140. löggjafarþing — 34. fundur.
aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, 1. umræða.
frv. meiri hl. velfn., 355. mál (sértæk skuldaaðlögun). — Þskj. 431.

[19:35]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Það er meiri hluti velferðarnefndar sem flytur þetta mál. Ástæðan fyrir því er sú að velferðarnefnd hafði mikinn áhuga á að fylgja því máli eftir sem hin forna félags- og tryggingamálanefnd hafði átt frumkvæði að, að koma á eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun, svo að ákveðið var að nefndin mundi flytja þetta mál. Málið er ekki flókið, það eru einungis tvær greinar en getur eftir sem áður skipt mjög miklu máli fyrir skuldara og fyrir það hvernig unnið er úr þeim málum

Lögin nr. 107/2009 voru sett fyrir rúmum tveimur árum og á þeim tíma hefur starfað eftirlitsnefnd með framkvæmd laganna eins og áskilið var í 4. gr. þeirra. Aðgerðirnar sem lögin kveða á um hafa tekið lengri tíma en áætlað var, það hefur ekki reynst unnt að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu heimila og fyrirtækja fyrir árslok 2011 eins og áætlað var. Það eru margar samverkandi ástæður að baki, m.a. sá réttarágreiningur sem hefur verið til meðferðar fyrir dómstólum um lögmæti hinna ýmsu lánasamninga sem eru tengdir eða í erlendum gjaldmiðlum, og einnig hefur úrlausn skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja dregist og ekki gefist tími til að fara í það eins og eftirlitsnefndin gjarnan vildi.

Verklagsreglurnar um skuldaaðlögun einstaklinga sem voru endurskoðaðar í árslok 2010 gilda til ársloka 2012 þannig að skuldarar munu eiga þess kost að sækja um það úrræði allt árið 2012. Og þar sem áfram verður unnið í skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja, að minnsta kosti til ársloka 2012, er nauðsynlegt að laga gildistíma I. og II. kafla laganna að gildistíma úrræðanna sem þau eiga við um. Því er lagt til að gildistími þessara kafla verði til 31. desember 2012 og þar með framlengist að auki starfstími eftirlitsnefndarinnar til loka næsta árs.

Sértæk skuldaaðlögun er í raun eina sértæka úrræðið sem skuldurum stendur nú til boða án aðkomu embættis umboðsmanns skuldara sem hefur umsjón með greiðsluaðlögun. Sértæk skuldaaðlögun hefur dálítið fallið í skuggann af öðrum úrræðum sem skuldurum hafa staðið til boða, enda hefur úrræðið lítið sem ekkert verið kynnt, en reynslan sýnir að kynna þarf skuldurum þau úrræði sem standa til boða og með talsvert öflugum kynningarátökum. Það kom til dæmis í ljós varðandi 110%-leiðina að það var ekki fyrr en búið var að fara fram mjög öflugt kynningarátak að umsóknir fóru að berast um það úrræði í verulegum mæli.

Eftirlitsnefndin sem starfar samkvæmt þeim lögum sem hér um ræðir hefur skilað þremur skýrslum til efnahags- og viðskiptaráðherra, nú síðast í september 2011. Eftirlitsnefndin gagnrýnir talsvert að fjármálafyrirtækin haldi ekki saman með skipulegum hætti upplýsingum um mál einstaklinga og heimila sem leita til þeirra vegna fjárhagsvandræða og fá aðra lausn en sértæka skuldaaðlögun eða 110% úrræði. Þetta geri það að verkum að eftirlitsnefndin hafi ekki aðgang að gögnum um slík mál og geti ekki gengið úr skugga um að þeir sem fjármálafyrirtækin meta að dugi vægari úrræði hafi fengið varanleg úrræði sem duga til framtíðar. Eftirlitsnefndin bendir því á að mjög mikilvægt sé að fjármálafyrirtæki taki upp skipulega skráningu mála þar sem niðurstaðan er að vægari úrræði en sértæk skuldaaðlögun séu nægileg og flokka þau eftir úrræðum. Slík skráning sé nauðsynleg til að eftirlitsnefndin geti rækt eftirlitshlutverk sitt en það var einmitt það hlutverk sem félags- og tryggingamálanefnd gerði ráð fyrir að nefndinni væri ætlað. Eftirlitsnefndin telur mjög mikilvægt að fjármálafyrirtækin geri lántökum skriflega grein fyrir því hvaða úrræði henti viðkomandi að undangengnu stöðumati eða greiðsluerfiðleikamati.

Í samræmi við þessar ábendingar eftirlitsnefndarinnar eru í 1. gr. þessa frumvarps lagðar til breytingar á 2. gr. laganna. Það er lagt er til að umsókn um skuldaaðlögun eigi að vera aðgengileg á vefsíðum þeirra fjármálafyrirtækja sem geta tekið að sér að vera umsjónaraðili með skuldaaðlögun í samræmi við samkomulagið. Að auki skulu þar vera upplýsingar um þau gögn sem þurfa að fylgja umsókninni svo og umboð sem skuldari getur skilað undirrituðu til umsjónaraðila til að hann megi afla þeirra gagna sem þurfa að fylgja umsókn. Svo að tilgangi laganna verði náð er nauðsynlegt að skýrt sé kveðið á um rétt skuldara til sækja um úrræðið, en á það hefur skort.

Þá er lagt til að skuldari eigi rétt á að fá skriflega og rökstudda niðurstöðu um það hvort hann uppfylli þau skilyrði sem sett eru ásamt og á grundvelli ítarlegs greiðslumats innan þriggja vikna frá því að hann skilar inn öllum þeim gögnum sem þarf. Verði það niðurstaða umsjónaraðila að skuldari uppfylli ekki skilyrði skuldaaðlögunar heldur dugi vægari úrræði er lagt til að það skuli koma fram í hinni skriflegu og rökstuddu niðurstöðu hvaða úrræði það eru sem boðið er upp á og hvernig þau teljast fullnægjandi til framtíðar til að leysa greiðsluvanda skuldara. Verði það niðurstaðan að skuldara dugi hvorki vægari úrræði né sértæk skuldaaðlögun er lagt til að skuldara verði leiðbeint um að leita til umboðsmanns skuldara.

Við vinnslu frumvarpsins fékk meiri hluti velferðarnefndar aðstoð eftirlitsnefndar um framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar. Drög að frumvarpinu voru jafnframt send Samtökum fjármálafyrirtækja til umsagnar. Samtökin ásamt fulltrúum fjármálafyrirtækja komu á fund nefndarinnar og komu á framfæri athugasemdum sínum við frumvarpið og lögðu til breytingar og hefur meiri hlutinn gert nokkrar breytingar á 1. gr. frumvarpsins til samræmis við þær tillögur. Nefndinni hefur jafnframt verið tjáð að samtökin vinni nú að því að gera viðbótarsamkomulag með þeim fjármálafyrirtækjum sem geta tekið að sér að vera umsjónaraðilar með skuldaaðlögunarferlinu. Þessu samkomulagi er í raun efnislega ætlað að vera í samræmi við ákvæði 1. gr. frumvarpsins.

Af athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 107/2009 og nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um það frumvarp er ljóst að I. kafla laganna var ætlað að mynda lagaramma um sértækar aðgerðir fyrir einstaklinga og fyrirtæki en fjármálafyrirtækjum var síðan ætlað að ná samkomulagi um þær verklagsreglur sem á þyrfti að halda. Ákjósanlegt væri að slíkt samkomulag næðist um þau atriði sem eftirlitsnefnd með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar hefur talið ábótavant við framkvæmdina og þó að sú vinna sé hafin liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti að samkomulag náist. Meiri hluti nefndarinnar telur því mikilvægt að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar á 2. gr. laganna sem um ræðir. En velferðarnefnd vill gjarnan fá frumvarpið til umfjöllunar eftir 1. umr. þess og getur þá kynnt sér nánar hvernig þessari vinnu við samkomulagið er háttað og lagt til nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu ef með þarf, þannig að ekki sé verið að setja inn í lög hluti sem geta verið í samkomulagi ef þess er ekki þörf. Við fáum að vita það á morgun hvernig staðan er í þessum samkomulagsmálum og þá getum við tekið endanlega afstöðu.

Kostnaður af störfum eftirlitsnefndarinnar fyrstu 10 mánuði ársins 2011 var tæpar 26 millj. kr. þannig að áætlaður kostnaður fyrir árið 2012 er tæpar 50 millj. kr. Ef frumvarpið verður samþykkt framlengist ekki einungis starfstími eftirlitsnefndarinnar heldur jafnframt úrskurðarnefndar um skuldaaðlögun. Kostnaður af störfum hennar á yfirstandandi ári var áætlaður 20 millj. kr. og má ætla sömu fjárhæð vegna starfa hennar á næsta ári. Heildarkostnaður vegna samþykktar frumvarpsins er því áætlaður um 70 millj. kr. Það er þó ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð enda kveðið á um það í 7. gr. laganna að lánastofnanir endurgreiði þann kostnað sem til fellur við rekstur nefndanna.

Ég hef hér farið yfir þetta mál og eins og ég hef nú þegar sagt legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað aftur til hv. velferðarnefndar sem mun skoða þau atriði sem ég hef hér nefnt um samkomulag fjármálafyrirtækja og athuga hvort fella megi 1. gr. út þar sem tekið verði á þeim málum sem þar eru nefnd í viðauka við samkomulag sem í gildi er. Ef af því verður, sem við vonum því að auðvitað er það best ef hægt er að ná samkomulagi um málið, verður frumvarpið í raun bara þess eðlis að við framlengjum tíma eftirlitsnefndarinnar til ársloka 2012.

Þá hef ég hér lokið máli mínu og legg til að málinu verði vísað til velferðarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.