136. löggjafarþing — 131. fundur.
fjármálafyrirtæki, 2. umræða.
stjfrv., 409. mál (slitameðferð og kostnaður af störfum skilanefnda). — Þskj. 693, nál. 857, brtt. 858.

[14:08]
Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, nánar tiltekið um slit fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið sem hér um ræðir er afrakstur heildarendurskoðunar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og er jafnframt viðbrögð við því ástandi sem skapaðist hér á landi við fall bankanna í fyrrahaust. Við gerð frumvarpsins hefur einkum verið lögð áhersla á að jafnræðis kröfuhafa verði gætt og að reglur um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja samræmist hliðstæðum reglum um önnur fyrirtæki og einstaklinga, en þær reglur er að finna í gjaldþrotaskiptalögunum, nr. 21/1991, sem eru þrautreynd og hafa gefist vel.

Í nefndarálitinu er rifjað upp að með lögum nr. 130/2004 var tilskipun um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja og slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki innleidd í íslenskan rétt. Tilskipuninni var m.a. ætlað að koma á samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja.

Við þekkjum hvað gerðist haustið 2008 þegar stjórnir þriggja stærstu bankanna hér á landi óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið að það gerði ráðstafanir til að yfirtaka þá. Þá dugði ekki það regluverk og sú lagasetning sem það byggði á og hér þurfti að setja neyðarlög. Aðstæðurnar voru ófyrirsjáanlegar þegar reglur XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki voru settar og óvenjulegar að því leyti að segja má að heilt fjármálakerfi hafi fallið með bönkunum þremur en ákvæðin sem byggð voru á þessari tilskipun miðuðust fremur við að ein fjármálastofnun eða hluti fjármálakerfis hryndi en ástand í fjármálakerfinu væri þó nokkurn veginn eðlilegt að öðru leyti.

Það var gripið til þess að setja svonefnd neyðarlög, nr. 125/2008. Með þeim voru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitinu var m.a. veitt víðtæk heimild til að yfirtaka stjórn fjármálafyrirtækis við tilteknar aðstæður og eftirlitinu veitt heimild til að skipa fimm manna skilanefndir sem ætlað var að fara með allar heimildir stjórna yfirteknu fjármálafyrirtækjanna samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og hafa umsjón með meðferð eigna þess og annast rekstur.

Þessi lög voru síðan endurbætt með svokölluðum nóvemberlögum, nr. 129/2008. Á þeim lögum voru gerðar þríþættar breytingar. Í fyrsta lagi var kveðið á um að fjármálafyrirtæki gæti verið í greiðslustöðvun í allt að 24 mánuði. Einnig að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun yrði ekki skaðabótaskyldur vegna ákvarðana sinna og aðgerða sem aðstoðarmaður nema um væri að ræða brot af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, en þetta ákvæði var byggt á ákvæðum í neyðarlögunum sem ég nefndi áðan, um skilanefndir og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sem voru undanþegnir slíkri ábyrgð. Loks var í nóvemberlögunum lagt bann við því að dómsmál yrði höfðað gegn fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun nema í nánar tilgreindum tilvikum, og var einkum tekist á um þetta ákvæði hér þegar frumvarpið var til umræðu. Þetta síðasttalda ákvæði var talið brjóta gegn stjórnarskrá, rétti manna til að leita réttar síns fyrir dómi og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo vera fyrr í vetur.

Með því frumvarpi sem hér er til umræðu er lagt til að flest ákvæði nóvemberlaganna verði felld brott. Meginatriði þessa frumvarps er að felldar verða brott sérstakar reglur um lengd greiðslustöðvunar fjármálafyrirtækja og afnumið það fyrirkomulag að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun verði ekki skaðabótaskyldur og að fellt verði úr lögunum ákvæði um að dómsmál megi ekki höfða gegn fjármálafyrirtæki meðan á greiðslustöðvun stendur.

Segja má að frumvarpið sem gerir ráð fyrir nýju regluverki um slit fjármálafyrirtækja byggist á því að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að því að leita til Fjármálaeftirlitsins um að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Þá fellur úr gildi umboð stjórnar og við tekur bráðabirgðastjórn sem alla jafna er ætlað að starfa í um þrjá mánuði. Í ákvæði til bráðabirgða IV í þessu frumvarpi er jafnframt kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti haft frumkvæði að því að yfirtaka ráð fjármálafyrirtækis en í því ákvæði eru lögfestar flestar þær heimildir sem er að finna í neyðarlögunum, 100. gr. a. Þar er lagt til að fjármálafyrirtæki verði tekið til slita eftir sérstökum reglum en í grunninn sé ýmsum ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti þó beitt við slitameðferðina. Þannig skal í stað skiptastjóra þrotabús skipa sérstaka slitastjórn. Markmið starfa slitastjórnar er að fá sem mest fyrir eignir fyrirtækisins, innkalla kröfur og taka afstöðu til þeirra. Samkvæmt frumvarpinu geta kröfuhafar gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og átt þess kost að bera undir dómstóla ágreining um réttmæti krafna sinna og um ákvarðanir og ráðstafanir slitastjórnar eins og er almennt í gjaldþrotaskiptalögunum.

Síðan er í 9. gr. fjallað um lok slitameðferðar og þar er einnig um að ræða svipaðar aðferðir og er að finna í gjaldþrotaskiptalögunum. En mest umfjöllun nefndarinnar held ég að megi segja að hafi verið um ákvæði til bráðabirgða en gerð er tillaga um það í frumvarpinu að við lögin bætist fjögur ákvæði til bráðabirgða. Þar er m.a. í bráðabirgðaákvæði I kveðið á um að hafi fjármálafyrirtæki verið skipuð skilanefnd en það ekki komið í greiðslustöðvun fyrir gildistöku laganna skuli sú skilanefnd sjálfkrafa verða bráðabirgðastjórn og fellur þá meðferð á skiptum og slitum þess fyrirtækis undir almenn ákvæði laganna. Hér mætti taka dæmi af SPRON sem skipuð hefur verið skilanefnd en er ekki í greiðslustöðvun.

Í ákvæði til bráðabirgða II eru hins vegar lagðar til nokkrar sérreglur um fjármálafyrirtæki sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga og þar er um að ræða Straum – Burðarás auk bankanna þriggja. Í fyrsta lagi er lagt til að greiðslustöðvun þessara fjármálafyrirtækja haldist áfram þrátt fyrir gildistöku laganna og í 2. tölulið ákvæðisins er mælt fyrir um að í greiðslustöðvun þeirra verði tilteknum ákvæðum frumvarpsins um slitameðferð beitt eins og fyrirtækið hefur verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem frumvarpið verður að lögum. Slitameðferðin mun áfram kennd við heimild til greiðslustöðvunar og þykir það nauðsynlegt til að greiðslustöðvun þessara fyrirtækja verði áfram viðurkennd af erlendum dómstólum.

Nefndin leggur til breytingu á þessum tölulið í þá veru að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun sem hefur verið skipaður í þeim fjórum tilvikum sem ég nefndi hafi áfram eftirlit með ráðstöfun skilanefndar.

Í þriðja lagi er lagt til að skilanefndir þessara fyrirtækja haldi áfram störfum og gegni nánar tilgreindum verkefnum sem mælt er fyrir um að slitastjórn hafi samkvæmt almennum ákvæðum frumvarpsins. Þessi verkefni eru talin upp í 3. tölulið ákvæðisins og tel ég ekki þörf á að fara yfir þau frekar nema sérstakt tilefni gefist til.

Tillögur nefndarinnar varðandi þessi atriði eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að orðalagi 2. málsliðar 3. töluliðar verði breytt í þá veru að verði sæti laust í skilanefnd eftir gildistöku laganna þurfi Fjármálaeftirlitið ekki að skipa mann í stað þess sem hættir nema nauðsyn beri til með tilliti til þeirra verkefna sem nefndin á enn ólokið. Þetta er öfugt við það sem orðalag frumvarpsins gerði ráð fyrir.

Þá lagði nefndin til svokallað sólarlagsákvæði um störf skilanefnda og lagði til að það yrði takmarkað hversu lengi skilanefndir skyldu starfa eftir gildistöku laganna þannig að slitastjórn mundi áður en sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku, verði frumvarp þetta að lögum, taka við þeim verkefnum sem skilanefndum er ætlað að halda áfram að vinna samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu í 3. tölulið en þá verður liðið um það bil ár frá því að skilanefndirnar hófu störf. Því er ekki að leyna að þessi tillaga nefndarinnar hefur reynst býsna umdeild og hefur sætt mikilli gagnrýni, einkum af hálfu skilanefndanna, þeirra manna sem í þeim sitja og kröfuhafa sem mest samskipti hafa átt við þær. Þó að ég ætli ekki að tala fyrir hönd annarra nefndarmanna eru nokkrir nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd með fyrirvara við þetta ákvæði og munu væntanlega gera grein fyrir honum hér.

Jafnframt vil ég lýsa því yfir að nefndin er sammála um að taka málið inn á milli umræðna til að fjalla frekar um þetta atriði, sólarlagsákvæðið. Það hafa borist býsna margar umsagnir, ábendingar og tillögur þar að lútandi eftir að nefndin skilaði áliti sínu inn og það er eðlilegt að skoða það í ljósi þeirra. Ég vil taka það fram að við munum einmitt af þessum ástæðum kalla breytingartillögu aftur til 3. umr. við atkvæðagreiðsluna sem lýtur að þessu sólarlagsákvæði sem mig minnir að sé breytingartillaga 2.c. Ástæðan fyrir því að nefndin setti þessa tillögu fram er sú að nefndin taldi eðlilegt að skilanefndirnar rynnu sitt skeið á enda og að það ætti ekki að reynast vandkvæðum bundið að flytja verkefni yfir til slitastjórna enda gæfist þá rúmur tími til þess á hálfu ári. Það má benda á að verkefni skilanefnda var alltaf hugsað sem bráðabirgðaverkefni. Fyrsta skilanefndin sem var skipuð í Landsbankann var skipuð til 30 daga, næsta til 60 daga, sú þriðja til 90 daga en nú eru liðnir sex mánuðir þannig að sex mánuðir til viðbótar hefðu átt að reynast nægur tími.

Í nefndarálitinu er einnig bent á að frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki og nefndin telur eðlilegt að svo fljótt sem auðið er verði einungis farið eftir nýju reglunum verði frumvarpið að lögum en ekki að um tvöfalt kerfi verði að ræða í ótilgreindan tíma. Sem fyrr segir mun nefndin væntanlega skoða þetta á milli umræðna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aðstoðarmenn í greiðslustöðvun taki sjálfkrafa sæti í slitastjórnum fyrirtækjanna. Nokkrar ábendingar eða fyrirspurnir komu um hvort þetta fyrirkomulag gæti talist æskilegt með hliðsjón af sjónarmiðum um hæfi. Þar er til þess að vísa að í 5. mgr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. segir að ef í ljós komi eftir skipun skiptastjóra, í þessu tilviki aðstoðarmanns í greiðslustöðvun, að hann sé vanhæfur til að leysa tiltekið verk af hendi vegna vanhæfis og það án þess að það yrði talið varða neinu fyrir rækslu starfans að öðru leyti getur dómari að hans ósk skipað annan mann til að leysa verkið af hendi. Í tilvikum þar sem efast er um hæfi aðstoðarmanns í slitastjórn getur hann þannig vikið frá ákvarðanatöku.

Nefndin lagði einnig til að við ákvæði til bráðabirgða II bættist nýr töluliður þess efnis að hnykkt yrði á því að frá gildistöku laganna greiðist allur kostnaður af greiðslustöðvun og slitameðferð af eignum þess fjármálafyrirtækis sem í hlut á. Við nánari athugun hefur verið bent á að þessi breytingartillaga kynni að valda misskilningi og ýta undir þá túlkun að vafi leiki á ákvæðum neyðarlaganna þar sem fjallað er um ábyrgð ríkisins á kostnaði við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Nefndin tekur þessar athugasemdir til greina og mun kalla þessa breytingartillögu aftur til 3. umr. við atkvæðagreiðslu á eftir því að það er ljóst að í neyðarlögunum segir að ríkissjóður beri ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins við slit og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir það ákvæði að ríkissjóður hafi borið ábyrgðina hafa ríkissjóður og Fjármálaeftirlitið greitt allan áfallinn kostnað af störfum skilanefnda og einnig mati á eignum bankanna. Það var ekki ætlunin, a.m.k. ekki í mínum huga, þegar ákvæðið var lögfest að svo yrði heldur var þessu ákvæði eingöngu ætlað að tryggja að ríkið bæri ábyrgð á þeim kostnaði við skipti sem ekki fengist greiddur af eignum viðkomandi fjármálafyrirtækis eða bús eins og almennt gildir um skiptingu þrotabúa.

Herra forseti. Ég vil að lokum víkja að gildistíma og ákvæði til bráðabirgða IV. Nefndin gerir tillögu um að tímamark gildistímaákvæðisins í 100. gr. a gildandi laga, þar sem m.a. er fjallað um að Fjármálaeftirlitið geti sjálft haft frumkvæði að því að koma fjármálafyrirtæki til slitameðferðar, verði lengt til 1. júlí 2010. Upphaflega gerði frumvarpið ráð fyrir því að það mundi renna út um næstu áramót og í neyðarlögunum var ákvæði þess efnis að ákvæðið skyldi tekið til endurskoðunar fyrir árslok 2009. Nefndin gerir sem sagt tillögu um að þetta ákvæði neyðarlaganna verði framlengt og verði í gildi til 1. júlí 2010. Ég tek fram að auðvitað getur Fjármálaeftirlitið alltaf afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækja samkvæmt þessu frumvarpi verði það að lögum enda þótt þessi bráðabirgðaákvæði falli úr gildi, eins og hér er gerð tillaga um, um mitt ár 2010.

Herra forseti. Birkir J. Jónsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Ármannsson, Pétur H. Blöndal, Árni Mathiesen og Jón Magnússon skrifa undir álitið með fyrirvara. Aðrir á þessu áliti auk þeirrar sem hér stendur eru Lúðvík Bergvinsson og Höskuldur Þórhallsson.

Ég legg til að þessu máli, máli 409, verði vísað til nefndar milli 2. og 3. umr. og jafnframt kalla ég aftur breytingartillögu, liði c og d við tölulið 2, á þskj. 858.



[14:27]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú mál 409, frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Mig langar að fara aðeins yfir málið en fyrst og fremst að hafa í huga að það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur á þinginu að setja málið í samhengi við neyðarlögin frá því í október í fyrra sem og nóvemberlögin svokölluðu. Ég ætla að reifa málið og svo aðeins að greina frá því sem ég hef lært í samskiptum við kröfuhafa aðallega.

Í frumvarpinu eru lagðar til viðamiklar breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki frá 2002. Þessi kafli fjallar um endurskipulagningu fjármálafyrirtækja, um slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Tilgangur frumvarpsins er m.a. sá að færa löggjöfina hér á landi betur í takt við tilskipun frá ESB nr. 24/2001. Kaflinn þarf að mæta þremur meginsjónarmiðum sem sett eru fram í tilskipuninni og þetta skiptir okkur miklu máli. Þessi sjónarmið eru: Í fyrsta lagi eining eða það sem á ensku er kallað Principal of unity, í öðru lagi algildi eða Principal of universality og í þriðja lagi jafnræðissjónarmið eða á ensku Principal of non-discrimination. Þessum sjónarmiðum er fylgt í frumvarpinu og þá með það í huga að tryggja algjört jafnræði innlendra og erlendra kröfuhafa fjármálafyrirtækjanna sem hafa starfsemi í fleiri en einu ríki á EES-svæðinu.

Þetta frumvarp þarf að mínu viti að standast próf um trúverðugleika gagnvart kröfuhöfunum. Því er rétt að skoða málið eins og það snýr við kröfuhöfum og setja það í samhengi neyðarlaganna, nr. 125 frá október 2008, og nóvemberlaga um fjármálafyrirtæki, nr. 129 frá 2008, þannig að þau lög sem nýverið hafa verið samþykkt séu höfð í huga við mat á frumvarpinu sem hér um ræðir.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákvæðum laga nr. 125/2008 og nr. 129/2008, þ.e. neyðarlögin eða nóvemberlögin svokölluðu, var ekki ætlað að gilda til frambúðar enda voru þau sett til að bregðast við óvenjulegu neyðarástandi sem enginn gat séð fyrir, hruni fjármálakerfis heillar þjóðar. Það ber einnig að hafa í huga að ofangreind lög frá október og nóvember 2008 voru samin og samþykkt á afar skömmum tíma til að ferli skilanefndar, sem kveðið var á um í neyðarlögunum, gæti stuðst við lagabókstaf. Til upprifjunar voru neyðarlögin samþykkt sama dag og frumvarpið kom fram. Lögin frá 14. nóvember, nr. 129, höfðu aðeins rýmri tíma þótt vissulega hafi hann einnig verið afar takmarkaður. Þar var, eins og í október, verið að bregðast við neyðarástandi.

Lögin fjölluðu aðallega um þrjá þætti, í fyrsta lagi heimild skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis til að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi þrátt fyrir afturköllun FME á starfsleyfi þess. Í öðru lagi heimild til að lengja fresti og auðvelda tilkynningar fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið heimild til greiðslustöðvunar. Í þriðja lagi ákvæði til bráðabirgða sem heimilar frestun fyrirtöku þrátt fyrir að greiðslustöðvun hafi verið veitt fyrir gildistöku laganna.

Lögin frá því í nóvember voru umdeild og beittu nefndarmenn meiri hluta þáverandi viðskiptanefndar sér fyrir því að hafinn væri undirbúningur að því frumvarpi sem nú er til umræðu. Strax í kjölfar nóvemberlaganna svokölluðu var hafist handa við að semja það frumvarp sem við ræðum nú því það var alveg ljóst að endurskoða þyrfti XII. kaflann algjörlega en til þess vannst ekki tími í nóvember.

Þegar um miðjan nóvember hófst því undirbúningur að heildarendurskoðun á XII. kafla laganna frá 2002 sem tæki einnig tillit til þess ástands sem hefði skapast á Íslandi. Frumvarpið sem hér um ræðir fjallar um nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja sem eru að miklu leyti sömu reglur og gilda um gjaldþrotaskipti. Skipuð verði slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús. Þó gildir sú regla að slitastjórn hafi það að meginmarkmiði sínu að hámarka virði eigna fjármálafyrirtækja og þannig geti þurft tíma til þess að viðunandi verð fáist fyrir eignirnar. Ég fagna þessu sérstaklega vegna þess að þetta er beinlínis skynsamlegt í samhengi við það sem er að gerast, að það gefist tími til að fá hámarksvirði fyrir eignir. Í því samhengi er sérstök áhersla lögð á að lánardrottnar þeirra fjármálafyrirtækja sem í hlut eiga hafi tök á að gæta hagsmuna sinna, samanber sjónarmið ESB-tilskipunarinnar nr. 24/2001.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að gefin verði út innköllun þar sem kröfuhöfum gefst kostur á að lýsa kröfum sínum til slitastjórnar og að afstaða verði tekin til þeirra. Kröfuhafar geti gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og geti borið ágreining um réttmæti krafna og ráðstafanir slitastjórnar undir dómstóla. Þá er gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki geti hafið starfsemi á ný með samþykki FME ef eigendum verði greiddur hluti þeirra í fjármálafyrirtækinu. Einnig að slitastjórn geti leitað nauðasamnings við kröfuhafa og efnt hann og í framhaldi geti fjármálafyrirtæki hafið starfsemi með samþykki Fjármálaeftirlitsins eða eignir þess verði greiddar hluthöfum eða stofnfjáreigendum ef einhverjar eru. Þá er gert ráð fyrir að slitastjórn sé skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis.

Bráðabirgðaákvæðin eru í fjórum liðum og þar er einkum horft til þeirra fjármálafyrirtækja sem þegar eru í höndum skilanefnda og njóta greiðslustöðvunar. Þessi bráðabirgðaákvæði urðu helsta umræðuefni viðskiptanefndar og þeirra gesta sem komu á fund hennar enda er sátt um flest annað í frumvarpinu. Það var mikið rætt um breytingartillögurnar sem hv. formaður viðskiptanefndar hefur þegar greint frá og það er nákvæmlega þar sem helsta ágreiningsefnið er.

Virðulegi forseti. Grundvallaratriðið í allri umræðunni er að setja frumvarpið í samhengi við það sem áður hefur gerst og gæta trúverðugleika og jafnræðis. Trúverðugleiki, jafnræði kröfuhafa, algildi og eining eru prófsteinninn á frumvarpið og því er áhugavert að heyra viðhorf kröfuhafa gagnvart því. Það er ágætt að meta þá þætti sem þessir aðilar eru aðallega að velta fyrir sér í samhengi við frumvarpið. Helstu álitamál frá sjónarhorni kröfuhafa lúta að breytingartillögum meiri hluta viðskiptanefndar um svonefnt sólarlagsákvæði sem gilda ætti þá, ef það yrði að lögum, um starfsemi skilanefnda Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Ég tók með mér nokkur erindi sem okkur nefndarmönnum í viðskiptanefnd bárust frá kröfuhöfum eða fulltrúum kröfuhafa en það ber einnig að hafa í huga að kröfuhafarnir eða fulltrúar kröfuhafa sem sitja kröfuhafafundi Glitnisbanka, Landsbanka og Kaupþings banka, þ.e. gömlu bankanna, eru mikið til sömu aðilarnir. Ég tel að jafnvel megi ná í yfir 70% af kröfuhöfum í gegnum 40 til 50 manns. Ég ætlaði aðeins að vitna í þetta atriði um sólarlagsákvæðið, sem er þetta umdeilda ákvæði um að skilanefndir skuli ljúka starfi innan sex mánaða frá því að frumvarpið verður að lögum. Við þetta ákvæði voru fyrirvarar sjálfstæðismanna, þeirra hv. þm. Péturs Blöndals, Birgis Ármannssonar, Árna Mathiesens og Jóns Magnússonar, við þetta frumvarp. Ég á sæti í viðskiptanefnd en sat ekki fundinn þegar þetta mál var afgreitt til 2. umr. vegna setu minnar í forsætisnefnd á sama tíma.

Til þess að vitna aðeins í það sem kom fram í athugasemdum kröfuhafa langar mig fyrst nota líkingamál sem kemur frá bandarískum aðila sem starfar fyrir lögfræðifyrirtækið Bingham og hann starfar fyrir hönd fjölmargra af stærstu skuldabréfaeigendum Kaupþings banka, ef ég skil rétt. Viðkomandi notaði það líkingamál að frá sjónarhorni kröfuhafa mætti lýsa ástandinu þannig að fyrir sex mánuðum hafi íslenskir skilanefndarmenn mætt til leiks. Þeir hafi ekki kunnað leikinn sem var spilaður þannig að í liði kröfuhafanna var fólk sem var kannski vant því hvernig staðið skuli að svona uppgjöri en það komu Íslendingar sem bæði voru að fóta sig á nýrri löggjöf, þ.e. neyðarlögunum og svo seinna nóvemberlögunum, en höfðu kannski ekki mikla reynslu af því að vinna í svona málum. Það má því ímynda sér fótboltaleik og það kemur nýtt lið inn á leikvöllinn sem kann ekki alveg reglurnar, þ.e. íslenska lið, en kröfuhafaliðið var tilbúið að kenna því þær. Fulltrúi kröfuhafa sagði að íslensku spilararnir hefðu lært fljótt, skilanefndarmennirnir, að vinna með kröfuhöfunum í þessum leik og smám saman fór þetta að fara frá undirbúningsfasa yfir í að setja einhvers konar heildarskipulag á starfsemina, og allir með sama markmið, það var að hámarka virði eignanna þannig að allir kæmu sem best út úr þessum málum. Þetta var í hag Íslendinga vegna þess að kröfuhafarnir sögðu: Já, við erum búin að missa mikið af fjármunum. Þið viljið ekki að við bæði missum mikið af fjármunum en líka allt álit á Íslendingum á sama tíma. Það væri auðvitað í hag okkar allra ef þeir sem misstu svo mikla fjármuni gætu haldið sáttir áfram í seinni hálfleik.

Þessi aðili lýsti líka seinni hálfleik: Eigum við núna í seinni hálfleik að fá nýtt lið inn á leikvöllinn? Á það nýja lið að þurfa að læra leikreglurnar upp á nýtt? Eigum við að þurfa að kenna nýju liði leikreglur? Þar að auki bættist við að leikreglurnar eru að breytast. Þetta fannst þeim óásættanlegt, þessum kröfuhöfum. Þeir sögðu beinlínis að frumvarpið gæfi það til kynna að ríkisstjórn Íslands hafi það grundvallarmarkmið að tefja fyrir lausn mála fremur en að leysa bankakrísuna á sanngjarnan hátt. Þessir aðilar krefjast þess, eða hvetja til þess, þeir krefjast einskis, þeir hvetja til þess að skilanefndin fái að starfa áfram vegna þess að ákveðið ferli var komið í gang. Kröfuhafar, sem eru þýsku fjármálafyrirtækin Deutsche Bank og Bayern LB, fulltrúi þeirra sagði að hann vildi ekki fá nýja einstaklinga sem þurfi að setja sig inn í málin. Þetta mundi valda þeim miklum vonbrigðum. Sömuleiðis að nýir einstaklingar sem koma að málum á þessu viðkvæma stigi gætu sett málið í upplausn.

Fulltrúi frá Morgan Stanley, ráðgjafi í Kaupþingi banka, að ég tel, og breska fjármálafyrirtækið Lloyds, sem er meðal stærstu lánveitenda bankans, þeir sögðu að hætta væri á að ferlið glataði trúverðugleika og með því að beita þessu sólarlagsákvæði á störf skilanefndanna eins og breytingartillaga meiri hluta nefndarmanna gerði ráð fyrir, að það væri verið að skipta út lykilmönnum, það mundi orsaka tafir og senda kröfuhöfum röng skilaboð um að við vildum tefja málið. Ég gæti haldið áfram vegna þess að fleiri blöð bárust nefndarmönnum — ekki bara mér heldur öllum nefndarmönnum, að ég tel — þar sem kröfuhafarnir lýstu því að þeir vildu ekki þurfa að þola það að nú kæmu allt í einu breyttar reglur og nýir menn og að það þyrfti að byrja upp á nýtt. Ég held að okkur sé hollt að hlusta á þetta. Auk þess kom fram gagnrýni frá fleirum um þetta ákvæði. Ég held að okkur sé nær að halda okkur við spilavöllinn eins og hann er, reyna að klára þetta í sátt við kröfuhafana eins og hægt er, reyna að hámarka virði eignanna þannig að það tapist sem minnst af fjármununum.

Hafandi sagt þetta er ég engu að síður mjög sátt við frumvarpið. Ég styð það að öðru leyti en hvað varðar umrætt ákvæði. Þess vegna fagna ég því sem fram kom í máli hv. formanns viðskiptanefndar, Álfheiðar Ingadóttur, að málið yrði kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. þar sem við mundum ræða þetta ákvæði sérstaklega, ásamt reyndar öðru. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum það og tel það skipta mjög miklu máli að þarna sé gengið í verkin og að við þurfum ekki að vera að setja ferli sem er komið vel af stað í uppnám.



[14:42]
Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé algjör misskilningur og vil ekki láta þeim orðum ómótmælt að íslensk stjórnvöld séu að tefja fyrir lausn málsins eða setja það í uppnám á þessu stigi. Ég vil minna á að þetta frumvarp, eins og hv. þingmaður nefndi, hefur verið í vinnslu frá því að nóvemberlögin voru sett og það var unnið í miklu samstarfi við réttarfarsnefnd og þá sem gerst þekkja til gjaldþrotaskiptaréttarins hér á landi. Á því stigi var frumvarpið mjög vel kynnt bæði fyrir skilanefndum og fyrir kröfuhöfum. Það er á því stigi sem frumvarpið tekur þeim miklu breytingum sem má sjá stað í bráðabirgðaákvæði nr. II um áframhaldandi greiðslustöðvun bankanna gömlu og áframhaldandi störf skilanefndanna.

Það er algjör misskilningur að kröfuhafar vilji ekki nýja einstaklinga í þetta mál því að það er algjörlega nauðsynlegt að fá nýja einstaklinga að þessu borði núna til þess að geta kallað inn kröfur vegna vanhæfis skilanefndarmanna. Slitastjórnin er algjört lykilatriði fyrir kröfuhafa, slitastjórn sem er skipuð af héraðsdómi og er þetta nýja lið inn á leikvöllinn sem hefur hæfi til þess að innkalla kröfur og úrskurða um þær. Þetta eru ríkustu hagsmunir kröfuhafanna hvort heldur þeir eru innlendir eða erlendir, fyrir nú utan að greiðslustöðvunin haldist áfram. Það varð ákveðið upphlaup vegna þessara hugmynda um sólarlagsákvæði en það breytir engu um að ýtrustu hagsmunir kröfuhafa eru fólgnir (Forseti hringir.) í slitastjórninni og því að geta lýst sínum kröfum.



[14:45]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði í orðræðu kröfuhafa um það að íslensk stjórnvöld séu að tefja fyrir lausn mála, þannig blasti það við. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir á væntanlega sömu blöð og þau sem ég las þetta upp af, hún fletti hér stórri möppu. Ég las beint upp úr því sem kröfuhafar voru að segja, málið blasti þannig við.

Varðandi slitastjórnirnar þá er það alveg rétt að þær hafa hlutverk sem skiptir alla máli. Það breytir því ekki að það er annað hlutverk sem frumvarpið gerir ráð fyrir, og við gerum öll ráð fyrir, að sé sinnt og það er að hámarka virði eigna bankanna og vinna með kröfuhöfunum að því. Það eru sameiginleg markmið. Kröfuhafar bentu reyndar líka á að það eru þeir sem greiða laun allra þessara aðila, bæði slitastjórnar og skilanefnda. Það er því verið að leita að lausn sem er nokkurs konar salómonslausn í málinu þannig að skilanefndirnar gætu áfram starfað með kröfuhöfunum en að sama skapi færðist málið í réttara far með því að skipa svokallaðar slitastjórnir vegna þess að það er auðvitað sérstakt verkefni sem nú þarf að sinna vel, þ.e. verkefni þeirra.

Varðandi það að réttarfarsnefnd hafi komið að því að semja frumvarpið þá er það vissulega fagnaðarefni að við fengum greinilega mjög góða aðila til þess. Þeir hafa nýtt tímann vel frá því í nóvember til þess að setja fram ágætisfrumvarp, og ég set mig ekki upp á móti neinu í frumvarpinu, það er bara breytingartillaga 2.b ef ég man rétt.



[14:47]
Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, bæði þeir sem eru á nefndarálitinu og þeir sem ekki voru viðstaddir, styðjum frumvarpið og teljum nauðsynlegt að það fái afgreiðslu hér á þinginu sem fyrst.

Það eru þrjú atriði sem ég vildi þó aðeins nefna í þessu samhengi. Í fyrsta lagi það að við skulum á þessum tíma vera að gera breytingar á löggjöf um fjármálafyrirtæki hvað þessi atriði varðar. Ekki eru nema fimm ár frá því að við innleiddum tilskipun frá Evrópusambandinu um breytingar á þessum kafla laganna sem voru út af fyrir sig nýmæli. Það hefur hins vegar komið í ljós að þær breytingar sem við gerðum voru ekki fullnægjandi, og maður veltir því fyrir sér hvernig standi á því. Í þeim breytingum sem þá voru gerðar var gert ráð fyrir því að heimaríkin réðu þessum málum sjálf en samt sem áður var tilgangurinn að ná samræmi á milli ríkja innan EES-svæðisins. Það virðist því eitthvað hafa skolast til og maður veltir því fyrir sér hvers vegna það gerðist, hvort við höfum ekki verið nægilega vel á vaktinni hvað þessa löggjöf varðar. Er ég þá sérstaklega að tala um slit á fjármálafyrirtækjum.

Ég fellst á það að hafa þurfi annars konar ákvæði og annars konar löggjöf í einhverjum atriðum en um önnur fyrirtæki vegna eðlis og sérstöðu fjármálafyrirtækja. En ég undrast það að við höfum ekki verið búin að koma hlutum betur fyrir hvað þetta varðar fyrr en nú er. Það var ekki tímapunkturinn til að gera það þegar neyðarlögin voru sett, þetta er eitthvað sem við hefðum átt vera búin að gera fyrir löngu.

Annað atriði sem ég vildi nefna varðar gildistímabil neyðarlaganna. Í bráðabirgðaákvæði IV í frumvarpinu er gert ráð fyrir að neyðarlögin gildi til ársloka 2009 en nefndin leggur reyndar til að framlengja það tímabil til 1. júlí 2010. Ég hef nokkrar áhyggjur af þessu, að við skulum yfirleitt vera að setja tímamörk á þetta, en er auðvitað sáttur við að lengt skuli vera í þeim mörkum. Það gefur okkur lengri tíma til að íhuga það hvernig við viljum haga þessum málum. Ástæðan er sú að málsmetandi menn á þessu sviði innan Evrópusambandsins, í löndum sem lent hafa í bankakrísu, fjármálakrísu — og þá er ég að tala um aðila sem komu beint að þeirri krísu og eru enn í dag í embættum sem hafa mikið með þessi mál að gera — hafa tjáð mér, og það fyrir þó nokkrum mánuðum, í raun og veru í upphafi þessara erfiðleika okkar, að þeir sjái mjög mikið eftir lagaákvæðum sem voru í gildi hjá þeim þegar þeirra bankakrísa var í gangi en hafa núna fallið úr gildi, að hafa þau ákvæði ekki tiltæk til þess að nýta þau í því ástandi sem ríkt hefur í Evrópu í vetur.

Fjármálakrísur gera ekki boð á undan sér. Ef menn hafa ekki tækin, ef menn hafa ekki löggjöfina til þess að nýta og bregðast við þá þurfa menn að setja neyðarlög og ég held að það hljóti að vera verra. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki þurfi að vera í gildi ákvæði sem heimila yfirvöldum að grípa inn í með meira afgerandi hætti en með því að svipta fjármálafyrirtækin starfsleyfi eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi hér áðan.

Það getur auðvitað verið að þetta orki að einhverju leyti tvímælis og það geti verið einhver ógnun fyrir fjármálafyrirtækin ef yfirvöld hafa slíkar valdheimildir. En þá verðum við líka að hafa í huga að þessi starfsemi hefur skákað í því skjóli að hið opinbera þurfi — liggur mér við að segja — jafnan að grípa inn í þegar eitthvað verulega stórt bjátar á. Ef menn ætlast til þess að hið opinbera geti gripið inn í á fjárhagslegum forsendum verður það að hafa lagaheimildirnar til þess að grípa inn í og taka í taumana á starfseminni. Ég held því að við þurfum að íhuga þetta og ég held að þetta þurfi að haldast í hendur. Við getum auðvitað haft kerfið þannig að það sé þá alveg klárt að hið opinbera grípi ekkert inn í og fjármálafyrirtækin séu sjálf ábyrg fyrir því sem þau gera. Ég er sannfærður um það að ef staðan væri sú mundu þau hegða sér öðruvísi og hefðu hegðað sér öðruvísi en þau gerðu. Sú breyting sem lögð er til gefur okkur alla vega betri tíma til þess að íhuga þetta og þá getum við gert það í samhengi við það sem gerist annars staðar í heiminum og hvers konar regluverk við erum þá að horfa fram á á vorþingi 2010.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna varðar fyrirvara okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem ritum undir nefndarálitið en það varðar c-lið 2. gr. breytingartillagnanna um skilanefndirnar og sólarlagsákvæðið á starfsemi þeirra. Við höfum áhyggjur af því að þetta ákvæði geti haft áhrif á lánardrottna sérstaklega, að þeir verði órólegir vegna þess að þeir sjái fyrir sér að hugsanlega verði breytingar á skilanefndunum sem þeir telji óhagstæðar, að nýir aðilar séu að koma að þessu sem ekki hafi komið að þessu áður. Við höfum áhyggjur af þessu vegna skilanefndanna og þeirra verkefna sem þeim eru falin samkvæmt frumvarpinu, ekki vegna þess að við höfum áhyggjur af aðkomu slitastjórnanna, þær hafa ákveðin og tiltekin verkefni sem ég held að lánardrottnarnir þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af. En það eru þau verkefni sem frumvarpið gerir ráð fyrir að skilanefndirnar hafi sem við teljum að skipti máli í þessu sambandi.

Afstaða okkar byggist ekki á því að við séum sérstaklega að gæta hagsmuna skilanefnda eða þeirra sem þar sitja. Við erum auðvitað sammála öðrum nefndarmönnum í því að æskilegt væri að einungis eitt skipulag væri í gangi á hverjum tíma. En aðstæður hafa orðið þessar og leitt okkur í þessa átt og það sem skiptir mestu máli fyrir okkur í dag hvað bankana varðar er að hafa gott samstarf og ná góðu samkomulagi um niðurstöðu hvað varðar framtíð bankanna við lánardrottnana. Við höfum því þennan fyrirvara varðandi þessa breytingartillögu. Reyndar var rætt um það í nefndinni að við mundum fá málið aftur til umræðu milli 2. og 3. umr. og eins og fram hefur komið hjá hv. formanni þá verður það gert. Ég held að það sé skref í rétta átt að draga þessa tillögu til baka á meðan við erum að vinna í þessu frekar.



[14:56]
Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli hv. þingmanns á því að breytingar hafa orðið á skilanefndunum frá því þær voru skipaðar, og reyndar á tveimur af þremur. Mér er ekki kunnugt um að nokkrar breytingar hafi orðið á skipan manna í skilanefnd Landsbankans en það hafa svo sannarlega orðið mannabreytingar í skilanefndum hinna bankanna tveggja. Það hefur ekki valdið neinum sérstökum erfiðleikum í samskiptum við kröfuhafa. Það kemur jú alltaf maður í manns stað og við skulum vona að þannig verði það áfram.



[14:57]
Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit auðvitað að breytingar hafa orðið á skilanefndunum en skilanefndirnar hafa ekki verið lagðar niður og ég held að það sé talsvert mikill munur á því annars vegar að breytingar verði á samsetningu nefndanna og svo því að þær verði einfaldlega lagðar niður í heild sinni og nýtt apparat taki við verkefnunum þar sem þeir sem í skilanefndunum sátu geta ekki setið vegna hæfiskrafna.

Þetta snýst um það af hálfu lánardrottna að samfella sé í starfinu. Þær breytingar sem orðið hafa á skilanefndunum hafa ekki orðið þannig að heilu skilanefndirnar hafi horfið af vettvangi í einu heldur hafa einn eða kannski tveir farið út í einu og nýir komið inn en aðrir sem fyrir voru hafa setið áfram þannig að samfella hefur verið í starfi þeirra. Það er það sem skiptir máli í þessu samhengi og um það snýst fyrirvari okkar.



[14:58]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við það sem félagar mínir úr viðskiptanefnd, hv. þm. Árni M. Mathiesen og Guðfinna Bjarnadóttir, hafa lagt inn í umræðuna og eins fór formaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, vel yfir ýmsa þætti málsins. Ég vil bara undirstrika vegna þess fyrirvara sem ég gerði við nefndarálitið í nefndinni að það er vegna sömu þátta og fram hafa komið varðandi breytingartillögur og stöðu skilanefndanna. Ég tel mikilvægt eins og þeir sem hér hafa talað að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. þannig að við eigum þess kost að fara yfir þær athugasemdir sem borist hafa frá aðilum sem tengjast þessu máli og að við séum ekki að hrapa að neinu.

Það er auðvitað ljóst eins og kom fram í framsöguræðu formanns nefndarinnar að þetta frumvarp hefur fyrst og fremst í för með sér breytingar á ýmsum ákvæðum þeirra neyðarlaga sem sett voru í nóvember og við stóðum saman að í þinginu að setja að mestu leyti. Meðganga þess máls var harla stutt hér í þinginu og menn lögðu mikla áherslu á það á sínum tíma að ljúka þeirri umfjöllun hratt.

Það er óhætt að segja að fljótlega eftir þá afgreiðslu vöknuðu efasemdir hjá aðilum utan þings og eins hjá ýmsum þingmönnum, m.a. nokkrum úr þáverandi meiri hluta viðskiptanefndar, um að allir þættir málsins hefðu verið skoðaðir til hlítar. Við settum okkur nokkur í samband við þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra og ráðuneytið um að tilteknir þættir yrðu skoðaðir með sérfræðingum ráðuneytisins og færustu sérfræðingum á sviði réttarfarsmála. Það lá fyrir að ákveðnir agnúar voru á þessari nýsamþykktu löggjöf sem þurfti að laga og var sú vinna sett í gang. Má segja að frumvarpið sem hér liggur fyrir sé afrakstur þeirrar vinnu sem reyndar varð töluvert víðtækari en við héldum þegar við lögðum upp með þessar ábendingar til ráðuneytisins á sínum tíma.

Þetta mál gengur út á að reyna að laga regluverkið á þessu sviði að óvenjulegum aðstæðum. En um leið og það þarf að taka sérstakt tillit til stöðu fjármálafyrirtækja í þessum vandræðum liggur fyrir að það þarf að hafa þætti í löggjöfinni sem njóta viðurkenningar á alþjóðavettvangi þannig að erlend yfirvöld og dómstólar taki mark á því og kannist við þær reglur sem fyrir hendi eru. Frumvarpið gengur út á að skapa lagaramma sem hentar þeim aðstæðum sem eru hér fyrir hendi en um leið að hafa inni þá þætti sem skipta máli svo að löggjöfin sé tekin gild annars staðar og búum gömlu bankanna þannig veitt sú vernd gagnvart málssóknum og fullnustugerðum sem nauðsynlegt er.

Eins og komið hefur í ljós síðan við fjölluðum um málið í nefndinni eru þarna ríkir hagsmunir ýmissa aðila, m.a. erlendu kröfuhafanna, og hafa þeir látið í ljós ýmis sjónarmið um þetta.

Ég legg áherslu á það að lokum að við förum yfir þau sjónarmið í þessari nefnd og tökum afstöðu til þeirra í góðri sátt eins og þetta mál hefur verið unnið allan tímann. Það hefur verið góð sátt í nefndinni og vilji til þess að leiða þau mál til lykta sem upp hafa komið. Ég held að það sé mikilvægt í þessu sambandi.