135. löggjafarþing — 46. fundur.
þingsköp Alþingis, 3. umræða.
frv. StB o.fl., 293. mál (starfstími Alþingis, eftirlitshlutverk, ræðutími o.fl.). — Þskj. 530.

[17:35]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Röksemdir með og á móti frumvarpinu hafa komið fram við 1. og 2. umr. Með frekari umræðum mætti eflaust reyna að hafa áhrif á viðhorf þingmanna. Það höfum við reynt að gera á báða bóga og í mínum huga hefur umræðan verið gagnleg því að hún hefur varpað ljósi á hvað vakir fyrir ýmsum stuðningsmönnum frumvarpsins og vonandi einnig hvað fyrir okkur vakir sem erum því andvíg. Það er jú tilgangur rökræðu.

Ég held hins vegar að frekari umræða á þessu stigi muni ekki verða til þess að breyta afstöðu manna þegar kemur að því að greiða atkvæði um frumvarpið nú innan stundar. Þess vegna ætla ég ekki að flytja langt mál nú.

Fyrir þá sem koma til með að hafa áhuga á sögu Alþingis þegar fram líða stundir er í þingskjölum að finna talsvert efni sem skýrir viðhorf þingmanna til frumvarpsins. Eitt öðru fremur finnst mér þó koma þar fram sem verði að leiðrétta. Það er sú staðhæfing frá sumum flutningsmanna að fram hafi farið náið samráð um gerð þingmálsins. Þingsköp og samskiptareglur innan þingsins hafa að sönnu lengi verið í mótun og tekið breytingum á síðari tímum, jafnan eftir miklar umræður og samráð. Þingmálið, sjálft frumvarpið, var ekki unnið í samvinnu í þeim skilningi sem ég legg í það hugtak.

Ég furða mig nokkuð á staðhæfingum um að þingflokkum og einstökum þingmönnum hafi gefist mjög gott svigrúm til ítarlegrar umræðu og vinnu við málið. Hér svari hver fyrir sig. Okkur í VG var kynnt frumvarpið og það þá látið fylgja með að hvað ræðutímann varðaði yrði honum ekki hnikað. Einnig var tekið skýrt fram að loforð um aukna þjónustu við þingmenn, sérstaklega í stjórnarandstöðu, starfsmenn þeim til aðstoðar og utanferðir, væru óaðskiljanlegir hlutar málsins. Ef menn féllust ekki á þingskapafrumvarpið mundu þessi fyrirheit ekki ganga eftir, þetta væru órjúfanlega tengd mál. Það var í þessu samhengi sem við andmæltum af því að staðreyndin er sú að málin eru óskyld. Við vildum ekki fá aukið fjárframlag og bætta aðstöðu sem er nokkuð sem við styðjum í sjálfu sér en ekki þó á kostnað réttinda okkar innan þingsins. Það var vegna þessa sem talað var um kaup og sölu.

Í umræðum undangenginna ára, mánaða og nú síðast vikna höfum við teflt fram sjónarmiðum sem finna sér stað í þessu frumvarpi, frumvarpinu til bóta, svo sem styttingu þingfunda og lengingu þinghaldsins sem við töldum nauðsynlega samhliða því að ræðutíma yrðu settar skorður. Við tefldum fram fleiri sjónarmiðum um styrkingu þingsins og þá ekki síst stjórnarandstöðunnar hvað varðar val á forseta, formönnum þingnefnda og ýmsa aðra þætti. Við höfum lagt fram hugmyndir af margvíslegum toga, t.d. um opnari umfjöllun um þær stofnanir sem heyra undir þingið, svo sem umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun, nokkuð sem ég hef oftsinnis fyrir hönd þingflokks VG gert grein fyrir á fundum með forseta og þingflokksformönnum þegar þingsköp og starfsreglur Alþingis hafa verið til skoðunar.

Við lögðum frá upphafi áherslu á að skoða yrði breytingar á þingskapalögum heildstætt. Við vildum gefa umræðunni og stefnumótunarvinnu lengri tíma og gera því aðeins breytingar á lögunum að við gætum öll sætt okkur við þær og við gætum í það minnsta sagt með góðri samvisku að okkur fyndist öllum málið hafa einkennst af vönduðum vinnubrögðum, ítarlegu umsagnarferli og málefnalegum umræðum eins og við vonuðumst til að yrði þegar málinu var vísað til allsherjarnefndar þingsins. Því miður, herra forseti, treysti ég mér ekki til að segja að hér hafi verið vandað til verka eða staðið rétt að málum.

Ég tek undir með því sjónarmiði sem fram hefur komið hjá hv. þm. Þuríði Backman sem hvatti hér fyrir stundu til þess að lögin komi til endurskoðunar hið allra fyrsta og að við freistum þess að beina þróuninni að nýju inn í farveg sem allir geti sætt sig við. Ég er nefnilega sannfærður um að í hjarta okkar viljum við öll veg Alþingis sem mestan. Við viljum vandaða lagasmíð og við ættum öll að geta sameinast um leiðir til að tryggja betra jafnræði milli þingsins og framkvæmdarvaldsins en gert er með þessum lögum.

Í mínum huga er afgreiðslan á nýjum þingskapalögum ósigur fyrir Alþingi, ekki bara lögin sjálf heldur einnig málsmeðferðin. Verkefnið fram undan er að snúa ósigrinum upp í sigur því að þótt lögin séu gölluð skulum við ekki gleyma því að lögum má breyta. Það er sem betur fer ekki bannað á Íslandi að breyta lögum með betri lögum og við viljum helst vinda okkur í þá vinnu hið allra fyrsta.

Að lokum þetta: Allar breytingar sem ráðist verður í innan veggja þingsins þarf að gera í nánu og góðu samstarfi við starfsmenn þessarar stofnunar og þá er ég að tala um alla starfsmenn stofnunarinnar. Því fleiri sjónarmið sem við fáum inn í áframhaldandi vinnu því víðtækara samráð, fjölþættara umsagnarferli með aukinni sáttfýsi ólíkra sjónarmiða að leiðarljósi, þeim mun betur getum við í framtíðinni tryggt að hér verði sett ný þingskapalög sem í raun og sann eru til bóta. Þau leiði þá til betri vinnubragða, agaðra skipulags, vandaðri lagasetningar, markvissari umræðu, fjölskylduvænni vinnustaðar og þó umfram allt sjálfstæðari löggjafarsamkundu, sjálfstæðara Alþingis.