133. löggjafarþing — 43. fundur.
tollalög, 1. umræða.
stjfrv., 419. mál (ökutæki á erlendum skráningarnúmerum, EES-reglur). — Þskj. 494.

[20:22]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu eru með því lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga vegna tímabundinnar notkunar hér á landi, án greiðslu aðflutningsgjalda, á ökutækjum á erlendum eða sérstökum skráningarnúmerum. Breytingarnar eru lagðar til vegna ábendinga Eftirlitsstofnunar EFTA, en þær má greina í þrennt. Í fyrsta lagi bendir ESA á að óheimilt sé að binda tímabundinn innflutning á fyrirtækjabifreiðum því skilyrði að hluti aðflutningsgjalda sé greiddur líkt og nú er gert. Í öðru lagi bendir ESA á að þeir sem hingað koma til starfa tímabundið eða í leit að atvinnu skuli eiga þess kost að hafa meðferðis bifreið til eigin nota um hæfilegan tíma án greiðslu aðflutningsgjalda, en nú er eingöngu heimilt að veita slíka undanþágu í einn mánuð. Að öðrum kosti sé launþegum og sjálfstætt starfandi aðilum ekki veitt raunhæft frelsi til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi bendir ESA á að formskilyrði tollalaga er lúta að útgáfu leyfa til tímabundins innflutnings ökutækja fari í bága við meginreglur EES-samningsins um þjónustustarfsemi.

Til að koma til móts við ábendingar ESA er með frumvarpi þessu lagt til að einstaklingum sem eru búsettir erlendis og koma hingað til lands til starfa tímabundið eða í atvinnuleit verði heimilt að nota bifreið hér á landi í allt að ár án greiðslu aðflutningsgjalda. Með þessari nýju reglu er dregið úr hættu á að þeir sem íhuga að koma hingað til lands til tímabundinna starfa eða í atvinnuleit hverfi ekki frá þeim áformum vegna álaga á bifreiðar hér á landi. Með því er komið til móts við ábendingar ESA í þá átt. Þrátt fyrir að breytingarnar séu til komnar vegna ábendinga ESA er af framkvæmdalegum ástæðum lagt til að rýmkunin verði ekki látin velta á ríkisfangi þess sem hingað flyst heldur allra þeirra sem uppfylla skilyrði laganna.

Eins og áður segir er hér eingöngu verið að fjalla um einstaklinga sem koma hingað til lands tímabundið eða í atvinnuleit. Það þýðir að þeir sem hingað koma til varanlegrar búsetu geta ekki notið heimildarinnar.

Jafnframt hefur það þá þýðingu að heimildin fellur niður taki sá sem hennar nýtur ákvörðun um varanlega búsetu á landinu áður en árið er liðið. Þá er það gert að skilyrði að bifreiðin sé til eigin nota þess sem flytur hana inn eða kaupir hér á landi og einnig að bifreiðin sé annaðhvort flutt inn eða keypt ný og óskráð hér á landi innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins.

Tilmæli ESA taka einvörðungu til fyrirtækjabifreiða. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að greinin taki til bifreiða eins og þær eru skilgreindar samkvæmt umferðarlögum hverju sinni til einföldunar og hagræðis í framkvæmd. Að auki er að finna í frumvarpinu fáeinar minni háttar breytingar á ákvæðum tollalaga.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.