvitað ánægjuefni en þessir sjóðir okkar eru sérstaklega góðir.

Ég hefði gjarnan viljað sjá þessar tölur hækka meira og vil nota tækifærið og segja það hér. Ég hefði líka viljað sjá þær tölur hækka meira sem fara í séreignarsjóði, bæði með eigin framlögum og framlögum atvinnurekenda, vegna þess að það er sennilega besta leiðin til að auka sparnað í landinu. Og ekki veitir af. Væri kannski betra ef á þessum síðustu tímum hefði verið um hærri tölur að ræða þar og hefði þá kannski farið minna í þá ofboðslegu neyslu sem nú á sér stað í landinu, sem m.a. gerir fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra sem verið er að vinna með hér á hæstv. Alþingi svo mikið að nánast flæðir út úr ríkissjóði, þ.e. skattar og gjöld af hinum ofboðslega innflutningi og þessari ofboðslegu neyslu. Þetta segi ég vegna þess að svo virðist vera, virðulegi forseti, að við Íslendingar getum ekki hugsað okkur að fara þá leið sem margir aðrir gera, þ.e. að með auknum sparnaði og sparnaðarátaki fólks komi jafnvel skattaívilnun á móti, líkt og gert var hér fyrir mörgum árum. Mig minnir að það hafi heitið húsnæðissparnaðarreikningar sem síðast voru í gangi þar sem fólk gat lagt inn og fengið skattafslátt út á. Eða þegar fólk var í biðröðum á gamlársdag fyrir nokkrum árum að kaupa sér hlutabréf til að fá skattafsláttinn 1. ágúst árið eftir. Nú er það liðin tíð og ekki lengur gert.

Hér er líka, eins og kveðið er á um, virðulegi forseti, verið að auka veðsetningarhlutfall fasteigna, með tilliti til þess sem lífeyrissjóðirnir mega gera, úr 65% í 75% af metnu markaðsvirði. Jafnframt verið að auka heimildina úr 50% í 60% til að fjárfesta í hlutabréfum eða eins og segir hér: „Með því er sveigjanleiki lífeyrissjóða til frekari fjárfestinga í hlutabréfum aukinn sem auðveldar þeim að ávaxta fé sitt á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.“

Í athugasemdum með frumvarpinu er talað um að með breytingunum sé stefnt að því að lífeyrissjóðirnir nái sem mestri ávöxtun á fjármunum sínum með sem minnstri áhættu. Þetta eru allt saman göfug markmið. En ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, og segja að mér hefur oft fundist í sambandi við atvinnulíf okkar og uppbyggingu þess að lífeyrissjóðirnir megi bara alls ekki neitt, eins og að taka þátt í að kaupa hlutabréf í óskráðum félögum, í litlum fyrirtækjum úti á landi sem mörg hver berjast í bökkum og vantar meira af þolinmóðu hlutafé í staðinn fyrir dýrt lánsfé eða fá kannski hlutafé inn í staðinn fyrir lánsfé sem alls ekki er hægt að fá. Á þetta sennilega mest við um atvinnurekstur á landsbyggðinni. Það er að mínu mati ljóður á lífeyrissjóðskerfi okkar að lífeyrissjóðirnir skuli ekki geta komið betur að uppbyggingu eða stuðningi við atvinnulíf, sérstaklega á landsbyggðinni — ég geri ráð fyrir að ekki sé vandi að finna góða fjárfestingarkosti á höfuðborgarsvæðinu fyrir þau fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöllinni, sem flest hver eru á höfuðborgarsvæðinu að sjálfsögðu — vegna þess að ég held að t.d. að sjávarútvegsfyrirtækin sem skráð voru í Kauphöllinni áður og lífeyrissjóðir máttu kaupa í séu öll afskráð í Kauphöllinni nema kannski eitt. Mig minnir að HB Grandi sé þar inni enn þá.

Þetta á alveg eins við hvað varðar veðsetningarhlutfall fasteigna, að hækka það að metnu markaðsvirði, og það á náttúrulega sama við hvar sem er á landinu, sama hvort um er að ræða 60–70 millj. kr. eign á höfuðborgarsvæðinu eða 3–5 millj. kr. eign úti á landi sem oft og tíðum er jafnvel erfitt að fá lán til. Ég vildi aðeins leggja þetta inn í umræðuna, virðulegi forseti, og benda á þann mismun sem þarna er og kemur fram í, eins og ég hef tekið dæmi um, atvinnurekstri á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og lífi og möguleikum fólks á að fá lán úr lífeyrissjóði sínum eftir því hvort sem það býr á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Þar er mikill munur á.



[18:00]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki með neina tölu um hvað þetta verður há upphæð þegar þar að kemur og þetta er allt komið til framkvæmda, þ.e. þessi 2% hækkun á skyldugreiðslum í lífeyrissjóð. Hins vegar er ekki rétt að tala um þetta sem kostnað atvinnulífsins vegna þessa frumvarps þar sem um þetta hefur þegar verið samið á almennum vinnumarkaði. Sjálfsagt er stofn til tekjuskatts á bilinu 350–400 milljarðar. Ég ætla ekki að fara nákvæmar út í það. Þá eru það væntanlega 2% af þeim stofni sem um er að ræða. Þá getur hv. þingmaður reiknað sjálfur. (Gripið fram í.)