135. löggjafarþing — 23. fundur.
almannavarnir, 1. umræða.
stjfrv., 190. mál (heildarlög). — Þskj. 204.

[14:06]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Núgildandi lög um almannavarnir voru upphaflega sett á fyrri hluta 7. áratugarins og tóku ríkt mið af stöðu heimsmála á þeim tíma, ekki síst þeirri hættu sem menn töldu þá stafa af hugsanlegum kjarnorkuátökum milli austurs og vestur. Eins og við nú vitum hefur sem betur fer aldrei reynt á lögin vegna hernaðarátaka hér á landi, lögin hafa hins vegar reynst vel í tímans rás til að bregðast við afleiðingum náttúruhamfara og ber þar hæst eldgosið í Vestmannaeyjum og snjóflóð á Vestfjörðum.

Hinum upphaflegu lögum hefur verið breytt allnokkrum sinnum. Síðasta meginbreyting fólst í því að færa yfirstjórn og ábyrgð þessara mála til embættis ríkislögreglustjóra í stað almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins. Ég hef lengi talið nauðsynlegt að fara yfir almannavarnalögin og breyta þeim í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á þessu sviði, ekki síst með vísan til þess mikla samhæfingarstarfs fjölmargra aðila í leitar- og björgunarmálum sem orðið hefur í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð hér í Reykjavík og ég mun víkja nánar að síðar í máli mínu.

Eins og getið er um í greinargerð frumvarpsins boðaði ég til 100 manna málþings um þessi mál hinn 8. mars 2005 og sóttu það fulltrúar allra þeirra aðila er láta sig almannavarnir varða, þar á meðal fulltrúar sveitarfélaganna sem verða áfram meginburðarás almannavarnakerfisins enda yrði það hvorki fugl né fiskur þegar litið er til náttúruhamfara án staðarþekkingar og virkrar þátttöku heimamanna.

Eftir málþingið setti ég af stað vinnu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins (Forseti hringir.) til að setja hugmyndir um nýskipan þessara mála í frumvarpsbúning — (Forseti hringir.)

(Forseti (KÓ): Hæstv. dómsmálaráðherra. Hér var kynnt inn 1. dagskrármál fundarins, almenn hegningarlög, en okkur heyrist sem verið sé að kynna 2. dagskrármálið sem er 190. mál. Ég vil bara upplýsa …)

Já, ég taldi mig vita hvaða mál ég væri að tala um en það er gott að forseti vakti athygli mína á því.

Eftir málþingið setti ég af stað vinnu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að setja hugmyndir um nýskipan þessara mála í frumvarpsbúning. Leitað var eftir sjónarmiðum margra aðila og átti ég fundi með talsmönnum félaga og stofnana sem að málinu koma. Eftir að frumvarpið hafði tekið á sig núverandi mynd ræddi ég við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga um efni þess þar sem m.a. var reifað hvort ákvæði frumvarpsins leiddu til þess að ábyrgð og ákvarðanataka, t.d. vegna náttúruhamfara, færðist fjær íbúum en samkvæmt gildandi lögum. Ég tel að ekkert í frumvarpinu gefi tilefni til að ætla að svo verði. Við nýskipan lögreglumála lagði ég áherslu á hlut sýslumanna í almannavarnakerfinu og leit þá m.a. til Patreksfjarðar og Víkur í Mýrdal þar sem sýslumenn fara ekki lengur með lögreglustjórn en hafa áfram mikilvægu hlutverki að gegna á sviði almannavarna til að tryggja sem best tengsl við heimamenn á þessu sviði.

Grunnatriði í þessu nýja frumvarpi er að við allar neyðaraðstæður verði byggt á sama viðbragðskerfi og að þar gegni samhæfingar- og stjórnstöðin við Skógarhlíð lykilhlutverki. Við höfum séð það undanfarin missiri í þeim tilvikum þegar stöðin hefur verið virkjuð að viðkomandi sveitarfélög sjá sér hag í því að senda fulltrúa sína inn í stjórnstöðina til að tryggja sem best samband hennar og aðgerðastjórna á heimavettvangi. Með tilkomu TETRA-fjarskiptakerfisins um land allt hefur öll aðstaða til samhæfingar og stjórnunar tekið stakkaskiptum. Kerfið verður aldrei nýtt til fullnustu nema með virkri þátttöku heimamanna. Sem fulltrúar þeirra gegna sveitarfélög og almannavarnanefndir í héraði lykilhlutverki við gerð viðbragðsáætlana og alla framkvæmd þeirra.

Gott nýlegt dæmi um samstarf ríkis og heimamanna er gerð áhættumats og viðbragðsáætlana vegna hættu á flóðum við Markarfljót á Rangárvöllum og í Landeyjum vegna hugsanlegra eldsumbrota í vestanverðum Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli. Heimamenn undir forustu sýslumannsins á Hvolsvelli hrundu þessu verkefni af stað í góðri samvinnu við almannavarnadeild embættis ríkislögreglustjóra en Alþingi samþykkti tillögur mínar og ríkisstjórnarinnar um sérstakar fjárveitingar vegna þess. Hafa íbúar á svæðinu þegar tekið þátt í æfingu á grundvelli viðbragðsáætlananna. Ég tel þetta skólabókardæmi um einstaklega góða samvinnu embættis ríkislögreglustjóra og heimamanna um framkvæmd á brýnu almannavarnaverkefni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því í 9. gr. að sveitarstjórnir skipi almannavarnanefndir í sveitarfélaginu og skipuleggi starf að almannavörnum í héraðinu, vinni að gerð hættumats og viðbragðsáætlana og prófanir á þeim í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Í almannavarnanefndum sitji fulltrúar í sveitarstjórn ásamt öðrum.

Í viðræðum mínum við sveitarfélögin var einnig farið yfir hugmyndafræðina að baki frumvarpinu en hún er hin sama og búið hefur að baki almannavarnastarfi okkar undanfarna áratugi. Þau sjónarmið hafa verið reifuð að skipulagi okkar skuli breytt meira í átt til þess sem gerist í Svíþjóð. Ég tel með öllu óþarft að nálgast úrlausnarefni okkar á nýjum hugmyndafræðilegum grunni miðað við reynslu hér og í Svíþjóð af því að virkja almannavarnakerfið eða af viðbrögðum á hættustundu. Í greinargerð um 2. gr. frumvarpsins er vikið að ákveðnum grunnreglum sem setja svip sinn á frumvarpið og er í þeim tekið nokkurt mið af því sem lagt er til grundvallar hjá Svíum.

Þá vil ég taka fram að ekki er ætlunin að kostnaður sveitarfélaga af almannavörnum aukist vegna frumvarpsins og taldi ég þess vegna ekki ástæðu til að meta sérstaklega kostnaðaráhrif frumvarpsins gagnvart sveitarfélögunum með vísan til samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá árinu 2005 um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum.

Um leið og ég árétta að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinni meginbreytingu á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, áfram verður byggt á sömu stoðum og þeim sem eru undir núverandi almannavarnakerfi, minni ég á að frumvarpið hefur að geyma grundvallarbreytingar á því hvernig ríkisstjórn og stofnanir ríkisins koma að yfirstjórn almannavarna og öryggismála og stefnumótun á þessu sviði. Þar er m.a. tekið mið af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tilefni af brottför varnarliðsins sem birt var 26. september 2006. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að til þess að efla almennt öryggi yrði við endurskoðun laga um almannavarnir komið á fót miðstöð þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar sem koma að öryggismálum innan lands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem best samhæfingu innan miðstöðvarinnar skyldu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar yrði á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra og var honum falið að leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.

Þetta frumvarp er einmitt til 1. umr. hér í dag og hefur iðnaðarráðherra bæst í ráðherrahópinn sem nefndur var í fyrrnefndri yfirlýsingu. Er breytingin gerð með vísan til þess hve miklu orkuöryggi skiptir við allar ráðstafanir á sviði almannavarna. Ramminn utan um almannavarnaskipulagið er þannig alveg nýr samkvæmt frumvarpinu því að þar er gert ráð fyrir að almannavarnaráð víki fyrir hinu nýja almannavarna- og öryggismálaráði sem starfi undir formennsku forsætisráðherra. Hlutverk almannavarna- og öryggismálaráðs er að marka stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum en í stefnunni skal gera grein fyrir ástandi og horfum í þessum málum, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna og öryggismála, forvarnastarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir sem ráðið telur nauðsynlegar til að ná því markmiði að tryggja öryggi landsmanna sem best. Umsýsla vegna ráðsins og undirbúningur vegna funda þess yrði í höndum dóms- og kirkjumálaráðherra. Þeir ráðherrar sem ég hef áður nefnt skulu eiga sæti í almannavarna- og öryggismálaráði en auk þeirra er forsætisráðherra heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn vegna sérstakra mála. Með ráðherranum tækju ráðuneytisstjórar og forstöðumenn stofnana á vegum einstakra stofnana sæti í ráðinu. Þar ættu Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, samræmd neyðarsímsvörun og sveitarfélögin einnig fulltrúa.

Í 1. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir gildissviði þess. Er því ætlað að taka til samhæfðra viðbragða samfélagsins til að takast á við afleiðingar almannahættu sem ógnar lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum án tillits til þess af hvaða rótum almannahættan er runnin. Líkt og í núgildandi lögum er markmiðið að undirbúa, skipuleggja og grípa til ráðstafana sem miða að því að koma í veg fyrir að almenningur verði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, hernaðaraðgerða eða af annarri hættu, sem og vegna farsótta og hryðjuverka sem er nýmæli. Þá er markmið og gildissvið laganna rýmkað með áherslu á fyrirbyggjandi ráðstafanir og gerð viðbragðsáætlana.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins skal ríkislögreglustjóri taka ákvörðun um almannavarnastig hverju sinni og tilkynna það til dómsmálaráðherra. Jafnframt eru lagðar ýmsar aðrar skyldur á ríkislögreglustjóra. Hann skal m.a. hafa eftirlit með skipulagi almannavarna og umsjón með gerð hættumats í samráði við almannavarnir sveitarfélaga. Hann skal taka þátt í undirbúningi og gerð viðbragðsáætlana og hafa eftirlit með endurskoðun þeirra. Þá skal hann hafa eftirlit með samhæfingu viðbragðsaðila og annarra aðila og stjórn aðgerða, bæði áður og eftir að hættu ber að garði, og skipuleggja forvarnir og almenningsfræðslu á sviði almannavarna.

Við embætti ríkislögreglustjóra mun samkvæmt V. kafla frumvarpsins starfa samhæfingar- og stjórnstöð undir sérstakri stjórn. Í stöðinni fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af almannavarnastigi og viðeigandi viðbragðsáætlun. Stöðina er einnig unnt að virkja vegna hvers kyns aðgerða við leit og björgun. Ríkissjóður ber kostnað vegna þessarar stöðvar. Hér er tekið mið af reynslunni í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð en hún er virkjuð æ oftar af viðbragðsaðilum vegna þess hve góð reynsla hefur fengist af því samhæfingarstarfi sem unnið er undir merkjum hennar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að samhæfingar- og stjórnstöðin lúti stjórn níu manna, ráðherra skipi formann án tilnefningar en aðrir komi frá ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu, landlækni, slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, samræmdri neyðarsímsvörun, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og auk þess tilnefnir samgönguráðherra og Samband íslenska sveitarfélaga hvort sinn fulltrúa. Hlutverk stjórnarinnar er að huga að innra skipulagi, rekstri og samstarfi viðbragðsaðila en við stjórn aðgerða verði farið eftir viðbragðsáætlunum.

Í VI. kafla frumvarpsins er gerð krafa um að tilteknir aðilar geri viðbragðsáætlanir og jafnframt tiltekið um hvað skuli fjallað í þeim. Er gert ráð fyrir að skyldur séu lagðar á ríkisstofnanir, sveitarfélög og í einstökum tilvikum einkaaðila um gerð viðbragðsáætlana. Með þessu á að tryggja að almannavarnakerfið sé ávallt reiðubúið á hættustundu og að viðbrögð séu vel skilgreind þegar aðgerða er þörf. Gert er ráð fyrir að þjónusta við almenning verði aukin á meðan hættuástand varir og eftir að því lýkur. Ríkislögreglustjóra er í frumvarpinu veitt heimild til að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands. Skulu verkefni þjónustumiðstöðvarinnar m.a. felast í upplýsingagjöf til almennings og þjónustu við þá aðila sem hafa orðið fyrir tjóni auk þess að annast samskipti við fjölmiðla vegna aðgerða sem gripið er til hverju sinni. Er þjónustumiðstöð ætlað að starfa í nánum tengslum við sveitarfélögin sem orðið hafa fyrir áfalli og aðstoða ráðuneyti, sveitarfélög og undirstofnanir þeirra við að veita almenningi almenna aðstoð til að létta undir með viðbragðsaðilum, t.d. með áfallahjálp og svörum við fyrirspurnum um bætur vegna eignatjóns. Við það er miðað að ríkissjóður beri kostnað vegna þessara tímabundnu þjónustumiðstöðva.

Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Alþingi kjósi þriggja manna rannsóknarnefnd almannavarna sem starfi sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum, en nefndinni er ætlað að rannsaka að loknu hættuástandi þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila. Skal nefndin skila skýrslu til dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra og allsherjarnefndar Alþingis. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að í 34. gr. frumvarpsins er tekið fram að samráð verði haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um setningu reglugerða á grundvelli laganna og jafnframt er tekið fram í 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins að samráð verði haft við þau sveitarfélög sem málið varðar um hlutverk tímabundinnar þjónustumiðstöðvar. Var talin ástæða til að koma slíkri miðstöð á fót vegna náttúruhamfara.

Virðulegi forseti. Lög um almannavarnir eru í eðli sínu rammalöggjöf sem er ætlað að tryggja virkar forvarnir gegn vá og rétt viðbrögð allra aðila á hættustundu. Verði frumvarpið að lögum á það ekki að hafa í för með sér breytingar hvað varðar hlutverk og ábyrgð hvers og eins viðbragðsaðila. Frumvarpið skapar á hinn bóginn skýran ramma og afmarkar skyldur og ábyrgð, viðbrögð við einstökum atvikum munu ráðast af áætlunum sem um þau verða gerðar. Mikilvægt er að við áætlanagerðina hafi menn verkaskiptingu einstakra aðila í huga svo að dregið sé úr líkum á flækjum á úrslitastundu.

Virðulegi forseti. Ég lýk nú máli mínu og vona að þessi tilfærsla í dagskránni valdi ekki vandræðum við þingstörfin en að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.



[14:21]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseti vill árétta að við ræðum nú 2. dagskrárlið sem er almannavarnir, stjfrv. nr. 190, þskj. 204. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur flutt framsöguræðu sína og ég opna mælendaskrá fyrir það mál.



[14:22]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það kemur svolítið flatt upp á mann að við séum að ræða frumvarp til laga um almannavarnir af því að maður hélt að hegningarlögin væru fyrst á dagskrá og þau eru það reyndar en svona er þetta. Ég var kannski ekki alveg undirbúinn að hlaupa í þetta núna en ég vil samt taka til máls og lýsa því að ég held almennt talað þá séum við á réttri leið með þetta frumvarp.

Það eru auðvitað ýmis nýmæli í frumvarpinu og eins og ég skil bæði hæstv. dómsmálaráðherra og frumvarpið sjálft, þá er verið að koma til móts við þær nýju ógnir sem að okkur steðja í samfélaginu í dag og þar er um að ræða að að okkur steðjar meiri ógn nú en við höfum kannski áður áttað okkur á, bæði af farsóttum og hryðjuverkum. En áður fyrr vorum við mun meira að horfa til náttúruhamfara. Auðvitað geta þær dunið yfir en það eru að koma nýjar ógnir upp í samfélaginu sem okkur ber að bregðast við.

Mig langar að spyrja dómsmálaráðherra út í okkur atriði í frumvarpinu. Fyrir það fyrsta er í 3. gr. verið að tala um almannavarna- og öryggismálaráð sem á að hafa stefnumörkun með höndum. Ég vil spyrja aðeins út í þetta. Af hverju þarf þetta ráð að heita almannavarna- og öryggismálaráð? Er ekki nóg að þetta heiti bara almannavarnaráð þó að það sé í stefnumótun og það eigi að taka líka forvarnastarfið o.s.frv.? Að þetta heiti öryggismálaráð finnst mér vísa svo mikið í hernað þannig að ég spyr: Er ekki nóg að þetta ráð heiti almannavarnaráð? Mér finnst það vera einhvern veginn miklu nær því sem frumvarpið byggist á.

Ég vil líka koma með ábendingu. Ef ég man rétt þá hefur heiti á heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu verið breytt í einungis heilbrigðisráðuneyti. Mig minnir að það sé þannig. Ef svo er þá þarf að breyta frumvarpinu til samræmis við það.

Í 5. og 7. gr. kemur fram hlutverk ríkislögreglustjóraembættisins og það er alveg geysilega viðamikið. Það er ágætt sem stjórnvöld hafa verið að gera upp á síðkastið, þ.e. að styrkja þetta embætti. Á því er greinilega mjög mikil þörf því að samkvæmt frumvarpinu er afar mikið vald sem felst hjá því embætti, verði frumvarpið nokkurn veginn óbreytt að lögum. Þá mun ríkislögreglustjóraembættið fara með alveg geysilega mikið vald og mikið hlutverk, reyndar ótrúlega mikið hlutverk þegar maður fer að skoða frumvarpið. Það eru svo mörg verkefni sem lögð eru til þess embættis. Í 7. gr. kemur fram að ríkislögreglustjóri á að skipuleggja forvarnir og almenningsfræðslu á sviði almannavarna svo og fræðslu einkaaðila, stjórnvalda og almennings um skipulag almannavarnakerfisins eftir því sem þurfa þykir. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvað þetta þýði. Ríkislögreglustjóri á að skipuleggja fræðslu einkaaðila. Er þetta þá einhvers konar samstarf og er talið að embættið þurfi að gera það til að þetta verði örugglega rétt fræðsla sem sett verður af stað um þessi málefni?

Það er líka kveðið á í 12. gr. um hlutverk samhæfingar og stjórnstöðvar sem ég held að sé mjög gott að gera með þessum hætti en þar kemur fram að þessi stjórnstöð skal hafa aðgang að öruggu fjarskiptakerfi og það sést í greinargerðinni að það er verið að tala um TETRA-kerfið og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað TETRA-kerfið dekkar mikið í dag, hvort það dekki allt landið meira og minna. Hve langt er uppbyggingin á TETRA-kerfinu komin? Svo stendur neðarlega í 12. gr. að ríkislögreglustjóri eigi að ráða umsjónarmann samhæfingar- og stjórnstöðvarinnar að fenginni tillögu stjórnar stjórnstöðvarinnar en það er ekki kveðið neitt á um hlutverk þessa umsjónarmanns í greinargerðinni þannig að manni leikur forvitni á að vita hvert sé hlutverk þessa umsjónarmanns. Er þetta einhvers konar framkvæmdastjóri eða einhver sem sér um þetta húsnæði eða hvaða hlutverk á umsjónarmaður að hafa?

Í 14. gr. er talað um þjónustumiðstöð. Ég held að þetta sé framfaraskref, að hafa það opið í lögum að geta sett á stofn þjónustumiðstöð ef eitthvað kemur upp á. Hún á að finna upplýsingagjöf til almennings sem er auðvitað mjög mikilvæg verði vá fyrir dyrum og hvað þá ef eitthvað skeður sem bregðast þarf við mjög hratt og hún á líka að annast samskipti við fjölmiðla. Ég held að þetta sé geysilega mikilvægt atriði og ég fagna því að það sé kveðið skýrt á um þetta í 14. gr. frumvarpsins.

Varðandi skyldu ríkisvaldsins til að gera viðbragðsáætlanir sem kemur fram í 15. gr. þá er þar rætt um að einstök ráðuneyti og undirstofnanir skuli í samvinnu við ríkislögreglustjóra kanna áfallaþol þess hluta íslensks samfélags sem fellur undir starfssvið þeirra. Ég tel það mjög skynsamlegt að nálgast málið með þessum hætti að kanna áfallaþol til að við séum vel í stakk búin ef eitthvað kemur upp á og það er líka kveðið á um að það eigi að undirrita og staðfesta fyrir réttum yfirvöldum þessar viðbragðsáætlanir til að þeir aðilar geri sér grein fyrir því hvaða skyldur á þeim liggja þannig að þessar viðbragðsáætlanir verði ekki bara orðin tóm.

Varðandi 18. gr. þá er kveðið á um að opinberum aðilum og einkaaðilum beri skylda til að veita nauðsynlegar upplýsingar við gerð viðbragðsáætlana ríkis eða sveitarfélaga. Þar kemur fram að sérhver ráðherra getur í samráði við ríkislögreglustjóra ákveðið að opinberir aðilar eða einkaaðilar skuli veita aðstoð, liðsinna eða útfæra nánar einstaka þætti laga þessara. Þessir sömu aðilar, þ.e. sérhver ráðherra getur í samráði við ríkislögreglustjóra ákveðið að opinberir aðilar eða einkaaðilar skuli grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana varðandi sölu á vörum, veitingu þjónustu og framleiðslu í atvinnurekstri sínum ef þess gerist þörf til að markmið laga þessara náist. Ég vil nýta tækifærið, virðulegi forseti, og spyrja dómsmálaráðherra hvort það gætu komið dæmi sem tengjast þessari lagagrein, hvað er líklegt að gæti fallið hér undir.

Svo velti ég líka fyrir mér 19. og 20. gr. Ég átta mig satt best að segja ekki alveg á muninum á 19. og 20. gr. Í 19. gr. er verið að tala um almenna borgaralega skyldu og í 20. gr. er verið að tala um kvaðningar til starfa við almannavarnir. Í 19. gr. kemur fram að það er borgaraleg skylda þeirra sem eru á aldrinum 18–65 ára að gegna á hættustundu, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi þar sem þeir dveljast samkvæmt fyrirmælum sem lögreglustjóri gefur að fengnum tillögum almannavarnanefndar eða ríkislögreglustjóra og ákvörðun lögreglustjóra má skjóta til dómsmálaráðherra. Hér er verið að tala um að það sé borgaraleg skylda að gegna störfum á hættutíma og það er tilgreindur aldurinn 18–65. Ég spyr: Af hverju er þetta ekki 67? Af hverju er valinn aldurinn 65 en ekki aldurinn 67? Ég held að fólk sé tiltölulega hresst upp undir 67 ára aldur. Að minnsta kosti er það sá aldur sem við höfum miðað við varðandi hvenær menn teljast til ellilífeyrisþega.

Í 20. gr., kvaðningu til starfa við almannavarnir, kemur fram að ef hætta vofir yfir getur lögreglustjóri eða sýslumaður kvatt hvern fulltíða mann sem tiltækur er til tafarlausrar aðstoðar við störf í þágu almannavarna. Ákvörðun um kvaðningu fulltíða manns til starfa við almannavarnir verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Það er hægt að kveðja menn strax til starfa. Mér finnst þetta, virðulegi forseti, mjög líkt hugsuninni í greininni á undan, 19. gr. nema að ekki er hægt að skjóta kvaðningu til æðra stjórnvalds. Það er hins vegar hægt samkvæmt 19. gr., þá er hægt að skjóta ákvörðun lögreglustjóra um að kalla menn til starfa til dómsmálaráðherra. Það má vera að kvaðning til starfa sé fremur grein sem gripið yrði til ef mjög mikið hættuástand skapaðist, þegar ekki er tími til að skjóta ákvörðuninni til æðra stjórnvalds. Það getur verið að það sé tímafrekt og eðli málsins samkvæmt ekki hægt. Ég átta mig hins vegar ekki, virðulegi forseti, á muninum á 19. gr. og 20. gr.

Í 21. gr. kemur fram að það sé skylda að taka þátt í námskeiðum og æfingum, hafi menn verið kvaddir til starfa og óheimilt sé að hverfa úr starfi án leyfis. Það er því mjög nálægt herskyldu sem þarna er kveðið á um. En auðvitað er eðlilegt að við getum kallað til fólks til aðstoðar við mjög mikið hættuástand.

Varðandi 26. gr., þ.e. ef fólk þarf að flytjast til er hægt að gefa fyrirmæli um að taka við fólki sem flutt hefur verið af hættusvæði, veita því húsaskjól og annan viðurgjörning eftir því sem aðstæður krefjast. Svo kemur segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Sveitarfélag sem flutt er frá greiðir kostnað vegna húsnæðis og fæðis, sem látið er í té samkvæmt þessari grein, en á kröfu um endurheimt á hendur þeim sem fyrirgreiðslunnar hafa notið.“

Þetta þýðir, virðulegi forseti, að ef flytja þarf til fólk, veita því mat og húsaskjól, þá á sveitarfélagið að borga fyrir það en síðan getur sveitarfélagið endurheimt það hjá viðkomandi flóttamönnum. Ég geri ráð fyrir að um sé að ræða eitthvert kostnaðargjald þannig að þetta séu sem sagt eðlileg gjöld.

Í 28. gr. er tilgreind rannsóknarnefnd almannavarna. Þetta er nefnd sem á að vera óháð. Alþingi á að kjósa þrjá menn í þessa nefnd samkvæmt 30. gr. og hún á að fá aðgang að trúnaðargögnum, gera skýrslu eftir að atburðir hafa átt sér stað og hafa mikið sjálfstæði. Ég fagna því. Ég held að það sé góð hugsun á bak við slíka rannsóknarnefnd. Þegar uppákomur verða, stórslys eða náttúruhamfarir eða hvað svo sem það er, er brýnt að gera skýrslu í kjölfarið og læra af henni. Þessi skýrsla á að vera opinber, eins og ég skil frumvarpið.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í atriði sem komu fram í fjölmiðlum í dag. Þar var umfjöllun um að brunamálastjóri væri ekki alveg sáttur við frumvarpið og það tengdist, eins og ég skildi fréttina, því að sveitarfélög hefðu minna vægi í almannavarnakerfinu með nýja frumvarpinu en ríkislögreglustjóri meira vægi, þetta verði miðlægara kerfi heldur en við erum nú með. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í það atriði, þ.e. rökin með eða á móti kerfinu eins og hér er lagt til að það verði.

Ég held að það sé mjög æskilegt að hafa afar miðlæga stjórn þegar annaðhvort hætta er fram undan eða hætta vofir yfir eða stórslys hefur orðið. Þá verður að vera mjög miðlæg stjórn aðgerða. Ég hallast því að því að styðja fyrirkomulagið í þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég hef fram að færa við þessa umræðu, þær spurningar sem ég tel ágætt að fá svör við. Ég vænti þess að allsherjarnefnd taki málið til góðrar meðferðar. En almennt vil ég segja að ég held að frumvarpið sé til framfara þótt örugglega séu einhver atriði sem þarf að huga betur að.



[14:35]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög tímabær breyting á lögum sem má segja að rammi inn þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á þessum vettvangi á undanförnum árum. Eins og fram kom í framsögu dómsmálaráðherra er stærsta breytingin kannski sú að tengja allar almannavarnaaðgerðir við útvíkkun á daglegu starfi. Björgunarmiðstöðin Skógarhlíð leikur lykilhlutverk í þessu. Það varð stórkostleg breyting fyrir alla sem að þessum málum starfa þegar tókst að koma öllum viðbragðsaðilum saman á einn stað í eina stjórnstöð.

Áður voru stjórnstöðvarnar margar. Unnið var eftir mismunandi verklagi á hverjum stað og þegar skilgreint almannavarnaástand tók við þá tók við allt annað stjórnkerfi en menn áttu að starfa við þess utan. Kerfið var ósmurt. Fólk var óvant því að vinna í samræmingarstöð sem þá var staðsett á Lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Á þeim tíma hafði þetta oft í för með sér heilmiklar tafir og erfiðleika við skipulagt viðbragð. Í þessu sambandi má nefna atburðina á Vestfjörðum 1995 þegar snjóflóðin riðu þar yfir, fyrst í Súðavík í janúar og svo á Flateyri í október sama ár. Þá má segja að að mörgu leyti hafi þurft fyrra óhappið til að þjálfa mannskapinn og gera hann vel viðbúinn því að starfa eftir hraðara skipulagi við björgunaraðgerðir á Flateyri.

Með því að færa þetta inn í eina stjórnstöð sem vinnur í hverri viku í ákveðnum samræmingarstöðvum við ýmsar mismunandi uppákomur víða um land þá erum við bæði með mannskap og kerfi sem er þjálfað og er síðan bara útvíkkað eftir þeirri starfsemi sem það þarf að takast á við á hverjum tíma. Inn í þá stjórnstöð koma þeir aðilar sem um er að ræða.

Þetta leysti af sérstakar stjórnstöðvar lögreglu, landhelgisgæslu, flugmálastjórnar, björgunarsveita og tilkynningarskyldu. Meira að segja var stjórnstöð vegna sjóslysa á tveimur stöðum. Það var í raun óskýrt hvor stjórnstöðin átti að fara með hlutverk á hverjum tíma. Menn horfðu kannski annars vegar á óhapp sem varð á ströndinni eða á hafinu næst ströndinni, eins og það var orðað í reglunum. Hins vegar voru óhöpp úti á sjó. Þá spurði maður sig að því, þegar um var að ræða aðgerðir: Hvenær verður sjór land og land sjór? Það er í raun dæmi um óhagræðið af því að vera á svo mörgum stöðum.

Skipulagið hefur líka vakið eftirtekt margra aðila, sérstaklega erlendra. Við höfum fengið marga í heimsókn til landsins í þeim tilgangi til að kynna sér starfsemina hjá okkur. Menn hafa lýst undrun sinni á því að tekist hafi að koma saman öllum þessum mismunandi viðbragðsaðilum í eina samræmingarstöð, eina sameiginlega stjórnstöð sem hefur með að gera sjó, land og loft.

Það var mikilvægt þegar Almannavarnir ríkisins voru á sínum tíma gerðar að sérstakri deild innan ríkislögreglustjóraembættisins. Áður voru þær sérstofnun sem hafði að mörgu leyti óljóst vald og ekki það skýra umboð sem þarf að liggja fyrir og er í raun tryggt í þessu lagafrumvarpi. Í nýja lagafrumvarpinu er yfirstjórn og ábyrgð skýr. Dómsmálaráðherra, sem æðsti yfirmaður, og ríkislögreglustjóri eru ábyrgir fyrir framkvæmd verkefna. Varðandi samvinnu við sveitarfélög og stofnanir ríkisins og þá sem að málum þurfa að koma er ríkislögreglustjóri ábyrgur. Hann gerir hættumat og sinnir eftirliti við gerð viðbragðsáætlana. Hann hefur með að gera samhæfingu viðbragðsaðila auk skipulags, þjálfunar og fræðslu á sviði almannavarna.

Það er vitað mál að ástand í almannavarnamálum hefur verið ákaflega mismunandi milli sveitarfélaga. Auðvitað eru aðstæður einnig mismunandi. Það er hægt að nefna marga staði þar sem hætta á náttúruhamförum eða öðrum stórum óhöppum er ekki mikil. Önnur liggja á miklu hætturíkari svæðum. Samt sem áður þurfum við að vera viðbúin því, hvar sem er um landið, að geta brugðist við stórum óhöppum. Aukningin í ferðaþjónustu sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum eykur þessa ábyrgð enn frekar vegna þess að á ferðinni eru náttúrlega bæði stór skip með mikinn fjölda farþega og fólksflutningabílar með marga innanborðs sem fara víða. Þetta mál tekur til margra þátta og við þurfum að vera alls staðar klár á því hvernig við ætlum að bregðast við og hvaða bjargir við höfum þegar til kastanna kemur. Það er rík eftirlitsskylda ríkislögreglustjóraembættis að fylgja þessu eftir og sinna undirbúningsþættinum, þjálfun og öðru slíku.

Samt sem áður er ekki dregið úr hlutverki og ábyrgð sveitarfélaga. Það er ekkert dregið úr henni í þessu frumvarpi nema síður sé. Það er á þeirra ábyrgð að undirbúa sig heima í héraði og aðkoma þeirra tryggir að tekið sé mið af aðstæðum á hverjum stað. Eins og ég sagði áðan var ekki hægt að búa til eitt einfalt skipulag fyrir allt landið eins og þetta var áður hjá okkur. Þá var almannavarnaástand skilgreint út frá tilteknum fjölda mögulegra slasaðra, það var miðað við ákveðinn fjölda. Ég held að það hafi verið 15, ef ég man rétt. Við getum velt fyrir okkur hvort 15 manna slys væri almannavarnaástand hér á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri. En það er sannarlega almannavarnaástand á afskekktari stöðum.

Almannavarnanefndir verða skipaðar af sveitarfélögum og verkefni þeirra eru skýr og það er einnig skýrt hverjir skuli í þeim sitja. Það hefur ekki ekki verið alveg skýrt fram að þessu og ekki verið tryggt að allir þeir sem þar ættu í raun erindi hafi endilega verið í almannavarnanefnd. Til að mynda má nefna að í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins var það ekki fyrr en á síðasta ári að björgunarsveitirnar á þessu svæði eignuðust áheyrnarfulltrúa í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. Áður áttu þær ekkert sæti þar og rödd þeirra heyrðist ekki. Þeir eru þó bakbeinið í öllu almannavarnakerfi og viðbrögðum á hættustund.

Aðgerðastjórnun í héraði er einnig skýr og tekið er fram hverjir skuli fara með stjórn. Stóri kosturinn við það er sá að þar vinnum við aftur að spila eftir því sama kerfi og við vinnum eftir dagsdaglega á hverju svæði þegar einhver óhöpp verða, hvort sem þau eru smá eða stór. Þá eru kallaðir til leiks þeir aðilar sem eru í þessum verkefnum á hverjum tíma og eru vanir að vinna með samræmingarstöðinni Skógarhlíð. Það fólk sem þekkir hvert annað og þekkir vinnubrögðin hvert hjá öðru og gengur eins og smurð vél.

Samræmingarstöðinni í Skógarhlíð er tryggður sá vettvangur sem hún þarf að starfa á. Það á bæði við um minni aðgerðir og stærri, svo sem almannavarnaaðgerðir. Þar getur yfirmaður þessarar aðgerðastjórnar ákveðið hvenær almannavarnaástand telst komið á, en það er eftir aðstæðum, eins og ég sagði áðan, mjög mismunandi. Samfélaginu er mikilvægt að til staðar sé skipulag og kerfi sem bregst fumlaust við og markvisst. Ég tel að við náum þeim árangri með samþykkt þessa frumvarps.

Annað er gott að hafa í huga af því að hér kom aðeins inn umræðan um ábyrgð sveitarfélaga, til dæmis í aðgerðastjórnun, og sú gagnrýni sem kom fram núna í vikunni frá brunamálastjóra. Það er enginn að gera sveitarfélögin stikkfrí í ábyrgð þeirra þegar kemur að aðgerðum og þeirra skylda og ábyrgð er rík eins og kemur fram í þessu frumvarpi. Við verðum aftur að hafa það í huga að eins og dæmin í raun sýna okkur þá eru alvarlegir atburðir í héraði oft mjög erfiðir fyrir þá sem þar búa og það er mikil áhætta tekin í því að leggja of mikla ábyrgð á þeirra herðar. Þetta sanna dæmin sem við höfum af stóráföllum í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Það þarf ekkert að fara lengra í því og þetta getur hver séð í sjálfum sér. Að því leyti til eru þættir sem koma þarna inn eins og möguleg opnun á þjónustumiðstöð og síðan rannsóknarnefndin mjög mikilvægir líka.

Sú yfirsýn og það vald sem ábyrgum aðilum er falið með þessum lögum er að tryggja samræmd vinnubrögð allra viðbragðsaðila með sem bestum árangri fyrir þá sem eru hjálparþurfi. Ef vá er fyrir höndum, ég tala nú ekki um ef eitthvað hefur brostið á þá getur þjónustumiðstöðin sem kveðið er á um í þessu lagafrumvarpi gegnt mjög mikilvægu hlutverki og verið nauðsynleg. Hún sinnir upplýsingaskyldu til almennings og upplýsingaþjónustu til almennings. Hún skipuleggur allt starf gagnvart fórnarlömbum, ættingjum og öðrum sem þurfa að fá fréttir og hún skipuleggur starfið gagnvart fjölmiðlum sem gjarnan í dag þurfa að snúa sér beint til þeirra sem í hraða átakanna eru í því að stjórna aðgerðunum og þurfa að geta einbeitt sér að því án truflana. Með þessu held ég að við náum að þjónusta alla aðila miklu betur og koma upplýsingum vonandi með miklu markvissari hætti á hættustundu til þeirra sem á þurfa að halda með hjálp fjölmiðla.

Síðan koma eftirmálar stærri atburða og þá er hlutverk svona þjónustumiðstöðvar ekki minna þegar um er að ræða áfallahjálp við þá sem eiga um sárt að binda og svo margt annað sem þarf að gera, mörg önnur þjónusta. Þið munið örugglega mörg eftir snjóflóðunum á sínum tíma fyrir vestan 1995 og jarðskjálftum á Suðurlandi árið 2000 og eftirmála þeirra, hreinsanirnar allar fyrir vestan. Þetta eru svo viðkvæm mál og þarna erum við að brúa það bil og þarna erum við að bregðast við því að hafa enn frekara og ríkara skipulag á þeim þætti.

Það er einnig mjög mikilvægt að það skuli vera stofnuð hér rannsóknarnefnd sem fer með rannsókn á þessum málaflokki að atburðum liðnum. Við höfum rannsóknarnefndir í dag fyrir flest þau óhöpp sem verða, svo sem rannsóknarnefnd flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa. En við höfum ekki haft formlega og sjálfstæða, óvilhalla rannsóknarnefnd sem hefur þetta hlutverk með höndum en er auðvitað gríðarlega mikilvægt vegna þess að eftir stóra atburði verður alltaf ágreiningur. Við komumst, held ég, aldrei í gegnum svona stór áföll og atburði án þess að gera einhver mistök í ferlinu. Það bara fylgir okkar mannanna verkum á þessum vettvangi sem öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé formleg samantekt á hlutunum, að faglega sé farið yfir hlutina og að menn læri af reynslunni, auðvitað til þess að ná síðan sem bestum árangri í framtíðinni.

Herra forseti. Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað á umhverfi almannavarna og björgunarþjónustu í landinu á undanförnum árum. Nægir þar að nefna stofnun Neyðarlínu, eflingu lögreglu og björgunaraðila og Landhelgisgæslu. Eins og ég sagði áðan finnst mér eins og þetta frumvarp sé að ramma inn alla þá góðu vinnu sem þegar hefur verið unnin og miklu betur, leggur enn meira inn í málaflokkinn. Ég veit að í þeim hópum sem að þessum málaflokki starfa og hafa komið að þessari vinnu er almennt mjög góð sátt um þetta mál eins og það er lagt hér fram.



[14:51]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um almannavarnir sem er í raun ný heildarendurskoðun á almannavarnalögunum. Gerð var talsvert mikil breyting á lögunum um almannavarnir á 128. löggjafarþingi veturinn 2002–2003 þegar farið var í ákveðnar aðgerðir sem mættu satt að segja talsverðri gagnrýni og mótstöðu hér á Alþingi. Þá var verið að færa málaflokkinn eða málefni almannavarna til í kerfinu. Samkvæmt þeim lögum sem fram að því höfðu gilt höfðu starfsemi og verkefni á þessu sviði verið í höndum almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins en samkvæmt því frumvarpi sem þá var flutt af hæstv. dómsmálaráðherra var gert ráð fyrir að þetta hvorutveggja yrði flutt undir embætti ríkislögreglustjóra.

Meginmarkmið þess á sínum tíma að hæstv. ráðherra flutti það mál var sagt þríþætt. Í fyrsta lagi átti breytingin að fela í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna í landinu. Í öðru lagi var gert ráð fyrir því að um styttri boðleiðir yrði að ræða í kerfinu öllu og í þriðja lagi var gert ráð fyrir því að breytingin mundi fela í sér sparnað í opinberum rekstri og í því sambandi var gert ráð fyrir því að um það bil 20 milljónir mundu sparast á þessum kerfisbreytingum á ári þegar allt væri komið.

Þessar breytingar voru í sjálfu sér, eins og ég sagði áðan, nokkuð umdeildar. Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi, Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, lögðust gegn þessum breytingum og skiluðu minnihlutaáliti á sínum tíma þegar málið var afgreitt héðan þar sem hv. núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, var 1. flutningsmaður nefndarálitsins fyrir hönd minni hlutans. Þá gagnrýndi hann mjög marga þætti málsins, ekki bara það hvernig málum yrði fyrir komið með breytingunni heldur líka það að ekkert samráð virtist hafa verið haft við framkvæmdastjóra Almannavarna og einhverja aðra hlutaðeigandi á þeim tíma sem breytingin var gerð. Minni hluti allsherjarnefndar á þessum tíma dró í efa að þetta mundi leiða til sparnaðar og taldi ákveðinn tvískinnung í því að það ætti að efla almannavarnir á sama tíma og það ætti að spara 20 milljónir á ári. Sömuleiðis gerði minni hlutinn á þessum tíma ráð fyrir því eða vildi halda því til haga og gerði það á mjög kraftmikinn hátt í ræðum sem hér voru haldnar að almannavarnir ættu ekki fyrst og fremst að snúast um lögreglu- eða löggæslumál heldur væri það aðeins einn þáttur starfseminnar og mikil áhersla var lögð á alla þá aðila sem koma ættu að þessum málum aðra en lögreglu. Í því sambandi taldi minni hlutinn að hér væri verið að færa málaflokkinn undir lögregluvald þar sem hann ætti ekki heima og dró í efa að breytingin mundi leiða til aukins öryggis landsmanna ef til almannavarnaástands kæmi. Sömuleiðis óttaðist minni hlutinn þá að málið væri ekki nægilega vel undirbúið og taldi skynsamlegast að fresta málinu og vinna það frekar hefðu menn raunverulegan áhuga á því að efla almannavarnir í landinu.

Nú væri fengur að því að heyra í hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, sem ég veit að er hér og hlýðir á þessa umræðu, hvort Samfylkingin hafi gert á því einhverja skoðun hvað í sjálfu sér breytingin frá 2003 hafi leitt af sér. Ég saknaði þess líka í ræðu hæstv. ráðherra að hann skyldi ekki fara yfir það hvort markmiðin með breytingunum 2003 hefðu náðst, hvort þessi sparnaður hefði náðst eða hvort þau meginatriði sem ég taldi upp hér áðan hefðu náðst fram með breytingunum. Það hefði verið fróðlegt að fá að heyra það og verður að öllum líkindum skoðað í hv. allsherjarnefnd.

Breytingarnar árið 2003 voru afgreiddar héðan með mótatkvæðum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Ég auglýsi því enn eftir afstöðu Samfylkingarinnar í málinu, á hvern hátt þau hafi endurmetið sjónarmið sín í þessum efnum á þeim fáu árum sem liðin eru því ég tel að slík afstaða þyrfti að fylgja málinu inn í umfjöllun allsherjarnefndar.

Að öðru leyti vil ég segja það, virðulegi forseti, að það er alveg ljóst að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason er með þessu frumvarpi að fullklára þær breytingar sem í var farið 2003 og eflaust hefur í hans huga verið stefnt að einhverju í líkingu við þetta sem hér er nú lagt til þannig að ég ímynda mér og mér sýnist í öllu falli að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu í alveg rökréttu framhaldi málsins frá 2003 og finnst þar af leiðandi sjónarmið hæstv. ráðherra, þ.e. heildarmyndin og heildargrunnhugmyndin með breytingunum 2003 liggur í raun og veru ljós fyrir í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir.

Það sem mér finnst ámælisvert í þessu máli eða vil gera athugasemdir við á þessu stigi málsins, hæstv. forseti, varðar í fyrsta lagi þá ákvörðun um að hér skuli stofnað öryggismálaráð í þessum almannavarnalögum. Ég vil á sama hátt og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði það að umtalsefni í sinni ræðu beina athygli fólks að því að hér er farið í gríðarlega mikla útvíkkun á verksviði almannavarna með því að fella hér undir málefni af því tagi sem gert er í markmiðsgrein frumvarpsins, þ.e. hernaðaraðgerðir og hryðjuverk. Mér finnst, á sama hátt og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði hér grein fyrir, að öryggismálin eða hervæðingin sé hér að hefja innreið sína og hefði viljað að hæstv. dómsmálaráðherra talaði meira um þá hlið málsins en hann gerði í ræðu sinni. Ég ímynda mér að það hafi kannski verið af ásettu ráði að hæstv. ráðherra fór svona fremur mildum orðum um þessa hlið málsins vegna þess að auðvitað er hann sér fullkomlega meðvitaður um að um þennan þátt málsins ríkja mjög öndverð sjónarmið. Það eru grundvallarsjónarmið í þessum efnum sem hér takast á og það er ekki sanngjarnt af hæstv. ráðherra að sniðganga það að taka þá umræðu hér á þessum vettvangi við 1. umr. málsins.

Gert er ráð fyrir því í 3. gr. frumvarpsins að í almannavarna- og öryggismálastefnu stjórnvalda skuli gera grein fyrir ástandi og horfum í almannavarna- og öryggismálum í landinu, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna- og öryggismála, forvarnastarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði. Ég verð að segja að það hefði verið fengur að því að hafa fylgiplagg með þessu frumvarpi þar sem einhvers konar uppkast eða stefnumörkun væri til staðar frá hendi ríkisstjórnarinnar um þessa almannavarna- og öryggismálastefnu því að ég verð að segja að þar er enn þá autt blað. Ég held að ríkisstjórnin skuldi bæði almenningi og okkur þingmönnum örlítið greinarbetri lýsingu á því hvað menn sjá fyrir sér í þessum efnum varðandi öryggismálastefnuna.

Eins og ég met öryggismálastefnu þessarar ríkisstjórnar þá kemur hún fram í því starfi sem hefur verið unnið á vegum utanríkisráðuneytisins upp á síðkastið. Þar höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýnt mjög þá hernaðarvæðingu sem hefur verið á borði utanríkisráðherra í þessum efnum. Við höfum gagnrýnt hvernig farið hefur verið fram varðandi samkomulag við nágrannaþjóðir okkar í öryggis- og björgunarmálum. Við höfum lagt mjög mikla áherslu á að almannavarnaþátturinn í slíku samstarfi þurfi að vera á borgaralegum forsendum en ekki hernaðarlegum og viljum að dregin sé skýr lína á milli borgaralegrar starfsemi almannavarna okkar og þeirrar starfsemi sem herir nágrannaþjóða okkar hafa með höndum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, hæstv. forseti, að það er ekki í alla staði einfalt mál en ég held að það skipti verulegu máli og sé grundvallaratriði í stefnu Íslands sem er herlaust land, sem hefur skuldbundið sig og heitið því að fara aldrei með vopnum gegn annarri þjóð og ætlar sér ekki að koma upp eigin her, að slík þjóð tali alveg skýrt í þessum efnum og geri samstarfsaðilum sínum á þessum vettvangi grein fyrir því að við viljum draga þarna skýra línu. Við höfnum alls ekki samstarfi við nágrannaþjóðir okkar varðandi björgun og almannavarnastarf á Norður-Atlantshafinu, svo það sé alveg ljóst. Hins vegar teljum við að það samstarf eigi að fara fram á okkar forsendum en ekki forsendum samstarfsaðila okkar. Mér sýnist að með frumvarpinu eins og það er sett upp sé ekki verið að leggja til að hér séu dregnar skýrar línur heldur þvert á móti og kannski verður stór hluti af þessu starfi á mjög gráu svæði. Mér sýnist að það muni skeika sköpuðu í þessum efnum og að við þurfum örugglega að lúta í lægra haldi fyrir herþjóðunum í nágrenni okkar, að það sé mjög líklegt að við verðum þjóðin sem þarf að lúta í lægra haldi. Ef við reisum ekki varnirnar strax eða setjum forsendurnar strax verður það gert fyrir okkur af þjóðum sem hafa her og hafa ekki fullan skilning á vilja okkar í þessum efnum. Ég hefði haldið að í þessu frumvarpi, sem ég vona að verði unnið vel að í allsherjarnefnd, þyrfti að gera alveg skýran greinarmun á hvað eru borgaraleg björgunarstörf annars vegar og hvað heyrir undir hernað hins vegar, t.d. í samstarfi þessara borgaralegu björgunarapparata okkar þegar þau fara að starfa með nágrannaþjóðum okkar sem hafa her og stunda hernaðaruppbyggingu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum hafa þessi mál alveg á hreinu hvað okkur varðar og teljum hernaðarhyggjuna sem er að láta á sér kræla hvað varðar öryggis- og björgunarmál ekki vera af hinu góða.

Í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 12 þar sem fjallað er um þróun í björgunarmálum upp á síðkastið, segir að gert sé ráð fyrir að fleiri hættur steðji að okkur en náttúruvá og slíkt. Þar er aðeins fjallað um hernaðaraðgerðir og sagt að stjórnvöld þurfi að búa sig undir almannahættu af mannavöldum og vegna farsótta af meiri þunga en áður hefur verið gert. Þar segir að Íslendingar hafi gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar um eigið öryggi og annarra sem stjórnvöld geti sinnt betur en ella með góðu og nútímalegu skipulagi almannavarna. Undir þetta prinsipp get ég tekið, að gott og nútímalegt skipulag þurfi að vera á almannavörnum, en ég vil að það sé algerlega skýrt að það skipulag og sú framkvæmd öll eigi að vera á borgaralegum forsendum eingöngu. Þess vegna er ég gagnrýnin á þennan meginþátt málsins, að þetta skuli allt heyra undir ríkislögreglustjóra og ríkisstjórn sem mundi þá hafa ríkislögreglustjóra sér við hlið í allri þessari skipulagningu. Lögregluvæðing og möguleg hervæðing þessara mála er eitthvað sem þarf að taka til verulegrar skoðunar og athuga hvort hægt sé að greina þarna á milli á mjög ákveðinn hátt.

Hæstv. forseti. Svo ég fari að draga ræðu mína niður á punkti þá langar mig að gera athugasemd við umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp. Sú umsögn fylgir frumvarpinu á bls. 25. Það er sárgrætilegt að í þessari umsögn skuli ekkert koma fram um væntanlegan kostnaðarauka þessara breytinga. Ég verð að biðja hæstv. ráðherra að gera þingheimi grein fyrir hvað hann sjái fyrir sér í þeim efnum. Það er allsendis ónógt að fjármálaráðuneytið segi eins og sagt er í niðurlagi umsagnarinnar á bls. 25, með leyfi forseta:

„Ef ákvæði frumvarpsins leiða til aukins kostnaðar vegna viðbúnaðar á hættutímum er eðli málsins samkvæmt þó ekki hægt að segja fyrir um hvort og í hvaða mæli það gæti orðið“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir auknu umfangi þessara mála í fjárlögum næsta árs. Nú eiga lögin raunar ekki að taka gildi fyrr en í júní 2008, ef ég man rétt, en það þarf að liggja fyrir áður en málið fer héðan eftir 1. umr. hvað hæstv. ráðherra sér fyrir sér í þessum efnum. Þá mætti jafnframt hanga á spýtunni frásögn af því eða svar við þeirri spurningu minni hvort sparnaðurinn sem gert var ráð fyrir að næðist fram með breytingunum 2003 hafi náð fram að ganga eða ekki.



[15:06]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er magnað að hlusta á málflutning hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þegar hún fer að tengja þetta mál einhverri hervæðingu og hernaðarbrölti þegar hér er verið að fjalla um almannavarnalög í landinu. Þessi lög snúast um það hvernig við ætlum að koma samborgurum okkar til hjálpar á hættustundum gegn hvaða vá sem að okkur kann að snúa. Hryðjuverk og afleiðingar hernaðaraðgerða eru þar ekki undanskilin og það er mikill pollýönnuleikur hjá hv. þingmanni ef hún heldur að við getum algerlega fríað okkur gagnvart mögulegum afleiðingum slíkra atburða. Það er bara ekki svo.

Svo er gripið til þess að gagnrýna ákveðið samstarf sem við eigum við vina- og frændþjóðir okkar, næstu nágrannaþjóðir, þegar kemur að öryggismálum og björgunarmálum og undanskilin björgunarvinna í kringum landið og á Norður-Atlantshafi. Samstarfið á að vera á okkar forsendum. Frú forseti. Skyldi það vera ástæðan fyrir því að Vinstri grænir hafi ekki átt erindi í ríkisstjórn að samstarfið þarf alltaf að vera á þeirra forsendum?



[15:08]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg til í að vera í pollýönnuleik en ég lít hins vegar ekki á það sem við erum að ræða sem neinn leik, ég tel að hér sé um mjög alvarleg mál að ræða. Ég get tekið undir mjög margt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan, sérstaklega hvað varðar þann ásetning hv. þingmanns að vilja standa vel að málum er varða björgunarmál og að koma landsmönnum til hjálpar þegar vá steðjar að. Þar er ekki neinn ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns. Hins vegar vil ég hafa fullt frelsi til þess að velta upp öllum sjónarmiðum þegar verið er að reifa málið í 1. umr. Það eru fullkomlega gild sjónarmið í þessu sambandi þegar verið er að stofna ákveðið öryggismálaráð sem er nýlunda og hefur ekki verið og ekki heyrt undir almannavarnalög hingað til, það eru alveg gild sjónarmið sem ég hef fært fram af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er bara eitt af þeim sjónarmiðum sem þarf að taka til skoðunar og verður að sjálfsögðu tekið til skoðunar í nefndinni.

Varðandi tilgátu hv. þingmanns um að samstarf þurfi ævinlega að vera á forsendum okkar Vinstri grænna og það sé ástæðan fyrir því að við séum ekki aðilar að ríkisstjórninni þá vísa ég því til föðurhúsanna og bendi á hæstv. forsætisráðherra sem ákvað að velja sér samstarfsflokk í þessum efnum, sennilega vegna þess að hann áttaði sig á að það væri auðveldara og þægilegra að ná samkomulagi við þann flokk sem varð fyrir valinu en Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, sem er mjög stefnufastur flokkur og leyfir sér að standa á sínum prinsippum en er algerlega fús að ræða málin frá öllum endum og ná samkomulagi og málamiðlunum þegar það er í boði. Þess vegna vona ég að menn teygi sig að einhverju leyti í átt að okkar sjónarmiðum í umræðum um þetta mál í allsherjarnefnd.



[15:10]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur auðvitað fullt leyfi til að viðra sjónarmið sín. Það er á þeirri forsendu sem við störfum á Alþingi, að viðra mismunandi sjónarmið á hinum mismunandi málaflokkum. Það er aftur á móti ábyrgðarhluti þegar menn fara að beina umræðunni á villigötur, að ég tel vísvitandi, með því að gera tortryggilegt eitthvert öryggismálaráð sem kemur fram í þessu lagafrumvarpi. Þetta öryggismálaráð er skipað æðstu embættismönnum þjóðarinnar. Við erum að tala um ráð sem kallað er til starfa þegar vá ber að höndum, alvarlega vá ber að höndum í samfélaginu, og það eru þeir aðilar sem halda um stjórnartaumana og verða á þeim tímum að taka þær mikilvægu ákvarðanir sem þarf að taka. Hjá hverjum á þetta að liggja? Þessi ábyrgð á ekki að liggja hjá neinum öðrum. Þeir eru aftur á móti ekki að vasast í daglegri framkvæmd. Þeir mæta ekki upp í stjórnstöð þegar verið er að sinna einhverjum aðgerðum beint en þeir eru þessi ábyrgi hópur. Að gera það samstarf sem við eigum við frændþjóðir okkar og vinaþjóðir á einhvern hátt tortryggilegt og ræða um hernaðarbrölt í því samhengi finnst mér ekki vera sjónarmið og mér finnst felast í því ákveðinn pollýönnuleikur ef fólk heldur að við getum fríað okkur algerlega af því að nefna í almannavarnalögum vá sem stafar af hernaðarógn og hryðjuverkaógn. Það er partur af þessari mynd.



[15:12]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig alveg á því að við hv. þingmaður erum á öndverðum meiði varðandi ákveðna þætti þessara mála en hann verður að virða mér það til vorkunnar að hér er verið að fara inn á nýja braut, verið er að brjóta nýjar lendur í sjálfu sér og láta þær heyra undir almannavarnalögin, þetta öryggismálaráð er nýjung í lögum. Við þurfum að átta okkur á því að ríkisstjórnin gefur samkvæmt þessu frumvarpi fyrirheit um að setja af stað vinnu við stefnumótun sem varðar innra öryggi ríkisins og innra öryggi ríkisins er auðvitað mál af því tagi sem þær þjóðir sem hafa her láta herina sína annast. (JónG: Við höfum ekki her.) Við höfum ekki her. Ég er ekki að segja að það sé óeðlilegt að þetta hlutverk falli undir þessi lög, ég er alls ekki að segja það, ég er hins vegar að segja að við verðum að átta okkur á því á hvern hátt við útfærum það og við þurfum að mínu mati að útfæra það á þann hátt að það sé algerlega borgaralegt. Þess vegna leyfi ég mér að fara út fyrir landsteinana og segja, af því að það er hluti af innra öryggi ríkisins að tryggja öryggi á höfunum í kringum okkur, að það eigi að vera á okkar forsendum en ekki forsendum þeirra þjóða sem við ætlum að vera í samstarfi við af því að þær hafa her. Við eigum að geta farið í þetta samstarf á okkar forsendum af því að við höfum ekki her og þess vegna þurfum við að tryggja að Landhelgisgæsla okkar, yfirvöld okkar á hafinu, þ.e. siglingamálastjóri, siglingamálastjórn, Póst- og fjarskiptastofnun og allar þær stofnanir sem að þessum málum koma, séu og verði áfram borgaralegar stofnanir þó svo að þær fari í samstarf við þjóðir sem hafa her. Við þurfum að draga þessa línu og hún þarf að vera skýr. Við höfum fulla þörf fyrir að hafa hana skýra af því að við höfum sérstöðu í þessum málaflokki. Ég held að ég hafi málefnaleg rök fyrir því að draga þetta sjónarmið inn í þessa umræðu og hafna því að það sé eitthvað óeðlilegt við að ég komi með það sjónarmið okkar flokks inn í 1. umr. um þetta viðamikla mál.



[15:15]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ágætu umræður um frumvarpið og framlag þingmanna til þess að skýra einstök ákvæði þess. Ef ég vík fyrst að þessu sem var nú síðast til umræðu, þarna er verið að tala um almannavarna- og öryggismálaráð sem bæði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Siv Friðleifsdóttir vöktu máls á, vísa ég í fyrsta lagi til þess að í ríkisstjórn sem við Siv sátum saman í og gaf út yfirlýsingu 26. september árið 2006 var fyrst komið fram með þetta hugtak, almannavarna- og öryggismálaráð. Þar er því lýst yfir að það eigi að koma á laggirnar slíku ráði.

Ég tel mjög mikilvægt að hafa það í huga og einnig velta fyrir sér að þarna er talað um almannavarna- og öryggismálastefnu stjórnvalda þannig að það er alveg skýrt að stjórnvöld hafa skapað sér og skapa með þessu vettvang til að leggja á ráðin um þessa þætti í íslenska stjórnkerfinu á grundvelli þessa lagaákvæðis. En það segir okkur ekkert um það síðan sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var að ræða um, að við séum að fara út í einhverjar aðgerðir sem eru hernaðarlegs eðlis.

Ef menn lesa hins vegar skipan ráðsins og skoða hvernig það er samansett sjá þeir að þarna koma saman á einum stað allir aðilar í landinu sem hafa bæði með almannavarnir landsins að gera og einnig öryggismál í víðtækari skilningi innan þess ramma sem íslenska stjórnkerfið hefur sett sér. Enginn held ég að hafi talað skýrar um það að Íslendingar ráði ekki yfir herafla en einmitt ég. Ég hef ferðast núna til nágrannalandanna og flutt fyrirlestra og alls staðar minnt á það að við Íslendingar ráðum ekki yfir herafla og öll samvinna okkar við önnur ríki varðandi leit og björgun á sjó eða hvarvetna annars staðar byggist á því að borgaralegar stofnanir komi að málum. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem haggar við því að aðeins borgaralegar stofnanir sinni þessum málum samkvæmt þessum lögum þótt almannavarna- og öryggismálaráð sé sett á laggirnar.

Hins vegar er ljóst að með ráðinu er skapaður vettvangur til þess að menn geti á vettvangi stjórnsýslunnar með þátttöku sveitarfélaga og almannasamtaka, Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, komið að því að móta stefnuna. Almannavarnir eru ákveðið hugtak sem er skilgreint í alþjóðlegum samningum. Ef menn líta á alþjóðlega samninga er annars vegar talað um almannavarnir og hins vegar hernaðaraðgerðir. Það er alveg skýrt að við erum alls ekki með þessari löggjöf að fara inn á neitt grátt svæði þegar litið er til þess hvernig að þessum málum er staðið í alþjóðlegu samhengi.

Það er algjörlega út í bláinn, finnst mér, af hv. þingmanni að gefa það til kynna að eitthvað í þessu frumvarpi sé þess eðlis að við séum að búa okkur undir hernaðarlegar aðgerðir. Það er með ólíkindum en það er stundum þannig að þegar minnst er á ákveðin orð hér í þingsalnum, eins og öryggismál eða öryggismálaráð, hlutafélög eða opinber hlutafélög, þá fara vinstri grænir alltaf inn á eitthvert spor sem leiðir þá í ógöngur í umræðum. Það hefur gerst í þessu samkvæmt málflutningi hv. þingmanns.

Það er ekkert í þessu frumvarpi þess eðlis að verið sé að búa til eitthvert grátt svæði milli borgaralegra og hernaðarlegra stofnana. Þvert á móti er alveg skýrt að hér er um borgaraleg viðbrögð að ræða. Það að segja eins og hv. þingmaður gerði að með því að ríkislögreglustjóri fái það verksvið sem hér er skilgreint sé verið að lögregluvæða og þar með næstum því hernaðarvæða þessi mál er málflutningur sem gengur ekki upp. Ríkislögreglustjóri er borgaralegt stjórnvald og lögreglan fer með borgaralegt vald. Að ætla síðan að álykta sem svo, af því að ríkislögreglustjóra var falið þetta hlutverk árið 2003, að hér sé verið að hernaðarvæða þessi mál sýnir hvað þessi málflutningur á við lítil rök að styðjast. Ég held að ef menn skoða þetta sé til mikilla framfara fyrir samfélag okkar að komið sé á laggirnar ráði sem hefur þetta umboð og það hlutverk sem hér er nefnt og verði til þess að treysta innviði þjóðfélagsins og efla öryggið sem er jú frumskylda stjórnvalda í sérhverju ríki.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um 5. og 7. gr. frumvarpsins og taldi að þar væri ríkislögreglustjóra veitt afar mikið vald. Ég tel að með ákvæðunum í 5. og 7. gr. frumvarpsins sé verið að efnisgera vald ríkislögreglustjóra sem honum var falið árið 2003 og að með þessum ákvæðum sé komið til móts við þau sjónarmið sem voru uppi hjá gagnrýnendum þess árið 2003, að ríkislögreglustjóri fengi þetta vald vegna þess að það var kannski ekki útfært nógu skýrt við þá breytingu í hverju valdið fælist. Það er gert hér. Og eins og menn sjá í 7. gr. er talað um að ríkislögreglustjóri hafi eftirlit og umsjón, taki þátt í undirbúningi o.s.frv. Það er verið að tala um hlutverk hans sem samræmingaraðila þannig að einn aðili í landinu beri ábyrgð á því að samræma þetta á einum stað. Ég held að allir hljóti að sjá kosti þess.

Síðan er í 5. gr. vald dómsmálaráðherra framselt til ríkislögreglustjóra til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Í svona málum verður skipuritið og umboðið að vera skýrt þannig að það sé enginn flækjufótur sem trufli menn þegar til kastanna kemur. Ég tel að á því sé tekið í þessu frumvarpi með skýrum og góðum hætti.

Síðan var spurt um 12. gr. þar sem er vísað til fjarskiptakerfisins og það var líka tekið fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 26. september 2006 að hér ætti að koma upp öflugu fjarskiptakerfi, svonefndu TETRA-kerfi. Lykillinn að því að þessi samhæfingar- og stjórnstöð virki eins vel og frekast er kostur er að það kerfi sé gott og öruggt. Núna hafa verið settir upp 120 sendar og við samgönguráðherra skrifuðum í morgun undir samning við austurríska fyrirtækið Frequentis um endurnýjun á öllum fjarskiptabúnaði vaktstöðvar siglinga sem mun valda byltingu á því sviði eins og TETRA-kerfið hefur gert varðandi öll samskipti á landi. Það nær núna til landsins alls. Það eru komnir yfir 120 sendar ef ég veit rétt og stefnt að því að þeir verði 150.

Eins og kemur líka fram í greinargerð frumvarpsins var stuðst við TETRA-kerfið þegar leitað var að tveimur þýskum ferðamönnum við rætur Öræfajökuls fyrir fáeinum mánuðum. Það nær þangað og upp í óbyggðir. Án TETRA-kerfisins hefði öll sú leit, sá mikli viðbúnaður sem menn höfðu og það mikla og góða framtak sem björgunarsveitirnar og lögregla sýndu, ekki verið jafnmarkviss. TETRA-kerfið gerði gæfumuninn. Þeir sem hafa kynnst því og sjá hvernig það virkar átta sig fljótt á því að það er algjör bylting í samskiptaháttum okkar á sviði leitar og björgunar á hættustundu miðað við það sem áður var.

Ég var spurður um orðið „umsjónarmann“ í lokamálsgrein 12. gr. Hann er það sem í orðinu felst, umsjónarmaður, maður sem sér um að salarkynni og öll tækin séu í lagi en hann er ekki stjórnandi aðgerða. Það fer eftir eðli aðgerðanna á hverjum tíma og eru sérstök ákvæði um það í frumvarpinu.

Að öðru leyti um það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék að sem íhugunarefni sem var í 19., 20. og 26. gr. eru þær efnislega óbreyttar frá núgildandi lögum og við sáum ekki ástæðu til að breyta þeim lagaákvæðum enda hefur sá kafli laganna staðist tímans tönn þótt við breytum öðru.

Síðan var ég spurður hvað fælist í 18. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Sérhver ráðherra getur, í samráði við ríkislögreglustjóra, ákveðið að opinberir aðilar eða einkaaðilar skuli grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana varðandi sölu á vörum, veitingu þjónustu og framleiðslu í atvinnurekstri sínum ef þess gerist þörf til þess að markmið laga þessara náist.“

Ég var spurður um hvaða tilvik gæti verið þarna til umhugsunar. Það gæti náttúrlega skapast eitthvert ástand þar sem menn sjá fram á að það þurfi að skammta, þurfi að taka upp aðrar aðferðir en venjulega og daglega tíðkast í viðskiptum manna á meðal, sjá til þess að vistir séu til staðar og annað slíkt. Þá getur viðkomandi ráðuneyti beitt sér í því. Ég sé ekki fyrir mér öll þau tilvik sem geta orðið en ákvæði af þessum toga er nauðsynlegt til að hafa heimildir svo að ekki vakni spurningar um heimildir ef menn þurfa að grípa til aðgerða af þessum toga.

Varðandi sjónarmið brunamálastjóra sem ég var spurður um er ég sama sinnis og hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég tek undir orð hans og þakka stuðning hans við þetta frumvarp. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur jú verið í forustu Slysavarnafélagsins Landsbjargar um árabil og þekkir þessi mál af eigin raun, og stuðningur hans og hans félags og annarra sem að þessu máli koma sem þátttakendur við efni frumvarpsins er ákaflega mikils virði. Að sjálfsögðu hefðum við ekki lagt það fram nema af því að við vissum um þennan stuðning og áhuga þessara aðila á því að færa löggjöfina í þetta nútímalega horf.

Það er misskilningur hjá brunamálastjóra að það sé verið að ganga á hlut sveitarfélaganna eins og kom fram í framsöguræðu minni, og tel ég að ég hafi í henni svarað þeim sjónarmiðum sem m.a. eru á bak við þann misskilning. Það er algjörlega fráleitt að ætla að með þessu frumvarpi sé dregið úr ábyrgð og hlutverki sveitarstjórna þegar að því kemur að sinna almannavörnum. Þær eru, eins og ég sagði, lykilþátttakandi í góðri framkvæmd almannavarna og verða það áfram með vísan til þessara laga.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vakti máls á kostnaði við frumvarpið. Ég hef ekki mat á því hvaða fjárhagsleg hagræðing varð af þeirri breytingu sem gerð var 2003. Ég hef ekki látið skoða það. Ég tel að hún hafi orðið. Aðalhagræðingin og aðalkosturinn við það var að fella þessa starfsemi inn í það fjölþætta starf sem er unnið undir merkjum ríkislögreglustjóra og nú er þar starfandi alveg sérstök almannavarnadeild sem hefur gegnt ómetanlegu hlutverki, t.d. á Rangárvöllum þegar farið var í það mikla áhættumat og áætlanagerð á því svæði. Ég held að reynslan hafi sýnt að þetta hafi verið mjög skynsamlegt skref. Síðan segir hér sem hv. þingmaður nefndi, með leyfi forseta:

„Ef ákvæði frumvarpsins leiða til aukins kostnaðar vegna viðbúnaðar á hættutímum er eðli málsins samkvæmt þó ekki hægt að segja fyrir um hvort og í hvaða mæli það gæti orðið.“

Þetta er alveg rökrétt. Með frumvarpinu er ekki verið að leggja á ráðin um hvað þetta mundi kosta ef það yrði eldgos í vestanverðum Mýrdalsjökli. Við vitum hins vegar að það mun kosta eitthvað að bregðast við, flytja fólk og gera aðra hluti. Við höfum þau fordæmi hér að á þeim málum er tekið af Alþingi með sérstökum fjárveitingum og nægir þar að vísa til Vestmannaeyjagossins eða snjóflóðanna á Vestfjörðum. Það er alveg sérstakt málefni og viðlagatrygging var sett á laggirnar til að auðvelda mönnum viðbrögð við því.

Þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir hamförum. Frumvarpið verður að gera ráð fyrir því að ef svo illa fer að hamfarir verða höfum við kerfi til að bregðast við. Það getur enginn reiknað út hvað það kostar ef einhverjar hamfarir verða. Tökum jarðskjálftana á Suðurlandi árið 2000. Hver var kostnaður þar og hvernig var að því staðið? Þetta eru allt uppgjörsmál sem menn verða að taka afstöðu til og Alþingi verður að koma að því hverju sinni. Rannsóknarnefndin gegnir þar mikilvægu hlutverki þannig að það er alveg rökrétt hjá fjármálaráðuneytinu að segja að menn viti ekki hvaða kostnaður felist í því að framkvæma ákvæði frumvarpsins. Það fer eftir umfangi þeirra hamfara sem við stöndum frammi fyrir þegar þetta kerfi fer af stað.



[15:29]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér nokkuð broslegt að fá þær upplýsingar frá hæstv. ráðherra að yfirlýsingin um almannavarna- og öryggismálaráð skuli hafa verið samþykkt í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að Framsóknarflokkurinn og þingmenn hans muni vera samábyrgir hvað þennan þátt málsins varðar. Ég fer ekki nánar út í það.

Hæstv. ráðherra talar um að ég sé komin út í ógöngur í málflutningi mínum og að hann eigi við lítil rök að styðjast þegar ég ræði um þetta gráa svæði sem ég telji vera á milli borgaralegra aðgerða í þessum efnum og hernaðarlegra.

Borgaralegar stofnanir á Íslandi starfa í auknum mæli með erlendum herjum og mig langar til að minna bara á eitt atriði til að hæstv. ráðherra sé með það alveg á hreinu að ég tel full rök fyrir þessum málflutningi mínum. Sérsveit lögreglunnar tók í sumar sem leið, í ágúst ef ég man rétt, þátt í æfingum 300 hermanna frá fjórum löndum. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði frá því í erindi sem hann flutti hjá Samtökum um vestræna samvinnu, Varðbergi, þann 29. mars 2007 að fyrirhugaðar væru frekari æfingar af þessu tagi, þær yrðu reglubundinn hluti af varnarviðbúnaði landsins og það sé gert ráð fyrir því í samkomulaginu við Danmörku annars vegar og Noreg hins vegar að öryggis- og varnarmál væru tengd saman. Það kemur fram í titlum á þessu samkomulagi sem um ræðir.

Það er ekki langsóttara en svo að ég vek athygli fólks á því að hér er um grátt svæði að ræða. Við erum nú þegar farin að senda lögreglumennina okkar í heræfingar og erum að tvinna saman (Forseti hringir.) björgunarmál og hermál með því samkomulagi sem við höfum gert við nágrannaþjóðir okkar.



[15:31]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lögreglan hefur sitt umboð samkvæmt lögreglulögum og hv. þingmaður var á þingi þegar við samþykktum ný lög um Landhelgisgæsluna. Það var m.a. rætt um þetta, það var talað um hlutverk Landhelgisgæslunnar. Þá urðu svipaðar umræður. Staðreyndin er sú að þó að þessi orð standi þá eru þetta borgaralegar stofnanir. Þær eru ekki hernaðarlegar stofnanir.

Tökum eitt dæmi: Ef Norðmenn hefðu ákveðið að kaupa herþyrlur til leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi hefðum við ekki getað átt samstarf við þá um sameiginlegt útboð á björgunarþyrlum. Þegar Norðmenn ákváðu að kaupa borgaralegar björgunarþyrlur til leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi, og norska dómsmálaráðuneytið tilkynnti okkur það, ákváðum við að leita eftir samstarfi við þá um útboð á leitar- og björgunarþyrlum. Væntanlega verður gengið frá samkomulagi um það í lok þessa mánaðar. Þetta sýnir þennan mun. Við erum að byggja nýtt varðskip í Síle um þessar mundir og eru allar kröfur til þess varðskips borgaralegar. Ef við hefðum ætlað að byggja varðskip til hernaðarnota hefðum við byggt allt annars konar skip. Og þótt lögreglumenn stundi æfingar með mönnum sem hafa hlotið herþjálfun breytast þeir ekki í hermenn. Þetta verður hv. þingmaður að hafa í huga.



[15:33]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ákveðinn fengur í þessum yfirlýsingum hæstv. ráðherra. Mér þykir hann tala skýrt í ræðustóli Alþingis, skýrar en mér hefur oft þótt hann gera áður í erindum sem ég hef lesið eftir hann eða heyrt hann flytja. Mér þykir gott að hæstv. ráðherra skuli tala með þeim hætti sem hann gerir hér. Mér þykir fengur að því að þessi ummæli skuli fylgja málinu inn í meðferð alþjóðanefndar. Ég tel að þar með séu meiri líkur á því en ella að algerlega skýr skil séu á milli hinna borgaralegu stofnana okkar og þeirra hernaðarlegu stofnana sem við eigum í auknum mæli samstarf við hvað varðar björgun og það sem kallað er öryggismál á hafinu og í lofthelgi okkar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli tala með þeim hætti sem hann gerir og treysti því að allsherjarnefnd átti sig á því að skýra þarf línurnar. Það má ekki vera grátt svæði, við þurfum að hafa þessa hluti alveg á hreinu.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að mér þykir miður að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa látið fara fram könnun á því á hvern hátt markmiðin með breytingunum 2003 hafi skilað sér. Ég tel einsýnt að allsherjarnefnd þurfi að skoða það og komi til með að gera það í umfjöllun sinni um málið og það verði þá tryggt að kostnaðarþáttur þessa máls verði með þeim hætti sem hæstv. ráðherra lýsir hér, að kerfisbreytingin sem slík leiði ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.



[15:34]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi kostnaðarþáttinn þá er það fjármálaráðuneytið sem leggur mat á hann. Við leggjum frumvarpið fyrir fjármálaráðuneytið og það leggur mat á kostnaðarþáttinn og það kemur fram í kostnaðarmatinu að kostnaður eykst ekki. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði, það er fjármálaráðuneytið sem leggur þetta fram. Ég tel að breytingin frá 2003 hafi skilað sér. Hvort hún hafi skilað sér í peningum, 20 milljónum eða hvað hún hefur skilað sér í háum fjárhæðum, hef ég ekki á takteinum. Ég tel að hún hafi skilað sér á þeim tíma með þeim hætti því að þá var hún gerð til að loka ákveðnum ramma í fjárlagagerð dómsmálaráðuneytisins. Ég var ekki ráðherra þá þannig að ég þekki ekki einstök atriði þess máls en ég tel að hún hafi skilað sér mjög vel í allri almannavarnastarfsemi í landinu. Það hafi komið fram hvað eftir annað að þessi breyting auðveldaði okkur mjög að búa til þá öflugu stjórn- og samhæfingarstöð sem við höfum núna í Skógarhlíðinni. Hún hefur auðveldað mjög það mikla samhæfingarstarf sem er bakhjarl þess að við getum náð árangri á hættustundu á grundvelli þessa frumvarps og þess kerfis sem við höfum komið upp.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.