132. löggjafarþing — 119. fundur.
stjórn fiskveiða, 3. umræða.
stjfrv., 448. mál (hámark á krókaaflahlutdeild o.fl.). — Þskj. 1125, brtt. 1122.

[17:45]
Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum, frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar:

„Við 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal endurgreiða gjald vegna úthlutunar aflaheimilda í rækju á Flæmingjagrunni fyrir árið 2006 og skal veiðigjald fyrir árin 2006, 2007 og 2008 innheimt í lok hvers árs miðað við rækjuafla hvers skips á því ári.“

Þannig hljóðar breytingartillagan. Ég ætla í stuttu máli að gera grein fyrir henni.

Íslensk skip hafa stundað rækjuveiðar á Flæmingjagrunni frá árinu 1993. Á síðustu árum hefur dregið mjög úr sókninni vegna lækkandi afurðaverðs og aukins tilkostnaðar, sérstaklega vegna hás olíuverðs. Á síðasta ári stundaði einungis eitt skip þessar veiðar og nú hefur verið gerður samningur um sölu á því úr landi. Óvíst er hvenær rækjuveiðar á Flæmingjagrunni hefjast að nýju.

Rökin fyrir breytingunum á lagaákvæðum sem varða úthafsrækjuveiðar í íslenskri lögsögu eiga ekki síður við um rækjuveiðar á Flæmingjagrunni og því er þessi breyting á lögunum lögð til.



[17:46]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gerði við 2. umr. grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og ætla ekki að endurtaka þá ræðu mína nema að litlu leyti.

Ég tel að hér sé á ferðinni afar undarleg ráðstöfun sem í ljósi allrar umræðu um fiskveiðimál og rétt manna til veiða hafi á sér ótrúlegan brag. Nú er ákveðið að menn þurfi ekki að hafa þau rök fyrir því að setja aflatakmarkanir að stjórna þurfi veiðum heldur er brugðið á það ráð að menn þurfi að fá að viðhalda aflarétti sínum þótt þeir veiði ekki. Þetta er mjög undarleg kúvending frá þeim rökum sem lágu til grundvallar á sínum tíma og notuð hafa verið í umræðunni allan tímann, þ.e. að þeir sem stundað hafa veiðar hafi veiðiréttinn og út á hann eigi þeir að fá einkarétt til að veiða úr viðkomandi stofni.

En þegar ekki liggur fyrir að takmarka þurfi veiðarnar skal veiðiréttinum samt sem áður viðhaldið og öðrum sem hefðu hugsanlega áhuga á að nýta sér veiðiréttinn ekki hleypt að, þótt hinir sem veiðiréttinn hafa nýti ekki veiðirétt sinn.

Þetta er hluti af einkavæðingarbröltinu í kringum fiskveiðar á Íslandi þar sem menn hafa með undarlegum hætti, án þess að segja það nokkurn tíma upphátt í ræðustól Alþingis, reynt að koma á fyrirkomulagi sem jafna mætti til einkavæðingar fiskimiðanna, sameignar þjóðarinnar. Auðvitað hafa staðið átök um auðlindina allan tímann. Þeim átökum er ekki lokið en það er umhugsunarefni, í ljósi þess að nú eru liðin 30 ár frá því að menn færðu landhelgina út í 200 mílur, að hinum átökunum um landhelgina skuli ekki lokið með neinni sátt.

Það var mikil samstaða með þjóðinni í landhelgisbaráttunni. Öll þjóðin stóð með stjórnvöldum þegar landhelgin var færð út. En þjóðin hefur sannarlega ekki staðið með stjórnvöldum í því að einkavæða veiðiréttinn á Íslandi. Það er langt frá því. Ég held þess vegna að við þurfum að horfast í augu við að átökin um auðlindina haldi áfram.

Mér finnst einnig ástæða til að nefna þetta í lok þessarar umræðu í ljósi þess að við fengum í hendurnar með Morgunblaðinu, þeir sem það blað fá í hendur, aukablað sem er gefið út í þessum mánuði í tilefni 30 ára afmælis þess að sigur vannst í landhelgisstríðunum. Það blað er reyndar blátt á litinn. Síðan er athyglisvert að lesa það blað. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vitna fyrst í grein sem hæstv. sjávarútvegsráðherra skrifar í blaðið. Þar segir hann á einum stað:

„Okkur sem nú stöndum í sveit stjórnmálanna og í forystu sjávarútvegsmála, ber að halda þessu merki á lofti. Nú vex úr grasi ný kynslóð fólks sem ekki minnist þess elds sem á okkur brann í landhelgisstríðunum og á ef til vill erfitt með að setja sig í þau spor. Þess vegna höfum við svo ríkar skyldur, að halda þekkingunni vakandi.“

Morgunblaðið er greinilega að halda þekkingunni vakandi með útgáfu þessa blaðs. Ekki ætla ég að setja út á að menn gefi út blöð til að halda vakandi þekkingu á landhelgisstríðinu. Ég tel hins vegar ástæðu til að nefna þetta blað sérstaklega vegna þess að mér finnst að skilaboðin sem það flytur fólki séu ekki rétt. Ég held að þeir sem ekki hafa fylgst með landhelgisstríðunum eins og þau voru geti fengið svolítið skrýtna mynd af þeim stríðum með því að fletta þessu blaði. Maður gæti í fljótu bragði haldið að þar hefðu nánast einungis sjálfstæðismenn unnið sigra. Ekki ætla ég að draga úr hlut þeirra í að færa út landhelgina en mér finnst það skjóta býsna skökku við að menn skuli ekki ganga þannig frá, þegar þeir gefa út blað á vegum blaðs sem kallar sig blað allra landsmanna og ætla að greina frá þessum styrjöldum sem landinn sannarlega háði á þessum árum, að einungis síðasti áfangi landhelgisstríðsins hafi í raun verið stríðið allt.

Þjóðin getur verið kát með að pólitískt starf á Íslandi til að vinna þessi stríð var með þeim hætti að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu töldu sig þurfa að eiga þar góðan hlut þegar upp var staðið. En það muna þeir sem fylgdust með þessum landhelgisstríðum að Sjálfstæðisflokkurinn átti ekki hlut að því að færa út í tólf mílurnar og þvældist fyrir í því máli. Hann átti ekki heldur hlut að því að færa út í 50 mílurnar. Hann var í hvorugt skiptið við stjórn. Hins vegar áttuðu menn sig loks á því að ekki mætti lengur við svo búið standa. Þeir tóku upp mjög harða stefnu um það að færa strax út í 200 mílur um leið og búið var að færa út í 50 mílurnar.

Það var gæfa þjóðarinnar að þetta gekk svona til. Ég held að sú ákveðni og harka sem sýnd var í lokin, af sjálfstæðismönnum og öðrum því að allir stóðu saman um það að færa út landhelgina, hafi verið meiri en hún hefði annars orðið vegna þess að þeir voru utangátta bæði í 12 og 50 mílunum. Mér finnst það þess vegna ekki gott þegar landsmenn fá blað í hendur sem eru eiginlega skilaboð um það að 200 mílna sigurinn hafi verið sigurinn eini. Þar áttu allir hlut að og ég dreg ekki úr því að sjálfstæðismenn áttu þar góðan hlut. En mér finnst að umrætt blað hefði átt að skrifa öðruvísi. Það hefði átt að gera fleirum hátt undir höfði í því en gert var. Það hefði átt að setja blaðið upp með öðrum hætti en þeim að ókunnugir fái þá mynd sem ég tel að þeir fái með þessari blaðaútgáfu, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið landhelgisstríðin. Það var ekki þannig.

Þjóðin vann þessi stríð. Hún stóð saman í þeim. Átökin um auðlindina voru háð af öllum Íslendingum. Það var einróma þjóð sem stóð að þeim átökum. En þjóðin hefur ekki verið einróma í eftirleiknum, þ.e. þeim átökum sem hafa staðið um auðlindina frá því að eignarhaldsfyrirkomulaginu var komið á hvað varðar kvótakerfið. Það ætti að vera umhugsunarefni þeim mönnum sem muna þorskastríðin og þá eindrægni sem gilti þá meðal þjóðarinnar. Þetta vildi ég segja í tilefni af því blaði sem Morgunblaðið gaf út í tilefni af 30 ára afmæli þess að landhelgin var færð út í 200 mílur.