139. löggjafarþing — 159. fundur.
gjaldeyrismál og tollalög, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 788. mál (reglur um gjaldeyrishöft). — Þskj. 1398, nál. m. brtt. 1612, nál. 1617, 1634 og 1643.

[11:13]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum. Er um að ræða fjögur álit frá hv. efnahags- og skattanefnd.

Ég ritaði undir nefndarálit 3. minni hluta og þar segjum við í lokin að hér gæti verið um að ræða ein alvarlegustu hagstjórnarmistök í gjörvallri Íslandssögunni. Við leggjum til að frumvarpið verði alls ekki samþykkt. Það er ekki að ástæðulausu sem þessi orð falla, frú forseti.

Gjaldeyrishöft eru sett til að lækna ákveðin mein og það er svipað og að gefa sjúklingi heróín, það læknar sársaukann, minnkar hann í bili, en menn þurfa að gæta sín vel á því að gera það ekki of lengi því að þá verður sjúklingurinn háður lyfinu og það verður sífellt erfiðara að lækna og aflétta lyfinu. Ég held að við séum núna komin í þá stöðu að það sé orðið erfitt að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Gjaldeyrishöftin hafa mjög hamlandi og skaðleg áhrif á til dæmis fjárfestingar útlendinga. Þær hafa líka mjög skaðleg áhrif á fjárfestingar Íslendinga vegna þess að menn hugsa að ef hér verða gjaldeyrishöft lengi séu þeir hamdir í athafnasemi sinni þar sem þeir geta ekki flutt umsvif sín til útlanda. Síðan byrja borgararnir að finna alls konar leiðir fram hjá gjaldeyrishöftunum, hvernig þeir geti brugðist við. Alls konar svindl kemur upp. Sumum tekst að komast fram hjá ákvæðum laganna. Þess vegna höfum við eiginlega stöðugt þurft að breyta þessum lögum til að fylla upp í gloppur sem klókir borgarar hafa fundið á þeim til að komast fram hjá þeim. Það er nefnilega mikið í húfi og mikill hagnaður sem menn geta fengið.

Það sem menn hafa talað um ef við afléttum gjaldeyrishöftunum nú þegar — ég vil minna á það, frú forseti, að þau voru ætluð til skamms tíma. Hæstv. efnahagsráðherra sagði það í ræðu sinni þegar hann flutti málið að þau ætti að standa í stuttan tíma. Þeim ætti að minnsta kosti að létta þegar AGS færi af landi brott. Það sagði hann í framsöguræðu sinni og í trausti þess samþykkti ég þessi gjaldeyrishöft á sínum tíma. Ég hélt að þeim yrði aflétt eins fljótt og hægt væri. Nú er lagt til að festa þau í sessi í fjölda ára. Hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur þær afleiðingar, frú forseti, að þeir sem eiga að vinna að því að aflétta höftunum geta slakað á, þeir geta andað léttar og sagt: Jæja, nú hef ég þetta langan tíma til að aflétta höftunum.

Ef við mundum aflétta höftunum á morgun gæti ýmislegt gerst. Menn vita ekki fyrir fram hvað muni gerast. Þetta er líkindareikningur, frú forseti. Hvað kemur inn í þann líkindareikning? Það eru væntingar borgaranna um framtíðina, hvernig gjaldeyririnn muni þróast í framtíðinni. Hér kom fram í umræðunni í gær, og ég leiðrétti það aftur og aftur, að gengið mundi falla ef höftunum yrði aflétt. Það er alls ekki víst. Sumir segja að gengið muni falla fyrstu vikurnar og mánuðina og síðan rísa aftur. Já, en almáttugur, þá fellur það ekki neitt vegna þess að ef menn hafa þá trú að gengið muni rísa aftur kaupa þeir að sjálfsögðu krónur á þeim tíma, þeir sem það geta. Sú hugsun að það sé einhvern veginn vitað að gengið muni falla og svo muni það rísa segir okkur að það muni ekkert falla. Ef menn vita að það muni rísa og ná sömu stöðu aftur fellur það ekki neitt. Það eru ákveðnar líkur á því að gengið á krónunni muni jafnvel styrkjast við afnám gjaldeyrishaftanna vegna þess að laun, eignir og skuldir á Íslandi eru orðnar fáránlega lágar miðað við til dæmis evrulandið, miðað við dollaralandið, miðað við stöðu erlendis. Skuldir hafa lækkað mjög mikið vegna þess að krónan hefur veikst. Sparisjóðseignir hafa lækkað mjög mikið, fasteignir hafa lækkað mjög mikið í evrum o.s.frv. Þetta er orðið mjög eftirsóknarvert fyrir erlenda aðila og þá Íslendinga sem hafa búið lengi erlendis að hoppa hingað inn og kaupa ódýrar eignir ef höftunum er aflétt. Það vinnur á móti því að gengið falli.

Hér er sýknt og heilagt talað um skuldara, frú forseti, það talar enginn um að sparifjáreigendur eru núna að tapa í stórum stíl í bönkunum, 80% af innstæðum eru óverðtryggðar og hæstu vextir eru 2,5%. Svo eru þeir skattlagðir og það í 5% verðbólgu. Sparisjóðsinnstæður rýrna núna í hverjum einasta mánuði og það talar enginn um það. Menn hafa haft áhyggjur af því að verðtryggð lán muni hækka, að ef gengið fellur og verðlag hækkar hækki verðtryggð lán. Menn hafa ekki áhyggjur af framfærslu fjölskyldunnar sem líka verður miklu erfiðari.

En við skulum snúa okkur að verðtryggingunni. Það er dálítið athyglisvert, frú forseti, að í sögu mannkynsins hefur gjaldmiðillinn yfirleitt verið verðtryggður. Einu sinn var notast við vaðmál og kýrverð, myntin bundin við verð á ákveðnum vörum, t.d. einni kú eða vaðmáli. Síðan kom gullið til sögunnar og dollarinn var lengi vel viðmið. Lengst af hefur dollarinn verið bundinn við gull, þ.e. hann er verðtryggður miðað við verð á gulli. Hann var verðtryggður þangað til bindingunni var aflétt upp úr 1970 og eftir það höfum við haft óverðtryggðar myntir. Þangað til höfðum við eiginlega verðtryggðar myntir um allan heim. Ég vildi koma því að að áhrifin á verðtrygginguna þurfa ekki endilega að vera slæm, ekki ef menn koma um leið með góða efnahagsstefnu, virkilega framtíðarsýn, að svona viljum við sjá Ísland eftir 5–15 ár og að við ætlum að nota ákveðnar eignir sem landið á til að borga niður skuldir ríkissjóðs. Ríkissjóður á gífurlegar eignir sem menn hafa ekkert rætt um að selja, ég er að tala um Landsvirkjun sem mætti kljúfa niður í mörg fyrirtæki og selja einstök eftir að hafa gert við þau samning um leigu á auðlindinni, t.d. í 40 ár. Eftir 40 ár gætum við komið og selt auðlindina aftur. Þetta gætum við gert og haft svona framtíðarsýn, auk þess sem ríkissjóður á að vera rekinn með afgangi og einstaklingar, fyrirtæki og aðrir eiga yfirleitt ekkert að kaupa nema staðgreiða það. Það er tvennt sem ég tel að einstaklingar eigi að taka lán fyrir, fasteignin sem þeir búa í sem er langtímafjárfesting og námið sem þeir fara í sem er líka langtímafjárfesting. Fyrir hvoru tveggja eiga menn að taka lán. Allt annað á einstaklingurinn yfirleitt að staðgreiða. Ef þetta yrði tekið upp og ríkissjóður rekinn með afgangi, sveitarfélögin sömuleiðis og fyrirtækin rækju sig með áhættufé en ekki lánsfé yrðu Íslendingar eftir svona 10–15 ár orðnir skuldlausir og þá hyrfi allur vandi vegna gjaldmiðils. Það hefur enginn áhyggjur af gjaldmiðli þegar Ísland verður orðið skuldlaust erlendis. Þá verður ekki hægt að gera neitt áhlaup á krónuna eða hvaða mynt sem við munum hafa tekið upp á þeim tíma. Það sem meira er, við getum hreinlega keypt þá mynt. Ef við ættum innstæður í útlöndum tækjum við bara upp evru ef okkur langaði til dæmis til þess, við gætum keypt hana, þyrftum ekki að spyrja Evrópusambandið eða nokkurn einasta mann. En ég bendi á að um leið og við tækjum upp erlenda mynt yrði fólk að sýna miklu meiri aga í fjármálum. Það gæti ekki lengur tekið 100% lán fyrir íbúð. Það gæti ekki keypt sér bíl með 100% láni. Það er fráleitt þannig að það að taka upp erlenda mynt með þessum hætti, eða hvaða hætti sem er, þýði að um leið þurfi menn að taka upp mikinn aga í fjármálum. Það er einmitt það sem vantar svo illilega hér á landi, agi í fjármálum, en kannski hefur hrunið kennt okkur að það er betra að eiga innstæðu en skulda og sérstaklega að vera í vanskilum.



[11:23]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom mjög greinilega fram hvaða áhrif gjaldeyrishöftin hafa haft á íslenskt efnahagslíf og munu hafa í fyrirsjáanlegri framtíð. Ég velti fyrir mér hvaða mat hv. þingmaður leggur á þá stöðu sem við erum í í dag, hvernig við gætum aflétt þessum höftum og hvort við hefðum getað verið í allt annarri stöðu ef stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hefði verið með þeim hætti sem við höfum talað fyrir og margir aðrir í samfélaginu, að skapa fleiri störf, vera með virka atvinnustefnu og sýna auk þess aga í ríkisfjármálum. Reyndar kom það að nokkru leyti fram hjá hv. þingmanni. Ríkisstjórnin hefði getað hagað sér með öðrum hætti á sviði efnahagsmála á undangengnum tveimur árum.

Ég vil nefnilega kenna arfavitlausri stefnu stjórnarinnar um þá stöðu sem við erum í í dag. Horfum á tugmilljarða króna fjárfestingu sem gæti til að mynda verið búin að eiga sér stað í sjávarútveginum sem hefur verið haldið í algjörri spennitreyju. Sú atvinnugrein veit eiginlega ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna hafa forustumenn í þessari stærstu atvinnugrein landsins haldið að sér höndum og þess vegna hefur fjárfesting í greininni verið tugum milljarða króna lægri en ella hefði orðið. Allt er þetta ástæða þess að við stöndum í þessum sporum í dag. Ef við höldum áfram með þessa stefnu, að óvissa ríki um grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar auk þess sem viðhorf stjórnarinnar drepur niður nýfjárfestingu í virkjanamálum og annarri atvinnuuppbyggingu, spyr ég: Munum við þá ekki sjá fram á það að höftin verði fest áfram í fyrirsjáanlegri framtíð?



[11:25]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það var ein fullyrðing um að við mundum hafa gjaldeyrishöftin áfram. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki. Ég vona sannarlega að skynsemin nái undirtökunum hjá hæstv. ríkisstjórn og menn hafi hugrekki og framtíðarsýn til að geta aflétt höftunum. (BJJ: Rétt.) Mikilvægast fyrir það að aflétta höftunum er framtíðarsýnin, að segja þjóðinni: Svona ætlum við að hafa þetta, þangað stefnum við. Um leið og menn segja það kemur traustið á bæði efnahagslífið og krónuna sem er því miður mjög þverrandi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er eins og að þessari hæstv. ríkisstjórn sé illa við fjárfestingar, illa við það að eitthvað sé gert. Án fjárfestingar er engin atvinna og það er einmitt það sem við þurfum mest á að halda. Atlagan að sjávarútveginum einmitt núna — ég hef miklar efasemdir um eignarhald á kvóta. Ég hef lagt fram tillögu um að dreifa honum á þjóðina — en einmitt núna eiga menn ekki að gera það. Þegar þjóðin er að koma út úr efnahagshruni eiga menn ekki að standa í svoleiðis æfingum. Það er hægt að gera eftir fimm eða tíu ár. Vandinn við eignarhaldið á kvótanum hleypur ekki frá okkur.

Hv. þingmaður nefndi ýmislegt fleira sem ríkisstjórnin er að gera í óþökk fjárfestinga. Ég held að fyrst og fremst þurfi að breyta viðhorfi hæstv. ríkisstjórnar til fjárfestinga. Nýjasta dæmið er með þennan Kínverja sem vill kaupa stóra jörð og kemur með alveg nýjar hugmyndir. Þar birtust mjög neikvæð viðbrögð. Menn eiga að horfa á þetta efnislega og fara í gegnum kosti og galla, hættur og annað slíkt málefnalega, en ekki vísa hugmyndinni alfarið á bug eins og heyrst hefur hjá sumum hv. þingmönnum.



[11:27]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og vitum hefur krónan fallið gríðarlega mikið frá efnahagshruninu árið 2008. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt en í ljósi stöðu gjaldmiðilsins í dag og þess að nú ætla menn að festa það í lög að höftin verði viðvarandi fram til áramóta 2015/2016, má þá ekki gera ráð fyrir því að gengi krónunnar verði enn veikara um áramótin 2015/2016? Höft kalla í eðli sínu fram veikingu á gjaldmiðlinum og það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann leggja mat á það, ef við fylgjum óbreyttri þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið, hver staða gjaldmiðilsins verður mögulega undir lok þessa tímabils.

Nú eru aðilar í atvinnulífinu farnir að venjast þessum höftum, menn finna sér því miður alltaf einhverjar glufur til að komast fram hjá þeim, og nú heyrum við sögur um að heilu atvinnugreinarnar auki umtalsvert umsvif sín og starfsemi utan marka haftanna, þ.e. á erlendri grundu. Verðmætaaukningin á sér þá stað þar, þ.e. fyrir utan hagkerfi okkar, sem leiðir til minni umsvifa hér og minni tekna í okkar hagkerfi. Það er vissulega mikið áhyggjuefni og það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann lýsa því hér hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, líkt og ég, að menn muni í síauknum mæli reyna að koma sér fyrir utan kerfisins, utan haftanna. Þar af leiðandi verður þá minna til skiptanna fyrir ríkissjóð og samfélagið og minni verðmætasköpun sem við hljótum öll að stefna að því að auka í kjölfar hrunsins í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt mál.



[11:30]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður velti þarna upp mjög athyglisverðri spurningu, þeirri hvort höftin veiki gengið á krónunni sem þeim er þó ætlað að styrkja. Hvað segja höftin við bæði Íslendinga og erlenda menn? Þau segja að stjórnvöld treysti ekki krónunni. Það þarf að setja hana í höft til að hún falli ekki enn meira. Það segir að það er ekki traust á krónunni hjá stjórnvöldum og afleiðingin er sú að það er heldur ekki traust á krónunni hjá almennum borgurum, innlendum og erlendum. Þetta gerir það að verkum að gengið getur fallið meira í höftum en án þeirra.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort gjaldeyrishöftin þurrkuðu ekki upp atvinnulífið. Að sjálfsögðu gera þau það. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur sett sig í spor fjárfestis sem er að leita að góðum fjárfestingarkostum um allan heim og á Íslandi, frú forseti, eru glimrandi góð fjárfestingartækifæri, hafa verið og eru alveg sérstaklega núna. Hvað mundi hann hugsa sem erlendur fjárfestir? Hann mundi segja: Þarna eru gjaldeyrishöft, ef ég set peninginn minn þarna inn getur vel verið að ég fái hann aldrei aftur af því að Íslendingar breyta gjaldeyrishöftunum. Þeir hafa kannski einhverja smugu núna en svo loka þeir henni.

Menn sjá líka tilviljanakennda framkvæmd og gífurlegar breytingar á skattalögum þannig að gjaldeyrishöftin í sjálfu sér þurrka sannarlega upp atvinnulífið.

Innlendir aðilar sem eiga krónur, og þeir eru einhverjir, reyna náttúrlega með öllum ráðum að koma krónunum sínum út, vera ekki bundnir í þessum gjaldeyrishöftum. Allir þessir ferðamenn sem eru á gangi um bæinn þurfa að skipta evrum úti um allt og dollurum. Ég sá í Hagkaupum um daginn að á undan mér var kona sem borgaði með evrum. Hvað varð um þær?



[11:32]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágæta ræðu um gjaldeyrishöftin. Hann sakaði núverandi ríkisstjórn um skort á framtíðarsýn og ég er ekki alveg sammála því. Framtíðarsýnin er áætlun AGS og ríkisstjórnarinnar um afnám hafta og hún felur í sér að ákveðnu magni aflandskróna verði leyft að fara út úr hagkerfinu á löngu tímabili og til þess að koma í veg fyrir að þetta útstreymi leiði til gengislækkunar á að hækka stýrivexti. Með öðrum orðum erum við á leiðinni í vaxtahækkunarferli til þess að geta afnumið þessi gjaldeyrishöft sem reyndar á að setja í lög með því frumvarpi sem við ræðum núna. Það á að setja í lög hvernig útfærslan er nákvæmlega á gjaldeyrishöftunum en á sama tíma er gert ráð fyrir að þau verði afnumin með áætlun sem felur í sér vaxtahækkunarferli.

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá álit hv. þingmanns á þessari áætlun. Hvað finnst honum um þær fyrirætlanir að vextir fari hér hækkandi? Hvaða áhrif telur hann að það muni hafa á íslenskt atvinnulíf? Ég vil jafnframt fá að vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þetta sé alröng aðferðafræði við að losa okkur undan gjaldeyrishöftunum sem hafa verið hér og voru reyndar sett af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.



[11:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð alltaf stoltari og stoltari af því hvað minn flokkur hefur gífurleg og ægileg áhrif löngu eftir að hann er hættur að stjórna. Hann virðist enn þá hafa áhrif. Það eru komin þrjú ár frá hruni og sú hæstv. ríkisstjórn sem nú starfar er búin að starfa í tvö ár þannig að það er dálítið undarlegt að vera endalaust að kenna Sjálfstæðisflokknum um það sem menn eru að gera og búnir að vera að gera undanfarin tvö árin.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að einhver framtíðarsýn sé í samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann var bara þriggja ára neyðaráætlun og henni er lokið. Svo er spurningin: Hver er framtíðarsýnin eftir það? Ég get sagt hv. þingmanni hvernig ég sé framtíðarsýnina. Það eru tvær sýnir: Annar flokkurinn vill inn í Evrópusambandið og ekkert annað. Inn í Evrópusambandið skal Ísland fara og ekkert annað, það er framtíðarsýnin. Ekki er hægt að tala um neitt annað en Evrópusambandið, það er alveg sama hvað maður talar um, hvort sem það er um veðrið, ferðaþjónustu, gjaldeyri eða hvað það nú er, það er ekkert nema Evrópusambandið. Framtíðarsýn hins flokksins er stöðnun og kyrrstaða, skattlagning og meiri skattlagning og enn meiri skattlagning og ofan á allt saman ætlar hann að skera niður þegar fólkið fer úr því að vera í opinberri þjónustu og yfir á atvinnuleysisskrá af því að það er enga atvinnu að hafa. Hann virðist vera á móti framkvæmdum yfirleitt, af öllum toga. Það á bara alltaf að gera eitthvað annað. Og einmitt þegar einhver maður kemur og ætlar að gera eitthvað annað, byggja fimm stjörnu hótel uppi í eyðimörk, er það ekki nógu gott heldur. (Gripið fram í.) Framtíðarsýn þessara flokka er tvískipt, þeir ætla að fara í tvær áttir og þeir eru meira að segja ekki sammála um að ganga í Evrópusambandið, ég hef heyrt suma ráðherra vera á móti því. Þetta er náttúrlega ekki framtíðarsýn fyrir þjóðina í heild sinni. Við þurfum að mynda sameiginlega framtíðarsýn, allir Íslendingar, og stefna þangað. Og það er að sjálfsögðu alröng aðferðafræði að stefna í tvær áttir.



[11:36]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist vera sem framtíðarsýn Vinstri grænna, að mati hv. þingmanns, sé ansi lík framtíðarsýn forustu Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. hvað varðar að það ber ekki að halda áfram með umsóknina um aðild að ESB og að það eigi að fara varlega í að hleypa hér inn fjárfestum utan EES-svæðisins.

En ég ætla ekki að gera þetta mál eða erlenda fjárfestingu að aðalefni andsvarsins. Mig langar örlítið til að ræða betur um lausn hv. þingmanns á gjaldeyrishöftunum. Hann talar um að það eigi að afnema gjaldeyrishöftin, helst sem allra fyrst, og að það afnám gæti jú falið í sér gengislækkun og það yrði auðvitað erfitt fyrir skuldsett heimili að sjá lánin hækka ef slík gengislækkun verður vegna þess að verðtryggð lán taka á sig allar verðhækkanir. Gengislækkun þýðir hækkun á verðlagi innan lands þar sem 35% af matarkörfunni eru innfluttar vörur.

Ég er ekki sammála mati hv. þingmanns um að tafarlaust afnám á gjaldeyrishöftunum muni ekki íþyngja skuldsettum heimilum sem nú þegar ná ekki endum saman. Ég vil því fá nánari útlistun hjá hv. þingmanni á því hvernig hann ætlar að tryggja að fólk, sem er núna komið með skuldsettar eignir sem nema frá 90% og upp í 110% af verðmæti eignarinnar, haldi áfram að greiða af skuldum sínum eftir afnám hafta með hans aðferð.



[11:38]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst ætla ég að svara þessu með vaxtahækkunarferlið. Í gjaldeyrishöftum þarf ekkert háa vexti. Seðlabankinn ætti náttúrlega meðan gjaldeyrishöftin standa að lækka vexti til að setja atvinnulífið í gang. Með gjaldeyrishöftum er maður lokaður frá umheiminum og getur lækkað vexti án þess að óttast að hér streymi út gjaldeyrir, hann fer ekkert út, heldur mundi það í hæsta lagi auka framkvæmdir. Það er alröng aðferð að hækka vextina í gjaldeyrishöftunum en um leið og gjaldeyrishöftin yrðu lækkuð ættu menn að fara í vaxtahækkunarferli ef þörf er á.

Varðandi stöðu heimilanna og greiðslumat heimila þegar menn taka lán og öll lán eru núna meira og minna verðtryggð, engin gengistryggð lengur, er í flestum tilfellum miðað við að húsnæðiskostnaður sé um þriðjungur af útgjöldum heimilisins. Afgangurinn, tveir þriðju, er líka mjög veigamikill. Bleiurnar hækka í verði ef gengið hækkar, ekki bara lánið. Menn gleyma þessu alltaf, að öll neysla hækkar ef neysluverðsvísitalan hækkar. (LMós: Hvernig á þá að borga lánin?) Þess vegna þurfum við að tryggja að krónan falli ekki og við þurfum að trúa því og við þurfum að koma með stefnu sem segir eigendum þessarar snjóhengju sem hangir yfir okkur og allir óttast svo ógurlega: Bíðið andartak, þetta lagast. Þeir eru nefnilega búnir að bíða í þrjú og þeir munu bíða áfram. Þeir munu ekki skipta krónunni fyrir evrur á hvaða gengi sem er, kannski einstaka krónueigendur en þá mun krónan taka litla dýfu fyrst og ég er viss um að margir muni fylla upp í þá dýfu með því að kaupa krónur af því að þeir vita að hún mun styrkjast á eftir. Það er nefnilega þannig að ef menn hafa góða framtíðarsýn, sem menn treysta, mun gengið ekki falla öllu meira. Það er nú þegar mjög lágt.



[11:41]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða um það hvernig við ætlum að haga efnahagsmálum þjóðarinnar til næstu ára, til áramóta 2015/2016, hvernig umhverfi atvinnulífsins og íslensks almennings verður þegar kemur að peningamálum og aðgengi og frelsi til athafna.

Það vekur því mikla athygli að við skulum sitja hér í salnum þrír þingmenn Framsóknarflokksins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir (SKK: Ásamt.) ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og hæstv. forseta sem hér situr en enginn einasti stjórnarliði er viðstaddur slíka grundvallarumræðu sem snertir hvert einasta heimili í landinu og hvert einasta fyrirtæki. (Gripið fram í: Hvar eru ráðherrarnir?) Maður veltir líka fyrir sér: Hvar eru þeir hæstv. ráðherrar eða sá hæstv. ráðherra sem lagði fram upphaflega frumvarpið sem hefur sem betur fer aðeins verið breytt?

Ég ætla bara að minna á eitt ákvæði í því en þar átti að lögfesta ákvæði þess efnis að ef fólk vogaði sér að koma hingað til lands með klink í vasa, nokkrar evrur eða dollara, og gleymdi að skila því til viðkomandi fjármálastofnunar lá við því mikil refsing, sekt eða jafnvel fangelsisvist ef brotið yrði stórfellt. Þvílíkt ímyndunarafl sem hæstv. ráðherrar hafa og ríkisstjórn að leggja fram frumvarp sem felur þetta í sér, fyrir utan að ákvæðið hefði orðið mjög atvinnuskapandi því að það eftirlit sem mælt var fyrir í fyrra frumvarpinu eða því frumvarpi sem nú hefur verið breytt hefði leitt af sér að stórfjölga hefði þurft starfsmönnum í gjaldeyriseftirliti Seðlabankans og hjá hinum og þessum fjármálastofnunum. Það stóð jú til að rannsaka sérstaklega hvort fólk hefði yfir höfuð efni á því að kaupa sér gjaldeyri til að fara utan. Þetta frumvarp hefur því að mörgu leyti verið einstakt í umræðunni í þinginu, ég efast um að jafnilla unnið frumvarp hafi komið inn á þing á seinni árum og má meiri hluti nefndarinnar eiga það að þessu frumvarpi hefur þó verið breytt í rétta átt.

Með lögfestingu gjaldeyrishafta árið 2008 stóð til að þau mundu gilda í um tvö ár. Það var varað við því þá að með setningu gjaldeyrishafta gæti verið erfitt að losna úr þeim vítahring vegna þess að höft kalla á meiri höft og nú stöndum við á haustmánuði ársins 2011 og erum að tala um að framlengja gjaldeyrishöftin fram til áramóta 2015/2016. Í þessu felast mjög alvarleg skilaboð frá ríkisstjórninni um stöðu efnahagsmála. Ef við höfum ekki trú á efnahagskerfinu og þeirri efnahagsstefnu sem við höfum fylgt eigum við þá að ætlast til þess að þeir aðilar sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi eða íslenskur almenningur hafi trú á þeim gjaldmiðli sem við búum við? (PHB: Að sjálfsögðu ekki.) Að sjálfsögðu ekki, segir hv. þm. Pétur Blöndal, og þess vegna er þessi umræða svo mikilvæg, grundvallarumræða um það hvert við stefnum.

Gjaldeyrishöft koma í veg fyrir að einstaklingar og lögaðilar geti farið í aðgerðir sem eru nauðsynlegar til að koma á fót heilbrigðum fjármálamarkaði á ný. Þetta kemur í veg fyrir aðgengi íslensks atvinnulífs að hagstæðum lánskjörum og fleira mætti nefna. Þetta ástand leiðir það af sér að fjárfesting í íslensku atvinnulífi minnkar til muna og þar af leiðandi horfum við upp á að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu og um 25 þús. störf hafa glatast frá hruni.

Það er fátt sem bendir til þess, frú forseti, að við séum að snúa þessari óheillaþróun við. Það er ótti minn og margra annarra að verði þessi ákvæði felld í lög sendum við frá okkur þau skilaboð að þetta ástand verði viðvarandi fram til áramóta 2015/2016 með þá reynslu í farteskinu að við höfum verið að ganga á bak orða okkar varðandi afléttingu gjaldeyrishaftanna ítrekað á undangengnum árum. Þau áttu fyrst að vera til tveggja ára, síðan voru þau framlengd og því næst voru þau hert og endalaust er verið að reyna að bæta í þá leku dós sem gjaldeyrishöftin eru. Aðilar aðlaga sig einfaldlega að þeim aðstæðum sem uppi eru og nú höfum við í efnahags- og skattanefnd fengið fréttir af því að fjölmargir aðilar í íslensku atvinnulífi hafi ákveðið að auka umsvif sín erlendis utan við gjaldeyrishöftin þannig að sá virðisauki sem þar mun verða til verður fyrir utan íslenskt efnahagslíf. Það eru mjög alvarleg tíðindi sem við, hv. þingmenn, verðum að hlusta á vegna þess að þróun sem þessi mun stórauka á þann vanda sem blasir við okkur og skilaboðin eru slæm.

Við þurfum ríkisstjórn sem segir: Stefnan er þessi. Við þurfum ríkisstjórn og stjórnvöld sem segja: Við gefumst ekki upp, við ætlum að sækja fram! Hvernig gerum við það? Við gerum það ekki með þeirri stefnu sem hefur verið ástunduð á undangengnu tveimur og hálfu ári sem hafa eingöngu miðast við að vera í sífelldum varnarleik. Við horfum enn þá upp á það að lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu hafa ekki fengið úrlausn sinna mála, sú vinna gengur allt of hægt. Við horfum upp á skuldug heimili sem hafa ekki fengið leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum sínum, að við tölum nú ekki um undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar. Horfum á sjávarútveginn sem gæti núna á undanförnum tveimur árum verið búinn að fjárfesta fyrir tugi milljarða króna í uppbyggingu á innviðum sínum sem hefði leitt það af sér að þúsundir beinna og afleiddra starfa við þá atvinnugrein hefðu skapast. En hvað gerir ríkisstjórnin þá? Hún kemur fram með hugleiðingar og hugmyndir um að gjörbylta öllu umhverfi sjávarútvegsins. Það eru 30 þús. manns sem með einum eða öðrum hætti hafa sitt lifibrauð af sjávarútvegi, það er ekkert öðruvísi. Þá kemur hin rómantíska ríkisstjórn og boðar allsherjar uppstokkun á umhverfi sjávarútvegsins. Nú er ég ekki að segja það að ekki megi breyta lögum um stjórn fiskveiða. Ýmsu má breyta í þeim efnum en sú mikla bylting sem ríkisstjórnin boðaði hefur leitt það af sér að menn hafa eðlilega haldið að sér höndum í fjárfestingum í þessari atvinnugrein sem hefur svo leitt það af sér að þúsundir starfa hafa tapast á þessu sviði.

Eigum við að fara yfir fleira úr afrekaskrá ríkisstjórnarinnar þegar kemur að stöðu efnahagslífsins í dag? Við skulum bara taka breytingar á skattkerfinu sem dæmi. Ég man þegar ríkisstjórnin tók við á árinu 2009 og var að semja fjárlög ársins 2010. Þá var komið fram með grundvallarbreytingar á skattkerfinu um mánaðamótin nóvember/desember það ár og þær breytingar áttu að eiga sér stað 1. janúar árið eftir, þ.e. eftir um það bil mánuð. Við höfðum hér í þinginu nokkra daga til að fjalla um grundvallarbreytingar á skattkerfinu. Það var varað við þeim úr öllum áttum — aðilar vinnumarkaðarins, endurskoðendur, starfsfólk á skattstofum og fleiri og fleiri vöruðu við því að breyta skattumhverfi íslensks atvinnulífs og heimila með þeim hætti sem gert var. Þar voru gerð mikil mistök við lagasetningu sem hafa leitt það af sér að Alþingi hefur á undangengnum tveimur árum þurft að leiðrétta ýmsar vitleysur sem þá voru gerðar en varað var við, eins og ég sagði áðan.

Hvað hefur þetta leitt af sér? Jú, hvati til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi í kjölfar þessara breytinga minnkaði. Það var verið að flækja skattkerfið, gera það ógagnsærra og skilaboð stjórnvalda á þessu tveimur og hálfa ári hafa verið þau að hér sé mjög óstöðugt umhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf sem hefur leitt það af sér að fjárfesting hefur minnkað stórum, hefur ekki orðið eins mikil og hún hefði annars getað orðið.

Mig langar líka að vitna til þeirra tækifæra sem okkur bjóðast við að virkja til að mynda náttúruauðlindir okkar á norðausturhorni landsins eða á Suðurlandi. En við vitum að mikil andstaða er hjá ríkisstjórnarflokkunum, alla vega hluta þeirra, gagnvart þeim áformum. Þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn styðst einungis við einn mann er eðlilegt að fátt eða lítið gerist í þeim efnum þrátt fyrir að við höfum haft gríðarlega möguleika á undangengnum tveimur árum til að nýta þau tækifæri. Þessi ár hafa fjarað út og leitt til þess að 16 þús. Íslendingar eru án atvinnu. Við erum í sögulegu hámarki þegar kemur að atvinnuleysi og atvinnuleysi er eitt það versta böl sem hægt er að gera nokkrum manni og hefur mikil áhrif á fjölskyldur. Nú er svo komið að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í meira en eitt ár er yfir 5 þús. manns. Þetta er mikið tjón fyrir íslenskt samfélag og hefur valdið miklum erfiðleikum á mörgum stöðum eins og ég vona að við þekkjum flest.

Af hverju er ég að segja þetta? Ég er að segja að umhverfi efnahagsmála og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því veldur því að erfiðara er núna en ella hefði orðið að aflétta höftunum með skjótvirkum hætti. Værum við á fullri ferð í uppbyggingu í sjávarútvegi, í orkufrekum iðnaði, búin að gera skattumhverfi íslensks atvinnulífs með þeim hætti að fjárfesting væri aukin á þeim slóðum eða ef við hefðum farið í vitrænar breytingar á íslenska skattkerfinu sem hefðu hvatt til fjárfestingar en ekki latt, einfaldað kerfið en ekki flækt, þá værum við ekki í þessum sporum í dag.

Það er gömul tugga að ræða um þessa ríkisstjórn sem flestallt virðist ætla að verða að ógæfu. En það versta er að sú ógæfa á ekki bara við um ríkisstjórnina, sú ógæfa leiðir það af sér að í dag eru erfiðleikar margra fyrirtækja og þúsunda íslenskra fjölskyldna staðreynd. Ef menn ætla að samþykkja frumvarp með þeim skilaboðum að við ætlum að hafa gjaldeyrishöft hér á landi til áramóta 2015/2016, hafandi séð fortíðina þar sem menn hafa ekki staðið við áætlanir um afléttingu haftanna, er ekki um glæsilega framtíðarsýn að ræða hér. Gjaldeyrishöft til lengri tíma litið veikja gjaldmiðilinn sem þýðir að kaupmáttur hér á landi mun þar af leiðandi minnka. Ég hélt að við værum komin með nóg af þeirri þróun sem blasir nú við mörgum íslenskum fjölskyldum. Þetta dregur líka úr samkeppnishæfni landsins, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Höftin, eins og þau eru, virka þannig á íslenskt atvinnulíf að krafturinn minnkar, hvatinn til að vera með starfsemi sína utan haftanna — menn reyna að finna einhverjar leiðir til þess — leiðir til þess að verðmætasköpunin sem þar á sér stað mun ekki skila sér í íslenskan ríkissjóð eða til íslenskra sveitarfélaga ef því er að skipta. Þetta leiðir af sér vandamál og erfiðleika og við þurfum að koma í veg fyrir að það verði samþykkt.

Það er undarlegt, frú forseti, að enginn stjórnarliði skuli vera á mælendaskrá í því grundvallarmáli sem við ræðum hérna. Við erum að ræða um afkomu hverrar einustu fjölskyldu hér á landi fram til áramóta 2015/2016, við erum að ræða um starfsumhverfi íslensks atvinnulífs og það er eins og við séum að ræða um eitthvert létt dægurmál. Menn verða að sýna þessu máli þá virðingu að um sé að ræða grundvallarmál, við erum að ræða framtíðarsýn. Ef enginn stjórnarliði ætlar að taka þátt í þessari umræðu, hvað þá einhver ráðherra í ríkisstjórninni, er það bara dæmi um eitt: Framtíðarsýnin er engin. Ríkisstjórnin virðist eingöngu snúast um það að halda lífi í sjálfri sér frá degi til dags. Menn geta ekki horft mánuð fram í tímann, ekki tvö ár fram í tímann. Nei, menn ætla að hanga á völdunum og láta þetta mál fara hér umræðulaust í gegn, alla vega af hálfu stjórnarliðsins, og það eru mjög slæm skilaboð (Forseti hringir.) úr frá þeirri erfiðu stöðu sem blasir við okkur.



[11:56]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum dálítið erfitt að átta sig á samhengi hlutanna þegar maður hlýðir á ræður hv. þingmanna hér úr ræðustól Alþingis (BJJ: Nú?) vegna þess að í upphafi þingfundar komu hér fulltrúar annars ríkisstjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, eins og háheilagir menn og fóru yfir mikilvægi þess að opna yrði landið fyrir erlendum fjárfestum. Mikið var lagt upp úr mikilvægi þess að opna landið fyrir erlendum fjárfestingum í umræðum um hugsanleg kaup kínversks kaupsýslumanns á fasteigninni að Grímsstöðum á Fjöllum. Þar höfðu menn í Samfylkingunni uppi mikil áform.

Næsta mál sem var síðan tekið til umfjöllunar á þinginu er það frumvarp sem við ræðum nú. Það gengur út á að lögfesta gjaldeyrishöft út árið 2015. Þá veltir maður fyrir sér þessu samhengi sem ég vék að. Hvernig fer það saman að annar ríkisstjórnarflokkurinn lýsi yfir mikilvægi þess að opna landið fyrir erlendum fjárfestingum fyrir um hálftíma síðan en mæli síðan fyrir frumvarpi sem gengur í þveröfuga átt? Getur hv. þm. Birkir Jón Jónsson útskýrt fyrir mér hvernig þetta tvennt gengur upp og hvernig það samræmist hvort öðru, annars vegar áform Samfylkingarinnar um að selja Grímsstaði á Fjöllum og hins vegar að festa hér gjaldeyrishöft út árið 2015?

Ég hef lesið umsagnir Samtaka atvinnulífsins, Kauphallarinnar, Viðskiptaráðs Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða og allir eru sammála um að áhrif þessa frumvarps séu þau að það komi í veg fyrir fjárfestingar á Íslandi sem við þurfum svo (Forseti hringir.) mjög á að halda.



[11:58]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er með meira krefjandi spurningum sem ég hef fengið hér á Alþingi að útskýra stefnu Samfylkingarinnar, sérstaklega í því samhengi sem hv. þingmaður setti fram, að hér í morgun var komið fram með miklum lúðraþyt um að opna landið og auka fjárfestingar í atvinnulífinu og svo hálftíma síðar rætt um mjög metnaðarfull áform um akkúrat hið gagnstæða, þ.e. að loka landinu í gjaldeyrishöftum fram til ársloka 2015, það nær jafnvel til ársbyrjunar 2016.

Ég hef dálitlar áhyggjur af því og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að í ljósi þess að árið 2008 voru sett gjaldeyrishöft hér á landi sem áttu að gilda í tvö ár var árið 2010 ákveðið að herða gjaldeyrishöftin og framlengja og nú er komið árið 2011 og það á sem sagt að lengja þau enn frekar í til ársloka 2015. Í ljósi þess að stjórnvöld hafa ekki staðið við þær áætlanir sem settar hafa verið fram í fortíðinni hafa menn þá einhverja ástæðu til að ætla, sérstaklega miðað við hversu langt fram í tímann þetta er, að það verði eitthvað frekar farið að þessari áætlun? Mega menn ekki búast við því að undir árslok 2015 verði lengt enn frekar í höftunum?

Eins og við þekkjum eftir kreppuna upp úr 1930 þá stóðu hér yfir gjaldeyrishöft, sem áttu bara að vera tímabundin, í fimm eða sex áratugi. Það er því meira en að segja það að vinda ofan af því ástandi sem nú er í gildi. Ég held að það verði alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem ástandið varir lengur.

Ég spyr því hv. þingmann hvort hann deili þeim áhyggjum með mér, og þá kannski sérstaklega ef óbreytt stjórnarfar verður við lýði, að við horfum þá til enn frekari og hertari gjaldeyrishafta til (Forseti hringir.) áratuga héðan í frá.



[12:01]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birki Jóni Jónssyni er kannski vorkunn að vera beðinn um að útskýra málflutning þingmanna Samfylkingarinnar sem stangast svo hróplega á á innan við klukkutíma hér úr ræðustól þingsins og í almennri umræðu á þinginu. Það var kannski ekki sanngjarnt af mér að biðja hann um að útskýra (BJJ: Mjög ósanngjarnt.) hvernig komið er fyrir Samfylkingunni í umræðu um fjárfestingar á Íslandi.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að gjaldeyrishöftin yrðu framlengd eftir árið 2015. Ég get alveg lýst því hér yfir að ég hef verulegar áhyggjur af því að með óbreyttri stjórnarstefnu og óbreyttri ríkisstjórn verði ekki staðið við það að afnema gjaldeyrishöftin. Þessari ríkisstjórn hefur lánast að svíkja nánast öll þau loforð sem hún hefur gefið. Eins og staðan er hefur ríkisstjórnin ekki trúverðuga áætlun um það með hvaða hætti hún ætlar að losa um gjaldeyrishöftin.

Ég held að framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hafi lýst þessu ágætlega á fundi um gjaldeyrishöftin sem haldinn var hér í Reykjavík í gær þar sem hann líkti gjaldeyrishöftunum við Íraksstríðið, þ.e. það var auðvelt að komast inn, það var auðvelt að ráðast inn í landið og steypa harðstjóranum af stóli en síðan vissu menn ekkert hvernig þeir áttu að koma sér út úr þeim vanda (SII: Ykkur þótti það nú lítið mál.) sem þeir höfðu komið sér í. Það sama á við um gjaldeyrishöftin. Menn settu þau á og við tókum auðvitað þátt í því á þeim tíma en það var gert til skamms tíma. En nú erum við með ríkisstjórn í landinu sem veit ekkert í sinn haus og hefur ekki hugmynd um með hvaða hætti hún á að komast út úr þessu haftakerfi. (Forseti hringir.) Ég deili því áhyggjum hv. þingmanns um að verði þetta frumvarp að lögum þá verði gjaldeyrishöftin (Forseti hringir.) framlengd eftir árið 2015.



[12:03]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð umræða um afstöðu Samfylkingarinnar sem virðist vera tvískipt og fara eftir því um hvað er verið að ræða hverju sinni, alla vega þegar kemur að erlendum fjárfestingum í landinu og gjaldeyrishöftunum. Mitt svar við því hvers vegna Samfylkingin er tvískipt eða talar tveimur tungum er sú að hún er búin að átta sig á því að stefna hennar eða lausn hennar á gjaldmiðilskreppunni sem felst í því að taka upp evru gengur ekki upp. Hún reynir að fela það með stuðningi sínum við innleiðingu gjaldeyrishafta sem eru mun strangari en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar innleiddu í nóvember 2008.

Frú forseti. Ég er ekki komin hingað til að ræða sérstaklega Samfylkinguna og afstöðu hennar í ýmsum málum heldur afstöðu Framsóknarflokksins eða tillögur Framsóknarflokksins til afnáms gjaldeyrishafta. Framsóknarflokkurinn lagði fram eins og við öll vitum mjög framsækna og góða efnahagsáætlun vorið 2009 sem ég nota hvert tækifæri til að hæla vegna þess að þar var m.a. lagt til að farið yrði í leiðréttingu á skuldum heimilanna, almenna leiðréttingu sem fæli í sér 20% yfirfærslu, en þar var jafnframt talað um að aflétta höftunum eða sérstaklega að koma út aflandskrónunum í gegnum uppboðsmarkað. Nú er þessi áætlun AGS og ríkisstjórnarinnar um afnám haftanna þannig að það er komið á uppboðsmarkaði sem hefur ekki virkað vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru ekki koma hér inn með sitt erlenda fjármagn. Ég velti því þá fyrir mér hvað framsóknarþingmenn telja ráðlegt að gera ef uppboðsmarkaðurinn virkar ekki.



[12:06]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og þau fallegu orð sem hv. þingmaður hafði um störf og stefnu Framsóknarflokksins nú sem fyrr. Þetta er mikilvæg spurning sem hv. þingmaður varpar hér fram. Rétt er að hafa í huga að aðstæður á erlendum mörkuðum hafa leitt það af sér að þessi áætlun um afnám haftanna og þær aðgerðir sem Seðlabankinn hefur gripið til í þeim efnum eins og hv. þingmaður benti á hefur ekki skilað sér sem skyldi.

Það sem ég hef talað fyrir og ég er svo sem ekki fylgjandi því að með því að smella fingri afléttum við gjaldeyrishöftunum, við þurfum að hafa vaðið fyrir neðan okkur í þeim efnum. Hins vegar tel ég þörf á mjög greinargóðri og einbeittri stefnu þar sem menn setja það fyrir framan sig með tímasetningum í hvaða áföngum við ætlum að stefna að því að aflétta þessum höftum. En ég verð líka að lýsa þeim áhyggjum mínum og ég spyr hv. þingmann á móti hvernig henni lítist á að framkvæma með skjótum hætti breytingar á gjaldeyrishöftunum, minnka höftin eftir atvikum, ef engin breyting verður á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður hefur verið mjög einbeitt í málflutningi sínum við að gagnrýna það stefnuleysi sem blasir við okkur þar. Við höfum talað um úrlausn í skuldamálum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, í málefnum heimilanna. Við horfum upp á þúsundir íslenskra heimila sem eru bundin í klafa skulda og hvað leiðir það af sér? Það leiðir til minni aukningar eftirspurnar í efnahagskerfinu þannig að við höfum verið á síðustu tveimur árum í spíral niður á við og því miður virðist ríkisstjórnin vera búin að gefa það út núna að það verði ekkert meira að gert. Hvert stefnum við þá og hvað er þá til ráða?



[12:08]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála greiningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar á þessum neikvæða spíral sem við erum komin í vegna þess að efnahagsstefnan hefur frá hruni verið röng. Efnahagsáætlun AGS tók ekki mið af þörfum fyrirtækja og heimila. Þess vegna var farið í það þegar AGS kom hingað inn að hækka vaxtastigið sem gerði náttúrlega algerlega út um alla fjárfestingu í atvinnulífinu. Síðan var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á móti almennum leiðréttingum lána heimilanna sem þýddi það að eftirspurn í hagkerfinu varð miklu minni en annars hefði orðið.

Mín lausn á gjaldeyrishöftunum gengur út á það að lækka hér vexti verulega og hafa þá í samræmi við stöðu eða efnahagsreikning fyrirtækja og heimila. En til að koma í veg fyrir mikla gengislækkun þarf að takmarka útstreymi fjármagns og það er bara hægt, frú forseti, með því að leggja skatt á útstreymið. Margir telja að það sé ekki hægt vegna þess að við erum bundin af alþjóðasamningum en ef við kynnum þetta sem leið til að afnema höftin á krónunni og leið til að koma krónunni inn á frjálsan gjaldeyrismarkaði trúi ég því, frú forseti, að nágrannaþjóðirnar eða þær þjóðir sem eiga við okkur viðskipti muni sætta sig við þessa leið. Þess vegna tek ég undir orð sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lét falla í gær um nauðsyn þess að endurskoða peningastefnu Seðlabankans og endurskoða hana þannig að hún verði í samræmi við það sem ég lýsti áðan.



[12:10]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Við tölum í einum kór, ég og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, þegar kemur að þessum málum. Auðvitað veldur það manni vissum áhyggjum ef við mundum halda áfram óbreyttri stefnu og ætla að afnema höftin ef því mundu fylgja miklar vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands vegna þess að við erum með skuldugustu heimili í veröldinni liggur við. Hvað mundi það þýða ef vextir þeirra færu að rjúka aftur upp og greiðslubyrðin þar af leiðandi hækka allverulega? Ég tel að það sé full ástæða til að við setjumst niður og skoðum peningamálastefnuna og hugum að einhverri endurskoðun á henni. Mér heyrist að það gæti verið samkomulag um það á þinginu að gera alla vega þá tilraun að setjast niður og fara yfir hvaða áhrif það mundi hafa færu menn í að aflétta höftunum. Miðað við núverandi stefnumörkun mundi Seðlabanki Íslands trúlega stórhækka stýrivextina sem leiddi það af sér að kjör almennings og rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi mundu versna til mikilla muna og er ástandið nógu erfitt samt. En eins og hv. þingmaður nefndi hefur ríkisstjórnin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið á móti þeirri stefnumörkun að ráðast í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum lánum skuldugra heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það er staðreyndin í dag og þess vegna er staðan með þeim hætti sem raun ber vitni.

Við sjáum það líka í nýlegum afkomutölum sumra bankanna, sem eru reknir með milljarða og jafnvel milljarðatuga hagnaði núna í þessu árferði, að það hefði greinilega verið eitthvert lag til þess að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem íslenskar fjölskyldur og íslenskt atvinnulíf standa frammi fyrir. Á meðan ekkert er gert í þeim efnum fara hjól atvinnulífsins, svo ég noti þann frasa, ekki af stað fyrir alvöru og þar af leiðandi aukast ekki tekjur ríkis og sveitarfélaga og þess vegna erum við í þessari stöðu.



[12:12]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust að við skulum standa hér á haustdögum árið 2011 og ræða enn frekari þrengingar á gjaldeyrishöftum, sér í lagi þar sem hin frjálslynda Samfylking er í ríkisstjórn sem ekkert aumt má sjá og ekki getur hugsað til þess að brjóta nokkrar Evrópureglur.

Ég hef nefnilega velt því fyrir mér undanfarna daga og í vor þegar þetta mál var á dagskrá að þetta er hreint og klárt brot á EES-samningnum.

Frú forseti. Ég á 20 mínútur, þetta er fyrsta ræða.

(Forseti (RR): Forseti mun þá breyta ræðutíma hv. þingmanns.)

Eins og alþjóð veit er fjórfrelsið einkenni EES-samningsins, og markmið og meginreglur hans eru að samstarfssamningurinn sem við köllum EES-samninginn skuli stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópuefnahagssvæði sem við köllum í daglegu tali EES-svæðið.

Til að ná þessu markmiði voru settar inn í fyrsta hluta samningsins þær skilgreiningar að þetta fæli í sér að það skyldu vera frjálsir vöruflutningar, frjálsir fólksflutningar, frjáls þjónustustarfsemi og síðast en ekki síst frjálsir fjármagnsflutningar.

Gjaldeyrishöft eru ekki til þess fallin að það eigi sér stað frjálst flæði fjármagns á milli landa, enda segir í 40. gr. EES-samningsins, með leyfi forseta, 4. kafla III. hluta sem fjallar um fjármagn:

„Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar.“

41. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Gengar greiðslur í tengslum við þjónustustarfsemi, vöruflutninga, fólksflutninga eða fjármagnsflutninga milli samningsaðila innan ramma ákvæða samnings þessa skulu lausar við öll höft.“

Í 42. gr. segir:

„1. Ef beitt er innlendum reglum um fjármagnsmarkað og lánsviðskipti í fjármagnsflutningum sem höftum hefur verið létt af samkvæmt ákvæðum samnings þessa skal það gert án mismununar.“

Ég ætla að fara yfir þetta í ræðu minni, þetta brot á jafnræði bæði eftir þjóðerni sem og gagnvart öðrum ríkjum EES-samningsins.

Þegar lög nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, voru sett strax eftir hrunið, lögin sem urðu til þess að hér voru tekin upp gjaldeyrishöft, kom í ljós að farið hefur verið yfir þessar alþjóðlegu skuldbindingar sem hræðsla var við að gjaldeyrishöftin mundu brjóta á. Þar er sérstaklega tiltekinn samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið þar sem kveðið er á um frjálst fjármagnsflæði. Það er rökstutt með því að hér hafi skapast mikið neyðarástand og að greiðslujöfnuður væri í hættu. Í frumvarpinu er vísað í 40. gr. og 41. gr og þar segir, með leyfi forseta —

(Forseti (RR): Forseti vill að gefnu tilefni upplýsa hv. þingmann um að þetta er framhald 2. umr. Þann 7. júní talaði þingmaðurinn sínar 20 mínútur og á því eingöngu 10 mínútur í dag.)

Þá er það meðtekið, frú forseti. Þegar umræða um mál sem koma inn í september er svo mikið dreifð er ekki nema von að þingmenn tapi sjálfir aðeins áttum í því hvað þeir eiga mikinn tíma eftir.

Þá verð ég að fara hraðar yfir þetta en ég ætlaði. Í frumvarpinu kemur fram að vegna neyðarástands hér á landi hafi gjaldeyrishöftin verið sett á og það var líka leitað álits hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, sem og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í fljótu bragði var komist að því að þetta mundi ekki brjóta gegn frjálsu flæði fjármagns á þessari stundu, en síðan eru liðin þrjú ár og hér er lagt til að lengt verði í gjaldeyrishöftunum til 31. desember 2015. Hér er ekkert neyðarástand lengur. Hér er ekki sú brýna neyð sem var þegar gjaldeyrishöftin voru sett á og það væri óskandi að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri nú í þingsal til að ræða þessi mál við þingmenn. Mig hefði langað að beina þeirri spurningu til hans hvort búið væri að fá samþykki hjá ESA fyrir þessari lagasetningu. Þau eru ófá, frumvörpin sem hafa farið til ESA. Líklega er Alþingi Íslendinga að verða stærsti einstaki kúnninn hjá Eftirlitsstofnun EFTA því að hér eru samþykkt lög nánast í hverjum mánuði sem enda hjá úrskurðarnefndinni sem um ræðir. Það er mjög alvarlegt en hæstv. ráðherra er ekki hér til að svara þessari spurningu sem ég beini til hans. Það er grundvallaratriði að ESA viti af því að hér er verið að framlengja höftin og vita hvort þeir eru búnir að gefa grænt ljós á það. Annars fer þetta í úrskurðarferli og verður þá jafnvel dregið til baka.

Auðvitað tengist þessi umræða um gjaldeyrishöftin líka skýrt því svari sem ég fékk frá efnahags- og viðskiptaráðherra í gær um innflutning á aflandskrónum. Það vill þannig til að Seðlabankinn treysti sér ekki til að svara þessu og vísaði í bankaleynd þar sem hann telur sig ekki þurfa að upplýsa um hverjir hafa fengið að flytja inn aflandskrónur til fjárfestinga hér á landi og um hvaða fjárhæðir er að ræða. Ég óskaði eftir því að svarið yrði sundurliðað eftir innlendum og erlendum einstaklingum og innlendum og erlendum fyrirtækjum. Eina svarið frá Seðlabankanum var að hér voru fluttir inn árið 2010 tæpir 12 milljarðar kr., heildarfjárhæð innstreymis. Ég get ekki fundið rökstuðning hjá Seðlabanka Íslands fyrir því af hverju bara árið 2010 kemur fram í svarinu og því hef ég lagt framhaldsspurningu fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra sem verður vonandi dreift í þinginu í dag. Þar fer ég fram á að vita um heildarfjárhæð innstreymis gjaldeyris frá því að gjaldeyrishöftin voru sett og allt til dagsins í dag, sundurliðað eftir árum. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hverjir það eru — við fáum náttúrlega ekki svör við því hverjir fá þá undanþágu að flytja inn aflandskrónur, en samkvæmt 15. gr. laga um gjaldeyrismál kemur fram að Seðlabankanum sé óheimilt að gefa það upp hverjir þetta eru og það þurfi að fá dómsúrskurð til að vita það.

Þetta skiptir mjög miklu máli í íslensku atvinnulífi og þetta er klárt brot á jafnræðisreglu fyrst gegnsæið er ekki meira. Það er undir seðlabankastjóra og seðlabankastjórninni sjálfri komið hverjir eru útvaldir til að mega nota aflandskrónur hér á landi. Það hlýtur að vera um nokkra einstaklinga eða nokkur fyrirtæki að ræða fyrst þessi upphæð var um 12 milljarðar árið 2010. Það er bagalegt að þetta skuli ekki vera gegnsærra og það skapar mjög mikla tortryggni hjá þeim aðilum sem eiga aflandskrónur að sumir fá og aðrir ekki. Þessar ákvarðanir Seðlabankans eru algjörlega órökstuddar enda er í áliti frá Viðskiptaráði Íslands tekið undir þessa tortryggni. Í því segir, með leyfi forseta:

„Hægt er að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum við ákveðnar aðstæður. Hins vegar er það ferli langt og óskýrt auk þess sem oft og tíðum virðist gæta misræmis í úrskurðum [Seðlabankans]. Dæmi eru um að meðferð mála hafi tekið um eitt ár hjá Seðlabankanum, sem verður að teljast óásættanlegt. Þá eru úrskurðir um undanþágur ekki birtir sem gerir það að verkum að markaðsaðilar geta ekki gert sér grein fyrir því hvaða forsendur teljast nægjanlegar eða nauðsynlegar svo undanþága sé veitt. Veldur þetta óvissu varðandi það hvað teljist heimilt í raun og er til þess fallið að skekkja samkeppnisstöðu í rekstri.“

Það gefur augaleið að þetta skekkir mjög samkeppnisstöðu aðila á markaði. Sú ákvörðun að framlengja gjaldeyrishöftin til 2015 á sér líklega grunn í því að Samfylkingin er í ríkisstjórn og eins og flestir vita er markmið Samfylkingarinnar að koma íslensku þjóðinni inn í ESB. Það liggur fyrir að hæstv. utanríkisráðherra hefur talið að samningar ættu að liggja fyrir árið 2013 og þá hjálpar þetta til við að pína fólk til að vera jákvætt gagnvart Evrópusambandinu og evrunni sjálfri. Ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á þessu frumvarpi og verði það að lögum verður fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að afnema þessi gjaldeyrishöft og taka upp þá leið forstjóra Kauphallarinnar að létta gjaldeyrishöftum á níu mánuðum.



[12:23]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir velti upp áhugaverðum fleti á gjaldeyrishöftunum sem felst í því að innleiða boð og bönn um hverjir mega skipta krónum, sérstaklega aflandskrónum, yfir í gjaldeyri og hverjir ekki. Við vitum öll að þessi áætlun um afnám gjaldeyrishafta felur í sér að Seðlabankinn handvelur næstum því aðila sem fá að fara inn á uppboðsmarkaðinn með aflandskrónurnar sínar. Margir munu fara í þessa biðröð aflandskrónueigenda sem gæti orðið löng og tekið langan tíma.

Ókostur við gjaldeyrishöft í formi boða og banna er einmitt þessi hætta á spillingu, það að einhverjum sé veitt leyfi, hvort sem stofnun eins og Seðlabankinn á í hlut eða bara stjórnmálamenn, til að eiga viðskipti á markaði. Ég hef þar af leiðandi talað frekar fyrir gjaldeyrishöftum í formi skattlagningar vegna þess að það er erfiðara að mismuna fólki á þeim grundvelli. Þegar maður er með gjaldeyrishöft í formi reglna og laga reynir maður fyrst og fremst að takmarka magnið. Það gerir maður með því að velja þá sem koma inn á markaðinn en þegar maður er með skatt á útstreymi fjármagns ræður í raun og veru verðið því hverjir koma inn á markaðinn. Þeir sem eru tilbúnir að fara út á lægsta verðinu fara fyrstir inn á markaðinn.



[12:25]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir innleggið. Ég var akkúrat að benda á þetta, að þegar einhver aðili eða stofnun hefur það vald að geta valið á milli aðila án þess að þurfa að rökstyðja þá ákvörðun sem út úr því kemur er alltaf mikil hætta á spillingu eða við skulum bara segja, svo við séum heiðarleg, að það vekur að minnsta kosti upp mikla tortryggni milli þeirra aðila sem standa í sömu sporum.

Það er ekki nóg með að umræðan komi til með að vera um þetta heldur er þetta líka klárt brot á jafnræði. Þegar ekki er upplýst um hverjir fá til dæmis að koma inn á markaðinn með þessar aflandskrónur er verið að mismuna öðrum sem óska eftir því að koma inn. Í 15. gr. laga um gjaldeyrinn sem ég fór aðeins yfir áðan eru líka ströng ákvæði um að ef einhver vildi láta reyna á það samkvæmt jafnræðisreglum hverjir fá að koma inn með aflandskrónur skuli dómari úrskurða um það. Þá er Seðlabankanum skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu sjálfri upplýsingar samkvæmt lögunum. Þarna þarf dómsúrskurð og þarna þarf hreinlega að höfða dómsmál til að komast að hinu sanna vegna bankaleyndar Seðlabanka.

Ef við skoðum þetta í samhengi við það kosningaloforð Samfylkingarinnar að hér skyldi allt vera gagnsætt og uppi á borðum er það í hrópandi ósamræmi. Ef eitthvað er hefur leyndarhyggjan aukist svo til muna að hér er vart orðið líft lengur. Upplýsingar eru af svo skornum skammti hjá hinu opinbera að þingmenn fá ekki einu sinni upplýsingar um það sem þeir eiga rétt á.



[12:27]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki lögfræðingur en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lögfræðimenntun og þar af leiðandi vil ég í þessu seinna andsvari mínu spyrja hana út í lögfræðileg atriði sem ég hef haft efasemdir um. Er þingið ekki að fara inn á valdsvið Seðlabankans með því að leiða í lög frumvarp sem lögfestir framkvæmd gjaldeyrishaftanna? Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands fer hann með framkvæmd peningamálastefnunnar en ekki Alþingi. Með lögleiðingu þessa frumvarps erum við að taka fram fyrir hendurnar á Seðlabankanum og setja í lög hvernig Seðlabankinn eigi að framkvæma peningamálastefnuna að hluta til, a.m.k. hvað varðar gjaldeyrishöftin sjálf.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann um afstöðu Framsóknarflokksins til gjaldmiðilskreppunnar sem gjaldeyrishöftin eiga að leysa, a.m.k. tímabundið. Er það stefna Framsóknarflokksins að við verðum með krónuna næstu árin eða er það stefna Framsóknarflokksins að við tökum upp nýja íslenska krónu, annan gjaldmiðil? Hvaða gjaldmiðil ættum við þá að taka upp? Hvaða gjaldmiðill mun með öðrum orðum henta íslenska hagkerfinu best?

Frú forseti. Ég veit að hv. formaður Framsóknarflokksins hefur leitað til Norðmanna eftir láni til að standa straum af skuldbindingum Íslands og ég velti fyrir mér hvort formaðurinn hafi jafnframt leitað eftir samstarfi við Norðmenn um lausn á gjaldmiðilskreppunni.



[12:30]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að fyrri spurningunni, um það hvort Alþingi sé ekki að fara inn á valdsvið Seðlabankans með lagasetningu þessari því að þessi gjaldeyrishöft byggðu á reglum Seðlabankans þar til frumvarpið kom fram. Það má alveg færa fyrir því rök að Alþingi sé að seilast inn á valdsvið Seðlabankans en rökin fyrir þessu frumvarpi voru þau að reglurnar væru hriplekar. Það er búið að fara svo fram hjá þeim reglum að mér var sagt að ástæða þessa frumvarps væri fyrst og fremst sú að lögfesta yrði reglurnar vegna yfirvofandi hættu á dómsmálum vegna þessara hripleku reglna og sérstaklega líka þessa ójafnræðis milli aðila. Auðvitað hlýtur nú á vetrarmánuðum að koma fram dómsmál þar sem aðilar fara hreinlega fram á að fá á hreint hverjir einkavinir Seðlabankans eru, þeir sem fá að flytja inn aflandskrónur, og hverjir eru úti í kuldanum. Eins og komið hefur fram taka þessir úrskurðir mjög langan tíma hjá Seðlabankanum og sumu er hafnað og sumir fá að vera inni í hitanum og nota sínar aflandskrónur. Það skekkir mjög bæði erlenda fjárfestingu og kaup á íslenskum fyrirtækjum og samkeppnisstöðu og rekstur fyrirtækja á markaði.

Um gjaldmiðilskreppuna sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á og spurninguna um hvað Framsóknarflokkurinn sjái fyrir sér, hvort við viljum halda í íslensku krónuna, taka upp nýja íslenska krónu eða jafnvel taka upp norska krónu, er það rétt að formaður Framsóknarflokksins leitaði eftir samstarfi við Norðmenn fyrir nokkrum missirum. Það sem við erum þó fyrst og fremst að glíma við er vanhæf ríkisstjórn sem sér ekkert nema evruna.

Þá ætla ég að segja fyrir mig sem framsóknarmann að ég sé fyrir mér að við höldum íslensku krónunni. Hún kemur til með að duga okkur mjög vel, þ.e. ef ríkisstjórnin hefur það að markmiði að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Þau eru heilbrigðisvottorð á góða efnahagsstjórn (Forseti hringir.) þannig að við þurfum fyrst og fremst að laga landsstjórnina og taka hér til í efnahagsmálastjórnun í stað þess að ráðast á gjaldmiðilinn.



[12:32]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Alþingi Íslendinga hefur á síðustu missirum og árum eytt töluverðum tíma í að ræða hinar og þessar leiðir sem kenndar hafa verið við önnur lönd. Mikil og heit umræða var á sínum tíma um sænsku leiðina. Nýverið var fjallað um hina svokölluðu austurrísku leið og hún lögfest í íslenskum refsirétti. Hér er til umfjöllunar enn ein leiðin sem merkja má ríki sem er sem betur fer liðið undir lok, en það er hin svokallaða austur-þýska leið.

Ástæðan er sú að með þessu frumvarpi ætlar ríkisstjórnin að innleiða á Íslandi og lögfesta til 2015 gjaldeyrishöft sem ríkisstjórn austur-þýska alþýðulýðveldisins hefði verið fullsæmd af, kommúnistastjórnin þar í landi. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í gær eru þau gjaldeyrishöft sem lagt er til að verði lögfest þau hörðustu og stífustu sem sést hafa, a.m.k. í hinum vestræna heimi, síðan austur-þýska alþýðulýðveldið leið undir lok.

Það er mjög hjákátlegt að fylgjast með umræðu stjórnarliða í stjórnmálum þessa dagana á Alþingi. Við ræddum fyrr í dag ýmis málefni undir liðnum Störf þingsins. Þá komu hér þingmenn Samfylkingarinnar eins og hvítskúraðir kórdrengir og lýstu háleitum áformum sínum og vilja til þess að opna landið fyrir erlendum fjárfestum í tengslum við áhuga kínverskra kaupahéðna á því að fjárfesta í landsvæði á Grímsstöðum á Fjöllum. (Gripið fram í.) Lögðu þingmenn Samfylkingarinnar mikið upp úr því að landið yrði opnað fyrir erlendri fjárfestingu. (Gripið fram í.)

Núna, einum og hálfum tíma síðar, stöndum við hér og ræðum tillögur hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, um að leggja á gjaldeyrishöft, að lögfesta þau til ársins 2015. Það er nú allur viljinn sem ríkisstjórnin hefur til þess að opna landið, þ.e. að skella á gjaldeyrishöftum til ársins 2015. Ef „rekkord“ þessarar ríkisstjórnar, ef svo má segja, er skoðað er ég ekki sérstaklega bjartsýnn á það með óbreyttri ríkisstjórn og óbreyttri stjórnarstefnu að áformin um að aflétta gjaldeyrishöftunum um áramótin 2015/2016 haldi vegna þess að ef þessir stjórnarherrar verða áfram við völd er allt eins líklegt að gjaldeyrishöftin verði framlengd enn frekar.

Það er m.a. vegna þessa frumvarps sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur þann vafasama sess í íslenskum stjórnmálum að vera líklega versta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Hún leggur hér upp með gjaldeyrishöft sem allir sem máli skipta mæla gegn og alls staðar er varað við, í öllum kennslubókum á sviði hagfræðinnar.

Í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og skattanefndar, sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal leggja fram og hafa mælt fyrir, er vísað í litlu gulu hænu hagfræðinnar.

Það segir strax í upphafsorðunum, með leyfi forseta:

„Í inngangskafla kennslubóka um alþjóðaviðskipti er yfirleitt að finna almenn varnaðarorð um skaðsemi gjaldeyrishafta. Höftum er gjarnan komið á til að bregðast við ástandi sem vísir menn telja að geti leitt til ófarnaðar vegna gengisfalls gjaldmiðilsins. Nauðsynlegt sé að hefta frelsi borgaranna til að eiga viðskipti með gjaldmiðilinn. Innleiðing hafta ber með sér að erlendir gjaldmiðlar séu eftirsóknarverðari en sá innlendi að mati ríkisstjórnar og seðlabanka. Tiltrú á gjaldmiðilinn hverfur sem gerir alla hagstjórn erfiða.“

Með því að leggja fram slíkt frumvarp gefst ríkisstjórn Íslands upp gagnvart því verkefni sem henni var falið, að koma á eðlilegu markaðshagkerfi og hífa landið upp úr þeim ólgusjó sem hér hefur verið eftir hrun. Lögfesting gjaldeyrishafta til ársins 2015 felur í sér algjöra uppgjöf. Það er þannig séð fyrir ríkisstjórnina að hafa það á ferilsskrá sinni að hafa lagt slíkt til en það er langverst fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu, enda er það nú svo að þegar maður les þær umsagnir sem borist hafa þinginu mælir nánast enginn með því að sú leið sem frumvarpið mælir fyrir um verði farin. Mikil varnaðarorð eru höfð uppi, t.d. af hálfu Samtaka atvinnulífsins sem hafa hagsmuna að gæta í málinu eins og allir landsmenn. Varnaðarorð þeirra eru alvarleg og ber að taka þau til gagngerrar skoðunar. Mér sýnist þó að meiri hlutinn á hinu háa Alþingi hafi ekki gert það.

Í umsögn Samtaka atvinnulífisins segir m.a., með leyfi forseta:

„Nútímaatvinnulíf verður að búa við frjálst fjármagnsflæði og óheftan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og geta sótt sér bæði lánsfé og eigið fé. Íslenskt atvinnulíf getur því ekki búið við gjaldeyrishöft til lengri tíma. Þau valda efnahagslífinu skaða; fjármagnskostnaður þjóðarinnar hækkar, þau draga úr tiltrú á hagkerfið og takmarka aðgang landsins að fjármagni. Áætlun um gjaldeyrishöft í fimm ár er allt of metnaðarlítil og seinkar lífskjarabata alls almennings í landinu. Áætlunina skortir að auki skýr markmið sem getur reynst stjórnvöldum skjól til að fresta nauðsynlegum ákvörðunum er lúta að afnámi haftanna. […] Eitt af lykilatriðum til að efla trú á landinu og efla fjárfestingar er að höftin hverfi og að íslenskur fjármagnsmarkaður tengist útlöndum á eðlilegan hátt. Metnaðarfull áætlun um afnám gjaldeyrishafta væri yfirlýsing um að stjórnvöld hefðu trú á hagkerfinu og íslensku krónunni.“

Framlagning þessa frumvarps er hins vegar skýr yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar um að hún hefur hvorki trú á hagkerfinu né íslensku krónunni og þaðan af síður sinni eigin efnahagsstjórn.

Þá segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

„Gjaldeyrishöftin fela í sér að fyrirtæki hér á landi geta ekki átt samstarf við erlend fyrirtæki á jafnréttisgrundvelli. Atvinnulífið getur ekki fjárfest erlendis og höftin stöðva framþróun og nýsköpun í fyrirtækjunum. Höftin gera það erfiðara en ella að fá erlent fjármagn til fjárfestinga inn í landið.“

Að sjálfsögðu mæla Samtök atvinnulífsins gegn því að frumvarpið verði samþykkt. En þeir eru ekki einir um það, Kauphöll Íslands tekur undir með Samtökum atvinnulífsins og leggur fram tillögur um aðferðafræði við afnám haftanna á sex til níu mánuðum í tölusettum liðum. Ég botna ekkert í því hvers vegna þær tillögur sem fram hafa komið frá Páli Harðarsyni og Magnúsi Kristni Ásgeirssyni, forstjóra og lögfræðingi Kauphallarinnar, sem birtust í tímaritinu Vísbendingu árið 2011 hafa ekki verið teknar til gagngerrar skoðunar innan ríkisstjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin veit greinilega ekkert hvert hún á að fara í tengslum við afnám gjaldeyrishafta en hún hefur ekki einu sinni burði í sér til að leita til þeirra manna sem sérþekkingu hafa á þessu sviði og hafa lagt fram „konkret“ tillögur um hvernig við getum unnið okkur út úr þessum höftum. Það er miklu betra að mati ríkisstjórnarinnar að við hjökkum bara í sama farinu og höldum okkur við austur-þýsku leiðina, a.m.k. til ársins 2015.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Orri Hauksson, hitti naglann á höfuðið í umræðu um gjaldeyrishöftin á fundi í gær þar sem hann líkti gjaldeyrishöftunum við stríðið í Írak; það hefði svo sem verið auðvelt að fara í gjaldeyrishöftin eins og inn í Írak, en þegar menn voru komnir inn höfðu þeir enga áætlun um hvernig þeir ætluðu að koma sér út. Það sama á við um ríkisstjórnina í tengslum við gjaldeyrishöftin.

Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki langan tíma til stefnu en það eru fjölmargar aðrar umsagnir þar sem varað er við því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Það felur svo sannarlega í sér einhver mestu hagstjórnarmistök sem gerð hafa verið á Íslandi verði frumvarpið að lögum. Þetta er líklega eitt versta ef ekki versta frumvarpið sem ég hef séð síðan ég steig hingað inn fæti og ég skora á alla þá þingmenn sem vilja færa (Forseti hringir.) Ísland aftur til nútímans að gera allt sem þeir geta til þess að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.



[12:43]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma með tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Hverjar telur þingmaðurinn líkurnar á því að einhverjir aðilar láti reyna á rétt sinn varðandi það að fá að nota aflandskrónur hér á landi þar sem það þarf dómsúrskurð og dómsmál til þess að rjúfa þá þagnarskyldu sem Seðlabankinn hefur sett sér varðandi þær upplýsingar?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja þingmanninn út í 13. gr., n-lið, þar sem hin svokallaða 80% regla er. Í reglum um gjaldeyrismál og nú í ofangreindu frumvarpi segir m.a. að fyrirtæki sem hafa yfir 80% af tekjum og 80% af gjöldum sínum erlendis geti fengið undanþágu frá reglunum sem nú er verið að breyta í lög. Hver er skoðun þingmannsins á því og um hvaða fyrirtæki er hugsanlega að ræða sem þetta undanþáguákvæði nær yfir?

Fram kemur í umsögn Viðskiptaráðs Íslands að það sé hvati fyrir fyrirtæki til að breyta rekstri sínum og að þeir sem hafa hærri tekjur erlendis en 80% auki vægi erlends rekstrar á kostnað rekstrar hér á landi þar sem kostnaður viðkomandi fyrirtækis færist þá í auknum mæli út fyrir landsteinana vegna þessara reglna. Viðskiptaráð segir að með þessum reglum sé ekki aðeins verið að draga úr erlendri fjárfestingu hér á landi heldur beinlínis að hvetja fyrirtæki til að fara úr landi með rekstur sinn til að uppfylla þetta skilyrði til að fá undanþágu.



[12:45]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað stórar spurningar sem hv. þingmaður beinir til mín en sú fyrri laut að því hvort ég teldi að einhverjir aðilar mundu láta reyna á rétt sinn gagnvart þeim reglum sem við fjöllum um.

Það finnst mér blasa við. Það blasir við að þeir sem hafa hagsmuni af því að flytja fjármagn sitt til landsins sem þeir hafa komist yfir með löglegum hætti hljóta að gera ágreining um að þeim sé bannað það. Í gjaldeyrishöftum felst takmörkun eða skerðing á eignarrétti manna, rétti manna til þess að ráðstafa eigum sínum með þeim hætti sem þeir vilja. Að sama skapi felst í gjaldeyrishöftum skerðing á atvinnufrelsi manna. Hvort tveggja er varið af ákvæðum stjórnarskrár og það þarf mikið til að koma til að þau réttindi sem þar eru tryggð séu skert.

Eins og fram kom í máli mínu í gær, og kemur auk þess fram í fræðiritgerð sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður skrifaði í Lögmannablaðið að ég hygg í desember 2010, voru reglur Seðlabankans eins og þær voru settar ekki birtar í samræmi við ákvæði laga þar um og ákvæði 29. gr. stjórnarskrárinnar fyrr en eftir 26. október 2010. Þeir sem þurftu að sæta gjaldeyrishöftunum og þeim reglum sem þau hvíldu á á þeim tíma og urðu fyrir tjóni kunna að vera í þeirri stöðu að eiga einhvers konar rétt gagnvart Seðlabankanum eða íslenska ríkinu fyrir þá skerðingu (Forseti hringir.) sem reglurnar hafa falið í sér, jafnvel um tjón, þannig að það blasir við.



[12:47]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að tíminn hleypur hratt í þessum andsvörum en þingmaðurinn svaraði ekki spurningu minni um 80% leiðina, hvaða fyrirtæki gætu hugsanlega fallið undir þá undanþágu sem felst í n-lið 13. gr. Hv. þingmaður kemur kannski að því síðar.

Hefur þingmaðurinn eitthvað hugsað það sem hann fór yfir í ræðu sinni, þ.e. hvers vegna aðila hér á landi greinir svo á um leiðir til afnáms haftanna? Hér er lagt til með lagasetningu að lögleiða reglur Seðlabankans til 31. desember 2015 á meðan aðrir aðilar í samfélaginu telja að hægt sé að létta höftunum á sex til níu mánuðum. Hvers vegna er himinn og haf á milli þessara aðila? Er ekki hægt að fara einhverja aðra leið og taka tillit til aðstæðna? Hverja telur þingmaðurinn vera ástæðu Seðlabankans fyrir því að fara þá grófu leið sem er nú til umfjöllunar á Alþingi í stað þess að grípa (Forseti hringir.) í þær hjálparhendur sem eru úti í samfélaginu og gera þetta á mun skemmri tíma?



[12:49]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðari spurninguna sem hv. þingmaður varpaði fram í fyrra andsvari sínu varðandi 80% regluna í n-lið 13. gr. í frumvarpinu verð ég að segja að ég hef svo sem ekki kortlagt hvaða fyrirtæki það eru sem falla undir það ákvæði. Hins vegar er þar um að ræða undanþáguheimild sem er mjög hættuleg og veldur a.m.k. hættu á því að í kerfinu þrífist spilling.

Ég er sammála þeirri túlkun hv. þingmanns að með því að útfæra regluna með þessum hætti felist í því hvati fyrir íslensk fyrirtæki til þess að afla sér tekna erlendis frekar en hérlendis. Þar með er ríkisvaldið með beinum hætti að flæma rekstur íslenskra fyrirtækja, a.m.k. að hluta, til útlanda og verður þar af leiðandi af skatttekjum og starfsemi sem (Forseti hringir.) annars mundi þrífast hér á landi. Ég finn bara ekkert skynsamlegt við þetta allt saman.



[12:50]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein helstu rök stjórnarliða fyrir því að nauðsynlegt sé að festa í lög framkvæmd gjaldeyrishaftanna eru þau að hætta sé á að refsiákvæðin standist ekki fyrir dómstólum. Ég vil því, virðulegi forseti, leita álits hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á þeim rökum vegna þess að þau hafa vafist svolítið fyrir mér.

Ég geri mér grein fyrir að við þurfum einhvers konar gjaldeyrishöft og er ekki tilbúin að aflétta þeim alveg strax eins og margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gefið í skyn að sé nauðsynlegt. Þess vegna er ég ekki búin að móta skoðun mína á því hvort ég sitji hjá við afgreiðslu þessa frumvarps eða ekki og þá með þeim rökum að nauðsynlegt sé að hafa það á hreinu hvað er löglegt og hvað ólöglegt varðandi framkvæmd haftanna.

Frú forseti. Ég ætla jafnframt að spyrja hv. þingmann út í stefnu Sjálfstæðisflokksins um lausn á þessari gjaldmiðilskreppu af því að hún er ekki alveg ljós í mínum huga. Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins varðandi afnámið? Á að leyfa frjáls viðskipti á morgun? Ef við viljum fara þannig að, hvernig á að koma í veg fyrir gengisfall krónunnar, sem hv. þm. Pétur Blöndal viðurkenndi að mundi sennilega gerast?

Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að slíkt gengisfall mun þýða aukna verðbólgu og aukin verðbólga fer inn í verðtryggð fasteignalán og slíkt gengisfall mundi þá þýða mikla erfiðleika fyrir skuldsett heimili.



[12:52]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því einmitt að stjórnarliðar og fylgismenn frumvarpsins hafa haldið því fram að nauðsynlegt sé að lögfesta reglur um gjaldeyrishöft vegna þess að refsiákvæði reglnanna sem Seðlabankinn setti standist ekki, þau haldi ekki fyrir dómi muni á þau reyna í málum þar sem krafist er refsingar yfir mönnum sem eru taldir hafa brotið gegn gjaldeyrishaftareglum Seðlabankans.

Þetta er alveg rétt. Það er auðvitað vandinn við þær reglur sem Seðlabankinn setti. Seðlabankinn setti reglur um hvernig þessum málum ætti að haga og í þeim reglum eru refsiákvæði. En það vill nú þannig til að þó svo að Seðlabankinn sé merkilegur og sá sem þar stýrir núna málum telji sig hafa mikil völd fer Seðlabankinn ekki með lagasetningarvald í þessu landi. Hann hefur engar heimildir að íslenskum stjórnlögum til að setja reglur sem fela í sér refsiheimildir, það er annarra að gera það. Seðlabankinn er ekki ríki í ríkinu sem fer með eitthvert reglusetningarvald sem byggt verður á fyrir dómstólum. Þess vegna eru menn að reyna að festa þessi ákvæði í lög.

Það er einmitt þetta ákvæði sem Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður bendir á í fræðigrein sinni sem ekki hefur verið neitað, þ.e. að refsiákvæði reglna Seðlabankans voru í fyrsta lagi óskýr og óljós og í öðru lagi ekki réttilega birt og þar af leiðandi yrði ekki á þeim byggt. Þetta er leki sem verið er að reyna að setja undir í þessu máli.

Hv. þingmaður segist ekki vilja aflétta gjaldeyrishöftunum og hefur áhyggjur af krónunni. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann á móti: Hefur hún kynnt sér þær tillögur sem Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur sett fram í grein í Vísbendingu (Forseti hringir.) sem felur í sér afléttingu haftanna á sex til níu mánuðum? (Forseti hringir.) Telur hún að sú aðferðafræði sem þar kemur fram sé tæk?



[12:55]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef kynnt mér tillögu Páls Harðarsonar um afnám gjaldeyrishaftanna. Hann kom m.a. á fund hv. efnahags- og skattanefndar og lýsti þeirri aðferðafræði sem hann vildi að yrði notuð við afnám haftanna. Ég er hins vegar ekki jafnbjartsýn á stöðu efnahagsmála og Páll Harðarson og hef áhyggjur af því sem ég fjallaði um áðan að gengi krónunnar muni falla og að jafnframt sé nauðsynlegt að afnema verðtrygginguna til að koma í veg fyrir aukna skuldsetningu heimila og fyrirtækja en það er ekki inni í áætlun hans.

Ég vil því spyrja: Er það stefna Sjálfstæðisflokksins að skattleggja á einhvern hátt útstreymi til að koma í veg fyrir gengisfall og setja þak á verðtrygginguna eða jafnvel afnema hana á því tímabili sem við erum að afnema höftin?



[12:56]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem ekki verið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, ef ég man hana rétt, að skattleggja útstreymi. En menn hljóta auðvitað að skoða allar leiðir sem eru í stöðunni ef þær eru til þess fallnar að afnema gjaldeyrishöftin. Það sem við viljum númer eitt, tvö og þrjú er að losna við þessi gjaldeyrishöft vegna þess að þau eru gríðarlega skaðleg bæði fyrir einstaklinga og fyrirtækin í landinu.

Til að það sé hægt að gera kem ég að annarri spurningu sem ég átti eftir að svara og hv. þingmaður varpaði hér fram. Það þarf náttúrlega einhverja alvöruefnahagsáætlun og aðgerðaáætlun. Það þarf að keyra hagkerfið í gang til að hér verði framleiðsla og tekjur og eitthvað fari að gerast til þess líka að við fáum einhverja raunverulega mælingu á styrk krónunnar.

Ég er ekkert mjög svartsýnn á gengi krónunnar, ég held að það geti ýmislegt gerst ef gjaldeyrishöftin yrðu tekin af á morgun. (Forseti hringir.) En ég verð að segja það eins og er að mér finnst það vera einnar messu virði fyrir íslensk stjórnvöld að skoða þær hugmyndir sem fram hafa komið frá mönnum sem þekkja vel til, eins og Páli Harðarsyni, og taka þær til skoðunar. Það hefur því miður ekki verið gert vegna þess að ríkisstjórnin veit miklu betur og skilur miklu betur en allir aðrir.