139. löggjafarþing — 159. fundur.
fjármálafyrirtæki, 2. umræða.
stjfrv., 696. mál (eigið fé, útlánaáhætta o.fl.). — Þskj. 1215, nál. 1664, brtt. 1665.

[23:05]
Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 1664, áliti 1. minni hluta viðskiptanefndar. Undir álitið skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Eygló Harðardóttir, Björn Valur Gíslason og Margrét Tryggvadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Megintilgangur þessa frumvarps er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar 2009/111/EB/ að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringar. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að allmörg ákvæði þessarar tilskipunar munu verða innleidd með reglum Fjármálaeftirlitsins en ekki með lögum og í fylgiskjali við frumvarpið er yfirlitstafla yfir ákvæði tilskipunarinnar um hvernig þau verða innleidd.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á 2. gr. laga um fjármálafyrirtæki þar sem er að finna skýringar á hugtökum. Helsta breytingin þar er skilgreining á hugtakinu „verðbréfun“.

Fyrir þingtíðindi, frú forseti, vil ég leyfa mér að lesa þá skýringu hér en hún hljóðar svo:

„Með verðbréfun er átt við viðskiptasamning eða kerfisfyrirkomulag þar sem lánaáhætta tengd ákveðinni kröfu/kröfusafni er lagskipt í hluta (e. tranches) með þeim hætti að greiðslur samkvæmt samningnum eða kerfisfyrirkomulaginu eru háðar afkomu af kröfu/kröfusafni og forgangsröðun laganna ákvarðar dreifingu taps á líftíma viðskiptasamningsins eða kerfisfyrirkomulagsins.“

Lagt er til að við lög um fjármálafyrirtæki bætist fjórar nýjar greinar þar sem kveðið er á um skiptingu áhættu við útgáfu fjármálagerninga milli útgefanda og fjárfestis. Fjallað er um það hvar áhættan liggur við útreikning á eiginfjárþörf þegar um ræðir verðbréfun í ákveðnum tilvikum, og mælt er fyrir um að ef þau fjármálafyrirtæki sem talin eru upp í 1. mgr. eru hvorki útgefandi, umsýsluaðili né upphaflegur lánveitandi beri þau ekki útlánaáhættu í formi verðbréfunar nema verðbréfunin uppfylli reglur Fjármálaeftirlitsins.

Í b-lið 3. gr. er fjallað um upplýsingaskyldu varðandi verðbréfun.

Í 1. mgr. c-liðar 3. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli setja nánari reglur um verðbréfun og í 2. mgr. er mælt fyrir um að ef þær eru brotnar beri Fjármálaeftirlitinu að krefjast að minnsta kosti 250% hækkunar á áhættuvog við eiginfjárútreikning. Þá er í d-lið kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli einu sinni á ári birta niðurstöður athugana sinna á framfylgni reglna þessara tveggja liða sem ég hér nefndi.

Helsta breytingin, frú forseti, sem felst í 4. gr. frumvarpsins, er að felldur skuli brott 3. málsliður 1. mgr. 30. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að samtala fyrir stórar áhættur megi ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni. Þetta ákvæði var nokkuð rætt í nefndinni. Fram kom að ekki hefði gert gagn við mat á samþjöppunaráhættu að mælt væri fyrir um að samtala fyrir stórar áhættur mætti ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni. Reyndar kom fram fyrir nefndinni að samanlögð áhætta í bankahruninu hefði kanski ekki verið nema um 200%. Í stað þess að nema ákvæðið á brott, eins og lagt er til í frumvarpinu, leggur 1. minni hluti til að hlutfallið verði lækkað um helming og verði 400%, sem sé að samtala fyrir stórar áhættur megi ekki fara yfir 400% af eiginfjárgrunni.

Frú forseti. Nokkuð var rætt um hæfisskilyrði því að með lögum nr. 75/2010 voru gerðar allmiklar breytingar á 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki, um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja. Meðal annars var lögfest að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja og annarra eftirlitsskyldra aðila mættu ekki vera starfsmenn, lögmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða félaga í nánum tengslum. Því er mælt fyrir um fortakslaust bann við því að lögmenn sem sitja í stjórn fjármálafyrirtækis sinni lögmannsstörfum fyrir aðra eftirlitsskylda aðila. Telja verður að ekki sé þörf á svo víðtæku banni hvað lögmenn varðar sem eiga sæti í stjórn fjármálafyrirtækja og á við um starfsmenn og endurskoðendur þar sem hættan á hagsmunaárekstrum er minni í þeim tilvikum þegar lögmaður starfar fyrir annan eftirlitsskyldan aðila. Því er lagt til í 5. gr. frumvarpsins að lögmönnum sem eiga sæti í stjórnum fjármálafyrirækja verði óheimilt að sinna lögmannsstörfum fyrir önnur fjármálafyrirtæki í stað þess að mæla fyrir um bann við störfum fyrir aðra eftirlitsskylda aðila, en með eftirlitsskyldum aðilum er átt við alla þá sem heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Það var nokkuð rætt um það í nefndinni hvort útvíkka ætti þetta ákvæði og það sjónarmið kom fram að það ætti að gera það að skilyrði að hagsmunaárekstrar væru sannanlegir eða líklegir jafnframt því sem rætt var um það hvort ákvæðið næði til erlendra stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum. Fyrsti minni hluti leggur ekki til breytingu á 5. gr. en beinir því til efnahags- og viðskiptaráðherra að farið verði heildstætt yfir hæfisreglur eftirlitsskyldra aðila með hagsmunaaðilum. Þetta eru tilmæli til ráðuneytisins.

Frú forseti. Með lögum nr. 75/2010 var enn fremur lögfest ný málsgrein þar sem kveðið er á um að í ársreikningi fjármálafyrirtækis skuli tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hlunnindi til stjórnarmanns og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis og einnig heildargreiðslur til lykilstarfsmanna fjármálafyrirtækis. Í því frumvarpi sem við hér ræðum í 7. gr. er lagt til að sama regla eigi við um lykilstarfsmenn og stjórnarmenn og framkvæmdastjóra þannig að tilgreindar verði í ársreikningi launagreiðslur þeirra og hlunnindi. Nokkuð var rætt um það í nefndinni hvað réttlætti það að birta opinberlega upplýsingar um launagreiðslur umræddra lykilstarfsmanna. 1. minni hluti telur að ekki hafi tekist að sýna fram á nauðsyn þess að greinin nái fram að ganga og leggur til að hún falli brott.

Frú forseti. Það var talsvert rætt um refsiákvæði eða viðurlagaákvæði þessara laga því að í 8. og 9. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót við þær greinar sem varða stjórnvaldssektir annars vegar, sem er 110. gr., og hins vegar refsingu, þ.e. 112. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Í 8. og 9. gr. þessa frumvarps er lögð til viðbót við þessar greinar í þá veru að Fjármálaeftirlitinu verði ekki aðeins heimilt að sekta eða refsa þeim sem hafa brotið gegn ákvæðum laganna heldur einnig hafi viðkomandi brotið gegn reglum sem settar eru á grundvelli laganna. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður til dæmis kveðið á um það í 110. gr. laganna að Fjármálaeftirlitið geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn þeim ákvæðum laganna sem þar eru talin upp og eftir atvikum reglum settum á grundvelli þeirra. Við umfjöllun um málið var gerð athugasemd við orðalagið „eftir atvikum“ og það talið geta falið í sér hættu á því að Fjármálaeftirlitið teldi sig hafa frjálst val um setningu reglna sem geti varðað viðurlög. Til að taka af allan vafa leggur 1. minni hluti til að orðin „eftir atvikum“ falli brott.

Frú forseti. Í nefndaráliti er rifjað upp að gerðar voru samræmdar breytingar á viðurlagaákvæðum um efnahagsbrot, með lögum nr. 55/2007 og 52/2007, í kjölfar skýrslu nefndar sem til þess var skipuð. Fram kom, við umfjöllun um málið í nefndinni, að tilefni væri til að fara á ný yfir viðurlagakafla laga um fjármálafyrirtæki og eru það önnur tilmæli sem fram koma í þessu nefndaráliti. Í nefndarálitinu er vísað til 69. gr. stjórnarskrárinnar þar sem í 1. mgr. felst meðal annars að refsiverðri háttsemi skuli lýst í settum lögum og að í lögum beri að tilgreina með skýrum og fyrirsjáanlegum hætti hvaða háttsemi varðar refsingu. Í ljósi aukinna heimilda Fjármálaeftirlitsins og mikilla breytinga á fjármálamarkaði frá setningu laga nr. 55/2007 hvetur 1. minni hluti viðskiptanefndar efnahags- og viðskiptaráðherra til þess að láta fara fram úttekt á viðurlagakafla laga um fjármálafyrirtæki, en þær eru í 110. og 112. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem er að finna á þingskjali 1665, og ég hafði áður gert grein fyrir því hverjir rita undir þetta nefndarálit ásamt þeirri sem hér stendur. Leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem þar eru.



[23:16]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að fara yfir í títtnefndar tilskipanir. Hv. formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fór nokkuð ítarlega yfir þær breytingar sem þarna er um að ræða. Ég ætla ekki að endurtaka það allt saman enda er engin ástæða til þess. Það er hins vegar með þetta mál eins og það sem við ræddum áðan, þ.e. ársreikningana, þessi mál tengjast því að við viljum bæta regluumhverfið og það umhverfi sem er hjá fjármálafyrirtækjum í landinu. Hér er ýmislegt sem er til bóta og ég ætla að tilgreina það sérstaklega.

Ég vil vekja athygli á því að núna verður sérstaklega gerð grein fyrir því í ársreikningi hvað liggur til grundvallar kaupaukagreiðslum eða kauprétti, eða eins og maður segir á íslensku; hvernig á að reikna út. Þar er hugsunin sú t.d. að ef menn gera eins og mér skilst að hafi verið gert fyrir hrun, þ.e. að borga starfsmönnum jafnvel kaupauka fyrir að veita lán — menn voru á prósentum við að lána; því hærra lán sem menn veittu, því hærri laun fengu þeir, sem er einn galnasti hvati sem ég hef nokkurn tímann heyrt um — verður það tekið fram í ársreikningi. Þá ættu vonandi öll viðvörunarljós að lýsa.

Einnig eru tilgreindar ýmsar launagreiðslur. Það verður þó vonandi ekki þannig að menn forðist vera tilgreindir, þ.e. að þeir vilji ekki vera lykilstarfsmenn og stjórnendur vegna þess að þá verði upplýst um launagreiðslur þeirra og þeir sæki þess vegna í önnur störf. Þá er nú til lítils unnið.

Síðan er eitt atriði sem hv. þingmaður fór yfir og taka átti út, þ.e. að ekki ætti að vera meiri áhætta en 800% af eiginfjárgrunni. Í stað þess að taka ákvæðið burtu eins og lagt er til í frumvarpinu, leggur 1. minni hluti til að hlutfallið lækki um helming og verði 400%.

Það má kannski segja, og það er allt saman rétt hjá hv. þingmanni, að það sé alltaf verið að bíða eftir heildarendurskoðuninni. En það breytir því ekki að við erum alltaf að breyta lögunum en tökum ekki á stóru þáttunum eins og nauðsynlegt er. Það er svolítið varhugavert að vera alltaf í einhverjum bútasaumi en klára ekki stóra málið sem snýst í þessu tilfelli bara um áhættuna. Hér um að ræða samþjöppunaráhættu og passa þarf að áhættan fari ekki yfir 800% af eiginfjárgrunni, það verði 400%. Við erum ekki búin að skoða það nægilega vel. Það kemur nákvæmlega inn á það sem við ræddum áðan, sem er kjarni málsins, þ.e. lykiltölur, ársreikningar og það sem menn nota til viðmiðunar í rekstri. Mikilvægt er að það gefi sem gleggsta mynd af starfsemi félagsins af áhættu sem leynist í starfsemi félaga.

Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal í umræðunni á undan um að það er eitthvað sem ekki þolir bið.

Þrátt fyrir að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að við erum búin að breyta mörgum af lögunum um fjármálafyrirtæki eigum við eftir að taka á stórum málum eins og þessum. Við eigum eftir að taka á því hvort þetta sé skynsamlegt og hvernig eigi að skipta upp í fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Við eigum eftir að fara yfir það og ganga frá lagasetningu um hámarkseign í fjármálafyrirtækjum sem mikið hefur verið rætt eftir hrunið. Ég nefni það sem ég man eftir í svipinn. Það er örugglega eitthvað sem ég gleymi í þessum efnum, enda hef ég þá afsökun, þótt ég sé nú ekkert ofsalega kvöldsvæfur maður, að ég er búinn að vera í þingstörfum frá því snemma í morgun og klukkan er að verða hálftólf nú þegar við ræðum þessi mikilvægu mál.

Í örstuttu máli tel ég að það sé margt gott í þessu máli, ég held ekki neinu öðru fram. En við þurfum að fara yfir ansi mikilvæga þætti málsins. Ég held að sé skynsamlegt hjá 1. minni hluta að taka þetta ekki út eins og lagt var upp með í frumvarpinu heldur að breyta því eins og kemur fram í greinargerðinni og hv. formaður nefndarinnar fór ágætlega yfir. En betur má ef duga skal. Ég hef ekki vissu fyrir því að við séum búin að girða fyrir þær hættur sem ollu okkur vandræðum og eru hluti af ástæðunni fyrir að hér varð bankahrun eins og í öðrum löndum. Við þurfum því að gera betur hér.

Ég hef áhyggjur af því að við vísum alltaf í heildarendurskoðunina sem ég veit ekki hvort er yfirleitt á leiðinni. Við erum búin að ýta málunum á undan okkur frá því að við byrjuðum að fjalla um þau eftir hrun. Það dugar ekki endalaust því að meðan við gerum það ýtum vandanum á undan okkur þó svo að ekkert bendi til þess á þessari stundu að nýtt bankahrun verði hér einn, tveir og tíu, eða annars konar hrun, þó að ástandið sé mjög alvarlegt á erlendum mörkuðum. Það bárust fréttir af því í dag að ótrúlegir hlutir áttu sér stað. Til dæmis tóku Svisslendingar upp á því að tengja svissneska frankann við evruna til að hjálpa til í gjaldeyrismálunum, og ýmislegt annað hefur gerst sem ég ætla ekki að fara yfir núna. Það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og það kemur okkur öllum við. Það er mjög brýnt fyrir okkur að klára þau mál sem ég nefndi áðan.



[23:24]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður allt að því skammast sín fyrir að taka þátt í umræðum svona seint því að það tefur umræðuna að sjálfsögðu. En það er mikilsvert mál sem við ræðum nú. Við ræðum um lög um fjármálafyrirtæki, hvorki meira né minna, nokkuð sem stendur undir atvinnulífinu og fólk treystir fyrir innlánum sínum, sparnaði sem það er búið að klóra undan blóðugum nöglunum í allri kreppunni, jafnvel fólk sem er með lágar tekjur. Þess vegna skiptir verulegu máli, jafnvel þótt klukkan sé orðin svona margt, að menn ræði það pínulítið.

Hér er talað um eiginfjárþátt A. Í grunninn er það hlutafé sem félagið á. Ég ræddi áðan um það hvernig fyrirtæki geti átt hvert í öðru og búi til eigið fé. Ég er búinn að sýna fram á það með dæmum hvernig hægt sé að búa til eigið fé. Það var búið til eigið fé. Þetta er andsvar við því, hv. þingmaður sem ræðir hér um þessa hluti.

Ég spyr hann að því hvort hann hafi áttað sig á því að þessi 800% sem breyta á í 400% af eiginfjárgrunni, eru prósenta af þeim eiginfjárgrunni sem byggir á eigin fénu sem hægt er að búa til. Þess vegna er svo mikilvægt að menn fari í gegnum það hvernig þetta eigið fé er virkilega metið. Eru þetta lánveitingar? Telst lán sem fyrirtækið veitir til einhvers fyrirtækis í Lúxemborg eða annars staðar, til eigin fjár sem hefur svo farið í hring og endað sem hlutafélag í viðkomandi fyrirtæki? Það er allt saman tómt mál að tala um á meðan menn vita af veilunni og taka ekki á henni. Þess vegna er skrýtið að tala um lækkun úr 800% niður í 400% þegar það er af einhverjum grunni sem er hugsanlega ekki til. Í hruninu var þetta eigið fé sannarlega einskis virði.



[23:26]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi ætlaði ég ekki og mun ekki skamma hv. þm. Pétur H. Blöndal fyrir að ræða þessi mikilvægu mál. Það skiptir í rauninni engu máli hvað klukkan er, það er afskaplega mikilvægt að fara yfir þau. Af hverju er hv. þm. Pétur Blöndal að skamma mig fyrir það sem ég lagði áherslu á áðan? Við erum ekki á þessu nefndaráliti. Ég lagði áherslu á að þetta væri eitthvað sem við ættum eftir að fara yfir. Það sýnir veikleikann í þessu frumvarpi eins og þeim frumvörpum sem við höfum rætt. Ég ætlaði bara að taka undir með því sem hv. þingmaður talaði um og ég hef margoft talað um. Ég sagði að það væru margir mjög stórir þættir sem við ættum eftir að fara yfir.

Bankahrunið varð á Íslandi og í öðrum löndum í október 2008. Núna er, ef ég hef ekki rangt fyrir mér, september 2011 og við erum ekki enn þá búin að taka á þeim málum sem við erum öll sammála um að sé mjög mikilvægt að taka á. Þótt það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að búið er að breyta mjög miklu höfum við kannski tekið á því sem skiptir minna máli og skilið eftir stóru málin. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég er ekkert stóryrtur vegna þess að ég held og vona að við séum sammála, í það minnsta um markmiðin. Ég held að það skipti máli að við ræðum þetta málefnalega og ég er ekki að ásaka einn eða neinn. Ég hef bara bent á það frá því að við byrjuðum að fara í lögin um fjármálafyrirtæki að við þyrftum að taka á þessum stóru málum, m.a. því sem hv. þm. Pétur Blöndal vísar í, en líka annað (Forseti hringir.) sem þarf að laga.