138. löggjafarþing — 17. fundur.
Siglingastofnun Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 75. mál (gjaldtökuheimild og sala sérhæfðrar þjónustu). — Þskj. 75.

[16:22]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/1996, um Siglingastofnun Íslands.

Frumvarpinu er ætlað að gera lagaákvæði um gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hefur heimild til að taka gjald.

Þau nýmæli sem í frumvarpinu felast eru í fyrsta lagi að í 4. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands geti aflað sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði. Skv. 4. mgr. er miðað við að þau gjöld skuli ákvörðuð í viðmiðunargjaldskrá sem Siglingastofnun setur og þar verði m.a. kveðið á um taxta á útseldri vinnu stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að sú gjaldskrá taki mið af markaðsverði þjónustunnar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greina skuli kostnað allra verkefna og á allur kostnaður vegna þessarar sérhæfðu þjónustu að vera fjárhagslega aðskilinn frá lögmætum verkefnum stofnunarinnar. Verkefni þau sem hér um ræðir eru fyrst og fremst innlend og erlend verkefni hafnasviðs Siglingastofnunar.

Í öðru lagi er það nýmæli að finna í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins að greina skuli allan kostnað allra verkefna, hvort sem fjármögnun byggist á sértekjum eða framlögum úr ríkissjóði. Þótt um nýmæli í lögum sé að ræða er ákvæðið í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur hjá Siglingastofnun í mörg ár.

Í ýmsum sérlögum er kveðið á um gjaldtöku fyrir þjónustu Siglingastofnunar. Í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins eru taldir upp þeir kostnaðarliðir sem gjöldunum er ætlað að standa undir. Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur margsinnis verið bent á óskýrar gjaldtökuheimildir, m.a. að óljóst sé hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir og er ætlunin að bæta úr því með breytingunni.

Þá er í 5. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. kveðið á um gjaldtöku sem byggir á sérlögum og er ætlað að standa undir rekstri og framkvæmdum á vegum Siglingastofnunar Íslands. Um er að ræða gjöld sem lögð eru á án þess að sérgreint endurgjald komi á móti.

Varðandi það nýmæli sem ég minntist á hér fyrst, þ.e. að verkefnin vörðuðu fyrst og fremst hafnasvið Siglingastofnunar, er rétt að geta þess að hafnasvið sinnir fyrst og fremst lögboðnum verkefnum er lúta að rannsóknum og áætlanagerð svo og umsjón og eftirliti með þeim hafnargerðum og sjóvörnum sem ríkissjóður veitir fjármuni til. Auk þess sinnir hafnasvið verkefnum innan lands sem ekki eru lögbundin en sérhæfð á sviði hafnargerðar. Þannig nýtir Siglingastofnun þá sérþekkingu sem hún hefur í hafnargerð í þágu þeirra sem á þurfa að halda. Slík verkefni eru m.a. botnrannsóknir, dýptarmælingar, keyrsla sérhæfðra ölduforrita og hönnun hafnarmannvirkja.

Á undanförnum árum hefur aukist að leitað hafi verið til Siglingastofnunar um að taka að sér verkefni erlendis. Þau verkefni sem nú eru í gangi eru: Þátttaka í hönnun nýrrar hafnar á vesturströnd Ástralíu sem byggja á vegna útflutnings á járngrýti, ráðgjöf fyrir olíufyrirtæki í Miðausturlöndum, verkefni fyrir danskan verktaka sem byggir höfn á austurströnd Srí Lanka og forhönnun á brimvarnargarði á Kólaskaga í Rússlandi. Siglingastofnun hefur leitast við að nýta innlenda ráðgjafa til aðstoðar í þessum verkefnum.

Áður hefur stofnunin m.a. tekið þátt í byggingu brimvarnargarðs í Sirevåg í Jæren í Suður-Noregi og hönnun brimvarna fyrir móttökustöð fyrir jarðgas frá Snøhvit-svæðinu sem Statoil byggði við Hammerfest í Norður-Noregi.

Í ljósi framangreinds er mikilvægt að gjaldtökuheimild stofnunarinnar verði styrkt þannig að hún geti ótrauð haldið áfram verkefnum sínum, m.a. á erlendri grundu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.