137. löggjafarþing — 59. fundur.
ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 136. mál (Icesave-samningar). — Þskj. 346, frhnál. 348, 350 og 351, brtt. 349 og 352.

[09:01]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Samkomulag er um lok þessarar umræðu. Einn ræðumaður frá hverjum þingflokki talar og hefur allt að 10 mínútur til umráða. Andsvör eru ekki leyfð.



[09:02]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ríkisábyrgðin vegna lána Breta og Hollendinga til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna Icesave-reikninga Landsbankans er stærsta einstaka fjárhagslega skuldbindingin sem íslenska ríkið hefur tekið á sig. Icesave-deilan er eitt erfiðasta mál sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á við á síðari tímum, ekki síst vegna þess að skuldbindingin á rætur sínar í óábyrgri starfsemi einkarekinnar íslenskrar bankastofnunar á erlendri grund.

Í Icesave-málinu eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Íslendinga. Það hefur lagst þungt á þing og þjóð og reynt á þolrifin í okkur öllum. Eins og vænta mátti hafa kostir samninganna við Breta og Hollendinga lítt verið ræddir og meira verið dvalið við meinta galla þeirra og oft verið málað í sterkum litum. Fjölmörg atriði hafa þó verið skýrð og rædd þannig að enginn ágreiningur er lengur um þau og vissulega veita lánasamningarnir Íslendingum ráðrúm til að ná kröftum sínum á ný áður en til endurgreiðslu kemur.

Það er afar mikilvægt að Icesave-samningarnir hafa verið lagðir fram sem opin bók fyrir þingmenn og almenning í landinu og ég fullyrði að aldrei áður hefur verið slíkt gagnsæi í alþjóðlegum samningum á vegum ríkisins. Icesave-málið hefur verið prófsteinn á opna og lýðræðislega umræðu í landinu og ég tel að við höfum þegar á heildina er litið staðist þá áraun.

Þeir fyrirvarar sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að bætt verði við frumvarp ríkisstjórnarinnar gera það að verkum líkt og ég benti á þegar í upphafi að við þurfum í kjölfarið að ræða við Breta og Hollendinga um framhald málsins. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Alþingis og gera allt sem í hennar valdi stendur til að ljúka málinu farsællega. Íslensk stjórnvöld munu freista þess að sannfæra Breta og Hollendinga um að skynsamlegt sé að þeir fallist á forsendur Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni eins og þeir koma fram í lögunum. Þetta verður verkefni ríkisstjórnarinnar í kjölfar samþykktar laganna, samanber breytingartillögu við 1. gr. laganna þar sem segir nú, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Ég er allvongóð um að þetta takist. Hvorki ég né aðrir ráðherrar höfum þó fullvissu í því efni enda höfum við ekki talið rétt að standa í formlegum viðræðum á meðan Alþingi hefur verið að fjalla um málið. Samskiptin undanfarið hafa því fyrst og fremst takmarkast við upplýsingamiðlun. Ég dreg þó enga dul á að við munum þurfa á öllum okkar sannfæringarkrafti að halda en þar búum við að hinni gríðarlega ítarlegu yfirferð sem málið hefur fengið í fjárlaganefnd og öðrum þingnefndum. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þingmönnum, starfsmönnum þingsins og Stjórnarráðsins og öllum þeim fjölmörgu sem koma að þessu máli fyrir þrotlaust starf á þessu sumri.

Eftir 10 vikna umfjöllun er nú komið að því að Alþingi afgreiði málið fyrir sitt leyti. Allt hefur sinn tíma og það er von mín að þegar upp er staðið eftir þessa löngu sumarsetu snúi alþingismenn bökum saman og tryggi málstað Íslands framgang sem einn maður. Sú breiða pólitíska samstaða sem náðst hefur á Alþingi um málið er okkur ákaflega dýrmæt og hún er það veganesti sem við reiðum okkur á í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Frá mínum bæjardyrum eru fyrirvarar frumvarpsins þríþættir. Í fyrsta lagi eru ákveðnar forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar þar sem orðaðir eru hlutir sem fullyrða má að hafi verið óskrifuð forsenda við samningagerðina og hafa að sumu leyti verið staðfestir af hálfu allra aðila eftir að henni lauk. Þessar forsendur lúta meðal annars að óskoruðu forræði yfir náttúruauðlindum og því að tilteknar nauðsynlegar eignir ríkisins verði út frá fullveldissjónarmiðum undanþegnar aðför. Þá er því einnig slegið föstu að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við Brussel-viðmiðin svokölluðu og að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra.

Í öðru lagi er um hin svokölluðu efnahagslegu viðmið að ræða þar sem sett er tiltekið þak á greiðslur á hverju ári vegna ríkisábyrgðarinnar er tekur mið af hagvexti. Það er lánveitendum í hag að við höfum bolmagn til að rísa undir skuldinni og því ætti þetta að vera vel ásættanlegt. Það ætti ekki að skipta þá sköpum þótt þetta kunni að leiða til þess að greiðslur verði lægri í byrjun en aukist svo þegar líður á seinni hluta lánstímans. Komi til þess að við náum ekki að greiða upp skuldina á 15 árum er lögð áhersla á að viðræður muni fara fram tímanlega milli aðila. Eins og fram kom í máli framsögumanna meiri hluta fjárlaganefndar og 1. minni hluta fjárlaganefndar í gær yrði það svo ákvörðun Alþingis eftir slíkar viðræður hvort ríkisábyrgðin verði framlengd. Með samþykkt þessarar breytingartillögu er Alþingi að lýsa því yfir að ríkisábyrgðin verði á þessu stigi ekki veitt lengur en til 15 ára. Allar líkur eru á að lánið verði að fullu uppgreitt á þeim tíma. Ef svo ólíklega fer að það takist ekki verður það verkefni Alþingis þegar þar að kemur að taka sérstaka ákvörðun um framlengingu ríkisábyrgðar vegna þess sem út af stendur. Á þeim tímapunkti mun liggja ljósar fyrir en nú hvort forsendur samninganna hafi haldið og ýmiss konar óvissu um lagalegar skuldbindingar Íslands verði eytt.

Í þriðja lagi er um hin svokölluðu lagalegu viðmið að ræða. Annars vegar er þar fjallað um hvort Ísland hafi yfir höfuð verið lagalega skylt að veita ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins og afleiðingar þess ef annað kemur í ljós. Aðrar Evrópuþjóðir féllust ekki á að það væri neinn lagalegur vafi á ferð en mætir lögfræðingar íslenskir hafa verið á öðru máli. Hins vegar lýtur fyrirvarinn að því eftir hvaða reglum verður úthlutað úr búi Landsbanka Íslands. Viðsemjendur okkar lögðu þunga áherslu á að gætt yrði jafnræðis milli tryggingarsjóðsins og sjóða Bretlands og Hollands. Okkar sérfræðingar á þeim tíma töldu þetta vera í góðu samræmi við íslenskan rétt. Síðar var það dregið í efa og því taldi fjárlaganefnd rétt að setja fyrirvara um þetta efni enda kunna að vera miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt og ítrekað að þessir fyrirvarar eru í stórum dráttum þess eðlis að hvert þjóðþing mundi telja sér fært að setja sambærileg öryggisákvæði til að leggja áherslu á að ekki megi skerða fullveldi þjóðar sinnar og tiltekna grundvallarhagsmuni eins og framtíðarefnahag þjóðarinnar. Þess vegna leyfi ég mér að vera vongóð um að Bretar og Hollendingar sýni málinu í þeim búningi sem það fer nú fulla sanngirni og skilning. Það er það sem við förum fram á við þessar þjóðir nú í kjölfar samþykktar þessara laga.

Það er alþekkt úr sögu evrópskrar samvinnu að þjóðþing eða dómstólar setji fyrirvara þegar verið er að afgreiða mikilvæga milliríkjasamninga. Eins og áður segir er verkefnið nú að sannfæra viðsemjendur okkar um að við séum ekki að hlaupast undan ábyrgð heldur þvert á móti að axla ábyrgð en með þeim hætti að við fáum örugglega undir henni risið.

Virðulegi forseti. Að endingu þetta. Fáum blandast lengur hugur um að lausn Icesave-málsins er forsenda fyrir því að Íslendingar komist áfram með áætlanir um endurreisn efnahagslífsins eftir banka- og gjaldeyrishrun. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er að velja þá leið sem við teljum farsælasta fyrir íslenska þjóð jafnvel þótt allir kostir sem úr er að velja séu slæmir og þungbærir. Niðurstaða Alþingis er í sínum kjarna eins og að var stefnt af hálfu ríkisstjórnarinnar, Ísland mun standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og Alþingi mun ábyrgjast Icesave-lánin að uppfylltum ákveðnum skilmálum.

„Að bera eitthvað þungt — það er að vera“, sagði skáldið. Við skulum snúa okkur að því að hleypa krafti í íslenskt efnahagslíf þannig að engar byrðar verði svo þungar að þær sligi okkur á næstu 15 árum.



[09:10]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Senn líður að atkvæðagreiðslu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamninganna með þeim breytingum sem þingið hefur gert á málinu. Það dylst væntanlega engum lengur sem í upphafi vildi kannski hafna því að horfast í augu við það. En eftir þá umræðu sem farið hefur fram dylst vonandi engum lengur að hér er ekki á ferðinni sama málið og ríkisstjórnin lagði upp með.

Ég held að það sé rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að eflaust erum við að fjalla um eitt stærsta mál sem þingið hefur þurft að fást við, a.m.k. er það rétt ef horft er til þeirrar skuldbindingar sem verið er að binda ríkissjóð í í krónum talið. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu í þessu máli en að ríkisstjórnin féll á þessu prófi. Með því að leggja það fyrir þingið að við féllumst á ríkisábyrgð án fyrirvara fyrir þeim gríðarlegu skuldbindingum sem um var að ræða féll ríkisstjórnin á prófinu. Hún tryggði ekki einu sinni meiri hluta innan sinna eigin raða. Hvorki var einhugur í ríkisstjórninni né heldur hjá stjórnarflokkunum. En það er kannski ekki ástæða til að staldra sérstaklega við það vegna þess að þingið tók völdin í málinu og er við það núna að leiða málið til lykta í miklu betri farvegi en upphaflega stóð til.

Ég get ekki tekið undir með hæstv. forsætisráðherra þegar sagt er að gallar málsins hafi verið málaðir allt of sterkum litum. Það er ekki hægt að taka þá galla sem við erum að ræða um og mála þá of sterkum litum. Staðreyndin er sú að gallarnir eru þess eðlis að það þurfti meira og minna að snúa öllu málinu á hvolf. Málið fer út úr þinginu á eftir á röngunni þegar það er borið saman við upphaflegt frumvarp.

Var þetta mál prófsteinn á lýðræðið eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um? Ég held að við eigum að láta þetta mál og önnur mál sem minnihlutaríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar og ríkisstjórn sömu flokka frá því eftir kosningar hefur haft á dagskránni verða okkur einmitt umhugsunarefni hvað lýðræðið snertir. Hvernig var þetta aftur með stjórnarskrárfrumvarpið sem kom frá minnihlutaríkisstjórninni? Var einhver tilraun gerð þar til að ná breiðri sátt og samstöðu áður en málið var lagt fram í jafnrisavöxnu máli og þar var á ferðinni? Nei, það átti að þvinga fram niðurstöðu án breiðrar sáttar og samstöðu sem alltaf hefur verið leiðarljósið við breytingar á stjórnarskránni.

Hvernig er með stór mál eins og t.d. orkumálin sem við Íslendingar munum þurfa að taka stórar ákvarðanir um á komandi missirum? Voru stjórnarflokkarnir tveir sammála fyrir kosningarnar um grundvallarákvarðanir í þeim málaflokki? Nei, þeir greiddu atkvæði í sitt hvora áttina í jafnstóru máli og þar var á ferðinni. Hvernig var það með Evrópusambandsmálið sem kom inn á þingið frá sömu ríkisstjórn? Það var engin samstaða innan stjórnarflokkanna tveggja um það hvernig halda ætti á því máli og aldrei leitað eftir breiðri samstöðu heldur kylfa látin ráða kasti á þinginu. Og þvert á hin fögru orð sem virðast vera notuð helst á tyllidögum um að við þurfum á þessum erfiðu tímum að efna til mikillar samstöðu um stórar ákvarðanir, var vaðið áfram af krafti og yfirgangi af þessari sömu ríkisstjórn. Þannig var það líka með Icesave-samningana að án þess að nokkur samstaða væri um þá í þinginu ætlaði ríkisstjórnin að ná sínu fram. Þetta eru auðvitað gríðarlega mikil hættumerki vegna þeirra stóru mála sem bíða okkar á vetri komandi, t.d. við fjárlagagerðina. Ef þetta eru vinnubrögðin sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ætlar að viðhafa við gerð fjárlaganna fyrir komandi ár, þá stefnir í enn frekara óefni á þinginu. Ef þetta eru vinnubrögðin og verklagið sem á að beita við að leysa úr skuldavanda heimila og fyrirtækja, þá stefnir ríkisstjórnin í enn dýpra fen og meiri vandræði en hún hefur séð á þeim fáu vikum sem hún hefur starfað frá kosningum. Ríkisstjórn sem hagar sér svona rís auðvitað aldrei undir því að vera ríkisstjórn Íslands. Hún verður aldrei annað en valdabandalag Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það verður ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar í ólíkum munstrum eftir því hvaða mál eru á dagskrá hverju sinni og svo verður treyst á skynsemi stjórnarandstöðunnar við að leysa úr erfiðustu vandamálunum. Ég held að íslenska þjóðin eigi annað og miklu betra skilið á þeim erfiðu tímum sem við lifum núna. Ég ætla að óska þess að ríkisstjórnin láti þennan leiðangur jafnilla og hann hefur farið af stað og þau stóru mál sem ég hef snert á verða áminningu um það hvernig best væri að halda á þeim málum sem fram undan eru, hvernig skynsamlegra væri að nálgast lausn á stórum, erfiðum viðfangsefnum á jafnviðkvæmum tímum og við lifum núna.

Ég ætla við lok þessarar umræðu ekki að fara nákvæmlega yfir allar þær efnislegu breytingar á frumvarpinu sem eru í farvatninu og við förum að staðfesta í atkvæðagreiðslu á eftir. Ég ætla einungis að vekja athygli á því að þingið er að setja öryggisnet í mál þar sem ríkisstjórnin var tilbúin til að taka áhættu. Það kom ekki aðeins fram í frumvarpinu sjálfu að þær skuldbindingar sem verið var að fara fram á við þingið að veitt yrði ríkisábyrgð fyrir væru háðar gríðarlega mikilli óvissu í framtíðinni heldur lá það efnislega í tillögunni sem ríkisstjórnin kom með í þingið að hún var tilbúin til að taka þá áhættu. Meðvitað var horft fram á það að þrátt fyrir þá gríðarlegu áhættu sem var verið að setja þjóðina í lagði ríkisstjórnin það til að sú áhætta yrði tekin, það átti að gambla með þetta mál. Þingið sagði nei. Þingið sagði: Það kemur ekki til greina. Og það sjónarmið sem þingið hefur komið inn í málið, t.d. um það að við fáum efnahagslegt öryggisnet í þetta mál, eru auðvitað sjónarmiðin sem ríkisstjórnin átti að halda uppi í viðræðunum við Breta og Hollendinga og ef ekki náðust samningar á skynsamlegum nótum sem taka tillit til þarfar okkar til að endurreisa efnahagskerfi okkar átti að sjálfsögðu aldrei að gera neinn samning. Ég held að það sé meginniðurstaðan eftir þessa umræðu að það er eðlilegt að samningarnir verði endurgerðir. Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að þessi niðurstaða hlýtur að leiða til þess að viðræður verði teknar upp við Breta og Hollendinga og að mínu áliti væri eðlilegt að þær viðræður mundu leiða til þess að samningarnir yrðu aðlagaðir að þeim skilaboðum sem eru að koma héðan, þannig að samningurinn endurspegli samkomulag á milli aðila um efnisatriði en séu ekki í reynd einhliða kröfur viðsemjenda okkar sem við höfum fallist á en veitt síðan stórkostlega takmarkaða ríkisábyrgð fyrir. Það er ekki þannig sem menn eiga að komast að niðurstöðu í jafnstóru máli og þessu.

Ég ætla líka að leyfa mér að taka undir með hæstv. forsætisráðherra þegar hún segir: Bretar og Hollendingar eiga að horfast í augu við það að kröfurnar sem Alþingi er að gera eru sanngjarnar og eðlilegar og þeim beri að fallast á þær. Það er með engu móti hægt að réttlæta það að taka að nýju upp kröfu um að Íslendingar fallist á ábyrgð á þessum lánasamningum án tillits til þess hvernig efnahagslífið þróast næsta áratuginn eða svo. Það er með engu móti hægt að gera það. Ef það verður krafa Breta og Hollendinga eftir það sem á undan er gengið, þá segi ég skýrt og skorinort: Þá verðum við að fá úr því skorið fyrir hlutlausum dómstólum hverjar skuldbindingar okkar eru á grundvelli Evróputilskipunarinnar eins og hún er rétt túlkuð. Ekki eins og Evrópuþjóðirnar vilja túlka tilskipunina þegar mest ríður á að þeirra sjónarmið verði ofan á.

Við munum styðja breytingartillögur sem liggja fyrir í málinu en ábyrgðin á þessu máli eins og það er vaxið og vegna órjúfanlegra tengsla ríkisábyrgðarinnar og samninganna sjálfra mun ríkisstjórnin sjálf og stjórnarflokkarnir þurfa að bera málið uppi.



[09:21]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Fyrirvararnir við Icesave-samningana sem nú eru til umræðu styrkja vissulega stöðu okkar og breyta málinu til mikilla muna en þeir eru afleiðing tíu mánaða þrotlausrar baráttu gegn þeirri niðurstöðu sem lengst af stefndi í. Það er ekki langt síðan ríkisstjórnin féllst yfir höfuð á að gera nokkra fyrirvara við þessa samninga. Upprunalega, á meðan þúsundir mana mættu á Austurvöll til að gera verulegar athugasemdir við allt í þessu máli, var lögð fram tillaga að fyrirvörum sem ekkert hald var í. Það var brugðist hart við því og fyrirvararnir smátt og smátt löguðust og reynslan hefur verið sú að í hvert skipti sem málið er skoðað betur, ef menn gefa sér bara tíma til þess að fara aðeins betur yfir það, finna þeir nýja og nýja galla.

Eftir 2. umr. benti Framsóknarflokkurinn á að það væri mjög óljóst hvort lagalegir fyrirvarar mundu yfir höfuð halda. Flokkurinn fékk úr sumum áttum gagnrýni fyrir að vera ekki með í samstöðunni. Það er ekki hægt að mynda samstöðu um óásættanlega niðurstöðu og nú hefur komið á daginn að sú niðurstaða sem þá stefndi í var algjörlega óásættanleg. Og enn berast ábendingar um gallana á þessum samningum. Síðast í nótt var ég að ræða við menn sem voru búnir að finna enn fleiri galla og enn fleiri hættur, m.a. mann sem vinnur hjá stórum bandarískum banka. Hann tók upp á því hjá sjálfum sér, eins og svo margir í samfélaginu, að skoða samningana vegna þess að hann treysti ekki stjórnvöldum fyrir verkefninu. Hann fann á þeim verulega galla og telur þá svo stóra að við ættum að fresta umræðunni í dag.

Hér er ekki svigrúm til þess að fara yfir þær ábendingar, hér ekki svigrúm til þess að fara yfir neinar af þeim fjölmörgu ábendingum sem komið hafa á síðustu dögum og það svigrúm var ekki einu sinni gefið í nefndinni þrátt fyrir fyrirheit þar um. Þess í stað hefur þetta mál verið keyrt í gegn af svo miklum ákafa að það er ekki einu sinni einn einasti maður með menntun í enskum lögum búinn að lesa samningana yfir eða fyrirvarana sem Alþingi er að gera. Það er ekki einn einasti maður með menntun í þeim lögum sem eiga að gilda um samningana búinn að skoða þá fyrir Alþingi og það er ætlast til þess að við göngum frá samningunum við þessar aðstæður.

Ég veit fyrir víst að það unnu margir í alla nótt við að leita leiða til þess að laga samninginn nú á lokastundinni. Það er ekki víst að gefið verði færi á því hér og þar af leiðandi tel ég að eina raunhæfa lausnin sé sú að fella þessa tillögu að ríkisábyrgð svo taka megi upp þráðinn að nýju, gera nýjan, bærilegan samning, því að allt í þessu máli hefur verið rangt, vinnan í upphafi, kynningin, fullyrðingarnar síðan þá og hugarfarið og nú stefnir í að niðurstaðan verði röng líka.

Strax er byrjað á því að reyna að endurskrifa söguna þó að öllum sé enn í fersku minni hvernig þetta mál kom inn í þingið og allir viti af því og muni eftir umræðunni um að þingmenn áttu ekki einu sinni að fá sjá samningana, hvað þá almenningur. Nei, nú er reynt af alveg ótrúlegri óskammfeilni að halda því fram að alltaf hafi staðið til að gera lagfæringar á þessum afleitu samningum. Það stóð svo sannarlega ekki til og það þurfti mikla baráttu, m.a. innan úr ríkisstjórninni, til að það tækist.

Þessir samningar standa engu að síður áfram ef þetta verður niðurstaðan og þeir hafa verulegar afleiðingar. Tölur eins og þær sem við erum að tala um hér hafa miklar félagslegar afleiðingar og jafnrisavaxnar tölur og birtast í Icesave-samningunum munu hafa miklar félagslegar afleiðingar á Íslandi. Þess vegna er lagt í þessa miklu baráttu og þess vegna höfum við talað um þetta mál svona lengi þó að margir séu eflaust orðnir leiðir á því.

Ég hef nefnt til samanburðar niðurskurðinn í lögreglunni þar sem einungis 13 klukkutíma vextir af Icesave-samningunum í niðurskurði í lögreglunni hafa sett þar allt á annan endann. Það leiðir hugann líka að því að afleiðingarnar ná miklu lengra því að hér er um að ræða útgjöld í erlendri mynt sem margfaldast í áhrifum á hagkerfið. Lögreglumaður sem ekki fær launin sín þarf að fara á atvinnuleysisbætur. Hann getur þá kannski ekki keypt skólabækur og því er hætta á því að einhver sem seldi skólabækurnar, skrifaði þær eða prentaði þær missi vinnuna. Afleiðingarnar af því að útdeila hundruðum milljarða kr. fyrir ekki neitt eru verulegar og miklu hærri en upphæðin gefur til kynna. Þetta er eitt af því sem hefur ósköp lítið verið skoðað í þessari umræðu.

Annað sem lítið hefur verið skoðað er möguleikinn á skuldajöfnun, sem kom reyndar aðeins til umræðu á síðustu stigum málsins. Bent var á að að sjálfsögðu ættu Íslendingar að halda á lofti þeim rétti sínum að skuldajafna við Breta, því að við skulum hafa það í huga að hér er ekki um það að ræða að Íslendingar séu að fara að endurgreiða innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Það er búið að endurgreiða allar þær upphæðir sem stendur til að greiða þar. Hér stendur til að borga breska og hollenska ríkinu, borga sama breska ríki og beitti Íslendinga hryðjuverkalögum sem höfðu óumdeilanlega í för með sér tjón upp á hundruð milljarða kr. Íslendingar hafa ekki reynt að verja sig hvað það tjón varðar. Nú er tækifæri til þess, það tækifæri virðist eiga að fara forgörðum eins og svo mörg önnur tækifæri í þessu máli og til hvers? Til þess að fá einhver viðbótarlán, halda áfram skuldsetningunni, þeirri skuldsetningu sem búin er að koma þjóðinni í þann vanda sem hún er í nú.

Það er mikill misskilningur ef menn halda að þeir geti endurheimt traust með því að játa á sig sakir umfram tilefni. Menn fá ekki klapp á bakið með því að lúta í gras, ekki frekar en barn á skólalóð, sem niðurlægir sig til þess að reyna að ganga í augun á eldri nemendum, kemst nokkurn tíma í þeirra hóp. Íslendingar ættu að þora að standa á rétti sínum, einungis þannig getum við verið upprétt í margumtöluðu alþjóðasamfélagi og einungis þannig verðum við tekin alvarlega.

Það sem við höfum séð í þessu máli eru ekki bara vinnubrögð sem eru algjörlega óásættanleg af hálfu löggjafarþings, við höfum líka séð hættulega þróun í hugarfari. Dyggðum er snúið á hvolf. Það má ekki lengur tala um stolt, það er frekar reynt að gera lítið úr fyrri afrekum þjóðarinnar til þess að gera aumingjaskapinn nú bærilegri. Sagan er endurskrifuð, sagt að aðstæður hafi verið allt aðrar hér áður fyrr. Í sjálfstæðisbaráttunni hafi þetta ekki verið svona erfitt vegna þess að þá voru utanaðkomandi aðstæður öðruvísi, jafnvel þorskastríðin hafi verið miklu auðveldari en þetta vegna þess að utanaðkomandi aðstæður hafi verið öðruvísi. Þetta er sögufölsun og einungis til þess gerð að menn geti betur sætt sig við þann aumingjaskap sem þeir sýna í málinu núna.

Ég ætla ekki að taka þátt í að gera lítið úr afrekum þjóðarinnar í fortíðinni til að gera aumingjaskap núverandi ríkisstjórnar bærilegri. Við ættum frekar að líta til þeirra afreka sem þessi þjóð hefur við miklu erfiðari aðstæður en nú náð fram. Íslendingar voru ekki nema á bilinu 50–70 þúsund á 19. öldinni þegar þeim þótti sjálfsagt að landið yrði sjálfstætt ríki þó að í heiminum væru ekki nema u.þ.b. 20 sjálfstæð lönd, hvert þeirra milljóna stórríki. Þá þótti 50 þúsund Íslendingum ekkert sjálfsagðara en að við fengjum sjálfstæði og þeir voru tilbúnir að berjast fyrir því og taka mikla áhættu og jafnvel tilbúnir að vitna í 600 ára gamla sáttmála máli sínu til stuðnings. Ætli einhverjum þætti ekki hallærislegt núna ef farið væri að vitna í 600 ára gamla sáttmála?

Þess þarf ekki. Það nægir að vitna í núgildandi lög Íslands og Evrópusambandsins en menn eru ekki einu sinni tilbúnir til þess. Árið 1918 þegar þjóðin fékk loksins fullveldi voru hér innan við 100 þúsund manns. Margir höfðu afskaplega litla trú á því að 100 þúsund manns hefðu nokkuð við sjálfstæði að gera og áhættan sem því fylgdi væri allt of mikil. Ef það hugarfar sem hefur verið ríkjandi af hálfu meiri hluta ríkisstjórnarinnar í þessu máli hefði ráðið för væri Ísland ekki enn orðið sjálfstæð þjóð.

Ég veit að það má líklega ekki tala um þorskastríðin en ég ætla samt að nefna þau vegna þess að það hefur verið gert frekar lítið úr þeim til þess að réttlæta gjörðirnar nú, en ætli áhættan hafi ekki verið töluverð þá þegar menn fóru í stríð við eitt mesta herveldi heims og langstærsta útflutningsmarkað Íslands? Ætli efnahagsleg áhætta hafi ekki verið mikil svo ekki sé minnst á líf og limi? Menn létu sig hafa það vegna þess að þeir höfðu stolt og ætluðu ekki að lúta í gras.

Nú virðist því miður um stund úrtölufólk, sem alltaf hefur verið til í gegnum þessa sögu sem ég rakti, ætla að verða ofan á. En það er einungis þegar slíkar raddir hljóðna sem Íslandi vegnar fram á veginn. Þörfin fyrir að kveða niður slíkar raddir hefur sjaldan verið jafnmikil og nú.



[09:30]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að færa þakkir þeim nefndarmönnum og þingnefndum sem sumar hafa lagt mikla vinnu á sig í þessu máli. Þar hefur mest mætt á fjárlaganefnd og ég endurtek að sjaldan, ef nokkru sinni, hefur þingnefnd fengið stærra og umfangsmeira mál í hendur og lagt jafnmikið á sig við að reyna að vinna það vel og af samviskusemi fram til farsællar lausnar. Það eiga allir sem þar hafa lagt hönd á plóginn þakkir skildar, fulltrúar bæði meiri hluta og minni hluta, og auðvitað ekki síst formaður nefndarinnar sem og þeir nefndarmenn aðrir í utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd sem einnig lögðu mikla vinnu í þetta mál.

Þetta er vissulega stórt og erfitt mál og engu okkar gleðiefni sem að því hefur þurft að koma. Hér hafa fallið mörg stór orð, og miklar túlkanir og söguskýringar hafa verið uppi hafðar. Það er athyglisvert að þær hafa aðallega verið um lánasamninginn og tilraunir til að leysa úr málinu en minna um vandamálið sjálft. Orka manna hefur farið, að því er virðist, mjög í það á lokasprettinum að færa umræðuna, athyglina og sökina af vandamálinu sjálfu, þeim sem bjuggu það til, þeim sem bera á því ábyrgð, pólitíska, efnahagslega og með störfum sínum, sérstaklega í viðkomandi banka, yfir á þann hluta ferlisins sem hefur miðað að því að leysa málið.

Ég tel ekki að sú söguskýring muni halda lengi, að gera þá að sökudólgum í þessu máli sem hafa að því komið að reyna að leysa það. Að sjálfsögðu má deila um það og gagnrýna hvernig þar hefur tekist til, allt frá byrjun, allt frá því að hrunið varð og menn urðu við ógnarerfiðar aðstæður að bregðast við og taka ákvarðanir sem eftir á að hyggja hefðu kannski mátt vera öðruvísi, en það tökum við ekki upp. Liðið er liðið. Við færum klukkuna ekki til baka, hversu mikið sem við vildum. En það er að sínu leyti ánægjulegt að umræðan hér hefur þróast þannig eins og heyra mátti í ræðum áðan og í gær að flestir telja sig hafa náð miklum árangri, að málið hafi verið betrumbætt og að stjórnarandstaðan, jafnvel Framsóknarflokkurinn sem ekki hefur þó staðið að breytingum á málinu, telur sig hafa náð miklum árangri með málflutningi sínum og störfum. Það er gott. Þá geta væntanlega flestir verið ánægðir ef þeir telja að þeir hafi náð að leggja gott af mörkum með störfum sínum og flestir séu jafnvel orðnir einhvers konar sigurvegarar í málinu — nema náttúrlega ég, að allir séu í raun og veru sigurvegarar í þessu nema ég. Og þá skal því lýst yfir hér að ég tek það hlutskipti að mér með glöðu geði að vera eini maðurinn sem ekki er sigurvegari í þessu ferli. Og verður mér þá hugsað til Holta-Þóris og veislunnar forðum þar sem stefndi í mikið óefni með að raða mönnum eftir tignarröð til sætis, en þá var það hann gamli Holta-Þórir sem leysti vandann því að hann settist ystur virðingarmanna, eins og það var orðað í bókinni, og þótti þá öllum gott að sitja þar sem þeir voru. Ég skal vera Holta-Þórir þessa máls og setjast fjærst háborðinu ef það gleður aðra. Og eru þá allir sáttir við sitt hlutskipti.

Mér hefur aldrei gengið neitt annað til í þessu máli en eitt, að leysa það. Það verður að gera, undan þessu komumst við ekki og það hefur legið fyrir lengi að verkefnið væri að leita að skástu mögulegu lausninni á þessu vandamáli þannig að það væri úr vegi og við kæmumst áfram með okkar endurreisnarstarf. Það er eðlilegt að þetta mál sé umdeilt og erfitt og það gat aldrei orðið annað, það gat aldrei komið heim lítill og sætur samningur til að leysa stórt og vont mál. Þannig er um hnútana bundið.

Það er ástæðulaust að ætla nokkrum þeim sem að þessu hefur komið að hafa gert það á öðrum forsendum en þeim sem hann taldi best í þágu íslenskra hagsmuna. Ég kvarta undan engu sem um mig er sagt í þessum efnum, en það eitt sárnar mér þegar reynt er að gera saklausa fjarstadda embættismenn og fulltrúa Íslands í þessu erfiða máli að sökudólgum með ómaklegum hætti, fólk sem ekki er hér til að bera hönd fyrir höfuð sér úr ræðustóli á Alþingi og hefur ekkert annað gert en að vera fulltrúar stofnana sinna og ráðuneyta eða stjórnvalda í erfiðu viðfangsefni og reyna að gera þar sitt allra besta. Það er ekki uppbyggilegt og þjónar engum tilgangi að draga þessa hluti upp þannig eins og þetta væri kúrekamynd í vestrinu, að í þessari mynd séu tvenns konar leikarar, góðir menn og vondir menn, þjóðhollir menn og aðrir sem eru það þá væntanlega ekki, hetjur og aumingjar og skúrkar hinum megin. Þannig er myndin ekki og ég held að smátt og smátt muni ræðuhöld byggð á þeim grunni dæma sig sjálf.

Hér er eitt mjög mikilvægt sem við verðum auðvitað að hafa að leiðarljósi umfram aðra hluti, raunsæi. Það þýðir ekkert annað en að horfast af raunsæi í augu við aðstæður okkar og þann vanda sem okkur hefur borið að höndum og horfa af raunsæi á möguleikana til að greiða úr þeim hlutum. Óskhyggja kemur okkur ekkert áleiðis í þeim efnum, málflutningur sem byggir á því að veruleikinn sé einhvern veginn öðruvísi en hann er eða að við séum stödd einhvers staðar annars staðar en við erum. Þessu breytum við ekki. Úr okkar aðstæðum verðum við að vinna af raunsæi og í viðurkenningu þess að við erum hér og nú stödd þar sem við erum, þessum mánuðum eftir hið skelfilega hrun, og þurfum að vinna úr þeim hlutum áfram. Alþingi fól framkvæmdarvaldinu í desember að leiða þetta mál til lykta með samningum. Þá þegar höfðu menn gengist undir það að ekki var annað í boði en pólitískt samkomulag sem leið út úr þessu máli og henni er verið að landa hér á þann besta hátt, að ég tel, sem aðstæður bjóða upp á. Og það skal vera alveg skýrt af minni hálfu að ég tel að sú umgjörð sem Alþingi er hér að setja utan um þetta mál sé til bóta, hún styrki stöðu okkar, sérstaklega þegar eða ef á það reynir að virkja þurfi endurskoðunarákvæði samninganna, þá sé það styrkur að við höfum sett þessa hluti í efnahagslega og að hluta lagalega umgjörð sem er málefnaleg og sanngjörn, sem á að vera hægt að útskýra og réttlæta gagnvart viðsemjendum okkar. Það verkefni bíður og við verðum bara að vera vongóð um að menn hafi skilning á því að það er svona sem Alþingi Íslendinga og íslensk stjórnvöld telja að við getum staðið við skuldbindingar okkar í þessum efnum.

En það er auðvitað framtíðin sem öllu skiptir. Við getum rætt lengi, mörg sumur þess vegna, um liðna atburði og það sem við erum að fást við dag frá degi, en það er framtíðin sem skiptir öllu máli. Þar vonum við auðvitað að við séum að efna til farsællar lendingar í þessu máli sem og að búa okkur í haginn til að takast á við allt það annað sem við er að glíma og ég spái að muni nú fanga athygli þjóðarinnar mjög á næstum vikum, mánuðum og missirum og umfram þetta mál.

Það eru erfiðleikar yfirstandandi, við höfum orðið fyrir miklu áfalli, við höfum verk að vinna í þeim efnum, það eru erfiðir tímar fram undan, það er erfiður vetur fram undan — en framtíðin er líka björt. Framtíðin er líka björt á Íslandi. Hún er það vegna þess að við höfum alla möguleika, alla burði og öll efni til þess að vinna okkur í gegnum erfiðleikana. Það er rétt sem hér var sagt, ef við skoðum núverandi aðstæður og erfiðleika í sögulegu samhengi og berum það saman við ýmislegt sem þjóðin á erfiðum tímum á umliðnum áratugum og öldum stóð frammi fyrir er okkur auðvitað engin vorkunn nú með öll þau efni sem við höfum, úrræði og möguleika, að vinna okkur í gegnum þetta. Engin vorkunn. Með okkar ríku auðlindir, uppbyggða samfélag, sterku innviði, góðu menntun og dugnað og þor er okkur ekkert að vanbúnaði að halda nú áfram að afloknu þessu máli og takast á við erfiðleikana af fullum krafti, vonandi í sem mestri samstöðu, að sjálfsögðu, því að hver óskar sér ekki hennar ef hún er í boði? Á hinn bóginn skulu sjálfstæðismenn og aðrir ekki hafa neinar áhyggjur af því að það er ríkisstjórn í landinu sem er fullfær um að takast á við þessi verkefni og ætlar sér það, en hún er að sjálfsögðu þakklát fyrir alla aðstoð og stuðning og skilning sem hún fær í verkum sínum.



[09:41]
Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Er réttlætanlegt að ríkið taki að sér að axla ábyrgð á einkaskuld sem getur ef illa fer skert lífsgæði allra sem hér á landi búa? Er hæstv. forseti meðvitaður um þann skaða sem hljótast mun af þeirri ákvörðun að samþykkja samninginn?

Gámarnir bíða í hrönnum eftir búslóðum þeirra sem geta ekki réttlætt það fyrir sér að búa hér lengur ef þetta verður samþykkt. Fólkið sem er að fara er fólkið sem getur farið. Fólkið sem er að fara mun sennilega ekki koma aftur, ef fer sem fer. Fólkið sem er að fara ætlar að taka fyrirtækin sín með sér, menntun sína, starfsreynslu sína, börnin sín, framtíðarskatttekjur.

Innra með mér er uggur því að ég veit að þetta er dropinn sem fyllir mælinn, þetta er dropinn sem fær fólk til að bregðast við. Þetta snýst nefnilega ekki bara um góðan eða vondan samning, þetta snýst um grundvallaróréttlæti, um grundvallarsjálfsvirðingu þjóðar sem er orðin örmagna af fréttum um spillingu og krosseignatengsl viðskipta, þingheims, fjölmiðla, þetta snýst um að nokkrum mönnum tókst með aðstoð sofandaháttar heils stjórnkerfis að hneppa þjóðina í fjötra fátæktar og bágra lífsgæða. Þetta snýst um sundraðar fjölskyldur og mannslíf. Þetta snýst um sjálfsvirðingu þjóðar.

Það að láta undan þeirri kúgun sem við erum beitt af hálfu breskra yfirvalda með því að samþykkja þó svo breyttan nauðungarsamning þar sem skuldum einkaaðila er velt yfir á alla landsmenn að þeim forspurðum er óásættanlegt. Fólk upplifir þetta sem hina algjöru niðurlægingu. Sá óttaáróður sem hefur viðgengist í kringum þetta mál hefur haft sín áhrif á marga þingmenn sem munu greiða atkvæði með málinu og samþykkja með því að það sé réttlætanlegt að almenningur taki á sig skuldir einkaaðila.

Sumir halda því fram og trúa því að þessar skuldir hverfi eins og dögg fyrir sólu eftir sjö ár. Sumir ráðherrar hafa talað um töframenn þegar þeir hæðast að þingmönnum fyrir að vilja allsherjaraðgerðir fyrir heimilin í landinu. Þessir sömu ráðherrar hafa látið það í veðri vaka að Icesave-skuldbindingin hverfi — manni verður oft hugsað til galdrakarlsins í Oz þessa dagana þegar maður horfir upp á þær sjónhverfingar sem viðgangast á þessum ágæta stað.

Frú forseti. Láttu ekki blekkjast þó að sumarið hafi verið rólegt úti á Austurvelli, réttláta reiðin vex að nýju þegar myrkrið hefur innreið sína á vetrarmánuðum. Reiðin hefur farið stigmagnandi eftir því sem það hefur orðið deginum ljósara að sumarþingið snerist fyrst og fremst um ESB og Icesave en ekki neyðaraðgerðir fyrir almenning.

Í dag hefði ég viljað spyrja ríkisstjórnina hvað hún ætlar að gera fyrir þá sem eiga ekki fyrir mjólk, fyrir þá sem geta ekki farið í skóla vegna fátæktar, fyrir þá sem sjá engan tilgang með því lengur að borga í svartholið sem engan enda virðist ætla að taka. Í dag hefði ég viljað sjá vonarneista til handa þjóðinni minni, ég vona með sanni að þegar þessi ríkisábyrgð verður samþykkt glati fólk ekki voninni, heldur muni að það er alltaf dimmast fyrir dögun. Það sem hefur fengið mig til að sjá smávon í þessu Icesave-svartnætti er að þingheimi tókst að vinna saman að því að gera vondan hlut betri. Þingmenn hófu sig ofar flokkapólitík og lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til að tryggja samstöðu um fyrirvara á þessum handónýta samningi sem samninganefndin færði þjóðinni. Hann er sannkallaður köttur í sekknum. En gleymum því ekki að þessir fyrirvarar eru nauðvörn, þessir fyrirvarar ættu að fella samninginn ef allt væri hér með felldu og það vona ég svo sannarlega að þessir fyrirvarar muni gera. Það þarf nefnilega að senda fólk út að semja sem getur valdið því. Ég legg svo til og mæli með, frú forseti, að næst verði Buchheit fenginn til verksins ef hann er enn fáanlegur til þess.

Frú forseti. Ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þennan nauðasamning þó að ég muni heils hugar styðja þá fyrirvara sem hér verða lagðir fram. Mér finnst sú vinna sem átti sér stað við gerð fyrirvaranna mikilvægur grunnur að nýju samkomulagi. Ef við fáum bestu mögulegu samningamenn til að semja upp á nýtt held ég að við getum átt von á því að geta staðið uppi með glæsilega niðurstöðu, niðurstöðu sem tryggir að þeir sem efndu til þessarar skuldar verði einir látnir axla ábyrgð á því fjárhagslega tjóni sem þeir hafa valdið þjóðinni.

Sú vinna sem þingmenn lögðu á sig mun nýtast og er vonandi upphafið að breyttum vinnubrögðum á þinginu þar sem fólk úr öllum flokkum hefur einsett sér að nýta sér þá þekkingu, fagmennsku og yfirsýn sem má finna innan allra flokka. Gleymum því ekki að við erum alltaf fyrst og fremst að vinna að þjóðarhag þó að áherslur okkar séu oft mjög ólíkar. Með þeirri þverpólitísku vinnu sem átti sér stað í kringum Icesave-nauðvörnina höfum við sýnt að á ögurstundu er hægt að finna flöt á samvinnu sem við þurfum að viðhalda í kringum þau erfiðu mál sem eiga eftir að koma fyrir þingið á næstunni. Vinnan í kringum Icesave er fyrsti vísir að þeirri þjóðstjórn sem ætti að vera sett saman til að vinna þjóðina upp úr þeim erfiðleikum sem hún stendur frammi fyrir. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa lagt á sig mikla vinnu innan þings sem utan til að hægt væri að finna sem breiðasta sátt um fyrirvarana sem, eins og ég áður nefndi, eru mikilvægur grunnur að nýjum samningi.

Frú forseti. Mig langar að lokum að minna þjóðina okkar á að gefast ekki upp þrátt fyrir að ríkisábyrgðin verði samþykkt í dag. Við megum ekki gefast upp sama hvað er í gangi í kringum okkur. Segja má að við séum í sjálfstæðisbaráttu sem er rétt að byrja og við þurfum á ykkur að halda til að veita þinginu aðhald, til að berjast gegn þeim ofuröflum sem hafa hafið innreið sína inn fyrir landsteinana, þar verður okkur án efa AGS skeinuhættastur og hætt við, miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast, að við glötum auðlindum okkar í hendurnar á alþjóðafyrirtækjum sem eiga sér langa sögu í arðráni hjá knésettum þjóðum. Þessi orrusta er kannski töpuð, en þær blikur eru á lofti að orrusturnar verði fleiri og því skora ég á ykkur að gefast ekki upp, heldur beita ríkisvaldið þrýstingi, að það standi við gefin loforð um lýðræðisumbætur og alvöruuppgjör á þessu hruni. Haldið á lofti kröfunni um réttlæti, að heimilin fá alvörustuðning en ekki bómullargjaldþrot og tilsjónarmenn. Það er kominn tími á að ríkisstjórnin setji heimilin á oddinn, búi til það umhverfi og þær aðstæður að fleiri fyrirtæki rúlli ekki.

Það er kominn tími á að hefja endurreisnina.



[09:49]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Samkvæmt því sem fjármálaráðherra óskaði í upphafi þessa máls hef ég skoðað Icesave-samninginn á raunsæjan hátt og litið hann „real-pólitískum“ augum, allt eins og beðið var um. Ég hef haft ærinn tíma til að skoða þennan nauðungarsamning sem nú liggur fyrir ásamt fyrirvörum sem á síðustu vikum hefur verið klambrað saman af bestu meiningu. Mín niðurstaða er sú að Icesave-samningurinn sem lausn á vandamáli sem vissulega er til staðar sé verri lausn en vandamálið sjálft í rauninni. Því mun ég segja nei við þessum samningi ásamt öllum hinum vel meintu breytingartillögum og fyrirvörum þar að lútandi.