133. löggjafarþing — 46. fundur.
athugasemdir um störf þingsins.

ferð utanríkismálanefndar til Eystrasaltsríkjanna.

[14:56]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Á undanförnum árum hefur vaknað skilningur á því að það sé nauðsynlegt fyrir utanríkismálanefnd Alþingis að eiga meiri og betri viðskipti við þjóðþing annarra landa en áður hafði verið. Af þeim sökum hefur verið ætlað sérstakt fé til þess af fjárlögum og það hefur verið samþykkt í forsætisnefnd Alþingis hversu mikið fé utanríkismálanefnd skuli fá til þessara hluta. Um það hefur ekki verið ágreiningur og á þessu ári var niðurstaðan sú að fara til Eystrasaltsríkja af þeirri ástæðu að við höfum átt mjög góð og náin tengsl við þær þjóðir sem þar búa. Íslendingum hefur verið gerður þar margvíslegur sómi og Eystrasaltsríki haft lagt mikla og ríka áherslu á að eiga gott samstarf við Norðurlönd.

Nú gerðist það í morgun að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, kom til viðtals í Ríkisútvarpinu og sagði þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Við hefðum helst viljað afgreiða þetta frumvarp núna fyrir jólin og gera það að lögum. Það voru í sjálfu sér engir sko, við vorum eini flokkurinn sem í raun og veru vildi starfa fram að jólum. Og auðvitað er almenningur alveg gapandi hissa á því að þingmenn skuli þurfa að fara í jólafrí, sko 8. desember til að Þórunn og Ingibjörg Sólrún og Steingrímur Jóhann Sigfússon og fleiri komist í einhverja skemmtiferð á vegum þingsins í næstu viku. Við vorum eini flokkurinn sem var tilbúinn til þess að starfa í tvær vikur í viðbót ...“

Af þessu tilefni vil ég segja að það hefur aldrei komið til tals að þær hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færu í ferðina til Eystrasaltsríkja. Ég lagði á hinn bóginn mjög ríka áherslu á það við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann kæmi með í förina því að ég hef langa reynslu af því að hann er til sóma fyrir Alþingi hvarvetna sem hann kemur á erlendum vettvangi. [Hlátrasköll í þingsal.]



[14:58]
Guðjón Ólafur Jónsson (F):

(Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ítarlega vikið að og lagt út af orðum mínum hér á hinu háa Alþingi. Nú síðast eru þeir líka farnir að leggja út af orðum mínum í fjölmiðlum. (ÖS: Þú ert að …) Þetta er óvæntur heiður fyrir mig sem nýjan þingmann og að öllu leyti óverðskuldaður. (ÁRJ: Halldór Blöndal …) Að þessu sinni vilja hv. þingmenn ræða orð mín frá því í Morgunvakt Ríkisútvarpsins í morgun. Þar vék ég að því að Framsóknarflokkurinn hefði einn flokka viljað halda áfram þingstörfum næstu tvær vikur og ljúka umræðu um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið.

Aðrir flokkar höfðu hins vegar náð samkomulagi um að ljúka þingstörfum til að hv. þingmenn — og ég nefndi þar hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Steingrím Jóhann Sigfússon — gætu komist í skemmtiferð á vegum Alþingis, eins og ég tók til orða. Nú er það upplýst að hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir munu ekki ætla að fara í þessa ferð og ég biðst velvirðingar á að hafa nefnt þær ranglega í þessu sambandi.

Til skýringar er rétt að taka fram að þetta er ferð á vegum utanríkismálanefndar Alþingis til Eystrasaltsríkjanna og ég tel í sjálfu sér óþarfa fyrir hv. þingmenn að fyrtast við þó ég hafi notað orðið skemmtiferð. Ég tel engan vafa á því að þessi ferð verði hv. þingmönnum og Alþingi til gagns (MÁ: Gagn af skemmtiferð?) og þó að ferðin verði til gagns er alveg ábyggilegt að ferð þar sem hv. þingmenn Halldór Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon eru með í för verður skemmtileg, virðulegi forseti.



[15:00]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. (Gripið fram í: Þú verður nú að þakka fyrir þig.) Ég ætlaði að vera hér hálfreiður og skamma hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson. En ég er eiginlega ekki í skapi til þess lengur og hlýt að segja bara eins og forsetarnir gera hér hátíðlega, að þakka fyrir hlý orð og góðar óskir.

Ég vil þó gera athugasemdir við það að menn tali með þessum hætti um störf sín hér. Þegar þingnefnd, utanríkismálanefnd, fer í opinbera ferð til að hitta sambærilegar nefndir í vina- og grannríkjum okkar er það auðvitað vinnuferð, eða líta framsóknarmenn svo á að öll alþjóðasamskipti séu skemmtiferðir? Er ekki hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson nýkominn úr hálfs mánaðar vellystingum í New York á kostnað skattborgaranna til að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna? Var það skemmtiferð? (Gripið fram í: Mjög skemmtileg.) Var hann ekki í vinnu þar? Var hann ekki að sinna skyldum sínum? (Gripið fram í: Það var skemmtileg …) Hið sama á við um það þegar menn tala þannig eins og að þingmenn geri ekkert og liggi á meltunni nema bara þegar hér standa yfir þingfundir. Hvers konar tal er þetta? Hefur það ekki gildi að menn fari út í kjördæmin, sinni kjósendum sínum eða þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem sífellt þyngjast á herðum okkar litla þjóðþings, að taka þátt í allri þeirri fjölþættu alþjóðasamvinnu sem við reynum að rækta þó fá séum?

Það er ekki til nokkurs annars en að grafa undan okkur sjálfum og virðingu þessarar stofnunar þegar menn tala með þessum hætti. Það er voðalega ódýrt að ætla að slá sér upp á kostnað félaga sinna með þessum hætti, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson. Maður hlýtur að fara að velta því fyrir sér að ekki geti þingmaðurinn hugað að áframhaldandi þingmennsku. Hann hlýtur að hafa meiri metnað en þann að vinna á svona stofnun ef hann ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur. Kannski er í gegnum þessi ummæli þingmannsins Guðjóns Ólafs Jónssonar hægt að lesa þau tíðindi að hann hyggi ekki á frekari þingmennsku. Það verður þá að hafa það og sumum finnst kannski bættur skaðinn.



[15:03]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að öllum sé ljóst að störf þingsins ganga fyrir hér, störfin við að ljúka frumvörpum sem hér liggja fyrir. Það er mjög eðlilegt að semja um það hvernig mál ganga hér fram. Það gerum við alla jafna. Mörgum þeirra frumvarpa sem við fjöllum um hér og snúa meðal annars að skattamálum, málefnum aldraðra, almannatryggingum, fæðingar- og foreldraorlofi, ættleiðingarstyrkjum og fleiri mál, þurfum við auðvitað að ljúka fyrir áramót og frumvörpin miðast við það. Því er mjög eðlilegt að við ákveðum í samvinnu hvernig við ljúkum hér þingstörfum.

Hér liggur starfsáætlun fyrir þinginu þar sem gert var ráð fyrir því að við lykjum störfum í dag. Okkur tekst það reyndar ekki fyrr en á morgun. Látum það nú vera. Við ætlum að koma saman eftir áramót og ljúka því frumvarpi sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gerði að umtalsefni og sagðist vilja klára fyrir jól. Það frumvarp hefur ekki í sér dagsetningu sem miðast við að það þurfi að klárast um áramót. Þess vegna er algjörlega augljóst mál að það var eðlilegt að semja um lokin á þingstörfunum með þessum hætti.

Það að einn flokkur, Framsóknarflokkurinn, hafi viljað halda áfram fram að jólum og kannski milli jóla og nýárs má vel vera. En það kom alla vega ekki fram í þeim umræðum sem við áttum við formann Framsóknarflokksins að þannig vildi hann haga málum.

Mér finnst því þetta mjög undarlegur málflutningur hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og er þá betra að hafa það sem sannara reynist í málflutningi manna hér.



[15:05]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var með nokkurri furðu að ég hlustaði á hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu í dag þar sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson lýsti því hvernig starfslok hér á þinginu bæri að núna fyrir jólin. Reyndar er kannski óþarfi að verða hissa, ef maður horfir á hvernig þessi hv. þingmaður hefur starfað hér á þinginu þann stutta tíma sem hann hefur komið hér inn, þó að hann fari í fjölmiðlum með rangt mál og fari mjög frjálslega með staðreyndir því að akkúrat þannig hefur hv. þingmaður unnið á þingi þann tíma sem hann hefur verið hér.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hvað hv. þingmanni gangi til þegar hann nafngreinir félaga sína, þingmenn, í útvarpsfréttum og hreint og klárt ber upp á þá ósanna hluti. Því hlýtur hann sjálfur að svara hér á eftir. Sannleikurinn og staðreyndir virðast vera aukaatriði þegar kemur að því hjá þessum hv. þingmanni að flytja mál sitt.

Oft horfir maður upp á aumkunarverðar tilraunir þingmanna til að vekja athygli á sjálfum sér í fjölmiðlum. Oftast reyna þó þingmenn að halda sig við sannleikann og staðreyndir. Það sem þessi hv. þingmaður gerði í fréttunum í dag var afar aumkunarvert því að hann reyndi hvorki að halda sig við sannleikann né staðreyndir í málinu heldur fór algjörlega með fleipur frá upphafi til enda.

Svo veltum við þingmenn því fyrir okkur sem hér sitjum hvernig standi á því að virðing Alþingis virðist þverrandi meðal kjósenda og meðal almennings. Ég held að við vitum betur nú svör við því en oft áður og ég held að virðing Alþingis eigi enn eftir að minnka ef fleiri þingmenn eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson koma á þing.



[15:07]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar í morgunútvarpinu í morgun og vegna þeirrar myndar sem hann gaf með orðum sínum íslensku þjóðinni um störf þingsins vil ég að það komi hér fram að hv. Alþingi starfar samkvæmt starfsáætlun. Starfsáætlun er að mestu leyti byggð á þingsköpum. Þingfrestun var áætluð í dag, 8. desember. Hæstv. forseti hefur lagt mikinn metnað í að halda starfsáætlun þingsins. Það vildi forseti gera núna og það er alveg ljóst, eins og hér hefur líka komið fram, að þingstörfin ganga fyrir öðrum störfum, bæði nefndastörfum og opinberum ferðum nefnda.

Þegar ljóst varð núna fyrr í vikunni að ekki tækist að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem Alþingi ber skylda til að afgreiða vegna skuldbindinga núna um áramótin boðaði forseti til aukafundar með varaforsetum þingsins og gerði þeim ljóst að þeir yrðu að vera viðstaddir hér áfram í næstu viku og jafnvel fram að jólum ef þess þyrfti með. Það var því alveg ljóst að forseti gerði ráðstafanir til þess að hér yrði starfandi þing ef þess þyrfti með.

Ég andmæli orðum hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og þeirri mynd sem hann gefur af þinginu. Þingmenn valsa ekki um í skemmtireisum þegar þeir eru í opinberum ferðum og þinghlé eru notuð í kjördæmum og við önnur störf. Ég vil að hv. þingmaður minnist þess í framtíðinni í störfum sínum.



[15:09]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hægt er að skamma hv. þingmann miklu meira en hér hefur gert. En ég held að það sé rétt umræðunnar vegna að rifja upp þau ummæli sem kannski mesta athygli vöktu í hádegisfréttunum. Þau voru á þennan veg, með leyfi forseta:

„Það voru í sjálfu sér engir sko, við vorum eini flokkurinn sem í raun og veru vildi starfa fram að jólum. (Gripið fram í: Sko.) Og auðvitað er almenningur alveg gapandi hissa á því að þingmenn skuli þurfa að fara í jólafrí sko ... Við vorum eini flokkurinn sem var tilbúinn til þess að starfa í tvær vikur í viðbót ...“

Hér er kannski mjög athyglisvert að Framsóknarflokkurinn er núna á einhverju umbreytingatímabili. Nú eru að koma kosningar og nú ber Framsóknarflokkurinn ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut, ekki einu sinni þinglokunum. (Gripið fram í: Skiptir engu máli heldur.) Og skiptir kannski engu máli. Sjálfstæðismenn þurfa ekki einu sinni að tala við framsóknarmenn þegar þeir ljúka þinginu, svo ábyrgðarlitlir eru þeir orðnir á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í.) Kjarninn í þessu, eins og félagar mínir á hinu háa Alþingi hafa dregið fram, er að þegar við tölum um þingið á þann hátt sem gert er í þessu þá drögum við virðingu þess niður. Ég verð að segja alveg eins og er að ég man ekki eftir því að þingmaður hafi komið í útvarpsviðtal og nánast lýst því yfir að hann og nokkrir vinir hans í flokknum séu ofsalega duglegir og tilbúnir að vinna á meðan aðrir séu ekki tilbúnir að gera neitt. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt aðra eins umræðu eða ummæli eða að nokkur hafi leyft sér að fara þessum orðum um þingmenn á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom þó hér upp og reyndi að gera eins gott úr þessu og nokkur var kostur. Mér fannst hann þó, í orðum og eins langt og það náði, biðjast þó afsökunar á sinn hátt á þessum ummælum og er það vel. En ég vonast til þess að við sjálf séum ekki að draga úr virðingu þingsins á þann hátt sem gert var í hádeginu í dag.



[15:12]
Guðjón Ólafur Jónsson (F):

(ÖS: Biðstu afsökunar.) (SJS: Þá er þetta búið.) (ÖS: Þá er þér fyrirgefið.) Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að vekja athygli á ummælum mínum frá því í morgun og lesa þau hér ítrekað upp. Það er rétt að þau komist vel til skila í þingtíðindi líka.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta óþarfa viðkvæmni af hálfu hv. þingmanna. Hv. þingmenn verða að þola að rætt sé um störf þeirra og ferðir. (Gripið fram í: Ekki logið.) Staðreyndin (Gripið fram í: Leyfið honum ...) er hins vegar sú að almenningur í þessu landi botnar hvorki upp né niður í því að við förum í jólafrí á morgun og komum ekki hingað aftur og höldum þingfundi fyrr en 15. janúar. (Gripið fram í: Ert þú að fara í jólafrí?) (Gripið fram í: Við erum ekkert að fara í jólafrí.) Það liggur fyrir að við framsóknarmenn vorum tilbúnir til að sitja hér fram á Þorláksmessu, milli jóla og nýárs og strax eftir áramót ef þörf væri. (SJS: Hættu þessu nú og skammastu þín.) (Gripið fram í.)

Hv. þm. Jón Gunnarsson talar um að virðing Alþingis fari þverrandi. Það getur vel verið að virðing Alþingis fari þverrandi, en það skyldi þó ekki vera þegar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir því yfir að kjósendur treysti ekki þingmönnum Samfylkingarinnar. En það kom annað miklu merkilegra fram í þessum ágæta útvarpsþætti í morgun þar sem ég ræddi við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur og það er hvað varð um skriflegar skýringar formanns Samfylkingarinnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á þessum ummælum í ræðu sinni. (Gripið fram í.) Ég held að það væri miklu nær að við vikjum að því hér í umræðu á þinginu, hæstv. forseti. (Gripið fram í.)



[15:13]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þórhallur bóndi Kristjánsson á Halldórsstöðum í Kinn hafði þann vana þegar ég var þar í sveit að þegar hundurinn sýndi af sér dónalegt athæfi eða hlýddi ekki þá var tekið í hnakkadrambið á honum, honum hent út í skurð og ekki sýnt mikið atlæti þaðan í frá. Það sem hundurinn gerði var það að hann dró sig upp úr skurðinum með skottið á milli lappanna og fór svo eitthvert afsíðis og hristi sig.

Það er mikilvægt að þegar hundur sem hefur verið meðhöndlaður á þennan hátt hristir sig þá geri hann það fjarri öðrum. Það er kannski rétt að við tökum upp þá venju hér á þinginu að menn hristi sig í einrúmi héðan í frá. (ÖS: Framsóknarmenn.) (Gripið fram í: Þetta er nú málefnalegt!)

Er þá þætti hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar nokkurn veginn lokið hér í þessari umræðu. Það hafa líka komið fram upplýsingar um hina meintu skemmtiferð hv. þm. Halldórs Blöndals og félaga hans í utanríkismálanefnd og svör hafa fengist nokkurn veginn við þeim spurningum sem ég bar hér fram áður.

Það sem málið hins vegar leiðir í ljós er að hér er í gangi einhver pirringur, einhver togstreita milli stjórnarflokkanna. Fulltrúi Framsóknarflokksins í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um það mál er sá hinn sami Guðjón Ólafur Jónsson og hér hefur talað. Þegar flokkarnir renna svona saman í kringum málin, þegar annar þeirra skammar hinn fyrir að nenna ekki að vinna, fyrir að fara í skemmtiferðir rétt fyrir jólin og hinn bregst reiður við, þá gerum við stjórnarandstæðingar ekki annað en að draga okkur kurteislega í hlé.