135. löggjafarþing — 72. fundur.
fangaflug Bandaríkjamanna.

[10:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ríkissjónvarpið sýndi síðastliðið mánudagskvöld mynd danska sjónvarpsins um tengsl bandarísku leyniþjónustunnar CIA og Danmerkur eða dansks yfirráðasvæðis hvað varðaði hið ólöglega fangaflug. Sýning myndarinnar á sínum tíma í Danmörku olli miklu umróti ekki síst í grænlenskum stjórnmálum og reyndar dönskum og ríkisstjórn Danmerkur með Per Stig Møller utanríkisráðherra í broddi fylkingar var sökuð um að hafa logið bæði að grænlensku þjóðinni og danska þinginu. Þeir sem myndina sáu hafa ekki komist hjá því að taka eftir því að Ísland kom þar verulega við sögu og talsvert af þeim fangaflugum sem rannsóknarvinna danska sjónvarpsins beindist að að rekja og liggja undir grun um að hafa verið raunveruleg fangaflug komu við á Íslandi.

Myndin sýndi líka að það er hægt að rannsaka þessa hluti og það er fullyrðing sem ekki stenst að ekkert sé hægt að grafa í fortíðinni í þessum efnum eins og því miður var kannski meginniðurstaða hæstv. utanríkisráðherra Íslendinga þegar hún á Alþingi svaraði fyrirspurn minni 21. nóvember sl. og vitnaði þar í skýrslu starfshóps sem starfað hafði á hennar vegum, en í því svari ráðherrans segir, með leyfi forseta:

„Í þeirri vinnu [þ.e. vinnu starfshópsins] var ekki ætlunin að staðfesta eða kanna frekar hvort um ólögmæta fangaflutninga um íslenskt yfirráðasvæði hafi verið að ræða, einfaldlega vegna þess að ef ólögmætur flutningur fanga hefur átt sér stað er vart mögulegt að sannreyna slíkt eftir á.“

Ég tel að myndin hafi sýnt að svo er ekki. Það er hægt að rannsaka þessa hluti með ýmsum hætti og ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Telur ekki hæstv. ráðherra, m.a. í ljósi upplýsinga sem fram komu í myndinni, að ástæða sé til að fara yfir þessa hluti á Íslandi á nýjan leik og fylgja fordæmi Svía, Þjóðverja og fleiri þjóða og setja (Forseti hringir.) raunverulega óháða rannsókn í gang í þessu máli?[10:35]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi dönsku myndina sem hér var sýnd þá var aðeins sýndur fyrri hluti þeirra þátta sem þessir dönsku kvikmyndagerðarmenn hafa gert. Þeir gerðu nefnilega tvo þætti um fangaflugið og í síðari þættinum er m.a. til þess tekið að Íslendingar hafi aðhafst ýmislegt í þessum málum sem Danir hafi ekki gert og það er raunar notað í síðari þættinum sem viðmiðun sem dönsk stjórnvöld ættu að notfæra sér að íslensk stjórnvöld hafi látið gera skrá yfir allar lendingar hér á landi, farið yfir málið og ákveðið í framhaldinu að viðhafa skoðun þegar flugvélar lenda hér til að sannreyna að ekkert slíkt eigi sér stað þegar til framtíðar er litið. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins, eru reyndar nefndar sem fyrirmynd fyrir dönsk stjórnvöld og til marks um það að hér hafi ýmislegt verið gert sem Danir hafi ekki gert. Mér finnst miður að síðari hluti þessara þátta skuli ekki hafa verið sýndur, en það getur vel verið að það eigi eftir að gera það, því að þá fæst önnur mynd á málið.

Varðandi svar mitt til fyrirspyrjanda þá svaraði ég eins og kom fram að það væri vart mögulegt að sannreyna það nema þá með miklum aðgerðum og það stendur, held ég, virðulegur forseti, að mjög erfitt er að sannreyna það. Aðalatriðið er að grípa til aðgerða þannig að tryggt sé að slíkt gerist ekki í framtíðinni. Ég sé ekki að það sé ástæða til að setja niður sérstaka rannsóknarnefnd, við höfum engin slík tilefni fengið upp í hendurnar að ég telji að ástæða sé til þess. Ef það gerist þá er sjálfsagt að endurskoða málið.[10:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þessi svör valda mér vonbrigðum. Mér finnst þetta vera sami undanflæmingurinn og í raun og veru hefur einkennt viðbrögð danskra stjórnvalda og þau eru nú loks að fá í kollinn, vegna þess að að lokum verður að auðvitað þannig að þessi mál fara í rækilega rannsókn þar og Grænlendingar hafa þegar ákveðið að rannsaka þessi mál sjálfstætt á sínum vegum.

Sú skrá sem utanríkisráðuneytið tók saman var góðra gjalda verð en var í öllum aðalatriðum búin að birtast áður í fjölmiðlum og ég hafði öll þau flugnúmer undir höndum og reyndar fleiri. Ég hef fengið fyrirspurnir frá dönskum þingmönnum á undanförnum dögum og þær fyrirspurnir bera það með sér að í Danmörku virðast menn halda að það hafi verið gert miklu meira á Íslandi en raun ber vitni. Það kemur mönnum á óvart þegar ég hef sent til baka gögn og upplýst um það hvað hefur verið gert hér og hvað ekki gert. Til dæmis kemur fullyrðing í þá veru að það sé vart hægt að rannsaka þessa hluti neitt eftir á mönnum mjög á óvart. Vegna þess að ég tel að rannsóknir annars staðar, í Evrópuráðinu, rannsóknir sem eru í gangi í Svíþjóð, Þýskalandi og víðar, sýni hið gagnstæða sem og rannsóknarvinna blaðamannanna sem sýndi að það er hægt að rekja þessa hluti og grafast fyrir um þá. Ég hef reyndar bent hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) á þá einföldu leið að kanna þann kost sem flugvélarnar tóku um boð hér á flugvöllum og hvort ekki megi lesa dálítið út úr því. Svo eru náttúrlega yfirlýsingar mismunandi ráðherra mjög misvísandi í þessum efnum og hæstv. dómsmálaráðherra kannast ekki við að nein breyting hafi orðið á eftirliti með þessu flugi.[10:39]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart ef danskir þingmenn vita ekki hvað hér var gert því að það kemur alveg skýrt fram í seinni hluta þessarar myndar og þeir blaðamenn sem gerðu þessa þætti vissu alveg nákvæmlega hvað hér hafði verið gert, að hér hafði verið tekinn saman listi yfir öll þau flug sem hingað höfðu komið og hugsanlega hefðu verið notuð fyrir meint fangaflug. Ég segi hugsanlega vegna þess að þau flugvélanúmer sem þarna er um að ræða geta auðvitað verið hér á vegum annarra aðila og í öðrum tilgangi en þessum. Eins og ég sagði, ef við fáum einhverjar skýrar vísbendingar um það að hér hafi verið fangaflug á ferðinni, að íslenskir flugvellir hafi verið notaðir í ólögmætum tilgangi þá er auðvitað sjálfsagt að skoða þau mál en við höfum ekki enn fengið neinar slíkar vísbendingar og meðan svo er tel ég dálítið viðurhlutamikið að fara ofan í öll þau lendingarnúmer sem þarna er um að ræða á öllu þessu árabili.