139. löggjafarþing — 104. fundur.
um fundarstjórn.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:28]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Fyrir hádegishlé bað ég hæstv. forseta að athuga hvort ekki væri hægt að hliðra til í dagskránni þar sem nú er verið að kynna, að sögn forsætisráðherra, umfangsmiklar tillögur ríkisstjórnarinnar til þess vonandi að efla hagvöxt, koma atvinnulífinu af stað, aðgerðir sem verða vonandi til þess að halda utan um fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu. Ég tel eðlilegt að ef þær eru eins umfangsmiklar og sagt er verði þinginu kynntar þær þannig að við förum ekki inn í helgina og lesum í fjölmiðlum um hvað málið snýst. Ég tel þetta brýnt. Ég tel okkur með þessu vera að undirstrika það sem alltaf er verið að segja, að löggjafarvaldið sé ekki einhver þurfalingur á framfæri framkvæmdarvaldsins, ég tel mikilvægt að við þingmenn fáum upplýsingar frá ríkisstjórninni um það í hverju þessar tillögur felast þannig að við getum áttað okkur á því hvernig við byggjum upp á Íslandi til lengri tíma.

Það skiptir máli og það er þýðingarmikið að við komum á kjarasamningum. Þess vegna er líka mikilvægt fyrir okkur að vita í hverju þessar tillögur ríkisstjórnarinnar felast þannig að þingið geti brugðist við með verðugum hætti.



[14:29]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það kom fram í máli forsætisráðherra í gær að með þeim tillögum sem ríkisstjórnin er nú að kynna á fundi fyrir aðilum vinnumarkaðarins muni taka verulega í í ríkiskassanum. Það er nokkuð sem ég tel skipta máli fyrir okkur á þessum vinnustað, Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið. Það hefur þegar komið fram í fjölmiðlum að sú hagvaxtarspá sem fjárlögin byggja á virðist ekki ganga eftir þannig að menn hafa verið að tala um að það þurfi hugsanlega að gefa í hvað það varðar en að sama skapi virðist ríkisstjórnin vera að kynna tillögur sem hafa ekki verið kynntar fyrir þingflokkunum, a.m.k. ekki þingflokkum stjórnarandstöðunnar, sem gera það hugsanlega að verkum að þá þurfi jafnvel að skera enn þá meira niður. Þetta eru að mínu mati óásættanleg vinnubrögð.



[14:31]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og óska eftir því að virðulegur forseti upplýsi um það með hvaða hætti þinginu verði gerð grein fyrir þeim aðgerðapakka sem ríkisstjórnin er að kynna þessa stundina í Ráðherrabústaðnum, eftir því sem ég best veit. Við förum inn í nefndadaga eftir helgi, þetta er síðasti þingfundurinn í viku. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að brugðist verði við þessu þegar í stað og þingflokksformenn kallaðir saman þannig að við getum rætt það hvernig hægt er að koma þessum upplýsingum til okkar í þinginu þannig að við getum tekið þátt í þeim umræðum.

Ég fór í umræður undir þessum sama lið í morgun og spurði hvaða óviðráðanlegu orsakir hefðu gert það að verkum að innanríkisráðherra gat ekki tekið þátt í utandagskrárumræðu. (Forseti hringir.) Mér voru ekki gefin svör við því. Nú kemst ég að því að þessar óviðráðanlegu orsakir voru ríkisstjórnarfundur. Af hverju mátti ekki greina frá því, virðulegur forseti?



[14:32]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að þinginu verði með einhverjum hætti gerð grein fyrir þeim tilboðum eða fyrirheitum eða hvað á að kalla það sem ríkisstjórnin er að kynna fyrir aðilum vinnumarkaðarins núna. Hér er væntanlega um að ræða mál sem munu koma til afgreiðslu okkar að stórum hluta til. Það er nauðsynlegt að þingið sé upplýst um þetta þegar í stað, sérstaklega í ljósi þess að áður hefur það gerst að ríkisstjórnin hefur ýmist lofað upp í ermina á sér í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins eða lofað upp í ermina á okkur hinum. Það er óhjákvæmilegt fyrir okkur sem sitjum á þingi að fá upplýsingar um þetta jafnóðum og þegar í stað þannig að ekki líði vika þangað til tækifæri gefst til að eiga samræður við ráðherra um þetta á þessum vettvangi.



[14:33]
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan beindi ég þessu máli til forseta fyrir hádegishlé. Ég hélt satt best að segja að forseti hefði nýtt hádegishléið til að kanna hvort ekki yrði komið til móts við óskir mínar, og ég heyri líka fleiri þingmanna, til að við þingmenn verðum upplýst um það hver gangur mála er í kjaraviðræðum og þessum umfangsmiklu tillögum — sem vonandi eru umfangsmiklar.

Ég sit í samráðshópi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sem á að koma með tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir og menntamál, hvernig á m.a. að koma fólki sem er atvinnulaust til vinnu. Það lá mjög á, fundurinn átti að vera á þessum tíma, kl. hálfþrjú í dag, en það lá mjög á og fundinum var flýtt, settur á fyrir hádegi til að allar tillögur yrðu tilbúnar fyrir þessa fundi sem ríkisstjórnin á núna með aðilum vinnumarkaðarins. Ég tel eðlilegt að við sem erum á þingi fáum upplýsingar um stöðu mála, um þær tillögur sem fela það vonandi í sér að hagvöxtur aukist hér á ný og atvinnuleysi minnki þannig að hagur heimilanna þegar á heildina litið (Forseti hringir.) vænkist þegar til lengri tíma er litið.



[14:35]
Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti vill geta þess að hann mun koma þessum skilaboðum til forseta Alþingis sem tekur þá afstöðu til þeirra, en forseti tekur líka eftir því að fundarmenn á þessum fundi eru rétt í þessu að ganga til fundar í Ráðherrabústaðnum að mér sýnist af þeim upplýsingum sem ég sé í tölvu okkar.



[14:35]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að ég vil að hér verði sett af stað sérstök umræða um þetta efni. Það skiptir verulegu máli fyrir þjóðina. Fyrsta skrefið gæti verið að kalla saman þingflokksformenn og boða síðan til utandagskrárumræðu eða að forsætisráðherra gefi þinginu skýrslu. Við erum hérna á löggjafarsamkundu þjóðarinnar sem setur lög. Það er dálítið ankannalegt að menn úti í bæ setji lög sem við eigum svo að samþykkja og jafnvel standa í fjárútlátum fyrir ríkissjóð þar sem Alþingi er fjárveitingavald. Ég skora á hæstv. forseta sem er fulltrúi þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu að fara í gang með þessi skref og að við fáum að ræða þessar tillögur strax.



[14:36]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær óskir sem fram hafa komið frá hv. þingmönnum um að ríkisstjórnin verði kölluð til þings til að gera grein fyrir stöðu mála um kjarasamninga og það sem fram undan er, ekki síst í ljósi þess að þingið er að fara í hlé. Það verða nefndadagar hér í næstu viku og ekki þingfundur fyrirhugaður fyrr en á fimmtudaginn. Þetta eru atriði sem eiga erindi við þingið og þingmenn þótt auðvitað læðist að manni sá grunur að í þessum viðræðum sé ríkisstjórnin ekki að gera neitt annað en að dusta rykið af gömlum loforðum sem þegar hafa verið svikin, en a.m.k. er rétt að þingið hafi eitthvað um það að segja hvað er að gerast.

Ég tek síðan líka undir það, herra forseti, að það er auðvitað enginn bragur á því að hæstv. ráðherrar rjúki úr húsi og forðist utandagskrárumræður til þess að halda ríkisstjórnarfundi. Með því er þinginu ýtt til hliðar fyrir fundarhöld framkvæmdarvaldsins á þingtíma. Það gengur ekki.



[14:38]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklar athugasemdir við fundarstjórn, en vil í tilefni þessarar umræðu segja að að því er ég best veit hófst fundur forustumanna ríkisstjórnarinnar ásamt aðilum vinnumarkaðarins um eittleytið. Ég veit ekki annað en að hann standi enn og ég held að það væri ágætt að leyfa þeim fundarhöldum að ljúkast og heyra svo af þeim. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmönnum að að sjálfsögðu væri gott að fá hingað inn fréttir af þeim hið fyrsta. Ég hygg að það væri t.d. hægt að gera með því að formenn stjórnmálaflokkanna á hinu háa Alþingi mundu hittast og ræða saman, en ég skal koma þeim boðum til míns fólks að það sé mikill áhugi hér á að heyra af niðurstöðu fundarins, þ.e. ef einhver niðurstaða fæst á honum.



[14:39]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka að sér að koma boðum til síns fólks. Ég get alveg í sjálfu sér fallist á að það er betra að leyfa fundinum að ljúkast áður en fólk er kallað til, en í ljósi sögunnar á ég ekkert sérstaklega von á því að það verði miklar niðurstöður af þessum fundi. Ég mundi samt sem áður gjarnan vilja fá að heyra hverjar tillögur hæstv. ríkisstjórnar eru vegna þess að þrátt fyrir að aðilar nái kannski ekki saman tel ég það vera umræðuefni sem kemur þinginu mjög mikið við. Hér féll niður hálftímautandagskrárumræða vegna þess að framkvæmdarvaldið þurfti að halda fund og gerði það á þingtíma sem er í besta falli hlægilegt þegar haft er í huga að við erum alltaf að tala um að styrkja þurfi þingið. Dagskrá þingsins er sem sagt breytt vegna fundarhalda framkvæmdarvaldsins og þá bendi ég á að við eigum þarna lausan hálftíma sem við höfðum gert ráð fyrir að taka í utandagskrárumræðuna og væri kjörið að nýta til að fá upplýsingar um þessi fundarhöld framkvæmdarvaldsins.



[14:40]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, hlýtur að taka undir það með mér sem alþingismaður á Alþingi að Alþingi á ekki að þurfa að sætta sig við það að ríkisstjórnin hverfi af vettvangi meðan hér stendur þingfundur til að ræða önnur mál en hér eru á dagskrá. Hvar í flokki sem þingmenn standa verða þeir auðvitað að standa í ístaðinu og tryggja að ráðherrar séu hér þegar þeir eiga að vera hér.

Ég þakka hins vegar hv. þingmanni fyrir að taka svona vel í beiðni okkar og bjóðast til þess að hafa samband við sitt fólk. Ég legg mikla áherslu á það að umræða um kjaraviðræður fari fram á Alþingi í dag, hvort sem þessar umræður hafa skilað árangri eða ekki, vegna þess að það eru líka mikil tíðindi í því falin ef aðilar vinnumarkaðarins og hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) ná engum árangri og þá þarf líka að ræða stöðuna og framhald málsins.



[14:41]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem komu frá forseta um það sem við erum að biðja um, að fá upplýsingar um hvað sé þarna í gangi. Ég verð hins vegar að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum af því að svo virðist sem forseti eða þá forsætisnefnd hafi heldur ekki verið upplýst um þennan fund og að það væri ætlunin að leggja fram ákveðnar tillögur, a.m.k. miðað við þau svör sem komu frá forseta.

Ég tel þetta líka sýna að þessi ríkisstjórn hafi nánast gefist upp á því að vera í hinu svokallaða samráði eins og var talað mikið um hérna, a.m.k. þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður þótt hann hafi meira og minna verið svikinn. Þá var þó stjórnarandstöðunni boðið að sitja við borðið, hlusta og taka þannig þátt og fá upplýsingar sem hún gat þá borið hingað inn á þing. Það virðist ekkert vera í þessu máli þrátt fyrir, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að forsætisráðherra hefði tilkynnt um að það tæki verulega í hvað varðaði þær tillögur sem er verið að kynna hérna í dag.