132. löggjafarþing — 53. fundur.
athugasemdir um störf þingsins.

fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í vetur hafa margsinnis orðið umræður um hið svokallaða fangaflug og þá hafa íslensk stjórnvöld vísað til þess að málið er í rannsókn hjá Evrópuráðinu og hafa sagt að þau mundu taka fullan þátt í þeirri rannsókn. Nú hefur komið skýrsla fram í Evrópuráðinu af hálfu þingmannsins Dick Marty og hún sýnir það svart á hvítu að hann telur að hér hafi verið um töluvert umfangsmikið fangaflug að ræða á síðustu árum. Hann bendir sérstaklega á að CIA hefur haft sérstaka heimild bandarískra stjórnvalda til að stunda slíkt flug síðan árið 2001. Hann telur að 100 einstaklingar hafi verið fluttir með ólöglegum hætti til og frá stöðum í Evrópu. Dick Marty bendir sérstaklega á að í yfirlýsingunni sem Condoleezza Rice gaf 5. desember, og íslensk stjórnvöld hafa oft vísað til, hafi hún í rauninni ekki þvertekið fyrir neitt nema að pyndingar hafi átt sér stað en hún hafi ekki fortakslaust hafnað því að fangaflug hafi átt sér stað. Dick Marty, öldungardeildarþingmaðurinn svissneski, sem hefur rannsakað þetta fyrir Evrópuráðið, slær því föstu að ríkisstjórnir Evrópu hafi vitað af þessu en að vísu slær hann þann varnagla, hann segir a.m.k. leyniþjónustan. Ég vil taka það alveg skýrt fram að ég tek það gott og gilt þegar hæstv. ríkisstjórn segist ekki hafa haft neina vitneskju um þetta. En ég tel að það sé nauðsynlegt að gengið sé betur eftir þessu og hef óskað skriflegra skýrra svara af hálfu forsætisráðherra. Mig langar að spyrja hvort hann hyggist gera það. Mig langar einnig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hvort þeir hafi haft einhver tengsl við bandaríska ráðamenn, forseta eða utanríkisráðherra þar sem fram hefur komið af þeirra hálfu fortakslaus neitun á því að þetta hafi átt sér stað að því er Ísland varðar.[10:34]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta mál er alveg skýrt. Íslensk stjórnvöld tóku málið upp við bandarísk stjórnvöld. Það var gert af utanríkisráðuneytinu á sínum tíma. Það var gengið eftir því. Svör komu frá bandaríska utanríkisráðherranum þar sem hún fullyrti að ekkert ólöglegt fangaflug hefði átt sér stað og engin ólög fangelsi. Það liggja engar sannanir fyrir því.

Nú hefur þessi ágæti umræddi þingmaður gefið út bráðabirgðaskýrslu þar sem hann telur að ólíklegt sé að ríkisstjórnir, eða a.m.k. njósnaþjónustur eins og hann orðar það, hafi ekki vitað af þessu. Það liggur alveg ljóst fyrir að við höfum enga vitneskju um það og ég spyr þá hv. þingmann: Um hvað eigum við að spyrja bandarísk stjórnvöld á þessu stigi? Það má vel vera að ástæða verði til að spyrja bandarísk stjórnvöld um málið þegar skýrslan kemur út. Eigum við að spyrja bandarísk stjórnvöld um hvort þau hafi verið að segja ósatt? Mundi hv. þingmaður gera það ef hann gegndi embætti utanríkisráðherra landsins?

Það er ekkert nýtt í þessu máli. Íslensk stjórnvöld hafa tekið málið upp, utanríkisráðherra hefur átt fund með aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Nicholas Burns, um málið og gengið eftir því. Það er því ekkert nýtt í málinu sem krefst svara á þessu stigi. Við munum að sjálfsögðu taka þátt í þessari athugun á vegum Evrópuráðsins og þegar sú skýrsla kemur út má vel vera að ástæða verði til að spyrja frekari spurninga. En ég held að rétt sé að bíða þangað til. Það er ekkert nýtt í málinu, hv. þingmaður, og algerlega ástæðulaust að vera að taka það hér upp.[10:36]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hvenær skyldi koma að því að hæstv. forsætisráðherra Íslands hætti að tala eins og fulltrúi og talsmaður Pentagon og Bandaríkjastjórnar og fara að tala í nafni íslensku þjóðarinnar?

Það er á allra vitorði að Bandaríkjamenn stunda pyndingar á föngum bæði beint og með því að beita verktökum til að kvelja fólkið. Þeir flytja fórnarlömb sín frá Bandaríkjunum til verktakanna víðs vegar um heiminn. Þannig eru grimmdarverkin ekki framin innan bandarískrar lögsögu.

Nú er vitað að flugvélar sem notaðar eru í fangaflutningum hafa millilent hér á landi með föngum innan borðs eða án fanga. Hið síðara kann vel að vera rétt. Hitt er augljóst að á afdráttarlausan hátt ber ríkisstjórn Íslands að krefjast formlegrar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um staðreyndir þessa máls, jafnframt því sem lýsa ber yfir mjög hörðum mótmælum gegn mannréttindabrotunum, jafnframt því að allur vafi verði tekinn af um að flugvélar sem flytja fanga Bandaríkjamanna í erlend pyndingarfangelsi megi ekki undir nokkrum kringumstæðum koma í íslenska lofthelgi, hvað þá millilenda hér á landi.

Árið 2004 reis mikil mótmælaalda vegna mannréttindabrota í Guantanamo herfangelsinu á Kúbu þar sem Bandaríkjamenn eru sakaðir um að beita fanga sem sitja án dóms og laga pyndingum. Amnesty International, ASÍ, BSRB, ungliðasamtök og vefsíður tóku þátt í þessu. Mótmælin voru afhent utanríkisráðuneytinu 1. júní þetta ár. Þá komu þau viðbrögð frá utanríkisráðuneytinu að þegar hefði verið mótmælt og í svari til lögfræðingahóps Amnesty International segir í upphafsorðum, með leyfi forseta:

„Eins og fram kom í ræðu utanríkisráðherra fyrir Alþingi 6. apríl sl. eru hryðjuverk ein mesta vá samtímans og ógna frelsi og lýðræði í heiminum. Mikilvægt er að samstaða lýðræðisríkja bresti ekki og baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi verði hert um allan helming með öllum löglegum aðferðum.“

Síðan er vísað í mannréttindasáttmálann og mikilvægi þess að virða mannréttindi.

Hæstv. forseti. Ef þessi viðbrögð eiga að kallast mótmæli þá eru það í besta falli mótmæli í kyrrþey ef ekki þegjandi samþykki.[10:38]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda gagnvart bandarískum stjórnvöldum í þessu máli hafa verið með sama hætti og hjá öðrum Evrópuríkjum. Fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna höfðu átt níu sinnum samtöl um málið frá 13. október til 5. desember þegar ég tók þetta mál upp við aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á fundi með honum í tengslum við ráðherrafund ÖSE. Síðar þann dag gaf utanríkisráðherra Bandaríkjanna út afdráttarlausa yfirlýsingu um málið til að svara þeim ásökunum sem fram höfðu komið.

Íslensk stjórnvöld hafa enga ástæðu fremur en önnur ríki til að rengja yfirlýsingu utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem hún síðan ítrekaði á fundi með mér og öðrum utanríkisráðherrum NATO-ríkjanna. Sú skýrsla sem hér er vitnað til er ekki skýrsla Evrópuráðsins sjálfs heldur er hún unnin á vegum laga- og mannréttindanefndar þingráðsins. Engar sannanir er þar að finna fyrir ólöglegum fangelsum í Evrópuríkjum eða fangaflutningum og hefur skýrsluhöfundurinn tekið það fram að slíkar sannanir liggi ekki fyrir. Í vestrænum lýðræðisríkjum er ekki hægt að hefja rannsókn án ástæðu. Íslensk stjórnvöld hafa enga ástæðu til að hefja rannsókn hérlendis á grundvelli óstaðfestra sögusagna. (ÖJ: En fangaflugið?) Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ólöglegt fangaflug hafi átt sér stað um íslenskt yfirráðasvæði.

Í bréfi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins 21. nóvember sl. er ekki farið fram á rannsókn af hálfu stjórnvalda aðildarríkjanna á meintum fangaflutningum eða leynifangelsun. Í bréfinu er spurt hvort löggjöf aðildarríkjanna sé ekki fullnægjandi til að tryggja að ólöglegt athæfi af því tagi sem um er rætt eigi sér ekki stað.

Einnig er spurt í bréfinu hvort einhver opinber embættismaður í aðildarríkjum hafi vitandi eða óafvitandi átt samvinnu við erlend stjórnvöld sem tengist þessu meinta ólöglega athæfi. Frestur til að svara þessu bréfi er til 21. febrúar nk. og verið er að undirbúa svör við því. En ég ítreka að í þeirri skýrslu sem umræddur þingmaður á Evrópuþinginu hefur kynnt er ekkert nýtt sem kallar á viðbrögð af okkar hálfu.[10:41]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér er nær að halda að íslensk stjórnvöld kunni ekki að spyrja réttu spurninganna í þessu máli. Þau hafa sjálf ekki gert neina úttekt á því hvaða erindi flugvélarnar sem hingað hafa komið, lent og tekið aftur á loft, hafa átt. Að sögn fylgjast menn í utanríkisráðuneytinu með fréttum af því hvaðan þessar flugvélar koma og hvert þær eru að fara, flugvélar sem vitað er að eru starfræktar af leppfyrirtækjum bandarísku leyniþjónustunnar. Það liggur alveg fyrir, frú forseti. En á því hafa íslensk stjórnvöld ekki mikinn áhuga.

Hér er mikið talað um að ekki hafi átt sér stað neitt ólöglegt. Það kann að vera rétt. Hins vegar stendur hnífurinn þar í kúnni vegna þess að skilgreining Bandaríkjastjórnar á því hvað er löglegt og ólöglegt í þessum efnum er gjörólík því sem viðgengst samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðasamningum. Bandaríkjamenn hafa endurskilgreint pyndingar og reyndar hryðjuverk líka. Þeir hafa endurskilgreint pyndingar og telja það t.d. ekki til pyndinga að halda plastfilmu fyrir vitum manns og hella á hann vatni þangað til hann er um það bil að drukkna eða hann heldur það. Þetta eru ekki pyndingar samkvæmt bandarískum skilgreiningum. Þess vegna þurfum við að vita hvert þessar flugvélar fóru og hvað tók við þegar þeim hafði verið lent. Segjum að fangarnir hafi verið fluttir með löglegum hætti, hvað tók við þegar flugvélum hafði verið lent og þessir fangar teknir til einhvers konar meðferðar, mundi Bandaríkjastjórn líklega segja, hjá verktökum í erlendum löndum þegar búið er að úthýsa pyndingunum og endurskilgreina hvað það er sem á sér stað, þá telst það varla lengur til pyndinga að reyna að drekkja föngum.[10:43]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ósköp eðlilegt að þetta mál sé tekið upp hérna núna því að Evrópuráðið er akkúrat að funda þegar við stöndum hér á þessum stað, ég skil þess vegna að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vilji ræða þetta hér.

Á Evrópuráðsþinginu hefur komið fram skýrsla en ferlið er bara hálfnað, þessi skýrsla er því ekki endanleg en þegar lokið verður við hana þá verður tekin ákvörðun um hvort málið verður tekið upp í ráðherraráðinu. Við Íslendingar eigum t.d. eftir að svara ýmsum spurningum til Evrópuráðsins og höfum frest til þess til 21. febrúar.

Ég vil draga það sérstaklega fram hér eins og hefur margoft komið fram í umræðunni að íslenskum stjórnvöldum er ekki kunnugt um neitt ólöglegt fangaflug hér yfir og það vita hv. þingmenn, það hefur komið hérna fram ítrekað. Ég tók þetta mál upp að eigin frumkvæði í utanríkismálanefnd, bað um fund þar til að ræða sérstaklega þessa fangaflutninga og það var gert 30. nóvember. Í kjölfarið hefur komið fram að Íslendingar hafa ekki gert minna en aðrir, meira ef eitthvað er. Búið er að taka málið upp ítrekað á vettvangi stjórnvalda á milli Íslands og Bandaríkjanna þannig að við höfum aldeilis verið að gera okkar í þessu. Þau svör sem við fengum á fyrri stigum þóttu ekki fullnægjandi en síðan hafa komið yfirlýsingar sem hafa verið ákveðnar frá hendi Bandaríkjanna en það eru sem sagt engar sannanir sem við höfum í höndunum.

Ég furða mig á því að hér skuli fulltrúi Vinstri grænna halda því fram að við séum með eitthvert þegjandi samkomulag um að þetta sé í lagi, þetta hugsanlega fangaflug. (Gripið fram í.) Það er algerlega fráleitt og ég sem hluti af stjórnarmeirihlutanum vísa þessu á bug. Íslendingar hafa staðið sig í stykkinu í málinu. Okkur er ekki sama um hugsanlegt fangaflug og við höfum komið þeim skilaboðum á framfæri til bandarískra stjórnvalda. Og meðan engar sannanir liggja fyrir þá er ósköp lítið hægt að gera. En að sjálfsögðu munum við fylgjast áfram með málinu. (Gripið fram í.)[10:45]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Tuttugu og fimm flugvélar á vegum skúffufyrirtækja CIA hafa margoft lent hér á undanförnum árum. Vélar félaganna hafa einnig komið við í Afganistan og í Guantanamo. Leiðin er Guantanamo – Reykjavík – Afganistan. Síðan koma hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra og halda því enn statt og stöðugt fram að engar sannanir séu fyrir hendi, þetta séu sögusagnir og óstaðfestar heimildir.

Í umræðunum hefur komið fram að svissneski þingmaðurinn Dick Marty fullyrðir að allt bendi til þess að lokaáfangastaðirnir séu leynifangelsi þar sem fangarnir séu m.a. pyndaðir og svo er hér verið að vitna í hefðir í vestrænum lýðræðisríkjum. Gera menn sér ekki grein fyrir því að þetta eru fangar sem sitja inni án dóms og laga og eru pyndaðir, sem sitja þarna inni árum saman? Hvað gera Íslendingar? Sitja hjá og bíða, ætla bara að bíða. Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn eru að nota Ísland í ólöglegum tilgangi og það er ekki í fyrsta skipti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að við hefðum engar sannanir fyrir þessum málum og hvort við ættum að spyrja að því hvort Bandaríkjamenn væru að segja ósatt. Það er reyndar þannig, frú forseti, að það væri ekki í fyrsta skipti sem bandarísk stjórnvöld ljúga opinberlega. Þannig er það.[10:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Þetta er mál sem sannarlega er vert að ræða en það verður að segjast eins og er að það er ansi sérstakt hvernig stjórnarandstaðan heldur á málinu og sérstakar þær fullyrðingar sem hér eru uppi. Ég hef fylgst með þessu, m.a. í kvöldfréttum í gær þar sem Dick Marty, sem mjög mikið er vitnað í, þingmaður á vegum Evrópuráðsins, kynnti skýrslu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór ágætlega í gegnum í hvaða ferli væri. Hann tók mjög skýrt fram að engin formleg sönnunargögn væru til staðar. Viðkomandi þingmaður taldi samt sem áður að nægar vísbendingar væru til að halda rannsókn áfram.

Það liggur hreint og klárt fyrir að Íslendingar hafa farið að eins og önnur Evrópuríki. Það liggur alveg fyrir. Einnig liggur fyrir að við erum að taka þátt eins og önnur Evrópuríki í þessari rannsókn Evrópuráðsins. Enn fremur liggur fyrir að komið hafa yfirlýsingar frá Bandaríkjamönnum þar sem þeir vísa því á bug að þeir stundi pyndingar og á sama hátt hafa þeir samþykkt ný lög 15. desember sl. um það efni. Það er ekkert sem kallar á að vera með þessar stóru yfirlýsingar sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið með, ekkert. Eðli málsins samkvæmt hljótum við að fara að eins og aðrar þjóðir Evrópu í þessum málum og okkur er ekki sama þegar pyndingar eru annars vegar. En það er ekkert sem bendir til þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert sitt til að upplýsa málið og hafi ekki farið eins að í þessu máli og aðrar þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. (ÖJ: Guantanamo er í góðu lagi.)[10:49]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir að engin ástæða sé til að taka fangaflutningana upp á Alþingi Íslendinga. Um alla Evrópu ræða menn alvarleg mannréttindabrot af hálfu Bandaríkjamanna, á evrópskri grund og evrópskri lofthelgi. En hæstv. forsætisráðherra segir að engin ástæða sé til að ræða það á þjóðþingi okkar, í lýðræðisríki sem hefur haft mannréttindi í hávegum. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra og segir að við höfum gert alveg jafnmikið og hin Evrópuríkin þó hann viti að ítalski saksóknarinn hefur þegar stefnt bandarískum leyniþjónustumönnum, þó hann viti að réttarfarsrannsókn fer fram í Þýskalandi, þó hann viti að spænskur dómstóll rannsakar fangaflug á Spáni, þó hann viti að Svíar hafa falið flugmálayfirvöldum þar rannsókn og þó hann viti að bráðabirgðaskýrsla sem kynnt var í Evrópuráðinu segir að svör Bandaríkjamanna séu ekki skýr um þetta atriði. Við hljótum að krefjast þess að það sé gengið eftir skýrum svörum Bandaríkjamanna, ella fari hér fram sjálfstæð rannsókn á vegum íslenskra yfirvalda til að svara þeim spurningum sem íslensk stjórnvöld þurfa að svara hjá Evrópuráðinu.

Það er auðvitað ekki annað en undirlægjuháttur, virðulegur forseti, við Bandaríkjamenn að lýsa því yfir að það séu sögusagnir, ill meðferð á föngum á vegum Bandaríkjastjórnar. Allur heimurinn veit, þó ekki væri nema af því að fylgjast með hinum skelfilegu aðstæðum í Guantanamo á Kúbu og þeirri illu meðferð sem þar fer fram, að ill meðferð á sér svo sannarlega stað á vegum Bandaríkjastjórnar. Því miður eru rökstuddar grunsemdir um að hér hafi lofthelgi Íslands og íslenskt land verið notað til að flytja fólk í og úr þessari meðferð. Við verðum að tala skýrt um að það verður aldrei þolað.[10:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja það alveg hreint út að mér verður næstum því óglatt þegar ég hlusta á hv. þingmenn halda því fram að það sé ekkert sérstakt á seyði, ekkert sérstakt sé að gerast, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hérna áðan. Hvað kemur fram í þeirri skýrslu sem verið var að ræða í Evrópuráðinu í fyrradag? Þar kemur fram að menn hafa verið teknir á götu um hábjartan dag og þeim rænt í nágrannalöndum okkar og fluttir með ólögmætum hætti á milli landa í einhverjum leppfyrirtækjum CIA, til landa þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur. Svo koma menn og segja að þetta sé allt í fínu lagi, þetta sé bara svona óstaðfestur sögusveimur og ekki sé búið að sanna neitt. Þarf að koma með höfuðið á fati til þess að menn virkilega trúi? Er það svoleiðis?

Hvað hefur breyst frá því að hæstv. forsætisráðherra ræddi þetta við okkur fyrr í vetur? Hæstv. forsætisráðherra sagði að málið væri í umræðu hjá Evrópuráðinu og við skyldum bíða eftir rannsókn þess og sjá þá til hvernig málið væri. Nú kemur fram skýrsla í Evrópuráðinu þar sem því er slegið alveg föstu að ólöglegt fangaflug átti sér stað, þar sem sagt er að ekki sé hægt að færa sönnur á að það séu leynileg fangelsi til en það leiki grunur á því, þar sem rakin eru fjölmörg dæmi um að mönnum er rænt úti á götu í landi eins og Svíþjóð og fluttir um hálfan heiminn til að berja þá og hálfdrekkja. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópuráðsins sem hefur verið í fylkingarbrjósti í baráttu fyrir mannréttindum og sem hæstv. forsætisráðherra hefur lyft sem slíkri stofnun. Það er það sem er nýtt. Þess vegna er það sem ég segi að hæstv. ríkisstjórn er tvísaga. Hún vildi bíða eftir Evrópuráðinu. Nú liggur skýrslan fyrir frá því og þá bara híar hún á skýrsluna.[10:54]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Rétt er að ítreka að endanleg skýrsla Evrópuráðsins liggur ekki fyrir og frestur til að svara fyrirspurnum frá Evrópuráðinu sjálfu er til 21. febrúar. Ég vara menn hins vegar mjög við því að hrapa að niðurstöðum með þeim hætti sem komið hefur fram í umræðunni eða fullyrða á þann hátt sem gert hefur verið í umræðunni að Ísland og íslenskt yfirráðasvæði hafi verið notað í ólögmætum tilgangi til að flytja fanga eða koma þeim á áfangastað til pyndinga. (ÖS: Það liggur nú fyrir. Við vissum bara ekki af því.) Hv. þingmaður virðist vita meira en margur annar og skora ég þá hér með á hann að leggja fram þann vitnisburð og þær sannanir sem hann greinilega þykist hafa í því máli. Ég skora á hann að færa sönnur á þessar fullyrðingar og standa fyrir máli sínu. (ÖS: Ætlarðu þá að gera eitthvað?) Ég skora á hann að standa við stóru orðin í þessu máli að á Íslandi hafi farið um fangar sem ætlunin hafi verið að pynda með ólögmætum hætti. Ég hef margsagt það í ræðustól á þessu þingi: Íslensk stjórnvöld fordæma ólöglega meðferð á föngum eða pyndingar á föngum. Það gera allar vestrænar siðaðar þjóðir. Það gerir Bandaríkjaþing og Bandaríkjastjórn. (Gripið fram í: Hvað með Guantanamo?)

Hins vegar vil ég líka árétta að íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að allar þjóðir fari að alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindasáttmálum og þeim lögum sem um þessi mál gilda hjá öllum siðuðum þjóðum. Þarf að taka það fram, hv. þingmenn?