140. löggjafarþing — 105. fundur.
innheimtulög, 1. umræða.
frv. efh.- og viðskn., 779. mál (vörslusviptingar innheimtuaðila). — Þskj. 1292.

[18:03]
Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það kemur í minn hlut að mæla fyrir frumvarpi sem góð þverpólitísk samstaða hefur tekist um í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að flytja á vorþinginu og lýtur að innheimtuaðgerðum í tengslum við vörslusviptingar.

Framganga við vörslusviptingar hefur í mörgum tilfellum, einkanlega eftir hrun, verið ólíðandi og í engu samræmi við gildandi rétt. Þar hafa aðilar tekið sér framkvæmdarvald eins og var á söguöld forðum og farið fram hjá eðlilegum aðfarar- og innheimtuleiðum með tilstyrk opinberra aðila og sótt lausamuni og eignir til fólks í andstöðu við gildandi rétt og jafnvel án vitundar þeirra sem lausamunina höfðu. Jafnvel vörslusviptu þeir meira en lausamunina sjálfa um leið, t.d. ýmsa persónulega muni við vörslusviptingar á bifreiðum.

Þetta hefur verið gert í skjóli þess að í ýmsum leigusamningum hafa verið stöðluð ákvæði lánardrottins við lántakann um það að heimilt væri að haldleggja hið leigða ef til vanskila kæmi. Þetta hafa ekki verið skilmálar sem samið hefur verið sérstaklega um heldur hafa þetta verið stöðluð einhliða ákvæði lánardrottna í garð lánveitenda og er ekki í samræmi við innheimtulög eða lög um aðfarir á Íslandi.

Þetta frumvarp er flutt í samvinnu við innanríkisráðuneyti og réttarfarsnefnd og lýtur að því að tekin verði af öll tvímæli um það að í gildissviði innheimtulaganna, 1. gr. sem afmarkar það, sé sérstaklega tekið fram að vörslusviptingar falli þar undir. Síðan bætist við innheimtulögin ný 6. gr. a þar sem gert er alveg skýrt að hvort sem er við fruminnheimtu eða milliinnheimtu þurfi samkomulag milli þess sem hefur fengið hlutinn lánaðan eða leigðan að liggja fyrir til að lánardrottinn geti tekið hlutinn ellegar geti lánardrottinn leitað til dómstóla og byggt þá á þeirri grein sem jafnan er byggt á í slíkum málum, 78. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, sem gerir ráð fyrir því að lánardrottnar geti leitað til héraðsdóms og fengið þá úrskurð um að þeir megi sækja viðkomandi hlut þegar þeir hafa fært sönnur á að þeir eigi réttmæta og lögmæta kröfu til hans.

Það hefur auðvitað gert vörslusviptingarnar hálfu verri nú undanfarið en fram að hruni að hér hafa því miður farið fram vörslusviptingar ítrekað á grundvelli ólögmætra krafna, bæði vegna þess að lánin hafi verið með ólögmætum hætti gengistryggð og eins hafa raunverulegir lánssamningar verið kallaðir leigusamningar. Það sem hefur gert þessa framgöngu í mörgum tilfellum enn verri en ella er ekki bara að farið hefur verið fram hjá dómstólum með vörslusviptingarnar heldur hafa lausamunir þannig verið teknir af fólki í andstöðu við gildandi rétt, ásamt með þeim lausamunum eins og bifreiðum hafa kannski verið teknir persónulegir munir, fatnaður og ýmsir munir sem hafa verið í bifreiðinni og lánardrottinn átti ekkert tilkall til. Ekki hefur þetta bara verið gert án vitundar þess sem hafði hlutinn að láni heldur jafnvel á grundvelli ólögmætra samninga um ólögmæta gengistryggingu eða leigusamninga sem nú hafa verið af dómstólum úrskurðaðir engir leigusamningar heldur hreinir og beinir lánssamningar.

Ég þakka fyrir þá góðu samvinnu sem hefur tekist um þetta mál. Mér finnst það vera gott dæmi um þarfamál sem þingmenn úr öllum flokkum geta sameinast um til að skýra og skerpa í gildandi löggjöf rétt neytenda gagnvart lánardrottnum sem eru alla jafna í miklu sterkari stöðu en hver einstakur neytandi. Þetta er mikilvægt og þingið hefði fyrr mátt grípa til varna fyrir neytendur í þessu en fagnaðarefni að það skuli gert.



[18:08]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og þakka honum fyrir ágæta ræðu. Ég tek undir það að markmiðið með þessu frumvarpi er gott. Það er afrakstur vinnu sem hefur verið í gangi nokkuð lengi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem ég mun fara betur yfir á eftir. Það má samt sem áður segja að niðurstaðan hafi verið helst til rýr miðað við þau markmið sem við settum okkur, en ég fer nánar í það á eftir.

Ég vildi hins vegar vekja athygli á því og ég held að við séum sammála um það að í öllum málum og þá sérstaklega þessu þurfi að vanda vel til verka. Það er mjög auðvelt að misstíga sig og góður ásetningur getur orðið að slæmri niðurstöðu. Nú er ég ekki að segja, alls ekki, virðulegi forseti, að það eigi við í þessu tilfelli. Við erum hins vegar á gráu svæði að því leytinu til að ég ætla að innheimtulög heyri undir aðra nefnd þingsins, þ.e. allsherjar- og menntamálanefnd. Í öðrum málum höfum við flutt slík mál en vísað þeim síðan til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það væri meiningin að gera það sama hér og vísa þessu máli til allsherjar- og menntamálanefndar sem er vanari því að eiga við málefni eins og þetta.



[18:10]
Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ábendingu og vil árétta það sem fórst fyrir í framsögu minni að ég legg til að málið gangi til umfjöllunar hv. efnahags- og viðskiptanefndar á milli umræðna.

Það er sannarlega rétt að allsherjar- og menntamálanefnd er vön að fara með aðfararlög og lög um nauðungarsölu og ýmis önnur slík lög. Það háttar hins vegar þannig til að innheimtulögin heyra undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti og falla þar með undir verksvið efnahags- og viðskiptanefndar sem og margvísleg neytendamál á fjármálamarkaði. Þar sem málið snýr að breytingu á innheimtulögum þá varð á endanum samstarf efnahags- og viðskiptanefndar við innanríkisráðuneyti og réttarfarsnefnd vegna þess að málið var talið eiga heima þar.



[18:11]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að gera mikinn ágreining um þetta. Ég tel hins vegar og við höfum upplifað það að þegar við vöndum okkur ekki þá verða slys. Það sem kemur fyrst í hugann eru lög nr. 151/2010 þegar Alþingi brást við fyrsta hæstaréttardómi um gengislán og þá urðu handarbakavinnubrögð þess valdandi að erfitt mál var gert enn erfiðara og við erum í flækju sem við sjáum ekki fyrir endann á og þeir sem hafa orðið fyrir þeirri flækju og því ónæði eru þeir sem síst skyldi, þ.e. skuldarar gengislána.

Í það minnsta, virðulegi forseti, ef þetta er niðurstaðan hjá hv. þingmanni mundi ég leggja það til að við fengjum álit frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd þannig að við hefðum varann á. Þó svo að við höfum fjallað svolítið mikið um þennan þátt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að undanförnu þá erum við ekki vön að fjalla um mál á þessu sviði, næg eru sviðin samt því að breitt og vítt er verksvið nefndarinnar og ætla ég ekki að rekja það hér. Ég fer þess á leit við hv. þingmann að við sammælumst um það að vísa þessu til umsagnar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd.



[18:13]
Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru þarfar og góðar ábendingar hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og sjálfsagt mál að vísa frumvarpinu til umsagnar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd og mikilvægt að vanda vel til verka og einmitt þess vegna hefur verið lögð áhersla á mikið og gott samstarf við réttarfarsnefnd sem skipuð er öllum okkar helstu sérfræðingum í lögum og rétti og hafa aðstoðað við að skerpa á gildandi rétti. Ég tel að það sé sjónarmið okkar í þinginu að þetta sé gildandi réttur og þær vörslusviptingar sem farið hafa fram með öðrum hætti hafi í raun og veru verið í andstöðu við gildandi rétt en hér séu tekin af öll tvímæli.



[18:14]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sammælumst öll um að flytja þetta frumvarp og er það gert til að bæta neytendarétt sem er að mörgu leyti vanbúinn á Íslandi. Við höfum ekki borið gæfu til þess, þrátt fyrir að ég trúi því að breið pólitísk samstaða sé um það, að bæta það umhverfi sem neytendur búa við á fjármálamarkaði og hefur dýrmætur tími tapast þar.

Þetta mál á sér forsögu, þetta er eitt af þeim málum sem við höfum verið að vinna í og skoða í tengslum við málefni skuldara almennt en kannski sérstaklega á þá aðila sem voru með gengislánin. Ég vildi því vekja athygli á því að frumvarp okkar sjálfstæðismanna hefði betur verið samþykkt, en það frumvarp flutti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fyrst fyrir tveimur árum og síðan ég þegar hv. þingmaður fór af þingi. Við værum í betri stöðu núna ef það hefði verið gert, ef við hefðum samþykkt flýtimeðferð á dómsmálum sem snúa að gengislánadómum.

Ég vildi láta það heyrast úr þessum ræðustól að ég er afskaplega ósáttur við það hver staða málsins er í kjölfar síðasta gengislánadóms. Það fer tvennum sögum af því hvenær menn fá endanlega niðurstöðu í þau mál. Bjartsýnustu aðilar hafa talið að við munum fá niðurstöðu í Hæstarétti fyrir lok þessa árs og ég vona að það gangi eftir. En að fenginni reynslu ber að taka slíku með fyrirvara og þessir hlutir hafa dregist mjög lengi og eðli máls samkvæmt er erfitt fyrir þá sem þurfa úrlausn mála að þurfa að bíða. Sú óvissa sem er uppi er slæm fyrir alla. Hún er slæm fyrir lántakendur en ekki síður lánveitanda og hefur gert það að verkum að við vitum í raun ekki endanlega stöðu á fjármálamarkaðnum og ekki endanlega stöðu bankanna. Það er nokkuð sem gagnast engum.

Ég tel að við þurfum á þinginu, og þá sérstaklega við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að fylgjast vel með þessu máli, vakta það vel. Ég vona að rétt skref hafi verið stigin með því að fara í þetta samráðsferli sem samkeppnisyfirvöld hafa veitt leyfi fyrir, þ.e. að fjármálafyrirtækin og umboðsmaður skuldara vinni saman að því að forgangsraða málum og öðru slíku. En það er hins vegar augljóst að ekki hefur verið unnið eftir því sem sagt var eftir að gengislánadómurinn féll. Þá lýstu forustumenn bankanna því yfir að þeir teldu að strax í kjölfar dómsins þyrfti að bregðast við með einhverjum aðgerðum, nýjum útreikningum og öðru slíku. Það hefur ekki orðið. Niðurstaðan er sú að menn telja að bíða verði eftir endanlegri niðurstöðu frá Hæstarétti og sú bið getur reynst dýrkeypt fyrir einstaka aðila.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta frumvarp muni hins vegar hjálpa til við að efla neytendavernd hér á landi. Ég er afskaplega ánægður með að við höfum leitað til réttarfarsnefndar sem er nefnd sem ég hef mikla trú á og hefur reynst okkur vel í störfum okkar í þinginu. En þrátt fyrir að sú nefnd sé afskaplega góð og hafi reynst vel þá tel ég skynsamlegt að láta fleiri koma að þessu. Það er betra að hafa varann á í málum sem þessum og þess vegna lagði ég til, sem hv. þm. Helgi Hjörvar samþykkti, að þetta mál færi til umsagnar allsherjar- og menntamálanefndar og ætti það að tryggja jafnvandaða og góða umfjöllun innan þingsins og mögulegt er að því gefnu, og ég gef mér þá forsendu, að við sendum þetta mál til umsagnar og fáum gesti. Þannig á að vinna hlutina en það hefur ekki verið sjálfgefið í tíð þessa stjórnarmeirihluta. Mjög mikið hefur vantað upp á að hlutirnir hafi verið unnir faglega og er það stórfurðulegt miðað við allar þær stóru yfirlýsingar sem hafa verið í gangi, sérstaklega á síðustu missirum, um að betur þurfi að vanda vinnubrögð þingsins.

Virðulegi forseti. Í örstuttu máli vil ég vona að þetta mál sé til bóta fyrir neytendur þessa lands og muni koma í veg fyrir að þeir verði órétti beittir. Þess vegna er ég einn af þeim sem flytja þetta mál. Við sjálfstæðismenn erum fylgjandi þessu frumvarpi og vonumst til að það muni verða að lögum í vor.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.