138. löggjafarþing — 160. fundur.
skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, frh. einnar umræðu.
skýrsla þingmn. um skýrslu RNA, 705. mál. — Þskj. 1501.

[17:16]Útbýting:

[17:17]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil, eins og margir aðrir þingmenn, ef ekki allir, þakka þingmannanefndinni fyrir mjög góð störf og mjög athyglisverðar og vandaðar niðurstöður. Það er greinilegt að mjög hefur verið vandað til verka í þessari vinnu. Það eru afar yfirgripsmiklar tillögur sem þingmannanefndin gerir um alls konar úrbætur á samfélaginu. Ef við ráðumst í það allt, sem ég geri ráð fyrir að við ætlum að gera, er ekkert hægt að lýsa því öðruvísi en að um verði að ræða algjöra gjörbyltingu á stjórnkerfinu, fjármálakerfinu og öllum grundvallarumbúnaði íslensks samfélags. Þarna eru stórar spurningar sem blasa við, við ætlum að fara í ansi stór viðfangsefni, eins og t.d. það að þingmannanefndin leggur til að við förum í þá vinnu að ákveða hvernig fjármálakerfi hentar íslensku samfélagi. Það er ævintýralega stór spurning en það er auðvitað spurningin sem blasir við eftir ófarir síðustu ára að við þurfum að glíma við. Það er ekkert einfalt.

Ég ætla að taka ákveðinn vinkil á umræðuna sem mér heyrist ekki margir hafa tekið. Við höfum talað dálítið mikið um fortíðina og hvernig við ætlum að gera hana upp og svo tölum við um að við ætlum að gera ákveðna hluti í framtíðinni. Þeir hafa verið ansi magnaðir, þeir hlutir sem við ætlum að gera í framtíðinni, eins og að endurskipuleggja fjármálakerfið og svoleiðis, en mig langar í þessari ræðu að velta því upp hvað við getum gert hér og nú. Við þurfum líka að glíma við nútíðina, samtímann, og spyrja okkur að kvöldi dags: Hvað getum við gert á morgun, þá þegar, til að bæta ástandið? Hvað er hægt að gera?

Það er alveg kristaltært í mínum huga að orsakir ófaranna, orsakir fjármálahrunsins, eru mjög margslungnar. Ég held að á löngum tíma hafi verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu til þess að til varð helsjúkt kerfi sem var síðan eiginlega dauðadæmt. Við sáum það líka, a.m.k. fannst mér ég sjá það ansi skýrt, að samfélagið var ansi sjúkt í aðdraganda hrunsins. Gagnrýni var illa séð, gagnrýnin hugsun var almennt illa séð. Það ríkti tortryggni í samfélaginu. Háskólamenn voru tortryggðir og sagðir tala út af annarlegum hvötum eða annarlegum hagsmunum jafnvel. Fjölmiðlamenn voru sagðir leigupennar af minnsta tilefni. Stjórnmálamenn nutu ekki mikillar virðingar þá frekar en nú. Einhvern veginn voru allar mikilvægar stéttir sem eiga að halda uppi gagnrýninni umræðu talaðar niður. Það var ekki gert með neinum reglugerðum, ekki neinum lagasetningum þannig séð, þetta var einfaldlega hegðun. Og hún náði nokkrum sinnum hámarki, það varð til einhvers konar skrímsli í samfélaginu sem hét flokksræði sem við köllum nú líka oddvitaræði, og sú blanda af gagnrýnisleysi og flokksræði leiddi t.d. til þess að Íslendingar tóku þátt í árásarstríði án þess að vera spurðir, án þess að það væri einu sinni rætt í ríkisstjórn. Það var ákveðin birtingarmynd þessa fáránlega sjúka samfélags sem við bjuggum í. Þessir trosnuðu innviðir, þetta helsjúka samfélag var ekki hæft til þess að takast á við meingallað fjármálakerfi sem síðan hrundi. Það þurfti að breyta of miklu. En þetta allt saman, hvernig við högum okkur, hvernig við tölum til annarra, hvort við leyfum gagnrýni, hvort við ákveðum að tortryggja ekki fólk, hvort við ákveðum að sýna hvert öðru sanngirni, hvort við ákveðum að sýna hvert öðru virðingu hér í þingsalnum eða utan hans, er eitthvað sem við getum ákveðið að gera núna, á morgun, strax í kvöld, strax í fyrramálið. Við þurfum ekki að breyta reglum og í raun og veru komum við ekki upp heilbrigðara samfélagi hvað varðar virðingu, sanngirni, gagnrýna hugsun með reglugerðum. Við gerum það með því að sýna það í verki, ef við sýnum hvert öðru virðingu uppskerum við líka virðingu. Ef við sýnum sanngirni fáum við sanngirni.

Mig langar út frá þessu að tala um þingið, Alþingi, vegna þess að okkur hefur orðið tíðrætt um það. Það er fagnaðarefni að þessi umræða um skýrslu þingmannanefndarinnar hefur orðið einhvers konar naflaskoðun á Alþingi. Þá held ég að það eigi að vera leiðarljós að við spyrjum okkur: Hvað er það sem við getum gert akkúrat núna? Við getum innleitt meiri virðingu í tal okkar, meiri sanngirni, meiri heiðarleika. Það allt getum við gert bara ef við viljum það. Ástæðan fyrir því að ég tala um þetta er líka sú að við megum ekki í þeirri viðleitni okkar til að breyta þinginu, til þess að gera það meira traustvekjandi, reiða okkur um of á niðurstöðu nefnda eða reglugerðarbreytingar eða breytingar á þingsköpum eða yfirlýsingar um að við ætlum að gera eitthvað í framtíðinni. Það er enginn betri tími til breytinga en núna. Um daginn heyrði ég í útvarpinu talað um sálfræðirannsókn sem leiddi í ljós það sem marga sálfræðinga hafði lengi grunað, að það að segjast ætla að gera eitthvað minnkar í raun líkurnar á því að viðkomandi geri það, t.d. þegar menn segjast ætla að hætta að reykja og eru með um það miklar yfirlýsingar er ákveðin tilhneiging í mannssálinni til að líta á yfirlýsinguna sem slíka sem það mikinn áfanga að líkurnar á aðgerðum minnka í raun. Heilinn nemur hrósið sem hann fær við yfirlýsinguna og metur hrósið það mikils að hann telur ekki ástæðu til að fara í raunverulega verkefnið. Stundum finnst mér umræðan um það hvernig við ætlum að bæta þingið, auka hér virðingu, sanngirni, heiðarleika, skapa meira traust, vera þessu marki brennd. Við erum hér í endalausri umræðu um að við ætlum að breyta til batnaðar. Við rífumst jafnvel um það, við rífumst um skort á samstöðu, við rífumst um að ekki hafi verið samráð haft um hlutina. Orðræðan um að viðkomandi ræðumaður segist af fullri einurð og heiðarleika hafa farið fram á samráð en að slegið hafi verið á útrétta hönd, er mjög algeng. Það er sem sagt býsnast yfir skorti á samráði og menn rífast yfir því af hverju það er ekki meira.

Það er eins og sagt var um gamla Alþýðubandalagið, held ég: Það er hver sáttarhöndin upp á móti annarri.

Þetta finnst mér vera því marki brennt að við segjum endalaust að við ætlum að gera eitthvað en við gerum það ekki. Það er enginn tími betri en núna til að skapa meiri virðingu, til að skapa meira traust. Við þurfum bara að byrja á því.

Nú vil ég meta stöðuna aðeins. Ég held því fram að margt hafi þó verið gert. Ég held að margt hafi breyst til batnaðar í þingstörfum, t.d. eru þingmannamál samþykkt í meira mæli en áður. Það er gott að almennir þingmenn finni að það er einhver von til þess í þessu starfsumhverfi að koma málum í gegn. Það eykur sjálfstæða hugsun og það eykur einfaldlega þá tilfinningu meðal þingmanna að þeir séu mögulega að gera eitthvert gagn.

Það er líka ákveðinn vitnisburður um góð störf að við höfum rætt hér í þingsal tvær mjög góðar skýrslur, í því tilviki sem við ræðum núna í dag frá þverpólitískri nefnd þar sem samstarf var mjög gott. Og ég held að margir þingmenn séu sammála um að í nefndum almennt skapast oft mjög gott samstarf. Þetta veit almenningur kannski lítið um, en við höfum margoft orðið vitni að því þegar við þökkum hvert öðru mjög gott samstarf í nefndum.

Ég held að við eigum að læra af þessu, við eigum að læra af því sem þó virkar vel. Kannski ættum við þá að auka þennan þátt í starfi þingsins, einhvers konar hópastarf þar sem við sköpum fleiri farvegi til þess að þingmenn geti unnið saman í hópum, ekki endilega í fastanefndum, heldur líka í starfshópum eða einhverju slíku. Það virðist þó ganga vel.

Það sem gengur hins vegar illa í þessari stofnun er annars vegar að miðla þeirri hlið starfsins til almennings, að hér fari þó fram fagleg umræða sem leiði til einhverrar niðurstöðu, það gengur illa að koma því til skila. Hins vegar held ég að við séum ekki komin langt á veg með að breyta ákveðnum hlut í starfi þingsins sem snýr að áðurnefndu skrímsli, sem er flokksræðið. Ég held að það sé kerfislæg gjá milli þings og þjóðar sem felst í því að allt of oft í þessum sal deilum við á forsendum flokka. Við komum hér upp í nafni ákveðins flokks og segjum að við sem ákveðnir flokksmenn séum á margan hátt betri en einhverjir í öðrum flokki og höfum sagt eitthvað sem fólk í hinum flokknum sagði ekki og svo svarar fólk í hinum flokknum og segir að það sé rangt o.s.frv. Ég segi að þetta endurspegli gjá milli þings og þjóðar vegna þess að umræða af þessu tagi er afskaplega sjaldgæf meðal almennings. Í heita pottinum er t.d. ekki spurt um flokksskírteini, það er afar sjaldgæft, þar hittist fólk bara í sama vatninu og ræðir saman. Á flestum vinnustöðum hefur a.m.k. dregið úr því að fólki sé skipt í hópa og deili á forsendum hópa. Það er lítið spurt um hvaða hópum menn tilheyra. Maður er miklu frekar bara ákveðin manneskja með ákveðna stöðu og hefur sitt innlegg á grundvelli þess sem maður hefur gert og ætlar að gera.

Þess vegna held ég að mjög margir meðal almennings finni sig ekki í þeirri orðræðu sem hér á sér stað. Þeir upplifa þessa tegund orðræðu ekki við eldhúsborðið heima hjá sér, að þar séu menn endalaust að takast á í einhverjum liðum. Ég held að þetta sé spurning um ákveðið sjónarhorn. Ég er ekki á þingi til að vinna fyrir Framsóknarflokkinn, ég er framsóknarmaður á þingi til að vinna fyrir þjóðina. Ég held að flestir þingmenn hafi það sjónarhorn í huga en það virðist oft gleymast. Við birtumst fólki sem fólk á þingi að vinna fyrir flokkana okkar í staðinn fyrir að vera ákveðið flokksfólk á þingi að vinna fyrir þjóðina.

Við getum breytt þessu núna, við getum byrjað að hafa þetta sjónarhorn meira í huga.

Flokkarnir eru mjög mikilvægir, þeir eiga að vera lýðræðislegir farvegir en ég held að það væri mjög slæmt ef við, í allri þeirri endurskoðun sem við ætlum að fara í á nánast öllum þáttum samfélagsins, mundum undanskilja flokkana. Mér finnst athyglisvert að flokkarnir eiga sér engan stað í stjórnarskránni, flokksformenn eiga sér engan stað í stjórnarskránni. Í stjórnarskránni eru bara þingmenn, forseti, ráðherrar. Þingmenn eru kjörnir af fólki, beint, og eiga að fylgja sinni sannfæringu. Stjórnarskráin gengur meira að segja svo langt að hún segir að þingmenn eigi ekki að fylgja neinum reglum frá kjósendum sínum. Það má túlka stjórnarskrána þannig að hún segi beinlínis að við eigum ekki að hlusta á kjósendur okkar. Að sjálfsögðu vinnum við ekki þannig en svo langt gengur stjórnarskráin. Flokkarnir urðu til eftir að Alþingi varð til. Alþingi varð fyrst til, þingmennirnir komu saman á Alþingi og þeir mynduðu flokka hér. Ég held að við verðum að vera reiðubúin að skoða alveg ofan í grunninn hvaða hlutverk þessir flokkar hafa og ef við erum sammála um að ákveðið oddvitaræði, ákveðið flokksræði, hafi leitt til gagnrýnisleysis og hjarðhegðunar í aðdraganda hrunsins verðum við auðvitað að skoða þessar stofnanir og hvaða hlutverk þær eiga að hafa.

Ég lít í mínum huga svo á að flokkarnir eigi að starfa meira úti í samfélaginu, þeir eigi að vera farvegir fyrir fólk sem aðhyllist ákveðnar lífsskoðanir til að koma saman og fjalla um þjóðfélagsmál og komast að niðurstöðu um hvað það telur best og affarasælast fyrir þjóðina.

Svo á það að vera kjósendum til hægðarauka og einföldunar að frambjóðendur til þings segjast tilheyra einhverjum af þessum flokkum. Það á vera okkur til einföldunar hér líka að vita af því að menn koma úr ákveðnum hópum.

Það sem ég held að okkur hafi mistekist í er að ýta því til hliðar. Við verðum að kunna það, við verðum að kunna að nálgast hvert annað, ekki bara með flokksfána og ekki bara með flokksmerki í barminum heldur líka sem Íslendingar. Við eigum að geta starfað saman hérna sem meira en bara flokksfólk. Ég er framsóknarmaður, og ég er hingað kominn til að vinna fyrir þjóðina á grundvelli stefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur en ég er hér líka sem faðir tveggja barna, íbúðareigandi, sem skuldari, sem heimspekimenntaður maður. Það er ýmislegt sem ég hef gert og hef fram að færa á þennan vettvang. Ég held að um leið og við náum að ýta til hliðar þeirri staðreynd að við komum úr ólíkum flokkum muni opnast nýjar hliðar á þinginu sem verði þjóðinni til framdráttar. Þjóðin mun skilja þingið betur. Ef við getum myndað hér andrúmsloft þar sem þingmenn með svipuð áhugamál og svipaðar áherslur, vegna þess hvaða fólk það er, geta starfað saman að framfaramálum án þess að láta flokksstimpilinn flækjast fyrir sér, yrðu ansi stór skref stigin í átt að því að skapa þessari stofnun meiri virðingu og meira traust.

Ég held að þetta sé galdurinn. Og ég held að þegar þjóðin endurnýjaði þingið — frá 2007 eru yfir 40 nýir þingmenn — og miðað við hvernig síðustu borgarstjórnarkosningar fóru í Reykjavík hafi hún verið að æpa það á okkur að við eigum að leggja flokkana til hliðar. Við getum komið frá ákveðnum flokkum en við eigum að kunna að leggja þá til hliðar og taka á viðfangsefnum hér á öðrum grunni. Ég held að það sé krafan.

Ég held að okkur hafi ekki tekist það, hinu nýja þingi. En það verðum við að gera. Það held ég að sé megininntak þess þegar ég segi að við getum gert ákveðna hluti núna. Það gerum við ekki með reglugerðarbreytingum. Þetta er bara nokkuð sem við ákveðum að gera. Það eru margar leiðir til þess.

Okkur verður tíðrætt um hvernig umræðan hefur verið og hún er oft ansi galsafengin og við deilum hart. Mér finnst áríðandi að við horfumst í augu við að þannig verður það örugglega áfram. Ég held að þegar 63 einstaklingar úr mismunandi áttum með áhuga á þjóðfélagsmálum, koma saman í þingsal muni oft sjóða upp úr. Við megum ekki setja markið allt of hátt, við ætlum ekki að vera alveg heilög. Og við munum líka alltaf búa við það að fólk mun hafa misjafnt álit á okkur.

Ég ætla að ljúka ræðu minni á einni sögu: Í vor var ég á ferð um Vestfirði, hitti þar vegavinnuverkstjóra sem talaði tæpitungulaust eins og menn gera á Vestfjörðum og ég held að menn muni alltaf gera það á Vestfjörðum, ekki síst í okkar garð, þingmanna. Þessi vegavinnuverkstjóri sagði einfaldlega, með leyfi forseta — nú held ég að ég þurfi leyfi forseta vegna þess að orðbragð hans var þvílíkt: Þið eruð öll drullusokkar.

Það kom auðvitað á mig sem ungan þingmann, ég var búinn að vera eitt ár á þingi þá og að vera strax orðinn slíkur fannst mér auðvitað dálítið ósanngjarnt, en hann var ekki að hugsa um hrun bankanna, þessi, hann var að hugsa um að við spornuðum ekki gegn útbreiðslu tófu. Þess vegna vorum við drullusokkar.

Ég reyndi nú eitthvað að þræta við hann, en hann var alveg harður á þessu og í raun og veru var niðurstaðan í mínum huga, og ég ætla þá að enda á svona léttþunglyndislegri niðurstöðu, (Forseti hringir.) að við verðum auðvitað að horfast í augu við það að á sama hátt og drullusokkur er einmitt mjög nytsamlegt verkfæri, sem losar um stíflur og kemur rennsli á hlutina, (Forseti hringir.) þá nýtur það engrar virðingar.

Og þannig verða kannski þingmenn alltaf, við erum drullusokkar í nákvæmlega þeirri merkingu.



[17:38]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu þingmannanefndar sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég vil segja það í upphafi máls míns, þó að ég sé reyndar að hugsa um lokaorð hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar hér áðan, að mér finnst þessi skýrsla sönnun um styrk þingsins þegar við tökum okkur saman. Þarna kemst öll þingmannanefndin að niðurstöðu og skilar til þingsins þessari skýrslu sem er mjög gott og vel unnið plagg. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem unnu þetta verk og líka öllu því góða fólki sem aðstoðaði nefndina, bæði á nefndasviði og eins þeim sérfræðingum sem störfuðu með nefndinni.

Þessi skýrsla, eins og ég sagði í upphafi máls míns, sýnir mér fram á styrkinn og þann mannauð sem er á þinginu þegar við náum að snúa bökum saman. Ég hef verið dálítið hugsi yfir því, virðulegi forseti, frá því að ég kom inn á þing fyrir rúmu ári að eins og við þekkjum og vitum öll sem störfum á Alþingi fer einungis lítill hluti starfsins sem fram í þingsal. Meiri starfstími og vinnustundir fara í það starf sem við vinnum úti á nefndasviði. Ég hef stundum hugsað um hvernig við byrjum alltaf þingfundi, þ.e. á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, tölum undir liðnum um störf þingsins þar sem þingmenn hafa getað spurt hver annan, og yfirleitt er þetta þannig sett upp að menn eru að reyna að klekkja hver á öðrum. Þótt ég geri ekki lítið úr því aðhaldi sem þingið þarf að sýna framkvæmdarvaldinu eins og klárlega kemur fram í þessari skýrslu held ég að mjög umhugsunarvert sé fyrir okkur, hv. þingmenn, að hugsa mjög vandlega um að sýna líka þjóðinni þau störf sem við vinnum á nefndasviði Alþingis. Ég held að það væri mjög umhugsunarvert að sýna meira frá nefndafundum þingsins.

Mig langar bara til að árétta þetta, virðulegi forseti. Ég var að hugsa áðan um að ég sit í tveimur nefndum, hv. samgöngunefnd og hv. fjárlaganefnd. Í hv. samgöngunefnd sitja nú níu manns, hver frá sínum flokknum og allri flórunni á þinginu. Aldrei hefur mál verið afgreitt út úr samgöngunefnd nema með samstöðu allra þingmanna frá upphafi þessa kjörtímabils, þ.e. í rúmt ár. Einstaka þingmenn hafa verið með fyrirvara, en þetta sýnir þó fram á hvað við getum unnið gott og vandað starf í þingnefndunum. Ég held að það eigi að vera til umhugsunar fyrir okkur þingmenn að breyta þessum hlutum og sýna líka þjóðinni að við getum staðið saman.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, mér finnst þessi skýrsla einmitt sönnun um styrk þingsins þegar við snúum bökum saman og nýtum mannauðinn sem býr í öllum flokkum.

Virðulegi forseti. Þingmannanefndin tekur undir helstu niðurstöður og ályktanir sem koma fram í rannsóknarskýrslu Alþingis. Hér er hún dregin saman og niðurstaða þingmannanefndarinnar er sú sama, þingmannanefndin tekur undir helstu niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndarinnar.

Mig langar aðeins að ræða þingsályktunartillöguna sem fylgir þessari skýrslu og er að sjálfsögðu samhliða til umræðu. Þar kemur margt fram. Mig langar aðeins að vekja athygli á örfáum atriðum því að ég hef að sjálfsögðu ekki tíma til að fara ofan í þetta allt saman, m.a. þessu, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Það er ekki um það deilt að Alþingi hefur þetta vald í dag. Það fer eftir okkur sem sitjum á þinginu. Mig langar að setja þetta í smásamhengi við þá umræðu sem við höfum upplifað á undanförnum vikum og mánuðum. Þessi texti segir okkur að þingið þurfi að styrkja sig gagnvart framkvæmdarvaldinu, að þetta sé ekki sjálfkrafa afgreiðsla. Við erum með ákall um það, m.a.s. tók hv. þm. Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, það djúpt í árinni að segja að þessi skýrsla væri sjálfstæðisyfirlýsing þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Nú hefur ekki farið fram hjá mörgum að nóg er til af álitsgjöfum í þjóðfélaginu, bæði sjálfskipuðum og alla vega, sem vita alltaf hvað er best að gera og sérstaklega eftir á. Ég hugsaði þegar ég las þetta áðan um þá orðræðu sem við höfum haft hérna um flokksræði, oddvitaræði og þar fram eftir götunum. Hér hafa nokkrir hv. þingmenn verið kallaðir órólega deildin eða villikettir. Ég vil túlka það svo að þeir ágætu hv. þingmenn hafa kannski verið að reyna að styrkja þingið og sýna fram á að þingið gæti starfað gegn framkvæmdarvaldinu, ef ég mætti nota það orð, eða sýnt sjálfstæði sitt. Allir þeir álitsgjafar sem ég hef heyrt fjalla um þetta mál — þeir eru margir, spekingarnir — hafa talað um að þetta fólk sé ekki þingtækt. Þess vegna er ég dálítið hugsi yfir þessu, virðulegi forseti, að því leyti til að við erum hér með ákall um að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og svo þegar nokkrir hv. þingmenn sýna tilburði til þess er talað um að þeir hv. þingmenn séu ekki stjórntækir og eigi að snúa sér að einhverju öðru. Við verðum að ræða hlutina í því ljósi sem þeir eru og blasa við okkur. Ég vona innilega, virðulegur forseti, að þessi skýrsla sé upphafið á því sem við munum breyta.

Mig langar líka til að drepa aðeins til viðbótar niður í texta þingsályktunartillögunnar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Þetta eru gríðarlega stór orð sem verður að taka mjög alvarlega. Ég þykist vita að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt. Það er hins vegar ekki nóg fyrir okkur að samþykkja þann texta sem stendur hér ef við ætlum síðan ekkert að vinna með hann í framhaldinu. Þess vegna set ég þetta í samhengi við það sem ég sagði áðan um svokallaða órólega deild eða villikettina.

Ég vil líka koma aðeins inn á það sem kemur fram í þingsályktunartillögum þingmannanefndarinnar, sem er einhuga og ég fagna því sérstaklega, að gerð verði sjálfstæð óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Ég tel mjög mikilvægt að hún fari fram. Við getum öll verið sammála um það vegna þess að við sáum að í aðdraganda hrunsins voru margir komnir út á hálan ís svo ekki sé sterkara til orða tekið. Síðan er lögð til sjálfstæð og óháð rannsókn á orsökum falls sparisjóðanna, sem ég tel líka mjög mikilvægt að fari fram, og stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Ég tel líka mjög mikilvægt að hún fari fram vegna þess að við sáum á öllum þeim verkferlum sem lýst er í rannsóknarskýrslunni að það er mjög mikilvægt að stjórnsýsluúttekt fari fram á þessum stofnunum.

Ég tek undir orð hæstv. fjármálaráðherra frá því fyrr í dag, það er sami strúktúrinn í þessum stofnunum í dag. Það er ekki nóg fyrir stjórnvöld að henda einum einstaklingi út úr Seðlabankanum og halda að þá sé búið að sótthreinsa. Ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það er mjög mikilvægt að þessi stjórnsýsluúttekt fari fram.

Það kemur líka fram í síðustu línum þingsályktunartillögunnar frá þingmannanefndinni að nefnd á vegum Alþingis eigi að fylgja eftir þeim breytingum sem hér eru lagðar til sem eru margvíslegar, m.a. breytingar á lögum. Ég sagði í andsvörum í gær að ég teldi mjög eðlilegt að þingmannanefndin sjálf mundi fylgja þeim eftir. Þetta eru tillögur hennar og samstaðan og samstarfið er mjög gott í nefndinni þannig að ég teldi ekkert því til fyrirstöðu og mundi styðja það heils hugar ef þeirri nefnd yrði falið að fylgja því eftir og hafa aðhald með þeim breytingum sem við köllum hér eftir með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu.

Ég tel mjög mikilvægt að starf nefndarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum, þ.e. að það verði gert með aðhaldi, að við fylgjum þessu eftir og það verði gert með því að senda út fundi nefndarinnar. Ég tel það mjög mikilvægt.

Síðast en ekki síst, virðulegur forseti, lít ég svo á að þessi skýrsla sé hálfgert uppgjör við fortíðina. Með samþykkt þingsályktunartillögunnar ætlum við að horfa inn í framtíðina. Það er gott. Þá langar mig aðeins að komast inn í nútíðina. Það eru nokkrir mánuðir síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom fram og eins og ég sagði í upphafi máls míns tekur þingmannanefndin undir helstu niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndarinnar. Þá hef ég verið að hugsa dálítið um hvað er búið að vera að gerast að undanförnu. Hefur eitthvað mikið breyst? Höfum við eitthvað mikið lært? Ég er dálítið hugsi yfir því. Ég ætla ekki að alhæfa um að ekkert hafi breyst til batnaðar en því miður hef ég ekki rekið augun í margt. Ég fagna þó því sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna um að hér hafa fleiri þingsályktunartillögur og frumvörp frá stjórnarandstöðunni verið samþykkt. Það er til bóta og skal ekki gert lítið úr því.

Mig langar örlítið, virðulegi forseti, til að nefna það umhverfi sem við þingmenn störfum í. Ég varð fyrir verulegu áfalli þegar ég leitaði eftir bæði munnlegum og skriflegum svörum hjá framkvæmdarvaldinu um hvernig nýju bankarnir hefðu verið stofnaðir, þ.e. á hvaða kjörum eða með hvaða afföllum nýju bankarnir hefðu keypt skuldirnar út úr gömlu bönkunum. Í þessu var ég að grúska vegna þess að ég vildi geta unnið faglega og þurfti að sjá þær afskriftir sem fóru á milli gömlu og nýju bankanna. Sem þingmaður vildi ég vita hvert svigrúm nýju bankanna til afskrifta væri gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum. Ég flutti munnlega fyrirspurn og fékk engin svör. Ég sendi inn skriflega fyrirspurn og fékk engin svör. Það var bara snúið út úr, viðkomandi skildi ekki spurninguna og svo var alltaf vísað í bankaleynd. Ég fagna því að í skýrslum þingmannanefndarinnar sé einmitt tekið á þessu atriði og sagt að það þurfi að veita þingmönnum meiri upplýsingar en gert hefur verið í dag. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra kom inn á þetta mál. Ég fagna því sérstaklega. Til þess að við getum rækt skyldur okkar sem þingmenn og tekið ábyrga afstöðu þyrftum við þessi svör: Við leggjum til og hugsum að það væri skynsamlegt að veita heimilunum í landinu þetta mikil afföll af lánunum til þess að koma efnahagslífinu í gang og bjarga fjölskyldunum. Í staðinn var sagt: Það er ekki svigrúm.

Við höfum hins vegar engar forsendur til þess að meta það á eigin vegum. Það er mjög mikilvægt að þessu verði breytt.

Nú er búið að skipuleggja fundi í fjárlaganefnd með sveitarstjórnunum í landinu og aðalhugsun sveitarstjórnarmanna og forustumanna þeirra á undanförnum vikum — ég er búinn að sitja þrjú þing í mínu kjördæmi — er hvað verður um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Verður aukaframlagið áfram? Verður seinni hækkunin á tryggingagjaldinu greidd áfram og þar fram eftir götunum?

Ég hef ekki fengið kynningu á fjárlagafrumvarpinu sem fjárlaganefndarmaður, samt á ég að fara að funda með sveitarstjórnunum og hugsanlega svara þessum spurningum. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra og starfsfólk hans komi á fund fjárlaganefndar og upplýsi okkur um þessi atriði áður en við förum að taka á móti fólki úr sveitarstjórnunum og getum í raun og veru engu svarað, nema hugsanlega formaður og varaformaður nefndarinnar sem eiga sæti í ríkisfjármálahópnum. Þetta eru vinnubrögð sem við verðum að breyta. Það gefur algjörlega augaleið að maður hefur hvorki burði né getu til að svara þeim spurningum sem fyrir mann verða lagðar þegar maður hefur engar upplýsingar um hvernig á að gera það.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom að því í andsvörum við mig í gær að það væri mjög mikilvægt að málin væru faglega undirbúin og vel unnin áður en við tækjum ákvarðanir. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Hins vegar kom hún m.a. inn á að það væri mjög mikilvægt að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar þingið samþykkti á vordögum svokallað frumvarp um strandveiðar gaf það ráðherrunum algjörlega frjálst umboð til að útfæra reglugerðina um strandveiðarnar. Við gerðum alvarlegar athugasemdir við að þingið gæfi frá sér valdið. Strandveiðarnar áttu að hefjast daginn eftir þannig að reglugerðin hlaut að vera tilbúin. Við vorum að kalla eftir því hvað fælist í reglugerðinni. Samt sem áður tók þingið þá ákvörðun að fela ráðherra að gefa út reglugerðina án þess að kynna hana fyrir þinginu eða fá umræðuna hér. Ég vona að slíkt gerist ekki aftur því að ég var mjög ósáttur við það hvernig sú skipting fór fram og er ekki sáttur við hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði það.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mér oft ofarlega í huga og mér er mjög minnisstætt þegar hann setti takmarkanir á dragnótaveiðar. Það setur fjölda starfa og afkomu margra fjölskyldna í uppnám. Það var engin efnisleg umræða um það í þinginu og ég hef ekki getað rætt við hæstv. ráðherra um þessar takmarkanir. Samt sem áður er þetta sett inn. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Við getum ekki haft það þannig að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða hvaða ráðherra sem er taki bara einhverja ákvörðun eftir því hvernig hann kemur fram úr rúminu þann daginn. Þess vegna kalla ég eftir svari um það hver raunveruleg ábyrgð okkar þingmanna er á þessum gjörðum.

Ég sagði áðan að þessi ákvörðun sem hafði að mínu viti engin fagleg og efnisleg rök hefði samt verið tekin og afkoma tuga fjölskyldna sett í hættu. Þeir aðilar sem stunda dragnótaveiðar eru með samtök sem heita Samtök dragnótamanna og þau sendu öllum þingmönnum fyrir örfáum dögum bréf þar sem þau kvarta yfir því að hafa ekki fengið svar við bréfi sem var sent hæstv. ráðherra í byrjun júlí. Samt sem áður tóku breytingarnar gildi 1. september. Ráðuneytið hefur enn ekki svarað bréfinu. Nú eru þessi ágætu samtök búin að leita á náðir umboðsmanns Alþingis. Þetta er dapurlegt.

Er það þetta sem við viljum, virðulegi forseti? Nei, ég held að niðurstaða okkar sé sú að við viljum það ekki. Það er engin smáákvörðun sem þarna er tekin, afkoma tuga fjölskyldna er sett í hættu og formlegt bréf ekki virt viðlits. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta.

Mig langar að enda hér, virðulegi forseti, á einu máli til viðbótar. Ég tel mjög mikilvægt núna að þingið sjálft stofni atvinnumálanefnd sem vinni að því að koma atvinnumálum meira fram en gert hefur verið. Gæti sú nefnd hugsanlega átt aðild að stöðugleikasáttmála eða hvað sem það er og verið til hliðar við ríkisvaldið. Ekki það að ég sé að leggja til að hæstv. ríkisstjórn færi það allt yfir, heldur væri atvinnumálanefnd samstarfsvettvangur. Umræða um atvinnumál fer oft um víðan völl þegar við erum að karpa við ráðherrana í stuttum andsvörum og óundirbúnum fyrirspurnum.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að nefna eitt að lokum því að tími minn er þegar að verða liðinn. Á fundi samgöngunefndar í morgun kom fram að nú eru sveitarfélögin í Danmörku í samvinnu við stjórnvöld þar um hvernig hægt væri að minnka þær byrðar sem settar eru á sveitarfélögin. Við vitum að Alþingi setur löggjöfina og skuldbindingarnar eru hjá sveitarfélögunum um að framfylgja lögunum. Það kostar mikið. Við aðstæðurnar núna, virðulegur forseti, tel ég mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd verði falið að vinna með sveitarfélögunum í landinu að því að finna út hvað mætti bæta og hvernig draga á úr kostnaði þeirra við þær aðstæður. Það er grafalvarleg staða í mörgum sveitarfélögum á landinu. Því miður hefur ríkisvaldið verið að færa tekjustofna frá sveitarfélögunum til sín og ég hef gagnrýnt það mjög. Við getum t.d. nefnt tryggingagjald.

Síðast en ekki síst eru horfurnar núna hjá sveitarfélögunum í landinu fyrir næsta ár þær að tekjur þeirra muni sannarlega dragast saman um 6,5–7 milljarða kr. Ég tel mjög mikilvægt að við skellum ekki skollaeyrunum við þessu heldur stöndum saman að því að ræða við sveitarfélögin í landinu. Ég tel mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd geri það til þess að finna lausnir á vandamálum sveitarfélaganna svo ekki fari illa fyrir þeim.



[17:58]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Mig langar í framhaldi að spyrja hv. þingmann um tvö atriði. Annað lýtur að því að fá svör frá framkvæmdarvaldinu eins og hann talaði um. Ég er algjörlega sammála honum, það hlýtur að vera algjört grundvallaratriði svo að Alþingi og löggjafarsamkundan geti í rauninni rækt hlutverk sitt. Nú veit hv. þingmaður að stundum getur verið spurt um mál í þinginu sem eru annaðhvort viðkvæm eða erfið og á köflum er kannski bannað að veita opinberar upplýsingar um þau. Sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt væri að koma upp einhvers konar farvegi í undantekningartilvikum þegar um afar viðkvæmar upplýsingar er að ræða og hv. þingmenn gætu þá fengið svör frá framkvæmdarvaldinu sem trúnaðarmál?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann í sambandi við samskipti ríkis og sveitarfélaga sem eru mér eins og hv. þingmanni mjög hugleikin. Hefur hv. þingmaður ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt væri að koma á meiri formfestu í þeim samskiptum þannig að sveitarfélögin vissu á hverjum tíma, bæði fyrr á árinu og lengra fram í tímann, með hvaða hætti skattstofnar og tekjur þeirra yrðu? Þá gætu þau unnið miklu betri fjárhagsáætlanir en þau geta í dag og kvarta sáran undan.



[18:01]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Ólafi Gunnarssyni fyrir andsvarið og vil byrja á að svara seinni hluta spurningar hans.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við komum á miklu betri samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Nú er unnið að gerð svokallaðs hagstjórnarsamnings sem ég tel að verði mikil framför. Ég vil ítreka að þessi mál eru ekki að byrja í dag með núverandi ríkisstjórn, það má ekki taka gagnrýni minni þannig. Svona hefur þetta verið í áratugi. Ég hef starfað töluvert við sveitarstjórnarmál og það fer ótrúlegur tími sveitarstjórnarmanna, stjórnsýslunnar í Reykjavík og ráðherra og þingmanna í að leysa mjög einföld mál, að mínu viti.

Virðulegi forseti. Við samþykkt bandormsins í júní í fyrra voru færðar tekjur frá sveitarfélögunum upp á 700 milljónir til ríkisins, þ.e. lagt var á tryggingagjald. Sem í raun og veru þýðir að fyrri hluti hækkunar á tryggingagjaldinu fyrir árið 2010 var ekki leiðréttur, sem eru 1.200 milljónir. Þarna erum við komin með 1,9 milljarða. Seinni hækkunin á tryggingagjaldinu var upp á 1.200 milljónir, það var greitt úr ríkissjóði gagnvart sveitarfélögunum. Núna berast mér þær fregnir hins vegar, eins og ég sagði áðan, ég hef ekki nánari upplýsingar, mér hefur ekki verið kynnt fjárlagafrumvarpið, að sveitarstjórnarmenn hafi miklar áhyggjur af því að seinni hækkun tryggingagjaldsins verði ekki leiðrétt við sveitarfélögin. Þá erum við komin með 3,5 milljarða sem ríkið hefur fært frá sveitarfélögunum í tekjum til ríkisins sjálfs. Mörg sveitarfélög voru búin að fara í mjög erfiðar aðhaldsaðgerðir. Síðan voru þær þurrkaðar út í einu vetfangi. Eftir stendur, eins og útlitið er núna, að tekjur sveitarfélaganna munu skreppa saman um rúma 6 milljarða á næsta ári. Það er grafalvarlegt. Við megum ekki gleyma því að sveitarfélögin veita mjög viðkvæma grunnþjónustu (Forseti hringir.) í landinu.



[18:03]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og verð að viðurkenna að ég er aðallega kominn í pontu til að gefa honum tækifæri á að svara fyrri spurningunni líka og koma með hugleiðingar sínar um hana. Ég vil taka undir með þingmanninum að meiri formfesta þarf að vera í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og að boðleiðir séu skýrar, menn viti nákvæmlega hverju þeir geti átt von á. Það er algjört grundvallaratriði fyrir sveitarfélögin að slíkir hlutir séu á hreinu svo þau geti rækt skyldur sínar gagnvart íbúunum. Það er til að mynda mjög erfitt fyrir sveitarfélögin eins og staðan er í dag að gera fjárhagsáætlanir þegar fasteignamat liggur t.d. ekki fyrir fyrr en í byrjun desember og stundum ekki fyrr en seinni partinn í desember og sveitarfélögum ber skylda til að skila fjárhagsáætlunum sínum fyrir áramót. Það eru mörg svona atriði sem eru ekki í nógu góðu lagi. Við þurfum í sameiningu að vinda okkur í að leysa þessi mál.



[18:04]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get heils hugar tekið undir það sem hv. þingmaður Ólafur Þór Gunnarsson segir. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta umhverfi verði sett í einhvern gegnsærri og eðlilegri farveg. Hv. þingmaður kom inn á að kannski eru gerðar breytingar á miðju ári. Það gerðist akkúrat í fyrra þegar ríkið hækkaði tryggingagjaldið og sogaði til sín á sex mánaða tímabili 700 milljónir frá sveitarfélögunum. Það skýrir að sjálfsögðu, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að þá er ekki hægt að gera áætlanir sem halda.

Það sem ég hafði reyndar ekki tíma til að ræða nógu mikið áðan var að fela samgöngunefnd hugsanlega að búa til samstarfsvettvang. Verið er að gera hagstjórnarsamning sem mér er sagt að gangi ágætlega. Að mörgu leyti hafi samskipti ríkis og sveitarfélaga kannski ekki versnað, jafnvel skánað. Ég kom aðeins inn á það áðan að í Danmörku er ríkisstjórnin nú að vinna með sveitarfélögunum og hjálpa þeim að komast í gegnum kreppuna. Það er mikilvægt og ég teldi að við þyrftum að gera það hér. Ég nefni eitt dæmi. Hugmyndir sveitarfélaganna um að minnka hugsanlega kennsluskyldu, minnka kennsluna eða fækka skóladögum tímabundið, voru slegnar út af borðinu af hæstv. menntamálaráðherra. Síðan gerir ríkið sjálft akkúrat öfugt. Það frestar gildistöku laga um framhaldsskóla.

Þannig að við þurfum í þessu ástandi að bæta samskiptin enda kemur það einnig fram í skýrslu þingmannanefndar að gríðarlegt samspil er á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi það sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Hvað varðar fyrri spurninguna, svo ég gleymi nú ekki að svara því, því ég gleymi mér nú yfirleitt þegar ég fer að tala um sveitarfélögin, að fá svör frá framkvæmdarvaldinu sem eru trúnaðarmál. Þessu verð ég að svara þannig að auðvitað fer það eftir þeim sem fá málin sem trúnaðarmál, hvort þeir halda trúnaðinn. Því miður er það nú oft þannig að þó að jafnvel hv. þingmenn fái trúnaðarmál, er ekki sjálfgefið að þau leki ekki út. Þetta er vandmeðfarið, ég tek undir það með hv. þingmanni. Oft á tíðum er kannski ekki hægt að veita upplýsingar (Forseti hringir.) sem eru bundnar trúnaði.



[18:06]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður Ásbjörn Óttarsson fór víða í ræðu sinni og kvartaði undan því að samskiptin væru slæm, ráðherrar svöruðu ekki o.s.frv. Nú leggur þingmannanefndin fram verulegar breytingar og formaður nefndarinnar talaði um sjálfstæðisbaráttu Alþingis. Ég held að þeir sem ætla að standa í sjálfstæðisbaráttu verði að trúa því að hún gangi í gegn. Við verðum hreinlega að trúa því að við náum því markmiði sem er að ráðherra svari og öll þau samskipti verði í lagi og við búum ekki lengur við það ráðherraræði sem við höfum búið við hingað til. Ég hvet hv. þingmann til að trúa því sem við erum að leggja til því annars gengur það ekki eftir.



[18:08]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður Pétur Blöndal segir. Auðvitað trúi ég því að þegar við höfum samþykkt þingsályktunartillöguna munum við gera breytingar. Ég ber sannarlega þá von í brjósti. Ég kom inn á það í upphafi ræðu minnar að mér finnst skýrslan sem lögð er hér fram til umræðu sýna einmitt fram á styrkinn í þinginu þegar hv. þingmenn taka sig saman, snúa bökum saman, komast upp úr skotgröfunum og vinna inn á nefndasviðinu og komast að þessari sameiginlegu niðurstöðu. Það er mikill mannauður í öllum flokkum á þingi. Við þurfum að nýta hann miklu betur, þvert á flokka og línur.

Það sem hv. þingmaður kom inn á í sambandi við svörin held ég að sé að mörgu leyti umhugsunarvert. Það olli mér gríðarlega miklum vonbrigðum persónulega þegar ég var að mynda mér ákveðnar skoðanir á því hvernig leysa ætti skuldavanda heimilanna og setti fram rök fyrir þeim í ræðustól Alþingis. Síðan var kannski sagt við mann: Þetta er ekki ábyrgt vegna þess að það er ekki svigrúm til þessara afskrifta. Síðan heyrir maður alls konar sögur um að lánin hafi verið færð frá gamla bankanum yfir í nýja bankann á 40% afföllum, 60% afföllum, 20% afföllum. Þannig að ég hef í raun og veru ekki þær faglegu forsendur sem þarf til að mynda mér ábyrga skoðun og leggja til afskriftir til handa heimilunum í landinu og til fyrirtækjanna ef það verður síðan til þess að bankinn fellur. Það er þess vegna sem ég taldi mikilvægt að fá þær upplýsingar. Ég er hugsi yfir því af hverju ég sem þingmaður fæ þær ekki. Af hverju má þjóðin ekki vita á hvaða kjörum þetta var fært á milli bankanna? Hvaða leynd er yfir því? Það er það sem ég skil ekki.



[18:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við eigum ekki að vona bara að breytingin muni eigi sér stað, við eigum að vita það. Við eigum hreinlega að segja: Við vitum að Alþingi stendur í sjálfstæðisbaráttu og það mun sigra. Þá mun hv. þingmaður fá þær upplýsingar sem hann vill og þarf á því formi sem nauðsynlegt er, kannski sem trúnaðarmál, en auðvitað þurfum við að geta myndað okkur skoðun á þeim málum sem við fjöllum um þannig að við getum tekið ábyrga afstöðu. Það getur vel verið að það komi fram í svörunum að það sé ekki hægt að svara spurningum sem hv. þingmaður lagði fram. Þá er það bara þannig.

Það er mjög mikilvægt að samskiptin séu klár. Ég held að bæði framkvæmdarvaldið og Alþingi munu græða á því að skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds séu alveg klippt og skorin og skýr.



[18:11]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að mikilvægt sé að skilin á milli framkvæmdarvaldsins og Alþingis séu alveg skýr. En eigi að síður er það þannig í dag að þingið hefur það vald sem það vill taka sér. Ef þinginu líkar ekki það sem framkvæmdarvaldið gerir og hefur einhverjar athugasemdir við það, ég nefndi sérstaklega í ræðu minni áðan villikettina, þá getum við gert það og eigum að gera það. Auðvitað bind ég miklar vonir við að núna snúum við á þá braut að vinna meira saman eins og lagt er til hér. Hver eru þolmörk þjóðarinnar fyrir pólitísku argaþrasi við þessar aðstæður? Það getur vel verið að þjóðinni fyndist Alþingi vera mjög fínt og það hefði mikið traust ef allt væri í lagi í samfélaginu en það er bara ekki þannig. Nú þurfum við nefnilega að snúa bökum saman og vinna að því að reisa landið við aftur. Hverja getum við tekið okkur til fyrirmyndar? Við getum tekið okkur til fyrirmyndar sveitarstjórnarfólk í landinu. Í mörgum sveitarstjórnum um allt land er alveg sama hverjir stýra, hvort hægri menn eða vinstri menn eru í forsvari, þeir taka minni hlutann með sér og vinna sameiginlega að verkefnum sem snúa að innviðum sveitarfélagsins til að tryggja þann frið sem þarf að vera til að komast í gegnum erfiðleika, þvert á flokka og þvert á pólitík. Þannig að við ættum kannski að taka sveitarstjórnarfólkið okkur til fyrirmyndar.

Ég vil að lokum nefna eitt sem ég tel þó til mikilla bóta og var kynnt á þingflokksfundi fyrir nokkrum dögum. Það var frumvarp hæstv. forseta, hv. þingmanns Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um breytingar á þingsköpum. Hæstv. forseti sýndi mikið frumkvæði með því að leggja fram þetta frumvarp og óska eftir því að það fengi efnislega umræðu í þingflokkunum til að reyna að mynda sem breiðasta samstöðu um það. Það veit kannski á betri tíma.



[18:13]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að tala svolítið á huglægum nótum. Ég vil byrja á því að vitna í þjóðskáldið góða, Einar Benediktsson, sem orti um samfélagsuppbyggingu á sinni tíð, að vísu við aðrar aðstæður en nú ríkja en þó með hugarfari sem við skiljum í þeim aðstæðum sem við erum í í dag. Hann orti, með leyfi forseta:

Þú fólk með eymd í arf!

Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,

litla þjóð, sem geldur stórra synda,

reistu í verki

viljans merki, –

vilji er allt sem þarf.

Þegar við nú ræðum hér í þinginu skýrslu þingmannanefndarinnar stöndum við frammi fyrir grundvallarspurningum um löggjafarhlutverk þingsins, fjárveitingavald þess og eftirlitshlutverk. Við stöndum frammi fyrir spurningum um valdmörk og verkaskiptingu og við komumst ekki hjá því sem stjórnmálamenn að horfa fast inn á við og spyrja: Hvert er erindi mitt? Ég fullyrði að hver sá sem gefur kost á sér til þingstarfa gerir það af góðum vilja til að vinna og gera þjóð sinni gagn. En þótt áformin séu fróm í upphafi getur margt farið úrskeiðis þegar út í alvöruna er komið. Veruleikinn er annar en draumurinn og amstur hins daglega lífs í argaþrasi stundarumræðunnar tekur of mikinn tíma og orku frá persónum og leikendum á þessu leiksviði lífsins. Fyrr en varir upplifir hinn nýi þingmaður þeytivindu agalausrar stjórnmálaumræðu þar sem umbúðir og yfirlýsingar leysa yfirvegun og meginmarkmið af hólmi. Hann skynjar þungan þrýsting úr öllum áttum, frá félagasamtökum, hagsmunaaðilum og ýmsum þjóðfélagshópum sem allir gera tilkall til að vera „fólkið í landinu“ og „þverskurður þjóðarinnar“ eða a.m.k. sá þjóðfélagshópur sem skiptir máli eins og þingmenn þekkja. Í þeim aðstæðum þyrlast upp margvísleg stundarfyrirbrigði sem þeyta umræðunni um holt og móa og jafnvel langt af leið. Hvað er þá til ráða?

Heimspekingurinn og guðfræðingurinn Søren Kierkegaard skrifaði eitt sinn bréf til vinar sem kenndi til í stormum sinnar tíðar. Hann ráðlagði honum að þeytast ekki með þyrilvindum stundarinnar. Fylgstu með því, vinur, sagði hann, hvað mávurinn gerir þegar stormurinn nálgast. Þá hækkar hann flugið og hefur sig yfir ókyrrðina sem annars yrði honum að fjörtjóni. Hvað gerir þorskurinn þegar óveðrið þyrlar upp ölduróti og bylgjur hafsins rífa með sér allt lauslegt? Hann kafar dýpra og dvelur í kyrrð hafdjúpanna uns óveðrið er gengið yfir. Dveldu ekki í storminum, kæri vinur, sagði Kierkegaard, lyftu þér yfir ókyrrð og ásýnd stundarinnar og kafaðu undir ólguna, niður í kyrrðardjúp hugans.

Segja má að orðatiltækið „að vera hvorki fugl né fiskur“ fái svolítið nýja merkingu í ljósi þessarar sögu því að galdurinn er að vera hvort tveggja, bæði fugl og fiskur.

Við sem sinnum stjórnmálum á þeim tímum sem nú fara í hönd erum fólk sem kennir til í stormum sinnar tíðar, svo sannarlega. En við megum gæta okkar á því að láta ekki eingöngu fyrirberast í ókyrrðinni og tvístra þar með kröftum okkar og yfirsýn. Nú er sú stund runnin upp sem krefst bæði yfirsýnar og djúphygli. Skýrslur rannsóknarnefndar Alþingis og nú þingmannanefndarinnar er ekki hægt að nálgast með neinu öðru hugarfari. Sú skýrsla sem nú liggur fyrir er mikilvægur og þakkarverður þáttur í pólitísku uppgjöri við hrunið. Fulltrúar allra flokka á Alþingi hafa lagt þar hönd að verki og tekið undir meginniðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis. Það er ánægjuefni fyrir mig sem þingmann Samfylkingar að sjá hversu margt í þessum niðurstöðum endurómar þá stefnu og málflutning sem Samfylkingin hefur beitt sér fyrir undanfarin ár. Ég nefni áhersluna á sjálfstæði þingsins, eftirlitshlutverk þess, aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og gæti sjálfsagt talið upp fleira. Skýrslan tekur á fleiru sem flestir þingmenn hljóta að vera samþykkir. Til dæmis er lögð áhersla á aukna fagmennsku við undirbúning löggjafar og bætta rökræðusiði á Alþingi, nokkuð sem við vitum öll að má ekki dragast öllu lengur.

Ég tek heils hugar undir þá ályktun nefndarinnar að Alþingi beri að rækja umræðuhlutverk sitt og vera vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta, að alþingismönnum beri að sýna hugrekki og festu í störfum sínum og afla sér þar með trausts þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum. Þá er ekki annað hægt en að taka undir þær ávítur sem koma fram í skýrslunni á stjórnsýsluna, verklag hennar og skort á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum, skort á frumkvæði, gagnsæi og rekjanleika, sem og þá gagnrýni sem þar kemur fram á hið svonefnda oddvitaræði.

Sú endurskoðun sem nefndin leggur til á löggjöfinni til að ráða bót á ýmsu því sem aflaga hefur farið er að mínu mati löngu tímabær og ekki síður þær rannsóknir og úttektir sem þar eru lagðar til.

Frú forseti. Þeir þingmenn sem talað hafa í þessari umræðu hafa margir haft á orði að nú þurfi þingheimur og samfélagið allt að horfa fram á veginn og hætta að engjast í fortíðinni. Satt er það. Vissulega verðum við að horfa fram á veg. En til þess að takast á við framtíðina verðum við að horfast í augu við fortíðina. Við verðum að sjá mistök okkar og misgjörðir af þeirri einurð og hugrekki sem kallað er eftir í skýrslunni. Við verðum með öðrum orðum að lyfta okkur yfir dægurþrasið eins og fuglinn yfir óveður og kafa síðan undir ólguna eins og fiskurinn til að draga ályktanir og íhuga rökin.

Þegar við nú lítum yfir farinn veg og skoðun atburðarásina í ljósi þeirrar skýrslu sem liggur fyrir blasa nokkrir meginþættir við.

Í fyrsta lagi. Einkavæðing bankanna og fúskið þegar þessi mikilvægu fyrirtæki í almenningseign voru færð fáum útvöldum í hendur, seld fyrir slikk í hendur manna sem ekkert kunnu með að fara.

Í öðru lagi. Hin þunga ábyrgð Seðlabankans sem með aðgerðaleysi brást bæði sem eftirlitsstofnun og viðbragðsaðili. Bankinn tók fálmkenndar ákvarðanir án þess að hafa til þess fullnægjandi forsendur, áhyggjum sínum af stöðu bankanna kom hann ekki formlega á framfæri og viðbrögð hans við hinni alvarlegu stöðu í bankakerfinu voru órökrétt. Þá skorti mikið á að samskipti á milli bankastjórnar Seðlabanka og stjórnvalda hefðu verið í eðlilegu samræmi við góða stjórnsýslu, eins og fram kemur í skýrslunni.

Í þriðja lagi vil ég nefna þau skelfilegu hagstjórnarmistök ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á árabilinu 2003–2007 sem áttu sinn þátt í því að auka efnahagslegt ójafnvægi sem um síðir leiddi til hrunsins. Í skýrslunni kemur fram að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 til að einhver möguleiki væri á að koma í veg fyrir fall bankanna. Á þessum mesta góðæristíma sögunnar jókst misskiptingin í samfélaginu svo mjög að þess eru engin sambærileg dæmi á lýðveldistímanum og stjórnviskan brást. Sú alþekkta hagstjórn að ríkið haldi að sér höndum þegar vel árar en auki svo umsvif sín og næri þannig atvinnulíf og hagkerfi þegar illa árar var að engu höfð.

Það var margt sem brást í aðdraganda hrunsins og sá aðdragandi nær langt aftur fyrir þann tíma sem rannsóknarnefnd Alþingis hafði innan seilingar í vinnu sinni. Eitt af því sem brást og við höfum veigrað okkur við að ræða úr þessum ræðustóli fyrr en núna síðustu tvo daga er Alþingi sjálft. Með veikri löggjöf, hnignandi sjálfstæði, óljósum valdmörkum gagnvart framkvæmdarvaldinu og síðast en ekki síst með yfirborðslegri og afar óyfirvegaðri umræðuhefð hefur Alþingi ekki verið þjóðinni það haldreipi sem ætlast mætti til, hvorki fyrir né eftir hrun.

Nú eigum við þess kost að bæta um betur, enda komið að skuldaskilum. Það er komið að því að Alþingi skilgreini loks hlutverk sitt, skapi sér verkrými og reisi viðeigandi skorður við ágengni framkvæmdarvaldsins og ýmiss konar sérhagsmunaþrýstingi utan úr samfélaginu í ókyrrð hinnar daglegu stjórnmálaumræðu sem oftar en ekki snýst um aukaatriði og umbúðir en ekki grundvöll og meginatriði.

Þetta er nú lýðum ljóst og það staðfestir sú skýrsla sem þingmannanefndin hefur tekið saman. Það er fagnaðarefni að allir nefndarmenn hvar í flokki sem þeir standa skuli hafa sameinast um niðurstöðurnar sem lúta að þessu og þær tillögur sem gerðar eru til umbóta því að þær eru allar af hinu góða. Ég trega að ekki skyldi hafa náðst eining um það í nefndinni að efna til rannsóknar á einkavæðingu bankanna eins og rannsóknarnefnd Alþingis lagði til í frumskýrslu sinni. En ef marka má yfirlýsingar formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umræðunum í þingsalnum í gær gæti engu að síður náðst um það samstaða hér á þessum vettvangi og væri ánægjulegt ef svo færi, enda fullt tilefni til.

Frú forseti. Það mætti hafa langt mál um þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Enn er óræddur sá þáttur sem ekki náðist eining um og mun trúlega skipta þingheimi í fylkingar ef ekki öreindir, en það er ákæruþátturinn varðandi ráðherraábyrgð. Ég mun ekki ræða þann hluta skýrslunnar fyrr en kemur að því að taka afstöðu til þingsályktunartillagnanna um ákærurnar sjálfar. Ég vil þó segja að orsakir bankahrunsins og efnahagsáflallsins eru ekki einhlítar. Undanfari þeirra atburða teygir sig mun lengra aftur en til þess tíma sem rannsóknarnefndin hafði til skoðunar.

Ég velti fyrir mér samviskuspurningum varðandi það að taka einungis á vanrækslu og vanhæfni þeirra sem stóðu á sviðinu síðustu mánuðina fyrir hrun. Þegar ljóst er að sambærileg vanræksla og vanhæfni réð gerðum manna á fyrri stigum máls og að hin fyrri stig málsins, t.d. í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2003–2007, eru í augljósu orsakasamhengi við það sem síðar gerðist.

Nú liggur fyrir að hruninu hefði að öllum líkindum ekki verið forðað með inngripum eftir árið 2006 eins og ég hef þegar sagt og það er jafnljóst að landsdómur nær ekki til þess tíma sem orsaka hrunsins er að leita.

Ég hlýt líka að velta fyrir mér þeim athugasemdum sem komið hafa fram í fjölmiðlum að undanförnu um mannréttindaþáttinn varðandi málsmeðferðina fyrir landsdómi í framhaldi af vinnu þingmannanefndarinnar. Þetta eru vissulega rök sem ástæða er til að íhuga vel og velta fyrir sér áður en endanleg ákvörðun er tekin með greiddu atkvæði í þinginu.

Svo mikið er víst að kaleikurinn sem okkur þingmönnum er færður í þessu máli er beiskur því að aldrei fyrr hefur Alþingi Íslendinga staðið í viðlíka sporum og þeim sem við nú stöndum í; að þurfa hugsanlega að beita ákæruvaldi, ekki sem ein heild, ekki sem þingheimur, heldur hvert og eitt okkar með því atkvæði sem við greiðum þegar þar að kemur. Sú umræða bíður þó enn um sinn og ekki mun okkur veita af að fá svolítið svigrúm til að íhuga ráð okkar uns þar að kemur.

Sá hluti skýrslunnar sem hér er til umræðu felur í sér samhljóm sem ástæða er til að fagna og taka fullt mark á, annað hvort væri nú. Skýrslan sýnir að Alþingi er ekki alls varnað. Hún sýnir líka að ríkisstjórnin sem nú situr hefur ekki setið auðum höndum í umbótastarfi sínu því að ýmis þeirra verkefna sem nefnd eru í skýrslunni eru þegar hafin eða í undirbúningi, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur þegar rakið.

Mig langar, frú forseti, áður en ég lýk máli mínu að fá að brýna þingheim til dáða í því endurreisnarstarfi sem framundan er með því að vitna aftur í sama ljóð og ég fór með hér í upphafi eftir þjóðskáldið góða Einar Benediktsson er hann orti og ávarpaði að sjálfsögðu syni landsins. Í ljósi jafnréttisbaráttu undanfarinna áratuga ætlast ég til að dætur Íslands taki þetta nú til sín líka, með leyfi forseta:

Þú sonur kappakyns!

Lít ei svo með löngun yfir sæinn,

lút ei svo við gamla, fallna bæinn,

byggðu nýjan,

bjartan hlýjan,

brjóttu tóftir hins.



[18:28]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem við ræðum hér og nú er í raun og veru ekki afrakstur eiginlegrar, sjálfstæðrar rannsóknar, en byggir engu að síður á gríðarlegri vinnu þeirrar nefndar sem hefur undirbúið skýrsluna og fyrir það ber sannarlega að þakka. Hún byggir hins vegar á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem við ræddum fyrr á þessu ári, enda er það svo að löggjöfin sem við settum í framhaldi af þeirri skýrslu mælti í raun fyrir um það að nefndinni væri ætlað að fara yfir ábendingar þær sem fram kæmu í skýrslu rannsóknarnefndarinnar jafnframt því að leggja fram hugmyndir og tillögur og móta viðbrögð við því sem þar gæti að líta.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á þessu. Þetta er ekki sjálfstætt rannsóknarplagg, en þetta er hins vegar vel unnin skýrsla í þeim skilningi að fanga er leitað mjög víða. Ég er ekki að segja þetta til að rýra á nokkurn hátt starf nefndarinnar, ég veit að þar liggur að baki gríðarlega mikil og einlæg vinna.

Enginn vafi leikur á því að í þessari skýrslu er að finna margar gagnlegar ábendingar. Á margan hátt er verið að flytja áfram þær tillögur sem rannsóknarnefndin kynnti í skrifum sínum. Ég get tekið undir fjölmargar þessara tillagna en aðrar er ég hins vegar ekki alveg jafnviss um að ég muni taka undir eða er ósammála þeim. Ég minni líka á orð formanns nefndarinnar, hv. þingmanns Atla Gíslasonar, en hann hvatti til beinskeyttrar umræðu og hvatti til þess að við ræddum málið með þeim hætti. Það er líka mjög mikilvægt þegar við erum að fjalla um svona mál að við setjum okkur ekki bara í þakklætisgírinn heldur reynum líka að skoða þessi mál frá einhverju krítísku sjónarhorni.

Hér er verið að fara yfir mjög vítt svið. Nefndin er að spanna svið rannsóknarnefndar Alþingis og lýsir afstöðu sinni til margra þeirra niðurstaðna sem þar getur að líta. Þegar sú skýrsla var til umræðu hér á Alþingi orðaði ég það þannig að hún væri umræðugrundvöllur. Hún getur aldrei og á auðvitað ekki að vera einhver stórisannleikur, þó að taka megi undir ýmislegt sem þar segir. Skýrslan er hins vegar einstæð að því leytinu til að þar eru upplýsingar um mjög margt sem mér, sem er reyndur þingmaður og ráðherra, var a.m.k. hulið alveg fram að því.

Það er dálítið vandasamt að átta sig á stöðu málsins. Hér er um að ræða þykka og mikla skýrslu þar sem komist er að niðurstöðu um ýmsa þætti. Í raun og veru er þinginu ekki ætlað með afgreiðslu þessa máls hér og nú að taka afstöðu til alls þess sem segir í skýrslunni. Hluti af þessari skýrslu er tillaga til þingsályktunar þar sem settar eru fram að sumu leyti býsna ákveðnar tillögur, að öðru leyti tillögur sem fela í sér ákall um það að undirbúa frumvörp og breytingar. Við hljótum síðan að taka afstöðu til þeirra þegar þær koma að nýju inn í þingið í öðrum búningi, hvort sem þær verða undirbúnar af einstökum þingnefndum, eins og hvatt er til að hluta til í þessari þingsályktunartillögu, eða ekki. Enn fremur hlýtur auðvitað að koma til kasta framkvæmdarvaldsins, sem hefur nú kannski ekki fengið allt of háa einkunn í þessari umræðu undanfarna daga, að undirbúa þær og leggja síðan fyrir Alþingi.

Það sem við þurfum að gera er að fylla inn í þessa mynd, það gerum við í fyllingu tímans. Þá munum við auðvitað takast á um ýmis efnisatriði sem koma fram sem lúta að stjórnarskránni, lögum um ráðherraábyrgð og starfsemi á fjármálamarkaði, svo ég taki bara dæmi úr þingsályktunartillögunni eins og hún liggur hér fyrir.

Það sem við sjáum hins vegar á þessu er að þó að tilefnið sé hið mikla efnahagslega hrun sem varð á haustdögum 2008, er það engu að síður þannig að fjölmargt í skýrslu og tillögum nefndarinnar er í sjálfu sér óháð því sem gerðist á árinu 2008. Þar er einfaldlega um að ræða tillögur sem lúta að því að bæta stjórnsýslu okkar og bæta löggjöfina með ýmsum hætti sem út af fyrir sig hefði ekki þurft þetta mikla tilefni til að hrinda í framkvæmd. Þetta eru tillögur sem snerta mjög marga þætti og eru ágætisábendingar um sitthvað sem almennt mætti betur fara og eiga fyllilega rétt á sér án tillits til þess. Hér er ég ekki að leggja endanlegt mat á allar þessar tillögur, en segi að þetta séu efnisatriði sem er verið að velta upp.

Það segir líka ýmislegt þarna um þróun efnahagsmála sem má auðvitað draga í efa að hefði haft þau áhrif að það leiddi til efnahagshrunsins. Við vitum að ástæður efnahagshrunsins eru margslungnar og margar. Þær eru að hluta til innlendar, þær eru líka að hluta til erlendar og hægt væri að fara yfir það í alllöngu máli ef tími væri til og þyrfti auðvitað að fara yfir í löngu máli ef eitthvert gagn ætti að vera af slíkri umræðu. Við höfum hins vegar haft tækifæri til að gera það m.a. í umræðunni um stóru rannsóknarnefndarskýrsluna, ég ætla ekki að endurtaka það.

Bæði hér og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram mjög skýr krafa um aukna formfestu. Það er út af fyrir sig jákvæð þróun þó að ég hafi sem stjórnmálamaður mjög oft rekið mig á það að meðal almennings er kannski ekkert sérstakur áhugi á því að auka formfestuna. Hversu oft heyrum við ekki einmitt um ósveigjanleika kerfisins þegar fólk leitar á náðir þess og þar mætir því einmitt að ekki sé hægt að leysa úr málum vegna þess að það sé nú þessi reglugerð og þessi lög og þessi praxís og þessi fordæmi sem geri það að verkum að ekki sé hægt að leysa úr málum. Alveg sama hvernig við reynum að skrifa niður slíkt form, það breytir engu um það að ýmislegt í þjóðfélagi okkar er eðli málsins samkvæmt þannig að sumt af því kallar á það að menn þurfa að leita úrlausnar án þess að geta alltaf stuðst við niðurskrifaða formlega texta og auðvitað verða menn að byggja á einhverju öðru.

Þróunin í samfélagi okkar hefur hins vegar verið í þessa átt. Nýju stjórnsýslulögin sem voru sett hér á 10. áratug síðustu aldar gjörbreyttu þessu og gerðu það að verkum að ýmislegt af því sem menn höfðu getað gert og komist upp með að gera gátu menn ekki gert eftir að lögin höfðu verið sett. Eftirlitshlutverkið sem við jukum hér, m.a. með því að gera Ríkisendurskoðun svo sjálfstæða, eftirlitshlutverkið sem við höfum látið í hendurnar á ýmsum eftirlitsstofnunum hefur líka gert það að verkum að ýmislegt af því sem menn gerðu bak við tjöldin svo lítið bæri á án þess að menn kipptu sér neitt upp við það er eitthvað sem ekki verður gert í dag. Þannig að á margan hátt er þetta rökrétt framhald af fjölmörgu af því sem við höfum gert.

Ég get ekki tekið undir það að hér hafi allt verið í lamasessi í stjórnsýslunni. Auðvitað hefur mjög margt verið vel gert í stjórnsýslu okkar. Ég hef þau kynni af íslenskri stjórnsýslu að þar starfi fólk sem vill fylgja eftir ströngum formreglum og sem gerir til að mynda kröfu til þess að gengið sé frá fjárveitingu, sem rennur í gegnum ráðuneyti, á grundvelli samninga og þar fram eftir götunum. Ekki hafa allir verið ánægðir með það, en þetta er sú þróun sem hefur orðið og hefur verið og ég held að við eigum að halda áfram á þeirri braut.

Mjög margt viturlegt hefur verið sagt í þessari umræðu um stöðu Alþingis. Það er alveg rétt að við þurfum að efla starfsemi Alþingis og sjálfstæði þess. Það er líka hárrétt sem hefur verið bent á að stjórnskipuleg staða Alþingis er auðvitað gríðarlega sterk. Alþingi hefur löggjafarvaldið. Alþingi hefur fjárveitingavaldið. Alþingi hefur þess vegna auðvitað gríðarlega sterka stöðu. Hins vegar vitum við að í því þingræðislega fyrirkomulagi sem við búum við er þetta er samtvinnun framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég tel ekkert óeðlilegt við það, eins og ég nefndi í andsvari áðan. Það er auðvitað þannig að það hlýtur að vera hinn pólitíski meiri hluti sem Alþingi ber ábyrgð á sem stendur að ríkisstjórnum, sem leggur fram frumvörp og þar fram eftir götunum. Það dregur hins vegar ekki úr ábyrgð Alþingis að fara vel yfir málin, ræða málin og taka afstöðu sína á grundvelli þess.

Ég tel að á margan hátt sé sú umræða sem við tökum þessa dagana viss prófsteinn á ýmislegt af því sem við erum að reyna. Þess vegna eru það mér heilmikil vonbrigði að taka eftir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, fulltrúar framkvæmdarvaldsins sem við starfandi þingmenn teljum okkur eiga mikið erindi við einmitt þessar klukkustundirnar, hafa í litlum mæli séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu og skiptast á skoðunum við okkur með andsvörum eða ræðum. Ég hefði talið að það hefði styrkt umræðuna og verið vísbending um það af hálfu framkvæmdarvaldsins að fullur vilji væri til þess að koma til móts við og svara því ákalli sem sannarlega birtist í þessari skýrslu þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem lýtur að þessu. Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið rætt um það hvernig hægt væri að styrkja stöðu Alþingis og hafa fjölmargir fræðimenn skrifað um það. Ég nefni starfsmann Alþingis, Þorstein Magnússon, sem hefur skrifað mjög margt viturlegt um þetta, bók eftir Gunnar Helga Kristinsson sem lýtur að því sama, athuganir Bryndísar Hlöðversdóttur og nefndar hennar í þessa veru. Þannig að við höfum ýmislegt til að byggja á.

Auðvitað höfum við reynt að setja reglur til að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og setja framkvæmdarvaldinu einhverjar skorður. Ég ætla að taka dæmi. Við höfum reglur sem kveða á um það hvenær þingmenn og ráðherrar geta lagt fram mál sem koma til umræðu og afgreiðslu án þess að afbrigða sé leitað. Síðasti skiladagur á þessu þingi var 1. apríl. Ég skoðaði þetta vegna þess að það var mér í minni hvernig mál voru lögð fram einmitt um þær mundir. 1. apríl síðastliðinn fylltust borð þingmanna af stjórnarfrumvörpum sem var rutt inn í þingið á síðasta degi. Þetta má auðvitað kalla að reyna að smeygja sér fram hjá þessari reglu. Þetta var sannarlega síðasti dagurinn sem mátti skila, en auðvitað er ekkert vinnulag á því af hálfu framkvæmdarvaldsins að hrúga öllum málum inn á þessum eina og sama degi.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það að 92 stjórnarfrumvörp hafi verið lögð fram á vetrarþingi, vorþingi og septemberþingi, helmingur þessara stjórnarfrumvarpa, 46 af 92, var lagður fram síðasta daginn, 1. apríl. Til viðbótar komu 15 frumvörp fram eftir það. 60 af 92 frumvörpum, 2/3 allra frumvarpa ríkisstjórnarinnar, stjórnarfrumvarpa, voru lögð fram annaðhvort á síðasta degi eða eftir að þingsköp Alþingis kveða á um að slík frumvörp eigi að koma fram eigi þau að fá afgreiðslu á annað borð. Hér þarf ekkert að herða reglur. Nefndin hvetur til þess að að þessu máli sé sérstaklega hugað. Reglurnar eru til staðar. Framkvæmdarvaldið hegðar sér í raun og veru eins og menn hegðuðu sér á útrásartímanum þegar verst var — voru að finna smugur, smeygja sér í raun og veru fram hjá reglunum með þeim hætti sem hér um ræðir.

Þetta er auðvitað ólíðandi og Alþingi þarf ekkert nýjar reglur eða nýjar ákvarðanir; við þurfum hins vegar sem þingmenn að standa fast að baki hæstv. forseta Alþingis í því að reyna að tryggja að þetta sé eins og hjá fólki.

Mig langar að víkja að einu sem var dálítið gert að umræðuefni í gær og það er sú lífseiga kenning að efnahagshrunið hér á landi sé eins konar dauðadómur sem hafi verið kveðinn upp yfir markaðsbúskapnum. Þetta er fráleitt. Þetta finnst mér eins og gamall endurómur frá miðri 19. öld, 1848, þegar menn töldu að kreppurnar kæmu yfir og þá hryndi nú markaðurinn, kapítalisminn, og upp risi hið sósíalíska kerfi. Þetta er einhver endurómur frá þeim tíma. Þetta er auðvitað ekki þannig. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hvergi verið að vísa markaðsbúskapnum á bug, eins og ætla má af umfjöllun sumra. Það er hvergi vikið að neinu slíku í þeirri skýrslu. Áherslan er hins vegar lögð á það að eftirlit sé nægjanlegt og öflugt, leikreglurnar skýrar og sanngjarnar og það þurfi að setja atvinnulífinu sanngjarnar og eðlilegar skorður. Undir þau sjónarmið hljótum við að taka. Við hljótum hins vegar eftir sem áður að byggja þjóðskipulag okkar m.a. á markaðsbúskap með öflugu aðhaldi til að tryggja þann efnahagslega vöxt sem við viljum sjá að verði. Vesturlönd hafa nær undantekningarlaust ratað í vandræði eins og við vitum. Það talar hins vegar enginn, nema kannski villta vestrið, almennt um að við eigum að hverfa frá því þjóðskipulagi sem við höfum stuðst við upp á síðkastið.

Því var líka haldið fram að þetta væri afrakstur einhverrar hugmyndafræði, að málum hafi verið komið þannig fyrir að ætlunin hafi verið að slaka á öllu eftirliti, t.d. með fjármálakerfinu í landinu. Þessu fer víðs fjarri. Það var ekki þannig. Ég hef skoðað sérstaklega þau þingmál sem lúta að þessu. Á hverju einasta ári er hæstv. viðskiptaráðherra, nú efnahags- og viðskiptaráðherra, skylt að leggja fram frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með síðari breytingum. Þar er gert ráð fyrir því að tiltekinn hundraðshluti af veltu fjármálafyrirtækja fari í það að fjármagna Fjármálaeftirlitið. Þessi mál hafa verið hér til umræðu og ég skoðaði 2006 og 2007 sérstaklega. Hvað kemur þar fram? Kemur fram að það hafi verið hugmyndafræðilegur ágreiningur í þessum efnum? Kemur fram að það hafi verið mikil gagnrýni af hálfu þeirra sem nú tala um að einhver sérstök hugmyndafræði hafi verið á bak við það að reyna að veikja þessar eftirlitsstofnanir? Kom þetta fram í umræðum á þeim tíma? Nei, alls ekki. Umræður um þessi mál voru mjög litlar og lutu aldrei að þessu. Þvert á móti var lítil umræða um þetta og pólitísk samstaða um það hvernig þessum málum ætti að hátta, hvernig ætti að fjármagna eftirlitskerfið í landinu.

Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar frá árinu 2006 segir t.d., með leyfi virðulegs forseta:

„Starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2005 stækkuðu íslensk fjármálafyrirtæki enn frekar og juku jafnframt hlutdeild starfsemi sinnar erlendis. Nefndin fagnar þessari þróun en telur jafnframt að í viðskiptalífinu verði að vera skýrar reglur svo að þeir sem starfa á því sviði viti hvað er leyfilegt og hvað ekki.“

Með öðrum orðum, um það er samstaða. Menn fagna því að fjármálamarkaðurinn okkar hafi stækkað, fyrirtækin vaxið o.s.frv.

Hv. þingmaður Atli Gíslason fjallaði einmitt um þessi mál í efnahags- og viðskiptanefnd á árinu 2007, ef ég man rétt, og vakti athygli á því að þróunin hefði verið sú að fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins hefðu hækkað mjög mikið og bar þær saman við fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins og vakti athygli á því að hlutfallið milli framlaga til Samkeppniseftirlitsins annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar væri 1 á móti 3,7, sem sagt að fjárframlög til Fjármálaeftirlits væru 370% af framlögum til Samkeppniseftirlits. Hann fann að þessu, ekki vegna þess að hann vildi veikja Fjármálaeftirlitið, heldur taldi hann að þetta hlutfall væri óeðlilegt og vakti athygli á því að það væru svona 170–200% hærri framlög til fjármálaeftirlita í nágrannalöndum okkar og taldi að gæta þyrfti jafnræðis.

Ég undirstrika þetta vegna þess að það er óþolandi að því sé haldið fram að hér hafi verið keyrð áfram einhver hugmyndafræði sem fól í sér að það ætti að slaka á eftirlitinu. Það var ekki þannig. Pólitísk samstaða var um að þetta eftirlit ætti að vera mikið, ætti að vera virkt. Það var pólitísk samstaða um það hvaða fjárveitingar ættu að fara til þessa málaflokks og um það varð enginn ágreiningur.

Það breytir ekki því að við getum verið sammála um það að eftirlitskerfi okkar hafi brugðist. Það fer ekkert á milli mála. Því hefði það ekki brugðist væru aðstæður hér með öðrum hætti. Fyrir þessu eru margar ástæður og ég ætla mér svo sem ekki þá dul að tíunda þær allar en vek athygli á því sem þáverandi seðlabankastjóra Davíð Oddssyni benti á á sínum tíma, að valdmörkin milli Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Seðlabankans hins vegar væru óskýr. Nú blasir þetta auðvitað við. Við þurfum þess vegna að bregðast við þessu. Ef ég man rétt lagði finnski sérfræðingurinn, sem kallaður var til á sínum til að fara yfir þessi mál, Jännäri, til sameiningu þessara tveggja stofnana. Ef til vill er það skynsamlegt og ég fagna því þá að yfir þessi mál verði farið, eins og kemur fram í plöggum þingmannanefndarinnar og í raun og veru er því gefið mjög undir fótinn að skynsamlegt sé að gera þetta þannig.

Höfum við lært eitthvað af þessu? Höfum við sjálf á þessum vetri, á þessu ári, haft þetta í huga þegar við erum að velta fyrir okkur öðrum þingmálum, öðrum frumvörpum sem koma hér inn? Ég vek t.d. athygli á því að nú verður væntanlega til afgreiðslu, sennilega ekki á þessu þingi en því næsta, frumvarp til laga um fjölmiðla. Þar er vakin athygli á því að valdmörk milli eftirlitsstofnana á því sviði séu mjög óljós. Neytendastofa hafi þar lögbundið hlutverk sem greinilega mun skarast á við lögbundið hlutverk hinnar nýju fjölmiðlastofu. Við þurfum ekki bara að fá gagnlegar ábendingar frá þingmannanefndinni eða rannsóknarnefndinni, við þurfum þegar í stað að bregðast við í einstökum tilvikum þegar það á við til þess að lenda ekki í sama pyttinum þótt á ólíku sviði sé.

Virðulegi forseti. Ég hef nú ekki nema 20 mínútur til að stikla mjög á stóru yfir fáein atriði. Það hefði auðvitað verið mikil freisting að fara yfir efnisatriði málsins miklu frekar en ég hef gert. Ég fagna því að þessi skýrsla liggi fyrir. Ég tel (Forseti hringir.) að hún sé til mikils gagns. Ég get ekki skrifað upp á hvert pút og plagg í þessu skjali, en ég tel hins vegar að vinnan hafi verið ómetanleg í samræmi við það sem lagt var af (Forseti hringir.) stað með þegar við samþykktum lög um þessa nefnd á sínum tíma hér á Alþingi.



[18:48]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér í andsvar af því ég hjó eftir þeim hluta ræðu hv. þingmanns Einars K. Guðfinnssonar þar sem hann sagði að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis væri markaðsbúskap hvergi vísað á bug eða felldir áfellisdómar yfir hugmyndastefnum. Ég vil spyrja þingmanninn: Bjóst hann við því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis yrði eitthvert pólitískt uppgjör við hugmyndastefnur? Ég bjóst alls ekki við því og tel að hlutverk nefndarinnar hafi ekki verið að gefa stjórnmálastefnum einkunn. Skýrslan var hins vegar harður áfellisdómur yfir framkvæmd þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem var iðkuð hér á landi í aðdraganda hrunsins. Þá var keyrð í gegn hugmyndafræði þar sem stjórnmálamennirnir voru í raun og veru blindaðir af ofbirtu eigin kenninga um hvernig ætti að iðka þessa frjálshyggju. Þetta var með öðrum orðum kannski ofstæki iðkað í verki. Það er ekki hlutverk rannsóknarnefndarinnar eða þingmannanefndarinnar að gera upp við stefnuna sem slíka heldur framkvæmdina. Hið hugmyndafræðilega uppgjör hlýtur að fara fram á öðrum vettvangi.

Svo verð ég að segja að mér finnst þessi umræðutörn um skýrslu þingmannanefndarinnar ekki rétti vettvangurinn til að fara í það uppgjör þó að það megi gjarnan eiga sér stað innan tíðar.



[18:50]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég bjóst ekki við því að nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að um hrun markaðsbúskaparins væri að ræða vegna þess að það hefði auðvitað verið röng niðurstaða. Ég hefði ekki gert ráð fyrir því að nefndin kæmist að slíkri niðurstöðu. Auðvitað fór hv. þingmaður sjálfur að ræða um að ástæðan væri hin skefjalausa frjálshyggja og það allt saman, frasar sem við erum höfum heyrt í umræðunni um þetta. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að það sem við gerðum á Íslandi var að byggja upp markaðssamfélag sem var mjög áþekkt því markaðssamfélagi sem við þekkjum á Vesturlöndum almennt. Þar fór ýmislegt úrskeiðis. Við höfum farið yfir það. Við sjáum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem þingmannanefndin tekur undir í umfjöllun sinni, að ástæðunnar er fyrst og fremst að leita innan fjármálastofnananna sjálfra og í framferði þeirra.

Það sem ég dró fram var að á þeim tíma var í raun og veru ekki ágreiningur um það hér þyrftu að vera skýrar leikreglur. Enginn vafi er á því að okkur mistókst ýmislegt í því að setja þær leikreglur og okkur mistókst ýmislegt í að fylgja þeim eftir. Það hefur hins vegar ekkert með þessa grundvallarspurningu að gera. Að gefnu tilefni velti ég upp umræðunni frá því í gær þegar þessi mál bar á góma með svipuðum hætti og því haldið fram að þetta væri einhvers konar táknmynd fyrir hrun ákveðins hugmyndakerfis. Ég segi: Ég get ekki fundið því stað í þessari skýrslu. Þar er ekkert sem gefur til kynna nokkuð af því taginu. Auðvitað var rannsóknarnefndin ekki í þeim færum eða hafði ekki það hlutverk að leggja hugmyndafræðilegt mat á hrunið að öðru leyti en því að reyna að draga fram ástæðu þess. Hún rakti ástæðuna fyrst og fremst til tiltekinna atriða sem hafa ekki með þessa hugmyndafræðilegu spurningu að gera.



[18:52]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að vita að þingmaðurinn ætlaðist ekki til þess að rannsóknarnefndin færi í pólitískt uppgjör við hugmyndastefnur. Þingmaðurinn segir að ýmislegt hafi farið úrskeiðis á stjórnarárum fyrri ríkisstjórnar 2003–2007. Það er vissulega rétt. Ýmislegt fór úrskeiðis, en það sem fór úrskeiðis í raun og veru hugmyndafræðilega var að stefnan var tekin of langt. Hún ýktist í athöfnum fjármálakerfisins og í athöfnum ráðandi afla og varð þar af leiðandi sjálfstæð stefna í framkvæmd. Það er auðvitað vandinn. Það var það sem fór úrskeiðis.

Ég ítreka það að hugmyndafræðilegt uppgjör getur að sjálfsögðu ekki átt sér stað á þessum vettvangi í tengslum við skýrsluna sem hér liggur fyrir. Það er hins vegar mjög brýnt að það fari fram og eigi sér stað fyrir opnum tjöldum og úr því verði skorið í kjörklefanum þegar þar að kemur.



[18:54]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því harðlega að hér hafi verið framkvæmd einhver öfgastefna í stjórnmálum eða efnahagsmálum. Því fer víðs fjarri. Það sem var gert á Íslandi var nákvæmlega það sama eða sambærilegt við það sem átti sér stað t.d. erlendis. Við skulum taka dæmi. Er það t.d. þannig að á bankar á Vesturlöndum séu almennt í eigu ríkisins? Svo er ekki. Það sem hér er vísað til er að á Íslandi voru seldir bankar. Við vitum hins vegar hvernig fór um þá sjóferð varðandi rekstur þeirra. Það hefur ekki með þá hugmyndafræðilegu spurningu að gera hvort bankar eiga að vera í eigu ríkisins eða í eigu einstaklinga eða félaga í þeirra eigu.

Ég vakti athygli á því og sýndi fram á það að í umræðunni sem fór fram um kjarna máls, þ.e. hvernig við ættum að haga eftirlitinu, hafi hugmyndafræðilegur ágreiningur ekki verið til staðar. Upp á þetta ívitnaða nefndarálit sem ég nefndi áðan skrifuðu m.a. hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem sátu þá í þeirri þingnefnd. Þeir sögðu: Fjármálamarkaðurinn hefur stækkað, það er gott. Við þurfum að hafa um þetta skýrar reglur. Um þetta voru allir sammála. Þegar kom síðan að því að taka ákvörðun um umfang eftirlitsins og taka ákvörðun um hversu mikla fjármuni ætti að veita til þess, voru menn sömuleiðis algjörlega sammála.

Ég er að segja þetta: Það þýðir ekkert að koma eftir á og reyna að skrifa söguna upp á nýtt. Á þessum tíma var um það almenn samstaða að fagna vexti fjármálakerfisins. Við gerðum okkur ekki grein fyrir hversu feisknar stoðirnar voru innan einstakra fyrirtækja, hvernig menn höfðu misnotað vald sitt m.a. með krosseignatengslum, með lánum bankanna til eigenda o.s.frv. Við höfðum gert ráð fyrir því að með því að leggja þetta mikla fjármuni (Forseti hringir.) til eftirlitsins, þá yrði fyrir því séð. Nú hefur það komið á daginn að svo var ekki. Um þetta var ekki ágreiningur á sínum tíma.



[18:56]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið að koma upp eftir þessar heitu umræður um markaðskerfið, sem ég tel að sé það kerfi sem við eigum að búa við. En ég held hins vegar að okkur sé öllum ljóst að það hvernig til tókst á undanförnum árum olli miklu hruni og við þurfum að vanda okkur í því hvernig við umgöngumst markaðshagkerfið eins og reyndar allt annað sem við gerum. Þetta var nú útúrdúr, ég bara gat ekki látið hjá líða eftir þessar heitu umræður að koma aðeins inn á þetta mál.

Virðulegi forseti. Það var 12. apríl síðastliðinn sem rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni um bankahrunið, aðdraganda þess og orsakir. Nefndinni var í upphafi ætlað að skila og ljúka starfi sínu mörgum mánuðum fyrr og nokkur óánægja hafði verið með að seinkun varð á skýrslugerðinni eða lokum skýrslunnar. Þegar hún hins vegar leit dagsins ljós held ég að allir hafi verið á einu máli um að fresturinn hefði verið af því góða, því að lýsingin og tíðindin sem var að finna í skýrslunni voru þess eðlis að það skipti meginmáli að engin hrákasmíð væri á því efni sem þjóðinni var kynnt því það voru vond tíðindi sem okkur voru flutt. Vondu tíðindin voru þau að við getum ekki bara kennt bankamönnum um þó að þeir hljóti að bera mesta ábyrgð, vondu tíðindin voru að við getum líka sjálfum okkur um kennt. Þegar ég segi við á ég ekki einungis við stjórnmálamenn eða alþingismenn, heldur flesta þá sem koma að opinberum störfum, hvort sem það var í stjórnsýslu, eftirlitsstofnunum, háskólum eða fjölmiðlum. Allir féllu á prófinu.

Við kusum hér á Alþingi níu manna nefnd til að fjalla um skýrsluna og móta viðbrögð Alþingis við henni. Sú nefnd hefur nú lokið störfum og er ástæða til að þakka þingmönnum sem völdust til þess verkefnis þá miklu vinnu sem þeir hafa innt af hendi. Skýrsla þeirra liggur nú fyrir og er skemmst frá því að segja að nefndin tekur undir niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar; stjórnkerfið fær falleinkunn. Alþingi, ríkisstjórn, Seðlabanki, eftirlitsstofnanir, embættismenn, fjölmiðlar, háskólar; allt heila klabbið fær falleinkunn. Þingmannanefndin leggur fram þingsályktunartillögu um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þegar við samþykkjum tillöguna, sem ég efast ekki um að við munum gera, lofum við bót og betrun. Við lofum að endurskoða veigamikil lög og við lofum að leggja til við stjórnlagaþing breytingar á stjórnarskránni, en hún er auðvitað umgjörð og undirstaða allrar annarrar löggjafar í landinu. Þá munum við leggja til að rannsókn verði gerð á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi og á falli sparisjóðanna og loks verði gerð stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Allt þetta get ég tekið undir og samþykkt.

Einhverjar breytingartillögur, eða kannski ætti frekar að tala um viðbótartillögur, munu væntanlega verða fluttar og ég gæti best trúað að ég geti einnig stutt þær þó að ég ætli nú ekki að lofa neinu þar fyrr en ég sé þær.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem við getum gert án þess að breyta lögum eða þingsköpum. Ég vil leggja til að við byrjum á því strax. Hæg eru heimatökin og þess vegna vil ég fyrst fjalla um fáein þeirra atriða sem snúa að Alþingi.

Lagt er til að alþingismenn setji sér siðareglur. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt. Ég skal samt viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef alltaf verið svolítið kaldhæðin gagnvart siðareglum. Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi að haga sér eins og almennilegt fólk og finnst oft frekar aumt ef það þarf að tíunda það sérstaklega hvernig það á að fara að því. En þetta er eins og ég segi kaldhæðnisleg afstaða.

Á síðasta áratug réðust Bretar í mikið starf við að setja þeim siðareglur sem eru í opinberri þjónustu, hvort heldur á þingi eða í stjórnsýslu. Eftir allmikið starf var lagt til að sjö grunngildi yrðu lögð til grundvallar þeim nánari siðareglum sem settar yrðu í stjórnsýslu eða á þingi eða hvar það nú var. Þau voru þessi: ósérhlífni, ráðvendni, hlutleysi, áreiðanleiki, gegnsæi, heiðarleiki og loks stjórnun og forustuhæfileikar. — En með því er átt við að stjórnendum og opinberum fígúrum beri að stuðla að framgangi þessara gilda sem talin voru upp með fræðslu og góðu fordæmi.

Ég vil leggja til að við sem hér erum heitum því að temja okkur þetta allt strax og bíðum ekki eftir sérstökum siðareglum þar um.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að endurskoðað verði hvernig stjórnarfrumvörp eru lögð fram og kynnt fyrir þinginu. Ég vil nota tækifærið og taka undir vanþóknun hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á því hvernig öllu var sturtað hér inn í þingið á síðustu þingdögum 30. mars eða síðastliðið vor.

Ég skora á samflokksmenn mína sem sitja í ríkisstjórn að hugsa um þetta strax, sem sagt hvernig stjórnarfrumvörp eru lögð fram og kynnt í þinginu. Þetta geta þau lagað. Þau geta gefið nægan tíma. Það er einfaldlega í þeirra höndum. Ég vona þess vegna að við þurfum ekki að bíða lengi eftir þessari bragarbót.

Þá vil ég aðeins nefna innleiðingu EES-gerða. Ég er vissulega sammála því að í þeim efnum getum við haft önnur og betri vinnubrögð en við höfum nú. Ég tel samt að við megum vara okkur á því að fara ekki úr einum öfgum í aðrar í þessum efnum, þ.e. að í dag fjöllum við nánast ekkert um þessar gerðir þegar þær eru teknar inn í EES-samninginn þó að vissulega fjöllum við um það ef setja þarf sérstök lög. En það er lítið sem ekkert fjallað um það þegar þær eru teknar inn í samninginn. Ég tel að við verðum að passa okkur á að fara ekki úr þeim öfgunum yfir í það að ætla að rýna hverja einustu gerð. Við verðum að fara þar einhvern meðalveg.

Þó að ég sé mikill talsmaður þess og ákafur að greina betur á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þýðir það ekki í mínum huga að þingið eigi að gera allt og framkvæmdarvaldið ekki neitt. Framkvæmdarvaldsins á að vera það sem þess er og okkar það sem okkar er. Þess vegna vil ég vara við því að þingið hætti að nota þá miklu þjónustu sem framkvæmdarvaldið innir vissulega af hendi, t.d. í sambandi við það hvernig EES-gerðir eru leiddar í lög eða reglur útfærðar hér á landi. Alþingi á hins vegar að hafa eftirlit með þessum þætti í störfum framkvæmdarvaldsins eins og öllum öðrum þáttum.

Ég vil sannarlega taka undir það að hvort heldur eru embættismenn eða Alþingi, þegar það á við, þá eiga þeir að huga að íslenskum aðstæðum þegar EES-reglur eru innleiddar og nota það svigrúm sem oft er í þessum gerðum, sem kallaðar eru, að laga þær að þeim raunveruleika sem við búum við hér eða er í öðrum löndum þar sem þessar reglur eru innleiddar. Það er alltaf eða oftast eitthvert svigrúm til að huga að þeim raunveruleika sem fólk býr við. Ég held að við eigum að gera það í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að víkja að stjórnsýslunni og þeirri gagnrýni sem kemur fram á hana í skýrslunni og ég tel að eigi fullan rétt á sér. Mig langar líka að nefna það sem stundum er sagður kostur við okkur Íslendinga, og það er að binda okkur ekki of mikið við formið og hinar ströngu leiðir stjórnsýslunnar. Vissulega er hér stutt á milli fólks, styttra en í hinum stóru löndum. Það er oft hægt að taka upp símann og koma erindum áleiðis. Ekki er alltaf þörf á að fara mjög formlega leið. Ég tel að þetta sé kostur sem við eigum að halda í eins lengi og við getum. Það sem ég á við er að við gerum hinum almenna borgara það ekki erfiðara fyrir en þörf er á að vera í viðskiptum við stjórnsýsluna. Ég á við að opinberir starfsmenn séu liprir í allri umgengni sinni við fólkið sem borgar þeim kaup. En lipurheit af þessum toga mega auðvitað ekki verða til þess að gera upp á milli fólks eða koma niður á áreiðanleika stjórnsýslunnar og auðvitað verður að vera hægt að rekja erindi fólks innan stjórnsýslunnar og afdrif erinda í kerfinu.

Ég vil líka leggja áherslu á að það þarf ekki bara að setja vinnu- og verklagsreglur, það þarf að fara eftir þeim. Ég er hrædd um að það gleymist stundum.

Þegar kemur að stjórnarathöfnum öllum og ekki síst þeim sem snerta æðstu stjórn ríkisins skiptir auðvitað meginmáli að formsatriði séu í heiðri höfð. Það skiptir máli að halda skrár og fundargerðir, hvaða mál voru rædd á fundum og hver var niðurstaða umræðunnar. Því er skemmst frá að segja að ég var nánast orðlaus yfir þeirri fljótaskrift sem virðist hafa verið í slíkum efnum á ríkisstjórnarheimilinu og vona sannarlega að því hafi nú þegar verið kippt í lag og held reyndar að svo hljóti að vera.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega þann lista sem þingmannanefndin leggur fram um löggjöf sem þau leggja til að verði endurskoðuð. Við erum væntanlega öll sammála um nauðsyn þess þó að okkur muni eflaust greina á um það í einhverjum atriðum hvernig það verði gert.

Ég mun leggja inn í lagabreytingapúkkið á nýju þingi með því að endurflytja frumvarp sem við fluttum 19 þingmenn síðastliðið vor. Verði það frumvarp samþykkt geta þingmenn tekið sér leyfi frá þingstörfum á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Þetta er atriði sem ég tel að skipti miklu máli í því að skilja betur á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Ég vona sannarlega að það fái framgang hér í þinginu og að sú venja leggist af, sem löngum virðist hafa ríkt hér á bæ, sem er að fólk telji að ýmislegt megi færa til betri vegar en það sé bara ekki akkúrat tíminn til þess núna. Ég held einmitt að við súpum seyðið af því að menn hafi haft góðan vilja en ekki gert neitt í málunum. Svoleiðis háttsemi þurfum við að breyta.



[19:08]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú eru nærri tvö ár frá því að hrunið varð og fjármálakerfi þjóðarinnar hrundi með óskaplegum afleiðingum fyrir mjög marga, fólk missti vinnuna, fólk missti eignir, lán hækkuðu óeðlilega o.s.frv. Það er fortíð og saga. Þjóðin á líka framtíð. Við þurfum að horfa á framtíðina í auknum mæli og hætta að einblína eins mikið á fortíðina og mér sýnist margir hafa gert. Við eigum að fara að skipta þessu upp í það sem gerðist fyrir hrun og eftir hrun alveg sérstaklega því að einhvers staðar liggur framtíðin.

Mér finnst að íslenska þjóðin kalli mjög eftir hugmyndafræði, þ.e. sýn á hvert við erum að fara. Hvert er þjóðin að fara frá þeim stað sem hún er stödd á núna? Mér sýnast allt of margir vera að hugsa um hvar við vorum, hvað við vorum að gera og hvað gerðist. En það eru mjög fáir sem segja þjóðinni: Við ætlum að fara þangað.

Mér finnst þetta ferli — rannsóknarnefnd Alþingis sem sett var á með lögum í árslok 2008 stuttu eftir hrun, síðan skýrsla þeirrar sömu rannsóknarnefndar sem var algjörlega frábær, síðan stofnun þingmannanefndar til að vinna úr þeirri skýrslu og hún kom með þær tillögur sem við ræðum hér — þessar tillögur eru framtíðarsýnin. Þær eru sýnin sem segir okkur hvert þjóðin er að fara. Ég hygg að þegar rykið er fallið og menn fara að skoða söguna eftir svona 20, 30 ár, muni þeir segja að þetta hafi verið leyst frábærlega. Það er sannfæring mín að við höfum stigið mjög góð skref í því að vinna úr því sem gerðist og nota það til að búa til framtíðarsýn. Ég er því afskaplega ánægður með það plagg sem við höfum í höndunum, fyrir utan það að bæði rannsóknarnefndin og þingmannanefndin höfðu kjark til þess að taka mjög alvarlega á málunum, segja nákvæmlega hvað gerðist, draga ekkert undan, segja ekkert af tillitssemi við einn eða neinn.

Þessar skýrslur báðar eru mjög berorðar. Þær segja það sem segja þarf og ég held að við höfum nálgast sannleikann eins og hægt er. Auðvitað nær maður honum aldrei. En við erum búin að nálgast sannleikann. Mér finnst ég vera kominn með þá mynd af fortíðinni að ég geti dregið af henni ákveðinn lærdóm.

Ég ber því miklar væntingar til þess að þjóðin finni framtíðarsýnina sína, að hún finni hana og viti hvert hún er að fara, þá kannski sjatnar reiðin sem margir hafa leyft sér að láta krauma allt of lengi. Reiði er nefnilega mjög neikvæður eiginleiki sem menn ættu ekki að leyfa sér að láta blossa upp því að reiðin er verst fyrir þann sem er reiður, langsamlega verst. Hún eyðileggur líf hans. Reiðin er neikvæður þáttur sem byggir ekki upp, hann brýtur niður. Það er nauðsynlegt fyrir okkur núna að byggja upp og vita hvert við erum að fara.

Meginniðurstaða bæði þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndarinnar er að það er of mikið samsull á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það er reyndar nokkuð sem ég hef bent á síðan ég kom inn á þing, að frumvörp eru samin hjá framkvæmdarvaldinu, að Alþingi setur þessa og hina framkvæmdina inn í fjárlög sem enginn getur haft eftirlit með því að það er Alþingi sem á að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og getur ekki haft eftirlit með því sem það ákveður sjálft. Það er held ég mjög slæmt fyrir báða aðila. Það er mjög slæmt fyrir Alþingi því að það verður mjög veikt þegar engin frumvörp eru samin hér á þingi, því að sá sem semur frumvarp og sá sem ritstýrir frumvarpi hefur mest um það að segja hvernig lagabálkurinn lítur út. Eins og fyrirkomulagið er núna semur einhver maður eitthvert frumvarp en ráðherra og ráðuneytið þurfa að samþykkja það fyrst, síðan ríkisstjórn og þá stjórnarflokkarnir. Svo er frumvarpið lagt fram og sent til nefndar. Allir þessir aðilar þurfa að rökstyðja breytingar sem upphaflegur höfundur þarf ekki að gera. Þess vegna er vald hans mjög mikið í því að móta hina endanlegu löggjöf.

Ég held að það gagnist báðum að gera skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds skarpari. Ef Alþingi semur öll frumvörp — það gæti sem sagt litið þannig út að þeir sem telja að þurfi að gera breytingu á lögum, t.d. ráðuneytin eða ráðherra, snúa sér til viðkomandi nefndar og óska eftir því að hún taki málið upp og semji frumvarp um það erindi sem þeir hafa, þær breytingar sem þeir vilja sjá. Það gætu félagasamtök og einstaklingar líka gert o.s.frv. Til dæmis gæti einstaklingur óskað eftir breytingu varðandi barnaverndarlög, síðan tekur nefndin um það ákvörðun hvort hún vill fara í þær breytingar og semja frumvarp sem nauðsynlegt er, og þá hefur ráðherrann væntanlega meiri hluta í nefndinni.

Auðvitað þyrfti að flytja fólk úr ráðuneytunum ef þetta færi svona fram. Við erum með fjárveitingavaldið þannig að við getum alveg borgað þessu fólki sömu laun á nefndasviði Alþingis eins og við borgum því í dag í ráðuneytunum. Afleiðingin af því yrði sú að ráðuneytin mundu bara vinna við að framkvæma og framkvæmdin yrði miklu skýrari en þegar menn blanda því saman við lagasmíð. Verksvið Alþingis yrði líka mikið skýrara. Það mundi semja öll frumvörp að lögum sem hér yrðu lögð fram. Það held ég að yrði mjög jákvætt vegna þess að þingmenn eru jú kosnir af þjóðinni til þess að setja henni lög. Þeir eiga náttúrlega samkvæmt því að setja og semja þau lög sem hér eru samþykkt.

Frú forseti. Ef ég fer í gegnum þessar báðar skýrslur, bæði frá rannsóknarnefnd Alþingis og frá þingmannanefndinni, vantar í þær nokkur atriði. Þær eru ekkert alfullkomnar. Þingmannanefndin var sett á laggirnar til að skoða rannsóknarnefndina eða skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þannig að það sem vantar inn í skýrslu rannsóknarnefndarinnar vantar líka hjá þingmannanefndinni. Það sem mér finnst vanta eru útlönd. Ég spurði í andsvari í gær hvort menn teldu að Ísland væri eyland, þ.e. algerlega aflokað frá öllum umheiminum. En svo er að sjálfsögðu ekki. Þó að Ísland sé eyja er það langt frá því að vera eyland. Við erum í mjög miklum samskiptum við aðra. Til dæmis mátu matsfyrirtækin bankana ótrúlega hátt, gáfu þeim AAA, sem var alveg ótrúlegt. Ég tel að það sé ekki lítil ábyrgð að gefa einhverjum litlum bönkum þvílíka einkunn sem gerði það að verkum að þeir áttu greiðan aðgang að ódýru lánsfé um allan heim sem þeir ella hefðu ekki fengið. Ábyrgð matsfyrirtækjanna er því mjög mikil.

Ábyrgð endurskoðenda er líka mjög mikil. Þeir gáfu þessar forsendur fyrir matsfyrirtækin til að meta bankana. Það hafði í för með sér að hér streymdu inn alveg gífurlegir peningar. Þeir streymdu reyndar ekkert inn, þeir fóru beint aftur út, að ég fullyrði. Það kemur heldur ekki fram í rannsóknarnefndarskýrslunni þó að ég hafi beðið nefndina um það með tölvubréfi að komast að því hvað miklu af þessum gjaldeyri var skipt í krónur af þeim lánveitingum sem bankarnir tóku. Það hefði mátt sjá strax með þeim tækjum og tólum sem rannsóknarnefndin hafði. Ég sé ekki að hún skoðað gert það. Ég held því fram að þessir peningar sem bankarnir tóku að láni hafi farið meira og minna til útlanda, í fjárfestingar í London, í fjárfestingar í Finnlandi o.s.frv. Það kemur fram í hvorugri skýrslunni.

Ástæðan fyrir þessu öllu saman, að ég tel, er raðeignarhald og krosseignarhald og lánveitingar til eigenda og kaup í eigendum sem býr til hringstraum af peningum og sýnir gífurlega peninga sem ekki eru til. Endurskoðendur sjá ekki í gegnum þetta vegna þess að þeir skoða bara móður- og dótturfyrirtæki en ekki móðurmóðurfyrirtæki eða dótturdótturfyrirtæki. Svo földu menn eignarhaldið á Tortóla og víðar þannig að það var ekki nokkur leið að rekja hver var eigandi hvers. Það held ég að hafi verið meginástæðan. Það varð til þess að bankarnir sýndu ótrúlega mikið eigið fé, mikinn hagnað, því að það spólar upp hagnað líka. Það spólar reyndar líka upp völd þannig að stjórnir fyrirtækjanna réðu öllu, ekki hluthafarnir. Það varð til þess að matsfyrirtækin gáfu þessum fyrirtækjum háa einkunn, þessum óskaplega ríku fyrirtækjum með mikið eigið fé, og það varð til þess að útlendingarnir komu hingað með sína dýru peninga sem ég hef kallað kannski dálítið niðurlægjandi „vitleysingana sem lánuðu vitleysingunum“ — þeir bera líka ábyrgð. Það vantar inn í skýrsluna að segja frá því að þessir aðilar þrír, þ.e. endurskoðendur, matsfyrirtækin og lánveitendurnir, bera mikla ábyrgð. Og ekki var sagt frá veilunni sem er í hlutabréfaforminu, sem ég hef sýnt fram á og sannað. Það er reyndar vísað í frumvarp mitt um gagnsæ hlutafélög í skýrslu þingmannanefndarinnar, en áhrif þess eru ekki nefnd. Það er sem sagt það sem vantar.

Svo er hérna rætt um oddvitaræði og flokksræði, það er dálítill munur á því. Oddvitaræði þýðir að einn maður ræður í flokknum, í þingflokki sínum yfirleitt, en það getur líka gerst að oddvitinn hlusti á flokkinn og móti sér afstöðu þannig að flokkurinn komi fram sem ein heild en ekki þannig að einstakir þingmenn greiði atkvæði samkvæmt samvisku sinni. Það getur veikt lýðræðið mjög mikið á hinu háa Alþingi. Oddvitaræði og flokksræði eru stórhættulegt hvort um sig, enda hef ég ætíð varað við því. Ég hef aldrei sagt „við sjálfstæðismenn“ — ég hef aldrei sagt það. Menn ættu að venja sig af því að segja slíkt.

Hrunið var skelfilegt fyrir þjóðina, en við skulum nýta þá kosti þess sem hægt er að nýta. Kostirnir eru nefnilega þeir að hrunið kallar á breytingar. Fólk og flokkar og allir eru tilbúnir til að fara í breytingar. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar og sérstaklega þingmannanefndarinnar segir mér að menn eru núna tilbúnir í breytingar. Nú skulum við bara kýla á það. Mótum þjóðinni ákveðna stefnu. Forseti Alþingis kom með bráðskynsamlega tillögu um breytingu á þingsköpum. Ég var yfir mig hrifinn þegar ég las hana, bæði hvernig stjórnarandstaðan er tekin inn og hvernig breyta á öllum vinnuferlum, ég var mjög ánægður með það. Tillagan er til skoðunar í þingflokkunum núna — sem er líka mjög merkilegt, frú forseti, að hún skuli vera til skoðunar í þingflokkunum. Menn geta komið með athugasemdir. Ég skora á þingmenn fram að 1. október að koma með breytingar og hugmyndir og ræða þetta fram og til baka.

Hér hefur verið rætt um siðareglur. Ég tek eiginlega undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði áðan um siðareglur, að siðareglan ætti eiginlega bara að vera ein: Skoðaðu og spurðu hverju sinni þegar þú tekur ákvörðun hvort hún er rétt. Hver og einn ætti bara að spyrja sig að því: Er þessi ákvörðun rétt? Að menn viti yfirleitt hvað er rétt og hvað er rangt. Ef þeir vita það ekki breyta siðareglur engu þar um. Það er það sem menn eiga að gera.

Ég er með nokkrar tillögur til breytinga á þeim frábæru tillögum sem þingnefndin kemur með. Það er eiginlega meira til að dýpka þær. Hér stendur í 1. málslið tillagnanna:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni. “

Þetta er allt hárrétt, en eftir 20 ár mun enginn skilja um hvað þetta fjallar. Ég vil segja að Alþingi álykti að það sé vitnisburður um þá þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undanfarinna ára sem leiddi til hruns bankanna haustið 2008 og telji mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni við brýnar úrbætur — að við bætum því við. Þetta er sem sagt meira skerping á því hvað menn eru að segja. Ég hugsa að sé nú enginn á móti þessu.

Svo er ég með tillögu sem ég hygg að margir muni gera athugasemd við, sérstaklega þeir sem hafa verið ráðherrar. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Ég legg til að þar komi til viðbótar: „Það verði gert m.a. með því að þingmenn og þingnefndir semji þau frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi eða ritstýri þeim.“

Þetta er mjög mikil breyting og ég nefndi áðan hvernig virkja á samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins.

Síðan kemur ein breyting sem undirstrikar sjálfstæði Alþingis: „Alþingi ályktar að það skuli starfa samkvæmt eigin fjárlögum og að þingmenn verði á launaskrá hjá Alþingi.“

Þá hætti ég sem sagt að vera launþegi hjá fjármálaráðherra og fer að verða launþegi hjá Alþingi. Það er meginmunur á því. Ég held menn ættu að ræða það og fara dálítið ítarlega í þá breytingu og skoða hana.

Síðan þegar menn tala um hverjir bera mesta ábyrgð vildi ég skjóta inn: „erlendum matsfyrirtækjum og lánveitendum bankanna“ á undan „stjórnendum og helstu eigendum“ til þess að undirstrika að þeir koma líka inn í þessa keðju ábyrgðaraðila. Svo vil ég bæta við „sem og veila í hlutabréfaforminu“, sem ég hef bent á.

Svo er ég með eina litla breytingu því að það stendur hérna merkilegt nokk að forsætisráðherra eigi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að koma að því að ráðast í eftirfarandi breytingar. Ég er alfarið á móti því. Alþingi getur ekkert ætlast til þess þegar það býr til skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að framkvæmdarvaldið komi að því að setja reglurnar. Við eigum að bera höfuðið hátt og treysta okkur sjálf í allar þessar breytingar, enda eru þær allar á verksviði Alþingis, þ.e. að semja frumvörp, gera þær rannsóknir sem er lagt til að verði gerðar o.s.frv.

Svo er þarna smávægileg breyting sem ég ætla að gera sem er að bæta inn í löggjöf um starfsemi fjármálamarkaða. Þar komi „og lög um hlutafélög og einkahlutafélög“. Þá hef ég í huga þetta raðeignarhald og krosseignarhald sem þarf að taka einhvern veginn á, frú forseti, jafnvel þó að það sé alþjóðlegt vandamál getum við ekki lifað við það lengur.

Mér líst mjög vel á þær rannsóknir sem lagt er til að fari fram. Ég held þær séu mjög nauðsynlegar. Ég hef mörgum sinnum lagt fram hugmyndir um að sjóðfélagar kjósi t.d. stjórnir lífeyrissjóða. Það var kolfellt. Ég hef meira að segja komið með litla breytingu sem sagði: „Lífeyrissjóðir eru eign sjóðfélaganna“. Það var líka kolfellt. Ég spyr þá: Hver á þá eiginlega ef ekki sjóðfélagarnir? Þeir eru þeir einu sem eiga réttindi þarna.

Síðan er hér lögð til rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóðanna. Ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að ég hef grun um að þar hafi ýmislegt verið að, en ég vil ganga miklu lengra. Ég vil að rannsóknin nái yfir þróunina á sparisjóðunum frá 1990, þá keyptu sparisjóðirnir nefnilega Kaupþing og bjuggu til fyrirbæri sem hét Meiður, sem seinna varð Exista sem átti 20% í Kaupþingi og Kaupþing átti 20% í Existu. Það er fyrirbæri sem ég tel mjög mikilvægt að verði rannsakað, hvað gerðist þarna eiginlega? Ég átti reyndar hlut að því þegar ég var í stjórn SPRON, og stóð í þeim slag öllum, að reyna að koma í veg fyrir að stofnfjáreigendur töpuðu því sem þeir áttu því að það hefði gerst. Ég ætla nú ekki að fara nánar út í það.

Samanlagt er ég mjög ánægður með þessar tillögur. Við ættum eiginlega að kalla þetta tillögu til þingsályktunar um framtíðina eða breytingar til framtíðar, vegna þess að við tölum um að breyta uppbyggingu íslensks þjóðfélags með því sem við lærum af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við erum að læra af henni og við erum að draga ályktanir og við erum að gera breytingar. Þetta er framtíðarsýn íslenskrar þjóðar og ég er mjög ánægður með þetta starf. Síðan ræðum við um ábyrgð ráðherranna og slíkt, þá verður tónninn hjá mér kannski ekki alveg eins jákvæður.