139. löggjafarþing — 62. fundur.
fjöleignarhús, 1. umræða.
stjfrv., 377. mál (leiðsöguhundar o.fl.). — Þskj. 487.

[15:38]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjöleignarhús sem eru settar fram fyrst og fremst vegna ákvæða um leiðsögu- og hjálparhunda en fjalla þó einnig almennt um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum. Til þessa hafa sömu lög gilt um leiðsögu- og hjálparhunda í fjölbýli og gilda um hundahald almennt. Því hefur fólk sem þarf á slíkum hundum að halda þurft samþykki allra íbúa viðkomandi húss og andstaða eins íbúa nægt til að hindra þessa mikilvægu aðstoð hins fatlaða einstaklings.

Í frumvarpinu er kveðið á um sérstaka heimild fyrir fólk með fötlun til að halda leiðsögu- og hjálparhund í fjöleignarhúsum. Með breytingunni verður því heimilt að halda leiðsögu- og hjálparhund í íbúð sinni án þess að fyrir liggi samþykki annarra íbúðareigenda í húsinu. Fortakslaust neitunarvald annarra íbúðareigenda er þannig afnumið og réttur fatlaðs fólks settur í forgang.

Samkvæmt frumvarpinu skal þinglýsa yfirlýsingu um það ef leiðsögu- og hjálparhundur er í fjölbýlishúsi og vekja athygli á því í yfirlýsingu húsfélags við sölu. Einnig eru fyrirmæli um hvernig tekið skuli á málum þegar leiðsögu- og hjálparhundur veldur ofnæmi annars íbúa en líkur á slíkum vanda eru ekki taldar miklar þar sem alvarlegt hundaofnæmi er tiltölulega fátítt.

Með frumvarpinu er staðfest sú meginregla að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi sé háð samþykki allra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. Aftur á móti þarf ekki samþykki annarra eigenda fyrir hunda- og kattahaldi þegar hvorki er um sameiginlegan stigagang né inngang að ræða. Þá eru einnig sett nánari fyrirmæli um skyldu til að afla leyfis til sveitarfélags til hunda- og kattahalds og jafnframt eru heimildir húsfélags til að setja reglur um hunda- og kattahald í húsinu og til að banna það ef það hefur í för með sér ónæði fyrir aðra íbúa.

Auk þess eru lagðar til sameiginlegar reglur sem eiga bæði við um hunda- og kattahald þegar samþykki allra liggur fyrir og þegar það er frjálst þar sem hunda- og kattahaldi eru settar ýmsar skorður af tilliti til þeirra sem í húsinu búa og kveðið á um úrræði við brotum eiganda dýrs á skyldum sínum gagnvart öðrum íbúum.

Virðulegur forseti. Ég hef reifað meginatriði þessa stutta frumvarps og þær breytingar á lögum um fjöleignarhús sem lagðar eru til. Það mun síðar fara til frekari umfjöllunar hjá hv. félags- og tryggingamálanefnd. Að mínu áliti eru þetta ekki stórvægilegar breytingar en engu að síður mikilvægar þar sem þær fjalla um mikilvæga réttarbót fyrir fatlað fólk sem þarf á leiðsögu- eða hjálparhundum að halda. Það er ástæða til að taka fram að hér er ekki um að ræða mjög mörg tilfelli miðað við þær 100 þús. íbúðir sem eru í landinu. Hingað til hafa sennilega verið um fjórir til sex blindrahundar. Við erum að tala hér um sárafá tilfelli en alls óviðunandi ef fólk hrekst á milli, jafnvel þegar það loksins fær tækifæri til að fá það mikilvæga hjálpartæki sem leiðsöguhundur er.

Aðrar breytingar í þessu frumvarpi eru til þess fallnar að skýra réttindi til hunda- og kattahalds, jafnt gagnvart eigendum dýranna og annarra íbúa ef óþægindi hljótast af dýrahaldinu.



[15:42]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Mig langar að spyrja ráðherrann um eitt atriði sem varðar 1. gr. í frumvarpinu sem er breyting á gildandi lögum og varðar í rauninni ekki hjálparhunda sem slíka heldur almennt hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi. Og nú er spurningin hvort ráðherrann sé svo vel inni í málaflokknum að hann geti svarað.

Á síðustu missirum hefur borið töluvert á því að þar sem er sameiginlegur garður en sérinngangur og -stigagangur hefur mönnum verið bannað að vera með hunda og einn íbúi í húsinu hefur getað bannað það. Nú langar mig að spyrja hvort í þessu frumvarpi felist breyting á þessu þannig að nú sé tryggt að svo lengi sem hundurinn veldur engum ama og ekki er sameiginlegur inngangur eða stigagangur en að sjálfsögðu sameiginleg lóð og garður eins og er venjulega á húsum geti fólk fengið að halda sína hunda í friði í fjölbýlishúsum svo lengi sem þeir séu til friðs.



[15:43]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að 1. gr. frumvarpsins er um almennar reglur varðandi hunda- og kattahald. Þar er einmitt þessi rýmkun, að ef ekki er um að ræða sameiginlegan inngang eins og í raðhúsum, sem teljast til fjölbýlis, eða jafnvel í tvíbýlishúsum, þar sem hvor íbúð er með sinn inngang, gildi ekki þessar reglur um hunda- og kattahald, þá hafi menn leyfi til þess að halda hund. Það er leyft jafnvel þó að lóðin sé sameiginleg enda tilskilið að þá þurfi menn að hafa hundinn, eða köttinn, í bandi eða undir öruggri stjórn þegar farið er að og frá inngangi.

Ég vona að þetta svari spurningunni. Það er sem sagt verið að skýra þarna reglur almennt varðandi hunda- og kattahald og starfshópur hefur verið að vinna fyrir velferðarráðuneytið að því að endurskoða fjöleignarhúsalögin. Ég óskaði eftir að þetta atriði yrði sérstaklega tekið út úr í byrjun en verið er að fara yfir að heildstætt og þar búa menn yfir mikilli reynslu einmitt af árekstrum sem hafa orðið í fjölbýlishúsum og mönnum þótti of strangt að það væri bannað að hafa hunda í fjöleignarhúsi. Eins og ég segi geta raðhús talist fjöleignarhús og þá þurfti samþykki allra í raðhúsinu þótt hver íbúð sé með sinn inngang. Því er breytt hér og það rýmkað en eftir sem áður, ef það er sameiginleg lóð verða menn að leiða hundana í bandi yfir það svæði en það er ekki hægt að banna mönnum að hafa hund ef inngangurinn er sér.



[15:45]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Ég held að hér sé mikilvægt mál á ferðinni en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í atriði sem væntanlega telst vera 1. gr. d. í frumvarpinu, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að lyf megna ekki að gera sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund bærilegt og læknisfræðileg gögn …“ o.s.frv., ég er að velta því fyrir mér, frú forseti, er hægt að skrifa það inn í lagatexta að einhver einstaklingur sem býr í húsi þar sem eru dýr verði að vera á lyfjum til að fá einhvers konar undanþágu frá meginmáli greinarinnar. Ég er að velta því fyrir mér og í raun og veru beinist spurningin til hæstv. ráðherra um það hvort menn í ráðuneytinu hafi velt þessu máli upp, t.d. gagnvart mannréttindalögfræðingum eða persónurétti þeirra einstaklinga sem þarna búa, þ.e. er beinlínis gert ráð fyrir því í lagafrumvarpinu að það sé skylda þessara einstaklinga að vera á lyfjum eða er hægt að skikka þá til að vera á lyfjum í einhvern tíma? Ég átta mig ekki á því.



[15:47]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti mér svo sem ekki alveg til að skera úr um hvað er við hæfi í lagatexta þó að þetta hafi komið fram. Það er rétt sem kemur fram að þetta á eingöngu við leiðsögu- og hjálparhundana, að ef í ljós kemur að einhver í húsinu er með ofnæmi þar sem slíkur hundur kemur í stigagang eða sameiginlegan inngang þá er fjallað með ákveðnum hætti um hvernig eigi að taka á því vandamáli. Þar er talað um að leita til úrskurðarnefndar ef ágreiningur er um það því þá eru málefnalegar ástæður fyrir.

Þetta atriði, að orða þetta svona er vegna þess að þarna var leitað til sérfræðinga hvað varðar ofnæmi, varðandi hundaofnæmi. Það var mat þeirra að almennt ætti þetta ekki að valda neinum vandræðum og þess vegna er þetta orðað með þessum hætti. Það er náttúrlega ekki ætlast til að menn þurfi þar með að vera á lyfjum en eftir sem áður álít ég að ef slík tilfelli koma upp þá sé hægt að bægja því frá með lyfjum.

Þarna er eingöngu verið að tala um þau fimm til tíu tilfelli þar sem þessir hundar eru í fjölbýlishúsum þar sem er sameiginlegur inngangur, ef það eru þá svo margir, það liggur svo sem ekki nákvæmlega fyrir. Þetta eru mjög ströng atriði og það er verið að finna málsmeðferðina ef slíkur ágreiningur kemur upp sem ég held að sé mjög mikilvægt.

Vonandi mun nefndin líka skoða aðra þætti. Ég hef fengið ábendingar um að þetta snúist ekki bara um ofnæmi, það geta verið aðrir sjúkdómar eins og ofsahræðsla við hunda sem líka getur valdið erfiðleikum og auðvitað verður nefndin að skoða hvernig á að taka á því atriði ef það eru lögmætar ástæður fyrir því að kvarta yfir því að hundur sé í húsinu, að þá verði tekið á því með svipuðum hætti og þarna er gert ráð fyrir. Það sem er verið að stoppa er kannski það að einn aðili geti stöðvað það að leiðsögu- eða hjálparhundur verði í húsinu án þess að þurfa að gefa neinar málefnalegar ástæður fyrir andstöðunni.



[15:49]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér sýnist að þetta sé mál sem er hægt að leysa. En eins og ég nefndi áðan, að beinlínis ætlast til þess í lagatexta að einhver taki lyf áður en hann leitar úrræða vegna svona mála, það finnst mér svolítið langsótt. Ég geri ráð fyrir að málið komi fyrir hv. heilbrigðisnefnd og við munum þá geta lagfært lagatextann hvað þetta varðar eða a.m.k. skrifað það vel inn í nefndarálit að ekki valdi misskilningi.



[15:50]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar sem málið er um fjöleignarhús og fjallar um húsnæðismál þá fellur það undir velferðarráðuneytið og mun væntanlega fara til félags- og tryggingamálanefndar sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson situr í. Málið ætti því að vera í góðum höndum en í sjálfu sér er engu að síður afar góð ábending að þetta verði skoðað líka í heilbrigðisnefnd og félags- og tryggingamálanefnd geti þá metið það.

Fyrst og fremst er þetta sett fram til að tryggja að þarna verði ekki árekstrar þar sem menn eru að fá mikilvæg hjálpartæki sem leiðsögu- og hjálparhundarnir eru og að það sé með einhverjum skýrum hætti reynt að taka á því hvað menn gera ef slíkur ágreiningur kemur upp.



[15:51]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu um hunda og ketti mikið en mig langar að koma upp og fagna þessu frumvarpi og gleðjast sérstaklega yfir því að verið sé að auka og tryggja rétt fólks til að búa á heimili sínu með hjálpar- og leiðsöguhunda og jafnframt að skýra reglur og einfalda og gera kannski sanngjarna fyrir aðra dýraeigendur.

Hér á landi hefur það verið landlæg skoðun að hundar eigi eiginlega bara heima í sveit en rannsóknir á eðli hundsins, tilurð hans og sögu, sem margar eru til, hundar hafa verið mikið rannsakaðir, sýna að hundurinn á eiginlega fyrst og fremst heima hjá manninum og það skiptir engu máli hvort það er í borg eða sveit. Hundar hafa marga sérstaka eiginleika og við eigum að nota þá mun meira sem hjálpar- og leiðsöguhunda eins og er víðast annars staðar og eins til aðstoðar lögreglu við störf sín, bæði fíkniefnaleit og sem varðhunda.

Á Íslandi hefur skort mikið á hundamenningu. Það er ákveðin einangrunarstefna með hunda á Íslandi. Margt fólk er hrætt við hunda og þeir eiga eiginlega helst hvorki að sjást né heyrast sem leiðir það af sér að þeir eru hafðir sér og þeir venjast ekki eðlilegri umgengni við fólk. Víða erlendis sér maður t.d. hunda bundna fyrir utan matvöruverslanir. Það er mjög óalgengt á Íslandi og þar sem hundar eru ekki eðlilegur hluti af daglegu sýnilegu lífi okkar og hluti af götumyndinni og borgarmenningunni, t.d. eru hundar hreinlega bannaðir á Laugaveginum, þá venst fólk ekki við þá, heldur áfram að vera hrætt við þá og hundarnir eru hálfhræddir við ókunnugt fólk líka. Þetta er einhver vítahringur sem við brjótum kannski ekki auðveldlega upp en mér finnst þó þetta frumvarp gott skref í áttina.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.