140. löggjafarþing — 124. fundur.
samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, frh. síðari umræðu.
stjtill., 373. mál (reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland, IPA). — Þskj. 449, nál. 1243 og 1344.

[16:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðu um IPA-styrkina svokölluðu. Er nú töluvert um liðið frá því við ræddum þetta ágæta mál í þingsal síðast. Ástæðan er að sjálfsögðu þekkt. Við höfum verið að semja um þinglok og hefur þetta mál verið hluti af þeim samningum. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig. Eins og alkunna er eru skiptar skoðanir um þetta mál og við sem höfum gagnrýnt það hvað harðast teljum að ekki sé verið að nota þessa styrki á eðlilegan hátt. Þeir eru ætlaðir til undirbúnings fyrir umsóknarríki þannig að þau verði tilbúin þegar og ef að aðild kemur, en hér virðist hins vegar um það að ræða að styrkina eigi að nota til að flýta aðlögun Íslands að sambandinu og síðan eigi þeir að renna í verkefni sem eru mjög góð verkefni, svo ég taki það fram, og áhugaverð, en tengjast á engan hátt aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Það er þannig, frú forseti, að við sem höfum kynnt okkur það sem Evrópusambandið meðal annars hefur gefið út varðandi þessa styrki sjáum vel að það sem við höfum haldið fram er rétt. Þessir styrkir eru ætlaðir til ákveðinna hluta en kannski ekki þeirra sem hér liggja fyrir. Hitt er líka að styrkjunum er ætlað að hjálpa ríkjum sem eru mjög aftarlega á merinni, ef má orða það þannig, í ákveðnum hlutum og það á svo sannarlega ekki við um Ísland.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að þessi vegferð öll er í raun farin í öfugri röð. Hér var sett í fjárlög útdeiling á fjármunum sem áttu að koma eftir á, þ.e. í gegnum þessa IPA-styrki. Síðan koma inn í þingið bæði frumvarp og þingsályktunartillaga um styrkina sem við höfum verið að takast á um. Ýmsir aðilar sóttu um þessa styrki í þeirri góðu trú að þetta væri allt saman slétt og fellt, en komust svo að því að ekki var búið að ganga frá öllum lausum endum.

Það er vert að halda því til haga líka, frú forseti, að það var 8. júlí 2011 sem þessir samningar voru undirritaðir og þar af leiðandi hljótum við að spyrja okkur að því hvers vegna í ósköpunum þetta var ekki klárað fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Er engin önnur skýring á því en ósætti innan stjórnarmeirihlutans.

Frú forseti. Ég reikna með að þessi hluti aðlögunar verði samþykktur á þingi í dag, væntanlega með atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Vinstri grænna, eða í það minnsta flestra þingmanna þeirra. Við þurfum að hafa í huga hverjir það eru sem bera ábyrgð á þessu ferli. [Kliður í þingsal.]

Frú forseti. Evrópusambandið er í miklum vanda. Því tókst að bjarga sér fyrir horn núna í kosningunum sem eru afstaðnar í Grikklandi. Þar tókst að bjarga því sem bjargað varð í bili. Það er gott að afstýrt var væntanlegu hruni um einhvern tíma. Ég verð því miður að segja, frú forseti, að ég tel að þetta hafi verið gálgafrestur, ekki friður til langframa.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég er algjörlega á móti því að Ísland þiggi þessa styrki frá Evrópusambandinu. Ég tel að Ísland eigi að vera í vegferð sinni á eigin forsendum, ekki upp á einhverja bitlinga frá Evrópusambandinu sem rekur hér harðan og ósvífinn áróður að mínu viti sem er ekki sannur og réttur og hefur til þess tæki eins og Evrópustofu. Ég vil hvetja okkur öll til þess að varast slíkt.



[17:04]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þetta verður örstutt að ósk hæstv. forseta. Eins og kom fram í máli fyrri ræðumanns hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hafa margir efasemdir um þessa styrki, efasemdir um að rétt sé hjá Íslandi að taka við fjárstyrkjum til aðlögunar út frá siðferðilegum forsendum. Ég held að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð og kynnir sjálfa sig sem ríkisstjórn sem hugsi um þá sem minna mega sín, ætti núna að horfa til ástandsins í Suður-Evrópu og til að mynda Grikklands þar sem gríðarleg fátækt er. Við fáum nú fregnir af því dag hvern að einstaklingar þar eigi ekki fyrir lyfjum, eigi ekki fyrir mat og þeim fari fjölgandi sem búi á götunni. Ég held að það væri rétt hjá ríkisstjórninni að hafna þessum styrkjum og leggja til við Evrópusambandið að þeir verði veittir til Grikklands til stuðnings bágstöddum þar.

Ég hyggst flytja breytingartillögu við þessi mál þegar þau koma til afgreiðslu þar sem þeim tilmælum verður beint til ríkisstjórnarinnar að afþakka þessa styrki og því verði beint til Evrópusambandsins að þessir milljarðar verði veittir til stuðnings bágstöddum í Grikklandi. Þar með getur ríkisstjórnin hin norræna sem kennir sig við velferð raunverulega lagt sitt af mörkum við að hjálpa þeim sem minna mega sín.



[17:06]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið talsvert löng umræða um IPA-styrkina þegar saman er tekið og henni er haldið áfram hér í dag. Það hefur mjög margt verið sagt um aðlögunarstyrki Evrópusambandsins frá því umsókn um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram á sínum tíma. Ég tel að með þessu máli sé orðið endanlega ljóst að þeir þingmenn og flestir ráðherrar Vinstri grænna sem í upphafi sögðu að þeir mundu enga aðlögun samþykkja eða taka við nokkrum fjármunum sem tengdust nauðsynlegri aðlögun Íslands að Evrópusambandinu, hafi einfaldlega gengið á bak orða sinna með því að reka á eftir þessu máli í gegnum þingið.

Þegar maður veltir því hlutlægt fyrir sér hvers vegna Evrópusambandið ætti yfir höfuð að leggja umsóknarríkjum til jafnháar fjárhæðir eins og á við í þessu máli blasir svarið við. Það er til að styðja við og hraða aðlögunarferlinu og til að tryggja að löggjöf og stofnanaumgjörð, tölvukerfi og upplýsingakerfi sem þarf að vera til staðar, sé í sem bestu ástandi og í sem bestu samræmi við þær væntingar og þarfir sem hið sameiginlega regluverk krefst.

Sum þeirra verkefna sem hér er verið að horfa til hefðu eflaust á einhverjum tímapunkti komið til framkvæmda, m.a. vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Það er hins vegar augljóst að sumum er verið að flýta. Það er líka augljóst að menn standa frammi fyrir talsvert vandasamri stöðu, jafnvel siðferðilega vandasamri stöðu, sérstaklega þeir sem hafa ekki sannfæringu fyrir því að við eigum að vera í aðildarviðræðum og við eigum ekki erindi inn í Evrópusambandið. Þeir þurfa að gera upp hug sinn til þess hvort það sé siðferðilega rétt að taka við öllum þessum fjárhæðum á sama tíma og þeir hafa ekki sannfæringu fyrir því að rétt sé að vera í aðildarviðræðunum sem eru forsenda þess að fjármunirnir standa til boða. Þetta er dálítið flókin staða. Maður skynjar það á þrýstingnum sem hefur verið á þessu máli, bæði á þinginu og utan úr stjórnkerfinu og víðar, að til staðar virðist vera gríðarlega mikill freistnivandi, freistingin að taka fjármunina og nota þá í góð mál. Freistingin er fyrir suma greinilega óbærileg og setur mjög mikinn þrýsting á að málið fái afgreiðslu á þinginu.

Mér finnst ekki annað hægt en að vekja athygli á því að svona er í pottinn búið, nú þegar málið er komið á þetta stig í þinginu. Undirliggjandi í þessu máli eru gríðarlega háar fjárhæðir sem okkur standa til boða einungis vegna þess að umsóknin var lögð fram. Þeir eru í einkennilegri stöðu, þeir sem hafa í aðra röndina mælt gegn því að við værum í aðildarviðræðum og hafa ekki viljað ganga í Evrópusambandið, en mælast síðan til þess í hina röndina að við tökum fjármunina og notum þá í eitthvað uppbyggilegt. Mér finnst vera meiri reisn yfir því að standa sjálf undir þeim kostnaði sem til fellur vegna okkar sameiginlegu verkefna. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti. Það er það sem ég vildi að kæmi fram í umræðunni áður en henni lýkur.



[17:10]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á fyrri stigum þessarar umræðu hef ég getið þess að ég hef varað mikið við þessum styrkjum. Í fyrsta lagi er skattamálið sem fylgir með alveg með ólíkindum og sýnir þann ákveðna vanda að fjöldi fólks í heiminum borgar ekki skatta til ríkjanna þótt það njóti velferðarkerfanna. Þá á ég við utanríkisþjónustu allra ríkja og þessa styrki. Hér á að veita mönnum skattfrelsi þannig að einhver getur verið að vinna á Íslandi án þess að borga til velferðarkerfisins, hvorki hér né annars staðar.

Það sem er kannski verst við þetta er þessi freistnivandi sem hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gat um, frú forseti, sem ég mundi vilja kalla bara mútur. Það er verið að lokka fólk með styrkjum til ýmissa framkvæmda sem það getur fengið vinnu við, t.d. getur Hagstofan gert hluti sem hún gat ella ekki miðað við núverandi stöðu ríkissjóðs. Þetta fólk þrýstir á að fá þessa styrki, að sjálfsögðu. Þetta er spurning um að halda vinnunni eða fá vinnu. Þó að því sé sagt að þessu tengist aðild að Evrópusambandinu, að þetta sé aðlögun að Evrópusambandinu, vegur bara þyngra að fá vinnu í núverandi atvinnuástandi.

Þetta er því mjög lúmsk og ósiðleg aðferð til þess að afla skilnings og velvildar gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Ég vara eindregið við þessari aðferð. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi og hef lýst því áður, þannig að ég fer ekki lengra út í það.



[17:12]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er aftur komin á dagskrá Alþingis sú beiðni að Alþingi samþykki að við Íslendingar tökum á móti aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu til að aðlaga stofnanakerfið og stjórnsýsluna að Evrópusambandinu í aðlögunarferlinu. Það er eitt að hafa gert þau mistök að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu. Þegar Alþingi sendi inn beiðni um aðild á sínum tíma og samþykkti með eins naumum meiri hluta og hægt er að samþykkja mál til þess að það komist áfram, gerðist það við þær aðstæður að ákveðinn hópur þingmanna lýsti sig samtímis afar andvígan inngöngu í Evrópusambandið og í raun andvígan því ferli sem væri verið að ráðast í en samþykkti þó og greiddi atkvæði með umsókninni. Ef hefði verið tekið mark á … Frú forseti, ég er ekki í andsvari, ég er í ræðu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill benda hv. þingmann á að hann átti fimm mínútna ræðu og hann á nú eftir þrjár mínútur og 43 sekúndur.)

Þá, virðulegur forseti, verð ég bara að fara aftur upp í ræðu, ég hélt að ég ætti hér aðra góða ræðu.

Hér er verið að leggja út í það að Alþingi samþykki að taka við þessum mútum frá Evrópusambandinu. Þetta er til næstu þriggja, fjögurra ára. Þetta byggist á því að gerðir séu samningar við Evrópusambandið til næstu þriggja, fjögurra ára um að taka á móti 4–5 milljörðum kr. beint til þessara aðgerða.

Frú forseti. Eitt er að hafa sótt um og ætla að sækja það mál á sjálfstæðum íslenskum forsendum þar sem Ísland væri jafngildur aðili á móti Evrópusambandinu í þeim samningum og svo hitt að gera eins og hér er lagt til, að Alþingi beygi sig í duftið og þiggi mútufé til að greiða fyrir aðlögun og vinnu við að ganga í Evrópusambandið og ganga til þessara samninga. Það finnst mér mjög aumt.

Ég vil minna á að flokkur minn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, er í fyrsta lagi andvígur inngöngu í Evrópusambandið, í öðru lagi fyrir síðustu kosningar lögðum við áherslu á það, a.m.k. sá sem hér stendur, að flokkurinn mundi ekki beita sér fyrir inngöngu í Evrópusambandið að kosningum loknum. Við það hef ég staðið. Við það stendur líka grasrót flokksins um allt land.

Ég vil líka minna á að flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafnaði því alfarið að flokkurinn ætti aðild að því að tekið væri við þessum aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu, vegna þess að með því væri verið að brjóta freklega gegn sjálfsákvörðunarrétti og sjálfstæði þjóðar til að ganga til samninga á eigin forsendum.

Ég vil minna á þessar samþykktir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs nú þegar þetta mál kemur hér til afgreiðslu. Ég treysti því að aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ráðherrar standi við samþykktir flokks síns, standi við það sem þeir voru kosnir til og hafni því að við þiggjum mútufé af hálfu Evrópusambandsins til þess að greiða fyrir aðlögun og inngöngu í sambandið til næstu ára.

Við hv. þm. Atli Gíslason höfum lagt fram tillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að afturkalla umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði ekki endurnýjuð nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu sem staðfestir vilja þjóðarinnar til aðildar.

Það er mjög þversagnarkennt að heyra suma þingmenn tala um að það eigi að flytja hér tillögu um að endurskoða eigi umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, ef þeir ætla svo samtímis að styðja samning til næstu ára um að þiggja mútufé af hálfu Evrópusambandsins til þess að greiða fyrir inngöngu. Það gengur ekki upp, frú forseti. Því skora ég á þingheim að hafna þessu mútufé Evrópusambandsins sem hér er verið að leggja til að Ísland þiggi til að greiða fyrir aðlögun og inngöngu í sambandið. Ég skora á þingmenn (Forseti hringir.) að greiða atkvæði gegn því.