141. löggjafarþing — 7. fundur.
launamál á ríkisstofnunum.

[10:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á þessar umræður og heyra í ræðukóngi þingsins, en enginn hefur haldið lengri ræður en hæstv. forsætisráðherra sem sagði áðan að núna væri ræðutíminn allt of langur. Enginn mun þó slá Íslandsmet hæstv. forsætisráðherra í málþófi.

Eins og við vitum settu spunameistarar Samfylkingarinnar nýlega af stað nokkuð sem kallast verkstjórnarvald forsætisráðherra. Eftir breytinguna á Stjórnarráðinu eru verkefni hæstv. forsætisráðherra tvenns konar; annars vegar verkstjórnarvald og hins vegar jafnréttismálin. Við þekkjum að ráðherrar í þessari ríkisstjórn eru síbrotamenn þegar kemur að jafnréttislögunum.

Eitt mál hefur nokkuð verið í umræðunni, það er forsætisráðherraákvæði sem hæstv. forsætisráðherra beitti sér fyrir í kjararáði, sem er svolítið norður-kóreskt, þ.e. að enginn mætti hafa hærri laun en forsætisráðherra. Á þeim tíma var bent á að í heilbrigðismálum kæmi það bara niður á einu einstaklingi, þ.e. þáverandi forstjóra Landspítalans sem var fyrsti kvenmaðurinn sem gegndi því embætti. Nú sjáum við hins vegar að því lagaákvæði hefur ekki verið framfylgt af hæstv. ríkisstjórn og er skiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn vilji halda í hæft fólk eins og núverandi forstjóra Landspítalans sem hefur staðið sig með eindæmum vel.

Ég vildi þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra sem hefur komið að þessum málum sem verkstjóri, annað gæti ekki verið:

1. Hefur hæstv. ríkisstjórn einhvern tíma farið eftir þessum lögum?

2. Ætlar hæstv. forsætisráðherra ekki að beita sér fyrir því núna að breyta þessum lögum? Það er augljóst að ekki er farið eftir þeim, í það minnsta ekki núna, og þau eru auðvitað algalin.



[10:49]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að þeir vandi orðaval í ræðustóli Alþingis.



[10:49]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna á verkstjórnarvald forsætisráðherra og þar með þær breytingar sem orðið hafa á Stjórnarráðinu, sem ég held að séu til mikilla framfara.

Hv. þingmaður telur að lögum sem kveða á um að enginn skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra að því er dagvinnulaunin varðar, hafi ekki verið framfylgt. Ég held að það sé ekki rétt hjá honum, ég held að það hafi gengið eftir að því er varðar dagvinnulaunin. Ég held að enginn sé með hærri laun en forsætisráðherra nema forseti Íslands þegar kemur að dagvinnulaununum, en þegar kemur að heildarlaununum hygg ég að það séu um það bil tíu manns í stjórnkerfinu með hærri laun en forsætisráðherra. Það lagaákvæði var sett á á sínum tíma þegar við vorum að reyna að átta okkur á hvernig rétt væri að vinna á hruninu. Þá var ein leiðin sem við bentum á sú að koma þyrfti í veg fyrir ofurlaunaþróun hjá ríkinu og það var tilgangurinn með þessu ákvæði. Sú aðgerð hefur tekist að mínu mati.

Nú er frumvarp fyrir þinginu — eða hvort það er komið fyrir þingið — þar sem lagðar eru til breytingar á þessu ákvæði þar sem undanþága frá þessu ákvæði er heimil í ákveðnum tilvikum. Það er þegar um er að ræða störf hjá hinu opinbera sem eru á samkeppnismarkaði. Í því sambandi eru menn sérstaklega að hugsa um Landsvirkjun, svo það sé bara sagt beint út, og að því er varðar Landsbankann þar sem bankastjóri Landsbankans er greinilega með tvöfalt eða þrefalt lægri laun en bankastjórar annarra banka. Þarna er byrjað að vinda ofan af vandanum, við hljótum að gera það þegar við teljum að réttur tími sé til þess. Við erum að byrja að vinna okkur þannig út úr vandanum að við náum jöfnuði í ríkisfjármálum á næsta ári. Þá finnst mér tímabært (Forseti hringir.) að huga að því að fara inn í frekari breytingar en við erum að gera með því frumvarpi (Forseti hringir.) sem ég held að liggi nú fyrir þinginu.



[10:52]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Það er áhugavert að sagt sé að aldrei hafi staðið til að hafa þetta öðruvísi en að það sneri að dagvinnulaununum. Auðvitað vita menn að launasamningarnir eru mjög mismunandi og manni finnst þetta hljóma eins og aldrei hafi staðið til að framfylgja þessum lögum í raun.

Hæstv. forsætisráðherra segir að tíu manns séu með hærri laun í stjórnkerfinu. Í heilbrigðisþjónustunni er til dæmis augljóst að mun fleiri hafa hærri laun en forstjórinn, jafnvel eftir þá hækkun sem honum bauðst en hann afþakkaði síðan. Ef hækkunin hefði náð fram að ganga væru samt sem áður fleiri starfsmenn innan spítalans með hærri laun en forstjórinn.

Af því að hæstv. forsætisráðherra talaði um samkeppnismarkaðinn og nefndi í því sambandi Landsvirkjun og Landsbankann þá erum við í mjög mikilli samkeppni um fólk í heilbrigðisþjónustunni, bæði stjórnendur og hæfa einstaklinga. Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra til að taka mið af því þegar hún ræðir þessi mál.