141. löggjafarþing — 53. fundur.
ummæli ASÍ og vinnuveitenda.

[10:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Er ekki eitthvert máltæki sem segir: Þangað sækir klárinn þar sem hann er kvaldastur. Svo virðist sem hæstv. ráðherra haldi að það gildi um almenning á Íslandi að almenningur fari virkilega aftur að kjósa yfir sig ríkisstjórn sem fer fram með slíkum svikum sem hér eru dregin upp á yfirborðið. Það er með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra skuli halda því fram. (Gripið fram í: Hvaða svik?)

En mig langar að segja við hæstv. forsætisráðherra: Getur það virkilega verið að þeir aðilar, bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, sem gagnrýnt hafa ríkisstjórnina fyrir svik — forsætisráðherra talar um eilíf svikabrigsl — séu einfaldlega að segja ósatt? Að þeir haldi því bara fram en það sé rangt að ríkisstjórnin hafi svikið eitthvað?

Ég ætla að upplýsa forsætisráðherra um það, ef hún hefur ekki kynnt sér það, að í athugasemdum við þingmál 468, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, segir orðrétt í umsögn ASÍ:

„Einnig er ljóst að þingið var að mati ASÍ vísvitandi blekkt með framlagningu bréfs forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra …“

— Vísvitandi blekkt.

Síðan segir í umsögn Samtaka iðnaðarins um sama mál, en þar er verið að tala um auðlindaskatta:

„Með framlengingu sólalagsákvæðisins ganga stjórnvöld á bak orða sinna..“

Það er ekki bara í eitt skipti og ekki bara í tvö eða þrjú skipti sem aðilar vinnumarkaðarins benda á svik ríkisstjórnarinnar heldur er það aftur og aftur og aftur. Samt kemur hæstv. forsætisráðherra hingað upp og reynir að telja þingheimi og þjóðinni trú um að ekkert hafi verið svikið og að þau hafi ekki gengið á bak orða sinna.

Við sjáum það aftur og aftur, virðulegir þingmenn. Við hljótum því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé tilefni til að gera eins og hinn mæti fyrrverandi þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, Hermann Jónasson, gerði, mig minnir að hann hafi sagt af sér vegna þess að hann missti traust Alþýðusambands Íslands á sínum tíma. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að taka hann sér til fyrirmyndar.[10:41]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þeir hv. þingmenn frá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sem hér hafa talað treysta sér ekki til að telja upp þau meintu svik (Gripið fram í.) sem Alþýðusambandið segir að við höfum staðið að. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim átta atriðum, meintu svikum, sem þar koma fram. Túlkun varðandi almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar er mismunandi en ekkert annað.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti staðfest þau svik að við höfum skrifað undir einhverja samninga (Gripið fram í.) um að gengið ætti að vera á ákveðnu stigi eða verðbólgan ætti að vera á ákveðnu stigi þegar kjarasamningum var sagt upp? Nei, það er ekki þannig. Þannig mætti rekja öll atriðin.

Varðandi auðlindaskattinn sem hér var talað um; hvað höfum við nú gert við hann? Við erum að setja á metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem koma mun öllum landsmönnum til góða. Hv. þingmaður nefndi auðlindaskattinn. Skuldastaða heimilanna. Settir hafa verið 50–60 milljarðar kr. í það mál. Hversu mikið hafa lífeyrissjóðirnir sett í það stóra verkefni fyrir heimilin í landinu? (Gripið fram í.) Þeir hafa verið að reyna að koma sér undan því að leggja nokkurt framlag til þess að bæta skuldastöðu heimilanna. Þar höfum við átt í erfiðleikum með lífeyrissjóðina. Það er spurning þegar talað er um svikabrigsl hvort þeir hafi staðið við sinn hlut að því er varðar fjármögnun til skulda heimilanna. Nei, þeir hafa ekki gert það, hv. þingmaður. Og þeir tala um afnám laga um skattlagningu á lífeyrisréttindi fólks á almennum vinnumarkaði. Við erum ekki að skattleggja lífeyrisréttindi fólks á almennum vinnumarkaði.

Þannig má rekja öll atriðin sem talin eru upp af hálfu ASÍ (Forseti hringir.) og sem stjórnarandstaðan nýtir sér nú á lokadögum þingsins í annarlegum tilgangi. (Gripið fram í: Nei …) Þeir vita innst inni (Forseti hringir.) að það stendur ekki steinn yfir steini í því sem ASÍ setti fram (Forseti hringir.) í auglýsingum sínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)[10:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvað forsætisráðherra hefur beðið ASÍ um að leggja í púkkið í endurreisninni. Vildi hæstv. forsætisráðherra fá helming af aðildargjöldum félagsmanna? Hvað er það sem ASÍ á að leggja til? Ég reikna með því að hæstv. ráðherra sé að tala um aðild ASÍ að lífeyrissjóðunum. Það hlýtur að vera það sem ráðherrann á við, en skilja mátti orð ráðherra þannig að ASÍ ætti að koma með beint framlag inn í endurreisnina. Það er alveg furðulegt að halda slíku fram.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að Alþýðusamband Íslands telur að svik ríkisstjórnarinnar er varða það þingmál sem ég fjallaði um áðan séu svo alvarleg að sambandið hyggst fara í mál, hyggst draga ríkisstjórnina og ríkisvaldið fyrir dómstóla til að fá hnekkt þeirri ósvífni sem þeir telja ríkisstjórnina hafa sýnt þar.

Kjarni málsins, það sem er alvarlegast í þessu öllu saman, er að allt traust og allur trúnaður milli ríkisstjórnarinnar, milli aðila vinnumarkaðarins og milli þjóðarinnar er löngu brostið. (Forseti hringir.) Þess vegna ætti hæstv. forsætisráðherra að taka Hermann heitinn Jónasson sér til fyrirmyndar.[10:45]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Hv. þingmaður segir: Hvað á ASÍ að leggja í púkkið? Hvaða púkk er það sem hv. þingmaður talar um? Við erum að tala um fordæmalaust hrun sem við höfum staðið í að reyna að endurreisa samfélagið úr á síðustu fjórum árum. (GBS: Og ekkert gengið.) Þar eiga allir að koma að verki, ASÍ er þar ekki undanskilið, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Við höfum verið að reyna að endurreisa fyrirtækin, endurreisa (Gripið fram í.) heimilin með framlagi (Gripið fram í.) í skuldir þeirra til að minnka þær og þar er ASÍ ekki undanskilið. Það væri hægt að flytja langa ræðu um hvað við höfum náð miklum árangri í efnahagsmálunum og atvinnumálunum sem allir viðurkenna (Gripið fram í: Atvinnumálunum?) nema stjórnarandstaðan og að hluta til ASÍ. (Gripið fram í.) Það er staðreynd málsins. (Gripið fram í.)