140. löggjafarþing — 106. fundur.
samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, frh. síðari umræðu.
stjtill., 373. mál (reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland, IPA). — Þskj. 449, nál. 1243 og 1344.

[19:30]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við höfum að ég hygg tvívegis áður rætt hér frumvarp um breytingu á skattalögum og fleiri lögum með það að markmiði að tryggja skattleysi styrkja sem koma á grundvelli hinna svokölluðu IPA-samninga og eigum nokkuð eftir af þeirri umræðu eins og hv. þingmönnum er kunnugt um. Í þeirri umræðu hefur athyglin einkum beinst að hinum skattalega þætti málsins en auðvitað hefur þar blandast inn grundvallarumræða um IPA-styrkina og ESB-aðild.

Nú tökum við hins vegar fyrir þingsályktunartillögu sem fjallar um IPA-styrkina eða IPA-samninga, getum við kallað þá. Þingsályktunartillagan er grunnur þessa máls, hún er það þingmál sem snýst um grundvallaratriðin varðandi það hvort við eigum að taka við þessum styrkjum eða ekki og hvaða búning við eigum að hafa á þeim. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta grundvallaratriði og þá ekki út frá einni afmarkaðri hlið sem lýtur fyrst og fremst, að mér liggur við að segja, tæknilegri útfærslu eins og skattalagafrumvarpið gerir. Nóg um það.

Til þess að takast á við þetta mál þurfum við að velta fyrir okkur ákveðnum grundvallaratriðum. Alþingi samþykkti sumarið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það að sækja um aðild felur í meginatriðum í sér aðlögun að Evrópusambandinu. Það er viðurkennt, það er Evrópusambandið sem setur rammann og þau ríki sem sækja um aðild eru að sækja um aðild að fullmótuðu bandalagi eða ríkjasambandi. Þarna eru ekki tveir jafnsettir aðilar að semja á jafnréttisgrundvelli. Evrópusambandið er ekki að sækja um aðild að Íslandi heldur öfugt, Ísland er að sækja um aðild að Evrópusambandinu eins og það er. Það virðist vera eða sagt er að í boði séu fyrst og fremst tímabundnar undanþágur frá einhverjum tilteknum ákvæðum sem á eftir að koma í ljós hver eru.

IPA-styrkirnir eru samkvæmt kerfi Evrópusambandsins tengdir aðildarumsókn. IPA-styrkirnir eru ekki veittir hingað og þangað eftir hentugleikum, þeir tengjast aðildarumsókn og hafa ákveðinn tilgang í sambandi við aðildarferli. Það að sækja um IPA-styrki felur þess vegna í sér vilja og viðurkenningu á aðildarferlinu. Þess vegna, hæstv. forseti, er afskaplega einfalt fyrir okkur sem erum og höfum frá upphafi verið andvíg aðildarumsókninni og aðlögunarferlinu að leggjast gegn því að þessi samningur, rammasamningur um IPA-styrki, verði staðfestur — það er mjög auðvelt. Það er auðvelt út frá því grundvallaratriði að við viljum ekki vera í þessu aðildarferli og við viljum ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Á sama hátt er málið líka tiltölulega auðvelt fyrir þá sem frá upphafi hafa viljað að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og vilja að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Fyrir þá tengjast þessu máli engar sérstakar spurningar, pólitískar eða siðferðislegar. Þeir vilja Ísland inn í Evrópusambandið, vilja að við séum í aðildarferli og sjá þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að við tökum við styrkjum sem tengjast því að við erum í aðildarferli. Það er tiltölulega einfalt mál fyrir þessa þingmenn.

Málið vandast hins vegar þegar um er að ræða þingmenn sem studdu aðildarumsókn, trúlega meiri hlutinn í einum þingflokki á þingi, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og vildu sækja um aðild en vilja ekki gerast aðilar að Evrópusambandinu samkvæmt sinni yfirlýstu stefnu. Fyrir þann flokk hlýtur að vera afar flókið að standa að gerð samnings um IPA-styrki enda hefur saga þessa IPA-styrkjamáls verið töluverð vandræðasaga fyrir þingmenn og ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og kunnugt er og þarf ekki að fara mörgum orðum um.

Við minnumst þess hvernig þetta mál breytti um takt hér á þinginu 2010/2011 þegar upphaflega var gert ráð fyrir að einstök ráðuneyti sæktu um styrki. Svo breyttist það og með sérstakri samþykkt í ríkisstjórn var ákveðið að stofnanir ættu að sækja um til ráðherranefndar um Evrópumál, það var eitthvað auðveldara fyrir einhverja hæstv. ráðherra úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem þurftu þá ekki að koma beint að málinu sjálfir heldur gátu látið afgreiða það fram hjá sér. Síðan þekkja menn þá umræðu sem hefur farið fram á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á flokksráðsfundum og víðar um þessa styrki. Allt hefur þetta verið hið mesta vandræðamál.

Ég velti því fyrir mér — mér fannst ég ekki fá skýr svör um það frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni áðan en virði það að hann hafi ekki svarað því skýrar — hvort ástæðan fyrir því hvernig þetta mál ber að á þingi eigi rætur sínar að rekja til þessa vandræðagangs innan ríkisstjórnarinnar og þá fyrst og fremst innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Það er alveg ljóst að rammasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins um IPA-styrkina var undirritaður um mitt síðasta sumar. Síðan heyrist ekkert af þessu máli opinberlega í langan tíma, mánuðum saman, og þingmálið sem við erum nú að ræða kemur ekki inn í þingið fyrr en eftir áramót þegar breytingar hafa orðið í ríkisstjórninni. Þá birtist þetta mál, er tekið til umræðu í lok janúar og er síðan í einhverjum vandræðagangi, leyfi ég mér segja, í hv. utanríkismálanefnd fram eftir vori. Það var tekið út á dögunum, 30. apríl, við þær aðstæður að eiginlega enginn, sennilega bara tveir af fastamönnum í utanríkismálanefnd skrifuðu undir nefndarálit þar að lútandi en tveir voru sóttir yfir í næstu nefnd til að það yrði aðeins fjölmennara á minnihlutaálitinu því að ekki náðist meirihlutaálit til að taka málið út.

Allt er þetta mjög sérkennilegt og hið mesta vandræðamál, eins og fram hefur komið. Málið allt ber það með sér að hafa hálfpartinn verið í felum, hálfpartinn talað um það í hálfum hljóðum vegna þess að annar flokkurinn sem á aðild að ríkisstjórninni hefur verið í óskaplegum vandræðum með það frá upphafi. Hvers vegna skyldu vandræðin vera? Jú, vandræðin eru vegna eðlis IPA-styrkjanna og vegna þess tvískinnungs sem er uppi af hálfu meiri hluta þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnvart aðildarumsóknarferlinu. Þorri þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs studdi tillögu um aðildarumsókn að bandalagi sem þeir kærðu sig ekkert um að ganga í og flokksmenn þeirra kæra sig ekki um að ganga í og kjósendur þeirra í síðustu kosningum kusu þá í trausti þess að þeir mundu ekki sækja um aðild heldur berjast gegn aðild. Þessi vandræðagangur skýrir hvernig málsmeðferðin hefur verið, hversu klaufalegt þetta hefur allt verið.

Þetta þingmál kemur inn í þingið tæpu hálfu ári eftir að samningurinn sem það snýst um er undirritaður og raunar líka eftir að byrjað er að útdeila peningum á fjárlögum á þeim grundvelli að þessir styrkir verði veittir. Við erum að fjalla um þessa samninga í þinginu fimm mánuðum eftir að samþykkt voru fjárlög þar sem gert er ráð fyrir ráðstöfun peninga sem ekki fást greiddir nema þetta þingmál verði samþykkt. Þetta ber það með sér að verið er að stilla málum upp með þeim hætti að þingmenn telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að samþykkja þetta. Það er búið að lofa fjárveitingum á grundvelli þessara samninga, það er búið að skapa væntingar hjá fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum um að hægt verði að verja þessum peningum. Það er verið að stilla mönnum upp við vegg.

Auðvitað munum við þingmenn sem erum andvígir þessu máli ekki láta þetta á okkur fá. Við getum ekki tekið afstöðu á slíkum grundvelli. Við látum ekki stilla okkur upp við vegg og segja: Við verðum að samþykkja þetta af því að ágætisfólk hér og þar á landinu, hjá sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum, gerir sér væntingar um að fá einhverja styrki á þessum grundvelli. Við getum ekki tekið afstöðu á slíkum grundvelli, við getum ekki látið koma þannig fram við okkur, við þingmenn sem höfum efasemdir um þetta mál. Það er ótækt og endurspeglar hvað málsmeðferðin í þessu máli og þeim málum sem því tengjast hefur verið einkennileg og hversu óeðlilega er að þessu staðið.

Ég ætla, hæstv. forseti, að víkja örlítið að tilgangi og eðli IPA-styrkjanna. Í umræðunni má stundum skilja að hið góða alltumlykjandi Evrópusamband sé eingöngu að styðja jákvæð verkefni á Íslandi til að efla atvinnu, efla nýsköpun og þróun á Íslandi og það sé allt til komið af tómri góðvild. Auðvitað er það ekki svo. Auðvitað eru Evrópusambandsríkin ekki að fjármagna verkefni hér nema í einhverjum tilgangi. Það er ekkert að því, frá þeirra bæjardyrum séð er það ekkert óeðlilegt. Þeir segja sem svo: Umsóknarríki vilja verða aðilar að Evrópusambandinu — þeir reikna sem sagt með því að þeir sem sækja um aðild vilji verða aðilar. Ég hugsa að það sé algengast að þeir sem sækja um aðild vilji gerast aðilar. Þá segja þeir hjá Evrópusambandinu: Aðild krefst ákveðinnar aðlögunar, undirbúnings og uppbyggingar og við erum tilbúnir að láta peninga í aðlögun, uppbyggingu og þess háttar. Auðvitað er það þannig og auðvitað eru þessir styrkir hugsaðir þannig.

Menn á vettvangi Evrópusambandsins gera sér grein fyrir því að með því að veita styrki af þessu tagi eru þeir að tengja samfélagið í umsóknarlöndunum enn frekar við Evrópusambandið, væntanlega á jákvæðum nótum. Þeir sem hafa lifibrauð sitt af verkefnum sem tengjast Evrópusambandinu eru óhjákvæmilega jákvæðari í garð þess en ella. Ég vil ekki nota orðalag eins og glerperlur og eldvatn, eins og einhver gerði hér í umræðum, hæstv. forseti, en við skulum ekki vera neitt bláeyg eða barnaleg í þessu sambandi. Evrópusambandið er öðrum þræði að byggja upp jákvæða ímynd með þessum styrkveitingum í þeim löndum sem sækja um aðild, það er augljóst mál. Það er rétt að við höfum það í huga. Það veldur því að við sem erum andvíg Evrópusambandsaðild hljótum að taka þessu máli með miklum fyrirvara og standa gegn því á sama hátt og þeir sem í einlægni og með fullri vitund vilja stefna okkur inn í Evrópusambandið hljóta að styðja það. Þeir sem eru hins vegar á línunni eða á girðingunni og studdu aðildarumsókn í atkvæðagreiðslu í þinginu en segjast jafnframt ætla að berjast gegn aðildarsamningi hljóta að vera í skrýtinni stöðu, eins og hefur endurspeglast í allri meðferð þessa máls.

Aðeins nánar um þessa IPA-styrki má segja að sumir þeirra sem sótt hefur verið um fyrir Íslands hönd fara til verkefna sem okkur finnast frekar fjarlæg kjarna Evrópusamstarfsins. Látum það vera, það er kannski fyrir aðra að meta það en mig. En varðandi markmið þessara styrkja er ágætt að hafa í huga að það hefur m.a. verið skilgreint nýlega í ákveðnu blaði sem Evrópusambandssinnar gáfu út og dreifa á sveitabæi og kannski víðar. Þar er sagt í ritstjórnartexta um IPA-styrkina, með leyfi forseta:

„Tvö meginmarkmið hafa verið skilgreind varðandi þennan stuðning við Ísland“ — og vísað er síðan í Evrópuvef Háskóla Íslands. „Annars vegar er styrking íslenskrar stjórnsýslu svo að hún geti tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB-löggjafarinnar hefði í för með sér, ef Ísland gengi í ESB.“

Það er einhver aðlögunarblær á þessu. Ég veit ekki hvort hægt er að segja að þetta sé eitthvað annað en aðlögun, ég veit það ekki.

Svo segir:

„Hins vegar er undirbúningur vegna hugsanlegrar þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum ESB sem Íslandi stæði til boða ef það gengi í sambandið.“

Svo er nánar skýrt, með leyfi forseta:

„Um þriðjungur af þessu fé er sérstaklega ætlaður til að kenna Íslendingum að nota byggða-, félagsmála- og dreifbýlissjóðina.“

Það á að kenna Íslendingum að nota byggða-, félagsmála- og dreifbýlissjóði Evrópusambandsins. Það er göfugt markmið að kenna mönnum að sækja um styrki.

Síðar í sömu grein í þessu ágæta blaði Evrópusinna, Sveitinni, er haft eftir Önnu Margréti Guðjónsdóttur, sem sögð er — og ég ætla ekki að efst um það — einn fremsti sérfræðingur Íslendinga um IPA-styrki. Hún segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld ákváðu, í samráði við stækkunardeild ESB, að 30–50% af 28 milljónum evra ættu að fara í að læra að nota byggðasjóði Evrópusambandsins. Hugmyndin er að í sveitarfélögum um land allt æfi fólk sig í að búa til verkefni og umsóknir …“

Síðar segir sú ágæta kona:

„Við erum að fara í alvöruæfingu, prófa að búa til alls konar atvinnu- og mannauðsumsóknir sem eru unnar með öðrum hætti en við eigum að venjast á Íslandi.“

Svo segir síðar:

„IPA-styrkirnir eru mikilvægur liður í að kenna fólki að nýta sér hinu nýju tæki eða tól sem verða hluti af umhverfinu við ESB-aðild.“

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta segja ansi mikla sögu um það að Evrópusambandið er að nota þessa styrki og þá um leið eru kannski stuðningsmenn Evrópusambandsins hér á landi að nota þessa styrki til þess að laga ekki bara stofnanir og fyrirtæki að Evrópusambandinu heldur kenna fólki líka að nota styrkjakerfið og mér leyfist að segja að láta fólk ánetjast þessu kerfi Evrópusambandsins. Mér finnst það augljóst. Ég verð að segja að mér finnst það ógeðfellt. Mér finnst óeðlilegt að íslensk stjórnvöld sæki um þessa styrki. Ég á ekki í vandræðum með þá afstöðu í ljósi þess að ég taldi aldrei að við ættum að sækja um og tel að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið.

Ég endurtek það sem ég sagði að ég skil ákafa Evrópusambandssinna í því að styðja þetta mál. Fyrir þeim hlýtur að vera hið besta mál að taka við svona styrkjum, ná í einhvern aukapening í sambandi við Evrópusambandsumsóknina. Fyrir aðra er heldur ógeðfelldur blær á þessu öllu og ekki síst, hæstv. forseti, er skrýtin staða þeirra þingmanna sem í öðru orðinu segjast ætla að berjast gegn aðild að Evrópusambandinu en styrkja þessa ánetjun að Evrópusambandinu í hinu.



[19:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að segja að mér finnst alveg dæmalaus ósmekklegheit af Evrópusambandssinnum að kalla þetta blað sitt Sveitina. Eins og sveitin er falleg og góð hringinn í kringum Ísland finnst mér þetta illa gert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í upplýsingar sem koma fram í bæklingi sem Evrópusambandið gefur út og heitir „Understanding Enlargement“, þ.e. „að skilja stækkunarferli“, eitthvað slíkt, á íslensku. Þar er listað upp til hvers þessir IPA-styrkir eru. Þar kemur fram að það er ekki nóg að það þurfi að hjálpa ríkjum til þess að aðlagast því kerfi og þeim reglum og lögum sem Evrópusambandið vinnur eftir eða knýr það áfram, heldur þurfi líka að tryggja að það sé gert með réttum hætti, þ.e. að innleiðingin sé eftir forskrift Evrópusambandsins. Má ætla að þegar slíkt er sett fram þurfi að setja fjármuni í og hjálpa ríkjum að innleiða reglur í undirbúningi fyrir þátttöku í þessu bandalagi, að þá sé hreinlega um einhvers konar aðlögun að ræða? Til hvers þarf að undirbúa og þjálfa og tryggja að hlutirnir séu rétt fram settir þegar á endastöð er komið ef ekki er verið að taka lítil skref (Forseti hringir.) inn í einu?



[19:52]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna á þetta rit sem hann vísaði til. Ég var með það í huga í ræðu áðan en mundi ekki heitið á því. Slíkir textar eiga auðvitað að vera skyldulesning fyrir þingmenn vegna þess að þeir afhjúpa hið rétta eðli aðildarviðræðna og aðlögunarferlis í þessu sambandi eins og við erum í.

Það hefur reyndar verið alveg óhemjumikil feimni og hræðsla hjá stjórnvöldum og meiri hlutanum á þingi að gangast við því að umsóknarferlið fæli í sér aðlögun og hefði þann tilgang að laga okkur að Evrópusambandinu. Það hefur líka verið ákveðin blekking fólgin í því að reyna að stilla málum upp þannig að Ísland og Evrópusambandið séu með einhverjum hætti jafnsettir aðilar sem setjast við samningaborð og ákveða hvernig Evrópusambandið eigi að vera eftir að Ísland gengur inn. Það er auðvitað ekki svo. Ísland er að ganga í Evrópusambandið eins og það er og verður auðvitað að aðlaga sig því eins og raunar ýmsir talsmenn Evrópusambandsins sjálfs hafa bent á þegar um er spurt. Það að sækja um aðild að Evrópusambandinu felur í sér að menn gangast undir regluverk Evrópusambandsins en ekki þannig að Ísland geti samið á jafnréttisgrundvelli um það hvert það regluverk eigi að vera. Það er auðvitað ekki svo.

Þriðja atriðið sem menn hafa verið alveg óskaplega feimnir við að nefna er að þessar styrkveitingar eru óhjákvæmilega tengdar við Evrópusambandsumsóknina og hafa auðvitað, eins og hv. þingmaður vísaði hér til, þann tilgang að efla aðlögun (Forseti hringir.) að sambandinu.



[19:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet þingmenn til að kynna sér efnið í áðurnefndum bæklingi en á bls. 9 segir í lauslegri þýðingu:

Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að samningaviðræður geta verið misvísandi eða villandi orðalag yfir það ferli sem er í gangi sem lýtur að aðstæðum, tímasetningum og því hvernig ríkinu sem samningaviðræðurnar eiga við gengur að innleiða þær reglur sem Evrópusambandið ætlast til.

Frú forseti. Það er ekki hægt að túlka þetta á neinn annan hátt en að hér sé um aðlögun að Evrópusambandinu að ræða þegar Evrópusambandið sjálft varar við því að menn noti orðið samningaviðræður því að það eigi ekki við.



[19:56]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú rifjast upp fyrir mér aðeins meira um þennan ágæta bækling. Ég hygg að þarna sé vitnað til orða Ollis Rehns sem Íslendingum er að góðu kunnur, bæði frá núverandi störfum og eins fyrri störfum á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann er lykilmaður í þessu og fer ekki með neitt fleipur um það hvað felst í samningaviðræðum, eins og hv. þingmaður rakti áðan. Það er auðvitað ástæða til að taka mark á því sem hann segir um þetta efni frekar en orðum ýmissa hv. þingmanna og ráðherra hér heima fyrir sem vilja klæða Evrópusambandsumsóknina og aðildarferlið í allt annan búning en það raunverulega er í.

Hv. þingmaður getur beint orðum síðan að einhverjum sem ekki eru með skýra afstöðu í þessu með sama hætti og ég og vænti ég þess að hann beini því til þeirra sem eiga það (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Ef þeir gefa færi á því.) ef þeir sýna sig hér í ræðustól á eftir.



[19:57]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það rifjaðist dálítið upp fyrir mér þegar hv. þm. Birgir Ármannsson fór með ræðu sína og vísaði í þennan bækling sem sendur var á hvert heimili, a.m.k. til sveita, ég veit ekki hvort það var gert víðar, þar sem fólki er kennt hvernig eigi að sækja um styrki og, eins og hv. þingmaður nefndi það, hugsanlega reynt að fá það til að ánetjast þessu kerfi. Danir hafa lengi verið í Evrópusambandinu og eru nákvæmir á allar skráningar og í landbúnaðinum þar eru nákvæmar skráningar um hvað þeir eyða miklum tíma í hvert verkefni. Þar hafa menn sagt að alveg frá stofnun Evrópusambandsins og allt fram á þennan dag hafi á hverju ári bæst við einhverjar mínútur á dag sem menn þurfa að eyða í að skrifa skýrslur og fara á námskeið til að læra að sækja um styrki. Það sama hefur síðan verið upp á teningnum hjá Finnum, sem eru nýlega komnir inn, þeir hafa uppgötvað að það er lykilatriði í atvinnustarfsemi í Evrópusambandinu að sækja námskeið hjá fólki sem hefur vinnu af því að kenna fólki að sækja um styrki.

Auðvitað er þetta ekkert annað en aðlögun og það kemur fram bæði í þessum áróðursbæklingi sem og í skilgreiningunum í þingsályktunartillögunni og greinargerðinni þar. Hér hafa verið harðvítugar deilur allt frá því að aðildarumsóknin var samþykkt um það hvort hér færi fram aðlögun eða ekki og ég spyr hv. þingmann hvort hann geri sér grein fyrir af hverju þeir sem aðhyllast Evrópusambandið, þessar aðildarviðræður og vilja fara þarna inn eru svona feimnir við að viðurkenna að hér fari fram aðlögun og hafa reynt að finna (Forseti hringir.) alls kyns aðrar skilgreiningar á þessu hugtaki, farið undan í flæmingi en ekki viljað viðurkenna það sem þeir síðan standa frammi fyrir í þessum IPA-styrkjum.



[19:59]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara spurningu hv. þingmanns er auðvitað rétt að rifja upp að þegar Alþingi samþykkti aðildarumsókn sumarið 2009 var það ekki vegna þess að meiri hluti þeirra flokka sem áttu fulltrúa á Alþingi vildi að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Það var ekki svo að 32 eða fleiri í þessum þingsal hugsuðu með sér að framtíð Íslands væri best borgið innan Evrópusambandsins. Nei, hugmyndin var seld, ef svo má segja, með ýmsum hætti. Eitt var það að nauðsynlegt væri að sækja um aðild til að vita hvað fælist í Evrópusambandsaðild. Sumir eru enn þeirrar skoðunar þrátt fyrir að það liggi auðvitað fyrir eins og fram hefur komið í þessum umræðum að í Evrópusambandsaðild felst í megindráttum það að menn laga sig að Evrópusambandinu eins og það er og eiga kannski kost á einhverjum tímabundnum undanþágum á einhverjum afmörkuðum sviðum en í öllum meginatriðum eru menn að gerast aðilar að Evrópusambandinu eins og það er. Það eru ekki umsóknarríkin sem skapa Evrópusambandið í sinni mynd.

Í öðru lagi hefur þeirri blekkingu verið haldið á lofti að það að sækja um aðild væri einhvern veginn algjörlega ábyrgðarlaust ferðalag sem fæli það eingöngu í sér að menn væru að kynna sér möguleika og skoða í búðarglugga án þess að ætla sér endilega að kaupa nokkuð. Auðvitað er ekki gert ráð fyrir því, það er gert ráð fyrir aðlögun og við höfum séð á mörgum sviðum að um raunverulega aðlögun er að ræða og IPA-styrkirnir endurspegla það með sínum hætti. Þær eru bara eitt dæmi af mörgum en þeir sýna okkur meðal annars fram á hvernig aðildarumsókn leiðir (Forseti hringir.) til aðlögunar.



[20:01]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef það er rétt hjá þingmanninum, og ég ætla ekki að mótmæla því, að menn hafi farið fram með ákveðnum blekkingum allan tímann, alveg frá því að þingsályktunartillaga um aðildarviðræður var samþykkt og síðan stigið hvert skrefið á fætur öðru, má halda því fram að hér sé þetta mál í búningnum úlfur í sauðargæru. Ekki er það að minnsta kosti neitt lamb að leika sér við. Samningaviðræður við 27 þjóðríki og 500 milljóna markað miðað við Ísland er nokkuð ójafn leikur enda er að mínu viti klárlega um aðlögun að ræða. Ég hef ekki skilið af hverju menn hafa ekki viljað viðurkenna hlutina eins og þeir eru og þá er miklu auðveldara að tala fyrir þeim í staðinn fyrir að reyna alltaf að tala svolítið fram hjá.

Þetta fór í gegnum fjárlagafrumvarpið og af því tilefni vil ég spyrja hv. þingmann hvernig þeir þingmenn sem samþykktu fjárlagafrumvarpið og eru í vafa eða hafa hingað til haldið því fram að þeir séu í samningaviðræðum og séu ekki á leiðinni í Evrópusambandið munu geta greitt atkvæði gegn þessum IPA-styrkjum eftir að hafa samþykkt fjárlagafrumvarpið með IPA-styrkjunum inni. Heldur blekkingaleikurinn stöðugt áfram, frú forseti?



[20:03]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni felur þessi röð á hlutunum og afgreiðslu mála í þinginu það í sér að það er verið að stilla þingmönnum á margan hátt upp í svolítið óþægilega stöðu. Eins og hv. þingmaður nefnir voru fjárlög samþykkt fyrir jólin þar sem gert var ráð fyrir IPA-styrkjunum bæði á tekjuhlið og gjaldahlið. Eins og rakið hefur verið er búið að vekja væntingar hér og þar um að hægt sé að ráðast í hin og þessi verkefni, mörg afar jákvæð, á grundvelli þess að IPA-styrkir fáist. Þess vegna eru þingmenn settir í erfiðari stöðu en ella og erfiðari aðstöðu en ef farið hefði verið í hlutina einhvern veginn í réttri röð með því að byrja á að fá heimild þingsins til að staðfesta IPA-samningana eða rammasamninginn við Evrópusambandið og fara síðan í breytingar á fjárlögum og öðrum lögum í kjölfarið á þeirri samþykkt. Það hefði verið miklu eðlilegri röð á hlutunum. En ég vona (Forseti hringir.) að þingmenn, jafnvel þó að þeir hafi samþykkt fjárlagafrumvarpið, muni greiða atkvæði í þessu máli (Forseti hringir.) samkvæmt sinni bestu samvisku.



[20:04]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þykir afar jákvæð þróun að hv. þingmenn eru farnir að lesa upp úr blaðinu Sveitinni sem er prýðilegt upplýsingablað um Evrópusambandið og hvernig það kemur við byggðir og landbúnað í landinu. Það gerði hv. þingmaður sem hér flutti ræðu áðan og mig langar að spyrja hann hvort hann hafi ekki líka lesið opnu blaðsins. Þar kemur nefnilega í ljós að við höfum ánetjast mjög hættulega styrkjakerfi Evrópusambandsins nú þegar og menn eru greinilega farnir að ná mikilli æfingu í að herja þaðan út styrki sjálfum sér til spillingar og landinu til áþjánar.

Þar er sagt að alls nemi styrkir sem Evrópusambandið hefur veitt hér á landi úr ýmsum dagskrám sem það hefur 157 milljónir evra en að í þessa sömu sjóði hafi Íslendingar lagt í gegnum aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu 87 milljónir evra. Mér sýnist að ánetjunin nemi 1,2 milljörðum kr., forseti. Til að sýna hv. þingmanni að þetta er engin della sem ég er hérna með eru þessar tölur og þessi síða unnin upp úr svari sem leiðtogi hv. þingmanns og annarra stjórnarandstæðinga úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki í Evrópusambandsmálum fékk við sérstakri fyrirspurn á þinginu, nefnilega hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Annar eins maður og Vigdís Hauksdóttir fer ekki með neina lygi, það vitum við hv. þingmaður báðir.

Mig langar að spyrja hann: Er þetta ekki hættuleg ánetjun eftir 18 ára veru á Evrópska efnahagssvæðinu og verðum við ekki að fara að gera eitthvað í þessu? Vill ekki hv. þingmaður bera upp tillögu um og reyna að afla henni fylgis að við segjum okkur (Forseti hringir.) úr þessu ánetjunarsambandi sem við erum þegar komin í við Evrópusambandið?



[20:07]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að rengja þær tölur sem hv. þingmaður vísar til og komu fram í svari ráðherra við ágætri fyrirspurn frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef enga ástæðu til að rengja þessar tölur.

Það sem hv. þingmaður verður hins vegar að gera greinarmun á er annars vegar þátttaka okkar í áætlunum og styrkjakerfi sem tengist Evrópska efnahagssvæðinu og aðild okkar að því frá 1994, með öðrum orðum styrkjum sem fela ekki í sér nein fyrirheit og hafa engin tengsl við aðild að Evrópusambandinu, það er alveg ljóst. Íslenskir aðilar áttu rétt á þeim styrkjum alveg óháð allri aðildarumsókn en það er stóri munurinn. IPA-styrkirnir eru aðeins veittir í tengslum við aðildarumsókn. Þess vegna er um grundvallarmun að ræða.

Varðandi hins vegar aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu vil ég segja með almennum orðum að því fylgja bæði kostir og gallar. Ég tel að kostirnir yfirvinni gallana og hef þess vegna stutt aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og tel að við eigum að vera áfram aðilar að því en lengra vil ég ekki ganga og það er grundvallarmunurinn á minni afstöðu og afstöðu hv. þingmanns. Ég tel að sú tenging sem við höfum við Evrópusambandið með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu sé nægileg, jafnvel of mikil að sumu leyti, en allt í lagi, það er tenging sem ég hef verið tilbúinn að fallast á og samþykkja. Lengra vil ég samt ekki ganga.

Hv. þingmaður er annarrar skoðunar og hefur fullan rétt til þess, en samanburðurinn milli þeirra styrkja sem tengjast aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og styrkja sem tengjast aðlögun að Evrópusambandinu er tvennt ólíkt. (Forseti hringir.) Samanburðurinn er ekki réttmætur.



[20:09]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér í þessu. Við erum þegar orðin Evrópusambandsþjóð að þremur fjórðu eða fjórum fimmtu eða hvaða tölur sem menn velja sér í því. Það hafa verið deilur um það, en það er alveg klárt að samkvæmt gerðum er það af þessari stærð. Þetta er sama röksemdafærsla og hv. þingmaður og hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafa notað, þau hafa talað um ánetjun, óeðlilegar styrkveitingar, um perlur og eldvatn eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði í andsvari áðan hafi ég heyrt rétt, og þetta er auðvitað í sama dúr.

Svo ég endurtaki töluna munar 70 milljónum evra á framlagi og styrkjum til Íslands. Það er alveg augljóst samkvæmt hugsunarhætti og aðferð hv. þingmanna Gunnars Braga Sveinssonar, Birgis Ármannssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að hér hlýtur að vera um perlur og eldvatn að ræða til Náttúrustofu Vestfjarða, (Forseti hringir.) Háskólans á Hólum, Iðunnar – fræðsluseturs, leikskóladeildarinnar í Lundi í Öxarfirði o.s.frv. (Forseti hringir.) eins og menn geta séð í opnu þess ágæta blaðs sem menn hafa gert hér að umræðuefni.



[20:10]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þingmaður Reykv. n. hlýtur að svara því í ræðu sinni hér á eftir hvers vegna munur er á IPA-styrkjunum og þeim styrkjum eða fjárveitingum sem tengjast samningum sem við eigum aðild að á grundvelli Evrópska efnahagssvæðisins. Það er grundvallarmunur á því. Þarna er um að ræða þátttöku okkar í áætlunum sem Evrópusambandið stendur að sönnu fyrir en eru áætlanir sem við eigum aðild að á grundvelli aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu sem við höfum átt aðild að síðan 1994 og tengjast ekki með neinum hætti aðildarumsókn, eru ekki hugsaðar í neinum tengslum við aðildarumsókn. (MÁ: Ertu viss?)

Það er opinbert og yfirlýst að IPA-styrkirnir svokölluðu tengjast undirbúningi ríkja að aðild að Evrópusambandinu. Á þessu er þar með grundvallarmunur.



[20:12]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að segja að ég hefði kosið að við værum enn að ræða það mál sem við vorum byrjuð að ræða, þ.e. lagafrumvarpið um IPA-styrkina. Ég hefði talið rétt að halda þeirri umræðu áfram. Ég hef ekki enn þá fengið neina skýringu á því og hef ekki grænan grun um, eins og sagt er, hvers vegna allt í einu var farið að breyta þessu og gera hlé á umræðu sem var hafin og hefja umræðu um þingsályktunartillöguna. Ég sé að minnsta kosti lítil rök að baki því og hef ekki fengið neinar skýringar á þessu.

Við ræðum um IPA-styrkina sem eru augljóslega mjög mikilvægur þáttur í aðlögun Íslands að Evrópusambandinu og regluverki þess. Við hljótum því að tala um IPA-styrkina, tilganginn með þeim og bera þá saman við aðra styrki, eins og hér var ágætlega gert og um að gera að halda því áfram, í sömu mund og við veltum fyrir okkur Evrópusambandinu og stöðu þess. Við hljótum líka að reyna að átta okkur á því hvert hlutverk okkar verður innan Evrópusambandsins þegar þangað er komið, ef af því verður, sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki.

Ég vil byrja á því að segja, frú forseti, að ég hygg að langflestir þingmenn sem hafa talað á móti þessu aðlögunarferli og eru á móti því að gefa enn frekar eftir, við skulum bara nota það orðalag, gefa í raun eftir fullveldi Íslands, gefa eftir þann rétt sem við höfum í dag til að ráðskast með ákveðin mál, séu fylgjandi því að auka erlent samstarf, auka samstarf við Evrópusambandið þar sem það á við, við önnur ríki og önnur landsvæði þegar augljóst er að saman fari hagir beggja aðila.

Eins og allir vita hafa Íslendingar verið býsna lengi í samstarfi við Evrópusambandið í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þann samning held ég að farsælla hefði verið fyrir bæði Evrópusambandið og EES-ríkin að reyna að þróa áfram og beita sér jafnvel fyrir því að fjölga ríkjum innan þess samnings. Að mínu viti er nokkuð ljóst að Evrópusambandið mun hægja á stækkunarferli sínu vegna þess vandræðagangs sem er þar í dag og mikillar gagnrýni innan Evrópusambandsins sjálfs á ýmsa hluti þar innan búðar. Þá hljóta þeir er þar stjórna að horfa til þess að fjölga jafnvel þeim ríkjum sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að það hefði skaðvænleg áhrif á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið ef Íslendingar drægju sig út úr því viðræðuferli við Evrópusambandið sem nú er í gangi.

Ímyndin skiptir máli í mörgu og Evrópusambandið leggur mjög mikið upp úr því að hafa ímynd sína í lagi og hafa hana rétta. Til þess beitir sambandið því vopni sem það er kannski hvað best í að beita, sem eru fjármunir. Það hefur komið fram hjá erlendum fréttamiðli, minnir mig, að Evrópusambandið eyði meiri fjármunum í að kynna sig og sína ímynd en þekktasta vörumerki heims, Coca Cola. Það eru því engir smápeningar þar á ferð. Í ræðu í dag var minnst á það að Evrópusambandið hugar mjög að því að ungdómurinn sé vel „upplýstur“ um Evrópusambandið, m.a. með því að halda úti heimasíðu sem hér var nefnd, um Captain Euro, sem er einhvers konar ofurhetja sem á að fara um heiminn og bjarga öllu vegna þess að Evrópusambandið er svo gott. Svo ég upplýsi hæstv. forseta um það er heimasíðan captaineuro.com. Það er mjög merkilegt að fara inn á þessa síðu, frú forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að skoða hvað Evrópusambandið er að halda að börnunum. Það er athyglisvert.

Annað sem vert er að minnast á er að Evrópusambandið eyðir milljörðum í námsbækur sem eru rétt skrifaðar, í að fjármagna sjónvarpsþætti sem draga upp jákvæða mynd af Evrópusambandinu, styrkja bíómyndir sem draga upp jákvæða mynd af Evrópusambandinu, heimildamyndir, dagblöð og tímarit. Það kann að vera að mörgum hugnist mjög að ganga inn í svona heilaþvottarapparat en á sama tíma berjast margir þingmenn hér mjög hart gegn því að fyrirtæki styrki íslenska stjórnmálaflokka. Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig þetta tvennt fer saman, ef um er að ræða sömu aðila.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að sýna hv. þingmönnum forsíðuna af captaineuro.com. Það er eflaust mjög spennandi fyrir krakka að fara inn á þessa síðu. Sem betur fer er hún ekki á íslensku, en hver veit.

Frú forseti. Í þeim bæklingi sem ég hef áður nefnt og fleiri þingmenn um stækkun Evrópusambandsins er fjallað um hvernig stækkunin gengur fyrir sig, um IPA-styrkina og allt ferlið. Það er alveg ljóst þegar maður kynnir sér þennan bækling að hlutverk þessa stuðningsapparats sem IPA-kerfið er og styrkjanna er að stuðla að betri aðlögun ríkja að Evrópusambandinu, að innleiðing laga og reglna sé með réttum hætti og þær stofnanir sem þurfa að vera til staðar og þurfa að fúnkera rétt við inngöngu, séu til. Ég fæ hvergi séð í bæklingnum, þó ég ætli ekki að fullyrða að þar standi allt um IPA-styrkina, neitt sem rökstyður að IPA-fjármunir, hvort sem þeir eru af þessum íslenska kvóta eða komi annars staðar frá, séu notaðir í fyrirbæri eins og t.d. Evrópustofu, sem er einhvers konar áróðurstæki hér á Íslandi, þess þá heldur að þeir séu notaðir í ýmis verkefni, sem sjálfsagt eru mjög góð og þörf eins og hefur verið nefnt í dag varðandi verkefni á Suðurlandi. Ég tek það fram að það hefur ekkert með að gera hvernig verkefnið er og hvort það eigi rétt á sér eða ekki.

Annað sem einhver misskilningur ríkir um þegar rætt er um aðlögunina að Evrópusambandinu er að það er eins og margir haldi að við inngöngu gerist eitthvert efnahagslegt kraftaverk á Íslandi. Það verður nú aldeilis ekki. Við erum í þeirri stöðu eins og hefur verið bent á að t.d. vaxtakjör á Íslandi yrðu ekkert endilega þau sömu og í Þýskalandi, þau gætu orðið svipuð og í einhverju allt öðru landi því að þýska evran er ekki sama fyrirbæri og spænska evran, svo dæmi sé tekið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef nota á IPA-fjármunina í að upplýsa um sannleikann á einhvern hátt eins og hjá Evrópustofu, að mjög vel sé farið yfir hvaða evru Íslendingar fái ef þeir ganga í Evrópusambandið. Hvað er það sem við fáum nákvæmlega? Það sem við vitum er að við fáum það Evrópusamband sem er við lýði í dag, þ.e. stóru myndina.

Við höfum margir þingmenn náð að hitta suma þingmenn Evrópusambandsins og þeim ber flestum saman um að það sé kannski eðli Evrópusambandsins að breytast. Það Evrópusamband sem til dæmis Tékkar gengu í — ég held að það hafi verið Tékkar, ég ætla ekki að fullyrða það, en við okkur ræddi þingmaður, súrkálsbóndi ef ég man rétt, sem sagði að það Evrópusamband sem hann gekk inn í væri ekki það Evrópusamband sem hann er í í dag. Það er ekkert mjög langt síðan Tékkar gengu þarna inn, þróunin er svo hröð og mikil og einmitt núna í dag. Þar af leiðandi held ég að það sé óskynsamlegt fyrir Íslendinga að láta eins og ekkert sé, halda áfram förinni eins og ekkert sé sjálfsagðara en að halda áfram því ferli sem farið var af stað í 2009, inn í það Evrópusamband sem menn sáu þá í hillingum.

Ég held til dæmis að þau efnahagsvandræði ein og sér sem dunið hafa á Evrópuríkjunum ættu að nægja til þess að menn vildu setjast niður og velta fyrir sér þróuninni og hver framtíðin verður. Það eru jafnvel spádómar uppi í dag um að evrusamstarfið kunni að líða undir lok, í það minnsta að einhver ríki dragi sig út úr evrusamstarfinu. Sú hugmynd hefur líka komið upp frá einhverjum ráðherrum í Evrópusambandinu að búa til einhvers konar sérevru, t.d. fyrir Grikki. Þeir hefðu þá sérstaka útgáfu af evrunni sem mundi nýtast þeim betur en sú evra sem almennt er notuð.

Annað sem ég vil nefna enn og aftur í þessari umræðu er að Evrópusambandið hefur náttúrlega þróast úr því að vera samband sex landa í 27 á þeim tíma sem það hefur verið til. Við skulum ekki gera lítið úr því að Evrópusambandið hefur stuðlað að friði innan þeirra landa sem það nær yfir, en það hefur svo sannarlega ekki staðið við öll þau fögru loforð sem koma fram í grundvallartexta þess eða í skilgreiningunni á þessu batteríi, eins og að stuðla að stöðugleika, velmegun, lýðræði o.s.frv. Ég hugsa að mannréttindi hafi batnað mjög mikið í þeim löndum þar sem mannréttindi voru vandamál áður en þau gengu í Evrópusambandið, ég hugsa að Evrópusambandið hafi stuðlað að bættum mannréttindum innan sambandsríkjanna og jafnvel víðar, það hafi beitt sér úti um heim í slíkum málum. Það er að sjálfsögðu vel og við Íslendingar eigum að taka þátt í slíku samstarfi þótt að við göngum ekki inn í Evrópusambandið, og að stuðla að frelsi manna til að tjá hugsanir sínar og skoðanir. Við eigum samleið með mörgum ríkjum þótt við viljum ekki endilega gangast þeim á hönd eða aðlagast þeim á einhvern hátt. Ég nefni þetta því að Evrópusambandið setur sér ákveðnar forsendur eða grundvallarhugsun og verkefni sem það telur sig hafa skapað fyrir þegna sína.

Annað sem við sjáum í úttektum — auðvitað er það ekki allt saman heilagur sannleikur, ég hef þann fyrirvara á — er að margar stofnanir telja að innan Evrópusambandsins sé lýðræðishalli, ekki sé gætt lýðræðis milli ríkjanna og milli þegnanna. Ég velti fyrir mér þegar ég var að horfa á fréttir og sá kanslara Þýskalands og forseta Frakklands hittast á fundum og ráðgast um framtíð Evrópusambandsins: Hvar er forsætisráðherra Möltu eða forsætisráðherra Írlands til dæmis þegar verið er að ráðgast um svona hluti? Þessi lönd voru á kantinum og biðu bara eftir skipunum að ofan.

Við sjáum líka að Evrópusambandið er að þróast í þá átt að vera meira miðstýrt en nokkru sinni fyrr. Það vill fá völd til þess að hafa áhrif og segja skoðun sína á fjárlögum einstakra ríkja, tryggja að fjárlögin uppfylli þau viðmið sem Evrópusambandið hefur sett sér. Ég leyfi mér að segja að mér þykja þetta mjög frekleg inngrip í sjálfstjórn og í raun fullveldi ríkjanna ef það gengur eftir að einstök ríki geti ekki haft fjárlög sín eftir eigin höfði, hvert ríki á vitanlega að hafa frelsi til þess og Evrópusambandið á ekki að þurfa að gefa því stimpil. Ýmsir svona hlutir trufla mann í þessari umræðu.

Það er líka hægt að velta fyrir sér hvernig málið um IPA-styrkina bar að, en ég ætla að geyma mér það. Hins vegar er athyglisvert að lesa þær úttektir og skýrslur sem við fáum frá Evrópusambandinu þar sem fylgst er með þróuninni á Íslandi og framvindu mála. Í sumum þessara skýrslna koma fram áhugaverðir punktar. Í stækkunarskýrslu eða framvinduskýrslu frá því í mars á þessu ári er til dæmis fjallað um fjölmiðla og Ríkisútvarpið. Hér bíður þingsins frumvarp er lýtur að Ríkisútvarpinu, m.a. um að takmarka þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það er nákvæmlega í anda athugasemda frá Evrópusambandinu, en við erum að aðlaga lagaumgjörð okkar um Ríkisútvarpið að Evrópusambandinu. Einhverjum, þar á meðal þeim sem hér stendur, þykir reyndar nóg um hvernig Ríkisútvarpið hefur aðlagað sig Evrópusambandinu, en þarna er greinilega verið að breyta lagaumgjörðinni eftir þeim athugasemdum sem koma m.a. fram í stækkunarskýrslunni.

Hér hefur líka komið fram frumvarp sem lýtur að friðun fugla, svartfugls meðal annars. Svo ótrúlega vill til að þær tegundir sem á að friða eru einmitt tegundir sem eru friðaðar innan Evrópusambandsins. Ýmislegt svona rekur maður augun í. Það getur vel verið að Íslendingar vilji gera eitthvað fyrir sumar af þeim tegundum sem þarna eru nefndar, en það er heppilegt, ef má orða það þannig, að þetta séu einmitt sömu tegundir og Evrópusambandið rekur hornin í hjá okkur.

Það kemur líka fram í stækkunarskýrslunni að íslensk stjórnvöld eru hvött til að minnka ríkisafskipti af bankageiranum. Ég velti því fyrir mér hvort það frumvarp sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er með á dagskrá þingsins um að selja eignarhlut í fjármálafyrirtækjum eigi að mæta þeirri athugasemd Evrópusambandsins, og hvort næsta einkavæðing bankanna fari fram að kröfu Evrópusambandsins líkt og fyrsta einkavæðingin var afleiðing EES-samningsins. Það kann að vera að þetta gangi allt í hringi.

Það kom fram, ef ég man rétt, hjá þeim ágæta manni sem er hér staddur þessa stundina, Stefan Füle, að hann vildi setjast yfir gjaldeyrishöftin og skoða þau. Það er auðvitað jákvætt ef Evrópusambandið og önnur ríki hafa áhuga á að hjálpa okkur við að aflétta þeim með einhverjum hætti, en að sjálfsögðu eru það fyrst og fremst okkar eigin heimatilbúnu vandamál sem við Íslendingar þurfum að leysa til að koma höftunum frá.

Fram undan er að sjálfsögðu umræða og vangaveltur um þetta gríðarstóra mál sem aðlögun að Evrópusambandinu er og hlut IPA-styrkjanna í því ferli. Þar eru á ferð fjárveitingar til verkefna sem að mínu viti eiga alls ekki öll eitthvað skylt við þær hugmyndir sem ég hef um IPA-styrkina og það sem ég les út úr upplýsingum um þá og í hvað þeir fjármunir eiga að fara. Mér finnst sumt af þessu vera komið töluvert út fyrir það. En þetta verður að sjálfsögðu rætt áfram og síðan þurfum við að velta fyrir okkur því nefndaráliti meiri hlutans sem aðildarferlið, aðlögunarferlið, byggir allt á. Mikilvægt er að velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin og þeir sem leiða ferlið séu á einhvern hátt komnir út fyrir það umboð. Ég hef velt fyrir mér hvort svo sé. Ég hyggst reyna að færa fyrir því rök síðar að svo kunni að vera, en að sjálfsögðu er ekkert einfalt að álykta að svo sé.



[20:32]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Fróðlegast við þessa ræðu hv. þingmanns var kannski það að hann fór fram og aftur í því ferli sem við höfum staðið í núna í 18 ár og reyndar fleiri. Annars vegar talaði hann um IPA-styrkina, sem eru sumsé þeir styrkir sem veittir eru umsóknarríkjum, og hins vegar talaði hann um hvernig ástandið gæti verið eftir að við hefðum framið þann hryllilega glæp gagnvart gengnum kynslóðum og komandi að ganga í Evrópusambandið. Hann talaði líka um kröfur sem gerðar væru til okkar vegna þess að við erum EES-þjóð. Hann nefndi Ríkisútvarpið í því dæmi og hlýtur að vita að þær Evrópukröfur sem koma að okkur í ríkisútvarpsmálum eru vegna þess að við erum EES-þjóð, ég vænti þess að þingmaðurinn geri sér grein fyrir því.

Er ekki misskilningur okkar sá, forseti, og bið ég þingmanninn að svara því, að við skulum hafa gengið í efnahagssvæði Evrópu? Ættum við ekki að ganga úr efnahagssvæði Evrópu? Þá þyrftum við ekki að taka við neinum svona skipunum og gætum lifað hér frjáls og glöð til eilífðarnóns uppi á hinu góða, bláa landi án tengsla við aðrar þjóðir að mestu og þyrftum ekki að vera hrædd við neina styrki, hvorki þá styrki sem okkur bjóðast núna í gegnum IPA-kerfið né alla þá hræðilegu peninga sem við höfum þegið og ég rakti áðan í andsvari, 157 millj. evra, þar af 70 millj. evra í hreina gjöf, sem væntanlega flokkast undir perlur og eldvatn. Væri ekki betra fyrst okkur urðu á þessi mistök á sínum tíma, þar á meðal hálfum Framsóknarflokknum, að ganga úr efnahagssvæði Evrópu um leið og við hættum þessum viðræðum við bandalagið mikla?



[20:34]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef það sem var eftirtektarverðast eða forvitnilegast í ræðu minni var að ég skyldi fara fram og aftur í þeim gögnum sem ég vitnaði í. Ég hefði haldið að um væri að kenna smáskipulagsleysi hjá þeim er talaði frekar en að það væri eitthvað forvitnilegt.

Mig langar hins vegar að segja við spurningu hv. þingmanns, hvort við eigum að slíta samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að ég tel að við eigum ekki að gera það. Ég held að við eigum jafnvel að beita okkur fyrir því að sá samningur verði styrktur frekar en að við göngum í Evrópusambandið.

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit getum við, með því að skipuleggja okkur betur og setja meiri fjármuni í að fylgjast með þeim Evrópugerðum sem koma frá Evrópusambandinu, verið betur undirbúin og reynt jafnvel að hafa áhrif fyrr á stigum á hvernig þær líta út. Auk þess megum við ekki gleyma því heldur að við höfum ákveðnar heimildir til að spyrna við fótum þegar eitthvað kemur sem okkur líkar sérstaklega illa við.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að EES-samningurinn gerir ákveðnar kröfur á hendur okkur út af t.d. Ríkisútvarpinu, lagaumgjörð og öðru slíku. Það er þá kannski algjör heppni eða óheppni, ég veit ekki hvort á að segja, að akkúrat sú athugasemd sem kemur fram í 9. lið, ef ég man rétt, í stækkunarskýrslunni síðustu, að þarna þurfi Íslendingar aldeilis að herða sig og minnka hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skuli koma inn í þetta ágæta frumvarp. Það kann að vera hægt að finna því stað í kröfum í samningum um Evrópska efnahagssvæðið og þeirri EES-gerð sem við höfum tekið upp, ég geri ráð fyrir að hægt sé að finna því stað þar, og það kann vel að vera að við þurfum að uppfylla þetta út af því. Ég ætla ekkert að segja að hægt sé að segja nei við því en mér fannst athyglisvert að þetta skyldi hittast svona á.

Hinu mun ég svara á eftir, um styrkina.



[20:36]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá er rétt að upplýsa hv. þingmann um það að það frumvarp sem er í þinginu, um nýskipan ríkisútvarpsmála, tekur m.a. mið af þeim kröfum sem gerðar eru til okkar vegna þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Með þeirri aðild höfum við tekið upp 2/3 af gerðum Evrópusambandsins, held ég að Stefan Füle hafi sagt í grein sinni í Morgunblaðinu, ég hygg að það sé meira en það skiptir engu máli, menn geta reiknað það fram og aftur. Þar á meðal þurfum við að innleiða tilteknar reglur.

Gallinn við það að vera á hinu Evrópska efnahagssvæði, sem hefur breytt samfélaginu hér á undanförnum 18 árum, er auðvitað sá sem hv. þingmaður minntist á, að við tökum við skipunum að utan sem við höfum lítið um að segja þó að við getum einstaka sinnum hrist á okkur lappirnar eins og þingmaðurinn sagði. Kosturinn við það að ganga í Evrópusambandið er sá að þar höfum við rödd, þar sitjum við við borðið og getum haft áhrif á þær ákvarðanir sem okkur koma helst við.



[20:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja, úr því að hv. þingmaður nefndi styrki og er væntanlega að tala um þær áætlanir og þá samninga sem Íslendingar eru aðilar að í gegnum EES-samninginn, þ.e. eins og Erasmus og eitthvað slíkt, einhverjar slíkar áætlanir sem eru að koma — ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því um hvað þingmaðurinn er að tala, en ég hugsa að það séu einhverjir styrkir sem við erum að fá í staðinn fyrir eitthvert framlag sem við leggjum á móti og á því sé munur sem sé í plús fyrir okkur, ekki satt? (MÁ: Lesa Sveitina. ) Lesa Sveitina, ég geri það.

Það er mikill munur á þessum styrkjum og IPA-styrkjunum og hv. þingmaður verður að gera greinarmun á þeim. IPA-styrkirnir eru ætlaðir til þess að búa til glansmynd af Evrópusambandinu þannig að fólk trúi og fái þá sýn á hvað sé þar á ferð.

Varðandi að hafa áhrif getum við haft meiri áhrif á EES-reglurnar þegar þær koma inn til þingsins.



[20:39]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir upplýsandi og yfirvegaða ræðu og get tekið undir ýmislegt sem þar kom fram um þessi mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um siðferðishliðina í þessu öllu saman, þ.e. hvort honum finnist siðlegt af ríki sem enn er ekki búið að gera upp við sig hvort það ætli í Evrópusambandið — þjóðin hefur ekki fengið aðkomu að því og var síðast í morgun neitað um að koma að þessu ferli og velja sjálf hvort hún telji sig vanta frekari upplýsingar og halda áfram ferlinu — að þiggja alla þessa gríðarlegu fjármuni og ætla svo bara að segja nei.

Þetta tengist í rauninni umræðu sem oft hefur verið mjög villandi í þessum efnum, þ.e. þegar látið er að því liggja að Ísland sé bara að ganga hina hefðbundnu leið sem önnur ríki hafi gengið. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Í öðrum ríkjum hafa þjóðþingin ákveðið að þau vilji ganga í Evrópusambandið, fyrir liggur vilji til að ganga í Evrópusambandið þegar farið er í hið gríðarlega viðamikla aðildarferli sem er einmitt aðlögunarferli eins og þessir styrkir eru aðlögunarstyrkir. Það er vilji til staðar. Er siðlegt að ganga fram með þeim hætti sem við erum að gera?

Ég kem að næstu spurningu minni í næsta andsvari.



[20:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég get notað orðið siðlaust en mér finnst í það minnsta ekki heiðarlegt af Íslendingum eða þeim sem standa mjög fast að þessu ferli öllu saman að reyna að telja þeim sem við erum að semja við trú um að þetta sé einfalt mál á Íslandi eða að baki ferlinu sé tryggur meiri hluti þegar ljóst er að í það minnsta þrír af fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum eru á móti og ætla að berjast gegn aðild þegar að því kemur. Ég hlýt að spyrja hvort það sé eitthvert siðferði í því að halda slíkri ferð áfram.

Þá komum við að sjálfsögðu inn á svar við spurningu hv. þingmanns um hvort það sé rétt og siðlegt að þiggja þessa fjármuni vitandi það að stór hluti þjóðarinnar og líklega meiri hluti þingsins muni á endanum greiða atkvæði gegn aðild. Það finnst mér ekki siðlegt. Ég held að við eigum ekki að standa þannig að málum að vera í einhvers konar sýndarferli, þiggja fjármuni sem eflaust gætu nýst einhverjum öðrum miklu betur en okkur og láta líta svo út að full alvara sé að baki ferlinu.

Ég hygg að þegar á hólminn er komið, þegar nær dregur því að greidd verði atkvæði um hvort þessu verði lokið eða því haldið áfram með samning, muni verða settar spurningar við siðferði Íslendinga sem þáðu fjármuni en börðust svo hart gegn aðild.



[20:43]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held nefnilega líka að spurt verði spurninga um heiðarleika Íslendinga í þessu ferli og það geti komið okkur alvarlega í koll, rétt eins og það kom Norðmönnum í koll þegar upplifunin var sú að þeir hefðu teymt Evrópusambandið á asnaeyrunum.

Ég skal fúslega styðja það að sótt verði um alla styrki Evrópusambandsins þegar við erum komin og orðin aðildarríki að Evrópusambandinu, ef það verður nokkurn tíma, sem ég hef reyndar miklar efasemdir um. Það er allt annað mál en það sem er að gerast hér þegar búið er að lýsa því yfir að ekki eigi að verða nein aðlögun og svo er verið að þiggja aðlögunarstyrki eins og ekkert sé.

Þá kemur að annarri spurningu. Grefur það ekki undan þeirri hugsun að hér sé um samningaviðræður að ræða ef öðrum samningsaðilanum dettur í hug að þiggja svona gríðarlega háa aðlögunarstyrki sem eru beinlínis til þess ætlaðir að hjálpa ríki að innlima sig í sambandið? Styður þetta ekki málstað þeirra sem segja: Þetta eru ekki hefðbundnar samningaviðræður heldur snýst þetta um að Ísland aðlagist Evrópusambandinu?



[20:45]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frá því að Norðmenn felldu sinn samning síðast hafa ekki farið fram samningaviðræður hjá Evrópusambandinu við þau ríki sem hafa gengið þangað inn. Það var skipt um prógramm, farið var í aðlögunarprógramm og það er það prógramm sem við erum í í dag. IPA-styrkirnir og þeir fjármunir sem hingað eru sendir eru hluti af þessu aðlögunarprógrammi og við erum þar af leiðandi að taka við fjármunum, ef við gerum það, sem eru ætlaðir til þess að aðlaga okkur að Evrópusambandinu. Ef við segjum svo nei hljóta menn að spyrja: Bíddu, af hverju voruð þið að taka við þessum peningum ef þið ætluðuð ekki þarna inn? Við gátum notað þessa aura í eitthvað allt annað. Hvað á þetta að þýða?

Ég hlýt að gera þá kröfu, frú forseti, að þeir þingmenn sem hafa þess kost að hitta stækkunarstjóra Evrópusambandsins sem er hér núna, herra Stefan Füle, spyrji hann að því hvort hann geri sér grein fyrir því að svona sé staðan á Íslandi og hvort þeim hjá Evrópusambandinu sé sama um það og hvort þeir séu sáttir við að þetta haldi áfram með óbreyttu sniði.



[20:46]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu þar sem hann fór yfir afstöðu sína til þessa máls. Það er eitt atriði sem mig langar aðeins að skerpa á og skýra: Hvert telur hv. þingmaður markmið Evrópusambandsins með því að veita Íslandi fjárhagsaðstoð samkvæmt þessum samningi? Hver eru markmiðin með því af hálfu Evrópusambandsins? Hver er tilgangurinn með þessum styrkjum? Þá væri jafnframt ágætt að fá fram hjá hv. þingmanni hver hann telur helstu markmið aðstoðarþegans Íslands samkvæmt þessum samningi? Getur hv. þingmaður upplýst mig um þetta?



[20:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Yfirlýst markmið aðlögunarstyrkjanna, IPA-styrkjanna og þess prógramms sem þeir koma út úr, er að ríkin sem eru í aðlögunarferli verði tilbúin á þeim tímapunkti þegar þessum viðræðum á að vera lokið og séu þá búin að breyta stjórnsýslu sinni, aðlaga stjórnkerfið, lagarammann og allt það því Evrópusambandi sem bíður. Ég vil leyfa mér að segja að markmiðið með þeim aðlögunarstyrkjum sem Ísland er að fá miðað við þau verkefni sem ég hef séð — nú tek ég enn og aftur fram að þessi verkefni eiga fullan rétt á sér og allt það — sé eitthvað allt annað en að gera stjórnsýslu og annað tilbúið þegar og ef að inngöngu kemur.

Ég verð að segja að ég fæ eldfjallagarð eða hvað þetta heitir ekki til að ganga upp þannig að það skipti máli eins og mér finnst hugmyndin frábær og vona svo sannarlega að af henni verði — án aðstoðar Evrópusambandsins.

Það er kannski bjartsýni, ég veit það ekki, en markmið aðstoðarþegans, þ.e. Íslands — nei, ég bara hreinlega get ekki svarað þessari spurningu. Ég get engan veginn gert mér grein fyrir markmiði íslenskra stjórnvalda með því að þiggja þessa styrki þegar mér sýnist þeir ekki fara í þau verkefni sem talin eru upp. Megnið af styrkjunum er að minnsta kosti ekki að fara í þau verkefni sem talin eru upp í þeim leiðbeiningum sem ég hef séð um þessa IPA-styrki. Við erum hins vegar að nota eitthvað af þessum aurum í verkefni sem hefur lengi legið fyrir að Íslendingar mundu fara í og þyrftu að fara í, eins og varðandi Hagstofuna.



[20:49]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst þetta mjög spennandi umræðuefni, sérstaklega í ljósi þess sem stendur í samningnum sjálfum, að sjóðurinn sem Evrópusambandið bjó til sé til þess gerður að veita umsóknarríkjum fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þetta er í hróplegu ósamræmi við það sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér fyrr í dag.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort honum þyki eðlilegt að í þessum samningi sé lögð mikil áhersla á að kynna og sýna það að ESB hafi styrkt þau verkefni sem fjármunir fara í úr þessum sjóði. Hver er tilgangurinn með því að leggja svona mikla áherslu á að nafn Evrópusambandsins komi fram þegar verið er að fjalla um þau verkefni sem hljóta styrki samkvæmt þessum samningi? Hver getur verið tilgangurinn hjá ESB með því að hamra á því að kynna það í bak og fyrir að Evrópusambandið sé að koma með fjármagn inn í þessi verkefni?



[20:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisverð spurning og eðlilegt að hv. þingmaður spyrji hennar. Það kemur fram í 1. lið 10. gr. þessa samnings að það sé svo mikilvægt að varpa ljósi á hlutverk Evrópusambandsins. Ég ætla bara að endurtaka það sem ég sagði áðan, Evrópustofa sem sett er á fót með fjármunum úr IPA-kerfinu öllu saman virðist hafa það hlutverk að draga upp „rétta mynd“ af Evrópusambandinu. Það kemur fram á heimasíðu stofunnar að ýmsar flökkusögur séu í gangi sem þurfi að eyða. Evrópusambandið gerir kröfu um að það sé vel greint frá því hvert fjármunir þess fari. Það er algjörlega í samræmi við það að Evrópusambandinu datt í hug að gera kröfu um að á íþróttabúningum þjóðríkja innan Evrópusambandsins yrði settur Evrópufáninn þannig að það villtist ekkert um fyrir mönnum hvaðan þessir íþróttamenn væru. Sem betur fer komu menn í veg fyrir það.

Evrópusambandið hagar sér oft og tíðum eins og þjóðríki. (Forseti hringir.) Fáni þess hangir uppi allan sólarhringinn við allar opinberar byggingar, það er á öllum sköpuðum hlutum sem það kemur þessum fána á.



[20:52]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsagnarríki ESB, þ.e. á íslensku svokallaða IPA-styrki.

Hér liggja fyrir tvö nefndarálit, frá 1. minni hluta og 2. minni hluta utanríkismálanefndar. Ég hyggst nú fjalla aðeins um þetta mál út frá minni eigin upplifun á þessum málflutningi hér í dag og þeim skjölum sem hér hafa verið lögð fram.

Sá samningur sem þetta mál byggir á var undirritaður 8. júlí sl. Hann er birtur sem fylgiskjal með þessari tillögu. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fór yfir nefndarálit 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Ég spurði hann í andsvari hvort hann teldi þennan samning og það mál sem hér liggur frammi ekki endanlega leggja það á borðið að við erum ekki í umsóknarferli heldur aðlögunarferli að ESB. Hv. þingmaður var ekki sammála mér um þetta og ætlaði að koma seinna í umræðunni og svara betur þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég hlakka til að fá að heyra þau. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hélt því fram að IPA-styrkirnir okkar væru gefnir á öðrum forsendum en þeir styrkir sem ratað hafa til annarra umsóknar- og aðlögunarþjóða sem hafa verið í aðlögunarferli við Evrópusambandið. Ef við skoðum aðeins fylgiskjalið með þessu máli sem er rammasamningur milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland, þetta er á bls. 7 og áfram í þingskjalinu sjálfu, kemur fram að ríkisstjórn Íslands komi fram fyrir hönd Íslands og sé aðstoðarþegi samkvæmt þessum samningi. Það kemur fram í 1. tölulið á bls. 7 í þingskjalinu að ráð Evrópusambandsins hafi 17. júlí 2006 stofnað sjóð til að fjármagna aðstoð við umsóknarríki ESB og þessi gerningur sé eini lagagrundvöllurinn sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvíli á. Með leyfi forseta ætla ég að ljúka málsgreininni með því að vitna beint í þennan samning: „… til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu.“

Miðað við það að við séum ekki, samkvæmt orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, í aðlögun að Evrópusambandinu skil ég ekki til hvers þessi samningur er gerður. Hvernig á þá að skýra þennan texta samningsins sem ríkisstjórn Íslands hefur fyrir hönd aðstoðarþegans Íslands skrifað undir ef það er afstaða Íslands að hér sé ekki um aðlögun að ræða þegar þessi fjárhagsaðstoð er veitt til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Ég skil ekki alveg þann málflutning.

Jafnframt finnst mér eitthvað óeðlilegt við það að við Íslendingar gerum samning við Evrópusambandið um að liðka fyrir pólitískum breytingum á Íslandi til að liðka fyrir aðildarumsókn að ESB. Hver er hugsunin á bak við þetta af hálfu Íslendinga? Hver eru samningsmarkmið okkar varðandi þetta atriði? Hvað vakti fyrir ríkisstjórnarflokkunum í þessu atriði þegar þeir undirrituðu þennan rammasamning? Það hefur ekki komið fram í umræðunni og ég kalla eftir því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson upplýsi okkur um hvað átt var við með þessu þegar undir þetta var skrifað.

Þá kemur fram á bls. 8 í sama skjali að í 3. gr. er fjallað um markmiðin með þessum styrkjum. Þau eru að stuðla að samvinnu milli samningsaðilanna og undirbúa aðstoðarþegann, aðstoðarþegann Ísland í þessu tilfelli, í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins. Með leyfi forseta ætla ég að vitna beint í skjalið með framhaldið, að þar á meðal „eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga, eru samningsaðilar sammála um að hrinda í framkvæmd verkefnum á ýmsum sviðum eins og fram kemur í IPA-rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni og eins og hæfir aðstoðarþeganum“.

Hér er verið að tala um að breyta réttarreglum með aðild aðstoðarþegans Íslands í huga. Hvað þýðir þetta ef ekki að laga Ísland að reglum ESB þegar hér er talað sérstaklega um að breyta réttarreglum aðstoðarþegans?

Síðan kemur hér um skyldur aðstoðarþegans að hann eigi að tryggja að allar stuðningsaðgerðir séu viðeigandi og eigi að greiða fyrir framgangi áætlana.

Þegar fjallað er um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð eru í 5. gr. jafnframt raktar þær meginreglur sem gilda um fjárhagslega aðstoð ESB samkvæmt reglum IPA. Í b-liðnum í 1. tölulið kemur fram „að aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB“. Hvað þýðir að stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB ef ekki að samræma réttarreglur Íslands og réttarreglur ESB? Ég spyr.

Ef það var ekki meiningin með þessum samningi að vera í aðlögun eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan, að við værum undir einhverjum öðrum reglum en allar aðrar þjóðir sem hafa sótt um, hvers vegna er þetta þá þarna inni? Til hvers var Ísland að skrifa undir þetta, þ.e. ríkisstjórnin fyrir hönd aðstoðarþegans Íslands?

Síðan segir áfram í e-lið 1. töluliðar 5. gr. samningsins þegar meginreglurnar eru taldar upp, með leyfi forseta:

„hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB“.

Miðað við þennan samning leggur ESB þarna gríðarlega áherslu á að það sé ljóst hverjum manni að ESB styrki þau verkefni sem um ræðir. Af hverju leggur ESB svona mikla áherslu á þennan sýnileika? Það er ekki einungis fjallað um þetta í 5. gr., heldur er sérstök grein, 10. gr., sem heitir „Kynning og sýnileiki“ og er á bls. 12 í þingskjalinu. Í þrem töluliðum kemur fram að upplýsingum skuli beint til borgara og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB. Hver er tilgangurinn með því? Ég átta mig engan veginn á því út frá þeirri umræðu sem hefur átt sér stað hér af hálfu 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Þetta eru afskaplega athyglisverðar pælingar, bæði varðandi markmiðin með þessum samningi og eins áhersluna á þennan sýnileika. Síðan væri mjög gaman að fara í löngu máli og ítarlega yfir þau atriði í samningnum sem varða skattalegu hliðina. Ég gerði það að hluta til í ræðu minni í umræðunni um hið fyrra mál sem hefur verið rakið svolítið í dag, mál sem fjármálaráðherra lagði fram um skattalegu meðferðina. Samningurinn sjálfur liggur hér til grundvallar og mætti svo sem ræða en ég tel ekki rétt að einbeita mér að ákvæðum í umræðunni um þetta mál heldur mun geyma það þangað til frumvarpið sjálft verður tekið fyrir, væntanlega seinna í kvöld eða á morgun.

Frú forseti. Í öðru lagi er í samningnum fjallað um það hvernig eftirlit með þessum samningi eigi að fara fram. Ég hef svo sem engar sérstakar athugasemdir við það, en þetta eru þau meginatriði í samningnum sjálfum sem vert er að skoða.

Þá eru þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti 1. minni hluta, þar sýnist mér hvergi vera minnst á þau markmið með samningnum sem ég reifaði áðan. Það finnst mér athyglisvert vegna þess að mér sjálfri finnst það aðalatriðið. Ef maður gerir samning hlýtur maður að vera með einhver markmið, einhvern tilgang, með því að gera þann samning. Það er alveg ljóst af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hver markmið þess eru, þessi áhersla á sýnileikann og kynningarstarfið, sem og að þessi fjárhagsaðstoð sé til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að aðstoðarþeginn gerist aðili að Evrópusambandinu.

En hvað var Ísland að hugsa með því að undirrita samning við Evrópusambandið? Um hvaða styrki var íslenska ríkisstjórnin að hugsa þegar hún undirritaði þetta ákvæði um fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar umbætur? Hvaða tilvik falla þarna undir sem ríkisstjórn Íslands og þeir sem styðja þetta mál láta sér til hugar koma? Það væri ágætt að fá það fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni.

Í öðru lagi spyr ég: Hvaða efnahagslegu umbætur er verið að tala um að gera í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Hvað vakti fyrir mönnum með því að undirrita þetta?

Síðan eru stjórnsýslulegu umbæturnar.

Það væri ágætt að fá svolitla sundurgreiningu á þessu hjá þeim hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem hér eru staddir í kvöld og styðja þetta mál.

Í löngu máli hefur verið fjallað um, bæði hér í þessari umræðu og eins áður þegar Evrópusambandsmálin hefur borið á góma, hvort um aðlögun sé að ræða eða ekki. Ég tel að hverjum manni megi vera ljóst að það er verið að laga Ísland að Evrópusambandinu og kerfi þess. Ég skil ekki af hverju þeir fulltrúar sem eru á þingi og styðja það að Ísland sé í þessu ferli, styðja þessa aðlögun að Evrópusambandinu, viðurkenna það ekki einfaldlega. Ef menn eru búnir að sækja um og hafa trú á því að þeir vilji standa við þá umsókn, af hverju afneita menn því þá að þeir séu í þessu ferli? Ég skil það ekki og ekki heldur af hverju menn tala bara ekki hreint út. Sumir þingmenn hafa gert það, en ekki þeir sem hér hafa talað í dag og styðja þetta mál.

Þess vegna er einhvern veginn eins og verið sé að reyna að slá ryki í augu okkar hér og í augu þjóðarinnar í þessari umræðu. Það stendur einfaldlega í samningnum sjálfum sem ríkisstjórn Íslands hefur undirritað að þessi fjárhagsaðstoð sé til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þetta stendur hérna svart á hvítu.

Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar og tel að það sé öllum ljóst að ekki sé rétt að eyða tíma og kröftum okkar í þessa aðildarumsókn og mundi kjósa að hún yrði dregin til baka. Ég tel reyndar að alveg sama hvorum megin menn standa, hvort menn eru svokallaðir aðildarsinnar eða á móti því að við sækjum um aðild og séum í aðlögunarferli að ESB, hljóti menn að vera sammála um að ferlið allt er í ógöngum. Og það er vegna þess hvernig staðið var að málinu í upphafi. Við sjálfstæðismenn lögðum hér til að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla áður en umsókn yrði lögð fram til að það lægi fyrir hvort vilji væri hjá þjóðinni til að fara í þessa vegferð. Þeirri tillögu var því miður hafnað.

Hins vegar náði Samfylkingin á einhvern óskiljanlegan hátt að teyma Vinstri hreyfinguna – grænt framboð inn í það að senda inn umsókn að Evrópusambandinu. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef vart tölu á þeim kjósendum Vinstri grænna sem ég hef hitt og hafa lýst furðu sinni á þessari skrýtnu afstöðubreytingu Vinstri grænna. Menn höfðu ástæðu til að ætla, út frá málefnabaráttu þess flokks fyrir alþingiskosningar, að það væri það síðasta sem Vinstri grænir mundu gera. Nokkrir hv. þingmenn, bæði núverandi og fyrrverandi meðlimir í VG, hafa staðið á sannfæringu sinni í þessu máli, en aðrir eru komnir það langt frá henni að ég átta mig ekki á þeim sinnaskiptum. Auk þess virðast menn ekki viðurkenna að þeir hafi samþykkt þetta aðlögunarferli. sem er í fullum gangi og okkur öllum ljós, sérstaklega nú þegar við erum að ræða þennan samning sem ríkisstjórnin hefur gert við ESB.

Þetta er afskaplega sérkennilegt allt saman og þar sem ýmsir þingmenn hafa lýst því yfir að þetta mál sé komið í ógöngur tel ég, og það er enn sannfæring mín, að það besta sem við gætum gert hér í dag væri að draga þessa umsókn til baka og hætta þessu ferli. Ég hef sagt það oft áður að það er ekki fallegt að sækja um aðild í einhverjum klúbbi sem maður hefur engan áhuga á að vera í.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir velti því upp í andsvari áðan við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort það væri siðferðislega rétt að taka við þessum styrkjum þegar ljóst væri að ekki væri vilji til að ganga í Evrópusambandið. Hv. þingmaður hélt því fram að við þyrftum að svara spurningum um þetta seinna þegar í ljós kæmi þessi vilji okkar til að fara ekki inn. Mér finnst þetta alveg ágætispunktur og við munum þá í framtíðinni sjá hvaða afleiðingar þetta mun hafa. Ég tel að við séum ekki á réttri braut. Ég tel, sama hvort maður er aðildarsinni eða andstæðingur þess að við göngum í Evrópusambandið, að við hljótum að vera sammála um að það sé ekki eðlilega að þessu ferli staðið.

Frú forseti. Ég hlakka til að fá að heyra, eins og ég sagði áðan, seinni ræðu eða ræður hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem hlustar hér af athygli á spurningar mínar þar sem hann mun svara því hvað átt sé við með þeim ákvæðum í samningnum sjálfum sem ég vitnaði til áðan og hvernig hægt sé að halda því fram að það sé nokkur annar tilgangur með þessum rammasamningi en sá að laga Ísland að Evrópusambandinu.



[21:11]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt af verkefnunum af því að hann fór í raun ekki í þau verkefni sem hér liggja fyrir, heldur hélt miklar ræður um orðalag samningsins sem ég vona að við getum komið aðeins inn á á eftir. Það er verkefnið Katla jarðvangur sem á að fá milli 90 og 95 millj. kr. sem IPA-styrk af þeim 124 eða 125 millj. kr. sem áætlaðar eru nú til þess að reyna að koma verkefninu af stað. Hv. þingmaður ætti að kannast aðeins við verkefnið vegna þess að þrjú sveitarfélög á Suðurlandi, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra, standa að því ásamt ýmsum samstarfsmönnum. Í blaði sem rætt hefur verið í kvöld og heitir Sveitin, sem gefið er út af stuðningsmönnum aðildarumsóknarinnar þar sem gefnar eru upplýsingar, þar á meðal þingmönnum, er rætt við Steingerði Hreinsdóttur hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Hún lýsir verkefninu mjög jákvætt — við vissum nú aðeins af því áður — og segir að í því felist tækifæri í ferðaþjónustu. Steingerður segir meðal annars að IPA-ferlið hafi verið lærdómsríkt og að styrkurinn feli í sér, með leyfi forseta, „ómetanlegt stofnframlag en vonir standi til þess að verkefnið verði sjálfbært þegar fram líða stundir“.

Telur hv. þingmaður að Steingerður Hreinsdóttir, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra, háskólarnir sem að þessu standa og fólkið á Suðurlandi, sé mútuþegar, sé að taka á móti perlum og eldvatni, sé að niðurlægja sjálft sig og Íslendinga með því að fá þennan atvinnuþróunarstyrk á svæðið (Forseti hringir.) sem mátt hefur líða fyrir náttúruhamfarir og ódugnað stjórnmálamanna og ýmissa annarra við að (Forseti hringir.) halda fram hagsmunum á svæðinu? Telur þingmaðurinn það?



[21:13]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það sé fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir hv. þm. Mörð Árnason að tala með þessum hætti í ræðustól. Ég hef hvergi í minni ræðu talað um mútur eða niðurlægingu og þess vegna ætti hv. þingmaður að reyna að halda sig við það að vera á málefnalegum nótum (Gripið fram í.) hér sem í öðrum ræðum. Það virðist frekar erfitt fyrir hv. þingmann.

Mér finnst mjög athyglivert að hann gagnrýni það að ég fari yfir samninginn í ræðu minni vegna þess að þetta mál grundvallast á honum.

Varðandi verkefnið um jarðvanginn er þetta frábært verkefni. Mér þætti mikill sómi að því ef við Íslendingar gætum staðið saman um að styrkja verkefni sem þetta. Ég tel hins vegar að það eigi að vera á okkar eigin forsendum og við höfum fulla burði til að taka ákvarðanir um það sjálf hvaða verkefni við viljum ráðast í og hvaða verkefni við viljum styrkja.

Það er mjög athyglisvert að hv. þingmaður velji sér að fara í málið á þennan hátt og láti að því liggja að ég sem þingmaður Suðurkjördæmis og íbúi á þessu svæði vilji ekki framgang þessa verkefnis af því að ég vil ekki að við séum ölmusuþegar hjá Evrópusambandinu, eins og stendur hér, að við séum aðstoðarþegar. Ég tel að við getum tekið sjálfstæðar ákvarðanir utan ESB um að styrkja ýmis verkefni bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni okkur öllum til framdráttar og sérstaklega til að vekja athygli á okkar frábæru náttúru.

Ég tel reyndar að við mættum huga mun betur að hinum dreifðu byggðum í Skaftárhreppi og Skaftafellssýslum (Gripið fram í.) vegna þess að það er virkilega þörf á því að bregðast (Forseti hringir.) við þeim mikla vanda sem steðjar að þeim sveitarfélögum í (Forseti hringir.) byggðamálum, sérstaklega Skaftárhreppi. Ég hvet hv. þingmann til að beita sér (Forseti hringir.) fyrir því innan þingflokks síns.



[21:16]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að fram komi að öll orðin sem ég notaði hér eru tínd út úr umræðu sem þegar hefur farið fram um þetta mál, að vísu ekki úr ágætlega hófstilltri ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur.

Það er líka rétt að fram komi að ég var ekki að gagnrýna að hér væri farið í gegnum samninginn. Ég tel algjörlega eðlilegt að það sé gert og ég á von á því að hv. formaður utanríkismálanefndar svari síðar í þessari umræðu og vil leggja það til þess máls að þegar rætt er um pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar forsendur í þessum samningi verður auðvitað að muna eftir því að hann er fyrst og fremst gerður fyrir hin nýju umsóknarríki úr Austur-Evrópu. Orðið pólitískur í þessum skilningi varðar sumsé ekki Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu eða annað því um líkt, heldur varðar það lýðræði og mannréttindi fyrst og fremst.

Um jarðvanginn Kötlu hef ég greinilega hitt á eitthvert vitlausabein á hv. þingmanni. Ég spyr hv. þingmann í framhaldinu: Hvað ráðleggur hv. þingmaður Steingerði Hreinsdóttur og öðrum forsvarsmönnum verkefnisins að gera þegar hann (Forseti hringir.) hefur sjálfur komið í veg fyrir að þeir geti fengið þennan IPA-styrk sem þau hafa svo sannarlega (Forseti hringir.) unnið fyrir eins og fram kemur í hinu ágæta blaði Sveitinni?



[21:17]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kannast ekki við að hafa lagt stein í götu jarðvangsins og skil ekki alveg hvað þingmaðurinn á við. En ég hvet Sunnlendinga og hvern þann sem hefur metnað fyrir því að vinna að göfugum verkefnum til að styðja bæði byggðaþróun og atvinnuþróun í hinum dreifðu byggðum landsins, sérstaklega á hinum viðkvæmu svæðum í Skaftárhreppi, að leggja fram erindi á Alþingi og óska eftir stuðningi þess í gegnum fjárlögin.

Ég skora á hv. þingmann, sem hefur greinilega mikinn áhuga á málum í Skaftárhreppi, Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi, að einbeita sér nú að því að hvetja ríkisstjórnina áfram í því að styðja við þær veiku byggðir sem um er rætt vegna þess að það er fólksfækkun á þessum slóðum og ekki veitir af liðsinni góðra þingmanna úr öðrum kjördæmum. Ég fagna því sérstaklega að (Forseti hringir.) hv. þm. Mörður Árnason sé nú kominn með okkur í baráttuna. (Gripið fram í.)



[21:18]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágæta ræðu sem hún flutti áðan um þennan rammasamning. Það sem hefur komið fram hér í umræðunni og m.a. í ræðu hennar er nokkuð sem hún gerði kannski meira af en aðrir þingmenn sem hafa talað hér fyrr í kvöld, þ.e. hún fór í það minnsta yfir samninginn og spurði framsögumanninn, hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, fjölmargra spurninga. Ég vænti þess að hann svari þeim undir lok umræðunnar ef hann fer ekki í andsvar við hv. þingmann.

Það sem vakir fyrir mér, og hv. þingmaður kom aðeins inn á í ræðu sinni, er hugtakið aðlögun sem hefur farið mjög í skapið á þeim sem standa fyrir aðildarumsókninni og aðildarviðræðunum. Þeir hafa frá því að aðildarumsókn var samþykkt sumarið 2009 má segja barist um á hæl og hnakka til að sverja af sér að hér sé um aðlögun að ræða. Ef maður skoðar þennan samning og greinargerðina og fyrirmyndina frá austantjaldslöndunum getur maður ekki séð annað en þetta séu styrkir til að laga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu.

Því vil ég spyrja hv. þingmann af hverju hún telji að þeir sem trúa því að þetta ferli sé svona opinskátt, gegnsætt og gott — og jafnvel sá hluti þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið — vilji ekki kannast við að þetta sé aðlögun. Það er svo miklu heiðarlegri og hreinni umræða að ræða þetta á þeim nótum í stað þess að vera alltaf að fela sig á bak við eitthvað sem ekki er. Samkvæmt því sem ég get best lesið út úr þessu, og mér heyrðist þingmaður (Forseti hringir.) einnig gera, er að IPA-styrkir séu ekkert annað en aðlögunarstyrkir.



[21:20]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég hef einmitt verið mjög hugsi yfir því síðasta árið eða svo af hverju það er ekki viðurkennt einfaldlega að aðlögun er í gangi, hefur verið í gangi og er á fullri ferð.

Ég tel að það sé vegna þess, frú forseti, að sumir þingmenn fóru mikinn í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar og héldu því fram að þeirra skoðun væri sú að við ættum ekki samleið með Evrópusambandinu. Hinir sömu þingmenn urðu síðan að styðja tillögu ríkisstjórnarinnar um að sækja um aðild. Einhvern veginn þurfa menn að reyna að komast standandi út úr því að fara svo gegn því sem þeir héldu fram gagnvart kjósendum sínum. Ég held að þetta sé þeirra aðferð til þess. Ég get ekki lesið annað út úr því. Ég er svo sem ekki með neina skyggnigáfu en þetta eru þær ályktanir sem ég dreg, bæði af því sem rætt hefur verið í þessum sal og út frá því að ýmsir þingmenn sem ekki eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa sagt að aðlögun sé í gangi.



[21:22]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Forseti. Það má vera að þetta sé ástæða þess að menn eiga erfitt með að viðurkenna aðlögunarferlið. Ég hef ákveðinn skilning á því en fyrir vikið hef ég enn minni skilning á þeim sem er þetta hjartans mál og trúa því að það sé rétt að Ísland gangi í Evrópusambandið, ekki einasta að við séum í þessum aðildarviðræðum heldur vilja þeir að við göngum alla leið, því að sá hópur virðist ekkert vera síður haldinn þessari hræðslu við að viðurkenna aðlögunarferlið.

Það voru fyrst og fremst þingmenn Vinstri grænna sem fóru út í kosningabaráttu um að þeir ætluðu aldrei að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en standa síðan að því. Þeir tóku líka þátt í að greiða atkvæði við fjárlagagerðina. Ég vil spyrja hv. þingmann hver siðferðisstaða þeirra verður gagnvart (Forseti hringir.) því að hafa greitt atkvæði við fjárlagagerðina (Forseti hringir.) og sitja svo í súpunni ef þeir hafna þessum IPA-styrkjum. Hvernig horfir við þingmanninum sú staða (Forseti hringir.) sem þeir (Forseti hringir.) þingmenn eru í?



[21:23]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðna samúð með hv. þingmönnum Vinstri grænna sem þurftu að fara gegn sannfæringu sinni til að ná völdum og vera í ríkisstjórn með Samfylkingunni, að mínu mati, og styðja að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Ég mundi ekki vilja vera í þeirra sporum og þurfa að rökstyðja það eftir því sem sporin verða fleiri inn í aðlögunarferlið. Það er öllum mönnum ljóst að við erum í þessu aðlögunarferli og erum að aðlagast Evrópusambandinu. Ég tel þá hv. þingmenn ekki öfundsverða að vera í þessari stöðu.

Ég veit ekki hvernig hinir sömu hv. þingmenn rökstyðja þetta svo fyrir kjósendum sínum þegar þeir (Forseti hringir.) rekast á þá á förnum vegi vegna þess að ég hitti fullt af fólki (Forseti hringir.) sem greiddi Vinstri grænum atkvæði sitt vegna stefnu flokksins í Evrópumálum.



[21:25]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og innlegg í þessum efnum. Ég vil halda því til haga að ég staðhæfði ekki í ræðu minni, hv. þingmaður kom inn á það. Ég staðhæfði ekki að við mundum lenda í vandræðum ef svo má segja, en ég velti því upp. Mér finnst það spurningarinnar virði hvort þetta sé heiðarleg framganga.

Mér fannst, virðulegi forseti, orðaskipti hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og hv. þm. Marðar Árnasonar vera mjög lýsandi fyrir þá erfiðu stöðu sem fólk sem mótmælir þessum styrkjum er sett í. Þetta eru að sjálfsögðu frábær verkefni sem allir vilja styðja. Ég segi fyrir mína parta að ég vil svo sannarlega styðja frábær verkefni og gott framtak. Þá er maður settur í þá ömurlegu stöðu að segja: Því miður, það eru allt of stórar spurningar varðandi það að þiggja þetta fé fyrir ríki sem er ekki enn búið að gera upp við sig hvort það ætli yfir höfuð að ganga í Evrópusambandið og fór í viðræðuferli á annars konar forsendum en mörg önnur ríki hafa gert.

Mig langar að biðja hv. þingmann að svara sínum eigin spurningum ítarlegar. Hvers vegna eyðir ESB peningum sínum í þessi góðu verkefni? Er það til þess að setja okkur í þessa erfiðu stöðu? Þurfum við að svara fyrir það hvers vegna hv. þingmenn Suðurlands bregðast (Forseti hringir.) kjósendum sínum þar? Hvers vegna er svona gríðarlega mikilvægt að þetta sé sýnilegt? (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann um að svara þeim spurningum sem hún spurði sjálf.



[21:27]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða andsvar.

Mín skoðun er sú að tilgangur Evrópusambandsins sé að bæta ímynd sína hér á landi, gera hana jákvæðari í augum hins almenna borgara á Íslandi og ná þannig tökum á kjósendum þessa lands í þeirri von að þeir breyti afstöðu sinni þegar að því kemur að taka afstöðu til aðildarsamnings Íslands og ESB. Það er það sem ég tel að sé í gangi.

Það var ágætt að hv. þingmaður greindi svo skemmtilega þau svör og andsvör sem fóru fram á milli mín og hv. þm. Marðar Árnasonar. Þetta eru akkúrat aðferðirnar sem beitt er til að setja okkur í skrúfstykki í þessu máli. Ert þú Unnur Brá á móti þessu góða verkefni sem verður heima hjá þér? Hvernig á ég að svara þessari spurningu? Þetta er eins og að spyrja: Ertu hættur að berja konuna þína? Þetta er sama aðferðafræðin.

Mér fellur þetta ekki í geð. Ég skil ekki, hæstv. forseti, ef þetta er allt saman svona saklaust og tilgangurinn svona göfugur — til hvers þarf þá þessa gríðarlegu áherslu á kynningu og sýnileika? Af hverju sleppti ESB því ekki í þessum samningi að auglýsa í bak og fyrir hvað ESB dælir miklum peningum í þessi verkefni? Ef þetta er eingöngu til að styðja falleg og góð verkefni sem við öll getum svo sannarlega tekið undir að séu göfug, til hvers þarf þá að auglýsa það í bak og fyrir?

Að mínu viti er það einfaldlega til þess að bæta ímynd Evrópusambandsins í huga íslenskra kjósenda.



[21:29]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég bar upp þá hugmynd um daginn að til að vera siðleg ættum við Íslendingar að segja þeim hjá Evrópusambandinu að við afþökkuðum þessa styrki en legðum til í nafni evrópskrar samstöðu að þeir yrðu gefnir Grikklandi, Spáni eða öllum þeim þjóðum Evrópusambandsins sem búa nú við hálfgerða neyð, liggur mér við að segja. Þetta var sagt í hálfkæringi og gríni, en þetta er samt hugsað í alvöru. (Gripið fram í: Og láta Steingrím fylgja með?) Þetta er samt hugsað í alvöru. (Gripið fram í.)

Þá kemur að því aftur að alltaf er verið að tala um að allir verði að bíða eftir þessum samningi annars vitum við ekki neitt um hvað málin snúast — það verður að bíða eftir samningi.

Mig langar að spyrja: Þekkir hv. þingmaður til einhvers konar samninga (Forseti hringir.) annarra en þeirra sem snúa að aðlögunarferli að ESB, einhvers konar samninga milli tveggja frjálsra ríkja þar sem annað ríkið kemur (Forseti hringir.) færandi hendi með fjármagnsgjafir í viðræðuferlinu og (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) þær eiga ekki að hafa nein áhrif á samningana? Er fyrirmynd einhvers staðar annars staðar en einmitt (Forseti hringir.) hjá þeim ríkjum sem (Forseti hringir.) ætla sér að verða aðilar að Evrópusambandinu?

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að virða tímamörk og sérstaklega þegar tíminn er svo naumur sem ein mínúta.)



[21:31]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stórt er spurt og aðeins ein mínúta til ráðstöfunar.

Í fljótu bragði detta mér engir samningar milli einstakra ríkja í hug, en ég get tekið mið af samningaviðræðum inni á mínu eigin heimili þar sem stöku sinnum bregður móðirin á það ráð eftir langar fjarvistir frá heimili þegar börnin vilja ekki láta að stjórn að lofa gulli og grænum skógum gegn því að fá eitthvað endurgjald. Þetta er sú samlíking sem ég get tekið úr mínu daglega lífi. Það er spurning hvort þetta sé nokkuð sem maður á að gera því að samkvæmt uppeldishandbókum er það ekki gott.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, samanber þá tillögu að biðja Evrópusambandið frekar að ráðstafa þessum fjármunum til Grikklands eða eitthvert annað, er það góðra gjalda vert og væri bara ágætt, en við höfum ekkert um það að segja hvernig ESB eyðir fé sínu. Það velur að gera það hér. Það er athyglisvert að við sem eigum ekki mikil fjárráð akkúrat á þessum tímum (Forseti hringir.) skulum þurfa að standa í umræðu eins og ég þurfti að gera við hv. þm. Mörð Árnason sem spurði: Hvað á Steingerður Hreinsdóttir (Forseti hringir.) sem fer fyrir jarðvangnum að gera? Hvert á hún annað að sækja sér peninga? (Gripið fram í.) Er verið að nota okkar bágu (Forseti hringir.) fjárhagsstöðu til að reyna að koma okkur í Evrópusambandið? (Gripið fram í.) (MÁ: Hefur þú …) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): Gefum hljóð í þingsal.)



[21:33]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu en höfum rætt fyrr í þessari umræðu um IPA-styrki frumvarpið sem kemur fram í kjölfarið á þingsályktunartillögunni. Samkvæmt mínum kokkabókum hefði frumvarpið kannski ekki átt að koma fram fyrr en þingsályktunartillagan hefði verið samþykkt og í kjölfar þess hefði undirritaður rammasamningur kannski átt að líta dagsins ljós.

En hér er öllu umsnúið. Byrjað var á því að gera rammasamning milli Íslands og Evrópusambandsins. Hann var síðan í felum. Þá settu menn við fjárlagagerðina inn styrki upp á tæpar 600 milljónir sem voru keyrðir í gegn og samþykktir af meiri hlutanum. Í kjölfarið á því, hálfu ári eftir að þessi verknaður var allur um garð genginn, eru þingsályktunartillaga og frumvarp lögð fram á sama tíma, nú á þessu ári.

Ég átel þessi vinnubrögð harðlega. Ég vildi gjarnan heyra álit framsögumanns og formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, á því hvort þetta sé verklag sem eigi að viðhafa, hvort það sé viðhaft, hvort það hafi verið viðhaft áður og verði viðhaft aftur, eða hvort um sé að ræða undantekningartilvik, að menn hafi séð að sér og komi til þings auðmjúkir og biðjist afsökunar á að hafa klúðrað málum með þessum hætti og lofi því að slíkt gerist aldrei aftur. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram.

Mér finnst líka mikilvægt að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, framsögumaður og formaður utanríkismálanefndar, skýri það verklag sem viðhaft er í utanríkismálanefnd fyrir okkur hinum en trúnaður ríkir um það sem þar fer fram eins og við þekkjum. Varðandi það verklag sem viðhaft er við umræðu, í lok umræðu og síðan þegar mál eru tekin úr nefndum spyr ég hvort eðlilegt verklag hafi verið viðhaft þegar málið var afgreitt frá nefndinni og hvort algengt sé að það sé gert með þessum hætti, eða hvort um sé að ræða undantekningu og menn muni sjá að sér og biðjast afsökunar á þessu og lofa að slíkt gerist ekki aftur. Mér finnst mikilvægt að við hér í þinginu áttum okkur á því hvort þetta verklag sé almennt viðurkennt og almennt viðhaft.

Þingsályktunartillagan er sem sagt lögð fram í framhaldi af rammasamningi sem var undirritaður 8. júlí á síðasta ári. Samningurinn fylgir sem fylgiskjal með tillögunni.

Í sjálfri þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Það er venja að alþjóðastofnanir gera samninga við yfirvöld þeirra ríkja (gistiríkja) sem þær eru staðsettar í.“

Nú vil ég spyrja: Er þetta eðlilegt? Þessi sama spurning kom fram í andsvörum hér áðan hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ég tel fullkomlega óeðlilegt að einn aðili sem er í samningaviðræðum við annan beri fé á mótaðilann. Það hlýtur að vera fáheyrt. Ég trúi því ekki sem stendur í þingsályktunartillögunni að venja sé að gera alþjóðasamninga á þann hátt að fé sé borið á annan aðilann. Í því sambandi er líka vert að hafa í huga að annar aðilinn er 27 þjóðríkja tollabandalag með 500 milljóna íbúamarkað en hinn er lítið land með rúmlega 300 þúsund íbúa. Ég trúi því ekki að þetta sé alsiða, að þetta sé venja sem menn séu sáttir við.

Á bls. 2 er inntak samningsins dregið saman. Það hefur nú kannski ekki verið farið mikið yfir það, en ég ætla að hlaupa yfir það. Inntak samningsins er fólgið í eftirtöldum atriðum: stjórnun IPA-aðstoðar, almennum skilyrðum fyrir styrkveitingum, styrkhæfi verkefna, viðmiðunum um mótframlög, útboði verkefna, gegnsæi í vali, sýnileika verkefna, tímabundinni dvöl útlendinga sem bjóða í, undanþágu IPA-styrkja frá opinberum gjöldum — sem kemur fram í frumvarpinu sem við höfum rætt áður og er í átta greinum, þar sem fram koma allar mögulegar og jafnvel óhugsandi aðstæður þar sem þeir sem koma inn í þetta land fá undanþágur frá öllum opinberum gjöldum — yfirumsjón, eftirliti og endurskoðunarheimildum, fráviki og vörnum gegn misferli og úrlausn ágreiningsmála.

Samningurinn skiptist í fimm þætti. Auk almennra ákvæða í inngangi tekur hann til stjórnunarþátta, reglna um fjárhagsaðstoð, reglna um framkvæmd aðstoðarinnar og eftirlits með meðferð þess fjár sem móttekið hefur verið. Í 8. gr. í IV. þætti, um framkvæmd verkefna, kemur fram að framkvæmdastjórnin annist stýringu á aðstoð við Ísland. Ég verð að viðurkenna að þetta þarf útskýringar við. Ég skil þetta ekki alveg. Í framhaldinu segir:

„Kemur það til af því að aðstoð við Ísland er í samanburði við önnur umsóknarríki afar takmörkuð.“

Er þessi setning skýringin á því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti hér í ræðu sinni, eða hvort það var í andsvari, þ.e. að umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu væri mjög eðlisólík umsóknum annarra umsóknarríkja?

Fjallað er um það að framkvæmdastjórnin annist þá umsjón sem stjórnvöldum í öðrum umsóknarríkjum sé gert að sinna sjálfum. Við erum sem sagt í samningaviðræðum við Evrópusambandið og Evrópusambandið sjálft annast stýringu á aðstoð við Íslendinga, við samningsaðilann, ef ég skil þetta rétt. Síðan er fjallað um fjármögnunarsamninginn sem er þessi IPA-aðstoð.

Allt er þetta dálítið tormelt að mínu viti og ég verð að segja eins og er að þetta snertir siðferðisstreng í hjarta mínu sem ég tel hreint út sagt að menn eigi ekki að stíga yfir.

Í nefndaráliti 1. minni hluta — sem er undirritað af fjórum hv. þingmönnum og þar á meðal formanni nefndarinnar og framsögumanni, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni — er fjallað um að verið sé að leita eftir heimild til Alþingis til að samþykkja þennan rammasamning. Það er löngu búið að undirrita þann samning og búið að samþykkja ákveðin framlög í fjárlögum og nú fyrst er verið að leita eftir heimild til þess að gera þetta. Þetta er nú svolítið sérstakt.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Samningurinn er gerður í samræmi við regluverk ESB og fjallar í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfun þeirra, en sams konar samningur hefur verið gerður við öll ríki sem sótt hafa um aðild að ESB eftir 1994, auk Tyrkja.“

Aðeins neðar stendur:

„Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld.“

Ég spyr: Hvað finnst þingmönnum um þetta? Ég spyr sérstaklega hv. þingmenn Vinstri grænna hvað þeim finnist um að í gangi séu samningaviðræður þar sem fé er borið inn í samningslandið og engir skattar greiddir af því, engin gjöld, engin opinber gjöld.

Í nefndaráliti 2. minni hluta — sem er undirritað af hv. þingmönnum Ragnheiði Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigurgeir Sindra Sigurgeirssyni, sem sat hér sem varaþingmaður í fjarveru hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar — er fjallað um tilganginn og hvernig ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar í utanríkismálanefnd hafa afgreitt þetta mál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„… aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins leiðir ekki til þess eins að unnt sé að „kíkja í pakkann“ í Brussel heldur er óhjákvæmilegt að laga innviði umsóknarríkisins, lög og stjórnsýslu að kröfum ESB. Afgreiðsla tillögunnar úr utanríkismálanefnd og afstaða 1. minni hluta sýnir að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa gefist upp við að hylma yfir hið rétta eðli aðildarumsóknarinnar, hún hefur leitt til aðlögunarferlis. IPA-styrkir eru veittir umsóknarríkjum til að standa undir kostnaði við aðlögunina.“

Ég vil líka staldra við hér og velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum þingmenn stjórnarmeirihlutans, sem aðhyllast bæði aðildarviðræðurnar og þessa IPA-styrki, geta ekki viðurkennt að um aðlögun sé að ræða. Mér hefði fundist það miklu hreinlegri umræður.

Áfram segir í áliti 2. minni hluta, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti telur að hvorki ESB-umsóknin sjálf né aðlögunarviðræðurnar gefi tilefni til að samþykkja þennan samning eða setja sérstök lög um framkvæmd hans.“

Hér vil ég einnig staldra við og segja: Það finnst mér ekki heldur. Mér finnst ekki ástæða til að þiggja styrki þegar við erum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem ég hefði svo sem heldur ekki viljað vera í. Ég hef engan áhuga á að ganga í Evrópusambandið og tel að það þjóni ekki hagsmunum Íslands best.

Rétt er að rifja upp, af því sú umræða hefur spunnist hér, ekki síst í andsvörum við hv. þm. Mörð Árnason sem hefur gengið nokkuð hart fram, að þessir IPA-styrkir eru ætlaðir í mjög góð verkefni. Sú spurning vaknar hvort verið sé að koma þingmönnum í mjög erfiða og kannski óleysanlega klípu þegar búið er að samþykkja fjárlög og ef ég hef skilið stjórnarliða og hv. þm. Mörð Árnason rétt þá falla verkefnin niður falli IPA-styrkirnir niður. Ég hefði hallast að skilningi hæstv. utanríkisráðherra við 1. umr. þessa máls, og kemur líklega fram í nefndaráliti við frumvarpið sjálft, að ef IPA-styrkirnir féllu niður mundi kostnaðurinn falla á ríkissjóð.

Ég tel rétt að rifja það upp þegar við fyrir nokkrum áratugum vorum mun fátækari en við erum í dag. Þrátt fyrir allt höfum við lifað mun svartari tíma og við þurfum ekki að horfa lengra aftur en 100 ár, jafnvel 80 ár. Í síðari heimsstyrjöldinni buðust Bretar til að leggja bæði heitt og kalt vatn og tengja í öll hús gegn ákveðnum fríðindum, gegn því að fá aðgang að auðlindinni og hafa tögl og hagldir í því hvernig íbúar Reykjavíkur yrðu þjónustaðir. Um þetta urðu harðar deilur á þeim tíma. Þar voru aðilar sem töldu að þarna værum við að fá allt fyrir ekkert. Þar voru aðilar sem töldu að nú væri verið að rétta okkur hjálparhönd, okkur sem þyrftum svo sannarlega á því að halda. En sem betur fer, ég held að það sjái það allir í dag, sagði fólk: Við viljum stjórna þessu sjálf. Við höfum vissulega minni fjármuni en breska heimsveldið en við viljum gera þetta sjálf á okkar hraða, samkvæmt okkar getu. Auðvitað er það þannig með þessi góðu verkefni að við ættum sjálf að standa á bak við þau. Ef við teljum þau vera góð og horfa til framfara þá eigum við sjálf að standa fyrir þeim.

Lýðræðið kostar. Meiri hluti þingsins samþykkti hér í dag að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem kostar um 250 milljónir. Kostnaðurinn við allt það ferli sem meiri hlutinn hefur farið í í sambandi við breytingar á stjórnarskrá er þar með orðinn meiri en milljarður. Lýðræðið kostar. Það kostar líka að vera sjálfs síns herra.

Ég vil minna á að það verkefni sem talsvert hefur verið fjallað um í þessu sambandi, Kötlu jarðvangur, sem snýr að þróun og eflingu atvinnu og byggðaþróun á Eyjafjallajökulssvæðinu, er mjög jákvætt verkefni. Það er annað verkefni í 20/20 áætlun ríkisstjórnarinnar, svokölluð Kirkjubæjarstofa, sem mun kosta yfir milljarð þegar upp er staðið. Hún var sett í forgang af sunnlenskum sveitarfélögum. Hvað sagði meiri hlutinn? Hvað var meiri hluti þingsins í fjárlagagerðinni tilbúinn að setja mikla fjármuni í það verkefni? 25 milljónir. 250 milljónir voru settar út í dag til að spyrja þjóðina fimm spurninga sem ekki voru endilega bestu spurningarnar eða þær nauðsynlegustu og alveg örugglega ekki allar þær álitaspurningar sem þarf að spyrja. 25 milljónir voru þeir tilbúnir til að setja í þetta.

Ég hef um nokkurt skeið unnið að þingsályktunartillögu en ekki haft tíma til að leggja hana fram hér á vorþingi, mun væntanlega gera í haust. Hún er um sértækar aðgerðir sem grípa þarf til á þessu svæði þar sem Kötlujarðvangsverkefnið, Kirkjubæjarstofa, virkjanir, efling landbúnaðar, efling samgangna, eru allt lykilatriði til að styrkja byggð á þessu svæði. Það verkefni þarfnast nokkurra fjármuna. Þeir koma ekki allir í einu, ekki miðað við stöðuna eins og hún er. En ef raunin er sú að mikill meiri hluti þeirra sem eru hér inni telur þessi verkefni afar góð þá býst ég við stuðningi við slíka þingsályktunartillögu þar sem um er að ræða sértækar aðgerðir og einhverja framkvæmdaáætlun og fjármögnunaráætlun sem tryggir að hægt sé að snúa við íbúaþróun á þessu svæði. En að við séum háð því að samningsaðili, risi sem er í aðildarviðræðum við, viðræðum sem eru verulega umdeildar, skipta þjóðinni í tvennt og valda deilum í ótrúlegustu málum — ég neita að trúa því að það sé forsenda fyrir því að hægt sé að koma til stuðnings þessum byggðum. Ég neita að trúa því að það sé forsenda fyrir því að hægt sé að halda úti byggð í landinu að teknir séu inn IPA-styrkir sem eru hluti af því að laga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu. Ég trúi því ekki. Ég mun alla vega hvetja menn til að fara í siðferðislega skoðun á því hvort það sé rétt verklag.

Það hefur komið til tals að á síðustu dögum, og ég þekki það sjálfur, hafi áróðursrit verið send heim til allra þar sem meðal annars er sagt frá þeim styrkjum og möguleikum sem Evrópusambandið býður upp á, að boðið sé upp á sérstaka ráðgjafa og námskeið til að kenna fólki að sækja um þessa styrki.

Ég nefndi það í stuttu andsvari í dag og ætla aðeins að koma inn á það undir lok máls míns að í landbúnaði í Danmörku — Danir eru mjög nákvæmir, skrá allt niður, eru mjög nákvæmir í bókhaldi og vinnuskýrslum — er haldið utan um það hversu mikill tími fer í hvaða verkefni, alveg frá því að Danir gengu inn líklega 1974.

Sá tími sem fer í pappírsvinnu við ýmislegt, þar á meðal umstang í kringum Evrópusambandið, hefur aukist um einhverjar mínútur á hverju einasta ári allt frá því Danir gengu þar inn. Ef ég man rétt er það komið yfir tvo klukkutíma á dag sem danski bóndinn þarf að sitja inni og fylla út umsóknir, fara á námskeið, skila inn pappírum til að geta lifað eðlilegu lífi í landbúnaðarstyrkjakerfi Evrópusambandsins. (Gripið fram í.) Er það sú framtíðarsýn sem talað er um í þessum áróðursritum? (Gripið fram í.) Þeir segja ekkert um það. Þeir tala bara um hina góðu styrki og möguleika sem menn geta nýtt sér. Þeir tala ekkert um það að verið sé að breyta starfinu úr því að vera starf sem byggist á því að auka framleiðni, að auka þá möguleika sem við höfum hér á Íslandi.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að auka íslenska landbúnaðarframleiðslu um 10%. Nú er hún búin að vera við völd í þrjú ár og það sést ekki tangur né tetur af slíkri stefnumörkun eða slíkum ræðum frá hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það hefur ekkert sést til slíkra hugmynda hjá þeim. Ekki neitt. En við höfum þann möguleika að stórauka landbúnaðarframleiðslu okkar og nota tíma fólksins í að vinna og framleiða og búa til útflutningstekjur, en sitja ekki inni við tölvur og skýrslugerð, umsóknir og eyðublöð, í að fara á námskeið, í pappírsvinnu. Finnar hafa upplifað þetta líka eftir að þeir gengu inn og eru farnir að átta sig á því.

Það er mín skoðun að frá 2009 hafi orðið verulegar breytingar — ég ætlaði að fara aðeins yfir stöðuna í Evrópu — á Íslandi. (Forseti hringir.) Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði fram fína tillögu í utanríkismálanefnd um daginn. Ég held að (Forseti hringir.) við ættum að fara að skoða það og hafna þessum IPA-styrkjum (Forseti hringir.) og koma okkur út úr því klúðurslega ferli sem við erum búin að koma okkur í.



[21:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu og þakka honum fyrir að hafa farið yfir það verkefni sem verið hefur aðeins í umræðunni í kvöld varðandi Kötlu jarðvang. Ég og hv. þingmaður erum samþingmenn úr Suðurkjördæmi og við þekkjum vel þann byggðavanda sem blasir við í byggðunum austan Markarfljóts, sérstaklega Skaftárhreppi. Mig langar að lýsa yfir ánægju minni og fagna því að við þingmenn Sunnlendinga sem öll stöndum saman um það að vilja bæta hag íbúa á þessu svæði höfum fengið aukinn liðsstyrk og skilning hér í þinginu vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason mun væntanlega styðja okkur í baráttu okkar miðað við þær umræður sem fram hafa farið hér í kvöld.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, í tengslum við þann samning sem liggur til grundvallar málinu sem er til meðferðar í kvöld, hvaða skoðun hann hefur á því að Evrópusambandið skuli leggja svo mikla áherslu á að tryggja sýnileika aðstoðar ESB. Hvers vegna telur hv. þingmaður að áhersla ESB á sýnileika aðstoðarinnar sé svo áberandi? Hvers vegna er það til dæmis mikilvægt varðandi verkefnið Kötlu jarðvang að öllum sé kunnugt um að ESB styrki verkefnið? Hver er tilgangurinn að baki því? Ég vísa þar sérstaklega til 10. gr. samningsins og e-liðar 1. mgr. 5. gr. samningsins.



[21:56]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög góð spurning. Auðvitað væri best að fá svarið frá annaðhvort fulltrúum Evrópusambandsins sjálfs eða jafnvel enn betra frá hv. þingmönnum sem sitja hér á þingi sem trúa því að þetta sé hið eina rétta og að það sé mjög mikilvægt að þetta sé gert með þessum hætti.

Þessi grein hljómar svona, með leyfi forseta:

„Hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB.“

Í mínum huga er þetta afhjúpun þess sem ég var að tala um og mér finnst í raun hálfógeðfellt, þ.e. þess siðferðisbrests þar sem risastór aðili er í samningaviðræðum við lítinn aðila og ber í hann fé og vill tryggja að það sjáist að hann sé að styrkja hann og að litið sé til hans sem góðrar stofnunar, að þarna sé sá góði sem komi til hjálpar.

Ég verð að segja það alveg eins og er að þegar maður, hvaða einstaklingur sem er, styrkir einhver góðgerðarmál eða góð mál í samfélaginu finnst mér það persónulega verra að nafn hans komi þar fram. Ég mundi gjarnan vilja gera það nafnlaust.

Hér er akkúrat hið gagnstæða á ferðinni. Hér segir aðilinn sem kemur inn með féð: Hér kem ég. Ég er góði aðilinn. Sjáið hvað ég er góður. Ég styrki þetta málefni og þið verðið að láta það koma fram í auglýsingunni.

Það er ekkert ósvipað því þegar stórfyrirtækin styrkja eitthvað, til dæmis í sjónvarpsþáttum, fótboltaleikjum eða Eurovision eða hvar það nú er, þau verða alls staðar að koma nafni sínu að til þess að við fáum þá ímynd (Forseti hringir.) að þarna sé góður aðili á ferð sem ætli sér ekkert illt (Forseti hringir.) en gangi á undan með góðu fordæmi.



[21:58]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við eyðum heilmiklum fjármunum, ekki bara í þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem var samþykkt hér í dag heldur einnig í aðlögunarferlið að ESB.

Hv. þm. Mörður Árnason spurði mig áðan hvað Steingerður Hreinsdóttir, sem fer fyrir Kötlu jarðvangi, ætti að gera ef hún fengi nú ekki þennan IPA-styrk. Ef við værum ekki í þessu aðlögunarferli værum við kannski með einhverjar hugmyndir um að styrkja einhver verkefni á landsbyggðinni. Þá gætum við hv. þingmenn Suðurkjördæmis hugsanlega tekið saman höndum við aðra áhugamenn um uppbyggingu í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra og jafnframt styrkt verkefni sem þetta á okkar eigin forsendum.

Telur hv. þingmaður að það sé raunhæf leið?



[21:59]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt það sem ég hugsaði þegar ég heyrði á tal hv. þingmanna í andsvörum hér áðan að það væri nokkuð augljóst hvað viðkomandi forstöðumaður þessara verkefna ætti að gera. Auðvitað á hann að treysta því að meiri hluti þingsins sem samþykkti að setja fjármuni til þessa verks standi við orð sín, það hlýtur að vera. Hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því að verði IPA-styrkirnir ekki að veruleika verði fjármunir greiddir úr ríkissjóði. Það hlýtur að vera. Það er augljóst. Menn hafa hreinlega valið þessi verkefni og sagt að þau séu betri en önnur. Það verkefni sem okkur hefur verið tíðrætt um er ákaflega gott og öflugt verkefni sem mun skila miklu til svæðisins og landsins alls.

Stóra spurningin er þessi: Hvað höfum við eytt miklum fjármunum í aðildarviðræðurnar til þessa? Hvernig hefðum við getað notað þá peninga til góðs? Og síðan má bæta við: Hvað höfum við eytt miklu vinnuafli, þreki og samstöðu í þjóðinni sem hefur horfið, þar sem (Forseti hringir.) búið er að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar út af þessu máli? (Forseti hringir.) Ef við hefðum ekki farið í þetta vitlausa ferli á sínum tíma heldur eytt öllum kröftum okkar og vinnu embættismanna í að bæta (Forseti hringir.) samfélagið hefðum við kannski ekki þurft á slíkum fjármunum að halda sem nú er verið að taka við í formi IPA-styrkja.



[22:00]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þessir þróunarstyrkir, það fé sem hér er til boða af hálfu Evrópusambandsins, eru til þess ætlaðir að búa landið undir að uppfylla þau skilyrði og þær kröfur sem Evrópusambandið gerir og eru tvímælalaust aðlögunarstyrkir. Ýmsir hafa neitað því að svo sé, sérstaklega þingmenn og ráðherrar sem ættu að vita betur, en það fer ekkert á milli mála í skýrslu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, um utanríkis- og alþjóðamál, sem vafalaust hefur verið unnin af mörgum af hans ágætu embættismönnum. Þar stendur að IPA-styrkirnir séu meðal annars veittir á grundvelli landsáætlana fyrir Ísland og þær landsáætlanir lúti að undirbúningi fyrir þátttöku í stoðkerfissjóðum Evrópusambandsins svo sem á sviði atvinnuuppbyggingar og byggðamála þannig að íslenskir aðilar séu frá fyrsta degi reiðubúnir að nýta sér kosti aðildar. Til að svo sé þarf að vera búið að byggja upp þær stofnanir sem þarf.

Í skýrslu utanríkisráðherra segir svo að ekki verður um villst að um aðlögunarstyrki er að ræða enda pólitískt ætlaðir til þess. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landsáætlanir fyrir árin 2012 og 2013 eru í undirbúningi. Á árinu 2012 verður áhersla lögð á undirbúning fyrir þátttöku í stoðkerfissjóðum og á árinu 2013 á uppbyggingu stofnana.“

Hvað er það annað en bein aðlögun? (Forseti hringir.) Það ætti feimnislaust að ræða (Forseti hringir.) þetta mál á þeim grunni sem það er sett fram eins og gert er í skýrslu utanríkisráðherra.



[22:03]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason, sem var áður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þekkir því vel til verkferils í þessu máli, bendir á að í skýrslu utanríkisráðherra sé ekkert verið að mála þetta sérstökum felulitum eins og svo margir þingmenn stjórnarinnar og hæstv. ráðherrar virðast gera af ótta við að viðurkenna.

Ég hef spurt nokkra þingmenn í dag af hverju þessi feimni sé við að viðurkenna að um aðlögun er að ræða. Ég get ekki skilið það. Það væri miklu hreinlegra og skynsamlegra og heiðarlegra, að sjálfsögðu, að segja beint út að um aðlögunarstyrki er að ræða og reyna síðan að sannfæra okkur hin sem teljum það siðferðislega rangt og hreinlega óheiðarlegt að taka við styrkjum af samningsaðila á meðan á samningsferli stendur, sérstaklega í ljósi þess að mikill meiri hluti þjóðarinnar er á móti því að ganga í Evrópusambandið (Gripið fram í.) samkvæmt skoðanakönnunum.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að munurinn á íslenska ferlinu og því ferli sem hafði verið viðhaft gagnvart öðrum ríkjum væri meðal annars fólginn í því, og það væri ástæðan fyrir því að menn vildu ekki tala um aðlögun, að ekki ætti að breyta neinum stofnunum fyrr en eftir að samningur lægi fyrir og hefði ef til vill verið samþykktur.

Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem hefur reynslu sem ráðherra, hversu langan tíma (Forseti hringir.) það tæki til dæmis í landbúnaðargeiranum eftir að samningur lægi hugsanlega fyrir og yrði samþykktur — hvort það sé rétt að það yrðu á bilinu (Forseti hringir.) tvö og hálft til þrjú ár sem það tæki eftir á og hvort biðlund þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið, ef sú niðurstaða yrði, (Forseti hringir.) mundi duga.



[22:05]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá andsvar frá hv. þingmanni. Það er hárrétt að ég lagði áherslu á það sem ráðherra að íslensk stjórnsýsla, m.a. landbúnaðarstjórnsýsla, væri í raun það öflug og fljót að bregðast við að hún gæti ef aðildarsamningur yrði samþykktur — það mundu jú líða nokkrir mánuðir þar til hann yrði staðfestur af öðrum aðildarríkjum þangað til að hann kæmi til framkvæmda — gert það á þeim skamma tíma sem þarna væri. Ég taldi að við þyrftum ekki á nokkurn hátt að aðlaga okkur undir það.

Ég hafnaði því algjörlega að hefja aðlögunarferli í íslenskum landbúnaði meðan á samningaviðræðunum stæði og þar stóð hnífurinn í kúnni. Ég er hræddur um að nú sé komin eftirgjöf í það mál og sú vegferð sé hafin að undirbúa (Forseti hringir.) og stilla upp íslenskri stjórnsýslu, m.a. í landbúnaði, miðað við það að við séum (Forseti hringir.) komin í Evrópusambandið.



[22:07]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að hv. þingmaður hafi staðið sig nokkuð vel í því að stympast á móti Evrópusambandinu sem ráðherra. Í fyrirspurnum hv. þm. Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar og hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar til núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Steingríms J. Sigfússonar svaraði hann því reyndar til að hann mundi standa á því og berjast fyrir því með kjafti og klóm að ekki yrði flutt inn hrátt kjöt og að tollamúrar, eitt af þeim markmiðum sem íslenskur landbúnaður hefur sett, ættu að standa óhaggaðir. Ég vona að svo verði. Ég vona að það sé ekki rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að sú víglína sem þar var sé að gefa eftir og að eitthvað sé að marka þau orð sem núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lét (Forseti hringir.) falla hér í ræðustól.



[22:08]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við höfum rætt aðeins um verkefnið Kötlu jarðvang, sem er afar merkilegt af ýmsum sökum, og hafi hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson misst af því þá standa þrjú sveitarfélög á Suðurlandi að því verkefni. Það eru Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra. Síðan koma að því ýmsir aðrir en ekki síst er það Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Steingerður Hreinsdóttir sem þar ræður ríkjum og hefur haft veruleg áhrif á það verkefni.

Það er ekki núna í kvöld sem þetta kemur fyrst fyrir á þingi heldur var þetta meðal annars rætt í tengslum við fjárlögin og kemur að minnsta kosti fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar hvernig styrkveitingum til þessa verkefnis verður háttað.

Mig langar að vita, af því að ég fylgdist ekki nógu vel með afgreiðslu fjárlaga, með hvaða rökum hv. þingmaður lagðist í ræðu sinni gegn því að verkefnið Katla jarðvangur fengi styrk af þessu tagi — andmælti því í fjárlaganefnd en þó sérstaklega hér í stólnum á sínum tíma — þegar fjárlögin voru afgreidd síðasta haust og hverju hann lofaði þá í staðinn eða hver hann teldi að yrði framtíð verkefnisins næstu missiri án IPA-styrksins.



[22:10]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þingmaður væri að grínast þegar hann hóf ræðu sína á því að spyrja mig út í þetta verkefni af því að hann hefði misst af því, eins og hann orðaði það. Hv. þingmaður veit væntanlega að sá er hér stendur er einn af þingmönnum Suðurkjördæmis og þekkir þetta verkefni út og inn. Á fjárlagaárinu 2010, vegna ársins 2011, barðist sá er hér stendur fyrir því að þetta verkefni fengi fjárveitingu á fjárlögum umfram þá hálfu milljón sem meiri hluti fjárlaganefndar var tilbúinn að leggja til verkefnisins — ég man ekki hvort fjárhæðin hækkaði í 1,5 eða 2 milljónir til að koma verkefninu af stað.

Ég þekki þetta verkefni ákaflega vel og hef ekki lagt stein í götu þess á nokkurn hátt. Ég hélt því hins vegar fram í ræðu minni að verkefnið ætti ekki að vera háð því að fá IPA-styrk frá Evrópusambandinu. Ef verkefnið er jafngott og ég tel það vera, og ég heyri að hv. þm. Mörður Árnason er sammála um það, þá er fullkomlega eðlilegt að við séum tilbúin á fjárlögum íslenska ríkisins að setja fjármuni í það til að byggja það upp.

Þetta er sannarlega gott verkefni, samstarfsverkefni hjá þremur sveitarfélögum og fleiri aðilum, að styrkja þarna ferðaþjónustu, sögu, menningu, náttúrufræðiminjar, söfn og ýmis þau verkefni sem að því lúta. Svæðið frá Markarfljóti austur að Höfn á við ákveðinn vanda að stríða út af verulegri fólksfækkun og það vantar fleiri atvinnuþætti til að styrkja svæðið.

Ég fagna satt best að segja áhuga hv. þm. Marðar Árnasonar á þessu verkefni og get ekki ímyndað mér annað en að hann verði þá stuðningsmaður þess í framtíðinni að þetta verkefni og sambærileg góð verkefni fái stuðning í gegnum fjárlagagerðina.



[22:12]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kemur í ljós í þeirri þögn sem fólst í svari hv. þingmanns að hann hefur ekki mótmælt því í fjárlaganefnd eða hér í ræðustól að Kötlu jarðvangi væri ætlaður þessi styrkur frá IPA á sínum tíma. Það er ekki fyrr en núna þegar þingmaðurinn þarf að tala í málþófi að hann leggst gegn þessu. (UBK: Hvað áttu við?) Það er sérkennileg tvöfeldni af hálfu þingmannsins að fallast á það með þögninni um haustið en mótmæla því síðan um vorið.

Annað sem ég ætla að spyrja hv. þingmann kemur fram í blaðinu Sveitinni, sem nokkuð hefur verið rætt hér í kvöld, að aðstandendur Kötlu jarðvangs hafi í rúmlega eitt ár verið í undirbúnings- og umsóknarferli um þennan IPA-styrk. Hafi þingmaðurinn, sem ég efast ekki um, fylgst svona vel með þessu verkefni eins og hann segist hafa gert, hvað hefur hann þá gert (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir að það aumingjans fólk sem hér er (Forseti hringir.) nánast orðið hreppsómagar hjá Evrópusambandinu, ef trúa má hv. þingmönnum, láti ginna sig á þennan hátt?



[22:13]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill biðja hv. þingmenn að tala með virðingu um fjarstadda.



[22:14]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason verður að eiga það við sjálfan sig hvernig hann tekur til máls og velur orðum sínum stað. Hann hefur í tvígang komið hingað upp og spurt hvernig ég hafi hagað mér í fjárlaganefnd. Nú á ég ekki sæti í fjárlaganefnd þannig að ég get ekki lýst því hvernig það hefur verið.

Varðandi þetta IPA-mál. Þegar fjárlagagerðin fór fram var mér ekki kunnugt um að fyrir lægi rammasamningur sem hefði legið fyrir í hálft ár hjá ríkisstjórninni. Það getur vel verið að Mörður Árnason hafi haft þær upplýsingar. (Gripið fram í.) Ég hafði heldur ekki séð þingsályktunartillöguna eða frumvarpið. Það hefði verið miklu skynsamlegra af hæstv. ríkisstjórn, sem hv. þm. Mörður Árnason styður, að koma fram með málið á réttum forsendum, byrja á þingsályktunartillögunni og ræða hana á öllum forsendum og koma að lokum, þegar allt var samþykkt, (Forseti hringir.) með málið í fjárlaganefnd. Þá hefðum við tekið upplýsta ákvörðun eftir upplýsta umræðu sem við (Forseti hringir.) gátum ekki.



[22:15]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti veitir hv. þingmanni ekki heimild til að bera af sér sakir. (MÁ: Það kom fram bæði í áminningu forseta og síðan í orðum hv. ræðumanns.) (Gripið fram í.) Forseti telur ekki ástæðu til að hv. þingmaður beri af sér sakir. (MÁ: En þá getur hv. þingmaður ekki tekið mark á athugasemdum forseta.)



[22:16]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum IPA-styrki, þ.e. rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf, sem er í formi þingsályktunartillögu. Ágætur maður komst að því fyrir nokkru síðan að enginn borgarmúr væri svo hár að asni klyfjaður gulli kæmist ekki yfir. Þetta sagði Filippus Makedóníukonungur í fornöld. Þetta er sígilt, þetta er notað í dag mjög víða. Mjög margir, sérstaklega stórfyrirtæki, alþjóðleg stórfyrirtæki, fyrirtækjahringir, ríki og aðrir hafa fyrir löngu uppgötvað gildi auglýsinga og styrkja. Þetta loðir við íþróttagreinar eins og fótbolta, þetta loðir við áfengisauglýsingar, auglýsingar yfirleitt. Þingmenn gera sér fullkomlega grein fyrir þessu. Þeir hafa margir lagt til og komið í gegn auglýsingabanni og styrkjabanni, menn mega til dæmis ekki styrkja áfengi, ýmislegt sem varðar óhollustu og annað slíkt. Þingmenn hafa fyrir löngu komið auga á að styrkir og auglýsingar hafa mikil áhrif til að móta skoðanir fólks. Verðmætustu vörumerki heimsins, t.d. Coca Cola og Microsoft og önnur slík, nota einmitt ótæpilega styrki og auglýsingar.

Þegar til viðbótar kemur atvinnuleysi, kyrrstaða og doði, þökk sé núverandi hæstv. ríkisstjórn, sem er reyndar stöðugt að auglýsa ný störf — ég man ekki hvað talan var komin upp í, hún er búin að gera það nánast reglulega, 4 þúsund störf, 6 þúsund störf, núna 10 þúsund störf o.s.frv. — og svo hefur fólk spurt mig: Hvar sækir maður um þessi störf?

Frú forseti. Það er víst eitthvað erfitt, þau eru kannski helst í Noregi. En atvinnuleysið og kyrrstaðan gerir menn alveg sérstaklega viðkvæma fyrir svona styrkjum.

Ég get vel ímyndað mér að forritari sem getur fengið vinnu á Íslandi í gegnum styrki frá Evrópusambandinu sé ögn jákvæðari gagnvart því sambandi frekar en að þurfa að fara til Noregs frá fjölskyldu sinni jafnvel til að leita að vinnu. Þannig að hann er mjög viðkvæmur fyrir þessum styrkjum.

Trójuhestur er þekkt fyrirbæri, það var risastór tréhestur sem Grikkir smíðuðu í Trójustríðinu og skildu eftir fyrir utan borgarmúra Tróju eða svo segir sagan. Svo þóttust þeir fara en skildu eftir inni í hestinum nokkra hermenn sem opnuðu um nóttina borgarhlið Tróju og þá komu Grikkirnir utan af hafinu og komust inn fyrir borgarmúrana. Ég lít svo á að þessir styrkir séu einmitt þess lags trójuhestur. Svo hefur líka verið talað um fimmtu herdeildina sem menn þekkja líka. (Gripið fram í.) Fimmta herdeildin var herdeild sem starfaði innan landamæra ákveðins lands í þágu annars lands án þess að menn vissu af eða væri kunnugt um. Allt er þetta svipað.

Hér hefur nokkuð verið rætt um siðferði. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir ræddi einmitt um siðferðið. Er siðferðislega rétt að þiggja styrki frá Evrópusambandinu þegar maður ætlar ekki að ganga þar inn, er það siðferðislega rétt? Mega menn gera svona? Ég held reyndar að afstaða milli ríkja og gagnvart ríkjum byggist á hagsmunum en ekki tilfinningum. Ríki eru ekki vinir. Það kom í ljós þegar Íslendingar áttu í sem mestum vandræðum eftir hrunið og voru að leita að stuðningi út af Icesave til að fjármagna gjaldeyrissjóðinn að meira að segja Norðmenn settu það skilyrði fyrir sínum stuðningi við að veita styrki eða lán til Íslands að Íslendingar samþykktu Icesave vegna þess að hagsmunir Norðmanna af góðu sambandi við Breta vógu miklu þyngra en hagsmunir Norðmanna af góðu sambandi við Íslendinga. Menn geta svo talað um vináttu þar og ég veit ekki hvað og hvað en það skiptir ekki máli í samskiptum þjóða. Evrópusambandið er ekki vinur Íslendinga, það er ekki að veita þessa styrki til að vera gott við Íslendinga, alls ekki. Menn hafa bara ákveðna hagsmuni af því, þeir ætla að fá þetta fé endurgreitt í einhverjum skilningi, t.d. með því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Sumir hafa sagt það, þeir nái í fyrsta lagi í þetta stóra land undir sín landamæri, í öðru lagi nái þeir í auðlindir Íslands og svo kannski aðgang að norðursvæðinu sem er líka eitt annað dæmi. Að sjálfsögðu er Evrópusambandið ekki að gera neitt gott fyrir Íslendinga. Það skyldi enginn láta sér detta í hug.

Þetta er líka spurningin um siðferði stjórnmálaflokka gagnvart kjósendum sínum og þar komum við aftur að virðingu og ábyrgð, hvort menn standi við kosningaloforð. Nú er það svo merkilegt að sigurvegari síðustu kosninga, í maí 2009, voru Vinstri grænir og á hverju skyldu þeir hafa sigrað? Hverju héldu þeir mest fram í þeim kosningum? Jú, þeir ætluðu ekki að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þeir ætluðu ekki að samþykkja Icesave og þeir ætluðu ekki að ganga í Evrópusambandið, alls ekki. Svo samþykkja þeir samt að ganga í Evrópusambandið 16. júlí 2009. Og ég má til með, frú forseti, til að undirstrika þetta siðferðisbrot eða trúnaðarbrot, að lesa ræðu hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í atkvæðaskýringu við þá aðildarumsókn sem haldin var 16. júlí 2009, og nú tala ég fyrir hönd hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur, með leyfi forseta:

„Frú forseti. Ég hef þá sannfæringu að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég hef þá sannfæringu að bandalagið sé á krossgötum eins og heimurinn allur og þurfi á endurmati að halda. Þar þurfi að efast um mælikvarða, grundvöll og forsendur þess samfélags sem við höfum byggt á Vesturlöndum undanfarinna áratuga. Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að verða stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða.

Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um forréttindi Vesturlanda umfram fátækustu ríki heims og það orki tvímælis að keppast við að koma okkur í slíkan félagsskap nú þegar fátæktin í heiminum verður sífellt alvarlegri og leiðrétting á misskiptingunni sífellt meira aðkallandi.

Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Og segir já, frú forseti, við því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum, og hvað er þessi ræða að segja? Þarna er þingmaðurinn að greiða atkvæði gegn sannfæringu sinni af því að hún talar stöðugt um sannfæringu. Þetta átti við um marga þingmenn Vinstri grænna. Þeir greiddu atkvæði gegn sannfæringu sinni og það útskýrir allt sem þeir eru að gera síðan í sambandi við Evrópusambandið og margt fleira.

Svo er þetta líka spurningin um vinnubrögðin á Alþingi. Vegna þessarar tvíátta stefnu hæstv. ríkisstjórnar — að vilja ganga í Evrópusambandið, annar flokkurinn, og að vilja ekki ganga í Evrópusambandið, hinn flokkurinn, eins og hér kom skýrt fram, en samþykkja það samt — hafa orðið stöðugar deilur innan Alþingis. Þegar ríkisstjórn hefur ekki eina stefnu verða stöðugar deilur og þetta skaðar þjóðina gífurlega mikið.

Þegar þetta mál var tekið út, sem var víst í morgun eða gærmorgun, var það gert með mjög undarlegum hætti, sem útskýrir það sem ég er að tala um að þegar menn stefna í tvær áttir þurfa þeir að nota öll tækifæri til að koma málum fram. Til dæmis það að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mætti of seint á fund og þá er málið rifið út. Ég man ekki eftir svoleiðis vinnubrögðum nokkurn tíma áður. Þetta var ekki tískan þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn, þá var frekar beðið eftir fólki, ef fólk gat ekki mætt, var kannski á öðrum fundum eða eitthvað slíkt var beðið eftir fólki. Fundum var frestað til að safna saman atkvæðum nefndarmanna og allt gert til þess að vilji nefndarmanna kæmi fram. En að nota tækifærið þegar menn eru ekki mættir til að koma málum fram er mjög slæmt, frú forseti, og það helgast af þeirri tvístefnu sem ríkisstjórnin er með, hún er að stefna til Evrópusambandsins og frá því. Þetta hefur mjög alvarleg áhrif á samstarf þingmanna.

Hvernig halda menn að þingmenn sem verða fyrir þessari reynslu — eins og var þegar þetta var afgreitt frá nefndinni að þingmaðurinn fékk ekki að koma að málinu, og þetta er að gerast víðar, ekki bara í þessari einu nefnd, hv. utanríkismálanefnd, heldur víðar — geti svo unnið saman í sínum þingflokkum eða milli þingflokka þar sem slík mál koma fyrir æ oftar? Þetta er mjög skaðlegt og þetta er mjög skaðlegt fyrir þingið.

Hv. þm. Mörður Árnason hefur nokkuð oft spurt menn hvort þeir ætli ekki að taka þátt í að gefa gullið sem asninn ber yfir borgarmúrana, hvort þeir ætli virkilega ekki að styrkja þetta verkefni í Skaftárhreppi. Getur það verið að menn ætli að vera á móti góðu verkefni í sínu eigin kjördæmi? Hvað er hv. þingmaður að segja? Hann er að segja: Þið eigið að gefa gjafir Evrópusambandsins með glöðu geði.

Það getur vel verið að það sé gott til skamms tíma að þiggja svona styrki og er eflaust en til langs tíma getur þetta orðið mjög skaðlegt fyrir þjóðina. Að mínu mati yrði aðild að Evrópusambandinu mjög skaðleg fyrir þjóðina, mjög skaðleg.

Ég er búinn að lesa nokkrar umsagnir sem um málið bárust og þar er kannski fyrst að nefna frá Bændasamtökunum. Ég ætla ekki að fara neitt mjög ítarlega ofan í það sem Bændasamtökin segja, menn þekkja afstöðu þeirra, hún er svipuð og mín, þau vilja standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi, við börðumst ekki svo lítið fyrir sjálfstæðinu á sínum tíma. Ég tel að aðild að Evrópusambandinu yrði mjög skaðleg fyrir Ísland enda höfðum við af því 600 ára reynslu að vera í sambandi við þjóðir í Evrópu, fyrst Norðmenn og síðar Dani, og í kjölfarið varð Ísland fátækasta þjóðin í Evrópu, bjó í moldarkofum, og hafði fækkað en ekki fjölgað. Það var ekki vegna þess að fólk fór úr landi heldur dó það úr ófeiti sem kallað var.

Eftir að við fengum fullveldi 1918 hefur gengið bara ansi vel þó að skrykkjótt sé, það hefur gengið skrykkjótt en upp á við, og nú er Ísland þrátt fyrir hrunið með ríkari þjóðum í Evrópu. Þess vegna er alveg fráleitt að Ísland sé að þiggja styrki einhvers staðar frá. (Gripið fram í.) Ég tek því undir umsögn Bændasamtakanna.

Síðan kemur Hagstofa Íslands og það er einmitt aðili sem er að njóta þessara styrkja. Þeir kvarta undan því með réttu að þeir geti ekki fullnægt alls konar tölfræði- og hagskýrslugerð sem EES-samningurinn krefst vegna þess að það skorti fé. Nú kemur hér allt í einu fé eins og af himnum ofan og að sjálfsögðu er Ólafur Hjálmarsson, skrifstofustjóri Hagstofunnar, mjög ánægður með að geta farið út í alls konar verkefni sem hann gat ekki farið í áður og komið með fínar hagskýrslugerðir og annað slíkt. Þetta er eðlilegt þegar menn horfa á þann enda einan sér en þegar menn horfa á heildardæmið, að það sé verið að kaupa menn til fylgis við Evrópusambandið, getur þetta verið mjög skaðlegt. Auðvitað eiga Íslendingar að borga þetta sjálfir.

Svo er hér umsögn frá Rannís sem Hallgrímur Jónasson skrifar undir og þar segir, með leyfir forseta:

„Fram hefur komið í aðdraganda þessa máls að stuðningur úr svokölluðum IPA-sjóðum kann að vera af margvíslegum toga, en að því er virðist fyrst og fremst til að styrkja innviði viðkomandi þjóða. Augljóst er að það skiptir miklu máli fyrir ESB að umsóknarlönd séu sem best undir það búin að verða þátttakendur í því samstarfi sem vera í sambandinu býður upp á.“

Hann er sem sagt að segja þarna, frú forseti, greinilega og beint út að IPA-styrkirnir eigi að undirbúa Íslendinga til að verða aðilar að Evrópusambandinu. Hann segir það beint út, enda held ég að allir ættu að vita það. Svo segir áfram, með leyfi frú forseta:

„Rannís hefur í mörg ár verið tengiliður við svokallaðar rammaáætlanir um rannsóknir og nýsköpun og verður ekki annað sagt en að verkefnin hafi reynst mjög vel fyrir íslenskt samfélag, hvað varðar uppbyggingu þekkingar, tækniyfirfærslu og nýsköpun. Regluverkið krefst auk þess aga sem gerir ekkert annað en að styrkja starf hér heima.“

Sem sagt, Íslendingar eru að sækja aga og fé til Evrópusambandsins til að stuðla að rannsóknum hér innan lands. Hvers vegna í ósköpunum gerum við það ekki sjálf, ein ríkasta þjóð Evrópu?

Svo kemur alveg sérkapítuli, frú forseti, sem við ræðum reyndar á eftir í dagskránni sem eru skattar og gjöld af þessum styrkjum. Það kemur nefnilega fram beint í samningnum að það eigi ekki að greiða skatta eða gjöld af þessum samningi, og það stendur hérna í athugasemdum við tillöguna:

„Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld og mun fjármálaráðherra leita eftir viðeigandi breytingum á skattalögum í því skyni með sérstöku frumvarpi.“

Það er sem sagt í gangi núna og þá gæti ég talað, held ég, í klukkutíma um það atriði, um forréttindastéttir sem ekki borga skatta en nota velferðarkerfið, nota vegina og nota alla þessa samneyslu sem við erum með. (Gripið fram í: Evrópuelítan.) Það er ekki bara Evrópuelítan, þetta er um allan heim að utanríkisþjónustan hefur komið sér í þessa stöðu, svona forréttindastöðu, og vill að sjálfsögðu ekki gefa eftir þau forréttindi.

En það sem er kannski athyglisverðast í þessu öllu saman er ferlið. Hvenær var skrifað undir þennan samning? Í tillögunni kemur fram að það var skrifað undir þetta í Brussel, að sjálfsögðu, 8. júlí 2011. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra lands, og tengiliður IPA skrifuðu undir fyrir hönd Íslands 8. júlí 2011. Hvaða dagur er í dag? Hvert erum við komin í þessari umræðu? Það er kominn maí 2012, það eru tíu mánuðir frá því að skrifað var undir. Hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera allan tímann með þessari óskaplega góðu verkstjórn sinni, hvað hefur hún verið að gera? Af hverju var þetta ekki lagt strax fyrir Alþingi? Hvers vegna þurfti að bíða? Af hverju kom fjármálaráðherra ekki strax með frumvarpið um IPA-styrkina og skattfrelsið? Hann kom reyndar með það dálítið fljótlega, en að vinnslan skuli taka þetta langan tíma og að þingmenn viti ekki einu sinni af þessu þegar verið er að samþykkja fjárlög finnst mér alveg óbærilegt. Mér finnst að ríkisstjórnin ætti að fá sér einhverja verkfræðinga til að skipuleggja ferlið hjá sér þannig að það verði einhver verkstjórn á þessu hjá henni.



[22:36]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þótti athyglisvert að hv. þingmaður notaði myndlíkingar í upphafi ræðu sinnar og þær voru allar dregnar úr átökum, úr styrjöldum. Fyrst var asninn klyfjaður gulli sem kemst yfir hinn hæsta borgarmúr og það er vissulega, ef ég man rétt, frá Forn-Grikkjum og er væntanlega dregið úr styrjöldum borgríkja þeirra. Síðan talaði þingmaðurinn um Trójustríðið og trójuhestinn og að lokum minntist hann á fimmtu herdeildina en hún er reyndar ekki frá Grikkjum eða forverum þeirra heldur frá síðustu öld, úr Spánarstríðinu þar sem herforingi fasista, herforingi Francos, stóð fyrir utan Madrídarborg þar sem lýðveldissinnar voru og sagðist hafa fjórar herdeildir utan borgarmúra og eina innan borgarmúra. Menn muna hvernig það stríð fór og hvaða tilfinningar voru því bundnar og síðan hefur þetta hugtak, fimmta herdeildin, verið frægt og ekki mjög þekkilegt.

Mig langar að vita hvað hv. þingmaður á við með því að vitna til hinnar fimmtu herdeildar fasista innan borgarmúra Madrídar í þessu máli. Hverjir eru í fimmtu herdeildinni í Evrópusambandsmálinu á Íslandi vorið 2012?



[22:38]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki skrýtið að ég skuli draga fram myndir af átökum. Þessi ríkisstjórn hefur sótt í átök ef þau er að hafa einhvers staðar. Allt sem hún gerir er í átökum, meira að segja eru breytingar á stjórnarskrá (Gripið fram í: Já.) í átökum sem á þó að vera samnefnari fyrir alla þjóðina. Allt er gert í átökum. Það logar allt í átökum, innan stjórnarflokkanna logar allt í átökum þannig að það er ekki skrýtið þótt ég dragi fram myndlíkingar af átökum. Þessi hæstv. ríkisstjórn er búin að gera Ísland að átakasvæði, því miður.

Varðandi það hverjir skyldu skipa þessa fimmtu herdeild hér á Íslandi — hv. þingmaður vill fá mig til að nefna einhver nöfn, ég geri það ekki. Það verður hver og einn að eiga við sig. Hv. þingmaður getur reynt að finna út hverjir það eru sem vilja endilega að Íslendingar afsali sér fullveldinu. Til dæmis þróast Evrópusambandið mjög hratt í átt til ríkis. Þeir eru farnir að tala um það sjálfir, Evrópusambandið er farið að tala um það sjálft og þýski stjórnlagadómstóllinn hefur varað við þeirri þróun að Þýskaland hafi ekki jafnmikið atkvæðavægi og íbúafjöldinn gefur til kynna þannig að flestir eru búnir að átta sig á því að Evrópusambandið er að verða ríki. Það vantar enn þá her en það er kominn sameiginlegur gjaldmiðill, þing, ríkisstjórn o.s.frv., allt það sem prýðir eitt ríki.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið hefur það ekki lengur fullveldi. Það getur til dæmis ekki gert samninga við Kína. Það mundi Evrópusambandið sjá um þannig að Íslendingar eru að afsala sér stórum hluta af fullveldinu og sífellt stærri. Ég spyr: Hvað hefðu Jón Sigurðsson og aðrir baráttumenn fyrir fullveldi Íslands sagt ef þeir vissu þetta og hverja mundu þeir skilgreina sem fimmtu herdeildina?



[22:40]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það að kasta mykju úr dreifaranum og þora ekki að kannast við hverja átt er við á sér orð í íslensku, það eru dylgjur. Það eru dylgjur að tala um fimmtu herdeildina og geta svo ekki nefnt nein nöfn í því sambandi.

En fyrst þingmaðurinn vill það skal ég koma með tilgátu í því sambandi. Það er nefnilega svo að það ríkja engin átök á milli Evrópusambandsins, sem er bandalag 27 ríkja í Evrópu, stórra og smárra, og lýðveldisins Íslands eða stjórnvalda í því landi. Það er gott að átta sig á því í upphafi þeirrar umræðu sem hér fer fram að styrkjamálið og þau frumvörp og þingsályktunartillaga sem liggur frammi sprettur af því að meiri hluti Alþingis Íslendinga samþykkti 16. júlí árið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sá vilji meiri hlutans kom aftur fram í dag (Gripið fram í.) þegar greidd voru atkvæði um tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem komið hefur fram sem foringi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í þessu máli nú í margar vikur og ég óska henni til hamingju með (VigH: Þakka.) að hafa tekið þá forustu að sér og líka sjálfstæðis- og framsóknarmönnum til hamingju með að eignast verðugan foringja (Gripið fram í.) í þessu máli. En hverjum sem það er nú að þakka, sem er sem sé Vigdísi Hauksdóttur að þakka í dag, er það þannig að þingið tók þá ákvörðun aftur í dag að halda þessum viðræðum áfram. (Gripið fram í.)

Þá spyr ég hv. þingmann: Er það þessi meiri hluti sem hann á við? Eru það þingmenn þessa meiri hluta, þeir sem vildu þessar viðræður fyrir síðustu kosningar sem hann á við? Eru það hugsanlega þeir innan Sjálfstæðisflokksins sem styðja þessa aðild (Forseti hringir.) sem hann á við? Á hann til dæmis við Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur með orðum sínum um fimmtu herdeildina?



[22:43]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var greinilega mjög viðkvæm taug sem ég snerti. Íslendingar eru fullvalda, sjálfstæð þjóð og þegar beiðni um aðildina var samþykkt á Alþingi var það ekki eftir sannfæringu hvers og eins. Ég las áðan ræðustúf, atkvæðaskýringu hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Það var greinilegt að hún hafði ekki sannfæringu fyrir því að ganga í Evrópusambandið (MÁ: Hún …) en hún sagði samt já þvert á sannfæringu sína, sem kemur fram í atkvæðaskýringunni. Það er spurning hvenær menn tala um að einhverjir nái fram málum með kattasmölun og öðru slíku gegn vilja meiri hluta Alþingis og alveg greinilega gegn vilja þjóðarinnar eftir því sem skoðanakannanir gefa til kynna. Ég hefði gjarnan viljað að þjóðin fengi að segja eitthvað um þetta og þess vegna studdi ég tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í dag. Ég hefði gjarnan viljað að lýðræðið kæmi í gegn og þjóðin fengi að segja eitthvað um hvort hún vilji yfirleitt ganga í Evrópusambandið, hvort hún vilji ekki draga þessa umsókn til baka. (MÁ: Svaraðu …) Þá kæmi í ljós — ég eftirlæt það hverjum og einum að svara því hverjir skipa fimmtu herdeildina (MÁ: Það eru dylgjur.) og ég hefði viljað að þjóðin greiddi atkvæði um umsóknina. Þá mundi ekki koma atkvæðaskýring eins og ég lýsti áðan og þær eru fleiri sem ég á eftir að lesa.

Það er nefnilega ekki samstaða hjá stjórninni um að ganga í Evrópusambandið og Vinstri grænir hafa velflestir lýst því yfir, allir ráðherrarnir held ég, að Ísland hafi ekkert erindi í Evrópusambandið. Hvar er siðferðið þá?



[22:45]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Danskur stjórnmálamaður lagði einhvern tíma til að varnarmálastefna Danmerkur ætti að felast í því að vera með sjálfvirkan símsvara á rússnesku, held ég að það hafi verið, sem segði: Við gefumst upp — (Gripið fram í.) það þyrfti ekki að vera neitt annað. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort sama stefnan sé gagnvart alþjóðlegu yfirvaldi um allt, þ.e. stjórnarflokkar leggja bara niður skottið.

Ekkert ríkjasamband eða ríki á í deilum við Íslendinga í dag sem ég man eftir nema Evrópusambandið út af makríl, það blandar sér í Icesave-deiluna o.s.frv. Hvort sem menn kalla þetta stríð eða ekki þá er sá sem við eigum helst í deilum við Evrópusambandið.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það sem mér heyrðist hann segja, að Evrópusambandið minnti meira og meira á ríki. Ég minntist á það í ræðu minni að Evrópusambandið hefði komið með þá hugmynd að setja fánann sinn á íþróttabúninga hjá íþróttamönnum en því var hafnað. Evrópusambandið á sinn eigin þjóðhátíðardag og meira að segja þjóðsöng þannig að það er ýmislegt sem minnir á ríki. Ég velti því fyrir mér hvort það sé sú þróun sem Íslendingar ætli að vera þátttakendur í, að búa til eitt stórt Evrópuríki þar sem hugsanlega verða einhver fylki og Ísland verður kannski fylki í því ríki en ráðstafanir fjármuna, ákvarðanir um orkunýtingu, náttúruauðlindir og annað verði teknar allt annars staðar en á Íslandi. Þróunin virðist í það minnsta vera í þá átt að Evrópusambandið sé hægt og bítandi að breytast í ríki, ekki síst þegar farið er að sækjast í það að stjórna fjárlögum einstakra þjóðríkja meðan þau eru enn til.



[22:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að Evrópusambandið sé að breytast hægt og bítandi í stórt ríki. (Gripið fram í.) Það breytist mjög hratt og óvenjuhratt. Atburðir í Grikklandi hafa t.d. valdið því að Evrópusambandið ætlar að hafa áhrif á fjárlög hvers einstaks ríkis. Það byrjaði á Spáni. Fjármálastefnan er orðin sameiginleg. Þá er lítið eftir af sjálfstæði einstakra ríkja þegar þau mega ekki gera samninga við önnur ríki, þau hafa ekki sjálfstæðan fjárhag, þau hafa sameiginlega mynt og samræmd lög, þá minnir ansi margt á stórt ríki.

Ég talaði um það þegar þessi fræga umsókn um aðild að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi, með þeim ósköpum sem ræða hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur sýnir, að Evrópusambandið væri að þróast í átt til ríkis. Ég hélt að það gerðist hægar. Ég hélt að það tæki svona 30, 40 ár en það gengur miklu hraðar en ég átti von á. Sérhver kreppa á hvaða sviði sem er, hvort sem hún tengist glæpastarfsemi, efnahagshruni eða einhverju slíku, kallar á samræmdar aðgerðir og Evrópusambandið mun þróast hraðar og hraðar í átt til ríkis. Við erum ekki að sækja um aðild að bandalagi óháðra ríkja, við erum að sækja um aðild að Bandaríki Evrópu. Menn þurfa að hafa það í huga og þá skulu menn velta fyrir sér hver staða Íslands verður á jaðrinum á risastóru bandaríki og hvaða athygli málefni Íslands fá á aðalskrifstofum þess stóra ríkis. Ég fullyrði: Enga.



[22:50]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað nátengt umræðuefninu, IPA-styrkjunum. Ég velti fyrir mér, ef þróun Evrópusambandsins er í þessa átt, hratt segir hv. þingmaður og ég er sammála um það — það var rangt hjá mér að tala um hægt og bítandi, það gerist mjög hratt — hvort við séum að flýta því að við afsölum fullveldi okkar með því að taka við fjármunum frá Evrópusambandinu. Gengur þessi kenning upp hjá mér?

Evrópusambandið notar mikla fjármuni í að teikna upp ímynd sína til að fá þjóðir til að horfa jákvæðari augum á þetta batterí. Mér finnst skjóta svolítið skökku við að við drögumst inn í slíkt sjónarspil á kostnað Evrópusambandsins, kannski sem betur fer, því að það greiðir fyrir þetta en einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að á endanum munum við Íslendingar, ef við göngum inn, sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki, standa skil á þessum styrkjum með einum eða öðrum hætti. Það hefur komið fram í máli þeirra sem við erum að ræða við, Evrópuþingmanna og annarra, að kosturinn við að fá Ísland inn sé sá að Ísland borgi meira en það tekur. Evrópusambandið er orðið þreytt á því að fá þangað inn ríki sem taka bara við fjármunum. Það er nokkuð sem við ættum að hafa í huga þegar við tökum við þessum peningum frá Evrópusambandinu sem við höfum í raun ekki not fyrir.

Það er fyrst og fremst þetta varðandi þjóðríki sem ég spurði um áðan sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í og hvort við séum að láta Evrópusambandið kaupa af okkur fullveldi með því að þiggja þessa styrki.



[22:52]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki alveg tekið undir það að við séum að selja fullveldi eða láta einhvern kaupa það. Ef við slysumst hins vegar til að ganga í Evrópusambandið missum við stóran hluta af fullveldinu. Við mundum ekki gera hagstæða samninga við Kína og við mundum taka upp sameiginlega mynt sem við hefðum engin áhrif á og við mundum taka þátt í öllu því starfi sem þar er án þess að hafa teljandi áhrif vegna þess að einstök ríki hafa ekki mikil áhrif, sérstaklega ekki þau litlu. Stóru ríkin, með Merkel og Sarkozy við stjórnvölinn meðan hann var við völd og nú Hollande, marka stefnuna. Á fundum yfir nótt er búið að marka stefnuna fyrir allt Evrópusambandið. Björgunarsjóður upp á ægilegar upphæðir er ákveðinn af þessum tveimur, það er allt lýðræðið. Lýðræðið er sáralítið í Evrópusambandinu og menn eru farnir að sjá sjálfir hve lýðræðishallinn er mikill.

Ef við tökum þessa styrki og göngum inn verðum við að hafa í huga að ríki vinna bara með hagsmuni í huga. Evrópusambandið hugsar bara í hagsmunum. Það ætlar sér að fá eitthvað fyrir þessa 5 milljarða sem það veitir í styrki hér. Fyrir utan það eru háskólar á Íslandi þátttakendur í styrkjakerfi Evrópusambandsins í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, sem við borgum reyndar sjálf fyrir. Auðvitað er Evrópusambandið að hugsa um auðlindir Íslands, stórt land, víðerni, nálægð við norðurskautssvæðið o.s.frv. Evrópusambandið er að hugsa um það. Ríki hugsa um hagsmuni, ríki bera ekki tilfinningar í brjósti og elska hvorki né hata.



[22:54]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það eru merkilegir hlutir að gerast í þinginu í dag. Fulltrúar stjórnarflokkanna koma fram fullir sjálfstrausts eins og birtist í andsvari hjá hv. þm. Merði Árnasyni við hv. þm. Pétur H. Blöndal, en hann úrskurðaði mig foringja stjórnarandstöðunnar á þingi og þakka ég hólið úr því að þingmaðurinn stendur þarna í dyragættinni. Ég ætla að segja að einungis Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru orðnir eftir í stjórnarandstöðu á þingi. Það opinberaðist endanlega í dag að Hreyfingin er ekki lengur í stjórnarandstöðu. Hún eru raunverulega hluti af ríkisstjórninni án ráðherra, en litlu verður Vöggur feginn og líklega er þetta eitthvað sem búið er að semja við þessa hv. þingmenn því enn eru rúmir 300 dagar eftir af kjörtímabilinu. Líklega liggja persónulegir hagsmunir þarna að baki vegna þess að tillaga mína um að þjóðin fengi að segja álit sitt á Evrópusambandsumsókninni hlaut ekki náð fyrir augum þessara þriggja þingmanna þrátt fyrir að þeir hefðu staðið úti á Austurvelli í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu, berjandi tunnur, potta og pönnur og krafist beins lýðræðis og að öll mál færu til þjóðarinnar. Svona er Ísland í dag, virðulegi forseti, á vordögum árið 2012.

Sumir hafa litið á atkvæðagreiðsluna í dag sem mikinn sigur fyrir Evrópusambandsaðildarsinna. Það er mikill misskilningur. Ég fór yfir það í ræðu minni í dag, og við erum að ræða þessa IPA-styrki sem Evrópusambandið stendur að og ætlar að sturta inn í landið 5 þús. milljónum íslenskra króna, að ríkisstjórnarflokkarnir og þeir sem greiddu atkvæði á móti tillögu minni í dag virðast ekki átta sig á því að það er annar meiri hluti í þinginu en fyrir utan þinghúsið því að á milli 60 til 65% landsmanna hafna aðildarferlinu og því að ganga í Evrópusambandið. En ég sagði jafnframt í dag að þó að maður tapi einni orrustu ætlar maður að vinna stríðið. Stríðið verður háð í næstu alþingiskosningum og þá skulum við sjá hvað kemur upp úr atkvæðakössunum því auðvitað gengur þetta ekki svona til lengdar þrátt fyrir að ríkisstjórnin ætli að hanga áfram þessa rúmu 300 daga sem eftir eru.

Ég kíkti aðeins á netmiðlana rétt áður en ég fór í ræðustól og sá að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er titluð sem hvorki meira né minna en kyndilberi jafnréttisbaráttunnar í dómsmáli í dag. Það var enginn annar en sjálfur ríkislögmaður sem sló þessu fram henni til hjálpar í því dómsmáli sem embættismaðurinn þarf að reka fyrir dómstólum vegna brota hæstv. forsætisráðherra á jafnréttislögum. Það minnir mig á að þetta er ekki eina dómsmálið sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir síðan hún tók við valdataumunum. Rétt er að minnast á afbrot ríkisstjórnarinnar varðandi stjórnlagaþingskosninguna. Hún var úrskurðuð ógild eins og allir muna af sjálfum fjölskipuðum Hæstarétti. Ríkisstjórnin lét það sem vind um eyrun þjóta. Í dag var verið að samþykkja að setja gervitillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu en tillagan sem skiptir einhverju máli fyrir íslenskt þjóðarbú var felld.

Ég verð að segja að ég sárvorkenni ríkislögmanni að þurfa að standa í að verja hæstv. forsætisráðherra, en í málsskjölum dómsins má í raun lesa lýsingu á verklagi þessarar ríkisstjórnar. Í frétt um málið á mbl.is segir, með leyfi forseta:

„Eins og komið hefur fram var forsætisráðuneytið, og þar með ráðherra, ósammála niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.“ — Skrýtið, hún var dæmd fyrir það að brjóta jafnréttislög og var náttúrlega að taka til varna. — „Ráðherra skipaði sérstakan stýrihóp til að fara yfir niðurstöðuna og ákvað eftir að hann skilaði áliti sínu að bjóða sættir í málinu. Ríkislögmaður sagði hins vegar við aðalmeðferðina í morgun, að það hefði verið gegn sannfæringu ráðherrans sem hafi verið fullviss um kynferði hafi ekki ráðið för við skipun í stöðuna.“

Eru þetta ekki kunnugleg vinnubrögð, hv. þingmenn? Ó jú, fyrst að vera ósammála, fara fram með mál í stríði, skipa nefnd og bjóða sættir. En þegar sú kona sem hæstv. forsætisráðherra braut á var ekki sátt við þær sættir sem boðnar voru, mig minnir að henni hafi verið boðnar 500 þús. kr. til að höfða ekki mál og að sjálfsögðu hafnaði hún því, kemur ríkislögmaður fram og segir að hæstv. forsætisráðherra hafi farið gegn sannfæringu sinni við að bjóða sættir. Í þessu dómsmáli kemur fram hvernig hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn vinna, með handarbökunum, virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn vinnur með handarbökunum og er hafin yfir landslög. Þessu vil ég halda til haga þar til þetta dómsmál hefur gengið til enda.

Öllu alvarlegra er það mál sem við höfum hér til umræðu, fram á kvöld að venju því hér eru ekki virt þau tímamörk sem gilda á vinnumarkaði. Hér er talað á nóttunni, sérstaklega um þau erfiðu mál sem þola ekki dagsljósið eins og einmitt þessa tillögu til þingsályktunar um að Alþingi samþykki rammasamning ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um fjárhagsaðstoð ESB við Ísland í umsóknarferlinu. Þessi tillaga sýnir að nú er hafin bein aðlögun að Evrópusambandinu. Bæði þing og þjóð hafa verið blekkt og sagður hálfsannleikur í þessu máli öllu eftir að umsóknin fór inn 2009 og talað var um að væri ekki um neina aðlögun að ræða. Nú með framlagningu þessarar þingsályktunartillögu hafa leiktjöldin fallið vegna þess að hér er um hreina aðlögun að ræða. Það fé sem á að streyma til landsins í formi þessara styrkja á allt að fara í að byggja upp stjórnsýsluna hér á landi þannig að hún verði sem best undir það búin að við Íslendingar, og Ísland sjálft sem þjóðríki, geti orðið aðilar að Evrópusambandinu.

Þeir sem hafa kynnt sér Evrópumál vita vel að þegar Noregur hafnaði Evrópusambandsaðildinni í seinna sinnið 1994 var ekki um neina aðlögun að ræða. Það dæmi var mjög skýrt vegna þess að þá höfðu náðst samningar. Þeir samningar voru lagðir fram af minni hluta ríkisstjórnarinnar, eins og gerist hér á landi vegna þess að Vinstri grænir hafa á stefnuskrá sinni að ganga ekki í Evrópusambandið, en vilji þingsins hefur verið neyddur fram. Svo fór sem fór í Noregi, Norðmenn eru skynsamir, þeir eru ríkir af náttúruauðlindum eins og við Íslendingar og að sjálfsögðu höfnuðu þeir því í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga ESB á hönd. Það ætlum við Íslendingar líka að gera. Þess vegna verðum við þingmenn að standa okkur á þingi og láta þetta mál ekki fara í gegn vegna þess að ef það verður samþykkt er það ákveðin viðurkenning á því að Íslendingar séu búnir að hefja aðlögunarferli. En miðað við atkvæðagreiðsluna í morgun eru líklega meiri líkur á því en minni að málið fari í gegn.

Það er sérstaklega athyglisvert að þessi samningur var undirritaður síðastliðið sumar. Sendimaður íslenska ríkisins skrifar undir hann á móti framkvæmdastjórninni úti í Brussel. Samningurinn er líklega búinn að liggja inni í utanríkisráðuneyti síðan og nú fyrst, ári síðar, er hann lagður fram á vorþingi. Nú á að hasta málinu í gegnum þingið í skjóli nætur en samningurinn hefur legið eins og ég segi í heilt ár í utanríkisráðuneytinu. En hæstv. utanríkisráðherra hefur líklega ekki treyst sér leggja fram málið fyrr vegna þess að það var aldrei viðurkennt að um beina aðlögun væri að ræða. En nú eru kosningar farnar að nálgast og ef til vill kominn þrýstingur frá Evrópusambandinu um að við tökum við þessum mútugreiðslum, eins og hv. þm. Jón Bjarnason kallar þessa peninga, og þá var kannski knýjandi þörf hjá hæstv. utanríkisráðherra að reyna að koma málinu í gegnum þingið.

Ég gagnrýndi það mjög í umræðum fyrir helgi að málin voru tekin inn í rangri röð. Fyrst þarf þingið að samþykkja þessa þingsályktunartillögu til að aflétta stjórnskipulegri stöðu samningsins áður en rætt er um skattundanþágufrumvarpið fyrir Evrópuelítuna. Ég ætla ekki að halda aftur þá ræðu sem ég hélt um skatta- og tollafrumvarpið sem gefur þegnum ESB og verktökum í Evrópusambandinu mikið forskot á Íslendinga vegna þess að það á ekki að borga skatta, virðisaukaskatt eða tolla af greiðslum þeirra ef þeir inna þessi verkefni af hendi. Það brýtur að mínu mati harkalega gegn EES-samningnum en svona vinnur Evrópusambandið. Þessar undanþágur eiga ekkert skylt við sendimenn erlendra ríkja eða Vínarsamninginn þó að Evrópusambandið hangi hér aftan í bílnum í utanríkisþjónustunni og ætlar að láta þær reglur gilda um þegna sína. Þetta er mjög ógeðfellt, frú forseti, það er ekki hægt að segja annað.

Til að varpa ljósi á hvað þetta mál er byggt á veikum grunni var það tekið út úr utanríkismálanefnd þegar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var ekki viðstödd. Skyndilega var málið rifið út úr utanríkismálanefnd. Það er gaman að tala um það í dag, úr því að stækkunarstjóri Evrópusambandsins er hér á landi, að ekki náðist meiri hluti í utanríkismálanefnd í málinu. Það voru forföll í nefndinni þannig að það sem á að heita meirihlutaálit með þessari þingsályktunartillögu er kallað nefndarálit frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Það er mjög merkilegt í svo veigamiklu máli eins og þessu. Tækifærið var gripið og málið rifið út og þeir sem eru á nefndaráliti 1. minni hluta eru hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Lúðvík Geirsson og Róbert Marshall. Málið var tekið út á fjórum atkvæðum en til að hægt sé að mynda meiri hluta í þingnefndum þarf fimm þingmenn.

Annar minni hluti skilaði einnig nefndaráliti og í honum sitja hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson. Þarna kom strax í ljós mikill ágreiningur um málið í sjálfri utanríkismálanefnd. Síðan þetta var hefur myndast nýr meiri hluti í hv. utanríkismálanefnd vegna þess að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er gengin til liðs við stjórnarandstöðuna í utanríkismálanefnd. Sem betur fer, virðulegi forseti, hefur Hreyfingin einungis áheyrnarfulltrúa í utanríkismálanefnd þannig að hún getur ekki með kosningasvikum stutt ríkisstjórnina þar. En ég held að það sé athyglisvert og umhugsunarefni fyrir stækkunarstjórann að Ísland sem umsóknarríki að Evrópusambandinu skuli ekki vera með meiri hluta í utanríkismálanefnd sjálfri fyrir Evrópusambandsumsókninni. Það kom líka í ljós í atkvæðagreiðslunni í morgun að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir greiddi atkvæði með tillögu minni um að tímabært væri að setja spurninguna um hvort halda eigi umsóknarferlinu áfram í þjóðaratkvæðagreiðslu. En lýðræðisástin hjá vinstri flokkunum nær nú einungis til gæluverkefna þeirra, gæluverkefna eins og stjórnlagaráðs sem nú hefur kostað yfir 1.000 millj. kr. Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að inni í þeirri tölu er ekki áætlaður kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðsluna sem á að fara fram fyrir októberlok, en hann er upp á 250–300 millj. kr. Það var verið að ræða það í dag að þessi ríkisstjórn stendur fyrir kosningum á einu ári fyrir tæpan milljarð. Í sumar eru forsetakosningar, fyrir októberlok á að vera þjóðaratkvæðagreiðsla og svo verða þingkosningar í lok apríl eða byrjun maí á næsta ári. Ja, vel er í lagt, það er greinilega hægt að eyða peningunum. Þarna er ein þjóðaratkvæðagreiðsla algerlega óþörf. Stjórnarmeirihlutinn gat ekki komið þessu stjórnlagaráðsmáli í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum eins og þeir ætluðu sér. Það lá fullbúið frumvarp frá mér í þinginu sem ríkisstjórnin gat tekið á dagskrá þar sem var kveðið á um styttra tímamark. En það þurfti að búa til þennan sirkus um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vildu ekki breyta stjórnarskránni. Því fór sem fór og þá var bara fundinn nýr dagur og skrifaður gúmmítékki upp á 300 millj. kr. beint út úr ríkissjóði.

Yfir þennan samning þarf að fara í mörgum þingræðum vegna þess að gildistaka hans er bundin því ákvæði að hann öðlist ekki gildi fyrr en á þeim degi sem samningsaðilar tilkynna hvor öðrum um að uppfyllt hafi verið öll stjórnskipuleg skilyrði til að hrinda honum í framkvæmd. Þarna er átt við að samningurinn hafi fengið umræðu á Alþingi, samþykkt og undirskrift forsetans. Nú er ég aðeins að vísa til tilfinninga forsetans varðandi Evrópusambandið. Verði þetta mál knúið í gegnum þingið höfum við alltaf þann stjórnskipulega fyrirvara að forseti þarf að skrifa undir lög til að þau öðlist gildi, og þetta er milliríkjasamningur.

Það sem mér finnst verst og mest niðurlægjandi fyrir okkur sem ríki er það sem kemur fram í inngangsorðum samningsins. Ísland kemur fram í samningi þessum sem aðstoðarþegi. Þetta er afar niðurlægjandi. Hvers vegna er ekki hægt að tala um okkur sem stolta íslenska þjóð eða setja hreinlega landið okkar þarna inn? Nei, í gegnum allan samninginn erum við kölluð aðstoðarþegar Evrópusambandsins. Það er til skammar hvernig stjórnsýslan hefur farið með stolt okkar bæði í þessum samningi og Icesave-samningnum. Það minnir mig á að eins og í Icesave-samningnum hefur dómsvaldið í þessum samningi verið flutt úr landi. Hér stendur að rísi upp deilur út af samningnum skuli styrkþeginn, sem sagt við, fara fram í málinu og verja hagsmuni Evrópusambandsins gagnvart þeim er sækir málið. Verði það Íslendingur eða íslenskt verktakafyrirtæki sem sættir sig ekki við það ójafnræði sem er verið að innleiða, að íslenski aðilinn þurfi að borga skatta, tekjur og gjöld en ekki aðili frá Evrópusambandinu, og ætlar að láta reyna á það fyrir dómstólum, er beinlínis búið að afsala dómsvaldinu og Ísland þarf í raun að fara gegn eigin þegni vegna þess að búið er að framselja dómsvaldið til Evrópusambandsins. Þetta er enn eitt hneykslið en vel kunnuglegt úr Icesave-samningunum þegar hæstv. fjármálaráðherra lagði höfuð sitt að veði fyrir því að þetta væru snilldarsamningar og niðurstaðan glæsileg og hvaðeina. Sem betur fer greip forsetinn tvisvar inn í þá atburðarás og efndi til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnarflokkarnir voru á móti. Í dag ræðum við um að þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram, en ríkisstjórnin taldi sig óbundna af þjóðaratkvæðagreiðslu í bæði skiptin. Hvað gerði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra í fyrra skiptið þegar Icesave-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu 98:2? Jú, hann fór og samdi upp á nýtt og kom bara með annan samning. Þessi ríkisstjórn á eftir að verða dæmd af verkum sínum bæði sögulega séð og jafnvel fyrir dómstólum.

Ég ætlaði, frú forseti, að fara í þann kafla sem fjallar um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð en ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér. Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti farið almennilega yfir það. Til að rökstyðja það sem ég sagði í upphafi um að þetta væri bein aðlögun sem sannaðist í samningstextanum, ætla ég að grípa niður í eina af fyrstu greinum samningsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðstoð skal vera í fullu samræmi við meginreglurnar um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun.“

Er hægt að hafa þetta skýrara? Samfella, heildstæðni, samræming, samvinna og samþjöppun. Evrópusambandið er að þjappa sér saman í átt að einu sambandsríki. Þarna er verið að skuldbinda Ísland til að taka þátt í þessu. Þetta er raunverulega ástæðan fyrir því að við eigum að taka við þessum styrkjum, til að undirbúa stjórnsýslustofnanir okkar fyrir þessa samþjöppun, heildstæðni og samræmingu. Hvað er það annað en aðlögun? Við erum ekki börn. Við kunnum að lesa og hvernig ætlar hæstv. utanríkisráðherra að koma sér út úr þeim hálfsannleika sem hann hefur haldið fram í þrjú ár fyrir þingi og þjóð og í innlendum fjölmiðlum að ekki sé um aðlögun að Evrópusambandinu að ræða? Ég spyr mig að því, og ég boða mjög fjöruga þingdaga fram undan og ekki skal standa á mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þetta og hvernig hann getur farið með blekkingar dag eftir dag í fjölmiðlum og heldur að allir trúi sér.



[23:14]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er með tvær spurningar til hv. þingmanns: Hver eru helstu markmið ESB með því að gera þennan rammasamning við ríkisstjórn Íslands? Hvers vegna leggur Evrópusambandið svo mikla áherslu á að tryggja beri viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB samkvæmt þessum samningi? Fjallað er um það í e-lið 1. töluliðar 5. gr. samningsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB.“

Jafnframt heitir 10. gr. „Kynning og sýnileiki“ og þar er nánar farið ofan í það og ítrekað enn frekar að það komi fram og að upplýsingum skuli beint til borgaranna og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB.

Tvær spurningar: Hver eru helstu markmið ESB með að gera þennan samning við Ísland? Hvers vegna leggur ESB svona mikla áherslu á að styrkur ESB sé sýnilegur?



[23:16]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar spurningar. Ég get ekki sett mig inn í hugaróra Evrópusambandsins en vegna þess að spurt er um markmið ESB með því að gera þennan rammasamning er það ef til vill það að koma okkur inn í Evrópusambandið. Ég hef farið yfir það í mörgum ræðum síðan ég tók sæti á Alþingi að Evrópusambandið á ekki auðlindir. Það þarf að stækka, það er orðið orkusnautt, það vantar orðið ferskvatn í mörgum ríkjum sambandsins. Það vill setjast í heimskautaráðið og vill komast inn á norðurslóðir. Það er markmiðið. Ég er alveg viss um að það á eftir að leggja mjög mikið á sig í köflunum um landbúnaðinn og sjávarútvegsmálin bara til að búa til glópagull svo landsmenn samþykki þetta. Hagsmunir Evrópusambandsins eru langtum meiri að komast hingað inn en hagsmunir okkar að ganga í Evrópusambandið. Það hlýtur að vera markmiðið.

En varðandi þennan sýnileika er það mjög ógeðfellt sem kemur til dæmis fram í 10. gr. sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir las upp úr. Þetta er beinlínis gert til að upplýsa borgarana og þá sem aðstoðina þiggja, þ.e. að varpa ljósi á hlutverk ESB og tryggja gagnsæi. Krafa ESB er að gera ESB sýnilegt hér á landi. Ég held samt að eftir því sem ESB kynnir sig meira hér á landi og stækkunarstjórinn og sendiherra Evrópusambandsins hér á landi og Evrópustofa auglýsa meira hafi það neikvæðari áhrif, sem betur fer. Gleymum því ekki að Íslendingar eru afar vel upplýstir. Internetnotkun hér er um 90%. Við sækjum okkur upplýsingar út í heim þannig að það þýðir ekkert að mata íslensku þjóðina. Það var kannski hægt þegar ESB var að ryðjast inn í austantjaldslöndin en það er ekki hægt á Íslandi.



[23:19]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta svar við andsvari mínu. Hún fór yfir sýn sína á það hvað Evrópusambandið vildi með þessum samningi.

Það hefur mikið verið rökrætt hvort við værum í aðlögun að Evrópusambandinu. Mín skoðun er sú að þetta mál sýni svart á hvítu að ríkisstjórn Íslands hefur skrifað undir slíkan samning (Gripið fram í.) og það birtist meðal annars í 3. gr. þessa samnings sem heitir „Markmið“. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Til að stuðla að samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins, þar á meðal eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga …“

Hvað getur þetta verið annað en að laga réttarreglur aðstoðarþegans að réttarreglum Evrópusambandsins? Ég get bara ekki skilið þessa grundvallargrein samningsins á annan hátt. Ef hv. þingmaður kann einhverja aðra útskýringu á þessu orðalagi vildi ég gjarnan heyra hana. Mér finnst þetta standa algjörlega skýrt svart á hvítu en kannski hefur eitthvað annað komið fram í nefndinni. Það kom alls ekki fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem mælti fyrir nefndaráliti 1. minni hluta að það væri aðlögun í gangi. Samt les maður hér, ekki bara úr þessari grein samningsins heldur nokkrum öðrum greinum, að tilgangur og markmið þessa samnings sé beinlínis að laga Ísland að ESB.



[23:21]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór vel yfir það í ræðu minni að þetta væri aðlögun og ekkert annað og tek undir með hv. þingmanni, það kemur alveg skýrt fram í 3. gr. en ég notaði ræðutíma minn aðallega til að fjalla um almennar reglur um fjárhagslega aðstoð.

Varðandi sýnileikann líka er farið fram á það að hér sé allt opið og gegnsætt og það kemur fram í samningnum að það eigi að vera mjög upplýst í hvað peningarnir fara. Þegar Evrópusambandið hefur aðlagast öðrum ríkjum og ríki verið í umsóknarferli hefur sérstök stofnun alltaf verið sett á fót í viðkomandi ríki til að hafa umsýslu með þeim fjármunum svo þeir fari á rétta staði, inn í réttar stofnanir til að styrkja út af Evrópusambandsumsókninni. Á þetta allt saman að gerast frá Brussel í okkar tilfelli? Það er mjög einkennilegt. Það er eins og ríkisstjórninni sé ekki treyst fyrir því að setja á fót stofnun til að deila út þessum peningum. Það er eitt, en svo er þessi sýnileiki líka hér að landsmenn séu upplýstir um hvernig allt gengur, hvernig viðræðuferlið er og hverjir fá peninga og annað. Því miður er ríkisstjórnin að bregðast Evrópusambandinu að þessu leyti vegna þess að hingað til hefur allt verið lokað ofan í skúffu. Allar þær upplýsingar sem við þingmenn höfum reynt að kreista út úr hæstv. utanríkisráðherra höfum við þurft að sækja með töngum og oft og tíðum eru svörin svo ófullbúin að þau eru ekki boðleg fyrir þjóðþing. Það er bara þannig, frú forseti, svo ég tali hreint út. Oftar en ekki virðist hæstv. utanríkisráðherra skrifa þessi svör sjálfur, jafnvel á nóttunni því að þau hafa verið svo fáránleg. Það er allt í takt í þessu máli, upplýsingar læstar ofan í skúffu, ekki sagt satt og rétt frá, og öllu því sem kemur frá Evrópusambandinu haldið leyndu, líklega í þeirri von að fleiri greiði þessu atkvæði (Forseti hringir.) fyrir rest.



[23:23]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem ég vil spyrja hv. þingmann um. Í fyrsta lagi: Hver er skoðun hennar á því að það mál sem nú er til umræðu kemur núna í þingið en það var skrifað undir samning 8. júlí 2011? Hv. þingmaður nefndi feluleik oft í ræðu sinni og þessi ógegnsæju vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar sem ég er algerlega sammála hv. þingmanni um en mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort þetta gæti verið enn einn feluleikurinn í kringum Vinstri græna gagnvart þessu máli.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í atkvæðaskýringunni. Það gladdi nokkuð marga hv. þingmenn sem héldu að þeir hefðu unnið þessa orrustu í atkvæðagreiðslu um tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur fyrr í dag þar sem fallið var frá því að leyfa þjóðinni að kjósa um hvort halda ætti þessu aðlögunarferli áfram. Þá sagði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir í atkvæðaskýringu að það væri ekki hægt að styðja þá tillögu af því að hún væri laumufarþegi sem mér finnst reyndar mjög ósmekklega sagt. Hvaða orð er eiginlega hægt að nota yfir kosningaloforð Vinstri grænna þegar þeir túlka þetta með þessum hætti?

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að þegar fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan var um Icesave-samninginn og hæstv. forsætisráðherra talaði um lýðræðisást sína, sem hún gerir gjarnan á tyllidögum, boðaði hæstv. forsætisráðherra að hún ætlaði ekki einu sinni að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. (Gripið fram í.) Það er nú öll lýðræðisástin. Hvað finnst hv. þingmanni um slík skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra um að boða að hún ætli ekki að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu en talar síðan fyrir því á tyllidögum að mikilvægt sé að þjóðin fái að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum?



[23:25]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka afar góðar spurningar, sérstaklega þá síðustu. Ég var hreinlega búin að gleyma þessari hótun forsætisráðherra að þegar forseti boðaði til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ætlaði hún að sitja heima á kjördag. Þvílíkt og annað eins.

Hæstv. forsætisráðherra er búin að sitja tæp 35 ár á þingi og hefur átt kjör sitt undir því að fólk mæti á kjörstað og kjósi hana í alþingiskosningum. En nei, hæstv. forsætisráðherra gekk fram og sagðist ætla að sitja heima á kjördag. Þetta sýnir lýðskrumið sem þessi manneskja stendur fyrir, hæstv. forsætisráðherra. Lýðskrum, lýðskrum, lýðskrum. Hún ber ekki lýðræðisást í brjósti gagnvart landsmönnum vegna þess að hún vill handvelja hvað fær að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Auðvitað sjá allir í gegnum þetta.

Um þau orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í dag að tillaga mín væri laumufarþegi inn í málið er það eitt að segja að svona afgreiðir hv. þm. Álfheiður Ingadóttir málin. Ef það er eitthvað óþægilegt eru bara fundin ný orð á það. Ef hún skammar ekki þingmenn eða bannar þeim að leggja fram breytingartillögur eins og hún hefur til dæmis gert við mig er bara fundið eitthvert nafn á það í þingsal, laumufarþegi. Hún notar líka þetta orð á breytingartillögu mína um rannsókn á bönkunum þar sem ég legg til að nýja einkavæðingin verði rannsökuð um leið og sú gamla. Hún telur að það séu algjörlega óskyld mál og að ég sem þingmaður sé að koma með laumufarþega inn í hennar góðu þingsályktunartillögu sem meira og minna öll ríkisstjórnin stendur að til að ná sér niðri á fyrrverandi stjórnvöldum. Þetta eru vinnubrögðin hérna. Þetta er þroskinn hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur.

Um fyrstu spurningu hv. þingmanns, um að skrifað hafi verið undir samninginn 8. júlí 2011, er það eitt að segja að auðvitað er þetta ekkert annað en feluleikur Vinstri grænna. Því skal haldið til haga að einn hv. þingmaður, Jón Bjarnason, stóð alltaf í lappirnar gagnvart þessu, (Forseti hringir.) barðist á móti og var ljár í þúfu ríkisstjórnarinnar. Það endaði að sjálfsögðu þannig að honum var bolað út úr ríkisstjórn (Forseti hringir.) af því að hann stóð vörð um þjóðarhagsmuni.



[23:28]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af því sem hv. þingmaður sagði réttilega um hv. þm. Jón Bjarnason, að hann hefði alla tíð staðið í lappirnar í þessu máli, langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í 1. gr. þessa samnings sem er á bls. 7. Þar segir, með leyfi forseta, um svokallaða IPA-rammareglugerð að „frá og með 1. janúar 2007 er gerningur þessi sá eini lagagrundvöllur sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvílir á, þ.e. fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu“.

Það getur auðvitað ekki verið skýrara að þetta er hreint og klárt aðlögunarferli. Ég held reyndar að hv. þingmenn Vinstri grænna sem halda því fram að þetta séu einhverjar samningaviðræður við Evrópusambandið en ekki aðlögun trúi því ekki lengur, a.m.k. ekki allir.

Getur verið að hæstv. ríkisstjórn hafi talið sig vera að uppfylla skilyrðin til að taka við þessum styrkjum með því að fara í þær pólitísku hreinsanir sem hv. þingmaður kom inn á?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem hún kom inn á í ræðu sinni. Meiri hlutinn sem tekur málið út úr nefndinni er í raun og veru 1. minni hluti. Fjórir hv. þingmenn afgreiða málið og við vitum svo sem hverju það sætti. Telur hv. þingmaður þetta boðleg vinnubrögð, að þegar mál séu svona umdeild séu þau afgreidd út úr nefndum með minni hluta en ekki meiri hluta? Ég man reyndar ekki eftir mjög mörgum málum (Forseti hringir.) sem eru með þessum hætti.



[23:30]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. ESB-málið í þinginu hefur frá upphafi byggst upp á svikum, prettum og kúgunum. Það að hinn raunverulegi meiri hluti utanríkismálanefndar sé 1. minni hluti í svo mikilvægu máli sýnir alveg svart á hvítu hvað um er að vera. Tækifærið var notað þegar einn hv. þingmaður í hinum svokallaða meiri hluta mætti ekki á fund. Hvernig var þetta í atkvæðagreiðslunni sumarið 2009 þegar lagt var til að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu? Það hefur komið fram í máli fyrrum þingmanna Vinstri grænna að þeir voru teknir út undir vegg og þeim hótað af hæstv. forsætisráðherra að ef þeir mundu ekki styðja þessa aðildarumsókn mundi fyrsta tæra vinstri stjórnin springa. Svona voru vinnubrögðin og svona eru vinnubrögðin enn. Þetta er keyrt áfram á hnefa hæstv. forsætisráðherra og frekju, leyfi ég mér að segja, og engu öðru. Þetta hefur síðar komið í ljós en ég hef stundum sagt að það hefði verið best fyrir þjóðina og okkur öll og atvinnulífið að hin svokallaða hreina tæra vinstri stjórn hefði sprungið í tætlur strax sumarið 2009.

Þingmaðurinn fór yfir fjárhagsaðstoð við umsóknarríki sem hann las upp og auðvitað eru þessar pólitísku hreinsanir ekkert annað. Ég spyr: Af hverju þurfa ríki að taka á móti fleiri milljörðum við það eitt að vera umsóknarríki? Hvaða frekja er þetta hjá alþjóðlegu valdi að skipta sér svo freklega af innanríkismálum ríkis? Ég minni á að þingmenn Evrópusambandsins hafa líka sagt opinbera að við Íslendingar höfum ekkert að gera við þessa þróunaraðstoð. Það er litið á þessa styrki sem þróunaraðstoð (Forseti hringir.) fyrir fátæk umsóknarríki sem eru í aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Ég held að þeir ættu að líta í átt til Tyrklands. Tyrkland er búið að liggja inni (Forseti hringir.) með umsókn að ESB í 15 ár. Ég held að það ætti frekar að fara að semja við þá.



[23:33]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins við Ísland innan ramma stuðningsaðgerðasjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB. Þannig hljóðar titill þessarar þingsályktunartillögu og er í sjálfu sér afar skýr, hann fjallar um ramma stuðningsaðgerðasjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB, og í þeirri stöðu er Ísland einmitt. Það hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og á þá rétt á stuðningi og með sama hætti er krafa frá Evrópusambandinu um að umsóknarríki uppfylli þau skilyrði sem Evrópusambandið setur á viðræðutímanum, þ.e. að búið sé að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu til að samningsköflum sé lokið.

Ég ætla fyrst aðeins að fara yfir ferli þessara viðræðna eða þessa aðildarferlis eins og það er sett upp af hálfu Evrópusambandsins. Það er í sjálfu sér þekkt og er ekkert sértækt gagnvart Íslandi. Það er bara eins og það hefur þróast hjá Evrópusambandinu hin síðari ár, þ.e. eftir að samningunum við Noreg lauk með því að Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu. Eftir samningaferli sem þá hafði verið í gangi breytti Evrópusambandið reglunum í vinnu sinni hvað þetta varðaði til að tryggja að slíkt gæti ekki gerst, eða draga eins og kostur væri úr líkum á því að umsóknarþjóð mundi fara í gegnum ferlið og fella síðan samningana.

Það hefur líka verið sett fram sem almenn krafa að land sæki ekki um aðild að Evrópusambandinu nema fullur vilji væri til að gerast aðili. Ég minnist þess frá minni ráðherratíð þegar sendinefndir frá Evrópusambandinu, eða frá einstaka ríkjum þess, voru að koma til að kynna sér þetta ferli á viðræðum, að menn áttu afar erfitt með að skilja að ríkisstjórnin hefði sótt um án þess endilega að ætla sér að gerast aðili. Eins og við vitum eru tveir flokkar í ríkisstjórn, annar er afar fylgjandi aðild og vill ganga eins hratt og mögulegt er í Evrópusambandið en hinn er andvígur því. Þessa stöðu áttu menn erfitt með að skilja og töldu reyndar fáránlega.

Ef við rennum yfir þetta svo menn átti sig á í hvaða ferli þetta er. Fyrsti þáttur í ferlinu, eftir að sótt hefur verið um aðild, er að farið er yfir löggjöf og reglur beggja aðila. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnir löggjöf þess fyrir íslensku samningahópunum. Með sama hætti kynnir íslenski samningahópurinn löggjöf og stjórnsýslukerfi Íslands og að hve miklu leyti það fellur að löggjöf ESB. Það er mikilvægt að menn átti sig fullkomlega á því að það er löggjöf og regluverk ESB sem ræður og Ísland, eins og önnur ríki sem sækja um aðild, sækir um á forsendum Evrópusambandsins. Ríki sem sækja um aðild gera sér grein fyrir því að þau verða að laga sig að lögum og reglum Evrópusambandsins til þess að komast þar inn. Þetta er ekki á hinn veginn, að verið sé að semja, heldur snýst þetta um hvað Ísland þarf að gera og hversu hratt til að uppfylla þau skilyrði sem Evrópusambandið setur.

Evrópusambandið hefur aldrei tekið við skilyrtri umsókn, það er eins gott að menn átti sig á því. Í umræðunum hér er stundum látið að því liggja að um sé að ræða samninga á milli tveggja jafnsettra aðila, en Evrópusambandið hefur einmitt lagt sérstaka áherslu á að svo sé ekki og það sé mesti misskilningur, heldur sé fyrst og fremst um aðildar- og aðlögunarferli að ræða.

Eftir að búið er að rýna og bera saman lög og reglur Evrópusambandsins og Íslands vinnur framkvæmdastjórnin skýrslu sem lýsir þeim staðreyndum sem þar birtast. Framkvæmdastjórnin sendir síðan alla skýrsluna til aðildarríkjanna, þar með talið þriðja hluta hennar þar sem framkvæmdastjórnin metur að hve miklu leyti lög og réttarframkvæmd á Íslandi fellur að löggjöf Evrópusambandsins. Fjórði hluti skýrslunnar hefur að geyma ráðleggingar framkvæmdastjórnarinnar um hvaða samningskafla er strax hægt að hefja viðræður um eða, eftir atvikum, ráðgjöf fyrir sérstakan fund um viðmið varðandi þá þætti sem Ísland þyrfti að uppfylla áður en samningaviðræður gætu hafist um tiltekna kafla.

Frú forseti. Ég er að lesa hér af blaði sem heitir „Ferill samningaviðræðna um hvern kafla“ sem var gefið út í upphafi samningaferilsins.

„Ætlunin með umræddum viðmiðum er að beina sjónum umsóknarríkisins að þeim helstu breytingum sem ríkið verður að ráðast í á vegferð sinni að fullri upptöku löggjafar ESB. Venjulega snúa slík viðmið að setningu nýrra laga, gerð áætlana, aðgerðaráætlana eða uppfyllingu skuldbindinga samkvæmt samningum ESB og umsóknarríkisins.“

Það er því alveg ljóst að á hverju stigi eru það kröfur og viðmið Evrópusambandsins sem ráða allri vegferð enda sagði aðalsamningamaður Íslands í þessum viðræðum, í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru, að það væri Evrópusambandið sem réði algjörlega þessari vegferð.

Síðan komum við að fjórða stiginu þar sem fulltrúar allra aðildarríkjanna innan vinnuhóps ráðs ESB um stækkun sambandsins fjalla um skýrslu framkvæmdastjórnarinnar og geta krafist útskýringar á innihaldi skýrslunnar og þeim viðmiðum sem framkvæmdastjórnin leggur til. Aðildarríkin ákveða annaðhvort að mæla með því að viðræður verði hafnar um samningskafla eða þá að leggja til viðmið sem umsóknarríkið þarf að uppfylla til að viðræður hefjist um tiltekinn kafla.

Frú forseti. Skýrt er kveðið á um það í hverju þrepi að það eru viðmið Evrópusambandsins sem þarf að uppfylla og það er algjörlega einhliða sett fram.

Á fimmta stiginu ákveður nefnd fastafulltrúa aðildarríkja Evrópusambandsins, COREPER, annaðhvort að hefja viðræður um tiltekna kafla eða setur viðmið fyrir því að viðræður geti hafist. Eftir ákvörðun sama hóps sendir forsætisríki ráðsins formlegt bréf til íslenskra stjórnvalda þar sem þeim er annaðhvort gefinn kostur á að uppfylla viðmið fyrir upphafi viðræðna eða senda samningsafstöðu sína varðandi tiltekinn kafla með það að markmiði að hefja formlegar viðræður um þann kafla.

Næst kemur: „Að uppfylla viðmið fyrir upphafi viðræðna (ef einhver viðmið eru sett).

Ísland uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í viðmiði fyrir því að viðræður geti hafist um tiltekinn kafla.“

Takið eftir því að þessi orðræða er alltaf einhliða enda hefur það legið fyrir frá byrjun að þetta voru einhliða viðræður, einhliða kröfur af hálfu Evrópusambandsins, ekki neinir samningar sem slíkir.

Áfram segir:

„Framkvæmdastjórnin metur hvort viðmið hafi verið uppfyllt og sendir mat sitt til ráðsins. Þegar ráðið hefur staðfest að Ísland hafi uppfyllt viðmið fyrir viðkomandi kafla býður forsætisríki ráðsins íslenskum stjórnvöldum að senda samningsafstöðu sína varðandi þann kafla sem um ræðir.

Framkvæmdastjórnin gerir drög að sameiginlegri samningsafstöðu aðildarríkja ESB, sem inniheldur venjulega ráðleggingar um viðmið fyrir ásættanlegri lokaniðurstöðu viðræðnanna, eða leggur til að viðræðum um tiltekinn kafla teljist lokið að sinni.

Til upplýsingar: Ólíkt viðmiðum fyrir upphafi viðræðnanna, sem snúa að nægjanlegri samræmingu við löggjöf ESB til að hefja megi viðræður, fjalla viðmið um lok viðræðnanna um hvort umsóknarríkið hafi að fullu samræmt löggjöf sína við löggjöf ESB, svo að af aðild geti orðið.“

Þannig heldur þetta áfram, frú forseti, og þegar kemur að fyrirsögninni „Að uppfylla viðmið um lok viðræðnanna (ef einhver viðmið eru sett)“ þá stendur:

„Ísland og ESB skiptast á endurskoðaðri samningsafstöðu einu sinni eða oftar, eftir því sem þörf krefur. Ísland uppfyllir skilyrði samningslokaviðmiða í sameiginlegri samningsafstöðu ESB. Framkvæmdastjórnin metur hvort skilyrði viðmiðanna um samningslok séu uppfyllt og gerir drög að sameiginlegri afstöðu aðildarríkjanna um lok viðræðnanna.“

Takið eftir, það er alltaf einhliða af hálfu Evrópusambandsins sem hver einasti þáttur er gerður. Síðan segir:

„Ráðið fjallar um mat framkvæmdastjórnarinnar og staðfestir að Ísland hafi uppfyllt viðmið fyrir lokum viðræðnanna, og samþykkir sameiginlega afstöðu aðildarríkjanna um lok viðræðnanna.“

Þetta er ferillinn sem er og hann er ætíð á forsendum Evrópusambandsins. Þau viðmið sem voru sett í upphafi eru þekkt og þessi ferill Evrópusambandsins varðandi inntöku nýrra aðildarlanda fékk lagastoð með svonefndum Kaupmannahafnarviðmiðum sem mat á því hvort nýtt umsóknarland sé samningstækt eða ekki.

Þetta fyrirkomulag var fyrst reynt á hinum tíu nýju aðildarlöndum sem komu inn árið 2002 og síðar við inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu og einnig á þeim löndum sem hafa komið í biðröðina síðar, svo sem Tyrkland, Króatía, Makedónía, Svartfjallaland og síðast Ísland. Þetta þýðir í raun að öll löndin þurfa að lúta sömu reglum um málsmeðferð, m.a. reglum um fjárhagslega aðstoð á samningaferlinu öllu. Þetta verklag var ekki í gildi þegar EES-löndin fengu aðild og því ekki raunhæft að bera það saman við samningaferlið þegar þau sóttu um og gerðust, nokkur þeirra, aðilar.

Það sem breyttist aðallega eftir árið 2000 var að löndum sem sækja um aðild eru settar hæfniskröfur sem geta verið algildar, en það leiðir til þess að samningar geta ekki hafist fyrr en úr hefur verið bætt, eða tilteknar eftir hverjum kafla fyrir sig, en löggjöf Evrópusambandsins er skipt upp í 35 samningskafla. Til að samningar um einstaka kafla geti hafist þarf umsóknarlandið að sýna fram á getu og vilja til að framkvæma löggjöf kaflans að mati Evrópusambandsins og sé svo ekki þá setur Evrópusambandið fram kröfur, svokölluð opnunarskilyrði eða „opening benchmarks“, sem þarf að uppfylla áður en samningar hefjast. Að því uppfylltu geta samningar hafist og samningum um kaflann lokið að því tilskildu að landið sýni fram á getu til að framkvæma ákveðið ákvæði samningsins við aðild. Sé svo ekki setur Evrópusambandið aftur fram kröfur, svokölluð lokunarmörk eða „closing benchmarks“, sem leggja framkvæmdakvöð á umsóknarlandið áður en samningi verður lokið um kaflann. Sjálfgefið er að samningur um aðild getur ekki orðið til fyrr en samningum um einstaka kafla er lokið. Við ákvörðun þeirra atriða sem að framan er greint frá gerir framkvæmdastjórnin tillögu til ráðsins um málsmeðferð, en ráðið tekur endanlega ákvörðun um hvernig brugðist er við málefnum umsóknarlandsins.

Um þetta var nákvæmlega getið þegar Evrópusambandið setti opnunarskilyrði á landbúnaðar- og byggðakaflann. Það var ekki síst vegna þess, ef það hafði sent spurningar til íslenskra stjórnvalda, sem var þá hlutverk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að svara, um hvernig þau ætluðu bregðast við kröfum Evrópusambandsins.

Í fyrsta lagi vil ég vitna til, með leyfi forseta, blaðs sem fylgdi þessari rýniskýrslu:

„Í kynningu sinni á öðru stigi rýningarinnar hafa íslensk stjórnvöld möguleika á að sýna fram á hvernig þau áforma að bregðast við athugasemdum eða veilum sem framkvæmdastjórnin dregur fram.“

Þá kom spurning frá Evrópusambandinu:

„Hvernig og hvenær ætlar Ísland að aðlaga sinn lagaramma hvað varðar lögbært stjórnvald, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu, tilnefningu vottunaraðila?“

Þessu svaraði ég þá sem ráðherra á þennan hátt:

„Við greiningu og samanburð á lagareglum og stjórnsýslu í landbúnaðarmálum á Íslandi við hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem hefur farið fram til þessa, hefur þegar komið fram verulegur munur milli aðila á lögum og framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Umbreyting frá hinu íslenska fyrirkomulagi á þessu sviði mun tvímælalaust kalla á verulegar breytingar á lagaumhverfi og aukin umsvif við stjórnsýslu, skýrslugjöf, eftirlit og fjölgun stofnana sem ekki er nauðsynleg til að framkvæma þá landbúnaðarstefnu sem hefur gilt og gildir í dag.

Við undirbúning þeirra atriða sem framkvæmdastjórnin spyr um, þ.e. ákvörðun um lögbært stjórnvald, sem fer með greiðslur til landbúnaðar, forsendur faggildingar, stofnun greiðslustofu, tilnefningu vottunaraðila, kemur fram að aðlaga þarf ramma íslenskra laga að regluverki ESB. Stefna íslenskra stjórnvalda er skýr, að ekki verði ráðist í neina aðlögun að regluverki ESB fyrr en staðfestur samningur um aðild liggur fyrir. Auk þess er það álit stjórnvalda að vegna smæðar landsins sé óþarfi að setja á fót það stofnanakerfi á Íslandi ef til aðildar kemur.

Af áðurnefndum ástæðum mun Ísland ekki hefja undirbúning að skipulags- og lagabreytingum né aðlaga sinn lagaramma fyrr en að lokinni samningsgerð, takist samningar um aðild og fullgildingu aðildarsamnings að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi og samþykkt af hans hálfu.“

Áfram var spurt af hálfu Evrópusambandsins: „Hver er í dag staða mála varðandi stofnun greiðslustofu? “

Því svaraði ég sem ráðherra:

„Með hliðsjón af því að það ráðist í samningi milli Íslands og Evrópusambandsins hvert fyrirkomulag greiðslna í landbúnaði þurfi að vera er það ákvörðun stjórnvalda á Íslandi að hefja ekki aðlögun að regluverki ESB fyrr en í fyrsta lagi að loknum samningum um aðild og staðfestingu þeirra. Því hefur enginn undirbúningur farið fram varðandi þau atriði sem nefnd eru.“

Ég nefni þetta hér, frú forseti, og mun svo í seinni ræðum mínum fara nánar yfir þetta ferli, því að bréfið sem fylgdi rýniskýrslu af Íslands hálfu var víst aldrei sent til Brussel en hafði samt þau megináhrif að þau skýru skilyrði að ekki yrði hafin aðlögun með íslenskan landbúnað á meðan á þessu samningsferli stæði voru ein meginástæðan fyrir því að settir voru opnunarskilmálar á landbúnaðarkaflann.

Frú forseti. Ég kem síðan að fleiri atriðum sem lúta að (Forseti hringir.) því hvernig þeim styrkjum sem við ræðum hér er beinlínis ætlað að koma, og okkur gert skylt að taka við þeim, (Forseti hringir.) til að hægt sé að undirbúa það stofnanakerfi og þær breytingar sem við verðum að ráðast í til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins á hverju stigi.



[23:53]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir hans ræðu. Það er afar mikilvægt innlegg í þessa umræðu þegar hann sviptir tjöldunum frá svo að það sést hvernig Evrópusambandið vinnur. Það getur hann gert í ljósi þess að hann sat í ríkisstjórn á þeim umbrotatímum þegar búið var að skrifa undir samninginn og hann sjálfur neitaði að taka við styrkjunum. Það er líklega þess vegna sem þessi þingsályktunartillaga kom ekki fram í þinginu fyrr en búið var að koma hv. þm. Jóni Bjarnasyni með bolabrögðum út úr ríkisstjórn.

Það vakti meira að segja athygli hjá Evrópusambandinu, mig minnir að þeir hafi sérstaklega fagnað því í bókun, að búið væri að ryðja eina Evrópuandstæðingnum í ríkisstjórninni úr vegi og kominn væri nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Og hver skyldi það hafa verið? Jú, mesti Evrópusinninn í Vinstri grænum, hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. Þessi braut er því þyrnum stráð og ef ekki blóðug að koma landsmönnum inn í ESB.

Hv. þingmaður fór yfir það í ræðu sinni að Evrópusambandið mundi aldrei taka við skilyrtri umsókn. Nú var þeim blekkingaleik haldið á lofti að skilyrði okkar framsóknarmanna hvað það varðar að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu væri að finna í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem hér var samþykkt. Nú áttar maður sig á því að skilyrði okkar framsóknarmanna var ekki hægt að setja inn í tillöguna og ég lagði fram breytingartillögu um það hér í þinginu þegar umsóknin var til umræðu að skilyrðin færu inn í þingsályktunartillöguna sjálfa og yrðu þar hluti af textanum. En blekkingin fór af stað og þetta var sett í greinargerð. (Forseti hringir.)

Metur þingmaðurinn það svo að skilyrðin sem voru sett af Framsóknarflokknum (Forseti hringir.) standi í þingsályktunartillögunni?



[23:56]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg klárt að við sóttum um, að við erum umsóknarland og sækjum um aðild að Evrópusambandinu á forsendum þess. Það er alveg ljóst enda hefur Evrópusambandið gert það fullkomlega skýrt.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru hins vegar dregnir fram þeir meginhagsmunir sem við megum ekki semja frá okkur. Það eru í raun þau skilyrði sem ríkisstjórninni og samninganefndinni eru sett, að ekki megi víkja frá þeim meginhagsmunum sem þar eru. Þess vegna stendur líka í greinargerð með þingsályktunartillögunni að komi sú staða upp að samningum eða aðildarferlinu verði ekki haldið áfram nema víkja þurfi frá þeim meginskilyrðum sem þar eru tilgreind þá nái samningsumboð ríkisstjórnar og samninganefndar ekki lengra og málið eigi að fara aftur til þingsins. Skýrt er kveðið á um þetta.

Þegar ágreiningur varð í ríkisstjórn um ákveðnar aðgerðir mínar, meðal annars það að ég vildi ekki þiggja IPA-styrki til fyrrgreindra verkefna, ég sagði að til þess væri hvorki lagaleg heimild til þess né félli það að greinargerðinni sem fylgdi þingsályktunartillögunni um umsóknina. Reyndar er komið á daginn að sérstök lagaleg heimild er til umræðu hér í þinginu. Ég taldi líka að ef ágreiningur væri um það ætti hann að vera þingsins og það væri þá þingið sem ætti að kveða á um það, ef það væri vafa undirorpið, hvort heimilt væri að halda þessu áfram.

Þetta er því þannig séð skilyrt en umsóknin er algjörlega á forsendum (Forseti hringir.) Evrópusambandsins, það er alveg klárt.



[23:58]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar upplýsingar. Hv. þm. Jón Bjarnason heldur því beinlínis fram og bendir á að ríkisstjórnin er komin langt út fyrir umboð sitt. Ég bað þó bara um að þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag, að þjóðin kæmi að því að segja hug sinn. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að biðja um að umsóknin yrði tekin hér aftur inn í þingið til umræðu. En þetta eru gagnlegar upplýsingar, mjög slæmt að þær skuli vera að koma fram klukkan tólf á miðnætti þennan dag því að þetta þyrfti svo sannarlega að komast til alþjóðar og vonandi gerir það það.

Varðandi þau orð sem þingmaðurinn hefur um að umsóknin sé algjörlega á hendi ESB og í umboði ESB og ekkert annað en ESB ráði för, hvers vegna er þá verið að halda þeim blekkingaleik stanslaust fram, hefur verið gert í þrjú ár, að um einhverjar viðræður sé að ræða eða samninga? (Forseti hringir.) Hver er skýring þingmannsins á því?



[23:59]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það séu bara miklir veikleikar sem birtast í umræðunni af hálfu þeirra sem halda því fram.

Það er heiðarlegt að segja að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu og ætlum að komast þar inn, sé þess nokkur kostur, auðvitað með þeim fyrirvara að þjóðin samþykki það þegar samningsafstaða er klár. Það er heiðarlegt þó svo að ég sé ekki sammála því. En að halda því fram að hægt sé að vera í samningaferli sem slíku þegar Evrópusambandið býður bara upp á aðildar- og aðlögunarferli er aftur á móti ekki heiðarlegt. Það er það sem er kannski vandinn í þessari umræðu um aðild að Evrópusambandinu, það er þessi feimni við að tala um hlutina og nefna þá réttum nöfnum, hvort sem við erum sammála þeim eða ekki. (Forseti hringir.) Ég tek undir það með hv. þingmanni að það skortir í þessari umræðu og er mjög mikilvægt að það komi fram.



[00:01]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara svona vel yfir hvernig staðið hefur verið að aðildarviðræðunum og aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Ég held að lýsing hans sé alveg rétt á ferlinu eins og það hefur blasað við okkur og við þekkjum sem höfum verið að skoða þessi mál og kynna okkur þau.

Hv. þingmaður sagði áðan að það hafi valdið mikilli undrun þegar sendimenn Evrópusambandsins komu hingað til lands í upphafi og gerðu sér þá grein fyrir því að þeir stjórnmálaflokkar sem stæðu að ríkisstjórn og bæru ábyrgð á aðildarferlinu hefðu ólíkar skoðanir varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Það kann að hafa verið þannig í upphafi, það kann að hafa verið munur á VG og Samfylkingunni þegar kom að aðildarumsókninni en hann er ekki lengur fyrir hendi. Í dag kemst ekki hnífurinn á milli þessara tveggja flokka, ég á auðvitað við þingflokkana hér á Alþingi með heiðarlegum undantekningum.

Við sjáum að þessi trippi eru ekki bara rekin af Samfylkingunni, þau eru ekki síður rekin af Vinstri grænum. Og það kom mjög skýrt fram í atkvæðagreiðslunni hér fyrr í dag hvernig þingflokkur VG, með einhverri einni eða tveimur undantekningum, þyrptist að því að mótmæla því að þessi mál yrðu núna borin undir þjóðina. Ég sé því engan mun lengur á þessum flokkum.

Það kom líka fram í dag, til dæmis í atkvæðaskýringu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem sagði svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Því miður hafa margir sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið dregið lappirnar í þessu máli svo það er ekki orðið efnislega skýrara en það er í dag hvað er í pakkanum.“

Hér vék hv. þingmaður að hv. þm. Jóni Bjarnasyni, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi beinlínis dregið lappirnar í þessu máli. Við vitum um afstöðu hv. þingmanns og ég virði hana, við erum sammála í þeim efnum, en það væri fróðlegt ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) mundi vilja bregðast við þessum orðum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.



[00:03]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa ásökunum algjörlega á bug um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi verið að draga lappirnar í þeirri vinnu sem ráðuneytinu bar að vinna samkvæmt ákvörðun Alþingis enda hefur mér vitanlega enginn kvartað vegna hinnar formlegu vinnu ráðuneytisins sem unnin var bæði hratt og vel undir miklu álagi og var ekki verið að auka svo mikið við mannskap. Það er því fullkomlega rangt að ég hafi dregið lappirnar við þá vinnu.

Hitt er alveg rétt að ég krafðist skýringa á óljósum atriðum og kröfum Evrópusambandsins vegna þess að það lá fyrir að við vorum ekki að sækja um aðild, að minnsta kosti ekki Vinstri grænir, endilega til að komast inn. Ég spurði líka til að fá fram skýr svör. Ætli mönnum finnist núna ekki betri sú krafa sem kom fyrst frá mér sem ráðherra að ekki væri hafin neins konar aðlögun að Evrópusambandinu meðan á viðræðum stæði? Það var krafan sem ég las upp áðan og ég setti fyrir framhaldi viðræðna um bæði sjávarútveg og landbúnað, þ.e. að við færum ekki í aðlögun.

Það má vel vera að það hafi síðan tafið viðræðurnar að hafa sett fram þá kröfu. Ég held að það hafi verið eðlilegt af allra hálfu að gera slíka kröfu enda hafa aðrir gert þá kröfu mína að sinni þó að kannski hafi verið farið misvel eftir henni og sumir fóru illa eftir henni. (Forseti hringir.) Ég krafðist þess og sagðist ekki mundu (Forseti hringir.) fara í aðlögunarvinnu að Evrópusambandinu með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál meðan ég væri ráðherra.



[00:05]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þau svör sem hann veitti við spurningum mínum áðan, þau eru algjörlega fullnægjandi. Ég fagna því líka að hv. þingmaður vísi því á bug sem fólst í aðdróttunum um að hann hafi dregið lappirnar og unnið með þeim hætti í sambandi við Evrópusambandið að fyrir þeirra hluta sakir væri málið ekki orðið efnislega skýrara en raun bæri vitni í dag. Mér finnst mjög mikilvægt að það liggi þá fyrir af hálfu hv. þingmanns því að hann má auðvitað gerst vita sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um sem kom aðeins fram í ræðum áðan er hvort ríkisstjórnin sé að hans mati komin út fyrir það umboð sem Alþingi gaf. Við vitum að Alþingi gaf tiltekið umboð og það byggðist á meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis og hefur verið mjög vísað til þess þegar við höfum rætt þessi mál. Við sjáum að málið er á hraðferð og við tókum eftir því að einn þingmanna Samfylkingarinnar taldi eftir atkvæðagreiðsluna í dag að nú væri hægt fyrst að fara að gefa almennilega í, (Forseti hringir.) setja í fluggírinn í viðræðunum við Evrópusambandið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ríkisstjórnin sé núna komin út fyrir það umboð (Forseti hringir.) sem Alþingi gaf á sínum tíma.



[00:07]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi tel ég að samþykkt og móttaka IPA-styrkja bendi til þess. Þeir eru beinir aðlögunarstyrkir til þess að aðlaga stofnanakerfið og íslenska stjórnsýslu að því sem Evrópusambandið krefst og það kemur alveg feimnislaust fram í skýrslu utanríkisráðherra þar sem hann segir að þessum styrkjum sé ætlað á árunum 2012 og 2013 að undirbúa þær stofnanir sem eigi að vera tilbúnar þegar aðildarviðræðum lýkur. Það er því alveg klárt að með því að samþykkja þessa IPA-styrki er að mínu mati komið fram yfir það sem þingsályktunartillagan um umsókn heimilaði.

Ég get nefnt fleiri atriði sem eru að mínu mati komin þar fram úr. Ég tel að nú séu þau tímamót í aðildarferlinu og aðildarumsókninni (Forseti hringir.) að fram undan sé bara aðlögun. (Forseti hringir.) Það er búið að fara í gegnum alla rýnivinnu, samanburðarvinnu og annað því um líkt, fram undan er aðlögun að (Forseti hringir.) kröfum Evrópusambandsins.



[00:08]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í síðasta andsvari og í ræðu sinni að það væru mikil tímamót fram undan í Evrópusambandsumsókninni, að ekkert væri fram undan nema aðlögun í málinu.

Nú greiddum við atkvæði hér í dag um það hvort þjóðin eigi að fá að koma að þessu máli áður en aðlögun hefst. Það vakti satt best að segja undrun margra þegar ráðherrar og einstakir þingmenn sem talað höfðu fyrir því jafnvel bara á síðustu vikum að þjóðin ætti að fá að koma að þessu máli, eins og hæstv. umhverfisráðherra gerði hér í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir viku síðan. Hæstv. umhverfisráðherra sagði síðan nei við þeirri tillögu að leyfa þjóðinni að koma að málinu áður en aðlögun hefst.

Við munum öll hvernig málum var háttað í sal Alþingis á sínum tíma þegar atkvæðagreiðslan fór fram um hvort sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu. Hæstv. forsætisráðherra sat hér í hliðarherbergi og kallaði stjórnarliða hvern á fætur öðrum inn í hliðarherbergi, SMS-sendingar áttu sér stað hér í þingsal o.s.frv. Þetta er það sem ég mundi flokka undir ákveðna tegund af hótunum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji í fyrsta lagi trúlegt að eitthvað slíkt hafi verið á döfinni í atkvæðagreiðslunni í dag.

Í annan stað, á sínum tíma þegar hv. þingmaður var hæstv. ráðherra og þessi atkvæðagreiðsla fór fram hafði ekki nokkur ráðherra greitt atkvæði gegn ríkisstjórnarmáli síðan 1970, það er eftirtektarvert. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi í tengslum við þá atkvæðagreiðslu fundið fyrir einhverjum hótunum, beinum eða óbeinum, frá hæstv. forsætisráðherra sambærilegum þeim sem aðrir (Forseti hringir.) þingmenn urðu fyrir. Þetta eru sem sagt tvær laufléttar (Forseti hringir.) spurningar.



[00:10]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hefði verið fróðlegt varðandi IPA-styrkina að vita hvort allir þeir sem þá greiddu atkvæði með umsókninni en sögðust vera á móti aðild hefðu gert það ef þessir milljarðar kr. í aðlögunarfé af hálfu Evrópusambandsins hefðu þá strax verið lagðir inn. Ég ætla ekki að dæma um það.

Að öðru leyti minni ég á varðandi þessa umsókn að þegar ríkisstjórnin var mynduð var það nú þannig á milli stjórnarflokkanna að málinu var varpað inn til Alþingis en hver og einn þingmaður var ekki bundinn af ríkisstjórnar- eða flokksaga með formlegum hætti hvað það varðaði. Hvað mig varðar var öllum það alveg ljóst innan þingflokks VG og við ríkisstjórnarmyndunina og eins í ríkisstjórn að ég var andvígur því að sótt væri um aðild að Evrópusambandinu, það lá alltaf fyrir. Ég taldi líka rétt að spyrja þjóðina um það áður en farið væri út í slíka vegferð, sem er náttúrlega ekkert nema fullveldisframsal að stórum hluta.

Varðandi stöðuna í dag verður líka að muna að ekki var kosið um umsókn að Evrópusambandinu við síðustu alþingiskosningar. Það var fyrst og fremst verið að kjósa um ákveðið uppgjör við efnahagshrun síðustu ára og hvernig menn ætluðu að takast á við uppbyggingu og endurreisn (Forseti hringir.) landsins en ekki um Evrópusambandsaðild. Að mínu mati fór Alþingi því mjög aftan að kjósendum með því (Forseti hringir.) senda aðildarumsókn að Evrópusambandinu, sem er jú eitt stærsta mál sem þingið hefur tekið ákvörðun um.



[00:13]
Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður rakti vel sína afstöðu til þessa máls, hann sagði að afstaða hans hefði legið klár fyrir á sínum tíma og að aldrei hefði komið til greina að styðja Evrópusambandsumsókn. Ég rakti áðan í andsvari mínu þær hótanir sem hæstv. forsætisráðherra beitti meðal annars samþingmenn sína og einstaka stjórnarliða. Mér leikur forvitni á að vita hvort hv. þingmaður hafi fundið fyrir einhverjum slíkum hótunum á sínum tíma frá hæstv. forsætisráðherra eða forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Mér er vel kunnugt um að hv. þingmaður bognaði aldrei undan slíku en það væri forvitnilegt að vita hvort hv. þingmaður man eftir þeim umræðum sem urðu um þetta mál, hvort hann hafi skynjað eitthvað slíkt í aðdraganda þeirrar atkvæðagreiðslu sem þá var haldin og hvort hann telji að eitthvað slíkt hafi verið uppi á teningnum í aðdraganda þeirrar atkvæðagreiðslu sem fram fór í dag.



[00:14]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er alveg hárrétt að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna létu það mjög skýrt í ljósi á þeim tíma þegar umsóknin var send að það væri þeim miklu betur þóknanlegt að greidd væru atkvæði eins og formenn ríkisstjórnarflokkanna vildu (VigH: Hneyksli.) og komu því alveg skýrt á framfæri, (Gripið fram í.) líka við þann sem hér stendur. En ég get fullvissað hv. þingmann um að ég sagði líka að ef menn vildu hóta einhverju í þeim efnum væri það vonlaust gagnvart mér.

Mér er ekki kunnugt um neitt slíkt í atkvæðagreiðslunni í dag en ég tel að þinginu beri skylda til þess að taka nú þessa Evrópusambandsumsókn virkilega til málefnalegrar endurskoðunar. Það var ekki þjóðin sem bað um að þessi umsókn væri send, hún var send á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Mér finnst að Alþingi og ríkisstjórn beri ábyrgð á því að hún sé þá afturkölluð og að þjóðin verði spurð áður en haldið er aftur af stað út í þá vegferð.



[00:16]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Allt á sitt upphaf einhvers staðar og þessir IPA-styrkir sem við ræðum núna eiga auðvitað upphaf sitt í því að illu heilli var tekin sú ákvörðun um mitt ár 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá var sagt að þeirri atkvæðagreiðslu hefði verið náð fram undir miklum hótunum gagnvart einstökum hv. þingmönnum stjórnarliðsins þar sem þeim var gert ljóst að ef ekki yrði tryggður meiri hluti fyrir því máli gæti líf ríkisstjórnarinnar verið í hættu.

Ég tók eftir því í dag að ekkert slíkt virtist vera á seyði. Núna er, eins og ég nefndi áðan, ekki hægt að sjá mikinn mun á stjórnarflokkunum þegar kemur að Evrópusambandinu. Menn virðast vera býsna samstiga, búnir að æfa vel Evrópusambandsdansinn og verður aldrei á í messunni þegar sá dans er stiginn. Því er ekki að undra að þetta mál, IPA-styrkjamálið, sé borið fram af ríkisstjórninni þegar svo er komið að búið er að tryggja það að þessu Evrópusambandsmáli verði rennt ljúflega niður af báðum stjórnarflokkunum og hvorugan þarf að hvetja, báðir hafa sömu hugsjónirnar um að þessum málum verði haldið áfram.

Það er athyglisvert sem kom fram í andsvörum hv. þm. Jóns Bjarnasonar þegar ég spurði hann aðeins út í þessi mál áðan. Þá sagði hv. þingmaður að með móttöku IPA-styrkjanna væri ríkisstjórnin í raun komin út fyrir það umboð sem Alþingi veitti á miðju ári 2009. Eins og við munum var ákvörðunin studd með ítarlegu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem tíunduð voru þau skilyrði sem leggja átti til grundvallar, sem mætti kannski kalla samningsmarkmið, og frá þeim skilyrðum væri ekki hægt að víkja nema koma með málið að nýju til Alþingis til meðhöndlunar.

Nú hefur það sem sagt gerst og hv. þm. Jón Bjarnason hefur staðfest það að með því að veita móttöku þessum IPA-styrkjum séum við í rauninni komin fram yfir það sem þingsályktunartillagan heimilar. Hv. þingmaður sagði jafnframt að það væru fleiri dæmi sem mætti nefna þessu til stuðnings.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að sú ákvörðun sem nú er verið að taka um IPA-styrkina markar heilmikil tímamót og hlýtur að kalla á að við ræðum þessi mál almennt.

Það er líka rétt, sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði áðan, að fram undan er bara aðlögunin. Við höfum farið yfir þessi mál, annars vegar Ísland og hins vegar Evrópusambandsþjóðirnar, þar sem menn hafa borið saman bækur sínar, borið saman löggjöfina á viðeigandi sviðum. Ég hef stundum setið í utanríkismálanefnd og mér er kunnugt um hvernig þessi mál fara fram. Menn kalla það að opna kafla sína og loka þeim síðan ef ekki þarf að hyggja sérstaklega að einstökum þáttum. Fram undan er því bara aðlögun og IPA-styrkirnir eru snar þáttur í henni. Styrkirnir eru til þess fallnir og til þess gerðir að tryggja það að aðildarumsóknarríki eins og Ísland eða önnur umsóknarríki geti breytt stjórnkerfi sínu frá því sem var ákveðið af þjóðþingum þessara ríkja í átt að því sem Evrópusambandið telur að þurfi til að ríkið sé tækt í Evrópusambandið.

Við hv. þm. Jón Bjarnason erum ágætlega kunnugir í landbúnaðarmálum og er okkur því ljóst að grundvallarmunur er t.d. á öllum landbúnaðarstuðningi okkar og landbúnaðarstuðningi Evrópusambandsins. Ef við ætlum að ganga í Evrópusambandið þarf frá fyrsta degi að vera búið að taka ákvarðanir og undirbúa hluti þannig að hægt sé að vinna á Íslandi í samræmi við þær meginreglur sem Evrópusambandið hefur sett. Málið er ekkert flóknara en svo.

IPA-styrkirnir hafa þann yfirlýsta tilgang að auðvelda ríkjum sem eru með ólíkan stjórnsýslugrunn að breyta honum þannig að þau geti farið að vinna eins og fullgild ríki í Evrópusambandinu. Þetta er aðlögunin. Með þessu er verið að stíga skrefin smám saman eitt og eitt. Síðan verður auðvitað erfiðara að snúa til baka ef menn fara t.d. að hiksta á því að ganga í Evrópusambandið.

Tímasetningarnar í þessu máli vekja athygli. Evrópusambandsumsóknin var samþykkt um mitt ár 2009 og um mitt ár 2011, þ.e. 8. júlí í fyrra, var skrifað undir samning við Evrópusambandið fyrir hönd Íslands sem fól í sér möguleikana á því að kalla eftir þessum IPA-styrkjum. Það var gert, eins og við vitum, með því að búa til þennan samning. Hann kallar hins vegar á lagabreytingu, að Alþingi taki afstöðu til samningsins. Það er í fyrsta lagi gert með þeirri þingsályktunartillögu sem verið er að ræða núna þar sem í raun er verið að ramma þetta inn í þingsályktunartillögu sem Alþingi tekur afstöðu til. Í öðru lagi þarf að gera breytingar á lögum vegna þess að IPA-styrkirnir fela í sér mjög mikið frávik frá því sem gerist almennt um styrki af þessum toga, þ.e. ef ekki er kveðið á um annað í lögum eru styrkir skattskyldir. Eins og kemur fram í öllum þeim gögnum sem fyrir okkur hafa verið lögð, í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra frá því fyrr á þessu þingi, í þingsályktunartillögunni og 1. minnihlutaáliti utanríkismálanefndar, þarf að gera þessar breytingar til að hægt sé að fá þessa styrki.

Ef við skoðum þessa IPA-styrki þá eru þeir einhvers konar tæki fyrir for-aðlögunarferli eins og það er kallað í hrárri þýðingu. Um er að ræða tvenns konar áætlanir. Annars vegar það sem menn hafa kallað landsáætlun sem er landsáætlun fyrir einstök ríki, Ísland fær sína landsáætlun, og hins vegar eru til viðbótar fjölþegaáætlanir sem byggja á öðru og eru ekki landsáætlanir í sjálfu sér heldur annars konar áætlanir sem líka eru lagðar til grundvallar og fela í sér fjárhagslegan stuðning til eins og annars sem er í rauninni tíundað í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra frá því fyrr á þessu ári. Þetta eru ekki neinar smáupphæðir. Ef við skoðum bara landsáætlunina sem var undirrituð í fyrra fyrir Ísland þá er gert ráð fyrir því að á þremur árum verði veittir alls um 5 milljarðar kr. til margs konar stuðningsaðgerða sem hafa þann yfirlýsta tilgang að aðlaga stjórnsýslu okkar að því sem er í Evrópusambandinu, en eins og menn hafa nefnt í umræðunni þá er Evrópusambandið ekki að ganga í Ísland heldur ætlar Ísland að ganga í Evrópusambandið ef vilji meiri hluta Alþingis ræður. Þess vegna þarf að breyta mörgu í stjórnsýslulegum strúktúr okkar og hugsunin er að setja 5 milljarða í alls konar undirbúning á þessum þremur árum.

Forsenda Evrópusambandsins fyrir því að Ísland geti fengið þessa styrki er að slík aðstoð upp á 5 milljarða kr. renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja. Þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir því að IPA-aðstoðin renni að nokkru leyti í opinber gjöld. Það er sem sagt verið að undanþiggja þessa styrki frá hvers konar skattlagningu, ekki bara venjulegum sköttum heldur verður allur innflutningur á grundvelli þessara samninga undanþeginn tollum, aðflutningsgjöldum, virðisaukaskatti og öðrum sköttum og gjöldum. Með öðrum orðum er alveg sama hvaða nafni slík gjöld eða skattar nefnast, allt verður undanþegið skattlagningu. Það má því segja að í raun felist í þessu óbeint ríkisframlag af hálfu Íslendinga vegna þess að undanþága frá sköttum er óbeinn ríkisstuðningur. Ef þessum lögum yrði ekki breytt fengi ríkið hluta af veittum styrkjum beint í sínar hendur. Þetta eru ekki bara styrkir til ríkiskerfisins, þetta eru líka styrkir utan þess og slíkir aðilar væru þá klárlega skattskyldir. Það er sem sagt verið að hverfa frá því þannig að íslenska ríkið verður af, ef við getum orðað það svo, sköttum sem ella yrðu innheimtir að óbreyttum lögum.

Frá sjónarhóli Evrópusambandsins getur maður kannski sagt að sumt af því sem þarna er verið að leggja til sé mjög skiljanlegt. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að hinn yfirlýsti tilgangur er aðlögun, hinn yfirlýsti tilgangur er að breyta stjórnsýsluuppbyggingunni, stofnanaumhverfinu. Það kostar peninga og Evrópusambandið leggur til hliðar fjármuni fyrir ný ríki og aðildarríki til að geta staðið straum af því. Maður skilur það út af fyrir sig. Vilji Evrópusambandsins er að hjálpa umsóknarríkjum til að breyta kerfi sínu þannig að það kerfi sem þessi lönd búa við, þar á meðal Ísland, sé algerlega í samræmi við stofnanauppbyggingu Evrópusambandsins. Það er það sem ég á við þegar ég segi: Maður getur út af fyrir sig skilið röksemdafærsluna frá sjónarhóli Evrópusambandsins fyrir því að Evrópusambandið vill tryggja að þetta gangi allt saman vel fyrir sig þannig að ekki verði farin fýluferð þegar búið er að gera samning við okkur og menn standi þá ekki frammi fyrir því að landið eða samfélagið sé ekki undir það búið stjórnsýslulega séð að ganga í Evrópusambandið. Sumt af því sem maður sér í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra lýtur klárlega að þessu. Ýmislegt í sambandi við reglugerðina um matvælaöryggi, ýmislegt sem maður sér í sambandi við fjármálauppbyggingu og þess háttar er allt í samræmi við það sem um er að ræða, þ.e. Evrópusambandið vill gera tilteknar breytingar.

Hitt finnst mér miklu óskiljanlegra, að inn í þetta skuli vera blandað alls konar öðrum styrkjum til hinna aðskiljanlegustu hluta sem margir hverjir eru ágætir. Í dag fóru fram athyglisverðar umræður undir andsvarafyrirkomulaginu þar sem saumað var að þingmönnum úr einstökum kjördæmum og sagt: Er þingmaðurinn virkilega á móti því að háskólasamfélagið á Suðurlandi fái peninga til verkefnisins Kötlu jarðvangs? — eða eitthvað álíka. Það mætti t.d. spyrja okkur hv. þm. Jón Bjarnason hvort við værum á móti því að tiltekin verkefni í Norðvesturkjördæmi fengju peninga út úr þessum IPA-styrkjum.

Það er svo sérkennilegt að hluti af þessari aðlögun skuli vera að greiða fyrir verkefni af þessu tagi, sem ekki eru þráðbeint tengd því að breyta stofnanastrúktúr samfélagsins. Það blasir við að þarna er verið að smyrja tannhjólin. Það vita allir að þau hafa gengið fremur stirðlega, það hefur verið mikil andstaða og vaxandi andstaða meðal Íslendinga gagnvart aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. Það er verið að greiða fyrir því, og ég ætla ekki að hafa stærri orð um það, að auka velvild í garð Evrópusambandsins með því að tengja Evrópusambandið uppbyggingu á tilteknum áhugaverðum verkefnum sem menn hafa áhuga á að vinna á einstökum svæðum. Auðvitað þekkja menn svona vinnubrögð. Fyrirtæki hafa t.d. gert þetta, búið sér til slíka ímynd eða velvild, og Evrópusambandið er klárlega að gera það.

Við sjáum af ýmsum þeim upptalningum sem fyrir liggja að þetta eru ekki verkefni sem eru tengd því að breyta stjórnsýslu Íslands, alls ekki. Þetta eru almenn verkefni sem við höfum í gegnum tíðina stutt í gegnum fjárlagagerðina, við sem höfum setið í fjárlaganefnd, eða barist fyrir í kjördæmi okkar. Við könnumst við þessi verkefni. Þetta eru verkefni sem við höfum ekki sinnt nægjanlega, ekki hafa verið lagðir nægjanlega miklir fjármunir í, ekki síst í vandræðum okkar upp á síðkastið. Þá kemur ESB, hinn góði stóri bróðir, með opið veskið og skrifaðir eru stórir tékkar fyrir þessi stóru og góðu verkefni. Síðan koma menn sem eru áhugasamir um að ganga í Evrópusambandið hingað upp og segja: Ekki eruð þið á móti þessu, ekki eruð þið á móti því að peningarnir fari í þessi fínu verkefni á Suðurlandi? — eða Norðvesturlandi eða eitthvað þess háttar og umræðan snýst þá ekki lengur um það hvort verið sé að breyta stofnanastrúktúr heldur um allt annað.

Af því að tími minn líður hratt vil ég segja að mér finnst sá galli vera við þetta mál að það er ekki stutt nægilega góðum upplýsingum. Ég sé t.d. hvorki í tillögu til þingsályktunar né nefndaráliti frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar né heldur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra nákvæmlega tilgreindar upphæðir í þau verkefni sem þó er búið að taka ákvörðun um. Það er vísað til þess í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að landsáætlunin sem ég hef aðeins gert að umræðuefni feli í sér stuðning upp á 30 millj. evra sem eru um 5 milljarðar kr. sem eiga að borgast út á þremur árum, 2011, 2012 og 2013. Í þessari skýrslu kemur fram að fyrsta landsáætlunin hafi þegar verið afgreidd af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samræmi við tillögu stjórnvalda, þ.e. tillögu íslenskra stjórnvalda. Þá vaknar spurningin: Hefur þessi upphæð verið reidd fram? Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að landsáætlun 2011 eigi að fá 12 millj. evra sem varið verði til sjö verkefna sem eru tíunduð og er búið að taka ákvörðun um að 2 milljörðum kr. verði varið til einstakra verkefna.

Nú langar mig að spyrja þá sem betur þekkja til og kunna að hafa svör við þessu: Hafa þessir peningar verið reiddir fram? Er búið að borga þessa 2 milljarða kr. á árinu 2011? (Gripið fram í.) Hafa verið gerðar einhverjar skuldbindingar í þessum efnum? Hvernig víkur þessu við? Hér er gripið fram í að því hafi verið svarað í þessari umræðu. Það fer reyndar tvennum sögum af því. Ég hef ekki verið í aðstöðu til að fylgjast með allri þessari umræðu en ég hef ekki orðið var við svörin og ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það hvort þetta liggi fyrir, hvort búið sé að greiða þessar upphæðir út að einhverju leyti. Það er mjög mikilvægt að það liggi að minnsta kosti fyrir vegna þess að samningurinn var gerður um mitt ár 2011. Við erum að tala um 2 milljarða kr. sem eru eyrnamerktir á árinu 2011 og síðan eru 3 milljarðar eftir sem á þá eftir að borga miðað við árin 2012 og 2013. Ef ekki er búið að borga út neitt af þessum peningum, er þá gert ráð fyrir því að þessir 5 milljarðar kr. dreifist frá miðju ári 2012? Það má ekki búast við því að þessi mál verði samþykkt fyrr en um mitt þetta ár og miðja þessa árs nálgast býsna hratt og þá er eftir hálft árið 2012 og árið 2013. Er þá hugsunin sú að þetta verði borgað út á lengri tíma eða hvernig verður það gert? Mér er kunnugt um að ýmsar þær stofnanir sem eru nefndar til sögunnar eru þegar farnar að vinna að beinum undirbúningi þess að taka á móti þessum fjármunum, m.a. með ýmsum fjárfestingum, eins og Hagstofan.

Af því að ég nefni Hagstofuna finnst mér líka dálítið óskýrt það sem segir um þau mál í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Þar er sagt varðandi Hagstofuna að hún fái á grundvelli landsáætlunar styrk til að endurbæta gerð þjóðhagsreikninga. Sagt er að það sé skortur á mikilvægum hagtölum sem valdi erfiðleikum við að meta stöðu einstakra atvinnugreina. Vaknar þá spurningin: Er þetta verkefni tengt aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu? Eða er þetta bara eitt af þeim verkefnum sem Hagstofan telur að þurfi að vinna betur? Ég ætla ekki að gera ágreining um það. Er það á einhvern hátt skilyrði þess að við getum sótt um aðild að Evrópusambandinu að Hagstofan láti vinna þessi verkefni? Í öðru lagi kemur fram að á grundvelli fjölþegaáætlunarinnar eigi Hagstofan að fá 1 millj. evra sem eru 170 millj. kr. til verkefna á sviði manntals, landbúnaðar, tölfræði, framleiðslureikninga o.s.frv. Mér er ekki ljóst hvort um sé að ræða fjölþegaáætlanir upp á 170 millj. kr. og síðan einhverja aðra styrki til Hagstofunnar upp á einhverjar aðrar upphæðir — þetta er allt saman óljóst. Ég tel mikilvægt að við fáum svör við þessu áður en umræðunni vindur (Forseti hringir.) mikið lengra fram til að við getum í raun og veru tekið nægilega skýra og upplýsta efnislega afstöðu til þessa (Forseti hringir.) máls.



[00:36]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um það hvort þörf sé á þessum aðlögunarstyrkjum get ég upplýst það að samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins segir um rýnivinnuna, með leyfi forseta:

„Landbúnaðarstefnunni þarf að breyta í þá átt að aftengja stuðningsgreiðslur frá framleiðslu. Ísland þarf að styrkja stjórnsýsluna. Enn fremur verður að bæta söfnun úrvinnslu hagtalna í landbúnaði og hefja undirbúning að því að koma upp grunnkerfum og stofnunum til að framkvæma sameiginlegu landbúnaðarstefnuna …, sérstaklega ESB-viðurkenndri greiðslustofnun og samræmdu stjórn- og eftirlitskerfi …“

Þarna er kveðið skýrt á um það að þess er krafist að byrjað verði á úrvinnslu og söfnun hagtalna sem er forsendan fyrir því að breyta landbúnaðarkerfinu og taka upp styrkjakerfi Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Þess vegna er alveg hárrétt að (Forseti hringir.) Hagstofan fékk fé til að vinna þessa undirbúningsvinnu (Forseti hringir.) að kröfu Evrópusambandsins.



[00:37]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Auðvitað er okkur ljóst að það er mikill munur í eðli sínu á því stuðningskerfi sem við höfum byggt í kringum okkar landbúnað og því stuðningskerfi sem Evrópusambandið hefur byggt upp í kringum sinn landbúnað. Til að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu er alveg ljóst að þær framleiðslutengingar sem við höfum byggt inn í búvörusamningana okkar yrðu auðvitað að hverfa frá fyrsta degi. Þessi stuðningur yrði þá af allt öðrum toga og við getum síðan rætt það efnislega hvort það sé skynsamlegt eða ekki. Ég hef mjög miklar efasemdir um það að hverfa frá þessari framleiðslutengingu.

Sömuleiðis er þarna gert ráð fyrir því að sett yrði á laggirnar þessi stóra og mikla greiðslustofnun. Eins og hv. þingmaður er að upplýsa okkur um í þessari umræðu er það sem Hagstofan vinnur núna einhvers konar módel að slíkri stofnun sem hægt væri þá að taka í notkun frá fyrsta degi. Ef bændur eiga að fá stuðning í gegnum þetta nýja fyrirkomulag verður slík stofnun (Forseti hringir.) að vera til staðar með öllum þeim breytingum sem það útheimtir.



[00:39]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að þessi gagnagrunnur er forsenda fyrir því að taka upp þetta breytta kerfi sem Evrópusambandið krefst.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um hvað þetta tæki langan tíma. Sá samningur sem við erum að fjalla um, um stuðningsfyrirkomulagið, er bara stöðluð reglugerð af hálfu Evrópusambandsins sem hefur gilt líka fyrir önnur ríki sem hafa sótt um aðild þannig að í grundvallaratriðum er um sama grunntexta að ræða. Það er ekki ástæðan fyrir því að það hafi dregist að koma með þetta fram.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann: Hefði það haft áhrif á atkvæðagreiðsluna 16. júlí 2009 ef þá hefði líka legið fyrir að Íslendingar ætluðu að taka við allnokkrum (Forseti hringir.) milljörðum króna í mútufé eða (Forseti hringir.) aðlögunarstyrki eins og hér er? Hefði það getað haft áhrif á atkvæðagreiðsluna (Forseti hringir.) og ákvörðun einstakra þingmanna ef það hefði komið strax fram?



[00:40]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér í sjálfu sér ekki til að vera með neinar vangaveltur um hvort það hefði haft áhrif. Ég gæti ímyndað mér að það gæti svo sem haft áhrif í báðar áttir. Einhver sagðist hafa séð í þessu tækifæri fyrir uppbyggingu á einhverjum sviðum og fundist kannski Evrópusambandið verða eitthvað álitlegra. Ég gæti hins vegar vel ímyndað mér að mjög margir hefðu brugðist við með alveg gagnstæðum hætti og sagt sem svo að það væri ólíðandi fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð að vera einhvers konar þiggjandi að fjárhagslegum styrkjum frá Evrópusambandinu og fyrir vikið hefði viðkomandi þess vegna snúist mjög hart gegn hugmyndinni um aðild að Evrópusambandinu.

Í þessu sambandi væri fróðlegt að vita kostnaðinn við þennan gagnagrunn sem hv. þingmaður hefur upplýst að verið sé að undirbúa á vettvangi Hagstofunnar. Ég hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir því að þessir styrkir sem eru tíundaðir væru sérstaklega eyrnamerktir þessu tiltekna verkefni. Í skýrslu utanríkisráðherra eru til að mynda nefnd ýmis verkefni en auðvitað væri mjög fróðlegt (Forseti hringir.) að vita, og nokkuð sem við þurfum þá væntanlega að kalla eftir upplýsingum um, kostnaðinn við að búa til þennan mikla gagnagrunn (Forseti hringir.) og greiðslustofufyrirkomulag sem hv. þingmaður var að upplýsa okkur um (Forseti hringir.) að væri verið að undirbúa núna hjá Hagstofunni.



[00:42]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er farið yfir þessi mál í allt kvöld. Sitt sýnist hverjum. Aðallega er stjórnarandstaðan að tala, að undanskilinni Hreyfingunni, vegna þess að við látum okkur málefni landsins varða.

Mig langar til að spyrja þingmanninn nánar út í þennan IPA-samning sem var undirritaður fyrir rúmu ári og er fyrst núna að komast inn í þingið: Telur þingmaðurinn að þetta hafi verið til að blekkja Vinstri græna til fylgis við umsóknina, til að halda þeim þægum þar til kosningar færu að nálgast? Við vitum að einn hv. þingmaður, Jón Bjarnason, stóð heldur betur í lappirnar á móti þessum styrkjum á sínum tíma. Getur verið að þessum blekkingum hafi verið haldið fram vegna þess að það er búið að tala fyrir því að ekki séu aðlögunarviðræður í gangi? Það var verið að halda þessu leyndu — (Forseti hringir.)

Fyrirgefðu, forseti, átti ég ekki tvær mínútur?

(Forseti (ÞBack): Eina mínútu.)

Ég vona að þingmaðurinn hafi skilið spurninguna, (Forseti hringir.) ég var bara hálfnuð.



[00:43]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst frekar óþægilegt að vera með einhverjar getsakir í þessum efnum og ég vil út af fyrir sig ekki segja að þetta hafi verið hluti af einhverju plotti. Ég held að það hafi bara blasað við öllum sem fylgdust með umræðunum við Evrópusambandið í hvað stefndi. Hluti af því var að breyta stjórnsýslunni okkar. Við hv. þm. Jón Bjarnason höfum verið að ræða það að til dæmis er gerð grein fyrir því, og við gerðum okkur auðvitað öll grein fyrir því, að með aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, ég tala nú ekki um að ef af slíkri aðild yrði, yrði að gera grundvallarbreytingar á stofnanaumhverfi landbúnaðarins. Jafnvel þótt menn hefðu viljað reyna að blekkja einhvern í þessum efnum blasti þetta bara við.

Það sem vekur hins vegar með manni spurningar er hvers vegna skrifað var undir þennan samning 8. júlí í fyrra og síðan er málið ekki komið lengra en raun ber vitni. Það getur vel verið að það hafi verið vegna einhverrar pólitískrar andstöðu í stjórnarflokkunum, ég veit ekkert um það, en það hefði auðvitað verið miklu heppilegra að málið (Forseti hringir.) hefði komið fyrr fram þannig að menn hefðu getað rætt það fyrr.



[00:44]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Já, það er alveg einkennilegt hvernig þessum málum er fyrir komið í þinginu af hæstv. ríkisstjórn. Í fjárlögum síðasta árs sem við afgreiddum um áramótin voru skilgreindar 596 milljónir sem fyrir fram greiddir styrkir frá Evrópusambandinu. Samt erum við að ræða í dag, í maí 2012, hvort Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af þessum samningi. Hvernig er hægt að setja inn í fjárlög tæpar 600 milljónir sem eiga sér ekki stoð í öðrum lögum? Í þessum samningi stendur að móttökuríkið, sem er Ísland, skuli samþykkja þennan samning til að fá þessa greiðslu. Af hverju skrifar ríkisstjórnin gúmmítékka inn í fjárlögin og hefur ekki til þess lagalega heimild og er fyrst að koma með málið fram núna, eins og ég segi, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara? Er ekki ríkisstjórnin farin að tefla á tæpasta vað (Forseti hringir.) og þá þar með meiri hluti þingsins með því að samþykkja síðustu fjárlög?



[00:45]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man vel að það voru greidd sérstaklega atkvæði um það og það vakti auðvitað athygli hverjir greiddu atkvæði með því þegar fjárlögin voru afgreidd rétt fyrir jólin. Þá var tekin afstaða til greiðslu þessara styrkja, í prinsippinu getum við sagt, og síðan var þá gert ráð fyrir því að bæði kæmi fram þingsályktunartillaga og lagabreyting.

Við megum ekki gleyma því að forsendan fyrir þessum styrkjum er skattfrelsið. Ef þetta skattfrelsi er ekki veitt verða engir styrkir veittir. Í raun og veru er íslenskum stjórnvöldum þannig stillt upp við vegg og sagt sem svo: Ef þið sjáið ekki um að breyta lögunum og fá heimild til að þessir styrkir verði veittir án skattgreiðslna verða engir styrkir veittir. Það er í rauninni það sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir og í sjálfu sér má kannski færa fyrir því rök, eins og ég nefndi áðan, að í því felist á vissan hátt óbeinn ríkisstuðningur Íslendinga við þetta styrkjakerfi Evrópusambandsins (Forseti hringir.) þar sem við erum að gefa eftir skatttekjur sem ella hefðu farið í vasa ríkissjóðs.



[00:47]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðu hans. Ég mundi vilja bera upp nokkrar spurningar. Hver er afstaða hv. þingmanns almennt til styrkja frá Evrópusambandinu? Hvenær hófst aðlögunarferlið og hvenær hófust styrkveitingar Evrópusambandsins að mati hv. þingmanns? Var það við aðildarumsóknina eða þegar Ísland samþykkti EES-samninginn 1993? Ég mundi líka vilja heyra nánar, þótt tíminn sé stuttur, frá þingmanninum um afstöðu hans til einstakra verkefna sem falla undir landsáætlun IPA 2011. Þingmaðurinn fór aðeins í gegnum það í ræðu sinni en telur hann rétt að fara í þessi verkefni?



[00:48]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað kunnugt að við Íslendingar höfum fengið talsvert mikla peninga í gegnum til að mynda vísindasamstarf okkar við Evrópusambandið undir ýmsum áætlunum sem ég ætla í sjálfu sér ekki að tíunda. Þar hafa vísindamenn okkar einfaldlega keppt á samkeppnisgrundvelli og sýnt hæfni sína og færni til að afla þessa fjár og ég tel ekkert að því, ég tel það ósköp eðlilegt. Það eru styrkir sem menn sækjast eftir og keppa um á samkeppnisgrundvelli. IPA-styrkirnir eru ekki af þeim toga. Yfirlýstur tilgangur með þeim er að breyta stjórnkerfi okkar og stjórnsýslu, og þess vegna eru þeir í meginatriðum allt öðruvísi.

Ég get alveg skilið röksemdafærsluna frá sjónarhóli Evrópusambandsins fyrir því að setja svona styrki í þessa aðlögun, en það sem vekur hins vegar margar spurningar í mínum huga og mér finnst mjög sérkennilegt eru aðrir styrkir til góðra verkefna, sem við getum kallað sem svo, vítt og breitt um landið sem eru til þess fallin að draga upp frekar (Forseti hringir.) góða ímynd af Evrópusambandinu og ég sé ekki að hafi þann tilgang sem verkefnum sem fá IPA-styrki er ætlað að hafa.



[00:49]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega hálfmiður mín eftir að hafa hlustað á umræðuna fyrr í kvöld. Ég hef þegið styrki frá Evrópusambandinu, annars vegar hef ég tekið þátt í Leonardo áætluninni og hins vegar Northern Periphery áætluninni, þótt fjármunir í því verkefni hafi fyrst og fremst komið héðan frá Íslandi en samstarfsfélagar okkar fengu styrki frá Evrópusambandinu. Þetta voru sem sagt atvinnu- og þróunarverkefni, og hið síðarnefnda mundi flokkast undir sjávarútveg eða fiskeldi. Að mínu mati tel ég að styrkirnir hafi komið þeim aðilum og fyrirtækjum sem tóku þátt í þessum verkefnum ágætlega. Það hefur hins vegar ekki breytt afstöðu minni til Evrópusambandsins.

Telur hv. þingmaður að það að þiggja þessa styrki hafi áhrif (Forseti hringir.) á afstöðu fólks til aðildar að Evrópusambandinu? Eins og hér hefur margoft komið (Forseti hringir.) fram er ég ósammála því að ganga í Evrópusambandið þrátt (Forseti hringir.) fyrir að hafa þegið styrki frá því. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að styrkirnir geti (Forseti hringir.) hugsanlega haft áhrif á afstöðu fólks?



[00:50]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé alveg hægt að ræða um þessa IPA-styrki með hófstilltum hætti og ég hef freistað þess að gera það og ætla ekki að hafa stór orð um þá. Ég ætla ekki að segja að verið sé að kaupa menn til fylgis með svona styrkjum.

Það sem ég var einfaldlega að segja og vil árétta er þetta: Við Íslendingar höfum tekið þátt í margs konar styrkjaverkefnum með Evrópusambandinu eins og við þekkjum. Hv. þingmaður nefndi Leonardo áætlunina og fleira mætti nefna í þessu sambandi, t.d. byggðaverkefni eins og hv. þingmaður kom inn á. Þeim verkefnum var auðvitað ekki ætlað að stuðla að ákveðnum breytingum á stjórnsýslu okkar, eins og hv. þingmaður veit, styrkirnir til þeirra verkefna höfðu allt annan tilgang. Menn eru þar almennt talað að sækja um styrki á samkeppnislegum grundvelli.

Það sem mér finnst hins vegar svolítið sérkennilegt og ég á erfitt með að skilja er að sumir þessara styrkja sem verið er að veita í gegnum IPA til verkefna sem nefnd eru í þessum skýrslum, lúta miklu meira finnst mér að einhverri ímyndarsköpun. Þetta eru mjög góð verkefni, fín verkefni (Forseti hringir.) sem ég er viss um að mörg okkar mundu greiða atkvæði með ef hugmyndir um þau kæmu upp á þinginu. Ég tel hins vegar að þau eigi lítt skylt við hinn yfirlýsta tilgang IPA um (Forseti hringir.) að stuðla að breytingum á stjórnsýslunni til þess að aðild geti orðið að veruleika.



[00:52]
Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór vítt og breitt yfir þetta mál í ræðu sinni og m.a. kastaði hann fram spurningum sem hann vildi fá svör við. Hann spurði sérstaklega um það hvort búið sé að greiða út eitthvað af þessum styrkjum. Ég svaraði þeirri spurningu í svari mínu við andsvari frá hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrr í þessari umræðu. Það hefur ekki verið gert enda er forsenda þess að þau þingmál sem hér er um að ræða verði samþykkt af hálfu Alþingis.

Síðan vil ég segja að yfirlit yfir þessi verkefni er að finna í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Baldri Þórhallssyni á þskj. 1788 frá 139. löggjafarþingi. Þar kemur meðal annars skýrt fram að öll verkefni í þessari landsáætlun séu valin með tilliti til þess að þau nýtist óháð aðild að Evrópusambandinu. Þar er m.a. talað um verkefni eins og Hagstofuna, Matís o.fl. sem ég gæti kannski farið betur yfir (Forseti hringir.) í síðara andsvari.



[00:53]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið um að ekkert hafi verið greitt út af þessum styrkjum, en ég hafði spurt um það mjög að gefnu tilefni, vegna þess að maður hefur orðið þess áskynja að stofnanirnar eru auðvitað farnar að ganga út frá því að þessir styrkir verði veittir. Það er kannski ekkert óeðlilegt að menn hugsi þannig þegar liggur fyrir að íslensk stjórnvöld hafa gert þennan samning og þetta hefur sömuleiðis verið samþykkt í fjárlögum þó að ekki verði hægt að greiða styrkina út fyrr en þessi lög hafa verið samþykkt.

Varðandi styrkina verð ég að segja eins og er að mér finnst þetta vera dálítið ruglingslegt í þeim þingskjölum sem liggja fyrir, bæði í skýrslu utanríkisráðherra og í tillögunni. Ég mun auðvitað kynna mér það skjal sem hv. þingmaður vísaði til. Ég átta mig til dæmis ekki alveg á því hvort verið sé að tvítelja í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra styrkina til Hagstofunnar. Það er auðvitað eitthvað sem hægt er að upplýsa hér í umræðunni og þegar lengra líður á hana.



[00:54]
Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri umræðu í svari hæstv. utanríkisráðherra sem ég vísaði til og í umræðum, t.d. á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem hefur verið rætt um IPA-styrkina, hefur verið farið mjög ítarlega yfir landsáætlunina. Það var til dæmis rætt á fundum utanríkismálanefndar í ágústmánuði 2010 áður en rammasamningurinn var gerður, nákvæmlega hvað í þessu fælist. Í landsáætluninni eru reifuð þessi verkefni eins og Hagstofan þar sem verið er að safna hagtölum. Ég vil láta það koma fram að söfnun hagtalna á vegum Hagstofunnar, m.a. í landbúnaði, er EES-mál, en hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er kannski á móti því að við séum þátttakendur í EES-samstarfinu. (Gripið fram í.)

Þarna er farið yfir verkefni hjá Matís, Náttúrufræðistofnun, Þýðingamiðstöðinni, Skrifstofu landstengiliðs, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og síðan Háskólafélagi Suðurlands, og þar kemur m.a. verkefni sem hefur verið talsvert til umræðu og gengur undir heitinu Katla jarðvangur. Það má því lesa um þetta í þeim gögnum (Forseti hringir.) sem liggja fyrir og varða þetta mál sérstaklega, m.a. á birtum þingskjölum.



[00:56]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú ekki nýr fróðleikur fyrir mig, ég hef lesið þetta, m.a. í skýrslum hæstv. utanríkisráðherra og vísaði til þeirra í ræðu minni áðan. Og það er alveg rétt sem kemur fram varðandi Hagstofuna, að hún eigi að fá styrk til að endurbæta gerð þjóðhagsreikninga. Það er líka sagt að skortur sé á mikilvægum hagtölum sem valdi erfiðleikum við að meta stöðu einstakra atvinnugreina. Þetta kann allt saman að vera alveg hárrétt og ég ætla ekki að vefengja það, hef engar forsendur til þess.

Þá vil ég líka vísa til þess að annars staðar í skýrslu utanríkisráðherra er vísað til þess að Hagstofan hafi síðan fengið 170 millj. kr. til verkefna á sviði manntals, landbúnaðar, tölfræði og framleiðslureikninga o.s.frv. Þetta er greinilega verkefni sem byggt er á hugmyndafræði IPA og ekki verið að vísa til EES. Hluti af IPA-hugmyndafræðinni er auðvitað þeir styrkir sem veittir eru ríkjum sem hafa verið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: EES.) Ég vil ekki fara úr EES en margir flokksbræður hv. þingmanns voru miklir andstæðingar EES-samningsins þó að þeir séu núna orðnir (Forseti hringir.) miklir talsmenn þess að ganga í Evrópusambandið eða vilja a.m.k. fylgja mjög hart eftir samþykkt Alþingis þar að lútandi.



[00:57]Útbýting: