133. löggjafarþing — 49. fundur.
fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, 2. umræða.
frv. GHH o.fl., 435. mál (heildarlög). — Þskj. 536, nál. 654, brtt. 655.

[16:30]
Frsm. allshn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Frumvarpið er á þskj. 536 en álit allsherjarnefndar á þskj. 654.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Eyþórsson, Skúla Helgason, Guðlaug Þór Þórðarson, Kristínu Halldórsdóttur og Eyjólf Ármannsson frá nefnd fulltrúa þingflokka, Árna Pál Árnason, starfsmann nefndarinnar, Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Gylfa Magnússon, dósent í viðskiptafræði. Þá komu einnig fyrir nefndina að eigin ósk Teitur Einarsson og Þórlindur Kjartansson frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Umsagnir bárust um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sambandi ungra sjálfstæðismanna.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt fjallar frumvarp þetta um lagalega umgerð stjórnmálastarfsemi á Íslandi og er undirbúið af hálfu nefndar allra þingflokka sem skipuð var árið 2005 af þáverandi forsætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að rekja efni frumvarpsins sérstaklega enda hefur það verið gert við 1. umr. málsins í ágætri framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég vil taka það fram að allsherjarnefnd leggur til að málið verði samþykkt með fjórum breytingum sem varða þrjú atriði.

Í fyrsta lagi er lagt til að framboð sem fái 5% fylgi í kosningum eigi rétt á styrk frá sveitarfélögum. Þetta varðar sveitarstjórnarkosningar en í frumvarpinu var gert ráð fyrir að þetta hlutfall væri 2,5%. Nefndin leggur því til að hlutfallið hækki úr 2,5% og verði 5%.

Þá er sömuleiðis lagt til að orðin „og skal hún vera í eðlilegu hlutfalli við stærð sveitarfélagsins“ í lokamálslið 5. gr. falli brott.

Næsta atriði sem nefndin leggur til og er kannski það veigamesta er að lagt er til að ákvæði um frambjóðendur til embættis forseta Íslands í 6. gr. frumvarpsins verði fellt niður. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að nefndin var á því að þessi mál þyrfti að skoða frekar að því er varðaði frambjóðendur til embættis forseta. Nefndin beinir því eindregið til forsætisráðherra að hafa forgöngu um tillögugerð hvað þetta varðar og þær tillögur hafi sömu meginreglur og gilda um aðra frambjóðendur í persónukjöri. Í samræmi við þetta verði breyting á c-lið 2. gr. frumvarpsins.

Loks er það síðasta atriðið sem allsherjarnefnd leggur til að verði breytt og það snýr að framlögum frá einstaklingum. Nefndin leggur til að það verði bundið við lögráða einstaklinga.

Breytingartillögu frá allsherjarnefnd er að finna á þskj. 655.

Undir álit allsherjarnefndar skrifa auk mín hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin G. Sigurðsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, með fyrirvara, Ásta Möller, Kjartan Ólafsson, með fyrirvara, og Magnús Þór Hafsteinsson.



[16:34]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar lýsa ánægju með þetta frumvarp. Ég held að hér sé verið að stíga mjög mikilvægt skref í rétta átt í að gera umhverfi stjórnmálastarfsemi hér á landi líkara því sem gerist erlendis en áður en lengra er haldið vil ég sérstaklega minnast á þátt eins hv. þingmanns sem á hvað mestan þátt í að hafa hreyft þessu máli og það er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Sá þingmaður hefur lagt ítrekað fram þingmál eftir þingmál í mörg ár sem lýtur að því að setja ákveðið regluverk í kringum stjórnmál og starfsemi stjórnmálaflokkanna. Hv. þingmaður hefur barist ötullega bæði innan þings og utan fyrir þessum málstað og hún getur nú litið stolt til baka vegna þeirra mikilvægu skrefa sem hér er verið að taka og ég held að allur þingheimur þurfi að hafa aðkomu þess þingmanns að málinu í huga og ekki síst að umræðunni og taka þátt í að þroska hana. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir á mikið hrós skilið fyrir baráttu sína og við þurfum öll að hafa það í huga.

Það er jákvætt að þverpólitísk samstaða sé orðin um að setja þurfi lög hvað þetta varðar og um þær efnisgreinar sem hér eru á ferðinni. Það hefur verið ákveðin tortryggni í garð stjórnmálaflokkanna. Virðing Alþingis hefur ekki mælst eins mikil og hún ætti kannski að vera þannig að allt regluverk í þá átt að auka gegnsæi og eyða tortryggni eru jákvæð skref. Sömuleiðis stakk það auðvitað þjóðina að Ísland er eitt af síðustu löndum Evrópu sem hefur ekki löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna og Evrópuráðið hefur m.a. beint þeim tilmælum til okkar að Íslendingar setji slíkt regluverk. Stjórnmálaflokkarnir gegna mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi. Þeir eru hluti af lýðræðinu og þess vegna er eðlilegt að eitthvert regluverk sé til staðar.

Hin þverpólitíska nefnd sem var skipuð náði saman með þessa niðurstöðu. Auðvitað eru ekki allir alveg 100% sáttir eins og gerist í slíkri vinnu. Það er eðlilegt og við eigum að líta á þetta sem fyrsta skref. Það eru endurskoðunarákvæði í þessum lögum og það er um að gera að við lærum af reynslunni og sníðum helstu vankanta af þegar að þeim er komið. Þetta frumvarp og þessi lagabálkur munu bæði auka gegnsæi og hafa margs konar praktískar breytingar fyrir stjórnmálaflokkana, t.d. hvað varðar fjáröflun og annað og stjórnmálaflokkarnir þurfa að hafa sig alla við að fara eftir þessum reglum og ég er sannfærður um að það takist. Á það hefur verið bent í umræðunni og um það spurt af hverju stjórnmálaflokkarnir séu að setja reglur sem hugsanlegt er að komast fram hjá en mér finnst það ekki vera rök í sjálfu sér. Auðvitað er hægt að brjóta allar reglur eða komast fram hjá þeim og fram hjá anda laganna sé brotaviljinn slíkur en stjórnmálaflokkar og frambjóðendur sem sækjast eftir trausti hljóta að geta sammælst um að fara eftir þeim leikreglum og þeim anda sem birtist í viðkomandi lögum.

Ríkisendurskoðun fær ákveðið hlutverk í þessum lögum, vítt hlutverk, bæði um að meta verðmæti viðkomandi frambjóðenda og flokka, þannig að bókfærður kostnaður mun aukast bæði hjá frambjóðendum í prófkjöri og stjórnmálaflokkum og síðan mun Ríkisendurskoðun koma að gerð bæði leiðbeiningarreglna. Í nefndarálitinu höfum við beint til Ríkisendurskoðunar að hún hafi samráð um gerð slíkra reglna við stjórnmálaflokkanna. En það er hins vegar umhugsunarefni hvort Ríkisendurskoðun þurfi aukin úrræði, jafnvel fjármagn til að sinna þessu viðamiklu verki.

Starfandi formaður allsherjarnefndar gerði grein fyrir breytingartillögunum sem ég tel allar vera til bóta, sérstaklega hvað varðar sveitarfélögin. Það er komið að mestu leyti tel ég til móts við óskir Sambands ísl. sveitarfélaga og það er mikilvægt. Við erum auðvitað að leggja ákveðnar skyldur á sveitarfélögin að taka þátt í að styrkja stjórnmálastarfsemi en á móti erum við að aflétta kostnaði af sveitarfélögum þegar kemur að kosningunum. Í störfum nefndarinnar kom fram að sá kostnaður getur verið um það bil 40 millj. kr. í kringum hverjar kosningar. Eins og starfandi formaður benti á leggjum við til að forsetaákvæðið, 6. gr., verði endurskoðuð. Það er mikilvægt að við leggjumst í það strax í vor og hugsum það alveg til enda.

Að lokum bendi ég á endurskoðunarákvæðið sem er í lögunum og við þurfum auðvitað að læra af reynslunni. Eflaust munum við rekast á eitthvað sem betur mætti fara og þá hvet ég þingheim til að taka höndum saman um að gera þessa góðu löggjöf enn betri. En ég vil ítreka þátt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í aðdraganda þessa máls og ég held að við þurfum öll að minnast aðkomu hennar og baráttu fyrir því að stjórnmálaflokkarnir lúti svona regluverki.



[16:40]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að taka til umfjöllunar löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna og reyndar kannski með almennari hætti eins og upphaflega var lagt af stað með í nefndinni, að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi og afmarka löggjöfina ekki bara við fjármál stjórnmálaflokkanna.

Sú skýrsla og frumvarp sem hér liggur fyrir er að mörgu leyti gagnlegt að mínu viti og heldur til bóta þó að það sé ekki einhlítt, en mér finnst það lakara að menn ætli sér að keyra málið í gegnum þingið á hraðferð. Það kemur ekki fram í nefndaráliti allsherjarnefndar að málið hafi verið sent út til umsagnar. Það kemur hins vegar fram að tvær umsagnir hafi borist og ég hef beðið um að fá þær en ekki hefur gefist tími til þess að sækja þær og ég hef því ekki getað kynnt mér efni þeirra umsagna.

Virðulegur forseti. Ég held að menn ættu ekki að viðhafa þau vinnubrögð á Alþingi, og sérstaklega ekki í þessu máli, að fara í gegn með frumvarp um stjórnmálaflokkana í hraðferð á örskotsstundu í gegnum þingið og gera að lögum, alls ekki. Ég geri alvarlegar athugasemdir við slíkar fyrirætlanir ef þær eru uppi, virðulegi forseti. Ég styð það ekki að menn standi þannig að verki. Það þýðir ekki endilega að ég styðji ekki það sem í málinu er, ég geri greinarmun á því, en ef það eru áformin að gera þetta með hraðferð mun ég leggjast gegn því. Ég held að eftirlaunafrumvarpið ætti að vera okkur nægjanleg lexía til að endurtaka ekki þann leik.

Við erum í þeirri stöðu að fulltrúar stjórnmálaflokkanna skipa nefnd um stjórnmálaflokkana. Þeir ræða málið sín í milli, senda það til sín, kalla sjálfa sig til umsagnar og afgreiða það sjálfir. Hverjir aðrir koma að málinu? Stjórnmálastarfsemi í lýðræðisríki er ekki einkamál stjórnmálaflokkanna, alls ekki, og ég vara við því, virðulegi forseti, ef menn líta svo á að það sé ekki málefni sem komi öðrum við en stjórnmálaflokkunum sjálfum hvernig fjármál þeirra eru eða tekjuöflun þeirra.

Ég tel að þetta mál eigi að fara út til umsagnar til ýmissa aðila í þjóðfélaginu og gefa þeim kost á að veita umsögn, koma á framfæri sjónarmiðum sínum og síðan taki þingið það til umfjöllunar, því að auðvitað er það Alþingi sem setur lög og enginn annar getur gert það. Okkur þykir ekki lengur eðlilegt að einn og sami aðili taki allar ákvarðanir í máli, það er búið að aðskilja framkvæmdarvald og dómsvald, svo ég nefni dæmi, og það er ekki eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir séu eini aðilinn sem komi að máli, semji það, veiti umsögn um það og afgreiði það. Mér finnst það ekki eðlilegt fyrirkomulag. Það kann að vera að út úr því geti engu að síður komið skynsamleg löggjöf en það eru meiri líkur á því að hún verði skynsamleg ef fleiri koma að henni og sérstaklega þeir sem ekki eru hluti af kerfinu, vegna þess að aðrir þjóðfélagsþegnar eru hluti af þjóðfélaginu eins og við og þeir hafa rétt á því að hafa skoðun og setja hana fram um það hvernig stjórnmálaflokkarnir eigi að starfa. Við eigum ekki að taka þann rétt af þeim sem það vilja að koma á framfæri við Alþingi sjónarmiðum sínum í þessum efnum. Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, um formið.

Um efnið sjálft er auðvitað þó nokkuð að segja og í heild sinni finnst mér það endurspegla ríkisvæðingu stjórnmálastarfseminnar. Niðurstaða málsins er, ef maður dregur hana saman, að verið er að tryggja starfsemi stjórnmálaflokka með framlögum úr ríkissjóði. Verið er að reisa skorður við því að einstaklingar og fyrirtæki geti lagt fé til stjórnmálastarfsemi, sem ég held út af fyrir sig að rétt sé að gera, en þær skorður eru svo lágar að það er engin von til þess að stjórnmálaflokkar geti rekið starfsemi sína eða kosningabaráttu á þeim framlögum. Þess vegna er það auðvitað niðurstaða þeirra sem leggja þetta mál fram að sækja verði meiri peninga í ríkissjóð. Það er eðlileg niðurstaða út frá þeim skorðum sem menn reisa.

Þá er niðurstaðan sú að menn eru meira og minna með starfsemi sem rekin er úr ríkissjóði af þeim sem ákvarða fjárlög ríkisins. Ég held að menn eigi ekki að ganga svona langt í að takmarka fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Það er líka umhugsunarefni hve stjórnmálastarfsemin er lýðræðislega veik í þátttöku félagsmanna flokkanna í fjármögnun hreyfingarinnar. Það er mikið umhugsunarefni hversu lítið fjármagn flokkarnir fá frá sínum félagsmönnum og hlýtur að segja eitthvað um viljann til að starfa í stjórnmálaflokkunum. Menn verða auðvitað að velta því fyrir sér hvernig á þessu stendur, því að það er ekki hollt, þó að það sé nauðsynlegt að ríkissjóður eða hið opinberi leggi fé til stjórnmálastarfsemi, að það sé meira og minna á kostnað hins opinbera.

Hins vegar eru göt í málinu. Það er enginn vandi fyrir fyrirtæki eða fjársterka aðila að koma peningum inn í kosningabaráttu vegna þess að það eru engar skorður í frumvarpinu við því til hversu mikilla útgjalda flokkarnir geta stofnað. Það eru skorður við tekjunum sem þeir geta aflað sér en það eru engar skorður við þeim útgjöldum sem þeir geta stofnað til. Það eru engar skorður við þeim útgjöldum sem aðrir geta stofnað til í þeirra nafni eða fyrir þeirra hönd. Ég held að menn þurfi að skoða þessa hlið líka. Ég held að menn þurfi líka að reisa skorður við stjórnmálaáróðri í fjölmiðlum, ég er á þeirri skoðun að setja þurfi takmarkanir á það t.d. í sjónvarpi.

Ég var staddur í Bretlandi á síðasta ári og fylgdist dálítið með þingkosningunum sem þar fóru fram. Maður varð ekki var við kosningaáróður t.d. í sjónvarpi eða útvarpi og sáralítið í blöðum. Þeir setja greinilega löggjöf um þetta og reka kosningabaráttuna þannig að menn geti ekki nýtt aðgengi að fjármagni til að styrkja stöðu sína umfram aðra sem hafa minna aðgengi að fjármagni. Mér finnst það að mörgu leyti eðlilegt sjónarmið að löggjöf takmarki möguleika flokka til að afla sér fylgis umfram aðra flokka í krafti mikils aðgengis að fjármagni. Það er sláandi að í þessu frumvarpi eru engar takmarkanir settar á möguleika flokkanna til að eyða eða stofna til útgjalda, það er algjört frelsi í þeim efnum. Það eru settar takmarkanir á útgjöld einstaklinga í prófkjörum en það eru ekki settar takmarkanir á útgjöld flokka í kosningum, sem mér finnst vera sami hluturinn og menn eigi að hafa með sambærilegum hætti. (Gripið fram í: Eru tekjurnar ekki takmarkið?) Nei, tekjurnar eru ekki endilega takmark fyrir því hvað menn geta eytt, ekki endilega. Það er til í dæminu að menn safni skuldum. Það er til í dæminu að aðrir stofni til útgjalda en flokkarnir sjálfir og greiði útgjöldin. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal, sem var hér áðan, er löngu búinn að sjá að það er enginn vandi fyrir aðila að stofna til útgjalda fyrir flokkana án þess að það sé skráð á þá. Við þurfum auðvitað að taka á því svigrúmi líka.

Mér finnst líka í þessu frumvarpi of mikið stutt við flokkana sjálfa en of lítið við þingmennina. Það kemur fram í 4. gr. frumvarpsins, Framlög til þingflokka úr ríkissjóði, að áformað sé að fella niður viðbótarframlag til flokkanna í kjölfar stækkunar kjördæmanna, fjármagn sem sérstaklega var ætlað til að renna út í einstök landsbyggðarkjördæmi. Það er meiningin að fella það niður og hækka hið almenna framlag, með öðrum orðum miðstjórnarvaldið eða hið samræmda fær meira og einstök kjördæmi minna. Þingmenn fá ekki það sem á sínum tíma, fyrir átta árum, var samkomulag um að þeir fengju, aðstöðu í formi aðstoðarmanns til að sinna sínu starfi. Það er líka gildur hluti af lýðræðinu að þingmennirnir séu einhvers megnugir. Hvers megnugir eru þingmenn hér, hvaða möguleika hafa þeir á að afla eða draga saman upplýsingar fyrir sig, setja niður mál og annað slíkt? Við sjáum það bara á þessu nefndaráliti að nefndin beinir því til forsætisráðherra að vinna tiltekin verk um löggjöf varðandi framboð forseta Íslands. Á oddviti framkvæmdarvaldsins að stjórna því? Þingmenn virðast ekki hafa neitt bolmagn til að geta sjálfir sett neitt niður eða unnið í þeim efnum. Það er lélegt, virðulegi forseti. Í flestum löndum sem ég hef komið til og síðast í austurríska þingið fyrir nokkrum dögum hafa þingmenn aðstoðarmann.

Ég held að það sé hluti af lýðræðinu að styrkja stöðu þingsins, styrkja stöðu þingmanna, lýðræðið er ekki bara flokkarnir sjálfir, og að það eigi að styrkja stöðu þeirra og miðstjórnar flokkanna. Með stækkun kjördæmanna á sínum tíma veiktum við stöðu einstaklinga og hópa innan stjórnmálaflokka úti í kjördæmunum en styrktum forustumannavaldið. Með þessu frumvarpi erum við að ganga svolítið áfram á þeirri braut að byggja allt upp á forustu stjórnmálaflokkanna. Þó að hún sé alls góðs makleg verðum við að huga að öðrum þáttum lýðræðisins líka.

Það eru atriði sem ég tel rétt að vekja aðeins athygli á í 3. og 4. gr. frumvarpsins. 3. gr. er um framlög til stjórnmálasamtaka og kveðið er á um úthlutun fjár til stjórnmálasamtaka. Í 4. gr. er hins vegar talað um framlög til stjórnmálaflokka. Það er ekki endilega sami hluturinn, stjórnmálasamtök og stjórnmálaflokkar. Mér þykir rétt að vekja athygli á þessu mismunandi orðalagi og spyrjast fyrir um hvort í því felist einhver mismunandi efnislegur skilningur. Ef það er ekki held ég að menn ættu að samræma orðalagið í 3. og 4. gr. þannig að enginn misskilningur sé uppi í þeim efnum.

Ég staldra líka aðeins við 13. gr. frumvarpsins um viðurlög en þar segir:

„Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara skal sæta fésektum, en alvarleg brot geta varðað fangelsi allt að sex árum.“

Hvernig er leiðbeiningin í þessum lögum til dómaranna sem eiga væntanlega að túlka þessa grein ef til þess kemur síðar? Hver eru hin alvarlegu atriði sem falla undir t.d. fangelsisviðurlögin? Er það t.d. ef frambjóðandi eyðir meiru í prófkjöri en kveðið er á um í reglunum? Er það t.d. ef flokkur tekur við hærri framlögum en mælt er fyrir um eða hefur ekki fullnægjandi bókhald á fjárreiðum sínum og ef það er flokkurinn sem er hinn brotlegi hver fer þá í fangelsi, formaður flokksins, gjaldkeri flokksins eða framkvæmdastjóri? (Gripið fram í.) Ég held að menn verði að gefa aðeins skýrari leiðbeiningar um þessi viðurlög, hvaða ástæður geta leitt til þess að menn telji rétt að beita svona hörðum viðurlögum. Ég held að menn þurfi að segja það, helst í lagatextanum en alla vega í einhverjum skýringum sem að haldi koma og gefa nánari leiðsögn um skilning á þessu ákvæði í 13. gr. því að vissulega eru viðurlögin hörð. Ég skal ekkert gera lítið úr því að nauðsynlegt sé að hafa viðurlagaákvæði í löggjöf um þetta efni en mér finnst umhugsunarefni hvort menn séu á réttu spori í þessu.

Ég held að ég láti þetta duga, virðulegi forseti, um þetta mál. Mér finnst áhyggjuefni í heildina, ef maður dregur þetta saman, að brautin virðist vera í átt til vaxandi flokksræðis og vaxandi ríkisfjármögnunar stjórnmálastarfseminnar. Það eru kannski þær meginlínur sem eru áhyggjuefni. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það að ætla að afgreiða þetta mál sem lög á svo stuttum tíma og án þess að senda það út til umsagnar, sérstaklega í ljósi þess að það fjallar um okkur sjálf sem erum í stjórnmálaflokkunum og það er reynsla af því að menn eru ekki alltaf bestir dómendur í eigin málum.



[16:57]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er ekki andsvar af fjandsamlegu tagi. Ég hef hlustað á síðari hluta ræðu þingmannsins og hann hefur sagt hér margt merkilegt sem ég vek athygli þingmanna á, og einkum framsögumanns nefndarálitsins, hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, að þörf er á að svara, t.d. þessu um sektarákvæðið sem virðist ekki vera nægilega hugsað, a.m.k. koma engin svör fram í nefndarálitinu við því. Það er nú eina erindi mitt í stólinn að taka undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það er erfitt að taka afstöðu til frumvarpsins að ósvöruðum spurningum af þessu tagi.



[16:58]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri hægt að setja á langt mál um þetta mikla mál en hér er um að ræða tímamótamál. Hér er um að ræða tímamótasátt í gömlu baráttumáli margra stjórnmálamanna um að opna bókhald og fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Hér mætast tvær leiðir sem lagðar voru til í upphafi í starfi nefndarinnar, sem var annars vegar baráttumál og þingmál hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að opna bókhald flokkanna og hins vegar tillaga frá Sjálfstæðisflokki sem Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafði kynnt hér um að banna framlög til flokkanna frá fyrirtækjum.

Niðurstaðan er að sjálfsögðu málamiðlun. Þetta er tilraun til að koma böndum á starfsemi stjórnmálaflokkanna, þetta er tilraun til að treysta starfsumhverfi stjórnmálaflokkanna og þar með grundvöll lýðræðisins í landinu þar sem stjórnmálaflokkarnir gegna algjöru lykilhlutverki í því lýðræðisfyrirkomulagi sem hefur þróast á Íslandi, þetta er tilraun til að eyða tortryggni, vafa og grunsemdum um óeðlileg ítök fjársterkra aðila í starfi flokkanna. Að sjálfsögðu náðist enginn fullnaðarsigur í þessu máli heldur er þetta stórt skref fram á við. Þetta er merkilegt mál, þetta er söguleg sáttargjörð stjórnmálaflokkanna á Íslandi til að koma böndum á starfsemi þeirra til að stórbæta lýðræðislegt starfsumhverfi á Íslandi, ég er sannfærður um það.

Ég sat í nefndinni og skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Örugglega hafa allir þingmenn hérna einhvern fyrirvara við eitthvert atriði í þessu stóra og umfangsmikla máli, hvort sem það er um hámarkið sem einstaklingar og flokkar mega taka við frá fyrirtækjum, lögaðilum og einstaklingum sem er frekar lágt eða eitthvað annað. Talað er um 300 þús. kr. þak á framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, þeir mega ekki taka við hærri framlögum frá lögaðilum en sem nemur 300 þús. kr. á ári, þannig að flokkurinn allur samanlagt má þiggja upphæð að þessu marki, 300 þús. kr. Þetta þykir mér lágt, ég skrifaði undir með fyrirvara um það, en málið í heild sinni er tímamótasátt. Auðvitað orkar margt tvímælis, það er að sumu leyti verið að skrúfa fyrir framlög frá atvinnulífinu og fyrirtækjum til flokkanna, þó er því haldið opnu áfram. Það var rætt í nefndinni um þá þróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum, t.d. þá miklu starfsemi sem hvers konar hagsmunahópar í kringum flokkana viðhafa. Þar er talið að einungis um 10% af fjármagninu sem notað er í stjórnmálastarf fari í gengum flokkana tvo, demókrataflokkinn og repúblikanaflokkinn. 90% fara í gegnum aðra starfsemi, svokallað „soft money“, alls konar hagsmunasamtök og hópa sem halda úti starfsemi utan um einhvern málstað o.s.frv. sem er að sjálfsögðu fyrst og fremst til þess að hjálpa einhverjum málstað og tilteknum flokkum. En í heild sinni er málið sigur fyrir lýðræðið í landinu. Það má gagnrýna þakið á framlögum, það má að sjálfsögðu gagnrýna framlögin frá hinu opinbera. Ég vil í leiðinni minna á mikilvægi þess að tryggja það að hluti fjármagnsins fari þangað sem hann átti að fara, til starfsemi flokkanna úti á landi með tilkomu hinna gríðarlega stóru nýju kjördæma sem ná yfir, eins og Suðurkjördæmið sem ég er í, nánast hálft Ísland landfræðilega. Það er mikilvægt að það gangi eftir eins og um var samið í upphafi þegar kjördæmaskipanin var tekin upp og ákveðið var að fara þá leið.

Hér er um að ræða öfluga tilraun sem verður vonandi endurskoðuð strax eftir næstu kosningar, t.d. hvernig lögin gáfust í kosningunum. Það er margt sem mun reyna á þarna eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti mjög réttilega á. Það er mjög auðvelt að hafa fyrirvara um mjög mörg einstök atriði. Við þurfum að sjálfsögðu að meta gildi og inntak laganna eftir kosningarnar í vor af því að þarna mun reyna mjög á mörg atriði eins og það sem lýtur að tengdum aðilum, lögaðilum, sem mega ekki samtals leggja til flokkanna nema þessa tilteknu upphæð o.s.frv. Það er að sjálfsögðu auðvelt að fara í kringum einhver atriði en það verður að reyna á löggjöfina af því að löggjöfin sem slík er sögulegur sigur. Þetta er tímamótasátt allra stjórnmálaflokkanna á Íslandi til að koma böndum á starfsemina, setja lög um opnar fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Að því leytinu er síðasta vígið fallið, eina landið í Vestur-Evrópu þar sem ekki var slík löggjöf. Hún er fyrir löngu komin í allri Skandinavíu og Vestur-Evrópu og þess vegna fagna ég þessu máli, þess vegna skrifa ég undir álitið og styð málið af því að þetta er stórt skref í átt að því að efla lýðræðið í landinu og við komum þarna böndum á mjög mikilsverða þætti stjórnmálastarfsins.



[17:04]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég á sæti í allsherjarnefnd sem áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, eins og fram kemur á nefndaráliti þessu og er samþykk því. Ég vil einungis fara örfáum orðum um þessa niðurstöðu.

Ég tel þetta nokkuð sögulega stund, að við höfum mál fyrir framan okkur sem er þess eðlis að stjórnmálaflokkarnir hafa náð ákveðinni niðurstöðu eftir tæplega eins og hálfs árs vinnu þverpólitískrar nefndar sem um þessi mál hefur fjallað og greint er frá í greinargerð með frumvarpinu.

Hins vegar vil ég taka undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hér hefði verið fullt tilefni til að taka lengri tíma í umræður um málið. Það hefði að sjálfsögðu þjónað lýðræðinu betur að senda málið út til umsagna og skoða á því allar hliðar.

Ég vil taka skýrt fram að það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í þeim efnum. Við höfum gagnrýnt að hvert málið á fætur öðru skuli tekið í gegn á síðustu dögum fyrir jólahlé með allt of miklum hraði. Þetta er eitt af þeim málum.

Ég vil taka undir það sem stendur í greinargerð með þessu frumvarpi. Það er mikilvægt að umræðan um stjórnmálaflokkana og fjármál þeirra sé opin og menn geri sér grein fyrir því að þeir eru hornsteinn lýðræðis í þessu landi. Forsenda heilbrigðrar og eðlilegrar þjóðmálaumræðu og sá rammi sem löggjafinn markar þessari starfsemi þarf að treysta möguleika stjórnmálaflokkanna til að sinna því hlutverki, samhliða því að girða eins og kostur er fyrir mögulega misnotkun á aðstöðu eða spillingu. Þetta er auðvitað kjarni málsins og vakir undir í þessu máli. Við megum ekki missa sjónir á því.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson talaði áðan fyrir hönd Samfylkingarinnar og minntist á frumkvæði Samfylkingarinnar í þessu máli. Í því sambandi nefndi hann hlut hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég ætla sannarlega ekki að draga úr hennar hlut í umræðu um fjárreiður stjórnmálaflokkanna en hitt vil ég þó benda á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi notast við stærstan hluta þeirra reglna sem hér eru settar fram.

Við höfum frá upphafi haft opið bókhald. Við höfum haft löggilta endurskoðendur sem endurskoða bókhald okkar. Við höfum sett reglur um framlög lögaðila til stjórnmálaflokksins og höfum upplýsingar um fjárreiður þingmanna á heimasíðu flokksins.

Ég tel að auðvitað hefðu allir flokkar getað gengið á undan með góðu fordæmi og sett sér þær reglur sem hér eru lögfestar. Ég er stolt af því að vera í stjórnmálaflokki sem gerði það. En ég er líka ánægð með að náðst hafi þverpólitísk sátt eftir mikla vinnu þeirrar nefndar sem hér hefur starfað og að nú skulum við horfa fram á bætta tíma í þessum efnum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór nokkrum orðum um möguleika flokkanna á útgjöldum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það kom fram í allsherjarnefnd, þar sem við fengum nokkra gesti, að mikilvægt sé fyrir flokkana að meta útgjaldaþörf sína. Bara það eitt að flokkarnir fari að meta útgjaldaþörf sína gæti lækkað útgjöld þeirra talsvert. Það eru orð að sönnu. Í því sambandi langar mig að nefna hér hugmynd sem varðar útvarps- eða sjónvarpsauglýsingar, auglýsingar á ljósvakanum. Svanur Kristjánsson, einn af gestum nefndarinnar, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, stakk því að okkur að hugsanlegt væri að setja reglur um útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar þannig að innifalið væri í leyfum þeirra ákveðið bann við að stjórnmálaflokkar auglýsi sig á öldum ljósvakans, t.d. viku fyrir kosningar eða með hvaða hætti öðrum sem við vildum hafa það. Þetta er til marks um að ákveðin atriði ættu að koma til skoðunar og þau mætti ræða frekar. Það væri ákjósanlegra að við hefðum betri tíma til að sinna málinu.

Undir hitt vil ég líka taka, sem hér hefur verið sagt, að samkomulag er um að setja þetta mál með hraði í gegn. Þá skulum við líka hlíta því og vera opin fyrir því að málið verði tekið upp á nýjan leik. Enda gefur nefndin yfirlýsingu um það í nefndarálitinu, þótt ekki væri nema bara til að skoða ákvæðin um forsetann og forsetaframbjóðendur. Það er mál sem þarf að skoða betur og setja reglur um á næsta ári.

Það er ekki auðvelt að finna hinar fullkomnu reglur. En hluti af því sem á eftir að vinna er reglugerðin sem setja þarf á grundvelli þessara laga. Ég tel mikilvægt að nefndin sem vann þessar reglur eða aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkanna komi að því með Ríkisendurskoðun að semja þær reglur. Um þær reglur þarf að ríkja jafnmikil sátt og um lagaákvæðin í frumvarpinu.

Að lokum, virðulegi forseti, bendi ég á að við sem á þingi sitjum þurfum að vera meðvituð um það að á síðustu árum hefur gætt vaxandi vantrausts í garð stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Við horfum upp á skoðanakannanir á hverju einasta ári sem sýna að innan við 50% landsmanna hafa mikið traust á þingmönnum, á stjórnmálamönnum og á stjórnmálaflokkunum. Traustið á Alþingi er því miður lágt.

Þetta eru vísbendingar sem við verðum að taka til skoðunar. Ég tel að þær reglur sem settar eru fram í þessu lagafrumvarpi eigi að vera til þess fallnar að auka traust almennings á löggjafarsamkundunni, á þingmönnum og á stjórnmálaflokkum almennt. Þess vegna er ég hlynnt því að þessar reglur séu settar.



[17:10]
Frsm. allshn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil biðjast velvirðingar á því að hafa gleymt að taka fram í framsöguræðu minni áðan að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi allsherjarnefndar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti nefndarinnar.

Ég vil nota tækifærið og þakka henni og öðrum nefndarmönnum í allsherjarnefnd kærlega fyrir samstarfið. Nefndin hafði ekki langan tíma til að fjalla um frumvarpið en gerði það eftir bestu getu. Nefndin fékk til sín fjölda gesta og velti fyrir sér ýmsum álitaefnum. En eins og kom fram í framsöguræðu minni var ekki talin ástæða eða efni til að hrófla mikið við málinu, sem byggt var á niðurstöðum stjórnskipaðrar nefndar.



[17:12]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikið fagnaðarefni að nú skuli brotið í blað í stjórnmálasögunni, að stjórnmálaflokkarnir hafi loks komið sér saman um löggjöf um fjármögnun stjórnmálastarfsemi og kosningabaráttu. Því ber að fagna þótt okkur hafi tekið langan tíma að komast í hóp siðmenntaðra þjóða með löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka.

Það gat ekki gengið lengur að Ísland væri eitt af þremur ríkjum í Vestur-Evrópu, ásamt Sviss og Lúxemborg, ef ég man rétt, sem ekki hefði sett lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Það var skammarlegt að ítrekað voru hunsuð tilmæli um þetta á alþjóðavettvangi, t.d. innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar. En í nefnd stofnunarinnar sem fjallar um spillingu hafði Ísland iðulega sætt ákúrum fyrir að setja ekki löggjöf um að opna fjármál stjórnmálaflokkanna. Það er því mikið fagnaðarefni að Ísland sé nú á leiðinni inn í nútímann í þessu efni ásamt öðrum þjóðum.

Við höfum lengi vitað að það að löggjöf hafi vantað um fjármál flokkanna hefur skapað, með réttu eða röngu, ákveðna tortryggni um fjármál flokkanna. Þess vegna er mjög ánægjulegt að náðst hafi bærileg samstaða milli allra flokka um að setja slík lög.

Ég hef frá árinu 1995 lagt fram frumvörp um þessi efni. Meginefnið í því frumvarpi sem við nú ræðum og á að fara að lögfesta er að verulegu leyti svipaðs eðlis og þau þingmál sem ég lagði fram um sama efni, þ.e. að birta opinberlega samræmda ársreikninga og nafngreina styrktaraðila sem gefa fjárframlög yfir tilteknum mörkum og að stjórnmálaflokkarnir birtu ársreikninga sína opinberlega.

Ég er því bærilega sátt við frumvarpið sem hér liggur fyrir þótt ég hefði viljað sjá ýmis atriði með öðrum hætti. Ég legg áherslu á að ef það koma fram agnúar á þessu þá vindi menn sér í að leiðrétta þá en bíði ekki þess að farið verði að ákvæði um að árið 2010 verði skipuð nefnd til að fara yfir lögin og framkvæmd þeirra.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka langan tíma í að ræða þetta mál af því að menn hafa komið sér saman um að ræða það ekki lengi. En það er áhyggjuefni að ekki eigi að vera gegnsæi í fjárframlögum sem koma frá einstaklingum og þau birt opinberlega líkt og hjá lögaðilum. Það gæti aukið líkurnar á áframhaldandi neðanjarðarstarfsemi við fjármögnun stjórnmálaflokka í gegnum fjárframlög frá fjársterkum aðilum. Ég hefði viljað sjá að fjárframlög upp á a.m.k. yfir 100 þús. kr. frá einstaklingum væri gert skylt að birta opinberlega.

Einnig hefði verið full ástæða til að setja fjáraustri flokkanna í kosningabaráttunni skorður, t.d. vegna auglýsinga. Auk þess finnst mér heimild frambjóðenda til þess að eyða í prófkjörsbaráttu fullrýmileg. Mér finnst ansi rýmilegt að setja þar þak og miða við 7,5 millj. kr. Ég hefði viljað sjá þessa þætti með öðrum hætti.

Ég vil líka nefna að fyrir nokkrum árum, ætli það hafi ekki verið árið 1993 eða jafnvel fyrr, ég man ekki nákvæmlega árið, var samþykkt á Alþingi að framlög lögaðila til stjórnmálaflokkanna yrðu frádráttarbær frá skatti. Forsenda margra þingmanna fyrir samþykkt þeirrar breytingar var sú að í kjölfarið yrði sett löggjöf um fjármál flokkanna. En samt eru liðin öll þessi ár, sennilega 15 ár, og við erum fyrst núna farin að sjá til lands að því er varðar löggjöf um fjármál flokkanna. Ég hefði líka viljað sjá gegnsæi í því hve mikill frádráttur er í skattgreiðslum vegna framlaga lögaðila til stjórnmálaflokka, að þessum framlögum væri haldið sérgreindum, t.d. hjá ríkisskattstjóra þannig að hægt yrði að kalla fram hverju sinni, t.d. á þingi, hve mikið hefði komið til frádráttar vegna framlaga til stjórnmálaflokkanna. Það væri í anda þess gagnsæis sem við viljum sjá í stjórnsýslunni.

Mér finnst miður að ekki hefði verið tekið á því í leiðinni að hægt væri að fylgjast með því á Alþingi og við veittum aðhald með því að halda til haga þeim niðurstöðum, um hve mikið væri frádráttarbært vegna framlaga lögaðila. En því miður er ekkert tekið á því í þessu frumvarpi, ekki í greinargerð og ekki í nefndaráliti meiri hlutans. Það þykir mér slæmt. Við höfum kallað eftir því að fá þessar upplýsingar á þingi. Ég fékk þau svör að það þjónaði ekki skattalegum hagsmunum hjá ríkisskattstjóra að aðgreina þetta, t.d. frá framlögum sem eru frádráttarbær til líknarfélaga o.s.frv. En ef vilji væri fyrir hendi til að fá þetta fram, t.d. fyrir atbeina þingsins eða fjármálaráðuneytisins, þá væri hægt að aðgreina slíkt. Ég held að það væri mikill kostur og það mundi auðvelda allt eftirlit með framkvæmd þessara laga, ef þessi frádráttarbærni væri uppi á borðinu.

Þetta eru helstu agnúarnir sem ég sé á þessu máli. Ég held að með því að birta ekki opinberlega framlög frá einstaklingum með sama hætti eins og frá lögaðilum séu þarna spillingarsmugur sem hægt væri að nýta. Ég hefði líka viljað sjá að ákvæði um tengda aðila væri skýrara og þrengra en gert er ráð í frumvarpinu, í e-lið 2. gr. Ég held að þessi skilgreining sé of víðtæk og tel að þau skilyrði sem sett eru fram varðandi tengda aðila hefði átt að tengja þótt vissulega sé til bóta að sjá viðleitnina sem þó er gerð í frumvarpinu varðandi þetta atriði.

Ég held líka að við hefðum átt að fara fyrr í endurskoðunina en árið 2010. Ég held að það hefði verið gagnlegt að hafa hana eftir um tvö ár eða svo, að þá yrði farið út í að skipa nefnd til þess að fara yfir agnúa á málinu. Mér finnst þetta of langur tími, þ.e. fram til ársins 2010.

Virðulegi forseti. Þótt ég hafi lýst ákveðnum agnúum á frumvarpinu og bent á leiðir sem ég hefði viljað sjá í frumvarpinu þá mun ég að sjálfsögðu styðja frumvarpið og einstök ákvæði þess. En ég mun fylgjast grannt með því, eins og aðrir þingmenn, hvort ástæða sé til þess að breyta löggjöfinni og herða á ýmsum ákvæðum hennar.

Það mikilvægasta er þó, virðulegi forseti, að við fáum löggjöf um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Það er mikilvægast af öllu og er vert að fagna því og segja: loksins, loksins. Alþingi hefur loksins farið í það þarfa verk að setja lög um fjármál stjórnmálaflokkanna þótt það hefði átt að gerast fyrir mörgum áratugum, virðulegi forseti.



[17:20]Útbýting: