133. löggjafarþing — 83. fundur.
yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak, fyrri umræða.
þáltill. ÖS o.fl., 13. mál. — Þskj. 13.

[15:31]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. forseta fyrir þá lipurð og þann góða samstarfsvilja sem kemur fram af hálfu hans og þeirra sem að forsetanum standa varðandi það að fá þessa þingsályktunartillögu til umræðu sem við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar flytjum. Sömuleiðis vil ég þakka hæstv. starfandi utanríkisráðherra fyrir að vera viðstaddur umræðuna.

Við vitum það öll sem hér höfum setið á hinu háa Alþingi síðustu árin að það hafa ekki skapast jafnheitar og tilfinningaríkar umræður í nokkru máli eins og varðandi stuðning Íslands við innrásina í Írak. Ég hef sagt það og ég held að flestir leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi lýst því yfir að þar sé um að ræða einhvern svartasta blettinn á utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins og án efa er það sá gerningur sem mun lifa í minningu þjóðarinnar og verða að neðanmálsgrein í mannkynssögunni um þessa ríkisstjórn.

Því miður er það þannig, herra forseti, að þetta verður bautasteinninn sem mun standa yfir höfuðsvörðum þessarar ríkisstjórnar þegar hún er öll innan nokkurra mánaða. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur hins vegar margoft óskað eftir því að menn gerðu þessi mál upp með vasklegum og drengilegum hætti. Það hefur líka margoft komið fram á síðustu vikum og missirum, sérstaklega hjá forustumönnum Framsóknarflokksins að þeir telja að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi verið mistök. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem nú er starfandi utanríkisráðherra hefur sagt að þetta hafi byggst á röngum upplýsingum og þar af leiðandi hafi þetta verið röng ákvörðun. Ákvörðunin hefur hins vegar leitt til mikilla hörmunga fyrir borgara Íraks og þótt ég ætli ekki að gera íslenska stjórnmálamenn að sérstökum sektarlömbum í því máli þá er það hins vegar alveg ljóst að sá siðferðilegi stuðningur sem Bandaríkjamönnum og Bretum var gefinn með yfirlýsingu hinna 30 viljugu vígfúsu þjóða skipti sköpum og hann skipti miklu máli.

Nú er það að vísu svo að það er langt um liðið og því hefur verið haldið fram að það skipti litlu máli þó að menn taki núna með formlegum hætti til baka stuðning Íslands við innrásina. En það skiptir máli fyrir íslensku þjóðina, það skiptir máli fyrir okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi og það skiptir máli fyrir samvisku allra þeirra sem hafa heitar og mannúðlegar tilfinningar í hjarta sínu og það er þess vegna, herra forseti, sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni tillögu til þingsályktunar um yfirlýsingu gegn stuðningnum sem stjórnvöld veittu innrásinni í Írak. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsir því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.“

Þetta er efni tillögunnar, herra forseti. Ég tel sérstaklega miðað við yfirlýsingar forustu Framsóknarflokksins að það hljóti að vera tímabært að samþykkja ályktun með þessum hætti. Við höfum heyrt ýmsa íslenska stjórnmálamenn, sérstaklega þá sem hafa sýnt vott af samviskubiti í þessu máli og þar á ég fyrst og fremst við forustumenn Framsóknarflokksins, við höfum hlustað á þá segja það upp á síðkastið að þetta hafi verið byggt á röngum upplýsingum og þá hlýtur að vera hægt að lýsa því yfir til að hreinsa þetta mál að stuðningurinn hafi verið misráðinn. Það er ekki farið fram á annað og að því er Framsóknarflokkinn varðar þá er það stuðningur forustu hans við þetta mál sem skipti sköpum fyrir stöðu flokksins. Það var sá stuðningur sem sleit taugina á millum forustu flokksins og baklandsins og það var sú ákvörðun sem leiddi til þess að flokkurinn er í þeirri stöðu sem hann er núna.

Stuðningurinn við innrásina í Írak var veittur án þess að nokkurt lögbundið samráð væri haft við utanríkismálanefnd Alþingis. Það hefur líka komið fram hjá varaformanni Framsóknarflokksins að það mál var aldrei rætt í ríkisstjórn Íslands og að því leytinu til finnst mér að það hljóti að leika lagalegur vafi á því að ríkisstjórnin eða forustumenn ríkisstjórnarinnar, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, hafi haft heimild til þess að taka þessa ákvörðun. Ég segi það, herra forseti, vegna þess að ég dreg mjög í efa eins og ýmsir þingmenn stjórnarliðsins hafa talað síðustu sex mánuði að það hafi verið meiri hluti fyrir þessum stuðningi á hinu háa Alþingi. Ákvörðunin var tekin af þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra einum. Stjórnarandstaðan stóð öll sameinuð gegn þessari ákvörðun og hún hefur margsinnis lýst harðri andstöðu, jafnt við innrásina sem þá fordæmalausu aðferð sem forustumenn ríkisstjórnarinnar beittu til þess að spyrða Ísland með þessum hætti við innrásarþjóðirnar. Það hefur komið fram í ítrekuðum könnunum að það er yfirgnæfandi vilji íslensku þjóðarinnar að þetta verði með einhverjum hætti leiðrétt og það má rifja það upp að a.m.k. ein könnun sem ég sá varðandi fylgi þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn leiddi það í ljós að 90%, þ.e. 9 af hverjum 10 framsóknarmönnum voru andvígir þessu.

Þessi ákvörðun sem á sínum tíma var tekin og leiddi, að mínu viti, til alþjóðlegrar hneisu fyrir Ísland braut í blað. Þarna var um að ræða algera stefnubreytingu af Íslands hálfu til stríðsátaka. Við skulum rifja það upp, herra forseti, að skömmu eftir að Ísland varð lýðveldi var því hafnað hér á Alþingi, árið 1945, að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan sem helstu bandamenn okkar voru þó í átökum við um alla veröld. Þegar Íslendingar gerðust stofnaðilar að NATO fimm árum eftir að þeir urðu lýðveldi, þá tóku Íslendingar það sérstaklega fram að þeir mundu ekki lýsa yfir stríði á hendur nokkurri þjóð. Þarna var því að öllu leyti verið að breyta fyrri afstöðu Íslendinga og þarna var verið að fara á svig við lögin og ég hef sagt það áður og ætla að endurtaka það, herra forseti, í þessum ræðustól að að mínu viti var þarna um að ræða löglausa og siðlausa ákvörðun.

Við skulum líka muna að á þessum tíma voru rökin tvenns konar fyrir stuðningi við innrásina. Í fyrsta lagi að í Írak væri að finna miklar bækistöðvar alþjóðlegra hermdarverkasamtaka al Kaída og í öðru lagi að þar væri að finna gereyðingarvopn. Þetta voru rökin sem voru notuð til að skýra og styðja afstöðu tveggja forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hvað hefur reynslan leitt í ljós? Jú, það hefur komið fram að al Kaída hafði engar bækistöðvar í Írak og það hefur ekkert komið fram sem benti til þess að þeir hefðu starfað í skjóli Saddams Husseins og haft vígstöðvar eða bækistöðvar í Írak. Og það sem hefur einnig komið fram er að það var hvorki tangur né tetur af gereyðingarvopnum í Írak. Einu leifarnar sem fundust í þeim voru eiturefnavopn sem höfðu verið búin til í skjóli Breta upp úr árinu 1980. Þetta var reyndar upplýst áður en íslensk stjórnvöld tóku þessa ákvörðun. Þetta var upplýst af þáverandi forustumanni í breska Verkamannaflokknum, utanríkisráðherra Robin Cook sem hafði aðgang að nákvæmlega sömu trúnaðarupplýsingum og Blair forsætisráðherra sem aftur voru hin sömu og bandarísk stjórnvöld höfðu og hann upplýsti það áður en hann dó í merkri afsagnarræðu í breska þinginu að ekkert hefði bent til þess að þetta væri rétt. Nú getum við auðvitað haldið því fram að þó að mikilvægur ráðherra í ríkisstjórn gamals heimsveldis eins og Breta hafi haft þessa vitneskju þá sé ekki hægt að gera því skóna að íslenskur forustumaður eins og Davíð Oddsson eða Halldór Ásgrímsson hafi hugsanlega haft þá vitneskju og á það er hægt að fallast.

Hins vegar verður að rifja það upp að þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafði verið í aðdraganda innrásarinnar í Írak algerlega andsnúinn því að í hana yrði ráðist með stuðningi ríkja á borð við Ísland vegna þess að Halldór Ásgrímsson vildi gefa vopnaeftirlitsnefnd Hans Blix sem starfaði á vegum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til þess að ganga úr skugga um hvort einhver gereyðingarvopn væri að finna í Írak. Hann skipti um skoðun á einni viku. Og hvað var það sem olli því að formaður Framsóknarflokksins á þeim tíma skipti um skoðun? Það væri hægt að spá með margvíslegum hætti í það. En eitt er ljóst að hann gerði það eftir kvöldfund með Davíð Oddssyni og eftir samráð við bandaríska sendiherrann. Sá eini sem haft var samráð við hér á landi var fulltrúi bandaríska heimsveldisins. Þetta er auðvitað alveg af og frá og það er ekki hægt að segja annað en að það er skammarlegt fyrir Framsóknarflokkinn að hafa með þessum hætti bundið trúss Íslendinga við innrásina í Írak eftir að hafa talað gegn henni mánuðum saman eins og formaður Framsóknarflokksins gerði.

Hann sagði síðan, sá ágæti maður, áður en fætur hans urðu kaldir í íslenskum stjórnmálum að þetta hefði verið byggt á röngum upplýsingum. Framsóknarflokkurinn hefur síðan sagt það mörgum sinnum. En ef þetta var byggt á röngum upplýsingum þá var þetta röng ákvörðun og þá eiga menn að biðjast afsökunar á því og Alþingi Íslendinga þarf fyrir sitt leyti að hreinsa þetta mál og það verður best gert með því að því verði lýst yfir að Ísland sé með formlegum hætti tekið út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003.

Herra forseti. Hér var fyrir nokkrum vikum rætt um þetta sama málefni. Þá kom það fram m.a. hjá varaformanni Framsóknarflokksins að það væri heldur skrýtið að fara að ætlast til þess núna að Íslendingar lýstu þessu yfir og það væri engin þörf á því og þar að auki hefðu Íslendingar ekki komið að þessu máli með virkum hætti öðruvísi en að styðja uppbyggingarstarf í Írak og hann tilgreindi sérstaklega að það hefði verið veittar 300 millj. til þess.

Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra og eftir atvikum hæstv. landbúnaðarráðherra í tilefni af yfirlýsingu hans hér: Er það rangt munað hjá mér að Íslendingar hafi tekið að sér að flytja vopn til Íraks? Er það rangt munað hjá mér að íslenska ríkisstjórnin hafi greitt fyrir flutning á mörgum flugvélaförmum af vopnum frá Slóveníu til Íraks? Er það líka rangt hjá mér, herra forseti, að íslenska ríkisstjórnin hafi greitt fyrir þjálfun írakskra öryggissveita? Hvað er það annað en bein þátttaka í þeim átökum sem þarna voru? Ég fæ ekki annað séð. En ég vil vísa, herra forseti, til stikla um alþjóðamál sem hægt er að finna eða var a.m.k. á heimasíðu utanríkisráðuneytisins og eru dagsettar 18. febrúar 2005 en þar kemur þetta fram. Mig langar þess vegna að spyrja þessa ágætu menn þegar þeir halda því fram að Íslendingar hafi bara tekið þátt í uppbyggingarstarfseminni í Írak: Er það rétt fullyrðing, með tilliti til þess að íslensk stjórnvöld greiddu fyrir flutning á vopnum til Íraks? Er það rétt fullyrðing með tilliti til þess að íslensk stjórnvöld greiddu líka fyrir þjálfun írakskra öryggissveita? Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram, herra forseti.

Ég vil að lokum ítreka að mér þætti vænt um það í aðdraganda flokksþings Framsóknarflokksins, sem formaður flokksins er sérstaklega viðkvæmur fyrir að sé minnst á í þessum sal, og mig langar til að fá það fram hjá forustu Framsóknarflokksins sem á heiður skilið fyrir að sitja hérna: Telja þeir ekki að það sé rétt að hreinsa þetta mál upp í eitt skipti fyrir öll og vilja þeir ekki styðja stjórnarandstöðuna í því að samþykkja ályktun á Alþingi þar sem Ísland er með formlegum hætti tekið út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrásina?[15:45]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja þetta um hið erfiða Íraksmál sem, eins og ég hef áður getið, er nánast rætt í hverri viku. Hv. þingmaður sagði að ég hefði sagt að það hefði aldrei verið rætt í ríkisstjórn. Það liggur fyrir að Íraksmálið var margrætt í ríkisstjórn, bæði fyrir og eftir ákvarðanatöku. En það er alveg á hreinu að fyrrv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þessa ákvörðun og töldu sig hafa fullan stjórnsýslulegan rétt til þess eins og hefur verið rakið. Þeir tóku ákvörðun, kynntu hana eðlilega í ríkisstjórn á eftir og hér í þinginu, og það gerðist með þeim hætti.

Það liggur fyrir að báðir þessir miklu stjórnmálaleiðtogar eru horfnir af vettvangi, þeir eru farnir út úr íslenskum stjórnmálum. Formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson hæstv. ráðherra, hefur lýst því yfir með skýrum hætti að ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak hafi verið tekin á forsendum rangra upplýsinga og ég ítreka það og tel að það hafi komið í ljós síðar eins og mál hafa þróast. Ég gat þess á dögunum að Bandaríkjamenn hefðu einhliða sett okkur inn á þennan 30 þjóða lista og hafi í rauninni ekki haft eina einustu heimild til þess. Ég trúi því ekki að þeir hafi haft vilyrði nokkurs manns til að setja sig á þann lista því Íslendingar eru friðarþjóð. (Gripið fram í.) Ég álít að við þurfum fyrst og fremst að einbeita okkur að því að hjálpa til við uppbygginguna og að Írak nái aftur að byggja sig upp (Forseti hringir.) og þar eru sem betur fer ýmsir ágætir hlutir að gerast í dag.[15:47]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Heldur var þetta aumleg ferð hjá hæstv. landbúnaðarráðherra hingað í ræðustól. Hann kemur hingað og ætlar að reyna að telja okkur trú um að Íslendingar hafi verið settir á þennan lista án þess að nokkur hafi verið spurður að því. Telur hæstv. landbúnaðarráðherra virkilega að Ísland sé þrátt fyrir þessa ríkisstjórn slík fótaþurrka hjá Bandaríkjamönnum að þeir hafi gert það án þess að hafa spurt utanríkisráðherra þjóðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Ísland var sett á þennan lista með fullu samþykki Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins þá, og Davíðs Oddssonar, sem þá var forsætisráðherra. Þetta var löglaust, þetta var siðlaust og þetta var í andstöðu við vilja þjóðarinnar. Mér er nær að halda að þetta hafi verið í fullkominni andstöðu við vilja Framsóknarflokksins eins og hann var á þeim tíma en hann tók til fótanna í kjölfar þessa og flýði forustuna og þess vegna stendur hún eftir ein og berskjölduð með það fylgi sem hún hefur í dag.

Herra forseti. Colin Powell varð það á að flytja kolrangar upplýsingar inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Eftir að hann hætti störfum og lét af störfum sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna baðst hann afsökunar á Íraksstríðinu. Hann var nægilega mikill maður til þess að segja að það væri versti bletturinn á ferli sínum að hafa orðið þetta á og hann baðst afsökunar á því. Ég minnist þess líka að breska biskupakirkjan baðst afsökunar fyrir hönd Breta. Er ekki komið að því að forusta Framsóknarflokksins lýsi því yfir að þetta hafi verið mistök og biðjist einfaldlega afsökunar á því að hafa leitt þessa hneisu yfir íslenska þjóð og hafa með vissum hætti gert hana siðferðislega skuldbundna þeirri sekt sem Bandaríkin og Bretar bera í þessu máli?[15:50]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var drengilegt af hv. þingmanni að rifja upp orð Halldórs Ásgrímssonar í aðalræðu sinni hér áðan, hann taldi að hefðu frekari upplýsingar legið fyrir um málið hefði ákvörðunin ekki verið með þeim hætti sem hún var. Þessa gat hv. þingmaður hér áðan. Það liggur alveg fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur gert þetta mál upp við sig. Nýr formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, lýsti því yfir á flokksþingi Framsóknarflokksins í sumar að ákvörðunin hefði verið tekin á forsendum rangra upplýsinga. Flokksþingið tók undir þau ummæli og við erum þeirrar skoðunar. Við höfum afgreitt málið frá okkur með þessum skýra hætti.[15:51]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði um daginn, þegar við ræddum þetta í þessum sölum að frumkvæði hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að menn ættu ekki að vera að hræra í þessu blóði. Sannarlega hefur runnið blóð vegna þessa máls. Breska tímaritið The Lanset, sem er virtasta læknatímarit í heiminum, gerði könnun á því hversu margir hefðu látist af völdum þessara átaka. Í ljós kom að 650 þúsund til 700 þúsund írakskir borgarar liggja í valnum. Hverjir bera sökina á því? Bandaríkjamenn og Bretar. Þeir réðust inn í Írak. En ekki er annað hægt en segja að þjóðir eins og Ísland bera líka vissa siðferðislega sekt á meðan þær eru á lista yfir þjóðirnar sem studdu þetta voðaverk. Ég segi að mig kennir til í hjartanu yfir því að vera partur af Alþingi sem ekki getur losað sig við þennan svarta blett. Ég bið hæstv. ráðherra, forustu Framsóknarflokksins, að gera það sem er drengilegt og sanngjarnt í þessu máli og hjálpa okkur til að losa okkur við þennan blett á æru Alþingis og Íslands. Við verðum að fá að verja hendur okkar og koma þessu máli af okkur.

Kofi Annan, sem var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að þetta hefði verið ólöglegt árásarstríð. Hvernig stendur þá á því að forusta Framsóknarflokksins vill einfaldlega ekki koma hingað og biðjast afsökunar? Þeirri afsökunarbeiðni verður tekið. Þeim urðu á mistök sem höfðu skelfilegar afleiðingar og þeir eiga að biðjast afsökunar á því.[15:53]Útbýting:

[15:53]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er fjarskalega undarleg umræða. Í Írak þjást milljónir. Umræðan er greinilega ekki um þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og er að nafninu til til umræðu heldur eru menn að slá innanríkispólitískar keilur á kostnað Framsóknarflokksins. Umræðan er flutningsmönnum tillögunnar til skammar. Ástandið er þannig í Írak að það á að sýna því meiri virðingu en að nýta það aðeins og einvörðungu til að slá keilur sem Svíar kalla „inrikes/utrikespolitik“, þ.e. að rugla hlutum saman til að koma höggi á einhverja allt aðra aðila.

Þingsályktunartillöguna ætla ég hins vegar að ræða nánar. Hún byggist á miklum misskilningi. Listinn yfir staðfastar þjóðir, sem svo er kallaður, er einfaldlega einhliða framsetning Bandaríkjamanna. Með þingsályktunartillögunni er verið að veita þeim lista formlegt vægi og gildi hér á landi. Íslendingar eru hins vegar sjálfstæð þjóð með sjálfstætt ríki, sjálfstæða löggjöf og sjálfstætt stjórnkerfi og það verður að andmæla því að einhvers konar fréttatilkynningar frá Hvíta húsinu á sínum tíma, 2003, séu látnar fá eitthvert lögformlegt gildi í afgreiðslu Alþingis. Það er langeðlilegast að svara þessum svokallaða lista með pólitískum yfirlýsingum stjórnmálamanna og það hef ég gert. Þingsályktunartillagan byggist hins vegar á hreinum misskilningi.

Ég get endurtekið það sem ég hef sagt áður, bæði hér og á öðrum vettvangi. Ég tel eftir athugun málsins í sumar og haust að ákvarðanir sem teknar voru um afstöðu Íslendinga til Íraksmála árið 2003 hafi verið rangar eða mistök. Ákvarðanaferlinu var ábótavant og það hefur verið upplýst. Það er mjög mikilvægt að vanda allan undirbúning ákvarðana í þessum efnum og þátttöku í alþjóðamálum, ég tala nú ekki um deilumálum, og þá er mjög mikilvægt að lögmætar stofnanir séu hafðar með í ráðum eins og t.d. utanríkismálanefnd Alþingis.

Ég endurtek það að þessi listi um staðfastar þjóðir — ég hef lesið hann — er aðeins fréttatilkynning frá Hvíta húsinu á sínum tíma. Hann tilheyrir liðnum tíma og hann hefur ekkert formlegt gildi á Íslandi. Eðlilegasta svarið við honum eru pólitískar yfirlýsingar stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Ég hef gert það fyrir mitt leyti og tillaga liggur fyrir flokksþingi framsóknarmanna á morgun um að Framsóknarflokkurinn geri það líka opinberlega fyrir sitt leyti. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að festast ekki í liðnum tíma eins og hér er gert. Við þurfum að læra af mistökum, draga réttar ályktanir af þeim, bæta stjórnsýslu okkar og vanda hana eftir öllum föngum. Alþingi hefur samþykkt fjárveitingar og það var spurt um þær hér. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef voru þetta flutningar til endurreisnarstarfs og þjálfunarstarfa. Alþingi hefur líka samþykkt og ítrekað stuðning við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og það kemur reyndar fram í þessari fráleitu fréttatilkynningu Hvíta hússins sem verið er að reyna að glæða einhverju lögformlegu gildi á Íslandi.

Nú skiptir langmestu máli að hraða því að íbúar og þjóðir Íraks öðlist fullt sjálfsforræði og koma í veg fyrir átök við Íran. Íslendingar eiga að styðja alþjóðasamfélagið í þessu og við skulum bjóða öllum stjórnmálaflokkum á þingi og öllum öðrum aðilum til fulls samstarfs um það. En ég vara við því að farið sé fram með það að veita fréttatilkynningum Hvíta hússins í Bandaríkjunum lögformlegt gildi á Íslandi. Það á ekkert erindi hingað.[15:58]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er langt síðan ég hef heyrt annan eins kattarþvott og þann sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafði uppi í svari sínu. Nú heldur hann því fram að þetta hafi allt saman verið að frumkvæði Bandaríkjamanna, að Ísland komst á þennan lista, og þetta hafi verið fréttatilkynning. Hvers vegna stóð þá fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, hérna dögum og vikum saman við að verja það að Ísland væri á þessum lista? Af hverju sagði hann aldrei að þetta væri fréttatilkynning? Af því að þetta er tóm vitleysa, uppspuni og helber tilbúningur. Auðvitað var það þannig að Ísland var sett á þennan lista með fullkomnu samþykki tveggja manna, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Framsóknarflokkurinn hleypur ekki frá þeirri ábyrgð sinni. Hann ber jafnmikla ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn í þessu máli og honum væri sæmst að koma hingað og biðjast afsökunar á því. Mér er sæmst að halda því fram að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti að biðjast afsökunar á því að bera þessa vitleysu fram. Þetta er allt annað en það sem þeir hafa áður haldið fram og þetta er aumlegt yfirklór.[15:59]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Geðshræring hv. þingmanns leynir sér ekki. Það er alveg greinilegt að honum hefur algerlega láðst að skoða þessa hlið málsins. Ég gerði það í sumar því ég kynnti mér þetta mál. Þetta er einfaldlega fréttatilkynning frá Hvíta húsinu, hefur ekkert lögformlegt gildi og það er fullnægjandi að svara henni með pólitískri yfirlýsingu stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka eins og ég sagði áðan.

Að öðru leyti vil ég vitna til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði í umræðum fyrr í vetur að Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í því að vera á þessum lista en þeir andmæltu því hins vegar ekki á þeim tíma.[16:00]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Atburðarásin var einfaldlega svona: Bandaríkjamenn gengu fast eftir því við stuðningsríki sín að þau lýstu yfir stuðningi. Þannig var þessum nöfnum safnað saman. Síðan var þeim komið á þennan lista sem var birtur á heimasíðu Hvíta hússins og öllum sjónvarpsstöðvum heimsins. Auðvitað var nafn Íslands þarna vegna þess að utanríkisráðherrann lagðist ekki gegn því að Ísland væri á listanum. Að sjálfsögðu fólst samþykkið í því.

Það urðu svo hörð viðbrögð hér heima þegar þetta kom upp að það skapaði ólgu og sennilega hafa verið einhverjir þingmenn í liði stjórnarliðsins sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið vegna þess að við sem fylgdumst með heimasíðu Hvíta hússins á þessum tíma munum alveg þegar nafn Íslands datt allt í einu út um 2–3 klukkustunda skeið og síðan var það einfaldlega staðfest aftur af þessum tveimur mönnum. Allar götur síðan þá hefur nafn Íslands verið á þessum hræðilega lista. (Forseti hringir.) Þetta er einhver aumlegasta málsvörn sem ég hef heyrt fyrir (Forseti hringir.) mistök fortíðarinnar.[16:01]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var alveg með ólíkindum að hlusta á þann blekkingavaðal sem kom áðan frá formanni Framsóknarflokksins, staðgengli hæstv. utanríkisráðherra. Hann segir að þessi listi sé ekkert annað en fréttatilkynning frá Hvíta húsinu og hafi í raun og veru ekkert lögformlegt gildi. Ég er með þennan lista fyrir framan mig. Þetta er útskrift upp á sex síður og tekin af heimasíðu Hvíta hússins þar sem þessi listi er enn þá. Ég prentaði hann út sjálfur þann 14. febrúar sl. Hér eru 42 þjóðir skráðar við „Statement of Support from Coalition“, stuðningsyfirlýsingar frá samherjum. (Gripið fram í.) Þar á meðal er Ísland og það er þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson sem sendi þessa yfirlýsingu þann 18. mars 2003 til Hvíta hússins. Yfirlýsingin er síðan birt af Hvíta húsinu 26. mars, sex dögum eftir að innrásin hófst. Tveimur dögum áður en innrásin hófst kom yfirlýsing frá forsætisráðherra Íslands þar sem því var lýst yfir að Bandaríkin teldu öryggi sínu ógnað vegna árása frá hryðjuverkamönnum og öðrum og hér er líka talað um að Íslendingar lýsi þeim stuðningi að Bandaríkjamenn megi nota íslenska lofthelgi, flugvöllinn í Keflavík og að Íslendingar muni einnig taka þátt í svokallaðri uppbyggingu eftir að stríðinu ljúki.

Við vitum sem er, virðulegi forseti, að þessu stríði er enn hvergi lokið. Þetta er engin fréttatilkynning. (Gripið fram í: Vissulega.) Þetta er engin fréttatilkynning, þetta er stuðningsyfirlýsing frá 42 þjóðum, og stuðningsyfirlýsingin frá Íslendingum er enn í fullu gildi, hún hefur hvergi verið dregin til baka, hún hefur aldrei verið hörmuð þrátt fyrir það sem við höfum séð gerast í Írak eftir að þetta viðbjóðslega stríð hófst, þrátt fyrir að við vissum mörg hvernig lá í eðli hlutanna áður en stríðið hófst. Það þurfti enga stóra snillinga (Forseti hringir.) til að sjá það og ég mun fara yfir það í ræðu minni á eftir, virðulegi forseti.[16:03]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra, formaður Framsóknarflokksins, segir að við eigum ekki að festast í fortíðinni, við eigum ekki að festast í spillingarumræðu liðinna ára, við eigum ekki að festast í Íraksstríðinu.

Hæstv. forseti. Nú er að koma að kosningum og nú vill Framsóknarflokkurinn ekki lengur horfa yfir liðið kjörtímabil og gangast við eigin verkum. Varaformaður og formaður Framsóknarflokksins verða að átta sig á því að nú er komið að uppgjöri. Nú verða menn að horfast í augu við eigin verk og menn verða að gangast við þeim. Ef þetta var einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar á sínum tíma, sem við teljum að hún hafi ekki verið, hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) krefst þá íslenska ríkisstjórnin þess ekki að við verðum formlega (Forseti hringir.) tekin út af þessum lista?[16:05]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málsvörn hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar er sú að fyrst að með ólögmætum hætti hafi verið staðið að því hér á landi að styðja innrásina í Írak verði þess ekki á sama hátt krafist að við getum með lögmætum hætti dregið þann stuðning til baka. Ég hélt að menn væru búnir að sjá villu síns vegar í því máli. Að sjálfsögðu er það skýr og lögbundin yfirlýsing ef hún kemur frá Alþingi Íslendinga.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan: Verkefnið núna er að koma í veg fyrir árás á Íran, held ég að hann hafi orðað það, eða stríð við Íran, ófrið við Íran. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Verkefni hverra er það og hvernig nálgast ríkisstjórn Íslands það verkefni að koma í veg fyrir að líka verði stríð við Írani?[16:06]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að árétta það sem ég sagði. Ég var að tala um verkefni alþjóðasamfélagsins og ég var að tala um að það væri nauðsynlegt og skylt að við tækjum þátt í verkefnum alþjóðasamfélagsins sem miða að því að þjóðir og íbúar Íraks fái fullt sjálfsforræði og frið sem allra fyrst og komið verði í veg fyrir átök við Íran, sagði ég reyndar.

Ég vil aðeins endurtaka að það er greinilegt að hv. þingmenn sem hafa talað hafa ekki velt fyrir sér eðli þessa plaggs sem kallað er „listi um hinar staðföstu þjóðir“. Þær upplýsingar sem ég bar hér fram komu þeim mjög á óvart og ég hvet þá einfaldlega til að kynna sér málið betur. Það á að svara þessum svokallaða lista með pólitískum yfirlýsingum stjórnmálamanna. Það er fullnægjandi. Það hef ég gert og það ætlum við framsóknarmenn að gera á flokksþingi okkar á morgun. Það á ekki að sýna þessu plaggi þá virðingu að það hljóti hér eitthvert lögformlegt gildi í meðförum Alþingis.[16:07]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ríkisstjórn Íslands sem skuldbatt Íslendinga alla, ríkið, landið, alla þjóðina með pólitískum stuðningi sínum við innrásina í Írak. Það var ekkert öðruvísi. Það skiptir engu máli hvort út var gefin fréttatilkynning eða eitthvað annað frá Hvíta húsinu, það er ekki undankomuleið Framsóknarflokksins í þessu máli hvað pappírinn nákvæmlega hét. Það breytir því ekki að ríkisstjórn Íslands veitti innrásinni sinn fulla pólitíska stuðning. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Og sá stuðningur var fyrir hendi þangað til fyrir nokkrum mánuðum eða vikum. Síðast þegar við ræddum utanríkismál á hinu háa þingi varði hæstv. utanríkisráðherra stuðninginn við innrásina með kjafti og klóm. Um það bil tveim vikum síðar höfðu framsóknarmenn séð að sér, en þá höfðu þeir varið innrásina í (Forseti hringir.) þrjú og hálft ár.[16:09]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir að við eigum ekki að sýna plagginu þar sem listuð eru stuðningsríki við innrásina í Írak þá virðingu að það öðlist lögformlegt gildi, við eigum ekki að ræða það öllu meira hér á þinginu svo að það öðlist ekki lögformlegt gildi, Framsóknarflokkurinn ætli núna um helgina að segjast vera andvígur því að við vorum sett á þennan lista. Ætlar Framsóknarflokkurinn að ganga lengra og lýsa andstöðu við Íraksstríðið, andstöðu við ólöglega árás Bandaríkjamanna á Írak? Ég bíð eftir að heyra inntak þessarar ályktunar Framsóknarflokksins. Verða þetta bara orðin tóm, einhver tilraun til að fegra ímyndina, eða ætlar flokkurinn að lýsa andstöðu við þetta andstyggilega árásarstríð sem hefur leitt af sér dauða og hörmungar?

Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem sameinuð stjórnarandstaðan stendur að. Við óskum eftir því að Ísland verði með formlegum hætti tekið út af lista þeirra 30 þjóða sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og að því verði lýst yfir að stuðningurinn við þetta stríð hafi verið misráðinn.

Árásin á Írak var fyrir það fyrsta ólögleg samkvæmt alþjóðalögum. Í öðru lagi stríddi hún gegn íslenskum lögum því að ekki var haft lögbundið samráð við Alþingi og í þriðja lagi stríðir það gegn hugmyndum okkar um lýðræði að lýsa yfir stuðningi við stríð sem margoft hefur komið fram að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur.

Menn bera það fyrir sig að þeir hafi verið blekktir, þeir hafi verið leiksoppar Bandaríkjamanna og jafnvel Breta. Ég bið menn að hugsa nokkur ár til baka. Í upphafi ársins 2003, þess árs þegar árásin var gerð á Írak um vorið, flutti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til þingsályktunar þar sem við hvöttum til þess að ríkisstjórninni yrði falið að koma þeirri afstöðu á framfæri á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem því yrði komið við að innrás í Írak yrði afstýrt og vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna gefinn nægur tími til að ljúka störfum sínum. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Komi til hernaðaraðgerða gegn Írak á næstu mánuðum skal Ísland tilkynna að ekki verði heimiluð afnot af aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði né verði um neins konar þátttöku að ræða af Íslands hálfu í slíkum aðgerðum.“

Það mátti hvert barn vita hvað í vændum var. Nánast allan 10. áratuginn hafði írakska þjóðin verið beitt viðskiptaþvingunum sem höfðu murkað lífið úr hundruðum þúsunda manna. Það er talið að á milli hálf og ein milljón barna hafi dáið af völdum þessara viðskiptaþvingana. Margoft fóru fram umræður um það í þessum þingsal hvort Íslendingar ættu ekki að segja sig frá þvingununum og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum margoft fram þingmál þessa efnis. Því var haldið fram á móti og í aðdraganda innrásarinnar í Írak að þrennt réttlætti innrás: í landinu sæti harðstjórn, í landinu væru gereyðingarvopn og þar væru einnig hryðjuverkamenn sem herjuðu á okkar hluta heimsins.

Eitt var rétt í þessari upptalningu, í landinu sat ógnarstjórn. Írak hefur verið stýrt af ógnarstjórn allar götur frá því að ríkið var sett á fót af Bretum snemma á 3. áratug síðustu aldar. Þá var þar búið til konungsríki, konungur sóttur til grannríkis, og síðan gekk á með stjórnarbyltingum og blóðsúthellingum þar til Baath-flokkurinn hrifsaði til sín völdin að undirlagi og með stuðningi leyniþjónustu Bandaríkjanna árið 1963. Á sama tíma er gerð bylting í Íran, einnig að undirlagi Bandaríkjamanna, en þá er Mohammed Reza Pahlavi komið til valda þar í landi. Og til að rifja upp afskipti Vesturlandamanna af þessum heimshluta má geta þess, sem reyndar hefur margoft komið fram í fjölmiðlum og kom fram í fjölmiðlum áður en innrásin var gerð, að margir helstu ráðamenn í stjórn Bush Bandaríkjaforseta, Cheney, Richard Pearl, Jeb Bush, bróðir núverandi forseta, og fleiri höfðu ritað þáverandi Bandaríkjaforseta bréf, það var árið 1998, þar sem þeir hvöttu til innrásar í Írak til verndar bandarískum olíuhagsmunum. Allt þetta var á vitorði allra þeirra manna sem vildu kynna sér málavöxtu. Þetta var rætt í þinginu, þetta var rætt í þjóðfélaginu, þetta var rætt í alþjóðapressunni og í ofanálag skulum við minnast þess að vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna eða sá sem fór fyrir þeirri sveit óskaði aftur og ítrekað eftir því að ekki yrði ráðist á landið, heldur yrði þeim gefið meira svigrúm til vopnaleitar. Síðar hefur hann sagt að hann hafi látið þau boð út ganga að litlar líkur væru á að slík vopn fyndust. Allt þetta var í umræðunni á þessum tíma.

Síðan koma hér fulltrúar Framsóknarflokksins og segjast hafa verið blekktir, þeir hafi verið leiksoppar. Aumingja vesalings Framsókn var blekkt og hún ætlar að gera það eitt nú um helgina að segja að hún hafi ekki viljandi farið inn á þennan lista Bandaríkjamanna um hinar viljugu þjóðir, hann hafi ekkert gildi. Þessi listi hafði gildi á sínum tíma vegna þess að hann var notaður til að réttlæta árásina og hann hefur verið notaður þannig allar götur síðan. (Forseti hringir.) Núna skiptir hann hins vegar afskaplega litlu máli og þá fyrst skríður (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn út úr greninu. En ætlar flokkurinn að lýsa andstöðu við Íraksstríðið og veru Bandaríkjamanna í Írak? (Forseti hringir.) Við bíðum eftir að heyra það núna um helgina.

(Forseti (SAÞ): Forseti biður hv. þingmann að gæta þingskapa um ræðutíma.)[16:17]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hefur orðið nokkur umræða um það hvort Ísland sé yfir höfuð á einhverjum lista hinna viljugu þjóða eða ekki, hvort slíkur listi sé yfir höfuð til. Við skulum aðeins staldra við þetta mál.

Ég kom upp í andsvör áðan, virðulegi forseti, vegna þess að mér ofbauð málflutningur formanns Framsóknarflokksins vegna þessa lista. Í millitíðinni brá ég mér fram á gang og þýddi orðrétt úr ensku yfir á íslensku hina svokölluðu stuðningsyfirlýsingu Íslendinga. Ég tel að þýðingin sé nokkuð rétt. Ég held það sé rétt að ég lesi hana upp orðrétta á íslensku þannig að hún fari inn í þingtíðindi og þannig að formaður Framsóknarflokksins og starfandi utanríkisráðherra, í fjarveru hæstv. utanríkisráðherra, geri sér grein fyrir því hvernig yfirlýsingin var orðuð.

Nú skuluð þið heyra, með leyfi forseta:

Bandaríkin telja nú að öryggi þeirra sé alvarlega ógnað vegna aðgerða og árása hryðjuverkamanna og vegna ýmissa hótana frá löndum sem stjórnað er af einræðisherrum og harðstjórum. Bandaríkin telja að stuðningur frá okkar litla ríki skipti máli. Yfirlýsingin, sem gefin er út af ríkisstjórn Íslands vegna Íraksdeilunnar, segir að við ætlum að viðhalda þeirri nánu samvinnu sem við höfum átt við okkar volduga bandamann í vestri.

Í fyrsta lagi felur þetta í sér leyfi til að fljúga um íslenskt flugstjórnarsvæði. Í öðru lagi afnot af Keflavíkurflugvelli ef nauðsyn krefur. Í þriðja lagi að við munum taka þátt í uppbyggingu í Írak að stríði loknu. Í fjórða lagi að við lýsum stuðningi við að ályktun 1441 taki gildi eftir fjögurra mánaða tafir.

Undirritað: Davíð Oddsson forsætisráðherra, 18. mars 2003.

Virðulegi forseti. Hvað er þetta annað en eindregin stuðningsyfirlýsing? Hvað felst í þessum orðum: Bandaríkin telja að stuðningur frá okkar litla ríki skipti máli? Gefur þetta ekki til kynna að Bandaríkjamenn hafi haft samband við íslensk stjórnvöld, við ríkisstjórn Íslands, og beðið um stuðning við innrásina í Írak? Mér finnst orðalagið sanna að Íslendingar, eða réttara sagt ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafi brugðist við beiðni frá Washington um það að Ísland lýsti yfir stuðningi við innrásina.

Hér stendur líka:

Yfirlýsingin, sem gefin er út af ríkisstjórn Íslands vegna Íraksdeilunnar, segir að við ætlum að viðhalda þeirri nánu samvinnu sem við höfum átt við okkar volduga bandamann í vestri. — Gefin er út af ríkisstjórn Íslands.

Hvað segir þetta okkur? Þetta er 18. mars, tveimur sólarhringum áður en herirnir lögðu af stað í það mikla glapræði sem varð innrásin í Írak, tveimur sólarhringum áður. Þetta segir manni jú, hlýtur að vera, að ríkisstjórn Íslands hafi verið fullkunnugt um það sem til stóð, eða hvað? Var ekki rætt við ráðherra í ríkisstjórn Íslands? Sendi þáverandi hæstv. forsætisráðherra frá sér yfirlýsingar til Washington, tveimur dögum áður en lagt var af stað í hina miklu helför, í nafni allrar ríkisstjórnarinnar án þess að hafa rætt málið við ríkisstjórnina? Getur það verið? Við hljótum, virðulegi forseti, að fá svar við spurningum af þessu tagi því að um grafalvarlegt mál er að ræða.

Hundruð þúsunda liggja í valnum eftir innrásina. Afleiðingarnar hafa verið skelfilegar. Slæmt var ástandið í Írak fyrir stríð en hvernig er það núna? Margfalt verra. Fólk býr við dauða og örkuml, hörmungar upp á hvern einasta dag. Það er ekki rétt, sem formaður Framsóknarflokksins reynir að halda fram, að aðeins sé um ómerkilega fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu að ræða, það er ósatt. Það er hrein og klár stuðningsyfirlýsing sem birt er á heimasíðu Hvíta hússins og hún hefur verið þar mjög lengi, alveg frá 26. mars árið 2003. Þarna eru 42 þjóðir. Kannski ekki mjög gæfulegur félagsskapur, við erum á lista með löndum eins og Albaníu, Aserbaídsjan, Kólumbíu, Dóminíska lýðveldinu, El Salvador, Erítreu, Eistlandi, Georgíu, Hondúras, Litháen, Lettlandi, Makedóníu, Mongólíu, Panama, Rúanda og Úkraínu. Þetta er nú m.a. félagsskapurinn sem við erum í á þessum lista. (Gripið fram í.) Þetta er náttúrlega mjög traust og afskaplega sterkt út á við og enn er þetta aðgengilegt fyrir allan heiminn á heimasíðu Hvíta hússins.

Ég hef aldrei, virðulegi forseti, frá því þessi skelfilega nótt rann upp — og ég man vel eftir þeim geig sem settist að manni þegar maður horfði á beinar útsendingar af því þegar herirnir voru að leggja af stað inn í Írak. Ég man ekki til þess að nokkru sinni á þeim fjórum árum sem eru liðin, rétt tæpu, hafi ríkisstjórnin og þeir flokkar sem bera ábyrgð á þessari yfirlýsingu sýnt minnstu viðleitni til þess að draga hana til baka, flokkarnir sem bera að vissu leyti siðferðislega ábyrgð á þeim skelfilegu voðaverkum sem unnin hafa verið í Írak undanfarin fjögur ár. Það hefði þó verið hægur vandinn að gera það vegna þess að það hefur með óyggjandi hætti komið fram að innrásin var byggð á lygum og blekkingum.

Við vitum það í dag að Power Point sýningin sem Colin Powell hélt fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var blekkingarleikur einn. Hann veit það sjálfur og hann hefur harmað það. Fleiri Bandaríkjamenn hafa harmað að hafa stutt innrásina. Við getum nefnt öldungardeildarþingmanninn John Edwards sem hefur hreinlega beðist afsökunar á því að hafa greitt henni atkvæði sitt á sínum tíma. Hann vill nú verða forseti Bandaríkjanna. Og það eru fleiri.

Þetta mál á eftir að draga dilk á eftir sér, ekki bara í bandarískum stjórnmálum, ekki bara í alþjóðastjórnmálum heldur líka í íslenskum stjórnmálum. Það sem var gert var ófyrirgefanlegt. Það var ófyrirgefanlegt að setja okkur, íslenska þjóð, á lista yfir hinar svokölluðu viljugu þjóðir. Það var ófyrirgefanlegt af ríkisstjórninni að senda frá sér yfirlýsinguna sem ég las í upphafi ræðu minnar. Það var ófyrirgefanlegt að þetta skyldi gert án þess að haft væri hið minnsta samráð við Alþingi Íslendinga því að við sem hér sitjum í umboði þjóðarinnar berum að sjálfsögðu ákveðna ábyrgð líka. Það er að sjálfsögðu full ástæða til að harma það að þeir sem sátu á Alþingi fyrir réttum fjórum árum, (Forseti hringir.) undir lok síðasta kjörtímabils, skuli ekki hafa verið upplýstir um þau myrkraverk sem virðast hafa verið framin í Stjórnarráðinu og í utanríkisráðuneytinu.[16:26]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef minni mitt svíkur mig ekki hygg ég að þýðing hv. þingmanns sé í öllum aðalatriðum rétt. Ástæða er til þess að vekja athygli á tveimur síðustu liðunum sem lesnir voru upp, þ.e. stuðningur við uppbyggingarstörf og stuðningur við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. En yfirlýsing Davíðs Oddssonar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar er eitt og þessi listi, þessi fréttatilkynning, er annað. Það breytir því ekki að ákvörðunin sem við erum að tala um var röng eða mistök og ákvarðanaferlinu var mjög ábótavant eins og áður hefur komið fram. Það breytir ekki gildi eða gildisleysi og vægisleysi þessa lista.[16:27]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg greinilegt að formaður Framsóknarflokksins ætlar alls ekki að taka rökum eða sönsum í þessu máli.

Ef ekkert er að marka yfirlýsinguna eða listann, eins og formaður Framsóknarflokksins heldur fram, hvers vegna hefur ríkisstjórnin þá ekki gert neitt í því að þessi listi yrði afmáður af heimasíðu Hvíta hússins? Hvernig stendur á því að ríkisstjórn Íslands stendur þá ekki fyrir því að leiðrétta þennan skelfilega misskilning ef hann er fyrir hendi? Fjögur ár eru liðin og ekkert hefur verið gert. Ekki er annað að sjá en að yfirlýsingin sé enn í fullu gildi, hún er algjörlega ótímasett. Engin tímamörk eru tilgreind í yfirlýsingunni, engar dagsetningar, ekki neitt. Það er a.m.k. ekki birt á listanum sem Bush og starfsmenn hans hafa birt á heimasíðu Hvíta hússins. Vel má vera að einhver önnur skjöl finnist, ég skal ekkert um það segja. Sennilega eru þau stimpluð í bak og fyrir sem leyndarmál. Þau eru alveg örugglega ekki til sýnis fyrir utanríkisnefnd Alþingis. Við höfum séð það í þessu máli að ríkisstjórnin treystir ekki utanríkisnefnd Alþingis. Ekki bar hún málið undir hana þó að hún hefði, að mínu mati, átt að gera það lögum samkvæmt. Það var ekki gert.

Nei, þetta er engin fréttatilkynning, þetta er stuðningsyfirlýsing eins og kemur mjög greinilega fram á þeim pappírum sem ég hef fyrir framan mig. Varaformaður Framsóknarflokksins fékk ljósrit hjá mér rétt áðan. Ég reikna með að hann geti sýnt formanni sínum skjölin sem ég hef. Þetta eru engin leyniskjöl, það er ekkert mál að finna þetta á netinu. Þetta er þarna enn þá og verður þarna sjálfsagt áfram því að ég hef enga trú á því að ríkisstjórn Íslands hafi nokkra döngun í sér til þess að hafa samband við Hvíta húsið í Washington og biðja um að þetta verði fjarlægt, jafnvel þó að þetta sé eintóm og helber vitleysa eins og formaður Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) reynir ítrekað að halda hér fram.[16:29]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur önnur orð um þennan lista en ég hafði. Ég lagði fyrst og fremst áherslu á að hann hefur ekkert lögformlegt gildi eða vægi hér á landi. Við erum sjálfstætt ríki og hvernig svo sem Hvíta húsið kemur fyrir lista um fréttatilkynningar sínar og varðveitir þær, kannski í mörg ár eins og ráðuneytin á Íslandi gera, breytir engu um það. Þessum lista er best svarað með pólitískum yfirlýsingum stjórnmálamanna eins og ég hef gert.[16:29]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta grafalvarlega mál snýst ekki um það hvernig skjöl eru flokkuð, hvað þau heita eða hvernig maður kýs að líta á heiti þeirra fjórum árum eftir gjörninginn en þannig má skilja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formann Framsóknarflokksins, sem greinilega hefur fundið leið út úr þessu vonda máli eða þykist hafa fundið leið út úr þessu erfiða máli fyrir Framsóknarflokkinn, leið fréttatilkynningar Hvíta hússins sem mun þá ekki koma okkur nokkuð við að því er mér virðist.

Í þessum mánuði eru liðin fjögur ár frá því að innrásin var gerð í Írak. Það vissu allir fyrir fjórum árum í hvað stefndi, það vissu allir sem fylgdust með veturinn 2002–2003, í marga mánuði áður en innrásin var gerð og meira en ári fyrr, að verið var að undirbúa þessa innrás með öllum ráðum. Staðreyndin var sú að Bandaríkjastjórn ætlaði að gera þessa innrás. Hún ætlaði reyndar að fá hana samþykkta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og gerði margar tilraunir til þess, en þegar ljóst var að það mundi ekki takast var farin sú leið að fá pólitískan stuðning hinna viljugu eða staðföstu landa við innrásina. Það var hjáleið Bandaríkjastjórnar til þess að fá stuðning við innrásina þegar séð var að hann fengist ekki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Eins og hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og einnig í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, lágu allar upplýsingar fyrir, það var enginn blekktur. Spurningin var bara: Hverjum vildi maður trúa? Ætluðu menn að trúa blint þeim áróðri og því falsi sem var borið á borð, bæði í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og af Bandaríkjastjórn, til þess að réttlæta innrásina eða vildu menn styðjast við bestu fáanlegu upplýsingar annars staðar frá, m.a. frá Hans Blix sem fór fyrir vopnaeftirlitinu í Írak?

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu að styðja í blindni bandamenn sína, Bandaríkjastjórn, og reyndar hefur aldrei komist botn í það hvernig nákvæmlega sú ákvörðun var tekin af þeim báðum eða öðrum hvorum þeirra. Það verður fróðlegt þegar það kemur upp í skjölum sögunnar vonandi einn góðan veðurdag hvað gerðist nákvæmlega 18. mars 2003, þann afdrifaríka og örlagaríka dag í sögu Íslands.

Hæstv. ráðherra hefur endurtekið hér í ræðum sínum að ákvarðanaferlinu hafi verið ábótavant. Undir það tökum við, við erum öll sammála um það. Hæstv. ráðherra hefur líka sagt að það hafi verið mistök eða rangt að styðja innrásina. Um það erum við líka sammála. Væri þá ekki mest vit í því, í ljósi þess að ákvarðanaferlinu var ábótavant og að ákvörðunin sem slík var mistök og röng, að vinda ofan af mistökunum og vitleysunni með því að taka rétta ákvörðun á þeim stað sem er bær til að taka þá ákvörðun, í þingsal á hinu háa Alþingi? Enginn annar en við sem hingað erum kjörin er bær um að taka slíka ákvörðun. Það voru þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ekki.

Hvers vegna þá ekki núna þegar tækifæri gefst til að sjá að sér fjórum árum eftir að innrásin var gerð, að sjá að sér, samþykkja þessa þingsályktunartillögu og koma því þannig frá Alþingi Íslendinga sem til þess var kjörið, að við tökum aftur stuðninginn og þetta innrásarstríð var ekki og er ekki háð í okkar nafni? Það er hið rétta ákvarðanaferli, þá væri engu ábótavant.

Ég fékk inn um lúguna heima hjá mér þetta tímarit í síðustu viku. Það er frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Forsíðan á því er svört og á henni stendur talan 654.965. Hér er farið ítarlega yfir rannsókn sem virtustu og færustu faraldsfræðingar í heimi hafa gert, úrtaksrannsókn gerð í Írak tvisvar sinnum, 2004 og 2006, með bestu fáanlegum aðferðum félagsvísindanna, sömu aðferðir og notaðar eru til þess að leggja mat á mannfall annars staðar, t.d. í Darfúr-héraði í Súdan. Enginn hefur borið brigður á niðurstöður rannsókna þar, m.a. ekki á Bandaríkjaþingi. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru svo sláandi að maður á erfitt með að trúa því. 654.965 Írakar hafa fallið umfram það sem eðlilegt gæti talist af dauðsföllum í einu landi á þeim tíma sem liðið hefur frá því að innrásin var gerð. Þeir hafa ekki dáið úr sjúkdómum, þeir hafa dáið vegna ofbeldis í allri sinni hryllilegu mynd, vegna skotsára, sprenginga og annars slíks, 654.965 manns. Það er kannski ágætt að setja þessa tölu í samhengi.

Í Bosníustríðinu, sem stóð frá 1992–1995, féllu u.þ.b. 200 þúsund manns. Í Víetnam-stríðinu féllu 58 þúsund bandarískir hermenn. Ég er ekki með á hraðbergi töluna yfir hversu margir Víetnamar féllu og ég held reyndar að enginn viti það en þeir voru auðvitað miklu, miklu fleiri. Það stríð stóð í meira en áratug. Hörmungarnar sem hafa gengið yfir Írak á þessum fjórum árum sem liðin eru frá innrásinni og stríðinu eru engu líkar og það minnsta sem við getum gert sem þjóð og þing er að lýsa því yfir í krafti ábyrgðar okkar og valds sem löggjafarþing Íslendinga að við styðjum/studdum ekki þessa innrás, biðjumst afsökunar á því að hafa farið á þennan lista og klárum þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Ég held reyndar að það hafi ekki bara legið eins og mara á Framsóknarflokknum öll þessi ár, ég held að það hafi legið eins og mara á (Forseti hringir.) íslensku þjóðinni.[16:38]
Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Stuðningur Íslands við aðgerðir í Írak fólst í því, eins og iðulega hefur komið fram og trekk í trekk hefur komið fram í stöðugum umræðum um þetta mál á síðustu fjórum árum, að leyfa hér yfirflug og afnot af Keflavíkurflugvelli við liðsflutninga og standa að uppbyggingar- og endurreisnarstarfi í Írak að aðgerðum loknum.

Ég sat þann fund í ríkisstjórn Íslands þegar þetta var kynnt. Þetta var nákvæmlega sams konar ákvörðun og áður hafði verið tekin, t.d. um loftárásir í Kosovo sem voru fjórum árum þar á undan. Þannig var staðan þegar þessi ákvörðun var kynnt. Það hefur komið fram að þessi ákvörðun var lögleg en endurteknar fullyrðingar hafa verið um það í umræðum á Alþingi að hún hafi ekki verið það. Það er alveg sama þó að komið hafi fram álit hinna færustu manna um það, sí og æ er endurtekið að ákvörðunin hafi verið ólögleg.

Þessi ákvörðun var tekin eins og fram hefur komið að mig minnir 25. mars að morgni. Hún var kynnt þá en tekin skömmu áður. Þá stóð eins á og núna, hér stóð yfir kosningabarátta og ákvörðunin varð kosningamál á sínum tíma, við síðustu kosningar, og þingmenn voru úti um allt land í kosningabaráttu. Það kom í ljós síðar að forsendur ákvörðunarinnar voru byggðar á röngum upplýsingum um gereyðingarvopn og menn höfðu vissulega áhyggjur af því að gereyðingarvopn væru í höndunum á einræðisherra, sem Saddam Hussein óneitanlega var. Síðar kom í ljós að gereyðingarvopn fundust ekki. Af þessum ástæðum var ákvörðun íslenskra stjórnvalda röng og auðvitað hefði verið rétt að leggja málið fyrir utanríkisnefnd, kalla hana saman þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður, eins og við framsóknarmenn höfum ávallt sagt. Það hefði verið rétt að gera það.

Það var harðstjórn í Írak, um það var ekki deilt, og eins og ég sagði ríkti ótti við það að gereyðingarvopn væru í höndum þess harðstjóra sem þar ríkti. Þetta var staðan sem uppi var á þessum tíma. Svo er náttúrlega mjög gott að vera vitur eftir á þegar það er komið í ljós að þarna hafa ekki fundist nein gereyðingarvopn. En harðstjórnin var staðreynd, það hefur ekkert breyst.

Í fyrsta lagi var þetta mál þannig vaxið að leyfa lendingar og yfirflug á Keflavíkurflugvelli og í öðru lagi að leggja fé í uppbyggingu í Írak. Það skiptir mestu máli núna að leitast við að tryggja öryggi íröksku þjóðarinnar en núna er því öryggi ógnað af innanlandsátökum. Mikilvægasta verkefnið er að styðja Íraka við lýðræðisumbætur og endurreisnarstarf í landinu. Að því eigum við að snúa okkur af fullum krafti. Með því að taka þátt í því af fullum krafti getum við gert okkur gildandi á þessum vettvangi. Þetta uppbyggingar- og endurreisnarstarf er unnið í umboði Sameinuðu þjóðanna og íslensk stjórnvöld hafa stutt það starf heils hugar í orði og verki með tæplega 400 millj. kr. framlagi sem hefur farið mest í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankann og stoðtækjafyrirtækið Össur.

Ég vil undirstrika að í þessu endurreisnarstarfi er mjög mikilvægt að við leggjum hönd á plóg til að stýra málum þannig að í framtíðinni, ef tekst að tryggja öryggi í Írak og koma á þar friði sem við vonum vissulega, ráði Írakar sjálfir yfir auðlindum sínum. Íslendingar eiga að tala fyrir því alls staðar sem því verður við komið. Það er óviðunandi að auðlindir Íraka fari í hendur annarra í þessu uppbyggingarstarfi.

Það er áfram ærið verk að vinna í Írak og erfiðleikarnir eru miklir en við megum þó ekki gleyma því að þar hafa orðið framfarir þrátt fyrir allt. Það hafa farið fram kosningar í Írak við afar erfiðar aðstæður með mikilli þátttöku svo dæmi sé tekið og við skulum ekki gleyma því í þeim hörmungum sem yfir þessa þjóð hafa dunið. Við skulum ekki heldur gleyma því að þjóðin bjó við harðstjórn og óöryggi áður en þessi hörmulegu átök dundu yfir hana.

Mér þykir satt að segja dálítið sérkennilegt að heyra upptalningu hv. 9. þm. Suðurk., Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þegar hann segir að það sé ekki gæfulegur félagsskapur og nefnir þar t.d. Lettland og Litháen, sem við höfum rækt vináttu við í mörg ár og heimsótt trekk í trekk og eru með okkur í alþjóðastarfi. Mér finnst þetta kaldar kveðjur til þessara þjóða og fleiri sem þarna eru taldar upp. (Gripið fram í.) Já, það getur vel verið að Rúanda sé ekki gæfulegur félagsskapur en mér finnst það samt nokkuð kaldar kveðjur til nágranna okkar í baltnesku löndunum að segja að þeir séu ekki gæfulegur félagsskapur.

Ég legg áherslu á uppbygginguna í Írak, ég legg áherslu á að þeirri uppbyggingu verði þannig háttað og því skipulagi sem þar kemst vonandi á að heimamenn ráði þar málum sínum, að heimamenn sjái um öryggismál (Forseti hringir.) í Írak og ráði yfir auðlindum sínum í framtíðinni og geti notað arðinn til þess að byggja landið upp.[16:46]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður greindi frá því að hann hefði á sínum tíma setið í ríkisstjórn og þar hefði sú ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak verið kynnt með eðlilegum hætti og nákvæmlega sama hætti og aðrar skyldar ákvarðanir.

Hæstv. landbúnaðarráðherra tók til máls fyrr í umræðunni og hann sagði að það væri af og frá að ríkisstjórnin hefði átt aðild að þeirri ákvörðun. Hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, lýsti því yfir að þetta mál hefði verið rætt eftir að ákvörðun var tekin af hálfu formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hér ber eitthvað á milli, frú forseti, og mér þykir því rétt að inna hv. þingmann eftir því í krafti vitneskju hans frá því að hann sat við ríkisstjórnarborðið hvort hann telji að ákvörðun hafi verið kynnt með eðlilegum hætti í fyrsta lagi og í öðru lagi hvort hann líti svo á að hann hafi verið aðili að þeirri ákvörðun með þátttöku í þeirri kynningu sem þarna var. Í þriðja lagi, var þetta ekki löngu eftir að búið var að taka þá afdrifaríku og skammarlegu ákvörðun?[16:48]
Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er mjög einfalt þó að reynt hafi verið að gera það flókið. Þessi ákvörðun var kynnt á fundi í ríkisstjórninni um það leyti sem innrásin var gerð. Hún var kynnt og henni var ekki andmælt í ríkisstjórninni. Þess vegna tel ég að ríkisstjórnin hafi vitað um þessa ákvörðun. Hún var tekin, en hún var kynnt ríkisstjórninni og var ekki andmælt þar. Og ég verð að segja það sem mína skoðun að þær ofsóknir, sem ég kalla bara ofsóknir, á hendur fyrrverandi utanríkisráðherra í þessu efni, sem hefur borið hitann og þungann af þeim, eru ekki til sóma og ég er fús til þess að bera minn hluta af þeirri ábyrgð með honum vegna þess að ég mótmælti ekki ákvörðuninni á sínum tíma. Ég tel mig alveg rísa undir því.

Ég viðurkenni það jafnframt að ég hafði ekki þær upplýsingar sem núna liggja fyrir og það höfum við framsóknarmenn margsinnis sagt.[16:49]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég finn til nokkurrar hluttekningar með hv. þingmanni að hafa setið í ríkisstjórn þar sem þessi ákvörðun var kynnt eftir að búið var að taka hana. Það var gert eftir að forustumenn ríkisstjórnarinnar höfðu samþykkt að Ísland yrði sett á lista þeirra þjóða sem studdu innrásina. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst sem það hefði verið mannsbragur af hálfu hans að standa þar upp og setja hnefann í borðið og segja: Ég mótmæli. Mér finnst ákaflega merkilegt að heyra það hér hjá hv. þingmanni að enginn hafi mótmælt þessu í ríkisstjórninni. Er hv. þingmaður að koma því á framfæri að varaformaður Framsóknarflokksins, sem á þeim tíma og síðar og aftur hér í dag lýsti því yfir að hann hefði með engu móti komið að þeirri ákvörðun, hefði á þeim tíma getað sett hnefann í borðið og mótmælt því? En það gerði hæstv. landbúnaðarráðherra ekki. Það má þá kannski segja að hv. þingmaður hafi verið að gefa það til kynna að í þessu máli hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið að sigla undir fölsku flaggi, því hann hefur mánuðum saman, ef ekki missirum saman látið að því liggja að hann hafi frá upphafi vega verið á móti þessari ákvörðun en hann hafi á engu stigi máls áður en ákvörðunarferli sleppti átt kost á því að koma því viðhorfi sínu á framfæri. Ég hef staðið í þeirri trú að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki lagt í að kynna þetta mál í þingflokkum ríkisstjórnarinnar og ekki heldur í ríkisstjórninni vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa fulltingi sinna flokka og ekki vald á málinu. Nú kemur í ljós að það var rangt hjá mér. Framsóknarflokkurinn stóð heill og óskiptur að þessari ákvörðun. Þess þá heldur ætti hann að gangast við mistökum sínum og biðjast afsökunar á þeim eins og forustumenn í stjórnmálum erlendis hafa síðar gert.[16:51]
Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt. Það var tvennt sem var kynnt í ríkisstjórn þennan morgun sem ég man vel eftir, því að mál sem þessi eru ekki á hverjum degi í umræðu, sem betur fer. Það var að leyfa yfirflug á Keflavíkurflugvelli og taka þátt í uppbyggingunni. Það var þetta tvennt sem var kynnt. Og þetta var með nákvæmlega sama hætti og við höfum tekið þátt í „átökum“ áður. Við tókum þátt í Kosovo-stríðinu með þessum hætti. Þetta var nákvæmlega það sem skeði þennan örlagaríka morgun. Þessu var ekki mótmælt í ríkisstjórninni. Menn höfðu miklar áhyggjur. Ég hafði miklar áhyggjur en þetta er staðreynd málsins.[16:52]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson kemur með mjög merkilegar upplýsingar, ég verð að segja það. Hann sagði áðan í ræðu sinni að þetta mál hefði verið kynnt í ríkisstjórninni þann 25. mars að morgni. Hann myndi mjög vel eftir þeim morgni, hann hefði haft miklar áhyggjur og þar fram eftir götunum.

Yfirlýsingin sem ég las upp áðan sem ég hef snarað yfir á íslensku frá Davíð Oddssyni, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, er frá 18. mars. Hún var send Bandaríkjamönnum viku áður en málið var tekið upp í ríkisstjórn Íslands samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hvíta hússins og þar er sagt beinum orðum, virðulegi forseti: Yfirlýsingin sem gefin er út af ríkisstjórn Íslands.

Hvað var hér á ferðinni? Við verðum að fá skýr svör, virðulegi forseti. Þetta mál er svo alvarlegt að það hlýtur að kalla á rannsókn og yfirheyrslur, jafnvel fyrir þingnefnd. Var hæstv. þáverandi forsætisráðherra og kannski líka hæstv. utanríkisráðherra að senda frá sér yfirlýsingar um þetta, um aðild Íslands að stríði í nafni ríkisstjórnarinnar, að henni forspurðri, viku áður en málið var lagt fyrir ríkisstjórn Íslands, einum og hálfum til tveimur sólarhringum áður en innrásin hófst? Getur það verið? Liggur svona í málinu? Miðað við þær upplýsingar sem nú hafa komið fram sýnist mér að svo sé. Héðan hafi verið send yfirlýsing í nafni ríkisstjórnarinnar viku áður en ríkisstjórnin var upplýst um málið. Virðulegi forseti, ekki batnar það.[16:55]
Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að leikaraskapurinn ríður ekki við einteyming hér í hv. Alþingi. Þessar upplýsingar hafa þráfaldlega komið fram í þingræðum áður og hv. 9. þingmaður Suðurkjördæmis er góður leikari, ég segi það bara. Það er alveg ljóst (MÞH: Ég er ekkert að leika þetta.) að þessi yfirlýsing var kynnt í ríkisstjórn á sínum tíma, sú ákvörðun var tekið með nákvæmlega sama hætti og áður hafði verið gert í svipuðum tilfellum og ríkisstjórninni var kynnt þessi ákvörðun og henni var ekki mótmælt. Menn hafa svo velt sér fram og aftur upp úr þessum dagsetningum en þær upplýsingar hafa komið fram ótal sinnum áður. Ég er því ekki að segja nein tíðindi hér. Þetta er bara nákvæmlega það sem skeði.[16:56]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er ekki að leika nokkurn skapaðan hlut. Ég er hins vegar að benda á að hér virðast vera alvarlegar gloppur í málflutningi.

Yfirlýsingin er send Hvíta húsinu 18. mars. Innrásin hefst rétt fyrir miðnætti 19. mars. Hv. þm. Jón Kristjánsson segir að málið hafi verið kynnt fyrir ríkisstjórninni og þar hafi verið tekin ákvörðun 25. mars. Þessi svokallaði listi vegna aðgerðarinnar „Frelsi Íraks“ er lagður út á heimasíðu Hvíta hússins 26. mars, daginn eftir ríkisstjórnarfundinn á Íslandi. „For Immediate Release“ birtist strax 26. mars. Þá er innrásin búin að standa yfir í tæpa viku, herirnir eru nær komnir til Bagdad, orrustan geisar sem aldrei fyrr, mannfallið er mikið og hefur ekki minnkað síðan og enginn veit hvernig þessar hörmungar munu enda.

Mig langar líka til að koma inn á annað, virðulegi forseti, þar sem hv. þm. Jón Kristjánsson réttlætir þessa innrás með því að það hefði verið einræðisherra í Írak sem hugsanlega hefði ráðið yfir kjarnorkuvopnum. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, ef þetta á að gilda sem ástæða til innrásar í fullvalda ríki vítt og breitt um heiminn, þá spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki gert innrás í Pakistan? Þar er einræðisherra sem rændi undir sig völdum, Pervez Musharraf. Ég var að ljúka við að lesa ævisögu hans í gær sem er nýkomin út. Pakistan er með kjarnorkuvopn, hann er einræðisherra. Pakistan hefur meira að segja dreift upplýsingum um kjarnorkuvopn til landa eins og Norður-Kóreu. Hvers vegna í ósköpunum eru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ekki lagðir af stað í herferð til Pakistans?[16:58]
Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að þessi lógík er dálítið sérkennileg en hún passar við þann málflutning sem hefur verið síðustu fjögur árin í þessu máli. Saddam Hussein hafði verið almennilegheitamaður og jafnréttissinni og þar fram eftir götunum. Það er málflutningurinn sem hefur verið. Ég er ekki að réttlæta þetta árásarstríð. (Gripið fram í.) Það er margbúið að segja að þetta var byggt á röngum upplýsingum og ef menn hefðu haft þær upplýsingar í höndunum hefði ákvörðunin vafalaust verið á annan veg. Þessi styrjöld var byggð á röngum upplýsingum en ákvörðunin var kynnt og þessi margumtalaði listi var einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna og það var ekki kynnt á ríkisstjórnarfundi að við værum á neinum lista heldur er það nákvæmlega eins og þingmaðurinn segir. Listinn birtist 26. mars og er bara einhliða ákvörðun og áróðursplagg Bandaríkjamanna í málinu og var ekki borinn undir ríkisstjórn Íslands og er, eins og fram hefur komið hjá hæstv. iðnaðarráðherra, plagg Hvíta hússins og ber ekki að taka hann sem lögformlegt skjal í þessu máli.[17:00]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er afar athyglisverð umræða fyrir margra hluta sakir, þar á meðal þær að Sjálfstæðisflokkurinn er enn fjarverandi í umræðunni og spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að sýna lit, reyna nokkra málsvörn. Auðvitað er hæstv. utanríkisráðherra til svara og það er rétt og skylt. En ég verð að segja að þessar tilraunir til kattarþvottar af hálfu framsóknarmanna eru óskaplega brjóstumkennanlegar. Maður mundi bera virðingu fyrir því ef framsóknarmenn viðurkenndu, þótt seint væri, hrein mistök, bæðust afsökunar og reyndu að koma málinu af sér þannig. En eitthvað torveldar þeim það. Menn geta auðvitað ekki skilið við þetta mál á meðan það er eins og það er.

Það er algerlega fráleit málsvörn að annars vegar sé um að ræða ómerkilega fréttatilkynningu sem engu máli skipti eða þá að menn hafi verið í góðri trú og verið plataðir með röngum upplýsingum. Hvernig stendur á því að allar hinar þjóðirnar létu ekki plata sig? Það var vegna þess að það lágu fyrir miklu meira en nógar upplýsingar um að engar þjóðréttarlegar forsendur væru fyrir því að ráðast á Írak. Hvers vegna var listinn Bandaríkjamönnum svona mikilvægur? Það var vegna þess að þeir voru að reyna að fá yfirbragð lögmætis á ólöglega innrás í land, sem brýtur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég mótmæli því, hver sem það segir, hvort sem það er hæstv. landbúnaðarráðherra, hv. þm. Jón Kristjánsson eða hver annar, að menn geri út á eymd og hörmungar og hvernig allt hefur farið á versta veg í Írak þótt þeir vilji hreinsa þessi mál í íslenskum stjórnmálum. Þar er hreingerningin eftir.

Noregur er í NATO eins og við, á í miklu samstarfi við Bandaríkin eins og við og var beittur gríðarlegum þrýstingi en stóð hann af sér og studdi ekki innrásina. Noregur var ekki á listanum. Ég hef fyrir því orð fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondeviks, að Noregur hafi sjaldan ef nokkurn tíma verið beittur öðrum eins fantaþrýstingi eins og sólarhringana á undan innrásinni í Írak. En það mega Norðmenn eiga að þeir stóðust þann þrýsting. En hægri leppstjórnirnar, hægri undirlægjustjórnirnar á Íslandi og í Danmörku, fóru á listann og auðvitað snýst þetta um það. Þetta voru hægri undirlægjuríkisstjórnir auk þess sem ríkisstjórnin hefur hugsanlega talið að hún ynni sér í hag í væntanlegum viðræðum um veru Bandaríkjahers í Keflavík. Þetta er einn ljótasti bletturinn á íslenskri utanríkismálasögu og fleinn í holdi alþjóðasamfélagsins vegna þess að þarna var stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna brotinn fyrir allra augum.

Það dugar ekkert minna ef á að taka til í þessum málum á heimavelli en að viðkomandi stjórnmálamenn, þótt þeir hafi látið af embætti, biðjist afsökunar og verði jafnstórir í stykkinu og Colin Powell og aðrir þeir sem það hafa gert. (Gripið fram í: Komi fyrir rannsóknarnefnd.)

Í öðru lagi þarf ríkisstjórn, vegna þess að málið var á hennar höndum sem framkvæmdarvalds, að biðjast afsökunar, þingið sem var hunsað, íslensku þjóðina sem var svikin og íröksku þjóðina sem nú hefur týnt lífi hundruðum þúsunda út af þessu ástandi. Síðan þarf að gera eitt, virðulegur forseti. Það þarf að tryggja að svona lagað endurtaki sig aldrei, að tveir menn geti slíkt eða kannski var það bara einn maður sem tók ákvörðun um að misnota nafn Íslands á alþjóðavettvangi, hringdi í annan mann og sagði honum að þannig yrði það að vera. Smátt og smátt á tveimur til þremur árum kom atburðarásin upp úr myrkrunum og hún var þannig að þessi dæmalausa ákvörðun var tekin á hlaupum og að hluta til í gegnum símann. Hver var það nema bandaríski sendiherrann sem mætti í Stjórnarráðið og sat þar frammi og tók á móti boðskapnum.

Einhver eftiráumfjöllun í ríkisstjórn Íslands breytir engu nema því að auka smán þeirra ráðherra sem ekki notuðu tækifærið og mótmæltu. Hún gerir ekki annað. Auk þess er ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald og það hefði ekki breytt öllu pólitískt séð eða lagalega hvað varar ábyrgð ráðherra. En málið var þarna á ábyrgð forsætisráðherra og utanríkisráðherra og þeir fóru svona með völd sín. Það var ekki einu sinni borið upp í ríkisstjórn, sem þó þykir góð stjórnsýsluhefð ef málið er stórt og afdrifaríkt, að ríkisstjórnin sem slík standi öll á bak við það. Það var ekki gert. Utanríkismálanefnd Alþingis var hunsuð og þar með lög brotin. Þannig var að málinu staðið.

Síðast þegar utanríkisráðherra kom fyrir utanríkismálanefnd, nokkrum vikum áður en þessi afdrifaríka kúvending varð, fór hann með sömu línu í málinu og hann gerði opinberlega á sama tíma. Hver var hún? Að tvennt réði afstöðu Íslands: Vopnaeftirlitið ætti að fá meiri tíma og að nýja ályktun þyrfti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna áður en farið yrði í aðgerðir. Svo seint sem 17. mars 2003 sagði Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, þetta. En á sólarhring er blaðinu snúið við og aðgerð sem ekki byggir á sjálfstæðri samþykkt öryggisráðsins studd. Menn setja sig á alþjóðlegan lista því til stuðnings og vopnaeftirlitinu og beiðni þess um meiri tíma er gefið langt nef.

Utanríkisráðherra snýr stefnunni við án þess að ræða þá áherslubreytingu Íslands í utanríkismálanefnd og sá fáheyrði atburður verður að Ísland er allt í einu orðinn stuðningsaðili í ólögmætu árásarstríði í fjarlægu landi. Það birtist þjóðinni á erlendum sjónvarpsskjám og kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir menn, að sögn ýmissa sem stóðu meira að segja býsna nærri ríkisstjórninni.

Þetta er svo fráleitur atburður á allan hátt, hvernig sem hann er skoðaður: stjórnskipulega, lagalega, pólitískt eða siðferðilega, að engu tali tekur. Veran á listanum er pólitískur og siðferðislegur stuðningur við þau svívirðilegu lögbrot sem þarna eiga sér stað, brot á alþjóðalögum. Það er grafalvarlegt. Síðan er ástandið jafnskelfilegt og raun ber vitni og þetta hefur reynst það fúafen sem varað var við. Einn helsti sérfræðingur Íslendinga á þessu sviði, prófessor í Bandaríkjunum, var opinberlega búinn að vara við því. Það var ekki mikið hlustað á hann né nokkurn annan sem varaði við því sem gerast mundi. Það lá fyrir að mjög margir virtir þjóðréttarfræðingar í heiminum sögðu: Það verður brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna ef þetta verður gert án undangenginnar og sjálfstæðrar samþykktar í öryggisráðinu. Þetta vissu menn. Það að bera fyrir sig upplýsingaskort, rangar upplýsingar og að þeir hafi verið í góðri trú eða plataðir, er engin málsvörn.[17:08]
iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sem talaði hér síðastur er að vísu alvanur að gleyma sér algerlega í ræðustól en nú mælti hann nokkur merkileg orð, þ.e. um að gefa yfirbragð lögmætis. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef verið að tala um í umræðunni um þennan lista. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi ágætu orð, „yfirbragð lögmætis“. Það er nákvæmlega það sem er að tilefnislausu verið að gera með þessari þingsályktunartillögu. Að öðru leyti er hv. þingmaður margmáll, skömmóttur og orðhákur til vansa eins og kom fram í þessari ræðu.[17:09]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá málflutningur, að tillaga á Alþingi um að menn afturkalli með formlegum hætti stuðning sinn við þessar aðgerðir, sem var gefinn ranglega og með ólögum af hálfu ríkisstjórnar Íslands eða tveggja ráðherra fyrir hennar hönd og að menn lýsi því yfir að þetta hafi verið mistök, hafi eitthvert réttargildi gagnvart stuðningsyfirlýsingunni eins og hún er meðhöndluð og birt í Bandaríkjunum er nú einhver langsóttasta túlkun sem ég hef á ævi minni heyrt. Eða heldur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra virkilega að það umsnúi málinu ef fjallað er um það með þeim hætti á Alþingi Íslendinga? Það er auðvitað fjarri öllu lagi og þarf ekki frekari rökræðna við.

Auðvitað voru tilraunir Bandaríkjamanna við að safna sjálfstæðum ríkjum á lista sem stuðningsaðilum aðgerðanna viðleitni til að þeir stæðu ekki jafnberskjaldaðir gagnvart alþjóðasamfélaginu með brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna á bakinu þegar þeir ákváðu að gefast upp á að fá nýja ályktun í gegnum öryggisráðið og ráðast samt á Írak, eins og þeir höfðu ætlað sér lengi. Þess vegna er þessum hópi safnað saman, til að reyna að segja að svo mikill pólitískur stuðningur sé við innrásina í alþjóðasamfélaginu hvort sem er.

Við getum gefið orðavali okkar og ummælum allar þær einkunnir, frú forseti, sem við viljum. Það mun engu breyta um að Framsóknarflokkurinn flýr ekki hinn efnislega veruleika í þessu máli. Hvort sem ég er stórorður eða ekki þá er hinn efnislegi veruleiki eins og hann er, að Framsóknarflokkurinn hefur ekki haft mátt til þess að biðjast afsökunar á að standa að þessum grófu brotum á alþjóðalögum og standa að þeirri dæmalausu aðgerð sem leitt hefur til ástandsins í Írak, það er allt efnislegur veruleiki.[17:12]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er að mörgu leyti athyglisverð umræða. Það sem mér finnst athyglisverðast er að sá flokkur sem ber kannski mesta ábyrgð á málinu, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur verið fjarverandi í umræðunni. Enginn þingmanna þeirra eða ráðherra hefur tekið til máls eða er á mælendaskrá. Lengst af í þessari umræðu var enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í salnum. Það var ekki fyrr en hæstv. forseti, sem er fyrir aftan mig, þurfti að leysa af annan forseta að það sást sjálfstæðismaður í þingsalnum. Síðan er ung kona hér sem veifar mér og minnir á sig og er rétt að geta hennar hérna. En svona tekur Sjálfstæðisflokkurinn þessari umræðu. Hann tekur ekki þátt í að reyna að verja þetta mál.

Málsvörn ráðherra Framsóknarflokksins hefur verið að mestu leyti þannig að Bandaríkjamenn hafi tekið ákvarðanir að Íslendingum fornspurðum. Ég held að menn ættu ekki að reyna að feta þá slóð öllu lengur. Því hefur verið lýst á fyrri stigum málsins, m.a. í viðtölum við fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, hvernig málið bar að og hvernig ákvörðun var tekin utan ríkisstjórnarfunda. Það er alveg víst að ákvörðun var tekin með vitund og vilja formanna stjórnarflokkanna. Það var ekki tekin ákvörðun að þeim fornspurðum.

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir um þetta mál, með leyfi forseta:

„Þátttaka á lista hinna staðföstu þjóða fólst í pólitískri yfirlýsingu og henni fylgdu ekki aðrar skuldbindingar á því stigi. Þær pólitísku yfirlýsingar voru gefnar af réttum aðilum og voru í fullu samræmi við margendurteknar yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkanna, um að ekki væri hægt að útiloka valdbeitingu í Írak.“

Enn fremur segir Davíð Oddsson, með leyfi forseta:

„Að því hefur verið fundið að ekki sé til bókuð samþykkt ríkisstjórnarinnar um efnið. Þetta er á misskilningi byggt. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Utanríkisráðherra fer, með atbeina forsætisráðherrans, þegar það á við, með ákvörðun af þessu tagi. Enginn ágreiningur var um hana í röðum ráðherra.“

Þeir tóku þessa ákvörðun meðvitað áður en atburðirnir gerðust. Það er upplýst að ákvörðun var ekki tekin í ríkisstjórn en hún var kynnt síðar og ráðherrarnir undu henni, þar á meðal hæstv. landbúnaðarráðherra. Ráðherrar sem sitja eftir að ákvörðun hefur verið tekin og una henni bera líka ábyrgð á henni. (Landbrh.: Hvað gerði hv. þingmaður?) Þeir bera líka ábyrgð á henni, virðulegi forseti, og það þýðir ekkert fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra að reyna að hlaupa frá ábyrgðinni (Landbrh.: Hvað gerði hv. þingmaður?) með því að halda því fram að hún hafi ekki verið tekin með hans vitund. (Landbrh.: Hvað gerði þingmaðurinn?) Hann undi ákvörðuninni, virðulegi forseti, hæstv. landbúnaðarráðherra og situr enn, (Landbrh.: Ekki sagði hann af sér, hv. þingmaður.) situr enn í ríkisstjórninni en hann neitar að axla hina pólitísku ábyrgð. Það er kannski einkenni ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili að menn neita að axla pólitíska ábyrgð. Það er stóra málið í þessu.

Þessir tveir menn fóru fram hjá ríkisstjórninni, fóru fram hjá Alþingi og þeir fóru fram hjá þingmönnum. Ákvörðunin var ekki borin undir ríkisstjórn, ekki undir utanríkismálanefnd og hún var ekki borin undir þingflokka stjórnarflokkanna. (Landbrh.: Rétt.) Þegar ég upplýsti það, virðulegi forseti, svo ég hressi upp á minni hjá hæstv. landbúnaðarráðherra, að þingflokkur framsóknarmanna hefði ekki verið spurður um álit á þessu máli þá var ég sagður segja ósatt. Menn sögðu að ég segði ósatt (Landbrh.: Ekki ég.) og hæstv. landbúnaðarráðherra kom mér ekki til varnar. Þá þagði hann. Hjartað var ekki stærra en svo að hann gat ekki staðið með sannleikanum. Hann gat ekki staðið með því sem var rétt. Hann stóð með sjálfum sér af því að hann vildi fá að sitja í stólnum, virðulegi forseti.

Þetta þarf að gera upp í þessum kosningum, þ.e. meðferð valdsins. Vill þjóðin hafa í ríkisstjórn flokka sem sniðganga þingræðisregluna, sem virða ríkisstjórnina að vettugi þegar þeim hentar? Þeir virða þingið að vettugi þegar þeim hentar og virða þingflokkana að vettugi og finnst það allt í lagi og finnst þeir ekki þurfa axla neina ábyrgð eða afsaka nokkuð í þeim efnum. Vilja menn hafa svoleiðis stjórnvöld áfram, virðulegi forseti? Eða vilja menn hafa stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem virða þingið, sem virða almenning og gera eitthvað annað en hlýða tveimur foringjum, beygja sig fyrir tveimur foringjum af því að þeir eru svo hræddir um eigið embætti og stöðu að þeir þora ekki að segja neitt, ganga jafnvel svo langt að níðast á þeim sem það þora?

Á þessu þarf að verða breyting, virðulegi forseti, í næstu kosningum, að menn verði settir við stjórnvölinn sem virða þingræðið og lýðræðislegar leikreglur. Ég held að það sé tímabært að menn dragi það fram og beri undir kjósendur fremur en að þræta um hvað var sýnt í ríkisstjórninni á hverjum tíma deginum fyrr eða seinna. Menn bera ábyrgðina og menn verða að axla hana og það þýðir ekki að reyna að flýja hana með einhverju orðaskaki, virðulegi forseti.[17:18]
Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Það hefur verið mikið rætt um þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og er til umræðu í dag, og er ekki skrýtið enda um að ræða stórt mál í íslenskum stjórnmálum, alþjóðastjórnmálum og fyrir alþjóðasamfélagið í heild sinni.

Ég verða samt að segja, frú forseti, að mér hefur á stundum þótt umræðan heldur ótrúleg. Mér hefur fundist menn nota þetta grafalvarlega mál til að slá pólitískar keilur, innanríkiskeilur eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra orðaði það í lok þings og í aðdraganda þessara kosninga. Málið er grafalvarlegt fyrir okkur öll, fyrir alþjóðasamfélagið, að ég tali nú ekki um íbúa Íraks. (Gripið fram í: Og …) Það er staðan sem við þurfum að horfast í augu við.

Við framsóknarmenn höfum viðurkennt og tekið fyrir í okkar röðum að um ranga ákvörðun hafi verið að ræða og að ákvörðunin hafi verið mistök. Það hefur formaður okkar flokks gert á okkar vettvangi, á miðstjórnarfundi okkar fyrr í vetur, og það liggur fyrir að við munum ræða málið á okkar vettvangi nú um helgina, á flokksþingi okkar framsóknarmanna. Því finnst mér alveg ótrúlegt að umræðan hér skuli ganga öll út á það að um einhvern kattarþvott sé að ræða fyrir Framsóknarflokkinn.

Ef menn horfa á staðreyndir málsins er það þannig að í fyrsta lagi hefur Framsóknarflokkurinn gengið í gegnum einar alþingiskosningar eftir að þessi ákvörðun var tekin. Var málið okkur þar erfitt. Því er ekki hægt að leyna, ekki einungis erfitt innan okkar raða, heldur líka í kosningabaráttunni allri og æ síðan. Við höfum axlað ábyrgð og ég tel okkur hafa liðið fyrir þessa ákvörðun okkar á sínum tíma, að hafa staðið að henni. Við höfum liðið fyrir hana, vegna þess að hún var líka mistök, og við höfum kannski átt það að vissu leyti skilið. En við þorum að horfast í augu við þetta, viðurkenna þetta og ganga fram fyrir skjöldu með það. Að umræðan öll í dag skuli síðan snúast um Framsóknarflokkinn er ótrúlegt. Ég ætla svo sem ekkert að undanskilja okkur, enda verðum við að axla þá ábyrgð í þessu máli, en að hv. stjórnarandstaða skuli fjalla um málið eins og hún hefur gert í dag finnst mér ótrúlegt. Þetta sýnir að menn eru ekki að tala um þetta út frá einhverjum efnisatriðum eða alvöruatriðum málsins, heldur einungis í pólitískum tilgangi, einungis í þeim tilgangi að koma höggi á Framsóknarflokkinn og formann flokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það finnst mér mjög alvarlegt og mér finnst það leiðinlegt. Mér finnst það hvorki þessu þingi til sóma né þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Það er sannarlega mikilvægt að ræða þessi mál. Eins og ég segi höfum við tekist á um þetta í okkar flokki, innan okkar raða, og það var auðvitað þannig að eins og þjóðin öll veit erum við herlaust land sem hefur ekki viljað lýsa yfir stríði á hendur annarri þjóð. Auðvitað var þetta mál erfitt fyrir Framsóknarflokkinn rétt eins og alla þjóðina. Frambjóðendur í alþingiskosningunum 2003 í okkar röðum lýstu sjálfir yfir andstöðu við málið og þáverandi formaður okkar þurfti að takast á við það innan okkar raða.

Sömuleiðis hefur þetta mál haft áhrif á stjórnmálaferil þeirra aðila sem komu að ákvörðuninni í upphafi. Því verður ekki neitað, það liggur alveg fyrir. (Gripið fram í: Nú?) Bæði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, eru hættir þátttöku í stjórnmálum. (Gripið fram í.) Ég tel að það hafi m.a. verið vegna þessa máls, ég held það. Og ég held að að einhverju leyti fylgi þetta mál þeim og þeirra stjórnmálaferli sem var þó eins og fyrir fyrrverandi formann Framsóknarflokksins langur og glæsilegur og hann átti á margan hátt merkilegan stjórnmálaferil. (MÞH: … Guðni mátti ekki verða formaður?) Þetta hefur líka haft áhrif langt út fyrir íslensk stjórnmál. Þetta hefur sömuleiðis haft áhrif á stjórnmálaferil annarra aðila sem að þessu máli hafa komið í erlendri alþjóðapólitík og nægir þar að horfa bæði til Bretlands og Bandaríkjanna. Við höfum horfst í augu við þessi mistök okkar og viðurkennt þau og nú er mest um vert að halda áfram, við hljótum að þurfa að læra af málinu. Við hljótum að þurfa að læra að sambærilegar ákvarðanir verða aldrei teknar með sambærilegum hætti. Þær hljóta að fara í gegnum þær stofnanir þingsins og stofnanir landsins sem eðlilegt er að svona mál fari í gegnum. Það er alveg greinilegt að umræðan ber merki um herkænsku í aðdraganda kosningabaráttunnar og mér finnst leiðinlegt að sá stimpill sé á málinu. Málatilbúnaðurinn lýsir því ef til vill hv. stjórnarandstöðu rétt.

Frú forseti. Eins og ég sagði er alveg ljóst að það þarf að axla ábyrgð í þessu máli og það tel ég okkur hafa gert og munum eflaust þurfa að gera áfram. Við þorum að ræða um þetta og mér finnst ótrúlegt hvernig stjórnarandstaðan hefur kosið að ráðast á annan stjórnarflokkinn í þessari umræðu en lætur Sjálfstæðisflokkinn alveg í friði. Ég verð reyndar að undanskilja þar tvo þingmenn, svo að ég fari rétt með, bæði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vöktu máls á því í ræðum sínum. Ef ég man þetta rétt heyrði ég það ekki í ræðum annarra hv. þingmanna.

Nú, frú forseti, hrannast óveðursskýin aftur upp yfir Miðausturlöndum og það er alveg ljóst að Íslendingar þurfa að fylgjast vel með málum. Við þurfum að ræða það á okkar vettvangi hér með hvaða hætti við viljum taka þátt í þeirri umræðu innan alþjóðasamfélagsins sem fram undan er í þeim málum.

Ég ætla að ljúka máli mínu, enda krefst tíminn þess. Ég vil segja að lokum að það sem skiptir höfuðmáli er að við stöndum við skuldbindingar okkar um að standa að uppbyggingunni í Írak og vonandi fer þeirri óöld sem þar ríkir að ljúka svo að íbúar þess lands geti átt kost á að byggja þar upp lýðræðislegt samfélag og að auðlindir þess lands verði í höndum íbúanna sem þar búa svo að þeir geti ráðstafað þeim og byggt sér frelsi til framtíðar.[17:26]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var á margan hátt athyglisverð en samt sem áður líka einkennileg ræða. Fyrst hefur Framsóknarflokkurinn vörn sína á því að reyna að gera lítið úr málinu og lítið úr efni þessarar þingsályktunartillögu. Þegar það gengur ekki er reynt að kasta út öðru spili og það er samúðarspilið. Það er reynt að vekja samúð með því að væla yfir því að hér sé verið að djöflast á Framsóknarflokknum en Sjálfstæðisflokkurinn sleppi. Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir ætti að gera sér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að lítið er talað um Sjálfstæðisflokkinn er einfaldlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn svíkur enn og aftur bandamenn sína í ríkisstjórninni, þ.e. Framsóknarflokkinn. Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast þó að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hlaupið í felur um leið og þessi umræða hófst. Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast. Við hefðum svo gjarnan viljað fá að eiga orðastað við ýmsa þingmenn Sjálfstæðisflokksins, svo gjarnan, en því miður hlaupa þeir í felur. Framsóknarflokkurinn má þó eiga það að hann reynir af veikum mætti að færa fram einhverjar varnir í málinu (Landbrh.: Sterkum.) — af veikum mætti, því miður, hæstv. landbúnaðarráðherra.

Hér kom merkileg yfirlýsing um það að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefðu hætt í stjórnmálum vegna þess að þeir tóku þetta stríð svo nærri sér, það hefði gengið svo nærri þessum mönnum. Við erum enn með sama varaformanninn í Framsóknarflokknum og hann stendur hér fyrir framan mig. Kannski varð hann ekki formaður í Framsóknarflokknum vegna þess að hann þagði þegar mest reið á að einhver stæði upp og segði stopp, ég skal ekki um það segja.

Við höfum töluna fyrir framan okkur sem sýnir okkur hvað málið er alvarlegt. 654.965. Og ég minnist orða Harolds Pinters Nóbelsverðlaunahafa sem spurði í erindi sínu þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 2005: Hversu margar manneskjur þarftu að myrða til að geta talist stríðsglæpamaður? (Forseti hringir.) 100 þús.? spurði hann. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Meira en nóg.[17:28]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni orða hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur leyfi ég mér að benda henni á að ég fór jafnófögrum orðum um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn í ræðu minni áðan. Ég veit ekki hvort hún var að hlusta. Ég vil að það liggi alveg fyrir. Hins vegar, eins og á hefur verið bent, liggur málið þannig að Sjálfstæðisflokkurinn skilur Framsóknarflokkinn eftir í þessum pytti eins og svo mörgum öðrum. Þannig er nú komið fyrir 12 ára gömlu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en ekki ætla ég að hafa áhyggjur af því stjórnarsamstarfi enda lýkur því 12. maí næstkomandi.

Vegna umkvartana hv. þingmanns var það einfaldlega þannig að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður hennar flokks, gaf tilefni til þeirrar umræðu sem hér hófst með því að þar upphófst hin mikla fréttatilkynningarumræða um tegund og eðli skjalsins en ekki um hina pólitísku ábyrgð flokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, og þáverandi foringja þeirra sem nú hafa báðir hrökklast úr stjórnmálum, ef marka má orð Sæunnar Stefánsdóttur, vegna stuðningsins við innrásina í Írak. Þetta snýst ekki um einhvern pappír í Hvíta húsinu, þetta snýst um pólitískan stuðning þessara flokka við innrásina í Írak. Undan því verður ekki vikist og um það snýst það þingmál sem hér um ræðir, að draga til baka þennan pólitíska stuðning þar sem hægt er að draga hann til baka, þ.e. með ályktun frá Alþingi Íslendinga.[17:30]
Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Menn mega ekki skilja mig þannig að ég víkist undan ábyrgð í þessari umræðu og ég vorkenni okkur ekkert að þurfa að sitja undir ræðum hv. þingmanna í stjórnarandstöðunni, svo er ekki. Það eflir okkur og styrkir enn frekar að standast þau áhlaup.

Ég benti á, og ég leiðrétti mig þá hvað varðar ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, ef ég hef misst af því, að við þurfum öll sem að málinu höfum komið að bera okkar pólitísku ábyrgð. Það teljum við okkur hafa gert og það hefur klárlega komið fram. Mér hefur fundist sem verið sé að snúa út úr orðum manna hér í dag.

Aðalatriðið er að um ranga ákvörðun eða mistök var að ræða. Við höfum borið þá pólitísku ábyrgð og munum gera það áfram. Nú horfum við fram á veginn, við lærum af mistökunum og sjáum til þess að þau endurtaki sig ekki.[17:32]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá blasir við að það eina rétta að gera fyrir þingmenn Framsóknarflokksins á Alþingi er að samþykkja ályktunina eins og hún liggur fyrir. Þetta liggur þannig: Ákvörðunin var röng, þetta voru mistök, og leiðin til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum fyrir þingi og þjóð, að allir geri það — nema líklega Sjálfstæðisflokkurinn sem er væntanlega forhertari en nokkru sinni fyrr í stuðningi sínum við stríðið í Írak — er að samþykkja fyrirliggjandi ályktun. Þetta er eins og gjöf upp í hendurnar á Framsóknarflokknum miðað við stöðuna eins og hún er núna.

Vegna orða hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur áðan um að einhver kænska felist í því að fara að tala um þetta þingmál og Íraksstríðið í aðdraganda kosninga þá er það einfaldlega svo að málið sem um ræðir er 13. mál fram lagt á yfirstandandi löggjafarþingi. Sú staðreynd að það skuli vera rætt núna, 1. mars, ber því ekki vitni um herkænsku heldur aðallega um vinnubrögðin á hinu háa Alþingi.[17:33]
Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er einmitt vottur um það. Ég veit ekki betur en hv. stjórnarandstaða hafi fengið tækifæri til að ræða þingmál sín í vetur og hafi sjálf haft með höndum að forgangsraða með hvaða hætti þingmál hennar væru rædd á þinginu. Þingflokkarnir fengu tækifæri til þess að forgangsraða sínum málum til að koma þeim á dagskrá. Því tel ég að það sé engin tilviljun að málið sé rætt í dag, í lok þings, í aðdraganda þessara kosninga.

Það er svo sem útúrsnúningur að vera að ræða það. Aðalatriðið er, eins og ég hef sagt áður, að horfast í augu við þau mistök, læra af þeim og horfa síðan fram á veginn.[17:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það stoðar ekki að nota það sem rök að tillagan sé seint til umræðu. Við höfum tekið þetta mál upp á hverju einasta þingi og flutt um það þingmál, um rannsókn þessara atburða og um að formlega verði beðist afsökunar á þeim. Tilviljanir valda því að að þessu sinni og á þessu þingi er málið svona seint á ferð.

Vandinn er sá fyrir Framsóknarflokkinn að pólitísk ábyrgð hans í málinu gufar ekki upp þó að flokknum kunni að líða illa með það. Það er vissulega hægt að hafa samúð með hv. þingmanni sem ekki var á þeim stað sem hún er nú þegar umræddir atburðir urðu. Það breytir engu um hina pólitísku ábyrgð Framsóknarflokksins á málinu. Þar dugar ekkert annað en hrein afsökunarbeiðni. Sú er hefðin í tilvikum af þessu tagi, í samskiptum í pólitík og í samskiptum milli þjóða. Þess er krafist víða um heim að þjóðir eða þjóðríki biðji afsökunar jafnvel á áratuga- næstum aldagömlum atburðum ef sagan hefur leitt í ljós, og viðhorf hafa breyst á þann veg, að menn sjá að þar hefur einhver óhæfa átt sér stað.

Það er t.d. fleinn í holdi samskipta Asíuþjóða að Japanar neita að biðja formlega afsökunar á grimmdarverkum sínum í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar á Kóreuskaganum, í Norður-Kína og víðar. Krafan stendur á þá að biðjast afsökunar. Krafan stendur á Tyrki að viðurkenna þjóðarmorð á Armenum og biðjast afsökunar. Við erum að tala um að menn axli ábyrgð með þessum hætti en ekki bara með því að segja: Ja, nú hefur komið í ljós að ákvörðunin var misráðin vegna þess að aðrar upplýsingar liggja fyrir o.s.frv.

Forherðing Sjálfstæðisflokksins, sem hunsar umræðuna, bætir heldur ekki stöðu Framsóknar, hún gerir það ekki. Hin pólitíska ábyrgð er áfram til staðar.

Hv. þingmaður var óheppinn þegar hann nefndi að auðlindir Íraks þyrftu nú að komast í hendur almennings þar. Ætli ein afleiðing þessa skelfilega stríðs sé ekki m.a. sú að allar olíuauðlindir Íraka eru að verða komnar í hendur amerískra og breskra auðhringa? Þannig fór það nú.

Að lokum (Forseti hringir.) þarf að tryggja að svona lagað gerist aldrei aftur. Þess vegna hefur maður nú m.a. spurt (Forseti hringir.) ríkisstjórnina: Getið þið lofað okkur því að leikurinn endurtaki sig ekki gagnvart Íran? Þá er engu svarað.[17:36]
Forseti (Sigríður A. Þórðardóttir):

Forseti verður að ætlast til þess af hv. þingmönnum að þeir virði reglur um ræðutíma.[17:36]
Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók einmitt síðastnefnda atriðið fyrir í ræðu minni áðan, það er nefnilega akkúrat það að læra af þessu máli og horfa til framtíðar. Það er alveg ljóst að í alþjóðasamfélaginu er það fram undan að takast á við óveðursský sem hrannast upp í Miðausturlöndum. Mér finnst því einhlítt að þau mál séu rædd og gerði ég tilraun til þess í ræðu minni áðan.

Mér finnst að við Íslendingar eigum að lýsa því yfir að við munum ekki standa að álíka árás, innrás eins og gerð var í Írak á sínum tíma. Það er afstaða mín í málinu.[17:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti því og veit að hv. þingmaður er einlægur í því. Ég hvet hv. þingmann til að beita sér við samflokksmenn sína og samstarfsflokk í ríkisstjórn. Mjög nýlega spurði ég hæstv. forsætisráðherra hvort hægt væri að gefa okkur afdráttarlausa yfirlýsingu um að leikurinn muni ekki endurtaka sig. Því var svarað út og suður. Því var svarað með því að engin formleg beiðni hefði borist um slíkt og því ekki á dagskrá að ræða það, þess þyrfti ekki.

Ef við viljum virkilega læra af þessu máli þurfum við að binda í lög og helst í stjórnarskrá þannig ferli að menn geti aldrei misfarið með vald sitt á þennan hátt. Það á ekki að vera hægt að skuldbinda Ísland með þessum hætti, gera það að stuðningsaðila stríðsaðgerða, fyrr en að undangengnu lögformlegu ferli í gegnum utanríkismálanefnd og Alþingi og þingflokka — enginn einn eða engir tveir menn eiga nokkurn tíma aftur að geta látið aðra eins óhæfu verða.[17:38]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur vakið athygli mína í dag að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fengið pláss fyrir sína menn á ræðulistanum. Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki sóst eftir því að fá pláss á ræðulistanum, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið vita af því að svo mikið sé um að vera í flokknum að hann geti ekki tekið þátt í umræðum. Ef svo væri hefði verið ástæða til að reyna að finna umræðunni annan tíma svo að sjálfstæðismenn gætu tekið þátt í henni.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvernig stendur á því að hér vantar Sjálfstæðisflokkinn til þess að ræða málin?

(Forseti (SAÞ): Á dagskránni er mál sem var ljóst í morgun að væri á dagskrá. Í þinginu er málfrelsi þannig að hver þingmaður sem hefur hug á því getur tekið þátt í umræðum.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Það liggur þá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki óskað eftir því að umræðan færi fram á öðrum tíma. Það er þá niðurstaðan að Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur hefur ekki áhuga á að ræða þau mál sem rædd hafa verið hér. Af því er mikill skaði vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeirri vegferð sem verið er að ræða.[17:40]
Forseti (Sigríður A. Þórðardóttir):

Forseti vill beina því til hv. þingmanns að ræða um fundarstjórn forseta undir þessum lið.[17:40]
Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum tillögu stjórnarandstöðunnar til þingsályktunar um yfirlýsingu gegn stuðningi við innrásina í Írak en þar segir, eins og áður hefur komið fram:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða, sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsir því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.“

Það hefur margoft komið fram, og þá sérstaklega kannski hjá Framsóknarflokknum, að þessi yfirlýsing hafi verið mistök, þeir hafa viðurkennt það og það má heyra að ákveðin sektarkennd hefur gróið um sig hjá framsóknarmönnum.

Eins og flestir aðrir undra ég mig á því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í umræðunni. Þar að auki veltir maður því enn og aftur fyrir sér hvers vegna í ósköpunum það var samþykkt á sínum tíma að vera á lista viljugra þjóða til að ráðast inn í Írak. Því oftar sem menn spyrja þeirrar spurningar og eftir því sem tíminn líður því minna verður um svör. Það er ljóst að ástæðurnar sem voru gefnar upp á sínum tíma eru upplognar, það eru engin kjarnavopn í Írak og hafa ekki enn fundist nú þremur árum seinna. Ekki hafa heldur fundist tengsl á milli Saddams Husseins og al Kaída, sem var ein af ástæðunum, og margir telja að innrásin hafi frekar aukið á hryðjuverkaógn en hitt.

Eins og komið hefur fram naut þessi innrás alls ekki stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og er þar af leiðandi skýrt brot á lögum. Það sem skiptir okkur Íslendinga jafnvel enn meira máli er sú ótrúlega staðreynd að tveir einstaklingar á landinu skuli geta tekið jafnmikla ákvörðun og þá að vera á lista yfir viljugar þjóðir. Málið er ekki lagt fyrir utanríkismálanefnd, það er ekki lagt fyrir ríkisstjórn, það er ekki lagt fyrir þingflokka o.s.frv. Ákvörðunin er því gjörsamlega ólögleg.

Eins og flestir vita tilkynnti formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi fyrir ekki löngu að þessi ákvörðun hefði verið mistök (Gripið fram í: Á flokksþingi.) — á flokksþingi Framsóknar, það er ágætt að vita að menn eru að hlusta. Jafnframt veittu menn því athygli að þar brutust út mikil fagnaðarlæti. Hér hefur verið talað um, m.a. af hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur, að menn séu tilbúnir að axla ábyrgð. Ég velti því fyrir mér, frú forseti: Hvernig ætla framsóknarmenn að axla ábyrgð? Er ekki hluti af því að styðja þessa þingsályktunartillögu?

Ef við horfum til framtíðar — því miður eru hvorki hæstv. forsætisráðherra né iðnaðarráðherra viðstaddir en hér eru tveir ráðherrar Framsóknarflokksins — verð ég að viðurkenna að ég hef miklar áhyggjur af því að sú ríkisstjórn sem nú situr muni bregðast hratt og vel við ef til þess kæmi að Bandaríkjamenn og Bretar óskuðu eftir því að Íslendingar væru á lista yfir viljugar þjóðir til þess að ráðast inn í Íran.

Það er komið að lokum umræðunnar í dag en ég held að það væri mjög gott ef t.d. hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, kæmi og lýsti því skýrt yfir í andsvari að hann tæki ekki þátt í því fyrir hönd Framsóknarflokksins að styðja viljayfirlýsingu til innrásar í Íran. Það hefur ekki komið skýrt fram.

Eftir þau mistök sem voru gerð, og hafa verið viðurkennd, og í ljósi þess hvernig ákvörðunin var tekin, af einungis tveimur mönnum í stjórnarflokkunum, hljótum við öll, þjóðin öll, að hafa áhyggjur af því að slíkt geti gerst aftur. Við hljótum að hafa áhyggjur af því að formenn flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, lýsi yfir stuðningi ef Bandaríkjamenn taka þá ákvörðun að ráðast inn í Íran. Það gæti gerst á næstu vikum, næstu mánuðum eða næstu missirum.

Ég held, frú forseti, að það væri mjög gott að fá að heyra það frá hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformanni Framsóknarflokksins, hvort framsóknarmenn eru tilbúnir að taka þátt í að samþykkja þingsályktunina, sem væri þá hluti af því að axla ábyrgð eins og þeir hafa lofað. Það væri líka gott að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann er tilbúinn að lýsa því yfir fyrir hönd síns flokks að Framsóknarflokkurinn muni ekki skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við stríð Bandaríkjamanna gegn Íran.[17:46]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er í rauninni undarleg umræða. Jón Sigurðsson, sem ekki sat í ríkisstjórn, var kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Hann lýsir því yfir hiklaust þegar hann er búinn að skoða þessi mál að ákvörðunin hafi verið tekin á röngum forsendum og Framsóknarflokkurinn tekur undir það með honum.

Það hefur verið sagt í þessari umræðu og legið fyrir að fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þessa ákvörðun einir og það er náttúrlega algjörlega klárt í mínum huga að af þessu máli má læra eins og hér hefur komið fram og er mikilvægt að læra þegar slíkt gerist að við erum ekki aðilar að stríði og höfum ekki verið og vorum það ekki. Við höfum lýst því yfir og teljum það alveg klárt að þetta hafi verið einhliða fréttatilkynning frá Hvíta húsinu um að við værum á lista yfir 30 þjóðir, viljugar og staðfastar, og í rauninni móðgun við Ísland að mínu viti.

Það liggur því algjörlega fyrir hvað Íran varðar að við styðjum ekki Bush eða Bush-stjórnina. Það hefur engin beiðni komið um það. Ég er klár á því að ég tel að stórar og mikilvægar ákvarðanir eigi að taka með ríkisstjórn að baki, með utanríkismálanefnd að baki, með þingið að baki. Það er því ekkert slíkt á dagskrá af hálfu okkar. Við höfum lýst því yfir að þessi gjörningur hafi í rauninni verið mistök. — Ég var í andsvari, hæstv. forseti.

(Forseti (ÞBack): Forseti hafði tekið þetta sem beiðni um ræðu og gaf þar af leiðandi hæstv. ráðherra ræðutíma.)[17:49]
Valdimar L. Friðriksson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði nú viljað fá það enn skýrar. Það eina sem ráðherra sagði í raun og veru var að það hafi engin beiðni borist um slíkt. Ég mundi vilja fá afstöðu hæstv. landbúnaðarráðherra alveg skýrt, frú forseti, ef fram kemur beiðni frá Bandaríkjamönnum um að Ísland skrái sig á lista viljugra þjóða til að ráðast inn í Íran, mundi hæstv. landbúnaðarráðherra samþykkja slíka tillögu?[17:49]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega skýrt að ef beiðni kæmi um að Íslendingar skráðu sig á lista yfir einhverjar viljugar og staðfastar þjóðir og styddu slíkt stríð mundi ég aldrei fallast á það, aldrei. Aldrei nokkurn tíma, það er algjörlega skýrt. (KolH: En Framsóknarflokkurinn?) Og Framsóknarflokkurinn ekki heldur. (Gripið fram í.) Ég er að segja það hér, hv. þingmaður, að Halldór Ásgrímsson hefur sjálfur sagt, sem tók þessa ákvörðun með Davíð Oddssyni um að styðja innrásina og þeir tóku þá ákvörðun tveir, að ef hann hefði haft fyllri upplýsingar, eins og komið hafa fram síðar, á síðustu árum, hefði hann trúlega ekki tekið þessa afstöðu. Jón Sigurðsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, sem hvergi hefur komið nálægt þessu máli hefur hreinsað það fyrir hönd Framsóknarflokksins og við höfum mjög skýra stefnu í þessu.

Ég verð að segja það hér fyrir mig að Bush Bandaríkjaforseti hefur verið heimsbyggðinni í mínum huga allt of dýr. Hann hefur breytt veröldinni með þeim hætti að hún er harðari og grimmari. (JBjarn: Ertu að afneita formanni þínum?) Hv. þm. Jón Bjarnason ber hér við dónaskap sem er sjaldan þekkt af manni sem alist hefur upp á Hólum. Bush Bandaríkjaforseti er ekki minn forseti, hann er ekki forseti íslensku þjóðarinnar og hann hefur því miður gengið mjög langt í mörgum málum að mínu viti.

En stefna Framsóknarflokksins í þessu máli er skýr. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur hreinsað þetta mál út og afstaða okkar að öllum slíkum málum er mjög hrein.[17:51]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en bara stinga inn örfáum orðum eftir frammistöðu hæstv. landbúnaðarráðherra. Nú er búið að lýsa því yfir af hans hálfu að hann ætli ekki að standa að því að gera svona aftur. Það er ágætt og virðingarvert að hæstv. ráðherra skuli gera það. Ég tel hins vegar að menn þurfi að gera meira til þess að flokkurinn endurheimti það traust að honum sé trúandi fyrir því að fara með völd á Íslandi, því ætli flokkur að fara með völd verður hann að virða þær reglur sem hann á að starfa eftir. Hann þarf að virða lög, hann þarf að virða þingræðisregluna.

Það er stærsti gallinn — virðulegi forseti, ég kann ekki við að trufla þennan fund frammi í sal sem ráðherrann stendur hér fyrir þannig að ég gef þeim bara ráðrúm til að ljúka honum og held svo áfram máli mínu þegar þeir hafa lokið fundarhöldum sínum í þingsalnum.

Það er algjörlega nauðsynlegt, virðulegi forseti, að landsmenn verða að geta treyst stjórnmálaflokkunum til þess að virða þingræðið og löggjöf. Við þurfum að geta treyst flokkunum og forustumönnum þeirra til þess að fara að lögum, fara t.d. að lögum um þingsköp um samráð við utanríkismálanefnd. Við þurfum að geta treyst þeim til þess að virða þingræðisregluna og taka ekki ákvarðanir án þess að hafa fyrir þeim þingmeirihluta og að afla þess meiri hluta áður en ákvörðun er tekin en ekki að taka fyrst ákvörðunina og setjast svo á þingmenn eftir á með hótunum ef því er að skipta. Það eru slíkir stjórnarhættir sem hafa verið vaðandi uppi á þessu kjörtímabili og við höfum séð í Íraksmálinu og við höfum líka séð í fjölmiðlamálinu. Enn þá eimir eftir af þannig stjórnarháttum í því skaki sem verið hefur um endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki mega hugsa til þess hver gegni embætti forseta Íslands án þess að missa allt jafnvægi og setja fram eilífar kröfur og aðfinnslur um forsetann sjálfan og kröfur um að breyta stjórnarskránni þannig að forsetinn hafi minna vægi en er samkvæmt gildandi stjórnarskrá.

Það eru þessir hlutir sem þarf að hreinsa út af borðinu. Það verður ekki gert, virðulegur forseti, nema í þingkosningum og það verður ekki gert nema stjórnmálaflokkarnir dragi þessa hluti fram og leggi þá á borðið fyrir kjósendur að þetta er það sem þarf að kjósa um, heilbrigð stjórnmál eða ekki heilbrigð stjórnmál. Við getum ekki búið í lýðræðisríki við þær aðstæður að fáeinir menn hafi allt í greip sinni og hóti mönnum illu ef því er að skipta til þess að hafa fullkomið vald á hlutunum. Um þetta hafa illindin og sárindin í Íraksmálinu snúist, um hinn efnislega stuðning Íslands, pólitískan stuðning við stríð. Þetta er hin undirliggjandi djúpa reiði sem er í þessu máli og í fjölmiðlamálinu.

Þjóðin vill ekki svona stjórnarhætti. Þeir sem hafa gert þetta mögulegt, ekki kannski vegna þess að þeir vildu það heldur vegna þess að þeir umbáru það, völdu það frekar að sitja í stólum sínum en að standa upp og segja við forustumennina: Hingað og ekki lengra, þeir verða að stíga fram og þeir verða að hreinsa þetta borð algjörlega.

Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur stigið skref í þá átt og ég virði það við hann en flokkurinn stendur eftir með málið óuppgert og menn hljóta að spyrja: Er hægt að treysta þessum tveimur flokkum sem eru í ríkisstjórn fyrir því að stjórna áfram næstu fjögur ár? Munu þeir gera þá hluti aftur sem þeir gerðu á þessu kjörtímabili? Svarið hlýtur að vera já, fólk muni trúa því að þeir geri það aftur nema þeir geri þetta upp, nema þeir hreinsi þetta mál út, viðurkenni mistök sín, biðjist afsökunar og heiti því að virða lög og reglur landsins. Það er þetta sem málið snýst um, þetta er pólitíkin í þessu máli, virðulegi forseti.

Ég vil svo segja að lokum að hér hafa menn reynt að stíga skrefið til baka. Það hafa menn gert án þess að viðurkenna sök í málinu. Það er áhyggjuefni vegna þess að það sýnir einbeittan vilja til að halda áfram að gera það sem var rangt þegar menn vilja ekki viðurkenna að það var rangt heldur bakka með því að bera því við að forsendur hafi verið rangar, að menn hafi verið í góðri trú. Það var ekki þannig, virðulegi forseti, hvorki í Íraksmálinu né í fjölmiðlamálinu, forsendur voru ekki rangar. Ég skora á þá sem því hafa haldið fram hér í umræðunni varðandi Íraksmálið að forsendur hafi verið rangar, að upplýsa það: Hvaða forsendur voru rangar? Það liggur fyrir að það var óheimilt samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna að hefja þetta stríð. Það var óheimilt, það lá fyrir. Hvað ætla Íslendingar að gera í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ætla þeir að senda þangað mann þegar þeir eru búnir að vinna þar sæti og segja: Við ætlum ekkert að fara eftir stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna nema þegar okkur sýnist svo. Hvaða erindi eiga Íslendingar í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna með það viðhorf að það þurfi ekki að virða sáttmála Sameinuðu þjóðanna ef Bush og Bandaríkjamenn hafa aðrar óskir? Er það hlutverk okkar?

Hvaða forsendur voru rangar, virðulegi forseti? Var það forsendan um gereyðingarvopnaeign Íraka? Nei, virðulegi forseti. Þáverandi utanríkisráðherra trúði ekki þeim ásökunum og hann sagði alveg fram að þeim degi áður en árásin hófst, að vopnaeftirlitsmenn þyrftu meiri tíma og ættu að fá meiri tíma til að leita af sér allan grun. Það sagði hann auðvitað vegna þess að hann vissi að það lá engin sönnun fyrir þessum ásökunum. Utanríkisráðherra Íslands var 17. mars á þeirri skoðun að það væri ekki sönnuð fullyrðing að það væri gereyðingarvopnaeign hjá Saddam Hussein. Ég spyr enn: Hvaða forsenda var það sem var röng, virðulegi forseti?

Ég vil svara því fyrir mitt leyti: Það var engin forsenda röng. Forsendurnar lágu fyrir. Ákvörðunin sem var tekin var pólitísk, eins og þáverandi forsætisráðherra hefur lýst yfir og ég hef vitnað í í fyrri ræðu minni. Það var á bak við þessa pólitísku yfirlýsingu sem stjórnarflokkarnir tóku pólitíska ábyrgð. Það er hið alvarlega í málinu, virðulegi forseti.[17:59]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hér talaði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, vinur minn og flokksfélagi hátt í níu ár, og nú er allt annað andlit á honum en var, vil ég hræra upp í minni hv. þingmanns.

18. mars árið 2003 var hann einn af þingmönnum Framsóknarflokksins. Fyrir kosningabaráttuna gerði Halldór Ásgrímsson mjög vel grein fyrir ákvörðun sinni sem Kristinn H. Gunnarsson meðtók á þeim tíma. Kristinn H. Gunnarsson gekk til kosninga 2003, glaðbeittur fyrir Framsóknarflokkinn og hlaut kosningu og var í Framsóknarflokknum þrjú ár til viðbótar.

Framsóknarflokkurinn gekk í gegnum kosningar. Þetta mál þróaðist auðvitað mjög illa á síðustu tveimur, þremur árum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sat líka á flokksþingi Framsóknarflokksins í ágúst, að ég ætla, og fagnaði þá ummælum Jóns Sigurðssonar, nýs formanns Framsóknarflokksins, sem var að gera þetta mál upp fyrir hönd framsóknarmanna. Niðurstaða þingsins var að fagna þeirri skoðun, þeim ummælum og þeim heiðarleika sem fram kom í ummælum Jóns Sigurðssonar og hafði reyndar áður komið fram í ummælum Halldórs Ásgrímssonar, að hefði hann haft allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir hefði þessi ákvörðun ekki verið tekin. Hann og nýr formaður Framsóknarflokksins hafa því gert það upp fyrir hönd flokksins að þetta hafi verið mistök.

Nú auðvitað er hér allt annar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem er orðinn frjálslyndur og farinn til hægri í pólitík og talar með allt öðrum hætti en hann bjó við í rauninni þessi fjögur ár í Framsóknarflokknum eftir að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, tóku þessa ákvörðun tveir.[18:01]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra upplýsti ekki hvaða forsendur það voru sem stuðst var við og reyndust síðar rangar. Hann vék ekki einu orði að þeim í þessari ræðu eða neinum öðrum ræðum sem hann hefur flutt um þetta mál af þeirri einföldu ástæðu að hann hefur ekkert svar við því. Þetta er frasi sem hann hefur komið sér upp og fleiri til þess að geta bakkað út úr málinu án þess að viðurkenna að þeir gerðu rangt.

Það er kannski aðalvandinn í málinu að menn viðurkenna ekki að þeir gerðu rangt, að menn viðurkenna ekki pólitíska ábyrgð. Það er áhyggjuefni þegar menn eru ekki nógu einarðir til að gangast við því og segja: Við tókum rétta ákvörðun, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, og er greinilega ósammála formanni sínum, því að hæstv. utanríkisráðherra sagði nýlega: „Við tókum rétta ákvörðun en á röngum forsendum.“ Það er ekki viðurkenning á því að menn hafi gert neitt rangt, menn eru að kasta ábyrgðinni á einhverjar ótilgreindar forsendur.

Hæstv. landbúnaðarráðherra verður að gangast í gegnum þetta mál og viðurkenna að ákvörðunin var alla tíð röng. Hann vissi það og aðrir vissu það og þeir sem gagnrýndu þessa ákvörðun fengu dálítið að kenna á því.

Hann minntist á stöðu mína og ummæli fyrir síðustu kosningar. Það er rétt, ég gagnrýndi þessa ákvörðun opinberlega þá og var formaður þingflokks framsóknarmanna. Ég var það ekki eftir kosningar, eftir að ég hafði flutt fram þessa gagnrýni. (Gripið fram í.)

Ég stóð ekki að fjölmiðlamálinu, virðulegi forseti, aðför fáeinna manna að fyrirtæki úti í bæ þar sem menn ætluðu að beita löggjafarvaldinu í því skyni. (Gripið fram í: Það gerði Guðni.) Það gerði hæstv. landbúnaðarráðherra. Hann stóð að fjölmiðlamálinu og var alltaf jafnkátur við útgáfu 1, 2, 3, 4 og 5 og gafst svo upp að lokum. Og hvar var staða mín eftir það, virðulegi forseti?[18:03]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega makalaus kattarþvottur sem hv. þingmaður beitir hér og útúrsnúningar. Það liggur auðvitað fyrir að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var fast að fjórum árum í Framsóknarflokknum eftir að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson tóku þessa ákvörðun tveir sem forustumenn ríkisstjórnarinnar. Hann gagnrýndi hana kannski eftir á (Gripið fram í: Þið refsið honum.) eins og margir hafa gert.

Það er auðvitað ljóst sem hér hefur komið fram að þessi ákvörðun, sem tekin var á röngum forsendum eins og Halldór Ásgrímsson hefur viðurkennt og Jón Sigurðsson er að tala um, hefur reynt á stjórnmálamenn víða um heim. Ég hygg t.d. að danski forsætisráðherrann hafi farið best út úr sinni ákvörðun vegna þess að allar ákvarðanir sem hann tók í þessu máli tók hann í gegnum minnihlutastjórn og varð að fara með allar ákvarðanir sínar í gegnum danska þingið.

Ég ætla ekkert að deila um þetta við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson en ég gat samt ekki annað en vakið athygli á því að hann var fast að fjórum árum í Framsóknarflokknum eftir að ákvörðun var tekin eins og ég hef hér lýst. Hann var auðvitað góður gagnrýnandi en hann gekk til kosningabaráttunnar glaður og reifur eftir að þessi ákvörðun hafði verið tekin og var okkur trúr.

Hann var ekki settur af sem þingflokksformaður í Framsóknarflokknum. Hann veit að hann lenti í átökum innan Framsóknarflokksins, bæði þar og í Byggðastofnun, og þannig er að menn skipta oft um þingflokksformenn. Ég man ekki hvort hv. þingmaður var felldur eða hvernig það var en hins vegar var hann ekki kjörinn og það kom þessu máli ekkert við, ef minni mitt svíkur mig ekki. (Gripið fram í: Jú, jú, jú.)[18:05]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn bregst hæstv. landbúnaðarráðherra okkur í þingsalnum með að útskýra fyrir okkur hvaða forsendur það voru sem voru rangar og ákvörðunin var reist á. Hann er búinn að vera á flótta í þessu máli frá upphafi þessarar umræðu. Byrjaði að halda því fram að Bandaríkjamenn hefðu sett okkur á listann að okkur forspurðum. Það er ekki rétt. Það hefur komið fram af hálfu beggja formanna stjórnarflokkanna á þeim tíma að þetta var meðvituð ákvörðun, pólitísk ákvörðun og beinn stuðningur við innrásina í Írak. Beinn pólitískur stuðningur beggja stjórnarflokkanna sem þeir tóku og létu síðan aðra í flokkunum vita eftir á. Það var þetta sem gerðist.

Hæstv. landbúnaðarráðherra verður að axla ábyrgð á þessu máli sem pólitískur forustumaður. Það gerir hann ekki með því að segja að það sem var rangt í málinu séu forsendur, eitthvað sem hann réði ekki við. Hann verður að viðurkenna að hann og forustan tóku ranga ákvörðun. Þeir höfðu allar forsendur til að taka rétta ákvörðun en þeir tóku ranga ákvörðun (Gripið fram í.) vegna þess að þeir töldu það af einhverjum ástæðum þjóna hagsmunum sínum betur. Það er út af fyrir sig hlutur sem menn verða að skýra. Það kann að vera að það tengist t.d. áframhaldandi veru bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Það kom nefnilega í ljós fáum dögum eftir síðustu alþingiskosningar, og þar sagði nú ekki minni maður frá en hæstv. forsætisráðherra á þeim tíma, Davíð Oddsson, að þeir hefðu orðið sammála um það, foringjarnir, að þegja yfir þeim áformum Bandaríkjamanna að kalla herliðið heim vegna þess að þeir vildu ekki láta þjóðina vita af því fyrir kosningar.

Hvers konar stjórnarhættir eru þetta, virðulegi forseti, þegar æðstu menn stjórnarflokkanna taka sér það fyrir hendur að skammta upplýsingar til þjóðarinnar um mikilvæg mál? (Gripið fram í: Ekki skamma mig fyrir það mál.)