141. löggjafarþing — 5. fundur.
ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 101/2012 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn, fyrri umræða.
stjtill., 97. mál (vernd mikilvægra grunnvirkja). — Þskj. 97.

[16:15]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því með þessari þingsályktunartillögu að Alþingi aflétti stjórnskipulegum fyrirvara á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012 um breytingu á bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn, og jafnframt að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2008/114/EB. Sú tilskipun kveður á um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu, sömuleiðis að meta þörfina á að efla vernd þeirra og allt annað sem því fylgir og er lýst í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Markmiðið með þessu máli er að setja upp ferla um það hvernig skuli ákvarða hvort mannvirki teljist til mikilvægra samfélagsinnviða og sömuleiðis hvernig þeir verði best verndaðir þannig að öryggi okkar borgaranna verði sem tryggast. Lagt er til að þetta verði gert í áföngum. Fyrsti áfanginn varðar orku og samgöngumannvirki en á síðari stigum verða undir fjarskipta- og upplýsingatæknigeirar.

Þessi innleiðing kallar á breytingar á almannavarnalögum, nr. 82/2008. Hæstv. innanríkisráðherra sér um þann spölinn, hann mun á þessu löggjafarþingi leggja fram lagafrumvarp sem felur í sér þær breytingar sem gera þarf. Rétt er að taka það alveg sérstaklega fram vegna þess að kröfur tilskipunarinnar taka líka til áhættumata og öryggisáætlana en þær rúmast allar innan ramma almannavarnalaganna. Ég er viss um að þingið gleðst örugglega yfir því að af þeim breytingum sem af þessu stafa munu ekki leiða neinar stjórnsýslulegar afleiðingar, a.m.k. ekki umtalsverðar, og ekki heldur umtalsverður kostnaður.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.