136. löggjafarþing — 47. fundur.
skattlagning kolvetnisvinnslu, 1. umræða.
stjfrv., 208. mál (heildarlög). — Þskj. 281.

[16:04]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um skattlagningu á kolvetnisvinnslu. Allt frá árinu 1997 hefur markvisst verið kannað hvort olía eða gas, sem nefnt er einu nafni kolvetni í frumvarpinu, finnist á landgrunni Íslands. Benda niðurstöður þeirra kannana til þess að góðar líkur séu á að svo sé. Í ljósi þess voru, að frumkvæði iðnaðarráðuneytisins, samþykkt á Alþingi sérstök lög árið 2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögu Íslands. Í mars 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands síðan að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis í lögsögu Íslands, nánar tiltekið á svokölluðu Drekasvæði. Þegar hefur verið ákveðið að fyrstu leyfin til rannsókna á vinnslu kolvetnis verði boðin út fljótlega eftir áramót. Það frumvarp sem hér er kynnt er lagt fram í beinum tengslum við komandi útboð enda mikilvægt að reglur um skattlagningu kolvetnisvinnslu liggi fyrir gagnvart þeim aðilum sem hug hafa á að bjóða í leyfin.

Frumvarpið er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um skattlagningu kolvetnisvinnslu og voru eftirtalin meginmarkmið höfð að leiðarljósi við mótun á þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu:

Að ríkinu verði tryggð ásættanleg hlutdeild í þeim hagnaði sem fellur til vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind í eigu þjóðarinnar.

Að Ísland verði í skattalegu tilliti samkeppnishæft við nágrannaríki okkar.

Að skattlagning kolvetnisvinnslu á Íslandi verði einföld og skilvirk.

Með frumvarpinu er lagt til að sérlög gildi um skattskyldu og skattlagningu kolvetnisvinnslu enda um mjög sérhæfða starfsemi að ræða. Miðað er við að lagður verði sérstakur skattur, annaðhvort í formi vinnslugjalds sem er óháð afkomu vinnslunnar eða í formi kolvetnisskatts þegar vinnslan er farin að skila tilteknum lágmarkshagnaði, á alla aðila sem stunda kolvetnisvinnslu eða taka með beinum hætti þátt í öflun og dreifingu kolvetnis í lögsögu Íslands. Jafnframt munu þeir aðilar sem þessa vinnslu stunda einnig greiða skatta og önnur gjöld sem almennt eru lögð á atvinnurekstur á landi, þar með talinn 15% tekjuskatt.

Á þessari stundu ríkir hins vegar fullkomin óvissa um af hvaða stærðargráðu væntanlegar tekjur og útgjöld ríkissjóðs af mögulegri kolvetnisvinnslu hér á landi kunna að verða í framtíðinni. Talið er óraunhæft að ætla að styttri tími en 9 ár líði frá því kolvetnisvinnslufyrirtæki fær leyfi til leitar og rannsóknar þar til vinnsla getur hafist. Þá er óvarlegt að ætla að fjárfestingar þessara fyrirtækja, sem eru í eðli sínu langtímafjárfestingar, skili hagnaði fyrr en að nokkrum tíma liðnum eftir að vinnsla hefst. Með hliðsjón af þessu hefur almennt verið talið að önnur sjónarmið gildi um skattlagningu þessarar vinnslu en almennt gilda um atvinnustarfsemi, enda getur ábati ríkisins verið mikill ef vel tekst til. Samhliða þarf að tryggja að ríkið fái ásættanlega hlutdeild í þeim hagnaði sem til fellur vegna nýtingar á þessari takmörkuðu þjóðarauðlind. Þessi sjónarmið voru höfð að leiðarljósi við útfærslu á því frumvarpi sem hér um ræðir.

Frumvarpið miðar að því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2009.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[16:08]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að nú sé ástæða til þess fyrir hv. alþingismenn að staldra aðeins við og ræða við ríkisstjórnina um framgang þingmála á þessu hausti. Vissulega er það ljóst eins og allir þingmenn vita að hér hefur verið afbrigðilegt ástand í efnahagsmálum eftir að bankarnir féllu í byrjun október og því oft ástæða til þess að afgreiða löggjöf með hraði til að bregðast við þeim aðstæðum. Ég hef staðið að því og mun gera það áfram þegar í hlut eiga þingmál sem eru þannig vaxin að ég tel að þurfi skjóta framgöngu á Alþingi til að bregðast við erfiðum aðstæðum.

En mér hefur fundist að þessi þróun mála hafi farið versnandi og breiðst út til mála sem eiga ekkert skylt við það ástand sem við höfum búið við síðan í október og er rökstuðningur fyrir afbrigðilegri málsmeðferð hér í þinginu. Það nær til ýmissa þingmála sem hér hafa verið lögð fram, bæði framlagningu þeirra, fyrirtöku á þingfundi, meðferð þeirra á þingfundum og síðan í úrvinnslu þeirra þegar málin eru komin úr þingnefndum.

Ég fellst ekki á að það mál sem um er að ræða sé þannig vaxið að það þurfti nein sérstök afbrigði til að ræða það. Þingið hefur sett sér reglur um hvernig mál fara hér fram. Þær meginreglur ganga út frá því að tími gefist til að skoða málin áður en umræða fer fram og að þjóðinni gefist tími til að frétta af málunum og kynna sér þau áður en umræða fer fram. Þess vegna er meginreglan sú að mál eru ekki rædd fyrr en í fyrsta lagi degi eftir að þingskjölum er útbýtt.

Þegar vikið er frá þessu eru þingmenn sviptir tækifæri til þess að kynna sér málið og það gerir umræðuna lakari. Jafnframt er þjóðin svipt tækifæri til að heyra um málin, að þau hafi verið lögð fram, og missir jafnvel af umræðu því að henni er lokið þegar menn fá loks að vita af því að málin eru komin fram.

Hér er settur nýr fundur og dregin inn á þann fund níu mál sem fæst eru þess eðlis að nokkur ástæða er til að taka á dagskrá með afbrigðilegum hætti. Það mál sem hér er um að ræða og hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir getur út af fyrir sig verið hið þarfasta mál til að setja nauðsynlega lagastoð og marka stefnu til þess að nýta þá auðlind sem kann að vera innan íslenskrar efnahagslögsögu. Ég er tiltölulega jákvæður gagnvart því að kanna möguleikana á nýtingunni og er tilbúinn að vinna að því að setja löggjöf um það efni.

En ég fellst ekki á að ákvörðun ráðherra um fyrirhugað útboð í janúar geri það að verkum að þingið verður að vera hér í blóðspreng að ræða málið. Þingmenn geta hvorki undirbúið sig né sent málið til umsagnar aðila sem hugsanlega ættu að veita ráðgjöf í þessum efnum og gera það að lögum á örfáum dögum eins og ætlast er til.

Ég segi bara, virðulegi forseti, að það er ekki boðlegt. Það er bara engin ástæða til. Það er hætta á því þegar menn ganga inn á þessa braut að afbrigðið verði að reglu og að reglunni sé vikið til hliðar. Afbrigðið festist í sessi sem regla í málum sem það á ekkert við. Sú hætta er sérstaklega mikil þegar stjórnarflokkarnir eru svo fjölmennir að þeir hafa nægan meiri hluta einir og sér til að veita sér öll þau afbrigði sem þeir kjósa.

Mér sýnist það vera tilhneigingin hjá ráðherranum að líta þannig á málin að þau eigi að koma seint fram og fara hratt í gegnum þingið, helst sem minnst skoðuð og rædd. Ég mótmæli þessu, virðulegi forseti.



[16:13]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg óhætt að taka undir með hv. þingmanni um þau meginsjónarmið sem fram koma hjá honum. En eins og hann gat um sjálfur hefur þetta þing verið um margt óvenjulegt vegna þeirra aðstæðna sem verið hafa hjá okkur í haust.

Þó að þau mál sem hér um ræðir tengist ekki beinlínis því ástandi og að ekki sé verið að biðja um afbrigði við þau í dag til að keyra þau í gegn á fáum sólarhringnum eru þetta mál sem tafist hafa í vinnslu í ráðuneytunum vegna þess að þar hafa menn verið í önnum vegna þess óvenjulega ástands sem hér hefur verið. Ástæðan fyrir því að beðið var um afbrigði til þess að þau gætu komist á dagskrá í dag var einfaldlega til þess að nýta daginn. Það var ekki margt á dagskrá. Þetta er gert til að flýta fyrir því að þessi mál geti komist til nefndar, fái fullnægjandi skoðun þar og, ef þingið kýs svo, til að þau verði afgreidd fyrir jólin því að mörg þeirra eru þess eðlis að það þyrfti að gera.

En eins og fram kom hjá hv. þingmanni hefur það auðvitað þau áhrif að 1. umr. verður kannski ekki eins notadrjúg eins og ella hefði orðið en það gerir það hins vegar að verkum að starfið í nefndinni ætti að geta orðið meira. Ég vil biðja bæði hv. þingmann sem hóf máls á þessu og aðra hv. þingmenn að sýna þessu sjónarmiði skilning í störfum sínum.



[16:15]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef miða á við venjulegan gang mála í þingnefndum mundi meðferð málsins taka svona þrjár, fjórar vikur í þingnefnd og málið verða afgreitt einhvern tíma undir lok janúar, það væri svona hinn venjulegi gangur í þinginu í afgreiðslu á máli sem þessu. Hér er ætlast til þess að þetta verði að lögum 1. janúar, sem þýðir að það verður að afgreiða það núna áður en þingið fer heim í jólaleyfi, hvenær sem það nú verður. Það er ljóst að meðferð málsins er ekki nema brot af þeim tíma sem venja er.

Því til viðbótar sé ég ekki þörfina á því að taka þetta mál fyrir í dag í stað þess að ræða það á morgun, ég átta mig bara ekki á því. Af hverju var ekki hægt að leyfa okkur að skoða þessi þingskjöl sem okkur voru sýnd hérna klukkan hálftvö í dag og geta kynnt okkur þau til morguns og taka þau þá til umræðu? Ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti, mér finnst þetta eiginlega algjörlega fráleitt.

Ég frétti af þessum fundi fyrir rúmri klukkustund, að til stæði að setja nýjan fund og taka slatta af málum inn sem var verið að dreifa í dag. Það er bara ekkert í lagi, virðulegi forseti, að þingið starfi svona. Þingið hefur sett sér þá reglu að starfa með öðrum hætti og það á í meginatriðum að halda sig við það. Auðvitað eiga menn að víkja frá því eftir því sem efni standa til og þingsköp leyfa þegar ástæða er til og það hef ég farið yfir. Mér finnst bara menn vera komnir of langt inn á þessar brautir, virðulegi forseti.



[16:17]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan finnst mér sjónarmið hv. þingmanns alls ekki óeðlilegt en ef við tökum þetta mál sérstaklega þá ber þess að geta að það er ekki alveg ókynnt í umræðunni, efnisatriðin hafa verið kynnt opinberlega og menn eiga því ekki að koma alveg kaldir að málinu. Eins og ég sagði áðan að með því að koma málinu hratt og örugglega inn í þingið er frekar verið að hjálpa til við það að þingnefndin fái góðan tíma til þess að skoða málið þó að ég viðurkenni að tímaramminn sé þröngur, en við erum þó innan þess ramma að gera það sem við getum til þess að nefndin fái sem bestan tíma.



[16:18]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka heils hugar undir orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og tek undir gagnrýni hans á ríkisstjórnina og kannski líka á forseta Alþingis. Það er auðvitað spurning hvort forseti Alþingis eigi ekki að hafa sterkari bremsur en raun ber vitni. Mér þótti nóg um þegar íslensk málstefna sem við ræddum fyrr í dag kom á dagskrá fundarins en hún var sett á dagskrá með afbrigðum. Þá hugsaði maður með sér að meira að segja íslensk málstefna þyrfti að fara á dagskrá þingsins með afbrigðum. Þetta er auðvitað ekki nógu góður svipur.

Svo segi ég sömu sögu og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, það er innan við klukkutími síðan ég fregnaði að hér ætti að setja nýjan fund klukkan fjögur og að af níu málum sem eru á dagskrá eru sjö sett á dagskrána með afbrigðum. Það er langt í frá að þetta geti talist sæmandi, hæstv. forseti, og jafnvel þó að við séum að fara í gegnum óvanalegar aðstæður þá tel ég það hvorki réttlæta né afsaka að hér sé unnið með þessum hætti.

Í umhverfisnefnd Alþingis var tekin fyrir í morgun beiðni frá iðnaðarnefnd um að gefa umsögn um frumvarp til laga um kolvetnisvinnslu. Þetta frumvarp um skattlagningu kolvetnisvinnslu er beintengt því frumvarpi, eins og kemur fram í greinargerð. Á fundi umhverfisnefndar í morgun, þar sem við vorum að taka á móti gestum til þess að undirbúa umsögn okkar til iðnaðarnefndar, kom fram að ráðuneytin hafa látið undir höfuð leggjast að hafa samráð við allar þær stofnanir sem eiga að koma að þessum málum. Með öðrum orðum, hæstv. forseti, hér er verið að búa til glænýtt lagaumhverfi fyrir gríðarlega sérhæfðan iðnað, sem er olíuiðnaður, og ég spyr hvort ríkisstjórnin sé í raun og veru vakandi og með opin augun þegar hún setur þessi frumvörp á dagskrá jafnóundirbúið og raun ber vitni. Og það kemur í ljós að stofnun eins og Skipulagsstofnun, sem á að sjá um stóran þátt, á að hafa samkvæmt frumvarpi iðnaðarráðherra gríðarlega mikið hlutverk, svo mikið að það nær allan hringinn í kringum borðið, það er með þeim hætti að það er fullkomlega óásættanlegt stjórnsýslulega hvernig hlutverk Skipulagsstofnunar er útlistað í frumvarpinu. Með öðrum orðum, þetta mál er fullkomlega vanreifað og ég fullyrði að um leið og ég er búin að kíkja á mál iðnaðarráðherra hlýtur þetta mál fjármálaráðherra að vera með svipuðum hætti vanreifað því að hér er um anga af máli iðnaðarráðherra að ræða. Að ætla að fara að setja á dagskrá frumvörp sem tengjast innleiðingu gríðarlega umfangsmikils iðnaðar eins og olíuvinnslu með þessum hætti, getum við ekki sætt okkur við, hæstv. forseti.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það sé frá árinu 1997, þá hafi verið með markvissum hætti kannað hvort olía eða gas finnist á landgrunni Íslands. Það segir að í mars 2006 hafi ríkisstjórn Íslands, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að öllum líkindum, ákveðið að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis í lögsögu Íslands, nánar tiltekið á svokölluðu Drekasvæði. Í mars 2006, það eru sem sagt tæp þrjú ár síðan ríkisstjórn tók ákvörðun um þetta og þegar málin koma fyrir þingið koma þau í einhverri tímapressu og greinilega svo illa útbúin að það vantar mikið upp á að þau séu boðleg eða þinghæf.

Ég fullyrði héðan úr þessum ræðustól, hæstv. forseti: Allar hugmyndir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru vanreifaðar og illa undirbúnar varðandi þetta stóra mál, varðandi það að fara út í að hefja stórfelldan olíuiðnað á Drekasvæðinu innan lögsögu Íslands. Að ekki sé minnst á það að ríkisstjórnin þykist vera að búa til einhverja stefnu sem geti verðskuldað að vera kennd við sjálfbæra þróun og hér eigi að auka hlut vistvænna orkugjafa. Átta menn sig ekki á því að olíuvinnsla fer í þveröfuga átt? Hvar hafa menn þá verið? Ætla menn að keyra hér eftir sjálfbærri orkustefnu og taka ábyrgð á því í gegnum öll lög ákvarðana hér á Alþingi og í stjórnsýslunni eða ætla menn að búa til vistvæna orkustefnu með annarri hendinni og hefja olíuiðnað með hinni? Hvað er hér í gangi? Má ég biðja um, hæstv. forseti, að það sé þá gert með þeim hætti að undirbúningur málanna sé með fullum sóma. Því er ekki að heilsa í þessu máli.

Ég ítreka mótmæli gegn því að mál af þessu tagi skuli tekin á dagskrá með þessum hætti og þinginu gefinn jafnsnautlegur tími til þess að fjalla um þau. Því eins og hefur komið fram þarf þetta frumvarp að vera samþykkt fyrir jólaleyfi til þess að hægt verði að fylgja þeirri áætlun sem ríkisstjórnin er með, að hefja útboð leyfanna fyrir miðjan janúar næstkomandi. Það er skömm að þessu, hæstv. forseti, skömm að því að okkur skuli boðið upp á að taka þátt í vinnu af þessu tagi.



[16:24]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt sem komið hefur fram, bæði hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Kristni H. Gunnarssyni varðandi það hvernig mál koma fyrir þingið þessa dagana og ég tel rétt að við þingmenn séum á varðbergi hvað þetta varðar og látum í okkur heyra um hvernig vinnubrögð við viljum viðhafa.

Ég verð samt að gera athugasemdir við ummæli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um umrætt mál vegna þess að hún fór að þvæla inn í það mál vinnubrögðum um frumvarp sem nú liggur fyrir hjá iðnaðarnefnd og hefur legið þar í nokkrar vikur, um kolvetnisvinnsluna. (Gripið fram í: Nokkrar vikur?) Á því máli, virðulegi forseti, er engin dagsetning. (Gripið fram í.) Það er engin dagsetning á því máli, ef ég má tala, virðulegi forseti, það er engin dagsetning á því hvenær því eigi að vera lokið og það mál er í eðlilegri vinnslu innan iðnaðarnefndar og það er ekki búið að ákveða að eigi að fá einhverja sérstaka flýtimeðferð. Við erum að reyna að vinna það hratt og örugglega og málefnalega og fara í gegnum öll efnisatriði þess eins og við teljum best.

Virðulegi forseti. Jafnframt frábið ég mér að hv. þingmaður sé að tala um vinnubrögð í því máli þegar vinna við það fer fram með efnislegum hætti og engin tímasetning hefur verið sett á hvenær nefndin ljúki vinnu sinni í því.

Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hér er til umræðu þá er sagt að einhver flýtimeðferð hafi átt sér stað, að það vanti gögn og annað. Ég er hér með skýrslu frá því í mars 2007, en á þeim tíma var hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, mjög góða skýrslu um þetta mál frá A til Ö, þannig að þetta er ekki að koma algjörlega nýtt til þingmanna nú. Við fjölluðum um þetta þann vetur í iðnaðarnefnd og hér stendur líka, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að það væri óskað eftir athugasemdum við skýrsluna (Forseti hringir.) sem er leiðarvísir þeirrar vinnu sem er í gangi. Hér hefur því ekki (Forseti hringir.) verið unnið með neinum óeðlilegum hætti, virðulegi forseti.



[16:26]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara segja við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að mér þykir afskaplega leitt ef ég hef reitt hv. þingmann til reiði með því, eins og hún orðaði það, að þvæla hér inn í umræðu um mál hæstv. fjármálaráðherra, umræðu um frumvarp um kolvetnisvinnslu, en það vill þannig til að þessi mál eru nátengd. Ef við ætlum okkur að fara að undirbúa olíuvinnslu á hafsvæði Íslands, í íslenskri lögsögu, skulum við gera það með þeim hætti að sómi geti verið að.

Ég þekki skýrsluna sem hv. þingmaður veifaði hér í ræðustóli. Ég fékk hana reyndar ekki í hendur fyrr en núna á þessum þingvetri og ég tel það allt í lagi því ég sá ekki fyrir mér að við værum að taka þetta mál hér í gegn um kolvetnisvinnsluna með einhverju hraði og hélt því að það yrði til þess nógur tími. En þegar maður fer að lesa þessi mál bæði í botn sjáum við dagsetninguna 15. janúar, að leyfin eigi að vera tilbúin til útboðs 15. janúar. Þegar þau leyfi verða tilbúin til útboðs hefði maður ætlað að lögin um kolvetnisvinnslu ættu líka að vera tilbúin til þess að við vissum á hvaða grundvelli leyfin eru gefin út. Þess vegna er hæstv. fjármálaráðherra kominn með þetta mál sem við nú ræðum inn í þingið og þess vegna er verið að vinna málin í þingnefndum sem varða hitt málið og þau þurfa auðvitað bæði að vera tilbúin á svipuðum tíma ef umhverfið í kringum þessa gríðarlegu iðnaðarvinnslu á að verða með þeim hætti að það sé hægt fyrir leyfisumsækjendur að vita í hvaða umhverfi þeim verður gert að starfa. Þannig að, afsakið, herra forseti, þessi mál eru nátengd og það er alveg eðlilegt að þau fari samferða í gegnum þingið.

Tímapressan sem er á þessu máli sem við hér ræðum hlýtur því að yfirfærast yfir á hitt málið. Ég tel mig því hafa verið fullum rétti með — eins og hv. þingmaður orðaði það — að þvæla (Forseti hringir.) því máli hér inn í umræðuna.



[16:28]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki „að þvæla því máli hér inn í umræðuna“ heldur vinnubrögðunum í því máli, þar sem það mál er í vinnslu innan iðnaðarnefndar og það er meira en ein vika og meira en tvær vikur síðan fyrir því máli var mælt hér í þingsölum. Við skulum því hafa það alveg á hreinu að það er ætlun þess formanns iðnaðarnefndar sem hér stendur að það mál fái góða, djúpa, efnislega umfjöllun og ég ætla að biðja þingmenn um að gera ekki mönnum upp að þeir ætli að vinna þingmál sem lögð eru fram í þinginu, illa og hroðvirknislega. Það er hvorki ætlun þeirrar sem hér stendur né annarra í iðnaðarnefndinni sem vinna að því máli vegna þess að við ætlum að vanda til þeirra verka. Ef við náum því fyrir 15. janúar er það frábært, ef ekki verður að breyta þeirri dagsetningu vegna þess að þetta mál ætlum við að vinna vel á grundvelli þeirrar góðu skýrslu sem ég hef áður nefnt.

Mér þykir undarlegt ef hv. þingmaður er fyrst að vita af þeirri skýrslu nú í vetur vegna þess að hún kom út í mars 2007 og var kynnt innan þingsins þá og í þeirri iðnaðarnefnd sem þá sat, en í henni sat ég og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og við fengum, ásamt öðrum fulltrúum nefndarinnar, rækilega kynningu á skýrslunni þar.



[16:30]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni síðustu orða hv. þingmanns þá er það rétt að skýrslan hefur verið kynnt í iðnaðarnefnd en þar hef ég aldrei átt sæti. Ég á hins vegar sæti í umhverfisnefnd Alþingis og skýrslunni var fyrst dreift þar í vetur, svo að það sé allt á hreinu.

Varðandi hina góðu og djúpu umræðu sem hv. formaður iðnaðarnefndar vill að fari fram um þessi mál vil ég segja þetta: Mælt var fyrir frumvarpi iðnaðarráðherra um kolvetnisvinnslu hinn 21. nóvember, (Gripið fram í.) það eru kannski tvær vikur síðan. Málið hefur ekki enn, eftir því sem ég best veit, verið tekið á dagskrá iðnaðarnefndar. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það kann að vera rétt, ég á ekki sæti í iðnaðarnefnd. Í síðustu viku var það tekið — (Forseti hringir.) Takk fyrir, forseti.

(Forseti (EMS): Forseti vill biðja þingmenn um að vera ekki í samtölum hér.)

Takk fyrir, forseti. Það upplýstist hér í frammíkalli hv. formanns iðnaðarnefndar að málið hafi verið tekið á dagskrá iðnaðarnefndar í síðustu viku. Á þeim fundi var ákveðið að senda málið til umhverfisnefndar. Umfjöllun umhverfisnefndar fór fram á fundi í morgun. Hann var innan við klukkutíma langur. Á hann komu á annan tug gesta sem tappað var af og við spurðum út í málið. Þar komu fram gríðarlega alvarlegar athugasemdir fyrst og fremst frá Skipulagsstofnun, sömuleiðis frá Náttúrufræðistofnun Íslands og ákveðnar tæknilegar ábendingar frá Umhverfisstofnun og fleiri aðilum. Ég tel því fullt tilefni til að gagnrýna þá málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Ég tel það algjöran óþarfa hjá hv. formanni iðnaðarnefndar að fyrtast við því að það er augljóst að mál af þessari stærðargráðu fær ekki nægan tíma í nefndunum ef afgreiða á þetta sem lög fyrir 15. janúar.

Yfirlýsing hv. formanns nefndarinnar er hins vegar mikilvæg. Hún segir: (Forseti hringir.) „Ef þörf er á því að færa þá dagsetningu til verður það gert.“ Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að hlusta.



[16:32]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er komið til umfjöllunar áhugavert mál sem er frumvarp til laga um skattlagningu kolvetnisvinnslu. Áður en ég ræði efnislega um frumvarpið vil ég láta það koma fram að ég get tekið undir með þeim sem talað hafa um að málið komi mjög seint fram og sé tekið hér á dagskrá með afbrigðum. Þingmenn hafa því ekki fengið tækifæri til þess að kynna sér efnisinnihaldið. Engu að síður held ég að ástæða sé til að fagna því sérstaklega að það virðist vera að ríkisstjórnarflokkarnir séu sammála um þetta mál og það er kannski í fyrsta skipti sem svo er í sambandi við atvinnumál þessarar þjóðar. Ástæða er til að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það, (Gripið fram í.) að svo virðist vera, miðað við það að hæstv. iðnaðarráðherra mælti nýlega, eins og hér hefur komið fram, fyrir máli sem varðar kolvetnisvinnslu og er það til umfjöllunar í iðnaðarnefnd.

Eins og hér kemur fram var það á árinu 2001 að lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, voru samþykkt hér á Alþingi að frumkvæði iðnaðarráðherra. Það er því nokkur aðdragandi að því að við setjum þau lög sem frumvarpið kveður á um og reyndar er hægt að fara lengra aftur í tímann til að fara yfir sögu málsins. Því er ekki að neita að ég hef mikinn áhuga á þessu máli og hef haft það og snýr það að kjördæmi mínu, sem er Norðausturkjördæmi. Menn gera sér vonir um að þar geti skapast störf í tengslum við það að þarna geti hugsanlega fundist kolvetni, bæði olía og gas, jafnvel á hinu svokallaða Drekasvæði sem er norðaustur af landinu. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur haft stór orð um það að við verðum ríkasta þjóð í heimi þegar þetta hefur fundist allt saman og við skulum bara trúa því, þó að ég ætli kannski ekki að taka svo mikið upp í mig að rétt sé að vera svolítið bjartsýnn í sambandi við þetta allt saman.

Það mál sem hér er komið fram svo seint sem raun ber vitni snýst um skattlagninguna, sem sagt skattlagningu auk hinnar hefðbundnu. Þar sem ég hef getað kíkt í textann sýnist mér að ákveðin nefnd eigi að vera að störfum — sem er samt ekki ákveðið, sennilega fer það eftir því hvort einhver verðmæti finnast. Ef nefnd verður að störfum verður hún þriggja manna og fjármálaráðherra skipar hana og hún mun mánaðarlega ákveða viðmiðunarverð. Mér þætti gott ef hæstv. ráðherra mundi vilja útskýra þetta svolítið fyrir okkur hv. þingmönnum, t.d. hvernig þessi nefnd verður skipuð. Hún á að vera alveg sjálfstæð. Eru einhverjar tilnefningar í því eða er hún bara skipuð sisona af hæstv. ráðherra?

Komið hefur fram að ekki er algjör samstaða um það í landinu hvort nýta eigi þau verðmæti sem þarna kunna að vera. Eftir því sem ég skil t.d. formann Náttúruverndarsamtaka Íslands heyrist mér hann á móti því að nýta þessa auðlind þó að hún sé hugsanlega til staðar. Hann talar um að það samræmist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar að fara í vinnslu kolvetnis við Íslandsstrendur og sjálfsagt því síður í landi. Hæstv. iðnaðarráðherra neitaði því hér í umræðu um daginn að það væri rétt hjá þessum ágæta formanni náttúruverndarsamtakanna að vinnsla kolvetnis samrýmdist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vildi gjarnan fá að heyra hæstv. fjármálaráðherra láta þau orð falla hér líka. Mér fyndist það með ólíkindum ef einhver spurning er um það að þessi auðlind skuli nýtt ef þarna finnast jarðlög sem gefa verðmæti.

Vissulega er þetta allt saman á miklu dýpi og það er kostnaðarsamara en engu að síður trúi ég því að þetta sé mál sem við eigum að halda áfram að vinna að. Að því leyti til get ég fagnað því að þetta frumvarp sé fram komið en ítreka það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt að það kemur náttúrlega ákaflega seint inn í þingið. Það kemur seint þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið sé vel skipað af starfsfólki. Samkvæmt svari sem ég fékk nú nýlega frá hæstv. forsætisráðherra eru sjö starfsmenn ráðnir tímabundið í ráðuneytið fyrir utan alla þá sem eru svo ráðnir á hefðbundinn hátt. Það er því umhugsunarefni að hæstv. ráðherra skuli ekki geta verið fyrr á ferðinni með þetta mál.



[16:38]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð viðbrögð gagnvart frumvarpinu. Hún spurði um tvö atriði. Hún spurði hvort það samrýmdist stefnu ríkisstjórnarinnar að vinna kolvetni og það gerir það, ella hefðu þau frumvörp sem hér er verið að fjalla um ekki verið flutt.

Hv. þingmaður spurði síðan sérstaklega um viðmiðunarverðsnefndina en eins og fram kemur í frumvarpinu er verð á kolvetni lagt til grundvallar útreikningi á gjöldum. Ástæðan fyrir því að sú leið er farin að nota viðmiðunarverð sem þessi nefnd ákveður er sú að það tíðkast talsvert í olíuheiminum að olíuvinnslufyrirtækin skipti við tengda aðila og því getur það haft áhrif á verðlagninguna. Þetta er til þess að tryggja að miðað sé við það verð sem tíðkast í heiminum á hverjum tíma. Gert er ráð fyrir því að settar verði nánari reglur um það hvernig nefndin vinnur en ekki er gert ráð fyrir neinum tilnefningum eins og fram kom hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar. Enda má kannski segja að þetta sé tæknilegt atriði þar sem verið er að miða við það verð sem er í gangi í heiminum á hverjum tíma. Hins vegar er gert ráð fyrir því að þeir aðilar sem þarna eru hafi tiltekna þekkingu, eins og kemur fram í 6. gr., í lögfræði, hagfræði og kolvetnisvinnslu.



[16:40]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég bað um orðið undir andsvari hv. formanns iðnaðarnefndar, Katrínar Júlíusdóttur, til að mótmæla þeim orðum hennar að hv. iðnaðarnefnd hafi haft þau mál sem hér voru rædd, um olíuvinnslu, rannsóknir eða leit að olíu á Drekasvæðinu, til umfjöllunar í nokkrar vikur. Það er einfaldlega rangt og ég vil að það komi skýrt fram í þessum ræðustól, (Gripið fram í.) hv. iðnaðarnefnd hefur ekki haft þetta mál til umfjöllunar í nokkrar vikur.

Það sem er rétt í þessu máli er, eins og fram kom hér áðan, að mælt var fyrir því máli sem um ræðir þann 21. nóvember sl. og var því vísað til hv. iðnaðarnefndar. Það er ömurlegt, vil ég segja, það vinnulag sem menn leggja hér upp með. Ekki einungis að verið sé að hrúga hér inn málum eins og gert hefur verið með því að boða þennan viðbótarfund hér með níu málum, öllum nema einu, á afbrigðum. Ekki er nóg með að afgreiða eigi þetta allt fyrir áramót heldur eru fjáraukalög og fjárlög ekki einu sinni komin hér inn í þingið til 2. umr. Eða á ég að segja: Ný fjárlög eru ekki einu sinni komin inn í þingið til umræðu. Það er því alveg ljóst að hversu mikið sem þingmenn vilja leggja sig fram og vinna í desember í nefndum og hér í þinginu þá er ekkert sem heitir eðlileg málsmeðferð eða vinnubrögð í boði ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar sem þarf að funda undir lögregluvernd þessa dagana. Það er staðan sem er uppi í samfélaginu.

Svo eru menn kallaðir hér til til þess að ræða skattlagningu kolvetnisvinnslu og taka það fyrir með afbrigðum, afgreiða það fyrir áramót, takk. Ég verð að segja eins og er og oft hefur komið hér fram í haust að þeir þingmenn sem eru nýir á þessum vinnustað, eins og sú sem hér stendur, hafa orðið æðitakmarkaða þolinmæði fyrir því vinnulagi sem viðgengist hefur. Ég verð að segja það hreint eins og er að þegar frumvarpið um kolvetnisstarfsemina kom til umræðu 21. nóvember sl. benti ég á hversu mikilvægt það væri að það mál kæmi fyrir umhverfisnefnd. Ef rétt hefði verið á málum haldið hefðu hv. iðnaðarnefnd, hv. umhverfisnefnd og hv. efnahags- og skattanefnd þurft að fara yfir þessi mál sameiginlega og gefa sér góðan tíma til að vinna hlutina saman, vegna þess að þetta er allt háð hvað öðru.

Álitamálin sem hér er verið að fjalla um varðandi mögulega skattlagningu á þessum iðnaði hanga saman við þá stefnu sem tekin verður um það hvernig við ætlum að gæta almennt hagsmuna eigendanna, almennings í landinu, eigenda auðlinda á hafsbotni, í þessu tilfelli, eða annarra auðlinda. Gæta þarf hagsmuna þeirra hvað varðar leyfisveitingarnar og framsal á nýtingu auðlindarinnar sem er til umfjöllunar í hv. iðnaðarnefnd. Einnig þarf að gæta að því hvaða áhrif rannsóknir og vinnsla á þessum efnum kann að hafa á lífríki og lífsmöguleika með ströndum og á nytjastofna okkar ef slys verður eða óhapp. Að auki þarf að gæta að því hvernig gjaldtöku skuli háttað á bæði rannsóknum og vinnslu og loks skattlagningu á það sem þarna kann að koma upp.

Ef eitthvert vinnulag væri af viti á hv. Alþingi ættu þessar nefndir að fá tíma til að setjast yfir hlutina og taka það í heild. Það verklag væri til sóma. Þetta er stórt mál, í því eru mörg álitaefni og ég vil ítreka og taka undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði hér áðan að við þurfum, Íslendingar, að muna mjög vel eftir ábyrgð okkar í umhverfismálum, ábyrgð okkar á lofthjúpi jarðar, þeirri sérstöðu sem við höfum til að draga úr hitahækkun í lofthjúpnum með því að nýta orkuauðlindir okkar í vatnsafli og jarðvarma með skynsömum hætti. Við eigum að leggja áherslu á endurnýtanlega orku og sjálfbæra þróun.

Það mál sem hér er til umræðu — ég er ekkert að segja að við séum komin að því að vinna olíu hér á landi á Drekasvæðinu en það er alveg ljóst að slík vinnsla fer ekki saman við sjálfbæra þróun og þau verkefni sem eru uppi og varða loftmengun og hitun í lofthjúpi jarðar.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls hérna en ég get ekki annað en notað tækifærið til að mótmæla því enn og aftur hvernig vinnulagi er háttað á hv. Alþingi. Ég ítreka það að ég tel að eins og málin eru lögð upp hafi engin þeirra nefnda sem hér hafa verið nefndar, ekki hv. iðnaðarnefnd, ekki hv. umhverfisnefnd og ekki heldur hv. efnahags- og skattanefnd, nægilegan tíma til að fara yfir þessi mál, ekki bara vegna þess hversu seint þau eru fram komin heldur líka vegna annarra verkefna og einkanlega fjárlagafrumvarps og fjáraukalagafrumvarps sem er ekki komið fram.



[16:47]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er enn jafnundrandi og ég var áðan á því að hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir og Kolbrún Halldórsdóttir skuli tala hér eins og við ljúkum nú á eftir eðlilegri þinglegri meðferð á málinu um kolvetnisvinnsluna, sem tengist þessu máli, vegna þess að svo er alls ekki. Hún er rétt að hefjast og mun hefjast í fyrramálið með samræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur gert við þetta talsverðar athugasemdir. Í kjölfarið munum við ræða við ráðuneytið og á morgun fáum við einnig inn umsagnir og köllum til gesti í framhaldi af því. Hér er málið því í efnislegri vinnslu og þess vegna stend ég eiginlega í forundran að menn skuli tala með þeim hætti sem hér er gert vegna þess að svo er alls ekki.

Hv. þingmaður sagði líka að hún teldi það eðlilegt vegna umfangs málsins að hv. efnahags- og skattanefnd, hv. umhverfisnefnd og hv. iðnaðarnefnd funduðu saman um málið í heild. Það þykir mér ekkert verri tillaga en margar aðrar og aldrei að vita nema akkúrat það verði gert. En málið sem við ræðum hér var að koma á dagskrá í dag þannig að ekki hefur verið uppi á borðinu fram að þessu í þinglegri meðferð að efnahags- og skattanefnd kæmi að málinu.

Nú eru hins vegar þessi tvö mál bæði komin inn og þá tel ég að þetta komi vel til greina.



[16:48]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að frumvarpið sem hér var tekið á dagskrá með afbrigðum í dag var boðað og kynnt um leið og mælt var fyrir frumvarpi iðnaðarráðherra um olíuvinnslu og rannsóknir.



[16:49]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sýnir kannski líka að þessi mál hafa verið talsvert rædd hingað til og ekki kemur alveg flatt upp á þingmenn að þessi mál skuli vera á leiðinni hér inn og vísa ég enn og aftur til þeirrar löngu umfjöllunar sem um þetta mál hefur verið og hófst með skýrslunni sem ég ræddi áðan.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.