140. löggjafarþing — 6. fundur.
tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands, ein umræða.
skýrsla forsætisn., 3. mál. — Þskj. 3.

[14:46]
Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti vill gera athugasemdir við það þegar beðið er um andsvar áður en ræða er hafin. Ræða verður að hefjast áður en menn geta óskað eftir andsvari. Hef ég nú ræðu mína.

Frú forseti. Forsætisnefnd Alþingis leggur fram á þskj. 3 skýrslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Meiri hluti Alþingis samþykkti þann 24. mars sl. ályktun um skipun stjórnlagaráðs sem hefði það verkefni að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Í ályktun Alþingis um skipun stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir að ráðið skilaði tillögum sínum til Alþingis fyrir lok júní 2011. Jafnframt var stjórnlagaráði heimilt að óska eftir því við forseta Alþingis og forsætisnefnd að starfstími ráðsins yrði framlengdur um allt að einn mánuð.

Með bréfi, dagsettu 20. maí 2011, óskaði ráðið eftir framlengingu á starfstíma sínum og á fundi forsætisnefndar 26. maí var fallist á erindi ráðsins. Stjórnlagaráð afhenti síðan forseta Alþingis tillögur sínar 29. júlí sl. Á fundi forsætisnefndar 24. ágúst sl. var ákveðið að leggja tillögur stjórnlagaráðs fyrir Alþingi í formi skýrslu þar sem með því fælist ekki efnisleg afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta þeirra af hálfu þeirra sem flyttu málið.

Í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir eru lagðar fram tillögur stjórnlagaráðs ásamt skýringum sem þeim fylgja. Jafnframt er í skýrslunni gerð grein fyrir aðdraganda að skipun stjórnlagaráðs, störfum ráðsins og áætlun um þinglega meðferð málsins. Ég mun í máli mínu víkja sérstaklega að hinni þinglegu meðferð málsins.

Ég vil fyrst nefna að samkvæmt gildandi stjórnarskrá er það Alþingi eitt sem getur gert breytingar á stjórnarskrá landsins. Alþingi getur því samkvæmt stjórnarskránni ekki framselt löggjafarvald sitt með bindandi hætti og var stjórnlagaráði í samræmi við ákvæði stjórnarskrár falið ráðgefandi hlutverk við Alþingi eins og segir í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Ljóst er því að um meðferð málsins á Alþingi fer samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis og nánari samþykktum sem Alþingi kann að gera um málsmeðferðina.

Það er tillaga forsætisnefndar að þegar umræðu um skýrsluna lýkur verði henni vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar. Vinna þingsins við málið verður því einkum á hendi þessarar nýju fastanefndar Alþingis. Venja er að þegar máli hefur verið vísað til fastanefndar sé vinna málsins á forræði nefndarinnar. Nefndin mun væntanlega gera verkáætlun um athugun málsins í samræmi við ný vinnubrögð nefnda.

Samkvæmt nýjum ákvæðum þingskapa er einnig gert ráð fyrir því að hver og einn nefndarmaður verði virkari í nefndarstarfinu en verið hefur þar sem meginþungi alls nefndarstarfs hefur hvílt á herðum formanns og hann verið allt í öllu í nefndarstarfinu. Hér á ég við þau ákvæði að framsögumenn séu settir til verka um leið og máli er vísað til nefndar. Ég tel að þetta kerfi geti virkað vel í stórum málum eins og því sem hér er á ferðinni, að nefndarmenn skipti einstökum hlutum þeirra á milli sín. Ég gæti þannig séð það fyrir mér að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skiptu allir með sér verkum við yfirferð stjórnarskrármálsins þannig að hver og einn þeirra bæri ábyrgð á sérstökum köflum stjórnarskrárfrumvarpsins, settu sig þá sérstaklega vel inn í þá þætti og bæru ábyrgð á því undir yfirstjórn formanns nefndarinnar að vel og faglega væri fjallað um þann þátt, álita sérfræðinga leitað sem og almennings o.s.frv. Þannig bæri hver og einn nefndarmaður sérstaka ábyrgð gagnvart nefndinni og hefði hlutverk við afgreiðslu málsins í fyllingu tímans.

Ég vil leyfa mér að minna á að ég hef áður lagt opinberlega á það ríka áherslu að mikilvægt sé að umfjöllun nefndarinnar verði eins ítarleg og opin og framast er kostur. Að gefnu tilefni minni ég á að bæði stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð hafa lokið störfum. Engu að síður hef ég lagt ríka áherslu á það og nefnt opinberlega að æskilegt sé að nefndin kalli til fundar við sig ýmsa þá sem unnið hafa að málinu á fyrri stigum, þ.e. ef þeir hafa áhuga á því að koma að athugasemdum, útskýringum eða sinna annarri vinnslu málsins í nefndinni. Sérstaklega tel ég rétt að kalla fyrir nefndina fulltrúa úr stjórnlagaráði enda hafa þeir lýst yfir áhuga á því að koma að áframhaldandi vinnslu málsins.

Einnig er mikilvægt að nefndin kalli fyrir sig sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og aðra þá sem nefndin telur gagnlegt að hafa samráð við um meðferð málsins. Þá hef ég einnig hvatt til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti til almennings með auglýsingu um umsagnir líkt og gert var við breytingar á stjórnarskrá á þinginu 1994–1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður í heild sinni.

Ég tel einnig að sú umræða sem nú er að hefjast í þinginu um tillögur stjórnlagaráðs eigi eftir að geta verið veigamikið innlegg í vinnu nefndarinnar. Það er því mikilvægt að hér fari fram málefnaleg umræða um tillögurnar þannig að hún megi nýtast nefndinni við frekari vinnslu málsins.

Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um tillögur stjórnlagaráðs kemur það í hennar hlut að gera tillögu til Alþingis um afgreiðslu málsins og nánari meðferð þess, m.a. hvernig standa skuli að flutningi frumvarps um breytingar á stjórnarskrá og hvernig háttað verði aðkomu almennings að endanlegri afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Alþingi hefur þegar ákveðið að tillögur stjórnlagaráðs fari ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umfjöllun þingsins um tillögurnar hefst og vísa ég í því sambandi til atkvæðagreiðslu um það efni þegar ályktun um skipun stjórnlagaráðs var samþykkt 24. mars sl. Ýmsar leiðir koma þó til greina til að tryggja að almenningur fái tækifæri til að segja álit sitt á stjórnarskrárbreytingunum áður en þær öðlast gildi.

Það er orðin föst venja á Alþingi að breytingar á stjórnarskrá eru ekki afgreiddar fyrr en við lok kjörtímabils. Það byggist á því að þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á stjórnarskrá ber að rjúfa Alþingi og stofna til almennra þingkosninga. Í ljósi þessa er þess varla að vænta að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá Íslands verði tekið til lokameðferðar á Alþingi fyrr en vorið 2013 þegar kjörtímabilinu lýkur. Þetta gefur hins vegar Alþingi tækifæri til að fjalla af vandvirkni um tillögur stjórnlagaráðs. Ég hvet því hv. alþingismenn til að nota vel næsta eina og hálfa árið til að ljúka vinnu við stjórnarskrá sem við Íslendingar verðum ekki aðeins sáttir við, heldur stoltir af.



[14:55]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir framsögu í þessu afar einkennilega máli. Hér stöndum við þingmenn, það er haust 2011 en boðaðar stjórnarskrárbreytingar eru að vori 2013 þegar fyrirhugaðar eru kosningar til Alþingis.

Ég lýsi því yfir að sú vinna sem verið er að setja af stað í þinginu og í nýrri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er þar með til einskis orðin vegna þess að frumvarpið er ekki hægt að afgreiða fyrr en búið er að boða til þingkosninga. Ég var farin að halda að við tækjum þetta fyrir á þessu þingi og að ríkisstjórnin ætlaði að boða til þingkosninga fyrr en ætla mætti. Á bls. 224 í þessu riti þar sem talað er um minnisblað forseta Alþingis til forsætisnefndar um þinglega meðferð segir, með leyfi forseta:

„Skýrsla forsætisnefndar verði lögð fram við upphaf nýs þings 1. okt. nk. Forseti telur ekki heppilegt að leggja slíka skýrslu fram á septemberfundum þingsins þar sem þingmálið félli niður við upphaf nýs þings 1. okt. auk þess sem varla gæfist þá sá tími til umræðu um málið sem þörf er á.“

Með þessum ummælum sínum hefur forseti Alþingis beinlínis sjálfur bent á að hér sé verið að boða til kosninga á þessum þingvetri með þeim rökum að ekki hafi verið hægt að taka málið inn á septemberþinginu. Mig langar því til að spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttir: Er verið að boða til kosninga með því að leggja þetta mál fram núna vegna þessara ákvæða sem hún taldi upp um þingkosningar? Eins og kom fram í upphafi máls þingmannsins getur Alþingi eitt breytt stjórnarskrá og enginn annar.



[14:57]
Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var sérkennilegt andsvar. Við erum ekki að ræða hér frumvarp, heldur skýrslu. Skýrslan verður send til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til vinnslu. Hún mun síðan vinna úr þeim tillögum sem stjórnlagaráð hefur lagt fram og að þeirri vinnu lokinni mun hún án efa leggja fram frumvarp sem mun fá þinglega meðferð í þinginu. Það tekur tíma.

Eins og ég sagði áðan legg ég ríka áherslu á að menn vandi til verka, hafi ferlið opið, nýti ný þingsköp Alþingis til að vinna þetta vel í samræmi við það sem felst í verkefnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem er ætlað að fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Að lokinni þeirri vinnu munu án efa koma inn í þingið mál eða aðrar tillögur. Málið verður á forræði nefndarinnar frá því að við ljúkum þessari umræðu sem fer hér fram núna og síðan eigum við eftir að sjá niðurstöðu nefndarinnar.

Ég lagði til ákveðnar aðferðir við að vinna þetta í samræmi við ný þingsköp sem allir þingmenn samþykktu samhljóða hér í fyrravor og ég vonast til að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi kynnt sér þannig að hún átti sig á hvernig þessum vinnubrögðum verður háttað í nefndinni.



[14:59]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég sé ekki búin að kynna mér málin vel þegar ég tala úr ræðustól Alþingis. Ég sit líka í þessari nýju stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að það sé alveg á hreinu.

Það breytir því ekki að með breyttum þingsköpum var opnað á þá heimild að senda skýrslu til nefnda eins og nú hefur verið gert með þessu máli. Það kom fram í máli forseta Alþingis að þegar hún tók við þessari skýrslu taldi forseti heppilegt að tillögurnar kæmu fram sem skýrsla þar sem með því fælist ekki efnisleg afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta af hálfu þeirra sem flyttu málið.

Þarna tekur Alþingi sjálft ekki afstöðu til þessa næstum þúsund milljóna króna verkefnis sem var sett hér af stað með stjórnlagaþingi sem Hæstiréttur dæmdi síðar ógilt. Hér er verið að upplýsa að þessi vinna sé unnin fyrir gýg vegna þess að Alþingi sem slíku er óheimilt að taka við þessari skýrslu, sem er kölluð skýrsla nú, í frumvarpsformi. Allir vissu strax í upphafi að ekki væri hægt að búa til frumvarp úr því sem stjórnlagaráð síðan komst að. Þarna opinberast þetta svo bersýnilega, frú forseti.

Hins vegar langar mig aftur til að koma að því að þó að þessi nefnd sé nýstofnuð og þessari skýrslu verði vísað til hennar falla öll þau störf niður næsta vor eins og með önnur þingmál. Svo kemur fram hér að það er vonast til þess að einhverjir þingmenn flytji málið í frumvarpsformi þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lokið störfum. Mig langar til að spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur: Hvenær gerist það að þetta verði tilbúið (Forseti hringir.) í frumvarpsformi? Sér hún það fyrir sér á næsta þingi (Forseti hringir.) eða af hverju er verið að setja þetta mál í slíka óvissu ef það eiga ekki að vera kosningar fyrr en vorið 2013?



[15:01]
Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa í mál mitt hér á undan varðandi vinnslu málsins í nefndinni. Ástæðan fyrir því að þetta kom fram í skýrsluformi var sú að allir fulltrúar allra flokka í forsætisnefnd lögðu málið fram í skýrsluformi. Ég tel mjög mikilvægt að allir hafi staðið að því án þess að taka afstöðu til ákveðinna nokkurra atriða í frumvarpinu vegna þess að vinnslan á því er eftir og hún fer fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Annars er það auðvitað nefndarinnar að ákveða hvaða hraða hún hefur á vinnunni og hvernig hún vinnur hana því að málið verður alfarið á forræði nefndarinnar þegar þessari umræðu lýkur eins og ég sagði áðan.



[15:02]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem ég titla nú í fyrsta skipti með þessum hætti hér — það er ekki oft sem hún flytur þingmál — fyrir fína framsögu og fyrir það verk sem hún hefur unnið sem forseti Alþingis, þ.e. að skila þessu máli sem skýrslu inn í þingsal þar sem meðferð málsins er að mínu mati hæfilega opin, því það eru margir möguleikar í stöðunni. Við erum að feta hér nýja stigu sem ekki hafa verið farnir áður, held ég nokkurs staðar í heiminum, með ritun nýrrar stjórnarskrár. Það er mjög merkilegt framtak og því mjög mikilvægt að framhald ferlisins eins og það birtist okkur hér í dag sé að einhverju leyti opið.

Með hliðsjón af því höfum við í Hreyfingunni lagt fram þingsályktunartillögu sem við mæltum fyrir í síðustu viku um meðferð málsins í framhaldi af því að það verður afgreitt úr þingsal og til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem skýrsla. Þar er gert ráð fyrir mjög afmörkuðum tímarömmum fyrir hvert atriði málsins og að hugsanlega haldi áfram þetta samspil við stjórnlaganefnd og líka við þjóðkjörna stjórnlagaráðið sem muni svo á endanum óska eftir leiðbeiningum frá þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur nýja stjórnarskrá beint til efnislegrar meðferðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig henni lítist á þá þingsályktunartillögu. Hún er flutt af allnokkrum þingmönnum úr flestum flokkum og hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur í þinginu. Hvert er álit hv. þingmanns á því ferli sem þar er skráð?



[15:04]
Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég mótmæla því að það séu mjög afmarkaðir tímarammar. Ég tel mikilvægt að nefndin fái góðan tíma til að fara í gegnum allt þetta frumvarp og kalli til sín eins marga og hún telur þurfa. Við höfum núna möguleika á því að vinna mál miklu betur í nefndum en áður. Það er hægt að skipa undirnefndir, úthluta nefndarmönnum afmörkuðum köflum til að vera með umsjón yfir eins og ég nefndi í framsögu minni og undirnefndir geta fundað þó að þingfundir séu í gangi þannig að það eru miklu fleiri möguleikar með nýjum þingsköpum til að sinna þessu starfi mun betur en ella og betur en var áður, fyrir 1. október þegar þessar breytingar voru gerðar.

Síðan hef ég lýst því yfir opinberlega að ég telji að þjóðin ætti að geta komið að þessu áður en málið verður endanlega afgreitt, það sagði ég á fundinum þegar ég tók við tillögum stjórnlagaráðs. En það verður auðvitað á hendi nefndarinnar að leggja til við Alþingi hvernig því verður háttað og það er bara hluti af því sem nefndin þarf að gera í sinni vinnu. Ég ætla ekki að taka frekar afstöðu til þess en minni á og hvet menn til að fara að nýjum þingsköpum, fara að þeim lögum sem við höfum sett okkur við vinnuna hérna, við þessa vinnu. Ég tel það aldrei mikilvægara en þegar við erum að vinna að nýrri stjórnarskrá sem þarf auðvitað að vera vönduð og við þurfum að vera hreykin af.

Sömuleiðis legg ég sérstaklega ríka áherslu á að í ljósi verkefna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fari hún að lögunum sem við höfum sett okkur.



[15:06]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Stjórnarskrárbreytingar eru án efa eitt mikilvægasta verkefnið sem Alþingi og alþingismönnum er falið miðað við stjórnskipun Íslands. Sennilega er hér um að ræða allra mikilvægasta verkefnið enda hljóta stjórnarskrárbreytingar að jafnaði að standa mun lengur en önnur verk okkar. Stjórnarskrá felur í sér grundvallarlöggjöf, er grundvöllur annarra laga sem sett eru hér og á að jafnaði að geta staðið af sér sveiflur á hinu pólitíska sviði, hvort þessi eða hinn flokkurinn er í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, hvernig meiri hlutinn er samsettur hér á þingi. Stjórnarskrá er með öðrum orðum meira langtímaverkefni en flest annað sem við fáumst við hér í þessum sölum.

Það liggur fyrir auðvitað að engar breytingar verða gerðar á stjórnarskrá, hvorki einstökum ákvæðum né stjórnarskránni í heild, nema fylgt sé þeim reglum sem hún sjálf kveður á um. Við þingmenn erum kjörnir til að fjalla um slíkar breytingar og berum ábyrgð á niðurstöðunni. Þessi veruleiki hlýtur að móta alla umfjöllun okkar á þingi um tillögur stjórnlagaráðs og eftir atvikum aðrar stjórnarskrárbreytingar. Hér er um að ræða verkefni sem okkur er falið samkvæmt stjórnarskránni, og þeirri ábyrgð getum við ekki vísað annað.

Starf stjórnlagaráðs og tillögur þess eru liður í ákveðnu ferli sem stendur yfir í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þessar tillögur eru hvorki upphaf né endir þeirrar vinnu. Ég ætla ekki að staldra lengi við fortíðina eða forsöguna en verð þó að minna á að margir áfangar á þessari leið í þessu ferli hafa verið afar umdeildir. Undanfarin missiri hafa reglulega hér á þingi átt sér stað deilur um aðferðina við stjórnarskrárbreytingar og satt að segja hefur mikill tími og mikil orka farið í ýmiss konar tilraunastarfsemi í þeim efnum. Þessi umræða um aðferðir hefur skyggt nokkuð á umræðu um efnisatriði stjórnarskrárinnar, þ.e. hverju nákvæmlega við viljum breyta, en fyrr en síðar hljótum við hér í þinginu að komast á þann stað.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að staldra lengi við fortíðina en get þó ekki látið hjá líða að nefna að tilraunastarfsemin sem ég nefndi leiddi meðal annars til vandræðanna í kringum kosningu til svonefnds stjórnlagaþings sem einungis rúmlega þriðjungur kjósenda tók þátt í og var þar að auki svo gölluð að Hæstiréttur gat ekki annað en ógilt hana. Eftir þetta tvíþætta klúður sem birtist annars vegar í lélegustu kosningaþátttöku hérlendis í almennum kosningum í 90 ár og síðan framkvæmd sem varð að ógilda lét meiri hluti Alþingis sér svo sæma að láta eins og ekkert hefði í skorist, skipti bara um nafn á stjórnlagaþinginu en lét fulltrúana, umgjörðina og verkefnin haldast óbreytt. Þannig kaus þingið, Alþingi, í raun að hafa niðurstöðu æðsta dómstóls landsins að engu þrátt fyrir að þessum sama dómstól væri með lögum falið að skera úr um gildi kosningarinnar sem í hlut átti. Mér er til efs að um sambærileg vinnubrögð hafi verið að ræða í vestrænu lýðræðisríki á síðari árum, en nóg um það að sinni.

Hvað sem þessari forsögu líður höfum við nú í höndum tillögur 25 manna nefndar sem meiri hluti Alþingis fól ákveðið verkefni. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem að því stóðu, bæði stjórnlagaráðsfulltrúum, starfsmönnum og öðrum sem að þessu komu fyrir störf þeirra. Ég held að allir sem hlut áttu að málum hafi lagt sig fram þó að við getum verið ósammála um ákveðin atriði sem varða niðurstöðurnar. Þeim eru engu að síður færðar þakkir fyrir störfin.

Þessar tillögur eru ræddar hér í dag og eins og hæstv. forseti gerði grein fyrir áðan munu þær eftir umræðuna hér koma til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Það má ætla, eins og hæstv. forseti reifaði hér, að úr því nefndarstarfi geti komið eiginlegt frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem síðan á eftir að fá meðferð í þinginu samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og þingskapa. Eins og hæstv. forseti greindi líka frá má gera ráð fyrir því að óbreyttu að sú málsmeðferð standi fram á árið 2013 þegar núverandi kjörtímabili lýkur og raunar þegar nýtt þing hefur tekið afstöðu til breytinganna.

Burt séð frá þessari málsmeðferð er verkefnið hér í dag að fjalla um tillögur stjórnlagaráðs. Hæstv. forseti nefndi áðan að hún óskaði eftir málefnalegri umræðu um þessa tillögu og skal ég ekki víkjast undan því. Ég verð þó að geta þess að umfjöllun um einstakar greinar eða einstaka efnisþætti málsins verður eðli málsins samkvæmt mjög takmörkuð í ljósi þess tíma sem við höfum til umræðunnar. Það er í raun og veru ekki hægt að reikna með á þessari stundu ítarlegri umfjöllun um öll þau atriði sem er að finna í tillögum stjórnlagaráðs.

Ráðið tók sér fyrir hendur að breyta að meira eða minna leyti svo til öllum ákvæðum núgildandi stjórnarskrár og bæta fjölmörgum nýjum við. Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að afar margar þessara greina í tillögum ráðsins, sem eru 114 og ein til viðbótar til bráðabirgða, krefjast ítarlegar umfjöllunar, skoðanaskipta og rökræðna. Það bíður því fyrst í stað umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og síðan í kjölfarið hér í þingsal að fara efnislega ofan í hverja grein fyrir sig og ná þar niðurstöðu bæði hvað varðar inntak og framsetningu.

Ég deili þeirri skoðun með hæstv. forseta að það sé afar mikilvægt að samhliða umfjöllun á vettvangi Alþingis eigi sér stað lifandi umræða úti í þjóðfélaginu á vettvangi fjölmiðla, meðal fræðimanna og almennra borgara um þessar tillögur og ég leyfi mér að segja raunar aðrar tillögur sem fram hafa komið um breytingar á stjórnarskrá. Ég ætla við þessa umræðu ekki að draga neina dul á það að ég er gagnrýninn á ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs sem hér hafa verið kynntar. Með þessu er ég alls ekki að segja að ég leggist gegn öllu sem þarna er að finna, langt í frá. Ég tel að ýmsar tillögur ráðsins séu prýðilegar og geti verið grunnur að farsælum breytingum. En ég er gagnrýninn á mörg önnur atriði, í sumum tilvikum út frá innihaldinu, efnisþáttum, og í öðrum tilvikum út frá framsetningu.

Ég vil áður en lengra er haldið taka fram að ég hef alltaf haft ákveðnar efasemdir um þau sjónarmið að þörf sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar eins og hér er lagt upp með. Ég hef talað fyrir og tekið þátt í vinnu sem miðar að því að ákveðnir kaflar og ákveðnar greinar verði endurskoðuð. Mér finnst fyrst og fremst ástæða til að menn einbeiti sér að þeim atriðum sem valdið hafa deilum og óvissu í framkvæmd, svo sem að skýra og skerpa valdmörk milli handhafa ríkisvaldsins, færa orðalag til samræmis við veruleikann, eins og í sambandi við stöðu forsetans, og eftir atvikum að bæta við nýjum ákvæðum eftir því sem þörf er og nokkur samstaða getur náðst um.

Ég nefni í því sambandi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um auðlindir og um tengsl við önnur ríki. Í öllum þessum tilvikum er hægt að færa fram ágæt rök fyrir setningu nýrra ákvæða þó að skoðanir geti verið skiptar um útfærsluna. Mér finnst hins vegar, og ég verð að láta þess getið, hæstv. forseti, ástæðulaust að hringla til með ákvæði eða kafla sem reynst hafa vel og engum vandræðum valdið. Ég hef þar af leiðandi nokkrar áhyggjur af þeirri nálgun stjórnlagaráðs að leggja til breytingar á nærfellt öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það mótast auðvitað af þeirri grundvallarskoðun minni að stjórnarskrá beri að breyta hægt og varlega. Þegar verið er að breyta öllu í einu er eðli málsins samkvæmt ekki unnt að fara jafn vel og ítarlega yfir hverja breytingu fyrir sig, vega hana og meta og átta sig á afleiðingunum. Nálgun stjórnlagaráðs eykur því slysahættuna ef svo má að orði komast.

Í mörgum tilvikum er raunar verið að breyta orðalagi ákvæða án þess að ætlunin sé að breyta inntaki þeirra, a.m.k. ekki svo neinu nemi. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við það, bendi bara á þá staðreynd að breytingar á orðalagi ákvæðanna einar og sér geta skapað ákveðna óvissu um réttarstöðu á viðkomandi sviði, gildi ýmissa laga og stjórnvaldsfyrirmæla og fordæmisgildi dóma. Þar með geta breytingar af þessu tagi leitt til alls konar málaferla, jafnvel alveg að óþörfu.

Eins og hv. þingmönnum er ljóst er afstaða mín þannig varfærin í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Það má líka orða það svo að hún sé íhaldssöm í þeim skilningi að ég vil ekki breyta breytinganna vegna og þar sem þörf er á breytingum er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að vanda til verka, meta eins og hægt er afleiðingar breytinganna, liggja yfir orðalagi svo ekki sé hætta á því að það valdi misskilningi við hvað er átt, að gæta innbyrðis samræmis og svo má lengi telja. Svona varfærin eða íhaldssöm afstaða til stjórnarskrárbreytinga er raunar að kalla má viðtekið viðhorf í flestum þróuðum lýðræðisríkjum. Ég get tekið sem dæmi þingmönnum til umhugsunar að nú um stundir eru Norðmenn að vinna að breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrár sinnar, aðeins mannréttindakaflanum, og ætla sér nokkur ár í það verkefni.

Svo ég víki aftur að tillögunum og þeirri nálgun sem við þurfum að mínu mati að hafa þegar við fjöllum um þær má auðvitað segja að það megi nálgast tillögurnar út frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Það má gera það frá heimspekilegum forsendum, pólitískum, lögfræðilegum, jafnvel lagatæknilegum, og ég held að í störfum okkar í þinginu ættum við að hafa öll þessi sjónarhorn til hliðsjónar, við ættum að horfa á tillögurnar út frá þeim öllum. Ég held að það sé nauðsynlegt að við gerum það, horfum á þær gagnrýnum augum, því að ég held að annars værum við í raun og veru ekki að sinna því verkefni sem okkur er falið.

Ef ég skýri aðeins nánar hvað ég meina með þessu þurfum við auðvitað að ræða stjórnarskrártillögurnar út frá grundvallarspurningunni um það hvað eigi yfir höfuð að vera í stjórnarskrá og hvað ekki. Þegar við nálgumst verkefnið þurfum við að átta okkur á því hvaða hlutverki stjórnarskrá á að þjóna og í kjölfarið hvaða reglur eigi nákvæmlega þar heima og ekki annars staðar, t.d. í almennum lögum. Það er hægt að fylla stjórnarskrá af ákvæðum sem eiga í raun og veru miklu frekar heima í almennum lögum þannig að þarna þarf að velja og hafna.

Við lestur tillagna stjórnlagaráðs virðist mér þetta ekki alltaf ljóst. Þar er í sumum tilvikum að finna mjög almenn markmið, nokkurs konar stefnuyfirlýsingar á einhverjum sviðum þar sem löggjafanum er ætlað afar mikið svigrúm við útfærsluna. Annars staðar er að finna nokkuð skýrar og skilgreindar reglur, sums staðar reyndar svo nákvæmlega útfærðar að þær ættu jafnvel fremur heima í almennum lögum. Þetta er sem sagt sjónarhorn sem við þurfum að nota þegar við skoðum þessar tillögur.

Í öðru lagi má nálgast tillögurnar út frá ákveðnum grundvallarspurningum sem við getum kallað hugmyndafræðilegar, svo sem hversu mikið hlutverk ríkisvaldsins eigi að vera í samfélaginu o.s.frv. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta að sinni, ég vil bara taka fram að ég held að í góðri stjórnarskrá verði að vera jafnvægi, þannig jafnvægi að ákvæði hennar geti haldið gildi sínu hvort sem við völd er ríkisstjórn sem hallast til hægri eða vinstri og hvernig sem þingmeirihlutinn er settur saman.

Í þriðja lagi felast í tillögunum fjölmargar einstakar afmarkaðar breytingar sem krefjast þess að við tökum efnislega afstöðu til þeirra. Þar er um pólitískar spurningar að ræða, ekki endilega flokkspólitískar, í sumum tilvikum liggja skiptar skoðanir eftir einhverjum allt öðrum línum en flokkspólitískum og þarna er ekki endilega um að ræða spurningar sem snerta hugmyndafræði hægri eða vinstri en það eru pólitískar spurningar engu að síður. Þar get ég nefnt sem dæmi spurningar um stöðu forsetaembættisins; viljum við auka völd forseta, draga úr þeim eða einfaldlega skýra betur þá stöðu sem embættið er í í dag? Af sama toga eru spurningar um valdmörk framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, þjóðaratkvæðagreiðslur, kirkjuskipan, eignarhald og nýtingu auðlinda og framsal ríkisvalds, fullveldis, til alþjóðlegra stofnana. Þetta eru dæmi um efnisbreytingar sem felast í tillögum stjórnlagaráðs og við þurfum að taka afstöðu til. Hver sem skoðun okkar er á þessum atriðum blasir við að hér er um margar veigamiklar breytingar að ræða sem krefjast vandlegrar skoðunar.

Í fjórða lagi má svo skoða tillögurnar út frá lagatæknilegum forsendum. Það þarf að búa þannig um hnútana að niðurstaðan, hver sem hún verður efnislega, verði þannig fram sett að hún sé nothæf, að útkoman verði skýr og skiljanleg, að ekki leiki vafi á um það hvaða breytingar raunverulega er verið að gera, að ekki sé ósamræmi milli einstakra ákvæða, að þau séu framkvæmanleg o.s.frv. Um leið þarf auðvitað að átta sig á því hvaða áhrif einstakar breytingar hafa, svo sem á lagasetningu og réttarframkvæmd. Í þessu samhengi finnst mér ástæða til að segja að í tillögum stjórnlagaráðs eru fjölmörg atriði sem augljóslega þarfnast nánari skoðunar, kalla á frekari skýringar og hugsanlega breytingar á framsetningu. Ég ætla að nefna nokkur dæmi, nánast af handahófi. Sum eru tiltölulega afmörkuð og einföld og hugsanlega auðleysanleg, önnur varða meiri grundvallarspurningar. Ég tek fram, hæstv. forseti, að þetta er bara nefnt hér í dæmaskyni.

Ég velti til dæmis fyrir mér hvernig menn ætla að láta fara saman hugmyndina um persónukjör sem fjallað er um í 39. gr., persónukjör til Alþingis, og hugmyndina um að varamaður taki sæti bæði forseta Alþingis og þeirra ráðherra sem valdir eru úr hópi þingmanna. Hugmyndin um að varamenn taki sæti í þessum tilvikum gengur auðvitað vel upp í fyrirkomulagi þar sem listakosning er meginreglan en fer í raun á skjön við persónukjörshugmyndina. Ég verð að segja að það er reyndar margt óljóst um útfærslu kosningakerfisins eins og 39. gr. er orðuð en hér þarf að minnsta kosti að staldra við og skoða þetta þannig að ekki skapist misræmi sem geti skapað raunhæf vandamál.

Annað atriði varðar 57. gr. þar sem segir að frumvörp skuli ganga beint til þingnefnda án þess að fram fari 1. umr. eins og við þekkjum hana í dag, og hins vegar 89. gr. um að ráðherrar skuli mæla fyrir lagafrumvörpum. Í greinargerð er talað um að þetta verði nánar útfært í þingsköpum, en mér finnst að þetta þurfi að skýra á sama stað og þessar tvær reglur sem ég get ekki séð annað en að séu misvísandi á sama stað og þær eru settar fram.

Ég nefni líka sem dæmi um svona atriði sem þarf að fara betur ofan í og skýra nánar ákvæði um forsetakjör í 78. gr. Það er talað um forgangsröðun kjósenda án þess að skýrt sé nánar við hvað er átt. Það er greinilega gert ráð fyrir því að það verði verulegar breytingar á reglum um forsetakjör en útfærslan er hins vegar ekki þannig fram sett að það sé hægt að átta sig á því hvert er verið að stefna. Þetta kallar að mínu mati á nánari umræður og skoðun.

Ég bendi líka, hæstv. forseti, á ákveðið ósamræmi í umfjöllun um ráðherra og ríkisstjórn í 86. og 87. gr. samanber líka 95. gr. Annars vegar er talað um fortakslausa ábyrgð ráðherra á málefnum sem undir ráðuneyti þeirra heyra og hins vegar um sameiginlega ákvarðanatöku innan ríkisstjórnar í einhverjum tilvikum og ábyrgð ráðherra í því sambandi. Þarna þarf að skerpa á hugsuninni eða að minnsta kosti framsetningunni að mínu mati. Að hvaða leyti eiga ráðherrar að bera ábyrgð hver fyrir sig og að hvaða leyti á ríkisstjórn að vera fjölskipað stjórnvald? Það má vel vera að þarna megi breyta hlutum en það þarf augljóslega að skýra hlutina að mínu mati.

Ég velti fyrir mér 96. gr. þar sem fjallað er um nýjar reglur um skipun í embætti. Ég er að velta fyrir mér og mér finnst það hvorki ljóst af texta stjórnlagaráðs né skýringum hvort átt er við embætti í hinni þrengri lagalegu merkingu, eins og hún er notuð í lögum í dag, eða hvort átt er við embætti í eitthvað víðtækari skilningi, eins og reyndar er kannski almenn málnotkun. Þarna þarf að skýra hlutina. Það má nefna í leiðinni að talað er um að ráðherra eða önnur stjórnvöld skipi í embætti og ég velti fyrir mér hvaða „önnur stjórnvöld“ það geta verið. Þetta er smáatriði.

97. gr. vekur líka spurningar. Þar er talað um að Alþingi geti stofnað til stofnana, með einföldum meiri hluta væntanlega, en um leið ákveðið að það þurfi aukinn meiri hluta, þ.e. 2/3, til að leggja slíkar stofnanir af. Þetta finnst mér mjög sérkennilegt. Ég er þeirrar skoðunar að ef einfaldur meiri hluti, venjuleg aðferð, dugar til að koma stofnun á fót eigi sama aðferð að gilda við aflagningu hennar. Ég velti fyrir mér dæmum, bæði raunverulegum og ímynduðum, um alls konar sérkennilega stöðu sem gæti komið upp í þessu sambandi þegar naumur þingmeirihluti samþykkir að stofna til einhverra stofnana sem síðan reynist nær ógerlegt að leggja niður nema til komi miklu meiri meiri hluti en sá sem setti stofnunina á fót. Mér finnst ekki samræmi í þessu.

Ég nefni líka, og tek enn fram að ég er að telja bara upp í dæmaskyni, ákvæði um umhverfismál í 35. gr. Þar er farin leið sem mér finnst gölluð og ég geri athugasemdir við þar sem í 3. mgr. er vísað til þess að stjórnvöld séu bundin af meginreglum umhverfisréttar. Þarna er um einhvers konar eyðuákvæði að ræða þar sem ekki er alveg ljóst til hvaða reglna er verið að vísa. Ég tel að þó að til séu fræðiskrif um meginreglur umhverfisréttar og til sé ýmis löggjöf sem fjallar um umhverfisrétt og til séu alþjóðlegir samningar sem fjalla um umhverfisrétt sé þessi tilvísun allt of ómarkviss og ónákvæm til að hún sé tæk í stjórnarskrá.

Svo ég haldi áfram vil ég nefna tvær mikilvægar greinar, 111. og 112. gr., sem fela í sér tvenns konar mismunandi framsal á ríkisvaldi eða fullveldi. Annars vegar er í 111. gr. talað um fullgildingu þjóðréttarsamninga sem felur í sér framsal á ríkisvaldi og hins vegar í 112. gr. um forgangsáhrif tiltekinna þjóðréttarsamninga gagnvart almennum lögum. Ég tek fram að í síðara tilvikinu er auðvitað líka um framsal á ríkisvaldi að ræða og ég velti mér hvort það sé rétt eða skynsamlegt að hafa léttari leið í sambandi við framsal valds með þeim hætti en gert er ráð fyrir í almennu reglunni í 111. gr.

111. gr. vekur raunar margar grundvallarspurningar, í fyrsta lagi hvort við viljum hafa ákvæði í stjórnarskrá um heimild til framsals á fullveldi. Í öðru lagi, ef við erum þeirrar skoðunar að það eigi að vera heimilt, er hægt að fara mismunandi leiðir í því sambandi. Það er hægt að gera ýmist kröfu um aukinn meiri hluta á þingi og/eða þjóðaratkvæðagreiðslu og svo má lengi telja. Ég bendi á þetta vegna þess að ég tel að þarna sé atriði sem verðskuldar miklar umræður hér á þingi og úti í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að við kunnum á næstu árum að standa frammi fyrir mjög raunhæfu viðfangsefni á þessu sviði sem tengist aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er því eins gott að þessar reglur séu vel hugsaðar og útfærðar.

Ég bendi á í þessu sambandi að lokum að með orðalagi ákvæðisins í 111. gr. er gert ráð fyrir að framsal ríkisvalds eigi fortakslaust að fara í þjóðaratkvæði en svo er aftur í skýringum talað um að óverulegt eða minni háttar framsal fari ekki þá leið. Þarna þarf að skýra hlutina nánar, það þarf að vera samræmi milli texta og skýringa en þetta er kannski ekki eina dæmið um misræmi milli skýringartextans og stjórnarskrárákvæðanna eins og þau eru sett fram af stjórnlagaráði.

Ég get heldur ekki látið hjá líða að benda á að ýmis atriði eru nokkurn veginn látin óútkljáð og nánast beinlínis viðurkennt af hálfu stjórnlagaráðs að það sé látið óútkljáð, svo sem afstaða til breytinga á kirkjuskipan og til þjóðkirkjufyrirkomulagsins, samanber það sem segir um 19. gr. Hið sama má raunar segja um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipan. Þar er einhver veginn farin hálf leið í breytingum með framsetningu stjórnarskrárákvæðisins en það vantar hins vegar mikið upp á að það sé hægt að átta sig á því hver niðurstaðan verður. Þetta tel ég að þingið þurfi að fara vel yfir áður en gengið er frá einhverjum breytingum í þessum efnum.

Ég held að ég láti þessari upptalningu lokið. Ég nefni bara þetta sem dæmi um að það eru fjöldamörg atriði í tillögunum sem þarfnast nánari skoðunar. Þar þarf að skoða tvennt, annars vegar hvaða efnisbreytingu við viljum gera, hvaða breytingum við viljum ná fram efnislega, og svo hins vegar verður að vera samræmi milli þess sem við ætlum okkur og þess sem síðan er hægt að lesa út úr textanum. Textinn þarf að vera þannig skýr og skiljanlegur að það valdi ekki misskilningi, valdi því ekki að menn geti túlkað ákvæðin með mismunandi hætti. Við eigum ekki að búa til vandamál þegar við göngum frá stjórnarskrártexta.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það að öðru leyti en að vísa til þess sem við urðum vitni að hér fyrir fáeinum dögum þegar forseti Íslands lýsti við þingsetningu ákveðnum skilningi á ákvæðum stjórnarskrártillagnanna um forsetaembættið. Hann fjallaði nokkuð um það út frá sinni túlkun. Í kjölfarið komu ýmsir fulltrúar úr stjórnlagaráði og sögðust ekkert hafa meint það sem forsetinn sagði. Menn lesa mismunandi hluti út úr textanum og það skapar vandamál þannig að ef við getum komist hjá því eigum við alltaf að hafa ákvæðin það skýr og skiljanleg, framsetninguna það góða, að efnisbreytingin, eins og við ætlumst til þess að hún verði, sé öllum ljós. Ég held að í þeirri deilu, svo ég leyfi mér að blanda mér í hana, sé töluverður fótur fyrir túlkun forsetans eins og hún kom fram í ræðu hans miðað við texta stjórnlagaráðsins. Ég dreg hins vegar ekki í efa að stjórnlagaráðsfulltrúarnir sem tjáðu sig opinberlega hafi líka haft rétt fyrir sér að því leyti að þeir ætluðu sér ekkert að hafa þetta svona. Þetta er bara áminning um að það skiptir verulegu máli, ekki bara hvaða efnisbreytingum menn vilja ná fram heldur líka hvernig framsetningunni er háttað, að ekki sé gefið svigrúm fyrir mismunandi túlkun ef mögulegt er að komast hjá því.

Ég sé, hæstv. forseti, að tími minn er að renna út í þessari umræðu. Ég hef fjallað um þetta með almennum hætti. Ég sé fyrir mér að okkar bíði töluvert mikil vinna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í sambandi við þessar tillögur. Ég er sammála hæstv. forseta um að það sé rétt að fara vandlega í textann, rétt að leita eftir skriflegum umsögnum og fá sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og stjórnmálafræði og fleiri aðila á fundi nefndarinnar. Ég styð það eindregið að talað verði við fulltrúa úr stjórnlagaráði og stjórnlaganefnd en þess má geta að það er töluverður munur á tillögum stjórnlaganefndar frá því fyrr á þessu ári og síðan því sem frá stjórnlagaráði kemur. (Forseti hringir.)

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, hæstv. forseti, en tel óhjákvæmilegt að koma í umræður síðar til þess að fjalla nánar um ýmsa þætti þessa mikilvæga máls.



[15:37]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann segir að hann sé ekki endilega fylgjandi því að breyta stjórnarskránni frá grunni eins og hér er lagt til og ég spyr: Hvaða ástæðu sér hann til þess og telur hann að núgildandi stjórnarskrá sé „nothæf“ til framtíðar?

Þá vil ég spyrja hv. þingmann út í ferlið. Ég skil ekki, frú forseti, hvernig þetta á að gerast. Hér erum við að ræða skýrslu forsætisnefndar, það er bara skýrsla og þá veit þingið af þessari skýrslu. Ég átta mig ekki alveg á hvernig málið fer svo til þessarar nýju nefndar sem hv. þingmaður situr í. Það getur vel verið að það sé bara vanþekking mín á nýju þingsköpunum. Hvað gerist í þeirri nefnd? Er meiningin að hún flytji frumvarp eða hvernig á þetta eiginlega að fara til þjóðarinnar? Það má ekki senda nýju stjórnarskrána sem frumvarp því að um leið og búið er að samþykkja það þarf að rjúfa þing samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og við ætlum að fara eftir henni. Það þarf einhvern veginn að fara í kringum þetta regluverk allt sem felst í núgildandi stjórnarskrá og heimildum Alþingis til að senda þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ljóst að sú þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki meira virði en Gallup-skoðanakönnun. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður staðfesti það. Ég vildi gjarnan að hann útskýrði fyrir mér, ef hann skilur það, hvernig þetta ferli allt á að vera. Svo greiðir þjóðin náttúrlega atkvæði um þetta, þetta fer til þingsins og þá verður væntanlega samþykkt frumvarp til stjórnarskrárbreytinga. Um leið og búið er að samþykkja það þarf að rjúfa þing og þá kýs þjóðin nýtt þing en greiðir hugsanlega ekki atkvæði um stjórnarskrána.



[15:39]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að koma inn á nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem hv. þm. Pétur Blöndal nefnir hérna.

Í fyrsta lagi, til að svara því beint, tel ég að það sé ástæða til að breyta ýmsum atriðum í stjórnarskránni en ég sé ekki ástæðu til að endurskrifa allar greinar hennar. Það er mín afstaða.

Í öðru lagi varðandi ferlið tek ég fram að ég á ekki hugmynd að því ferli sem hér er uppi og ber ekki ábyrgð á því í sjálfu sér. Ég held að það sé hins vegar ágætisleið sem forseti þingsins hefur valið, þ.e. að opna umræðuna í þinginu með því að flytja málið í skýrsluformi. Síðan gengur það til viðkomandi þingnefndar eins og reyndar hefur lengi getað gengið upp með skýrslur sem geta gengið til nefnda sem hafa sjálfdæmi um hvað þær gera við þær. Ég held að út úr þessu geti komið frumvarp til stjórnarskipunarlaga samkvæmt formreglum þingsins. Það mun fá að minnsta kosti formlega meðferð í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og þingskapa. Ég tel að það sé hægt að halda sig við það ferli og ég er ekki spenntur fyrir einhverjum hjáleiðum eða krókaleiðum eins og margir hafa nefnt í þessari umræðu varðandi það.

Vilji menn raunverulega að kjósendur taki afstöðu til þeirrar nýju stjórnarskrár sem nú er í smíðum er hægur vandi að gera eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt til, að breyta fyrst því eina ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjallar um aðferðina við stjórnarskrárbreytingar, 79. gr., (Forseti hringir.) og gera þær ráðstafanir. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur flutt (Forseti hringir.) þingmál um það og til eru eldri þingmál og tillögur sem hníga í sömu átt.



[15:42]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nokkru nær en veit samt ekki alveg hvað getur gerst. Segjum að þessi nefnd sem hv. þingmaður situr í leggi fram frumvarp og Alþingi má ekki samþykkja það. Það getur rætt það í þremur umræðum en það þarf að passa sig að samþykkja það ekki. Um leið og búið er að samþykkja það verður að boða til kosninga og það stendur víst ekki til að gera það.

Á hvaða formi mundi þjóðin greiða atkvæði um þetta frumvarp? Hvernig yrði það gert?



[15:42]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Það eru tvö atriði, hæstv. forseti, sem hv. þingmaður nefndi. Í fyrsta lagi tek ég fram að mér er ekki ljóst, frekar en öðrum sem hér eru, nákvæmlega hvaða stefnu þetta mál mun taka. Ég held að það sem við vitum núna er að eftir umræðuna í dag gengur þetta til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, forseti þingsins hefur lýst því yfir að sú nefnd hafi þar með forræði á málinu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki hægt að ljúka afgreiðslu frumvarps um breytingu á stjórnskipunarlögum nema í lok kjörtímabils nema menn séu tilbúnir að rjúfa þing fyrr. Það er alveg rétt. Ég bendi á að það er rétt rúmlega eitt og hálft ár eftir að núverandi kjörtímabili. Það er ekki langur tími fyrir þingið til að fjalla um stjórnarskrárbreytingar þannig að ég hef engar áhyggjur af því að gert sé ráð fyrir of rúmum tíma eins og hæstv. forseti leggur þetta upp. Ég held að okkur veiti ekkert af þeim tíma í þinginu, einu og hálfu ári, til að fara yfir þessar tillögur og komast að niðurstöðu um þær.

Hin spurningin sem hv. þm. Pétur Blöndal nefnir er sú hvort fara eigi fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á einhverju stigi málsins. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. (PHB: Um hvað?) Þingið hefur ekki tekið afstöðu til þeirrar spurningar hvort fara eigi fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á einhverju stigi málsins. Ég veit að meðal þingmanna er töluverður áhugi á því, en ég er sjálfur ekki hrifinn af því. Ég held að við eigum einfaldlega að halda okkur við þær formreglur sem stjórnarskráin sjálf kveður á um og klára málið eftir þeirri leið. Ef menn, eins og hv. þm. Pétur Blöndal, vilja breyta aðferðinni við það að breyta stjórnarskránni (Forseti hringir.) er rétt að byrja á að breyta 79. gr. og svo er hægt að (Forseti hringir.) taka hitt í framhaldinu.



[15:45]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt plagg sem við höfum hér til umræðu. Eftir margar tilraunir stjórnarskrárnefnda liggur nú fyrir tillaga að nýrri stjórnarskrá. Tillagan að stjórnarskránni er í níu köflum, afrakstur mikillar vinnu stjórnlaganefndar sem safnaði gögnum, hélt þjóðfund og vann úr þeim skoðunum sem þar komu fram, og loks stjórnlagaráðsins. Það er ekki einungis afrakstur vinnu þeirra í stjórnlagaráðinu sem vakið hefur athygli, heldur einnig vinnubrögðin sem einkenndust af því að ná sameiginlegri niðurstöðu í stað þeirra átaka sem gjarnan eru stunduð í þessum sal. Þykir mörgum sem við eigum að taka stjórnlagaráðið okkur til fyrirmyndar í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði í tillögum stjórnlagaráðsins. Ég mun ekki gera þeim ítarleg skil, aðeins stikla á nokkrum atriðum sem hafa vakið athygli mína á ferð minni í gegnum þetta plagg. Alveg eins og hv. þm. Birgir Ármannsson lýsti áðan er mikil vinna fyrir höndum í nefnd þeirri sem við sitjum bæði í, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Í I. kafla tillagnanna eru undirstöðurnar. Þar segir að Ísland sé lýðveldi með þingræðisstjórn. Þar er sagt fyrir um þrígreiningu ríkisvaldsins og kveðið á um íslenskt yfirráðasvæði en samkvæmt því má ekki skipta landinu upp eins og gerist í sambandsríkjum. Það er kveðið á um hverjir hafi ríkisborgararétt og svo er nýtt ákvæði um hverjar séu skyldur borgaranna. Það segir í skýringum stjórnlagaráðsins, með leyfi forseta:

„Í tillögu stjórnlagaráðs er mikil áhersla á réttindi borgaranna og þeim veitt aukin völd, m.a. með grein um þjóðarfrumkvæði og rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Í starfi ráðsins var lögð mikil áhersla á að tryggt væri að völd og ábyrgð færu saman. Greinin þykir því nauðsynleg til að tryggja að allir þeir sem stjórnarskrá þessi tekur til skapi þeim ekki einungis rétt heldur einnig skyldur til að rækja réttindi sín og virða bæði lög og réttindi annarra.“

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta eiga mjög vel við og við eigum að huga að þessum atriðum í öllum athöfnum okkar, ekki bara í stjórnarskrá. Réttindum fylgja skyldur.

Yfirskrift II. kafla er „Mannréttindi og náttúra“. Þar eru troðnar nýjar slóðir. Í skýringum með tillögunum er vísað til þess að í fræðunum er gjarnan talað um þrjár kynslóðir mannréttinda. Í fyrstu kynslóð eru borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Til annarrar kynslóðar teljast efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Réttindi sem teljast til þriðju kynslóðar eru öðruvísi en þau sem heyra til fyrstu og annarrar kynslóðar að því leyti að þau leggja skyldur á herðar einstaklinga en ekki bara ríkisvaldsins. Dæmi um réttindi af þessu tagi er réttur á þróun, friði, heilbrigðu umhverfi og jafnrétti kynslóðanna. Það er því óhætt að segja að tillögurnar um mannréttindi hafi verið færðar til nútímans.

Í þessum kafla, nánar tiltekið í 34. gr., er kveðið á um að auðlindir sem ekki eru í einkaeign séu ævarandi eign þjóðarinnar. Ég tel að flestir séu sammála því að ákvæði af þessu tagi eigi að vera í stjórnarskrá. Það var ekki svo fyrir nokkrum árum. Því er líklegt að ágreiningsatriðin um hvað eigi að vera í stjórnarskrá og hvað ekki hafi breyst á nokkrum árum.

III. kaflinn er um Alþingi. Þar er hnykkt á þingræðisreglunni. Ítarleg umræða fór fram í ráðinu um hvort afnema ætti þingræðisfyrirkomulagið og taka upp forsetaræði eða forsetaþingræði eins og tíðkast til dæmis í Frakklandi. Niðurstaða stjórnlagaráðs var að festa þingræðisregluna í sessi. Sjálf hef ég verið höll undir að hyggilegt gæti verið að taka hér upp forsetaþingræði. Í mínum huga skiptir máli að þessi hugmynd hefur verið ítarlega rædd í ráðinu sem hefur komist að annarri niðurstöðu og þar með sé málið útrætt.

Tillögur eru settar fram í þessum kafla sem ætlað er að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Kveðið er á um eftirlits- og fjárstjórnarvald Alþingis og einnig eru tillögur um að styrkja minni hluta þingsins. Í þessum kafla er einnig fjallað um kosningar til Alþingis. Í skýringum stjórnlagaráðsins segir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi meginmarkmið voru einkum lögð til grundvallar við endurskoðun kosningakerfisins í starfi stjórnlagaráðs:

Að efla lýðræði með því að auka bein áhrif kjósenda á val alþingismanna.

Að jafna vægi atkvæða.

Að um leið sé þess gætt að raddir sem flestra landsvæða heyrist á Alþingi.

Að stuðla að því að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast á þingi.“

Virðulegi forseti. Ég trúi því að ég móðgi ekki neinn þótt ég segi að kosningafyrirkomulagið sem lagt er til virðist nokkuð flókið. Það sem mestu máli skiptir er þó að það sé ekki flókið fyrir kjósandann að kjósa. Vel má vera að svo sé ekki í þessu fyrirkomulagi. Ef til vill er samt hægt að ná markmiðum stjórnlagaráðsins fram á einfaldari máta. Mér finnst ekki ótrúlegt að einhverjum finnist rétt að gera það. Það sem þá skiptir meginmáli er að markmið stjórnlagaráðsins verði lögð til grundvallar ef til einhverrar einföldunar kemur.

Þá er í þessum kafla einnig fjallað um lýðræðislega þátttöku almennings, þ.e. bæði þingmál að frumkvæði kjósenda og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmis önnur nýmæli eru í þessum kafla sem við höfum öll ábyggilega miklar skoðanir á.

IV. kaflinn fjallar um embætti forseta Íslands. Ég ætla ekki að fara inn í þær deilur, ef svo má segja, eða þau skrif þar sem valdsvið forseta Íslands hefur verið túlkað undanfarið. Það sem vakti athygli mína í þessu er hvernig forseti skuli kosinn. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, og nær sá kjöri sem best uppfyllir forgangsröðun kjósenda. Með þessari aðferð er tryggt að sá sem er kjörinn forseti, ef fleiri en einn eru í kjöri, lýtur meirihlutavilja. Eins og kunnugt er hefur sú aðferð sem hér er notuð leitt til þess að forseti hefur verið kjörinn án þess að hafa meiri hluta atkvæða. Slíkt mun vera einstætt í lýðræðisríkjum með þjóðkjörnum forseta. Í þessum kafla er einnig ákvæði um að forsetinn skuli ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

V. kaflinn, virðulegur forseti, er um ráðherra og ríkisstjórn. Þar er enn að finna nokkur nýmæli sem fólki sýnist ábyggilega hverju sitt um. Má þar nefna ákvæði um að ríkisstjórn taki sameiginlegar ákvarðanir um mikilvæg og stefnumarkandi málefni. Sumir, þar á meðal ég, hafa efasemdir um að það henti okkur sem ávallt búum við samsteypustjórnir að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald. Að því frágengnu er ákvæðið ekki alveg skýrt og mér finnst að ákvæði stjórnarskrárinnar eigi að vera skýr og auðskiljanleg sem flestum við einfaldan lestur.

VI. kaflinn fjallar um dómstóla. Þar er ekki mikið um nýmæli, þó er mælt fyrir um að tilteknar óskrifaðar stjórnskipunarreglur verði festar í sessi, svo sem að dómstólar meti stjórnskipulegt gildi laga.

VII. kaflinn er um sveitarfélög og er staða sveitarfélaganna styrkt.

Sá VIII. er um utanríkismál. Þar er nýlunda um að ef Alþingi samþykkir fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skuli ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði og að slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli vera bindandi. Mér finnst þetta merkilegt og þarft ákvæði í stjórnarskránni.

Í IX. kafla er síðan lokaákvæði um stjórnarskrárbreytingar og um að þær skuli bornar undir þjóðina í framtíðinni, um gildistöku og síðan er eitt ákvæði til bráðabirgða.

Virðulegi forseti. Stjórnarskránni verður ekki breytt nema fyrir tilstilli þingsins. Hér liggur nú fyrir tillaga frá stjórnlagaráði sem við getum ekki ýtt frá okkur til einhvers annars. Við verðum hvort heldur einhverjum líkar betur eða verr að fjalla um tillögurnar. Það verður verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera það. Í þeirri nefnd eigum við eins fljótt og mögulegt er að komast að samkomulagi um málsmeðferðina. Við eigum að setja okkur tímaramma um einstaka þætti vinnunnar. Hún má ekki dragast á langinn og heldur ekki vera hroðvirknisleg. Þar þarf eins og í öðru að finna hinn gullna meðalveg.

Við eigum að fá okkur til aðstoðar fólk sem getur farið yfir tillögurnar og bent okkur á ef eitthvað er þar sem rekur sig á annars horn. Við eigum að lýsa eftir skoðunum allra þeirra sem áhuga hafa á málinu, kalla til fundar og samráðs við okkur áhugamenn um stjórnarskrána og sérfræðinga í þeim þáttum sem hún tekur til, hvort heldur það eru mannréttindi eða kosningalöggjöf. Auðvitað eigum við að vera í náinni samvinnu við fólk sem unnið hefur að málinu til þessa.

Við eigum að finna út hvernig við getum haldið opna fundi. Ég tel að það form sem tíðkast nú á opnum fundum þingnefnda henti ekki til þessarar vinnu en þá þarf að leita annarra leiða. Við þurfum að sjá til þess að tillögurnar verði kynntar í borg og bæ og um allt land. Vonandi þurfum við ekki að stjórna því nema að litlu leyti. Ég sá til dæmis mér til ánægju að Borgarbókasafnið efnir nú til nokkurra kynningarfunda um málefnið. Ef við erum heppin fara önnur bókasöfn í landinu að því fordæmi. Líklegast verðum við að útvega einhverja peninga til að hjálpa til við kynningarstarfið. Ríkisútvarpið hefur að mínu mati skyldur í þessu efni og vonandi finnst öðrum fjölmiðlum einnig ástæða til að fjalla um þetta veigamikla mál.

Margir eru því fylgjandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar. Við þurfum að finna út hvernig því verður best fyrir komið. Er í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu hægt að bjóða upp á einhverja valkosti? Ég held að það geti verið erfiðara en sýnist í fyrstu vegna þess að tillögurnar eru útpældar, að því er mér virðist, og hanga því nokkuð saman og það gæti einfaldlega eyðilagt allt verkið ef það verður sett upp sem einhvers konar matseðill sem hægt er að velja af. Kannski vill stjórnlagaráðið eða einhverjir fulltrúar þess taka afstöðu til hugmynda sem fram koma við umfjöllun nefndarinnar og hjálpa okkur í þessum efnum. Allt þetta þurfum við að gaumgæfa og ef allir leggjast á eitt í hugarleikfimi efast ég ekki um að við finnum einhverja snjalla lausn í þessu máli.



[15:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka fram skýrt og skilmerkilega að um þetta mál eru skiptar skoðanir í Framsóknarflokknum eins og í öðrum flokkum, bæði meðal þingmanna og almennra flokksmanna, svo því sé haldið til haga.

Ég er einn af þeim sem hafa talið þetta ferli allt saman hið undarlegasta frá upphafi. Ég var á móti því að stofna til þessa stjórnlagaþings sem átti að gera en samþykkti það engu að síður hér vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafði samþykkt að fara þessa leið. Það var lýðræðisleg ákvörðun, tekin á flokksþingi. Samþykki mitt náði hins vegar ekki lengra en það því að sú vegferð sem síðan var farin í þinginu er fyrir neðan allar hellur, að skauta fram hjá því sem Hæstiréttur kvað upp úr og stofna til þessa stjórnlagaráðs á mjög hæpnum forsendum að mínu viti. Ég hef engin kynni af því ágæta fólki sem sat í stjórnlagaráði nema kannski einum eða tveimur, allt er þetta örugglega hið ágætasta fólk. Þar af leiðandi ætla ég ekki að fjalla neitt um þær persónur á neinn hátt.

Ég vil hins vegar segja að það er mjög sérstakt að ráð, hverjir sem í því sitja, sem var kosið í af 36% atkvæðisbærra Íslendinga ef ég man rétt — Hæstiréttur ógilti þá kosningu — sé skipað af Alþingi sem ákveður að skauta fram hjá þessum staðreyndum sem ég gat um. Það sýndi sig glöggt í þessum kosningum að sú aðferðafræði sem var viðhöfð, það kosningakerfi, þessi persónukosning, gekk einfaldlega ekki upp. Kosningin dró ekki upp þverskurð af þjóðinni á nokkurn hátt ef horft er til aldurs, menntunar, búsetu og slíks. Það hefði verið nær að taka slembiúrtak úr þjóðskránni til að ná fram sama eða betra vægi hefði ég haldið.

Þá ætla ég að minnast þess sem ég sagði hér í ræðu 22. mars um þetta mál og stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram. Ég gagnrýndi harðlega að mér sýndist að ákveðin forgjöf hefði verið í þessari kosningu því að menn hefðu misjafnan aðgang að fjölmiðlum og þess háttar. Tilurð þess plaggs sem við ræðum hér er að mínu viti mjög sérstök, ég ætlaði að segja vafasöm en það er kannski ekki rétta orðið í þessu sambandi. Ég hlýt hins vegar að þakka fyrir þá vinnu sem var lögð í þetta hvað sem okkur finnst svo um afurðina og allt sem því fylgir.

Ég verð að segja, herra forseti, að margt í þeim tillögum sem hér eru settar fram virkar ekki vel á mig. Sumt skil ég bara alls ekki, svo það sé bara hreinlega sagt hér, og sumt fæ ég heldur ekki til að ganga upp í þeim anda sem er lagt af stað með, þ.e. að auka og jafna rétt þegnanna. Ég hef til dæmis efasemdir um það kosningakerfi sem lagt er upp með. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði hér áðan, Valgerði Bjarnadóttur, um að það þarf að skýra það verulega til að átta sig á því hvað í því felst.

Eignarréttur er eitt af því sem var rætt hér. Mér sýnist við fyrstu sýn að það sé verið að reyna að standa vörð um hann þó að það sé hoggið að einhverju leyti í hann. Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar, þær eru nokkrar sem ég hef þó merkt við hér, vil stoppa fyrst við 19. gr. um kirkjuskipanina. Ég er á móti því að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum í dag um kirkjuna, svo það sé sagt hér, þ.e. ef ég skil þetta rétt.

Síðan vil ég segja að mér finnst líka mjög óeðlilegt ef ráðherrar geta ekki setið lengur en átta ár í sama embætti. Mér finnst mjög óeðlilegt að setja í stjórnarskrá að ráðherra sem er kannski mjög farsæll í starfi þurfi að láta af því eftir átta ár. Á stjórnarmyndun, forseta og öllu þessu er hægt að hafa ýmsar skoðanir. Forseti Íslands hafði við þingsetningu langt mál um vangaveltur sínar um þessar tillögur. Þar er á ferðinni maður sem við vitum að hefur mikla þekkingu á stjórnmálum, stjórnmálafræðingur og prófessor eða doktor eða hvað það er nú í þessum málaflokki og málum, þannig að ég held að ekki sé hægt að horfa fram hjá orðum hans. Það sem ég hrekk kannski mest við eftir að hafa hlustað á forseta Íslands flytja ræðuna og heyrt viðbrögðin í fjölmiðlum á eftir er að það gengur vitanlega ekki að vera með stjórnarskrá sem hægt er að túlka út og suður þar sem menn geta lagt mismunandi mat á innihaldið. Það er alveg ljóst að það þarf að skýra einstakar greinar og sjálfsagt plaggið í heild.

Herra forseti. Í grunninn verð ég að segja að það er mjög slæmt að leggja í þá vegferð að breyta stjórnarskrá Íslands með Alþingi í raun klofið og lítinn áhuga þjóðarinnar ef marka má þátttökuna í kosningunum til stjórnlagaþings þannig að ég held að við horfum fram á mikil átök um innihald þessara tillagna um það hvernig á að standa að breytingum á stjórnarskránni nú og í framtíðinni. Ég verð alveg að vera hreinskilinn með það að ég óttast að þegar staðið er að breytingum á stjórnarskrá verði til plagg sem háð er meira einhverjum dægursveiflum en því sem hún á að vera háð, þ.e. grundvallarréttindum Íslendinga. Við viljum að hún marki þá stefnu sem við viljum byggja okkar lagagrunn á og stjórnskipan. Stjórnarskráin á heldur ekki að vera þannig plagg að hún taki mið af tíðarandanum eða sé breytt í ljósi tíðarandans, það má alls ekki vera. Ég hafna því algerlega ef því er haldið fram í dag að það sé stjórnarskránni, þessari gömlu góðu, að kenna að hér varð einhvers konar hrun, efnahagshrun. Að sjálfsögðu er það ekki. Það eru allt aðrir hlutir sem orsökuðu það.

Það segir hins vegar ekki að sá er hér stendur sé á móti því að breyta stjórnarskránni, alls ekki. Ég vil halda því til haga og endurtaka það sem ég sagði hér í mars að ég tel að alþingismenn, 63, sem hafa um 90% þjóðarinnar á bak við sig til að sitja hér séu betur til þess fallnir að breyta þessari stjórnarskrá en stjórnlagaráð með ríflega 30% atkvæði á bak við sig. Það er bara mín bjargfasta trú og skoðun. Það þarf samt að breyta ákveðnum hlutum. Það þarf að skýra ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Það þarf að skýra það að náttúruauðlindir séu eign okkar allra. Það þarf líka að skýra og breyta því hvernig dómar eru skipaðir. Ég tek undir það.

Það eru ákveðnir hlutir í mannréttindakaflanum sem þarf klárlega að skýra. Mér finnst ég þurfa skýringar á nokkrum tillögum sem hér eru lagðar fram svo ég átti mig á því af hverju þær eiga heima í stjórnarskránni, séu orðaðar eins og þær eru orðaðar þar. Jú, við skulum uppfæra þann kafla klárlega til að taka af allan vafa.

Ég er ekki viss um að svo miklar aðrar breytingar þurfi að gera. Ég held að það sé rangt að festa ákveðið kosningakerfi í stjórnarskránni eins og hér er lagt til. Ég held að það þurfi að vera möguleiki að hafa aðrar aðferðir en þarna er lagt upp með, fyrir utan það að ég skil hana ekki alveg, það verður að segjast alveg eins og er.

Herra forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur að vanda til verka, eins og ég sagði. Skýrsla þessi fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fær þar vonandi mjög gagnmerka og vandaða yfirferð. Ég hvika ekki frá því að sem ég sagði áðan, það hefði verið farsælla að reyna að ná meiri samstöðu og sátt um þá vegferð sem var farið í. Það kann að vera að þegar á endastöð er komið í umfjöllun um málið í þinginu verði búið að ná einhvers konar samstöðu eða sátt um breytingar. Ég ætla ekki að gefa mér að það náist ekki, en ég óttast að aðferðafræðin og hvernig til þessa var stofnað sé ekki til þess fallið, því miður.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu fjalla um þetta mál þegar það kemur aftur inn til þingsins og þegar ég er búinn að sökkva mér enn betur ofan í einstakar greinar og leita þá skýringa við þeim.



[16:08]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svolítið hvumsa yfir ræðu hv. þingmanns. Það var breið samstaða um það í þinginu að efna til stjórnlagaþings og uppi var mikil krafa í samfélaginu og heilu stjórnmálaflokkarnir höfðu á stefnuskrá sinni að endurskoða stjórnarskrána. Það var breið sátt um að efna til stjórnlagaþings. Hv. þingmaður talar af lítilsvirðingu um 36% kosningaþátttöku. Við skulum þá hafa í huga að 80–90 þús. kosningarbærir Íslendingar fóru á kjörstað til að taka þátt í fremur flóknu kosningakerfi um stjórnarskrána og velja fulltrúa á þingið. Síðan gerist það að Hæstiréttur ógildir kosninguna og að sjálfsögðu virðum við það. Þá var úr vöndu að ráða. Það hefur verið kallað eftir gagngerri endurskoðun á stjórnarskránni nánast frá því að hún var sett í upphafi. Breytingar hafa verið gerðar í smáum skrefum, en það var nokkuð mikil sátt um að nú þyrftum við að stíga skrefið til fulls.

Ég studdi stjórnlagaráð af því að ég taldi að tilnefning á milli 80–90 þús. kosningarbærra manna í ráð væri bara með því hressilegra sem við hefðum af stuðningi við þá fulltrúa sem valdir voru í ráðið samkvæmt niðurstöðu kosninga sem vissulega höfðu verið ógiltar en fjöldi kjósenda hafði farið á kjörstað til að velja til þessa verkefnis.

Því spyr ég: Telur hv. þingmaður eðlilegt að við þrefum um formið frekar en efnið nú þegar við höfum fengið svo glæsilega skýrslu í hendurnar?



[16:11]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrefa um formið frekar en efnið? Ég ætla ekki að standa hér og þrefa við hv. þingmann um formið, ég mun örugglega þrefa við hv. þingmann um efnið, en engu að síður tel ég rétt að halda til haga og ítreka þær skoðanir sem ég hef haft á þessu ferli í þessu máli. Ég frábið mér að hv. þingmaður skuli finna að því. Ég hafna því einnig algerlega að hafa talað af einhverri lítilsvirðingu til þeirra sem tóku þátt í þessari kosningu. Ég gerði það alls ekki. Ég skal upplýsa hv. þingmann um að ég fór sjálfur og kaus. Ég hunsaði ekki þessar kosningar. Ég tók þátt af því að mér fannst skylda mín að gera það. Ég get samt sagt við hv. þingmann að einungis tveir af þeim sem ég merkti við komust í þessa úrvalssveit sem var svo valin til að skrifa þetta frumvarp á þinginu, ekki samkvæmt niðurstöðum kosninganna vegna þess að þær voru ógiltar.

Mér finnst nauðsynlegt að koma því til skila að kosningaþátttaka upp á 36% í máli sem var búið að gera mikið úr, auglýsa vel og segja að skipti miklu máli er mjög lítil að mínu viti. Þá er ég ekkert að tala um þá sem kusu, hvorki mig né aðra. Þetta er mjög lítil þátttaka.

Það sem ég er að reyna að koma á framfæri við hv. þingmenn er að breytingar á stjórnarskránni, þessu grundvallarplaggi okkar, verða að mínu viti að hafa sterkan grunn. Það verður að vera trúnaður og traust um þær breytingar. Auðvitað er sagan um breytingar á stjórnarskránni ekkert mjög hliðholl Alþingi eða alþingismönnum, ég játa það fúslega. Það er margt nýtt fólk á þinginu og ég hefði viljað láta á reyna, svo ég segi alveg eins og er, að við hefðum getað náð hér fram ákveðnum breytingum á stjórnarskránni.



[16:13]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að taka fram varðandi ógildingu kosninganna að það var ekki vegna efa um réttmæti kjörs þeirra fulltrúa sem náðu kosningu. Þeir fulltrúar sem rituðu frumvarp að nýrri stjórnarskrá gera það í umboði 80–90 þús. kosningarbærra Íslendinga.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það ríkir ákveðið vantraust á þinginu um að leysa það verkefni að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Nú er einmitt kærkomið tækifæri fyrir okkur, alþingismenn Íslendinga, að sýna að við séum það þroskuð að við getum tekist á um efnisleg atriði þessara tillagna. Að sjálfsögðu eiga alþingismenn að hafa skoðun á þessum tillögum. Ég vil nota tækifærið, herra forseti, og hvetja þingheim til að taka starfshætti stjórnlagaráðs sér til fyrirmyndar og finna leið til að ná sátt um farsælar tillögur og til þess að koma þessum tillögum í farveg og vonandi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tek líka fram að það kemur ekki á óvart að þingmaðurinn hafi tekið þátt í kosningunni. Það mun koma mér á óvart ef hann styður ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, enda orðinn einn helsti talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna í þessu þingi. [Hlátur í þingsal.]



[16:15]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá vegtyllu sem þingmaðurinn afhenti mér hér. Ég veit ekki til þess að ég sé sérstakur talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna hér á Alþingi en þær eiga vissulega stundum rétt á sér, það er alveg hárrétt. Ég held að það sé nokkuð skýrt í lögum hvernig fara beri með tillögu sem þessa. Ég er hins vegar, þannig að það sé alveg á hreinu, á móti því að senda þetta frumvarp til einhvers konar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða skoðanakönnunar. Ég held að þetta eigi að vera í því ferli sem hér hefur verið kynnt.

Eflaust eru í þessu plaggi mjög margar góðar tillögur sem þarf að taka til meðferðar og ræða, ég ætla ekkert að neita því. Þarna eru hins vegar ákveðnir hlutir, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, sem ég átta mig ekki á af hverju eru þarna eða hreinlega skil ekki. Það þarf því að fara yfir þær tillögur og skýra.

Ég ítreka enn og aftur að ég hef áhyggjur af því hvernig til þessa var stofnað. Mér finnst grunnurinn til að standa á til að segja við þessa vinnu að það sé breið samstaða um málið á Alþingi ekki nógu traustur. Mér finnst traustið vanta vegna þess að það var engin samstaða um það ferli sem hér var farið í. Þegar hér var kosið um hvort skipa ætti þetta stjórnlagaráð eða ekki munum við hvernig ræðurnar voru og hvernig það skipaðist. Mér finnst algjörlega vanta að sá grunnur sé sterkari. Ég hefði viljað sjá hér miklu meiri samstöðu um þá ferð sem var farin. Ég sagði í þeirri atkvæðagreiðslu að fyrst þetta hefði farið eins og það fór hefði verið skárra að byrja upp á nýtt og fara þessa stjórnlagaþingsleið frekar en að fara þá leið sem var farin. Það hefði verið skárra og að sjálfsögðu stend ég við það.



[16:17]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ein afleiðing efnahagshrunsins á Íslandi var kröftug krafa um aukið lýðræði. Menn upplifðu, og það var eðlilegt, að lýðræðið og þeir sem áttu að gæta þess hefðu brugðist og það nægir að nefna allar helstu eftirlits- og stjórnsýslustofnanir í landinu, forustumenn í efnahagslífi, viðskiptalífi og bankalífi. Fjölmiðlar brugðust þjóðinni að mjög margra mati, þeirrar sem hér stendur þeirra á meðal. Þeir sinntu ekki aðhalds-, eftirlits- og gagnrýnishlutverki sínu.

Ég hlýt að nefna forseta Íslands sem brást hlutverki sínu algerlega eins og lesa má á bls. 170–178 í 8. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis. Ráðandi öfl í stjórnmálalífi þjóðarinnar brugðust líka hlutverki sínu. Í kjölfarið var krafist nýrrar ríkisstjórnar, nýrra kosninga og nýrrar stjórnarskrár og ég fullyrði, herra forseti, að meiri hluti þjóðarinnar telji það forsendu fyrir nauðsynlegri endurreisn og uppbyggingu í landinu, og reyndar líka til að ná sáttum í íslensku samfélagi, að það eigi að byrja á því að bæta og styrkja lýðræðið í sessi með því meðal annars að breyta stjórnarskrá lýðveldisins. Hluti af þeirri kröfu er einmitt líka að þjóðin taki í sínar eigin hendur að breyta stjórnarskránni.

Það er margt sem menn hafa talið að þurfi að breyta og ég ætla að hlaupa á örfáum atriðum. Það þarf að breyta stjórnarskránni að mati flestra í þessu landi, held ég, a.m.k. mikils meiri hluta, með því að taka upp í stjórnarskrá lýðveldisins ákvæði um beint lýðræði, þ.e. að þjóðin sjálf geti tekið ákvörðun um mikilvæg mál og ákveðið með lýðræðislegum hætti í almennum atkvæðagreiðslum hver niðurstaðan á að vera. Einnig að kjósendur geti haft beinni áhrif á það hvaða einstaklingar veljast til trúnaðarstarfa um leið og þeir kjósa um ólíkar stefnur flokka. Í þriðja lagi að í stjórnarskrá eigi að taka ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum, að auðlindir til lands og sjávar eigi að vera sameign þjóðarinnar en ekki eign einkaaðila og að með þjóðareign sé áskilið að ríkið fari með forsjá auðlindanna, vörslu og ráðstöfunarrétt og hafi eftirlit með nýtingu þeirra, að auðlindir okkar verði nýttar með sjálfbærum hætti í þágu þjóðarinnar allrar en ekki einstakra hópa.

Þá er held ég víðtæk samstaða um það, og það hefur komið fram í umræðunum í dag, að breyta þurfi fyrirkomulagi hvað varðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, að um það geti farið fram sjálfstæð kosning í stað þess fyrirkomulags sem við nú þekkjum og kallar á að þing sé rofið og tvö þing samþykki breytinguna. Eins og við vitum er í slíkum kosningum í reynd kosið um flokka en ekki stjórnarskrá og það er að flestra mati meingallað fyrirkomulag.

Þessi atriði sem ég hef hér talið voru ofarlega á blaði í kröfugerð búsáhaldabyltingarinnar, en meginkrafan sem gekk eins og rauður þráður í gegnum alla þessa umræðu var að það væri sérlega valið stjórnlagaþing en ekki Alþingi Íslendinga sem ynni frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Ég hef heyrt í umræðunum í dag gamalkunnugt stef um að með því móti sé valdið tekið frá Alþingi, það að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn. Ég hlýt að spyrja hvaðan það vald sem menn tala um að Alþingi hafi sé komið ef ekki frá þjóðinni. Allt vald í raunverulegu lýðræðisríki kemur frá þjóðinni, hennar er valdið og í hennar umboði starfar Alþingi. Ég tel mikilvægt að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði það áréttað að valdið komi frá þjóðinni, ekki frá öðrum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir einstaka kafla í tillögum stjórnlagaráðs. Mig langar til að þakka sérstaklega fyrir ræðu formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Í tilefni af orðum sem hér hafa fallið um þessa umræðu, og vísa ég þar til orða hv. þm. Birgis Ármannssonar fyrr í dag, vil ég taka fram að eins og ég hef skilið aðdragandann að þessari umræðu gilda engar takmarkanir á því hversu lengi þessi umræða getur staðið. Það er meira að segja gert ráð fyrir því í skipulagi þingsins þessa vikuna að ljúki þessari umræðu ekki fyrir miðnætti í kvöld, en svo lengi getur fundur staðið á þriðjudagskvöldum án þess að um það fari fram sérstök atkvæðagreiðsla í þingsal, og er gert ráð fyrir því að hægt sé að halda henni áfram á morgun. Við höfum mjög góðan tíma til að fara yfir þessi atriði og ræða þau í þingsal áður en skýrslan fer til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég verð að játa, herra forseti, að umræðan hefur tekið nokkuð aðra stefnu en ég hefði kosið. Það hlýtur að verða til þess að ég fari minna í einstakar tillögur stjórnlagaráðsins að þessu sinni. Það er staðreynd að Alþingi hefur að margra mati mistekist að endurnýja stjórnarskrá lýðveldisins en ég undanskil þó mannréttindaákvæðin. Það er ekki svo langt síðan, bara fyrir kosningar 2007, að menn heyktust á því eftir gríðarlega mikla vinnu í stjórnarskrárnefnd sem kennd hefur verið við formann hennar, hv. fyrrverandi þm. Jón Kristjánsson, að breyta stjórnarskránni. Það strandaði aðallega á deilum við flokk einkaeignarinnar og einkaframtaksins á Alþingi, Sjálfstæðisflokkinn, sem ekki vildi setja í stjórnarskrána ákvæði um sameign á þjóðarauðlindum. Við skulum bara tala mannamál í þessum þingsal vegna þess að það er staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn þvældist fyrir því að þetta yrði hægt að klára á þeim tíma, rétt eins og hann gerði það með málþófi fyrir kosningar vorið 2009 þegar þingmenn flokksins töluðu í marga tugi klukkutíma og héldu fleiri hundruð ræður, mörg hundruð andsvör og gerðu mörg hundruð athugasemdir við fundarstjórn forseta til þess eins að koma í veg fyrir þann ásetning meiri hluta þingmanna að breyta stjórnarskránni fyrir aprílkosningarnar 2009. Að þeim loknum var útlitið ekki svo gott.

Ég er að rifja þetta upp, herra forseti, vegna þess að hér hafa menn verið að ræða um ferlið en ekki innihaldið og ég ætla að taka þátt í þeirri umræðu. Það brá þó til betra horfs þegar breið samstaða náðist á Alþingi um annað og nýtt ferli við endurskoðun stjórnarskrárinnar þegar hér voru samþykkt lög um kosningu stjórnlagaþings. Ég minni á að það var einungis eitt mótatkvæði í þessum 63 manna hópi við það ferli. Það náðist breið sátt um að haldinn skyldi þjóðfundur, að kjörin yrði stjórnlaganefnd í Alþingi og síðan kosið stjórnlagaþing beinni kosningu. Það átti að fjalla um tillögu stjórnlaganefndar og þjóðfundar. Alþingi skyldi síðan taka við og afgreiða stjórnarskrárfrumvarp á tveimur þingum með almennum kosningum á milli í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar en eins og við þekkjum er ekki hægt að breyta því núna.

Herra forseti. Þjóðfundur var haldinn í byrjun nóvember 2010 og þótti takast mjög vel. Stjórnlaganefnd vann úr því sem þar kom fram og afhenti skýrslu sína þegar þar að kom loksins en stjórnlaganefnd var ætlað að afhenda hana stjórnlagaþingi. Kosning til stjórnlagaþings fór fram 27. nóvember 2010 en með ákvörðun 25. janúar 2011 ógilti Hæstiréttur Íslands þá kosningu. Sú ákvörðun var bindandi og endanleg og því kom ekki til þess að stjórnlagaþing kæmi saman og væri sett af forseta Alþingis eins og til stóð 15. febrúar á þessu ári.

Þá var málið komið í öngstræti og það hefur verið til þess vitnað að þá hefði verið rétt að byrja upp á nýtt. Það voru ekki allir tilbúnir til þess, sem betur fer, og í kjölfar þessarar ákvörðunar ákvað forsætisráðherra að setja á fót samráðshóp fulltrúa allra þingflokka til að greina stöðuna og meta hvaða leið væri vænleg til að ljúka því verkefni að endurskoða stjórnarskrána á þessu kjörtímabili. Ástæðan fyrir því er sú að hæstv. forsætisráðherra taldi eins og fleiri þingmenn að það þing sem nú situr hefði skuldbundið sig til að tryggja að ný tillaga að stjórnarskrá yrði lögð fyrir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu við næstu almennu þingkosningar. Í anda þess var þessi samráðshópur settur á laggirnar og eftir að hann hafði vegið og metið kosti ólíkra leiða varð niðurstaðan sú að leggja fyrir Alþingi að Alþingi sjálft leysti hnútinn sem endurskoðunarferlið var komið í. Það var gert í þessum sal með samþykkt þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs. Hér erum við komin með afrakstur stjórnlagaráðs í hendur í skýrslu sem forsætisnefnd ber fram. Ég vil nota þetta tækifæri, eins og reyndar aðrir hafa gert, til að þakka þeim einstaklingum sem tóku þetta vandasama hlutverk að sér við mjög erfiðar aðstæður um leið og ég þakka fyrir afraksturinn.

Það var ekki auðvelt að ég tel að taka sæti í stjórnlagaráði eftir þær umræður sem voru í Alþingi og eftir þær umræður sem voru víða í samfélaginu. Menn stilltu þessu upp sem einhvers konar átökum við æðsta dómstól landsins. Ég var talsmaður þess hér, og við sem fluttum þessa þingsályktunartillögu um árið, að Alþingi sjálft gæti og ætti að taka málið til sín og leysa úr þeim hnút sem kominn var á ferlið. Það var gert og það er vel. Nú erum við loksins komin þangað sem við ætluðum okkur að vera komin á þessum tíma og enn höfum við tóm til að ljúka því ætlunarverki. Ég endurtek að ég tel að þetta þing hafi skuldbundið sig til að tryggja að ný stjórnarskrá verði lögð fyrir þjóðina til endanlegrar afgreiðslu við næstu almennu kosningar. Til þess höfum við enn þá tóm. Við höfum breytt verklagi í þinginu og við höfum nú kosið nýja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær það hlutverk að fara yfir allar þessar tillögur.

Hér liggur einnig fyrir sérstök tillaga um málsmeðferð sem var rædd í síðustu viku. Henni hefur einnig verið vísað til nefndarinnar og ég vil segja af því tilefni að við hljótum að ræða þá tillögu, en líka þurfum við að hlusta á allar þær raddir sem koma fram bæði í þeirri umræðu og í þessari umræðu um það hvernig þetta ferli verði farsælast og hvernig megi ná sem breiðastri samstöðu í okkar hópi, þingmanna, til að ljúka þessu ætlunarverki.

Það hafa margir sagt og það hefur heyrst í umræðunum að það sé rétt að farið verði í ráðgefandi kosningu um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár um leið og nýr forseti verður kosinn á næsta sumri. Ég fagna því að fleiri og fleiri þingmenn taka undir þá ósk. Hins vegar finnst mörgum ekki gott að svara annaðhvort já eða nei við heildarhugmyndunum, við heildarpakkanum. Þetta er flókið og fjölbreytt skjal og menn vilja eðlilega geta sagt skoðun sína í ráðgefandi atkvæðagreiðslu á til að mynda auðlindakaflanum sérstaklega, til að mynda á kaflanum um valdsvið forseta Íslands sérstaklega og til að mynda um kosningakerfið, samþykkja einstaka kafla eða hafna þeim eftir atvikum. Mér finnst að ef við ætlum í alvöru að tala um ráðgefandi kosningu þannig að þingið fái einhverja hugmynd um afstöðu manna til einstakra tillagna verði að opna á þann möguleika að menn geti sagt skoðun sína á tilteknum þáttum í frumvarpinu, ekki bara já eða nei við öllu.

Það er margt í þessu frumvarpi, herra forseti, sem fellur vel að hugmyndum mínum um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá en það er annað sem vekur mér nokkrar spurningar og jafnvel undrun. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilteknir hlutir eigi betur heima í stjórnarskrá eða lögum. Hér hefur verið nefnt niðurnjörvað kosningakerfi sem ég tel að hafi mistekist að beita í kosningunum til stjórnlagaþings, og spurt er hvort rétt sé að binda eitt kosningakerfi í stjórnarskrá með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.

Ég velti líka fyrir mér tveimur atriðum sem hér er gerð tillaga um að sett verði í stjórnarskrá sem svo sannarlega voru í herfilegum ólestri þegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom til valda 1. febrúar 2009 og sem hvort tveggja er búið að breyta farsællega með lögum. Annars vegar er þar um að ræða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Settur var mjög skýr lagarammi um þessi mál og veitti ekki af. Hins vegar hafa verið sett mjög brýn ný ákvæði í lög um skipun dómara. Í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að þessi tvö atriði verði sett inn í stjórnarskrá með tilteknum hætti.

Mig langar til að rifja upp, af því að það er eins og það hafi gleymst, þessar breytingar sem gerðar voru á lögum um skipun dómara. Ráðherra getur ekki lengur skipað dómara, hvort heldur í héraðsdómi eða Hæstarétti, eftir eigin geðþótta. Það gengur ekki. Það er búið að sjá fyrir því með lögum. Dómsmálaráðherra, nú innanríkisráðherra, skal skipa fimm manns í dómnefnd til að fjalla um hæfi og dómnefndin á að láta ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn og það er óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Þetta getur varla verið skýrara. Það er að vísu til undantekning á þessu, mjög þröng, ef Alþingi samþykkir annað innan tiltekins tíma með mjög stífum takmörkunum. Ég tel sem sagt sumt í þessu frumvarpi þegar komið í lög og óþarft að hafa í stjórnarskrá. Það er þó í reynd ekkert aðalatriði þessa máls, ekki hvað mér finnst um það, heldur hvað þjóðinni finnst um það. Þess vegna finnst mér brýnt að menn fái að taka afstöðu til einstakra þátta í þessu frumvarpi.

Ég sagði áðan að margt vekti mér spurningar og efasemdir, ekki síst eftir túlkun forseta Íslands á tillögum stjórnlagaráðs um það sem til þess embættis heyrir. Sú umræða sem spannst í kjölfarið á þeirri ræðu hér, „ég um mig frá mér til mín“, krefst þess að við tökum ítarlega umræðu um þingræðið, um valdmörk þess og um lýðræðið sem ég nefndi í upphafi. Við þurfum að velta fyrir okkur grundvallarspurningunum sem eru í 1. gr. núgildandi stjórnarskrár og frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár þar sem nú segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn, stjórnlagaráð segir þingræðisstjórn en ég sé ekki muninn. Viljum við slíkt stjórnfyrirkomulag, viljum við slíka stjórnskipan eða viljum við franskt eða bandarískt forsetaræði þar sem forseti lýðveldisins velur sér ráðherra í sína ríkisstjórn og jafnvel dómara líka eins og gerist í Bandaríkjunum? Ég segi nei. Eins og við vitum getur verið vandséð að vinda ofan af túlkun þegar búið er að túlka tillögur með þessum hætti.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lýst því yfir í þingsal að með því að forseti lýðveldisins hafi túlkað þetta með þessum hætti verði þeirri túlkun ekki breytt. Þá er lítið annað eftir að mínu viti, ef menn vilja ekki fylgja þeirri stefnu, en að breyta orðalagi greinanna. Þetta tel ég, herra forseti, mjög nauðsynlegt að ræða ítarlega innan þings og utan.

Ég á sæti í nýrri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta verkefni og ég verð að segja að ég hlakka til að takast á við það í þeim ágæta hópi sem þá nefnd skipar. Núna reynir á þingið að ljúka ferlinu, standa við stóru orðin, leggja þetta fyrir þjóðina og klára málið.

Það þarf auðvitað að huga að verklagi eins og ég sagði áðan, og ég tek undir það sem formaður nefndarinnar sagði, það þarf að ná samstöðu um verklagið til að byrja með og ég vona svo sannarlega að þeir sem gagnrýndu hér hvað mest þá ákvörðun að halda vinnunni áfram við undirbúning að nýrri stjórnarskrá þrátt fyrir úrskurð, en ekki dóm, Hæstaréttar Íslands láti það ekki þvælast fyrir sér heldur komi í málefnalega umræðu um einstaka þætti. Ég tel, eins og hér hefur verið bent á, að við eigum að taka það samtal upp við stjórnlaganefnd, við stjórnlagaráðið og þjóðina meðan við erum með þetta í vinnslu í þinginu. Við þurfum að huga að aðstöðu og fjármunum til þess og ég held að mér sé óhætt að fullyrða, herra forseti, að það hafi orðið töluverður afgangur af þeim fjármunum sem var ætlað til vinnu stjórnlagaþings og svo stjórnlagaráðs, kosninganna, þjóðfundarins og stjórnlaganefndar og reyndar hefur ekki staðið á fjárveitingum til þessarar vinnu. Það hefur staðið á allt öðru. Það hefur staðið á viljanum en ekki fjármunum þannig að maður ætti kannski ekki að þurfa að orðlengja frekar um það.

Ég óska Alþingi Íslendinga og íslensku þjóðinni til hamingju með þann áfanga sem hér hefur náðst. Við erum komin lengra í dag en við vorum í gær í átt að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.



[16:40]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í miklar deilur, allra síst um fortíðina, við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, Við höfum áður átt ýmis samtöl um þau atriði. Það eru bara tvö atriði sem ég vildi koma á framfæri og gera athugasemdir við þannig að hinu rétta sé haldið til haga. Hv. fyrrverandi þm. Jón Kristjánsson var spurður að því í allsherjarnefnd í fyrravetur hvað helst hefði valdið vandræðum, var spurður um ástæður þess að ekki hefði náðst samstaða í stjórnarskrárnefnd sem starfaði 2005–2007. Eitt mál þvældist fyrir allan tímann, sagði hann, staða forseta Íslands, 26. gr. um málskot forseta. Samfylkingin vildi ekki sjá breytingar á því ákvæði, á því strandaði. Ég vil bara halda því til haga, þetta eru ekki mín orð, ég sat í þessari nefnd, en þetta upplýsti fyrrverandi formaður nefndarinnar þegar hann kom til allsherjarnefndar síðasta vetur.

Í annan stað vildi ég nefna það eiginlega fyrir þingtíðindin að fyrstu lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda voru samþykkt í desember 2006. Það voru gerðar ákveðnar breytingar á þeim eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum en stóra skrefið, meginbreytingin, varð í desember 2006 þó að þau tækju ekki gildi fyrr en eftir kosningarnar 2007.



[16:42]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila lengi heldur um fortíðina við hv. þm. Birgi Ármannsson og rengi ekki það sem hann segir og vísar til orða Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi formanns stjórnarskrárnefndar. Í því sem ég hef lesið mér til og hér hefur verið rætt í þingsölum um ástæður þess að ekki náðist að leggja fram tillögur um nýja stjórnarskrá fyrir kosningar 2007 var auðlindakaflinn sérstaklega nefndur, og það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég efast hins vegar ekki um að málskotsréttur forseta Íslands hafi þvælst fyrir mönnum þá sem nú.

Það er rétt að lög um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra voru fyrst sett 21. desember 2006. Þau dugðu hins vegar ekki hætishót eins og lesa má í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem raktir eru í mörgum töflum allir þeir styrkir sem frambjóðendur nutu, stjórnmálamenn allra flokka annarra en Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Vinstri hreyfingin – grænt framboð fær tvær línur í þeim kafla og í þeim segir að þar hafi menn ekki notið slíkra styrkja.

Það þótti algerlega nauðsynlegt að breyta þeim lögum og var það auðvitað. Kínverjar töluðu um stóra stökkið og ég skal kyngja því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið stóra skrefið 2006 en það dugði hins vegar mjög skammt.



[16:44]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þannig að við hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nálgumst aðeins í þessari umræðu er það rétt að þær styrkveitingar sem getið er um í skýrslu rannsóknarnefndar vörðuðu fyrst og fremst kosningar sem annars vegar áttu sér stað 2006 og hins vegar 2007. Lögin sem voru samþykkt í desember 2006 tóku ekki gildi fyrr en eftir kosningarnar 2007 en það má deila um hvort með því hafi verið rétt að málum staðið. Ef ég man rétt bjuggu þau sjónarmið að baki að ekki væri rétt að breyta leikreglum í miðri atburðarás í aðdraganda kosninganna 2007, bara þannig að það sé sagt. Það má velta fyrir sér hvort þau hefðu átt að taka gildi þegar í stað en þau tilvik sem skýrsla rannsóknarnefndar fjallar um og listarnir sem hv. þingmaður vísar til eiga sér rót í styrkveitingum sem áttu sér stað áður en (Forseti hringir.) lög um fjármál stjórnmálaflokkanna tóku gildi, forvitnileg engu að síður.



[16:45]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort við nálgumst mikið eftir þetta svar mitt við andsvari hv. þingmanns. Það er stundum talað um að menn skuli ekki nefna snöru í hengds manns húsi. Það er rétt að þessum lögum var breytt í desember 2006. En hvað gerðist tveimur dögum fyrir áramót? Styrkveiting FL Group til Sjálfstæðisflokksins upp á 20 eða 30 milljónir, ég man ekki hvort heldur var. (Gripið fram í.) Þannig var nú það.



[16:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi síðasta umræða fer dálítið í taugarnar á mér vegna þess að við erum ekkert að ræða um Sjálfstæðisflokkinn alla daga og hvað hann hafi gert af sér eins og hv. þingmaður hefur tilhneigingu til að gera.

Við erum að ræða um tillögur stjórnlagaráðs um stjórnarskrá sem er miklu stærra mál. Ræða hv. þingmanns var ágæt og hún var ekkert að kenna Sjálfstæðisflokknum um eitt eða neitt svo ég muni, það kom ekki fyrr en í andsvörunum. Hún talaði um að þjóðin mundi greiða atkvæði um einstakar greinar og ég spyr: Hvað gerist ef þjóðin fellir út einhverja grein sem er nauðsynleg í uppbyggingu stjórnarskrárinnar? Það getur gerst, og hvernig ætlar hún að koma í veg fyrir það? Ég veit ekki enn þá, herra forseti, hvernig menn sjá fyrir sér á hvaða formi þetta verður borið undir þjóðaratkvæði. Er þetta frumvarp, eru þetta lög eða er það þingsályktun? Um hvað mun þjóðin eiginlega greiða atkvæði? Er það hugmynd að stjórnarskrá, tillaga að stjórnarskrá o.s.frv.? Ég vil fá að vita það nokkurn veginn. Þjóðaratkvæðagreiðslan er ekki einu sinni bindandi og getur ekki verið það.

Svo er það 111. gr. Þar er rætt um framsal ríkisvalds og ég spyr hv. þingmann sem veit ýmislegt: Er þetta undirbúningur undir það að Ísland gangi í Evrópusambandið? Þarna stendur að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds en það eigi að bera það undir þjóðina til atkvæðagreiðslu. Er þetta byrjunin á því að framselja ríkisvaldið til Evrópusambandsins og afsala okkur sjálfstæði? Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé mjög ánægður með þetta ákvæði.



[16:48]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að við erum ekki að ræða um Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega en ég hvet samt þann ágæta flokk til að nálgast þetta verkefni hér af tiltekinni hógværð og lítillæti. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja að það er uppi krafa um að menn fái tækifæri til að kjósa um þær tillögur sem stjórnlagaráð hefur lagt fram. Það er ekkert óeðlilegt við það og kemur meira að segja fram í því bréfi sem fylgdi tillögum stjórnlagaráðs til þingsins að einhverjar breytingartillögur komi fram hér í þinginu við tillögur stjórnlagaráðs. Það er hægur vandi í kosningu fyrir menn að velja á milli slíkra kosta. Þessi hugmynd var reifuð í síðustu viku þegar þingsályktunartillaga hv. þm. Þórs Saaris o.fl. var til umræðu og ég tel að það sé alveg hægt að skoða það. Hins vegar má líka reyna að ná víðtækri samstöðu, meira að segja með því að leggja hlutina aftur fyrir stjórnlagaráðið ef menn eru eindregið þeirrar skoðunar að einhverjar tilteknar breytingar þurfi að gera og samstaða næst um það.

Varðandi 111. gr. er mér þannig farið að ég sé ekki ESB-púkann í hverju horni eins og margir í þessum sal. Ég skal ekki um það fullyrða hvort þar er endanlega rétt framsetning á ferðinni. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því en ég fullyrði að stjórnlagaráð hefur væntanlega ekki sett þetta þarna inn til að auðvelda inngöngu Íslands í Evrópusambandið eða aðrar ríkjasamsteypur.



[16:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir gott að heyra hvatningu hv. þingmanns um að þingmenn ræði þetta mál af hógværð og lítillæti. Hv. þingmaður sagði líka að það væri krafa um að kjósa um tillögurnar. Er sú krafa ekki bundin því að sú kosning hafi einhver áhrif? Eða eru menn að gera kröfu um að kjósa um eitthvað sem hefur svo engin áhrif sem skipta máli? Er það virkilega þannig? Ég geri ekki ráð fyrir því að Jón Jónsson eða Gunna Gunnarsdóttir hafi áhuga á því að kjósa um eitthvað bara til að kjósa. Krafan er ekki að kjósa bara til að kjósa heldur til að hafa áhrif. Það vill svo til eins og þetta er uppbyggt allt saman að sú kosning sem menn ætla sér að hafa hefur engin áhrif. (BirgJ: Er þetta eitthvað öðruvísi en Icesave-samningurinn?) Já, af því að það var bindandi samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar.

ESB-púkinn, það er eins gott að sjá hann áður en hann dettur yfir okkur.



[16:52]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Menn skulu ekki gera lítið úr niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og stjórnarskránni er nú háttað er ekki hægt að viðhafa öðruvísi kosningu um þetta mál en að hún sé ráðgefandi. Það sem ég sagði áðan og vil endurtaka er að ef þingið ætlar að taka ráð þeirra sem mynda meiri hluta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þurfa þau skilaboð að vera nokkuð auðlesin. Mér finnst þess vegna eðlilegt að það sé hægt eins og ég sagði áðan að taka þessa atkvæðagreiðslu kafla fyrir kafla og gefa mönnum kost á því að lýsa skoðun sinni á einstaka atriðum.

Hv. þingmaður spurði hvað mundi gerast ef einstök grein yrði felld út og það er einfalt. Það væru mjög skýr skilaboð (Forseti hringir.) til þingsins um að sú grein væri bara ekki nógu góð.



[16:53]
Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég upplifi það sem rauðan þráð í tillögu stjórnlagaráðsins að nýrri stjórnarskrá að þarna sé mjög verið að styrkja þingræðið. Þess vegna langar mig að eiga smáorðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um nákvæmlega þetta, þingræðið versus einhvers konar forsetaþingræði sem forseti Íslands gaf í skyn að væri verið að styrkja með frumvarpinu.

Forseti lýðveldisins hefur nefnt það sem dæmi að gert sé ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við stjórnarmyndun í þessu frumvarpi og tiltekur það sem röksemd fyrir meiri völdum forsetans. Ég á afskaplega erfitt með að skilja þetta atriði í rökstuðningi forsetans og langar að eiga smáorðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um það hvort hún upplifi þetta eins og ég. Eins og stjórnarskráin er núna hefur forsetinn það vald að veita stjórnmálaforingjum umboð til stjórnarmyndunar og ef ekki tekst að mynda ríkisstjórn getur forsetinn falið hverjum sem er á Íslandi umboð til að mynda ríkisstjórn. Það hefur gerst í lýðveldissögunni að utanaðkomandi maður hefur fengið umboð forsetans til að mynda ríkisstjórn, það var utanþingsstjórnin á stríðsárunum.

Samkvæmt frumvarpinu sem nú liggur fyrir hefur forsetinn ekki lengur þetta vald. Forsetinn verður núna að hlusta eftir því hver það er sem þingið vill að verði forsætisráðherra. Ef þingið kemur sér ekki saman, ef forseti Íslands er búinn að gera tvær tillögur um forsætisráðherra og það myndast ekki samkomulag, meira að segja þá fær forsetinn ekki vald til að skipa neinn annan forsætisráðherra. Það er þá þingið sem ákveður. Bara í þessu einstaka ferli er verið að styrkja þingræðið og mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Upplifir hún það ekki eins?



[16:55]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég upplifi það ekki sem svo að það sé verið að styrkja þingræðið sérstaklega á kostnað einhvers styrkleika hjá forsetaembættinu, heldur þvert á móti. Ég sé til að mynda ekki hvers vegna í ósköpunum embætti forseta Íslands ætti að koma að því að skipa dómara. Ég tel að þar séu menn komnir út fyrir eðlilega þrískiptingu valdsins.

Ég sat ekki undir ræðu forseta Íslands við þingsetninguna af eðlilegum ástæðum. Það er samt alveg ljóst af öllum þeim umræðum sem spruttu af henni að það eru fleiri skoðanir en ein á þeim ákvæðum sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi. Forseti Íslands mun hafa talið það sjálfsagt og eðlilegt, ekki aðeins að forseti gerði tillögu um forsætisráðherra og veldi hann heldur kannski sérstaklega að þá væri til þess ætlast að það val væri algerlega opið innan þings sem utan. Það er það sem ég hef heyrt vitnað í orð hans og það er það sem ýmsir stjórnlagaráðsmenn hafa gagnrýnt.

Það sem ég sagði áðan og vil endurtaka er að ef menn geta túlkað þessi mikilvægu ákvæði um þingræðið svo ólíkt sem raun ber vitni þurfum við að lúslesa þetta en við þurfum fyrst og fremst að spyrja okkur sjálf: Viljum við þingræði eða viljum við bandarískt forsetaræði?



[16:57]
Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þingræði og ég upplifi tillögurnar sem heilsteypt plagg um það að efla þingræði. Forseti Íslands gerir tillögu að forsætisráðherra en velur hann ekki. Hv. þingmaður skaut þeirri sögn inn í einhvern veginn aukalega en forsetinn á ekki að velja forsætisráðherra. Núna getur hann valið hann og ég skil ekki alveg hvernig hægt er að halda því fram að sú breyting frá því að forsetinn hafi vald til að velja beinlínis forsætisráðherra meðal fólks á Íslandi til þess að hann hafi það ekki heldur þingið sé eitthvert ferli sem eflir völd forsetans sérstaklega. Ég fatta þetta ekki.

Forseti mun ekki heldur hafa heimild til að skipa dómara samkvæmt frumvarpinu. Sem þjóðkjörinn einstaklingur og þar af leiðandi ákveðið sameiningartákn og vonandi maður með skýra dómgreind á hann að skipa formann í tiltekinni nefnd sem skipar í viss embætti. Síðan er það þingið sem getur sett þeim ákvörðunum (Forseti hringir.) stólinn fyrir dyrnar þannig að þetta er alltaf styrking á þingræðinu.



[16:59]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að hér séu gerðar tillögur í góðri trú um að styrkja þingræðið á Íslandi. Ég frábið mér að ég þurfi að verja túlkun á orðum forseta Íslands um þau ákvæði sem hér um ræðir. Það sem ég kalla eftir er að ákvæðin séu það skýr að þau megi ekki misskiljast, en aðalatriðið er þó að við vitum hvað við viljum, íslensk þjóð. Viljum við stjórnskipan eins og ríkir á Norðurlöndunum og hér hefur ríkt frá lýðveldisstofnun með þingbundinni ríkisstjórn, með þingræði, eða viljum við forsetaræði eins og það gerist til að mynda í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í Frakklandi? Við þurfum að svara þessari spurningu. Það má ekki vera bæði og eða hvorki né. Það þarf að vera alveg klárt hvora leiðina við ætlum að velja og mitt val er einfalt, það er það sama og hv. þingmanns.



[17:00]
Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því að þetta mál er komið inn í þingið og í því formi sem það er, sem skýrsla. Það bendir til þess að ferli málsins og afgreiðsla þess sé enn þá nægilega opið þannig að nægilega margir geti í framhaldinu komið að ferlinu við að klára nýja stjórnarskrá Íslands. Það er einfaldlega hið besta mál.

Mér óar við þeim hugmyndum sem hafa komið fram enn einu sinni um að það eigi að vera á valdi Alþingis að skrifa nýja stjórnarskrá. Alþingi hefur brugðist í því verki sínu í hartnær 70 ár og miðað við það sem ég hef heyrt á einstökum þingmönnum í ræðum þeirra ef Alþingi ætlar eitt og sér að taka að sér að skila af sér nýrri stjórnarskrá mun það einfaldlega bregðast í því hlutverki enn eina ferðina.

Afstaða manna er alltaf sú að „ég“ vil hafa þetta í stjórnarskránni. Menn komast aldrei lengra frá sjálfum sér. Ný stjórnarskrá var meðal annars ein af kröfum búsáhaldabyltingarinnar. Fólkið sem stóð hér fyrir utan mánuðum saman krafðist þess að ríkisstjórnin færi frá, ríkisstjórn sem hafði gjörsamlega klúðrað öllu sem hægt var að klúðra í efnahagsmálum þjóðarinnar en neitaði að víkja. Eina vopn almennings í landinu, þeirra þúsunda og tugþúsunda sem komu samanlagt á fundi fyrir utan húsið, var að standa hérna fyrir utan, öskra á húsið og kasta í það drasli. Er það einhvers konar aðferð sem við viljum hafa í framtíðinni þegar almenningur kemur að stjórnmálum á Íslandi? Ég held ekki. Ekki síst þess vegna er sú mikilvæga krafa uppi sem fram kemur í þessum drögum sem stjórnlagaráð skilaði af sér að ákveðið hlutfall kosningarbærra manna geti einfaldlega kallað eftir kosningum. Það og það eitt mun veita stjórnvöldum hverju sinni það nauðsynlega aðhald sem þau þurfa á að halda.

Ég hef búið í þessu landi í hartnær 50 ár og frá því að ég komst til vits og ára hefur mér alltaf fundist Alþingi og stjórnmálaflokkar á Alþingi misfara með það umboð sem þeir hafa. Mjög margir Íslendingar eru sama sinnis og ég. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér í mörgum tilvikum og rangt fyrir mér í mörgum tilvikum en meginatriðið er samt að ef nægilegur fjöldi landsmanna er sama sinnis og telur sér misboðið varðandi framgang Alþingis er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu og þar með veita þinginu aðhald. Þetta tel ég mikilvægasta atriðið í þeirri þróun sem við erum vonandi að sjá hér.

Varðandi frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefur verið brotið blað í ritun stjórnarskráa sem hefur vakið mjög mikla athygli erlendis, hjá erlendum fjölmiðlum úti um allan heim, miklu meiri athygli erlendis en á Íslandi og það segir nú sitthvað um íslenska fjölmiðla og stöðu þeirra í dag því að aðferðin sem við höfum kosið að nota við þessa endurritun stjórnarskrár er til algerrar fyrirmyndar.

Alþingi samþykkti á sínum tíma frumvarp um þjóðkjörið stjórnlagaráð. Alþingi ákvað að afsala sér þeim völdum að hluta og útvista því verkefni að skrifa nýja stjórnarskrá. Það er að mínu viti eitthvert glæsilegasta verk Alþingis á lýðveldistímanum. Málsmeðferðin síðan þá hefur verið mjög vönduð, málsmeðferðin á því frumvarpi var með þátttöku allra flokka á sínum tíma og hér var sett í gang þríþætt ferli. Það var stofnað til þjóðfundar með slembiúrtaki úr þjóðskrá sem skilaði mjög mikilvægum og merkum niðurstöðum. Sjö manna stjórnlaganefnd sérfræðinga sem Alþingi var einhuga sammála um að yrðu valdir til verkefnisins fór yfir tillögur og hugmyndir þjóðfundarins og setti þær upp í tvö mjög glæsileg bindi, m.a. með tveimur útgáfum að nýrri stjórnarskrá og er ritverkið slík gersemi, stútfullt af upplýsingum um íslenska lýðveldið, að leitun er að öðru eins og til algerrar fyrirmyndar.

Síðan var hugmyndin að stjórnlagaþing yrði kjörið og ég tók þátt í að kjósa fólk á það þing. Yfir 500 manns voru í framboði og ég hef aldrei á ævi minni verið ánægðari með að fara á kjörstað því að það var úr miklu fleiri að velja en þessum 25 sem ég vildi fá þarna inn sem ég var mjög ánægður með. Það er staða sem ég hef aldrei verið í í kosningum á Íslandi fyrr, að það væri offramboð af hæfu fólki. Mér finnst það glæsileg aðferð við að velja fólk til að semja nýja stjórnarskrá. Yfir 84 þús. manns tóku þátt og þó að það sé ekki nógu margt í augum sumra eru það einfaldlega þeir sem höfðu nægilega mikinn áhuga á að taka þátt í þessu ferli sem fóru á kjörstað. Það minnkar ekkert vægi niðurstöðunnar.

Úrskurður Hæstaréttar í kjölfarið um að ógilda kosninguna var að mínu mati rangur og gekk of langt. Það kom ekkert fram sem sýndi fram á að ef hugsanlega þessir meinbugir á kosningunni hefðu náð fram að ganga hefðu þeir haft einhver áhrif á niðurstöðu kosninganna. Sú afstaða Hæstaréttar að ógilda kosninguna var út í hött og einfaldlega afrakstur dómskerfis hvers dómarar eru skipaðir á flokkspólitískum nótum. Þannig lít ég á þá niðurstöðu.

Í kjölfarið tók Alþingi sig til, leysti úr þeim hnút og stjórnlagaráð tók við keflinu. Það hafði ekki nægilegan tíma finnst mér en skilaði mjög góðu verki og vinnubrögðin hjá stjórnlagaráði voru til fyrirmyndar. Það var opið fyrir tillögum alls staðar að, hvort sem var á fundum, með símtölum eða með tölvupósti. Fundirnir voru opnir og það var alveg greinilegt að stjórnlagaráðsfulltrúarnir voru staðráðnir í að sýna fram á að hægt væri að vinna öðruvísi að framgangi mála en með því karpi og málþófi sem við verðum því miður oft vitni að í þinginu.

Stjórnlagaráðið skilaði af sér 29. júlí. Því miður tók það ekki afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eins og því var þó uppálagt í nefndaráliti allsherjarnefndar með frumvarpinu um stjórnlagaráðið, heldur afhenti forseta Alþingis og Alþingi tillögur sínar með allóljósum skilaboðum um að þau væru tilbúin að koma að málinu aftur ef þess yrði óskað. Þau lögðu samt til að einhvern tímann á ferlinu yrði viðhöfð þjóðaratkvæðagreiðsla. Þá er spurningin: Hvað nú? Ég tel að forsætisnefnd og forseti Alþingis hafi leyst úr þeirri spurningu með ágætisniðurstöðu, þeirri skýrslu sem við höfum fyrir framan okkur sem Alþingi er að fjalla um og mun svo fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Fyrir utan Alþingishúsið, hjá öllum þeim sem ég hef hitt og í öllum þeim greinum og bloggfærslum sem ég hef lesið hefur ætíð verið uppi mjög skýr krafa um að Alþingi breyti sem minnstu í afurð stjórnlagaráðsins, einfaldlega vegna þess að verkefninu hefur þegar verið útvistað eins og menn segja og verkefnið var unnið með miklum sóma af þeim sem fengu það í hendurnar. Persónulegir hagsmunir þingmanna og þingflokka mega ekki verða til þess að þetta mál eyðileggist eina ferðina enn því að það er alveg greinilegt eins og sagan sýnir okkur að svokallaðir persónulegir hagsmunir þingflokka og þingmanna hafa staðið í vegi fyrir mjög mikilvægum breytingum á stjórnarskránni. Þá horfi ég ekki síst til þeirrar þráhyggju að viðhalda ákveðinni kjördæmaskipan sem hefur kostað okkur sennilega meira í peningum en nokkuð annað í lýðveldissögunni og verið ólýðræðisleg að fullu allan tímann. Við búum enn þann dag í dag við þá kjördæmaskipan og það atkvæðamisvægi að sumir Íslendingar hafa tvö atkvæði til móts við eitt hjá hinum. Það gengur ekki upp.

Það er mjög brýnt að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu plaggi og það áður en Alþingi fær það til efnislegrar meðferðar vegna þess að ég tel að Alþingi geti ekki lokið því máli nægilega vel nema að undangenginni skýrri leiðbeiningu frá þjóðinni. Þess vegna meðal annars lagði Hreyfingin fram þingsályktunartillögu í síðustu viku um hugsanlegt ferli á þessu máli vegna þess að ferlið og áframhaldið er um margt óljóst. Það hefur komið fram í umræðu í dag að svo virðist sem fjölmörgum þingmönnum sé ekki kunnugt um innihald þeirrar þingsályktunartillögu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 fari í eftirfarandi ferli:

a. Frumvarpið verði tekið á dagskrá Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2011 og rætt sem skýrsla og að því loknu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

b. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar (stjórnlaganefndar) með tilmælum um að lagt verði heildstætt mat á frumvarpið sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Að því loknu leggi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram tillögur að breytingum ef þörf er á fyrir stjórnlagaráð eigi síðar en 1. desember 2011. Frumvarpið verði að því loknu tilbúið til kynningar almenningi eigi síðar en 1. febrúar 2012.

c. Stjórnlaganefnd standi fyrir víðtækri kynningu á frumvarpinu um allt land í samvinnu við RÚV, og aðra fjölmiðla ef óskað er. Komi fram afgerandi ósk um breytingar á einstökum þáttum frumvarpsins í kynningarferlinu er stjórnlaganefnd heimilt að taka tillit til þeirra. Stjórnlaganefnd afhendi stjórnlagaráði skýrslu um kynningarferlið, tillögur um breytingar ef einhverjar eru og tillögu um tilhögun ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Kynningu og hugsanlegum breytingum skal lokið eigi síðar en 1. maí 2012.

d. Stjórnlagaráð geri tillögu til Alþingis um að frumvarpið fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel grein fyrir grein þar sem því verður við komið en þó þannig að fyllsta heildarsamræmis sé gætt. Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en í júní 2012, samhliða forsetakosningum ef verða, þannig að stefnt verði að því að frumvarpið megi afgreiða frá Alþingi fyrir næstu reglubundnu þingkosningar í apríl 2013.“

Með þessari tillögu er svarað skýrt og greinilega öllum þeim spurningum sem hafa vaknað í dag um meðferð málsins og er einfaldlega ágætisaðferð til að koma málinu áfram í ferli þar sem sem flestir komi að því, það sé enn opið fyrir breytingum og að hugsanlegar breytingar verði þá kannski gerðar að tillögu þeirra sem kosnir voru til þess af 84 þús. manns, þ.e. stjórnlagaráði.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars:

Tillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð skilaði af sér fái ítarlega og vandaða meðferð, sem og umsögn þjóðarinnar allrar áður en Alþingi tekur málið til beinnar efnislegrar meðferðar sem frumvarp.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að það hefur líka komið fram í dag að mörgum virðist sem tillögur stjórnlagaráðsins séu bara eitthvað sem hafi dottið af himnum ofan. En tillögur stjórnlagaráðsins eiga að baki sér mjög vandaðan og langan undirbúning og þær hafa verið ræddar við færustu sérfræðinga Íslands á sviði stjórnarskipunarréttar sem völ er á þannig að þessar tillögur eru vel ígrundaðar. Engu að síður hef ég, og er ég enginn sérfræðingur í málinu, komið auga á misræmi sem ég tel að þurfi að leiðrétta. Það hafa fleiri bent á og ég tel að það megi kannski skrifa það fyrst og fremst á þann takmarkaða tíma sem stjórnlagaráðið hafði til að klára málið.

Ég vek athygli á síðustu málsgreininni í greinargerðinni okkar með þessari þingsályktunartillögu en þar segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirrar kröfu sem uppi er í samfélaginu um lýðræðisumbætur og þess litla trausts sem ríkir gagnvart Alþingi telja flutningsmenn brýnt að almenningur fái að láta í ljós álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur frumvarpið til efnislegrar meðferðar. Slík atkvæðagreiðsla, þótt ráðgefandi sé, gefur Alþingi leiðbeiningu um afstöðu þjóðarinnar fyrir fram og auðveldar þannig þinginu að taka afstöðu til málsins í heild, sem og til einstakra efnisatriða þess. Slík atkvæðagreiðsla staðfestir ekki síst mikilvægi þess að stjórnarskráin kom beint frá þjóðinni og er auk þess skýr birtingarmynd þeirra mikilvægustu hugmyndar lýðræðisins að allt vald í lýðræðisríki eigi upptök sín hjá þjóðinni.“

Hér höfum við skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs. Ég ætla ekki að fara efnislega í einstakar greinar þeirra tillagna en mig langar engu að síður að vekja athygli á aðfaraorðum í upphafi tillagnanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Þetta eru falleg orð, góð aðfaraorð að nýrri stjórnarskrá og gott dæmi um það hugarfar sem er að baki þessum tillögum og því hugarfari sem stjórnlagaráðsmenn höfðu við samningu stjórnarskrárinnar og þeirrar ábyrgðar sem þeir stóðu frammi fyrir og skiluðu af sér með miklum sóma.

Eins og ég hef áður sagt er þetta vandað plagg með aðkomu sérfræðinga. Engu að síður ber það þess merki að áherslan var lögð á að ná fullri samstöðu í stjórnlagaráði um niðurstöðuna, þ.e. 25:0 í lokaniðurstöðu, í stað þess að hafa fleiri en eina útgáfu af einstökum greinum sem ágreiningur var um. Það er aðferð sem stjórnlagaráðið kaus að fylgja og verður ekki um hana deilt. Ég hefði sjálfur hugsanlega viljað sjá hlutina gerða öðruvísi en ef ég stend engu að síður frammi fyrir því að samþykkja þetta plagg óbreytt eða hafna því mun ég samþykkja það heils hugar.

Ég tek sem dæmi að gamni mínu nokkuð sem veldur mér smáhugarangri í 113. gr. Þar segir, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

„Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.“

Þetta er í lokakaflanum um stjórnarskrárbreytingar, þ.e. í þessari málsgrein er gert ráð fyrir að Alþingi geti eitt og sér í framtíðinni breytt stjórnarskránni. Þetta finnst mér ganga gegn anda allrar þeirrar vinnu sem liggur hér að baki um að uppruni lýðræðisins sé hjá þjóðinni og að það sé þjóðin sem eigi alfarið að breyta stjórnarskránni í framtíðinni.

Ég nefni þetta sem eitt dæmi um nokkuð sem mér finnst þversögn en ég lýsi því samt yfir að við í Hreyfingunni eigum eftir að fá nákvæma yfirferð um þetta frumvarp frá fulltrúum úr stjórnlagaráði. Það stendur til að gera það sem fyrst og þá verður að sjálfsögðu fjöldanum öllum af þessum spurningum svarað. Þetta er ein aðferð sem þingflokkar eiga að nota í framhaldinu, nú þegar búið er að leggja þetta fram, að kalla fyrir sig fulltrúa úr stjórnlagaráði til að fara ítarlega yfir þetta grein fyrir grein þannig að ekki þurfi að endurtaka allar þessar spurningar jafnvel 63 sinnum. (Gripið fram í.) Búið að því, segja sumir. Gott og vel, það er merki um einstaka framsýni sem við verðum kannski ekki allt of oft vitni að í þingsal en þannig er mjög æskilegt að vinna þetta.

Það ferli sem Hreyfingin hefur lagt til er að okkar mati gott ferli. Þegar forsætisnefnd fjallaði um þetta mál í sumar var tillögu Hreyfingarinnar um að tillögum stjórnlagaráðs yrði dreift inn á hvert heimili í landinu hafnað af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Ég leyfi mér að benda á að vegna þessa hafa einstaklingar tekið sig til og látið útbúa þetta litla vasabrotsplagg sem heitir einfaldlega Ný stjórnarskrá Íslands. Hún hefur að sjálfsögðu ekkert stjórnarskipunarlegt gildi en ég held að þetta muni gerast. Ef Alþingi stendur sig ekki vel í því að virða áhuga þjóðarinnar á þessu verkefni munu einstaklingar taka sig saman um að kynna þetta verkefni sjálfir með samskotum og með stuðningi fyrirtækja og það væri til vansa fyrir Alþingi. Þeir munu jafnvel taka sig saman um og halda eigin þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sem væri til enn meiri vansa og ég vona að til þess þurfi ekki að koma. Ég trúi því heldur ekki að til þess muni koma því að það eru greinilega uppi mjög víðtækar hugmyndir um að þjóðin eigi áfram að hafa aðkomu að þessu máli áður en það verður afgreitt.

Tillaga okkar um ferlið mundi skýra betur mörg þau atriði sem í fyrstu virðast óljós og gæfi líka þjóðinni möguleika á að segja álit sitt áður en Alþingi fær málið sjálft til efnislegrar meðferðar. Ég hef áður tæpt á því hvers vegna ég tel það óheppilegt. Ég tel að málið mundi einfaldlega daga uppi í þinginu og við mundum ekki fá nýja stjórnarskrá. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á ákveðnu stigi ferlisins gefur Alþingi ómetanlegar leiðbeiningar um hvað þjóðin vill og þó að sú atkvæðagreiðsla sé aðeins leiðbeinandi skiptir hún mjög miklu máli. Þetta hef ég sagt meðal annars hv. þm. Pétri Blöndal held ég að minnsta kosti tíu sinnum, en það einhvern veginn skráist ekki nægilega vel þannig að hér stöndum við oft frammi fyrir því að svara endurtekið sömu spurningunum. Þá segja menn: Slík atkvæðagreiðsla hefur ekkert gildi. Að sjálfsögðu hefur hún gildi. Hún hefur leiðbeinandi gildi og sem slík hefur hún náttúrlega siðferðilegt gildi líka.

Herra forseti. Við stöndum á tímamótum á Íslandi og á Alþingi í dag. Ný stjórnarskrá er í umræðu og ný stjórnarskrá er nauðsyn í stað þess bráðabirgðaplaggs sem núverandi stjórnarskrá er. Hún var alltaf hugsuð til bráðabirgða. Það hefur komið skýrt fram í heimildum sagnfræðinga að þegar lýðveldið fæddist á Þingvöllum árið 1944 hugsuðu þeir sem stóðu að því og að stjórnarskránni hana fyrst og fremst sem bráðabirgðaplagg sem farið yrði út í að breyta mjög fljótlega. Þetta er dönsk stjórnarskrá sem við búum við, hún er samin af dönskum konungi og ber þess skýrt merki og það er einfaldlega löngu orðið tímabært að Íslendingar semji sína eigin stjórnarskrá og hér erum við komin ansi langt á veg með það.

Ég lýsi því yfir að framgangur þessa máls hefur í alla staði verið glæsilegur og hann hefur verið lýðræðislegur svo til eftirbreytni er. Við höfum útbúið aðferðafræði yfir samningu stjórnarskrár sem er algjört einsdæmi og þeir fjölmiðlamenn erlendis sem ég tala við um þetta mál og útskýri fyrir þeim hvað búið er að gera segja í langflestum tilfellum eitthvað í þessa veru: Guð gefi að minni þjóð veittist sú gæfa að útbúa nýja stjórnarskrá með þeim hætti sem þið eruð að gera á Íslandi.

Það er óskandi að þetta góða ferli haldi áfram sem slíkt og að allir verði sáttir við bæði ferlið og niðurstöðuna þegar þar að kemur. Við vitum öll að ákveðin öfl munu ekki vilja sjá neinar breytingar og munu spyrna við fæti á öllum stigum málsins. Þannig hefur það alltaf verið og það er þá bara nokkuð sem Alþingi þarf að takast á við. Þeir þingmenn sem telja brýnt að við fáum nýja stjórnarskrá verða þá bara að taka höndum saman um að koma málinu í gegn.

Herra forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla um drög að stjórnarskrá staðfestir mikilvægi þess að stjórnarskráin komi beint frá þjóðinni eins og ég sagði áðan og er auk þess skýrasta birtingarmynd þeirrar mikilvægustu hugmyndar lýðræðisins að allt vald í lýðræðisríki eigi upptök sín hjá þjóðinni. Því megum við aldrei gleyma því að ella erum við ekki nema einhvers konar B-útgáfa af lýðræðisríki og það höfum við einfaldlega verið allt of lengi.



[17:24]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að við séum nú í þeirri stöðu að vera komin með þetta frumvarp og þessar tillögur inn til Alþingis. Ég lít svo á að það sem skipti mestu máli núna sé að koma þessu verkefni sem allra fyrst í hendurnar á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fara að vinna með þetta mál þannig að tíminn nýtist sem best má verða.

Við tókum hérna ágæta umræðu í síðustu viku um þá tillögu sem hv. þm. Þór Saari nefndi áðan um það verklag, það ferli og það skipulag sem þarf að leggja upp með sem í mínum huga er gríðarlega mikilvægt, í raun og veru lykilatriðið áður en lagt er af stað í þessa vinnu, þ.e. að menn nái samstöðu um það hvernig menn ætla að fara yfir þetta verkefni.

Mér finnst að sumu leyti stangast á þær áherslur sem koma fram í máli hv. þingmanns og í tillögunni, að þingið og þingnefndir eigi helst ekki að koma nálægt einu eða neinu í þessu frumvarpi áður en það kemur inn á borð til þjóðarinnar en á sama tíma er vakin athygli á því að hér stangast ýmis atriði á eða þarfnast frekari skýringar og yfirferðar sem væntanlega verður þá að fara fram af hálfu viðkomandi þingnefndar til að við getum lagt málið með þeim hætti sem við teljum skynsamlegast fyrir þjóðaratkvæði. (Gripið fram í.)

Það verður auðvitað að marka þarna skýrar áherslur og línur í því hvernig þingnefndin á að koma að þessu verki, hversu djúpt og ítarlega hún á að fara í þessar tillögur áður en við leitum eftir ráðgefandi viðbrögðum þjóðarinnar í þessu máli. Ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á því hvar og hversu víðtækt hv. þingmaður telur eðlilegt að þingnefndin komi að þessari yfirferð á næstu vikum og mánuðum.



[17:26]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar, það er brýnt að þetta sé skýrt. Það er í mínum huga alveg skýrt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur forræði á málinu þegar það fer úr þingsal til hennar og á að afgreiða það með einhverjum hætti. Þingsályktunartillagan gengur út á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd afgreiði það með sérstaklega tilteknum hætti, þ.e. að í stað þess að setjast niður og senda málið til umsagnar út og suður um allt Ísland og óska eftir áliti allra þeirra sérfræðinga sem eru þegar búnir að gefa álit sitt fyrir stjórnlagaráði leiti hún eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar, þ.e. stjórnlaganefndarinnar, á þessu plaggi og óski eftir tillögum frá þeim sérfræðingum því að þeir eru sérfræðingar í málinu. Þeir hafa þegar unnið mjög gott starf.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti svo velt því fyrir sér þegar hún fær tillögurnar frá stjórnlaganefnd hvort þar sé gengið nægilega langt eða of langt og lagt síðan þær tillögur fyrir stjórnlagaráðið til meðferðar ef einhverjar breytingartillögur eru þannig að í stað þess hefðbundna nefndaferlis sem ég sé fyrir mér að mundi taka sennilega heilt ár miðað við þá umræðu sem ég hef heyrt í þinginu í dag verði stjórnlaganefnd falið að sníða af þá skafanka og agnúa sem eru hugsanlega á þessum tillögum og komi svo þeim upplýsingum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Svo verður framhaldið samkvæmt því.

Ég þekki erfið mál í nefndum á þingi og veit að það eru til aðferðir við að teygja umræðu og afgreiðslu þeirra út í hið óendanlega. Hér er einfaldlega óþarfi að gera slíkt því að það er þegar búið að vinna mjög mikið af þeirri mikilvægu vinnu sem þarf að vinna.



[17:28]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir mikilvægt að þessi sjónarmið séu dregin inn í umræðuna strax á þessum punkti áður en við förum með málið til viðkomandi nefndar. Við megum heldur ekki eyða of löngum tíma í þeirri ágætu nefnd sem er núna að hefja vegferð sína, fær öflugt umboð og tekur hér við mikilvægum ýmsum öðrum verkum. Þó að þetta verði sennilega hennar stærsta viðfangsefni á næstu mánuðum og missirum skiptir gríðarlega miklu máli að við séum samtaka í því, í það minnsta þeir þingmenn á Alþingi sem eru sammála um það að þetta mál eigi að vera forgangsmál, þeir þingmenn sem eru sammála um að við ætlum að koma þessu máli heilu í höfn á þessu kjörtímabili. Við verðum að taka höndum saman og leggja til hliðar ágreining um smáatriði, hefja okkur upp yfir dægurþras og fara í verkefnið þannig að það verði að því sómi eins og hér er lögð rík áhersla á. Við verðum þá að teikna upp þá leið sem við ætlum að fara í þessu efni. Mér þykir vænt um að heyra að það er samhljómur í því að auðvitað verður þingnefndin að fara yfir öll meginatriði þess efnis sem liggur hér fyrir, kalla þá til skýringar og upplýsingar, sníða af agnúa og setja síðan fram þá annaðhvort breyttar útfærslur eða jafnvel valkosti gagnvart þjóðinni ef menn eru með ólíkar meiningar í þeim efnum, en að minnsta kosti þannig að það sem þjóðin fær í hendur til að segja álit sitt á verði sem best úr garði búið.



[17:30]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Mér var bent á að stjórnlaganefndin sjálf væri kannski ekki sérfræðinganefnd en hafi hún ekki verið það þegar hún tók til starfa er hún orðin sérfræðinganefnd í því máli sem hér um ræðir.

Stjórnlaganefndin var valin af allsherjarnefnd og allir voru sammála um það þar að treysta þessum sjö manns fyrir verkefninu. Allur þingheimur var á einu máli. Ég upplifði stemninguna þannig að allir væru einfaldlega mjög ánægðir með það val og bæru fullt traust til þeirrar nefndar. Kosturinn við að vísa þessum málum til þeirrar nefndar er að það lendir ekki í þessum flokkspólitísku hjólförum og flokkspólitíska karpi sem það mun annars lenda í í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það kemur að því að Alþingi sjálft og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfi að taka afstöðu til einstakra efnisatriða í nýrri stjórnarskrá. Þetta er ekki tímapunkturinn til þess að mínu mati. Tíminn til að gera það er þegar við höfum fengið leiðbeiningu frá þjóðinni. Þangað til ættum við að nýta sem mest aðkomu og þekkingu sérfræðinga og stjórnlagaráðs, ég held að það væri farsælt.



[17:32]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann segist vera þreyttur á því að ég komi endalaust upp í ræðupúlt og spyrji alltaf um það sama. Það sem ég er að spyrja um, herra forseti, er orðið sannfæring. Hvað þýðir orðið sannfæring? Ég er búinn að fletta upp í Google vini mínum, ég er búinn að fletta upp í orðabókum og mínum eigin huga og sannfæring er nokkuð sem ekki breytist, ekki frá degi til dags. Ef hv. þingmaður hefur trú á því að þjóðaratkvæðagreiðslur séu af hinu góða breytist sú sannfæring ekkert við það að þjóðin greiði atkvæði um að það sé ekki gott. Eða hvað? Ef þjóðin greiðir atkvæði um og samþykkir eitthvað sem hv. þingmaður er ekki sannfærður um, getur þá verið að sannfæring hans breytist, dingli bara eftir því hvernig úrslitin úr þjóðaratkvæðagreiðslu verða?

Gott dæmi væri þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu. Segjum að hv. þingmaður væri eindregið á móti því að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið, teldi það skaðlegt fyrir land og þjóð. Svo ákveður þjóðin að Ísland skuli ganga inn í Evrópusambandið. Ætlar hv. þingmaður að segja mér þá að sannfæring hans breytist og að allt í einu eigi þjóðin að ganga í Evrópusambandið, eða öfugt? Ég neita að trúa því að sannfæring geti dinglað eftir einhverju öðru en eigin hugarheimi, hún sveiflast ekki eftir því hvað annað fólk gerir eða hugsar. Það stendur í 48. gr. bæði nýju stjórnarskrártillögunnar og stjórnarskrárinnar sjálfrar, það er eins og tilviljun, að þingmenn skuli eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Þessi kosning um stjórnarskrána hefur ekkert gildi. Þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni eftir gömlu stjórnarskránni þegar þetta kemst til tals á Alþingi.



[17:34]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara þessari spurningu þá væntanlega í ellefta sinn ef ég hef talið rétt. Mér er ósköp vel kunnugt um að hv. þm. Pétur Blöndal á erfitt með að skilja hvað býr að baki hugtakinu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er ekkert öðruvísi en ráðgjöf sem maður fær annars staðar. Maður getur haft skoðun og jafnvel sannfæringu á einhverju máli en ef maður stendur frammi fyrir því að fjöldi fólks ráðleggur manni eitthvað annað held ég að flestallt venjulegt fólk mundi kannski setjast niður og hugsa sig um tvisvar og jafnvel þrisvar, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki öll alltaf rétt fyrir okkur.

Þegar ég hef rangt fyrir mér skipti ég um skoðun og því spyr ég hv. þingmann til baka: Hvað gerir hv. þingmaður þegar hann hefur rangt fyrir sér en sannfæringin skipar honum að hafa rangt fyrir sér? Þetta eru ekki auðveldar spurningar en ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla gefur Alþingi einfaldlega leiðbeiningu um hvað þjóðin vill eða vill ekki. Þingmenn gera það svo að sjálfsögðu upp við sjálfa sig hverju þeir munu fylgja. Ef menn hafa á þinginu stjórnarskrárvarinn rétt til að fylgja sannfæringu sinni og hún er á einhvern annan hátt en þjóðarinnar fylgja menn að sjálfsögðu sannfæringu sinni. Annað væri skrýtið. Ég verð að viðurkenna það engu að síður eftir að hafa verið hér þingmaður í á þriðja ár að sannfæring þingmanna ristir ekki sérlega djúpt miðað við þau þingmál sem þeir afgreiða.



[17:36]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefur átt við mig þegar hann hnussaði hérna rétt áðan biðst ég undan því, í alvöru. Þetta er mjög alvarlegt. Auðvitað tekur maður stundum afstöðu til mála með því að gefa eftir minni hagsmuni fyrir meiri. Ef maður til dæmis styður ríkisstjórn og vill að hún standi samþykkir maður ýmislegt sem hún kemur með af því að maður lítur á heildarmyndina. Þá er maður að gefa eftir minni hagsmuni fyrir meiri. En ég frábið mér að hv. þingmaður segi að ég fari ekki eftir sannfæringu minni og hnussi við. Þetta er virkilega meiðandi, svo ekki sé meira sagt.

Ef þjóðin á að greiða ráðgefandi atkvæði um stjórnarskrá er það ekkert annað en ráðgjöf, menn fara eftir henni eða fara ekki eftir henni. Það er ekki bindandi og mér finnst rangt að segja þjóðinni eitthvað annað. Það á að segja þjóðinni að þetta sé bara ráðgefandi. Það væri miklu betra að hafa þetta bindandi. Það er það sem ég vil og mér finnst virkilega dapurlegt að horfa upp á ferli sem virðist stefna í þá átt að hér verði samþykkt stjórnarskrá án þess að þjóðin greiði atkvæði um það nokkurn tímann. Þess vegna hef ég lagt fram tillögu um breytingu á 79. gr. sem menn samþykktu fyrst og síðan kæmi, mín vegna viku seinna, stjórnarskráin sjálf til atkvæða þannig að þjóðin hafi þá einhvern tímann greitt atkvæði um sína eigin stjórnarskrá í alvöru, og bindandi.



[17:37]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hv. þingmaður að tala um 79. gr. sem hann hefur ítrekað lagt fram tillögur um breytingar á, þ.e. að aðferðinni við breytingu á stjórnarskránni verði breytt. Þá tillögu hef ég ætíð stutt, hef alltaf fagnað henni og talið að hún ætti að koma fyrst. Eins og staðan er í dag í þessu máli erum við einfaldlega komin á ákveðinn punkt í þessu ferli þar sem málið mundi tefjast allt of mikið og sú dýnamík og sú umræða sem er í gangi í samfélaginu mundi missa damp ef við þyrftum að bíða heilar kosningar eftir því að geta tekið tillögur stjórnlagaráðsins til umræðu. Það þyrfti að samþykkja breytingar á 79. gr. á tveimur þingum með kosningum á milli til að afgreiða hana og ég tel það of slæmt fyrir þetta mikilvæga mál. Ég held að það sé hægt að afgreiða það með skynsamlegum hætti á annan veg.

Hvað hitt málið varðar var ekki ætlun mín að særa þingmanninn persónulega með skoðunum mínum á sannfæringu (Gripið fram í.) þingmanna almennt en ég leyfi mér að benda á að ef menn taka afstöðu í einhverju máli út frá einhverjum heildarhagsmunum og fórna þar af leiðandi hugsanlega sannfæringu sinni í einhverju öðru máli eru menn einfaldlega að fórna sannfæringu sinni. Mér finnst stagl um þetta orð, sannfæringu, ekki skipta svo miklu máli. Það skiptir máli hvað stjórnarskrána varðar og þingmenn en við getum verið í endalausu stagli út af því ef við viljum og ég tel enga þörf á því.



[17:40]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Mér finnst afskaplega mikilvægt, frú forseti, að ræða aðeins fyrst um það hvaða og hvers konar rit við erum með í höndunum, þetta hér frá stjórnlagaráði, frumvarp til stjórnarskipunarlaga ásamt skýringum. Mér finnst stundum talað í ræðustólnum eins og þetta sé óskýrt. Það er eins og við vitum ekki alveg hvaða augum við eigum að líta þetta. Mér finnst sumir tala, svo ég segi það bara hreinskilnislega, eins og þetta sé bara frumvarp úr ráðuneyti, eitthvað sem embættismenn hafi samið í innanríkisráðuneytinu vegna þess að þeir urðu vitni að búsáhaldabyltingunni og ráðherra ákvað að setja eitthvert mál í ferli. Síðan er komið frumvarp eins og þetta sé stjórnarfrumvarp og nú fari það bara í nefnd og við ræðum það. Ef þetta væri svoleiðis væri mjög eðlilegt að við tækjum þetta allt til mjög mikillar skoðunar og jafnvel umbreyttum öllu eins og gerist og gengur þegar stjórnarfrumvörp eru annars vegar.

En þetta er ekki svoleiðis frumvarp sem kemur hérna núna í formi skýrslu. Þetta á rætur sínar að rekja til mjög langvarandi óþreyju Íslendinga, held ég, gagnvart því verkefni sem hefur gengið brösuglega, að endurskoða stjórnarskrána. Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með eitthvað í höndunum sem heitir mögulega stjórnarskrá sem Íslendingar sjálfir hafa búið til. (Gripið fram í: Það er ekki …) Þetta er það. Þetta er í fyrsta skipti sem það gerist. Stjórnarskráin sem við tókum upp 1944 þegar lýðveldið var stofnað var að meginstofni til dönsk og það stóð til strax þá að fara í að skrifa okkar eigin stjórnarskrá. Það hefur bara ekki tekist. Það hefur tekist að endurskrifa einstaka kafla. Vaxandi óþreyja gagnvart því að þetta verkefni ætlaði aldrei að takast gerði það meðal annars að verkum að það var ein stærsta krafan í búsáhaldabyltingunni svokölluðu að þetta yrði gert, að skrifuð yrði stjórnarskrá af Íslendingum sjálfum.

Hér er hugmyndin að henni og hún er sem sagt ekki bara eins og venjulegt stjórnarfrumvarp. Hvað var gert? Nú þurfum við að bera svolitla virðingu, finnst mér, fyrir ferlinu sem við ákváðum að þetta mál færi í. Einn þingmaður sagði áðan: Af hverju völdum við ekki bara slembiúrtak? Það var einmitt gert, það er eitt af því sem var gert. Fyrsta skrefið í ferlinu var að við kölluðum til þúsund Íslendinga, bara einhverja Íslendinga, slembiúrtak úr símaskrá, sem hittust í Laugardalshöll. Þeir sögðu hver öðrum og þjóðinni hver ættu að vera meginleiðarstefin í nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland og mjög margt sem við sjáum í tillögum stjórnlagaráðs er rökstutt einmitt með því að þetta hafi verið rík krafa þjóðfundarins, t.d. áherslan á umhverfisvernd sem er í nýjum mannréttinda- og náttúrukafla. Hún er meðal annars rökstudd með því að það var rík krafa þjóðfundarins um slíka áherslu.

Áhersla á heilbrigðismálin er líka rökstudd með þjóðfundinum sem og áhersla um að Ísland verði mögulega eitt kjördæmi. Við megum ekki gleyma þegar við erum að tala um þetta plagg að það á meðal annars rætur að rekja til þess að þúsund Íslendingar komu saman og sögðu hver ættu að vera megingildin. Við þurfum einhvern veginn að bera virðingu fyrir því.

Síðan tók við stjórnlaganefnd sem við skipuðum í þessum sal í mikilli sátt eins og bent hefur verið á. Eins og hv. þm. Þór Saari fór yfir áðan var líka mikil gleði með þá afurð sem sú nefnd skilaði, og tillögurnar sem stjórnlagaráð kemur með eru margoft rökstuddar einmitt með því að stjórnlaganefnd hafi lagt það til og rökstutt það, m.a. á grunni þjóðfundarins. Allt er þetta ferli. Þetta ferli var næstum því stöðvað með úrskurði Hæstaréttar og dálítið einkennilegri rökræðu sem fór fram í sölum Alþingis um þann úrskurð þar sem sumir þingmenn vildu draga þá að mínu mati órökréttu ályktun af niðurstöðu Hæstaréttar að það bæri að hætta við þetta ferli. Þeir þingmenn urðu sem betur fer undir. Í niðurstöðu Hæstaréttar fólst engan veginn sú ályktun eða krafa að hætta ætti við þetta ferli og sem betur fer stóð meiri hluti Alþingis í lappirnar og hélt áfram. Ef við hefðum ekki gert það værum við ekki núna í fyrsta skipti í lýðveldissögunni með drög að stjórnarskrá sem er skrifuð af okkur sjálfum. Það eru stórtíðindi og ég fagna því að við séum með þau fyrir framan okkur.

Hvað þýðir það að ætla sér að bera virðingu fyrir öllu þessu ferli? Við hér, meiri hluti Alþingis, horfðumst í augu við að það hafði gengið brösuglega að skrifa þjóðinni stjórnarskrá á þessum vettvangi. Við útvistuðum verkefninu á lýðræðislegan hátt sem er held ég öðrum þjóðum til eftirbreytni og við eigum að gera það í fleiri málum hér eftir. Við gerðum þetta og nú reynir á hvernig við ætlum að bera virðingu fyrir þessu. Það veldur mér áhyggjum að til dæmis sumir þingmenn virðist ekki skilja gildi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það verður auðvitað svo að vera en mér finnst til dæmis mjög mikilvægt í mörgum málum, og sérstaklega í þessu máli, að reyna að komast að því hvað það er sem þjóðin vill. Ef þjóðin segir eitthvað í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hefur það áhrif á mína sannfæringu í því máli vegna þess að ef málið er eins og við erum að ræða hér, stjórnarskrá fyrir nýtt Ísland, hefur mjög mikil áhrif á mína sannfæringu öll sú leiðbeining sem ég fæ frá þjóðinni sjálfri. Þess vegna á ég í engum vandræðum með að taka það algjörlega alvarlega og láta það hafa áhrif á mína sannfæringu ef það verður endapunkturinn í þessu ferli, eins og ég hef lagt til ásamt öðrum, að þjóðin segi álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég teldi það einfaldlega siðferðilega skyldu mína að fara eftir þeirri niðurstöðu.

Út af því að ferlið hefur verið þetta, við útvistuðum verkefninu, fórum í lýðræðislegt ferli og hér er afurðin komin til okkar, finnst mér við ekki geta farið með þetta á einhvern hátt aftur á byrjunarreit. Það væru líka skelfileg skilaboð sem við sendum þjóðinni. Við vorum ekkert að grínast með þessum þjóðfundi, með stjórnlaganefndinni, með stjórnlagaráðinu. 84 þús. manns kusu í stjórnlagaráð. Við vorum ekkert að grínast með þessu og við þurfum að sýna það núna í verki að við tökum þetta alvarlega. Mér finnst það verða að vera, þetta er ákveðinn galdur og reynir á okkur sem manneskjur í þessu. Við verðum að sýna það að ætlunarverk okkar núna er bara að betrumbæta þetta, reyna að sníða af agnúa ef þeir eru einhverjir, og passa að það séu engar mótsagnir í þessu. Við ætlum ekki að fara með þetta aftur á byrjunarreit eins og freistingin verður mikil til að gera.

Nú ætla ég að fara aðeins yfir það í síðari hluta ræðunnar hvers vegna ég held að þetta verkefni, að reyna bara að betrumbæta málið og koma því síðan til þjóðarinnar, verði erfitt. Í þessu eru mörg möguleg deilumál og það eru alveg mögulega þingmenn hér sem vilja ekki nýja stjórnarskrá, jafnvel þótt hún sé í sátt við þjóðina, ef hún er í andstöðu við vilja þeirra. Það er svolítið ríkt hjá sumum, nákvæmlega eins og hjá markaðnum. Menn vilja frjálsan markað en svo vilja menn stjórna honum. Við umgöngumst líka stundum lýðræðið þannig að menn vilja lýðræði en svo vilja menn stjórna lýðræðinu. Það eru bara þessar hvatir sem við verðum núna að sporna gegn í okkar vinnu. Gagnvart hverju getur mögulega soðið upp úr? Ég held að það séu þó nokkur möguleg ágreiningsefni.

Mannréttindakaflinn fjallar líka um náttúru. Þetta á örugglega eftir að koma mörgum spánskt fyrir sjónir. Þarna er fjallað um umhverfisvernd og jafnvel dýravernd líka. Ég hef lúslesið þetta og ég hef heyrt þau sjónarmið út undan mér í þjóðfélaginu að mörgum komi þetta spánskt fyrir sjónir og menn mundu jafnvel vilja afgreiða þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem einhvers konar vitleysu bara af því að það er verið að taka náttúruvernd inn í mannréttindaákvæði. Þarna er umræða sem ég tel mjög mikilvægt að þjóðin taki taki afstöðu til en að við förum ekki aftur á byrjunarreit hér í þessum sal.

Mér finnst risastórt skref stigið í þessu og ég fagna því gríðarlega að stjórnlagaráð hafi ákveðið að taka þetta hugtak, sjálfbæra þróun og sjálfbæra umgengni um náttúruauðlindir, alvarlega og túlka það sem mannréttindahugtak. Þetta er auðvitað ekkert annað, þetta varðar það að við eigum að virða mannréttindi komandi kynslóða til að njóta þeirra sömu gæða og við njótum núna. Þetta eru mannréttindi og það verður gríðarlega mikilvægt að fara með þessa umræðu til þjóðarinnar. Það að setja náttúruvernd inn í mannréttindi út frá því að sjálfbærnishugtakið er orðið þarna mannréttindatengt hugtak mun líka hafa áhrif á það hvernig við umgöngumst náttúruna. Fyrr í dag fórum við yfir það hvernig stefnan hefur verið hingað til, að virkja og selja á kostnaðarverði. Um leið og komið er inn náttúruverndarákvæði í mannréttindakafla stjórnarskrár munu menn held ég ekki gera það svo glatt. Þá verður auðvitað að verðleggja þessi gæði sem það sem þau eru, grundvallargæði sem við eigum öll sameiginleg, og tryggja að ef við ætlum að nýta þessi gæði muni komandi kynslóðir njóta góðs af því. Þetta er mikilvægt en mun eflaust standa í einhverjum. Það bjuggust ekki margir við því að það yrði farið svona inn í mannréttindakaflann í þessari vinnu vegna þess að það er nýbúið að endurskoða hann, en mér finnst mjög flott hvernig stjórnlagaráð gerir það. Það er sagt í skýringunum að margir hafi einmitt ekki ætlað sér það en svo þegar stjórnlagaráðið fór að skoða það, fór að hlusta á þjóðfundinn og hitt og þetta komst það að því að það er mjög margt hægt að gera til að endurbæta mannréttindakaflann. Það er eitt af því sem hefur komið út úr vinnunni.

Auðlindir í þjóðareign eru annað nátengt þessari náttúruverndarumræðu sem er þarna mjög rík. Þarna er komin skýr tillaga um að setja inn auðlindir í þjóðareign. Það er einmitt dæmi um mál sem hefur gengið ansi brösuglega að setja í stjórnarskrá á Íslandi. Eins og rakið er í skýringum stjórnlagaráðs hafa verið gerðar fjölmargar atlögur að því verki og við skulum alveg vera með opin augun gagnvart því, mig grunar að einhverjir þingmenn muni líta svo á að hér fari fram slagur um það ákvæði í þessari vinnu og að það þurfi að reyna að stoppa það að auðlindir í þjóðareign fari í stjórnarskrá. Sá slagur hefur áður farið fram í þingsölum og verið ansi hatrammur þannig að það þarf ekki að koma á óvart að hann dúkki upp í þessari umræðu líka og að menn vilji fara með ferlið aftur á byrjunarreit til að koma hugsanlega í veg fyrir að ákvæði um auðlindir í þjóðareign fari inn í stjórnarskrá.

Það er þegar hafið túlkunarstríð sem getur undið upp á sig. Það varðar þá spurningu hvort hér sé verið að boða aukið vald til þingsins eða aukið vald til forsetans. Ég upplifi það satt að segja sem dálítið einkennilegan hræðsluáróður, verð ég eiginlega að segja, af hálfu forseta lýðveldisins þegar hann, einhvern veginn stikkfrír eins og hann er og án þess að við gætum rökrætt við hann, reyndi að halda því fram að það væri sérlega alvarleg tillaga sem stjórnlagaráð væri að leggja fram vegna þess að hún mundi færa honum aukin völd. Við áttum að hugsa þetta allt saman einhvern veginn út frá því. Hann lagði ákveðnar línur og ég er ósáttur við það. Mér finnst einmitt mjög mikilvægt að við nálgumst þetta algjörlega með því að anda með nefinu og skoða tillögurnar mjög vel. Þegar ég ber saman það sem forseti lýðveldisins sagði um það sem hér stendur og síðan textann sjálfan er mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig forseti lýðveldisins gat túlkað textann þannig að hann fengi meiri völd og að við þyrftum eitthvað þess vegna að haga okkar vinnu með þetta plagg út frá því.

Förum aðeins yfir það. Ég fór aðeins yfir það í andsvari áðan við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Forseti lýðveldisins heldur því fram að hann fái til dæmis aukin völd við stjórnarmyndun og vísar til þess að samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs muni forseti lýðveldisins gera tillögu um forsætisráðherra eftir samtöl við þingmenn og það er síðan þingið sem kýs um það. Eins og fyrirkomulagið er núna færir forseti stjórnmálaleiðtogum umboð til stjórnarmyndunar og getur fært það umboð hverjum sem er. Þetta vald er tekið af honum. Þetta upplifi ég sem alveg skýr skilaboð frá stjórnlagaráði um að það á að efla þingræðið.

Svo er það málskotsréttur forsetans. Mér fannst forseti lýðveldisins gera dálítið mikið úr því að hér stæði til að hann hefði málskotsréttinn áfram en í tillögum stjórnlagaráðs er umhverfi þessa málskotsréttar algjörlega gerbreytt vegna þess að það eru tilgreindir aðrir farvegir fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin sjálf mun geta safnað undirskriftum og farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tiltekinn fjöldi fer fram á þjóðaratkvæðagreiðslu fer hún fram og þarf ekki forsetann til. Þar af leiðandi verður miklu erfiðara fyrir forsetann að beita sínum málskotsrétti. Ef engin undirskriftasöfnun hefur farið fram, enginn vilji er til að nýta þetta ákvæði sem yrði þá í stjórnarskránni um að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hvaða stöðu hefur þá forsetinn til að beita málskotsréttinum? Hér er í raun verið að minnka vald hans. Mér finnst mjög mikilvægt að við lesum skilmerkilega og vandlega hvað stendur í plagginu áður en við förum í einhvers konar túlkunarstríð á mjög óljósum grunni. Forseti lýðveldisins sagði líka að í þessu fælist sú breyting að ráðherrar mættu ekki leggja fram frumvörp. Þar sagði hann hálfa söguna. Þetta hljómaði eins og að hér eftir yrðu engin stjórnarfrumvörp lögð fram. Það er vitaskuld ekki þannig. Núna er fyrirkomulagið svoleiðis að ráðherrar mega í eigin krafti sem þingmenn leggja fram frumvörp. Það er eiginlega aldrei gert. Frumvörp ráðherra eru eiginlega alltaf, held ég, og hafa alltaf verið stjórnarfrumvörp. Einfaldlega er lagt til í tillögu stjórnlagaráðs að sú heimild sem sjaldan eða aldrei hefur verið notuð af ráðherra í eigin nafni að leggja fram frumvarp verði afnumin. Forseti lýðveldisins gerir mikið úr þessu. Það mátti skilja á honum að hér væri verið að afnema stjórnarfrumvörp, liggur við. Mér finnst það ekki til eftirbreytni, verð ég að segja, og er kannski vísir að því sem koma skal og vísir að þeim hættum sem við verðum að glíma við í þessu verki okkar, að reyna einfaldlega bara að betrumbæta skjalið og koma því síðan til þjóðarinnar. Það munu fara fram alls konar túlkunarstríð og mögulega tilraunir til að þyrla upp alls konar moldryki í málinu.

Ég sagði í upphafi að mér fyndist þetta merkilegt rit, þótt ekki nema væri vegna þess að þetta eru fyrstu drögin að stjórnarskrá sem við sjálf, Íslendingar, höfum skrifað. Það er komið fram. Fyrir þá sem eru íhaldssamir er skaðinn kannski skeður vegna þess að þetta rit verður alltaf mælt gegn stjórnarskránni sem við höfum núna. Núna þurfum við alltaf að spyrja okkur vegna þess að þetta frumvarp er komið fram: Er þetta betra frumvarp en það sem við höfum? Það verður grunnspurningin og við megum aldrei gleyma henni. Er ekki betri mannréttindakafli hér? Er ekki skýrara hlutverk forsetans hér? Er ekki skýrara hlutverk þingsins hér? Frumvarpið er hérna, það er komið og sú stjórnskipun sem við búum við núna, sú stjórnarskrá sem við búum við núna, verður alltaf mæld til samanburðar við þetta frumvarp.



[18:00]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það er hægt að bera þær tillögur sem hér liggja fyrir saman við núgildandi stjórnarskrá. Það er líka hægt að taka einstakar tillögur sem þarna er að finna og bera saman við aðrar tillögur sem hafa komið fram eða munu koma fram um breytingar á tilteknum atriðum. Það er til töluvert efni um það eins og hv. þingmaður þekkir. Ástæða þess að ég óskaði eftir að veita andsvar var fyrst og fremst sú að undirstrika, af því að hv. þingmaður gerir mikið úr því að hér sé um að ræða fyrstu heildartillöguna að stjórnarskrá sem Íslendingar hafi samið, athugasemdir við það orðaval.

Við stöndum í því núna að fjalla um stjórnarskrá sem að stofni til er frá 1874 en hefur síðan tekið gríðarlegum breytingum í nokkrum megináföngum. Bara frá 1944 hefur meira en helmingi ákvæða núgildandi stjórnarskrár verið breytt. Sjö sinnum á lýðveldistímanum hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskipunarlögum samkvæmt þeim aðferðum sem þar er mælt fyrir um og mér telst svo til að 46 af núgildandi 79 greinum séu öðruvísi en var 1944.

Sumum kann að finnast þetta lítið, mér finnst þetta allmikið. Ef við erum síðan að velta fyrir okkur uppruna stjórnarskráa eiga þær auðvitað mjög margar sameiginlega rót í annars vegar þeirri bandarísku og hins vegar þeirri frönsku frá lokum 18. aldar og hafa tekið ýmsum breytingum í ýmsum ríkjum með mismunandi hætti. Okkar kemur til dæmis vissulega frá Danmörku. (Forseti hringir.) Þangað kom hún frá Belgíu og þangað frá Frakklandi þannig að maður getur spurt hvað sé íslenskt í þessu og hvað ekki. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst það ekki skipta máli.



[18:03]
Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Það var heldur ekki eitthvert aðalatriði í mínu tali að stjórnarskráin væri séríslensk í efnisatriðum eða að hér væri einhvers konar íslenskur kúrs tekinn. Mér finnst einmitt mjög gott í rökstuðningi stjórnlagaráðs og algjörlega til eftirbreytni hversu oft er vísað í erlendar fyrirmyndir. Einn hluti rökstuðnings stjórnlagaráðs fyrir tillögunum er að mjög er vísað í stjórnarskrár á Norðurlöndum.

Ég sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem Íslendingar skrifa sjálfir í einhverju ferli sem við ákváðum hér frá grunni sína eigin stjórnarskrá. Ég get staðið við þá yfirlýsingu og mér finnst merkilegt að við skulum standa með svoleiðis rit í höndunum. Hv. þingmanni er fullfrjálst að finnast það ekkert merkilegt og vísa til þess að við höfum með ýmsum breytingum haft áhrif á núgildandi stjórnarskrá. Ein merkilegasta breytingin, að talið hefur verið á síðustu árum, er sú á mannréttindakaflanum. Ég fór einmitt yfir það í ræðu minni að fyrir fram hefðu menn talið að þeim kafla yrði lítið breytt vegna þess að það væri til þess að gera nýbúið að breyta honum. Það er einmitt ein dásamleg birtingarmynd þess að við skyldum núna í fyrsta skipti ákveða að setjast niður og skrifa næstum því alveg frá grunni nýja stjórnarskrá, já, bara frá grunni, að við komumst að því í þessu ferli að mannréttindakaflinn sem við þó höfðum endurbætt fyrir 10 eða 15 árum var bara alls ekki nógu góður.



[18:05]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir: Við komumst að því. Ég mundi umorða það og segja: Sumir hafa komist að því.



[18:05]
Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvægur greinarmunur og lýsir kannski mismunandi nálgun okkar tveggja til þessa verkefnis. Ég finn mig ágætlega í því vegna þessarar lýðræðislegu nálgunar sem við lögðum upp með að nota orðið „við“ um þetta vegna þess að ég er hluti af þjóðinni, Íslendingum, og lít svo á að við séum að gera þetta saman. Í raun lít ég svo á að í umfjöllun minni um þetta frumvarp sé ég einn af 240–250 þús. Íslendingum sem eiga að ákveða þetta á endanum. Og vegna þess að þetta er lýðræðislegt ferli sem við lögðum upp með og vegna þess að við ákváðum að halda þjóðfund og kjósa til stjórnlagaráðs finn ég mig sem sagt mjög vel í því að nota persónufornafnið „við“. En hv. þingmaður lítur kannski á þjóðina sem „suma“. (Gripið fram í.)



[18:06]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að lýsa yfir ánægju með það á hvern rekspöl þetta mál er komið og fagna því að við skulum núna hafa tekið tillögur stjórnlagaráðs til umræðu í þinginu. Eftir allar þær hindranir sem lagðar hafa verið í götu þessa máls í gegnum tíðina er það sérstakt ánægjuefni að við skulum þó vera stödd hér og að hefja þessa efnislegu umræðu um skýrslu forsætisnefndar þar sem hún leggur fyrir Alþingi tillögur stjórnlagaráðsins ásamt skýringum, þetta plagg. Tillögur stjórnlagaráðsins hefjast með þessum fallegu orðum, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag …“

Síðan eru í I. kafla plaggsins undirstöðurnar lagðar með stjórnarforminu og réttindum og skyldum borgaranna. Í II. kafla er fjallað um mannréttindi og náttúru og því næst, í köflunum þar á eftir, um Alþingi, forseta Íslands, ráðherra og ríkisstjórn, síðan dómsvaldið, sveitarstjórnirnar og loks utanríkismálin.

Uppröðun efnisatriða í þessum tillögum stjórnlagaráðs er ekki tilviljun í mínum huga og það er ekki oft sem ég nýt þeirrar ánægju að fá að þenja mig sem bókmenntafræðingur úr þessum ræðustóli en það geri ég að þessu sinni og sé þar af leiðandi ákveðið samhengi í orðnotkun og uppbyggingu plaggsins. Það er engin tilviljun í mínum huga að orðin „við sem byggjum Ísland“ er það fyrsta sem nefnt er í nýju frumvarpi, þ.e. fyrst kemur þjóðin, svo kemur landið sem frjálst og fullvalda ríki, þá stjórnvöldin.

Það er margt fallegt í þessum tillögum. Þar er tekið inn hugtak sem ekki heyrist oft í nútímalöggjöf, þ.e. frá því að Jónsbók var aflögð sem lagatexti. Nú bið ég hv. þm. Birgi Ármannsson að leggja við eyru, hann ætti að kannast við þetta eins og ég. Hér er tekið upp hugtakið „mannhelgi“, þetta fagra orð sem hefur svo mikla grundvallarþýðingu sem hugtak í mannlegu samfélagi en heyrist allt of sjaldan. Ég held að þetta orð komi ekki fyrir í nema þrem eða fjórum lagabálkum og þá í lögum um málefni sjúklinga, en í öðrum lögum er það illu heilli fjarverandi og það er fjarverandi í núverandi stjórnarskrá.

Í 8. gr. frumvarpsins er svo talað um mannlega reisn og réttinn til að lifa með reisn.

Ég vil fá að nefna eitt orð enn sem ekki er í núverandi stjórnarskrá og er ekki þýtt í löggjöf okkar Íslendinga, orðið „friður“. Orð hafa þýðingu og sköpunarmátt. Orð segja til um hugarfar þess sem talar og væntingarnar gagnvart þeim sem talað er til. Stjórnlagaráðið hefur augljóslega verið sér vel meðvitað um merkingu þeirra orða sem valin eru inn í þetta nýja frumvarp, ef ég má kalla þetta frumvarp, og orðnotkunin þar ber höfundum sínum gott vitni og uppbygging skráarinnar er augljóslega þaulhugsuð, bæði merkingarfræðilega, pólitískt og fagurfræðilega.

Það eru ýmis nýmæli og breytingar í tillögum stjórnlagaráðs sem mig langar aðeins að fá að nefna áður en ég vík máli mínu að sjálfri málsmeðferðinni. Ég hef þegar nefnt þetta með mannhelgiákvæðið sem við sjáum í 10. gr. Ákvæði er um varðveislu menningarverðmæta í 32. gr., þ.e. dýrmætra þjóðareigna sem heyra til íslenskum menningararfi eins og þjóðminjar, fornhandrit o.fl. sem ekki má eyðileggja eða afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

Ég vil líka nefna ákvæði 34. gr. um náttúruauðlindir þess efnis að, með leyfi forseta, „auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja“.

Í sömu grein segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt ákvæði og eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á áðan gæti það líka kannski komið við einhverja sem hugsanlega gætu þá í framhaldinu reynt að leggja stein í götu þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. En veldur hver á heldur og ég treysti þinginu til að taka vel á þessu máli og tryggja með öruggri og fumlausri málsmeðferð að þær breytingar sem hér eru lagðar til fái góða og málefnalega umfjöllun og góðar lyktir.

Það ákvæði um náttúruauðlindirnar sem ég geri hér að umtalsefni er ekki síst mikilvægt nú þegar við stöndum frammi fyrir því að gera gagngerar breytingar á lagaumhverfi auðlinda okkar, ekki síst breytingar á fiskveiðistjórn okkar til framtíðar. Það er mikilvægt að allir hlutaðeigendur geri sér grein fyrir ákvæðum komandi stjórnarskrár um nýtingu náttúruauðlinda okkar og afstöðunni sem liggur þar að baki.

Þá fagna ég ákvæði 35. gr. sem kveður á um upplýsingaskyldu stjórnvalda varðandi ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Í þessu ákvæði eru stjórnvöld skylduð með beinum hætti til að upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun. Þetta er mikilvæg breyting því að fram að þessu hefur skylda stjórnvalda ekki náð lengra en til þess að veita umbeðnar upplýsingar. Frumkvæðisskyldan hefur hins vegar ekki verið orðuð með beinum hætti líkt og hér er gert og það er til mikilla bóta. Við vorum harkalega minnt á galla þessa fyrirkomulags fyrir um það bil ári þegar upp komst um mikla díoxíðmengun í nokkrum sorpbrennslustöðvum á Íslandi og í ljós kom að opinberar stofnanir sáu hvorki ástæðu til aðgerða mánuðum og missirum saman né heldur þótti ástæða til að upplýsa íbúa í næsta nágrenni við stöðvarnar um þá hættu sem fyrir hendi var. Í þessu efni er óhjákvæmilegt að skerpa á viðbragðsskyldu stjórnvalda og opinberra stofnana gagnvart almenningi og þess vegna hef ég nú öðru sinni lagt fyrir þingið ásamt hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og Merði Árnasyni, sem hafa setið með mér í umhverfisnefnd, frumvarp um breytingu á lögum þar sem einmitt er kveðið á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda við upplýsingagjöf í umhverfismálum.

Þess vegna er fagnaðarefni að í þessum tillögum að nýrri stjórnarskrá skuli lagt til að þetta verði bundið í stjórnarskrá.

Það eru ýmis önnur nýmæli í frumvarpinu sem menn eiga eftir að yfirvega og taka afstöðu til, ákvæði sem draga úr ábyrgðarleysi forseta Íslands á stjórnarathöfnum en skerpa um leið, eftir því sem ég skil tillögurnar, á því grundvallaratriði að forseti landsins sitji og starfi í umboði Alþingis. Af ræðu forseta Íslands hér við þingsetningu er ljóst að hann leggur annan skilning í þær breytingar í tillögum stjórnlagaráðs og þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu er tilefni til að ígrunda mjög vel orðalag þessarar greinar.

Önnur nýmæli eins og málskot til þjóðarinnar og nýtt ákvæði um Lögréttu sem yfirfari öll lagafrumvörp og kanni hvort þau standist stjórnarskrá og þjóðréttarlegar skuldbindingar eru að sjálfsögðu þýðingarmikil í sambandi við þessar breytingar. Kannski er ein athyglisverðasta nýlundan sú að kjósendur geti lagt fram þingmál á Alþingi. Það er líka athyglisvert að gert er ráð fyrir skyldu þingsins til að taka þingmál kjósenda til afgreiðslu innan tveggja ára og það má kannski segja að sú skylda setji um leið slík þingmál ofar almennum þingmannamálum kjörinna alþingismanna. Það er umhugsunarefni og ástæða til að hugleiða betur.

Þau nýmæli sem finna má í þessu frumvarpi eiga eftir að fá umfjöllun í samfélagi okkar og hér í þinginu. Það er mikilvægt að þau fái fulla umræðu og að hún einskorðist ekki við þennan vettvang hér, þ.e. þingið. Stjórnarskráin er skjal skrifað fyrir þjóðina og þjóðin þarf sjálf að geta farið höndum um þetta mikilvæga gagn. Hið sama gildir um fræðasamfélagið sem ég vil fá að nefna. Ég tel nefnilega mikilvægt að tillögurnar verði sendar inn á hvert heimili í landinu og að almenningi gefist svigrúm til skoðanaskipta á opinberum vettvangi um hríð þannig að málið fái eðlilega gerjun og umhugsun jafnhliða málsmeðferðinni í þinginu. Ég tel mjög æskilegt að fræðasamfélagið taki líka frumkvæði núna, efni til opins málþings um þessar stjórnlagatillögur og fjalli um þær á fræðilegan og upplýsandi hátt með aðkomu sérfræðinga í stjórnarskipunarlögum, með aðkomu stjórnmálamanna, samfélagsfræðinga og ýmissa lýðræðisunnenda. Það væri til dæmis verðugt verkefni fyrir Háskóla Íslands á 100. afmælisári skólans að taka sér slíkt fyrir hendur, svo nátengdur sem háskólinn er lýðræðisþróun og sjálfstæðisvitund þjóðarinnar.

Ef þetta er ofætlan, þ.e. að fræðasamfélagið taki sjálft frumkvæði í þessa veru, gæti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins eða forsætisnefnd þess tekið frumkvæði að slíkri ráðstefnu sem einn lið í málsmeðferðinni áður en málið verður endanlega til lykta leitt hér en mér finnst í öllu falli ástæða til að kanna hvernig best yrði staðið að fræðilegum átektum þessa máls, nú þegar tillögurnar hafa litið dagsins ljós.

Þá er vert að vekja athygli á því og minna á að stjórnlagaráðið hefur sjálft lýst sig reiðubúið til að koma aftur að málinu áður en það verður endanlega til lykta leitt og mér finnst full ástæða til að taka það tilboð alvarlega.

Frú forseti. Vel skal vanda það sem lengi á að standa, segir máltækið, og hver svo sem málsmeðferðin á endanum verður er mikilvægt að hún verði vönduð og yfirveguð og að þetta mál verði afgreitt héðan fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils þannig að þjóðin geti kosið um nýja stjórnarskrá um leið og gengið verður til næstu alþingiskosninga. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á vandasamt verkefni fyrir höndum, að taka afstöðu til álitamála og taka af skarið um túlkunarefni en allt skiptir það gríðarlegu máli um hvernig við túlkum sérstaklega þau ákvæði sem hafa komist í ákveðinn túlkunarvanda nú þegar og að slík afstaða liggi skýrt fyrir í nefndarálitum þegar málið verður afgreitt. Öll slík gögn eru lögskýringargögn þegar upp er staðið og hafa þar af leiðandi verulega þýðingu, ég tala nú ekki um þegar málið snýst um nýja stjórnarskrá.

Við eigum, frú forseti, eftir að skiptast á skoðunum um þessar tillögur á komandi mánuðum. Sjálfsagt verða skoðanir skiptar um einstaka þætti þess, en engu að síður tel ég ljóst að þetta plagg sé ótvíræður áfangi á leið okkar til þroskaðra lýðræðis og betri stjórnarhátta og fyrir það ber að þakka. Ég ætla því á þessu stigi máls að óska okkur öllum til hamingju með þetta plagg og þakka stjórnlagaráðinu þá vönduðu vinnu sem þar átti sér stað við tilurð þessa gagns.



[18:20]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Þetta er með sanni ánægjulegur dagur. Mjög mikið hefur þegar komið fram af því sem ég vildi segja. Ég ætla ekki að endurtaka það en vil vitna sérstaklega í meginundirstöðu þess sem hv. þm. Þór Saari hafði fram að færa, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og ég þakka þeim kærlega fyrir.

Það er eitt sem mér finnst mjög mikilvægt samt að skerpa svolítið á. Það er mikilvægi þess að við þingmenn fáum lánaða dómgreind og fáum leiðsögn hjá þjóðinni um það hvað hún telji að sé mikilvægt að sé í þessum samfélagssáttmála okkar. Mér finnst jafnframt mjög mikilvægt að ferlið við að koma þessu inn í umræðuna sé skilgreint hjá okkur á þinginu því að þetta verkefni er í okkar höndum.

Mér var færð mjög falleg gjöf í dag sem er fyrsta eintakið af nýrri stjórnarskrá Íslands eða sem sagt frumvarpinu sem hefur verið lagt fyrir þingið. Þetta er fallega sett upp eins og ljóð. Það stendur til að gefa þetta út og afhenda þjóðinni og vonandi skapa umræðu.

Þegar ég hef lesið þessar tillögur, þó að ég sé ekki sammála þeim öllum og hefði fundist við eiga að ganga lengra að sumu leyti, virði ég það að 25 aðilar náðu samstöðu um atriði sem ekki allir voru sammála um. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við virðum að niðurstöðu var náð því að ef við ætlum að reyna að komast að sambærilegri niðurstöðu hér á þingi og fara efnislega í þetta verður það þunnur þrettándi og alls ekki það sem þjóðfundur kallaði eftir. Mér finnst mikilvægt að við virðum þetta ferli frá upphafi til enda.

Þetta finnst mér það merkilegasta sem ég hef haldið á og lesið síðan ég kom á þing. Mig langar til þess að lesa aðfaraorðin, með leyfi forseta, eins og þau leggja sig því að mér finnst þau svo falleg. Ef þetta er samfélagssáttmálinn sem fólk kallar eftir get ég með sanni verið stolt af því að vera Íslendingur.

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Ég fæ gæsahúð þegar ég les þetta, þetta er svo fallegt. Ég þakka stjórnlagaráði sérstaklega fyrir þá góðu vinnu sem það lagði í þetta og ég ber mikla virðingu fyrir vinnu stjórnlagaráðs sem þurfti að hefjast í skugga ákveðinna afla. Ég vil líka þakka Stjórnarskrárfélaginu kærlega fyrir þeirra velheppnuðu vinnu við að koma umræðu í gang um þetta mál. Mér finnst mjög mikilvægt núna þegar þetta er komið undir forræði Alþingis að við undirbúum og leggjum til að t.d. RÚV útbúi stutta þætti með hverri grein eða hverjum kafla — helst hverri grein og útskýringum með henni — sem síðan er hægt að setja á YouTube og sýna kannski rétt fyrir fréttir þannig að það skapist umræða. Það er svo mikilvægt að umræða skapist um þennan samfélagssáttmála.

Mér finnst rosalega mikilvægt að þetta verði ekki bara eitthvert mál sem örfáir þingmenn tala um og einhverjir fræðimenn. Ég fagna því tillögum hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að taka þetta inn í fræðasamfélagið. Það er mér hjartans mál að þetta verði til umræðu í samfélaginu og ég vonast til að það verði kynnt um allt land og þegar frumvarpið verður að lögum eftir að búið er að sníða af þá tæknilega agnúa sem bent hefur verið á muni fólk kunna það utan að. Ég vona að það verði kennt í barnaskólum landsins því að þetta eru nýju boðorðin tíu, þó að þau séu aðeins fleiri.

Mér finnst svolítið mikilvægt að við förum ekki í efnislegar breytingar. Það er búið að taka á hinum efnislega þætti þess plaggs sem ég hef í höndunum. Aftur á móti er ég sammála því ferli að skoða þetta vel og leggja til breytingartillögur ef lagfæra þarf tæknileg atriði og ef eitthvað stangast á. Ég legg eindregið til að þingið skoði vel og fari í góða umræðu í hinni nýju nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, um hvernig best fer á að koma þessu alla leið þannig að árið 2013 getum við öll í það minnsta á hverjum jólum farið með aðfaraorðin. Ég vona svo sannarlega að ekki verði hróflað við þeim því að þau finnst mér vera mjög falleg og lýsandi fyrir það samfélag sem ég persónulega mundi vilja lifa í og stórkostlegt að sjá hvað margir eru sammála því.

Leið okkar Íslendinga að því að fá þjóðina til að taka þátt í að koma að þessu verki er einstök. Ég hef ferðast vítt og breitt, sérstaklega um Evrópu, til að ræða um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og aðkomu almennings að stjórnsýslu. Allir fylgjast mjög náið með hvað við erum að gera. Fólk ber mikla virðingu fyrir ferlinu og aðferðir stjórnlagaráðs til að koma þessu í umræðu og fá fleiri til að taka þátt en bara þá sem hefðbundið skipta sér af stjórnsýslumálum hafa spurst út um allan heim. Mig langar að deila því hvað þetta ferli hefur þótt virðingarvert. Margir vilja taka okkur sér til fyrirmyndar í þessu máli og mikilvægt er að við getum orðið fyrirmynd að jákvæðri samræðu á milli þjóða og þinga annars staðar en bara hér því að það er nokkuð sem stendur í aðfaraorðunum, að við viljum líka hugsa út fyrir eyjuna okkar.

Ég er sérstaklega hrifin af mannréttinda- og náttúrukaflanum og því er varðar upplýsingarétt í 15. gr. og 16. gr., frelsi fjölmiðla. Þetta eru í mínum huga mikilvægustu partarnir jafnframt partinum um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Ef við búum í samfélagi þar sem ekki ríkir upplýsinga-, tjáningar- og málfrelsi þá búin við í raun ekki í lýðræðisríki. Það er mikilvægt að það sé skýrt og í takti við nútímann eins og hefur greinilega verið skrifað í þetta frumvarp.

Þó svo að ég hefði sjálfsagt viljað ganga lengra með sumt verð ég samt að segja að andinn í þessu, fyrstu skrefin sem við tökum með nýrri stjórnarskrá mun færa okkur inn í hið nýja Ísland sem svo margir kölluðu eftir í kjölfar hrunsins. Þetta er mjög góður hornsteinn að nýju Íslandi.



[18:31]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Hér fer því fram grundvallarumræða um grundvallarskjal íslenskrar löggjafar sem á að vera einfalt og skýrt en þó svo víðtækt að það snerti alla fleti íslensks þjóðlífs.

Það var fullkomlega tímabært að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni frá 1944, svo mikið hefur samfélag okkar og margt annað í uppbyggingu heimsins breyst. Til að tryggja aðkomu almennings að endurskoðuninni var fyrst haldinn þjóðfundur og síðan var kosið til stjórnlagaþings. Því miður komu fram formgallar á þeim kosningum sem urðu til þess að þær voru dæmdar ógildar af Hæstarétti. Þegar það lá ljóst fyrir tók við frekar erfitt samtal, bæði við eigin samvisku og félaga á þingi og utan þings, um hvað ætti í raun og veru að gera eftir þessa ógildingu. En ég verð að viðurkenna að eftir nokkurn tíma og góða umhugsun sannfærðist ég um að það væri fullkomlega ásættanleg leið að fá það fólk sem hlaut kosningu til þingsins til að mynda stjórnlagaráð sem ynni það mikilvæga verk að vinna að heildstæðri endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar.

Vinnubrögðum og starfsreglum stjórnlagaráðsins er lýst í skýrslunni á bls. 213 og ætla ég að leyfa mér að lesa það sem þar stendur, með leyfi forseta:

„Við fulltrúar í stjórnlagaráði,

af virðingu fyrir því trausti sem okkur hefur verið sýnt af þjóð og þingi með því að fela okkur það brýna verkefni að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins,

af ásetningi um að skila af okkur vönduðu verki innan settra tímamarka,

í anda uppbyggilegs og jákvæðs samstarfs, þar sem jafnréttis er gætt í hvívetna,

með þá ætlun að nota hófstillta rökræðu og málefnalega gagnrýni til að ná fram sátt fremur en að beita afli atkvæða,

með vísan til hugmynda þjóðfundar 2010 og með vilja til samráðs við þjóðina,

í þeirri ósk að víðtæk samstaða náist um frumvarp okkar að nýrri stjórnarskrá,

setjum ráðinu eftirfarandi starfsreglur.“

Þetta er í raun inngangurinn að starfsreglunum sem mér finnst vera einstaklega vel gerður. Þessar reglur eru nákvæmar og taka mið af opinni stjórnsýslu og umfjöllun og mikilli aðkomu almennings að vinnunni.

Þegar ný stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins tekur nú við málinu finnst mér miklu skipta að umfjöllunin sé opin og aðkoma almennings sé tryggð. Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað í fullri alvöru að fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjalla um breytingar á stjórnarskránni séu opnir, jafnvel sendir út á netinu og að vefsvæði um málið sé opið á heimasíðu þingsins þar sem almenningur getur komið áliti sínu og athugasemdum á framfæri.

Mér finnst líka skipta máli að fram fari mikil umfjöllun á opinberum vettvangi um stjórnarskrármál almennt og þessar tillögur þar með, jafnvel að haldnar væru ráðstefnur og málfundir, og menn verði duglegir í umfjöllun í fjölmiðlum.

Ég lít á þessar tillögur stjórnlagaráðsins sem heildstætt plagg og finnst við eiga að líta á það sem slíkt þegar við fjöllum um það efnislega. Það verður að skoða allar greinar í samhengi við aðrar. Við verðum auðvitað að taka tillit til ákveðna tæknilegra annmarka, ef þeir kunna að vera fyrir hendi, og hugsanlegra árekstra einhvers staðar, en við megum ekki missa sjónar á því að þetta er heildstætt plagg.

Hlutverk nefndarinnar nú er að kalla til sérfræðinga, stjórnlagaráðsfólk og alla þá sem hún telur gott að eiga skoðanaskipti um þetta mál. Ég trúi því og treysti að við eigum eftir að eiga gott samstarf í nefndinni og getum nýtt okkur ný þingsköp til að skipta með okkur verkum í vinnunni, ástunda samvinnustjórnmál og góðar rökræður í anda vinnubragða stjórnlagaráðsins. Ég geri ráð fyrir því að áætlað ferli málsins verði rætt í nefndinni og ég geri ráð fyrir því að það ferli verði endurskoðað reglulega. Þar á meðal munum við tala um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað við viljum gera með hana. En það sem mér finnst skipta mestu máli, eins og ég hef sagt, er að ferlið verði opið og í sífelldri endurskoðun. Nútímaleg vinnubrögð og vinnulag stjórnlagaráðs verði í heiðri höfð, við viðhöfum vandaða umræðuhefð og vinna okkar verði sýnileg og aðkoma almennings að vinnu okkar verði greið.

Ég ítreka þá skoðun mína að líta á tillögur stjórnlagaráðsins sem heild. Við þurfum því að vanda okkur sérstaklega þegar við ræðum einstakar greinar og jafnvel breytum þeim. Heildarmyndin verður alltaf að vera í forgrunni. Agnúa og misfellur má að sjálfsögðu sníða af og gott er að ræða atriði eins og kosningafyrirkomulagið til fulls skilnings. Minni ég þar á fyrri orð mín um umræðu og fræðslu í samfélaginu.

Ég hef meðvitað ekki farið inn í efnisatriði tillagnanna en langar að lokum að upplýsa að ég á mér uppáhaldsgrein. Það er 8. gr. um mannlega reisn en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“

Sem sérstök áhugamanneskja um málefni fatlaðs fólks gladdi þessi grein mig sérstaklega. Mannleg reisn er nefnilega lykilhugtak í samskiptum fólks og í forgangsröðun samfélaga. Hér er ákveðinn tónn sleginn og hann á svo sannarlega samhljóm við minn lífstón. Þess vegna verð ég að viðurkenna að ég varð strax dálítið skotin í þessum tillögum stjórnlagaráðsins.

Ég hlakka til vinnunnar við þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni og efast ekki um að þar verða málefnaleg skoðanaskipti. Ég mun hvetja til þess að ferlið verði sem allra opnast og að aðkoma almennings að málinu verði þar sem allra mest.



[18:37]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Því að vera borgari fylgja ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Það er skylda allra Íslendinga að láta sig þróun þjóðfélagsins varða, vera ekki bara að græða á daginn og grilla á kvöldin. En þá þarf líka að vera til öflugri og betri farvegur til inngrips en að vera með hávaða fyrir utan þinghúsið, kasta jafnvel matvælum í húsið eða kveikja í Óslóarjólatrénu. Það er kannski dæmigert að viðbrögðin við þessu hafa einkum verið þau að girða Alþingishúsið af við sérstök tækifæri og taka Óslóarjólatréð niður fyrr þannig að það verði ekki eldi að bráð. Æskilegri viðbrögð hefðu verið að hlusta á fólkið og búa til farveg þannig að fólk geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál þegar þurfa þykir eða til þess að rjúfa þing.

Eitt hefur þó verið gert og það var að boða til stjórnlagaþings sem breyttist svo í stjórnlagaráð, og það var gott. Stjórnlagaráð sannaði fyrir okkur að það er til önnur leið, leið lýðræðis, leið samræðu og leið samstöðu, leið upp úr skotgröfunum sem hafa verið grafnar hér á Alþingi. Leið fram hjá þeirri einstefnulegu umræðuhefð sem hefur því miður þróast í samfélaginu okkar og er ömurleg, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Leið til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu með samræðu, með því að hlusta og með því að mætast á miðri leið. Að því leyti hefur stjórnlagaráðið verið okkar sómi, sverð og skjöldur. Það hefur verið til fyrirmyndar í störfum sínum og samstöðu og afurðin sem við ræðum nú í skýrsluformi getur verið, ef þjóðin kýs, leiðarvísir að nýju og lýðræðislegra samfélagi.

Forseti. Mér þykir stjórnlagaráð hafa skilað gríðarlega góðu verki. En frumvarp stjórnlagaráðs er ekkert endilega nákvæmlega eins og ég hefði óskað mér, hreint ekki. Ég hefði örugglega haft sumar greinarnar allt öðruvísi og ég verð að viðurkenna að ég hefði hreinlega ekki haft hugmyndaflug til að setja sumt þarna inn, sem ég gleðst yfir nú. En allir mikilvægustu þættirnir, allt sem mér hefði þótt mikilvægast að væri í stjórnarskrá, er þarna. Þar vil ég sérstaklega nefna aukið lýðræði, jafnan atkvæðisrétt allra landsmanna, persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur, aukin mannréttindi, sjálfbæra þróun og svo ótal margt annað sem ég gæti tínt til.

Verði þessi nýja stjórnarskrá að veruleika fær fólkið í landinu fleiri tækifæri og möguleika til áhrifa en að blogga og kasta eggjum. Ég held að það geti aðeins orðið til góðs og ég tel reyndar að flest sé bæði betra og áhrifaríkara en eggjakast og það á bæði við um þann sem kastar egginu og þann eða það sem fær það í sig.

Ég hef haldið því fram að núgildandi stjórnarskrá sé samin fyrir 19. aldar Dani. Vissulega hefur hún verið aðlöguð en þó til bráðabirgða, að lýðveldinu Íslandi og búið að bæta inn kafla um mannréttindi en grunnurinn er ekki okkar. Við höfum aldrei áður sest niður og ákveðið hvernig við viljum að grunnstoðir samfélagsins verði.

Árið 1874 var Ísland nýlenda. Konur höfðu ekki kosningarrétt og varla karlar heldur því að þeir þurftu að hafa náð 25 ára aldri og vera eignamenn, borga 4 krónur eða meira í útsvar og vera ekki öðrum háðir sem hjú. Ef ég man rétt höfðu aðeins um 6% Íslendinga kosningarrétt árið 1874 þegar kóngurinn í Danmörku, sem þá var líka kóngurinn okkar, gaf okkur stjórnarskrá sem eins konar dúsu í þúsund ára afmælisgjöf.

Forseti. Mér finnst að við Íslendingar höfum oft verið í sporum barns. Lýðræðið er ungt hjá okkur og oft brothætt. Mér finnst við oft vilja fá hlutina tilbúna upp í hendurnar eins og við fengum stjórnarskrána fyrst árið 1874, sem þá var nánast afrit af þeirri dönsku. Danir eru löngu búnir að breyta sinni stjórnarskrá. Af hverju vilja þá einhver öfl hér á landi endilega halda í okkar gömlu stjórnarskrá í eins upprunalegu formi og hægt er? Er það kannski einmitt vegna þess að hún er svo ófullkomin? Er það vegna þess að hún er ekki mjög góð lýsing á stjórnskipan Íslands og þess vegna hafa menn getað valsað um með málefni ríkisins eins og hvert annað rassvasabókhald, eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis greinir svo vel og ítarlega frá?

Forseti. Mér finnst að í tillögum stjórnlagaráðs séu gerðar auknar kröfur til þjóðarinnar, kröfur um að stíga skref til aukins þroska. Hér er t.d. lagt til að við hættum að öskra hvert á annað, hættum að kasta eggjum í þinghúsið, hættum að ganga um landið okkar eins og enginn sé morgundagurinn. Frumvarpið gerir nefnilega kröfu til borgaranna um að þeir kynni sér málin, ræði saman og taki sig saman um að leggja fram þingmál eða krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Það krefst nefnilega samræðu en ekki sundurlyndis. Líka er gerð krafa um að við virðum og verndum íslenska náttúru og að við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Það finnst mér ekki bara skref í rétta átt heldur algjörlega nauðsynlegt.

Í lokin vil ég taka undir með mörgum sem hafa talað hér fyrr í dag og ítreka mikilvægi aðkomu þjóðarinnar að stjórnarskránni. Ég tel að það sé langbest að spyrja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þá gerum við líka þá kröfu til fólks að það kynni sér málin og myndi sér skoðun.



[18:44]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu. Það var reyndar ýmislegt í henni sem truflaði mig eins og t.d. þessi frasi, „græða á daginn og grilla á kvöldin“. Ég skil ekki hvaða erindi hann á í þessa umræðu, ég næ því ekki. Svo var líka þessi lítilsvirðing á þeim sem vilja halda í það sem er gamalt. Það eru sumir sem óttast breytingar á stjórnarskránni — ég vil breyta stjórnarskránni en ég skil þennan ótta vel. Um leið og við breytum stjórnarskránni breytum við líka allri túlkun dómstóla. Dómstólar hafa myndað sér ákveðna túlkun á hverju einasta atriði í stjórnarskránni í dag. Ef stjórnarskránni er breytt geta liðið áratugir þar til aftur kemur fram sama túlkun eða ein túlkun á hverju einasta atriði. Svona miklar breytingar geta því valdið mikilli lögfræðilegri óvissu. Menn eiga að bera virðingu fyrir skoðunum þeirra sem vilja fara sér hægt í því að breyta stjórnarskránni. Þó að ég vilji breyta henni ber ég virðingu fyrir þeim, og mér fannst hv. þingmaður ekki sýna þeim virðingu. Rök þeirra eru væntanlega þau að ef við breytum mjög miklu valdi það mikilli óvissu. Og hverjir skyldu nú líða mest fyrir lögfræðilegu óvissuna, frú forseti? Það eru þeir sem veikast standa í þjóðfélaginu, þeir standa alltaf verst þegar mikil óvissa ríkir.

Það er því viðbúið að ný stjórnarskrá þýði nýja óvissu og alveg sérstaklega þegar orðalagið í henni er ekki nákvæmt og meitlað. Mér finnst ýmislegt í þessari stjórnarskrá, og ég mun koma inn á það í ræðu minni, ekki vera nægilega meitlað þannig að menn viti nákvæmlega hvað er átt við.



[18:46]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég get alveg tekið undir með þingmanninum um að lagabreytingar feli í sér óvissu. Ég held að það eigi ekki bara við um stjórnarskrá. Ef við breytum einhverjum lögum, sem dómstólar þurfa svo að túlka og dæma eftir, skapar það alltaf einhverja óvissu. Ég held að ef við ætluðum að láta það trufla okkur hér á þinginu gætum við bara lagt niður Alþingi Íslendinga og hætt að breyta lögum því að það mun alltaf skapa óvissu og eitthvert óvissuástand.

En ég er glöð að heyra að þingmaðurinn vill breyta stjórnarskránni og ég hef reyndar þóst skynja það á máli hans. Hins vegar get ég ekki annað en verið ósammála því að í orðum mínum hafi falist lítilsvirðing við þá sem eru mér ósammála. Það var að minnsta kosti alls ekki meiningin.



[18:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en ef ég heyrði rétt — nú getur vel verið að svo sé ekki, það mun koma í ljós þegar við kíkjum á ræðuna þegar búið er að rita hana — gerði hv. þingmaður mönnum sem ekki vildu breyta stjórnarskránni upp annarleg sjónarmið, að þeir vildu viðhalda einhverju óréttlæti sem væri í gangi í dag. Þá finnst mér hv. þingmaður vera að tala niður til þeirra sem vilja ekki breytingar, því að ég skil þá þannig að þeir vilji ekki búa til alla þessa óvissu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í öðru andsvari mínu um 79. gr. Nú hefur verið dálítið mikil umræða um hana og ég er búinn að flytja þingmál um að breyta henni. Svo ég fari í gegnum það, frú forseti, gætum við haft það þannig að hér sé samþykkt stjórnarskrá sem allir eru sáttir við en í staðinn fyrir að setja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hefur ekkert gildi og leggja hana svo fram sem þingmál á Alþingi sem þýðir þingrof og nýjar kosningar og nýtt þing, sem samþykkir stjórnarskrána, verði beðið með að setja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu, beðið með að leggja hana fram sem frumvarp en eingöngu 79. gr. samþykkt. Svo þegar nýtt þing kemur saman, sem er þá væntanlega sammála þessari stjórnarskrá, getur það lagt fram hina nýju stjórnarskrá viku seinna eða svo, þannig að þetta er engin töf, kannski vika, tíu dagar eða eitthvað svoleiðis. Þá fer hún í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi, frú forseti. Fyrst samþykkir nýja þingið breytingu á 79. gr. og svo samþykkir það stjórnarskrána í heild sinni, setur það til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu og þá er sú atkvæðagreiðsla bindandi. Það er einmitt það sem ég vil sjá, að þjóðin mín greiði atkvæði um stjórnarskrána sína.



[18:50]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Já, hér er þingmaðurinn að ræða um frumvarp sem hann hefur flutt og ég man ekki betur en að ég sé meðflutningsmaður að því og hafi verið það á síðasta þingi og sé það líka í nýjustu útgáfunni, og ég styð það heils hugar. En ég held að við ættum samt að halda áfram í þessu ferli.

Nú hafa verið lögð fram tvö þingmál sem geta í raun haft áhrif á málsmeðferð þessarar skýrslu eða frumvarpsdraga frá stjórnlagaráði. Og ég held að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að skoða báðar þessar leiðir mjög ítarlega. Það er alveg rétt að það þing sem nú situr, og verður örugglega ekki eins eftir næstu kosningar, getur ekki bundið hendur þeirra þingmanna sem munu setjast á þing eftir næstu kosningar, þannig að þessi leið er ágæt og ég hef alltaf verið mjög hrifin af hugmyndinni.



[18:51]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns ræða aðeins um þá umræðu sem hér hefur farið fram um íslenska stjórnarskrá, að það séu mikil tímamót fólgin í því að nú sé búin til íslensk stjórnarskrá í fyrsta sinn. Þetta þykir mér nokkuð undarleg umræða í ljósi þess að sú stjórnarskrá sem við búum við og þær stjórnarskrár sem ríki Evrópu og Bandaríkjanna búa við eru sameiginlegur arfur okkar Vesturlandabúa og hafa ekki orðið til í tómarúmi bara í einu landi. Þær eru samhangandi og þau réttindi sem þar eru sett fram og sú réttarheimspeki og sú hugsun sem þar er á ferðinni er, ef svo má segja, samevrópsk annars vegar og í tengingu við sögu Bandaríkjanna hins vegar. Það er ekki rétt að horfa á þetta þeim augum að hér sé um að ræða einhverja séríslenska stjórnarskrá.

Hitt er líka að drög hafa komið fram áður, þetta er ekki í fyrsta sinn sem koma fram drög að nýrri stjórnarskrá. Gunnar Thoroddsen heitinn, fyrrverandi þingmaður og hæstv. ráðherra, lagði fram t.d. slíkt plagg. Svo er líka annað, oft er látið að því liggja í umræðunni annars vegar að það sé sérstakt áhyggjuefni hversu erfitt sé að breyta stjórnarskránni og hins vegar að það hafi verið gerðar nægar breytingar á henni. Aðalatriðið er að átta sig á hvað það er í stjórnarskránni sem við erum ósátt við og teljum að þurfi að breyta og breyta því. Það sem mér þykir skaði eða til hins verra í því sem við erum að fjalla um hér er að menn skuli hafa ráðist í þetta verkefni þannig að raunverulega allt hafi verið lagt undir. Ég held að það hafi ekki verið skynsamlegt, ég held að nær hefði verið að grípa utan um þau atriði sem hægt var að ná sátt um að þyrfti að breyta og ráðast síðan í það.

Þetta plagg liggur fyrir og það er ágætt að þingið fái tækifæri til að ræða núna þær hugmyndir sem hér hafa verið lagðar fram. Ég vil fyrst nefna að hvað varðar heildaryfirbragðið er ég í hópi þeirra — og, frú forseti, það eru engin annarleg sjónarmið þar að baki, ekkert um það að menn vilji verja eitthvert meint óréttlæti eða forréttindi — sem hafa verið þeirrar skoðunar og er að stjórnarskrár séu allt að því einhvers konar varnarrit almennings gegn beitingu ríkisvaldsins, þ.e. að grunnhugsun stjórnarskrárinnar eigi að vera sú að tempra vald ríkisins, að því sé ekki misbeitt gegn almennum borgurum. Það eigi að vera grunnurinn að stjórnarskránni. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að eftir því sem þær eru einfaldari og skýrari því betra. Ég ætla að nefna sem dæmi um þessa hugsun 17. gr. þeirra draga sem við ræðum hér eða skýrslu sem snýr að mikilvægu máli sem er um frelsi menningar og mennta. Með leyfi frú forseta stendur í 17. gr.:

„Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.“

Þá er spurningin: Tryggja gagnvart hverju, fyrir hverju, gegn hverju er verið að tryggja sig? Jú, það er einmitt verið að tryggja þessar mikilvægu greinar samfélags okkar gegn misbeitingu ríkisvaldsins. En vandinn er sá að það er akkúrat hið sama ríkisvald sem hér á með lögum að kveða á um þá tryggingu. Það er ákveðinn vandi við þá nálgun og það er einmitt sú nálgun sem birtist í þessu sem ég hef ýmsar efasemdir um.

Það er reyndar einkenni á þeim hugmyndum sem hér eru að það kemur mjög oft fyrir að sett eru fram almenn stefnumið sem síðan er sagt að kveða eigi nánar á um í lögum. Ég er ekki viss um að það sé góður háttur fyrir stjórnarskrá að gera mikið af slíku.

Frú forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum greinum þessara draga að stjórnarskrá. Upptalning mín verður ekki tæmandi, til þess hef ég ekki nægan tíma en ég vil byrja á að velta aðeins upp stöðu forsetans. Í fyrsta lagi verð ég að segja, eftir að hafa hlýtt á ræðu forseta Íslands við þingsetningu, að þau sjónarmið sem forsetinn lýsti, þó að ég sé ekki í öllu sammála forsetanum, eru ekki fjarri þeirri túlkun sem ég hafði sjálfur lagt í þessi drög þegar ég sá þau fyrst hvað varðar stöðu forsetans. Nú kann að vera að þeir sem skrifuðu textann hafi ætlað sér annað en það er einmitt málið með stjórnarskrár, og þess vegna skiptir svo miklu máli að þær séu skýrar og einfaldar, að það fari ekki á milli mála hvað er átt við.

Nú er það þannig að sú breyting er orðin samkvæmt þessum drögum að forsetinn er ekki lengur hluti af löggjafarvaldinu. Ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu. Ég tel að við búum við þingræðisfyrirkomulag og það sé rétt að löggjafarvaldið sé hjá þinginu.

Á grundvelli núverandi stjórnarskrár þar sem forsetinn fer með löggjafarvaldið ásamt þinginu tel ég að hafi verið túlkaður sá skilningur á 26. gr. núgildandi stjórnarskrár að forseti geti synjað lögum staðfestingar og sett þau þar með í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta sé dauður bókstafur, að það sé ekki eðlilegt að forsetinn hafi beitt þessu ákvæði. En grundvöllurinn fyrir ákvæðinu er þátttaka eða hluti forsetans í löggjafarstarfinu. Þá vaknar auðvitað sú hugsun, þegar búið er að skrifa forsetann út úr löggjafarvaldinu og gera hann raunverulega að hluta af framkvæmdarvaldinu í þeim drögum sem hér er verið að ræða, á hvaða grunni sú regla er byggð að forsetinn hafi áfram vald til að neita lögum samþykkis og kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Það vekur aftur líka umræðu um ábyrgð forseta, þ.e. að í núgildandi stjórnarskrá er skýrt kveðið á um það að forseti sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum en það er ekki þannig í þessari stjórnarskrá eða drögum, en þó er þannig með farið að í greinargerð segir, með leyfi forseta, á bls. 147:

„Í stjórnlagaráði var talsvert rætt um ábyrgð forseta, en í núgildandi stjórnarskrá segir að forseti sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum öllum, sbr. 1. mgr. 11. gr. Fram komu ólík sjónarmið, bæði um að afnema skyldi algert ábyrgðarleysi forseta á stjórnarathöfnum sem og að mikilvægt væri að forseti væri friðhelgur í störfum sínum þannig að hann gæti sinnt þeim án áreitis vegna saksóknar. Stjórnlagaráð ákvað að fella brott 1. mgr. 11. gr. af þeim sökum að enginn embættismaður ætti að vera ábyrgðarlaus eða hafinn yfir lög í lýðræðislegu samfélagi. Hins vegar var ekki talið rétt að mæla frekar fyrir um ábyrgð forseta í frumvarpi þessu.“

Ég velti fyrir mér hvers vegna þessi niðurstaða er fengin af því að það er gríðarlegt vald sem er fengið einum manni að hann geti þrátt fyrir að vera ekki hluti af löggjafarvaldinu, þrátt fyrir að hann komi ekki með beinum hætti að því, samt sem áður neitað lögum staðfestingar og kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel að vald og ábyrgð verði ekki sundur skilið. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að það hefði verið heppilegra þegar kom að því að forseti beitti neitunarvaldi sínu eða málskotsréttinum og þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram, þegar sú niðurstaða var komin að lög sem samþykkt voru á Alþingi fengu ekki nægilegt fylgi meðal þjóðarinnar, að þá hefði átt að rjúfa þing. Það hefðu þurft að vera afleiðingar af því að slík gjörð gekk fram að forseti neitaði að skrifa undir, og ef þjóðin hefði aftur á móti samþykkt lögin sem Alþingi hefði samþykkt hefði forsetinn átt að víkja. Það verða að vera afleiðingar af því þegar teknar eru jafnafdrifaríkar ákvarðanir og það að neita að skrifa undir lög frá Alþingi.

Þetta kemur reyndar líka fram í breytingunum sem gerðar eru við 11. gr. núverandi stjórnarskrár sem snúa að því að ákveði þingið að hrekja forsetann úr embætti, það sé samþykkt að svipta forsetann embætti, þá þurfi, eftir að Alþingi hafi samþykkt það, slík ákvörðun að fara fyrir þjóðina. Í núgildandi stjórnarskrá er kveðið svo á um í 11. gr., með leyfi forseta:

„Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.“

Þetta held ég að sé skynsamlegt fyrirkomulag. Þetta temprar Alþingi og kemur í veg fyrir að Alþingi vegna deilna við forsetann rjúki í það að reyna að koma forsetanum úr embætti, og reyndar er hægt að nefna dæmi frá öðrum löndum og þjóðum þar sem löggjafarvaldið hefur beitt töluverðri hörku gagnvart framkvæmdarvaldinu og sitjandi forseta, t.d. í Bandaríkjunum, að það þurfa að vera afleiðingar. Í ákvæðinu í þeim drögum sem við erum að fjalla um hér er búið að taka þetta ákvæði út. Þetta er ekki lengur inni í drögunum og er sérstaklega tekið fram í greinargerð að það sé ekki talin ástæða til að rjúfa þing ef þjóðin segir nei við þessari niðurstöðu Alþingis.

Annað atriði sem mig langar til að gera að umfjöllunarefni eru ákvæði í 32. gr. þessara draga og 34. gr. sem snúa að þjóðareignarhugtakinu. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, frú forseti, að það hugtak sé illa tækt í eignarréttarlegum skilningi og vil benda á nokkur atriði sem ég tel að þurfi að minnsta kosti að skýra ef þetta á að vera tækt hugtak í stjórnarskrána. Í fyrsta lagi það sem snýr að muninum á ríkiseign eða opinberri eign og þjóðareign. Gerð er tilraun til að skýra það í greinargerð með því að benda á ýmsar eignir ríkisins sem séu þess eðlis að ríkið geti ekki framselt þær eða selt með nokkrum hætti. Eru nefnd t.d. styttan af Leifi Eiríkssyni, menningarverðmæti eins og handritin o.s.frv. Gott og vel. Ef við beygjum okkur undir þessa skilgreiningu hefur hún auðvitað víðtækar afleiðingar. Ég ætla að nefna eina. Ef við lítum svo á að orkuauðlindirnar, eins og lagt er upp með í þessum drögum, séu í þjóðareign samkvæmt þessum skilningi þá kemur upp sú spurning: Hvernig skal fara með það hugtak annars vegar og hins vegar þá staðreynd að ýmsar orkulindir þjóðarinnar eru í eigu opinberra aðila, sveitarfélaga, misstórra, sem ráða yfir mismiklum orkuauðlindum? Til dæmis er það þannig með okkur Reykvíkinga að fyrirtæki okkar Orkuveitan býr yfir miklum orkuauðlindum sem hafa skilað Reykvíkingum ódýru heitu vatni og orku til langs tíma. Það eru önnur svæði á landinu þar sem þessu er ekki svo farið, t.d. eins og vestur á fjörðum og víðar, og þá kemur upp sú spurning: Ef um er að ræða þjóðareign hlýtur þá ekki að vera uppi sú krafa að allir Íslendingar njóti til jafns ábatans af slíkri þjóðareign? Er hægt að verja það, frú forseti, að það sé skilgreint sem þjóðareign ef t.d. ef lítill hreppur einhvers staðar byggi yfir stórri orkuauðlind að íbúar þess hrepps fengju að njóta einir afrakstursins af slíkri auðlind? En slíkt mál mun koma upp án nokkurs vafa ef við setjum inn í stjórnarskrána slík ákvæði. Þetta vildi ég nefna til umhugsunar.

Annað atriði vil ég líka gera að umtalsefni þó að ekki sé nú stórt, frú forseti, ég vil benda á 25. gr. þar sem fjallað er um atvinnufrelsi. Þar er eftirfarandi setning, með leyfi frú forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa …“

Nú er það svo, frú forseti, að ég hef fylgst með umræðum um vinnumarkað og kjaradeilur í einhverja áratugi. Ég man aldrei eftir því í þeirri umræðu að ekki væri farið fram með sanngjarnar kröfur. Allir sem gera launakröfur telja sig með réttu eða röngu vera að gera sanngjarnar kröfur. Hvað er átt við nákvæmlega með orðunum sanngjörn laun? Ef við setjum þetta t.d. inn í stjórnarskrána, frú forseti, þurfum við að vita nákvæmlega hvað átt er við vegna þess að þegar við förum að deila um kaup og kjör, og það gerum við og það er enginn endir á þeirri deilu, þá er um að ræða að menn geti borið fyrir sig brot á stjórnarskrá ef viðkomandi einstaklingar eða kjarahópar fá ekki greidd að þeirra mati sanngjörn laun.

Það er rétt að hafa þetta í huga og þetta er ágætisáminning um það þegar við skrifum stjórnarskrá að þetta er það plagg sem ver borgarana. Þetta er mikilvægasta plaggið. Um þetta plagg þarf að ríkja mjög góð sátt og góður skilningur, sameiginlegur skilningur. Ef þar er mikið af hugtökum eins og t.d. þjóðareign, sem menn hafa einfaldlega ekki útfært af neinu viti í lagatexta og í eignarréttarlegum skilningi, og fleiri svona hugtök sem ég nefndi hér, eftir því sem við setjum fleiri slík hugtök inn í stjórnarskrána því bitlausari verður hún sem varnarskjal okkar borgaranna.

Annað atriði, 87. gr. sem snýr að ríkisstjórninni og það að hún sé fjölskipað stjórnvald við vissar aðstæður. Ég á mjög erfitt með að sjá hvernig þessu muni reiða af þegar þetta verður gert í praxís. Ég held að það væri miklu nær að taka ákvörðun um það hvort ríkisstjórn Íslands eigi að vera fjölskipað stjórnvald, þ.e. það eigi að vera sameiginleg ábyrgð ráðherra á öllum málum, eða ekki. Það að segja við vissar aðstæður þegar um er að ræða mikilvægar að stefnumarkandi ákvarðanir þá breytir ríkisstjórnarherbergið allt í einu um eðli og við förum úr því kerfi að ráðherrarnir hafi ábyrgð hver á sínum málaflokki og það verður um að ræða sameiginleg ábyrgð, og þá sé ég ekki annað, frú forseti, en það verði umtalsverður ruglingur í þessu máli og það geti orðið mikið matsatriði hvenær um er að ræða mikilvæga eða stefnumarkandi ákvörðun. Það sér hver maður í hendi sér. Og það sem meira er, það er gert ráð fyrir því að ráðherrarnir geti sagt sig frá slíkum ákvörðunum með einfaldri bókun og þá er mér mjög til efs hversu mikið gildi þetta hefur allt saman.

Annað sem ég reyndi að finna skýringu á, og vil þá að minnsta kosti vekja athygli á að ég sá ekki nákvæmlega hvernig skyldi fara með, er það að tekið er fram í þessari grein að meiri hluti ráðherra þurfi að vera viðstaddur til að um sé að ræða sameiginlega ákvörðun. Það sem ég velti fyrir mér, frú forseti, er þetta: Þýðir það að þeir ráðherrar sem voru fjarverandi á ráðherrafundi verði um leið líka bundnir ákvörðuninni þrátt fyrir að þeir hafi þá ekki tækifæri á þeim fundi til að bóka það að þeir ætli sér ekki að bera ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin var? Þetta kemur í það minnsta ekki skýrt fram í þeim gögnum sem ég hef skoðað og væri áhugavert ef einhver hv. þingmanna þekkti á þessu nokkur skil.

Frú forseti. 90. gr. varðandi myndun ríkisstjórnar. Ég held að það sé nauðsynlegt að við áttum okkur á því að það vald sem forsetinn fær í hendur, sem hann gerði að umtalsefni í ræðu sinni í þinginu, er umtalsvert við myndun ríkisstjórnar. Þannig skiptir máli hvaða nafn er fyrst borið upp og sem er borið upp síðar þar á eftir ef það ekki er samþykkt í þingsalnum þegar kemur að því að velja forsætisráðherra, það er mikið vald í því að ráða hvaða einstaklingur er fyrst borinn upp til atkvæðagreiðslu.

Það vald sem forsetinn hefur núna á myndun ríkisstjórna geta menn skoðað í sögulegu samhengi. Það gerðist aftur og aftur á tímabilinu frá 1995 og til og með kosningunum 2003 að myndaðar voru ríkisstjórnir án atbeina forseta. Með þessu væri verið að auka mjög og formgera vald forsetans við ríkisstjórnarmyndanir og reyndar er mjög víða verið að auka vald forsetans og ég minni enn og aftur á þetta undarlega sambland sem þessi drög ætla að leggja upp með við stjórnskipunina, að við séum með einhvers konar þingræði eða einhvers konar kerfi svipað og Bandaríkjamenn varðandi stöðu forseta, eitthvert sambland af þessu, og þó með þeim óljósa hætti að ábyrgð forsetans er illa skilgreind ef nokkuð á því t.d. að neita að skrifa undir lög, hvað gerist þegar slíkt á sér stað. Ég er í þeim hópi sem telur að gera þurfi breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Ég tel að fyrst og fremst þurfi að gera breytingar á stöðu forsetans. Ég er sammála þeim breytingum sem hér er lagt upp með að líta svo á að það sé Alþingi sem fari með löggjafarvaldið en ekki forsetinn. Ég held að það væri það sem við gerðum skynsamlegast í þessu að fara í þær breytingar, af því að það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á stjórnarskránni. Það er sjálfsagt að bera saman breytingarnar sem við Íslendingar höfum gert á okkar stjórnarskrá við breytingarnar sem Danir hafa gert og aðrir og enn á ný. Þetta tal um þjóðstjórnarskrár tel ég vera frekar vafasama sagnfræði. Þetta er sameiginlegur arfur okkur Vesturlandabúa.

Við höfum t.d. gert stórar breytingar með mannréttindakaflanum sem kom inn á sínum tíma og fleiri breytingar en okkur hefur ekki tekist enn þá að ná góðri sátt um allar þær breytingar sem t.d. ég tel að þó ætti að gera, en ég tel alveg nauðsynlegt að þær séu gerðar í góðri sátt. Mér finnst stundum tónninn í þessari umræðu þar sem hv. þingmönnum eru jafnvel gerðar upp skoðanir vegna afstöðu þeirra til þessa, að það sé verið að verja einhverja hagsmuni eða eitthvað þess háttar, mér finnst það ekki við hæfi í umræðu eins og þessari.



[19:11]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna og fyrir að hafa farið vel yfir málin. Nú veit ég ekki hvort þingmaðurinn heyrði áðan ræðu Jónínu Rósar Guðmundsdóttur þingmanns en þar tiltók hún að uppáhaldsgrein sín væri 8. gr. sem fjallar um mannlega reisn.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann eigi sér einhverja uppáhaldsgrein í þessu plaggi.



[19:12]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt. Nei, ég á mér ekki neina uppáhaldsgrein í þessu frumvarpi. Ég vil þó segja að ég er einna sáttastur við þá breytingu sem lagt er upp með að löggjafarvaldið sé hjá Alþingi. Ég tel að það hafi verið upphaf að breytingu sem hafi verið mjög skynsamleg en því miður sýnist mér á því sem ég les úr skjalinu að deilur hafi verið innan stjórnlagaráðsins um stöðu forsetans og um 26. gr. og menn hafi einhvern veginn mæst á miðri leið með því að segja: Það er þingið sem er með löggjafarvaldið en ákveðið síðan að halda forsetanum inni með neitunarheimildina og málskotsréttinn. Ef það er niðurstaðan hefði þurft að ganga betur frá því og tempra það ákvæði rétt eins og 11. gr. í núgildandi stjórnarskrá þar sem gert er ráð fyrir því að ef Alþingi samþykkir að reka forsetann úr embætti þurfi að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef þjóðin segir nei og er ósammála þinginu þurfi að rjúfa þing. Það þýðir að þingið fer mjög varlega og sparlega með slíka heimild. Sama tel ég að eigi að gilda ef við ætlum að hafa það fyrirkomulag að forsetinn geti eins og hann er skrifaður í stjórnarskrána, á jafnveikum grunni finnst mér, sagt nei við lögum frá Alþingi sem þó eitt fer með löggjafarvaldið að þá þurfi það a.m.k. að hafa afleiðingar, að einhver temprun sé þannig að það sé ekki notað á nokkurra ára fresti. Það höfum við séð hjá okkur eftir að sú túlkun varð ofan á sem er hjá núverandi forseta. Þetta er í raun og veru búið að gerast í þrígang frá árinu 2004. Ég tel að það sé óheppilegt.

Svo að ég komi aftur að fyrirspurn hv. þingmanns þá er ég einna ánægðastur með þessa grein en ég hefði viljað sjá henni fylgt eftir með öðrum hætti en gert er.



[19:14]
Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Ég hjó eftir því í ræðu þingmanns og get að nokkru leyti tekið undir það að hann vill hafa stjórnarskrána einfalda og skýra. Hann virtist hafa áhyggjur af því að sú stjórnarskrá sem hér er sé á einhvern hátt bitlaust varnarskjal fyrir borgarana, ef ég hef náð því rétt. Það er auðvitað nokkuð sem við verðum að skoða því að við viljum öll, held ég, tryggja réttindi borgaranna sem best en draga ekki úr þeim.

En mig langar að spyrja þingmanninn hvernig honum hefur fundist núverandi stjórnarskrá hafa reynst sem varnarskjal fyrir borgarana ef við sleppum eignarréttarákvæðunum og tölum um allt hitt.



[19:15]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég á við með þessu er að mér sýnist í þessari stjórnarskrá mikil áhersla t.d. vera lögð á réttindi stofnana. Ég staldra við ákvæði um það að ef þingið setur á laggirnar stofnun með einföldum meiri hluta sem það ákveður að sé mikilvæg þá þurfi aukinn meiri hluta, tvo þriðju hluta þingmanna, til að leggja hana niður. Vil ég þá benda á að það hefur verið þannig á undanförnum áratugum í það minnsta og sennilega alveg frá upphafi þessara flokka að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa alltaf náð a.m.k. einum þriðja hluta þingmanna. Með þessu væri því fyrirkomulag komið á laggirnar að aldrei yrði hægt að leggja niður mikilvæga stofnun nema Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samþykktu það í þinginu þó að meiri hluti væri fyrir öðru í þinginu. Ég held að þetta sé ekki skynsamlegt.

Hvað varðar núgildandi stjórnarskrá held ég að hún hafi reynst í grundvallaratriðum ágætlega. Stjórnarskrár taka þátt í því að skapa velmegun með því að stuðla að öryggi og trausti í samfélagi og skipta þess vegna máli en einar og sér gera þær það ekki. Það eru mörg dæmi um mjög metnaðarfullar stjórnarskrár víða um heim sem hafa verið skrifaðar en hafa ekki skilað borgurum neinum réttindum eða góðum kjörum. Um það eru fjölmörg dæmi. Það sem skiptir máli er skilningur okkar á stjórnarskránni og virðing fyrir þeim ákvæðum sem þar eru og þeim anda sem þar ríkir.

Ég held að andinn í íslensku stjórnarskránni hafi um margt verið ágætur og sé ágætur. En hún er ekki gallalaus. Ég held t.d. að mannréttindakaflinn sem kom inn í hana hafi verið vel hugsaður um mjög margt og hafi bætt hana og þörf hafi verið á honum. Svo að ég víki enn á ný að óskýrum ákvæðum vegna forsetaembættisins þá eru þau eins konar leifar af danska konungsembættinu í stjórnarskránni og hafa valdið okkur vandræðum. Það vil ég meðal annars leysa en ég er þeirrar skoðunar að núgildandi stjórnarskrá hafi reynst landinu alveg ágætlega.