138. löggjafarþing — 129. fundur.
framhaldsskólar, 2. umræða.
stjfrv., 578. mál (skipulag skólastarfs o.fl.). — Þskj. 969, nál. 1147.

[16:12]
Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Þetta er þingskjal nr. 1147.

Nefndin fékk á sinn fund skrifstofustjóra lagasviðs mennta- og menningarmálaráðuneytisins, formann Félags íslenskra framhaldsskóla, varaformann Kennarasambands Íslands og fulltrúa frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.

Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi framhaldsskólakennara, Félagi íslenskra framhaldsskóla og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Með frumvarpinu er ætlunin að veita nauðsynlegt svigrúm til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í ríkisútgjöldum til framhaldsskóla og bregðast við ábendingum um mikilvægi þess að hafa áfram í lögum ákvæði um skólasöfn.

Í 1. gr. er ráðherra fengin heimild til að fela skólameistara forstöðu í fleiri en einum framhaldsskóla.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda verði 175 í stað 180. Samkvæmt gildandi lögum, nr. 92/2008, skal árlegur fjöldi vinnudaga nemenda eftir 1. ágúst 2011 að lágmarki vera 180 dagar, sbr. 1. mgr. 15. gr. og ákvæði til bráðabirgða I í gildandi lögum.

Þá er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að ráðherra geti með samningi falið skóla eða öðrum aðila umsýslu, gerð og skráningu samninga um vinnustaðanám og eftirlit með þeim. Með lögum nr. 92/2008 kom inn nýmæli þess efnis að auka ætti ábyrgð framhaldsskóla á að nemendur þeirra fengju vinnustaðasamning til að geta lokið námi sínu við skólann, sbr. 28. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða I. Í athugasemdum við þá grein frumvarpsins kemur fram, að nefnd um endurskoðun laga um framhaldsskóla hafi bent ráðherra á að stofna svokallaðan vinnustaðanámssjóð til að tryggja vinnustaðanámi framgang. Í athugasemdum við það frumvarp sem nú er til meðferðar, kemur enn fremur fram að slíkur sjóður sé ein meginforsenda þess að einstakir skólar geti borið ábyrgð á gerð sérstaks samnings um vinnustaðanám nemenda.

Með þessu frumvarpi er fallið frá þessari skyldu og í stað hennar er ráðherra veitt fyrrgreind heimild.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að í öllum framhaldsskólum skuli gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns. Er hér um að ræða nánast samhljóða ákvæði eldri laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996, en ekki er að finna sérstakt ákvæði um skólasöfn í núgildandi lögum. Við setningu þeirra laga var þó almennt gert ráð fyrir því að skólasöfn væru í framhaldsskólum sbr. 5. mgr. 8. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið starfsfólks skólasafna o.fl., sbr. reglugerð nr. 1100/2007. Þá er í 5. gr. frumvarpsins framhaldsskólum veittur frestur til 1. ágúst 2015 til að setja sér námsbrautarlýsingar skv. 35. gr. laganna um framhaldsskóla.

Með gildistöku laga nr. 92/2008 voru gerðar þær breytingar að mennta- og menningarmálaráðuneytið skyldi frá 1. ágúst 2011 einungis gefa út almennan hluta aðalnámskrár, sbr. 21. gr. laganna, en hinn hluti aðalnámskrár byggist á námsbrautarlýsingum skv. 23. gr. sem skólarnir skulu setja sér og hlotið hafa staðfestingu ráðherra.

Nefndin telur að í 1. gr. frumvarpsins sé um að ræða töluvert opna heimild til handa ráðherra. Það er álit nefndarinnar að úrræði sem þetta skuli fyrst og fremst vera nýtt þegar aðstæður eru þannig að leysa megi tímabundinn vanda með því að einn skólameistari stýri fleiri en einum skóla eða þegar um svæðisbundna hagsmuni er að ræða. Við slíka tilhögun verður þó að gæta þess að fjarlægð skólameistara frá þeim skóla sem hann stýrir eða fjöldi nemenda hafi ekki neikvæð áhrif á faglegt starf skólanna og skólaþróun. Skólameistarinn ber ábyrgð á faglegu starfi og gæta verður þess að aðstæður hamli ekki eða komi í veg fyrir regluleg samskipti hans við kennara og aðra starfsmenn, eftirlit með kennslu eða endurgjöf og hvatningu til nemenda og starfsmanna.

Það er álit nefndarinnar að ekki sé rétt að tengja lesaðstöðu nemenda, þar sem aðgangur er að upplýsingaritum á skólasafni, við húsnæði skólasafns heldur starfsemi þess. Þar með er tekinn allur vafi af að lesaðstaða sé ekki bundin við skólasafnið sjálft, enda er í 1. mgr. greinarinnar gert ráð fyrir að veita megi þjónustu skólasafns með öðrum hætti, t.d. í safni á vegum sveitarfélags.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Að við 4. gr. í stað orðsins „húsnæði“ í 3. málsl. 2. mgr. efnisgreinarinnar komi orðið: starfsemi.

Hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifuðu, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Skúli Helgason og Óli Björn Kárason.



[16:18]Útbýting:

[16:18]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, formanni menntamálanefndar, fyrir að fara í gegnum þetta nefndarálit. Eins og fram kom snýst þetta fyrst og fremst um að veita ríkisvaldinu svigrúm, sem það þarf vegna fjárskorts, til að efna ekki ný lög um framhaldsskóla og bregðast við ýmsum þeim öðrum þáttum sem menn hafa fundið að nýju lögunum.

Á sama tíma voru sett lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Því langar mig að nefna það, ég hef nefnt það áður í umræðum hérna í þinginu við hæstv. menntamálaráðherra þegar verið var að festa í sessi möguleika ríkisins á að innheimta áframhaldandi gjald af framhaldsskólanemum vegna efniskaupa, ef ég man rétt, og slíkra hluta. Það var vegna hrunsins líka. Þá spurði ég hvort fyrir lægju í ráðuneytinu einhver áform um að fresta gildistöku allra þessara laga eða veita sveitarfélögunum, sem mörg hver eiga við talsverða efnahagserfiðleika að stríða eftir kreppu og bankahrun ekki síður en ríkissjóður, með einhverjum hætti sambærilegt svigrúm, auk þess sem nokkuð af því sem átti að koma fram í lögum um bæði leikskóla og grunnskóla og síðan grunnskóla og framhaldsskóla átti að gera nemendum kleift að renna auðveldar á milli þessara skólastiga en áður.

Þar sem ég á ekki sæti í menntamálanefnd langar mig að spyrja hreinlega hv. formann menntamálanefndar, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, hvort slíkt mál sé á leiðinni í gegnum menntamálanefnd, hvort það hafi verið rætt í hv. nefnd að nauðsynlegt sé að taka þessi ákvæði upp er varða grunnskólana ekki síst og jafnvel leikskólana. Í því sambandi langar mig, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr hluta af umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fékk þetta reyndar ekki sent til umsagnar en sá engu að síður ástæðu til að gera ákveðna athugasemd þó að það væri ekki efnisleg athugasemd við frumvarpið. Ef ég má, með leyfi forseta:

„Sambandið gerir hins vegar mjög alvarlega athugasemd við að ekki skuli samhliða hafa verið lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla en fulltrúar sambandsins hafa ítrekað óskað eftir því við mennta- og menningarmálaráðherra að slíkt frumvarp verði lagt fram og m.a. unnið að útfærslu þess með sérfræðingum ráðuneytisins. Á fundum með ráðherra hefur komið fram sú afstaða að ráðuneytið muni ekki beita sér fyrir breytingum á grunnskólalögunum nema fyrir liggi sátt um málið milli sambandsins og Kennarasambands Íslands. Viðræður milli þessara aðila þar sem rætt hefur verið um mögulegar breytingar á lengd skólaársins og tímabundna styttingu vikulegs kennslutíma hafa ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að KÍ er ekki tilbúið til neinna breytinga. Þar sem viðræður við KÍ hafa ekki borið árangur og ráðherra hefur ekki reynst tilbúinn til að leggja fram frumvarp til að skapa sveitarfélögunum svigrúm til hagræðingar í grunnskólastarfi telur sambandið óhjákvæmilegt að óska eftir því að menntamálanefnd leggi fram sérstakt frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla.“

Mig langar að spyrja hv. formann menntamálanefndar hvort slík vinna sé í gangi í nefndinni eða standi til. Einnig er áhugavert að hæstv. ráðherra tengir beint við hagsmuni Kennarasambandsins að Félag íslenskra framhaldsskólakennara hafi samþykkt þessar breytingar og þess vegna komi þær hérna fram en menn treysta sér ekki til þess að fara í breytingar á grunnskólalögunum nema fyrir liggi fyrir fram samþykki Kennarasambands Íslands.

Í umsögn sambandsins, sem er dagsett 18. maí sl., er jafnframt minnt á minnisblað dagsett 6. nóvember 2009 til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem farið var fram á ákveðnar breytingar á grunnskólalögum, tónlistarfræðslu og íþrótta- og æskulýðsmálum í einum 6–8 liðum, eins og til að mynda tímabundnum heimildum til frávika frá ákvæðum grunnskólalaga um vikulegan kennslutíma eftir bekkjardeildum og eins að meðaltali. Þetta getur skipt máli, ekki síst í minni skólum út af skólaakstri en líka í stærri skólum. Eins um fjölda skóladaga nemenda, kæmi til greina að fækka þeim úr 180 niður í 170? Allt eru þetta tímabundnar breytingar til að fresta því að taka inn allar breytingar á grunnskólalögunum sem áttu að koma í nýju lögunum. Eins um fjölda valgreina á unglingastigi og hlutfallslega skiptingu á milli námssviða og námsgreina og að lokum nám grunnskólanemenda á framhaldsskólastigi.

Ég sendi fyrirspurn til ráðherra sl. áramót þar sem í einhliða ákvörðun ráðuneytisins við fjárheimildir fyrir árið 2010 var ekki gert ráð fyrir því að nemendur grunnskóla gætu stundað nám í einstökum framhaldsskólaáföngum samhliða grunnskólanámi. Bæði bendir sambandið á það og ég spurði einmitt í áðurnefndri fyrirspurn hvort þetta væri hreinlega heimilt án þess að breyta 26. gr. grunnskólalaganna þar sem kveðið er skýrt á um að grunnskólanemendur eigi rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi. Þetta er eitt af því sem er ósvarað þrátt fyrir að allt sem kom fram hjá hv. þingmanni hafi verið eðlilegt og við séum öll tilbúin — eða ég býst við að við séum tilbúin — að samþykkja eðlilegt svigrúm til þess að geta uppfyllt ný og breytt lög miðað við talsvert breytt umhverfi í efnahagsmálum.

Einn þátt enn langar mig að nefna úr því að ég er að ræða grunnskólalögin, þó að hann sé kannski ekki alveg beintengdur þessum framhaldsskólalögum snýr hann þó að kostnaði ríkisins og sveitarfélaganna. Það er innra og ytra eftirlit í grunnskólum og eftirlit ríkisvaldsins eða ráðuneytisins. Mig minnir að fjallað sé um það í 38. og 39. gr. grunnskólalaga þar sem sveitarfélög skulu til að mynda taka upp svokallað ytra eftirlit. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki mætti samræma það eftirliti ríkisvaldsins eða ráðuneytisins og menn sinntu því eftir landshlutum, jafnvel yfir landið í heild, og gætu þar með sparað fjármuni þar sem ríkisvaldið kæmi þá að þessu ytra eftirliti sem sveitarfélögin þurfa að standa fyrir en væri ekki með séreftirlit. Síðan yrði gerð krafa um að sveitarfélögin gerðu þetta eftirlit að sínu eða ákvæðinu frestað um nokkur ár þangað til menn næðu betri stöðu.

Síðan má auðvitað benda á að eðlilegt er að breyta grunnskólalögunum í sömu veru og framhaldsskólalögunum, að æskilegt sé að hafa sambærilega heimild þess efnis að hægt sé að fela skólastjóra að veita forstöðu fleiri en einum grunnskóla.

Allt sem ég tala um núna hef ég talað um margsinnis áður. Það er oft þannig að ríkisvaldið gleymir því að til er annað jafnrétthátt stjórnsýslustig í landinu, þ.e. sveitarfélögin. Ríkisvaldið gleymir oft og við á löggjafarþinginu líka að taka tillit til aðstæðna og þeirra krafna sem sveitarfélögin gera. Ég fer fram á að þetta verði rætt í menntamálanefnd ef hv. formaður getur ekki upplýst þingheim um þetta hér.



[16:27]
Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég skil ákaflega vel vangaveltur sveitarstjórnarmanna um hvernig sé hægt að spara við rekstur grunnskóla. Haustið 2009 fengum við til nefndarinnar fulltrúa frá sveitarfélögunum, reyndar frá Kennarasambandinu líka, til þess að ræða þennan möguleika og þá var einmitt verið að ræða starfstímann. Í ljós kom að ekki voru öll sveitarfélög á því að fara þá leið að fækka dögum.

Þegar ég fékk tækifæri til í fjárlaganefndinni, þegar fulltrúar frá sveitarfélögunum komu þangað í heimsókn, spurði ég að því hvort þetta væri aðgerð sem þeim þóknaðist og voru um það mismunandi skoðanir. Nú má vera að það hafi breyst þannig að þessa hluti þarf alla að skoða.

Ástæðan fyrir því að ekki er núningur við Kennarasambandið varðandi breytingarnar á framhaldsskólalögunum er væntanlega sú að í dag er miðað við 175 daga þannig að breytingin var ekki komin til framkvæmda, en í grunnskólunum var breytingin komin til framkvæmda áður en lögin 2008 voru samþykkt. Sveitarfélögin höfðu sjálf borgað aukadaga þannig að 180 dagar voru í grunnskólunum áður en lögin voru samþykkt þannig að til þess að breyta því þarf að fara í kjarasamninga kennara. Þess vegna er þetta erfiðara í grunnskólunum en í framhaldsskólunum.

Auðvitað er mikilvægt þegar kreppir að, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum, að haga hagræðingaraðgerðunum út frá sjónarmiði nemendanna og reyna síðan að fá fagmennina í skólunum til þess að fallast á bestu lausnina fyrir skjólstæðinga sína.

Varðandi ytra eftirlit líst mér ekki illa á það sem hv. þingmaður nefndi. Í rauninni er ég þeirrar skoðunar að það eigi að auka ytra eftirlit og ríkið eigi að leggja meira í eftirlit með menntastofnunum, hvort sem það eru grunnskólar eða framhaldsskólar. Sjálfsmat er lögbundið og er ágætt upp að vissu marki en ég er fylgjandi því að eftirlitið verði markvissara og að það verði aukið.