133. löggjafarþing — 94. fundur.
vegalög, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 437. mál (heildarlög). — Þskj. 1352.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[19:49]

[19:45]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið við umræðu í þinginu er þetta frumvarp gott um margt. Þrjár greinar frumvarpsins, 4., 14. og 17. gr., hafa hins vegar verið gagnrýndar. Nú hefur verið gerð breyting á alvarlegustu greininni, 4. gr. Þar hefur verið numið brott ákvæði sem hefði lögþvingað Vegagerð ríkisins til að einkavæða alla hönnun, allar nýbyggingar, allt viðhald, alla þjónustu, allt eftirlit. (Gripið fram í: Einkavæða vegina.) Og að einkavæða vegina, það er rétt, því að í frumvarpinu var ákvæði þess efnis að vegamálastjóri hefði heimild til að framselja vegina, þjóðvegina, til einkaaðila til frambúðar. Nú hefur verið komið með tillögu eða breytingu á frumvarpinu þess efnis að einvörðungu sé um að ræða tímabundna ráðstöfun. Þessu náðum við fram, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að fá fram þessar breytingar á frumvarpinu og ég lít svo á að þær séu mjög mikilvægar því að það hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Vegagerðina og þjónustu Vegagerðarinnar vítt og breitt um landið ef löggjafinn hefði þvingað Vegagerðina til að bjóða út nánast alla starfsemi sína. Hér var ekki um að ræða heimildarákvæði heldur lögþvingun af hálfu löggjafans. Ég fagna því að ríkisstjórnin skuli hafa verið reiðubúin til að taka upp viðræður um breytingar á þessu frumvarpi. Ég tel þær ásættanlegar og við styðjum þess vegna frumvarpið í heild sinni.



[19:47]
Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var samþykkt við 2. umr. breytingartillaga frá Guðmundi Hallvarðssyni við þá málsgrein sem fjallar um það að skylda Vegagerðina til að einkavæða alla sína þjónustu og við það hefur 4. gr. náttúrlega lagast mikið.

Ég hef gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem við höfum varðandi 14. gr. Við erum alfarið á móti 17. gr. sem slíkri, en með þeirri takmörkun sem sett var inn í 14. gr., þ.e. að framsal á veghaldi megi einungis vera tímabundið, verður annað yfirbragð á þessu frumvarpi, en sú breytingartillaga sem ég flutti hljóðaði m.a. upp á það að allir þjóðvegir landsins skyldu í vera í þjóðareign og takmörkun á framsali vegamálastjóra. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa hv. þm. Jóni Bjarnasyni tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Þakka þér fyrir. (Gripið fram í.) Það er greinilegt að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er kannski ekkert ljúft að fella þessi einkavæðingarákvæði burt úr lögunum en ég tel það fagnaðarefni og met meiri hlutann og ríkisstjórnina að verðleikum fyrir að hafa tekið þeim sinnaskiptum og gert það, þrátt fyrir að einstakir einkavæðingarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins eigi bágt með að sitja undir því.



[19:49]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill spyrja hv. þm. Jón Bjarnason hvort breytingartillaga hans … (Gripið fram í.) Breytingartillaga hv. þingmanns á þskj. 1135 er kölluð aftur og verður gengið til atkvæða.



Brtt. 1135 kom ekki til atkv.

Frv.  samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ArnbS,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BÁ,  BjarnB,  BjörgvS,  DJ,  DrH,  EKG,  EOK,  EBS,  GHH,  GuðjG,  GHj,  GÓJ,  GAK,  GÞÞ,  GHall,  GÖrl,  HBl,  HHj,  HjÁ,  IHÓ,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  JónK,  JKÓ,  JBjart,  KÓ,  KHG,  KLM,  LB,  MÞH,  MF,  MÁ,  PHB,  RG,  SAÞ,  SKK,  SigurjÞ,  SÞorg,  SF,  SP,  SJS,  SæS,  VF,  VS,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ.
9 þm. (ÁÓÁ,  BJJ,  EMS,  GÁ,  GÖg,  HerdS,  KolH,  ÞKG,  ÖS) fjarstaddir.