139. löggjafarþing — 130. fundur.
barnaverndarlög, 2. umræða.
stjfrv., 56. mál (markvissara barnaverndarstarf). — Þskj. 57, nál. 1425, brtt. 1426.

[15:18]
Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum. Þetta er 56. mál. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fjölda gesta sem getið er í nefndarálitinu. Þá bárust nefndinni jafnframt margar umsagnir sem taldar eru upp í álitinu en einnig kynnti nefndin sér umsagnir sem bárust um málið á síðasta þingi.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi barnaverndarlögum og er meginmarkmið þess að skýra eða skerpa á ákvæðum gildandi laga. Í frumvarpinu er jafnframt að finna nokkur nýmæli og eru þau rakin í athugasemdum við frumvarpið auk þess sem þau eru talin upp í nefndarálitinu.

Nefndin hefur haft málið til umfjöllunar síðan í október og hefur haldið um það 17 fundi. Að auki hélt nefndin nokkra fundi um málefni meðferðarheimila og um skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustusamninga Barnaverndarstofu og lok þeirra sem kom út í febrúar 2011. Þá fjallaði nefndin samhliða málinu um skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu barna og ungmenna sem ráðherra lagði fram á síðastliðnu þingi.

Frú forseti. Frumvarpið er viðamikið og byggt á vinnu starfshóps sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði 8. júlí 2008. Almenn ánægja hefur verið með fyrirliggjandi frumvarp sem nefndin telur vandað og vel unnið. 16 málefni fengu hvað mesta umfjöllun í meðförum nefndarinnar. Þeim eru gerð greinargóð skil í nefndarálitinu og verður hér tæpt á nokkrum atriðum úr umfjöllun nefndarinnar. Að öðru leyti er vísað til nefndarálitsins sem er viðamikið og sýnir þá miklu vinnu sem nefndin lagði í málið.

Nefndin ræddi mjög ítarlega tilkynningarskyldu almennings og þeirra sem afskipti hafa af börnum. Miðað er við að tilkynna skuli ef ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Ræddi nefndin hvort ástæða væri til að telja upp frekari atriði sem væru tilkynningarskyld svo sem vanrækslu barna eða aðstæður þar sem barn er vitni að heimilisofbeldi. Telur nefndin ekki rétt að bæta við upptalninguna enda mikilvægt að fólk veigri sér ekki við að tilkynna og orðalag ákvæðisins verður því að vera nægilega opið til þess að undir þessi atriði falli ýmiss konar aðstæður og hegðun sem ber sannarlega að tilkynna.

Barnaverndarstofa hefur gefið út skilgreininga- og flokkunarkerfi en samkvæmt því eru tilkynningar flokkaðar í fjóra flokka: vanræksla, ofbeldi, áhættuhegðun barns og tilkynning vegna ófædds barns. Nefndin áréttar mikilvægi þess að þeim sem vinna með börn séu kynntar skilgreiningar og flokkunarkerfi Barnaverndarstofu og ítrekuð sé við þá skylda þeirra til að tilkynna í samræmi við lögin.

Málefni fatlaðra barna og vernd þeirra voru þó nokkuð rædd og er málefninu gerð góð skil í nefndarálitinu. Nefndin áréttar að barnaverndarlög eru til verndar öllum börnum, enda segir í 1. mgr. 1. gr. laganna að börn eigi rétt á vernd og umönnun og að þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur og þroska. Fötluðum börnum er því veitt sama lagavernd og öðrum börnum. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Á þetta við um fötluð sem ófötluð börn.

Nefndin tók til sérstakrar skoðunar heimili sem starfrækt eru skv. 91. gr. barnaverndarlaga, en þar er einkum um að ræða tímabundna dvöl á einkaheimili eða sumarbúðir og sumardvalarheimili. Slík heimili þurfa að sækja um leyfi til barnaverndaryfirvalda. Þá er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð þar sem m.a. sé kveðið á um skilyrði fyrir leyfisveitingu, samninga um vistun, stuðning og eftirlit. Nefndin telur að fötluð börn eigi að njóta sömu verndar og önnur börn fari þau í sumarbúðir eða á sumardvalarheimili. Leggur nefndin því til breytingu sem ætlað er að taka af öll tvímæli um leyfisskyldu heimila sem falla undir ákvæðið en taka við fötluðum börnum eða börnum sem glíma við fjölþættan vanda. Bendir nefndin í því tilfelli á að fari jafnframt fram þjónusta við fötluð börn á heimilinu fer um hana og eftirlit með henni samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Samkvæmt þessu getur heimilið sætt eftirliti tveggja aðila í stjórnsýslunni en nefndin bendir þó á að verði sett á stofn óháð eftirlitsstofnun með velferðarþjónustu yrði heildareftirlit á einni hendi. Telur nefndin mikilvægt að skoðaðir verði möguleikar á því að koma á fót slíkri eftirlitsstofnun enda brýnt að eftirlit sé sterkt, virkt og skilvirkt.

Í fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að lögfest verði sú meginregla að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska. Í gildandi lögum er miðað við 12 ára aldur. Breytingin er í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Almenn ánægja er með þessa breytingu og telur nefndin hana mjög jákvæða.

Í 55. gr. laganna er kveðið á um að barni sem náð hefur 15 ára aldri skuli tilkynnt um málshöfðun og gefinn kostur á að gæta réttar síns. Í framkvæmd hefur þessi réttur verið skýrður rúmt enda um mikilvæg réttindi að ræða sem eðlilegt er að barn njóti óháð því hvenær mál þess hófst. Nefndin áréttar því að hefjist mál, hvort sem er fyrir barnaverndarnefnd eða dómi, áður en barn verður 15 ára gamalt getur það þegar það nær þeim aldri fengið aðild að málinu í samræmi við ákvæði laganna.

Nefndin ræddi nokkuð ítarlega málefni barna í fóstri. Í 66. grein laganna er kveðið á um leyfi til að taka barn í fóstur og segir þar að það sé Barnaverndarstofa sem veiti leyfin. Nefndin bendir á að leyfi til að taka við barni í fóstur er bundið viðkomandi barni og í hvert sinn sem fósturforeldrar óska eftir að taka barn í fóstur þurfi þeir að sækja um leyfi að nýju til Barnaverndarstofu. Ekki er því hætta á því að annað barn fari á heimili þar sem aðstæður eru óviðunandi enda fengi slíkt heimili ekki leyfi til að vista barn að nýju. Kveðið er á um aðkomu sveitarfélaga og Barnaverndarstofu að gerð reglugerðar þar sem kveðið er á um fjárhæð gjalda sem sveitarfélögum ber að greiða fyrir fóstur. Nefndin telur mikilvægt að jafnframt sé haft samráð við hagsmunafélög fóstur- og vistforeldra þar sem til staðar er reynsla af fóstri og þeim kostnaði sem því fylgir.

Í 3. mgr. 40. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um kostnað af skólagöngu fósturbarna í tímabundnu fóstri. Samkvæmt því skal það sveitarfélag þar sem fósturforeldrar eiga lögheimili greiða allan venjubundinn kostnað sem hlýst af skólagöngu barns í fóstri. Sveitarfélag sem ráðstafar barni í tímabundið fóstur skal þó greiða kostnað vegna sérfræðiþjónustu eða sérþarfa fósturbarns. Ákvæðið hefur verið gagnrýnt mjög af smærri sveitarfélögum á landsbyggðinni sem telja að það feli í sér íþyngjandi skyldur fyrir þau sveitarfélög auk þess sem farið sé gegn þeirri meginreglu að sveitarfélögum sé ekki skylt að veita íbúum annarra sveitarfélaga þjónustu að kostnaðarlausu. Þá hafa nefndinni verið kynnt sjónarmið þess efnis að lögfesting ákvæðisins vinni gegn hagsmunum fósturbarna enda sé meginhluti fósturheimila á landsbyggðinni og lítil sveitarfélög og skólar eigi oft erfitt með að mæta auknum kostnaði vegna skólagöngu fósturbarna. Ákvæðið geti því orðið til þess að ekki verði unnt að koma börnum í fóstur til bestu mögulegu fósturforeldra út af áhyggjum af kostnaði sem lögheimilissveitarfélag fósturforeldra verður fyrir.

Nefndin telur mikilvægt að skipting kostnaðar vegna skólagöngu barna í tímabundnu fóstri sé með þeim hætti að um hana ríki sátt og staðinn sé vörður um hag barna. Menntamálanefnd hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á grunnskólalögum. Þar er m.a. lögð til sú breyting að mennta- og menningarmálaráðherra setji reglugerð í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur stjórnvöld, þar sem m.a. skuli kveðið á um skólagöngu fósturbarna, bæði fagleg og fjárhagsleg málefni og samstarf aðila. Með vísan til þess að málinu hefur verið fundinn farvegur í því frumvarpi og þess að skólamál heyra undir málefnasvið menntamálanefndar leggur nefndin til þá breytingu að í stað þess að kveðið sé á um skiptingu kostnaðar í barnaverndarlögum verði vísað til þess að um hann fari samkvæmt grunnskólalögum.

Frú forseti. Í barnaverndarlögum er orðið foreldrar skilgreint á þann hátt í 3. mgr. 3. gr. laganna að með því sé að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns og um inntak forsjár fari samkvæmt ákvæðum barnalaga. Hugtakið nær þannig bæði yfir kynforeldra barns, stjúpforeldra og sambúðarforeldra fari þeir með forsjána. Í nokkrum ákvæðum laganna og frumvarpsins er orðið kynforeldrar notað, m.a. þegar kveðið er á um rétt barns í fóstri eða barns sem vistað er á heimili eða stofnun til umgengni við kynforeldra, auk þess sem hugtakið er notað þegar kveðið er á um rétt kynforeldris til að taka við umsjá sé það talið barni fyrir bestu ef foreldri sem barn býr hjá afsalar sér umsjá eða er svipt henni. Með orðalagi ákvæðanna er börnum því mismunað þar sem réttur þeirra til umgengni við foreldra sína er ekki lögbundinn nema um kynforeldri sé að ræða. Orðanotkun laganna er jafnframt nokkuð úr takti við lagaþróun undanfarinna ára, t.d. með tilliti til lagabreytinga sem miða að því að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu samkynhneigðra í samfélaginu. Lögð er til breyting á þessu þannig að barn hafi sama rétt til umgengni við foreldri sitt hvort sem um er að ræða kynforeldri eða ekki.

Frú forseti. Nefndin ræddi umgengni barns við aðra aðstandendur sína en foreldra þegar barn er í fóstri eða vistað á heimili eða stofnun. Þá er ávallt kveðið á um rétt barns til umgengni við kynforeldra sem og aðra sem því eru nákomnir. Nefndin telur hér um mikilvægan rétt að ræða enda á barn oft stóran hóp aðstandenda sem standa því nærri og bera hag þess fyrir brjósti. Mikilvægt er í barnaverndarmálum að tengsl barns við ættingja sína og aðra nákomna séu virt og því séu tryggðar leiðir til að halda þeim tengslum. Þegar vista þarf barn utan heimilis telur nefndin einnig mikilvægt að horft sé fyrst til þeirra sem eru barni nákomnir enda sé það minnst röskun fyrir barnið að fara til fólks sem það þekkir og treystir. Leggur nefndin því til breytingu þess efnis að heimili sem barnið er tengt tilfinningalegum tengslum skuli ganga fyrir við val á vistunaraðila séu skilyrði laganna uppfyllt að öðru leyti og það talið barni fyrir bestu að vistast þar.

Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að óeðlilegt væri að þegar foreldri sem ekki hefði forsjá væri falin umsjá barns giltu um það sömu reglur og um tímabundið fóstur. Því fylgdi skylda til að greiða foreldrinu greiðslur vegna fósturs, sbr. 75. gr. laganna, sem væri óeðlilegt og vart samræmanlegt grundvallarreglu um framfærsluskyldu foreldra. Nefndin áréttar að foreldri er framfærsluskylt og í aðstæðum sem þessum er eðlilegt að hitt foreldrið greiði meðlag með barni sínu til þess sem tekur við umsjá eða forsjá þess. Mikilvægt er þó að meta aðstæður faglega, greina þá aðstoð sem viðkomandi foreldri þarf til að geta sinnt umsjár- og forsjárskyldum sínum og aðstoða viðkomandi í samræmi við þarfir hans. Slík aðstoð getur falið í sér greiðslur en auk þess getur þurft að koma til annars konar aðstoðar vegna aðstæðna foreldris og/eða barns. Nefndin leggur til breytingu þannig að það verði háð mati hverju sinni hvort fósturgreiðslur eigi að koma til í þessum tilfellum.

Nefndin ræddi sérstaklega ástæður þess að meta þyrfti hæfi foreldris sem tekur við umsjá barns þegar um sameiginlega forsjá er að ræða. Telur nefndin mikilvægt að svo sérstakar lagareglur séu rökstuddar ítarlega enda er það algengt þegar um sameiginlega forsjá er að ræða að barn búi í reynd hjá báðum foreldrum og að þeir taki báðir að fullu þátt í raunverulegri umsjá og uppeldi barnsins. Það er þó ekki alltaf svo. Foreldrar eru misvel í stakk búnir að taka við umsjá barna sinna og þá sérstaklega þar sem horfa þarf til þeirra vandasömu aðstæðna sem barnið hefur undantekningarlaust búið við þegar kemur að ráðstöfun utan heimilis. Tryggja þarf að foreldrið geti veitt barninu nauðsynlegan stuðning áður en það tekur við umsjá þess. Nefndin bendir á að þar sem forsjá hefur verið sameiginleg, foreldrar hafa farið sameiginlega með uppeldi og umönnun barns, er vandasamt að sjá að mat á hæfi foreldris þurfi að fara fram. Við slíkar aðstæður hlýtur að teljast eðlilegt og barninu fyrir bestu að umsjá þess færist hreinlega frá öðru foreldri til hins. Barnaverndarnefnd yrði hugsanlega ekki kunnugt um þessar aðstæður fyrr en kæmi að því að meta hæfi foreldris. Þar sem aftur á móti leikur vafi á hæfi foreldris til að annast barnið og tryggja því þann stuðning sem það þarf er mikilvægt að meta hæfi foreldris. Nefndin telur ákvæðinu því ætlað að tryggja vernd barna enda liggja að baki málefnalegar ástæður og ítarlegur rökstuðningur af hálfu barnaverndarnefndar.

Þá gerir nefndin athugasemdir við að ekki séu skýrar reglur til um umsjá og bendir á að hugtakið er hvergi skilgreint í lögum. Var nefndinni kynnt að í framkvæmd væri talað um að það foreldri sem barn er með skráð lögheimili hjá fari með umsjá þess. Umsjárhugtakið virðist því byggja á gildandi lagareglum um forsjá sem finna má í barnalögum. Nefndin telur mikilvægt að endurskoðuð verði ákvæði barnalaga er lúta að sameiginlegri forsjá barna og þar m.a. kveðið á um hvað felist í umsjá. Allsherjarnefnd hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, þar sem lagðar eru til breytingar á ákvæðum er varða forsjá og umgengni (þskj. 1374, 778. mál). Leggur nefndin áherslu á að allsherjarnefnd hugi sérstaklega að þessu atriði.

Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um það að val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis sé ekki kæranlegt til kærunefndar barnaverndarmála. Við nefndina voru bornar upp áhyggjur af því að verið væri að takmarka kæruleiðir. Nefndin áréttar að það er almenn regla stjórnsýsluréttar að ákvarðanir séu kæranlegar og sterk rök þarf til að takmarka kæranleika stjórnsýsluákvarðana. Nefndin telur slík rök þó vera til staðar. Val á því hver annast barnið byggist á faglegu mati á þörf barnsins, stuðningi við það, markmiðum vistunar og fleiru en ráðstöfunin sætir auk þess reglulegri endurskoðun. Þá er ljóst að faglegt mat hefur farið fram á þeim sem óska eftir að fá að annast barnið enda þurfa þeir leyfi til vistunar. Ágreiningur um vistun getur því einungis komið upp þegar velja þarf úr fleiri en einum aðila sem hafa tilskilin leyfi og eru því allir hæfir til að taka barn í fóstur.

Barn sem vistað er utan heimilis gengur oft í gegnum mjög erfiðan tíma í lífi sínu og þegar ákvörðun hefur verið tekin um hver skuli fara með vistun þess er mikilvægt að skapa barninu öruggt umhverfi og festu á heimili þar sem það getur búið sér skjól hjá þeim aðila sem sér um vistun þess. Meginregla stjórnsýsluréttar er að kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar, væri ákvörðunin kæranleg yrði barni því komið fyrir hjá völdum vistunaraðila en ætti jafnframt á hættu að vera tekið af honum yrði niðurstaða kærunefndar kæranda hliðholl. Slíkt umrót getur haft mjög slæm áhrif á barn á erfiðum tíma. Mikilvægt er jafnframt að hafa í huga að það eru réttindi barnsins sem skipta mestu máli. Réttarstaða þess sem kærir ákvörðunina yrði betur tryggð ef unnt væri að kæra hana en nefndin telur þurfa að setja hagsmuni barnsins ofar í þessu máli.

Frú forseti. Í frumvarpinu er kveðið á um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að ríkið taki yfir ábyrgð á að byggja upp heimili og stofnanir sem sjá um neyðarvistun barna en það verkefni var áður hjá sveitarfélögum. Ekki hafa verið til staðar fullnægjandi neyðarvistunarúrræði um land allt og ekki er grundvöllur fyrir því að byggja upp víða um landið heimili sem sinnt geta börnum sem þurfa á slíkri vistun að halda. Tilvik þar sem slíkrar vistunar er þörf eru sem betur fer fátíð en krefjast mikillar sérfræðiþekkingar og faglegrar sérhæfingar. Fyrir nefndinni voru bornar upp áhyggjur af því að breytingin fæli í sér aukinn kostnað fyrir smærri sveitarfélög sem nú þegar búa mörg hver við bága fjárhagsstöðu. Nefndin bendir á að sveitarfélög bera samkvæmt gildandi lögum ábyrgð á að neyðarvistunarúrræði séu til staðar og þar með á þeim kostnaði sem verður til vegna slíks úrræðis. Hafi sveitarfélag ekki haft til staðar lögbundið úrræði fyrir breytinguna er ljóst að hún mun fela í sér kostnaðaraukningu fyrir sveitarfélagið. Mikilvægt er að hafa í huga að markmið þessarar breytingar er að tryggja að öll börn sitji við sama borð óháð búsetu og geti ef nauðsyn krefur fengið neyðarvistun þar sem þeim er tryggð sú faglega þjónusta og meðferð sem þau þarfnast. Telur nefndin hér um mikilvægar breytingar að ræða en ljóst er að þegar er eftir nokkur vinna til að unnt verði að vinna í samræmi við breytta verkaskiptingu. Ná þarf samkomulagi við breytta verkaskiptingu, gera samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga vegna fasteigna, starfsfólks o.fl. Hnýta þarf lausa enda, byggja upp úrræði og tryggja nægt fjármagn til uppbyggingar úrræða. Leggur nefndin því til að gildistaka þessa þáttar frumvarpsins verði 1. janúar 2013 en brýnir jafnframt fyrir ríki og sveitarfélögum að nýta þann tíma til að ljúka málinu svo tryggt verði að til séu nauðsynleg úrræði til handa börnum er þurfa á neyðarvistun að halda.

Í frumvarpinu er lagt til nýtt fyrirkomulag á mati og eftirliti með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis. Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli, XV. kafli A, sem kveði á um markmið mats og eftirlit, svo og hlutverk barnaverndarnefnda, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis við mat og eftirlit. Nefndin telur jákvætt að ítarlegar og skýrar sé kveðið á um þessi atriði í lögunum. Þó telur nefndin mikilvægt að skoðaðir verði möguleikar á því að koma á fót óháðri eftirlitsstofnun enda brýnt að eftirlit sé sterkt, virkt og skilvirkt.

Frú forseti. Ég hef stiklað á stóru yfir helstu atriði í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um breytingu á barnaverndarlögum. Auk þeirra atriða sem hér hefur verið farið yfir er að finna í álitinu umfjöllun um þungaðar konur og vernd ófæddra barna, meðferð barnaverndarmála fyrir dómi, tilsjónarmann barns, vistun barna á meðferðarheimilum, trúnaðarskyldu, fagteymi sem rannsakar voveiflegan dauða barns og heimildir Barnaverndarstofu til að fylgjast með búsetu kynferðisbrotamanna. Ekki vinnst tími til að fjalla um þau atriði en bent er á umfjöllun í nefndaráliti.

Álitið er yfirgripsmikið og ætlað að lýsa þeirri miklu vinnu sem fram hefur farið í nefndinni um málið. Ég þakka nefndarmönnum í félags- og tryggingamálanefnd fyrir mjög góða vinnu og samvinnu. Nefndarmenn fóru mjög ítarlega í gegnum umsagnir og lögðu á sig mikla vinnu til þess að við gætum tryggt að endurskoðun barnaverndarlaga væri sem best og okkur yfirsæist ekki mikilvægir þættir varðandi vernd barna. Ég þakka sérstaklega fyrir það og jafnframt þakka ég nefndarritara fyrir þetta glæsilega nefndarálit.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lýst er í álitinu og lagðar eru til á þskj. 1426. Undir álitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Íris Róbertsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.



[15:42]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kom að þessu máli og vinnu nefndarinnar rétt undir blálokin og málið var meira og minna unnið undir styrkri stjórn hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í fjarveru minni. Ræða hennar var mjög yfirgripsmikil, nefndarálitið sem liggur fyrir er ítarlegt þannig að ég vil bara fá að segja örfá orð. Ég vil í fyrsta lagi benda á hversu vel unnið frumvarpið er í heild sinni. Það væri vissulega óskandi að öll frumvörp sem berast á borð til okkar væru jafnvandlega unnin og þetta.

Eins og við öll vitum er þetta gríðarlega flókinn, vandmeðfarinn og viðkvæmur málaflokkur sem stingur beint í hjartastað allra þeirra sem að honum koma. Grunnprinsippið er og á að vera aðeins eitt gegnumgangandi í öllum ákvörðunum og allri tilhögun, það er hagur og hagsmunir barnsins. Þá er auðvitað mikilvægt að sett séu góð og vönduð lög og skýr lög, skýr ákvæði. Að því miðar frumvarpið meðal annars, að skýra og skerpa ákvæði og lögfesta þá túlkun ákvæða sem hefur fest sig í sessi. Skýrleiki skiptir máli í að eyða óvissu og leiðir til skilvirkara barnaverndarstarfs.

Í frumvarpinu eru allnokkur nýmæli eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður kom inn á. Sum þeirra eru stór, svo sem breytt verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga, önnur eru minni í sniðum og þó mjög mikilvæg. Ég ætla ekki að þylja þau upp eða endurtaka þessa yfirgripsmiklu ræðu en vil benda á nefndarálitið sem liggur fyrir og ber hinni ítarlegu vinnu nefndarinnar vitni. Breytingartillögur við frumvarpið sem komu inn síðasta haust eru í raun mjög fáar, nefndin leggur til fáar breytingar, en hún velti hins vegar mjög vandlega í allri vinnu sinni upp möguleikum á ýmsum breytingartillögum og tók umsagnir og tillögur að breytingum á frumvarpinu mjög alvarlega. Hún komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að rétt væri að gera frekar fáar breytingartillögur við frumvarpið en þó nokkrar.

Ég vil fagna þessu frumvarpi og veit og treysti því að það fái góða afgreiðslu í þinginu og þakka fyrir mjög góða samvinnu í félags- og tryggingamálanefnd, í nefndinni almennt er framúrskarandi samvinna, bæði í þessu máli og öðrum. Svo ætla ég að sjálfsögðu að þakka frábærum nefndarritara okkar og sérfræðingi, Hildi Evu Sigurðardóttur.

Nokkur mál væri auðvitað vert að ræða enn frekar. Ég vil benda sérstaklega á eitt útistandandi mál, það eru skólamál barna í tímabundnu fóstri utan lögheimilis sveitarfélags. Á því verður að taka sérstaklega annars staðar eins og framsögumaður nefndi. Ýmislegt annað kom fram í umsögnum sem nefndin beinir til velferðarráðuneytis og Barnaverndarstofu til að skoða sérstaklega í framhaldinu. Við verðum auðvitað öll að vera áfram vakandi yfir því hvernig þessi mál þróast og hver reynslan verður af lögunum. Frumvarpið er einmitt samið með hliðsjón af þeirri reynslu sem er af barnaverndarstarfi á landinu og hefur verið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra heldur vísa ég til nefndarálitsins og yfirgripsmikillar ræðu framsögumanns og þakka gott samstarf.



[15:47]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum. Eins og fram hefur komið hefur afskaplega gott starf verið í nefndinni um þetta mál. Það er mjög viðamikið og viðkvæmt og ég vona að þær breytingar sem við höfum gert á frumvarpinu séu góðar. Þjóðfélagið er að breytast töluvert mikið og ekki endilega til batnaðar, fíkn er að aukast í landinu og fíklar eru stundum ekki góðir foreldrar og það þarf að gera heilmiklar ráðstafanir til að laga stöðu barna þessa hóps.

Ég held að þetta mál helgist dálítið af þeim þjóðfélagsbreytingum sem hafa orðið og breytingum á fjölskyldunni sem slíkri. Hún hefur breyst mjög mikið, hið hefðbundna fjölskyldumynstur er varla lengur til staðar, mikið er um einstæða foreldra og einnig fósturforeldra sem taka við börnum. Það er mikið rót á fjölskyldunni og allt er það ekki gott fyrir litla fólkið á heimilinu. Því miður koma upp nokkur slæm mál sem barnaverndarlögum er ætlað að taka á.

Í 1. umr. gagnrýndi ég, og hef svo sem oft gert, að mjög sterkur huliðshjúpur er yfir barnaverndarmálum. Eðli málsins samkvæmt eru þetta mjög viðkvæm mál og ekki gott að þau vandamál sem þar koma upp séu borin á torg. Hins vegar getur huliðshjúpurinn snúist í andhverfu sína vegna þess að þá er ekki vitað af því sem misferst í umönnuninni eða í framkvæmd laganna. Við höfum svo sem kynnst því í Breiðavíkurmálinu, huliðshjúpurinn hélt því máli undir yfirborðinu mjög lengi.

Ég hef hugleitt dálítið mikið og rætt hvernig við getum lagað þetta, hvernig við getum reynt að svipta þessum huliðshjúpi af eða opnað smágat á hann þannig að menn geti séð inn og þeir sem telja sig órétti beitta geti þá snúið sér eitthvert sem þeir geta í raun ekki í dag, bæði vegna þess að vald barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu er mjög sterkt og líka huliðshjúpurinn. Þetta hef ég haft efasemdir um.

Ég vona að breytingarnar sem við höfum gert séu til bóta og býst reyndar við því. Ég vænti þess að margt sem við gerum hér lagi stöðuna, við hverfum t.d. frá hugtakinu kynforeldri yfir í foreldri. Við tölum líka um að barnið sé meira í gæslu fólks sem það er tilfinningalega tengt. Oft á barnið sterka fjölskyldu fyrir utan foreldra sína sem getur veitt stuðning þegar erfiðleikar koma upp. Ég held því að þetta sé til bóta. Ég er með á nefndarálitinu án fyrirvara, og við sjálfstæðismenn í hv. nefnd, og ég vona að þetta góða samstarf í nefndinni beri þann ávöxt að breytingarnar séu til góða.



[15:51]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á barnaverndarlögum sem voru endurskoðuð algjörlega árið 2002. Ég vil þakka félögum mínum í hv. félags- og tryggingamálanefnd fyrir frábært samstarf. Það er gott þegar hægt er að vinna að jafnmikilvægu máli og barnaverndarmál eru af slíkum einhug eins og gert var í þessu máli sem við höfum haft meira og minna til umfjöllunar frá því í haust. Varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, reifaði málið mjög vel og fór yfir öll helstu atriði þannig að ég ætla að leyfa mér að taka úr örfá atriði sem vakið hafa sérstaka athygli og fara yfir þau.

Í upphafi langar mig til að minna á hver tilgangur barnaverndarlaga er en hann er að vernda öll börn af því að þau eiga rétt á vernd og umönnun og þau eiga að njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Þetta þurfum við alltaf að hafa í huga þegar rætt er um barnavernd.

Mig langar að minnast á þau nýmæli sem koma fyrir í frumvarpinu því að þau skipta öll mjög miklu máli og hafa mörg hver ákveðna stefnubreytingu í för með sér. Í þessum nýju lögum er afmarkað hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda megi skjóta til kærunefndar. Einnig má nefna lögsögu barnaverndarnefnda í málum barna sem ekki eiga lögheimili á Íslandi, það er algjört nýmæli að þau mál séu rædd yfir höfuð. Breytingar eru gerðar á ákvæðinu um tilkynningarskyldu og fjallað er skýrar um tilkynningarskyldu vegna þungaðra kvenna. Fjallað er um samstarf barnaverndarnefnda og þeirra sem starfa með börnum sem skiptir þá aðila sem starfa með börnum dagsdaglega mjög miklu máli. Hér eru einnig ýmis nýmæli sem skýra og bæta réttarstöðu barna. Eitt atriði finnst mér skipta mjög miklu máli, það er að nú er skylda að kveðja til sérfróða meðdómsmenn þegar málefni barna koma fyrir dómstóla. Einnig er komið inn á réttarstöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá og réttarstöðu fósturforeldra og heilmikið er fjallað um kostnað vegna skólagöngu barna sem ráðstafað er tímabundið í fóstur í annað sveitarfélag. Hér má finna nýmæli um afmörkun og skiptingu kostnaðar vegna vistunar barna utan heimilis og lagðar til ýmsar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sérstaklega þegar kemur að ábyrgð og uppbyggingu úrræða fyrir börn.

Svo eru hér örfá atriði sem mig langar til ræða. Fyrst vil ég ræða að í nefndinni og í umsögnum margra aðila sem vildu gjarnan hafa eitthvað um frumvarpið að segja var mikið talað um vanrækslu og að við ættum að gera meira úr henni í frumvarpinu og skilgreina hana og gera sérstaklega mikið mál úr því. Við kynntum okkur þetta mjög vel en þegar við fórum að skoða málið betur kom í ljós að vanræksla rúmast í raun og veru mjög vel innan þeirra skilgreininga sem fyrir eru í frumvarpinu. Þar er vanræksla skilgreind sem sérstakur flokkur sem síðan skiptist nánar niður. Við teljum að ekki þurfi að breyta frumvarpinu frekar því að þetta kemur í raun og veru mjög vel fram í því. Oft á tíðum er dálítið erfitt að meta vanrækslu og það verðum við sífellt að hafa í huga þegar um barnavernd er að ræða.

Þá langar mig til að tala sérstaklega um fötluð börn og vernd þeirra. Ég verð að viðurkenna að það kom mér mjög á óvart að núna virðast ekki gilda sömu ákvæði um t.d. leyfisveitingu til heimila sem taka við fötluðum börnum og þeirra sem taka við ófötluðum börnum. Við verðum að hafa í huga að barnaverndarlög eru að sjálfsögðu til verndar öllum börnum, sama hvernig þroska þeirra er háttað og með lögunum er fötluðum börnum veitt sama lagavernd og öðrum og þau úrræði sem heyra undir lögin eru eðli málsins samkvæmt úrræði vegna barnaverndar, t.d. vegna fósturvistunar og meðferðar barns. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þetta á að sjálfsögðu við bæði fötluð og ófötluð börn. Í málum sem þessum er gripið til úrræða á grundvelli barnaverndarlaga og að sjálfsögðu eiga að gilda nákvæmlega sömu reglur um þau úrræði sem fötluðum börnum eru veitt og þeim sem eru ófötluð. Þarna þurfum við að grípa inn í.

Fötluð börn eiga að sjálfsögðu að njóta sömu verndar og önnur börn ef þau fara í sumarbúðir eða á sumardvalarheimili og ef rekin eru heimili sem falla undir 91. gr. laganna en eru sniðin að sérþörfum barns eða barns með sérstakar þarfir eða fjölþættan vanda verður að sjálfsögðu að tryggja að um starfsemina gildi ekki vægari kröfur og með henni sé haft jafnöflugt eftirlit og með öðrum heimilum sem falla undir 91. gr. Í raun og veru held ég að það hafi komið okkur öllum talsvert á óvart að raunin væri sú að eftirlitið með þessum stofnunum sem sérstaklega eru starfrækt fyrir börn með miklar sérþarfir sé minna, í raun og veru finnst manni að eftirlitið ætti að vera meira. Hvað þetta atriði varðar er ég mjög ánægð með vinnu nefndarinnar.

Mig langar að reifa tvö mál til viðbótar. Annað er skólamál barna í tímabundnu fóstri utan lögheimilissveitarfélags. Staðan hefur verið þannig að lögheimilissveitarfélag hefur greitt allan kostnað af skólavist barns, kannski burt séð frá því hvort eiginlegur kostnaðarauki hafi orðið. Í frumvarpinu eins og það lá fyrir í upphafi var gert ráð fyrir að þessu yrði breytt þannig að kostnaður af almennri skólagöngu félli á viðtökusveitarfélagið og lögheimilissveitarfélagið sæi um að greiða fyrir sértækari þjónustu. Ég held að það hafi verið ágætis ráðstöfun hjá nefndinni að vísa þessu yfir til menntamálanefndar sem hefur nú til umfjöllunar breytingar á grunnskólalögunum. Það verður að segjast að þetta mál er mjög flókið ýmissa hluta vegna, það er mjög algengt að börn séu send í fóstur í minni sveitarfélög á landsbyggðinni og það er kannski talsvert meiri breyting fyrir lítinn skóla en stóran að fá nýjan nemanda. Oftast er það þó þannig að mannauðurinn eflist og það er bara til bóta. En auðvitað verður að vera til staðar sú þekking í faghópi skólans að hann geti tekið við þessum nemanda og veitt honum þá þjónustu og menntun sem hann þarf á að halda.

Þetta er ekki að öllu leyti einfalt mál og að ýmsu að hyggja, þetta snýst ekki bara um greiðsluna heldur líka að skoða þarf vel áður en barn er vistað utan heimilis síns hvort viðkomandi skóli sé ekki örugglega tilbúinn til að taka við barninu og þar fari fram sú undirbúningsvinna sem nauðsynleg er. Því miður er það náttúrlega oft þannig að um hálfgert neyðarúrræði er að ræða og gerist oft á tíðum mjög snöggt og undirbúningur getur þess vegna ekki verið eins góður og hann þyrfti að vera. Ef undirbúningur getur ekki farið fram verður að vinna vinnuna eftir á þannig að einhvers konar viðtökuáætlun eða eitthvað í þeim dúr verður að sjálfsögðu að vera til. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga að öll börn eru mikils virði og að nýtt barn í hverju skólahverfi á að vera góð viðbót við skólaflóruna. Með réttum undirbúningi og réttri meðferð má vinna málið þannig, að mínu mati.

Síðan langar mig að lokum að taka fyrir vistun barna á meðferðarheimilum. Á undanförnum missirum hefur mikið verið rætt um málefni meðferðarheimila og mjög ljót og erfið mál komið upp á yfirborðið. Þau hafa reynst okkur öllum erfið og okkur hefur þótt skelfilegt til þess að vita að illa hafi verið farið með börn á heimilum. Svo kemur líka í ljós að ekki hefur verið gengið nógu vel frá peningalegum samningum þannig að að ýmsu er að hyggja þegar þjónustusamningar eru gerðir við heimili.

Á ákveðnu tímabili var hugmyndafræðin sú að best væri að vista börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður á heimilum, ekki endilega á fagstofnunum heldur heimilum þar sem þau gætu verið eðlilegir þátttakendur í heimilislífi. Oft á tíðum voru þessi heimili úti á landi því ekki þótti verra að börnin væru í umgengni við náttúruna og dýr. Nú er ný hugmyndafræði tekin við sem er mjög eðlileg og góð þar sem gert er ráð fyrir að best sé að þjónusta barnið heima hjá sér. Auðvitað er best fyrir öll börn að alast upp heima hjá sér og við þessa stefnubreytingu er staðan orðin þannig að meðferðarheimilin eru í raun og veru bara fyrir þau börn sem er alls ekki hægt að hjálpa heima hjá sér. Það verða kannski erfiðustu úrræðin og þess vegna eru meðferðarheimilin orðnar öflugar fagstofnanir á sínu sviði. Á mörgum sviðum hefur hugmyndafræðin þróast, sem betur fer, við sitjum ekki föst í einhverju sem við höfum ákveðið fyrir mörgum árum síðan heldur eflum við starfsemina og gætum að henni.

Ég vil samt taka sérstaklega fram að við þurfum að vera á verði og halda varðstöðu okkar gagnvart þeim úrræðum sem eru í gangi á heimilunum. Við þurfum að gæta þess að börn um allt land fái hliðstæða og jafngóða meðferð, hún fari ekki eftir því hvar öflugir fagaðilar búa sem hafa sérþekkingu á ákveðnum meðferðum eða kerfum sem eru kannski tilbúin og keypt erlendis frá. Við verðum að gæta mjög vel að því að börn fái þau úrræði sem þau þarfnast og þau séu einstaklingsmiðuð og að foreldrarnir fái þann stuðning sem þeir þurfa. Ég legg mikla áherslu á að meðferðaraðferðir séu í stöðugri endurskoðun og metnar reglulega.

Þetta voru þau helstu atriði sem mig langaði til að fara yfir. Hægt væri að ræða hér fram og til baka mörg önnur atriði en hér liggur fyrir efnismikið nefndarálit sem ég held að sem flestir ættu að kynna sér vel því að mjög margt gott kemur fram í því. Ég vona að frumvarpið verði að lögum sem allra fyrst, ég tel að í því sé margt til bóta í barnaverndarmálum á Íslandi.



[16:05]
Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kom að þessari vinnu núna í blálokin og mér fannst mjög góð tilfinning að koma inn í hv. félags- og tryggingamálanefnd og finna að þar voru allir samstiga, vönduðu sig og vildu gera vel enda er málaflokkurinn þess eðlis að ekki eiga að vera um hann pólitísk átök. Þetta er rosalega viðkvæmur málaflokkur, ekki bara að þetta snerti börn heldur eru þetta lög til að vernda börn.

Mig langar að þakka hv. varaformanni nefndarinnar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir framsögu hennar áðan og ég er stolt að hafa nafn mitt á nefndarálitinu. Ég held að við getum alltaf bætt og lagað af því að við sem vinnum með börn, ég er grunnskólakennari, erum alltaf að reka okkur á hvað við megum gera betur því að það eru allir af vilja gerðir. Mig langar aðeins að fara í tvær greinar í frumvarpinu, 9. og 10. gr.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr 9. gr. frumvarpsins.

„Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd og synjun um að aflétta nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála.“

Það hefur gilt, eins og það kemur upp í starfi mínu að við höfum öll, ekki bara þeir sem vinna í skólum, ríka lagalega skyldu til þess að tilkynna þó að það sé bara grunur. Það er annarra að rannsaka, við erum ekki rannsakendur. Það hefur oft reynst erfitt að fá fólk, sérstaklega fólk sem ekki starfar kannski beint með börnum heldur nágranna og aðra, til að tilkynna. Nú er verið að opna á það þar sem starfsfólk barnaverndarnefndar getur sagt: Við förum með þetta, þetta er bara tilkynning, það þarf enginn að vita hvaðan hún kemur.

Við erum í erfiðleikum með að fá fólk til að tilkynna í dag, ég held að við þurfum að hafa þetta í huga. Ég skil vel að foreldrar eigi þennan rétt ef þeir telja á sér brotið en við þurfum að hafa þetta í huga ef við hugsum um barnið: Verður þetta til þess að einhver sem heldur að tilkynningin sé ekki þess virði að nágranninn frétti af henni tilkynni ekki? Í þau skipti sem barnaverndarnefnd hefur komið inn á minn vinnustað til að brýna okkur í því að tilkynna er alltaf verið að láta okkur vita að margt smátt geri eitt stórt. Lítið viðvik hér, lítið viðvik þar eru púsl í heildarmyndina, við megum ekki tapa litlu tilkynningunum. Ég held að við þurfum að hugsa um þetta. Ég er ekki að segja ég sé ósátt við ákvæðið en við þurfum að hafa þetta á bak við eyrað.

Í sambandi við 10. gr. frumvarpsins, sem ég er náttúrlega mjög ánægð með sem starfsmaður í grunnskóla, þá hefur sá sem tilkynnir rétt á að vita að verið sé að vinna í málinu. Það var nefnilega þannig að barnaverndaryfirvöld tóku við tilkynningum ef eitthvað alvarlegt kom upp. Ef ég tilkynnti barn til barnaverndarnefndar höfðu barnaverndaryfirvöld í rauninni ekki einu sinni þau úrræði að segja að það væri verið að vinna í málinu. Ég tilkynnti kannski sama barnið tvisvar, þrisvar en það mátti enginn segja mér að það væri verið að vinna í málinu.

Núna hafa barnaverndaryfirvöld leyfi til að segja: Málið er komið í farveg, það er verið að vinna í því eftir eðlilegum leiðum. Ég hef þá a.m.k. ekki á tilfinningunni að ég sé bara að gala inn í tóma tunnu. Það var alltaf sagt: Takk fyrir tilkynninguna. En núna fær maður þó betri tilfinningu fyrir þessu. Þú horfðir upp á barn sem leið illa, þú tilkynntir kannski hvað eftir annað en fékkst aldrei að vita hvort eitthvað væri að gerast í máli barnsins af því að þetta væri trúnaðarmál. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það þarf að vera. En það að fá þá vitneskju að einhver hafi leyfi til að segja: Já, við erum að vinna í máli barnsins, það er komið í farveg, finnst mér vera stórkostleg bót og ég er mjög ánægð með að það hafi komið inn í lagafrumvarpið. Ég veit að svo er um starfsfólk barnaverndarnefnda líka, ég sá það í umsögnum sem við fengum að starfsfólk er mjög ánægt að geta sagt: Við erum að vinna í þessu, þetta er komið í farveg, takk fyrir. Bara þetta litla veitir manni nesti í baráttunni. Markmið okkar með barnaverndarlögum er að verja börn og rétt þeirra af því að þau þurfa svo sannarlega á okkur að halda.

Ég er ofsalega ánægð og glöð að hafa fengið að taka þátt í vinnunni við þetta lagafrumvarp og hef lokið máli mínu.