138. löggjafarþing — 147. fundur.
greiðsluaðlögun einstaklinga, 3. umræða.
frv. fél.- og trn., 670. mál (heildarlög). — Þskj. 1363, nál. 1421.

[10:15]
Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Markmið frumvarpsins, eins og fram hefur komið í umræðum, er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu. Þegar málinu var vísað til nefndarinnar eftir 2. umr. sendi nefndin frumvarpið að nýju til réttarfarsnefndar til yfirlestrar og leggur nefndin nú til breytingar í samræmis við athugasemdir sem borist hafa. Markús Sigurbjörnsson, formaður réttarfarsnefndar, kom á fund nefndarinnar og lagði til margvíslegar gagnlegar ábendingar sem nefndin fjallaði um og tók tillit til.

Í vinnu sinni hefur nefndin rætt talsvert um meðferð krafna, annars vegar þegar samningur um greiðsluaðlögun kemst á og hins vegar þegar ekki næst samningur og málið fer í farveg þvingaðrar greiðsluaðlögunar í samræmi við 18.–20. gr. frumvarpsins. Nefndin hefur lagt áherslu á að meðferð krafna væri með samræmdum hætti svo ekki væri innbyggður hvati fyrir kröfuhafa til að synja samningi og þvinga fram nauðasamning og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Í þessum efnum taldi formaður réttarfarsnefndar skýrt að þegar unnið væri að greiðsluaðlögun samkvæmt 18.–20. gr. væri byggt á þeirri vinnu sem þegar hefði farið fram og frumvarpi því sem var til grundvallar greiðsluaðlögunarumleitunum nema rík sanngirnissjónarmið hnigju að breytingum þar á og hægt væri að ráðstafa meiru til lánardrottna án þess að ganga á framfærslu skuldara og eftir atvikum fjölskyldu hans. Nefndin telur því vert að árétta að kröfuhafar sem synja um samning um greiðsluaðlögun án þess að hafa af því lögvarða hagsmuni eigi því ekki von á betri rétti eða kjörum í nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, auk þess sem unnt er að dæma þeim málskostnað til samræmis við lög um meðferð einkamála. Við gerð frumvarpa samkvæmt V. kafla frumvarpsins skal umsjónarmaður því taka mið af frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun og meðhöndla kröfur með sama hætti.

Nefndin fór yfir hlutverk umsjónarmanns en fram höfðu komið þau sjónarmið fyrir nefndinni að ekki væri nægilega skýrt hvenær hann hefði lokið hlutverki sínu. Áréttar nefndin því að falli greiðsluaðlögunarumræður niður skv. 15. gr. er hlutverki umsjónarmanns lokið og eins ef samningar nást um greiðsluaðlögun í samræmi við 17. gr. eða málið færist í farveg annarra laga í samræmi við ákvæði 18.–20. gr. Sé þörf á frekari afskiptum eða aðstoð eftir að hlutverki umsjónarmanns lýkur kemur slíkt í hlut umboðsmanns skuldara. Leggur nefndin því til breytingar þessu til samræmis þannig að það verði umboðsmaður skuldara en ekki umsjónarmaður sem skuli áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun sjá til þess í tæka tíð að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni. Þá komi það í hlut umboðsmanns skuldara að ráðstafa fé sem lagt hefur verið til hliðar vegna umdeildra krafna í samræmi við 22. gr. Að auki er rétt að árétta að standi til að selja eignir ef það er ekki gert á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana tekur umboðsmaður við slíkri umsýslu hafi hún ekki verið falin öðrum. Þá kemur það og í hans hlut að ráðstafa þeim fjármunum sem safnast vegna sölu eigna eftir að umsjónarmaður hefur lokið störfum.

Með þessu telur nefndin að hún hafi skýrt hlutverk umsjónarmanns og hvenær því er lokið.

Nefndin ræddi allnokkuð heimild þeirra sem búsettir eru erlendis til greiðsluaðlögunar. Þar sem ekki eru í gildi samningar við erlend ríki um gagnkvæma viðurkenningu í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar mundi nauðasamningur um greiðsluaðlögun því ekki koma í veg fyrir að lánardrottnar gætu sótt kröfu sína fyrir dómstóli þar sem lögheimili skuldara er. Nefndin leggur áherslu á að greiðsluaðlögun sé ekki ætlað að ná til skuldbindinga sem stofnast hafa erlendis, enda er m.a. gert ráð fyrir því í 10. gr. að kröfur séu innkallaðar í Lögbirtingablaðinu og er vart hægt að leggja þá skyldu á erlenda kröfuhafa að þeir lesi það. Að auki gæti slíkt lagt þunga rannsóknarskyldu á umboðsmann skuldara. Í ljósi þessa telur nefndin vert að afmarka nánar skilyrði greiðsluaðlögunar og leggur því til þá breytingu að almennt verði gert að skilyrði að einstaklingur eigi lögheimili á Íslandi. Frá því megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda. Leiti hann greiðsluaðlögunarinnar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili eða ef greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíla á fasteign hér á landi, enda sé eigandi hennar íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda.

Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um markmið laganna og segir í 2. mgr. að einstaklingum sem uppfylla skilyrði laganna sé heimilt í samræmi við ákvæði þeirra að leita eftir samningum um greiðsluaðlögun við kröfuhafa sína. Til skýringa er lagt til að við málsgreinina bætist að slíkur samningur geti bæði tekið til veðkrafna og samningskrafna eða einungis til annarrar hvorrar tegundar krafna.

Þá leggur nefndin til breytingu á h-lið 1. mgr. 3. gr. þar sem kröfur vegna áfallandi meðlags og lífeyris eru kröfur sem verða til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina og falla því undir a-lið ákvæðisins. Að auki er lögð til breyting á f-lið til að auka skýrleika.

Nefndin fjallaði sérstaklega um matskennd atriði í texta frumvarpsins enda hafði hún við vinnslu þess lagt áherslu á að reyna að draga úr matskenndum atriðum og skýra frumvarpið og samræma beitingu lagareglna.

Í 2. mgr. 4. gr. er kveðið á um að upplýsingar sem fylgja skuli með umsókn skuli einnig gefa um maka og heimilisfólk sé slíks þörf til að afmarka upplýsingar um útgjöld og tekjur skuldara. Ljóst er að framkvæmdin getur verið flókin enda oft ekki hægt að meta hvort þörf er á upplýsingunum fyrr en þær liggja fyrir. Leggur nefndin því til að síðari hluti ákvæðisins falli brott og skylt verði að upplýsingar um maka og heimilisfólk fylgi með umsókn. Þá áréttar nefndin að í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um að umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skuli fylgja sundurliðaðar upplýsingar um eignir er átt við skráðar sem og óskráðar eignir. Þar skuli því t.d. tiltaka ýmsa óskráða og verðmæta lausafjármuni.

Rætt var sérstaklega um störf umsjónarmanna og kostnað við störf þeirra og telur nefndin vert að árétta að þeir umsjónarmenn sem ekki eru starfsmenn umboðsmanns skuldara, sbr. 9. gr. frumvarpsins, eru ekki ráðnir inn sem starfsmenn stofnunarinnar heldur er gerður við þá þjónustusamningur í samræmi við 2. gr. frumvarps til laga um umboðsmann skuldara. Þá telur nefndin mikilvægt að til fyllingar laganna setji umboðsmaður skuldara umsjónarmönnum verklagsreglur sem tryggi samræmd vinnubrögð og gagnsæi við vinnu umsjónarmanna. Leggur nefndin því til nýtt ákvæði þess efnis.

Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að þegar umsókn skuldara um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt hefjist tímabundin frestun greiðslna sem felur m.a. í sér að skuldara sé veittur frestur á að greiða af skuldum. Þá er til að mynda kveðið á um það að óheimilt sé að gera fjárnám í eigum skuldara eða selja þær nauðungarsölu. Við upptalningu væri eðlilegt að bæta við að ekki mætti heldur gera kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans og brýnt að lánardrottnar geti ekki gert kröfu um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta meðan á frestun greiðslna stendur. Leggur nefndin til breytingar því til samræmis.

Í 14. gr. frumvarpsins er kveðið á um að umsjónarmaður skuli meta verðmæti þeirra eigna skuldara sem hann heldur eftir. Hér er að ræða nokkuð mikilvægan þátt í greiðsluaðlögun enda byggt á þessu mati þegar ákvarðað er hvaða hluti veðkrafna greiðist sem óveðtryggðar kröfur, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Í samræmi við þá áherslu nefndarinnar að auka skýrleika frumvarpsins og draga úr matskenndum atriðum leggur nefndin til að vilji lánardrottinn ekki una verðmati umsjónarmanns geti hann á eigin kostnað fengið dómkvaddan mann til að meta verðmæti eignar sem skuli þá ráða niðurstöðu um verðmæti hennar. Þar sem matið er bindandi fyrir aðila máls þótti nefndinni rétt að gera ríkari kröfur og er því kveðið á um dómkvaddan matsmann

Sú breyting sem nefndin leggur til á 20. gr. frumvarpsins helst nokkuð í hendur við breytingar sem nefndin leggur til á frumvarpi nefndarinnar um breytingar á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. nefndarálit um 671. mál, sem verður tekið fyrir á eftir. Breytingunni er m.a. ætlað tryggja að sé greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna leitað á grundvelli 20. gr. dugi ákvörðun umsjónarmanns um að heimila skuli skuldara að leita hennar og ekki þurfi dómsúrskurð eins og kveðið er á um í lögum nr. 50/2009. Um áframhald máls fer svo samkvæmt þeim lögum.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 21. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem ætlað er að skýra hvernig greiða skuli af veðkröfum og er í því tilliti vísað til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 sem hefur að geyma ítarlega útlistun á því hvernig greitt skuli í samræmi við veðrétt af áhvílandi veðkröfum við greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Í öðru lagi er lögð til sú breyting að í stað orðsins „húsaleigu“ komi „leigu“ enda getur verið veðréttur í fleiri eignum en fasteignum. Í þriðja lagi er svo lögð til sú breyting að um afnám veðskulda fari eftir 12. gr. laga nr. 50/2009 þannig að samræmi sé um meðferð veðkrafna umfram matsverð eignar. Þannig geti skuldari þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar, en áður en það er á enda, leitað eftir því að veðbönd verði máð af fasteigninni sem eru umfram söluverðmæti fasteignarinnar, sé sýnt að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum en geti þó staðið í skilum með það sem eftir stendur. Áréttar nefndin að þó svo að ekki sé tekið fram í ákvæðum 12. gr. laga nr. 50/2009 geti skuldari leitað aðstoðar og leiðbeininga hjá umboðsmanni skuldara sé hann í greiðsluerfiðleikum á þessum tímapunkti og þurfi frekari aðstoðar við. Nefndin leggur að auki til breytingu á 29. gr. frumvarpsins til samræmis við breytingar á 21. gr.

Nefndin leggur einnig til breytingar á 25. gr. þess efnis að samningur um greiðsluaðlögun falli sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta. Lögð er til breyting á heiti ákvæðisins til samræmis.

Í 26. gr. er kveðið á um málsmeðferð vegna breytinga, riftunar eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun. Vilji aðili ekki una ákvörðun umboðsmanns skuldara um breytingu eða synjun á breytingu getur hann kært hana til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Vilji aðili ekki una úrskurði kærunefndar er eðlilegt að hann geti höfðað dómsmál til ógildingar og til að taka af allan vafa um að slíkt sé heimilt leggur nefndin til breytingu þess efnis.

Nefndin hefur augljóslega lagt til ýmsar orðalagsbreytingar og breytingar sem eingöngu eru til þess fallnar að skýra frekar frumvarpið en ég fer ekki nánar í það hér og hef þó nefnt þær allnokkrar.

Að lokum, frú forseti, vil ég leyfa mér að þakka formanni réttarfarsnefndar, Markúsi Sigurbjörnssyni, fyrir afar gagnlegar ábendingar um bæði þetta mál og önnur þau mál sem hér verða tekin fyrir af hálfu félags- og tryggingamálanefndar í dag. Ég vil einnig þakka framúrskarandi störf ritara nefndarinnar, Hildar Evu Sigurðardóttur, og öðru starfsfólki á nefndasviði sem hefur lagt hart að sér við að koma bæði þessu máli og öðrum málum, eins og við þekkjum vel til hér í þinginu, í góðan farveg og að sjálfsögðu þakka ég svo nefndarmönnum í félags- og tryggingamálanefnd.

Sú sem hér stendur hefur í raun komið minnst að þessum málum öllum, því að ég kem hér inn rétt í blálokin eftir margra vikna fjarveru í fæðingarorlofi, en nefndin hefur verið undir styrkri stjórn hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og allir nefndarmenn hafa lagt á sig góða og mikla vinnu þverpólitískt, bæði minni hluti og meiri hluti, til að gera þetta sem best úr garði.

Nefndin leggur að sjálfsögðu til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem eru lagðar til á sérstöku þingskjali.

Undir nefndar álitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ögmundur Jónasson og Pétur H. Blöndal, með fyrirvara.



[10:29]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef átt þess kost að fylgjast nokkuð með störfum félags- og tryggingamálanefndar og tek undir þakkir hv. þingmanns til formanns réttarfarsnefndar og þá ekki síður til nefndarmanna í félags- og tryggingamálanefnd fyrir þá miklu og góðu vinnu sem þeir hafa í hana lagt og ekki síst til varaformanns nefndarinnar sem mikið hefur mætt á í þessu góða starfi.

Ég vildi af því tilefni leita eftir sjónarmiðum hv. þingmanns um það hversu mikinn hluta vandans hún telur að þessi sértæku úrræði, greiðsluaðlögunin og umboðsmaður skuldara og önnur slík mál úr ranni félags- og tryggingamálanefndar, muni leysa, hversu mörgum við ættum að reikna með að gætu nýtt sér þetta úrræði, til að mynda hvort þeir skipti hundruðum, þúsundum eða tugþúsundum. Telur hv. þingmaður að þessi sértæku úrræði séu fullnægjandi nú sem samþykkt verða í dag til að takast á við þann mikla skuldavanda sem heimilin eiga við að glíma, eða er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að jafnhliða þurfi að ráðast í almennar aðgerðir til að fækka í hópi þeirra sem glíma við skuldavanda í kjölfar hrunsins og deila með einhverjum hætti því mikla tjóni milli lánveitenda og lántakenda sem orðið hefur en ekki leggja það einhliða á lántakendur?



[10:30]
Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Félags- og tryggingamálanefnd tók við ákveðnum pakka um sértækar aðgerðir hér fyrir jól frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og þar tókum við nokkuð góða stefnu því að sumir vildu meina að þetta væri lokapunktur og ekkert meira yrði gert. En við sögðum í nefndinni: Þetta er lifandi löggjöf. Við ætlum að halda áfram að meta hana, hvernig hún virkar, hverjum hún kemur vel, hverjir eru hugsanlega út undan. Ég held að þetta sé vegvísir okkar áfram, þ.e. við erum að ræða í dag þessar sértæku aðgerðir sem sannarlega eru til bóta enda hafa nefndarmenn sameinast um að vinna þær og gera sem best úr garði, þetta er lifandi löggjöf. Við verðum að halda áfram að meta hvað kemur út úr þessu og hverjum það gagnast og sjá hverju vindur fram.

Ég hef í fleiri mánuði sagt að ég sé fylgjandi almennum aðgerðum en nú þurfum við sjá hvernig þessi úrræði nýtast. Þau eiga að nýtast þeim sem verst standa og þurfa nauðsynlega á hjálp að halda. Það er okkar leiðarljós áfram því að við verðum auðvitað líka að tala um það með ábyrgum hætti sem mögulegt er að gera og það sem ekki er hægt að gera.



[10:32]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir fór hér mjög ítarlega yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu á milli 2. og 3. umr. og ég hef litlu við það að bæta nema ég fagna þessum breytingum. Ég tel þær til þess fallnar að auka skilvirkni í því úrræði sem greiðsluaðlögun í frjálsum samningum verður og síðan mögulegt áframhaldandi ferli yfir í þvinguð úrræði. Það var markmið nefndarinnar að þetta yrði sem aðgengilegast fyrir þá sem eru illa skuldsettir og að það væri ekki hvati fyrir lánardrottna að hafna frjálsum samningum í ljósi þess að þeir teldu sig geta náð betri niðurstöðu fyrir sig í þvinguðum úrræðum fyrir dómstólum. Það er von okkar í nefndinni að þessar breytingar stuðli að þessum markmiðum og við fögnum því að geta bætt frumvarpið á milli umræðna.

Mig langar af þessu tilefni, af því að það er mikið gleðiefni og mikil réttarbót fyrir skuldug heimil á Íslandi að ná þessu frumvarpi í gegn, að rifja aðeins upp þá sögu sem liggur að baki þeirri afurð sem við stöndum frammi fyrir hér í dag. Hún hófst, eins og mjög margt annað í sölum Alþingis, á hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hún sem almennur þingmaður lagði hér fram frumvarp eftir frumvarp um greiðsluaðlögun einstaklinga. Það var á tíunda áratugnum. Á 125. þingi síðustu aldar lagði hún fram breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti en hafði áður, að mig minnir, verið með nokkur frumvörp um greiðsluaðlögun. Þessi frumvörp hlutu ekki náð fyrir augum meiri hluta þingsins þrátt fyrir lélega réttarstöðu íslenskra skuldara í samanburði við nágrannaríkin. Það er mjög bagalegt og segir hvað mikið þurfti til á Íslandi til að bæta réttarstöðu fólks, það þurfti beinlínis hrun fjármálakerfisins til þess að sjálfsögð réttarbót fyrir skuldara gæti náð í gegn í sölum Alþingis.

Í þeirri kreppu sem hafði áhrif í Evrópu í upphafi tíunda áratugarins og sérstaklega á Norðurlöndunum, þar sem voru miklir erfiðleikar í bankakerfinu og erfiðleikar á fasteignamarkaði, voru bundin í lög úrræði um greiðsluaðlögun svipuð þeim sem við erum hér að lögfesta í dag, 15–17 árum síðar.

Svo að ég haldi mig við söguna hér á Alþingi lagði hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi almennur þingmaður, fram þessi frumvörp þing eftir þing. Síðan þegar Samfylkingin settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 2007 hóf þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, gerð frumvarps um greiðsluaðlögun og það þótti of róttækt. Þar lagði hann til úrræði sem væru utan dómstóla og það þótti of róttækt þannig að því frumvarpi var breytt. Það var líka starfshópur sem starfaði með þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu sem reyndi að koma þessum málum í gegn en úr varð að þetta varð kafli í gjaldþrotaskiptalögunum og síðan þurfti að búa til sérstakan kafla um veðkröfur í kjölfar hrunsins. Björgvin hafði hafið þessa vinnu áður en síðan sáu menn að ekki væri hægt að lifa við svo búið og það þyrfti að herða á þessu, koma þessum úrræðum í gagnið, en það gekk ekki vandræðalaust fyrir sig.

Þetta er nú sérstakur kafli í gjaldþrotaskiptalögunum og síðan eru úrræði um greiðsluaðlögun veðkrafna alveg sértækar, ekki sami lagabálkur.

Þessi lög tóku gildi 1. apríl árið 2009 og hefur komið þó nokkur reynsla á þau. Að mörgu leyti hafa þau gefist vel þó að á þeim séu skavankar og óheppilegt sé að vinna samkvæmt svo nýjum lögum í svo erfiðum málum við jafnerfiðar aðstæður og hér eru varðandi skuldsetningu íslenskra heimila. Hefði nú verið gott ef eitthvað af frumvörpunum frá hæstv. forsætisráðherra á tíunda áratug síðustu aldar hefðu náð í gegn og við værum með almennileg ferli, sem hefðu verið reynd, í þessum málum.

Nú í vetur ákvað hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að freista þess að slípa til þessi úrræði, reyna að koma fleirum í gegnum frjálsa samninga og er það gert í ljósi þess að þrátt fyrir að við höfum hér lögfest ramma utan um sértæka skuldaaðlögun í bönkunum hefur það alls ekki gengið sem skyldi. Þar af leiðandi var þess freistað að setja nú í einn lagabálk frjálsa samninga og þvingaða fyrir almennar kröfur og veðkröfur.

Málin komu síðan til félags- og tryggingamálanefndar og fljótlega varð ljóst að að mati umsagnaraðila var ekki hægt að búa við það að hafa þau í einum lagabálki, eðlilegast væri að þvinguðu úrræðin væru enn þá innan gjaldþrotaskiptalaganna. Við höfum lagt nótt við dag að koma þessu þannig fyrir að búa til góðan og gildan lagaramma utan um frjálsu samningana þannig að það væri með þeim hætti að lánardrottnar treystu ferlinu. Það var gert svo þeir færu ekki að mótmæla eða krefjast dómsúrskurðar til þess að gæta hagsmuna sinna heldur vissu þeir að þegar umboðsmaður skuldara væri búinn að búa til drög að frjálsum samningi væri það samningur sem væri samkvæmt laganna hljóðan og treystandi og ekki ástæða til að vera að þvælast með þau mál meira.

Hér sitjum við í raun með þrjá lagabálka í stað tveggja og í stað þess eina sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra vildi freista að koma hér í gegn. Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð, sem hann lét reyndar ekki falla hér í ræðustól en ég held að hann muni ekki erfa við mig þó að ég hafi eftir honum það sem hann sagði, að það muni væntanlega taka okkur eitt ár í viðbót að horfast í augu við að þetta þurfi að vera í einum lagabálki.

Nú ætla ég rétt að vona að þetta muni ganga vel fyrir sig hjá umboðsmanni skuldara og verða lausn fyrir fjöldamörg heimili. Við höfum vandað okkur mikið við þetta mál. En ég ætla þó að leyfa mér að segja að ég ætla ekki að loka á það að við endum hér að ári liðnu enn eina ferðina og reyna að auka á skilvirkni í þessu úrræði.

Það er ekki gott að enda á þessum svartsýnu nótum því að ég er mjög ánægð með þessi frumvörp. Ég tel að þau nái þeim markmiðum að koma til móts við skuldsett heimili þannig að þau fái viðhlítandi aðstoð og stuðning og að þeirra hagsmuna sé gætt af opinberu valdi gagnvart lánardrottnum sem í langflestum tilfellum hafa miklu sterkari stöðu í samningum gagnvart sínum lántakendum. Við höfum öll lagt mikið á okkur og fengið góða aðstoð til þess að þetta verði sem best úr garði gert.

Að lokum vil ég þakka samnefndarmönnum mínum í félags- og tryggingamálanefnd fyrir ákaflega gott samstarf. Við munum fara inn í næsta vetur þar sem við munum fylgja þessum afkvæmum okkar úr garði og fylgjast með því að þau nýtist með þeim hætti sem vonir okkar standa til.



[10:41]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að freista þess í þágu hagræðingar og tímasparnaðar að tala um öll fjögur frumvörpin í einum pakka, í einum rykk, enda er þetta allt samhangandi og hefur hlotið heitið „heimilispakki“ eftir því sem liðið hefur á vinnuna.

Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir samstarfið í nefndinni. Það hefur verið gott og við höfum farið í þetta af mikilli eindrægni. Mér finnst nefndarmenn allir hafa unnið af miklum heilindum að því að reyna að finna bestu lausnirnar á mjög viðamiklum og oft erfiðum álitamálum í þessu öllu saman, enda er lánamarkaðurinn ekki auðvelt svið að fara inn á og ekki auðvelt að setja lög sem oft eru á mörkum þess að taka eignarrétt frá fólki, en kröfuhafar hafa náttúrlega eignarrétt á kröfum sínum, og oft erum við að tipla á línunni. Ég held og vona, sérstaklega eftir að formaður réttarfarsnefndar hefur lesið þessi lagafrumvörp yfir einu sinni enn, að við séum réttu megin við línuna og þetta standi allt saman.

Um hvað er að ræða? Hér er um að ræða fjögur frumvörp, um greiðsluaðlögun einstaklinga, breytingar á lögum um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, umboðsmann skuldara og tvær eignir.

Fyrst um greiðsluaðlögun einstaklinga, en það er lagarammi utan um frjálsa samninga. Þetta er nýbreytni á Íslandi. Ég held að þetta sé stórt skref burt séð frá hruninu, þetta er líka réttarbót fyrir skuldara almennt og, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir rakti, hafa einstaklingar hér á þingi og annars staðar barist fyrir því að fá svona löggjöf á Íslandi. Nú er hún um það bil komin og á náttúrlega að standa um ókomna framtíð. Þetta er ekki bara úrræði vegna þess að hér hrundi allt, þótt kveikjan að því að farið er í þetta verkefni núna sé líklega fjármálahrunið, þá er þetta auðvitað lagabálkur sem á að standa um alla framtíð og getur síðan mögulega og mjög líklega haft jákvæð áhrif á lánamarkaðinn, vegna þess að þetta hefur vantað. Það hefur vantað einhverja réttarstöðu fyrir skuldara. Það mun vonandi leiða til þess að lánveitendur hagi sér betur í framtíðinni.

Í þessari greiðsluaðlögun einstaklinga felst auðvitað bæði skjól fyrir skuldara og uppgjör fyrir þá skuldara sem eru í verulegum vanda. Skjólið felst í því að skuldari greiðir af fasteignaveðkröfum tilskilda upphæð sem miðast við sanngjarna húsaleigu á tímabili greiðsluaðlögunarinnar og síðan er skoðað í lokin hvort ekki sé rétt að afskrifa fasteignaveðkröfur niður að 100% af markaðsvirði. Uppgjörið felst í því að á greiðsluaðlögunartímabilinu borgar skuldarinn bara tiltekið hlutfall af samningskröfum og þær falla síðan niður í lokin. Eftir greiðsluaðlögunartímabil eiga því einstaklingar í verulegum vanda að standa eftir með miklu betri fjárhag og forsendur til þess að hefja nýtt líf í fjárhagslegu tilliti og þá er markmiðinu auðvitað náð.

Ég vil segja fleira um greiðsluaðlögun einstaklinga. Mér finnst afskaplega mikilvægt að nefndin hafi tekið þá afstöðu að hafa einyrkja þar inni, en í upphaflegum drögum var gert ráð fyrir takmörkunum að því leyti, þannig að einungis lítill hluti skulda mátti stafa af atvinnurekstri þótt skuldirnar væru á kennitölu viðkomandi. Mér finnst afskaplega mikilvægt að nefndin ákvað að taka burt þessa takmörkun. Nú er bara um að ræða skuldir á kennitölu einstaklinga, þótt uppruni þeirra sé jafnvel í atvinnurekstri. Einyrkjar komast nú þarna inn og það er t.d. gríðarlega mikilvægt fyrir bændur sem margir hafa rekstur og heimilisrekstur undir sinni eigin kennitölu. Þeir geta þá farið í þessa greiðsluaðlögun.

Síðan finnst mér hvatinn fyrir kröfuhafa afskaplega mikilvægur og hann er gerður skýrari í síðari yfirferð á milli 2. og 3. umr. nefndarinnar. Ég hef þá trú að hvatinn fyrir kröfuhafa verði til þess að þeir fara í frjálsa samninga frekar en dómstólaleiðina. Það var náttúrlega eitt stærsta viðfangsefni nefndarinnar að hafa hvatann þannig.

Ýmsar breytingar sem við gerðum á löggjöfinni um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna lúta að því sama, að hafa hvatann þannig að kröfuhafar séu reiðubúnir að semja frekar í frjálsum samningum en að fara dómstólaleiðina.

Þar er líka mikilvæg breyting sem er greiðsluaðlögun einstaklinga, við opnum fyrir að fólk sem er tímabundið í námi eða starfi erlendis geti nýtt sér þessi úrræði. Það er mjög mikilvægt til að reyna að fá þá Íslendinga sem fluttu af landi brott í kjölfar hrunsins aftur heim. Að þetta úrræði bjóðist þeim er mjög mikilvægt skref í þá átt.

Síðan er lagafrumvarpið um umboðsmann skuldara. Ég held að við setjum mikið tímamótaembætti þar á stofn. Það yrði í fyrsta skipti á Íslandi sem skuldarar, lántakendur, munu eiga sér einhvern málsvara, þangað geta lántakendur farið og leitað sér réttarbótar. Það er beinlínis kveðið á um það í þeim lögum og mjög mikilvægt að umboðsmaður skuldara skuli sinna hagsmunum lántakenda.

Það lagafrumvarp sem vonandi mun leysa vanda afmarkaðs hóps hvað skilvirkast af þessum öllum er frumvarpið um tvær eignir. Nefndin metur það svo að kannski 1.100–1.500 manns á Íslandi séu í vandræðum með tvær eignir, hafi keypt eign í aðdraganda hrunsins og ekki getað selt þá gömlu og sitji uppi með afborganir af tveimur eignum. Frumvarpið um tvær eignir var ansi flókið vegna þess að þar tipluðum við á mörkum þess að hlunnfara eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, en ég held að við gerum það ekki með þeim breytingum sem m.a. formaður réttarfarsnefndar lagði til í meðförum nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Ég held að þessi lög muni nú virka þannig að spursmál varðandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar muni ekki koma til álita. Þetta snýst sem sagt um það að auðvitað er ekkert hlaupið að því að færa veð á milli eigna en frumvarpið gerir ráð fyrir að skuldari geti losað sig við aðra eignina með 100% veðsetningu og haldið eftir hinni.

Við gerðum líka þær mikilvægu breytingar á því frumvarpi að við ákváðum að hafa rýmri tímamörk. Við gerðum ráð fyrir að frumvarpið eða lögin ættu bara við þá sem keyptu íbúð eftir 1. janúar 2007 en ákváðum að hafa það 1. janúar 2006. Það var gert vegna ábendinga sem okkur bárust frá aðilum utan höfuðborgarsvæðisins, en á það var bent og við sannfærðumst um það með rannsóknum, að fasteignamarkaðurinn fraus töluvert fyrr á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og fólk lenti þar af leiðandi töluvert fyrr í þessum vandræðum úti á landi. Þetta er því gert rýmra til að mæta þeim sjónarmiðum.

Svo er líka mikilvægt að við gerum ráð fyrir því í lögunum að fólk þurfi að leita fasteignamats hjá tveimur löggiltum fasteignasölum. Það getur líka verið vandamál úti á landi þar sem fólk þarf jafnvel að kalla til fasteignasala um langan veg til þess að gera þetta mat. Við leggjum til þá breytingu að eftir að þetta úrræði eða eignaráðstöfun er farin í gegn, muni umboðsmaður skuldara greiða kostnaðinn af matinu. Það getur verið umtalsverð upphæð.

Ég held að eftir alla þessa yfirferð höfum við býsna góð lagafrumvörp sem virka vonandi. Það er mjög mikilvægt að þau virki. Það er mjög mikilvægt fyrir þau heimili sem eru í verulegum vanda að þessi úrræði virki öll og að við sem stöndum að þeim tölum þau upp, eins og við höfum verið að gera, en séum líka meðvituð um það að reynslan muni örugglega leiða ýmislegt í ljós. Það liggur einfaldlega í eðli þessara mála. Reynsla annarra landa segir okkur líka að nú þegar þessi framkvæmd hefst muni hefjast samræða við reynsluna, ef svo má að orði komast, og reynslan mun örugglega færa okkur ýmis úrlausnarefni sem við þurfum að taka á. En ég vona að þau verði ekki allt of mörg.

Síðari hluta ræðunnar vil ég nota til að tala um það sem vantar á lánamarkaðinn, það sem þarf líka að gera. Það sem við erum að gera hér í félags- og tryggingamálanefnd er að hanna spítala. Við erum vonandi að búa til góðan spítala sem mun gagnast þeim sem eru sjúkir í fjárhagslegu tilliti. Þarna munu fara fram uppskurðir og lyfjameðferðir og hitt og þetta og vonandi kemur fólk út úr þessari stofnun heilt heilsu og getur byrjað nýtt líf. En eins og í tilviki heilbrigðismála nægir ekki að byggja spítalann, það þarf líka að huga að samfélaginu öllu. Samfélagið þarf að vera þannig að sem fæstir lendi á spítala. Það verður að huga að forvörnum. Það þarf að predika um hollt mataræði og hreyfingu. Það þarf að stuðla að því að fólk taki vítamín. Það þarf að bólusetja. Samfélagið þarf sem sagt að vera heilbrigt. Það er auðvitað næsta viðfangsefni og við ættum að vera komin miklu lengra á leið með það að huga að heildarsamfélaginu í fjárhagslegu tilliti og þá erum við að tala um þær almennu aðgerðir sem þarf að fara í.

Það er merkilega furðulegt hvað það gengur illa að fá umræðuna um almennar aðgerðir á það stig í þessum sal að hún skili einhverju. Allt of oft lenda umræður um almennar aðgerðir í einhvers konar skeytastíl þar sem rökum um nauðsyn almennra aðgerða, eins og skuldaleiðréttinga og þess háttar, er mætt með einhvers konar akademískum rökum um að ekkert slíkt sé hægt. Á meðan hitt væri miklu betra að löngu fyrr hefðu menn einfaldlega sagt: Já, það þarf að fara í almennar aðgerðir. Já, við þurfum að skoða þær. Og að þetta ferli hefði hafist fyrir tveimur árum, einu ári, eða einu og hálfu ári síðan og menn hefðu síðan komist að einhverri niðurstöðu. En enn erum við föst í þessum skotgröfum þar sem góðum og gildum röksemdum, sem alltaf eru að verða betri og betri, um nauðsyn almennra aðgerða, eins og t.d. skuldaleiðréttinga á almennum lánamarkaði, er mætt með sífellt langsóttari rökum um að ekkert slíkt sé hægt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að alltaf sé hægt að rökstyðja að ekkert sé hægt, að hægt sé að fara í gegnum lífið með þeim rökum og gera ekki neitt. Það heyrðist t.d. ágætt sjónarmið frá kvikmyndaframleiðanda um daginn sem sagði að ef hann hefði alltaf hlustað á þau rök sem voru býsna sannfærandi við upphaf gerðar hverrar kvikmyndar hefði hann aldrei gert neina kvikmynd. Við þurfum að koma okkur upp úr þessu. Við þurfum að byrja að skoða kerfisbundið hvað þarf að gera. Við þurfum að ná niður vaxtastigi. Við þurfum að fara í leiðréttingar. Hæstaréttardómurinn um gengistryggð lán felur í sér leiðréttingar á lánamarkaði og við verðum að leyfa því að gerast.

Við megum ekki alltaf vera í því að sporna við þessu með langsóttum rökum um að eitthvað sé ekki hægt. Það þarf að ná niður verðlagi. Það þarf að ná upp atvinnustigi. Það þarf að koma neyslunni af stað. Hæstaréttardómurinn getur mögulega gert það ef við leyfum því að gerast og hugsum í lausnum. Það er mjög mikilvægt sé að við komum okkur upp úr þessu. Ég held að næsta skref sé að reyna að byrja að hugsa þannig að víst sé hægt að létta byrðum af almenningi á Íslandi með almennum aðgerðum. Menn þurfa ekki alltaf að stilla sér upp, eins og margir háttsettir ráðherrar í ríkisstjórninni gera, sem einhvers konar talsmenn raunsæis í þeim efnum, einhvers konar bremsur á að allt slíkt verði skoðað. Upp úr þeim hjólförum verðum við að ná okkur. Vegna þess að enginn vill setja einhverjar gríðarlegar byrðar á ríkissjóð í þessum efnum, en menn hafa verið mjög iðnir við að benda á lausnir sem fela ekki í sér slíkar byrðar.

Það er bráðnauðsynlegt að vinda sér næst í þetta. Það þýðir ekki að hanna bara spítalann, en það held ég að við séum að gera hér. Þetta er hátæknisjúkrahús. (Forseti hringir.) Ég fagna því og vona að þetta virki vel.



[10:56]Útbýting:

[10:57]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að umræða um skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra mun fara fram hér klukkan 13.30.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:01]

Of skammt var liðið frá útbýtingu þskj. 1422, 1426 og 1427. — Afbrigði samþ. með 30 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AMG,  ÁI,  ÁsbÓ,  ÁRJ,  BÁ,  BVG,  GuðbH,  GLG,  GStein,  GBS,  HHj,  JBjarn,  OH,  ÓBK,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RM,  SDG,  SII,  SIJ,  SKK,  SF,  SkH,  UBK,  ÞSveinb,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ.
2 þm. (MT,  ÞSa) greiddu ekki atkv.
31 þm. (AtlG,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁÞS,  ÁsmD,  BirgJ,  BJJ,  BjarnB,  EKG,  EyH,  GÞÞ,  HöskÞ,  JóhS,  JónG,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MÁ,  RR,  SER,  SJS,  SSv,  TÞH,  VBj,  VigH,  ÖS) fjarstaddur.

[11:01]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill endurtaka það sem hann sagði áðan að umræðan um skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra fer fram klukkan 13.30 í dag.



[11:02]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Í rauninni var það hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að rétt væri að ræða öll þau frumvörp sem snerta húsnæðisvandann í einni spyrðu, þau eru samhangandi og nátengd. Hér hefur verið vikið að sögulegum þáttum, það gerði meðal annarra hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og mig langaði til að koma með þriggja mínútna innlegg um hina sögulegu vídd auk þess að leggja áherslu á að það þarf að skoða þessi mál í breiðu samhengi við lánamarkaðinn almennt. Við megum ekki gleyma því að þetta er neyðarlaganálgun, mjög góð og gagnleg og mikilvæg að því leyti að hún stefnir að því að koma í veg fyrir gjaldþrot svo að fólk missi ekki heimili sín. Við erum að reyna að slá skjaldborg um heimili fólks sem á í miklum greiðsluerfiðleikum.

Vandinn er náttúrlega greiðsluerfiðleikarnir og þeir eru ekki einvörðungu tengdir forsendubresti af völdum hrunsins. Húsnæðiskerfið og lánamarkaðurinn á Íslandi hefur verið ófullnægjandi um langan tíma. Af því að vísað var í sögulega þætti minnist ég þess að sitja oft á þingpöllum og álykta utan úr bæ um breytingar sem gerðar voru á húsnæðiskerfinu á tíunda áratugnum þegar þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks skerti kjör í almenna kerfinu, sérstaklega hvað verkamannabústaði áhrærir. Vextir á verkamannabústaðalánunum voru í byrjun tíunda áratugarins 1% umfram verðbólgu. Á fyrstu árum tíunda áratugarins hækkaði þáverandi ríkisstjórn, félagsmálaráðherra Alþýðuflokksins, þessi vaxtakjör og breytti þeim til hins verra. Síðan var aftur gerð stór breyting á húsnæðiskerfinu árið 1999. Þá tóku ný lög gildi sem færðu okkur enn inn á markaðsbrautina en engin almennileg félagsleg úrræði litu dagsins ljós. Við erum með lánamarkað sem býður upp á háa vexti og verðtryggingu að auki og sum okkar hér í þinginu hafa ítrekað lagt fram þingmál til að sporna gegn þessu.

Þegar verðtryggingin var tekin upp í byrjun níunda áratugarins, með Ólafslögum árið 1981, höfðu ýmsir á orði, t.d. þáverandi seðlabankastjóri Jóhannes Nordal og þingmaður sem hér situr og var þá stofnandi Kaupþings, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að á verðtryggðum lánum ættu ekki að hvíla meira en 2% vextir. Verðtrygging og háir vextir færu einfaldlega ekki saman. En hvað hefur gerst síðan? Við erum með kerfi sem býður upp á verðtryggingu lána og breytilega vexti. Ég hef margoft lagt fram frumvörp í þinginu um að afnema eða koma í veg fyrir þetta forræði lánamarkaðarins gagnvart lántakendum.

Ég vil vekja athygli á breiðu samhengi hlutanna, að Alþingi verður að taka á vaxtakjörunum almennt í landinu. Við verðum að afnema verðtrygginguna og fyrsta skrefið í þá átt gæti verið þak á leyfilega verðtryggingu á lánum. Síðan verðum við að feta okkur út úr þessu kerfi. Ég hef á undanförnum árum ekki gagnrýnt verðtrygginguna en nú er svo komið að hún er að mínum dómi orðin mjög skaðleg. Ég vildi aðeins, hæstv. forseti, vekja athygli á þessum þáttum, að við erum að grípa til neyðarúrræða sem eiga vissulega við inn í framtíðina, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi, en við getum ekki skotið okkur undan því að taka heildstætt á lánamarkaðnum.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem fram hefur komið í máli formanns félags- og tryggingamálanefndar, hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, um rökstuðning sem færður er fyrir þessu frumvarpi sem ég tel tvímælalaust vera mjög mikilvægt skref fram á við og réttarbót fyrir skuldugt fólk. Það er verið að koma í veg fyrir að fólk sem á í alvarlegum greiðsluvanda missi heimili sín.



[11:07]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi medalía hefur tvær ef ekki þrjár hliðar. Annars vegar eru skuldarar sem taka peninga að láni, þ.e. flýta neyslu sinni. Þeir kaupa eitthvað sem þeir eiga ekki fyrir og taka til þess lán svo þeir geti flýtt neyslu sinni. Á móti þarf alltaf einhver að vera sem frestar neyslunni, sparifjáreigandi sem sumir kalla fjármagnseiganda í niðrandi tón. Íslendingar hafa í áratugi, hálfa öld, tekið erlent sparifé að láni og núna súpa þeir seyðið af því. Núna fáum við ekki lán erlendis og þá er númer eitt, tvö og þrjú að reyna að treysta á innlendan sparnað. Það talar enginn í þessum sölum — ég man ekki til þess — um vandamál sparifjáreigenda.

Hvað skyldi vera að gerast núna? Vextir eru 2–2,5% í 7% verðbólgu. Fólk tapar. Sá sem gat keypt skíði fyrir ári getur ekki lengur keypt skíði með því að fresta neyslu á skíðum. Og þetta er skattlagt. Tapið er auk þess skattlagt og það er verið að auka skattlagninguna úr 10% í 18%. Hvað gerist ef menn nenna ekki lengur að spara og kaupa bara skíðin strax? Hvar skyldu þá lántakendur fá lán og hvar skyldu fyrirtæki fá lán og áhættufé til að byggja upp störf? Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson.



[11:09]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hægt að nálgast þetta með ýmsum hætti. Ef ég á peninga og ætla að biðja hv. þingmann um að geyma þá, hvað get ég farið fram á að hann greiði mér mikið fyrir? Það mætti snúa þessu við og spyrja hvort ég ætti ekki að greiða honum fyrir að passa upp á peningana mína. Staðreyndin er sú að það hefur enginn andmælt því að það séu lagðir vextir á fjármagn. Spurningin er hversu miklir þeir eru og á hvaða kjörum. Þegar þeir eru eins háir eins og verið hefur á Íslandi núna í tvo áratugi gerist það að verðmæti eru flutt frá heimilunum og frá framleiðslunni yfir til fjármagnsins. Það hefur verið að gerast á Íslandi og það er þetta ójafnvægi sem við viljum taka á.

Síðan er það hitt að það hefur orðið forsendubrestur í íslensku samfélagi. Fjármálakerfið okkar hefur hrunið. Hvað þýðir það? Það þýðir tekjuhrap hjá ríkissjóði, sveitarsjóðum og heimilunum, kaupmátturinn þverr og það eru minni peningar. Með öðrum orðum, allar efnahagsstærðir í þjóðfélaginu eru að rýrna nema ein, þ.e. þeir sem lána peninga. Þeir eru með allt sitt á þurru með verðtryggingu og háum vöxtum. Ég er einfaldlega að segja að fjármagnið verður að vera hluti af samfélaginu að þessu leyti. Við Íslendingar höfum hrunið í tekjum og við verðum að dreifa byrðunum á réttlátan máta. Það er málið.

Ég hef fram til þessa ekki andæft verðtryggingunni, einfaldlega vegna þess að á verðtryggðum lánum hafa hvílt lægri (Forseti hringir.) raunvextir en á óverðtryggðum. Þegar lánið er hins vegar gert upp endanlega (Forseti hringir.) er það miklu dýrara þannig að í þessu er fólgin ákveðin mótsögn.



[11:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði ekki um sparifjáreigandann, manninn sem leggur peninga til hliðar og treystir því að fá þá til baka. Verðtryggingin er haldreipi hans. Ef verðtryggingin á að skerðast er þetta haldreipi tekið frá manninum, hann treystir ekki lengur sparnaðinum og fer bara að eyða. Hvar ætla Íslendingar þá að fá peninga til þess að lána fyrirtækjum og einstaklingum til þess að kaupa og flýta neyslu?

Annað kemur líka inn í þetta. Hv. þingmaður talaði um að fjármagnið hefði allt sitt á hreinu. 55.000 manns töpuðu hlutabréfum og sennilega 10.000 í viðbót, ég fæ ekki upplýsingar um það, töpuðu stofnbréfum, sennilega um 100 milljörðum kr. Svo segir hv. þingmaður að fjármagnið hafi allt sitt á þurru, líka sparifé. Sparifé hefur rýrnað, ef það er mælt í evrum, um 30–40% á meðan skuldirnar mældar í evrum hafa lækkað, meira að segja verðtryggðar, ekki gengistryggðar, sem er reyndar búið að dæma núna ógildar. Það er því ekki rétt fullyrðing að fjármagnið sé á þurru. Vandamálið er að allt of fáir Íslendingar vilja spara og allt of margir vilja eyða. Vextir eru svona óskaplega háir á Íslandi vegna þess að það er skortur á lánsfé. Það er skortur á sparnaði og menn ná ekki vöxtunum niður vegna lögmálsins um framboð og eftirspurn fyrr en þeir auka sparnaðinn. Mér sýnist að allir séu núna að vinna í því að minnka hann, það er meira að segja hvatning til að taka út, og það er alveg ótrúlega óábyrgt. Ég held að hv. þingmenn ættu að vinna að því að gæta hagsmuna sparifjáreigenda (Forseti hringir.) fyrst og fremst.



[11:14]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hér var talað af mikilli lotningu um Lögmálið, með stórum staf, framboð og eftirspurn. Ég vil minna hv. þingmann á að við erum samfélag og við tökum sameiginlega á vanda samfélagsins. Ég er líka sparifjáreigandi, það er hv. þingmaður og flestir hér inni. Ég greiði í lífeyrissjóð tæp 20% af öllum tekjum mínum, þ.e. í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eins og við gerum öll hér og í séreignarsjóð eins og við höfum heimild til. Það gera 19,5% af heildartekjum. Hvað þýðir það? Það þýðir að í fimm daga vinnuviku vinnum við einn dag fyrir lífeyrissjóðinn. Við setjum peningana okkar í sparnað í lífeyrissjóðinn. Ég vil láta nota þessa peninga mína á ábyrgan hátt í þágu samfélagsins. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að lífeyrissjóðirnir stilltu vaxtakröfum og arðsemissjónarmiðum í hóf. Ég var andvígur því ákvæði lífeyrissjóðslaganna sem skyldar þá til að sækjast alltaf eftir hæstu arðsemi. Þeir eiga að hugsa líka samfélagslega og til langs tíma. (Gripið fram í.)

Nú eru þessir peningar í bönkunum og bíða eftir að komast á beit, verða að gagni í samfélaginu og styrkja samfélag okkar. Sterkir lífeyrissjóðir í dauðu efnahagskerfi glata fljótt styrk sínum og verða að engu. Þess vegna mælist ég til þess að við horfum heildstætt og af ábyrgð á þessi mál í samfélagslegu samhengi en ekki út frá þröngum, agnarsmáum músarholusjónarmiðum sparifjáreigandans. Auðvitað þarf að hyggja að hans hagsmunum líka og það (Forseti hringir.) viljum við gera. En við gerum það ekki með því að keyra vaxtabyrðina upp (Forseti hringir.) í verðtryggðu kerfi sem gengið hefur sér til húðar.



[11:16]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þessu frumvarpi var sem betur fer frestað þann 16. júní vegna þess að komið höfðu fram veigamiklar veilur í því, eins og ég óttaðist þegar ég hafði efasemdir um að skrifa undir það og flytja og beiddist þess að því yrði frestað. Nú vona ég að það sé orðið það gott, að ekki séu lengur í því neinar veilur og að framkvæmdin geti verið hröð. Það er mjög mikilvægt að framkvæmdin verði hröð vegna þess að frumvarpið snertir mjög stóran hóp.

Þetta frumvarp leysir ekki vanda þjóðarinnar. Ákveðinn hluti þjóðarinnar, sumir segja 10%, er í vonlausri stöðu eftir hrunið vegna atvinnuleysis, vegna ofskuldsetningar, vegna þess að lífskjörin hafa versnað. Launin hafa ekki haldið í við verðbólguna, langt í frá. Sumir hafa þurft að sæta lækkun launa í krónutölu þannig að lífskjörin hafa versnað mjög mikið, bæði geta manna til að borga af lánum og til að halda og reka heimili. Bleiurnar hækka líka, ekki bara lánin. Við erum því að leysa vanda þeirra sem eru í glataðri stöðu sem einu sinni hét að verða gjaldþrota. Við erum að reyna að búa til úrræði sem gerir að verkum að menn verði ekki gjaldþrota, þeir haldi eign sinni og geti ráðið við vandann án þess að vera gerðir gjaldþrota. Það er mjög mikilvægt vegna þess að þegar menn verða gjaldþrota dettur allur greiðsluvilji niður og óhemju fé tapast alltaf. En ef málin eru gerð upp á þennan hátt helst viljinn til að borga af lánum og standa sig og frumvarpið á að gera það að verkum að menn geti farið í gegnum þennan pakka án þess að brotna.

Fyrir nokkru féll hæstaréttardómur um gengistryggð lán sem breytir stöðunni eitthvað. Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég hafi nokkrar tölur um það, frú forseti, því að okkur vantar allar upplýsingar. Því miður er könnun Seðlabankans orðin gömul og ekki lengur hægt að miða við hana en ég geri ráð fyrir því að heimilunum sem eru í þeim mikla vanda sem við erum að leysa hér, fækki kannski úr 10.000 í 8.000 heimili. Þetta er bara sagt svona. Ég hugsa að það sé ekki mikið meira vegna þess að atvinnuleysið hefur ekki minnkað við þennan hæstaréttardóm. Launin hafa ekkert hækkað og menn eru jafnvel með verðtryggð lán en ekki gengistryggð. Sumir voru í miklum vanda fyrir og hafa alltaf verið í vanda þannig að frumvarpið hefði svo sem mátt vera til áður. Frumvarpið hefur því fullt gildi þótt hæstaréttardómurinn hafi fallið og fjöldi þeirra sem þurfa á þessum úrræðum að halda hafi minnkað.

Markmið laganna er að gera upp skuldir. Þegar þjóðfélög lenda í svona hruni, er almennt álitið að það sé mjög mikilvægt að skuldir séu gerðar upp, gengið sé frá hlutum og menn geti byrjað aftur með hreint borð. Þetta frumvarp er liður í því að reyna að ganga frá skuldum heimilanna, þurrka út það sem menn geta ekki borgað svo þeir geti haldið áfram og byrjað upp á nýtt með hreint borð. Ég vona að með frumvarpinu náist það markmið.

Vandinn í þessu er hraðinn. Ef um er að ræða 10.000 heimili, við skulum gefa okkur það, og við náum 20 á dag eru það 500 dagar. Við erum að tala um svo óskaplega mikið magn að þetta þarf að vinna hratt. Til að ná því fram hef ég lagt fram breytingartillögu, sem dreift var í dag, um kröfuskrá þar sem öllum kröfum landsins er safnað á einn stað í opinberri vörslu, bara með kennitölum skuldara og kröfuhafa. Hægt er að leita í þeirri skrá hratt og vel á sekúndu að öllum kröfum sem einstaklingur er talinn skulda. Svo er hægt að senda kröfuhöfum tölvupóst, líka á ljóshraða, og þeir geta lýst sínum kröfum. Þetta mundi hraða ferlinu sennilega um mánuð eða meira auk þess sem þetta er miklu fullkomnara kerfi til að halda utan um allar kröfur, ekki bara veðkröfur.

Ég vonast til að það verði rætt — það þarf ekki að ræða það einu sinni — að það fari til nefndar og fái umsögn. Ég held að það sé mikilvægt að það verði rætt og fái umsagnir. Kannski er þetta ekki fært en ég vildi prófa það.

Við erum í fyrsta lagi með frjálsa samninga og allir vilja auðvitað að heimilin fari í frjálsa samninga. En það er líka úrræði að fara í þvingaða samninga eða þvinguð úrræði. Við vonumst til þess að í starfi nefndarinnar hafi því verið náð að meiri hvati verði til að fara í frjálsa samninga en þvingaða.

Ég flyt líka breytingartillögu við 4. gr. sem fjallar um heimild til að veita greiðsluaðlögun og umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er inni sjónarmið um að menn þurfi að hafa dálítið fyrir þessu. Menn hafa sagt fyrir nefndinni að ef þetta sé of létt taki menn það ekki alvarlega. Ég fellst ekki á þá röksemd. Ég fellst alls ekki á það.

Umboðsmaður skuldara, sem við ræðum á eftir, hefur allar heimildir til að leita í öllum skrám að upplýsingum um einstaklinginn, í skattskrám, fasteignaskrá, bifreiðaskrá o.s.frv. Ég sé enga ástæðu til þess að fólk sem er í miklum vanda og búið að vera í ógurlegum vanda sé látið klífa þrítugan hamar og hlaupa á milli skrifstofa og ná í gögn, sem eru til og hægt er að ná í rafrænt. Ég sé engan akk í því að opinberum starfsmönnum sé gert að afgreiða svona fólk sem stendur í biðröðum. Þetta gerir ekkert annað en að auka vinnu. Ég kem því með breytingartillögu um að hinn venjulegi maður komi bara með kennitöluna sína og nafnið sitt. Allt annað liggur fyrir. Hjúskaparstaðan er í þjóðskrá, fasteignirnar eru í fasteignaskrá og skuldastaðan er hjá lánastofnunum o.s.frv. Þannig finnst mér að þetta eigi að vera. Ef um er að ræða afbrigðilegar eignir, frímerkjasafn eða bókasafn eða hesta eða skartgripasafn eða eitthvað slíkt þurfa menn að telja það upp. Það vantar reyndar í frumvarpið eins og við afgreiðum það núna.

Ég tel mjög mikilvægt að breytingartillagan verði samþykkt, þetta verði gert einfalt og lipurt og að umboðsmaður skuldara aðstoði fólk eins og hann mögulega getur þannig að þetta verði einfalt kerfi. Nógu erfitt hefur það verið fyrir skuldarana. Ég legg því til að hv. þingmenn samþykki breytingartillöguna sem ég flyt við frumvarpið.



[11:24]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga en ég hef tekið þátt í vinnu félagsmálanefndar varðandi þau mál öll sem fara í gegn í dag, þessi fjögur mál frá félagsmálanefnd. Ég verð að segja að það hefur verið mjög athyglisvert að taka þátt í þeirri vinnu. Hér hefur verið farið yfir hvernig þetta hefur gengið fyrir sig, allt frá því að félagsmálaráðherra lagði fram útfærslur sínar að frumvarpi sem nefndin hefur síðan gerbreytt. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að orðið var við beiðni okkar sjálfstæðismanna um að setja þennan þingdag í dag svo okkur í nefndinni gæfist tími til að fara yfir málið enn og aftur og þá með fulltrúum réttarfarsnefnda. Hér fer félagsmálanefnd inn á svið sem tengist óneitanlega skuldaskilaréttinum og því er mikilvægt að fá hæfustu sérfræðinga til að aðstoða okkur. Ég fagna því.

Ég tel að þetta sé mjög til bóta enda sjáum við öll að frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá síðustu umræðu. Þær eru allar mjög mikilvægar vegna þess að þrátt fyrir að okkur sé mikið í mun að lögfesta úrræði til handa heimilunum er auðvitað algjörlega ljóst að þau úrræði verða að virka, framkvæmdin verður að vera skilvirk og að sjálfsögðu verður þetta allt saman að vera í samræmi við aðra löggjöf, ég tala nú ekki um sjálfa stjórnarskrána.

Það er mjög mikilvægt að það ríki sátt um lagasetningu sem þessa og þess vegna höfum við sjálfstæðismenn allt frá því að við byrjuðum — eða allt frá því að ég tók sæti á þingi að minnsta kosti — talað fyrir því að þegar þessi mál yrðu rædd, skuldavandamál heimilanna, reyndum við öll, sama hvaðan úr flokki við komum, að setjast saman að borðinu og finna lausnir. Þetta verkefni er risavaxið og það er ekki einfalt að finna leiðir til að forða því að fleiri heimili lendi í miklum greiðsluerfiðleikum. Þess vegna er mikilvægt að allir þingmenn leggi saman krafta sína til að vinna að því verkefni. Ég fagna því sérstaklega þeirri góðu vinnu og góða samstarfi sem unnið hefur verið í félagsmálanefnd. Það er til fyrirmyndar.

Ég vonast til þess að við sem hér sitjum og höfum tekið þátt í þessari vinnu lærum svolítið af þessu. Við erum að minnsta kosti búin að læra að þetta er hægt og það er spurning hvað þetta mun gefa okkur inn í framtíðina. Það er mikilvægt að þetta fór svona af stað og mikilvægt að við náðum að klára málið í mikilli sátt og samlyndi eftir langan feril.

Frú forseti. Úrræðin sem varða greiðsluaðlögun einstaklinga eru að sjálfsögðu úrræði til handa þeim sem eru þegar komnir í mikinn vanda. Þetta eru úrræði til handa þeim sem færu að öllum líkindum í erfið greiðsluvandaúrræði sem þegar eru til í lögum, svo sem gjaldþrot. Þetta er mikilvæg löggjöf þótt ekki kæmi til efnahagshrun og ég fagna því að hún sé orðin að veruleika. Ég veit að það hefur verið umræða í þinginu mörg undanfarin ár og áratugi um að nauðsynlegt sé að taka upp löggjöf sem þessa og ég geri mér grein fyrir því að það hafa aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn dregið vagninn í þeirri umræðu. Engu að síður styð ég heils hugar að þetta mál gangi fram vegna þess að þetta er mikilvæg réttarbót fyrir þá sem þurfa á þessum úrræðum að halda.

Eins og fram kemur í textanum er markmið laganna að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum. Skilyrði fyrir því að leita eftir þessu úrræði er að skuldari sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Þetta er því úrræði fyrir þá sem eru þegar komnir í mikinn vanda. Þess vegna hef ég nokkrar áhyggjur af því að menn hafi miklar væntingar um að þessi löggjöf muni bjarga öllum heimilum landsins. Það er ekki þannig, því miður. Hins vegar er hún til þess fallin að aðstoða þá sem eru komnir í mikinn vanda.

Mikið hefur verið rætt í þinginu í vetur og fyrrasumar um hvernig eigi að hjálpa heimilum landsins að komast aftur almennilega á fætur eftir efnahagshrunið. Umræðan hefur farið um víðan völl, verið gagnleg á stundum, en engu að síður hafa ekki komið fram neinar leiðir um almennar aðgerðir. Þrátt fyrir að menn séu ósammála um hverjar slíkar aðgerðir eru eða hvort yfirleitt sé þörf á þeim, höfum við sjálfstæðismenn lagt það fram í þingskjali, í tillögu til þingsályktunar um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála, að flokkarnir taki sig saman og skipi þverpólitíska nefnd til að fara yfir það hvert svigrúmið sé hjá fjármálastofnununum til að fara í almennar aðgerðir. Þegar fyrir liggur hvert svigrúmið er, má skoða hvort hægt sé að fara í slíkar aðgerðir og með hvaða hætti það væri best gert. Ég skora á háttvirta félaga mína í félagsmálanefnd að koma til liðs við okkur og sjá til þess að þessi vinna fari af stað. Það er liðið rúmlega eitt og hálft ár frá hruni og við höfum talað fyrir þessu í heilt ár.

Auðvitað hafa komið fram vísbendingar og menn hafa reynt að vinna í þessa átt. Það er erfitt að setjast allir saman, allir flokkar, en við verðum að sýna þjóðinni að við þorum að taka upp breytt vinnubrögð. Við höfum gert það í félags- og tryggingamálanefnd og ég er mjög stolt af því að hafa tekið þátt í þeirri vinnu. Auðvitað hvessir stundum í svona þverpólitísku samráði en það er einfaldlega eitthvað sem þroskar mann, þroskar umræðuna og reynsla mín er að slíkt starf leiði yfirleitt til farsællar niðurstöðu. Þrátt fyrir að ekki hafi komið fram nein tillaga eða neitt boð um slíkt af hálfu stjórnarflokkanna, vonast ég engu að síður enn til þess að slík vinna fari af stað, standi yfir í sumar og komi til með að skila áliti í haust. Ég tel að það sé mikilvægt vegna þess að við sleppum aldrei við þessa umræðu.

Við afgreiðum löggjöf frá þinginu í dag til handa þeim heimilum sem eru í miklum vanda. Þá er ósvarað spurningunni: Hvað með almennar aðgerðir? Ég held einfaldlega að það sé best að við áttum okkur öll á því að þeirri spurningu verður að svara á annan hátt en þann sem hæstv. forsætisráðherra hefur gert með því að segja að með þeim frumvörpum sem lögð voru fram af hæstv. félagsmálaráðherra væri búið að svara öllum þeim spurningum varðandi skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórninni væri kunnugt um. Ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. forsætisráðherra fór aðeins fram úr sér þarna. Alltaf eru að koma upp ný sjónarhorn á þetta stóra verkefni. Við hljótum öll að sjá að við verðum að fara í þetta á heiðarlegan hátt þannig að allir hafi aðgang að þeim upplýsingum sem þörf er á til að geta reiknað út möguleikann á því að fara í almennar aðgerðir og þá með hvaða hætti.

Við höfum reynt að gera þetta á eigin vegum en það er hins vegar afskaplega erfitt að nálgast réttar, uppfærðar upplýsingar enda eru þær í sumum tilvikum ekki tiltækar á einum stað þar sem hægt er að ná í þær. Ég tel engu að síður að það sé reynandi að setja fram þessa áskorun á síðasta degi fyrir þinghlé til að athuga hvort hún veki einhver viðbrögð. Ég er sannfærð um að þetta sé leiðin sem við eigum að fara og hún muni skila árangri, muni að minnsta kosti skila svörum um hvað sé hægt að gera og þá hvernig hægt er að koma til móts við þau heimili sem eru í skuldavanda en þó ekki í það alvarlegum skuldavanda að þau uppfylli skilyrði til að nota þessi úrræði.

Ég tel nefnilega að meginmarkmið okkar eigi að vera, þrátt fyrir að við séum að fara fram með þessa ágætu löggjöf og samþykkja hana, að forða því að fleiri þurfi að nýta sér þessi úrræði. Það hlýtur að vera markmið okkar. Í þessum pakka sem við afgreiðum í dag eru því miður afskaplega fá úrræði sem munu hafa þau áhrif. Frumvarpið um tvær fasteignir gæti hjálpað ákveðnum hluta fólks sem mundi ella lenda í miklum vandræðum, ég vona það. Að því frátöldu er ekkert annað í þeim pakka sem forðar því að fleiri þurfi á úrræðunum að halda. Sú vinna er því eftir. Við eigum ekki að láta hugfallast þótt verkefnið sé stórt og erfitt, við verðum einfaldlega að vaða í þetta og ég hef lýst því hér hvaða aðferðafræði ég tel besta í slíkri vinnu.

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögur í tvígang, á þessu þingi sem nú stendur yfir og eins á sumarþingi, um aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Við höfum farið yfir með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur hvernig rétta eigi við íslenskt efnahagslíf. Það er í rauninni stóra spurningin í öllum málum sem við ræðum á þinginu, hvort sem við ræðum skuldavanda heimilanna eða stöðu landbúnaðarins og nánast í hverju einasta máli. Efnahagshrunið er stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag, að rétta úr kútnum eftir það. Það er verkefnið sem við eigum að einbeita okkur að, ekki að elta einhver villuljós, eins og t.d. aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem ég hef rætt hér við annað tilefni.

Til að við getum einbeitt okkur að verkefninu tel ég best að við vinnum þetta svolítið saman, förum hvert yfir tillögur annars. Við höfum lagt fram efnahagstillögur okkar og ég tel mikilvægt að við reynum í sumar, þrátt fyrir að það sé að koma frí, að hugsa málin, setja einhverja vinnu af stað þannig að við komum ekki blönk til þings í september og ég tala nú ekki um í október. Ef kortleggja á almennar aðgerðir og hvort mögulegt sé að fara í þær, er það auðvitað flókið mál. Ég hef alltaf haldið því til haga að það er ekki einfalt að vinna úr afleiðingum hruns íslensku bankanna. Þeir flokkar sem sitja í ríkisstjórn eru alls ekki öfundsverðir af því hlutverki, ég tel ekki svo vera. Hins vegar er mikilvægt að menn einbeiti sér að stóra verkefninu og stóra verkefnið er að rétta úr kútnum og reyna að koma efnahagslífinu aftur af stað eftir hrunið.

Það besta sem við getum gert fyrir íslensk heimili í dag er að skapa þær aðstæður í samfélaginu að fólk fái atvinnu. Það á að vera stóra markmið okkar. Ríkið eitt og sér mun ekki bjarga okkur út úr efnahagskreppunni. Það eru einstaklingarnir sem eiga eftir að koma okkur upp úr lægðinni. Það er frumkvæði, kraftur og elja einstaklinganna sem mun gera það, ég er algjörlega sannfærð um það. En þá má ekki vera búið að skapa þá umgjörð að skattumhverfið sé þannig að menn séu lattir til að vinna og skattpíningin sé orðin þvílík að það borgi sig frekar að vera heima á atvinnuleysisbótum en að fara út og reyna að bjarga sér sjálfur. Þetta er verkefni sem ég tel að þingmenn allir eigi að hafa í huga og hafa áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun sem mér sýnist vera til staðar í íslensku samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að þeir fjölmörgu aðilar sem stóðu upp af fullum krafti við hrun bankanna og sögðust ætla að berjast fyrir því að efla atvinnulíf, að kraftur þeirra fari dvínandi vegna þess að stjórnvöld hafa ekki borið gæfu til að skapa þau skilyrði sem ýta undir eljuna, kraftinn og hugmyndaauðgi einstaklinganna.

Ég hef áhyggjur af þessu og ég tel að við eigum að koma til þings í haust og vera þá búin að hugsa í lausnum, sama hvar í flokki við erum, um hvernig við ætlum að koma því svo fyrir að ríkið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu heldur styðji við bakið á einstaklingunum svo okkur gangi hraðar og betur að byggja upp íslenskt efnahagslíf eftir hrunið. Ég tel að við eigum öll að einhenda okkur í þetta verkefni. Það eru kannski ekki allir sammála mér, gamlir verkalýðsleiðtogar í salnum og fleiri, en til að heimilin og fjölskyldur okkar nái að rétta úr kútnum verður að skapa þeim þá umgjörð að mögulegt sé að sækja sér vinnu, að það sé vilji til þess að sækja sér vinnu og stutt sé við bakið á þeim sem fá góðar hugmyndir.

Þetta er stóra verkefnið. Engu að síður eru þau verkefni mikilvæg sem félags- og tryggingamálanefnd hefur verið í að vasast í á undanförnum vikum. Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram. Reynslan mun síðan skera úr um það hvort löggjöfin sé að öllu leyti fullnægjandi. Þannig er það venjulega þegar við förum í viðamiklar breytingar. Ég tel að félags- og tryggingamálanefnd hafi unnið þetta mál eins vel og henni var nokkur kostur, sérstaklega í ljósi viðbótartímans sem gafst. Ég tel að hv. þingmenn í félags- og tryggingamálanefnd hafi í raun og veru unnið ákveðið þrekvirki. Mig langar að nota tækifærið til að þakka ágætum félögum mínum sem þar sitja, fyrir samstarfið. Ég hvet okkur öll og brýni okkur enn einu sinni til að láta þetta vera merki um þau vinnubrögð sem við ætlum að sýna í framtíðinni. Við getum þetta.