136. löggjafarþing — 79. fundur
 11. feb. 2009.
afhendingaröryggi raforku og virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum.
fsp. StB, 283. mál. — Þskj. 509.

[15:34]
Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Í ályktunum Fjórðungssambands Vestfirðinga hafa komið fram óskir um hraðari endurnýjun og uppbyggingu á raforkukerfinu á Vestfjörðum í þeim tilgangi að auka öryggi og hagkvæmni kerfisins sem síðan ætti að leiða til lægra raforkuverðs og aukins afhendingaröryggis.

Bæði Orkubú Vestfjarða og Landsnet hafa látið vinna áætlanir sem miða að því að auka orkuöryggi á Vestfjörðum með því að styrkja línur og orkuflutningsbúnað bæði á norður- og suðurfjörðum Vestfjarða. Þær leiðir sem hafa verið skoðaðar eru annars vegar hringtenging og aukin flutningsgeta af landskerfinu eða frekari virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum samhliða styrkingu flutningskerfisins.

Á undanförnum missirum hefur Vesturverk á Ísafirði unnið að því að skoða kosti virkjunar vatnasviðs Hvalár í Ófeigsfirði. Jafnframt unnu verkfræðingar forathugun á virkjun Hvalár árið 2007 og var sú athugun lögð fram í 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsorku og jarðvarma. Forathugun byggði m.a. á rennslismælingum í Hvalá sem hófust árið 1976. Forsvarsmenn Vesturverks á Ísafirði hafa látið vinna fyrir sig frekari athugun á hagkvæmni virkjunar Hvalár. Sömuleiðis hefur vatnamælingum og jarðfræðiathugunum verið fram haldið fyrir tilstuðlan félagsins. Virkjunarsvæðið er afskekkt og erfitt yfirferðar og Vesturverk hefur átt náið samstarf við landeigendur að finna leiðir til þess að lágmarka jarðrask vegna tækja sem eru nauðsynleg við rannsóknir uppi á heiðinni.

Í aðalskipulagi Árneshrepps, sem hefur verið í vinnslu, mun vera gert ráð fyrir Hvalárvirkjun. Þá hefur fyrirtækið sótt um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðuneytisins. Það hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Landsnets að virkjun Hvalár mundi stórauka öryggi í orkusölu á Vestfjörðum og auk þess mundi slík virkjun skapa vinnu og skilyrði til enn frekari uppbyggingar á vegakerfinu á Ströndum sem kæmi bæði íbúum og ferðamönnum að miklu gagni, en vegurinn um Árneshrepp er eins og þekkt er lokaður mikinn hluta vetrar og vart fær öllum að sumri vegna þess að vegurinn er ekki byggður fyrir þunga umferð.

Í ljósi þess að orkuöryggi er ekki viðunandi á Vestfjörðum vegna aðstæðna á vinnumarkaði og efnahagsástandsins í landinu tel ég mikilvægt að allra leiða verði leitað til þess að hraða rannsóknum vegna virkjunar Hvalár. Með því mætti auðvelda þeim aðilum sem hug hafa á að fjárfesta í virkjunarkostum næstu skref í miklu framfaramáli. Við megum engan tíma missa. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hvaða áform eru uppi um aukið afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum?

2. Hvaða áform eru uppi af hálfu ráðuneytisins um virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum?

3. Hvenær hyggst ráðherra gefa út rannsóknarleyfi vegna virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum?[15:37]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef þegar lagt fram mjög ítarlegt yfirlit á Alþingi Íslendinga um það með hvaða hætti ég hef beitt mér fyrir því að hraða því að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum verði aukið. Það gerði ég í svari við þremur fyrirspurnum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fleytti hér fram á síðasta ári.

Til þess að gefa hv. þingmanni yfirlit yfir það sem ég hef beitt mér fyrir og stofnanir ríkisins þá skipti ég þeim aðgerðum í tvennt. Annars vegar það sem ég gæti kallað aðgerðir til skamms tíma og hins vegar aðgerðir til lengri tíma. Fyrri aðgerðirnar eru þríþættar. Landsnet hefur á síðustu mánuðum unnið að endurnýjun á varnarbúnaði flutningskerfisins á Vestfjörðum sem hafa þegar að mati Landsnets skilað góðum árangri. Settur var upp nýr varnarbúnaður á allar 66 kílóvolta háspennulínur í desember. Hann mælir jafnframt fjarlægð að bilunarstað. Þetta tryggir miklu afmarkaðri útleysingar lína, þ.e. straumleysi, en áður og styttir bilanaleit og það gerir mögulegt líka að hringtengja sambandið Breiðavík/Bolungarvík/Ísafjörður sem hefur ekki verið gert um margra ára skeið, því er lokið. Til að gera þetta mögulegt voru settar upp 66 kílóvolta straum- og spennuspennar í aðveitustöðinni við Bolungarvík og það hefur þegar reynt á þetta og endurbæturnar reyndust vel.

Í öðru lagi þá hefur Landsnet líka sett upp svokallaðar undirtíðnivarnir. Það eru varnir sem leysa út álag vegna afmarkaðs straumleysis til að koma á jafnvægi á milli framleiðslu og notkunar og þær bregðast við þegar vesturlínu leysir út en í kjölfarið verður þá aflskortur á svæðinu. Markmiðið er sem sagt að leysa út álag svo komast megi hjá því að Mjólkárvirkjun leysi út vegna yfirálags. Mér er kunnugt um að á þetta hefur reynt í tvígang með góðum árangri eftir að þessi búnaður var settur upp. Þessu til viðbótar er svo ráðgert að kaupa varnir sem á að setja upp til þess að leysa út afgangsorku í truflanatilvikum. Þegar þetta er komið allt saman ættu virkjanir í fjórðungnum að geta staðið undir forgangsorkunotkun. Sömuleiðis hefur líka verið tekin nýlega ákvörðun um að ræsa jafnan dísilvélar þegar ofsaveður eru í uppsiglingu þannig að minnka megi líkur á verulegu straumleysi í kjölfar útleysinga á vesturlínu.

Í þriðja lagi var vesturlína yfirfarin á síðastliðnu ári með tilliti til lagfæringa sem gætu aukið styrk hennar og minnkað líkur á útleysingum og straumleysi. Það hafa nú þegar verið gerðar lagfæringar á nokkrum stöðum og frekari rannsóknir á línunni eru í undirbúningi. Allar þessar aðgerðir eru á tímasetningum sem ég hef kynnt þinginu áður.

Hinar aðgerðirnar sem taka síðan lengri tíma eru í fyrsta lagi að Landsnet hefur tekið ákvörðun um að rífa 66 kílóvolta Bolungarvíkurlínu 2 og leggja hana í streng. Fyrsti áfanginn, kaup á jarðstreng, fer í útboð að ég hygg eftir tvær vikur og sú vinna tengist vitaskuld jarðgangagerðinni sem unnin er um þessar mundir undir sterkri forustu hæstv. samgönguráðherra. Síðari áfanginn verður svo boðinn út á næsta ári þegar endanleg lega nýrrar spennistöðvar á Ísafirði liggur fyrir. Að sjálfsögðu mun Landsnet nota tækifærið og leggja jarðstreng í önnur göng sem kunna að verða gerð í framtíðinni og hv. þingmaður hefur m.a. beitt sér fyrir á umliðnum árum. Í öðru lagi verður byggð ný spennistöð á Ísafirði þegar niðurstaða liggur fyrir um staðsetningu hennar. Það er unnið að því í samvinnu orkubúsins og bæjarstjórnar. Í þriðja lagi vinnur Landsnet núna að frekari greiningum á kostum sem eru líklegir til að tryggja Vestfirðingum sambærilegt rekstraröryggi og öðrum notendum. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni og öðrum þingmönnum Vestfjarða um að það er ekki við það búandi að Vestfirðir séu með þriðja flokks kerfi miðað við aðra landsfjórðunga og ég hef sem iðnaðarráðherra beitt mér sterklega fyrir því að breyta því.

Þessir kostir eru ólíkir, t.d. er verið að skoða hverjir komi hagkvæmast út, Hvalárvirkjun er einn þessara kosta, ný lína vestur mundi líka leysa vanda Vesturlands. Svo eru líka aðrir kostir til skoðunar. Það er væntanleg, vonandi á allra næstu dögum, skýrsla um þessa greiningu. Hún verður send þingmönnum kjördæmisins og kynnt um leið og hún er til og stefnumarkandi ákvarðanir af minni hálfu munu þá fylgja í kjölfarið.

Að því er varðar áform af hálfu ráðuneytisins um virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum þá hef ég engin áform um það frekar en um virkjanir einstakra vatnsfalla í öðrum landshlutum. Stofnanir á mínum vega hafa unnið skýrslur um Skúfnavatnavirkjun og líka Hvalárvirkjun og sömuleiðis minni ég á gamla skýrslu um Glámu.

Loks er spurt hvenær ég hyggst gefa út rannsóknarleyfi vegna virkjunar Hvalár. Ég hyggst ekki gefa það út, ég tel að það sé óþarft. Það liggur fyrir samningur allra eigenda vatnsréttinda (Forseti hringir.) vegna rannsókna og virkjunar við Vesturverk og ég tel þess vegna samkvæmt laganna hljóðan að ekki þurfi að gefa út rannsóknarleyfi og menn geti undið sér í þetta verk. (Forseti hringir.) Ég óska þeim alls góðs í því vegna þess að ég styð virkjun Hvalár.[15:42]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir hversu afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum og reyndar um vestanvert landið hefur verið slakt og hvernig þessir landshlutar hafa í rauninni setið á hakanum í þessum efnum. Lögð hefur verið megináhersla á lagningu stórra flutningsmannvirkja, flest tengd stóriðju, en landsbyggðin hefur verið látin sitja á hakanum í þeim efnum.

Þrífösun rafmagns í sveitum gengur allt of hægt og það að tryggja rafmagnsöryggi, hvort sem er í Dölum, á Snæfellsnesi, norður um Vestfirði eins og hér hefur verið rakið, um Norðvesturland, um landið allt. Einmitt um hinar dreifðu byggðir sem við nú horfum til að geti og eigi mikla möguleika á að auka verðmætasköpun sína. Að auka og tryggja atvinnuöryggi út um land allt er það sem við eigum að hlúa að og þess vegna þarf forgangsröðunin núna að vera sú að tryggja afhendingaröryggi (Forseti hringir.) rafmagns út um hinar dreifðu byggðir og eins að koma á þrífösun rafmagns. Þetta eiga að vera (Forseti hringir.) forgangsatriði nú.[15:44]
Sigurður Pétursson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft mikilsverðu máli og má þakka 1. þm. Norðvesturkjördæmis fyrir að bera það hér fram. Ljóst er að raforkuöryggi á Vestfjörðum er ekki eins og það ætti að vera og aðrir landshlutar búa við. Það sýndi sig ljóslega fyrir hálfum mánuði þegar rafmagnið fór af á norðanverðum Vestfjörðum og röð bilana varð til þess að heila helgi var rafmagn meira og minna úti í mörgum byggðum.

Þrátt fyrir það sem fram kom í máli iðnaðarráðherra þá er alveg ljóst að til þess að Vestfirðingar búi við sama öryggi og aðrir landsmenn þarf stórátak. Virkjun Hvalár er kannski eitthvert mesta og brýnasta framfaramál sem vestfirskar byggðir standa frammi fyrir. Ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að vinna að þessu máli af einurð þannig að Vestfirðingar verði ekki lengur (Forseti hringir.) þriðja flokks þegnar í þessu tilliti eins og hann sagði sjálfur.[15:45]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir að hreyfa málinu með fyrirspurn á þinginu og hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Mér finnst það skipta miklu máli sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra um rannsóknarleyfi vegna virkjunar á Hvalá. Hann hefur kveðið upp úr með það með formlegum hætti að ekki þurfi leyfi og aðilarnir sem eru með málið í undirbúningi geti hafi rannsóknir sínar þegar í stað og án nokkurra leyfa eða afskipta hins opinbera. Ég held að það sé fagnaðarefni að þetta liggi hér fyrir eftir athugun málsins í ráðuneytinu þannig að ekki verði neinn frekari dráttur á því að rannsóknir hefjist á mögulegri virkjun í Hvalá í Ófeigsfirði.

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð manna um skort á bærilegu afhendingaröryggi orku (Forseti hringir.) á Vestfjörðum og fagna áhuga hæstv. ráðherra á því að bæta þar úr.[15:46]
Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Það sem hann nefndi hér voru allt mjög mikilvæg úrbótaatriði er varða afhendingaröryggi raforku. Hins vegar má segja að það séu neyðaraðgerðir öðrum þræði. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að keyra þurfi dísilrafstöðvar á Íslandi um þessar mundir til að tryggja afhendingaröryggi orkunnar, hvort sem það er á Vestfjörðum eða annars staðar.

Hvað varðar greiningu á þessum kostum öllum sem þarf að fara yfir, þá þarf auðvitað að hraða henni svo allt liggi fyrir. Það sem er hins vegar aðalatriði málsins og eftir stendur í þessari umræðu þegar það liggur fyrir að ekki þarf að gefa út sérstakt rannsóknarleyfi vegna Hvalárvirkjunar — það er góðra gjalda vert og skapar skilyrði fyrir þetta fyrirtæki og þá ágætu áhugamenn sem þar eru til þess að fara í þær framkvæmdir við rannsóknir — grundvallaratriðið er að Landsnet tryggi að viðkomandi orkuver geti selt framleidda orku inn á kerfið. Það er þá næsta verkefni iðnaðarráðherra að tryggja að Landsnet geti staðið þannig að málum að hægt verði að selja inn á kerfið þá dýrmætu raforku sem hægt er að framleiða í Hvalárvirkjun. Enn stendur á að fá það ljóst og klárt hvort Landsnet er tilbúið til þess að standa með forsvarsmönnum þeirra sem vilja virkja.[15:49]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fór og talaði við Pétur í Ófeigsfirði í fyrra og ég sannfærðist um að virkjun Hvalár og Rjúkanda væri hið besta mál. Við Pétur bóndi erum sammála um að það sé nauðsynlegt að ráðast í það verk sem allra fyrst. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað málið, eins og ég drap á undir lok máls míns áðan, að það þarf ekkert rannsóknarleyfi. Ástæðan er sú að lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gera ekki ráð fyrir að rannsóknarleyfi þurfi ef málum er háttað eins og er á Vestfjörðum, þ.e. það liggur fyrir samningur allra eigenda vatnsréttinda vegna rannsóknar og virkjunar við Vesturverk sem hefur þessar rannsóknir í undirbúningi. Það liggur því alveg ljóst fyrir og er í gadda slegið, svo maður tali vestfirsku, að þeir geta ráðist í það.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður átti við þegar hann sagði að nú væri það verkefni iðnaðarráðuneytisins að tryggja að menn gætu selt orku frá þessari virkjun. Ef hv. þingmaður á við það að einhver tvísýna sé um að Landsnet muni leggja streng frá Hvalá til að tengjast kerfinu þá get ég fullvissað hann um að það er mikill vilji til þess af hálfu stjórnvalda og mun ekkert á það skorta. Ég hefði í sporum þingmannsins verið svolítið frekari og gengið fastar eftir því að Landsnet kæmi með öflugri hætti en því einu að málum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé óæskilegt að flytja út af Vestfjörðum það orkumagn sem hugsanlega verður framleitt í Hvalá, 37 megavött. Ég tel að við eigum að taka höndum saman um að reyna að finna atvinnukost sem getur nýtt þessa orku í héraði. Það er almennt stefna mín að þegar frá eru grunnþarfir borgaranna eigi ekkert að þvælast með orku víðs fjarri þeim stöðum þar sem hún er framleidd. Það á að reyna að nota hana þar og skapa atvinnu þar.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Það munar um það þegar þingmenn koma og eru frekir við ráðherrann (Forseti hringir.) í þessum efnum. Ég get greint frá því að eftir að þingmenn gerðu hér harða hríð að byggðamálaráðherranum úr 101 í fyrra fóru þessi mál að snúast. (Forseti hringir.) Og ég get fullvissað frú forseta um það að ekki skortir atbeina ráðherrans til að kippa þessum málum í liðinn.