133. löggjafarþing — 93. fundur.
opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 280. mál (heildarlög, Nýsköpunarmiðstöð Íslands). — Þskj. 293, nál. 1119, brtt. 1120.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[10:27]

[10:18]
Herdís Á. Sæmundardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa stuðningi við þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til við frumvarp um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Þær lúta að því að taka Byggðastofnun út úr þeirri sameiningu stofnana sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég get tekið undir mjög margt af því sem fram kemur í frumvarpinu sjálfu. Það er í sjálfu sér afar gott markmið að samræma og samhæfa allt það starf sem iðnaðarráðuneytið fer með og lýtur að stoðkerfi atvinnulífsins í þeim tilgangi að efla sóknarkraft og tryggja hámarksárangur starfsins.

Það er jafnframt ástæða til að draga sérstaklega fram og halda á lofti þeim góðu áformum sem í frumvarpinu felast sem er að koma upp þekkingarsetrum um land allt og draga þar til samstarfs ýmsa aðila á viðkomandi svæðum, eins og t.d. háskóla, ýmsar stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.

Í frumvarpinu er mikil frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun og svo að ég vitni beint í frumvarpið, með leyfi forseta, eru þekkingarsetur á landsbyggðinni „þungamiðja atvinnusóknar sem einkum byggist á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði“.

Þetta er sú hugmyndafræði sem vaxtarsamningarnar byggja á og þetta er sú hugmyndafræði sem við eigum að byggja á til framtíðar. En þrátt fyrir að ýmislegt sé gott í frumvarpinu hef ég þó haft sitthvað við það að athuga. Þær athugasemdir hafa fyrst og fremst lotið að hinni hefðbundnu starfsemi sem Byggðastofnun hefur haft með höndum og sem ég tel afar mikilvæga fyrir byggðirnar og fyrirtækin í landinu. Þeirri starfsemi var að mínu mati ekki gert nógu hátt undir höfði í frumvarpinu. Það hefði með öðrum orðum þurft að tryggja betur það hlutverk sem Byggðastofnun hefur í dag gagnvart fyrirtækjum og fólki á landsbyggðinni.

Ég er þó afar ánægð með að niðurstaða skuli vera komin í málið og í framhaldinu tel ég brýnt að vinda sér í það verkefni að „efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála“ svo að ég vitni beint í byggðaáætlun, með leyfi forseta.

Þetta er einmitt eitt af þremur markmiðum sem stjórnvöld skulu hafa samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun 2006–2009 sem samþykkt var á vorþingi 2006. Sú efling á að fela í sér möguleika Byggðastofnunar til að setja aukinn kraft í atvinnuþróunarstarfið, í rannsóknarstarfið og nýsköpunarstarfið, að byggja upp þekkingarsetur um land allt og starfa af auknum krafti í anda þeirrar hugmyndafræði sem frumvarpið byggir á og sem ég fór yfir áðan. (Forseti hringir.)

Ég vil að lokum hvetja hæstv. ríkisstjórn til að fylgja þessum markmiðum í byggðaáætlun fast eftir.



[10:22]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vísa til þess sem hv. ræðumaður sem var á undan mér sagði í lok ræðu sinnar, þ.e. hún vitnaði í markmið byggðaáætlunar. Þar var gert ráð fyrir því að Byggðastofnun fengi aukið hlutverk og þar með að fjárlaganefnd Alþingis fengi með samþykkt þessarar byggðaáætlunar í raun og veru það hlutverk og þá ábyrgð að sjá til þess að fjármunir væru til staðar til að framkvæma það sem ætlast er til af Byggðastofnun.

Það mál sem við erum hér að greiða atkvæði um er búið að vera undarlegt og taka ýmsar beygjur. Sá hv. ræðumaður sem var hér í ræðustólnum á undan mér er ein af þeim sem mættu á fund iðnaðarnefndar til að mæla með því að málið yrði afgreitt með þeim hætti sem það lá fyrir, að Byggðastofnun yrði sameinuð með hinum stofnununum. En eftir tvo vetur í þæfingi í iðnaðarnefnd hefur niðurstaðan orðið sú sem hér ber raun vitni, þ.e. að menn eru hættir við allt saman. Við fögnum því. Við styðjum það að þessar tvær stofnanir sem nú á að sameina og búið var að ná góðri samstöðu um að sameina fái frið til þess að halda áfram því ferli sem hafði verið sett af stað.

Ég trúi því að það verði þeirri starfsemi til heilla en ég trúði því aldrei að það gæti orðið byggðamálunum til heilla að setja þau inn í þá óskyldu starfsemi sem þarna á að fara fram.

Það verður auðvitað að segjast eins og er að þegar menn snúa frá villu síns vegar verður maður að fagna því, þakka fyrir það og votta þeim virðingu sína fyrir það að hafa viðurkennt að þetta væri röng og vitlaus leið. Ég trúi því að í framhaldi af þessu sameinist menn um að styrkja Byggðastofnun og hætta þeirri vegferð sem hefur verið farin undir forustu Framsóknarflokksins gegn byggðamálunum í landinu, gegn Byggðastofnun, með því að tvístra þeim verkefnum út um allt eins og gert hefur verið í stað þess að nota þá stofnun sem til þess var stofnuð að styðja byggðamálin.



[10:24]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er sammála þeim tveim síðustu ræðumönnum sem hér hafa talað og lýst ánægju sinni með breytingar á þessu frumvarpi, þar á meðal stjórnarþingmanninum sem talaði áðan.

Það er sérstakt fagnaðarefni að þetta arfavitlausa stjórnarfrumvarp sem búið er að þvælast fyrir fótum manna á Alþingi í tvö ár skuli nú loksins vera að gufa upp. Sú vitlausa hugmynd að troða Byggðastofnun og byggðamálunum inn í annars ágæta áætlun um að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun er sem sagt slegin af með breytingartillögum iðnaðarnefndar.

Það hefur farið eitt og hálft ár í þetta þóf, í þessa vitleysu, og á meðan hafa málefni Byggðastofnunar hangið í lausu lofti og í raun hefur þetta skapað óþarfa óvissu og töf um málefni rannsóknastofnananna líka.

Það verður að segjast alveg eins og er að það er dapurlegt í hvers konar reiðarinnar útideyfu málefni Byggðastofnunar og byggðamálin hafa verið í tíð þessarar ríkisstjórnar upp á síðkastið. Í raun og veru hafa þau meira og minna verið munaðarlaus eða á hrakhólum frá því að þau voru flutt vistaskiptum úr forsætisráðuneytinu í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, frá Sjálfstæðisflokknum til Framsóknarflokksins.

Ekki geta þeir framsóknarmenn nú verið sérstaklega stoltir af afrekum sínum á þessu sviði sem þeir standa hér frammi fyrir fullkominni uppgjöf með þetta síðasta sprell. Það er alþekkt að hér átti Byggðastofnun, eins og eitthvert vandræðabarn, að fá far með þessari sameiningu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar og var skotið á skjön inn í þegar tilbúið frumvarp um það mál, enda sást þegar lesið var það frumvarp sem kom hér inn á borð okkar í fyrrahaust og aftur í haust, sem var alveg stórmerkilegt, þ.e. að menn skyldu ekki sjá að sér eftir ófarirnar sem það frumvarp fékk í fyrra. En menn vildu láta berja á sér tvisvar áður en þeir gæfust upp og það er auðvitað þeirra val.

Það alvarlega er að byggðamálin hafa liðið stórkostlega fyrir þetta ástand, fyrir þessa óvissu, fyrir deilur og alls konar hringl sem hefur verið í þessum málaflokki um langt árabil. Byggðastofnun hefur verið allt of veik. Hún hefur á köflum verið við það að komast í þrot og ekki getað sinnt starfi sínu eins og frægast varð auðvitað í fyrra þegar hún tók þá ákvörðun, á réttum grunni, að hætta útlánastarfsemi þar sem hún fullnægði ekki lengur skilyrðum fjármálastofnana varðandi eigið fé. Henni var skipað að halda áfram að lána engu að síður sem er kafli út af fyrir sig en tímans vegna fer ég ekki nánar út í það mál hér.

Það er þó bót í máli að þessari óvissu er eytt og menn hafa snúið frá þessari vitleysu. Eftir stendur að taka þarf til hendi í byggðamálum á Íslandi og það verk bíður næstu ríkisstjórnar.



 1. gr. samþ. með 56 shlj. atkv.

Brtt. 1120,1 samþ. með 57 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ArnbS,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BÁ,  BjarnB,  BjörgvS,  DJ,  DrH,  EKG,  EOK,  EMS,  GHH,  GuðjG,  GHj,  GÓJ,  GAK,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GÖrl,  HBl,  HerdS,  HjÁ,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  JónK,  JKÓ,  JBjart,  KÓ,  KolH,  KHG,  KLM,  LB,  MÞH,  MF,  MÁ,  PHB,  RG,  SAÞ,  SKK,  SigurjÞ,  SÞorg,  SF,  SP,  SJS,  SæS,  VF,  VS,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
6 þm. (ÁÓÁ,  BJJ,  EBS,  GÖg,  HHj,  IHÓ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:28]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hér er lögð til hvílu afleit hugmynd sem átti að verða bjargráð í byggðamálum en er kannski besti vitnisburðurinn um það umkomuleysi sem umlukt hefur byggðamálin í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Á meðan varnarsvæðunum á landsbyggðinni blæðir út er ríkisstjórnin í svona leikfimi með byggðamálin, svona glannaskap eins og hér um ræðir. Það tók 2–3 ár að berja þetta mál til þess sem hér er lagt til, að það verður ekkert úr því. Því ber að sjálfsögðu að fagna. Þetta var afleitt mál og hér er það lagt til hvílu. En það er góður vitnisburður eða öllu heldur grafalvarlegur vitnisburður um óreiðuna, uppnámið og uppgjöf þessarar ríkisstjórnar í byggðamálum. Það er að sjálfsögðu afleit staða í þeim málum sem áttu að verða hvað mikilvægust þegar upp var lagt í vegferðina. Þess vegna er það fagnaðarnefni að þessi sameining verði að engu.



 2. gr., svo breytt, samþ. með 57 shlj. atkv.

Brtt. 1120,2–19 samþ. með 58 shlj. atkv.

 2.–26. gr. (verða 2.–17. gr.) og ákv. til brb. I–IV, svo breytt, samþ. með 52 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr.  með 57 shlj. atkv.