139. löggjafarþing — 77. fundur.
úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins, fyrri umræða.
þáltill. ÁJ o.fl., 281. mál. — Þskj. 324.

[17:15]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

Tillagan ályktar að fela innanríkisráðherra að láta gera ítarlega úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins á íslenskt þjóðfélag. Í úttektinni fælist m.a. að kanna skyldur Íslendinga og réttindi, kostnað við samstarfið, mannafla og tekjur af því, sem sagt plúsana og mínusana.

Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefur haft margvísleg áhrif á íslenskt samfélag, (Gripið fram í.) bæði jákvæð og neikvæð. Það fer ekki á milli mála að margir landsmenn óttast að neikvæðu áhrifin séu of mikil, opnunin óæskileg og kostnaðurinn mun meiri en tekjurnar. Minna má á að aðalkosturinn sem kynntur var af stjórnvöldum á sínum tíma í aðdraganda samstarfsins var sá að Íslendingar þyrftu ekki á vegabréfum að halda í ferðalögum milli Schengen-landa. Sá kostur vegur ekki þungt miðað við ýmislegt annað sem fylgir ferðamáta á Schengen-svæðunum. Dómsmálaráðuneytið hefur af og til svarað spurningum alþingismanna um einhver atriði þess sem rætt er og spurt um en mikilvægt er að vinnuhópur sem saman stendur af embættismönnum, talsmönnum í atvinnulífi og verkalýðshreyfingunni leggi hönd á plóginn til að kryfja þetta mál til mergjar. Embættismannaskýrsla er ekki nóg til þess að eyða öllum vafa.

Þess vegna er þetta mál lagt fram, til að reyna að skýra betur kostina, gallana og ábyrgðina sem því fylgja að vera í þessu samstarfi.

Að lokinni umræðu óska ég þess að málinu sé vísað til allsherjarnefndar.



[17:18]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég lýsi stuðningi við þessa þingsályktunartillögu. Ég tel hana til góðs og eins og hv. þingmaður og frummælandi nefndi hafa menn horft bæði á kosti þess og galla að vera innan Schengen-samskomulagsins og vissulega hefur löggæslan lagt áherslu á mikilvægi samstarfsins sem samkomulagið býður upp á við lögregluyfirvöld í öðrum löndum. Á móti hefur verið bent á að Bretland og Írland t.d. standa utan Schengen-samstarfsins og það er rétt sem sagt hefur verið að með inngöngu okkar í Schengen er dregið úr landamæraeftirliti. Þá er greiðari aðgangur að landinu en að sama skapi er samstarf lögregluyfirvalda aukið. Því fylgir mikill tilkostnaður og það hefur áhrif á ýmsan hátt. Ég ætla ekkert að orðlengja þessa umræðu en lýsi mig mjög fylgjandi þessu máli.



[17:19]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir góð orð um tillöguna og fagna því að hann taki undir með mér í málinu.

Það er margt í þessu sem er svolítið sérstakt. Íslendingar eru lítil þjóð og við verðum að gæta þess að ákveðnir þættir í alþjóðasamskiptum verði ekki of íþyngjandi í litlu samfélagi eins og okkar, til að mynda að margs konar samskipti lögreglu og annarra eftirlitsaðila í heiminum, í Evrópu, verði sífellt ríkari þáttur í daglega lífinu á Íslandi því að það truflar íslenskt samfélag. Við þurfum að huga vel að því og átta okkur á að fjöldinn skiptir miklu máli. Við erum fámenn og deilum kjörum í þessum efnum með stórum og miklum þjóðum.

Það minnir mig á til að mynda að einn vinur minn sem aldrei hafði farið til útlanda fór til London. Hann gisti á Regent hóteli í miðri London. Var fámennt þegar hann kom að hótelinu um kvöldið og lítil umferð um götuna. Næsta dag fór hann út á svalir eftir morgunmatinn, um tíuleytið, og sá að gatan var troðfull af fólki. Hann sagði þá við ferðafélaga sína: Það hafa margar flugvélar komið í morgun.

Það er nefnilega nákvæmlega það sem er, virðulegi forseti, að við verðum að gæta þess að sníða okkur stakk eftir vexti. Eitt af því neikvæða í Schengen-samstarfinu er að alls konar alþjóðavandamál hafa blandast inn í íslenskt samfélag. Þess vegna finnst mér hyggilegt að gera þessa úttekt eins og lagt er til.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.