139. löggjafarþing — 66. fundur.
útflutningur hrossa, 1. umræða.
stjfrv., 433. mál (heildarlög). — Þskj. 709.

[16:38]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 709, sem er 433. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um útflutning hrossa, sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi lög um það efni, nr. 55/2002. Í öllum meginatriðum er andi laganna og meginstefnumið óbreytt frá gildandi lögum en þó er um breytingar í nokkrum atriðum að ræða sem hér skal gerð grein fyrir.

Sá tími sem heimilt er að flytja út hross með skipum er styttur. Í gildandi lögum er slíkur flutningur heimill á tímabilinu frá 15. apríl til 1. nóvember (Gripið fram í.) en hér er lagt til að það verði heimilt frá 15. maí til 1. október. Þessi breyting helgast af dýravelferðarsjónarmiðum, en reynslan hefur sýnt að iðulega er mjög slæmt í sjó hér við land, hvort sem er snemma vors eða síðla hausts og jafnvel ekkert skárra en um hávetur. Slíkur flutningur reynir mjög á hross auk þess sem flutningur með flugi er bæði orðinn mun tíðari og hlutfallslega ódýrari en áður var.

Þá er og vegna dýravelferðarsjónarmiða tekið upp í lagafrumvarpið ákvæði þess efnis að Matvælastofnun geti ákveðið við sérstakar aðstæður að dýralæknir sé um borð í flutningsfari og hafi yfirumsjón með gæslu hrossa í flutningi. Ákvæðið er undantekningarákvæði sem eðlilega ber að túlka þröngt en getur til að mynda átt við þegar brögð hafa verið að því að hross hafi drepist í umsjón flutningsaðila eða þá að ástand hrossanna við komu á áfangastað hafi bent til að aðbúnaði um borð í skipi eða flugvél hafi verið ábótavant.

Í frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um að óheimilt sé að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Jafnframt eru skýr ákvæði um þrif á flutningsförum sem notuð hafa verið til flutnings á dýrum erlendis áður en þau koma hingað til lands. Ákvæði þetta var áður að finna í reglugerð um útflutning hrossa, en taka þarf af öll tvímæli um gildi þess. Þarna búa að baki rök um sóttvarnir og eflda baráttu gegn dýrasjúkdómum en dæmin hafa sýnt að hvergi má slaka á klónni í þeim efnum. Íslenski hrossastofninn er enda afar viðkvæmur gegn hvers konar smitsjúkdómum sem helgast af aldalangri einangrun hans hér á landi. Verði þar misbrestur á og hættulegir sjúkdómar berast til landsins getur þessi mikilvæga útflutningsgrein og áhugamál þúsunda fólks hér á landi hrunið og hundrað ára kynbótastarf farið forgörðum.

Einnig er í frumvarpinu ákvæði um að öll útflutningshross skuli vera örmerkt, en þó er veitt heimild til 1. nóvember í ár að flytja úr landi hross sem eru einungis frostmerkt. Þetta ákvæði er í fyllsta samræmi við önnur lög og reglur sem snerta einstaklingsmerkingu hrossa en hvarvetna hefur örmerking rutt sér til rúms sem aðal- eða eina merkingaaðferðin við einstaklingsauðkenningu hrossa.

Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að gjald það sem útflytjendur hrossa greiða í stofnverndarsjóð hækki úr 500 kr. af hverju útfluttu hrossi í 1.500 kr. Um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins gildir reglugerð nr. 470/1999 og starfar hann samkvæmt ákvæðum 15. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998. Fagráð í hrossarækt annast stjórn sjóðsins. Hlutverk stofnverndarsjóðsins er skilgreint svo í lögum að úr honum séu veitt lán eða styrkir til kaupa á úrvalskynbótagripum sem ella kynnu að vera fluttir úr landi en einnig til þróunarverkefna. Starfsemi stofnverndarsjóðs hefur þróast svo á seinni árum að einungis hefur verið veitt fé til þróunarverkefna í hrossarækt en ekki til kaupa á úrvalskynbótagripum sem ella yrðu fluttir úr landi. Reynslan hefur sýnt að undantekningarlítið hafa helstu kynbótagripir sem upp hafa komið hér á landi fengið notkun við hæfi og þeir því verið áfram á landinu óháð því hvort eignarhald hafi breyst eða ekki. Ekki er því að finna í frumvarpinu ákvæði sambærilegt því sem er í núgildandi lögum um að fagráð í hrossarækt ákvarði mörk kynbótamats sem hross þurfi að hafa til að teljast úrvalskynbótagripir.

Að öðru leyti eru ákvæði frumvarps þessa sambærileg við ákvæði gildandi laga um sama efni.

Frú forseti. Frumvarpinu fylgir að sjálfsögðu umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem kveðið er á um og skýrt frá að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það muni hafa nein bein áhrif á afkomu ríkissjóðs enda fyrst og fremst um að ræða mál innan atvinnugreinarinnar sjálfrar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr. og treysti ég því að þar fái það vandaða og góða meðferð og því verði síðan lokið hér á Alþingi.



[16:43]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér á sér alllangan aðdraganda. Það má segja að því hafi verið hrundið af stað í minni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar ég skipaði nefnd sem hefur unnið að þessu máli. Það var sannarlega mikilvægt að fara yfir þá löggjöf sem hefur gilt um nokkurra ára skeið um útflutning hrossa.

Þetta er í eðli sínu mjög mikilvægt mál. Hestamennskan og hrossabúskapurinn eru eins og við vitum þýðingarmikil atvinnugrein og í henni eru gríðarlega mikil tækifæri eins og við höfðum svo sem rætt áður í þessum sal. Að mínu mati eigum við að gera allt sem við getum til að hlúa að þessari atvinnugrein. Hún hefur mikla efnahagslega þýðingu og vaxandi efnahagslega þýðingu og hún hefur líka á margan hátt sérstöðu í landbúnaðinum og sem atvinnugrein í þeim skilningi að hún er stunduð jafnt í þéttbýli sem dreifbýli og hún er mjög þýðingarmikil til að halda uppi atvinnusköpun úti í hinum dreifðu byggðum. Mörg héruð, má segja, reiða sig bókstaflega á hestamennskuna sem snaran þátt í atvinnusköpuninni og tekjuöfluninni á þessum svæðum.

Þó er það ekki þannig að þetta hafi allt verið dans á rósum. Við vitum að svo hefur alls ekki verið. Hrossaræktin og hrossabúskapurinn hefur lent í miklum hremmingum eins og t.d. á síðasta ári þegar hestapestin kom upp, sem m.a. hafði þær afleiðingar að aflýsa varð landsmótinu sem átti að fara fram á Vindheimamelum í Skagafirði. Af því varð gífurlega mikið tjón fyrir hestamennskuna í landinu, hestamennskuna sem útflutningsgrein og hestamennskuna sem atvinnusköpun í héraði.

Ekki eru mjög mörg ár síðan hestamennskan lenti í annars konar sjúkdómafári sem hafði gífurlega mikið tjón í för með sér. Við vitum líka að útflutningur á hestum hafði verið umtalsverður um margra ára skeið og síðan hafði byggst upp mjög mikilvægur innanlandsmarkaður sem tók miklum framförum og jókst mikið þegar best lét í efnahagslífinu. Þegar hrunið varð hafði það vitaskuld áhrif á möguleika á sölu hesta innan lands. Á móti hefur komið að lækkun gengisins hafði þau jákvæðu áhrif að tekjurnar af seldum hestum hækkuðu sem nam gengislækkuninni þó að margs konar annað tjón kæmi líka yfir hestamennskuna í kjölfar hrunsins eins og aðrar atvinnugreinar í landinu. Hestamennskan er með öðrum orðum og hrossabúskapurinn útflutningsatvinnuvegur og mér er mjög vel kunnugt um að í kjölfar hrunsins sköpuðust nákvæmlega sömu vandamál í útflutningi á hrossum eins og í öðrum útflutningsgreinum. Menn voru í vandræðum með að fá greiðslur til landsins eins og við munum og allt var þetta til þess fallið að skapa erfiðleika í atvinnugreininni.

Engu að síður erum við að tala um mjög öfluga atvinnugrein sem hefur fengið lítinn opinberan stuðning. Sumir hafa raunar velt því upp hvort það kunni að vera ein skýringin á því að hestamennskan hefur verið að eflast svona mikið að menn hafa orðið að leggja sig mjög mikið fram, orðið að leggja mikið eigið fé og mikla vinnu í þennan atvinnurekstur. En hvað sem því líður er aðalatriðið að þetta er öflug og þýðingarmikil atvinnugrein, fjölbreytt á margan hátt og hefur líka í för með sér atvinnusköpun á afleiddum sviðum. Við þekkjum það, það eru hestaleigur, hestaleigan er almenningsíþrótt, og annars konar störf í tengslum við hestamennskuna hafa verið að spretta upp.

Það er líka gaman að fylgjast með þeirri miklu umræðu sem á sér stað bæði á hestavefjunum og í sérstöku blaði sem gefið er út, sem við þingmenn, margir hverjir, fáum, blaði sem segir okkur hve mikið er um að vera í þessari atvinnugrein. Einn þátturinn í því að byggja undir þennan atvinnurekstur hefur verið og er útflutningur hrossa. Það var á árum áður talsvert meira flutt út af hestum en núna en nú áætla menn, miðað við þær forsendur sem menn gefa sér, að útflutningurinn geti numið 1.500 hrossum á ári og það eru þær forsendur sem ég hygg að þetta frumvarp meðal annars gangi út frá.

Með frumvarpinu er verið að byggja undir nýja heildarlöggjöf sem er ætlað að skapa almennan ramma utan um atvinnugreinina og það er sannarlega vel. Það er líka jákvætt að mínu mati að um þetta mál virðist hafa tekist býsna góð samstaða. Þeir aðilar sem standa að þessu koma úr öllum geirum hestamennskunnar, aðilar sem þekkja mjög vel til varðandi útflutning hrossa. Að þessu máli koma líka dýralæknar, fulltrúar Matvælastofnunar, þannig að það virðist eins og þess hafi verið freistað að ná um þetta mál góðri samstöðu. Það skiptir líka mjög miklu máli að það sé gert vegna þess að um starfsrammann utan um útflutninginn þarf að ríkja bærileg sátt innan greinarinnar og gagnvart greininni sjálfri.

Eins og hæstv. ráðherra rakti í ræðu sinni snýst frumvarpið um ýmsa þætti, það snýst t.d. um dýravelferð. Ákvæði í 3. og 4. gr. frumvarpsins lúta einmitt að því að reyna að tryggja aukna velferð dýra. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa nein orð um það hversu mikilvægt það er, bæði frá dýraverndunarsjónarmiði en einnig frá viðskiptalegu sjónarmiði, að vel sé að þessum málum staðið.

Það er líka jákvætt í þessu að við sjáum í 3. gr. frumvarpsins tekist á við það að reyna að tryggja betur en áður að afstýra þeirri hættu á smitsjúkdómum sem því miður hafa tekið sér bólfestu í íslenskum hestum. Ástæðurnar fyrir þessu kunna að vera mjög margar og að hluta til er verið að mæta því með 3. gr. sem ég er að vísa til.

Það sem þetta frumvarp felur líka í sér, til viðbótar við það sem ég hef þegar rakið, er að verið er að reyna að efla hinn svokallaða stofnverndarsjóð. Eins og hæstv. ráðherra rakti hefur hlutverk þess sjóðs breyst á undanförnum árum. Tekjur hans hafa ekki verið mjög miklar. Gert hefur verið ráð fyrir 500 kr. gjaldi á hverju útfluttu hrossi og miðað við þær útflutningstölur sem við þekkjum hefur þetta gefið til sjóðsins í kringum 750 þús. kr. Það eru reglur sjóðsins að ekki megi ganga á höfuðstólinn, það verði eingöngu að ráðstafa þeim tekjum sem inn í sjóðinn streyma og síðan að nýta þær fjármagnstekjur sem sjóðurinn hefur. Þær eru örugglega ekki mjög miklar um þessar mundir þegar vaxtastigið er þó þetta lágt og því hlýtur að hafa komið til álita, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, að hækka þetta gjald.

Þarna er hins vegar um stöðugt álitamál að ræða. Hér er gert ráð fyrir því að þrefalda gjaldið og ég geri ráð fyrir að ýmsum finnist nóg um að þetta gjald á útfluttum hrossum sé þrefaldað. Það er sem sagt farið úr 500 kr. á hvert útflutt hross upp í 1.500 kr. En þá verða menn að hafa í huga að þrátt fyrir það verða tekjur sjóðsins, miðað við þessar forsendur, 1.500 hesta útflutning á ári, einungis rúmlega 2 millj. kr. og við vitum að ekki er hægt að gera mjög mikið í rannsóknar- og þróunarverkefnum sem sjóðurinn á að standa undir fyrir svo lága upphæð. Engu að síður ítreka ég að þetta er álitamál og þetta er eitt af því sem við hljótum í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að velta fyrir okkur. Ég hef líka heyrt það sjónarmið að gjaldið ætti að vera enn hærra til að styrkja þennan sjóð. Það eru hins vegar, eins og ég sagði áðan, engin geimvísindi í þessu. Það er enginn einn sannleikur í þessum efnum. Þetta er bara eitthvert mat sem menn verða að leggja á hlutina þegar þessi mál eru skoðuð í einhverju samhengi.

Ég ætla í sjálfu sér að spara mér það að fara mjög nákvæmlega yfir hverja efnisgrein þessa frumvarps. Ég vildi við 1. umr. málsins tæpa á þeim atriðum sem mér finnst vera aðalatriðið þegar við ræðum þessi mál. Þetta snýr að því að búa til almenna heildarlöggjöf utan um mjög mikilvæga útflutningsgrein, mjög mikilvæga atvinnugrein sem er útflutningur hrossa. Í öðru lagi er þetta mál sem snýr að almennri dýravelferð og ég hygg að um þau mál sé ekki ágreiningur í samfélaginu, síst á meðal hestamanna, bænda eða annarra þeirra sem að þessum málum koma. Ég veit að bændur og allir aðrir sem í hlut eiga hafa í huga að hestamennska sé stunduð á þann veg að dýravelferð sé alltaf höfð í heiðri. Í þriðja lagi er líka verið að takast á við það að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma sem við vitum að hafa átt uppruna sinn erlendis og hafa komið hingað t.d. með flutningsfari, með reiðtygjum o.s.frv. sem við vitum að hafa síðan getað haft alvarlegar afleiðingar.

Stóra málið er þó það að við búum til löggjöf sem er almennur rammi utan um þá öflugu útflutningsgrein sem er útflutningur hrossa. Með hliðsjón af því er eðlilegt að við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd förum yfir málin með það í huga og með það markmið að leiðarljósi að gera þessa atvinnugrein enn öflugri og búa til samkeppnisfæran og sanngjarnan ramma utan um atvinnureksturinn.



[16:54]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um útflutning hrossa. Eins og bæði hæstv. ráðherra sem og hv. þingmaður hafa rætt um á undan mér er þetta einhvers konar heildarrammi um útflutning hrossa, lagfæringar á eldri löggjöf og viðbætur nokkrar. Það má kannski segja, og þarf ekki að hafa mörg orð um það, að verið sé að setja þetta saman í sátt og samlyndi við hagsmunaaðila sem og aðra og um þetta gæti þar af leiðandi ríkt nokkur sátt. Það er afar mikilvægt og kannski til eftirbreytni og ekki síst fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ef hægt væri að hafa sambærilega sátt, samlyndi og samráð á öllum sviðum þess ráðuneytis. En því er ekki að heilsa þegar hér koma inn frumvörp sem varða sjávarútveginn.

En varðandi þetta frumvarp, sem er í 10 greinum, held ég megi segja að það séu ágætisatriði sem koma þar fram. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta er mikilsverð útflutningsgrein, skiptir gríðarlegu máli fyrir atvinnulíf allt í landinu. Hestamennska, hrossarækt og allt í kringum hestamennsku og umhirðu hestsins hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Þó það sé þannig að um aldamótin 2000 höfum við verið farin að flytja út á 4. þúsund hross en erum núna að reikna með um 1.500–2.000 — og menn voru jafnvel að gæla við að komast enn hærra á þeim tíma — þá er ég ekki viss um að verðmæti útflutningsins hafi lækkað nokkuð. Ég hef jafnvel trú á að verðmætið hafi hækkað ef eitthvað er. Á þeim tíma var verið að flytja út mun meira af almennum reiðhestum en núna er það þó þannig að í heiminum öllum er ræktun á íslenska hestinum orðin mjög almenn og ég býst við að í Þýskalandi fæðist jafnmörg folöld og á Íslandi á hverju ári. Það er því ekkert sérkennilegt að markaðurinn hefur harðnað og það er erfiðara að flytja út og það eru kannski fyrst og fremst dýrari og verðmeiri gripir sem eru fluttir úr landi.

Helstu breytingarnar sem koma fram, og hafa verið reifaðar áður, eru til að mynda að ekki megi lengur flytja hross út án þess að þau séu örmerkt, það þarf sem sagt að koma örmerki fram í hestavegabréfinu. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt ekki síst í ljósi þess að hér er um verðmæta gripi að ræða. Það er eðlilegt að þeir séu merktir á eins fullkominn hátt og við þekkjum í dag.

Ég vil nefna af öðru tilefni að fyrir einu til einu og hálfu ári var því breytt með reglugerð að ekki mætti lengur setja hross í sláturhús öðruvísi en þau væru örmerkt. Það var auðvitað afleitt. Það var einhver undanþága sem við hefðum vel getað sótt um til Evrópusambandsins um að viðhalda því að hross þyrftu ekki að fara örmerkt í sláturhúsið en það var ekki gert. Þar er um miklu verðminni gripi að ræða og getur verðmæti þeirra kannski verið í kringum 20 þúsund og einn tíundi hluti hefði þá farið þá til örmerkingarinnar sem er auðvitað galið. Við erum hér væntanlega að tala um að meðaltalsverðmæti hvers útflutts hross sé hið minnsta 1 millj. kr., og jafnvel meira, gæti ég trúað, án þess að þær upplýsingar liggi fyrir í frumvarpinu.

Einnig er komið til móts við það að þrengja heimildir um tíma þannig að tryggt sé að dýravernd sé gert heldur hærra undir höfði, þ.e. að tryggja velferð dýranna. Það er hið besta mál. Jafnframt er fjallað um að ekki megi flytja hross frá Íslandi með flutningsförum sem flytja samtímis dýr frá öðrum löndum. Það er auðvitað í sóttvarnaskyni og verndarskyni fyrir íslenska hestinn þegar hann kemur á áfangastað, að hann sé ekki orðinn veikur þar. Í ljósi þeirra pesta sem gengið hafa á Íslandi, hitapestarinnar árið 2001 og eins þessarar öndunarfæraveiki sem gekk hér á síðasta ári — og við erum kannski ekki algerlega búin að sjá fyrir endann á því með hvaða hætti það fjarar út — er mikilvægt að við förum að huga að sóttvörnum á allan hátt. Ég tel vel að það sé gert í þessu frumvarpi um útflutning, að það sé líka hugsað til þess að þeir hestar sem verða fluttir út til lífs komist á áfangastað í tryggu umhverfi.

Einnig er fjallað um að hækka gjald, sem var 500 kr. í lögum, greitt af hverju hrossi í stofnverndarsjóð. Áður var sá sjóður meðal annars notaður til að kaupa úrvalsgripi. Mér varð hugsað til þess í dag í umræðum um auðlindir og HS Orku, umræðum sem Vinstri grænir hafa ekki síst staðið fyrir, að það er gott að sú hugsun skuli ekki hafa smitast yfir í þessa grein. Þá mundu menn væntanlega efla þennan stofnendasjóð gríðarlega og kaupa upp alla ræktunargripi á landinu til að verja auðlindina. En það er gleðilegt að það viðhorf skuli ekki vera ríkjandi alls staðar í gegnum allt atvinnulífið. (Sjútv.- og landbrh.: Það er aldrei umdeilanlegt.) Já, það er rétt, það væri hægt að byggja upp Hólabúið sem er reyndar umdeilanlegt í því sambandi, þar er ríkisrekin hrossarækt. En við skulum kannski taka þá umræðu seinna, hún á alla vega ekki heima í frumvarpinu um útflutning. En vissulega gæti það átt heima í umræðum um almenningseign á auðlindum og eðlilega samkeppni í samkeppnisrekstri.

Eins og fram kom í umræðunni er það auðvitað nokkur hækkun að þrefalda gjaldið. Hins vegar var upphæðin einungis 500 kr. og eins og ég kom inn á áður voru hross áður fyrr mun verðminni. Að hluta til var verið að flytja út hross sem voru kannski með lægra verðgildi, til hestaleigu og almenningssports erlendis nema sá markaður er orðinn mun erfiðari í dag vegna þess að menn eru einfaldlega farnir að rækta fleiri hross á erlendri grundu af íslensku kyni, samkeppnin er erfiðari. En verðmeiri hrossin og þau bestu eru gjarnan ræktuð á Íslandi og flutt út þannig að hlutfallslega er upphæðin mjög lág. Mér finnst það án efa umræðunnar virði, og við munum taka þá umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar við fjöllum um þetta, hvort hagsmunir greinarinnar séu ekki betur tryggðir með því að þetta gjald verði hugsanlega hærra þannig að sjóðurinn verði sterkari þar sem rannsóknir og styrkir mundu nýtast greininni betur, og að þessi upphæð sé í raun hlutfallslega lág. Við þurfum að ræða hvort þetta gjald eigi rétt á sér í framtíðinni og hvort þetta sé eðlileg leið til að fjármagna rannsóknir og styrki.

Lokaorð mín um þetta eru einfaldlega þessi: Ég held kannski að við þurfum ekkert gríðarlega langan tíma í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd — hæstv. ráðherra fór fram á að við mundum taka okkur langan og góðan tíma. Við mundum örugglega taka okkur góðan tíma og fara vel yfir málið. En þegar mál eru unnin á þann veg að um þau er sátt, þegar þau eru unnin í samvinnu og samstarfi við beina og óbeina hagsmunaaðila, er miklu líklegra að þau gangi eðlilega í gegnum þingið og minni hætta á að menn klúðri lagasetningu eða framkvæmd eins og við höfum fengið að kynnast á undanförnum dögum.



[17:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Einari K. Guðfinnssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir umræðuna og fyrir góð innlegg. Þeir eru báðir í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem fær málið til meðhöndlunar.

Ég vil taka undir tvö atriði sem hv. þingmenn komu inn á. Það er annars vegar mikilvægi þess að standa vel að sóttvörnum og smitvörnum varðandi íslenska hestinn, ekki aðeins gagnvart þeim hestum sem við erum að flytja út heldur einnig, eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson rakti, mikilvægi þess að standa vörð um hestinn hér innan lands og gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft ef smitpestir bærust inn í landið eins og við stóðum einmitt frammi fyrir sl. sumar.

Þetta er gríðarlega stór atvinnuvegur og mikilvægur og byggir á þeirri sérstöðu sem íslenski hesturinn hefur og um hana verðum við að standa vörð. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi, og ég hef sagt það hér úr þessum ræðustól, að hafa enn betra eftirliti með hestavörum og reiðtygjum og öðru sem lýtur að og er notað í kringum íslenska hestinn, að það sé rækilega sótthreinsað ef farið er með það á milli landa en í þeim efnum eiga menn að vera mjög strangir til að geta varið íslenska hestinn hér og líka gegn innflutningi á öðrum dýrum sem við höfum staðið fast á til þessa og gerum vonandi alltaf áfram.

Hitt atriðið var að það eru ekki háar upphæðir sem um er að ræða í heild sinni í stofnverndarsjóði. En við verðum að gera okkur grein fyrir því, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á, hversu mikilvægt það er að standa vörð um gagnaöflun og gagnasöfnun, að allir íslenskir hestar sem seldir eru úr landi séu áfram á skrá og hluti af íslenska hestakyninu hvar í landi sem þeir eru. Það er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um sérstöðu íslenska hestsins og að hann sé sérstakt kyn, en líka til að hafa yfirsýn yfir hestastofninn í heild sinni. Hann er þannig séð einnig félags- og ræktunarhópur. Hluti af grunnmarkaðsstarfi íslenska hestinn er einmitt sú þekking og það samstarf sem við eigum þvert á landamæri og að sjálfsögðu þarf þá að tryggja ákveðinn fjárhagslegan grunn fyrir það starf.

Frú forseti. Ég vona og treysti því, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á, að þetta fái skjóta og góða afgreiðslu í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sjútv.- og landbn.