133. löggjafarþing — 78. fundur.
Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 644. mál (eftirlitsheimildir). — Þskj. 962.

[18:11]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 962, 644. mál, en þar er um að ræða breytingu á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Breytingar þessar lúta að því að styrkja opinbert eftirlit með því að sjómenn séu ekki látnir taka þátt í kaupum útgerða á aflaheimildum. Með lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, er kveðið á um að óheimilt sé við hlutaskipti að draga frá heildarverðmæti afla, kostnað við kaup á veiðiheimildum. Þetta ákvæði er einnig að finna í kjarasamningum Samtaka sjómanna og útvegsmanna og þar er einnig mælt fyrir um að útgerð og áhöfn skuli gera sín í milli samning um fiskverð þegar afli er seldur til aðila sem telst skyldur útgerðinni en með því er átt við að útgerð og fiskvinnsla séu í ráðandi eigu sömu aðila.

Í lögum nr. 13/1998 er síðan kveðið á um að útgerð skuli senda Verðlagsstofu skiptaverðs án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar. Verðlagsstofa skiptaverðs starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998 og er hlutverk hennar, eins og þar segir, að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að rétti og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna, eins og það er orðað í lögunum.

Mikilvægur liður í því eftirliti er að fylgjast með því að útgerðir láti sjómenn ekki taka þátt í kvótakaupum. Til að sinna hlutverki sínu eru Verðlagsstofu fengnar víðtækar heimildir í lögum nr. 13/1998, til að krefjast upplýsinga og gagna frá útgerðum, sjómönnum og ýmsum öðrum aðilum og stofnunum. Þá er í 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, kveðið á um að Fiskistofa skuli ekki staðfesta flutning aflamarks til fiskiskips nema Verðlagsstofa skiptaverðs hafi áður staðfest að fyrir liggi samningur hlutaðeigandi útgerðar og áhafnar um fiskverð sem uppfyllir kröfur sem Verðlagsstofa gerir samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998. Tilgangur þessa ákvæðis er að koma í veg fyrir að útgerð geti keypt aflamark og flutt það til skips og látið skipverja taka þátt í kostnaði af þeim kaupum með því að miða uppgjör við lægra fiskverð en heimilt er samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998. Þessi krafa um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð veitir mikilvægt aðhald þar sem hlutaðeigandi skipverjar geti alltaf krafist þess að gert sé upp við þá samkvæmt þeim samningi.

Samtök sjómanna og útvegsmanna hafa þó bent á að nokkur brögð séu að því að einstakar útgerðir geri samninga um fiskverð og áhafnir og sendi þá til Verðlagsstofu skiptaverðs til að uppfylla framangreind skilyrði til að geta flutt aflamark til skipa sinna en geri síðan upp við áhafnir á lægra verði en samningarnir mæla fyrir um. Fulltrúar umræddra samtaka segja að reynslan sýni að hlutaðeigandi sjómenn geri alls ekki alltaf þá kröfu að gert sé upp við þá samkvæmt fiskverðssamningum og því komist þessar útgerðir upp með að láta þá taka þátt í kostnaði af kvótakaupum. Samtök útvegsmanna og sjómanna telja nauðsynlegt að Verðlagsstofa skiptaverðs leggi meiri áherslu á rannsókn og eftirfylgni slíkra mála og að stofan fái til þess virkari heimildir og úrræði en hún hefur nú.

Með þessu lagafrumvarpi er brugðist við fyrrnefndum ábendingum. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum mun Verðlagsstofa skiptaverðs leggja aukna áherslu á að fylgjast með því að útgerðir fiskiskipa geri upp við áhafnir í samræmi við fiskverðssamninga sem þær hafa gert og sent Verðlagsstofu. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að Verðlagsstofa skuli ekki staðfesta fiskverðssamning gagnvart Fiskistofu ef athugun hennar hefur leitt í ljós að ekki hafi verið gert upp við áhöfn í samræmi við samning nema uppgjörið hafi verið leiðrétt. En slík staðfesting Verðlagsstofu er, eins og fyrr sagði, forsenda þess að aflamark verði flutt til fiskiskips.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hið sama gildi ef útgerð hefur ekki látið Verðlagsstofu í té upplýsingar eða gögn sem hún hefur krafist til að hafa eftirlit með að réttilega sé gert upp við skipverja. Með umræddum ákvæðum fær Verðlagsstofa mun virkari úrræði en hún hefur nú til að knýja útgerðir til að láta henni í té upplýsingar og gögn sem eru nauðsynleg til að ganga úr skugga um að gert hafi verið upp við áhafnir í samræmi við lög og samninga og ef tilefni er til og þörf krefur til að knýja á um leiðréttingu uppgjörs til samræmis við gilda fiskverðssamninga.

Hæstv. forseti. Tilgangur þessa lagafrumvarps er, eins og ég hef ítrekað áður sagt, fyrst og fremst sá að bæta opinbert eftirlit með því að farið sé að lögum og samningum sem banna að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum útgerða. Slík háttsemi er skýlaust brot gagnvart þeim sjómönnum sem í hlut eiga og er því ólíðandi. En hún er einnig óþolandi fyrir alla þá heiðarlegu útgerðarmenn sem virða lög og gerða samninga í hvívetna. Þá er ólögtæk þátttaka sjómanna í kvótakaupum til þess fallin að stuðla að hærra verði á aflaheimildum og geta víst flestir verið sammála um að þau áhrif eru afar óæskileg. Ég tel því mikilvægt að frumvarp þetta fái framgang og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjávarútvegsnefnd.



[18:16]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hert á heimildum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur til að ganga úr skugga um að gert sé upp við sjómenn samkvæmt samningum um fiskverð sem áður hafa verið kynntir Verðlagsstofunni og er það hið besta mál. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji mikil brögð að því að svindlað sé með þeim hætti að lagðir séu fram samningar um fiskverð sem ekki er gert upp eftir. Fyrst brugðist er við og lögum breytt, eins og hér er verið að gera, verður maður að álykta sem svo að það hljóti að vera einhver brögð að þessu eða a.m.k. að telja að þessu talsverð brögð.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um varðar 3. gr. Í 3. gr. er gert ráð fyrir að breyta lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í athugasemdum um 3. gr. segir að kveðið sé á um að áður en Fiskistofa staðfesti flutning aflamarks skuli fást staðfesting frá Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.

„Í samræmi við tilgang þessa ákvæðis, sem er að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kostnaði af kaupum á veiðiheimildum, hefur ákvæðinu verið framfylgt þannig að Fiskistofa hefur ekki staðfest flutning aflamarks til fiskiskips nema að fenginni umræddri staðfestingu Verðlagsstofu. Hér er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá framkvæmd.“

Ég sé ekki betur, þegar ég les í gegnum lögin eins og þau eru og breytingar á þessari grein, en að í sjálfu sér sé ekki verið að breyta neinu. Í lögunum segir að það megi ekki staðfesta neitt nema fyrir liggi staðfesting frá Verðlagsstofu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hverju er verið að breyta og hvernig er orðalag ákvæðisins fært til samræmis við einhverja framkvæmd sem er í gangi? Þetta er eins, bæði í breytingunni og lögunum eins og þau eru.



[18:18]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði hvort ég teldi mikil brögð að því að ekki væri farið eftir lögum um uppgjör, varðandi uppgjör sjómanna og útvegsmanna. Ég get í sjálfu sér ekkert fullyrt um hvort mikil brögð séu að þessu eða hvort um er að ræða fáein undantekningartilvik. Ég hefði viljað að það væru frekar fáein undantekningartilvik. Ég hef a.m.k. viljað trúa því að í flestum tilvikum sé reynt að fara eftir þessum lögum.

Það hefur hins vegar borið á því og verið kvartað undan því, og þeim umkvörtunum m.a. komið til okkar í sjávarútvegsráðuneytinu, að það sé ekki að öllu leyti farið eftir þessum lögum. Ég vek líka athygli á því að í þinginu hafa þessi mál allnokkrum sinnum komið til umræðu. Menn hafa m.a. vakið athygli á því að ein ástæðan fyrir þeirri hækkun sem orðið hefur á leigukvótum kunni að vera að tilteknir aðilar hafi stuðlað að því að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum, sem hafi síðan gert það að verkum að þeir hafi getað spennt upp kvótaverðið. Ég taldi ástæðu til að fara ofan í þessi mál sérstaklega, m.a. með þátttöku samningsaðila sjómanna og útgerðarmanna og útvegsmanna. Niðurstaðan var sú að nauðsynlegt væri að herða á reglunum til að tryggja það eftir föngum að komið yrði í veg fyrir að menn kæmu sér fram hjá samningum og fram hjá lögum.

Stóra breytingin þarna felst í að hnykkt er á aukinni eftirlitsskyldu Verðlagsstofu skiptaverðs. Ég er sammála hv. þingmanni um að Verðlagsstofan hafði heilmikil tæki en þarna er verið að árétta það og undirstrika að stofunni sé ætlað þetta hlutverk, að fara ofan í þessi mál. Það er stóra breytingin. Ef sú athugun leiðir í ljós að ekki sé allt með felldu þá hefur hún möguleika á að koma í veg fyrir þennan tilflutning aflaheimildanna til þess sem leigir til sín. Þar með held ég að hægt verði að setja þrýsting á að menn fari að öllum lögum og samningum.



[18:21]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en finnst þó vanta upp á svörin varðandi 3. gr. Lögin kveða á um að Fiskistofa staðfesti flutning ef hún fái staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur. Þannig eru lögin í dag. Í athugasemdunum um 3. gr. segir að Fiskistofa hafi ekki staðfest flutning aflamarks til fiskiskipa nema að fenginni umræddri staðfestingu. Þannig hefur Fiskistofa unnið og samkvæmt lögum. Ég óskaði eftir því við hæstv. ráðherra að hann útskýrði fyrir mér setninguna sem kemur þar kemur á eftir: „Hér er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá framkvæmd.“

Þetta hefur verið framkvæmt nákvæmlega eins og lögin eru og í þessu frumvarpi er engu breytt. Hvernig stendur á því að svona athugasemdir koma með frumvarpinu? Það er nánast, frú forseti, út í hött að setja málið fram með þessum hætti.



[18:22]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður þyrfti að lesa það sem segir í framhaldinu. Þar segir í athugasemdunum:

„Þá er lagt til að við málsgreinina verði bætt ákvæðum þess efnis að leiði athugun Verðlagsstofu skiptaverðs í ljós að útgerð skips hafi ekki gert upp við skipverja samkvæmt samningum um fiskverð skuli stofan ekki staðfesta fiskverðssamning gagnvart Fiskistofu …“ — o.s.frv.

Þarna er verið að árétta að Verðlagsstofu verði fært þetta vald og það sett í lög að Verðlagsstofa skuli gera sérstakar athuganir á því hvort farið sé eftir þeim fiskverðssamningum sem hafa verið kynntar Verðlagsstofunni. Þar liggur hundurinn grafinn. Menn hafa bent á að þar kunni að hafa verið einhverjir annmarkar á, að menn hafi ekki kannað nægilega hvort þeir fiskverðssamningar sem var framvísað og lagðir voru til grundvallar hafi verið virtir. Það er verið að styrkja þetta ákvæði varðandi Verðlagsstofuna. Það hefur verið álitamál hversu langt Verðlagsstofan mætti ganga í þessu eftirliti. Þarna eru tekin af öll tvímæli um það og við færum henni aukið vald í samræmi við óskir sjómanna og útvegsmanna.



[18:23]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Með þessu frumvarpi skilst mér að tryggja eigi að sjómenn eigi ekki að taka þátt í leigu aflaheimilda. Ég held að það sé ekki spurning um hvort slíkt skerði kjör sjómanna. Ef menn líta á þær stærðir sem um er rætt þá eru þetta 10 milljarðar kr. á ári og auðvitað tekið af því sem kemur til skipta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta snerti að einhverju leyti þá sjómenn sem eru án kjarasamninga, þ.e. sjómenn á bátum sem eru undir 15 tonn. Ég get ekki séð að það skipti nokkru máli fyrir þá hvort þetta frumvarp gangi í gegn eða ekki þar sem þar eru engir kjarasamningar og því engar reglur um skiptaprósentu.



[18:24]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta frumvarp snertir ekki þau mál sem snúa að minni bátum. Það er rétt. Þeir eru án kjarasamninga. Á Alþingi hafa menn hvatt til þess, bæði ég, hv. þingmaður og aðrir, að eðlilegt væri að hafa þarna kjarasamninga í gildi. Það er á vissan hátt forsenda fyrir því að hægt sé að taka á þessum málum að kjarasamningar séu í gildi.

Á sínum tíma þegar lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs voru sett voru þau sett miðað við kjarasamninga útvegsmanna og sjómannasamtakanna. Þau tóku til þeirra báta þar sem kjarasamningar eru í gildi. Reyndar háttar öðruvísi til um þessa báta en ég tel hins vegar ekki eðlilegt af hálfu Alþingis að hlutast til um þá kjarasamninga að öðru leyti en því að við getum haft á því skoðun að gera eigi slíka samninga. En ég tel ekki að við eigum að ákveða það með lögum.



[18:25]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hve hátt hlutfall af leigðum aflaheimildum umræddir bátar leigja. Okkur greinir á að því leyti að Alþingi eigi ekki að hafa afskipti af þessu. Ég vil minna á að hér hefur m.a. verið rætt um réttleysi blaðburðarbarna áður. Í umræðunni um blaðburðarbörn var fundið að því að þau væru algerlega án kjarasamninga. En það virðist ekki koma hæstv. ráðherra við að sjómenn séu án kjarasamninga. Mér finnst það ekki minna mál en kjör blaðburðarbarna að sjómenn á minni bátunum séu án kjarasamninga. Hér urðu umræður á þingi og m.a. afskipti hæstv. félagsmálaráðherra af þeim málum á sínum tíma, að blaðburðarbörn væru án kjarasamnings.

Hér kemur fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra að það sé algert aukaatriði að sjómenn á minni bátum séu án samninga. Ég get ekki verið sammála hæstv. ráðherra um það.



[18:27]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef það ekki á hraðbergi hve hátt hlutfall leiguviðskipta hefur gengið í gegnum þá krókaaflamarksbáta sem hv. þingmaður vísar til. Ég hef þær tölur ekki handbærar en menn geta aflað sér upplýsinga um það.

Það er alveg rétt að það hlutfall hefur verið að aukast, einfaldlega vegna þess að við tókum um það pólitíska ákvörðun að færa fiskveiðiréttinn í auknum mæli til smábáta. (SigurjÞ: Nei.) Við vildum koma til móts við þarfir byggðanna.

Ég tel hins vegar, virðulegi forseti, ekki að þetta sé eitthvert aukaatriði. Það hef ég aldrei sagt. Það sem ég hef einfaldlega sagt er, sem ég hélt að væri almenn skoðun í þessu þjóðfélagi en hv. þingmaður hefur nú staðfest að hann hefur aðra skoðun, að hér ætti að vera ríkjandi frjáls samningsréttur og það væri hlutverk útvegsmannanna og sjómannanna, í þessu tilviki á smábátunum, að reyna að ná samningum. Ég hef ekki talið tilefni til að Alþingi mundi ákveða það með lögum en það getur vel verið að aðrir hafi aðra skoðun. Hv. þingmaður telur t.d. að það eigi að skipa þessum samningamálum með lögum og Alþingi eigi að hafa beinan atbeina að því. Hann segir það núna og hann hefur sagt það áður. Ég er einfaldlega ósammála honum. Ég geri ráð fyrir að það séu flestir hér inni.



[18:28]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mínar spurningar eru hliðstæðar þeim sem áður hafa komið fram, sérstaklega frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni varðandi þær lagagreinar sem nú gilda um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Ef við lítum á 3. gr. þá skal Verðlagsstofa skiptaverðs afla ítarlegra gagna um fiskverð o.s.frv. Ef við lítum á 4. gr. segir að til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu beri Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr gögnum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllu slíku. Í 5. gr. segir að Verðlagsstofa skiptaverðs geti krafið sjómenn og útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila fiskmarkaða og umboðsmenn þeirra og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Um þetta gilda mjög ítarleg lagaákvæði.

Hér hljóta menn meira eða minna að hafa verið lögbrjótar og komist upp með það, enda er í greinargerð í athugasemdum með frumvarpinu látið að því liggja. Mér finnst athyglisvert að sjá þennan texta í frumvarpinu til laga þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð og hefur Verðlagsstofa ekki haft nægilega virk úrræði til að bregðast við þegar slík mál hafa komið upp.“

Það er bara lögbrot ef það hefur ekki verið gert. Þarna er ýjað að lögbrotum að mínu mati. Ég spyr ráðherra: Þarf að setja sérstök lög um að farið sé að lögum?



[18:30]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni sem hv. þingmaður, að aðilar hafi verið meira og minna lögbrjótar í þessu sambandi. Ég held að það sé ekki svo. Eins og ég sagði í fyrra andsvari held ég að almennt séð fari menn að lögum og reglum. Þessar ábendingar hafa hins vegar komið fram, m.a. héðan úr þingsal, úr þessum ræðustóli þar sem hvatt hefur verið til þess að reynt yrði að taka á þessu máli. Það sem verið er að gera hér er að reynt er að styrkja eftirlitshlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að heilmiklar heimildir hafa verið fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs til að koma að þessum málum. En þegar menn fóru að fara yfir þetta, m.a. þeir sem búa við þetta, þ.e. sjómenn og útvegsmenn, þá komust þeir að þeirri niðurstöðu, og það var niðurstaða okkar í ráðuneytinu, að ekki væru til staðar nægilega öflug ákvæði í lögunum sem tryggðu það að Verðlagsstofa skiptaverðs gæti haft það eftirlitshlutverk sem henni er ætlað, þ.e. að fylgjast með því að fiskverðssamningum sem hefði verið framvísað væri síðan fylgt. Það er þetta sem verið er að setja hér inn.

Ég er ekki að draga úr því að verðlagsstofulögin hafa á margan hátt virkað vel. Þau hafa gert það. Það hefur t.d. komið fram hjá forustumönnum sjómanna að þeir telja að brögðin að því að menn séu að taka ólöglega þátt í kvótakaupum hafi minnkað, slíkum tilvikum hafi fækkað. Það er vonandi svo og ég hef enga ástæðu til að draga það í efa.

En ef það er skoðun þeirra sem vinna í þessu frá degi til dags að þau tilvik kunni að vera sem ég er að vísa til, þá er það skylda okkar sem viljum að farið sé eftir lögunum að reyna að styrkja þær eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að fylgjast með þessu. Það er það sem verið er að gera. Það er ekki verið að setja þetta fram út í loftið. Það er verið að gera þetta að gefnu tilefni vegna þess að við teljum að það sé nauðsynlegt og það sé skylda Alþingis í þessu sambandi að búa til þau tæki svo að sú eftirlitsstofnun sem menn komu sér saman um á sínum tíma að ætti að fylgjast með þessu, hefði þau tæki og (Forseti hringir.) þau tól sem þyrftu og dygðu til að taka á máli þar sem verið er að beita hugsanlega rangindum.



[18:32]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég velti fyrir mér er hvort þessar heimildir í sjálfu sér hafi verið það sem skorti. Mér sýnist það bara vera framkvæmd laganna. Ég held að hæstv. ráðherra verði að upplýsa okkur um það hversu mikið af lögbrotum hefur verið hvað þetta varðar með vísan til setningarinnar sem ég vitnaði til áðan, með leyfi forseta:

„Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð …“

Verið er að staðhæfa í raun að þarna hafi verið framkvæmd lögbrot. En útgerðum er nú farið að fækka hér á landi þannig að ekki er um margar útgerðir að ræða sem hafa verið að iðka lögbrot. Ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra að styrkja þarf lagagrunninn til þess að menn brjóti ekki lög. En það hefur nú bara svo oft verið í framkvæmd þessara fiskveiðilaga að menn virðast (Forseti hringir.) hafa komist upp með ýmislegt sem hefur verið á kant við lög og svo virðist einnig hafa verið hér ef marka má texta (Forseti hringir.) frumvarpsins.



[18:33]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg endurtekið svar mitt við þeirri fyrirspurn hv. þingmanns sem flutt var áðan. Ég hef enga ástæðu að ætla annað en að menn séu almennt að fylgja þessum lögum í hvívetna.

En það hefur komið fram í þessum þingsal og í ábendingum og umkvörtunum aðila að það kunni að vera tilvik þar sem menn hafa gengið á svig við lögin. Þegar menn fóru að fara yfir það hvort Verðlagsstofa hefði allar þær heimildir sem hún þyrfti á að halda til að fylgjast með þessu var niðurstaðan sú, bæði meðal aðila vinnumarkaðarins og okkar í sjávarútvegsráðuneytinu, að það væri til bóta og það mundi styrkja framkvæmd laganna, styrkja anda þessara laga, að sett væru inn ákvæði sem gæfu Verðlagsstofu skiptaverðs öflugri tæki til að fara ofan í málin og skoða hvort farið væri eftir þeim fiskverðssamningum sem gerðir hefðu verið og framvísað væri í upphafi, því það er ekki þannig að menn séu að framvísa svona fiskverðssamningum á hverjum degi heldur er þeim framvísað í upphafi.

Ég held að menn hljóti að fagna þessu af því ég trúi því að andi laganna sé mjög í anda (Forseti hringir.) þess sem hv. þingmenn hafa talað um og talað margoft fyrir úr þessum ræðustóli.



[18:35]Útbýting:

[18:36]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum breytingu á tvennum lögum. Við erum með frumvarp til laga annars vegar um breytingu á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að allir þeir sem fylgst hafa með því hvernig leigumarkaður hefur þróast og hvernig þau viðskipti hafa gengið fyrir sig telja mjög mikilvægt að eftir þeim reglum sem um þann markað gilda verði farið þannig að algerlega verði komið í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum með öllum tiltækum ráðum. Það getur vel verið að það þurfi að styrkja heimildir Verðlagsstofu skiptaverðs frá því sem núverandi lög kveða á um. Þó, eins og áður hefur komið fram, eru heimildirnar ansi víðtækar í lögunum sem nú gilda og maður veltir því fyrir sér hvort þetta hafi kannski ekki að einhverju leyti frekar verið spurning um framkvæmd þeirra laga sem gilda en að þörf sé á lagabreytingu eins og hér er verið að leggja fram. Ég er þó fullkomlega tilbúinn til þess að taka þátt í því að styrkja orðalag greina. Ef einhver hefur verið að velkjast í vafa um hver tilgangur greinanna væri eða orðanna sem þar stæðu og telur að styrkja þurfi greinarnar er ég svo sem alveg tilbúinn til að taka þátt í því, því það misbýður réttlætiskennd held ég flestra sem fylgjast með ef talsvert er um það að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum á þeim bátum þar sem verið er að leigja aflaheimildir til að geta farið á sjó og fiskað.

Ég ætla að reyna að halda mig að mestu leyti við frumvarpið eins og það liggur fyrir þó auðvelt væri að fara út um víðan völl og ræða sjávarútvegsmálin vítt og breitt. Ég held að efni greinanna sem hér eru og þess frumvarps sem hér liggur fyrir sé í raun alveg nægjanlegt þó að maður haldi sig við það til að halda þá ræðu í þann tíma sem heimilt er samkvæmt þingsköpum.

Það er nú einu sinni þannig með kvótaleiguna að sjómenn hagnast ekki á því á nokkurn hátt ef verið er að fara í kringum lögin sem um hana gilda. Það eru heldur ekki útgerðarmenn þeirra báta sem eru að leigja til sín sem hagnast á því að fara í kringum lögin, ef það er gert, heldur mun þetta alltaf enda í kvótaleiguverðinu. Sá sem er að leigja frá sér nýtur þess því í raun í krónum og aurum ef á einhvern hátt á síðari stigum er farið í kringum lögin því leigumarkaður á aflaheimildum er seljendamarkaður og kaupendur ráða þar ansi litlu og verðið sem hægt er að borga fyrir heimildirnar er alltaf í þeim hæsta mögulega toppi sem um ræðir hverju sinni miðað við fiskverð. Ef verið er að svindla á einhvern hátt á því hvernig þetta er framkvæmt mun það einfaldlega skila sér í hærra leiguverði til þeirra sem leigja frá sér heimildir. Í raun má því segja að ef einhverjir svindla á þessu eru þeir eingöngu að gera það fyrir þá sem leigja frá sér kvóta. Þeir njóta ekki ávaxtanna af því svindli heldur eru eingöngu að taka þátt í því til að vera samkeppnisfærir í að borga þetta háa leiguverð sem nú gildir á markaðnum.

Í lögunum eins og þau standa í dag eru heimildir til þess að Verðlagsstofa skiptaverðs geti krafist upplýsinga frá útgerðum og öðrum en í lögin er verið að bæta núna að ekki eingöngu sé hægt að krefjast upplýsinga heldur líka gagna. Ég átta mig ekki alveg á muninum á þessu tvennu, hvort, eins og lögin hafa staðið hingað til, þeir sem eiga að leggja fram upplýsingar samkvæmt lögunum hafa á einhvern hátt getað þverskallast við því vegna þess að í lögunum hefði ekki staðið orðið gögn heldur eingöngu upplýsingar. Ef hæstv. ráðherra hefur einhver dæmi um það og ástæðuna fyrir því að verið er að bæta orðinu „gögn“ í lagatextann til viðbótar við upplýsingar væri gott að fá að heyra um það því maður áttar sig ekki alveg á því hvers vegna breytingin þarf að koma til.

Í 1. gr. er talað um að upplýsingar og gögn megi einungis nýta vegna úrskurðar í einstökum málum eða til að undirbúa ákvarðanir sem Verðlagsstofa skiptaverðs tekur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þ.e. heimildirnar sem verið er að tala um núna, að hún eigi að fylgjast með því að gert sé upp samkvæmt samningum. Ég hefði haldið þegar maður les í gegnum lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs að heimildirnar hefðu allar í raun legið fyrir vegna þess að í 6. gr. segir að Verðlagsstofa skiptaverðs skuli m.a. með úrtakskönnunum fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafna sé lagt til grundvallar raunverulegt söluverðmæti. Í orðunum hlýtur m.a. að felast að það megi gera eitthvað annað líka þannig að ekki eingöngu hafi verið heimild til úrtakskannana heldur sé líka heimilt að skoða einstök dæmi.

Í 6. gr. segir að telji Verðlagsstofa misræmi milli gagna og söluverðmætis afla og þess verðs sem uppgjör við áhöfn hefur miðast við og fram komnar skýringar ekki fullnægjandi skuli hún tilkynna það og fara með það fyrir úrskurðarnefnd. Í raun hefur því Verðlagsstofa skiptaverðs átt að fylgjast með því að ekki eingöngu væru lagðir fram samningar heldur líka að greitt væri samkvæmt þeim. Ég get ekki lesið 6. gr. öðruvísi.

Síðan komum við að 3. gr. í II. kafla. Þar er breyting á öðrum lögum, um stjórn fiskveiða. Ég var í stuttu andsvari áðan að reyna að óska eftir upplýsingum frá hæstv. ráðherra um það hvað þarna væri á ferðinni og fannst ég ekki fá nægilega skýr svör við því. Í lögunum í dag, í 15. gr. laga nr. 116/2006, stendur skýrum stöfum að áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum. Hann skal uppfylla kröfur Verðlagsstofu skiptaverðs sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Í 3. gr. eins og verið er að taka hana upp núna stendur þetta nákvæmlega eins. Það er engin breyting á þessum texta. Fiskistofa hefur því ekki getað staðfest flutning aflamarks til fiskiskips samkvæmt þeim lögum sem nú gilda fyrr en staðfesting Verðlagsstofu skiptaverðs hefur legið fyrir. Því átta ég mig ekki enn á því af hverju í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að verið sé að breyta lögunum til samræmis við einhverja framkvæmd sem verið hefði en hefði þó ekki haft lagastoð. Það er því spurning hvort þarna sé einhver hringur kominn upp sem einhver textahöfundur hefur flækt sér í eða hvort ég er að misskilja þetta á einhvern hátt, en þetta er nákvæmlega sami texti og er í lögunum.

Síðan er, eins og hæstv. ráðherra sagði, verið að bæta við heimildinni um það að leiði athugun Verðlagsstofu skiptaverðs í ljós að útgerð skips hafi ekki gert upp við skipverja í samræmi við samning um fiskverð skal stofan þó ekki veita staðfestingu sína nema úr því hafi verið bætt eða hlutaðeigandi útgerð hafi sett fullnægjandi tryggingu fyrir réttu uppgjöri.

Nú er ég eiginlega hættur að skilja aftur. Skipið má ekki fara á sjó og veiða fyrr en aflamark hefur verið flutt á það og ekki má flytja aflamark á það fyrr en Fiskistofa hefur fengið staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um það að samningur liggi fyrir. Ef samningur liggur fyrir þá veitir Verðlagsstofa skiptaverðs staðfestinguna ef samningurinn uppfyllir þau skilyrði sem lögin gera ráð fyrir og skipið fer á sjó og byrjar að veiða. Eftir á getur Verðlagsstofa skiptaverðs ekki komið og svipt skipið þeirri heimild sem Fiskistofa var búin að veita því á grundvelli samningsins. Það eina sem nýja ákvæðið gerir er að í framhaldinu ef flutt er aftur eða á nýjan hátt aflamark á sama skip og það er sama áhöfn og allt slíkt, þá gæti Verðlagsstofa neitað að staðfesta flutninginn á aflamarkinu yfir á skipið. En ég get ekki séð hvernig hún ætlaði að gera það eftir á varðandi þann samning sem gerður var og staðfestur var og þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti útskýrt það fyrir mér.

Einnig leikur mér forvitni á að vita eftir að hafa lesið í gegnum lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs eins og þau eru núna og eins eftir að hafa lesið í gegnum 15. gr. í lögunum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, hvernig heimildirnar eru meiri núna en þær voru í lögunum sem ég var að vitna til því textinn í þeim lögum, bæði lögunum nr. 13/1998, um Verðlagsstofuna og síðan 15. gr. í lögum um stjórn fiskveiða, eru heimildir Verðlagsstofu eftir orðanna hljóðan ansi ótvíræðar til þess í fyrsta lagi að tryggja það að fyrir liggi samningur og í öðru lagi að samningurinn uppfylli þau skilyrði sem Verðlagsstofa setur og hefur líka heimildir, eins og í 7. gr., að kanna hvort fiskverð við uppgjör og aflahlut áhafnar sé í verulegum atriðum frábrugðið því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla, eins og segir í lögunum, á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða. Skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar, segir í 7. gr., ef hún kemst að því að uppgjör hafi vikið í verulegum atriðum frá því sem algengast er og væntanlega frá þeim samningi sem lagður hefur verið fram því að hún hefði ekki staðfest samninginn í upphafi nema vegna þess að hann væri í dúr og moll við það sem hefur verið að gerast á því svæði sem samningurinn tekur til um þann afla sem um ræðir, stærð, gæði o.s.frv.

Ég átta mig því ekki alveg á þörfinni fyrir því að breyta lögunum eins og hér er verið að gera þó svo, eins og ég sagði í upphafi máls míns, ég sé að sjálfsögðu tilbúinn til þess bæði hér og eins í hv. sjávarútvegsnefnd að styrkja grunninn undir það að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi þær heimildir sem hún þarf ef það er raunin. En ég er ekki sannfærður um að það frumvarp sem hér liggur fyrir og þær breytingar sem verið er að leggja til bæti í raun miklu við þær heimildir sem liggja nú þegar fyrir í lögunum.

Síðan komum við alltaf að því hvað er eðlilegt fiskverð og hvað er samningur sem uppfyllir skilyrði sem Verðlagsstofa skiptaverðs setur. Jafnvel þó maður lesi í gegnum lögin eins og þau eru í dag og þær breytingar sem verið er að leggja til er ekki mjög auðvelt að átta sig á því nákvæmlega eftir hverju Verðlagsstofa á að fara þegar hún segir: Jú, fiskverðið sem fyrir liggur í samningnum er nægjanlega gott eða nægjanlega hátt til þess að við getum staðfest samninginn. Hann uppfyllir þau skilyrði sem við setjum. Væri ekki nær að horfa í meira mæli til fiskmarkaðanna þar sem verð myndast á frjálsum forsendum þar sem kaupendur koma og leggja upp sinn afla? Seljendur mæta þar einnig og vega og meta aflann eins og hann liggur fyrir og ákveða að hægt sé að greiða þetta verð fyrir þennan afla á þessum tiltekna degi. Auðvitað veit ég að eins og ástandið hefur verið á fiskmörkuðum að þá eru fiskmarkaðirnir líka ákveðinn seljendamarkaður eins og leiguheimildirnar eru óumdeilanlega sem þýðir að það getur einhver bjögun verið á verðinu sem myndast á fiskmarkaðnum á hverjum tíma í þá átt að þar sem skortur er á fiski greiði menn hærra verð en í raun sé hægt að segja að sé eðlilegt og sanngjarnt fyrir þann fisk sem verið er að bjóða og það verð sem fæst síðan fyrir afurðirnar. Þetta er þó eini punkturinn þar sem sjómenn og útgerðarmenn koma annars vegar frá og fiskverkendur og kaupendur hinum megin frá og ákvarða með frjálsum hætti að þetta sé það verð sem þeir eru tilbúnir að borga fyrir þennan tiltekna fisk á þessum tiltekna degi miðað við þær aðstæður sem ríkja í greininni.

Samningarnir sem Verðlagsstofa er að staðfesta eru væntanlega oft og tíðum talsvert lægri en markaðsverðið. Ef menn telja að það sé einhver bjögun á markaðnum vegna þess að það sé seljendamarkaður en ekki kaupendamarkaður, hvern telja menn þá vera eðlilegan mun á því verði sem þar myndast og því verði sem Verðlagsstofa skiptaverðs samþykkir fyrir sitt leyti þegar samningar eru lagðir fram? Ég held að þarna sé ákveðið einstigi sem erfitt sé að feta og erfitt fyrir úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að komast að niðurstöðu oft og tíðum um hvað geti verið eðlilegt og sjálfsagt verð. Mér er ekki kunnugt um það og hafði ekki tíma til þess í dag að afla mér gagna en hæstv. ráðherra veit kannski hve mikið var um það að samningum væri skotið til úrskurðarnefndar af hálfu Verðlagsstofu skiptaverðs á síðasta fiskveiðiári vegna þess að hún var ekki sátt við samningana eins og þeir lágu fyrir og hversu margir úrskurðir voru kveðnir upp á grundvelli laganna sem við tölum um að breyta og hvort þeir úrskurðir hafi fallið á einhvers konar oddaatkvæðum í öllum tilvikum eða hvort menn hafi komist að samkomulagi um að ákveðið fiskverð væri hið rétta á ákveðnu svæði miðað við verð, gæði og slíkt.

Ég held að það sé afar mikilvægt þegar við horfum á leigumarkaðinn sem hér er verið að fjalla um þar sem útgerðir sem annaðhvort eiga kvóta og leigja til sín viðbót eða útgerðir sem ekki eru með kvóta á sínum skipum og leigja allt til sín eru á markaði sem engin leið er í raun að tala um öðruvísi en fákeppnismarkað og markað sem ég held að í flestum tilvikum yrði litið á í öllum öðrum viðskiptum sem samráðsmarkað og markað sem samkeppnishömlur væru ríkjandi á því verðmyndunin á markaðnum lýtur ekki miklum markaðslögmálunum eða breytist til eða frá. Það er sama verð hjá öllum og það er sama verðþróun hjá öllum. Það virðist vera eins og leigan sem menn krefjast hverju sinni sé alltaf eins. Ég er hræddur um að það væru komnar upp háværar raddir í öðrum atvinnugreinum um samráð og brot á samkeppnislögum ef þetta væri raunin annars staðar, að einhver hópur atvinnurekenda sem væri með ákveðna vöru til leigu eða sölu væri að fara í gegnum tiltölulega fáa aðila sem samræmdu verðið fyrir alla sem vildu kaupa. Það er spurning hvort þetta geti á nokkurn hátt samræmst því sem við köllum eðlilega viðskiptahætti á Íslandi í dag.

Ég held að ef menn í alvöru taka orðið fiskur út úr jöfnunni og taka orðið fiskur út úr atvinnugreininni sem á sér stað með kvótaleiguna og setja eitthvað annað í staðinn, hvort sem það er bílaleiga, leiga á húsum eða sala á einhverri vöru mundu allir sjá hversu undarlegur þessi markaður er. Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra gæti tjáð sig eitthvað um það í umræðunni því við erum í raun að tala um hvernig við eigum að koma böndum á leigumarkaðinn, hvort hann telji aðstæður á markaðnum lúta eðlilegum viðskiptalögmálum og hvort hann telji verðmyndun á markaðnum uppfylla ákvæði samkeppnislaga og uppfylla þær kröfur sem við gerum um gegnsæi og kröfur sem við gerum um að ekki séu samráð á markaði sama hvaða nafni hann nefnist.



[18:56]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum nú lítið frumvarp frá hæstv. sjávarútvegsráðherra en hann leggur fram frumvörp um litlar bætur á handónýtt kerfi, algerlega handónýtt kerfi. Það er hlutskipti hæstv. ráðherra, manns sem hefur verið að gagnrýna kerfið síðan hann byrjaði að taka þátt í stjórnmálum. Svo þegar hann fær völd og er orðinn hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur hann með litlar bætur sem eru ekki eitt né neitt. Hv. þm. Jón Gunnarsson rakti þetta í ágætri ræðu. Hann fór í gegnum það að þetta litla frumvarp bætir í engu það réttarástand sem ríkir nú þegar og þess vegna furðar maður sig á svona frumvarpi. Einnig kom fram í andsvörum að þetta nær ekki til þeirra sjómanna sem vinna á minnstu bátunum og taka örugglega mikinn þátt í þessum leiguviðskiptum og þessar gríðarlega háu upphæðir sem renna út úr atvinnugreininni í formi leigu skerða hlut þeirra.

Hæstv. ráðherra tekur ekkert á grundvallaratriðunum. Hann kemur bara með litla bót. Það er hlutskipti hans. Mér finnst það reglulega aumt. — Ég sé að hæstv. ráðherra er farinn úr salnum vegna þess að hann virðist ekki þola þessa umræðu. — Kerfið sem við erum að ræða, sem þessi bót er á, var hannað til að byggja upp fiskstofna, það var hannað til þess, en núna sitjum við uppi með helmingi minni þorskafla en fyrir daga kerfisins. Það var líka hugsað til að tryggja byggð í landinu. Ef hæstv. ráðherra fer um sína heimabyggð og um Vestfirði alla og víðar um landið sér hann að höggvin hafa verið djúp skörð í byggðirnar og í staðinn fyrir að skoða hvort hægt sé að gera eitthvað öðruvísi, eins og við í Frjálslynda flokknum höfum ítrekað bent á, kemur hann með litla bót. Bót sem er ekki eitt né neitt og það hefur komið fram í andsvörum og maður furðar sig á þessu. Hlutskipti hæstv. ráðherra er gríðarlega aumt, hann sem hefur verið einn aðalgagnrýnandi kerfisins og er nú kominn í aðstöðu til að breyta og bæta en gerir þá nánast ekki neitt.

Menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það hvort þessi leiguviðskipti skerði hlut sjómanna. Það hefur komið fram að út úr þessu kerfi renna í kringum 10 milljarðar árlega í formi leigugjalds og síðan við sölu aflaheimilda hafa skuldir útgerðarinnar hækkað gríðarlega. Menn segja að skuldirnar hafi aukist á síðasta áratug um upphæð sem svarar til tveggja Kárahnjúkastíflna. Það er ekki að sjá, frú forseti, að það komi fram í miklum fjárfestingum í atvinnugreininni heldur er atvinnugreinin skuldugri en áður. Svo kemur Sjálfstæðisflokkurinn með frumvarp sem á að leysa málið með því að koma á virkara eftirliti, einhverju eftirliti með samningum. Við í Frjálslynda flokknum viljum leysa þetta á einfaldan hátt og það er að fiskurinn fari á markað. Ef fiskurinn fer á markað tryggir það að greitt sé rétt verð eða það verð sem er á markaði á hverjum degi.

Ef aðskilnaður verður á milli veiða og vinnslu eru hagsmunir útgerðarmanna og sjómanna samtvinnaðir og ekki þarf að vera með eftirlitskerfi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leysa þessi mál í sjávarútveginum með eftirliti, eftirliti með kjarasamningum, eftirliti með því að ekki sé brottkast, í stað þess að breyta reglunum. Það er miklu eðlilegra að breyta reglunum. Við teljum að það eigi að auka frelsið í þessari atvinnugrein. Það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið upp, kvótakerfið, byggir á einhverjum hugmyndafræðilegum kenningum um að eignarrétturinn tryggi að einhverju leyti hagkvæma nýtingu auðlinda, ef þær verði einkaeign verði nýtingin hagkvæmari. Þeir gleyma því að þetta verður að öllum líkindum og alltaf sameign. Hér er um að ræða sameign einkaaðila á auðlind sem er alls ekki þannig að hún sé eins og fiskabúr heldur er þar um flókið lífríki að ræða með mörgum fiskimiðum. Það er ekki það sama. Þegar menn eru dottnir inn í þann hugsanagang sem er í íslenska kvótakerfinu getur það kannski gengið upp út frá lagatæknilegu sjónarmiði og mögulega út frá stjórnsýslulegu sjónarmiði en að ætla að stjórna fiskveiðum á mörgum mismunandi fiskimiðum hringinn í kringum landið með einum heildarkvóta er tóm della. Menn ættu að vera farnir að sjá það og auðvitað vita menn það en forðast að ræða það.

Ég furða mig á því að við séum að koma með enn eina bótina á vont kerfi. Þetta er glórulaus vitleysa. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að koma auga á það að þetta er engin breyting. Hæstv. sjávarútvegsráðherra fór undan í flæmingi við að útskýra að einhver breyting yrði við þetta. Það verður engin breyting. Eins verður engin breyting hvað það varðar að þetta nær ekki til smábátanna. Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því þannig að það mátti skilja að hann væri ekki þannig maður að hann setti lög um kjör manna, þegar ég ræddi þá staðreynd að sjómenn á minnstu bátunum væru án kjarasamnings, menn ættu að semja um þau á frjálsum markaði og það væri ekki hlutverk okkar að þvinga það fram að fólk í landinu byggi við kjarasamninga, það væri ekki hlutverk alþingismanna. Hér ætti að vera frelsi á atvinnumarkaði. Auðvitað ætti það að vera þannig en ég minni hæstv. sjávarútvegsráðherra á það að ég man ekki betur en að hann hafi einmitt tekið þátt í lagasetningu á sjómenn í kjaradeilum. Þá var hann ekki of góður til að setja lög á kjaradeilu sem menn áttu auðvitað að sjá að rétt væri að leysa með frjálsum samningum. Ég tel það ástand sem nú ríkir algerlega óviðunandi. Ég minni á að það þótti ekki hæfa að blaðburðarbörn væru án nokkurra samninga en hæstv. sjávarútvegsráðherra finnst ekkert eðlilegra en að þetta ástand haldi áfram. Ég er ósammála því. Ég tel að stjórnvöld eigi að grípa inn í og verði að þrýsta á um að þarna verði breyting á.

Sjálfstæðismenn virðast á einhvern hátt sjá ofsjónum yfir kjörum sjómanna. Ég minni á að í upphafi þessa kjörtímabils lagði núverandi hæstv. forsætisráðherra fram frumvarp um að skerða sjómannaafsláttinn en var síðan gerður afturreka með það frumvarp. Hann tók það sérstaklega fram að ef hann fengi að ráða, og hann hefur nú ekki skipt um skoðun hvað þetta varðar, mundi hann skerða kjör sjómanna og taka þennan skattafslátt af. Í þessu máli kristallast í raun afstaða Sjálfstæðisflokksins.

Við leysum ekki þessi mál eins og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leysa þau, það óréttlæti sem ríkir hjá þeim sem stunda sjósókn, með einhverju eftirlitskerfi heldur með því að breyta leikreglunum. Þó svo að þetta frumvarp nái til þeirra sem leigja til sín aflaheimildir er rétt að minna á að það ríkja einnig ákveðin vandamál með skiptakjör þeirra sjómanna sem eru á föstum samningum sem þetta frumvarp nær ekki til og það er varðandi það hvort mat kaupanda sem er sami aðili og útgerðarmaðurinn endurspegli raunverulegan afla. Ég er ekki viss um að við leysum það mál með því að auka eftirlit eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill gera, með því að koma á miklu eftirlitskerfi í frystihúsum og kanna hvort þeir aðilar sem eru að kaupa af sjálfum sér vigti rétt eða flokki aflann rétt. Maður heyrir það hjá sjómönnum að það sé misbrestur á því, að afli sem er að meðaltali 6 kíló verði þegar kaupandinn, sem er að kaupa af sjálfum sér, er búinn að vigta hann kannski 3,5 kíló. Við leysum þetta ekki með því að auka eftirlit, alls ekki, heldur með því að breyta reglunum þannig að aðskilja veiðar og vinnslu og koma fiski á markað.

Svo virðist sem sjálfstæðismenn megi ekki heyra á það minnst að eðlileg markaðslögmál gildi í þessum viðskiptum. Það er af og frá. Í umræðum fyrr í vetur var ég með fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það hvort hann hefði gert eitthvað með úrskurð samkeppnisráðs, nr. 2 frá árinu 2000, er varðar aðstöðumun fiskvinnslu sem væri ekki tengd við útgerð og þeirra sem eru í tengslum við útgerð. Hann hafði ekkert gert, frú forseti, hann hafði nákvæmlega ekkert gert. Þó voru liðin sjö ár. Hann vitnaði til þess að einhverju leyti að hann hefði verið stutt í embætti og því væri fróðlegt að vita hvort hann hefði gert eitthvað á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að ég bar upp þessa fyrirspurn. Ég efast um það vegna þess að hlutverk hæstv. sjávarútvegsráðherra er einfaldlega, eins og maður segir, að vinna í þessu kerfi og frekar að breiða yfir misfellurnar og ef spurt er um rök fyrir einhverju er jafnvel vitnað í reglur í staðinn fyrir að finna gild rök fyrir vitleysunni.

Við í Frjálslynda flokknum viljum fara út úr þessu kerfi, út úr kerfi þar sem afli sem veiðist t.d. í Faxaflóa er dreginn frá því sem má veiða á Austfjörðum. Þetta er arfavitlaust, þetta er alger þvæla, frú forseti. Að við skulum sitja uppi með svona kerfi árið 2007 er sárgrætilegt. Við viljum einfaldlega auka frelsið neðar í kerfinu og leyfa handfæraveiðar eins og þær hafa verið leyfðar um aldir, að vera ekki með þessi boð og bönn en athuga heldur hvort ekki sé hægt að breyta reglunum þannig að ekki skapist þörf fyrir þetta gríðarlega eftirlit. Eins viljum við losa um þetta kerfi með því að tryggja að eðlileg markaðslögmál fái að gilda í þessum viðskiptum.

Hugsið ykkur, að það skuli þurfa að draga hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þá vinnu að láta eðlileg markaðslögmál gilda í viðskiptum. Mér finnst það ótrúlegt. Við höfum samt séð það fyrr að flokkurinn er viðkvæmur ef talið berst að samkeppnismálum en það er kannski ekki rétt að fara mikið út á þær brautir í þessari umræðu. Mér finnst samt sem áður þetta hlutskipti hæstv. sjávarútvegsráðherra aumt, að halda svona fast í kerfi sem gengur ekki upp, hefur ekki gengið upp og mun ekki ganga upp, í stað þess að reyna að koma á eðlilegum leikreglum þar sem markaðslögmál gilda. Það er einfaldlega miklu skynsamlegra en að koma á einhverju eftirlitskerfi ríkisstofnana. Við erum með Fiskistofu sem hefur yfir að ráða hátt í milljarð og síðan eftirlit í höfnum landsins. Það er nóg komið. Það er miklu nær að líta á það hvernig einfalda megi kerfið og gera það sanngjarnara til að ná árangri. Þetta er ekki leiðin til þess.

Ég spái því að þetta frumvarp verði ekki til þess að snúa þeirri óheillaþróun við sem hefur verið í sjávarútveginum og að opna fyrir nýliðun og tryggja betur kjör sjómanna en verið hefur. Til þess þarf einfaldlega að skipta um ríkisstjórn. Það hefur sýnt sig að þeir sem hafa verið gagnrýna kerfið — og ég trúi í raun að hæstv. ráðherra sjái að það er ekki allt gott við þetta kerfi — eru einfaldlega kveðnir í kútinn innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir fá ekki að koma með tillögur, það kemur bara svona málamyndatillaga sem er hvorki eitt né neitt.



[19:12]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um talsvert mikið grundvallaratriði í framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar í heild sinni. Við erum annars vegar að ræða um tilfærslur á aflaheimildum og aflamark og hins vegar verðmyndunarþáttinn, undirstöðu undir uppgjör sjómanna, þ.e. hvaða heildarverð fæst fyrir aflann og þar af leiðandi um kjör fiskimanna og skiptin milli annars vegar útgerðar og áhafnar og hins vegar þeirra skipta sem viðgangast í kvótakerfinu. Sá sem á veiðiréttinn fær alltaf stóran hluta af laununum þegar hann leigir frá sér aflamark til annarrar útgerðar sem þarf á því að halda.

Því miður er hér innan lands verð afar hátt, reyndar óeðlilega hátt að mörgu leyti tel ég, og hefur ýmis áhrif innan kerfisins. Ég hef stundum orðað það svo, hæstv. forseti, að arðsamasta einingin fyrir kvótaeigandann væri leiguliðinn, sá sem greiðir leiguverðið fyrir óveiddan fisk áður en útgerðin og sjómaðurinn geta farið að veiða. Kvótaréttarhafinn tekur til sín gríðarlegan part af fiskverðinu og fiskverðsmynduninni út á þann eina rétt að hafa fengið úthlutað aflahlutdeild af hálfu ríkisins.

Þar erum við ekki að tala um neina smápeninga. Við erum að tala um að leiguverð á t.d. þorski í dag leggur sig á 170 og allt upp í 183 kr. á kílóið, óveitt og óséð áður en haldið er til veiða með tilheyrandi kostnaði og því að eiga skip sem nauðsynlegt er til að veiða fiskinn og veiðarfæri, og ráða mannskap á viðkomandi skip.

Við erum ekki að tala um neitt smámál þótt þetta sé lítið frumvarp í sjálfu sér og, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson orðaði það, hér erum við að setja enn eina bótina á þetta kerfi. Við erum auðvitað að fjalla um þetta mál út frá því að við erum með lögin um stjórn fiskveiða í gildi eins og þau eru, þ.e. kvótakerfislögin, þar sem mönnum er úthlutað aflahlutdeildum í mjög mörgum fisktegundum, allt of mörgum að því er ég tel. Ef menn á annað borð ætluðu að nota kvótakerfi eru þeir komnir algerlega út í móa með það að tína til alls konar fisktegundir, t.d. í almennum botnfiskveiðum, inn í kvótakerfið og langt út fyrir þann tilgang að ná einhverri stýringu á meginstofnana í veiðinni, ef menn væru að hugsa um það.

Væntanlega vita flestir að við í Frjálslynda flokknum höfum ekki aðhyllst þá aðferð sem notuð hefur verið hér við stjórn fiskveiða á undanförnum árum og höfum marglagt til að lagt yrði af stað í endurskoðun á því kerfi og breytingar. Meira að segja höfum við lagt til hvernig við teldum best að fara í þær breytingar, með því að nálgast verkefnið með fjórum aðgreindum útgerðarflokkum gróflega skipt með reglugerðum og lagagrunni og svo byrjuðu menn að fást við það að ná fisktegundum út úr kvótakerfinu og að sjálfsögðu að reyna að gefa veiðarnar frjálsar í útgerðareiningunum í skrefum og vinna sig þannig til meira frjálsræðis og annarrar hugsunar en við höfum viðhaft á undanförnum árum.

Hugsunin hefur byggst á því, eins og ég segi, að úthluta aflahlutdeild sem er í raun og veru prósenta sem útgerðarmenn hafa á milli ára, og út á hana úthluta menn svo tonnum eða kílóum eftir því hversu mikið fiskifræðingar leggja til að veitt skuli á hverju ári og hvað ríkisstjórnin leggur til að fenginni þeirri ráðgjöf. Að mestu leyti hefur ríkisstjórnin farið eftir tillögum fiskifræðinga í botnfisksveiðunum. Þó eru þar á undantekningar og nægir að minna á síðustu alþingiskosningar. Í aðdraganda þeirra fann Davíð Oddsson allt í einu, þegar hann var staddur norður á Akureyri, 30 þús. tonna viðbót í þorski. Það var náttúrlega ákaflega snjallt hjá fyrrverandi forsætisráðherra að finna allt í einu út að þörf væri á því að skella því inn rétt fyrir kosningar. (Gripið fram í: Er bolludagur?) Ég man ekki hvort það var bolluinnkoma á þessum tillögum hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Það kann vel að vera. Hann aðhafðist ýmislegt á bolludögum.

Viti menn, Hafrannsóknastofnun sem hafði varað við því að jafnvel væri verið að veiða of mikið komst að þeirri niðurstöðu hægt og rólega að sennilega væri smuga fyrir þessi 30 þús. tonn sem Davíð fann, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, þau voru sett inn og aukið við. Mikil bjartsýni ríkti rétt fyrir kosningarnar vorið 2003.

En ekki nóg með það, menn fundu líka línuívilnun til viðbótar þessu. Sú línuívilnun fannst eftir að Davíð hafði, aldrei þessu vant, brugðið sér inn í beitningarskúra í Bolungarvík og hitt þar mjög ákafa sjómenn sem rökræddu við hann um að mönnum væri ekki stætt á því að búa ekki til eitthvert kerfi sem byggi til meiri aflaheimildir og verðlaunaði línuna.

Út af fyrir sig er það gilt sjónarmið því að þar virðist maður stuðla að vistvænum veiðum og efla þá útgerð sem mjög margir fiskverkendur sækjast eftir. Við erum með menn líka í fiskverkun með mjög misjafna aðstöðu. Við erum með fiskverkendur sem eru í samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar sem kaupa nánast allan sinn afla á fiskmörkuðum. Þeir hafa í gegnum árin og áratugina oft og tíðum verið frumkvöðlar í að finna nýja markaði og tryggja hæsta verð fyrir þann afla sem þeir hafa keypt þótt þeir hafi keypt kílóið 100 krónum dýrara en hefur verið samið um í föstum viðskiptum hjá þeim útgerðum sem taka afla úr eigin skipum. Þetta er bara söguleg staðreynd, hæstv. forseti, og því miður er það enn þá svo í dag að menn eru langt fyrir neðan markaðsverðið, þ.e. í föstu viðskiptunum.

Það er auðvitað ekki hægt að líta öðruvísi á en svo að það sé ákveðin meðgjöf. Við verðum hins vegar líka að líta á það að margar af þessum fiskvinnslum, sem eru að reka sig og reyna að gera út að hluta til, leigja líka til sín mikið magn af veiðiheimildum á hverju ári og borga kvótaréttarhöfunum óhemju fé fyrir það, tugi og jafnvel hundruð milljóna á hverju einasta ári svo að þær geti haldið úti vinnslu sinni.

Samkeppnisaðstaðan er þess vegna mjög skökk í sjávarútveginum, hæstv. forseti, og þetta frumvarp lagar það ekki. Það er í heildina tekið það vonda við þetta frumvarp að það lagar ekki samkeppnisaðstöðuna. Þó að því sé ætlað að reyna að draga úr ósanngirninni og styrkja réttarstöðu áhafna að því leyti að þær fái betri fiskverðssamninga mun það aldrei ná því að menn sitji við sama borð.

Við höfum flutt hér frumvarp í nokkur ár, ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu sem hefur m.a. byggt á þeirri hugsun að hér tækju eðlileg viðskipti við, það væri séruppgjör fyrir fiskvinnslu og séruppgjör fyrir útgerð innan sama fyrirtækis og menn sæju glöggt hvernig fjárstraumar lægju í þessum geira. Í þeirri tillögu höfum við líka lagt til að grundvöllur verðmyndunar á sjávarfangi á Íslandi væri markaðsverðið, og ferskfisksmarkaðirnir sæju um verðmyndunina, fiskur væri almennt seldur á markaði og til þess mundi væntanlega draga ef tillaga okkar um fjárhagslegan aðskilnað í veiðum og vinnslu hefði náð fram að ganga.

En hún hefur auðvitað ekki náð fram að ganga, hæstv. forseti, vegna þess að ríkisstjórnin vill ekkert taka upp svona eðlilega viðskiptahætti í sjávarútvegi. Það er verið að stuðla að allt öðru. Þetta frumvarp er þess vegna enn ein bótin í að reyna að viðhalda núverandi kerfi. Þó er í því þessi viðleitni, eins og ég gat um áður, að það er verið að reyna að bæta hag þeirra sjómanna sem verða fyrir því að þurfa að taka þátt í leiguverðinu, þessu ofurháa leiguverði sem er orðið á fiskveiðiheimildum hér á landi. Það hefur m.a. valdið því að frá árinu 1995 og fram til ársins 2006 hafa skuldir sjávarútvegsins vaxið úr rétt rúmum 95 milljörðum upp í tæplega 300 milljarða kr. án þess að afkoman í endanlegu útflutningsverði sjávarafurða hafi vaxið í neinu samræmi við þessar tölur.

Hvers vegna skyldi þetta gerast svona, hæstv. forseti? Jú, vegna þess að útgerðarmenn fá á hverju ári úthlutað aflahlutdeild sem þeir eru verndaðir með að fá að njóta eins og þeir vilja með þeim lögum sem nú eru til um stjórn fiskveiða, verðmyndun á sjávarfangi o.s.frv. og því kerfi að menn eru leiguliðar þeirra sem aflaheimildirnar hafa.

Þó að stærri útgerðirnar margar geri sjálfar út á aflaheimildir sínar leigja þær vissulega mikið frá sér en þær eru líka í fiskvinnslu og þegar skoðað er það verð sem þau skip fá sem veiða eigin aflaheimildir hjá hinum stóru fyrirtækjum kemur í ljós, hæstv. forseti, að það verð er oft og tíðum jafnvel lægra en sumir menn fá fyrir fiskinn sem þeir selja á uppboðsmörkuðum þótt þeir leigi til sín aflaheimildir. Þetta er nú hinn skrýtni veruleiki.

Það sem við ættum að vera að fást við er í fyrsta lagi að einfalda kvótakerfið og stefna hægt og rólega út úr því með lagfæringum og breytingum. Við teljum að sú aðferð sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til sé algjörlega fær til þess að gera það á einhverjum árum eftir ákveðnu kerfi. Við ættum að tína fisktegundir út sem við þurfum ekki að hafa til þess að ná stjórn á veiðunum eins og í almennum botnfiskveiðum. Við ættum að sjá til þess að hér væri eðlileg verðmyndun í sjávarútvegi. Við ættum að sjá til þess að þeir sem vinna í sjávarútveginum, fiskvinnslurnar, sem eru bæði innan og utan útgerðar sætu við sama borð á viðskiptalegum grundvelli að því er varðaði fiskkaup og verðmyndun. Við ættum að sjá til þess að leigukvótaverð þvældist ekki með neinum hætti inn í nein viðskipti að þessu leyti til.

Veiðirétturinn ætti að vera nýtingarréttur í hvaða veiðikerfi sem við útfærðum og ef menn vildu ekki nýta þann rétt gætu þeir svo sem skilað honum aftur og þá væri hægt að setja upp annaðhvort leigukerfi á aflaheimildum á ákveðnu markaðsverði á ákveðnum leigumarkaði fiskheimildanna eða leigukerfi á dögum, ef menn nota þá aðferð, innan þeirra flotaeininga sem menn vilja stýra hverju sinni og þess vegna innan landsvæða ef menn vilja tryggja það að hafa áhrif á byggð og atvinnu í byggðarlögum.

Það hefur aldrei verið gert í þessu kvótakerfi að öðru leyti en því að við erum með smápott sem kallaður hefur verið byggðakvóti, nánast viðlagakvóti sem er ætlað að bregðast við uppákomum eða ef skortir aflaheimildir í byggð, ef það verður hrun í sérstökum veiðiheimildum byggðarlaga eins og t.d. innfjarðarrækju og hörpuskel eins og þekkt er úr Breiðafirði. Þá er þessum viðlagaákvæðum ætlað að koma þar til mótvægis og síðan er þeim ætlað að koma til mótvægis við það ef útgerðarmaður aðhefst það sem honum er heimilt í dag samkvæmt þessum lögum, þ.e. að selja allan veiðiréttinn úr viðkomandi byggðarlagi.

Þess vegna er það að hafa byggðastefnu við hliðina á svona kerfi nánast markleysa fyrir sjávarútvegsbyggðirnar. Menn hafa ekki hugmynd um það frá degi til dags hvort aflaheimildirnar sem eru undirstöðuréttur byggðanna og fiskvinnslunnar í viðkomandi byggðarlagi verða þar vikunni lengur eða skemur.

Þetta er ofboðslega mikill galli á svona stýrikerfi og við leiðréttum það ekki að neinu leyti þótt við tökum að hluta til á þeim vanda sem hér er lagaður til.

Þess vegna er það rétt að við erum hér með bót á þetta kerfi, eina bótina enn, og eru þær orðnar margar í gegnum tíðina, hæstv. forseti, og bráðabirgðaákvæðin í lögum um stjórn fiskveiða eru eins og allir vita nánast jafnmörg og lagagreinarnar, ef ekki fleiri. Við því verður ekki séð með þessu frumvarpi þó að því sé ætlað að taka á þeim vanda sem hæstv. ráðherra lýsti hér, enda nær það ekki utan um vandamálið. Grunnurinn og uppsetningin á kvótakerfinu í heild sinni eru þannig að við komumst ekki frá kerfinu eins og það er með þeim innbyggða vanda sem í því er.

Kerfið er skuldahvetjandi fyrir sjávarútveginn. Hvers vegna er það, hæstv. forseti? Vegna þess að menn selja sig út úr kerfinu og taka til sín fjármunina. Með stighækkandi aflaheimildum og hærri veðsetningu bankanna miðað við það verðmæti sem menn ímynda sér að hægt sé að fá fyrir óveiddan fisk eykst skuldsetningin.

Peningar detta ekki af himnum ofan í þessu kerfi. Þeir eru venjulega teknir að láni í lánastofnunum þegar menn ætla út úr kerfinu og venjulega er greitt hærra verð fyrir aflaheimildir fyrir þann sem er að fara út í fyrra og enn þá hærra í ár og svo koll af kolli. Heimildirnar hækka í verði og eru núna komnar upp í þær hæðir, og reyndar upp fyrir þær, sem íslenskir útgerðarmenn kölluðu algjört brjálæði og pappírsviðskipti sem engin von væri til að geta staðið undir þegar rætt var um verðmætið á aflaheimildum Grænlendinga sem þeir létu menn í Evrópusambandinu hafa með þeim samningum.

Við erum sem sagt að komast upp í það verð, 2.500–2.600 kr. á óveitt kíló. Það var útreikningsverðið, ef ég man rétt en ég er ekki með þessar tölur fyrir framan mig, sem Landssamband íslenskra útvegsmanna komst að fyrir nokkrum árum að væri algjörlega óraunhæft og út úr öllu korti, þetta væru bara hreinlega pappírsviðskipti og verið væri að borga mönnum fyrir veiðiheimildir sem aldrei næðist að hafa upp í með útgerðarkostnaði. En við erum sennilega á þeim stað núna, hæstv. forseti.

Um þetta væri hægt að hafa enn lengra mál en ég hef hér rakið en ég verð að segja að því miður náum við ekki utan um vandamálið sem við erum að fást við með þessu frumvarpi. Þó að ég skilji vilja sjávarútvegsráðherra til þess að reyna hér að bæta um frá því sem nú er er vandamálið einfaldlega innbyggt í kerfið. Hef ég þó ekki komið að því, hæstv. forseti, að við leigu innan kerfisins er sjálfvirkt vandamál sem býður upp á það að velja úr stærð fisksins. Það er vandamál sem kemur sér afar illa og er stórhættulegt í allri stjórn fiskveiða, þegar hvatinn í umgengninni um sameignina er slíkur að menn þurfa að ná í hæsta verð til að geta staðið undir því leiguokri sem þeir þurfa að mæta miðað við það sem er í dag.

Þess vegna er það að við erum með val úr fiskinum á miðunum innbyggt í kerfið. Þó að við höfum reynt að setja bætur á það kerfi, m.a. með svokölluðum Hafró-afla þar sem menn geta landað í sérstaka verðlagningu sem ekki reiknast þá inn í kvótann, höfum við samt ekki náð utan um það. Vissulega hefur dregið að einhverju leyti úr því brottkasti sem menn hafa talað um. Þó komst Hafrannsóknastofnun að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að það væru þó nokkur þúsund tonna sem enn væru sett fyrir borð með vali úr aflanum. Þar er talað um veruleg verðmæti, hæstv. forseti.

Ég sé að tíma mínum er að verða lokið og geri það að tillögu minni að það frumvarp sem hér er verið að ræða fái verðuga og góða yfirferð í hv. nefnd, en sé ekki að við náum því endanlega markmiði að ýta kvótabraskinu út úr uppgjörum sjómanna með þessum hætti. Það kann samt að vera að einhvers staðar í þessu leynist sú útfærsla að það megi gera með því að bæta hér í umfram það sem sagt er í frumvarpinu. Aðalvandamálið er það að kerfið er svona uppbyggt og því breytum við ekki með einni lagfæringunni enn.