138. löggjafarþing — 35. fundur.
fjáraukalög 2009, 2. umræða.
stjfrv., 10. mál. — Þskj. 10, nál. 263 og 319, brtt. 264 og 265.

[22:15]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum hér fyrir nefndarálit um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009 frá meiri hluta fjárlaganefndar. Frumvarpið var lagt fram hér fyrir nokkru síðan og kemur fram í þeirri yfirferð að ólokið er ýmsu í tengslum við fjáraukalagafrumvarpið, þ.e. það á eftir að ganga frá yfirfærslu á fjárheimildum frá 2008–2009. En eins og fram hefur komið og var unnið að í skýrslu í júnímánuði sl. voru allar innstæður sem stofnanir áttu í lok árs 2008 frystar og ekki veittar heimildir til að færa þær yfir áramót. Við bíðum eftir því að fá tillögur um þessa yfirfærslu.

Þá var líka ákveðið í tengslum við aðhaldsaðgerðir á miðju ári að stofnanir gætu ekki reiknað með sérstökum fjáraukaupphæðum að þessu sinni, menn yrðu að aðlaga stofnanir sínar að þeim fjárheimildum sem fjárlög veita.

Komið hefur fram í yfirliti um framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuðina frá Ríkisendurskoðun að það er nokkuð ljóst að einhverjar stofnanir munu lenda í vandræðum á árinu og er þá ástæða til að fara betur yfir það síðar. Fjárlaganefnd ritaði m.a. bréf til Ríkisendurskoðunar þar sem óskað var eftir frekari skýringum á þessari framkvæmd fjárlaga. Það svar hefur borist en hefur ekki unnist tími til þess að leggja það fyrir fjárlaganefnd. Það barst raunar til mín nú í dag.

Ég ætla að fara aðeins yfir álit meiri hluta fjárlaganefndar, nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar. Ég ætla að lesa innganginn, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir.

Meiri hlutinn hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni og gerir 25 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 7,822 milljörðum kr. til lækkunar.

Meiri hlutinn gerir tillögur um hækkun tekna að fjárhæð 1,609 milljarðar kr. á rekstrargrunni.

Nefndin mun á milli 2. og 3. umræðu kalla eftir frekari upplýsingum um einstaka málaflokka, svo sem frekari upplýsingum um vaxtagjöld ríkissjóðs.

Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu …“ sem hér fer fram.

Skýringar við einstakar breytingartillögur sem fluttar eru með frumvarpinu eru í fyrsta lagi: Æðsta stjórn ríkisins. Þar koma tillögur um framkvæmdir á Alþingisreit. Gert hafði verið ráð fyrir því í endurskoðun á fjárlögunum fyrir árið 2009 að lækka fjárveitingar til framkvæmda á Alþingisreit um 200 milljónir en nú er gerð tillaga um að þessi upphæð verði 150 millj kr., þ.e. dregið er aðeins úr niðurskurðinum. Er það samkvæmt tillögu frá forsætisnefnd Alþingis þar sem óskað er eftir fjárhæðum til þess að ljúka samningum í sambandi við fornleifauppgröft o.fl. sem tengist þessum framkvæmdum.

Annar liðurinn er Rannsókn á falli íslensku bankanna á árinu 2008. Það kom ósk um það frá rannsóknarnefnd Alþingis að veitt yrði 60 millj. kr. viðbótarframlag til nefndarinnar þar sem verkefnið hafði reynst umfangsmeira en áætlað hafði verið, bæði hvað varðar sjálfa rannsóknarnefndina og eins siðfræðihópinn sem starfar samhliða nefndinni. Eins og kunnugt er hefur rannsóknarnefndin óskað eftir því og fengið tíma fram til 1. febrúar til þess að ljúka sínum störfum. Það er tillaga meiri hluta fjárlaganefndar og í þeim breytingartillögum sem hér eru fluttar að veittar verði 60 millj. til rannsóknarnefndarinnar í viðbót við það sem áður hafði verið ákveðið.

Síðan er liður um fjárframlag til Ríkisendurskoðunar og er þar um að ræða 300 millj. kr. en það er upphæð sem fer út og inn, þ.e. það eru útgjöld og sértekjur því að þar er um að ræða endurskoðun á ársreikningum nýju bankanna. Eins og kunnugt er þarf að gera ráð fyrir slíkum fjárheimildum þótt ekki sé um viðbótaraukningu á útgjöldum að ræða.

Síðan kemur forsætisráðuneytið og eru nokkrir liðir í þessum breytingartillögum þar sem um er að ræða færslur á fjármagni vegna færslu á verkefnum á milli ráðuneyta. Úr forsætisráðuneytinu fara 4,5 milljónir vegna breytinga á verkefnum sem fara frá forsætisráðuneytinu yfir í nýja efnahags- og viðskiptaráðuneytið og sambærilegar færslur eru víðar í breytingartillögunum.

Hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu kemur fyrst Háskóli Íslands. Þar er um að ræða lágar upphæðir.

Síðan kemur framhaldsskólinn almennt þar sem óskað er eftir 150 millj. kr. framlagi. Lagt er fram í breytingartillögum frá meiri hlutanum 150 millj. kr. framlag vegna aukinnar sóknar í nám og fjölda nemenda í framhaldsskólum. Það kom í ljós að innritunin varð mun meiri en menn höfðu gert ráð fyrir og því er mætt að hluta með 150 millj. kr. framlagi til þess málaflokks.

Síðan eru ýmsar leiðréttingar. Menntaskóli Borgarfjarðar fær 20 millj. kr. framlag vegna húsnæðiskostnaðar. Það er bara í samræmi við samning sem gerður hafði verið en hafði ekki verið reiknaður rétt inn í fjárlögin.

Síðan eru nokkrir liðir en eins og menn muna kannski var afgreiðslan á fjárlögum mjög hröð í desember á síðasta ári. Hlutirnir gerðust þá hratt og kom í ljós að það voru nokkrir hlutir sem þá höfðu dottið út af borðinu, ef svo má segja, í afgreiðslu frumvarpsins. Það var leiðrétt með bréfi og samþykkt fjárlaganefndar í apríl, ef ég man rétt. Þar var ráðstöfun á fjárlagaliðum sem voru í raun í fjárlagafrumvarpinu sem var sundurliðuð á einstaka liði. Það er verið að staðfesta í tillögum meiri hlutans og í þeim breytingartillögum sem fylgja.

Það er í fyrsta lagi Fornleifavernd ríkisins. Þar var 1.3 millj. kr. framlag til fornleifarannsókna í Keldudal í Hegranesi. Það kemur fram í þessu bréfi.

Undir liðnum Söfn eru ýmis framlög. Átta millj. kr. framlag er til Síldarminjasafnsins, sem óvart hafði dottið út úr fjárlagaliðum, og síðan gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til Safnahússins í Búðardal sem er líka samkvæmt samningi þar sem upphæðin hafði dottið út þrátt fyrir samninginn.

Það þarf heimildir fyrir því ef menn vilja breyta, t.d. ef þeir hafa fengið fjárveitingar, eins og Bátasafn Breiðafjarðar sem hafði fengið 2 millj. kr. styrk á fjárlögum til byggingar á sýningarskála. Það óskar eftir að því verði breytt til þess að nýta til endurbyggingar á bátum. Sú heimild er veitt. Í öllum þessum tilfellum er ekki um að ræða viðbótarútgjöld heldur er verið að færa til eða ráðstafa peningum samkvæmt þeim heimildum sem voru í fjárlögunum.

Sama gildir um Húsafriðunarnefnd. Þar er lítil upphæð, 1,5 millj. kr. styrkur sem veittur var í fjárlögum 2009 til endurbóta á gamla rafstöðvarhúsinu á Bíldudal, færð yfir í Smiðjuna á Bíldudal.

Síðan kemur Skriðuklaustur með 3,5 milljónir og svo eru ýmis stofnkostnaðarframlög. Ég ætla ekki að fara yfir þessi atriði í smáatriðum eða telja upp alla þá liði sem þar eru. (Gripið fram í: Sjóræningjarnir.)

Þar á meðal eru Sjóræningjarnir ehf. — af því að það var kallað hér upp — sem fá 2 millj. kr. framlag í þessum lið, það er merk stofnun á Patreksfirði.

Varðandi dómsmála- og mannréttindaráðuneytið er liður sem á við um aðalskrifstofuna. Þar eru millifærslur á milli ráðuneyta.

Síðan eru ýmis verkefni, þar á meðal Slysavarnafélagið Landsbjörg. Gerð er tillaga um 15 millj. kr. framlag til Slysavarnafélagsins og er lokauppgjör á samningi varðandi fjölgun björgunarskipa um land allt. Þar er um að ræða samning sem átti eftir að fullnusta.

Síðan koma liðirnir Kirkjumálasjóður, Jöfnunarsjóður sókna og Sóknargjöld. Ég ætla ekki að fara í allar þær tölur.

Það eru stórar tölur í heilbrigðisráðuneytinu vegna viðbúnaður vegna farsótta. Þar er 130 millj. kr. hækkun á fjárheimildum vegna viðbúnaðar gegn heimsfaraldri vegna svínainflúensu til viðbótar við áður ákveðnar 358,9 millj. kr. Þar er aðallega um að ræða viðbót, tvær lungnavélar til gjörgæslunnar og fleira sem er sundurliðað þar.

Þá er það Fjármálaráðuneytið. Þar eru millifærslur á milli stofnana vegna færslu á milli ráðuneyta og þarna er um 61,6 millj. kr. að ræða í heildina. Það eru í fyrsta lagi 4 millj. kr. vegna samningaviðræðna við þau ríki sem gáfu vilyrði um lánalínur til Íslands. Í öðru lagi eru 30 millj. kr. vegna samningaviðræðna, sérfræðiaðstoðar og kynningarmála vegna Icesave-skuldbindinganna. Í þriðja lagi eru 9 millj. kr. vegna samninga milli nýju og gömlu bankanna, um yfirfærslu eigna og uppgjörs þeirra á milli. Og í fjórða lagi eru 48 millj. kr. vegna ráðgjafar á sviði bankamála og eignaumsýslu. Samtals er því gert ráð fyrir auknum kostnaði á þessu ári að fjárhæð 152,6 millj. kr. en á móti koma minni lækkanir.

Svo kemur liðurinn Ýmislegt. Þar eru þjóðlendumál og er bætt við 13,4 millj. kr. vegna þess að þar voru mál í gangi sem talið var rétt að ljúka. En eins og kunnugt er var hægt á allri vinnu við þjóðlendumálin í svokölluðum bandormi fyrr á þessu ári og átti að sparast þar verulegur peningur, en þarna koma 13,4 millj. kr. til baka vegna þess að menn vilja ljúka þeim málum sem voru í fullum gangi.

Síðan eru ýmis verkefni undir liðnum Ýmislegt og undir fjármálaráðuneytinu. Þar er gerð tillaga um 120 millj. kr. fjárveitingu vegna fyrirgreiðslu til Kaupþings banka hf. vegna málshöfðunar bankans fyrir breskum dómstólum. Eins og hv. þingmenn muna voru samþykkt 20. desember 2008 lög nr. 172/2008, um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði, í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008. Það var vegna þess að gerð var skoðun á því hvort Kaupþing banki gæti farið í mál út af hryðjuverkalögunum. Þetta er hlutur ríkisins samkvæmt þessum lögum.

Svo kemur kafli frá iðnaðarráðuneytinu. Þar eru lagfæringar, niðurgreiðsla á húshitun, undir þeim lið er 23 millj. millifærsla vegna vanda Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs. Ef ég veit rétt yfirtóku menn þá hitaveitu. Síðan eru ýmis orkumál, það eru ýmis verkefni sem eru í rauninni færð út og inn í fjárlögunum.

Þá er það efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þar er aðalskrifstofan þar sem lögð er til 9,7 millj. kr. hækkun og jafnframt eru þar flutningar á milli ráðuneyta og fleiri smærri tölur af svipuðum toga.

Síðan kemur liðurinn Ýmis verkefni. Þar er Eftirlitsnefnd Félags fasteignasala en lögð er til 19 millj. kr. lækkun á framlagi til liðarins. Í lögum nr. 18/2009 er gert ráð fyrir að ekki verði innheimt eftirlitsgjöld á árinu 2009 til að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala, eins og gert er ráð fyrir í 19. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004. Ástæðan er sú að nokkur sjóður hefur safnast upp þar sem gjaldið hefur skilað meiri tekjum en þörf var fyrir. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eftirlitsgjaldinu muni lækka um 19 millj. kr. á árinu 2009 og að fjárveiting lækki sem því nemur.

Lögð er til 7,7 millj. kr. hækkun hjá Hagstofu Íslands og er það aftur færsla á verkefnum á milli ráðuneyta og stofnana.

Síðan kemur liðurinn Vaxtagjöld ríkissjóðs þar sem lagt er til að fjárheimild vaxtagjalda verði lækkuð um 8,538 milljarða kr.

Ég ætla að lesa þann kafla því að þar er um að ræða verulega háa upphæð:

„Gert er ráð fyrir að fjárheimild gjaldfærðra vaxtagjalda lækki um rúma 8,5 milljarða kr. og að greiddir vextir lækki um 8,4 milljarða kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga. Forsendur hafa breyst að því leyti að nú er gert ráð fyrir því að fjármögnun ríkisins á viðskiptabönkunum verði mun minni en áður var reiknað með þar sem Íslandsbanki verður að mjög litlu leyti í eigu ríkissjóðs eftir endurskipulagningu í kjölfar þess að kröfuhafar yfirtaka bankann að mestu. Í upphaflegum tillögum var gert ráð fyrir að vextir yrðu greiddir af 300 milljarða kr. skuldabréfaútgáfu til endurfjármögnunar á bönkunum en nú er miðað við að útgáfan verði um 250 milljarðar kr. Er þá reiknað með að kröfuhafar eignist 95% hlutafjár í Íslandsbanka jafnframt því að ríkissjóður veiti bankanum 25 milljarða kr. víkjandi lán til að styrkja eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans. Vextirnir reiknast frá október 2008 þegar nýju bankarnir voru settir á fót. Verði einnig af því að kröfuhafar ákveði að eignast stóran meiri hluta í Nýja Kaupþingi minnkar þörf fyrir eiginfjárframlög enn frekar“ [en mér skilst að gengið hafi verið frá þessu í dag] „og má gera ráð fyrir að það gæti lækkað vaxtagjöld ársins 2009 um 6,7 milljarða kr. til viðbótar. Verði komin niðurstaða hvað það varðar áður en frumvarpið verður endanlega afgreitt á Alþingi kann því að verða tilefni til að lækka fjárheimild vegna vaxtagjalda sem því nemur.“

Eins og ég gat um í upphafi er hugmyndin að fara ítarlegar yfir vaxtagjöld ríkissjóðs og sundurliðanir á því og mun fjárlaganefnd gera þá tillögur í framhaldi af þeirri yfirferð. Raunar er þegar komin skýrsla frá fjármálaráðuneytinu sem þarf að leggja fyrir fjárlaganefnd og við þurfum að fara yfir þær tölur og fá ítarlegri upplýsingar.

Þetta eru að því leyti óvenjuleg fjáraukalög að ekki er hér löng upptalning á breytingum á fjárframlögum til einstakra stofnana en eins og mönnum er kunnugt hafa oft átt sér stað leiðréttingar eftir á sem nema milljörðum kr. fyrir einstakar stofnanir. Í þessu felst að sjálfsögðu sú áhætta að erfitt geti orðið fyrir stofnanir að standast fjárlög. En á það verður látið reyna þannig að menn beiti ýtrasta aðhaldi, enda ekki mikið svigrúm miðað við núverandi ástand að bæta í heldur þvert á móti verður allt gert til þess að reyna að draga úr útgjöldum til þess að við getum bætt skuldastöðu ríkissjóðs sem allra fyrst.

Með þessu nefndaráliti fylgja svo breytingartillögurnar frá meiri hluta fjárlaganefndar og er ekki ástæða til þess að fara frekar yfir þær en hér hefur verið gert.



[22:31]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að gleðjast yfir því að menn skuli hafa farið að skoða dagskrána pínulítið betur og flutt mál fram fyrir sem mikilvægara er að taka fyrir.

Hv. formaður fjárlaganefndar ræddi ýmislegt og það var mjög fróðlegt en það sem var fróðlegast var það sem ekki var rætt. Í fyrsta lagi að það skuli verið að eyða því sem eru óráðstafaðar fjárveitingar stofnana um áramót, það getur valdið því að forstöðumenn reyni eins og þeir mögulega geta að eyða því fyrir áramót þannig að það verði ekki svo mikið um áramót til að taka af þeim, því að þeir hafa væntanlega frestað einhverjum framkvæmdum vegna þess að það vantaði kannski iðnaðarmenn eða eitthvað slíkt og nú munu þeir drífa í því að koma þessu í lóg.

En það sem mig langaði að ræða eru þau tvö atriði sem mér finnst vanta. Það er í fyrsta lagi tónlistarhúsið, mér finnst vanta inn í þetta að það sé rætt um þær gífurlegu framkvæmdir sem þar eru í gangi. Það eru gífurlegar framkvæmdir, það er gífurlegur innflutningur og það er eins og enginn eigi að borga það. Þetta fellur undir þetta ár, frú forseti, þetta eru fjárveitingar þessa árs, alveg sama hvað menn kalla það, samning við eitthvert einkafyrirtæki.

Síðan er spurningin um Icesave. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skrifa undir samning um Icesave, tvo meira að segja. Alþingi er búið að samþykkja lög frá því í vor sem eru í gildi á Íslandi um að það veiti ríkisábyrgð með skilyrðum á þennan samning sem undirritaður var 5. júní. Hvað í ósköpunum veldur því að sá samningur upp á 700 milljarða er ekki inni í fjáraukalögunum? Hvernig stendur á því, frú forseti, að sú upphæð upp á 700 milljarða er ekki inni í fjáraukalögunum? Það er búið að skuldbinda ríkissjóð fyrir þessari upphæð með bæði undirskrift fjármálaráðherra og með fyrirvörum Alþingis frá því í sumar.



[22:34]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gætir einhvers misskilnings á milli okkar varðandi þetta sem færist yfir um áramót, ég var að tala um milli 2008 og 2009 af því að við frystum það sem þar var inni. Sú hefð hefur verið að menn gátu fært með sér upphæðir nánast ótakmarkað eða safnað inneignum og menn áttu inneignir upp á um 20–30 milljarða og það var stoppað að menn gætu nýtt það meðan við vorum að reyna að skipuleggja hagræðinguna hjá einstökum stofnunum. Það er tillaga núna inn í umfjöllunina í heild að menn fái að fara með yfir áramót um 4% en það þarf að festa þá reglu í sessi eða ákveða einhverja aðra reglu. Það hafa verið skoðanir í gangi um hvað megi fara með yfir en það er hægt að fullvissa menn um að þeir verði ekki látnir gjalda þess ef þeir gæta hagræðis innan ársins.

Hvað varðar hin málin tvö um tónlistarhúsið þá var það ein af þeim fyrirspurnum sem fóru til Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga á þessu ári og það er komið ítarlegt svar varðandi þann þátt. Það hefur ekki verið gengið endanlega frá með hvaða hætti slík skuldbinding er bókfærð í fjárlögum en varðandi Icesave þá er ekki búið að ganga frá samningum þar vegna þess að fyrirvararnir og lögin sem voru samþykkt á sínum tíma voru samþykkt með fyrirvara um að það væri afgreitt af Bretum og Hollendingum að þeir staðfestu þá. Öðruvísi gengur ríkisábyrgðin ekki í gildi. Það er hægt að upplýsa það hér og það hefur verið upplýst í fjárlaganefnd að það liggja fyrir hugmyndir um með hvaða hætti það eigi að bóka þessa skuldbindingu og það mun fjárlaganefnd að sjálfsögðu fara yfir, en þar skilst mér að hafi komið að bæði Ríkisendurskoðun, fjármálaráðuneytið og gott ef einhverjir fleiri voru ekki með áætlanir um hvernig ætti að bókfæra Icesave. En það segir sig sjálft að hvort tveggja tónlistarhúsið og Icesave þarf að sjálfsögðu að færa inn í fjáraukann þannig að það komi a.m.k. fram hvaða skuldbindingar við erum að taka á okkur þó að ekki verði stofnað til útgjalda á þessu ári umfram það sem er í fjárlögum.



[22:36]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það samkomulag sem fjármálaráðherra undirritaði bæði í júní og nú aftur í október skuldbindur ríkissjóð. Það er búið að setja lög á Alþingi um skilyrta ríkisábyrgð á þessari upphæð sem mér skilst að Bretar og Hollendingar gætu með einfaldri tilkynningu látið fara í gang. Reyndar er það þannig, herra forseti, að Bretar og Hollendingar hafa skrifað undir nýtt samkomulag og sumir hafa sagt að það sé ígildi þess að þeir hafni fyrirvörunum í þeim lögum sem eru í gildi. Þetta vildi ég gjarnan fá á hreint. En þarna er um að ræða þvílíkar upphæðir að bara vextirnir eru rúmlega 100 millj. á dag sem tikka út af Icesave og það er dálítið ankannalegt þegar menn eru að skera niður hér og þar, 10 millj. hér, 15 millj. þar o.s.frv. og það er verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu en á sama tíma dúndra menn út peningum út af tónlistarhúsinu. Ég veit ekki hvort það eru 10 eða 15 milljarðar samtals, ég þekki það ekki, og svo er það Icesave þar sem menn eru að borga 100 millj. á dag í vexti og taka svo upphæð sem eru 700, 800 eða 1.000 milljarðar til lengri tíma litið. Mér finnst að þetta þurfi að standa í fjáraukalögunum þannig að þjóðin viti hvað ríkisstjórnin er búin að skuldsetja börnin okkar mikið.



[22:38]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get bara ítrekað það sem ég sagði að það eru ekki hugmyndir um annað en að þessar skuldbindingar komi fram gagnstætt því sem oft hefur viðgengist áður. Þetta er þá í fyrsta skipti sem það kemur inn í fjárlög eða fjáraukalög hver skuldbindingin er en eins og ég sagði höfum við kallað eftir þessum upplýsingum. Það hefur verið talað um að það kosti 14,2 milljarða að ljúka tónlistarhúsinu. Við höfum fengið allar upplýsingar um það frá Ríkisendurskoðun og munum fara yfir það í fjárlaganefnd. En það er ljóst að það fellur ekki á ríkissjóð á þessu ári en eftir sem áður er það klár skuldbinding sem á síðan að borgast af rekstri hússins og svo með leigugjöldum sem þegar hafa verið gerð kunn. (PHB: Hver voru þau?) Ég man ekki upphæðina, ég held að það hafi verið um 350 millj. á ári eða eitthvað slíkt sem ríkið borgar sem framlag til tónlistarhúss í Reykjavík. Þetta eru allt saman ákvarðanir sem voru teknar einhver ár aftur í tímann en var ákveðið að ljúka m.a. með tilliti til atvinnuástandsins án þess að ég ætli sérstaklega að svara fyrir það.

Varðandi Icesave er það einfalt reikningsdæmi að taka heildarskuldbindinguna sem ég held að hafi verið reiknuð núna einhvers staðar innan við 700 milljarða og taka 5,5% af því og menn hafa verið að tala um að bóka skuldbindinguna, þ.e. vextina á þessu ári, þannig að menn séu með það inni í efnahagsreikningi að þetta er skuldbindingin en um leið lýsingu á því hvernig framgangurinn er ef Icesave-málið verður afgreitt og ríkisábyrgðin tekur gildi. Þetta mun þá væntanlega koma fyrir 3. umr. þannig að það verður þessi nýjung að menn færi ríkisábyrgðirnar inn í bókhaldið og ég held að það sé afar mikilvægt að menn haldi utan um það og láti þjóðina sjá hvaða skuldbindingar við höfum tekið á okkur.



[22:40]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju með það að við skulum vera farin að ræða önnur mál en hið svokallaða Icesave-mál og er ánægjulegt að stjórnarliðar sáu til sólar í því að gera bragarbót á því að verða við óskum stjórnarandstöðunnar um að koma þessum þörfu málum á dagskrá, en ég lýsi jafnframt yfir vonbrigðum með það við skyldum ekki hefja þessa umræðu um þetta mikla og stóra mál sem fjáraukalögin eru fyrr á þessum fundi því að hér eru mikil mál undir sem þyrftu alla jafna mjög ítarlega og góða og mikla umræðu. Engu að síður ber að fagna því að við erum þó komin með þetta mál fram.

Fyrst af öllu vil ég gera grein fyrir nefndaráliti sem 1. minni hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram en að því áliti standa auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Ólöf Nordal, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Það er alveg ljóst eftir yfirferð yfir frumvarpið og þær tillögur sem liggja fyrir og samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum þá hafa ekki öll fagráðuneyti eða fjármálastjórar fagráðuneyta komið að samningu þess og ekki er vitað um innihald þeirra breytingartillagna eða texta sem komu fram hjá ríkisstjórninni við framlagningu þeirra tillagna sem óskað var eftir að við tækjum fyrir. Þetta vekur upp spurningar um verklag við gerð fjáraukalaga og jafnframt fjárlaga og vísa ég þar með til þeirrar umræðu sem fór fram á Alþingi fyrir viku, tíu dögum síðan þar sem upplýst var um erindi frá iðnaðarráðuneytinu til fjárlaganefndar í tengslum við fjárlagagerð næsta árs. Jafnframt liggur fyrir að menntamálaráðuneytið hefur sent hugmyndir sínar til fjárlaganefndar varðandi fjáraukabeiðnir og tillögur sem lúta að fjáraukalagafrumvarpinu. Þetta er að minni hyggju ávísun á verklag sem ekki ber að ástunda við gerð þessara tveggja mikilvægu laga fyrir hagsmuni ríkissjóðs.

Almennt um frumvarpið má segja, ef ég dreg saman í nokkrum tölulegum staðreyndum helstu stærðir, að þá liggur fyrir að áætlað er að tekjur ríkissjóðs hækki um rúma 6 milljarða á rekstrargrunni og nema um 408 milljörðum kr. Gjöldin hækka um rúma 19 milljarða og verða alls samkvæmt þeirri áætlun sem hér liggur fyrir 574 milljarðar rúmir og samkvæmt því versnar tekjujöfnuður fjárlaganna um rétt rúma 13 milljarða kr. Áætlun fjárlagaársins gerði ráð fyrir að tekjujöfnuður yrði neikvæður um 153 milljarða en að meðtöldum breytingum á frumvarpi til fjáraukalaga, eins og þær standa nú, er þá gert ráð fyrir að tekjujöfnuðurinn verði neikvæður um 166 milljarða. Þar til viðbótar eiga að koma að mati 1. minni hluta þeir þættir og sú stóra fjárhæð sem gerð var að umtalsefni í andsvörum áðan sem lýtur að vaxtagreiðslum vegna Icesave og má áætla að nemi um 40 milljörðum kr.

Ég vil enn fremur nefna að það vantar mat eða upplýsingar um að hvaða marki aðgerðir bandormsins frá því í sumar um jöfnuð í ríkisfjármálum hafa náð til að bæta afkomu ríkissjóðsins en áætlunin gerði ráð fyrir að afkomubatinn yrði um 22,3 milljarðar kr. Ef maður leggur þetta saman má gera ráð fyrir því að endanleg útkoma á fjárlögum ársins 2009 eftir fjáraukalög verði niðurstaða um neikvæðan tekjujöfnuð upp á rúma 200 milljarða kr., 50–60 milljarðar umfram áætlun fjárlaga ársins. Það er náttúrlega þvílík stærð að hún hlýtur að kalla á töluvert vandaða vinnu, yfirlegu og upplýsingaöflun af hálfu fjárlaganefndar við gerð þeirra fjárlaga sem við kunnum að setja fyrir árið 2010.

Þess ber strax að gæta að fjármálaráðuneytið hefur ekki kynnt fjárlaganefnd enn þá skýrslu um framkvæmd fjárlaga það sem af er árinu. Þar af leiðandi hefur nefndin ekki verið í þeirri aðstöðu að rýna vel í þær upplýsingar sem henni er þörf á við vinnu sína. Hins vegar hefur Ríkisendurskoðun gefið út skýrslu um framkvæmd fjárlaga fyrir tímabilið janúar–ágúst 2009. Það ber að geta þess þó í því sambandi að þar er ekki tekið á öllum stofnunum eða fjárlagaliðum sem æskilegt hefði verið svo vinna fjárlaganefndar hefði getað gengið þokkalega hnökralaust fyrir sig.

Af því tilefni óskaði minni hluti eftir því við fjárlaganefnd að Ríkisendurskoðun yrði falið að afla tiltekinna upplýsinga og á það var fallist. Fjárlaganefnd sendi á þeim grunni Ríkisendurskoðun erindi þar sem óskað var eftirfarandi upplýsinga sem ég vil leyfa mér að lesa upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

Í fyrsta lagi að Ríkisendurskoðun geri nánari grein fyrir frávikum í tekjuuppgjöri ríkissjóðs en fram koma í skýrslu stofnunarinnar um framkvæmd fjárlaga janúar til ágúst 2009.

Í öðru lagi var þess óskað að leiddar yrðu fram þær skattbreytingar sem gerðar voru um mitt ár þar sem þær hafa ekki skilað nema hluta þess tekjuauka sem stefnt var að. Því er óskað eftir að Ríkisendurskoðun meti, eftir því sem kostur er, hve miklum tekjum skattbreytingarnar frá því í júní hafi skilað það sem af er árinu og komi til með að skila á árinu.

Í þriðja lagi var þess óskað að Ríkisendurskoðun gerði nánari grein fyrir vaxtatekjum og vaxtagjöldum ríkissjóðs með því að greina þau sérstaklega og bera saman við áætlanir.

Í fjórða lagi var þess óskað að Ríkisendurskoðun gerði nánari grein fyrir þeim ábendingum sem hún hafði sett fram um að aðhaldsaðgerðir sem boðaðar höfðu verið skiluðu ekki nægilegum árangri.

Í því ljósi að Ríkisendurskoðun hafði ekki svarað þessum upplýsingum þegar við gengum frá þessu nefndaráliti þá er mjög bagalegt að hafa þær ekki undir höndum í ljósi þess hversu mikilvægar þær eru ef við ætlum að vinna verk okkar af kostgæfni og ekki síst er þetta mjög bagalegt þegar haft er í huga hversu illa hefur tekist til um framkvæmd fjárlaga ársins 2010.

Samkvæmt tekjuáætluninni var gert ráð fyrir því að á tímabilinu janúar til ágúst yrðu tekjur um 282 milljarðar en þær reyndust rúmlega 276 milljarðar og þetta er neikvæð útkoma sem nemur 6 milljörðum kr. Þegar þetta er nánar rýnt kemur fram að í tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins fyrir árið í heild er gert ráð fyrir að skatttekjur verði 4 milljörðum hærri en áætlað var en vaxtatekjur af innstæðum í ríkissjóði í Seðlabankanum 25 milljörðum hærri en áætlað var þannig að þær bera uppi tekjuaukann sem spáð er að verði niðurstaða ársins 2009. Hins vegar verður að geta þess að að mati 1. minni hluta voru skýringar á þessu ekki nægilegar svo fjárlaganefndinni gafst því ekki kostur á því að átta sig á þeim frávikum sem þarna virðast vera á ferðinni.

Jafnframt liggur fyrir að það virðist ekki hafa náðst tilskilinn árangur í innheimtu nokkurra skatta. Og ég vil nefna það líka enn og aftur að fjárlaganefndin hefur ekki fengið í hendur greiningu á því hvernig þær tekjur sem bandorminum svokallaða var ætlað að skila hafa skilað sér.

Við viljum líka gera að umtalsefni í þessu sambandi að það er óumdeilt að töluverð óvissa ríkir um innheimtu tekjuskatta lögaðila þegar við höfum það í huga að þriðjungur fyrirtækja á í alvarlegum rekstrarvandræðum, þriðjungur þeirra er talinn hólpinn með réttri aðstoð og einungis um 30% fyrirtækja landsins eru metin þannig að þau þurfi ekki einhvers konar aðstoð.

Í þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að innheimta tekjuskattsins skili rúmum 3,5 milljörðum kr. til viðbótar við það sem áður var áætlað. Í ljósi þess sem ég greindi frá hér um mat stofnana á afkomu fyrirtækja landsins hlýtur að vera full ástæða til að gera fyrirvara við þann tekjuauka sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir í sinni tillögu sem hér liggur fyrir.

Þá ætla ég að hafa nokkur orð um halla ríkisstofnana. Í skýrslu fjármálaráðherra sem lögð var fram í lok júní í sumar, þar sem hæstv. fjármálaráðherra fjallaði um áætlanir ríkisstjórnarinnar um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, voru sett fram nokkur leiðarljós svokölluð. Þar vil ég gera að sérstöku umfjöllunarefni leiðarljós varðandi geymdar fjárveitingar. Í skýrslu hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneyti og stofnanir skulu haga rekstri sínum í samræmi við fjárheimildir gildandi fjárlaga, að teknu tilliti til sparnaðarkröfu og hallareksturs frá fyrri árum þar sem það á við. Rekstraráætlanir ársins 2009 eiga ekki að miðast við að notaðar verði óráðstafaðar fjárheimildir fyrri ára enda mundi halli ríkissjóðs þá aukast sem því nemur. Felldar verða niður verulegar afgangsfjárheimildir sem myndast hafa á undanförnum árum á tilteknum fáum liðum, m.a. vegna framkvæmda sem ekki hefur orðið af, og einnig fjárheimildir í rekstri stofnana sem ekki hafa verið nýttar og eru umfram tiltekið hlutfall af veltu í fjárlögum 2009.“

Í frumvarpi og tillögum meiri hlutans sem hér liggur fyrir er gerð grein fyrir þeirri lækkun upp á 1,8 milljarða kr. á fjárveitingum sem gert var ráð fyrir í bandorminum svokallaða. Að mati 1. minni hluta er nokkuð seint að leggja fram tillögur um skertar fjárveitingar nú þegar stofnanir hafa verið reknar allt þetta ár án þess að þeim sé gerð nánari grein fyrir skerðingunni og hvernig hún skuli framkvæmd. Að mati okkar er það gagnrýnivert hvernig málsmeðferðin hefur verið á þessu máli þar sem erfitt er og raunar illskiljanlegt að hægt sé að ætlast til að stofnanir nái markmiðum fjárlaga sem hafa ekki enn verið skýrð þegar einungis rétt rúmur einn mánuður er eftir af fjárhagsárinu. Eðlilegra hefði verið og í samræmi við fjárreiðulög að afgreiða í sumar, í júní, fjáraukalög sem tóku á þessari skerðingu samhliða setningu laga nr. 70/2009 sem var bandormurinn um jöfnuð í ríkisfjármálum.

Það er ýmislegt í þessu sem ber að nefna einfaldlega vegna þess að það eru mjög miklir ágallar við þetta leiðarljós og þessa áætlun ríkisstjórnarinnar. Nefna má í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir afturvirkni þessarar tilskipunar, ef svo mætti segja, þar sem fyrir liggur að ríkisstofnanir hafa gert áætlanir sínar fyrir árið 2009 með samþykki viðkomandi ráðuneyta og þetta er ekki búið að afgreiða og þess vegna hlýtur þetta að setja starfsemi þeirra í ákveðið uppnám.

Í öðru lagi vil ég nefna að þetta fyrirkomulag var sett á árið 1992 og að allra mati hefur þetta gengið í þokkalega góðu jafnvægi og þetta hafi verið framfaraskref og til bóta frá því fyrirkomulagi sem áður hafði gilt og mat þeirra sem um þessi mál sýsla í ríkisstofnunum er það að sú breyting sem hér er verið að leggja til geti hæglega leitt til þess að rekstrargjöldin eða ríkisútgjöldin verði meiri en ella.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem bent hefur verið á, m.a. af forstöðumönnum ýmissa ríkisstofnana, að í fjárreiðulögum, 37. gr. þeirra, er heimilt að geyma ónýttar heimildir sem stofnanir kunna að hafa safnað upp með aðhaldi og hagræðingu í rekstri sínum og það er skilyrt að engin breyting verði gerð á þessu nema bæði hæstv. fjármálaráðherra og viðkomandi hæstv. fagráðherra samþykki það og komi til ráðs um þá ráðstöfun.

Hins vegar eru í því frumvarpi sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn leggur fram reifaðar ákveðnar hugmyndir um það hvernig taka beri á þessum halla. Þá er rætt um það að ráðuneyti og viðkomandi stofnanir eigi að komast að samkomulagi um að greiða niður halla viðkomandi stofnana á nokkrum árum. Rétt er að gjalda varhuga við þessum áformum einfaldlega vegna þess að samkvæmt fjárreiðulögunum er stofnunum í A-hluta ríkissjóðs óheimilt að vinna með þeim hætti að þær séu reknar með halla nema að tilteknum þeim heimildum sem fyrir liggja. Það er mat 1. minni hluta að gæta beri að þeim lögum og reglum sem um þessi mál fjalla og gilda áður en nokkuð er ákveðið í þessum efnum og þá liggur í hlutarins eðli að það þarf að staðfesta breytingu á viðkomandi lögum og reglugerðum áður en heimilt er að grípa til þeirra ráðstafana sem frumvarpið boðar. Þetta ber að hafa í huga og 1. minni hluti vill undirstrika þetta mjög ákveðið.

Í þeirri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég hef nefnt hér og gert að umtalsefni nokkrum sinnum eru engu að síður fleiri atriði sem þörf er á að nefna. Í skýrslunni nefndi Ríkisendurskoðun að 12 stofnanir af þeim 50 sem hún skoðaði væru reknar umfram heimildir fjárlaga. Vandi annarra stofnana er verulegur, hinna 38, og það er ástæða til að nefna nokkur dæmi, sérstaklega vegna þess líka hvernig þetta kemur til og ég vil þó sérstaklega nefna einungis eitt atriði sem lýtur að heilbrigðismálum.

Það liggur fyrir að uppsafnaður halli Landspítalans nam 1,6 milljörðum kr. í upphafi árs. Gert er ráð fyrir að halli ársins verði um 1,2 milljarðar þannig að gera má ráð fyrir að uppsafnaður halli Landspítalans verði 2,8 milljarðar í árslok. Engar hugmyndir liggja fyrir í tillögum meiri hlutans, í áliti hans með fjáraukalagafrumvarpinu, um það hvernig á að taka á þessum vanda. Þá liggur fyrir samkvæmt viðtölum við forsvarsmenn Landspítalans að þeir áætla að halli ársins 2010 geti nálgast um 3 milljarða kr. verði ekkert að gert.

Sem dæmi um óvönduð vinnubrögð í málefnum spítalans má nefna að fyrir liggur að í fjárlögum ársins 2009 var gert ráð fyrir að tekjur Landspítalans af komugjöldum ættu að skila 152 milljörðum til spítalans í sértekjum Fyrrverandi heilbrigðisráðherra afturkallaði þessa gjaldtöku án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að mæta þeirri fjárþörf sem þetta skapaði.

Fjárlög ársins 2009 gerðu enn fremur ráð fyrir því að hrint yrði í framkvæmd tillögum um aðgerðir í heilbrigðismálum sem ætlað var að taka á stórum hluta þeirra vandamála sem við er að glíma í rekstri heilbrigðisstofnana. Það er verulega ámælisvert að þessar ákvarðanir hafa enn ekki verið fullnustaðar eða þá settar fram aðrar tillögur um aðgerðir sem tækju mið af samþykktum fjárveitingum ársins til heilbrigðismála.

Ríkisendurskoðun hefur tekið undir þetta álit 1. minni hluta og það endurspeglast ágætlega í þeirri skýrslu sem hún sendi fjárlaganefndinni og, með leyfi forseta, orðar hún vanda Landspítalans með þessum hætti:

„Þetta birtist m.a. í því að aðeins hluti þeirra hagræðingaraðgerða sem gripið hefur verið til hefur borið árangur og spítalinn því enn rekinn með verulegum halla. Þrátt fyrir þetta hefur ráðuneytið hvorki gefið skýr fyrirmæli um hvernig á að skerða þjónustu né tryggt spítalanum auknar fjárveitingar.“

Þau dæmi sem hér hefur verið stiklað á benda til þess að rekstrarhalli ríkissjóðs muni verða töluvert meiri en gert er ráð fyrir í fjárheimildum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um áætlaða stöðu stofnana og fjárlagaliða í árslok og ekki liggja heldur fyrir tillögur um hvernig taka skuli á fjárhagsvanda þeirra stofnana og ríkisaðila sem glíma við hallarekstur. Á meðan þannig háttar til munu fjárlög ekki reynast það stjórntæki sem þeim er ætlað að vera.

Ég vil nefna í þessu sambandi eitt atriði úr nefndaráliti meiri hlutans með því frumvarpi sem hér er til umræðu og það varðar framhaldsskóla. Þar er gert ráð fyrir því að inn í fjáraukalögin komi 150 millj. kr. framlag vegna aukinnar námsvirkni og fjölda nemenda í framhaldsskólum umfram forsendur fjárlaga 2009. Það er rökstutt með þeim hætti að það séu fleiri nemendur, 450–500 fleiri reiknaðir ársnemendur sem stunda nám í framhaldsskólum landsins en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir og af þessari ástæðu megi búast við fjölgun reiknaðra ársnemenda næstu 2–3 árin umfram þær breytingar á árgangastærð sem nýnemar gefa tilefni til.

Það ber að nefna við þessa umræðu að skýringin með þessu er sú að töluverð óvissa um viðbótarkostnaðinn sé fyrirliggjandi, og hér er miðað við það að skólarnir fái, eins og þar er orðað, hæstv. forseti, viðundandi stuðning til að mæta honum. Þetta gefur okkur til kynna að þessi stuðningur muni tæpast duga framhaldsskólunum á árinu 2009 og því síður þegar maður horfir inn í fjárlagafrumvarp ársins 2010 og þá ber að geta þess að því síður er gert ráð fyrir þessum aukna kostnaði í því frumvarpi og því má búast við að þetta komi fram við fjárlagagerðina eða þá á næsta ári.

Í mínum huga er augljóst að þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram við 2. umr. um fjáraukalögin byggjast á afar takmörkuðum upplýsingum um stöðu fjárlagaliða. Þær tillögur sem hér liggja fyrir verða því að teljast í besta falli óraunhæfar og líklegt að við framkvæmd fjárlaga næsta árs muni þessi óvönduðu vinnubrögð birtast í miklum erfiðleikum í rekstri stofnana og ríkisaðila.

Í nefndaráliti 1. minni hluta er bent á ýmis atriði, nokkur sem valin eru af handahófi þó að stór séu, og ber að ætla að fjárlaganefndin fari yfir þau á milli umræðna um fjáraukalögin. Ég hirði ekki um að gera sérstaka grein fyrir þeim hér og nú heldur ætlast til þess að farið verði yfir þessa þætti í vinnu fjárlaganefndar milli umræða.

Það er þó eitt atriði sem ég vil nefna hér sérstaklega og komið var að í andsvörum áðan og lýtur að vaxtagjöldum af svokölluðum Icesave-lánum sem koma ekki fram í fjáraukalagafrumvarpinu og ekki heldur í nefndaráliti meiri hlutans, en ég vil í þessu efni vitna enn og aftur til skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga varðandi þennan lið og, með leyfi forseta, lesa upp orð Ríkisendurskoðunar um þetta efni:

„Ítrekuð er sú afstaða Ríkisendurskoðunar sem birtist hér að framan (bls. 20) að ábyrgð ríkissjóðs á lánum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu vegna Icesave-reikninga Landsbankans, sem samþykkt var með lögum frá Alþingi í ágúst sl. verði staðfest sérstaklega í fjáraukalögum.“

Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar tekur undir þetta álit og átelur að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki gert ráð fyrir kostnaði ríkissjóðs vegna framangreindra skuldbindinga í tillögum sínum.

Við viljum enn fremur í 1. minni hluta gera athugasemdir við það að frumvarp til lokafjárlaga liggur ekki fyrir við afgreiðslu þessa fjáraukalagafrumvarps. Þar af leiðandi er ekki komin sú mynd af stöðu ríkissjóðs sem fjárlaganefnd þarf að hafa við afgreiðslu þessa máls. Ekki síst er þetta bagalegt þegar fyrir liggur að allar grunnupplýsingar um stöðu fjárlagaliða ársins liggja ekki fyrir frá fjármálaráðuneytinu.

Hins vegar er alveg ljóst af þeim upplýsingum sem fram hafa komið í vinnu nefndarinnar, svo sem í viðtölum við fulltrúa stofnana og ráðuneyta, að ríkisstjórnin á í miklum erfiðleikum við að ná tökum á rekstri ríkissjóðs. Skilaboð ríkisstjórnarinnar um markmið í þjónustu einstakra stofnana eru óljós þar sem fyrirmæli um aðhald og samdrátt eru almennt orðuð án skýrra fyrirmæla um það hvar og hvernig sparnaði og samdrætti skuli hagað.

Vinna fjárlaganefndar við fjáraukalögin hefur leitt í ljós að það skortir mikið á að agi sé í verkstjórn ríkisstjórnarinnar við framkvæmd fjárlaga. Þar vil ég að sjálfsögðu nefna góð áform sem komu fram í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum. Þar sagði um aukinn aga í framkvæmd fjárlaga, með leyfi forseta:

„Til að markmið áætlunarinnar geti náðst verður að tryggja að þau útgjaldamarkmið sem áætlunin gerir ráð fyrir og koma munu fram í fjárlögum komandi ára séu virt. Hvarvetna á að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri. Til að tryggja að markmiðum um lækkun útgjalda verði náð munu stjórnvöld auka áherslu á ábyrgð ráðuneyta og stofnana og auka almennt eftirlit með rekstri.“

Þetta eru mjög athyglisverð orð einfaldlega vegna þess að ráðuneytin sjálf virðast ekki fara eftir þessu. Ég nefndi áðan erindi iðnaðarráðuneytisins til fjárlaganefndar vegna fjárlaga ársins 2010 og sömuleiðis erindi menntamálaráðuneytisins vegna fjáraukalagagerðar þessa árs.

Samandregið liggur þetta einfaldlega þannig að vinna fjárlaganefndar við fjáraukalagagerðina hefur borið þess merki að enn sé langt í land að ríkisstjórnin hafi náð tökum á þessu viðfangsefni um aga í ríkisfjármálum og ríkisrekstrinum og því síður er upplýsingagjöf til fjárlaganefndar hagað með þeim hætti að nefndinni sé unnt að rækja eftirlitshlutverk sitt með framkvæmd fjárlaga. Ljóst er að fyrirsjáanlegir eru miklir erfiðleikar í rekstri ríkisins á næsta ári ef sömu lausatök verða viðhöfð við gerð og framkvæmd fjárlaga ársins 2010.



[23:05]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins, vegna orða hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar við framkvæmd fjárlaga hjá Landspítala Íslands og eftirfylgni heilbrigðisráðuneytisins við það, upplýsa að í upphafi þessa árs áætlaði Landspítalinn að draga saman í rekstrarkostnaði um 2,8 milljarða kr. en það er ekki útlit fyrir að það náist nema 1,6 milljarðar af þeim aðgerðum. Þar af eru um 400 millj. kr. vegna aðgerða sem ákveðnar voru svo seint sem 1. september sl. en þær aðgerðir munu skila verulegum árangri allt næsta ár.

Ráðuneytið hefur þegar brugðist við þeim athugasemdum sem ríkisendurskoðandi gerir í þessari skýrslu með tvennum hætti. Auglýst hefur verið eftir sérfræðingi til starfa í ráðuneytinu til að sinna sérstaklega framkvæmd fjárlaga, umsóknarfrestur rennur út 7. desember. Þá mun verða lögð áhersla á hinar stóru stofnanir sem hafa verið í hvað erfiðustum rekstri og með hvað lengstan hala, þ.e. Landspítalann sérstaklega, en einnig Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar að auki mun unnið skipulega að eftirfylgni með fjárlögunum í samstarfi við fjármálaráðuneytið og við skulum vona við fjárlaganefnd Alþingis líka.

Þá vil ég taka fram að Landspítalinn mun taka á viðbótarhallarekstrinum, þessum 1,2 milljörðum kr., á næsta ári til viðbótar þeirri aðlögunarkröfu sem gerð er í fjárlagafrumvarpinu. Það er stór biti að kyngja en eins og ég sagði áðan munu aðgerðir sem ákveðnar voru 1. september sl. skila tilteknum árangri. Það er gott útlit fyrir að það geti náðst.

Ég kaus að taka þetta fram, herra forseti, til að skýra (Forseti hringir.) að það hefur verið gripið til aðgerða af þessu tilefni og ég tel að þær muni duga.



[23:07]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna vissulega þeim orðum hæstv. heilbrigðisráðherra að hún taki þetta mál föstum tökum og þeirri viðleitni sem fram kemur í því verki. Þeirri viðleitni ber að fagna, ég undirstrika að ég er ánægður með það. Ég harma hins vegar að þau áform sem Alþingi samþykkti í desember í fjárlögum ársins 2009 hafi ekki komist með einhverjum hætti til framkvæmda á árinu 2009. Gert var ráð fyrir sparnaði í heilbrigðiskerfinu upp á 6,7 milljarða kr. sem dreifðust með ýmsum hætti á heilbrigðiskerfið, ýmsar stofnanir o.s.frv. Þetta voru 6,7 milljarðar í hagræðingu í kerfinu sem Alþingi samþykkti. Eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og er í rauninni tekið undir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég vil undirstrika að tekur til tímabilsins frá janúar til ágúst er Ríkisendurskoðun á sama máli, að ekki hafi verið tekið til hendinni. Það er ekkert nýtt að á það sé bent á að þessi áform hafi ekki komist til framkvæmda. Sú umræða hefur staðið meira og minna allt þetta ár, menn hafa tekist á um leiðir í þessum efnum o.s.frv. en engu að síður, strax og þegar ný ríkisstjórn tók við, 1. febrúar á þessu ári, minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, voru afnumin komugjöld sem áætlað var að skiluðu Landspítalanum 152 millj. kr. Á sama tíma og gjöldin voru afnumin voru þau gagnrýnd þótt ekki kæmu fram neinar aðrar tillögur um með hvaða hætti Landspítalinn ætti að mæta þeirri fjárþörf sem það skapaði. Því hefur ekki verið svarað enn en ég fagna því vissulega að hæstv. ráðherra taki til í þessum efnum (Forseti hringir.) og það verður fróðlegt að sjá hvernig það verður gert.



[23:09]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður segir að það ber að harma þegar fjárlögum er ekki fylgt eftir. Hvað varðar niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni upp á 6–7 milljarða á þessu ári held ég að mér sé óhætt að fullyrða að það hafi í rauninni víðast hvar tekist mjög vel til. Stofnanir úti um allt land hafa verið að taka niður rekstur sinn um allt að 9% á þessu ári og það hefur gengið vel án þess að biðlistar hafi lengst og án þess að þjónustuskerðing hafi verið þannig að landlæknir geri athugasemdir við það. Þvert á móti hefur verið staðfest í reglubundnu eftirliti af hálfu landlæknisembættisins að svo hafi ekki verið, biðlistar hafi ekki lengst og aðgangur að þjónustu hafi ekki versnað. Það getur orðið erfiðara að framfylgja þessu á næsta ári en til þess þarf fyrst og fremst að efla vaktina á því að þjónustan skerðist ekki.

Þar sem ekki hefur tekist til eins vel og menn ætluðu sérstaklega hvað varðar Landspítalann, eins og ég rakti áðan, er þó útlit fyrir að það muni takast á næsta ári. Ég leyfi mér að fullyrða að yfirstjórn Landspítalans er fyllilega samtaka í því að standast þá aðlögunarkröfu sem gerð er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og til viðbótar þeim hallarekstri sem spítalinn skilar því miður á þessu ári.



[23:11]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hennar að heilbrigðisstofnanir utan Kragans hafa samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar náð töluverðum árangri í verkum sínum. En ef ég man þetta rétt gerðu fjárlög ársins 2009 ráð fyrir því að hagræðingarkrafan sem sett var á, næmi um 550 millj. kr. Ég hef engar upplýsingar um hvernig gengið hefur að ná fram þeirri hagræðingu vegna þess að við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það í fjárlaganefnd frá fjármálaráðuneytinu um hvernig tekist hefur til um framkvæmd fjárlaga. Okkur skortir með öðrum orðum upplýsingar í fjárlaganefndinni til að geta rækt þetta eftirlitshlutverk okkar og ég lýsi yfir því fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna í nefndinni að við munum að sjálfsögðu leggja ráðherranum lið eftir föngum við að standast þau mörk sem fjárlögin setja, hvernig svo sem það mun líta út á endanum. Í því sambandi mætti nefna að ekki veitti fjárlaganefndinni af auknum starfskröftum eins og heilbrigðisráðuneytinu við sinn rekstur. Þar mundu liggja um 150 milljarðar kr. en fjárlaganefndinni er ætlað að hafa eftirliti með rekstri og eyðslu skattfé fyrir rúma 400 milljarða en til viðbótar lánsfé upp á rúma 150–200 milljarða þannig að fjárlaganefnd hefur eftirlitsskyldu með hátt í 600 milljörðum kr. og veitti ekki af auknu starfsliði þar. Með þessu er ég alls ekki að lasta starfsmenn nefndasviðs eða fjárlaganefndar heldur bendi ég einfaldlega á að verkefnin sem þar er við að glíma eru mikil. Við sjáum það ágætlega í þeim viðfangsefnum sem fjárlaganefndin glímir við núna að okkur veitir ekki af því að fá meiri krafta og betri aðgang að upplýsingum til að þingið sjálft geti rækt þær skyldur sem lög bjóða.



[23:14]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjáraukalög ársins 2009, þess merkilega árs þar sem allt endaði í handaskolum vegna atburða sem gerðust á árinu á undan. Það er ekki hlaupið að því fyrir hæstv. fjármálaráðherra og starfsfólk ráðuneytis hans að koma saman fjárlögum þessa mánuðina og þessi árin og kannski ekki síður vandasamt að koma frá sér fjáraukalögum.

Mig langar samt að lýsa yfir ánægju minni með það að þetta mál skuli vera komið á dagskrá þingsins. Þetta mál er brýnna en Icesave og fjárlögin eru brýnni en Icesave, Icesave má bíða, og sem betur fer náðist einhvers konar samkomulag um að afgreiða þetta mál fyrst.

Fjáraukalögin fyrir árið 2009 bera þess skýrt merki hvað hefur verið að gerast undanfarið ár, rekstur ríkissjóðs fór náttúrlega allur í uppnám og stóð kannski ekki steinn yfir steini á mörgum sviðum þar. Það er vandasamt verk bæði fyrir fjármálaráðuneytið og fyrir fjárlaganefnd að fylgjast með og sinna því verkefni sem þeim er falið við þessar aðstæður. Þess má þó geta að þessi fjárlög stóðust ekki og það hefur verið lenska árum saman að rekstur ríkisins standist ekki nægilega vel. Ég tel mig af minni stuttu sögu í fjárlaganefnd og sem þingmaður vita að einhverju leyti hvers vegna það er og ég leyfi mér einfaldlega að vísa til þess að vinna fjárlaganefndar við fjárlagagerðina er mjög broguð. Fjárlaganefnd hefur ekki þær upplýsingar sem til þarf, fjármálaráðuneytið er ekki tilbúið með þær upplýsingar sem fjárlaganefnd þarf á að halda. Einhverra hluta vegna hafa stofnanir ríkisins margar hverjar komist upp með það langalengi að fara fram úr á fjárlögum vegna ákveðinna verkefna. Það hefur skort aga mjög víða. Mjög víða aftur á móti eru eðlilegar ástæður fyrir framúrkeyrslu, kannski ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna þar sem miklar gengisbreytingar hafa t.d. gert fjárhagsstöðu Landspítalans mun erfiðari. En þar sem Hreyfingin og ég komum ekki að fjárlagafrumvarpi ársins 2009 og höfum aðeins komið að þessari gerð fjáraukalaga þá mun ég ekki fara út í þau smáatriði eða þær tölur sem menn hafa verið að fjalla um en fjalla frekar um málið á breiðari grunni og tæpa þá kannski á því sem ég tel brýnt að verði lagað í stóru myndinni í vinnu fjárlaganefndar og í vinnu ríkisfjármálanna almennt.

Það kemur hér fram að tekjujöfnuður vegna ársins 2009 versnaði til muna vegna hrunsins. Að hluta til er það vegna þess m.a. að Seðlabanki Íslands tapaði hátt í 300 milljörðum, það eru gríðarlegir fjármunir. Ég hef innt Ríkisendurskoðun eftir því hvað ríkisendurskoðandi hafi gert í málefnum Seðlabankans vegna þessara töpuðu fjármuna. Svar ríkisendurskoðanda var: Við fórum yfir ársreikninga bankans. Svona vinnubrögð ganga ekki til lengdar og það er að sjálfsögðu bara eðlileg krafa að gerð verði ítarleg stjórnsýsluúttekt á allri starfsemi Seðlabanka Íslands á þessu ári og á síðasta ári. Það sama á við um fleiri stofnanir ríkisins sem komu að hruninu. Gera þarf ítarlega stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og verklagi þar innan dyra. Það þarf að gera úttekt á efnahags- og viðskiptaráðuneytinu því að vissulega er ráðuneytið það ráðuneyti sem kannski ber mesta ábyrgð á því að bankahrunið varð svo stórkostlegt sem raun ber vitni. Hér eru mjög brýn verkefni fyrir ríkisendurskoðanda að takast á við og ég hef ekki orðið mikið var við það af hálfu ríkisstjórnarinnar eða meiri hlutans að þeir telji ástæðu til að ýta þessum verkefnum af stað og ég mun því halda áfram sjálfur að reka á eftir þeim. Það er ekki hægt að láta sem svo að hátt í 300 milljarða kr. tap Seðlabankans sé einhverjum einum bankastjóra að kenna og málið sé glatað og gleymt af því að hann er hættur störfum, það er miklu meira að og það þarf að gera miklu meira en að afgreiða málið með þeim hætti.

Fleira athyglisvert kemur fram eins og t.d. það að skattbreytingar sumarsins sem við eyddum umtalsverðum tíma í að ræða fram á kvöld, skattbreytingar sem leiddu til hækkunar vísitölu neysluverðs sem aftur leiddi til hækkunar á höfuðstóli skulda heimila um 8–10 milljarða, þær skattbreytingar virðast ekki hafa skilað neinu í ríkiskassann eða eins og segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Þær skattbreytingar sem gerðar voru í júní sl. og raktar voru hér að framan hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti í auknum tekjum. Hins vegar má segja að þær hafi forðað því að tekjur drægjust meira saman en áætlað var í fjárlögum.“

Hér er mjög mikilvægt atriði sem fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin þarf að hafa í huga því að nú stöndum við frammi fyrir töluvert miklum skattahækkunum í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það þarf að vera búið að gera ítarlega útreikninga á þeirri teygni sem fylgir því að hækka skatta, sem menn kalla Laffer-kúrfuna, en það er hversu mikið af þessum skattahækkunum raunverulega skilar sér, og sérstaklega þegar efnahagsástandið er með þeim hætti sem það er í dag þá er að mínu viti hvorki ásættanlegt að leggja aukna skatta á heimilin né líklegt að þeir muni kannski skila mjög miklu einmitt vegna þess að það mun einfaldlega leiða til enn stórfelldari minnkunar í einkaneyslu sem mun þá draga enn frekar úr hagvexti og við erum þá komin inn í hugsanlega vítahring sem mun búa hér til einhvers konar japanskt ástand en eins og kunnugt er hefur ekki verið í raun merkjanlegur hagvöxtur í Japan eða var ekki í um 20 ár vegna gríðarlegra skulda japanska ríkisins. Þetta eru atriði sem koma ríkisfjármálunum beint við og það þarf að fara varlega í að ræða skattahækkanir.

Annað atriði sem er mjög mikilvægt og ber að fara mjög ítarlega ofan í, og að því marki er ég feginn því að hæstv. heilbrigðisráðherra er í salnum, varðar halla Landspítalans. Landspítali Íslands er að öðrum stofnunum ríkisins ólöstuðum sennilega mikilvægasta stofnunin sem við Íslendingar eigum. Þúsundir manna lenda þar inn á hverju ári og spítalinn er endastöð fyrir fjölmargar aðrar heilbrigðisstofnanir út um allt land. Spítalinn hefur einhverra hluta vegna alla tíð verið rekinn með halla og ég hef heyrt bæði hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fjárlaganefndarmann og hæstv. heilbrigðisráðherra ræða krónur og aura varðandi halla Landspítalans. Það vill svo til að ég þekki mjög vel til innan Landspítalans og hef þekkt þar mjög vel til núna í bráðum 15 ár. Mér er vel kunnugt um það að þó að biðlistar eins og landlæknir skilur þá hafi ekki lengst og þó að þjónusta eins og landlæknir túlkar hana hafi ef til vill ekki versnað, þá hefur öll umgjörðin á rekstri Landspítalans og mórallinn hjá starfsfólkinu versnað undanfarin ár með þvílíkum hætti að það sér undir iljarnar á starfsfólki spítalans, það sér undir iljarnar á reyndum læknum, mjög reyndir hjúkrunarfræðingar sem eru með mjög mikla sérfræðiþekkingu í sínum störfum eru að hverfa úr starfi. Þetta eru atriði sem koma til með að valda spítalanum og þjóðarbúinu öllu langvarandi skaða því að það er ekki hægt að hrista það fram úr erminni að ráða fólk í þessar stöður á ný. Fólk sem er sérhæft í skurðaðgerðum og í augnskurðaðgerðum er einfaldlega ekki á hverju strái og þó að spítalinn beri þess kannski ekki endilega merki í dag í skýrslum landlæknis hvað er í gangi, þá er það einfaldlega þannig þegar rætt er við starfsfólk inni á spítalanum að það er nánast orðið örmagna af álagi í vinnunni. Mórallinn er orðinn mjög slæmur og allt vinnuumhverfi fólksins orðið að mörgu leyti afleitt.

Landspítalinn er slík stofnun að það þarf að stíga mjög varlega til jarðar þegar verið er að ræða um hallann á honum. Það er ekki viljandi verið að bruðla þar með peninga eins og oft er látið í veðri vaka, hann er hins vegar auðvelt skotmark vegna stærðar sinnar og vegna þeirra gríðarlegu fjármuna sem fara í hann á hverju ári. Þetta er alveg eins með Landspítalann og er með skólana hjá sveitarfélögunum, þarna er stærsti útgjaldaliðurinn, þarna eru stóru krónutölurnar en eru hallatölurnar sem hlutföll af rekstri endilega svo háar? Það er ekki svo víst. Ég geld því varhuga við því að haldið sé áfram með umræðuna um Landspítalann með þeim hætti sem ég hef heyrt hér í kvöld og eins það sem ég hef heyrt í fjárlögum fyrir næsta ár að það sé svigrúm til að skera niður í rekstri Landspítalans eins og ekkert sé. Það er einfaldlega ekki þannig.

Landspítalinn er með líkan fyrir reksturinn og slíkt líkan eru engin geimvísindi. Þetta eru sams konar líkön og eru í gangi hjá tryggingafélögum úti um allan heim. Þeir vita hve margir munu þurfa á aðgerðum að halda á næsta ári, þeir vita nokkurn veginn hver lyfjakaup munu verða á næsta ári, þeir vita nokkurn veginn hver launakostnaður ársins mun verða. Helstu óvissuþættir eru ef það koma upp stóráföll eða faraldrar eins og flensa eða að ráðast þurfi í einhver stórfelld tækjakaup eða að það verði áhætta vegna gengisbreytinga eins og Landspítalinn stendur frammi fyrir í dag. Það þarf að ræða halla Landspítalans á þessum nótum, ekki endilega hvort hann sé einum milljarði meira eða minna undir áætlun.

Önnur stofnun sem er mjög mikilvæg og er fjallað svolítið um er Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið er ásamt Háskóla Íslands önnur tveggja mikilvægustu menningarstofnana þjóðarinnar. Það er ekki hægt að skera niður á Ríkisútvarpinu endalaust þó að það sé stór útgjaldaliður. Miðað við þá fjölmiðlaflóru sem lítið samfélag á Íslandi býr við í dag þá er augljóst að einkageirinn getur ekki haldið úti fréttaflutningi og fjölmiðlun eins og þarf í þróuðu lýðræðisríki og þó að ríkisrekstur á útvarpi sé kannski ekki endilega æskilegasta aðferðin, þá hefur það samt verið svo víðast hvar í nágrannalöndunum að þær þjóðir eru með ríkisútvarp og -sjónvarp einmitt til að tryggja lýðræðislega umræðu og það þarf að fara varlega í að höggva þar í.

Kannski er mesti gallinn við þetta mál sá að ekki er gert ráð fyrir því hér að greiddir séu neinir vextir af Icesave. Vextir af Icesave eru á bilinu 36–40 milljarðar á hverju ári og það virðist enginn vita hvar á að bóka þá, menn eru að varpa þessum bolta á milli ráðuneytisins og Seðlabankans og fleiri, ríkisendurskoðanda. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og það þarf einhvern veginn að fara að gera ráð fyrir þeim, það þarf að setja þá í sparibaukinn stóra og geyma þá. Ef ekki verður farið að gera ráð fyrir þeim strax þá lendum við enn í meiri vandræðum þegar fram líða stundir.

Ýmislegt fleira mætti betur fara í þessum fjáraukalögum sem og í fjárlagagerðinni. Ríkisfjármálin eru með þeim hætti eins og ég hef upplifað þau í fjárlaganefnd í óttalegu skötulíki. Það er verið að ræða fram og til baka og kalla fólk fyrir nefndina vegna einhverra 500 þúsund kalla og milljóna og alls konar atriða sem væru betur afgreidd annars staðar. Það eru önnur atriði sem fá ekki nægilega umræðu og það eru t.d. ríkisábyrgðir á lánum. Við búum við kerfi þar sem ríkisábyrgðir á lánum nema í kringum 1.300 milljörðum kr. sem eru gríðarlegar upphæðir. Það er Íbúðalánasjóður og það er Landsvirkjun og þetta eru hvort tveggja stofnanir sem standa frammi fyrir talsverðum vanda í dag vegna efnahagshrunsins. Ekki er minnst einu orði á þetta og það er skautað léttilega yfir þetta í fjárlagafrumvarpinu. Þessar skuldir eru skuldir íslenska ríkisins þó að þær komi ekki fram sem slíkar í ríkisreikningi, þetta eru bara stofnanir sem ríkið á, og víða í nágrannalöndunum eru slíkar tölur og slíkar skuldir einfaldlega taldar með. Þessu þarf að veita meiri athygli því að eins og ég hef sagt þá eru þetta gríðarlegar upphæðir. Um leið og fer að halla undan fæti hjá svona risafyrirtæki eins og Landsvirkjun þá er ekki gott að sjá hvernig hlutirnir enda. Við sjáum það núna með Orkuveitu Reykjavíkur sem er komin í ruslflokk og fær ekki lán, hún nær ekki að endurfjármagna sig. Hvað gerum við þegar Landsvirkjun lendir hugsanlega í sömu stöðu?

Rammi til að halda utan um öll þessi mál er að sjálfsögðu að gera það eins og best gerist annars staðar og það er þá helst sem fyrst eftir áramót þegar tími gefst til að fjárlaganefnd leggi af stað í þá vinnu að koma á fót Lánasýslu ríkisins á ný sem mun þá starfa með faglegum hætti að lána og jafnvel eignastýringu ríkisins. Þetta er geiri sem ég þekki vel til vegna starfa minna hjá OECD og þar eru einfaldlega til ákveðnir verkferlar sem gera það að verkum að lánamálum ríkissjóða er stýrt í samræmi við það sem er svokallað ,,best practices“ hjá OECD-ríkjunum. Þar standa nágrannalönd Íslands, svo sem Svíþjóð, Noregur og Danmörk, mjög framarlega og hægt að sækja þangað þekkingu ef með þarf. Þetta eru atriði sem Íslendingar þurfa að fara að taka sér til fyrirmyndar. Rekstur ríkissjóða nágrannalanda gengur betur og er gerður af meiri fagmennsku en hefur verið hingað til á Íslandi. Okkur ber að taka það til eftirbreytni og reyna að nota það sem betur má fara og það getum við lært af öðrum.



[23:31]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég þakka fyrir að þessi brýna umræða er komin á dagskrá. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór ítarlega yfir nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar sem samanstendur af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í fjárlaganefnd. Mér finnst ekki ástæða til að endurtaka það sem þar kom fram en ég vil samt hnykkja á örfáum atriðum í stuttri ræðu um frumvarp til fjáraukalaga.

Í fyrsta lagi er enn þá nokkuð langt í land með að við höfum áttað okkur á því hver raunveruleg staða íslensks þjóðarbús er og hefur það verið reynsla fjárlaganefndar sem af er þessu þingi. Frumvarp til fjáraukalaga ber þess skýr merki að við erum enn þá að átta okkur á því hvar gólfið er, ef svo má segja. Vaxandi halli veldur verulegum áhyggjum. Framkvæmd fjárlaga á þessu ári hefur ekki verið með nógu áreiðanlegum hætti. Það er fjölmörgum spurningum ósvarað í fjárlaganefnd um einstaka þætti í framkvæmd fjárlaga hvað varðar eintaka stofnanir og stóra liði í þessum efnum í ríkisfjármálunum. Við áttum von á því að fá eitthvað af þeim svörum áður en 2. umr. færi fram en jafnvel þótt hún sé svo seint á ferðinni og nú er raunin höfum við ekki enn fengið svör við þeim spurningum sem við lögðum fyrir Ríkisendurskoðun um einstaka þætti varðandi framkvæmd fjárlaga. Það er miður að svo sé vegna þess að ef þau svör væru komin gætum við betur áttað okkur á því hver raunveruleg staða er hvað einstakar stofnanir varðar.

Ég vil nefna örfá atriði í þessari umræðu sem mér finnast skipta verulegu máli. Í fyrsta lagi er það mjög bagalegt að uppi sé ágreiningur um það hvernig fara skuli með vaxtagreiðslur vegna Icesave vegna þess að þar er ekki um neina smátölu að ræða. Alltaf þegar Icesave-málið ber á góma erum við komin í stórar tölur. Við erum að tala um vaxtagreiðslur á hverju ári sem nema tugum milljarða kr., 40 milljörðum jafnvel, og það er óásættanlegt að það sé ágreiningur á milli stofnana ríkisins um hvernig þessir hlutir skuli vera bókfærðir og það verða að fást einhver svör við því. Meðan þau eru ekki komin sýnir þetta ekki glögga mynd af rekstri ríkisins. Þetta snýst allt um að við séum með réttar lykiltölur þegar við fjöllum um vexti ríkisins og í þessu efni er það ekki fyrir hendi og Icesave-vandinn þarna er býsna stór.

Í öðru lagi eru aðrar vaxtagreiðslur. Það er veruleg óvissa um það hverjar þær eru og það er einnig mjög bagalegt. Sumt af því á sér eðlilegar skýringar, eins og t.d. það að verið er að bíða eftir því hvernig farið er með einstakar fjármálastofnanir í eigu ríkisins. Ég get nefnt Kaupþing banka eða Arion banka og hvað verður um hann í framtíðinni. En þessi mikla óvissa um það hverjar vaxtagreiðslur ríkisins eru veldur því að þessi mynd skekkist öll og erfiðara er að bera saman réttar tölur. Það er nokkuð sem ég held að skipti verulegu máli að bót fáist á.

Það leiðir líka hugann að því hversu vanbúin fjárlaganefndin og Alþingi eru þegar kemur að því að taka sjálfstæða afstöðu til þessara lykiltalna, að hv. fjárlaganefnd hafi ekki fullnægjandi aðgang að kerfi ríkisins. Þetta hefur núverandi fjárlaganefnd gert að nokkru umtalsefni í vinnu sinni og ég hygg að það liggi þingmál frammi um þetta efni. Það gerir það að verkum að Alþingi Íslendinga. sem hefur það stjórnskipulega vald sem snýr að fjárveitingum ríkisins og hefur þar að auki gríðarlega mikið eftirlitshlutverk við fjármuni sem fara út úr ríkissjóði, hefur ekki sömu tæki og tól og framkvæmdarvaldið þegar kemur að þessum málum. Það er mjög bagalegt, ekki síst við þær aðstæður sem uppi eru núna þegar hlutirnir breytast svona hratt og þegar við erum svona seint á ferðinni með þessa hluti, að hv. fjárlaganefnd skuli vera svona aftarlega á merinni. Ég bind vonir við að við munum í sameiningu geta þokað þessu máli áfram þannig að hægt sé að tryggja betur hið mikilvæga eftirlitshlutverk Alþingis þegar kemur að fjárlagagerðinni.

Mig langar síðan að nefna tvennt til viðbótar: Í fyrsta lagi að þær ráðstafanir sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu og varða einstakar stofnanir eru svo seint fram komnar og verða afgreiddar svo seint að það er varhugavert að reikna með þeim áhrifum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þær eigi að skila. Það leiðir af sjálfu sér að þegar komið er fram undir desember og þetta hefur ekki enn þá verið afgreitt, og auk þess þegar litið er til þess hvaða sjónarmið Ríkisendurskoðun setti fram í skýrslu um framkvæmd fjárlaga frá janúar til ágúst, er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þau markmið sem þarna koma fram muni ekki standast. Það er einnig afar slæmt og hefur slæm áhrif á áframhaldandi fjárlagagerð ársins 2010.

Í öðru lagi langar mig að nefna skattahliðina. Það var nokkuð varað við því í sumar þegar bandormurinn um ráðstafanir í ríkisfjármálum var kynntur og farið var í ýmsar tekjuöflunaraðgerðir að það væri ekki ótrúlegt að þær mundu skila þeim árangri sem að yrði stefnt og hefur komið á daginn að svo virðist vera. Álit Ríkisendurskoðunar hnígur í þá átt að tekjuöflunarráðstafanirnar muni ekki skila því sem stefnt er að og að menn ofmeti hér tekjustofna. Síðan förum við vonandi næstu daga að ræða stóru skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar vegna fjárlaga ársins 2010 og eru boðaðar verulegar breytingar á skattakerfi t.d. atvinnulífsins, tryggingargjaldi o.fl. Ég hygg að þarna eigi menn að staldra við og reyna að átta sig á og meta þau áhrif sem tekjuöflunin í sumar hafði eða hafði ekki og reyna að skoða hvort líklegt sé að menn ofmeti skatttekjur vegna þessara fyrirhuguðu aðgerða.

Í dag voru tvær fréttir í fjölmiðlum um uppsagnir vegna þess að menn sjá fram á óvissu í skattkerfismálum og auknar álögur hækkaðra skatta. Hér er um að ræða uppsagnir hjá mikilvægum fyrirtækjum í þessu landi og uppsagnir fjölda starfsfólks. Ég held að það sé ráðgert að segja upp á fjórða tug starfsmanna hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Skýringin sem gefin er á þessum uppsögnum eru fyrst og fremst þær auknu álögur sem ráðgerðar eru á atvinnureksturinn. Forsvarsmenn Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar sjá ekki fram á að reksturinn beri þessar skattbreytingar.

Það kom önnur frétt svipaðs eðlis af fyrirtæki vestur á fjörðum. Ég held að mikilvægt sé að menn staldri aðeins við þegar við getum ekki einu sinni verið sammála um það hvernig lykiltölurnar líta út. Það er ekki gott að fara af stað í svo umtalsverðar og miklar breytingar á skattkerfinu þegar sú gagnrýni kemur strax fram áður en málið er komið til 1. umr. á þinginu, áður en búið er að senda út umsagnir. Áður en farið er að ræða málið í nefndinni hafa aðilar vinnumarkaðarins strax komist að ákveðinni niðurstöðu og óttast mjög áhrif þessara aðgerða. Sama má segja um einstaklinga. Tekjur eru að dragast saman í landinu. Á grunni hvaða tekna hefur ríkisstjórnin reiknað þessa tekjuskatta sem áformað er að hækka? Ég hygg að þær tekjur sem menn hafa úr að spila séu minni núna og muni jafnvel dragast enn þá frekar saman. Þetta vildi ég segja almennt um þessa hluti sem hér eru á ferðinni.

Ég vil síðan taka undir það sem fram hefur komið í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og ítreka að það er mjög mikilvægt að þetta brýna mál skuli hafa komist á dagskrá. Ég vona að það sé fyrirheit um að brýn mál komist fljótt til nefnda næstu daga.



[23:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga og þótt ótrúlegt sé ber að fagna því að það sé komið á dagskrá. Í fyrsta lagi langar mig að segja að ég er mjög hugsi yfir þessu fyrirbæri, mundi ég leyfa mér að segja, sem fjáraukalögin eru í raun.

Í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar og því sem er fyrir þetta ár er gert ráð fyrir ýmsum liðum, þar á meðal heimildarliðum til ráðuneyta og ýmsu þess háttar. Maður fer að velta því fyrir sér hvort stjórnvöld á hverjum tíma treysti orðið um of á fjáraukalög og vísi jafnvel málum sem þau hafa ekki komið sér saman um eða ekki náð að klára af annarri ástæðu til fjáraukalaga og treysti á að þeim verði mætt þar. Það segi ég vegna þess að m.a. var heimild til umræðu í fjárlaganefnd ekki alls fyrir löngu, sem er þá væntanlega á fjárlögum næsta árs, til að kaupa hlut í orkufyrirtækjum og slíku. Ég var mjög hugsi eftir þær upplýsingar sem ég fékk, ekki síst í ljósi þess að slík kaup geta numið tugum milljarða. Þá er eðlilegt að þeim sé vísað inn í heimildarákvæði í fjárlögum sem síðan er mætt í fjáraukalögum.

Það hefur margt komið fram í þeim ræðum sem fluttar hafa verið um fjáraukalagafrumvarpið og mun ég í mjög stuttu máli hlaupa yfir nokkur atriði sem nefnd eru í minnihlutaálitinu. Ég vil þá fyrst taka undir það, herra forseti sem kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal áðan að það er mjög bagalegt og óásættanlegt í raun að það sé óvissa um hvernig farið er með vaxtagreiðslur vegna Icesave og hvar þær lenda. Það er ljóst að þar er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða og því mjög slæmt að um það ríki einhver óvissa. Þá er líka rétt að halda því til haga að vegna þess að skattar sem lagðir voru á í sumar virðast ekki hafa innheimst sem skyldi, er nú enn þá stærra gat sem þarf að stoppa í. Ég hef áhyggjur af því í ljósi þess hvernig fjáraukalagafrumvarpið lítur út, að næsta haust verðum við í enn flóknari stöðu.

Í inngangi að nefndaráliti minni hlutans er rætt um vinnubrögð og annað og það er eðlilegt að það komi upp spurning um hvernig verklagi sé háttað í nefndinni og hvernig þátttaka fagráðuneyta sé á hverjum tíma. En svo virðist sem eitthvað hafi vantað upp á samráð og samskipti varðandi þetta frumvarp.

Hér er bent á almennt varðandi frumvarpið að tekjujöfnuður er neikvæður um rúma 166 milljarða en þá eru ekki tekin til greina vaxtagjöld sem vegna Icesave gætu numið a.m.k. 40 milljörðum kr. Þar fyrir utan eru þeir skattar sem áttu að skila sér en hafa ekki gert það. Á bls. 3 í áliti minni hlutans er m.a. rætt um tekjuáætlunina og þar bendir 1. minni hluti á óvissu sem eðlilega ríkir um innheimtu tekjuskatta lögaðila því að við verðum að hafa í huga að það eru mörg fyrirtæki sem eiga í alvarlegum rekstrarvandræðum. Komið hefur fram að um þriðjungur fyrirtækja er í þessum vanda og þá er mikilvægt að horfa ekki fram hjá því þegar slíkt er gert.

Á bls. 5 er rætt um hlutverk fjárlaganefndar m.a. og aðra hluti og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp stutta málsgrein:

„Ef fjárlaganefnd á að rækja lögbundnar eftirlitsskyldur sínar og geta lagt raunhæft mat á þörf breytinga í fjáraukalögum verða upplýsingar um fjárhagsstöðu stofnana og fjárlagaliða að liggja fyrir mun fyrr en nú er raunin. Því miður hefur fjárlaganefnd ekki fengið uppgjör fjármálaráðuneytisins fyrstu níu mánuði ársins þegar þetta álit er lagt fram. Augljóst má því vera að þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram við 2. umræðu um fjáraukalög ársins byggjast á afar takmörkuðum upplýsingum um stöðu fjárlagaliða. Þær tillögur sem hér liggja fyrir verða því að teljast í besta falli óraunhæfar og líklegt að við framkvæmd fjárlaga næsta árs muni þessi óvönduðu vinnubrögð birtast í miklum erfiðleikum í rekstri stofnana og ríkisaðila.“

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar svo mikilvæg mál eru til umræðu.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar eru lagðar til töluverðar breytingar á ýmsum liðum og er það í sjálfu sér efni í sérstaka umræðu hversu stórir þeir eru og mun ég ekki fara yfir það hér. Það er mikilvægt að gefa gaum þeim ábendingum eða áliti sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og vitnar í vegna framkvæmda fjárlaga janúar til ágúst og segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Ítrekuð er sú afstaða Ríkisendurskoðunar sem birtist hér að framan (bls. 20) að ábyrgð ríkissjóðs á lánum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu vegna Icesave-reikninga Landsbankans, sem samþykkt var með lögum frá Alþingi í ágúst sl. verði staðfest sérstaklega í fjáraukalögum.“

Fram hjá þessu verður ekki horft þar sem um gríðarlegar fjárhæðir getur verið að ræða.

Herra forseti. Í lokaorðum í áliti minni hlutans er enn og aftur vikið að vinnubrögðum og ástandi ríkissjóðs, samskiptum og öðru slíku. Í lokaorðum segir, með leyfi forseta:

„Vinna fjárlaganefndar við meðferð fjáraukalaga ársins ber þess merki að enn sé langt í land að ríkisstjórnin hafi náð tökum á þessu viðfangsefni og því síður er upplýsingagjöf til fjárlaganefndar hagað með þeim hætti að nefndinni sé unnt að rækja eftirlitshlutverk sitt með framkvæmd fjárlaga. Ljóst er að fyrirsjáanlegir eru miklir erfiðleikar í rekstri ríkisins á næsta ári ef sömu lausatök verða viðhöfð við gerð og framkvæmd fjárlaga ársins 2010. 1. minni hluti fjárlaganefndar bindur miklar vonir við þá samstöðu sem myndast hefur í fjárlaganefnd til að efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og vonar að þingsályktunartillaga nefndarinnar fái gott brautargengi í þinginu.“

Það er mjög mikilvægt að við þessu verði orðið. Það er mikilvægt að fjárlaganefnd fái aðgang að því kerfi sem ráðuneytin vinna eftir við gerð fjárlaga og við að stýra þeim stofnunum sem þar eru undir og legg ég áherslu á það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni en ég vil hvetja ríkisstjórn og þá sem stýra vinnu við fjárlagagerð ársins 2010 að vanda mjög til verka því að það er að mínu viti töluverð hætta á að ekki verði — ég segi ekki auðvelt en að erfiðara verði að fara fram með fjáraukalagafrumvarp næsta haust en nú er.



[23:50]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að fagna því að við skulum vera farin að ræða þetta mál og hvíla okkur aðeins á Icesave-málinu eins og reyndar stjórnarandstaðan er búin að leggja til í dálítinn tíma. Fyrst vil ég þó segja almennt um framkvæmd fjárlaga að það hefur komið mér verulega á óvart hversu mikil lausung er á því hvernig fjárlög eru framkvæmd af framkvæmdarvaldinu og það sem kemur mér mest á óvart er hvernig menn framkvæma þetta og í raun og veru hve margt er óraunhæft sem menn eru að fara að gera.

Mig langar í upphafi máls míns að koma aðeins inn á það sem við erum að fara að lenda í núna og ég er hef varað við áður í ræðu hér, við erum í mikilli niðursveiflu og þá hættir okkur til þess að áætla tekjustofnana og vanáætla gjöldin. Þess vegna er mjög mikilvægt að farið sé eftir fjárlögum í einu og öllu til að við náum einhvern tíma tökum á þessum hlutum, enda sér þess greinilega merki í þessu fjáraukalagafrumvarpi að það er margt sem þarf að gera mun betur.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að núna þegar fjárlaganefndin er að fjalla um fjáraukalögin þá hefur fjármálaráðuneytið í fyrsta lagi ekki kynnt neitt fyrir fjárlaganefnd um framkvæmd fjárlaga það sem af er árinu. Hins vegar hefur Ríkisendurskoðun skilað til fjárlaganefndar skýrslu og við þær aðstæður sem við erum að vinna þetta núna, um mánaðamótin nóvember/desember, þá liggur eftir kynningu á þeirri skýrslu Ríkisendurskoðunar hjá fjárlaganefnd fjöldi spurninga sem er ósvarað. Það er gerð grein fyrir því í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það sem bandormurinn gerði í sumar, þ.e. sá tekjuauki sem átti að koma þar fram virðist ekki hafa skilað sér nema að litlu leyti en hann hefur hins vegar komið í veg fyrir að tekjur mundu dragast mun meira saman en áætlað var. Þá velti ég því fyrir mér, virðulegi forseti, að menn verði þá að fara betur ofan í þessi vinnubrögð því að það sem gerðist þar var að þá voru menn að hækka lán heimilanna og annað um marga milljarða króna, og því verða menn að vera með það alveg á hreinu hverju þetta muni skila þegar upp er staðið vegna þess að það sem gert var þar var að leggja meiri skattprósentu á veika skattstofna. Það er mjög mikilvægt að við komumst til botns í þessu áður en við höldum áfram þeirri vinnu sem fram undan er í sambandi við fjárlögin og menn átti sig á því hvað þetta þýðir.

Síðan kemur mjög skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar — og ég ætla svo sem ekki að fara mjög mikið yfir efnislega þætti, tölulega þætti í þessu fjárlagafrumvarpi, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði það mjög vel og ég ætla að reyna að endurtaka ekki allt eða mikið af því sem hefur verið sagt hér áður. — Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það leiðarljós sem var í skýrslu fjármálaráðuneytisins og hæstv. ráðherra, að menn áttu að fara að taka á rekstri stofnana, hefur ekki skilað sér nógu vel og bara til að nefna það þá liggur ekki enn fyrir sú vitneskja, alla vega ekki í fjárlaganefnd, hvernig menn ætla að færa t.d. tekjur eða heimildir á milli ára og núna er nóvember að klárast og desember að byrja og það er náttúrlega gersamlega óviðunandi að það sé gert með þessum hætti.

Mig langar líka að koma aðeins inn á þau losaratök sem eru við framkvæmd fjárlaganna. Það byggist á því eins og ég sagði í upphafi máls míns að fjármálaráðuneytið hefur ekki gefið skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2009 og Ríkisendurskoðun hefur heldur ekki skilað skýrslu en mörgum spurningum þar er ósvarað. Og þá langar mig bara að nefna t.d. hvernig staðið er að rekstri sveitarfélaga, þar eru menn með upplýsingarnar jöfnum höndum og geta gripið inn í, en þetta kemur alltaf svona ári á eftir eða um það bil þannig að menn ná í raun og veru ekki að stýra vandanum. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tökum á þessum vanda vegna þess að það virðist hafa verið svo undanfarin ár í uppsveiflunni að þegar menn voru að áætla tekjur ríkissjóðs hugsanlega lægri en þær urðu í rauninni þá varð til ákveðinn slaki í framkvæmd fjárlaga, þannig að ef menn áætluðu að það yrði 30 milljarða tekjuafgangur á ríkissjóði þá gerðist það með þeim hætti að útgjöldin jukust og síðan tekjurnar á móti og niðurstaðan varð kannski sú að það voru enn þá 30 milljarðar en það var búið að búa til þennan slaka inn í kerfið. Við verðum að vinna okkur til baka á þessum forsendum. Ég varaði reyndar við því strax í júní að ég væri mjög hræddur um að fjárlög ársins 2009 mundu ekki standast einmitt af þeim sökum að það væri ekki nógu mikið eftirlit með stofnunum af hálfu ráðuneytanna niður í undirstofnanir til að fylgjast nógu vel með. Það skýrir sig líka best þannig, virðulegi forseti, að einmitt árangur sveitarfélaganna við hrunið sem varð síðasta haust og hvað þau voru fljót að grípa inn í atburðarásina varð til þess að þau hafa náð umtalsverðum árangri, mörg hver. Það er mikilvægt að við lærum af þessu og komum þessu í betra horf.

Síðan vil ég koma örlítið inn á Landspítalann, hann hefur reyndar verið nefndur áður en nú er staðan þannig, virðulegi forseti, að Landspítalinn er með 2,8 milljarða í uppsafnaðan halla. Það er gerð hagræðingarkrafa á Landspítalanum á næsta ári upp á 3,2 milljarða sem þýðir 6 milljarða sem menn ætla að fara með inn á næsta ár vegna þess að í þessu fjáraukalagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir að taka neitt á uppsöfnuðum halla. Ég fullyrði það bara, virðulegi forseti, að það sé nánast óraunhæft að ætla þessari stofnun það að verða að draga saman seglin á næsta ári um 6 milljarða, þ.e. 20% af heildarútgjöldum Landspítalans. Það er algerlega útilokað nema menn fari í einhverjar massífar sameiningar til þess að verða við því og það er líka eitt af því sem menn verða að átta sig á að því var líka slegið á frest. Síðan kemur reyndar líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sló af í kosningabaráttunni 152 millj. sem var reiknað í komugjöld án þess að gera neinar ráðstafanir á móti. Menn geta deilt um hvort það sé rétt eða rangt að hafa komugjöld og allt í lagi með það en hæstv. ráðherra hefði þá átt að skaffa Landspítalanum sömu tekjur í staðinn. Menn verða að fara varlega í sakirnar með þetta, enda kemur mjög hörð gagnrýni á það í skýrslu Ríkisendurskoðunar hversu veikt eftirlitið er með rekstri Landspítalans og þar virðist þurfa að komast miklu betra samband á því að það virðist ekki vera neitt. Þetta er látið reka á reiðanum og það er algerlega óviðunandi, virðulegi forseti.

Þá langar mig aðeins að koma inn á hið margfræga tónlistarhús. Það er náttúrlega dæmi um það hvernig ekki á að vinna hlutina. Núna er t.d. ekki gert ráð fyrir því, en hv. þm. Guðbjartur Hannesson benti á að gerðar yrðu einhverjar ráðstafanir til að koma því inn, þetta er alveg hreint með ólíkindum og ég er búinn að kafa aðeins ofan í þetta mál, þetta gerist með þeim hætti, virðulegi forseti, að það eru settar einhverjar 2–3 línur inn í fjárlagafrumvarpið og úr þeim verður til heilt tónlistarhús upp á marga tugi milljarða. Þetta er gert og vísað til 6. gr. þar sem þetta er sett inn, og núna eru t.d. í 6. gr. til ráðstöfunar 350 millj. en úr svona lið varð til heilt tónlistarhús upp á marga marga milljarða. Það hefur aldrei verið tekin efnisleg ákvörðun um það af hálfu Alþingis að fara í þetta verk, þannig að það virðist vera gert af hálfu framkvæmdarvaldsins hvernig staðið er að þessu. Það er stofnað eitthvert félag sem heitir Austurhöfn og svo er verkið látið reka á reiðanum. Það er gersamlega óviðunandi, virðulegi forseti, að þetta skuli vera gert með þessum hætti. Svo eru menn ekkert farnir að hugsa það frekar en fyrri daginn þegar búið verður að byggja þessi ósköp að þá þarf náttúrlega að reka þetta og hvað gerist þá? Þá þarf að setja einhverja 2–3 milljarða sjálfkrafa inn í frumvarpið til að hægt sé að reka þetta. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ef menn ætla einhvern tíma að ná tökum á fjármálum ríkisins verða menn að stoppa svona vitleysu af. Og að menn skuli ekki hafa haft vit á að hætta þessari vitleysu núna þegar verið er að skerða bætur ellilífeyrisþega, öryrkja og þar fram eftir götunum, fæðingarorlof og allt saman, það vantar ekki hugmyndir um skattlagningar, þá halda menn þessari vitleysu áfram. Þetta er alveg með ólíkindum og ég er mjög svekktur yfir því hvernig þetta er. Það eru gersamlega óþolandi og ólíðandi vinnubrögð að menn geti hent þessu svona inn eins og ég veit ekki hverju. Það hefur aldrei verið tekin ákvörðun um það á Alþingi að þetta færi inn. Við verðum að breyta þessum vinnubrögðum.

Loks ætla ég, af því að ég átti að klára að tala fyrir 1. desember var mér tjáð og ég á mjög stuttan tíma eftir, en ég vil þá segja það að lokum, virðulegi forseti, að það vitlausasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað er það að þegar við erum að reyna að ná tökum á fjármálunum þá gerist það að þeir ríkisstarfsmenn sem eru ráðnir til að stýra fjármálum stofnana, þegar þeir fara algerlega út af grensunni þá eru lögin þannig eða virðast vera þannig að það er ekki nokkur einasta leið að reka ríkisstarfsmann, það er bara ekki hægt, og þá eru settir tilsjónarmenn. Hvers konar vitleysisgangur er þetta? Þetta er eins og að vera með skipstjóra sem fiskaði ekki og viðbrögðin við því væru að setja annan stól í brúna til að láta hann sitja við hliðina á honum. Þetta er svona álíka gáfulegt. Það verður að breyta þessu, virðulegi forseti, og sýna það að við komum aga á þær stofnanir sem reka sig með þessum hætti. Það er reyndar fjöldi góðra manna og einstaklinga sem stýra ríkisstofnunum en það er algerlega ólíðandi að drattast með fullt af liði sem getur ekki staðið sig í stykkinu og unnið vinnuna sína og að þá séu viðbrögð ríkisvaldsins og okkar að skaffa þeim fleiri til að vinna vinnuna þeirra en ekki að hætta að borga þeim laun. Þetta er alveg með ólíkindum, enda höfum við mörg dæmi um það þegar menn brjóta af sér í starfi eða eru óhæfir til að sinna sínum störfum, þá er gerður við þá samningur um að þeir þurfi að hætta að mæta í vinnuna en þeir fái áfram launin sín. Þessu verður að breyta, þetta er algerlega ólíðandi.

Það er mikilvægt að við komum upp áminningakerfi og það eitt og sér setji bara ákveðið aðhald á alla þá sem reka stofnanir. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að það er mjög ósanngjarnt að forstöðumenn sem reka stofnanir og standa sig vel og eru að taka erfiðar ákvarðanir eins og núna til að halda sig innan fjárlaga og þá séu aðrir sem komast upp með að gera það ekki. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þessum hlutum verði breytt og ég vænti þess vegna þess að það er mjög góð samstaða í nefndinni sjálfri, allir hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd eru þeirrar skoðunar að við þurfum að breyta vinnubrögðunum og nefndin hefur talað um að við munum byrja á því núna strax. Fyrir liggur þingsályktunartillaga um fyrsta skrefið í þeim málum sem allir nefndarmenn flytja, allir hv. þingmenn í fjárlaganefnd, þannig að hún hlýtur að fá góðar viðtökur í þinginu og síðan höfum við rætt það í okkar röðum að gera ákveðnar tillögur um það hvernig hægt sé að standa betur að málum því að eins og þetta er núna er þetta algerlega útilokað.