132. löggjafarþing — 119. fundur.
Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun, 2. umræða.
stjfrv., 331. mál. — Þskj. 363, nál. 1146, brtt. 1147.

[16:36]
Frsm. menntmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund fjölda gesta.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót ný stofnun á sviði íslenskra fræða og með henni sameinaðar fimm stofnanir. Þær stofnanir eru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun Íslands.

Nefndin styður megintillögur frumvarpsins og væntir þess að sameining í öfluga stofnun efli rannsóknir á sviði íslenskra fræða, styrki tungu og bókmenntir sem þátt í menningu þjóðarinnar og stuðli að því að þessi mikilvægi hluti af íslenskum menningararfi auðgi daglegt líf, fræði og listir hérlendis og sé um leið aðgengilegur heimsbyggðinni allri.

Nefndin hefur tekið tillit til margra gagnlegra athugasemda frá umsagnaraðilum og leggur til ýmsar breytingar á frumvarpinu.

Töluvert var rætt um heiti hinnar nýju stofnunar. Í athugasemdum með frumvarpinu er minnt á sáttmála Danmerkur og Íslands um flutning á hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar í vörslu og umsjón Háskóla Íslands og talið æskilegt að heiti stofnunarinnar beri í sér nafn Árna. Enn fremur þykir eðlilegt að heitið feli í sér tilvísun til sameiginlegs fræðasviðs þeirra stofnana sem í henni sameinast. Í umsögnum og í samræðum við gesti var nefndinni bent á galla við það heiti sem lagt er til í frumvarpinu. Annars vegar kunni það að vera of víðfeðmt þannig að með því sé gefið í skyn að hér sé um að ræða einhvers konar yfirstofnun í íslenskum fræðum sem ekki séu stunduð annars staðar. Hins vegar kunni heitið að vera of þröngt þannig að þar sé ekki tekið tillit til ýmiss konar fræðigreina sem lögð er stund á í stofnununum fimm en eru allajafna ekki taldar til íslenskra fræða. Þá hafa menn talið heitið stirt í munni og í ósamræmi við íslenska hefð.

Í umsögnum frá starfsmönnum Orðabókar Háskólans og bæði frá forstöðumanni og starfsmönnum Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi er lagt til heitið „Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum“ og eftir samtöl við forstöðumenn stofnananna fimm gerir nefndin þá tillögu að sinni.

Nefndin hefur einnig kosið að gera breytingartillögu við 1. mgr. 3. gr. um hlutverk stofnunarinnar. Bent hefur verið á að ekki sé heppilegt að skilgreina nákvæmlega hugtakið „íslensk fræði“ í lögum, m.a. til að takmarka ekki fræðilega kosti á starfssviði stofnunarinnar. Nefndin telur heppilegra að í lögunum verði bent á kjarnann í starfi stofnunarinnar, nefnilega rannsóknir, miðlun og söfnun á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, en vísað til fræða sem þar eiga hlut að máli með orðunum „íslensk fræði og skyldar fræðigreinar“.

Þar sem gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun sé háskólastofnun er eðlilegt að starfshættir innan hennar taki mið af skipulagi og hefðum háskólastarfs. Nefndin leggur því til að rannsóknarstarfsmenn stofnunarinnar myndi húsþing, sem samsvarar fundi háskóladeildar, og að því sé að breyttu breytanda falið hlutverk deildarfundar. Slíkt húsþing hefur frá upphafi verið haldið í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi og á Orðabók Háskólans er um svipaða starfshætti að ræða þótt þeir séu ekki festir í lög eða reglur. Þessi breyting tryggir akademísk vinnubrögð við stjórnun stofnunarinnar þannig að starfsmenn hafa áhrif á hina fræðilegu stefnumótun en forstöðumaður ber eftir sem áður fulla ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar með ráðum frá stjórn stofnunarinnar og undir eftirliti hennar.

Nefndin leggur einnig til að menntamálaráðherra verði falið að kveða á um skipulag stofnunarinnar í reglugerð en forstöðumaður undirbúi setningu hennar eða breytingu á henni með tillögu sem rædd hafi verið í stjórn og á húsþingi. Nefndinni þykir hafa komið fram í umsögnum og samræðum að nauðsynlegt sé að haga skipulagi stofnunarinnar með formlegri hætti en gert er ráð fyrir í frumvarpinu en vill á hinn bóginn gera stjórnendum og starfsmönnum kleift að hnika skipulaginu til eftir þörfum, með samþykki ráðherra, án þess að til þurfi lagabreytingar. Í þessu sambandi bendir nefndin á að í heitum stofnananna fimm kunna að felast ákveðin verðmæti sem ástæða er að halda til haga með því t.d. að einstök svið eða deildir „haldi“ heitum stofnananna eftir að þær hafa verið lagðar niður sem slíkar.

Við orðalag 2. mgr. 6. gr. um kennsluskyldu starfsmanna komu fram athugasemdir. Nefndin ákvað þó að leggja ekki til breytingar á greininni. Ljóst er að 2. mgr. leggur þá skyldu á herðar starfsmönnum stofnunarinnar að annast kennslu og leiðbeiningu á sérsviði sínu eftir því sem um semst. Þetta á samkvæmt orðanna hljóðan við um meistara- og doktorsnám en ekki grunnnám. Skilningur nefndarinnar er þó sá að orðalag greinarinnar útiloki ekki að starfsmenn geti tekið að sér kennslu og leiðbeiningu í grunnnámi, ef þeir vilja og um það semst.

Ýmsar athugasemdir hafa komið fram við fyrirkomulag Íslenskrar málnefndar í 9. gr. Breytingartillögur nefndarinnar miða að því að skýra betur hlutverk málnefndarinnar, gera henni kleift að mynda forustuhóp og koma til móts við óskir frá orðanefndum um fulltrúa í málnefndinni. Nefndin mælist eindregið til þess að Íslensk málnefnd fái fjárveitingu samkvæmt sérstökum fjárlagalið í fjárlögum. Nefndin telur eðlilegt að hin nýja stofnun og Íslensk málnefnd geri með sér samning til ákveðins tíma í senn um verkefni, aðstöðu og starfslið og kynni hann menntamálaráðherra. Þótt hin nýja stofnun sé skrifstofa málnefndarinnar telur nefndin ekkert í vegi fyrir því að málnefndin starfi með öðrum stofnunum eða einstökum fræðimönnum eftir því sem talið er heppilegt. Þessum breytingartillögum og ábendingum er ætlað að auka sjálfstæði málnefndarinnar og skýra stöðu hennar gagnvart stofnuninni og yfirstjórn hennar.

Virðulegi forseti. Verður nú gerð nánari grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar:

1. Heiti stofnunarinnar verði breytt í „Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum“ eins og áður hefur komið fram og í kjölfar þess verði fyrirsögn frumvarpsins einnig breytt.

2. Lagt er til að bætt verði við 1. gr. að stofnunin sé hluti af fræðasamfélagi Háskóla Íslands. Með þeirri viðbót eru tengsl stofnunarinnar og starfsmanna hennar við Háskóla Íslands enn betur tryggð og þar með margvísleg réttindi starfsmanna sem hluta af skólasamfélaginu. Þetta á m.a. við um rétt í tengslum við rektorskjör. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndinni bárust frá Þórði Kristinssyni frá Háskóla Íslands verður að telja líklegt að starfsmenn stofnunarinnar fái atkvæðisrétt við rektorskjör við skólann. Í 9. gr. kemur fram hverjir hafa atkvæðisrétt og eru starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi sérstaklega nefndir, en einnig hafa starfsmenn Orðabókar Háskólans og Stofnunar Sigurðar Nordals atkvæðisrétt þar sem stofnanirnar heyra undir háskólaráð. Í skýringum við 9. gr. er tekið fram að starfsmenn geti misst atkvæðisrétt sinn ef lagabreytingar leiða til þess að stofnunin tengist ekki lengur háskólanum. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir nánum tengslum við Háskóla Íslands og með breytingartillögunni er beinlínis kveðið á um að starfsmenn stofnunarinnar séu hluti af þessu háskólasamfélagi. Þess má því vænta að háskólaráð veiti þeim atkvæðisrétt og kjörgengi við rektorskjör.

3. Lagðar eru til nokkrar breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur eins og áður segir til lagfæringu á orðalagi 1. mgr. Þessi breyting felst í því að meginviðfangsefni stofnunarinnar er tilgreint skýrar en skilgreining fræðasviðs höfð rýmri eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Í því sambandi skal bent á að hugtakið „saga“ er samkvæmt breytingunni ekki meðal meginviðfangsefna en fræðigreinin „saga“ fellur hins vegar sem slík undir skilgreiningu fræðasviðsins. Enn fremur leggur nefndin til nokkrar viðbætur við stafliði greinarinnar. Í fyrsta lagi leggur nefndin til að við a-lið verði bætt að gögn sem stofnunin aflar og varðveitir skuli gerð aðgengileg fyrir fræðimenn og almenning. Þetta er lagt til með hliðsjón af miðlunarhlutverkinu í 1. mgr. og veitir m.a. lagastoð merku miðlunarstarfi á vefsetrum stofnananna fimm. Í öðru lagi leggur nefndin til að tekið sé fram í c-lið að stofnunin fari með verkefni á sviði íðorða og nýyrða. Nú er þessa eingöngu getið í athugasemdum við frumvarpið. Er þetta lagt til í samræmi við ábendingar í umsögnum, einkum þeim sem lúta að íðorðastarfi og starfsemi Íslenskrar málnefndar og Íslenskrar málstöðvar. Í þriðja lagi leggur nefndin til að við d-lið verði því bætt að stofnunin taki þátt í samstarfi um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis. Með framangreindri breytingu er tekið tillit til athugasemda sem bárust frá Stofnun Sigurðar Nordals og Samtökum sendikennara í íslensku erlendis. Í fjórða lagi leggur nefndin til að lagfært verði orðalag í lok e-liðar. Ekki þykir þörf á að gera í lögum sérstakan greinarmun á lýsandi og leiðbeinandi orðabókum, sem hvorartveggju eru á verksviði stofnunarinnar, sbr. a-, b- og c-lið 3. gr. og ummæli í athugasemdum við 9. gr. um útgáfu stafsetningarorðabókar.

4. Lögð er til breyting á uppröðun 4. gr. þannig að sú grein verði 5. gr. því heppilegra er að fjalla um stjórn á undan forstöðumanni þar sem stjórnin er skipuð á undan forstöðumanni. Einnig er lögð til sú breyting að húsþing stofnunarinnar tilnefni einn nefndarmann í stjórn í stað hugvísindadeildar Háskóla Íslands. Nefndin vísar til þess sem áður hefur komið fram, þ.e. að húsþing gegnir hlutverki sem samsvarar deildarfundi og er því eðlilegt að húsþing tilnefni einn nefndarmann. Enn fremur er lagt til að við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. þar sem kveðið verði á um að hæfi dómnefndarmanna og störf dómnefndar fari eftir hliðstæðum reglum og við ráðningu sérfræðinga og kennara við Háskóla Íslands eins og áskilið er í 8. gr. frumvarpsins. Hér er átt við reglur um verklag við meðferð umsókna um störf háskólamanna sem samþykktar voru í háskólaráði 5. desember 2002 og ákvæði III. kafla reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands sem eru nánari útfærsla á ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands. Að auki eru lagðar til orðalagsbreytingar í 2. mgr., sem verður 3. mgr., og enn fremur að tekið verði út ákvæði um að forstöðumaður ákveði skipulag stofnunarinnar, samanber breytingar við 5. gr. frumvarpsins.

5. Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á 5. gr. Í fyrsta lagi að hún verði 4. gr. Í öðru lagi er lagt til að felldur verði niður sá áskilnaður að tveir stjórnarmenn gegni ekki starfi við Háskóla Íslands. Nefndin telur óeðlilegt að útiloka menn frá stjórnarstörfum vegna starfa þeirra við Háskóla Íslands, einkum með tilliti til þeirra tengsla sem stofnunin hefur við skólann. Slíkt ákvæði mundi þrengja kosti menntamálaráðherra að þarflausu og gæti valdið stjórnarmönnum vanda þar sem störf við Háskóla Íslands, t.d. við stundakennslu, mundu væntanlega leiða til vanhæfis. Í þriðja lagi telur nefndin óheppilegt ákvæði 2. mgr. um að hlutverk stjórnar sé að vera forstöðumanni til faglegrar ráðgjafar og leggur því til að orðið „faglegrar“ verði fellt út. Rökin fyrir því eru m.a. þau að húsþingi er samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar ætlað að starfa með forstöðumanni að faglegri stjórnun og stefnumótun. Gera má ráð fyrir að störf stjórnarinnar felist fyrst og fremst í ráðgjöf sem lýtur að rekstri, stjórnun, kynningu o.fl., enda ekki kveðið á um sérstakt faglegt hæfi stjórnarmanna. Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein sem verði 3. mgr. og þar verði kveðið á um að þeir sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa hjá stofnuninni myndi húsþing sem forstöðumaður kallar saman og starfar í samræmi við nánari ákvæði reglugerðar, samanber það sem fyrr var sagt um þetta efni. Í fimmta lagi er lagt til að bætt verði við nýrri málsgrein sem verði 4. mgr. og þar kveðið á um að skipulag stofnunarinnar verði ákvarðað í reglugerð að fenginni tillögu forstöðumanns og umsagna stjórnar og húsþings í stað þess að forstöðumaður ákveði það eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

6. Lögð er til orðalagsbreyting á 7. gr. um að „rannsóknarstöður“ komi í stað orðsins „rannsóknarstörf“. Þá hefur nefndin kosið að fara að ábendingum um að takmörkun þeirra starfa sem um ræðir við „fræðilega arfleifð“ Árna Magnússonar og Sigurðar Nordals kunni að vera óhentug og geti jafnvel valdið deilum, og leggur til að látið verði nægja að kenna stöðurnar við nöfn þessara ágætu fræðimanna. Nefndin leggur jafnframt til að sú meginregla verði tekin upp að þessar rannsóknarstöður séu svokallaðar „gististöður“ og ráðnir í þær fræðimenn til ákveðins tíma af innlendum eða erlendum vettvangi. Þá mætti ráða í tengslum við ákveðin verkefni sem unnið er að innan stofnunarinnar eða óháð verkefnum í því skyni að íslenskt fræðasamfélag eflist með þátttöku þeirra. Í tillögu nefndarinnar er því gert ráð fyrir að forstöðumaður geti ráðið tímabundið í stöðurnar án auglýsingar að fenginni umsögn húsþings, samanber svipað ákvæði í 8. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands.

7. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 8. gr. Í fyrsta lagi þykir nefndinni skynsamlegt að í stað menntamálaráðherra skipi forstöðumaður dómnefnd sem metur hæfi umsækjanda um rannsóknarstörf, og að húsþing tilnefni einn nefndarmann í stað hugvísindadeildar Háskóla Íslands, samanber umfjöllun um húsþing í almennum athugasemdum hér að framan og breytingartillögu við 4. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. um að forstöðumaður skuli leita umsagnar húsþings við ráðningu til rannsóknarstarfa. Í þriðja lagi telur nefndin eðlilegt að koma til móts við ábendingar starfsmanna og leggur til að starfsheiti þeirra sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa við stofnunina verði rannsóknarlektor, rannsóknardósent og rannsóknarprófessor en slík samræmd starfsheiti tíðkast víða erlendis og eru þau til þess fallin að draga fram akademíska stöðu starfsmanna í stað þeirra starfsheita sem nú tíðkast, sem eru sérfræðingur, fræðimaður og vísindamaður. Nefndin telur í þessu sambandi rétt að benda á að á öllum rannsóknarstarfsmönnum hvílir ákveðin kennsluskylda skv. 6. gr. frumvarpsins.

8. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um Íslenska málnefnd. Í fyrsta lagi að orðalag í ákvæðum 1. og 2. mgr. verði lagfært og jafnframt verði kveðið á um það í 1. mgr. að skipunartími nefndarinnar verði fjögur ár og er það í samræmi við þann skipunartíma sem nú er kveðið á um í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1990, um Íslenska málnefnd. Einnig verði uppbyggingu greinarinnar breytt, t.d. verði ákvæði um að stofnunin sé skrifstofa Íslenskrar málnefndar fært úr 1. mgr. og gert að sérstakri málsgrein. Nefndin leggur í öðru lagi til að við bætist ákvæði um rétt málnefndarinnar til ábendinga um málfar, svipað og í 4. tölul. 2. mgr. 2. gr. núgildandi laga um Íslenska málnefnd. Í tillögunni er gert ráð fyrir að jafnframt ábendingum um það sem miður fer geti nefndin hrósað þeim sem vel gera, eins og reyndin hefur verið í störfum málnefndarinnar að undanförnu, m.a. með sérstakri viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. Í þriðja lagi er lagt til að einn nefndarmaður verði skipaður samkvæmt tilnefningu orðanefnda sem eru í samstarfi við stofnunina. Eðlilegt er að forstöðumaður stofnunarinnar gangist fyrir tilnefningarfundi með fulltrúum þeirra orðanefnda sem virkar eru. Menntamálaráðherra skipi þá eingöngu tvo nefndarmenn án tilnefningar, sem verða formaður og varaformaður, í stað þriggja. Í fjórða lagi telur nefndin mikilvægt að Íslensk málnefnd hafi heimild til að skipta með sér verkum í samræmi við þá starfshætti sem tíðkast hafa innan málnefndarinnar á liðnum árum.

9. Lagðar eru til breytingar á ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á 2. mgr. ákvæðisins að forstöðumenn þeirra stofnana sem lagðar verða niður skuli vera hinum nýja forstöðumanni til aðstoðar og starfa þannig áfram við stofnunina til 31. október 2006. Er þá við það miðað að þeir starfi áfram, án þess að hafa stöðu innan hinnar nýju stofnunar sem forstöðumenn, eftir gildistöku laganna og aðstoði nýjan forstöðumann í ákveðinn tíma, til að auðvelda þær breytingar sem óhjákvæmilegar eru og varða sameiningu þeirra stofnana sem hér eiga hlut að máli. Þeir skulu halda öllum áunnum réttindum sínum úr fyrra starfi á sama hátt og gert er ráð fyrir að gilda muni um þau rannsóknarstörf sem þeim skulu boðin samkvæmt þessu ákvæði frá og með 1. nóvember 2006. Í öðru lagi er sú breyting lögð til að við bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr. þar sem kveðið verði á um að í stað húsþings Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tilnefni hugvísindadeild Háskóla Íslands einn mann í dómnefnd til að meta hæfi forstöðumanns vegna skipunar hans í embætti skv. 3. mgr., sem verður 4. mgr. Stofnunin tekur ekki formlega til starfa fyrr en við gildistöku laganna 1. september 2006, en samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal þá vera búið að ganga frá skipun forstöðumannsins í fyrsta sinn. Gengið skal frá skipun hans eigi síðar en 1. september 2006. Eðli málsins samkvæmt verður húsþing ekki til fyrr en stofnunin hefur tekið formlega til starfa og því er óhjákvæmilegt að gera þessa breytingu til bráðabirgða til að hægt sé að ganga frá skipun forstöðumannsins samkvæmt settum tímamörkum. Rétt þykir að hugvísindadeild Háskóla Íslands verði veitt þessi tímabundna tilnefningarheimild í ljósi sterkra tengsla háskólans við stofnunina. Nefndin leggur jafnframt til að nýjum málslið verði bætt við 3. mgr. sem verður 2. málsl. og þar verði einnig kveðið á um það að dómnefnd skuli skipuð eigi síðar en 1. júní 2006 til að meta hæfi umsækjenda um starf forstöðumanns skv. 4. gr.

Nefndin beinir því til menntamálaráðherra að athuga nú þegar fjárþörf hinnar nýju stofnunar fyrir næsta fjárlagaár. Þar er í fyrsta lagi um að ræða fjárveitingu fyrir stöðum þeim sem rætt er um í 7. gr. í samræmi við yfirlýsingu ráðherra við 1. umræðu um frumvarpið. Í öðru lagi er ljóst að nokkur kostnaður hlýst af sameiningunni sjálfri og undirbúningi hennar, m.a. skipulagsvinnu, tölvutengingum, vefsetri og ýmiss konar hönnun, t.d. við kennimerki, bréfsefni o.s.frv. Í þriðja lagi er æskilegt að gera ráð fyrir fjölgun starfa við rekstur og skrifstofuhald, t.d. ráðningu skrifstofu- eða fjármálastjóra með viðeigandi starfsliði. Þá skal þess getið að í störfum nefndarinnar komu í ljós gallar í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins vegna frumvarpsins, og gæti þurft að endurskoða fjárþörf stofnunarinnar á næsta ári í því ljósi.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Ég vil fyrir hönd formanns nefndarinnar þakka nefndarmönnum sérlega gott samstarf í þessu máli. Allir nefndarmenn voru sammála um markmið þessara laga og mikil eindrægni ríkti um að ná sátt um það. Okkur þótti því ástæða til að hafa nefndarálitið ítarlegt enda breytingartillögurnar margar.

Hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason skrifa undir álitið með fyrirvara um 9. gr. frumvarpsins um Íslenska málnefnd og áskilja sér rétt til að leggja fram breytingartillögur. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Ísólfur Gylfi Pálmason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason.[16:58]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hugur minn var greinilega við nefndarstörfin. Við erum hér komin á síðari hluta máls sem hefur tekið allmikinn tíma í menntamálanefnd og verður vonandi til heilla því málefni sem um ræðir.

Ég verð að viðurkenna að mér leist ekki á þetta frumvarp í upphafi og var ýmsum atriðum þess nokkuð andsnúinn. En sem betur fer hefur nefndarstarfið leitt til þess að ég get heils hugar tekið undir nefndarálitið sem hér var áðan farið í gegnum. Ég tel að mikill árangur hafi náðst í starfi nefndarinnar.

Ég nefni — bara svona eitt af öðru án þess að fjalla um það, breytinguna á heiti stofnunarinnar og markmiðslýsingu hennar — að það er skýrt að starfsmenn hennar eru hluti af fræðasamfélagi Háskóla Íslands og þar með nátengdir háskólanum með þeim hætti að þeir eru sem sé hluti af honum að nokkru leyti.

Ég nefni þær breytingar sem leiða til þess að stofnunin verður raunveruleg háskólastofnun, akademísk stofnun, með því skipulagi sem þar af leiðir, þar á meðal húsþingi sem nefndin hefur orðið sammála um að setja á stofn í hinni sameinuðu stofnun og hefur sama nafn og samsvarandi samkoma í Árnastofnun eldri. Ég nefni enn fremur að að ósk starfsmanna ýmissa og flestra hefur starfsheitum verið breytt, þeim sem á stofnuninni verða. Enn er að nefna að hvatt hefur verið til þess að nýjar stöður sem voru svona nokkuð í lausu lofti, kenndar við ágæta tvo fræðimenn, verði fyrst og fremst gististöður og að við skipan í þær komi allt fræðasvið stofnunarinnar til greina en ekki einstök fræðasvið eins og áður var gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Af öðrum atriðum legg ég áherslu á þann samdóm nefndarinnar að beina því til menntamálaráðherra að athuga nú þegar fjárþörf þessarar stofnunar fyrir næsta fjárlagaár, fjárveitinguna fyrir þeim stöðum sem við ræddum áðan og kenndar eru við Árna Magnússon og Sigurð Nordal, fjárveitingu í samhengi við kostnað sem hlýst af sameiningunni, fjárveitingu sem ætlað sé að mæta þörf fyrir fjölgun starfa við rekstur og skrifstofuhald en sú fjölgun er nauðsynleg eigi að nást það hagræði og sú efling starfseminnar sem stefnt er að með frumvarpinu. Þar er líka minnt á að vegna galla í kostnaðarmati frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins gæti þurft að endurskoða fjárþörf stofnunarinnar í tengslum við sameininguna á næsta ári, það fer auðvitað eftir því hvort menn notfæra sér biðlaunarétt sem gert er ráð fyrir og hvernig gengið verður frá sameiningunni að öðru leyti.

Fleira má nefna í þessu. Það eru allmiklar breytingar á frumvarpinu og ég fagna þeim öllum. Framsögumaður, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sagði að við stjórnarandstæðingar hefðum skrifað undir með fyrirvara og gat þess réttilega að hann tæki til Íslenskrar málnefndar. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það en ég hef enn miklar efasemdir um að rétt sé að leggja af sérlög um Íslenska málnefnd og koma málum hennar fyrir í þessum lögum. Ég hefði talið eðlilegra að málnefndin væri algjörlega sjálfstæð með sérlögum og kvíði því nokkuð hvað verður í framhaldinu. Á hinn bóginn hefur okkur tekist í nefndinni að lagfæra greinina sem fjallar um Íslenska málnefnd. Við höfum gefið henni skýlausan rétt til almennra ábendinga um málfar sem ekki var fyrir hendi í frumvarpinu en hún hefur núna í sérlögum sínum. Við leggjum áherslu á að Íslensk málnefnd fái fjárveitingu á sérstökum fjárlagalið og teljum eðlilegt að hún geti í hennar krafti samið við hina nýju Árnastofnun um starfsemi og verkefni sem gerir hana sjálfstæðari gagnvart stofnuninni. Við segjum líka í nefndarálitinu að við teljum eðlilegt að málnefndin geti, ef hún kýs, starfað með öðrum háskólastofnunum eða einstökum fræðimönnum eða hverjum sem hún vill og þurfi ekki að biðja um leyfi hinnar nýju Árnastofnunar eða forstöðumanns hennar eða stjórnar til þess arna.

Við kusum þess vegna að flytja ekki breytingartillögur við þessa grein og rjúfa ekki samstöðu nefndarinnar með því. En ég vil segja það hér að ég lít á þessa nýskipan Íslenskrar málnefndar sem tilraun sem sjálfsagt er að endurskoða eftir nokkur ár í ljósi reynslunnar og hyggst beita mér fyrir því að það verði gert ef ég hef aðstöðu til hér á þinginu og hvet menntamálaráðherra núverandi og þá sem við taka að fylgjast vel með þessu máli. Íslensk málnefnd er mjög mikilvæg stofnun í samfélagi okkar og við megum ekki við því að veikja stofnanalega stöðu þeirra örfáu stofnana og apparata sem við höfum sett til verndar og eflingar íslenskri tungu.

Við vonum að vel fari en það er helst þessi partur frumvarpsins og umfjöllunarefni þess sem ég hef áhyggjur af. Ég tel hins vegar að með þeim breytingum sem við leggjum hér öll til geti þetta blessast nokkuð vel og orðið til heilla því starfi sem fram fer á stofnunum fimm, fræðunum sjálfum sem um ræðir og öllu því fólki sem þau stundar annaðhvort í starfi hjá stofnunum eða utan þess, þjóðinni sjálfri og öllum áhugamönnum um viðgang þessa máls.

Ég verð að lokum að hryggja þingheim og forseta með því að mér sýnist að nefndin þurfi að koma saman aftur eftir 2. umr., við þurfum aðeins að ræða það hér fyrir atkvæðagreiðsluna vegna þess að við gerðum ráð fyrir að þetta frumvarp yrði samþykkt mun fyrr á árinu en nú er raunin og höfum þess vegna miðað við 1. júní sem síðasta dag við skipun stjórnar og dómnefndar að ég held. Þessu þarf að breyta og við þurfum að ráðgast um það, forseti, í nefndinni með hvaða hætti það verði gert.

Ég þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrir framsögu sína hér og öllum nefndarmönnum fyrir hlut sinn að málinu, einkum formanni nefndarinnar sem hefur verið mjög ánægjulegt að eiga samstarf við. Ég er ekki einn um að telja að það samstarf í nefndinni og reyndar einnig við fulltrúa ráðherra og aðra þá sem komu að málinu, m.a. starfsmenn og forstöðumenn, sé til fyrirmyndar í störfum menntamálanefndar og ég vona að nefndin beri gæfu til þess að þegar um stórmál er að ræða, sem ekki eru þó bein pólitísk úrlausnarefni, geti vinnubrögð af þessu tagi tíðkast milli okkar sem þar störfum.