139. löggjafarþing — 147. fundur.
skeldýrarækt, 2. umræða.
stjfrv., 201. mál (heildarlög). — Þskj. 218, nál. 1597, brtt. 1598.

[18:01]
Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um stjórnarfrumvarp til laga um skeldýrarækt.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund nokkurn fjölda gesta ásamt því sem rúmlega 20 umsagnir bárust um málið. Því til viðbótar óskaði nefndin álits umhverfisnefndar Alþingis auk þess sem henni bárust önnur erindi og gögn frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og hagsmunaaðilum.

Vinna nefndarinnar við frumvarpið hefur verið viðamikil enda gerðu umsagnaraðilar og álitsgjafar á köflum miklar athugasemdir við frumvarpið. Að 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar stend ég sem hér stend ásamt hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, Helga Hjörvar og Birni Vali Gíslasyni. Leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í þingskjali 1598. Vísast til þessa þingskjals til nánari skýringar á breytingartillögunum.

Atli Gíslason og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Fyrsti minni hluti tók nokkur sjónarmið og athugasemdir til sérstakrar skoðunar við meðferð málsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. 1. minni hluti ræddi markmið frumvarpsins í ljósi þess að nokkrir umsagnaraðilar töldu ekki tekið nægjanlega tillit til umhverfislegra þátta við markmiðssetningu.

1. minni hluti hefur fullan skilning á því að frumvarpi um skeldýrarækt sé ætlað að móta þann ramma sem nauðsynlegur er svo að skeldýrarækt fái dafnað á samkeppnishæfan máta. Þó telur 1. minni hluti að vart sé hægt að líta á skeldýrarækt sem starfsemi í rekstrarlegu tómarúmi þegar kemur að setningu reglna. Álit 1. minni hluta er að rétt sé að miða við að aðalmarkmið laga um skeldýrarækt skuli áfram verða þau sem frumvarpið útfærir en rétt sé að bæta við aukamarkmiðum. Í því ljósi leggur 1. minni hluti einnig til að gerðar verði nokkrar breytingar á einstökum ákvæðum frumvarpsins hvað varðar umsagnaraðila við undirbúning ákvarðana.

Gildissviðsafmörkun 2. gr. frumvarpsins virtist valda nokkurri óvissu meðal umsagnaraðila. Að mati 1. minni hluta er eðlilegt að bregðast við óvissu um það hvort skeldýraræktarlögum sé ætlað að taka til ræktar skeldýra í sjó eða ferskvatni. Er það gert með tillögu til breytingar sem stefnir að því að gildissvið frumvarpsins verði afmarkað við ræktun skeldýra í söltu vatni.

Þá virtust umsagnaraðilar eiga erfitt með að gera sér grein fyrir hvort frumvarpið næði til eldis. Eftir nokkra umræðu varð niðurstaða 1. minni hluta að hugtakið ræktun feli í sér umhirðu og vöktun án fóðrunar auk skipulegrar söfnunar og veiða á meðan eldi feli aðeins í sér umhirðu auk fóðrunar. Taldi 1. minni hluti skylt að frumvarpinu væri einungis ætlað að gilda um umhirðu og skipulega söfnun eða veiði skeldýra sem ekki felur í sér fóðrun. Nokkrar skilgreiningar 3. gr. frumvarpsins virtust vekja upp spurningar meðal umsagnaraðila. Af þeim sökum tók nefndin til sérstakrar skoðunar hvort hugtakaskilgreiningar á hugtökunum eignarland, mannvirki, netlög og ræktunarsvæði sköpuðu óvissu eða orsökuðu réttarspjöll. Í stuttu máli var niðurstaða 1. minni hluta sú að ekki væri þörf á því að breyta nema einni framangreindri skilgreiningu, þ.e. að hluti skilgreiningarinnar á ræktunarsvæði yrði felld brott.

Umsagnaraðilar gerðu nokkrar athugasemdir við eftirlitsþátt frumvarpsins. Þannig virtust sumir þeirra telja hættu á að eftirlitsvald Matvælastofnunar samkvæmt frumvarpinu skaraðist við eftirlit annarra stjórnvalda. Eftir nokkrar umræður í nefndinni var það niðurstaða 1. minni hluta að ekki ríkti mikill vafi um inntak eftirlitsheimildar Matvælastofnunar, eftirliti Matvælastofnunar væri aðeins ætlað að ná til starfsemi skeldýraræktarstöðva en ekki eftirlits með mengunarvörnum. Þó taldi 1. minni hluti rétt að gera breytingar á frumvarpinu í þeim tilgangi að hnykkja á eftirlitshlutverki Landhelgisgæslu Íslands.

Nefndin ræddi talsvert um þann skilning sumra umsagnaraðila að ráðherra væri með frumvarpinu fengið vald sem að einhverju leyti kynni að skarast á við skipulagsvald sveitarfélaga. Eftir viðamiklar umræður um þennan þátt málsins var það mat nefndarinnar að orðið skipulag í 5. gr. frumvarpsins ylli misskilningi. Af þeim sökum gerir nefndin þá tillögu að í stað þess orðs komi orðið fyrirkomulag. Telur 1. minni hluti að með því móti sé komið í veg fyrir misskilning ásamt því sem undirstrikað sé að vald ráðherra samkvæmt frumvarpsgreininni til að ákveða skipulag skeldýraræktar nái ekki til þess að taka ákvarðanir sem varðað geta landnot, byggð og mannvirki samkvæmt skipulagslögum.

Margir umsagnaraðilar töldu nauðsynlegt að fjölga umsagnaraðilum um ýmsa þætti er varða undirbúning ákvarðanatöku samkvæmt frumvarpinu. Að mati 1. minni hluta verður ekki hjá því komist að undirbúningur ákvarðanatöku samkvæmt frumvarpinu verði vandaður og að sem flestir þættir verði upplýstir áður en ákvarðanir eru teknar. Í ljósi þess að margar greinar frumvarpsins útfæra málsmeðferð sem miðar að því að vernda almannahag telur 1. minni hluti ekki hjá því komist að bregðast við athugasemdum með því að fjölga umsagnaraðilum. Engu að síður er 1. minni hluti meðvitaður um að ekki megi íþyngja skeldýrarækt um of. Því hefur 1. minni hluti reynt að takmarka fjölda umsagnaraðila eins og hann telur sér fært.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að umsagnarfrestir umsagnaraðila samkvæmt frumvarpinu væru of stuttir. Aðrir umsagnaraðilar lögðust gegn lengingu umsagnarfresta. 1. minni hluti lagði mat á þörf þess að takmarka tíma til veitingar umsagna. Þá leit 1. minni hluti til þess að ótakmarkaður tími til veitingar umsagna kann að valda spjöllum við undirbúning skelræktar. Af þeim sökum leggur 1. minni hluti til breytingu á þeim ákvæðum frumvarpsins sem kveða á um lengd umsagnarfresta þannig að hámarksskilafrestur umsagna verði fjórar vikur í stað tveggja. Með því móti telur 1. minni hluti sig hafa komið til móts við öll sjónarmið.

Umhverfisstofnun bendir á að umfangsmeiri tilraunaverkefni á sviði skelræktar verði að hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þrátt fyrir tilraunaleyfi samkvæmt 7. gr. í frumvarpinu. 1. minni hluti tekur undir skoðun Umhverfisstofnunar og telur frumvarpinu ekki ætlað að sniðganga starfsleyfisþörf samkvæmt mengunarvarnalöggjöf. Í nafni skýrleika leggur 1. minni hluti þó til smávægilegar breytingar á 7. gr. frumvarpsins í ljósi þess að framkvæmd Umhverfisstofnunar virðist hafa verið misvísandi hingað til.

Nefndin ræddi hvort lengja bæri gildistíma leyfa samkvæmt frumvarpinu. Skeldýrarækt er ung og upprennandi starfsgrein. Því leggur 1. minni hluti til að gerðar verði breytingar á 7. og 9. gr. frumvarpsins þannig að gildistími tilraunaleyfa verði þrjú ár, framlengjanlegt að hámarki til sex ára en gildistími ræktunarleyfa verði tíu ár. Telur 1. minni hluti slíkt nauðsynlegt í því skyni að gefa ræktendum aukið svigrúm til tilrauna og til að takast á við vaxandi rekstur.

Nokkrir umsagnaraðilar bentu á að hugtakið heilnæmiskönnun samkvæmt 8. gr. frumvarpsins væri ekki skilgreint nægilega í frumvarpinu. Nefndin ræddi hugtakið og kallaði eftir útskýringum sérfræðinga á því. Niðurstaða 1. minni hluta er að leggja til að gerðar verði breytingar á 17. gr. frumvarpsins þannig að ráðherra verði heimilað setja ákvæði um framkvæmd og umfang heilnæmiskönnunar í reglugerð. 1. minni hluti fellst á athugasemd Matís ohf. um að nauðsynlegt sé að áætlun um vöktun á ræktunarsvæðum liggi fyrir áður en ræktunarleyfi verður veitt til skelræktenda.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við gjaldtökuheimildir frumvarpsins. 1. minni hluti telur að ákvæði frumvarpsins uppfylli þau skilyrði sem almennt hafa verið talin gilda um töku þjónustugjalda af hálfu stjórnvalda. Þá er það álit 1. minni hluta að teknu tilliti til krafna réttarríkisins um fyrirsjáanleika að æskilegt sé að ráðherra nýti heimild sína til setningar gjaldskrár hið fyrsta eftir gildistöku laga um skeldýrarækt. Þá telur 1. minni hluti að þrátt fyrir að ráðherra verði samkvæmt frumvarpinu heimilað að taka tillit til framleiðslu fyrirtækja við ákvörðun um tilhögun reglugerða og gjaldskráa muni það honum aðeins heimilt að tryggt sé að önnur fyrirtæki verði ekki látin bera þann kostnað sem af slíku tilliti gæti hlotist.

Í umsögn tveggja umsagnaraðila kemur fram sú skoðun að framsalsbann 16. gr. frumvarpsins sé óheppilegt þar sem það takmarki fjármagn til skeldýraræktar og komi í veg fyrir að eðlilegur arður renni til frumherja við framsal leyfa til nýrra rekstraraðila. Framsalsbann það sem frumvarpsgreinin kveður á um var rætt sérstaklega á fundi nefndarinnar. Á það var m.a. bent að að baki frumvarpsgreinarinnar byggi sú hugsun að þar sem verulegir hagsmunir væru fólgnir í því að tryggt væri að þekking og reynsla yrði til staðar í greininni væri óeðlilegt að leyfin yrðu opin fyrir tíðu framsali. Þá væri eðlilegt í þeim tilfellum þegar skeldýraræktarfyrirtæki yrði gjaldþrota að komið væri í veg fyrir að skeldýraræktarleyfi yrðu verðmæti sem skiptastjórum bæri að selja hæstbjóðendum án tillits til þekkingar þeirra eða tilgangs. Þar sem eðli skelfisks væri að hann gæti verið hættuleg vara vegna eitrunar væri ríkisvaldinu sérstaklega mikilvægt að tryggja að leyfishafar uppfylltu þær kröfur sem gera verður til þeirra. Að auki kom fram að ætlun frumvarpshöfunda væri að skeldýraræktarleyfi yrðu gefin út á kennitölur leyfishafa og ekkert kæmi því í raun og veru fyrir sölu á hlutum í lögaðila, hann væri handhafi slíks leyfis. Taldi 1. minni hluti því að framsalsbann 16. gr. frumvarpsins eðlilegt og hagkvæmt fyrirkomulag.

Á fundum nefndarinnar kom það sjónarmið fram að mögulega fæli frumvarpið í heild í sér nokkuð íþyngjandi kvaðir á skeldýraræktendur. Nefndin ræddi þetta á fundum sínum og höfðu nefndarmenn allir skilning á þeim áhyggjum sem endurspeglast í framangreindum sjónarmiðum. Engu að síður er það álit 1. minni hluta að í ljósi þeirra hagsmuna sem mörgum reglum frumvarpsins er ætlað að vernda sé ekki fært að leggja til frekari breytingar til einföldunar á undirbúningi ákvarðanatöku samkvæmt frumvarpinu. Engu að síður beinir 1. minni hluti því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að sérstakt og virkt eftirlit verði haft með því að lög um skeldýrarækt nái þeim markmiðum að skapa skilyrði til ræktunar skeldýra og efla atvinnulíf í landinu. Það er álit 1. minni hluta að rétt sé að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram nýtt frumvarp til laga um skeldýrarækt innan þriggja ára frá samþykkt skeldýraræktarlaga nái lögin ekki þeim framangreindu markmiðum.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Nefndin fékk mál þetta til umfjöllunar áður en sú sem hér stendur varð formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Má því segja að ég hafi komið að málinu hálfunnu og vil ég þakka öðrum hv. nefndarmönnum og þó sérstaklega hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þá vinnu sem hann lagði í málið í formennskutíð sinni. Rétt er að halda því til haga að almennt hafa hv. nefndarmenn verið sérstaklega áhugasamir um málefni skeldýraræktar og þeim verið annt um að skeldýrarækt fái þá athygli og aðstoð sem hún þarfnast svo að hún megi vaxa og dafna.

Ábendingar hafa komið frá Félagi skeldýraræktenda eftir að málið fór út úr nefndinni til 2. umr. Tel ég rétt að taka þær til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og vísa því málinu aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.



[18:18]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Skeldýrarækt hefur átt sér nokkra sögu hér á landi. Það verður að segjast eins og er að sú saga hefur ekki alltaf verið mjög glæsileg í þeim skilningi að árangurinn hafi verið nægilega mikill. Það eru nokkur ár frá því þessi mál voru rædd talsvert hér á þinginu og áhugi ýmissa þingmanna kom þá berlega í ljós. Ég vil nefna sérstaklega þáverandi hv. þm. Karl V. Matthíasson sem beitti sér mjög í þessu máli og á miklar þakkir skildar fyrir það.

Sums staðar hefur ríkt nokkur vantrú á að skeldýrarækt eigi yfir höfuð nokkurn rétt á sér hér á landi, hvort náttúrulegar aðstæður séu þannig að það gangi upp og hvort flutningskostnaður á afurðum til Evrópu sé það hár að ekki sé hægt að skapa fjárhagslega sjálfstæða atvinnugrein.

Nú á Alþingi ekki að taka ákvörðun um það hvort fyrirtæki hefji starfsemi sína á þessum grundvelli. Það eru auðvitað þeir sem vilja festa fé sitt í atvinnustarfseminni sem taka um það ákvörðun hvort hún eigi að hefjast og halda áfram. Það er einfaldlega á ábyrgð þeirra sem eiga fyrirtækin og leggja í þau fjármagn. Á sínum tíma, þegar ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað ég að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir málefni skelræktarinnar, sérstaklega með kræklingaræktina í huga, meðal annars til að reyna að fá yfirsýn yfir möguleika greinarinnar, hvort skynsamlegt væri að ríkisstjórnin kæmi að því og hvort skynsamlegt væri að setja almennan ramma utan um starfsemina.

Niðurstaða nefndarinnar var afdráttarlaus. Niðurstaðan var sú að tvímælalaust væru tækifæri í skelræktinni og afskipti ríkisvaldsins af slíkum atvinnurekstri ættu að vera mjög lítil. Það ætti að setja almennan ramma og sjá til þess að ákveðin vöktunarþjónusta, sem væri þá hluti af stuðningskerfi atvinnugreinarinnar, væri til staðar. Enn fremur var þess farið á leit að hið opinbera hefði einhvern atbeina að því að fara yfir flutningsmöguleika á afurðum til útlanda. Annað var það í meginatriðum ekki og ég hygg að það hafi verið sameiginleg niðurstaða allra þeirra sem skoðuðu þetta, en það voru bæði fræðimenn, menn úr atvinnugreininni og síðan fólk sem hafði sérþekkingu á rekstri.

Ég nefndi það áðan að á ýmsu hefði gengið í skelræktinni í gegnum tíðina. Tjón hefur orðið sem meðal annars má rekja til vanþekkingar en það verður að teljast eðlilegt þegar verið er að byggja upp nýja atvinnugrein. Við vitum hins vegar að ræktun á bláskel eða kræklingi er víða blómleg, til dæmis í ýmsum afskekktari héruðum Kanada. Slík ræktun á sér líka stað í Evrópu. Vandinn sem steðjar að í ýmsum þessum löndum er tvenns konar, annars vegar glíman við mengun, utanaðkomandi mengun, sem að langmestu leyti kemur af landi, og hins vegar eru svæði víða orðin svo ásetin að ekki eru miklir möguleikar á að auka umsvifin af þeim sökum.

Af þessum ástæðum er tvímælalaust tilefni fyrir þá sem hafa áhuga á þessu að reyna að minnsta kosti að freista þess að athuga hvort möguleikar séu til staðar í því að efla kræklingarækt. Við sjáum það bara á síðustu árum, örfáum árum, að heilmikil vakning hefur orðið í þessum efnum. Mjög víða um landið eru að spretta upp fyrirtæki sem drifin eru áfram af atorku og fjármagni einstaklinga sem eru að setja upp kræklingarækt í fjörðum við landið.

Það er margt sem hefur háð þessari grein. Í fyrsta lagi hefur komið í ljós að það lagaumhverfi sem hún hefur orðið að búa við byggist á lögum um fiskeldi og við vitum að fiskeldi og ræktun er sitt hvað. Í annan stað hefur ríkt gróin vantrú fjármálastofnana á möguleika þessarar greinar og því hefur reynst mjög erfitt víða að fá fjármagn til starfseminnar. Þeir sem hafa staðið í þessu hafa að langmestu leyti orðið að leggja fram eigið fé eða útvega önnur veð en þau sem eru í þessum atvinnurekstri, og það er ekki gott að svo þurfi að vera. Það skiptir sannarlega miklu máli að menn hætti sínu fé í þetta að svo miklu leyti sem þeir geta en það hlýtur líka að vera hluti af atvinnuuppbyggingu að hafa aðgang að lánsfjármögnun.

Með frumvarpinu er verið að reyna að setja utan um þessa sérstöku starfsemi. Þetta er sérhæfð starfsemi og einstök að því leytinu að hún sker sig mjög úr annarri atvinnustarfsemi, sérstaklega fiskeldi, sem menn hafa þó haft tilhneigingu til að rugla svolítið saman við það sem hér er á ferðinni. Eldið byggist á fóðrun og er þess vegna inngrip í náttúruna en ræktunin byggir ekki á slíku. Menn henda út spottum og síðan stendur allt og fellur með því hvort nægilega áseta sé á línurnar og því er þetta í eðli sínu ekki mengandi atvinnustarfsemi. Vandinn sem snýr að mengun er hins vegar sá að það getur komið upp utanaðkomandi mengun sem kann að skaða þessa ræktun en mengun frá ræktuninni sjálfri mælist ekki. Það er því mjög mikilvægt að við reynum að setja sérstaka löggjöf um ræktina. Það var skoðað á sínum tíma hvort skynsamlegt væri að hafa þetta sem hluta af annarri löggjöf en niðurstaða þeirra sem fóru yfir málið var sú að skynsamlegra væri að setja um þetta sérstök lög og það er það sem verið er að gera með frumvarpinu.

Ég nefndi áðan að víða hefði verið erfitt með fjármögnun og það hefur staðið þessari atvinnugrein talsvert mikið fyrir þrifum. Við þekkjum það að menn hafa svona almennt talað fyrirvara á sér þegar verið er að tala um atvinnugrein sem engin reynsla er af og það er kannski ekkert óeðlileg afstaða hjá þeim sem eiga að lána peningana sína. En þá er það hlutverk okkar meðal annars að reyna að búa þannig um hnútana að lagaumhverfið leiði fremur til þess að auðvelda fjármögnunina en ekki.

Þá vil ég koma að athugasemd sem ég vil gera við þetta frumvarp sem ég að öðru leyti styð, og það er ákvæði 16. gr., undir Ýmis ákvæði, sem lýtur að framsalinu. Í þeirri grein segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Framsal, leiga og veðsetning á tilraunaleyfi og ræktunarleyfi til skeldýraræktar samkvæmt lögum þessum er óheimil.“

Þetta er að mínu mati afar óskynsamlegt ákvæði og hefur engan tilgang. Þetta mun hins vegar hafa í för með sér að fjármögnun verður erfiðari og á það benda meðal annars Landssamtök fiskeldisstöðva og Samtök fiskvinnslustöðva. Í nefndaráliti 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kemur einmitt fram þetta álit, með leyfi virðulegs forseta:

„Í umsögn Landssamtaka fiskeldisstöðva og Samtaka fiskvinnslustöðva kemur fram sú skoðun að ákvæði 16. gr. frumvarpsins sé óheppilegt þar sem það takmarki fjármagn til skeldýraræktar og komi í veg fyrir að eðlilegur arður renni til frumherja við framsal leyfa til nýrra rekstraraðila.“

Þetta er kjarni málsins og þess vegna er það til óþurftar þessari löggjöf og til óþurftar fyrir atvinnugreinina að kveða á um þetta með þeim hætti sem gert er í 16. gr. Ég tel þess vegna að það væri mjög brýnt að við meðferð málsins verði þessi grein felld út.

Það er auðvitað þannig að menn hætta fé, eigin fé, eins og ég var að segja hér áðan. Við það skapast ákveðinn frumherjaréttur. Hluti af því verðmæti sem býr í þessum störfum felst einmitt í ræktunarleyfinu sjálfu þegar það er á annað borð fengið. Verðmætið felst ekki í kaðalspottanum sem menn dýfa í sjóinn. Það kann að felast að einhverju leyti í lausafjármunum sem eru nauðsynlegir við vinnsluna, það kann að felast í bátum ef fyrirtækið á báta á annað borð, en með þessu er verið að taka burtu ákveðna fjármunamyndun sem hefur átt sér stað í greininni með þeim hætti að frumherjarnir hafa komið fram með fjármagn til að búa til verðmæti úr því sem ekki er verðmæti í dag. Þess vegna er þetta vont ákvæði og mun bara hafa í för með sér að fjármögnunin verður erfiðari og er þó ekki á bætandi. Við vitum í dag að þessi vantrú er ríkjandi. Jafnvel hjá svo merkri stofnun sem Byggðastofnun hafa menn ekki treyst sér til að fara í almennilega lánafyrirgreiðslu til þessa atvinnurekstrar nema með tryggum veðum utan atvinnugreinarinnar sjálfrar.

Ég vil nefna annað atriði sem gerði það að verkum að ég kaus að vera ekki á þessu nefndaráliti þó að ég styðji málið í meginatriðum. Það er það að nálgunin felur í sér allt of mikið flækjustig. Til að bregðast við því hefðum við þurft að hugsa þetta mál algjörlega upp á nýtt og fara í vinnu alveg frá grunni. Þá er ljóst að ekki hefði verið unnt að afgreiða frumvarp til laga um skeldýrarækt sem lög frá þessu þingi. Á það er hins vegar mikið þrýst af þeim sem standa í atvinnugreininni og við sáum því ekki ástæðu til að þvælast fyrir því að þetta gæti orðið að lögum ef það mætti að öðru leyti verða til þess að hjálpa til við uppbyggingu þessarar atvinnugreinar sem kann að hafa þýðingu. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að á Prince Edward eyju í Kanada hefur þetta orðið meiri háttar atvinnurekstur í frekar afskekktu héraði. Þar hefur atvinnusköpunin orðið heilmikil við náttúrulegar aðstæður sem á margan hátt eru erfiðari en okkar. Þar leggur ís og þar eru miklir fimbulkuldar á vetrum en engu að síður hefur þetta tekist þar.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því að í frumvarpinu, þó að með því sé verið að setja almenna löggjöf um þessa starfsemi, sé allt of mikið flækjustig. Ég ætla að taka dæmi. Í 7. gr. er kveðið á um tilraunaleyfi og það er Matvælastofnun sem gefur það út. En áður en það er veitt þarf Matvælastofnun að afla umsagna frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, Orkustofnun, Siglingastofnun og sveitarfélögum, allt í allt frá 6 aðilum. Eins og alltaf gerist þegar verið er að fjalla um mál af þessu tagi í þingnefndum óska ýmsir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eftir því að fá að slást í hóp umsagnaraðila. Niðurstaðan varð eins og maður óttaðist í meðförum nefndarinnar að í stað þess að einfalda þetta er niðurstaðan sú að bæta við enn einum aðilanum í þessu sambandi, þ.e. Umhverfisstofnun. Í 5. gr., þar sem talað er um svæðaskiptingu starfseminnar, er sömuleiðis um að ræða heila dobíu af umsagnaraðilum og í meðferð nefndarinnar er einum umsagnaraðila bætt við, sem er Náttúrufræðistofnun. Þannig má áfram telja. Landhelgisgæslan bætist við sem umsagnaraðili í 4. gr. og þannig er það. Það sama er upp á teningnum varðandi ræktunarleyfi, þar eru allir þessir sömu og Umhverfisstofnun bætist við.

Það er hins vegar bót í máli að umsagnaraðilar fá einungis fjórar vikur til að skila umsögnum sínum. Við þekkjum það hins vegar að fenginni reynslu að jafnvel bindandi lagagreinar fyrir slíkar eftirlitsstofnanir hafa ekki dugað. Við þekkjum öll dæmin frá Umhverfisstofnun. Samtök atvinnulífsins tóku saman tölur um það hvernig Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og þessar stofnanir allar hafa æ ofan í æ dregið að skila umsögnum sínum. Við þekkjum það til dæmis í sambandi við vegamálin hvernig úrskurðir sem lúta að umhverfismati dragast von úr viti mánuðum saman og standa í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu í samgöngumálum víða um land.

Það er enginn að tala um að ekki eigi að ganga varlega um en spurningin er einfaldlega sú hvort menn verði ekki að reyna að hugsa þessi mál upp á nýtt og fallast á að við séum með almenna löggjöf um skeldýraræktina, um það er enginn ágreiningur, en reyna að hafa nálgunina einhvern veginn öðruvísi, byggja til dæmis á skipulagslögunum. Á því sviði væru ýmis færi.

Ég ætla í sjálfur sér ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég taldi ástæðu til að undirstrika að ég styð að sett sé sérstök löggjöf um skeldýrarækt. Það er hins vegar kreddubundin afstaða sem kemur fram í 16. gr. varðandi framsalið og það leiðir til þess að miklu erfiðara verður með fjármögnun. Fjármögnunin er mjög erfið eins og sakir standa og þetta ákvæði mun síst af öllu auðvelda hana. Ég tel því skynsamlegast að Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu að fella þessa grein burtu.

Loks vil ég draga það fram sem ég sagði hér áðan að gallinn við frumvarpið, eins og það er lagt fram, er sá að í því er allt of mikið flækjustig. Við skulum ekki gleyma því að þeir sem starfa í skelræktinni eru flestir hverjir einyrkjar. Þar sem ekki hefur tekist, nema kannski í undantekningartilvikum, að byggja atvinnugreinina þannig upp að menn geti haft beina afkomu af henni hafa þessir einstaklingar orðið að vinna í þessum málum í frístundum sínum. Það þekki ég vel. Þeir leggja til báta sína, nota kaðla og spotta sem þeir eiga í útgerðum sínum og hafa ekki tíma og kannski ekki heldur almenna þekkingu til að fara í þessa þrautagöngu milli Heródesar og Pílatusar, milli umsagnaraðila, til að leita umsagnar um svo einfaldan hlut eins og þann að fá að dýfa niður nokkrum spottum í fjörð til að freista þess að athuga hvort einhver áseta verður sem gæti skapað grundvöll að kræklingarækt.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur almennt, þingmenn, þegar við erum að setja lög — sem alltaf eru sett í góðri trú og í góðri meiningu — hvort við getum ekki reynt að einfalda þetta. Einhvern tíma var reynt að setja upp kerfi sem færi yfir þessa eftirlitsþætti en það hefur greinilega ekki borið árangur. Við þurfum greinilega þegar fram í sækir að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Það er orðið viðtekið að menn veigri sé við því að hafa orð á því að eftirlitsiðnaðurinn hafi blásið út. Umræðan undanfarin missiri hefur nefnilega verið á þeim nótum að allt sem aflaga hafi farið í þjóðfélagi okkar hafi verið því að kenna að við höfum ekki haft nógu mikið eftirlit hvert með öðru. Það á örugglega ekki við í atvinnustarfsemi eins og þessari. Um leið og þessi lög verða samþykkt vil ég geta þess að menn þurfa að huga að því að reyna að einfalda þau í nánustu framtíð til að tryggja að þessi atvinnustarfsemi, sem ég trúi að feli í sér heilmikla möguleika, geti dafnað. Það gerist ekki nema við drögum úr flækjustiginu.



[18:36]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um skeldýrarækt. Eins og fram hefur komið tekur frumvarpið til ræktunar skeldýra á íslensku forráðasvæði. Markmið þess er að skapa skilyrði til ræktunar skeldýra og setja reglur um starfsemina og efla með því móti atvinnulíf og byggð á Íslandi, og veitir ekki af. Það eru klárlega víða sóknarfæri í þessari atvinnugrein eða atvinnusköpun, eins og reyndar svo mörgum öðrum, og mjög nauðsynlegt að við förum í það á Íslandi að nýta þau tækifæri sem eru fyrir hendi. Þá verðum við að líta til allra átta og ekki undanskilja hluti sem hafa kannski, eins og komið hefur fram hér í umræðunni, í fortíðinni á sér þann svip að það sé erfitt að fara í gang og hafi jafnvel gengið misjafnlega. Í því sambandi má til dæmis nefna bæði loðdýrarækt og fiskeldi sem hafa haft á sér það orð að það hafi verið ævintýri sem misfórust fyrir jafnvel 50–60 árum.

Staðreyndin er sú að í þessari atvinnugrein eins og öllum öðrum þarf að byggja upp bæði þekkingu og markaði samhliða því að skapa atvinnuna. Sú staðreynd blasir til að mynda við, eins og til dæmis varðandi þær greinar sem ég nefndi, loðdýraræktina og fiskeldið, að þar eru gríðarlegir möguleikar nú þegar til atvinnusköpunar. Ætli loðdýraræktin skili ekki yfir milljarði í útflutningstekjur og gæti tí- til fimmtánfaldast miðað við núverandi skipulag greinarinnar og möguleika til hráefnisöflunar; og ekki veitir okkur af að fá auknar útflutningstekjur. Möguleikar í fiskeldi eru að sama skapi gríðarlegir. Það hefur verið nefnt þar að í stað þess að stefna að því að auka það um 5 þús. tonn á næstu árum ættum við að stefna að því að auka það um 50 þús. tonn og þar gætum við kannski náð í um það bil 30 milljarða til viðbótar. Það hefur líka verið nefnt hér á liðnum dögum og vikum að við þurfum að auka þann afgang sem við höfum af verslun við umheiminn um kannski 50–70 milljarða, til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur og þá veitir vissulega ekki af að bæta í. Hér er ein grein sem í fyllingu tímans mun skila okkur miklu þó að það muni taka tíma.

Það frumvarp sem við ræðum hér er einhvers konar rammi um þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá annars vegar tilraunaleyfi og eins ræktunarleyfi og hvaða rammalöggjöf á við um það. Það skortir auðvitað á, eins og hefur líka komið fram í umræðunni hjá fyrri þingmönnum, að í þessa atvinnusköpun eins og svo marga aðra er skortur á fjármunum til fjárfestingar. Því væri áhugavert, ef frumvarpið hefði á einhvern hátt fjallað um það, en það gerir það ekki og torveldar það reyndar að nokkru leyti.

Í umræðu hér síðustu daga um sjávarútvegsmál hefur verið rætt um það að hluti af svokölluðu veiðigjaldi eða auðlindarentu greinarinnar renni að einhverju leyti aftur til þeirra landsvæða þar sem auðlindarentan verður til. Ég tel það til bóta þó að ekki sé sama hvernig útfærslan á því er. En hér er einmitt verkefni þar sem slíkir fjármunir gætu komið að og veitir ekki af að koma fjármunum til atvinnusköpunar á því svæði. Í tillögum okkar framsóknarmanna í sambandi við sjávarútveginn og veiðileyfagjaldið hefur það einmitt verið tiltekið að hluti af þessu gjaldi eigi að fara til nýsköpunar í sjávarútvegi og síðan hafa verið tilteknir fleiri hlutir eins og til dæmis fiskeldi og rækt og þá ekki síst skeldýrarækt, kræklingarækt eða því um líkt. Það er ákaflega mikilvægt að við getum sett slíkan grundvöll undir uppbygginguna að einhverjir fjármunir séu líklegir.

Það hefur komið fram í umfjöllun að menn rugli saman eldi og ræktun. Áður fyrr, vegna þess að ekki voru til um það lög, var farið með kræklingarækt og aðra rækt eins og fiskeldi sem er allt annar hlutur.

Einnig hefur það komið til tals í nefndinni að skilgreiningar skorti, til dæmis hvað varðar eignarland og netlög. Samtök eigenda sjávarjarða hafa gagnrýnt það harðlega hvernig farið er með þau og verið er að tala um svæði sem tilheyra mörgum sjávarjörðum. Fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafa að nokkru leyti vísað athugasemdum samtakanna á bug og lagt annað mat á þetta og meðal annars bent á að skilgreiningar séu fyrir hendi í öðrum lögum. Sem dæmi má nefna að bæði Bændasamtökin og Samtök eigenda sjávarjarða gagnrýndu skilgreininguna á hugtakinu netlög og lögðu samtökin til að skilgreiningu frumvarpsins yrði breytt til samræmis við skilgreiningu laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Á móti kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að skilgreining frumvarpsins væri orðrétt í samræmi við skilgreiningu á þessu hugtaki í ýmsum öðrum lögum og með skilgreiningunni sé stefnt að samræmi. Það er kannski ofsögum sagt.

Skilgreiningar á netlögum hafa gegnum tíðina verið mismunandi. Þær skilgreiningar koma fram í gildandi löggjöf, til dæmis í Jónsbók, og í lögum settum af Alþingi, bæði fyrir og eftir lýðveldisstofnun. Margar þessar skilgreiningar standa óbreyttar frá fornu fari og hefur Alþingi hingað til ekki séð tilefni til að gera breytingar á þeim. En í ljósi þessarar gagnrýni frá Samtökum íslenskra eigenda sjávarjarða, Bændasamtakanna og fleiri er ákaflega mikilvægt að Alþingi og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi eitthvert frumkvæði að því og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki það til sín strax á næsta hausti. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert og samræmt þarna markmið jarðalaga og eins markmið laga um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, og það skilgreint.

Aðrir hlutir sem ég gagnrýndi í frumvarpinu þegar það kom fyrst fram var meðal annars hugtakið mannvirki sem ekki var rétt skilgreint og var ekki í samræmi við önnur lög þar sem sama hugtak kemur fyrir og það er gefin ákveðin útskýring á því. Það kom líka upp ákveðinn misskilningur hjá hv. umhverfisnefnd Alþingis um ræktunarsvæði og virtist sá misskilningur felast í því að menn væru að rugla saman eldi og rækt og það er búið að leysa það að nokkru leyti.

Þá kem ég kannski að þeim þáttum sem gera það að verkum að ég er ekki á þessu nefndaráliti um málið þó að ég styðji frumvarpið og telji mikilvægt að um þessa atvinnugrein sé sett rammalöggjöf. Það er meðal annars vegna þess að ég gagnrýndi frumvarpið sem kom fram á fyrra þingi harðlega fyrir hugmyndina að uppbyggingu þess. Menn virtust ekki átta sig á því að til væru önnur lög í landinu, til að mynda skipulagslög þar sem sveitarfélög fara með þann rétt og það vald sem því fylgir og eru í raun að skipuleggja landsvæði til uppbyggingar og afnota. Ég mundi halda að þessi atvinnugrein væri ekkert ólík öðrum frekar að því leyti að það ætti að gilda. Það hefur líka komið í ljós í sambandi við fiskeldi í fjörðum og annað að það er mikilvægt að einn aðili fari með skipulagsvaldið. Þó að reglur séu ekki einfaldar og mörgum finnist þær vera torveldur skógur að rata í gegnum og taki langan tíma er þar komin ákveðin reynsla á stjórnsýsluna og hún er gagnsæ, til þess að gera. Það vita allir hvað til þarf og þar með er kominn einhver aðili sem hefur yfirsýn yfir það í nærsamfélaginu í hvað á að nota hvert landsvæði. Þeir sem þar búa og hafa hagsmuni, og reyndar allir aðrir, geta líka gert athugasemdir við fyrirætlanir um nýtingu lands og þá stranda og út í sjó.

Ef það hefði verið gert frá upphafi, ef menn hefðu hlustað á gagnrýni þess sem hér stendur og reyndar ýmissa annarra umsagnaraðila, ef menn hefðu tekið þessi lög sem við fjöllum um á þessu þingi og breytt uppbyggingunni, hefði þetta mál að öllum líkindum verið miklu einfaldara og líklegra að fleiri hefðu verið með á því. En það var sem sagt sami galli sem kom fram í þessu, það er uppbyggingin á sjálfu frumvarpinu. Nefndin var lengi með þetta til umfjöllunar og velti því fyrir sér hvort fara ætti í það að umbylta frumvarpinu. Það hefði þýtt að þá hefði rammalöggjöf seinkað og við töldum mikilvægara eftir samráð við skelræktendur að þessu yrði flýtt, að þetta yrði klárað. Ég verð þó að viðurkenna að ég ber nokkurn kvíðboga fyrir því að væntingar manna, um að ýmsum ljónum verði rutt úr vegi, og auðveldlega verði hægt að fá tilraunaleyfi eða ræktunarleyfi, séu of miklar. Það mun hugsanlega verða erfitt að koma því í gegnum allar þær stofnanir sem eiga síðan að veita umsögn um málið.

Ef menn hefðu farið skipulagsleiðina hefði svæðið verið tekið til skoðunar áður en það var sett inn á skipulag. Matvælastofnun, sem á að kanna heilnæmið, hefði þá verið búin að kanna hvort slíkt leyfi væri fyrir hendi, það væri hægt að auglýsa það og allir umsagnaraðilar gætu síðan haft eðlilegan tíma til að koma að málinu. Þegar því væri lokið gæti Matvælastofnun gefið út tilrauna- eða ræktunarleyfi.

Þannig er það ekki, hér er milli 10–15 aðilum ætlað að veita umsagnir og í flestum tilfellum er um að ræða ríkisstofnanir og það hefur ekki verið reynslan að það gangi hratt fyrir sig. Upphaflega voru uppi hugmyndir um að allir fengju hálfan mánuð en í niðurstöðu í breytingartillögum frá nefndinni er lagt til að það verði fjórar vikur. En það er mikilvægt að það verði allar sömu fjórar vikurnar. Ef allir þessir 10–15 aðilar eiga að fá fjórar vikur og svo senda þeir frá sér umsögnina til næsta aðila sem líka tekur fjórar vikur er það algjörlega galið. Ég kvíði því að mál gætu hugsanlega farið á þann veg að þetta gengi ekki eins hratt fyrir sig og menn vonast eftir.

Gildistími starfsleyfanna, annars vegar tilraunaleyfanna og hins vegar ræktunarleyfanna, var of skammur og lagt er til að hann verði lengdur. Ég styð það. Einnig má fjalla um heilnæmiskönnunina. Ef þeir aðilar sem eru að fara í tilraunaræktun þurfa að leggja út í stórkostlegan kostnað — það er að vísu heimild til ráðherra að hann taki þann kostnað að sér — ef það yrði þannig að fyrsti aðilinn eigi að greiða og svo komi næsti á eftir sem þá þyrfti ekki að greiða er ákveðið jafnræðisbrot í þessu. Þarna komum við aftur inn á það að ef menn hefðu farið hina leiðina í þessu hefði það verið einfaldari leið.

Gjaldtakan í frumvarpinu og heimildir ráðherra eru eins og í mörgum þeim frumvörpum sem koma frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þessi missirin, það eru víða heimildir til ráðherra og víða óviss gjaldtaka eða hún er ekki alveg markviss, er matskennd, skulum við segja. Í umsögn Skelræktar var sú skoðun sett fram að gjaldtakan eigi að koma fram í einfaldri og fastri gjaldskrá, gjaldtakan eigi að vera hófleg og taka mið af markmiðum stjórnvalda um stuðning við uppbyggingu nýrra atvinnuvega, og getur sá sem hér stendur tekið heils hugar undir það.

Það atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á og taldi vera vafasamt, þ.e. bann við framsali á veittum leyfum, get ég líka tekið undir. Ég tel að það verði erfitt fyrir þessa atvinnugrein eins og allar sem eru að fara inn á það að sækja sér fjármuni og ég tel að þetta gæti þvælst fyrir og menn hefðu átt að reyna að leita leiða til að tryggja það sem þeir vilja tryggja en ekki setja óeðlileg höft á það að menn geti sótt sér fjármagn til að byggja upp atvinnugreinina.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt og þess tíma sem nefndin hefur þó tekið í þetta mál — hún hefur lagt mikla vinnu í það og einnig nefndarritari — var það mat allra að menn mundu vilja fá þessi lög í gegn. En jafnframt, og það kemur fram hjá þeim sem skrifa undir nefndarálitið, er talið nauðsynlegt að endurskoða lögin um skeldýrarækt innan þriggja ára og að rétt sé að ráðherra geri það. Hafi það haft þann endi að lögin hafi ekki náð framangreindum markmiðum verði í því frumvarpi lagður nýr grundvöllur að skeldýrarækt á Íslandi. Ég gæti svo sem lagt til að ráðuneytið færi strax að undirbúa það og þá á grundvelli þess sem hér hefur verið rætt um að byggja á skipulagslögum en ekki því flækjustigi umsagnaraðila sem hér er miðað við, þ.e. að hver ríkisstofnunin á fætur annarri eigi að veita umsögn þar til ein þeirra veiti að lokum leyfi.

Frú forseti. Ég stend ekki að þessu máli en ég styð það þrátt fyrir að á því séu allnokkrir gallar. Ég velti því vissulega fyrir mér hvort þetta séu góð lög en ég vona að efasemdir mínar séu ekki á rökum reistar. Ég vona að skeldýraræktin muni blómstra á grundvelli þessara laga. Ef ekki munum við verða fljót til þess hér á þinginu að setja ný lög með nýjum ramma.



[18:52]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Uppbygging skeldýraræktar á Íslandi er áhugaverð og sú reynsla sem hefur fengist síðustu ár er örugglega orðin marktæk. Náðst hefur ágætisárangur og ljóst er að víða hér við land er tækifæri til að byggja upp atvinnurekstur sem þennan. Í því geta falist heilmikil sóknarfæri fyrir ákveðin svæði, sérstaklega á landsbyggðinni.

Það er rétt sem komið hefur fram hjá þeim þingmönnum sem hafa flutt ræður á undan mér um þetta mál að það hefur ekki verið mikil trú á þessari atvinnugrein. Hún hefur ekki náð að fanga athygli fjármagnshafa eða þeirra sem ráða ferð fjármagns. Hafa ákveðin fyrirtæki þegar lent í vandræðum út af því, fyrirtæki sem kannski að öðru leyti gátu átt bjarta framtíð, fyrirtæki þar sem einstaklingar voru búnir að leggja mikið á sig fyrir lítið kaup, eigendur, en fengu svo ekki áheyrn og aðila til að taka þátt í þessu með sér og það hafa gerst slys sem ég kalla í því sambandi þar sem ekki var nógu mikið fjármagn til staðar til að koma mönnum yfir ákveðinn hjalla. Þetta vekur upp þá hugsun að þarna séu ekkert ósvipaðar aðstæður og við erum að heyra úr loðdýraræktinni sem í dag skilar mikilli arðsemi hjá þeim sem hana stunda, loksins. Er það fagnaðarefni að við skulum vera að ná þeim árangri þar sem raun ber vitni og búin eru að blómstra, en það eru helst erlendir aðilar sem horfa til fjárfestinga hér á landi í loðdýrarækt. Auðvitað er ágætt að fá erlenda fjárfestingu inn í landið en það er á sama tíma bagalegt að íslenskar fjármálastofnanir og fjármagnseigendur skuli ekki hafa opin augu fyrir tækifærum á þessum vettvangi eins og öðrum. Hvort hér er um að ræða einhverjar afleiðingar af hruninu og menn séu hræddir má vera en þarna gæti kannski ríkisvaldið haft ákveðið frumkvæði til að ýta undir þessa atvinnustarfsemi.

Við erum að tala hér um atvinnutækifæri bæði í skelrækt og ekki síður í loðdýraræktinni sem geta eflt atvinnustarfsemi úti um land og það sem hefur kannski helst skort á þeim vettvangi er aukin fjölbreytni bæði í landbúnaði og sjávarútvegi og í öðrum atvinnugreinum til að svara þeim samdrætti í mannaflaþörf sem aukin hagræðing og tækninýjungar hafa leitt af sér bæði í hinum hefðbundna landbúnaði og ekki síður sjávarútvegi.

Þeir sem hafa starfað á þessum vettvangi hafa kallað eftir lagaumgjörð, regluverki um starfsemi sína. Það hefur verið svolítið óljóst hvar þessi mál liggja og því hefur verið ákall hjá þeim sem hafa verið að reyna að byggja þetta upp um að fá einhvern ramma utan um starfsemina. Það er auðvitað vel, við þurfum að ramma þetta inn en á sama tíma þurfum við að taka ríkara tillit en gert er í þessu frumvarpi til að einfalda hlutina. Þarna eru klárlega mikil tækifæri, það höfum við heyrt á þeim aðilum í þessari atvinnugrein sem hafa rætt við okkur fulltrúa í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins. Ljóst er að ræktunarskilyrði á hefðbundnum ræktunarsvæðum í Evrópu hafa verið að breytast mikið með hlýnun sjávar og það er orðið erfiðara uppdráttar með ræktun á þeim svæðum þar sem þessi atvinnustarfsemi hefur verið öflug. Á sama tíma virðast aðstæður hér vera að batna þannig að tækifærin eru klárlega til staðar. Það er ekki verið að vinna nýja markaði, markaðirnir eru til staðar og þeir eru ekki langt frá okkur. Við erum með dagleg flug með ferskan fisk inn á þessa markaði þannig að flutningurinn er ekki vandamál. Það eru miklir markaðir í nágrannalöndum okkar í Evrópu og afurðaverðið er mjög hátt. Vegna þeirra takmarkana sem eru að verða á hefðbundnum ræktunarsvæðum í Evrópu er verðið að fara upp, afurðaverðið er að hækka, og þetta gefur okkur tækifæri sem við eigum að líta til og reyna að nýta.

Það sem helst veldur mér áhyggjum í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, eru þær hindranir sem eru innbyggðar í það og ég vil segja að ég held að við horfum oft ekki réttum augum á það hvað við þurfum að reyna til að greiða atvinnustarfsemi okkar leið. Ég er ekki að tala fyrir því að við höfum ekki varann á gagnvart umhverfi okkar og náttúruvernd eftir því sem við á þegar við hugum að reglugerð utan um atvinnulífið en við verðum líka að taka tillit til atvinnulífsins. Við höfum heyrt vaxandi kvartanir frá bæði hinum mismunandi aðilum í atvinnulífinu og frá ASÍ og ég vil minna á samþykkt á þingi ASÍ, að ég held í fyrra, þar sem var sérstaklega áréttað mikilvægi þess að fara að einfalda allt ferlið í kringum uppbyggingu t.d. á orkufrekum iðnaði á Íslandi. Við værum að glata samkeppnishæfi okkar gagnvart öðrum löndum þar sem við værum ekki með nægilega lipurt ferli til að afgreiða umsóknir og fara með þær í gegnum það matsferli sem þarf að fara í gegnum. Það er mikilvægt að við horfum til þess. En það læðist að manni sá grunur þegar maður rýnir gagnrýnið í þetta frumvarp að það sé innbyggt í okkar kerfi, ef við getum orðað það svo, eða okkar embætti sem fjallar um þetta og er að undirbúa lagafrumvörp sem þetta að regluverkið taki ekki mið af lipurleika heldur taki meira mið af því að allir þurfi að koma að hlutunum, allir þurfi að hafa um þetta að segja og allir gera kröfur um það, allar hinar mismunandi stofnanir gera kröfu um að eiga hlut að máli

Hvernig er hægt að einfalda þetta, virðulegi forseti. Það er bara mál sem þarf að leysa úr en maður hefði séð fyrir sér möguleika á því að það væri einhver ein stofnun sem yrði leitað til og hún mundi í raun samræma þessa vinnu meðal annarra stofnana. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í frumvarpið varðandi þetta en t.d. áður en tilraunaleyfi er veitt skal Matvælastofnun afla umsagna hjá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun og síðan viðkomandi sveitarstjórn. Allar þessar stofnanir þurfa að gera sínar úttektir, þær þurfa sinn tíma og ef það gerist þannig að þetta fer ekki á sama tíma til allra þessara stofnana er tíminn orðinn ansi langur sem krefst undirbúnings og þá eru menn auðvitað að tapa tekjum. Ég veit um fyrirtæki núna sem hefur verið að vinna með ákveðinni stofnun varðandi leyfisveitingu á tiltölulega einfaldri framleiðslu og það er búið að taka sex mánuði að reyna að ná þessu í gegn og á meðan er fyrirtækið alltaf að tapa tekjum.

Tilraunaleyfið er bara gefið í tvö ár. Við getum séð hvað það þýðir. Það virkar ekki hvetjandi á það að fara út í fjárfestingu eða leggja á sig mikla vinnu ef menn hafa í raun ekki lengri sýn en í tvö ár. Það má reyndar framlengja það um eitt ár í senn þannig að það gildi allt að fimm ár en það hefði auðvitað þurft að vera þannig að það væri búið svo um hnútana að tilraunaleyfið tæki til a.m.k. fimm ára. Eðli þessarar framleiðslu er þannig að það tekur svolítinn tíma að koma henni af stað og afurðir fara ekki að koma strax daginn eftir. Þetta þarf að rækta upp og þetta tekur allt sinn tíma. Á meðan eru ekki miklar tekjur þannig að á þessu tveggja ára tímabili verður hlutfall tekna mjög lítið í þessari framleiðslu. Þarna hefði ég viljað sjá gengið þannig frá hnútunum í byrjun að menn hefðu lengri tíma.

Við útgáfu tilraunaleyfis sem gildir þá ekki nema til tveggja ára í senn getur Matvælastofnun krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi. Þarna er enn verið að gera íþyngjandi kröfur til þeirra sem fara út í þennan iðnað fyrir aðeins tveggja ára leyfi í byrjun. Það er alls enginn hvati fólginn í þessum reglum, þær eru miklu frekar íþyngjandi fyrir þá sem vilja fara að starfa í þessari grein. Ef við tökum þetta og leggjum saman við þá litlu trú sem fjármagnshafar hafa haft á þessari grein, þeir hafa ekki viljað leggja henni til fjármagn og þetta byggist kannski að mestu leyti upp á eigin fé þeirra sem í þetta fara og jafnvel fyrst og fremst mikilli vinnu þeirra fyrir litlar tekjur í langan tíma, getur þetta verið mjög íþyngjandi.

Síðan segir einnig í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Matvælastofnun er heimilt að veita tilraunaleyfishafa forgang að ræktunarleyfi á viðkomandi svæði að gildistíma loknum.“

Þarna er aftur sköpuð óvissa. Matvælastofnun er heimilt að veita tilraunaleyfishafa forgang að ræktunarleyfi. (Gripið fram í.) Hún þarf ekki að gera það. Með öðrum orðum, sá sem hefur verið að byggja þetta upp, starfa þarna í tvö til fimm ár á tilraunaleyfum er ekki endilega með það á hreinu að hann hafi forgang að þessu ræktunarleyfi. Ég held að við hefðum átt að skoða breytingar á þessu. Það væri eðlilegt að tilraunaleyfishafinn hefði þennan forgang og það væri ekki háð einhverri ákvörðun Matvælastofnunar. Auðvitað þarf að fylgja því eftir að hann hafi fylgt öllum settum skilyrðum í sínum rekstri og að staðið sé sómasamlega að málum. Matvælastofnun þarf að hafa og hefur heimildir til þess að stöðva reksturinn eða grípa þar inn í ef slíkt væri til staðar, einhverjir þættir sem þættu ámælisverðir í rekstrinum. Þetta er það sem ég set fyrirvara við í þessu frumvarpi auk 16. gr. frumvarpsins sem fjallar um framsal og er mjög stutt og laggóð en þar segir, með leyfi forseta:

„Framsal, leiga og veðsetning á tilraunaleyfi og ræktunarleyfi til skeldýraræktar samkvæmt lögum þessum er óheimil.“

Þarna er enn aftur verið að setja girðingar fyrir þá sem vilja hugsanlega fara af stað í svona rekstur, þ.e. einhverjir eru búnir að fara í gegnum allt að fimm ára tilraunatímabil, komnir með framleiðsluleyfi og eru kannski loksins farnir að sjá afrakstur af erfiði sínu til einhverra ára, eru loksins farnir að hafa tekjur, og setjum svo upp það einfalda dæmi, virðulegi forseti, að viðkomandi veikist og geti ekki stundað þessa atvinnu lengur. Þá má hann ekki selja fyrirtækið sitt, hann má ekki selja þessa framleiðslueiningu sem hann er með. Til hvers þá að fara, hvar er hvatinn fyrir einstaklinginn eða fólkið til að fara þessa leið? Af því að hér situr hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefði ég viljað hvetja hana til þess að við skoðuðum þetta mál alveg sérstaklega. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, og það vitum við sem höfum fengið kynningu á þessu, þá er mikið einstaklingsframtak í þessari grein, þetta er fólk sem byggir þetta upp í sveita síns andlitis. Það er engin sanngirni í því að fólk sé búið að byggja upp rekstur og sé kannski loksins farið að sjá einhverja afkomu og árangur af starfi sínu, síðan breytast aðstæður hjá fólki, það veikist eða eitthvað annað kemur upp á sem er ófyrirséð og þá stendur fólk upp í raun snautt. Það verður að hætta starfseminni og hefur þá væntanlega að auki íþyngjandi skyldur til að fjarlægja öll mannvirki. Það vantar eitthvað inn í þetta, virðulegi forseti. Ég er viss um að hugsunin í sjálfu sér á bak við grein sem þessa er ekki gagnvart slíkum atriðum. Þarna held ég að við séum bundin í eitthvað sem er skylt allt öðrum málum, þ.e. sjávarútvegsmálum [Kliður í þingsal.] og því umdeilda (Forseti hringir.) ákvæði sem þar er inni.

(Forseti (ÁI): Forseti biður um hljóð í hliðarsal svo ræðumaður geti haldið áfram máli sínu.)

Ég er alveg viss um að hugsunin að baki er ekki gagnvart slíku. Þetta liggur frekar í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu, í því umdeilda ákvæði sem framsalið var þar, þó að það sé óumdeilt að þegar ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks kom á framsalinu árið 1990 var það gæfuspor fyrir sjávarútveginn þó að menn vilji ekki kannast við þann króga í dag. En það sem hefur valdið deilum var þegar menn voru að selja sig út úr þeirri grein með stórhagnaði án þess að ákveðnar skattgreiðslur kæmu til ríkisins eða hluti hans kæmi til ríkisins í formi skattgreiðslna og það voru ákveðin mistök sem voru gerð. Við ættum kannski að læra af þeirri reynslu varðandi þetta ákvæði í þessu lagafrumvarpi og hafa þar inni einhvers konar ákvæði um skiptingu þess söluverðmætis sem getur myndast og er þá falið í auðlindinni sem er auðlind þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Hér er klárlega um mjög áhugaverða atvinnugrein að ræða sem á að geta haft góða möguleika til framtíðar. Eins og ég sagði áðan eru að verða miklar breytingar á ræktunarskilyrðum á hefðbundnum ræktunarsvæðum sem hafa sinnt Evrópumarkaði. Á sama tíma eru skilyrðin að batna hér og tækifærin eru því klárlega til staðar og við eigum að ýta undir það. Við eigum að reyna að gera allt sem við getum til að byggja upp þessa atvinnugrein en við verðum að láta af þeirri hugsun sem kemur svo greinilega fram í þeim hafta- eða þröskuldsákvæðum sem eru í frumvarpi sem þessu. Við eigum að horfa miklu opnari augum til framtíðar.

Þrátt fyrir þessa fyrirvara mína, virðulegi forseti, við frumvarpið, mun ég styðja málið. Þó að margir sem ég hef rætt við og þekkja til á þessum vettvangi hafi athugasemdir við einmitt þá þætti sem ég hef farið yfir er það vilji greinarinnar að málið nái í gegn. Þeir telja að hagsmunum sínum sé betur fyrir komið í regluverki sem jafnvel hefur einhverja ágalla í byrjun og þarna eru ákvæði um endurskoðun innan skamms tíma. Ég er viss um að það verður breiður vilji til þess á Alþingi ef í ljós koma einhverjir augljósir gallar áður en að þeim tímamörkum kemur og að við munum sameinast í því og leggjast á eitt um að reyna að greiða leið þessarar atvinnugreinar sem á góða möguleika í framtíðinni.