133. löggjafarþing — 85. fundur.
skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra, 2. umræða.
stjfrv., 541. mál (heildarlög). — Þskj. 810, nál. 991, brtt. 992.

[13:48]
Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og umsagnir.

Frumvarp þetta er afrakstur vinnu starfshóps sem félagsmálaráðherra skipaði og í eiga sæti aðilar vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum stjórnvalda. Í fylgiskjali með nefndaráliti félagsmálanefndar frá 26. apríl 2006, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES, kemur fram að hlutverk hópsins hafi verið að yfirfara málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Í álitinu kom einnig fram sú afstaða félagsmálanefndar að þörf væri á að styrkja vinnumarkaðinn þannig að grundvallarréttindi launafólks yrðu betur varin.

Markmið frumvarpsins er í aðalatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi er því ætlað að tryggja að starfskjör, tryggingar og aðbúnaður starfsmanna fyrirtækja, sem hafa staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og veita tímabundna þjónustu hér á landi, sé ekki undir þeim lágmarksviðmiðunum sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi hér á landi. Í þriðja lagi er tilgangurinn að auka skilvirkni eftirlits og gera stjórnvöldum betur kleift að hafa yfirsýn yfir íslenskan vinnumarkað.

Um starfskjör og starfstengd réttindi starfsmanna hinna erlendu þjónustufyrirtækja og frávik frá þeim reglum er fjallað í 4.–6. gr. frumvarpsins og í 7. gr. er kveðið á um slysatryggingar. Samkvæmt 8. gr. ber þjónustufyrirtæki að veita tilteknar grunnupplýsingar áður en það hefur hér starfsemi og er þeirri kvöð ætlað að gera Vinnumálastofnun kleift að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi fyrirtæki starfi löglega í því ríki þar sem það hefur staðfestu og jafnframt að gefa stofnuninni færi á að fá vitneskju um starfsmenn fyrirtækisins, tryggingavernd þeirra, fyrirhugaðan dvalartíma og dvalarstað þeirra og, eftir atvikum, starfsréttindi. Enn fremur er tilgangur grunnupplýsingagjafar að tryggja vissu fyrir því að fyrirtæki stundi sannanlega þjónustustarfsemi hér á landi. Samkvæmt 5. mgr. lagagreinarinnar ber Vinnumálastofnun að halda skrá yfir þau fyrirtæki sem veita upplýsingar samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun er jafnframt heimilt að fara fram á að fyrirtæki afhendi upplýsingar sem stofnunin álítur nauðsynlegar í þágu eftirlitsins, þjónustusamninga, ráðningarsamninga og önnur gögn varðandi ráðningarkjör, sbr. 1. mgr. 13. gr. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að Vinnumálastofnun skuli láta öðrum eftirlitsstofnunum og, eftir atvikum, stéttarfélögum í té nánar tilgreindar upplýsingar, sbr. 4. mgr. 8. gr. og 14. gr. Í 19. gr. er svo heimild til handa ráðherra til útgáfu reglugerðar um samstarf þar til bærra eftirlitsstjórnvalda í einstökum aðildarríkjum EES.

Skylda til að veita grunnupplýsingar tekur til þeirra erlendu þjónustufyrirtækja sem veita þjónustu hér á landi lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum, sbr. þó 9. gr. frumvarpsins. Áskilnaðurinn í 10. gr. um að þjónustufyrirtæki skuli tilnefna sérstakan fulltrúa hér á landi, sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins, tekur á sama hátt mið af tímabili starfseminnar hér á landi en að auki er tekið mið af umfangi starfseminnar. Þannig verður skyldan aðeins virk þegar þjónustufyrirtæki veitir þjónustu samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum og sex eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði hér á landi á vegum fyrirtækisins.

Lögð er sú skylda á herðar notendafyrirtæki að það afli skriflegrar staðfestingar frá þjónustufyrirtæki sem það á í viðskiptum við um að grunnupplýsingagjöf hafi verið sinnt og verði ekki orðið við þeirri beiðni ber notendafyrirtækinu að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar, sbr. 3. mgr. 11. gr. Þá hefur stofnunin skv. 2. mgr. 13. gr. afmarkaðar heimildir til að krefja notendafyrirtæki um upplýsingar sem nauðsynlegar eru í þágu eftirlitsins, þar með talið samning síðarnefnda fyrirtækisins við þjónustufyrirtækið.

Ef brotið er gegn ákvæðum laganna skal Vinnumálastofnun, að aðgættum reglum stjórnsýsluréttar um jafnræði og meðalhóf, beina því til hlutaðeigandi þjónustufyrirtækis að það hagi starfsemi sinni til samræmis við lög, sbr. 12. gr. Virði fyrirtækið þau tilmæli stofnunarinnar að vettugi getur hún fengið liðsinni lögreglu við að stöðva starfsemina hér á landi tímabundið þar til úrbætur hafa verið gerðar, sbr. 15. gr. Í 18. gr. frumvarpsins eru ákvæði um viðurlög sem taka jafnt til þjónustufyrirtækja og notendafyrirtækja.

Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög nr. 54/2001 en þau voru samin á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/1998 og tilskipunar Evrópubandalagsins 96/71/EB. Þar sem frumvarp þetta fjallar öðrum þræði um starfsmannaleigur, sbr. 3. mgr. 1. gr., eru í 21. gr. lagðar til breytingar á núgildandi lögum, nr. 139/2005, um starfsmannaleigur.

Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að hlutfall erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði sé um 9%. Var á það bent að frá því að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hafi komu þessa fólks einkum borið að með tvennum hætti, annars vegar á grundvelli frjálsrar farar launþega og hins vegar á grundvelli þjónusturéttarins. Er það álit þeirra sem fundað hafa með nefndinni að eftir að niður féll fyrirvari Íslands um tímabundna takmörkun á frjálsri för launþega frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins, sbr. lög nr. 19/2004 og lög nr. 21/2006, hafi þeim fjölgað sem hingað koma á grundvelli frjálsrar farar. Að sama skapi hefur dregið úr eftirspurn eftir starfsfólki þjónustufyrirtækja, þar með talið starfsmannaleigna sem helst hafa tengst neikvæðri umræðu um slæma meðferð starfsmanna. Jafnframt þykir frumvarpið vera framsækið og vel til þess fallið að vernda réttindi starfsmanna þjónustufyrirtækja til jafns við launþega sem eru í beinu ráðningarsambandi við íslensk fyrirtæki. Til að svo megi verða þurfi Vinnumálastofnun og stéttarfélögin í landinu þó að eiga með sér gott samstarf sem tryggir eftir því sem framast er kostur að erlend þjónustufyrirtæki og starfsmenn þeirra starfi raunverulega í samræmi við þær forsendur sem fram koma í þeim grunnupplýsingum sem þjónustufyrirtæki veita, þar með talið þeim sem lúta að starfsréttindum starfsmannanna.

Frumvarpið er sett fram í því augnamiði að styrkja innviði vinnumarkaðarins og telur nefndin að því sé ekki ætlað að hafa bein áhrif á þau eftirlitsúrræði sem verkalýðshreyfingin hefur á grundvelli núverandi laga og kjarasamninga, sbr. 14. gr. og 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Má í því sambandi minnast samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá mars 2004 en þar er tekið fram um rétt trúnaðarmanna og, eftir atvikum, sérstakrar samráðsnefndar til að yfirfara gögn um laun og önnur starfskjör erlendra starfsmanna. Sameiginlegar tillögur þessara aðila vinnumarkaðarins frá júní 2006 voru hafðar að leiðarljósi við samningu þessa frumvarps.

Varðandi launarétt starfsmanna í veikinda- og slysatilvikum og áskilnað um að þeir skuli vera slysatryggðir, sem kveðið er á um í 5. og 7. gr. frumvarpsins, vill nefndin vekja á því sérstaka athygli að þessar greinar eiga sér fyrirmyndir í ákvæðum laga og kjarasamninga og eru öðrum þræði settar til hagsbóta fyrir þjónustufyrirtækin þannig að ekki fari á milli mála hvaða skyldur hvíla á þeim í þessum efnum.

Nefndin er þeirrar skoðunar að frumvarpið horfi til almannaheilla en leggur jafnframt áherslu á að markmiðum þess verði ekki náð nema vel takist til við framkvæmd eftirlits. Telur nefndin brýnt að Vinnumálastofnun séu tryggð góð starfsskilyrði og að stofnunin eigi gott samstarf við önnur hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld, hérlend sem erlend. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að við framkvæmd eftirlits verði gætt meðalhófs gagnvart eftirlitsskyldum aðilum þannig að samræmst fái skuldbindingum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið auk þess sem samkeyrsla upplýsinga taki mið af almennum sjónarmiðum um persónuvernd. Hvetur nefndin til þess að fyrirkomulag skráningar verði gert eins einfalt og kostur er og enn fremur að þjónustufyrirtækin og starfsmenn þeirra geti nálgast sem flestar upplýsingar um réttindi sín og skyldur á einum stað.

Lagðar eru til smávægilegar breytingar á orðalagi núverandi 4., 8., 19. og 21. gr. frumvarpsins og að við bætist ný grein þar sem fram komi að með lögunum sé verið að innleiða efni Evróputilskipunar. Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu að hinir sérstöku gildistökufrestir sem mælt er fyrir um í 2. og 3. mgr. 20. gr. verði framlengdir um einn mánuð.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Lúðvík Bergvinsson, Ellert B. Schram, Jóhann Ársælsson og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara. Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álitið.

Aðrir hv. þingmenn sem undir þetta rita eru Dagný Jónsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Svanhvít Aradóttir.



[13:58]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það, virðulegi forseti, að í félagsmálanefnd var bærileg sátt um þetta mál enda er hér verið að styrkja stjórnkerfið til þess að koma í veg fyrir undirboð og tryggja sambærileg réttindi erlendra starfsmanna, sem hingað koma, til kjara og aðbúnaðar eins og Íslendingar hafa.

Markmiðið er þríþætt, eins og kemur fram í nefndarálitinu, „að tryggja að starfskjör, tryggingar og aðbúnaður starfsmanna fyrirtækja, sem hafa staðfestu í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og veita tímabundna þjónustu hér á landi, sé ekki undir þeim lágmarksviðmiðunum sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði“. Hér eru á ferðinni afar mikilvæg ákvæði í þessu frumvarpi fyrir þá útlendinga sem hér starfa.

„Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi hér á landi. Í þriðja lagi er tilgangurinn að auka skilvirkni eftirlits og gera stjórnvöldum betur kleift að hafa yfirsýn yfir íslenskan vinnumarkað.“

Það er kannski sá þáttur sem snýr að því hvaða möguleika stjórnkerfið hefur til þess að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga sem við gerum ákveðinn fyrirvara við auk þess fjármagns sem í þetta verður sett og nokkur önnur atriði sem ég mun koma inn á.

Það er ástæða til að halda því til haga að hér er á ferðinni frumvarp sem félagsmálanefnd kallaði eftir í fyrravor þegar við afgreiddum frumvarpið um frjálsa för launafólks til landsins sem tók gildi 1. maí sl. Við töldum mikilvægt að settar yrðu í lög tillögur og aðgerðir til þess að styrkja vinnumarkaðskerfið til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði sem við þekkjum að töluvert mikill misbrestur hefur orðið á. Við lögðum áherslu á það sem er auðvitað grundvallaratriði, að fjölgun erlendra starfsmanna sem hér eru raski ekki reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast á íslenskum vinnumarkaði. Það er grundvallaratriði að vera þeirra útlendinga sem hingað koma og starfa verði ekki til þess að rýra réttindi og kjör Íslendinga á vinnumarkaði. Það er brýnt að öll löggjöf sé með þeim hætti að hún verndi og styðji þau réttindi sem íslensk verkalýðshreyfing hefur barist fyrir í marga áratugi, en að hér komi ekki upp sú staða að það verði afturhvarf inn í fortíðina að því er varðar réttindi íslensks launafólks. Það er það sem við höfum haft áhyggjur af og þess vegna er þessi leið farin með þessu frumvarpi sem framsögumaður félagsmálanefndar hefur hér lýst.

Það sem við höfum haft áhyggjur af er hvort Vinnumálastofnun sé í stakk búin til að fylgja málunum eftir í samráði við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda. Þessi löggjöf hér er nokkuð metnaðarfull en allt veltur á því að framkvæmdin sé með þeim hætti að tryggt sé að með þeim ákvæðum sem hér eru sett fram sé fullt eftirlit, að þau skili sér í framkvæmdinni. Sú er kannski meginástæðan, virðulegi forseti, fyrir þeim fyrirvara sem a.m.k. fulltrúar Samfylkingarinnar í þessari nefnd hafa sett.

Fjármagn sem Vinnumálastofnun fær er afar lítið. Fjárlagaskrifstofan gerir ráð fyrir að frumvarpið muni leiða til 7,5 millj. kr. útgjaldaaukningar hjá Vinnumálastofnun og síðan segir hjá fjárlaganefnd að þessi útgjaldaaukning eigi að rúmast innan fjárlagaramma stofnunarinnar. Þetta er það sem við drögum í efa, það er sífellt verið að bæta fleiri og fleiri verkefnum á Vinnumálastofnun. Ég held að alls ekki alltaf hafi fylgt fjármagn til þess að framfylgja þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun á að skila og því eftirliti sem hún hefur með höndum. Ef framkvæmdin á þeim málum sem hér er verið að festa í lög verður þannig að ekki sé hægt að hafa eftirlit með þeim og þetta verði allt í skötulíki er auðvitað til lítils af stað farið. Þess vegna er það grundvallaratriði sem við setjum hérna fram, að það sé tryggt að hægt sé að hafa eftirlit með þessu. Við höfum líka haft áhyggjur af því að ekki sé nægjanlega tekið á því í þessu frumvarpi. Það kom fram í starfi nefndarinnar sem ekki hefur komið fram í nefndarálitinu og ég set hér fram. Við teljum að það þurfi að halda skrá og gera úttekt á menntun hjá erlendu starfsfólki sem hingað kemur. Maður heyrir allt of mikið um að brögð séu að því að erlendir starfsmenn sem hingað koma fái ekki greitt í samræmi við þá menntun sem þeir hafa. Ég hefði viljað sjá að það væri eitt af þeim verkefnum sem væru á hendi Vinnumálastofnunarinnar, og þá eftir atvikum verkalýðsfélaganna, að fylgjast með því að ekki séu undirboð að því er þennan þátt varðar, að ekki sé metin menntun þessara erlendu starfsmanna og þeir hafi ekki launakjör í samræmi við menntun sína. Það væri gott ef formaður félagsmálanefndar kæmi síðar í þessa umræðu að hún ræddi aðeins þann þáttinn en þetta er nokkuð sem við í Samfylkingunni höfum haft áhyggjur af.

Sömuleiðis höfum við haft áhyggjur af því, og það er kannski ekki nægilega girt fyrir það í þessu frumvarpi, að undirboð eigi sér einnig stað í kringum verktakasamninga, að launaliðurinn sé þar vanmetinn með hliðsjón af íslenskri löggjöf og kjarasamningum og að það komi fram í útboðum og skekki þá samkeppnisstöðu fyrirtækja í atvinnulífinu.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna. Umsagnir með frumvarpinu eru yfirleitt jákvæðar. Tryggingastofnun gerði athugasemdir varðandi það sem snýr að henni sjálfri. Ég hafði ekki tök á að sitja fundinn þegar fjallað var um þann þátt málsins en ég spyr hv. formann nefndarinnar hvort ekki sé örugglega tekið á þeim athugasemdum og áhyggjum sem maður gat lesið út úr umsögn Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar framkvæmdina á því sem snýr að réttindamálum erlends starfsfólks. Ég geri ráð fyrir að farið hafi verið yfir þann þátt mála og að ekki komi til þess að misbrestur verði á framkvæmdinni eða vandamál eins og Tryggingastofnun hefur áhyggjur af.

Umsögn Alþýðusambands Íslands er afar jákvæð. Í henni segir að þarna sé verið að tryggja mikilvægar réttarbætur á ýmsum sviðum, m.a., með leyfi forseta, „að erlendir starfsmenn sem koma hingað á vegum erlendra þjónustufyrirtækja eða starfa hjá starfsmannaleigum skuli njóta sömu eða sambærilegra kjara og réttinda og ef þeir væru ráðnir beint til fyrirtækja með staðfestu hér á landi“.

Það er auðvitað afar þýðingarmikið að við séum þó að færa okkur nær því að tryggja betur aðbúnað og kjör erlendra starfsmanna með því að ráðningarkjörin séu með þeim hætti að erlendu starfsmennirnir séu ráðnir beint til fyrirtækja og á ráðningarsamningi við þau fremur en í gegnum starfsmannaleigurnar sem allt of mikið var af. Þar fóru fram þessi undirboð sem við þekkjum að hafi viðgengist að því er varðar erlent starfsfólk.

ASÍ segir hér, með leyfi forseta:

„a) … Það þýðir að erlent launafólk þessara fyrirtækja á að njóta þeirra kjara og réttinda sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og að komið er í veg fyrir að erlend þjónustufyrirtækjum njóti samkeppnisforskots gagnvart fyrirtækjum með staðfestu hér á landi vegna lakari kjara eða réttinda starfsmanna sinna.

b) Gerð er krafa um að erlend þjónustufyrirtæki og starfsmannaleigur þurfi að tilkynna um starfsemi sína hér á landi og veita upplýsingar um þá starfsmenn sem hjá þeim vinna, aðbúnað og kjör þeirra. Þá er gerð sú almenna krafa að erlend þjónustufyrirtæki hafi fulltrúa sem kemur fram fyrir þeirra hönd meðan þau eru með starfsemi hér. Þannig er reynt að tryggja að þessi fyrirtæki geti aðeins starfað hér löglega með því að vera búin að upplýsa um starfsemi sína og starfi fyrir opnum tjöldum.“

Allt er þetta, virðulegi forseti, mikið til framfara. Við náum því markmiði sem við öll hljótum að setja okkur, að kjör og aðbúnaður erlendra starfsmanna verði til samræmis við það sem hér gildir í íslenskum kjarasamningum og lögum.

„c) Síðan eru í þessu frumvarpi gerðar kröfur til notendafyrirtækja um að þau fylgi því eftir að erlend þjónustufyrirtæki sem fyrir þau starfa hér á landi hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni. Jafnframt eru lagðar á þau þær skyldur að aðstoða stjórnvöld við öflun upplýsinga og eftirlit með starfsemi erlendu þjónustufyrirtækjanna og starfsmannaleigna, ef eftir því er leitað.

d) Tryggðar eru heimildir stjórnvalda til að stöðva tímabundið starfsemi erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna ef þau verða uppvís að brotum, auk þess sem í lögunum eru að finna viðurlagaheimildir.“

Á þessum atriðum í umsögn ASÍ sést hve mikilvæg ákvæði eru á ferðinni í þessu frumvarpi en enn og einu sinni undirstrika ég að allt veltur þetta á framkvæmdinni.

Verkalýðsfélag Akraness og reyndar Starfsgreinafélag Austurlands hafa sett fram vissar aðvaranir og fyrirvara að því er varðar álit þeirra á þessu máli. Ágætt er að halda því til haga.

Hjá Verkalýðsfélagi Akraness segja þeir t.d., með leyfi forseta:

„Til að tryggja að erlendir starfsmenn samkvæmt lögunum njóti þeirra starfskjara sem lögin kveða á um er eðlilegt að setja þá kröfu á notendafyrirtækin að þau hafi ávallt undir höndum ráðningarsamninga og sé óheimilt að nýta sér þjónustu viðkomandi nema kjör samkvæmt ráðningarsamningi séu í samræmi við lögbundin starfskjör.“

Hér er á ferðinni ákvæði sem þetta sama verkalýðsfélag setti fram þegar við fjölluðum um frjálsa för launafólks á síðasta vorþingi sem nokkuð var tekist á um. Ég minni á og vil halda því til haga, virðulegi forseti, að við í Samfylkingunni studdum það mjög að slíkt ákvæði yrði sett inn sem setti meiri ábyrgð á notendafyrirtækin gagnvart t.d. starfsmannaleigunum og fluttum um það breytingartillögu ef ég man best sem ekki náði fram að ganga þannig að enn halda þeir þessu til haga.

Þeir segja fyrr í umsögninni hjá Verkalýðsfélagi Akraness:

„Reynsla félagsins af þessum málum hefur sannað nauðsyn þess að stéttarfélögin fái skýra heimild til að afla gagna varðandi erlent vinnuafl, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar. Er eðlilegt að þessi heimild nái til allra aðila er koma að slíku vinnusambandi, þ.e. fyrirtækja, notendafyrirtækja og Vinnumálastofnunar. Reynslan sýnir að erlent starfsfólk veit almennt lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og veigrar sér við að leita aðstoðar verkalýðsfélaganna.“

Þetta er auðvitað til umhugsunar sem hér er sett fram, þ.e. að erlent starfsfólk viti lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og þá væntanlega almennt réttindi sín í íslensku samfélagi. Það verður fróðlegt að fá fram hvernig því miðar að útbúa handhægar upplýsingar fyrir fólk til þess að það viti um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði. Það er grundvallaratriði til þess að við náum því fram sem við viljum að ekki sé verið að hlunnfara þetta fólk.

Hér segir áfram:

„Dæmin sanna einnig að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér þessa vankunnáttu. Jafnvel aðilar sem almennt er talið að láti sér annt um ímynd sína. Er ljóst að þótt ráðningarsamningur liggi fyrir sem tryggi laun í samræmi við gildandi lög er það engin trygging fyrir því að viðkomandi launþega séu greidd lögbundin laun í samræmi við ráðningarsamning.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Á stéttarfélögum hvílir skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa þau víðtæka hagsmuni af því að svo sé gert. Er með öllu óskiljanlegt ef ekki er vilji til að notfæra sér þessa eftirlitsleið. Stéttarfélögin hafa á að skipa starfsfólki með víðtæka reynslu í túlkun kjarasamninga og með þekkingu á hinum ýmsu sérkjarasamningum sem í gildi eru. Óeðlilegt er hins vegar að blanda trúnaðarmönnum á vinnustað inn í þetta. Þeirra hlutverk samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur nær ekki til eftirlits hvað varðar starfsfólk á vinnustað sem eru í vinnuréttarsambandi við þriðja aðila. Jafnframt verður að hafa í huga að þetta eftirlit er þess eðlis að eðlilegra er að það sé alfarið í höndum viðkomandi verkalýðsfélaga. Auk þess sem verið er að gæta hagsmuna viðkomandi starfsmanna er hér um að ræða hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar sem og samfélagsins.“

Ég get tekið undir margt af því sem fram kemur hjá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness. Hann þekkir þessi mál vel og hefur oft sett fram athyglisverðar ábendingar og tillögur að því er þessi mál í heild varðar þannig að það er rétt að leggja við hlustirnar þegar þeir leggja fram sjónarmið sín í þessu máli.

Alþjóðahús sendi líka inn umsögn, virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til þess að setja inn í þingtíðindi hvað Alþjóðahús hafði um málið að segja. Þetta eru þeir aðilar í Alþjóðahúsi sem best þekkja til aðbúnaðar erlendra starfsmanna, vita hvar skórinn kreppir, vita á hverju þarf að taka. Ég ætla aðeins að drepa á þá umsögn, með leyfi forseta, en þar segir:

„Eftirfarandi athugasemdir skulu gerðar við efni frumvarpsins:

1. Að mati Alþjóðahúss er það mjög til bóta að starfsmönnum, í skilningi frumvarpsins, skuli tryggður réttur til launa í veikinda- og slysatilvikum. Hingað til hefur réttur einstaklinga í þessari stöðu verið fremur óljós og er því um réttarbót að ræða.“

Ég vísa einmitt til þessa þegar ég spyr formann nefndarinnar um þær athugasemdir sem Tryggingastofnun setti fram, hvort ekki sé alveg skýrt að engir hnökrar verði á framkvæmdinni að því er varðar réttarbætur í frumvarpinu um rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum. Ég held áfram tilvitnun, með leyfi forseta:

„Sérstaklega er því fagnað að starfsmönnum skuli tryggður mismunur launa ef réttur hans samkvæmt ákvæðum 5. gr. frv. er hagstæðari. Þá er til bóta að í 7. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um að tryggja skuli starfsmönnum bætur vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku. Alþjóðahús lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um löggjöf sem gilda skuli þegar fyrirtæki sendir starfsmenn hingað til lands í skilningi laga þessara án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband starfsmanna og fyrirtækis. Alþjóðahús telur jákvætt að skyldur skuli jafnt vera lagðar á erlend fyrirtæki sem notendafyrirtæki, þ.e. að innlenda þjónustukaupanum skuli m.a. vera ætlað að gæta þess að seljandi þjónustunnar, þ.e. erlenda fyrirtækið, hafi uppfyllt sína tilkynningarskyldu. Að mati Alþjóðahúss mætti bæta við áskilnaði um að við útboð verkefna hjá ríki og sveitarfélögum skuli synja þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum laganna um þátttöku. Slíkt yrði til þess fallið að efla fylgni við ákvæði laganna.“

Ég tók eftir þessari ábendingu hjá Alþjóðahúsi sem mér fannst mjög athyglisverð. Ég veit ekki hvort þetta hefur eitthvað sérstaklega verið tekið fyrir á þeim fundi sem ég gat ekki sótt í félagsmálanefnd.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er Vinnumálastofnun falið viðamikið hlutverk. Er stofnuninni ætlað að viðhafa umfangsmikið eftirlit, sem og söfnun upplýsinga, varðveislu þeirra og miðlun. Hins vegar fær Alþjóðahús ekki séð að stofnuninni séu ætlaðir fjármunir til að gegna þeim verkefnum sem að framan greinir. Leggur Alþjóðahús því til að skýrt verði kveðið á um fjárveitingar Vinnumálastofnun til handa svo stofnunin megi rækja það hlutverk sem henni er ætlað samkvæmt frumvarpinu, ella er hætt við að stofnuninni verði mjög örðugt að sinna þeim.“

Hér er nákvæmlega tekið undir eina af þeim meginathugasemdum sem við í Samfylkingunni gerðum vegna framkvæmdar þessara laga. Við höfum áhyggjur af því að undirstaðan sé ekki nægilega trygg um eftirlit þegar svona rýrt er ætlað í fjárveitingum til Vinnumálastofnunar. Hefði verið ástæða til þess að fá það upp hjá formanni nefndarinnar hvort hún hafi ekki af því einhverjar áhyggjur og hvort úr verður bætt ef við stöndum uppi með það á miðju fjárlagaári að ekki sé hægt að framkvæma þessi lög af því að það vanti fjármuni til að framfylgja þeim.

Margar umsagnir bárust um málið. Ég fór ekki nema að hluta til yfir það sem Alþjóðahús og Verkalýðsfélag Akraness sögðu. Ég vil að lokum, í stuttri yfirferð yfir umsagnirnar, minnast á það sem Starfsgreinafélag Austurlands segir. Eðli máls samkvæmt ætti þeim að vera vel kunnugt um kjör, aðstæður og aðbúnað erlendra verkamanna sem að verulegum hluta eru einmitt við framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar. Þeir tala um félagsleg undirboð og hafa af því áhyggjur og segja, með leyfi forseta:

„Það er skoðun Afls – Starfsgreinafélags Austurlands að til að berjast gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði þurfi:

1. Að skýra reglur og hörð viðurlög við brotum á lágmarkskjörum launafólks.

2. Tryggt upplýsingaflæði til erlends launafólks og aðgang stéttarfélaga að erlendu launafólki þannig að unnt sé að afla réttra upplýsinga um kjör þess.“

Þeir segja í lokin, með leyfi forseta:

„Við vekjum athygli á því að við metum stöðuna þannig að við séum hreinlega í nauðvörn fyrir kjörum launafólks á svæðinu. Með félagslegum undirboðum er verið að grafa undan lífskjörum okkar félagsmanna og brotið er á erlendu launafólki vísvitandi. Nú þegar hefur þetta bitnað helst á þeim sem síst skyldi, lægst launuðu félagsmönnum okkar í ýmiss konar þjónustustörfum.

Enn fremur er hart sótt að félagsmönnum okkar í ýmsum iðngreinum og má sérstaklega nefna byggingariðnað og málmiðnað. Hér er starfsfólk með óstaðfest iðnréttindi að ganga í störf íslenskra iðnaðarmanna og dæmi eru um heil fjölbýlishús í byggingu þar sem varla sjást iðnmenntaðir menn.

Ef ekki verður brugðist hart við má búast við að undirboð herji á vinnumarkaðinn allan innan tíðar og þannig verði grafið undan velferðarkerfi okkar. Við biðjum því þingmenn að taka ábendingar okkar til málefnalegrar umfjöllunar.“

Þetta er nokkuð harðort í lokin frá Starfsgreinafélagi Austurlands. Ég verð að hafa þá trú, virðulegi forseti, að frumvarpið sem við ræðum bæti úr og komi í veg fyrir það sem hér var lýst en enn og aftur fer það eftir framkvæmdinni. Það verður verk okkar jafnaðarmanna, ef þessi löggjöf dugar ekki, að herða enn frekar á ákvæðum að því er varðar réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja. Við verðum að beita öllum ráðum til þess að koma í veg fyrir að brotið sé á erlendu launafólki. Við vitum að það mun leiða til þess að einnig verður brotið á íslensku launafólki. Ef við viljum getum við sett þá löggjöf og þær reglur og staðið þannig að framkvæmdinni að aðbúnaður og kjör erlends vinnuafls sé til sóma fyrir okkur Íslendinga. Ef við gerum það er það til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Við þurfum á margan hátt á þessu fólki að halda á okkar vinnumarkað til uppbyggingar á hagvexti en það má ekki koma niður á réttindum og aðbúnaði íslensks launafólks. Ef við stöndum bærilega saman í því að reisa þær girðingar sem þarf til þess að ekki sé verið að misnota erlent launafólk þurfum við ekkert að óttast þó að erlent fólk sæki hingað til lands til starfa.

Það er tvennt sem ég vil fara inn á í lokin. Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af því og ekki bara áhyggjur — ég hreinlega átel ríkisstjórnina fyrir það að hún skuli sýna þinginu þá lítilsvirðingu að leggja ekki stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda fram til þinglegrar meðferðar og umfjöllunar í félagsmálanefnd. Við ættum að geta farið yfir stefnuna og mótað, sent hana út til umsagnar, fengið aðila sem best þekkja til til að segja álit sitt á henni þannig að við getum tekið tillit til sjónarmiða þeirra sem best þekkja til. Við þurfum að fara yfir stefnuna með hliðsjón af þeirri tillögu sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram um stefnumótun í málefnum innflytjenda sem liggur fyrir félagsmálanefnd. Ástæða hefði verið til að sú tillaga fengi eðlilega þinglega meðferð í félagsmálanefnd, sem hún hefur ekki fengið. Ég vil óska eftir því við formann nefndarinnar að á þeim tíma sem eftir lifir af þessu þingi og á þeim nefndadögum — ekki nefndadögum, þeir eru víst liðnir samkvæmt verkefnaskrá þingsins. En ef haldnir verða fundir í félagsmálanefnd, sem ég geri ráð fyrir að verði, vil ég óska eftir því að sú stefna sem við höfum lagt fram verði skoðuð.

Mér skilst að það sé sem sagt niðurstaða ríkisstjórnarinnar að leggja ekki þessa stefnu fyrir þingið. Mér finnst það fullkomið virðingarleysi við þingið að setja slíka stefnumótun ekki fram þannig að þingið geti haft áhrif á hana. Ég mótmæli því að vinnubrögðin skuli vera með þessum hætti. Það er stórt mál, virðulegi forseti, sem hér er á ferðinni, stefnumótun í málefnum innflytjenda. Það markar þann ramma sem við ætlum að setja okkur varðandi aðlögun innflytjenda í íslensku samfélagi. Auðvitað á að gera framkvæmdaáætlun á grundvelli slíkrar stefnu sem þingið á að samþykkja. Ég veit ekki hvort hv. formaður félagsmálanefndar þekkir til þess hvort hugmyndir séu um að móta slíka framkvæmdaáætlun og leggja fyrir þingið en það breytir engu, virðulegi forseti, úr því að þingið er að fara heim. Þegar ný ríkisstjórn tekur við mun hún örugglega skoða þessi mál og móta þá framkvæmdaáætlun á grundvelli skýrrar stefnumörkunar um málið, stefnumörkunar sem skilar árangri. Framkvæmdaáætlun sem við getum vænst að skili okkur þeim markmiðum sem við viljum setja okkur, að búa sem best að þeim sem vilja koma hingað og vinna hvort sem er til skemmri eða lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég ætla í lokin að vitna í svar sem ég fékk frá félagsmálaráðherra um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði. Ég taldi nauðsynlegt að fá dregna upp mynd af því hvernig vinnumarkaðurinn lítur út með þeim erlendu ríkisborgurum sem hér vinna. Því miður er takmörkun að því er varðar statistík, að því er varðar vinnumarkaðinn og marga fleiri þætti í stjórnsýslunni og það er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig sem ég ætla ekki að ræða hér. En í svarinu kemur þó ýmislegt athyglisvert fram sem ég ætla að vitna til, virðulegi forseti.

Um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði segir að áætla megi að 17.400 erlendir ríkisborgarar hafi starfað á íslenska vinnumarkaðinum á sl. ári og áætlað er að af þeim muni 13–15 þúsund verða starfandi á Íslandi á þessu ári. Á árinu 2008 er gert ráð fyrir að milli 10 og 12 þúsund verði enn starfandi hér á landi. Í svarinu kemur einnig fram að áætla megi að álíka margir erlendir ríkisborgarar hefðu verið á vinnumarkaðinum þó að aðlögunarfrestur um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði verið nýttur til 1. maí 2009. Erlendir ríkisborgarar hefðu komið á vinnumarkaðinn fyrir milligöngu starfsmannaleigna. Þetta er athyglisvert álit sem ég tel að sá eini frjálslyndi sem hér situr í salnum, hv. þm. Valdimar L. Friðriksson, ætti að hlusta á.

Það er álit félagsmálaráðuneytis að jafnvel þó að aðlögunarfresturinn — hin frjálsa för var samþykkt 1. maí — hefði verið nýttur fram til 2009 hefðu jafnmargir erlendir starfsmenn komið hingað til að vinna en þá hefðu þeir bara komið í gegnum erlendu starfsmannaleigurnar en ekki í gegnum beint ráðningarsamband við atvinnurekendur. Það er einmitt í gegnum starfsmannaleigurnar sem undirboðin hafa farið fram. Ég tel að það sé ekki rétt sem frjálslyndir hafa verið að setja fram að það hefði skipt sköpum að nýta ekki þessa aðlögun. Erlenda vinnuaflið hefði komið inn með öðrum hætti, þ.e. í gegnum starfsmannaleigurnar og þar hafa undirboðin fyrst og fremst viðgengist. Þetta var raunverulega staðfest í umfjöllun okkar í félagsmálanefnd af þeim sem þar komu að. Þar voru allir á þeirri skoðun sem um það voru spurðir að þessi hefði orðið niðurstaðan ef við hefðum nýtt okkur aðlögunarfrestinn fram til ársins 2009. Hingað kom erlent starfsfólk vegna þess að hér var þörf á erlendu vinnuafli, hér var ekki atvinnuleysi heldur kallaði vinnumarkaðurinn á fleiri vinnandi hendur. Það breytti því þó að með opnuninni 1. maí var komið á beinu ráðningarsambandi á milli launamanns og atvinnurekanda sem tryggir miklu betur eftirlit með því að ekki viðgangist undirboð í launum og kjörum.

Það kom líka fram í svari Vinnumálastofnunar og ráðherrans að ætla megi að 50–70% starfsmanna starfsmannaleigna hafi fengið leiðréttingu á launum árið 2006 sem sýnir hve mikið hefur verið brotið á réttindum erlendra starfsmanna í gegnum starfsmannaleigurnar. Það kom jafnframt fram að tilhneigingar hafi gætt hjá einstökum fyrirtækjum til að nota starfsmannaleigur sem leið til að komast hjá því að greiða laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að halda þessu til haga þegar við erum að ræða frumvarpið sem vonandi nær því markmiði sem að er stefnt, að styrkja allar vinnumarkaðsaðgerðir og treysta betur kjör erlendra starfsmanna. Um leið erum við að tryggja kjör, réttindi og starfsöryggi innlends vinnuafls.



[14:31]
Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hér í upphafi geta eins sem ég gleymdi að koma inn á í framsögu minni en það var að þakka nefndarmönnum í félagsmálanefnd fyrir samstarfið í þessu máli. Það gekk vel og greiðlega að vinna það í nefndinni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði grein fyrir fyrirvörum sínum við þetta mál. Í fyrsta lagi er það atriði sem varðar bolmagn Vinnumálastofnunar til að fást við verkefnið. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns og ég held að við öll sem í nefndinni sitjum höfum gert það. Það kom skýrt í ljós, eins og t.d. í umsögn félagsmálanefndar í fjárlagavinnunni, að við lögðum mikla áherslu á að Vinnumálastofnun fengi aukið fjármagn.

Það kom hins vegar fram hjá forstjóra Vinnumálastofnunar, Gissuri Péturssyni, að þeir geta notað margt úr þeirri vinnu sem þeir fóru í þegar þeir á sínum tíma innleiddu starfsmannalögin, sem þeir fengu reyndar ekki mikinn heimanmund með. Þess vegna felst ekki svo mikill nýr kostnaður í þessu. Vissulega mun eftirlitið kosta sitt en hann kom inn á það á fundi nefndarinnar að fyrst þurfi að meta þörfina og kostnaðinn út frá því. Hann taldi því á fundi félagsmálanefndar að Vinnumálastofnun gæti farið í þetta verkefni núna.

Örstutt, virðulegi forseti, varðandi menntun starfsmanna. Það kemur fram í 8. gr. í 2. lið að fyrirtæki eigi að gefa upplýsingar um starfsréttindi og Vinnumálastofnun getur þá miðlað upplýsingum til verkalýðsfélaga í einstökum málum. Ég tel líka, og ég hef aðeins verið að hugsa um þetta atriði vegna þess að það hefur verið mikið til umræðu í nefndinni, að kannski sé möguleiki á því í framtíðinni að þessir aðilar semji um hvernig upplýsingagjöf sé háttað. En eins og er er það í þessum farvegi.



[14:33]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka formanni félagsmálanefndar svörin. Mér finnst ágætt að fá það fram að hún deilir áhyggjum mínum af því að ekki sé tryggt nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að framfylgja ákvæðum þessara laga og hafa fullt eftirlit með framkvæmd þeirra. Það er alveg rétt að við gátum þess í fjárlagavinnunni. Við verðum þá að treysta því að vilji sé fyrir því í þinginu að bæta úr ef þetta kemur í ljós. Þessi löggjöf er ákaflega mikilvæg og það skiptir miklu máli að til sé fjármagn til þess að fylgja henni eftir.

Ég tók eftir að hv. þingmaður svaraði ekki því sem ég nefndi varðandi Tryggingastofnun ríkisins. Ég vona að hún geri það í næsta svari sínu. Eins og ég las upp og fór yfir eru það ekki síst þau réttindi sem á að tryggja erlendu fólki í gegnum Tryggingastofnun ríkisins sem eru afar mikilvæg og sem Alþjóðahús benti sérstaklega á. Við verðum að búa þannig um hnútana í löggjöfinni að þeir hnökrar sem Tryggingastofnun bendir á verði því ekki til fyrirstöðu að þetta erlenda starfsfólk haldi réttindum sínum.

Síðan vil ég spyrja um skoðun hv. þingmanns á því máli sem ég hef verulegar áhyggjur af, þ.e. stefnunni í málefnum innflytjenda, að það skuli ekki koma til þinglegrar meðferðar. Ég hlýt að treysta því að hv. þingmaður taki málið upp í félagsmálanefnd. Það liggur fyrir mál frá okkur í Samfylkingunni sem ég hefði viljað ræða og fá inn á þingið og hefði átt að ræða það í samfloti með stefnu ríkisstjórnarinnar. En svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að hunsa það að þingið fái það mál til þinglegrar meðferðar.



[14:35]
Frsm. félmn. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi athugasemdir um slysatryggingar og veikindi þá sáum við ástæðu til þess að setja í nefndarálitið ítrekun um að þessar greinar eiga sér fyrirmyndir í ákvæðum laga og kjarasamninga þannig að ég vísa hv. þingmanni á þessa klausu í nefndarálitinu. Við vildum a.m.k. bregðast við athugasemdunum þannig og teljum að þessi réttindi séu tryggð í frumvarpinu, bara svo það komi fram í umræðunni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á stefnu í málefnum innflytjenda og ég veit að margir hafa beðið eftir umræðum um hana. Að því er mér skildist átti að flytja skýrslu um þá stefnu en það hefur ekki komist á dagskrá. Við skulum sjá hvað setur. En við höfum ekki marga daga þannig að vonandi skýrist það mjög fljótlega upp á vinnu við annað mál sem nú er í félagsmálanefnd.



[14:37]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda þá er það nú þannig í mínum huga að ég held að það breyti ekki nokkrum sköpuðum hlut þó að við ræðum þetta mál í einn eða einn og hálfan tíma í skýrsluformi og síðan er málið bara afgreitt af hálfu þingsins.

Þingmenn sem eru hér vanir og þekkja hvernig hlutirnir ganga fyrir sig vita að fyrst og fremst er hægt að ná árangri ef málið fer í þinglega meðferð og hægt er að senda það til umsagnar eða a.m.k. kalla fyrir þá aðila sem til þekkja til þess að geta tekið tillit til þeirra sjónarmiða og sjónarmiða þingmanna varðandi stefnuna.

Ég vona að hv. þm. Dagný Jónsdóttir fylgi mér í því að þetta mál fari í þinglega meðferð í nefnd. Ég vona að þetta sé ekki endanlegt og verði einungis hér í skýrsluformi. Ég spyr: Er það endanlega afgreitt af hálfu stjórnarflokkanna, stjórnarliða, að þetta verði einungis í skýrsluformi? Ég spyr um það vegna þess að mér finnst mikilvægt að fá það fram.

Ef hv. þingmaður beitir sér fyrir því að málið fari til þinglegrar meðferðar og til félagsmálanefndar skal ég vinna hörðum höndum að því með henni að ná því máli fram og stuðla að því að það fái góða umfjöllun í nefndinni. En mér er algerlega misboðið ef afgreiða á málið með þeim hætti að ræða það einungis í formi skýrslu.

Varðandi þau atriði sem ég hafði áhyggjur af hvað Tryggingastofnun áhrærir þá fullyrðir hv. þingmaður að engin vandkvæði séu á því að þau ákvæði sem eru í frumvarpinu komist til framkvæmda þrátt fyrir krítíska umsögn Tryggingastofnunar ríkisins. Ég spyr hana því: (Forseti hringir.) Fullvissaði hún sig um það með því að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins að þeir væru sáttir við þetta eins og þingnefndin gekk frá þessu?



[14:39]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Almennt vil ég segja um frumvarpið að ég er bærilega ánægður með það. Það hefur fengið mjög góða umfjöllun í félagsmálanefnd þingsins og vil ég þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, fyrir ágæta verkstjórn.

Það má segja að vandað hafi verið til verka við smíði frumvarpsins. Það byggist á aðkomu margra aðila, þar á meðal aðila á vinnumarkaði, Alþýðusambands Íslands, BSRB, BHM, Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga auk stjórnsýslunnar.

Á Íslandi er drjúgur hluti vinnumarkaðar skipaður fólki sem er aðflutt. Mönnum reiknast til að tíundi hver maður á íslenska vinnumarkaðnum sé aðfluttur. Þar sé á ferðinni erlent vinnuafl sem svo er nefnt. Það fólk hefur komið hingað til lands á mismunandi forsendum eftir mismunandi farvegi, ef svo má að orði komast.

Í fyrsta lagi er um það að ræða að fólk komi hingað á forsendum hins Evrópska efnahagssvæðis, en einn af grunnþáttum þess er að tryggja frjálst flæði vinnuafls. Í annan stað kemur fólk hingað til lands og ræður sig til starfa, fær atvinnuleyfi og iðulega hefur það gerst með milligöngu svokallaðra starfsmannaleigna. Í þriðja lagi er um að ræða að fólk komi hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja sem sinna verkefnum á Íslandi. Það frumvarp sem við höfum hér til umræðu fjallar um réttindi þess fólks.

Menn hafa haft áhyggjur af því á íslenskum vinnumarkaði að fyrirtæki, einkum frá fátækari ríkjum heimsins, flytji inn vinnuafl, flytji inn starfsfólk sem starfi á lakari eða lægri kjörum en almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði. Í því sambandi hefur verið talað um undirboð. Það hefur verið áhyggjuefni, bæði íslenskra fyrirtækja, sem ekki vilja láta undirbjóða sig á óeðlilegum forsendum, og verkalýðshreyfingarinnar, sem hefur viljað standa vörð um kjör launafólks.

Frumvarpið tryggir að hið sama gildi um þetta fólk og gerist almennt á íslenskum vinnumarkaði. Það sem einkennir íslenska vinnumarkaðinn er að lágmarksréttindi og lágmarkskjör eru lögbundin. Grunnpósturinn í frumvarpinu er að tryggja að erlent launafólk sem kemur hingað til starfa á vegum erlendra fyrirtækja skuli lúta umsömdum lágmarkskjörum á Íslandi og ákvæðum sem snúa að aðbúnaði og hollustu á vinnustað, tryggingum og öðru af því tagi. Það er á þeim forsendum sem ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega.

Þegar þessi lagasmíð var í burðarliðnum fléttaðist umræða um það að nokkru leyti opnun íslenska vinnumarkaðarins. Svo háttaði til að árið 2004 fengu inngöngu í Evrópusambandið tíu ný ríki, sem svo má kalla, einkum frá austanverðri Evrópu. Ríki þar sem atvinnuleysi er mikið og laun eru lág og menn óttuðust að fólk mundi sækja í stríðum straumi vestur á bóginn.

Evrópusambandið ákvað að setja ákvæði sem gilda um hið Evrópska efnahagssvæði þess efnis að gömlu ríkin fengju heimild til þess að takmarka aðflutning launafólks til landsins frá þessum tilteknu ríkjum. Fyrsta takmörkunarskeiðið átti að gilda frá 1. maí 2004 til 1. maí 2006. Íslendingar ákváðu að setja slík ákvæði inn í íslenska löggjöf.

Við stóðum svo frammi fyrir því síðastliðið vor hvort við ættum að framlengja þessa lokun eða opna fyrir flutning fólks frá hinum nýju ríkjum. Niðurstaðan varð sú að ákveðið var að opna en jafnframt yrði sett löggjöf sem heimilaði eftirlit með bæði fyrirtækjum sem hingað væru að koma og starfsfólki frá þessum löndum.

Í stjórnarandstöðunni kom fram tillaga um að framlengja frestinn til síðustu áramóta og bíða þess að sú löggjöf sem við ræðum nú væri orðin að veruleika auk þess sem við vildum einnig fá staðfesta innflytjendastefnu íslenskra stjórnvalda. Það gekk ekki eftir en fáeinum vikum síðar höfum við þetta frumvarp hér, sem eins og ég segi tryggir þessi grunnréttindi.

Ég skil vel þær áhyggjuraddir sem heyrðust frá ýmsum verkalýðsfélögum um að óráðlegt væri að opna áður en öryggisnet yrðu strengd. Ég skil þær áhyggjur. Hins vegar held ég að þegar málið er gert upp hafi þetta verið hyggileg stefna. Það segi ég með hliðsjón af þeirri lagasmíð sem við höfum hér í höndunum.

Hitt er svo annað mál að ég held að menn gleymi sér oft í þessari umræðu og einblíni um of á höftin og girðingarnar og múrana en hirði minna um það sem skiptir að sjálfsögðu mestu máli, þegar við reynum að skilja hvers vegna svo margt fólk kemur hingað í atvinnuleit sem raun ber vitni. Það er að sjálfsögðu ekki út af neinum slíkum reglum. Það er vegna þeirrar þenslu sem á sér stað í íslensku atvinnulífi og geysilegrar eftirspurnar eftir vinnuafli, bæði innlendu og erlendu. Það er ástæða þess að fólk kemur hingað til lands, ekki þær reglur sem gilda um flutninginn til landsins. Því það hefur alltaf verið uppi að fólk hefur getað komið til Íslands í atvinnuleit og fengið hér atvinnuleyfi ef óskað er eftir starfskröftum þess. Þannig að það er hin stóra umræða en ekki þetta.

Ýmis ákvæði í þessum lögum eru góð. Þau heimila Vinnumálastofnun eftirlit og eftirfylgni. Þegar við tölum um eftirlit erum við fyrst og fremst að starfrækja slíkt til þess að tryggja réttindi fólksins. Það er kveðið á um það að fyrirtæki sem hingað kemur skuli, sé það lengur en tiltekinn dagafjölda á ári, allt frá tíu virkum dögum upp í fjórar vikur eftir því hver starfsemin er, tryggja Vinnumálastofnun upplýsingar og það skuli skipa sérstakan talsmann sinn til að annast slíkt.

Við höfum flutt þingmál, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, á undanförnum mánuðum þar sem við höfum viljað að þetta verkefni væri á hendi verkalýðsfélaganna og það væru þau sem hefðu aðgang að upplýsingum og starfsfólki. Við erum enn þeirrar skoðunar að það væri heppilegri ráðstöfun. Þetta er hins vegar niðurstaðan. Fyrirvari okkar við samþykkt frumvarpsins er í reynd fyrst og fremst á grundvelli vel rökstuddra áhyggna yfir því að Vinnumálastofnun og þeim eftirlitsaðilum öðrum sem koma að þessum málum verði ekki tryggðar nægar tekjur til þess að sinna verkefninu sem skyldi.

Það eru mín síðustu orð að sjá þarf til þess að allir þeir eftirlitsaðilar sem koma að þessum málum, hvort sem það er verkalýðshreyfing eða aðilar að vinnumarkaði, og svo að sjálfsögðu Vinnumálastofnun sem ber hitann og þungann af þessu starfi, fái nægilegt fjármagn til þess að gera þessi lög að veruleika þannig að þau verði annað og meira en orðin tóm.



[14:50]
Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum hér um frumvarp og nefndarálit um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands, um starfskjör starfsmanna þeirra. Rétt eins og aðrir þingmenn vil ég byrja á að fagna þessu frumvarpi. Segja má að það sé rökrétt framhald af lagasetningu um starfsmannaleigur sem sett var í fyrra. Þetta gengur öllu lengra og má segja að búið sé að taka inn í það nokkrar athugasemdir umsagnaraðila og stjórnarandstöðu varðandi frumvarpið um starfsmannaleigur. Við erum sammála um það í nefndinni að þetta frumvarp horfi til almannaheilla, eins og hér segir.

Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og segja má að fyrir því séu einkum þrjár ástæður. Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með í þessu máli og ég tel henni skammtað naumt fé. Það kemur fram í frumvarpinu að um sé að ræða 7,5 millj. kr. sérstaklega út af þessu. Síðustu þrjú árin hafa verið lögð fram nokkur mál er tengjast Vinnumálastofnun sem fæst gera ráð fyrir miklu fé til hennar og yfirleitt ekki aukafjármagni þrátt fyrir að lögð séu á hana fleiri og fleiri verkefni. Ég hefði að auki viljað sjá greiðari aðgang verkalýðsfélaga að upplýsingum um erlenda starfsmenn. Í þriðja lagi geri ég fyrirvara varðandi húsnæðismál. Hér er að vísu breytingartillaga frá félagsmálanefnd um að fylgja skuli með upplýsingar um dvalarstað og áætlaðan dvalarstað starfsmanna hér á landi. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af húsnæðismálum erlendra starfsmanna eins og við þekkjum úr fjölmiðlum en mörgum þeirra er ætlað að dveljast í iðnaðarhúsnæði. Menn muna nú eftir því þegar menn byrjuðu á Kárahnjúkum, hvers konar húsnæði mörgum erlendum starfsmönnum var þar búið í upphafi þótt trúnaðarmenn og verkalýðsfélög hafi náð að breyta því flestu ef ekki öllu til bóta. En það eru einkum þessar þrjár ástæður þess að ég skrifa undir álitið með fyrirvara.

Þetta frumvarp eykur ábyrgð notendafyrirtækja eins og stjórnarandstaðan óskaði eftir varðandi starfsmannaleigufrumvarpið sem var áður til afgreiðslu. Þá var ekki vilji meiri hlutans fyrir að setja meiri ábyrgð á notendafyrirtækin. Hér hefur verið vitnað lauslega í breytingartillögu stjórnarandstöðunnar við starfsmannaleigufrumvarpið. En hún hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Notendafyrirtæki bera ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara sem fullnægi áskilnaði 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu.“

Tekið hefur verið ákveðið tillit til þessarar beiðni frá stjórnarandstöðu og umsagnaraðilum varðandi starfsmannaleiguna. Þannig má segja að þetta sé í rétta átt þótt maður hefði viljað að gengið yrði enn lengra. Ég held að það sé rétt að þessi lög séu ávallt í endurskoðun. Það eru miklar breytingar á vinnumarkaði og stór hópur fólks kemur til landsins til að starfa í styttri eða lengri tíma. Það er því ástæða til að þessi lög séu stöðugt í endurskoðun. Um það var einmitt getið í lögum um starfsmannaleigur og er þetta óbeint framhald af því.

Að sjálfsögðu á að taka vel á móti útlendingum. Með þessari eftirfylgni erum við ekki einungis að tryggja þeim bestu kjör er hingað koma til að starfa heldur og, eins og fram hefur komið, að vernda íslenska launþega gegn undirboðum í launum. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja að fylgst sé vel með starfsréttindum þeirra sem hingað koma til að starfa.

Samkvæmt svari frá félagsmálaráðherra við fyrirspurn minni frá því ekki fyrir löngu er það ekki fast í hendi að Vinnumálastofnun gangi eftir því að fá upplýsingar um starfsréttindi erlendra starfsmanna. En það er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum, bæði út frá launamálum en einnig út frá öryggissjónarmiðum, að hingað komi ekki iðnaðarmenn til að vinna með hættuleg efni eða við hættulegar aðstæður án þess að hafa til þess að nægilega þekkingu eða réttindi. Ég tel ástæðu til þess að menn fylgist vel með starfsréttindum þeirra sem hingað koma þannig að það sé öllum til hagsbóta, ekki til að reyna aftra því að menn komi heldur til að tryggja að þeir hafi tilskilin réttindi og verði ekki sjálfum sér eða öðrum að skaða, svo ekki sé minnst á að þeir skili góðu verki í byggingaiðnaði o.s.frv.

Hér hefur svolítið verið vitnað í umsögn Verkalýðsfélags Akraness. Það er mjög eðlilegt þar sem formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, hefur unnið mikið í málum varðandi starfsmannaleigur og erlenda starfsmenn. Eins og kom fram hjá honum fyrir rúmu ári síðan eyddi hann um 70% af starfstíma sínum í að fylgjast með réttindum og skyldum fyrirtækja gagnvart erlendum starfsmönnum.

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi á heildina litið og tel að það verði til mikilla bóta enda hefur verið óskað eftir slíkum lögum. En ég hefði viljað sjá ögn meiri samvinnu við stéttarfélögin. Það má vera að við endurskoðun á þessum lögum, eftir ár eða svo, taki menn samvinnuna upp. En ég ætla að leyfa mér að vitna að lokum í umsögn Verkalýðsfélags Akraness, með leyfi forseta:

„Reynsla félagsins af þessum málum hefur sannað nauðsyn þess að stéttarfélögin fái skýra heimild til afla gagna varðandi erlent vinnuafl, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar. Er eðlilegt að þessi heimild nái til allra aðila er koma að slíku vinnusambandi, þ.e. fyrirtæki, notendafyrirtæki og Vinnumálastofnun. Reynslan sýnir að erlent starfsfólk veit almennt lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og veigrar sér við að leita aðstoðar verkalýðsfélaganna. Dæmin sanna einnig að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér þessa vankunnáttu, jafnvel aðilar sem almennt er talið að láti sér annt um ímynd sína. Er ljóst að þótt ráðningarsamningur liggi fyrir sem tryggir laun í samræmi við gildandi lög er það engin trygging fyrir því að viðkomandi launþega séu greidd lögbundin laun í samræmi við ráðningarsamning. Hér þarf verulega eftirfylgni.“

Málið snýst um þetta, herra forseti, þ.e. aðkomu stéttarfélaga, ekki trúnaðarmanna heldur sjálfra stéttarfélaganna að eftirliti með því að erlendir starfsmenn njóti sömu réttinda og kjara og íslenskir starfsmenn njóta hér á landi.



[15:00]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls, lýsa ánægju minni með frumvarpið. Eins hef ég heyrt að vinnan í hv. félagsmálanefnd hafi gengið vel og lýst er ánægju með starfshætti í nefndinni hvað varðar vinnslu á frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Frumvarpið kemur ekki til af góðu en verið er að bregðast við miklum vanda. Hér hefur sú þróun orðið á undanförnum árum að erlendu vinnuafli hefur fjölgað ár frá ári og er nú orðið 9% af starfsmannafjölda á íslenskum vinnumarkaði. Það er nýtt fyrir okkur að hafa svo hátt hlutfall af erlendum starfsmönnum. Hér hafa sem betur fer alltaf verið erlendir starfsmenn sem hafa hjálpað okkur í tímabundnum verkefnum þar sem vertíðirnar hafa verið okkar helsti álagspunktur í vinnu, en það er að breytast. Eftir sem áður er á fiskverkunarstöðvunum orðinn mikill fjöldi og á sumum stöðvum er meiri hluti starfsmanna erlent vinnuafl. Margir hverjir eru orðnir íslenskir ríkisborgarar og það er allt af hinu góða.

Með þeirri ákvörðun að fara í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál á Reyðarfirði, álfyrirtæki á Reyðarfirði, flæddi inn á vinnumarkaðinn á mjög stuttum tíma mikill fjöldi erlendra verkamanna. Þrátt fyrir að lagt hafi verið upp í þá för með þá áætlun að 20% starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun yrðu af erlendu bergi brotin eða erlent innflutt vinnuafl snerust hlutföllin alveg við og um 80% hafa verið af erlendum uppruna. Erlendu starfsmennirnir hafa bæði komið í gegnum starfsmannaleigur og eins verið ráðnir beint. Það er af samskiptum starfsmanna Starfsgreinafélagsins Afls á Austurlandi við starfsmannaleigurnar — og við það ástand sem skapaðist við þessa miklu framkvæmd og svo stóran hóp erlendra verkamanna inn á svæðið á stuttum tíma þar sem undirbúningur hafði verið lítill sem enginn — að brestir í löggjöf okkar komu greinilega í ljós. Við því er verið að bregðast núna. Betra er seint en aldrei, segi ég, en það er alveg greinilegt á umsögn Starfsgreinafélags Austurlands að það telur að ákvæði þurfi að vera skýrari en fram kemur í frumvarpinu. Ég óska eftir því að til þess verði litið og ef í ljós kemur að Starfsgreinafélagið hefur rétt fyrir sér verði við því brugðist hið fyrsta.

Starfsgreinafélagið er það félag sem hefur hvað mesta og sárasta reynslu af álaginu. Það er alveg ljóst að í byrjun þegar ábendingar komu frá Starfsgreinafélaginu, heilbrigðiseftirlitinu og Vinnueftirlitinu um að pottur væri brotinn, að verið væri að brjóta á erlendum starfsmönnum í launum, kjörum og aðbúnaði, að þá var lítill áhugi á að bregðast við og aðstoða Starfsgreinafélagið eða styrkja Vinnueftirlitið eða heilbrigðiseftirlitið til þess að hægt væri að ganga í þau mál. Það er óeðlilegt að Starfsgreinafélagið þurfi hreinlega að fara í dómsmál til þess að fá fram bætur og réttindi þeirra starfsmanna sem augljóst er að verið er að brjóta á.

Hvað varðar Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlitið er alveg ljóst að ekki er nóg að hafa rammann, löggjöfina, í lagi ef engin viðurlög eru fyrir hendi sem vinnuveitandinn, hvort sem það er innlend eða erlend starfsmannaleiga eða hver sem er, ber virðingu fyrir og veit að verður beitt. Það er út af þessu sem hægt er að brjóta á erlenda vinnuaflinu, bæði hvað kjör og aðbúnað snertir, að hinar opinberu stofnanir sem eiga að hafa eftirlit ef verið er að brjóta á starfsmönnum hafa ekki vopn á hendi til þess að stöðva og láta fyrirtækið lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið. Þetta er mjög alvarlegt mál og í frumvarpinu er einmitt bent á það að það er ekki nægilega skýrt hvaða tæki verkalýðsfélögin, Vinnumálastofnun eða aðrir opinberir aðilar hafa til þess að ganga í málin og fá þá sem brjóta á starfsmönnum til þess að leiðrétta þau brot sem augljóslega hafa verið framin.

Það er annað sem ég tel að þurfi að fylgjast vel með og skoða, það er aðgengi verkalýðsfélaganna að erlendum starfsmönnum. Möguleika verkalýðsfélaganna til þess að gefa starfsmönnum upplýsingar, ábyrgð hins opinbera að koma upplýsingum á framfæri. Það er til vansa að það skuli vera þannig í dag að fyrirtæki geti bannað verkalýðsfélögum að koma á vinnustað og uppfræða starfsmenn og upplýsa þá um réttmæt kjör og hvaða rétt þeir eiga. Verkalýðsfélögin bæði hafa þessa skyldu og eiga að geta komið þessu á framfæri.

Það vekur mig einnig til umhugsunar og veldur mér áhyggjum að Vinnumálastofnun skuli ekki vera ætlað meira fjármagn til að fylgja þessu eftir. Það er alveg ljóst að stofnuninni er í dag þröngur stakkur skorinn með fjárveitingum, hvað þá að bæta þessu á sig. Miðað við þau útgjöld sem ætlunin er að heimila til þess að uppfylla frumvarpið, verði það að lögum, sem ég vona, er augljóst að styrkja þarf stofnunina mun betur en gert er í dag. Það er alvarlegt þegar um vísvitandi brot er að ræða. Mér finnst það öllu alvarlegra þegar um íslensk fyrirtæki er að ræða. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst það enn alvarlegra þegar um íslensk fyrirtæki er að ræða, sem geta fengið sig til þess að brjóta á erlendum verkamönnum til þess að græða meira. Eru þar af leiðandi með undirboð og grafa undan íslenskum fyrirtækjum sem vilja borga rétt og eðlileg laun og búa vel að starfsmönnum sínum. Þetta er orðið þannig að þau hafa ekki lengur rekstrargrundvöll og þar af leiðandi er hvert fyrirtækið á fætur öðru að gefast upp á framleiðslu og fara með framleiðslu sína úr landi ef það hættir þá ekki rekstri. Hluti af þessu er vegna óeðlilegra undirboða og lágra launa og ekkert síður starfsmanna hjá íslenskum fyrirtækjum.

Þetta er meinsemd sem verkalýðsfélögin, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og heilbrigðiseftirlitið verða að geta brotið niður hið fyrsta. Þetta er búið að þrífast of lengi þessi ár frá því að holskeflu erlendra verkamanna var hleypt inn í landið eða við þurftum á þeim að halda. Ef við stöðvum þetta ekki núna munum við brjóta niður kaup og kjör verkafólks hér á landi og það mun fyrst og fremst bitna á láglaunafólki.



[15:11]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Sá hv. þingmaður sem talaði á undan mér, hv. þm. Þuríður Backman, sagði í lokaorðum sínum að hið mikla flæði fólks af erlendu bergi brotið hingað til lands mundi væntanlega hafa neikvæð áhrif, ef svo má segja, á kjör launafólks á Íslandi og kannski ekki síst þeirra sem eru lægst launaðir.

Mig langar til að fara aðeins yfir þessi mál, virðulegi forseti, vegna þess að hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson sem hefur átt sæti í félagsmálanefnd þegar þetta mál hefur verið til umræðu kom í ræðustól áðan og lýsti því að hann teldi að þetta frumvarp væri til mikilla hagsbóta frá því sem áður var. Ég á ekki í neinum vandræðum með að trúa því að þetta sé til bóta. Ég hef ekki komist sjálfur á fundi í félagsmálanefnd þar sem ég hef verið upptekinn á öðrum vettvangi en Valdimar Leó hefur setið þar sem varamaður minn.

Mig langaði aðeins til að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að nýjustu tölur sýna að erlendum ríkisborgurum fjölgar stöðugt hér á landi. Í morgun bárust fréttir af því frá Hagstofu Íslands sem hefur verið að birta mannfjöldatölur frá 31. desember sl. að hlutfall útlendinga af íbúum hér á landi er orðið 6%. Þetta staðfestir það sem við höfum vitað um nokkurt skeið, að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mjög hratt hér á landi. Þeim fjölgaði um nærri 5 þúsund á síðasta ári. Þetta er mjög mikil mannfjölgun, virðulegi forseti, í okkar litla landi. Við erum ekki nema 300 þúsund, og þetta hlýtur að valda ýmsum breytingum og hlýtur að vera mjög mikil félagsleg áskorun fyrir þjóðina, kannski ekki síst þegar fram í sækir, þ.e. ef það kemur í ljós að stór hluti af því fólki sem hingað er komið getur hugsað sér og ætlar að setjast hér að til langframa og jafnvel ævilangt.

Þegar maður rýnir í tölurnar á vef Hagstofu Íslands — ég hvet þingmenn til að kynna sér þessar tölur — sést að fjölgunin er afskaplega hröð. Núna er hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda eitthvað um 6%. Ef maður skoðar kúrfuna yfir aukninguna er hún nánast stöðug upp á við og er búin að vera það í tvö ár. Með sama áframhaldi er ekki ólíklegt að um fjórðungur íbúa á Íslandi verði af erlendu bergi brotinn eftir u.þ.b. 5–10 ár, ef fjölgunin heldur áfram eins og hún hefur verið. Þetta er flókið ferli. Það eru margar breytur sem hafa að sjálfsögðu áhrif á þetta. Maður veit ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér, en mér finnst þetta fullkomið tilefni til að íhuga þessa hluti. Hvað gerist ef viðvarandi þensluástand heldur áfram, hvað gerist ef viðvarandi stórframkvæmdir halda áfram í landinu í til að mynda stóriðju og öðrum greinum atvinnulífsins? Hvað mun þá gerast? Hvers konar ástand mun þetta kalla á?

Ef við skoðum tölurnar yfir þá sem eru komnir hingað sjáum við að þetta er fólk á besta aldri, ef svo má segja. Börn eru tiltölulega fá sem gæti bent til þess að þeir sem hingað eru komnir séu þá einkum komnir í atvinnuleit, séu þá hugsanlega einhvers konar farandverkamenn. Mér finnst hins vegar vanta mjög, virðulegi forseti, upplýsingar um það hvaða fólk er hér á ferðinni. Íslensk stjórnvöld hafa hvergi staðið sig nægilega vel í því að kanna það og reyna að fylgjast með því hvaða fólk er á ferðinni og hvaða væntingar það hefur til að mynda varðandi Ísland, varðandi hugsanlega búsetu á Íslandi og annað þar fram eftir götunum. Ég held að það mundi hjálpa okkur mikið ef við vissum meira um þetta. Þá gætum við hugsað fyrir ráðstöfunum varðandi velferðarkerfið okkar. Það er alveg augljóst mál að ef það fólk sem hingað er komið núna, erlendir ríkisborgarar sem eru að mestu leyti fólk á besta aldri, hugsar sér að setjast hér að og ef það hugsar sér að fá hingað fjölskyldur sínar þurfum við að gera ráðstafanir varðandi skólakerfið. Við þurfum þá að gera ráðstafanir varðandi heilbrigðiskerfið. Við þurfum náttúrlega líka að gera ráðstafanir í öldrunarþjónustu því að við eldumst öll eftir því sem dagarnir og árin líða. Sú fjölgun sem er núna að bætast við þjóðina er umfram þær áætlanir sem við höfum gert miðað við mannfjöldaspár og annað hvað varðar okkur sem erum þó hér á Íslandi og höfum búið hér mann fram að manni og þar fram eftir götunum. Mér finnst þetta segja sig sjálft.

Sú fjölgun sem nú er að verða kemur ofan á allt annað. Sá illi grunur læðist að mér að við séum mjög illa undirbúin til framtíðar og þannig lagað séð getur þetta skapað mjög miklar áskoranir fyrir okkur og sérstaklega fyrir velferðarkerfið okkar en að sjálfsgöðu einnig miklar áskoranir á vinnumarkaði.

Ég leit aðeins yfir umsagnir sem bárust um þetta mál og ég vil segja að ég hnaut sérstaklega um eina þeirra, þ.e. umsögnina frá Austurlandi. Þar hefur fjölgunin verið einna mest. Það er Starfsgreinafélag Austurlands sem sendi inn þá umsögn. Það kom mér nokkuð á óvart að sjá hversu harðorð umsögnin er þó að ég hafi kannski átt von á einhverju. Hérna segir m.a., með leyfi forseta:

„Síðustu ár hefur atvinnulíf á Austurlandi tekið stakkaskiptum vegna stórframkvæmda á svæðinu. Mikill fjöldi erlendra starfsmanna hefur komið á félagssvæði okkar í tengslum við þessar framkvæmdir og almenna uppbyggingu sem fylgt hefur í kjölfarið. Talsverð brögð hafa verið að því að brotið hafi verið á erlendu launafólki og kjör þess hafi verið undir lágmarkskjörum samanborið við íslenska kjarasamninga. Ástæður þessara brota má rekja til eftirfarandi þátta:

1. Erlend fyrirtæki þekkja ekki til reglna sem hér gilda og leita sér ekki ráðgjafar hjá samstarfsaðilum hér á landi.

2. Erlend fyrirtæki þráast við í lengstu lög að virða lög og kjarasamninga þrátt fyrir ráðgjöf t.d. ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækja.

3. Erlend fyrirtæki (og starfsmannaleigur íslenskar sem erlendar) brjóta vísvitandi á starfsmönnum sínum og reyna á alla lund að takmarka aðgang stéttarfélaga að starfsmönnum sínum og tefja eins og unnt er alla málsmeðferð.

Þetta ástand er farið að bitna beint á félagsmönnum Afls og má fullyrða að hér á svæðinu eru „félagsleg undirboð“ í gangi þrátt fyrir viðleitni félagsins til viðnáms.“

Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart og þetta staðfestir á vissan hátt það sem við höfum stundum talað um í þessum sal, þ.e. að víða væri pottur brotinn varðandi kjör erlends starfsfólks á Íslandi, það væri verið að brjóta á því fólki sem hingað hefði komið og að í gangi væru félagsleg undirboð. Hér segir áfram í þessari umsögn, með leyfi forseta:

„Það er skoðun stjórnar Afls svo og fjölmargra funda trúnaðarmanna félagsins á svæðinu, að erlend fyrirtæki svo og starfsmannaleigur hafa í mörgum tilfellum beitt erlent starfsfólk sitt þvingunum. Ljóst er að jafnvel lág laun á íslenskan mælikvarða geta verið mjög há í heimalandi starfsfólksins. Enn fremur höfum við ítrekað fengið heimildir fyrir því að erlendu launafólki er hótað brottrekstri og heimflutningi ræði það við fulltrúa félagsins eða yfirvöld. Þá eru óstaðfestar heimildir fyrir því að einstök fyrirtæki gefi út fyrirmæli um hvað starfsfólk skuli segja yfirvöldum eða fulltrúum stéttarfélaga og jafnvel munu vera dæmi um að dreift hafi verið fjölrituðu plaggi með fyrirmælum um það hverju starfsmenn skuli ljúga um launakjör sín.

Í einu tilviki, sem nú er til rannsóknar hjá félaginu, eru uppi grunsemdir um að erlent fyrirtæki, með aðstoð íslensks samstarfsaðila, gefi út launaseðla með eðlilegum launum og skili sköttum og skyldum samkvæmt þeim — en greiði síðan erlendu starfsfólki mun lægri laun, samkvæmt ráðningarsamningi gerðum í heimalandi starfsmanna og sem hefur aldrei verið sýndur Vinnumálastofnun eða stéttarfélagi hér á landi. Starfsmenn þessa fyrirtækis hafa skýr fyrirmæli um að svara öllum fyrirspurnum á þá lund að þeir fái greidd laun samkvæmt íslensku launaseðlunum og hótað brottrekstri og jafnvel öðru verra, skýri þeir satt og rétt frá.

Í samtölum við forráðamenn og yfirmenn fjölda íslenskra fyrirtækja síðustu missiri hefur ítrekað komið fram að fyrirtæki sem virða lög og kjarasamninga standa nú frammi fyrir því að vera í samkeppni við fyrirtæki sem brjóta á starfsfólki sínu, virða ekki kjarasamninga og sinna hvorki um öryggi starfsmanna sinna né aðbúnað.

Það má vera öllum ljóst að slík starfsemi er ekki vænleg til að styrkja það velferðarkerfi sem íslenska þjóðin hefur byggt upp á síðustu áratugum.“

Virðulegi forseti. Bréfritari heldur síðan áfram og gerir athugasemdir við hinar ýmsu greinar frumvarpsins sem við erum nú að ræða. Ég hleyp yfir það en mig langar til að vitna í lokaorð þessarar umsagnar, með leyfi forseta:

„Við vekjum athygli á því að við metum stöðuna þannig að við séum hreinlega í nauðvörn fyrir kjörum launafólks á svæðinu. Með félagslegum undirboðum er verið að grafa undan lífskjörum okkar félagsmanna og brotið er á erlendu launafólki vísvitandi. Nú þegar hefur þetta bitnað helst á þeim sem síst skyldi, lægst launuðu félagsmönnum okkar í ýmiss konar þjónustustörfum.

Enn fremur er hart sótt að félagsmönnum okkar í ýmsum iðngreinum og má sérstaklega nefna byggingariðnað og málmiðnað. Hér er starfsfólk með óstaðfest iðnréttindi að ganga í störf íslenskra iðnaðarmanna og dæmi eru um heil fjölbýlishús í byggingu þar sem varla sjást iðnmenntaðir menn.

Ef ekki verður brugðist hart við má búast við að undirboð herji á vinnumarkaðinn allan innan tíðar og þannig verði grafi undan velferðarkerfi okkar.

Við biðjum því þingmenn að taka ábendingar okkar til málefnalegrar umfjöllunar.

F.h. Afls — Starfsgreinafélags Austurlands

Sverrir Albertsson.“

Þetta bréf er dagsett á Egilsstöðum þann 19. febrúar sl.

Hér er kveðið fast að orði í umsögn sem kemur úr grasrótinni, frá stóru verkalýðsfélagi á Austurlandi þar sem hafa verið miklir umbótatímar, miklar stórframkvæmdir og þær hafa að verulegu leyti verið reknar áfram með innflutningi á starfsfólki. Það er staðreynd sem við öll vitum og höfum vitað um margra missira skeið. Þarna er þróunin kannski komin einna lengst á landinu hvað varðar hlutfall erlendra ríkisborgara í íbúafjölda eftir landshlutum. Þarna er þróunin þannig að um fjórðungur íbúa á Austurlandi er samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar af erlendu bergi brotinn. Þannig er það.

Við sjáum umsögnina, kvartanir berast frá verkalýðsfélagi og aðvörunarorð og nánast neyðaróp, finnst mér, frá Austurlandi, frá verkafólki, iðnaðarmönnum, um að í gangi séu félagsleg undirboð sem grafi undan kjörum launafólks á svæðinu.

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umsögn svo alvarleg og þetta kall sem kemur að austan eitthvað sem við getum ekki hunsað. Þetta er grafalvarlegt mál og það er alveg með ólíkindum að fjölmiðlar hér á landi skuli ekki hafa gert meira af því að kafa ofan í þetta. Kannski er það vegna þess að stærstur partur af fjölmiðlum á Íslandi er í vasanum á fjármagnseigendum þessa lands og það hentar ekki hagsmunum fjármagnseigendanna að mikið sé fjallað um þessa hluti. Ég held að það henti frekar fjármagnseigendum að viðhalda núverandi þensluástandi sem að verulegu leyti er byggt upp á miklum innflutningi á erlendu vinnuafli. Það er verið að fóðra þessa vél og halda niðri launaskriði og verðbólgu í landinu, m.a. með þessum aðgerðum. Eins og ég hef sagt áður, virðulegi forseti, er á vissan hátt verið að fórna langtímahagsmunum íslensku þjóðarinnar fyrir skammtímahagsmuni í efnahagsmálum og um leið verið að grafa undan stéttarfélögum í landinu. Það er verið að grafa undan markaðslaunakerfinu, það er vegið mjög alvarlega að kjörum launafólks, sérstaklega ákveðinna stétta. Við höfum vísbendingar um það að laun í byggingariðnaði hafa ekki haldið í við launaþróun í öðrum starfsgreinum hér á landi. Við höfum líka séð tölur um það að launaþróun í verslun og þjónustu hafi ekki haldið í við aðrar starfsstéttir í landinu. Þarna er haldið aftur af verðbólgudraugnum og reikningurinn er sendur ákveðnum starfsstéttum.

Það má alveg spyrja sig að því, virðulegi forseti, hvort þetta sé sanngjarnt. Er sanngjarnt að við reynum að glíma við þensluástand sem ríkisstjórnin hefur skapað? Er sanngjarnt að við reynum að glíma við verðbólgudrauginn sem náttúrlega hefur verið vakinn upp af ríkisstjórninni? Er það sanngjarnt að við reynum að gera það með þeim hætti að við sendum reikninginn nær eingöngu á ákveðnar starfsstéttir í landinu? Virðulegi forseti. Svar mitt við þessu er nei, mér finnst það ekki sanngjarnt og ég held að það geti haft alvarlegar afleiðingar til framtíðar ef þessi þróun heldur áfram eins og hún hefur gert. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að við reynum að draga úr þenslunni, við verðum að kæla niður hagkerfið, draga úr þessari miklu eftirspurn sem hefur verið eftir vinnuafli til að minnka, vonandi, þennan innflutning á fólki erlendis frá.

Við hér á Íslandi leysum ekki vandamál í öðrum löndum með því að flytja inn fólk frá þeim löndum og búa um það í því velferðarkerfi sem við höfum byggt upp á okkar eigin forsendum miðað við okkar eigin þarfir og áætlanir. Ég tel að það sé röng stefna. Það er bara sannfæring mín. Ég er ekki sammála til að mynda Ágústi Einarssyni prófessor sem nú er við Háskólann á Bifröst og skrifaði kennslubók sem kom út árið 2005 þar sem hann skrifar litla hugleiðingu í lokakafla bókarinnar. Þetta er svipmynd á bls. 427 í þessari kennslubók, Rekstrarhagfræði eftir Ágúst Einarsson, sem ef ég man rétt er fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og núna rektor við Háskólann á Bifröst. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýnin. Íslendingar sem milljónaþjóð

Merkilegar breytingar hafa orðið hérlendis síðustu áratugi eins og fjallað er um í mörgum fyrri svipmyndum. Breytingar hafa þó orðið víðar. Við fæðingu Krists bjuggu 130 milljónir manna á jörðinni. Um aldamótin 1900 bjuggu 1,3 milljarðar á jörðinni, eða jafnmargt fólk og Kínverjar eru núna. Nú eru jarðarbúar 6,3 milljarðar. Fjölgunin á síðustu hundrað árum er því mjög mikil, eða 5 milljarðar. Talið er að íbúar jarðar verði 8 milljarðar á næstu 25 árum, sem sé að þeim fjölgi um 2 milljarða frá því sem nú er. Öll þessi aukning verður í Asíu eða öðrum þróunarríkjum.

Gífurleg vandamál koma til með að fylgja þessari fjölgun varðandi fæðuöflun, orku, vatn og lífvænleg svæði. Hvernig maðurinn tekst á við öll þessi vandamál til viðbótar við margvíslegan umhverfisvanda, sem að hluta kemur til vegna þessarar fólksfjölgunar, er óvíst. Hinar fátæku þjóðir eru helmingur jarðarbúa, eða yfir 3 milljarðar manna. Misskiptingin er ótrúlega mikil og af 200 ríkjum heims teljast 100 til þróunarlanda. Íslendingar verja sáralitlu til þróunarmála þrátt fyrir að vera meðal 10 ríkustu þjóða heims.

Þjóðríkin breytast og Ísland með. Mikil fjölgun háskólamanna sýnir vel að lykillinn að góðum lífskjörum til framtíðar er aukin menntun, ekki hvað síst menntun kvenna í hinum fátækari hluta heimsins. Mestu auðlindir næstu áratugi verða byggileg svæði, vatn og orka. Það vantar mjög byggileg svæði í heiminum enda eru alltaf bestu svæðin nýtt fyrst. Vatn verður stríðsástæða framtíðarinnar í miklu meira mæli en olía nú eða aðrar náttúruauðlindir á öldum áður. Það er augljóst að helsta vandamál vegna fólksfjölgunarinnar verður að tryggja nægjanlega orku.“

Nú kemur það sem er kannski kjarninn í þessu, virðulegi forseti:

„Það er merkilegt að Ísland á allar þessar auðlindir í miklu meira mæli en aðrar þjóðir og í mun meira magni en við gerum okkur grein fyrir. Það búa aðeins tæplega 300.000 manns á Íslandi, eða um 3 íbúar á hvern ferkílómetra og er Ísland 6. strjálbýlasta land heims. Stór hluti Íslands er þó vel byggilegur en 25% landsins eru í minna en 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæglega gæti ein milljón manns búið á höfuðborgarsvæðinu miðað við hefðbundinn þéttleika búsetu í erlendum borgum. Höfuðborgarsvæðið, þar sem 63% þjóðarinnar búa, er aðeins 1% af flatarmáli landsins. Það er engin goðgá að tala um að hér gætu auðveldlega búið 3 til 5 milljónir manna og lifað við góð skilyrði. Við eigum nóg af vatni, einungis 5% af ræktanlegu landi er nú ræktað og við sitjum að einni mestu auðlind heims, sem er djúphitinn.

Íslendingar eiga enn mikla virkjanlega vatnsorku en djúphitinn er þó líklega ein verðmætasta auðlind Íslendinga fyrr og síðar. Vegna djúphitans er hægt að nýta orku í iðrum jarðar en boraðar eru a.m.k. 5 km djúpar holur, sem eru álíka djúpar og lengstu olíuborholur, en mörg tæknivandamál eru enn óleyst við það hvernig hægt er að beisla hitann.“

Síðar segir höfundur, með leyfi forseta:

„Það er ekki úr vegi að ljúka þessari bók um rekstrarhagfræði þar sem fjallað er um hagkvæmni í rekstri og samskiptum manna með því að varpa því fram að Íslendingar ættu að bjóða fólk af erlendum uppruna velkomið hingað til búsetu í ríkum mæli. Við ættum að verða þriggja milljóna manna þjóð fljótlega, sem sé tífalda íbúafjöldann. Með því legðum við fram mikilvægan skref til bættra lífskjara jarðarbúa. Þetta ætti að vera markmið okkar næstu áratugi.“

Með þessum orðum lýkur kennslubókinni í rekstrarhagfræði eftir Ágúst Einarsson.

Þetta er áhugaverð hugsun sem hér er sett fram og kannski réttmæt að vissu leyti. Það má alveg færa rök fyrir því að Ísland sé mjög strjálbýlt land og kannski að stærstum hluta óbyggt. Það má vel færa rök fyrir því að hér séu nægar náttúruauðlindir til að hér geti búið 3–5 millj. manna. Það má benda á mikil auðæfi landsins, þau auðæfi sem við erum á hinu háa Alþingi að deila um hvort skuli vera í þjóðareign, þá með hvaða hætti og hvernig við ætlum að skilgreina það. Við getum talað um fiskimiðin, við getum talað um orkuna, bæði gufuorkuna en líka vatnsföllin. Við getum bent á það að stór hluti af ræktanlegu landi á Íslandi hefur hvergi verið nýttur með þeim hætti sem hægt væri. Við getum bent á það að hér er nægt pláss fyrir byggingar og önnur mannvirki. Landið er að verulegum hluta, hvað eigum við að segja, strjálbýlt og jafnvel óbyggt.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að halda mjög langa ræðu, og ætla nú að fara að finna eitthvert niðurlag í þessu hjá mér. Mig langaði til að lesa upp þennan litla kafla úr þessari bók til að varpa þessari hugsun fram. Það eru sumir að hugsa þær hugsanir að hér sé kannski best að fara markvisst í að fjölga þjóðinni stórkostlega á stuttum tíma. Það má vel vera, virðulegi forseti, að einhver öfl í þjóðfélaginu sjái sér efnahagslegan ávinning í því að gera þetta en ég held að þegar maður hugsar sig svolítið um og veltir þessu fyrir sér blasi við að einmitt svona þjóðfélagsbylting, þ.e. að ætla að flytja inn fólk í mjög stórum stíl til að keyra hér áfram hagvöxt til að byggja upp þjóðfélagið í miklu meiri fjölda en hér býr í dag og langt umfram það sem þjóðin fjölgar sér sjálf, gera það með innflutningi á fólki, sé ekki það sem við viljum, flest okkar, a.m.k. er ég á móti því.

Ég segi það alveg eins og er. Ég er algerlega á móti því og við í Frjálslynda flokknum. Við Íslendingar eigum að búa í þessu landi á okkar eigin forsendum. Að sjálfsögðu er fólk velkomið hingað en við eigum sjálf að ráða eftir bestu getu á hverjum tíma streyminu inn í landið. Við eigum ekki að fara út í það að skapa hér efnahagsaðstæður með einhverjum þeim hætti sem gerir það að verkum að kalla þurfi á stóraukið innstreymi af nýbúum til að halda efnahagskerfinu gangandi, til að halda þessari maskínu þannig að hún virki með einhverjum hætti. Þá held ég að það sé miklu vænlegra, virðulegi forseti, að grípa til aðgerða til að kæla niður hagkerfið og fara okkur frekar hægt og halda áfram eins og við höfum gert í 1100 ár, að lifa áfram í þessu landi á okkar eigin forsendum og laga uppbyggingu og annað í landinu að okkur sjálfum, þörfum okkar, þróun í mannfjölda, þ.e. fæðingartíðni og öðru þar fram eftir götunum.

Virðulegi forseti. Ég held að ég láti þetta duga að sinni um þennan málaflokk, þ.e. innflytjendamálin og allt sem þeim tengist, verkalýðsmálin, kjaramálin, þjóðfélagsmálin, félagsmálin og allt þetta. Mig grunar innst inni að síðasta orðið sé ekki sagt í þessari umræðu á þeim vordögum sem brátt fara í hönd.



[15:36]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alls ekki hægt að láta sem vind um eyrun þjóta þær aðdróttanir sem hv. þingmaður var með hér í ræðustól í garð fjölmiðla. Hv. þingmaður sagði að það að fjölmiðlar fjölluðu ekki meira um erlent vinnuafl væri því að kenna að það hentaði ekki eigendum fjölmiðla eða fjármagnseigendum landsins að fjalla um þessi mál. Hvað er hv. þingmaður að segja? Er hv. þingmaður að segja að eigendur fjölmiðla segi blaðamönnum og ritstjórn fjölmiðla fyrir verkum? Á hv. þingmaður við það? Mér finnst það mjög óviðeigandi að hv. þingmaður segi að eigendur fjölmiðla skipi ritstjórnum og blaðamönnum fyrir verkum, að þeir skuli ekki fjalla um erlent vinnuafl hér á landi.

Hv. þingmaður talaði um mikinn fjölda erlends vinnuafls og vitnaði í umsögn Starfsgreinafélags Austurlands. Hann vitnaði að vísu ekki í aðrar umsagnir um þetta frumvarp, umsagnir sem eru jákvæðar eins og frá ASÍ, og um umsögn Alþjóðahúss fjallaði hann alls ekki. Ég fjallaði um umsögn verkalýðsfélagsins á Austurlandi eins og hann gerði. Er ekki svo, virðulegi forseti, að í þeirri umsögn var að verulegu leyti fjallað um starfsmannaleigur og erlent vinnuafl sem kemur hingað á vegum starfsmannaleigna? Það er það að verulegu leyti. Það kom fram á fundi nefndarinnar hjá ASÍ og hefur komið fram í skriflegu svari hæstv. félagsmálaráðherra til mín að áætla megi að álíka margir erlendir ríkisborgarar hefðu verið á vinnumarkaðnum og raunin hefur orðið á þrátt fyrir að aðlögunarfresturinn um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði verið nýttur til 1. maí 2009. Erlendir ríkisborgarar hefðu þá komið á vinnumarkaðinn fyrir milligöngu starfsmannaleigna.



[15:39]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að þingmaður Samfylkingarinnar skuli koma upp í ræðustól í andsvar og tala um það sem ég sagði um fjölmiðla þegar þingmaður Samfylkingarinnar hefði kannski átt að veita andsvar við þeim litla kafla sem ég las úr kennslubók eftir Ágúst Einarsson þar sem prófessorinn lagði drögin að því að fjölga Íslendingum á mettíma úr 300 þúsundum í 3 milljónir og vildi gera það með taumlausum innflutningi á fólki.

Eins og ég sagði áðan finnst mér fjölmiðlar ekki hafa staðið sig almennilega í því að greina frá áhrifum þessa mikla innstreymis hingað, til að mynda á launaþróun og launakjör hjá alþýðu þessa lands. Mér finnst það ekki hafa komið nægilega skýrt fram. Mér finnst hins vegar sumir fjölmiðlar gangast mikið upp í því að skrifa um að þetta sé allt saman alveg rosalega flott og frábært. Þeir stunda að mínu viti ekki mjög gagnrýna fréttamennsku hvað þessa hluti varðar.

Af hverju kalla ég eftir því að hér sé stunduð gagnrýnni fréttamennska en verið hefur? Ég geri það vegna þess að ég tel að einmitt það sem er að gerast núna og mun gerast á næstu missirum sé kannski ein mesta þjóðfélagsbreyting sem við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir á seinni tímum. Það er ekkert flóknara en það. Þegar hlutfall erlendra nýbúa er hér farið að nálgast 10% og jafnvel meira en þekkist í öðrum Evrópulöndum og það gerist á örfáum missirum er það stórkostleg þjóðfélagsbreyting. Það sem við höfum verið að gera í Frjálslynda flokknum er að við höfum kallað eftir umræðu um þessi mál. Við Íslendingar sem þjóð verðum að fara að gera það upp við okkur hvert við viljum stefna í þessum málum.

Hvert viljum við stefna í þessum málum? Viljum við fara leiðina sem fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar bendir á í kennslubók sinni? Er það sú leið sem við viljum fara eða viljum við fara einhverja aðra leið? Mér þætti mjög gaman að fá að heyra fulltrúa annarra stjórnmálaflokka lýsa því hvert þeir telji að við eigum að stefna í þessum málum. Eigum við bara að láta reka á reiðanum eins og mér finnst við hafa gert fram til þessa eða eigum við að hafa einhverja almennilega stefnu?



[15:41]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fallist á það með hv. þingmanni að það væri út af fyrir sig ágætt. Ég er sannarlega ekki á móti því að það verði meiri umfjöllun í fjölmiðlum um málefni innflytjenda og stöðu þeirra, en skýringin sem hv. þingmaður gefur á því er ekki boðleg. Þetta voru aðdróttanir í garð ritstjórna blaðanna og í garð blaðamanna. Hv. þingmaður sagði að ástæðan fyrir því að umfjöllunin væri ekki meiri væri sú að fjármagnseigendur eða eigendur fjölmiðla vildu ekki slíka umfjöllun vegna þess að þeir vildu fá þetta ódýra vinnuafl hingað til landsins. Það var það sem hv. þingmaður sagði. (MÞH: Er eitthvað að því?) Þá er hv. þingmaður beinlínis að segja að eigendur þessara fjölmiðla ritstýri fjölmiðlunum, (Gripið fram í: Já.) segja þeim fyrir verkum hvað þeir megi fjalla um og hvað ekki. Þetta eru alvarlegar aðdróttanir í garð blaðamanna og fjölmiðla hér á landi.

Hv. þingmaður kom sér líka hjá því að svara því sem ég spurði hann um sem fram kom í svari hæstv. félagsmálaráðherra til mín og fram kom í nefndinni sem þingmaðurinn sat ekki í, t.d. frá ASÍ, að áætla megi að fjöldi erlendra verkamanna eða starfskrafta hingað til lands hefði verið álíka mikill og raun ber vitni — og jafnvel meiri var sagt — jafnvel þótt aðlögunin hefði verið nýtt, en þessir starfsmenn hefðu þá komið í gegnum starfsmannaleigurnar. Það vita allir og hv. þingmaður líka að undirboðin hafa helst viðgengist í gegnum starfsmannaleigurnar, þar hefur verið farið illa með verkafólk og þurft hefur að leiðrétta kjör í 50–70% tilvika hjá erlendum verkamönnum í gegnum starfsmannaleigurnar.

Hefði hv. þingmaður heldur viljað fá þetta vinnuafl í gegnum starfsmannaleigurnar en í gegnum beint ráðningarsamband við vinnuveitendur?



[15:43]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan var að ég teldi að það þjónaði ekki hagsmunum fjármagnseigenda og annarra hér á landi að fjallað væri um þetta mikla innflæði með gagnrýnum hætti. Við getum alveg farið yfir það hverjir eiga helstu fjölmiðla hér á landi. Ég held að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sé fullkunnugt um það. Eru það ekki aðilar sem eiga mikilla hagsmuna að gæta, til að mynda í fjármálakerfi landsins og öðrum atvinnugreinum? Ég held að það sé bara þannig. (Gripið fram í.) Ég var bara að segja að það þjónar ekki hagsmunum eigenda þessara blaða að fjallað sé um þessa hluti með gagnrýnum hætti. Ég kalla eftir miklu gagnrýnni fréttaflutningi um þessi mál og miklu gagnrýnni umræðu um þau, ekki bara úti í þjóðfélaginu heldur líka í þingsal. Hvernig stendur á því að við þingmenn virðumst ekki eiga að fá tækifæri til að ræða nýútkomna stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda? Hvernig stendur á því? (DJ: Hún verður rædd.) Verður hún rædd, hv. formaður félagsmálanefndar, Dagný Jónsdóttir? (Gripið fram í.) Já, ég vona að svo verði og þá mun ég fagna því.

Ég get ekki átt orðastað við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur með frammíköllum fram og til baka í salnum, það er mjög erfitt. Ég skal þegja í 5 sekúndur og hlusta eftir hvað þingmaðurinn er að segja. Nei, ég fæ ekkert svar. (JóhS: … um að fjöldi erlends vinnuafls verði jafnstór hluti þó að við hefðum …) Það má vel vera að hann væri jafnstór eða jafnmikill, það má vel vera, ég get ekkert sagt til um það. Ég er ekkert viss um að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir geti heldur sagt það til um það. Sennilega væri hann það, það má vel vera, en af hverju hefur þetta ástand skapast og hverjir bera ábyrgð á því? Ég fór yfir það í ræðu minni áðan.

Þensluástandið sem búið hefur verið til í þjóðfélaginu hefur kallað eftir þessu. Við erum komin langt fram úr okkur sem þjóð. Í þessu þensluástandi er ríkisstjórnin búin að skapa hér aðstæður sem við erum í þann veginn að missa tökin á. Þannig er það bara. Mér finnst að hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, sem situr í félagsmálanefnd og hefur mikla þingreynslu ætti kannski frekar (Forseti hringir.) að einbeita sér að slíkum hugleiðingum í stað þess að eltast við einhverja setningu sem ég sagði áðan (Forseti hringir.) um fjölmiðla þó að ég standi að sjálfsögðu við orð mín, virðulegi forseti.



[15:46]Útbýting:

[15:47]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum og sú umræða sem fer fram staðfestir það að Frjálslyndi flokkurinn hefur hrundið af stað mjög málefnalegri og þarfri umræðu í samfélaginu sem hefur getið af sér m.a. frumvarpið sem við ræðum og umræðu sem þörf hefur verið á. Ég er sannfærður um að umræðan sem Frjálslyndi flokkurinn hóf hafi verið nauðsynleg, algjörlega.

Þegar maður verður vitni að viðbrögðum ýmissa í samfélaginu, þ.e. ráðandi afla og annarra stjórnmálaafla, sérstaklega stjórnarliðsins, sem hafa verið krampakennd, og síðan almennings sem hefur hlustað á, þá eru þetta ólík viðhorf og ólík viðbrögð. Almenningur hefur fagnað umræðunni sem Frjálslyndi flokkurinn hefur hrundið af stað. Sú umræða birtist m.a. í frumvarpinu sem felur í sér þrennt: Í fyrsta lagi að tryggja starfskjör og aðbúnað starfsmanna, í öðru lagi að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi hér á landi og í þriðja lagi að auka skilvirkni eftirlits og gera stjórnvöldum kleift að hafa yfirsýn yfir vinnumarkaðinn.

Þetta er afleiðingin. En hvernig hafa viðbrögð sérstaklega stjórnarliða og málgagna stjórnarliðsins verið? Þau hafa verið krampakennd og ofsafengin. Ég leyfi mér að segja það og þá tek ég í raun vægt til orða. Ég vil nefna umræðu sem fram fór í Ríkisútvarpinu þar sem ágætur þingmaður, hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir, fór mikinn í pistli og sagði að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sómamaður og formaður Frjálslynda flokksins, hefði verið að ala á útlendingahatri og ótta gagnvart útlendingum í ræðu sinni. Ég er með ræðu hv. þingmanns frá þingi Frjálslynda flokksins og það er ekkert í þeirri ræðu sem hægt er að færa því stað að hann hafi í nokkra veru flutt þess konar ræðu, langt því frá.

Síðan hafa ýmsir aðrir framsóknarmenn haldið áfram þessari delluumræðu. Ég vil nefna einn, hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson, sem hefur flutt hér furðulegar ræður og snúið út úr þeirri umræðu sem hefur m.a. getið af sér þetta mál. Þau eru ólík viðbrögð hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur og hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar. Hún hefur séð að sér. Hún dró orð sín til baka úr ræðustóli Alþingis, án þess að vísu að biðjast afsökunar á þeim, en ég virði hana fyrir það að hún dró þá delluumræðu til baka. En hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur ekki enn séð ástæðu til að gera það en hann hefur farið hér mikinn þar sem hann hefur m.a. fullyrt að Frjálslyndi flokkurinn sé að daðra og með leyfi, frú forseta, vil ég vitna í ræðu hv. þingmanns. Hann segir í ræðu á hv. Alþingi:

„Með því að daðra við útlendingahatur, m.a. á grundvelli sjúkdóma eða sakaferils manna, er verið að færa stjórnmálaumræður á Íslandi niður á lægra plan en áður hefur þekkst og ég vil biðja ágætan formann Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, í fullri einlægni að feta ekki frekar þennan veg og leggja ekki upp í þessa feigðarför.“

Þar er hv. þingmaður að fjalla um ræðu sem flutt var á landsþingi Frjálslynda flokksins og það var nákvæmlega ekkert í ræðunni sem gaf tilefni til að gefa henni þessa einkunn, enda sá hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir ástæðu til að draga orð sín til baka. Hún gerði það, en hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur ekki enn gert það. Ég vona að hv. þingmaður sjái sóma sinn í því að gera það einfaldlega. Það er oft betra að koma í ræðustól og segja: Ég fór offari. Það var ekkert í málinu sem gaf tilefni til að vera með þvílíka einkunnagjöf. Þess vegna væri réttast fyrir hv. þingmann að gera það einfaldlega. Auðvitað er það erfitt en málaflokkurinn á það svo sannarlega skilið að fá betri umræðu og sanngjarnari en fram hefur farið.

Ég vil minna á að ríkisstjórnin samdi skýrslu, Stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Ef ríkisstjórnin meinti eitthvað með því að ætla að gera eitthvað í málaflokknum væri skýrslan rædd á Alþingi. En það á ekki að gera það. Hún hefur ekki enn þá komist á dagskrá og það sýnir auðvitað forgang ríkisstjórnarinnar og hvað hún sýnir þeim málaflokki lítinn áhuga. Ég get lofað því að fólkið í landinu hefur áhuga á málinu. Það hefur nefnilega áhuga á málinu þó svo að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafi það greinilega ekki, hann er á leiðinni burtu úr þingsalnum. Fólkið í landinu hefur áhuga á málinu (Gripið fram í.) vegna þess að það vill að náð verði einhverjum tökum á þessum málum og að umræðan fari fram með málefnalegum hætti. Það kemur m.a. fram í þeirri umsögn sem kom og var lesið upp úr frá Afli – Starfsgreinafélagi Austurlands. Fram kemur í nýlegri umsögn frá þeim að ástandið er óviðunandi. Við eigum að ræða það og hafa kjark til þess en vera ekki að úthrópa umræðuna og vera jafnvel að spyrja aðra stjórnarandstöðuflokka hvort þeir geti starfað með þessum Frjálslynda flokki, eins og kallað hefur verið eftir í umræðunni. Þetta er einfaldlega málefnaleg umræða sem þarf að fara fram, þ.e. hvort að við ætlum að bjóða upp á ástand þar sem verða stundum félagsleg undirboð og það ástand sem kemur fram í umsögn Afls – Starfsgreinafélags Austurlands.

Mér finnst að alþingismenn skuldi launahreyfingunni betri umræðu um þessi mál og þeir ættu ekki að forðast hana eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gera með því að taka ekki einu sinni þessa stefnu sína á dagskrá. Hún virðist ekki þola það, það má ekki ræða hana þannig að stjórnarandstaðan geti komið sjónarmiðum sínum og athugasemdum að. Það þola hinir háu herrar í stjórnarliðinu ekki, heldur vilja þeir frekar halda sérblaðamannafundi þar sem engin gagnrýnir ríkir og menn fá fjölmiðla sem geta jafnvel lyft þessu á stall.

Það er annar handleggur vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði það að umræðuefni að við værum gagnrýnir á það hvernig fjölmiðlar landsins hefðu fjallað um þessi mál. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði að fjölmiðlar hefðu einnig tekið þátt í því að úthrópa umræðuna. Ég get tekið undir það. Ég get einnig tekið undir það þegar maður verður vitni að því að hver leiðarahöfundurinn á fætur öðrum varar við umræðunni, umræðu sem fólkið í landinu vill að fari fram og það frumvarp sem við ræðum er afrakstur af. Það er engin spurning um það í mínum huga að umræðan þarf að fara fram og með miklu málefnalegri hætti en raun ber vitni.

Einnig finnst mér það vera mjög athyglisvert sem fram kemur í umsögn Verkalýðsfélagsins á Akranesi, hvort ekki eigi að veita verkalýðsfélögunum einhvern þátt í því að geta fylgt eftir starfsfólki sem er langt að komið, að það hafi full réttindi á vinnumarkaði, og að verkalýðshreyfingin hafi eftirlitshlutverk. Mér finnst það koma vel til greina að verkalýðshreyfingin komi inn með beinni hætti. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að dæmin sanna það og dæmin sýna það einnig og umsagnir alls staðar að af landinu að þessi mál þurfa að fara í betri farveg.

Ég er ekki viss um að við leysum þessi mál hér. Menn geta mögulega farið með frumvarpið, ef það verður að lögum, í gegnum næstu kosningar og sagt: Jú, það voru samþykkt lög, en ég er ekki viss um að þetta séu tækin, þau þurfa að vera betri til að tryggja að félagsleg undirboð verði ekki. Við sættum okkur ekki við að fólk búi í gámum, skipum eða þaðan af verri aðstæðum, sem leggur þjóðfélaginu lið og tekur þátt í að vinna erfiðustu störfin sem í boði eru í þjóðfélaginu, jafnvel fyrir laun sem Íslendingar sætta sig ekki við.

Við ætlum ekki að búa til samfélag á Íslandi þar sem Íslendingar, sem tala íslensku, verða herraþjóð og síðan einhverjir aðrir sem búa jafnvel við algjörlega óviðunandi aðstæður og eru í raun utan við lög og rétt. Mér finnst ekki spennandi framtíðarsýn að horfa upp á það. Ég hafna einnig þeirri framtíðarsýn sem fram hefur komið hjá ýmsum, svo sem hugmyndafræðingum Samfylkingarinnar, að flytja inn margar milljónir manna … (MÁ: Hvað rugl er þetta, Sigurjón?) Það kom fram í máli Ágústs Einarssonar sem samdi sérstaka bók þar sem hann greindi frá því að hann vildi flytja inn 3–10 milljónir manna til að gera Ísland að hagkvæmu landi til að búa í. Við hefðum yfir svo miklum náttúruauðlindum að ráða en fámennið gerði það að óhagræði að búa hér og nýta þær. Þegar fram koma slíkar hugmyndir eigum við að ræða þær með gagnrýnum hætti. Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem ég sé fyrir mér, alls ekki, og ég vona að svo sé um fleiri hv. þingmenn.



[15:59]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Frá því að við settumst saman á þing, ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, hefur hann verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér líkar ágætlega við Sigurjón Þórðarson og ég kann ágætlega við svona ákveðinn og ferskan blæ sem hann bar í þingið af samræðum alþýðufólks á vinnustöðum, í náttúrunni og á götunum. Ég hef vanist því að hlusta á Sigurjón og renna í gegnum kannski stundum svolitla móðu, komast að því hvað hann er í raun að meina og ég er yfirleitt sammála Sigurjóni. Ég er það að vísu ekki í þessum málum með innflytjendur og útlendinga þó kannski sé einhver lína okkar á milli sem við gætum fundist á.

Ég verð hins vegar að mótmæla því að það sé með einhverjum hætti hugmynd á vegum Samfylkingarinnar að hingað til Íslands flytji 3, 10 eða 150 milljónir manna sem nú er 300 þús. manna þjóð og hefur séð hann svartari því við höfum reyndar verið enn þá fámennari, við höfum á liðnum öldum jafnvel verið í 30–40 þús. Við skulum vona að Íslendingum haldi áfram að fjölga, þó hóflega. En það að halda því fram að einhver í Samfylkingunni eða einhver á vegum Samfylkingarinnar boði þetta fagnaðarerindi, 3–10 milljónir, er rangt.

Ég hef ekki lesið það sem Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, þar áður forseti viðskiptadeildar Háskóla Íslands, hefur sagt um þetta í sínum ritum. Vel má vera að hann hafi eitthvað minnst á þetta. Ágúst er hugmyndaríkur maður og hefur nýst okkur vissulega vel í Samfylkingunni svo sem samfélaginu öllu, en hann heldur engu svona fram á vegum flokksins og enginn í flokknum hefur tekið undir það svo ég viti.

Ég vil að þetta sé á hreinu og síðan má hv. þm. Sigurjón Þórðarson halda áfram að tala eins og honum sýnist.



[16:01]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég sagði í ræðu minni var að þetta væru hugmyndir Ágústs Einarssonar, sem er rektor Bifrastar og hefur verið framarlega í flokki, m.a. í framtíðarhópi Samfylkingarinnar. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í Samfylkingunni andmæla hugmyndum hans um að flytja inn 3–10 milljónir manna. Í von um að það sé ekki mjög þokukennt fyrir hv. þm. Mörð Árnason að fara í gegnum þetta þá eru þetta einmitt hugmyndir sem koma frá Samfylkingunni.

Ágúst Einarsson flutti þetta mál í Silfri Egils og gaf síðan út bók þar sem þessar skoðanir koma fram. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann í Samfylkingunni andmæla þessum hugmyndum. Ég gæti best trúað að slíkar hugmyndir, að flytja hér inn 3–10 milljónir manna til þess að gera Ísland hagkvæmt, ættu hljómgrunn innan Samfylkingarinnar. En ef þetta er ekki skoðun Samfylkingarinnar þá væri ágætt að það kæmi hér skýrt fram.



[16:03]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er sennilega rétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að enginn úr Samfylkingunni hefur mótmælt eða andæft þessum hugmyndum. Ég hef ekki kynnt mér þessa grein sem hv. þingmaður hlýtur að vera að tala um. En þar hlýtur að vera um einhverjar bollaleggingar að ræða því þetta er svo fjarri öllum raunveruleika að einhverjir í flokkum eða annars staðar ætli sér að flytja inn 3–10 milljónir manna.

Ég hef að vísu heyrt menn tala um það, bæði á okkar tímum og fyrr á síðustu öld, hver gæti verið fræðilega heppileg tala íslensku þjóðarinnar. Hvort við ættum að vera eins og hálf milljón, svona eins og það sé í boði, eða hvort milljón mundi kannski vera í lagi eða hvort við ættum að vera færri eða fleiri. Þetta eru svona meira spekúlasjónir út í bláinn.

Við erum stödd á þeim tímamótum að við eigum ekki bara að sætta okkur við það heldur fagna því að hingað flytji inn fólk af erlendum uppruna. Það á að taka vel á móti því fólki og við eigum að gera það að íslenskum borgurum um leið og við tileinkum okkur það besta úr menningu þess og aukum við okkur víðsýni og fjölhæfni.

En ég held að það sé enginn flokkur eða enginn stjórnmálamaður á Íslandi, sem lætur sér detta það í hug að það eigi að breyta samsetningu íslensku þjóðarinnar með einhverjum þeim hætti sem helst væri að kenna við þá félaga Hitler og Stalín. Ég tek það bara illa upp, jafnvel frá mínum góða vini, hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að hann skuli vera að hjakka á þessu í ræðu sinni. Hann hefur um margt betra að tala og á að láta meira að segja Ágúst Einarsson, fræðimann, njóta þess sem hann á en vera ekki að reyna rugla honum saman við stefnu okkar í Samfylkingunni.



[16:05]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú gott að heyra að þingmenn Samfylkingarinnar hafni algerlega þessari framtíðarsýn hugmyndafræðingsins sem hefur nú lagt mikið í púkkið hjá Samfylkingunni. Vil ég minna m.a. á fiskveiðistefnu Samfylkingarinnar sem virðist að einhverju leyti vera þjökuð af þessum hugmyndum sem fram hafa komið um að búa til einsleitt kvótakerfi fyrir mismunandi fiskimið.

Ég sætti mig ekki við það þegar verið er að ræða hér málefnalega um mál útlendinga að Hitler og Stalín sé blandað inn í þá umræðu. Ég skil bara ekkert hvað hv. þingmaður er að fara, frú forseti, og hvað það kemur málinu við. Við erum að ræða hugmyndir sem hafa komið fram af málsmetandi fólki eða frá fólki sem samfylkingarmenn segja að sé málsmetandi og tekið er mark á þar innan dyra, þ.e. hugmyndir um að flytja inn útlendinga í milljónatali.

Mér finnst þetta bara vera vitleysa. Ég vona að hv. þingmaður taki undir þá skoðun mína. Ég vona að hann komi hér upp í ræðu og fari í gegnum það hvort hann sé sammála þeirri framtíðarsýn eða ekki, ég náði þessu ekki alveg. Mér finnst það bara vera vitleysa þegar menn leggja svona í púkkið í umræðu um þennan alvarlega og mikilvæga málaflokk. Við erum að ræða um óheft innstreymi fólks og hvernig við eigum að fylgja því eftir að það séu tæki til þess að fólk sem komi inn á vinnumarkaðinn líði ekki fyrir félagsleg undirboð, að þá megi ekki taka hér inn í umræðuna þær hugmyndir sem hafa komið frá Samfylkingunni. Það er ekkert hægt að ræða það öðruvísi.

Þetta er því miður þannig. Er þetta afstaða hv. þm. Marðar Árnasonar? Tekur hann undir þessar hugmyndir eða hafnar hann þeim? Ég hafna svona vitleysishugmyndum.



[16:07]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vona nú að hv. þm. Mörður Árnason vilji hlýða á mál mitt því mig langar aðeins til að setja hann inn í þessa hluti. Mér heyrist á mæli hans að þessar hugmyndir sem við höfum verið að taka eftir í Frjálslynda flokknum hafi farið fram hjá honum. Hann hlustar væntanlega á mig og tekur þetta þá sem ákveðin varnaðarorð. Því mig grunar, virðulegi forseti, að þetta séu kannski hugmyndir sem sumir í þjóðfélaginu séu að hugsa þessa dagana, þ.e. að fara í markvissar aðgerðir til að fjölga þjóðinni stórkostlega.

Mér finnst að við ættum að ræða það vegna þess að margt af því sem til að mynda prófessor Ágúst Einarsson, núverandi rektor á Bifröst, bendir á, þ.e. grundvöllurinn fyrir þessum hugmyndum, er svo sem alveg til staðar. Þá á ég við að Ísland er mjög auðugt land til að mynda af náttúruauðlindum. Ég efast í sjálfu sér ekkert um að þetta land með öllum sínum gögnum og gæðum gæti borið tíu sinnum fleiri íbúa en nú eru í landinu og jafnvel enn fleiri. Það er því alveg einnar messu virði, virðulegi forseti, að við stöldrum aðeins við, veltum þessu aðeins fyrir okkur og ræðum þessa hluti.

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni las ég upp úr kennslubók eftir Ágúst Einarsson prófessor, Rekstrarhagfræði, af bls. 427, þar sem hann skrifar á síðustu síðu bókarinnar svona hugleiðingu þar sem hann veltir þessari framtíðarsýn fyrir sér.

Ég man eftir því þegar þessi bók kom út vegna þess að ég man eftir því að þá kom Ágúst Einarsson í viðtal hjá Agli Helgasyni í þættinum Silfur Egils. Þetta var 30. október árið 2005. Það vill nú svo til, virðulegi forseti, að ég er með þetta viðtal fyrir framan mig. Mig langar til að lesa aðeins byrjunina á því vegna þess að þar fór Ágúst yfir hugmyndir sínar sem ég held að við þurfum að ræða. Ég ætla svo sem ekkert endilega að fara að skattyrðast við hv. þm. Mörð Árnason, enda á hann í sjálfu sér enga sök á þessum hugmyndum en hann hefði kannski gott af því að hlusta á þetta en Egill Helgason segir í upphafi þáttarins, með leyfi forseta:

„Ágúst Einarsson prófessor er kominn hingað. Hann var að gefa út bók sem nefnist Rekstrarhagfræði. Mikið af þessu eru stærðfræðiformúlur og fleira sem við skiljum ekkert í en þarna er reyndar tæpt á mörgum málum sem eru mjög forvitnileg og snerta samtíma vorn. Mig langar til að fara yfir svona örfáa hluti. Meðal þess sem þú segir í bókinni Ágúst, er „að við Íslendingar þurfum að verða milljónaþjóð“.“

Ágúst Einarsson svarar: Já, ég segi það. Ég er náttúrlega fyrst og fremst að skrifa rekstrarhagfræði og fjalla um markaðinn, um framboð og eftirspurn o.s.frv. Í bókinni dreg ég upp svipmyndir sem tengja fræðin því sem er að gerast í kringum okkur. Eitt af því sem ég bendi á eru breytingar sem hafa orðið á Íslandi, þ.e. að 63% af þjóðinni búa á höfuðborgarsvæðinu og ég fór að skoða hvernig þetta er annars staðar í heiminum. Þetta er eiginlega einsdæmi, Ísland er eiginlega orðið borgríki án þess að við höfum tekið eftir því, það eru bara fimm þjóðir af 160 þjóðum í heiminum sem eru með stærra hlutfall af íbúum sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Þá spyr Egill Helgason: Þá erum við að tala um að ójafnvægi, ef svo hægt er að segja, milli landsbyggðar og höfuðborgar sé eiginlega hvergi meira en hérna.

Ágúst Einarsson svarar: Nei, það má eiginlega bara segja að landsbyggðin sé horfin og ef við förum aðeins út fyrir, tökum t.d. Akranes, Suðurnesin og Árborgarsvæðið, þá eru þetta 72% af þjóðinni. Þetta er einsdæmi í heiminum. En við erum samt enn þá að tala um þéttbýli og dreifbýli þótt við séum orðin borgríki og þetta er svo merkilegt ef við hugsum til þess að höfuðborgarsvæðið er aðeins 1% af flatarmáli landsins. 99% af landsvæðinu eru eiginlega ekki nýtt til búsetu en 25% af Íslandi er á svæði sem er frá sjávarmáli upp í 200 metra hæð og það er byggingarland.

Egill Helgason: Fyrr á öldum bar Ísland tæplega 50 þús. manns. Það var svona það sem heitir „breaking-point“ en nú ertu að tala um að hér geti búið 3–10 milljónir manna.

Ágúst Einarsson svarar: Já, það er mjög einfalt, atvinnuhættirnir hafa breyst. Ísland sem svona sjálfsbjargarland, það bar ekki meira á árum áður en við nýtum aðeins 5% af ræktanlegu landi á Íslandi. Það er enginn vandi að koma fyrir milljón manns á höfuðborgarsvæðinu, ef við hefðum sama þéttbýli og er í útlöndum. Það gæti önnur milljón manns búið á Reykjanesi. Það er ekkert vandamál að koma milljón manns fyrir á Suðurlandsundirlendinu. Það sem ég dreg þarna fram þegar við hugsum aðeins til framtíðar, er að þrjú af stærstu vandamálum mannsins verða: Skortur á byggilegu svæði, skortur á vatni og skortur á orku. Það er svo merkilegt þegar við hugsum um það að við Íslendingar eigum þetta allt. Við eigum nóg byggingarland. Við eigum nóg af vatni og við sitjum hér á orkuauðlindum sem er djúphiti sem á eftir að nýta, það tekur einhverja áratugi, en við erum á plötuskilum og tiltölulega mjög grunnt sem þarf að bora, þannig að við erum með þrjár af framtíðarauðlindum. Auðvitað eigum við að nýta þetta til að bjóða fólk velkomið hingað. Það er þess vegna sem ég segi: Við eigum að stefna að því að tífalda íbúafjöldann.

Egill Helgason: Við gerum það bara ekkert sisvona, menn munu eignast jafnmörg börn og menn gerðu í þinni fjölskyldu. — Þá fer prófessorinn aðeins yfir systkinafjölda sinn sem er kannski aukaatriði en segir síðan, með leyfi forseta:

„Við eigum að fá útlendinga hingað, gera þá að Íslendingum, hjálpa þeim að aðlagast og það er ekkert mál að fá fjölda fólks til landsins. Af því að þú varst að tala um Pólverja áðan, þessa merkilegu pólsku bræður, þá starfa og búa hér fjölmargir Íslendingar sem voru upprunalega Pólverjar, eða Pólverjar sem eru að verða Íslendingar. Þetta er t.d. þjóð. Þriðjungur af pólsku þjóðinni býr erlendis. Það eru ekki allir sem vita það, en það er fjöldi fólks í heiminum sem vill mjög gjarnan koma í það umhverfi sem hér er. Það er ekkert mál fyrir okkur að hér séu 3–10 milljónir manns. Þetta er líka spurning um það hvort við höfum yfirleitt rétt á því að sitja á öllum þessum auðlindum í heimi fátæktar og örbirgðar, sitja á öllum þessum vatnsforða, sitja á öllu þessu byggingarlega svæði sem hér er, sitja á þessum orkuauðlindum. Getum við það ef við hugsum 20–30 ár fram í tímann?“

Við grípum svo niður í viðtalið síðar þar sem Ágúst Einarsson segir varðandi landbúnaðarkerfið og fleira, með leyfi forseta:

„Já, við erum með kerfi sem er eins og í mörgum löndum þar sem landsbyggðin er mjög sterkur og stór þáttur. Það er algengast að svona 5–25% af þjóð búi á höfuðborgarsvæði. Hér eru þetta 63% og við eigum að ræða svolítið út frá því vegna þess að við sjáum líka hvað er að gerast á landsbyggðinni. Íbúum þar er alltaf að fækka en samt tölum við um að við getum jafnvel snúið þessu við. Það hefur engin þjóð í heiminum getað gert. Við þurfum að setja þetta í alþjóðlegt samhengi og það er þess vegna sem ég vil líka draga upp þessa þætti eins og orkuna og vatnið. Stríð fortíðarinnar voru út af olíu, járni, námum, öll nýlendustríðin sem voru síðustu 200 árin, en stríð næstu áratuga, því það verður alltaf barist því miður, þau verða út af vatni, þau stríð verða út af búsetu. Hvar ætlum við að koma þeim 2 milljörðum manna sem íbúum jarðarinnar mun fjölga um á næstu 25 árum?“

Mig langaði aðeins til að grípa niður í þetta viðtal. Viðtalið er reyndar til hjá upplýsingaþjónustu Alþingis og hv. þm. Mörður Árnason og fleiri geta nálgast það þar og geta lesið það sér til fróðleiks og skemmtunar.

Ég verð að segja að mér hugnast alls ekki þessi framtíð, þ.e. ef við förum út í einhverjar svona aðgerðir, langt, langt í frá. Því fer svo víðsfjarri. Kemur ekki til greina, segi ég. En það má vel vera að prófessorinn hafi kastað þessu fram til að vekja umræðuna. Ég skal ekki segja. En grundvallarhugsunin á bak við þetta er sennilega alveg rétt því á Íslandi eru gríðarleg auðæfi, auðæfi sem við sem búum á landinu í dag gerum okkur kannski ekki fyllilega grein fyrir. Það mætti eflaust hugsa sér að það væri hægt að fara í einhverjar svona aðgerðir. En eins og ég segi, þá held ég að afskaplega fáir Íslendingar séu sammála því að við eigum að gera það.

En mig langaði bara til að koma hér upp þegar ég heyrði að þessi orðræða var komin í gang, virðulegi forseti, og greip með mér þessa ágætu kennslubók og þetta viðtal og langaði til að lesa það upp þannig að þingheimur hefði að minnsta kosti heyrt af þessum hugmyndum. Því ég verð að segja það, miðað við hvernig þróunin er núna, þá grunar mig það svona innst inni að minnsta kosti, að í þessu þjóðfélagi séu öfl sem gjarnan verði tilbúin til að fara út í svona aðgerðir til þess einmitt að keyra hér áfram og byggja upp enn stærra hagkerfi og reyna að búa til þjóð í landinu sem passar betur við landið, gögn þess og gæði.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[16:17]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég lofa að vera ekki lengi í ræðustól. Ég verð að viðurkenna á mig að ég hef ekki lesið mikið í bókinni Rekstrarhagfræði eftir Ágúst Einarsson, hvorki byrjunina né endinn. Ég hafði ekki heyrt þetta um Silfur Egils. Ég hef hins vegar, eins og ég sagði áðan, heyrt þessar hugleiðingar fyrr, þessar spekúlasjónir bæði fyrr og síðar, um hve marga menn Ísland ber og hvað væri hæfilegt til að samfélagið væri menningarlegt, skemmtilegt og gott o.s.frv. að hér byggju margir. Þetta eru spekúlasjónir sem ég alltaf tekið sem hugarleikfimi sem sé út í bláinn.

Ágúst Einarsson var þingmaður Þjóðvaka á kjörtímabilinu 1999–2003 og síðan varaþingmaður á næsta kjörtímabili þar á eftir fyrir Samfylkinguna. Ágúst Einarsson er traustur og góður jafnaðarmaður og ég veit ekki betur en að hann sé enn í Samfylkingunni. Ég vona það. Hann hefur a.m.k. ekki skilist frá henni í neinum grundvallaratriðum. Ég hygg hins vegar að þarna sé það ekki stjórnmálamaðurinn Ágúst Einarsson sem er að tala heldur hinn hugmyndaríki fræðimaður, rekstrarhagfræðingurinn og viðskiptaprófessorinn Ágúst Einarsson. Hann hefur að sjálfsögðu allt það málfrelsi sem honum sýnist.

Það sem ég var að tala við hv. þm. Sigurjón Þórðarson um var að málrófi fræðimannsins má ekki blanda saman við stefnu Samfylkingarinnar. Ég tel það, við skulum orða það kurteislega, ekki rétt og ekki sanngjarnt af Sigurjóni Þórðarsyni að gera það, halda því fram að hugmyndir um innflutning 3–10 millj. manna til Íslands á næstunni séu á vegum Samfylkingarinnar.

Ég endurtek það sem ég sagði áður. Við erum uppi á þeim tímum að við verðum nauðug viljug að sætta okkur við eða fagna því, eftir því sem menn vilja, að hér verði stærri hluti þjóðarinnar en áður af erlendum uppruna. Ég tel það hreint ágætt. Ég tel að því fylgi margir kostir ef við kunnum að bregðast við og læra af mistökum annarra og góðri reynslu þar sem hún er fyrir hendi í grannlöndum okkar. Það eigum við að reyna að gera. Ég vona að Frjálslyndi flokkurinn geti hjálpað til við það þótt hann hafi farið nokkuð geyst í málin, skulum við segja til að halda áfram fullri kurteisi og eðlilegum samskiptaháttum í ræðum á þinginu.

Ég tel sjálfsagt að þetta haldi áfram og sé ekki hvaða ráð Frjálslyndi flokkurinn hefur til að stöðva það, eins og hann talar mikið um. Þá þyrfti að ganga úr alþjóðasamtökum sem við erum aðilar að. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að við vörumst hættuna af félagslegum undirboðum, sem vissulega er fyrir hendi, og af því að hér verði einangruð þjóðarbrot eða minnihlutahópar í andstöðu við hluta af því samfélagi sem fyrir er í hinu íslenska samfélagi. Á hinn bóginn eru hættur sem stafa af því sem ég hef stundum kallað öfga-líberalisma í þessum efnum. Hann gengur út á að menn eigi nánast að skammast sín fyrir að vera Íslendingar, leggja af íslenska tungu í samskiptum sínum við útlent fólk og leggja litla áherslu á það að þeir sem hingað koma og vilji gerast Íslendingar læri íslensku o.s.frv.

Ég vara líka við því að erlent fólki sem hér sest að og verður Íslendingar fái ekki að vita að fyrir hendi er einhvers konar huglægur samningur sem síðan er staðfestur í kerfinu og reglugerðum sem við setjum meðal þjóðarinnar, milli þeirra sem fyrir eru og þeirra sem aðflytjast. Þeir sem fyrir eru taki á móti gestum sínum og nýjum fjölskyldufélögum með hæfilegum hætti og setji sér að gleðjast og hagnast á þeim fjölbreytileik sem í samfélagið kemur með þeim en gestirnir gerist á móti aðilar að íslensku samfélagi með öllu því sem því fylgir og tileinki sér hina þjóðlegu menningu okkar að því leyti sem þeim hentar og taki mark á undirstöðum íslensks samfélags sem byggjast á mannréttindum og virðingu sem við höfum reynt að leggja stund á. Ég ætla ekki að fara að nefna dæmi um hið gagnstæða en þau er að finna í grannlöndunum víðs vegar og ýmis mistök hafa verið gerð þar á undanförnum áratugum sem við eigum að geta lært af.

Síðan er vert að nefna annað mál, ég skal ekki lengja þingfundinn með því að ræða það lengi, en það getur, eins og ýmsir hafa bent á, komið til þess að við stöndum beinlínis frammi fyrir vanda af því tagi sem við ræddum. Að það sé ekki spurning um okkar vilja eða afstöðu heldur þurfum við beinlínis að horfa framan í stórkostleg vandamál sem stafa af þeirri loftslagsvá sem stendur fyrir dyrum. Menn hafa spáð því að ef okkur takist ekki, og þá tala ég í 1. persónu fleirtölu um nánast allt mannkyn, að draga úr losun og koma jörðinni aftur á sína braut hvað þetta varðar geti orðið miklir fólksflutningar af þeim svæðum sem verst verða úti og á þau svæði sem skást komast af. Sem betur fer, í miðjum hörmungunum, lítur út fyrir að Ísland sé í hópi hinna síðarnefndu. Þar eigum við að vísu við það vandamál að stríða sem Golfstraumurinn er. En hvernig hafstraumarnir fara út úr þeirri þróun sem fram undan er vita menn mjög illa og þau fræði eru kannski þau hæpnustu í loftslagsfræðunum enda hafa menn haft ýmsar spár þar uppi.

Þetta gæti gerst. Ég vona að svo verði ekki og við berum gæfu til þess á Íslandi og í öllum heiminum að forða okkur frá þessari vá. En hún er auðvitað allt annað en það sem rekstrarhagfræðingurinn var að ímynda sér í rekstrarhagfræði og þjóðhagfræðilegum hugarloftfimleikum sínum.



[16:26]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við ættum að ræða þetta í fúlustu alvöru og ekki að líta á málið eins og það sé einhver hugarleikfimi út í loftið. Ég held að prófessorinn hafi að mörgu leyti rétt fyrir sér, sérstaklega þegar hann talar um möguleika landsins og möguleikana sem gæði landsins geta fært okkur. Ég held að það sé alveg rétt að Ísland geti borið meiri mannfjölda en það gerir í dag. Það er rétt hugsun en hvort það sé rétt að mannfjöldinn verði búinn til eins og prófessorinn leggur til, um það er ég honum algjörlega ósammála.

Ég held að við ættum að staldra við og velta þessu fyrir okkur. Sumum kann að finnast þetta skemmtilegar pælingar en það er líka mjög mikil alvara á bak við þetta. Við í Frjálslynda flokknum höfum kallað eftir því að við gerum ekki sömu mistök og nágrannaþjóðirnar, t.d. í þessum málaflokki, þ.e. innflytjendamálunum, þar sem margir segja að Evrópa hafi hreinlega sofið á verðinum og ekki rankað við sér fyrr en of seint, þegar vandamálin voru orðin svo mikil að menn áttu í vandræðum með að ráða við þau. Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu nágrannaþjóðanna með því að ranka við okkur í tíma.

Ég hvet hv. þingmenn til að fara inn á vef Hagstofunnar, hagstofan.is, og skoða nýjustu tölur yfir mannfjöldaþróun á Íslandi eftir ríkisfangi og fæðingarlandi. Þær tölur eru afskaplega merkilegar. Þær eru fyllilega þess virði að menn setjist yfir þær og ræði þær, hvað hugsanlega liggur í þeim til framtíðar. Það er skylda okkar sem erum þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga að ræða þessa hluti. Við eigum að gera það og ekki að vera hrædd við að taka þessa umræðu.



[16:28]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir það að við eigum að ræða þessa hluti. Kannski höfum við gert of lítið af því. En við eigum að ræða þá út frá öðrum grunnforsendum en þeim sem Frjálslyndi flokkurinn hefur rekist á í eftirmála rekstrarhagfræðings þar sem hann setur upp hagfræðilegt líkan og leyfir sér, væntanlega meðvitað, að gleyma menningarlegum og félagslegum þáttum o.s.frv.

Niðurstaðan mín er þessi, sem ég skal nefna enn einu sinni. Það er ekki pólitískt umræðuefni að hingað flytji 3–10 milljónir manna á næstunni. Þeir sem vilja gera það að pólitísku umræðuefni skulu setja það á borðið en sleppa því að kenna þær hugmyndir við Samfylkinguna.



[16:29]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu ætti það að vera pólitískt umræðuefni. Ég hlýt að kalla eftir svörum við því frá hv. þm. Merði Árnasyni: Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að þetta geti gerst? Hann lýsti því yfir áðan, ég heyrði a.m.k. ekki betur og hann leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, að hann teldi að þetta ætti að vera nokkurn veginn með þeim hætti sem það er í dag, þ.e. opið.

Við erum náttúrlega ekki nema 300 þús. á Íslandi. Við erum eins og eitt hverfi í Varsjá. Við erum ekki fleiri en svo. Ég held að þessir hlutir geti gerst mjög hratt ef við verðum ekki vakandi. Skoðum tölurnar yfir þá sem eru komnir hingað núna. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar, eru karlmenn á besta aldri. Ég geri ráð fyrir að langflestir þessara karlmanna eigi fjölskyldur í sínum heimalöndum. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir væru að íhuga að flytja hingað með fjölskyldur sínar. Mér finnst eðlilegt að þeir séu að hugsa um það vegna þess að þótt íslenskt þjóðfélag sé ekki fullkomið að okkar mati, þá held ég að fólk frá fátækum löndum, sem sér íslenskt samfélag og hvernig okkur hefur tekist að byggja það upp með ótrúlegum dugnaði og krafti á tiltölulega stuttum tíma, búa hér til velferðarkerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi og annað þar fram eftir götunum, að þessu fólki finnist það nánast verið komið í hið eina sanna draumaland.

Ég held að það sé þannig. Við getum ekki komið í veg fyrir það ef mikill fjöldi fólks, eins og ég segi, ákveður að flytja búferlum hingað til Íslands. Síðan vaknar spurningin um hversu hratt tekst að byggja upp atvinnulíf, íbúðarhúsnæði og annað sem þarf til að rúma það fólk sem hingað kæmi. Það er síðan annað úrlausnarefni en ég á ekki von á því að það þyrfti að taka svo ofboðslega langan tíma. Við sjáum að hér rísa íbúðahverfi í borgríkinu, sem bæði Ágúst Einarsson og formaður Framsóknarflokksins hafa talað fjálglega um. Hér rísa íbúðahverfi nánast hraðar en hönd á festir. Hér geta því hlutirnir gerst mjög hratt og óvænt ef við höldum ekki vöku okkar (Forseti hringir.) og ef við höfum ekki kjark til að ræða þessi mál og helst gera eitthvað í þeim.



[16:31]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vitna ekki mikið í þann mann en nú held ég að kominn sé tími til að vitna í Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann sagði af sinni snilli að skrattinn væri ekki gott veggskraut. Ég held að við nálgumst ekki umræðuna, svo ég noti vinsæla klisju í íslensku, með því að draga upp einhverjar hryllingsmyndir eða framtíðarsýnir úr rekstrarhagfræðinni. Ég held að þau úrlausnarefni sem við stöndum nú frammi fyrir verði ekki útkljáð með þeim hætti.

Má ég þá líka benda á að það er tvennt ólíkt þegar Ágúst Einarsson talar um að æskilegt væri að hér byggju 3 eða 10 milljónir og gerir það út frá módelum sem hann setur upp í rekstrarhagfræði og hefur, eins og ég segi, viljandi gleymt að taka með í reikninginn menningarlega þætti, félagslega og (Gripið fram í.) ekki síst íslenskulega og tungumálalega þætti.

Hitt er svo annað og allt öðruvísi þegar hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson eða sá sem hér talar ímyndar sér það sem gæti gerst við hamfarir, raunverulegar náttúruhamfarir í framtíðinni. Segja verður um það að ef slíkt mundi gerast mundu auðvitað vera notuð þau verkfæri sem til staðar eru í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að hægja á og vernda samfélagið fyrir þeim hættum sem því gætu fylgt. En við yrðum að sjálfsögðu líka, svo það sé klárt, að taka á okkur sammannlega ábyrgð sem vel stæð þjóð.

Ég get huggað hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson með því að ég held að þetta sé ekki alveg á næstunni, a.m.k. ekki á næsta kjörtímabili.