138. löggjafarþing — 101. fundur.
tekjuskattur, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 386. mál (kyrrsetning eigna). — Þskj. 883.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:32]

Frv.  samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁJ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BJJ,  GLG,  GBS,  HHj,  IllG,  KaJúl,  LMós,  MSch,  MT,  OH,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  RR,  RM,  SII,  SIJ,  SF,  SkH,  SVÓ,  SSv,  TÞH,  VBj,  ÞSa,  ÞSveinb,  ÞrB,  ÖJ,  ÖS.
30 þm. (ÁI,  ÁPÁ,  ÁsmD,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  HöskÞ,  JóhS,  JBjarn,  JónG,  JRG,  KJak,  KÞJ,  KLM,  LRM,  REÁ,  SDG,  SER,  SJS,  UBK,  VigH,  ÞKG,  ÞBack) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:29]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. alþingismönnum fyrir góða samvinnu við að gera þetta mál að lögum hratt og vel hér í dag í gegnum 2. og 3. umr. Í því felast nauðsynlegar heimildir til handa skattrannsóknarstjóra til þess að kyrrsetja eigur ef grunur er um að menn hafi skotið fé undan skatti. Það eru þegar til rannsóknar ýmis mál hjá embættinu þar sem það þarf á slíku úrræði að halda. Það er því mikilvægt að fá skattrannsóknarstjóra þessar heimildir fljótt og vel þannig að á allra næstu dögum sé hægt að gera ráðstafanir til þess að tryggja að það sem skotið hefur verið undan sé hægt að kyrrsetja og tryggja með því að sem allra mest af því fé sem skotið hefur verið undan skatti fáist aftur í ríkissjóð. Það er úrræði sem skattrannsóknarstjóri hefði alltaf átt að hafa en það er sérstaklega mikilvægt nú í kjölfar hrunsins og ekki síst eftir þá greiningu sem skattrannsóknarstjóri hefur gert á hinum föllnu bönkum (Forseti hringir.) sem afhjúpar umtalsverð og víðtæk skattsvik þar inni.



[17:30]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við framsóknarmenn styðjum það frumvarp sem hér liggur fyrir og höfum unnið að því í ágætri samvinnu á sviði efnahags- og skattanefndar. Eins og hv. þm. og formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, nefndi er með þessu frumvarpi verið að tryggja hagsmuni ríkissjóðs og þar með hagsmuni Íslendinga. Ég vildi óska þess að í fleiri málum hér á þingi gætum við haft jafnvíðtæka samvinnu og viðhaft jafngóð vinnubrögð vegna þess að efnahags- og skattanefnd hefur farið mjög ítarlega yfir þessi mál og fleiri mál þurfum við að vinna í þessum anda á vettvangi þingsins því að hér er, ef marka má fréttir, verið að tryggja mögulega milljarða kr. fyrir hönd íslenskra skattborgara og þetta er mikivægt skref í þá átt að reyna að stuðla að aukinni sátt í íslensku samfélagi. Hér hafa alvarlegir hlutir átt sér stað á undangengnum mánuðum og vonandi mun þetta mál og þau verkefæri sem við látum (Forseti hringir.) skattinum í hendur auka og stuðla að meiri sátt í íslensku samfélagi.



[17:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum með þessu frumvarpi, sem verður vonandi að lögum, að gefa skattrannsóknastjóra aukin tæki til þess að bregðast við nýjum aðstæðum sem felast í gífurlegri flækingu á málavöxtum, hlutum sem ná langt yfir allan heiminn nánast og það er um að ræða risaupphæðir sem ég gat um í ræðu minni hér áðan af hverju stöfuðu.

Ég lagði fram tillögu um það, sem var felld, að þarna yrðu sett ákveðin mörk þannig að menn færu nú ekki að skjóta á smáfuglana þegar væri verið að elta ernina. Það var reyndar fellt en í nefndaráliti meiri hlutans og okkar allra eru mörk nefnd upp á 5 milljónir og svo verða menn að treysta því að embættismenn fari ekki offari í því að ná í spörfuglana heldur noti þetta eingöngu fyrir stóru upphæðirnar og ég segi já.