141. löggjafarþing — 53. fundur.
vernd og orkunýting landsvæða, frh. síðari umræðu.
stjtill., 89. mál (rammaáætlun). — Þskj. 89, nál. 526, 549 og 554, brtt. 553, 712, 713, 716, 717, 718, 719, 720 og 721.

[11:08]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. forsætisráðherra í umræðunni áðan um þann trúnaðarbrest sem orðinn er á milli Alþýðusambands Íslands og ríkisstjórnarinnar verður að segja að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ef gluggað er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga frá 5. maí 2011 er auðvitað heilmikil tenging á milli þess máls sem við ræðum nú, þ.e. rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkuauðlindanna, næstu skrefa í virkjunarmálum og þeirra vanefnda sem Alþýðusamband Íslands heldur fram að hafi orðið af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Hæstv. ríkisstjórn hefur algerlega mistekist að efla hér fjárfestingu í landinu, eyða atvinnuleysi, auka verðmætasköpun. Það eru þessir grunnþættir sem eru síðan grunnurinn að því að styrkja gjaldmiðilinn og bæta lífskjör í þessu landi. Á meðan ekki verður fylgt annarri stefnu í atvinnumálum en hæstv. ríkisstjórn hefur boðað, sem er í raun ekkert annað en innihaldslaust froðusnakk, munum við búa við þann veika hagvöxt sem er í þessu landi, hagvöxt sem ekki byggir á raunverulegri verðmætaaukningu en er einhvers konar neysluhagvöxtur, en við munum ekki ná vopnum okkar. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni og það er grunnurinn að því sem er að finna í gagnrýni Alþýðusambands Íslands.

Ég ætla aðeins að fara yfir yfirlýsinguna, með leyfi forseta. Þar segir:

„Með þessari yfirlýsingu skuldbinda stjórnvöld sig til að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð.“

Hefur það tekist? Nei.

Þar segir áfram.

„Meginatriðið er að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, án þess að markmiðum um afkomu ríkissjóðs sé ógnað.“

Hefur það gengið eftir? Það þarf ekkert að deila um það. Hér er fjárfesting í sögulegu lágmarki.

Þar segir einnig:

„Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gangi samhent til þeirra verkefna sem fram undan eru við endurreisn samfélagsins og er brýnt að allir aðilar eigi með sér reglubundið og náið samráð á samningstímanum. Stjórnvöld eru reiðubúin til að stuðla að því að svo verði, m.a. með því að skuldbinda sig til að framkvæmd kjarasamninga verði háð því að þau áform sem hér er lýst nái fram að ganga.“

Stjórnvöld skuldbinda sig til að láta þessi fjárfestingaráform ná fram að ganga. Hér er vitnað til þess að fjárfestingar eigi að fara úr 13% af landsframleiðslu í 20%. Hefur það gengið eftir? Hér segir líka að kostnaður ríkissjóðs vegna yfirlýsingarinnar sé verulegur en að ríkisstjórnin hafi náð þvílíkum tökum á hallarekstri ríkissjóðs að nú sjái ríkissjóður sér fært að standa við bakið á launamönnum og atvinnulífi með umfangsmiklum aðgerðum.

Hér segir að lækka eigi atvinnutryggingagjaldið. Hefur það gengið eftir? Nei, það er svikið. Hér er talað um í sókn í atvinnumálum, sem er nú kannski grunnurinn að öllu því sem Alþýðusambandið vitnar til og gagnrýnir að það sé sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að vinna bug á atvinnuleysi og skapa fjölbreytt og vel launuð störf hér á landi. Stjórnvöld eru reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum.

Hér er farið yfir marga aðra þætti og þegar kemur að orkumálum segjast stjórnvöld vilja greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð verður áhersla á fjárfestingar í virkjun. Svo ræðum við rammaáætlun sem spilar eitthvert stærsta hlutverkið í öllu þessu, hún ætti að vera sá grunnur sem við byggjum á. Er eitthvað skrýtið að verið sé að væna ríkisstjórnina um svik? Það liggur í augum uppi þegar það er lesið sem býr að baki ásökuninni og það er ósæmandi (Forseti hringir.) fyrir hæstv. forsætisráðherra og aðra fulltrúa þessarar ríkisstjórnar í ríkisstjórnarflokkunum að reyna að halda því fram að málum sé öðruvísi háttað. Það er ósæmandi.



[11:14]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji líklegt að hér verði einhver breyting á með tilliti til umræðunnar um rammaáætlun og afstöðu meiri hlutans og stjórnvalda eins og við höfum heyrt hana koma fram í yfirlýsingum hæstv. ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar, Steingríms J. Sigfússonar í gær í viðtölum í Kastljósi og Speglinum og í yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur áðan og reyndar líka með tilliti til viðbragða stjórnarþingmanna úr meiri hluta samgöngunefndar sem hafa komið hingað upp í umræðunni síðustu daga.

Ég hef vitnað til þess að verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur á síðustu þremur árum ítrekað haldið fundi með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis þar sem fulltrúar hennar hafa einfaldlega spurt: Hvenær verða virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár boðnir út? Hvenær fer sú atvinnustarfsemi af stað sem tengist því? Hvenær verður sú verðmætasköpun að veruleika og forsenda vaxandi hagvaxtar þannig að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu, greiðslum í sjóði til öryrkja, eldri borgara og atvinnulausra?

Það hefur alltaf verið sagt: Við skulum bíða eftir rammaáætlun. Nú er rammaáætlun komin hingað. Það er væntanlega ástæða þess að forusta ASÍ hefur gripið til svo harkalegra aðgerða sem raun ber vitni gagnvart ríkisstjórninni. En finnst þingmanninum líklegt að hér verði breyting á eða heldur þetta stefnuleysi áfram? Eins og þingmaðurinn fór yfir í ræðu sinni er talað um að forsendur hagvaxtar séu þetta og forsendur fjárlaga séu hitt og hér á allt að fara að gerast en þegar til kastanna kemur, þegar rætt er um einstaka stefnu, á ekkert að gera heldur halda öllu í stöðnun.



[11:16]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn sem er við völd í landinu hafi tekið við á erfiðum tímum og við erfiðar aðstæður hafa tækifærin verið fyrir hendi í íslensku samfélagi. Um það eru allir sem um þau mál fjalla sammála.

Ég vil vitna sérstaklega til fjárfestingarsviðs Íslandsstofu en hjá því hefur komið fram að á missirunum og árunum eftir hrun var mikill áhugi erlendra fyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi, mikill áhugi, aldrei verið meiri. Það hefur einnig komið fram hjá fulltrúum utanríkisráðuneytisins sem hafa fjallað um þessi mál. Hér voru öll tækifæri til að greiða leið.

Vandamál okkar, þjóðarinnar og okkar í þinginu, liggur í óeiningunni innan ríkisstjórnarflokkanna. Það hefur verið fyrirsjáanlegt um langan tíma að þessi ríkisstjórn er ekki til þess bær að ná þeirri samstöðu sem þarf til að stíga næstu skref í mikilvægustu málum okkar. Ríkisstjórnin hefur stuðlað að óvissu og miklum óróa í grundvallaratvinnugreinum þjóðarinnar, sjávarútvegsmálum og orkufrekum iðnaði, með þeim afleiðingum að fjárfestingar fara ekki af stað. Ósamstaðan er svo mikil innan ríkisstjórnarflokkanna að það er engin von til þess að við munum sjá einhvern árangur af störfum þeirra. Sú fjárfestingaráætlun sem kynnt var með flugeldasýningu á vormánuðum og síðan endurtekin nú í haust er hvorki fugl né fiskur og byggist reyndar á því að koma öðrum grundvallaratvinnugreinum okkar á vonarvöl. Við sjáum það endurspeglast núna í afkomu og erfiðleikum innan sjávarútvegsins. Þetta er hræðilegt ástand, virðulegi forseti. Ég hef oft minnt á það úr ræðustól þingsins (Forseti hringir.) hversu mikil ábyrgð þingmanna er. Þetta getur ekki gengið svona áfram.



[11:18]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég túlkaði auglýsingu ASÍ í gær á þann hátt að samtökin væru búin að gefast upp á ríkisstjórninni. Þetta væri ákall til þingmanna, væntanlega þeirra þingmanna sem hingað til hafa hreinlega látið teyma sig á asnaeyrum og haldið að hægt sé að halda áfram hagvexti og uppbyggingu atvinnulífsins án þess að nýta undirstöðuatvinnugreinar eins og sjávarútveg og orkugeirann.

Ég ætla að rifja það upp að í umsögn ASÍ í vor, um veiðigjöldin og stjórn fiskveiða, var bent á að svo virtist vera sem ríkisstjórnin reiknaði með því að gengi íslensku krónunnar héldi áfram að vera lágt og varað við þeim forsendum. Þeir hjá ASÍ benda einmitt á að þetta sé eitt af þeim brotum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir en forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa svarið það af sér með því að ráðast harkalega að þeim. Það eru óvenjulegar og stórpólitískar fréttir hvernig trúnaðarbrestur hefur orðið milli ríkisstjórnarflokkanna og Alþýðusambandsins. ASÍ varaði einmitt við þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hafði um veiðigjöldin, hún mundi hafa þau áhrif að halda krónunni niðri. Svo sér ASÍ að í rammaáætluninni er heldur ekki tilgangurinn eða markmiðið að auka atvinnustarfsemi, innstreymi erlends fjármagns og þar af leiðandi styrkingu íslensku krónunnar í þessum atvinnugeira.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki fullan skilning á sjónarmiðum ASÍ sem telur að ríkisstjórnin sé að brjóta samninga vegna þess að í kjarasamningunum var reiknað með því að gengið mundi styrkjast og til þess að forsendur þeirra héldu þurftu ýmsir aðrir hlutir að gerast. Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur hvergi reynt að gera neitt, ekki í einu einasta máli (Forseti hringir.) sérstaklega ekki í stóru málunum, sjávarútveginum og orkugeiranum, til að svo gæti orðið.



[11:21]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Segja má að það sem hefur kannski helst komið á óvart sé langlundargeðið sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt hæstv. ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Það er ekki hægt að segja annað en að aðilar vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri, hafi virkilega verið tilbúnir til að leggjast á árarnar með hæstv. ríkisstjórn og sýnt það í verki. Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var á sínum tíma er auðvitað eitt skýrasta dæmið um það. Kjarasamningarnir frá því vorið 2011 og sú yfirlýsing sem þá var gefin, samstarfið sem þar tókst og það traust sem þessir aðilar vinnumarkaðarins sýndu ríkisstjórninni á þeim tímum sýna það einnig.

Þetta hafa menn gert þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi ítrekað svikin gefin loforð. Í raun blasir við öllum þegar lesin er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 að fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra og þær hártoganir sem hún fór með hérna standast enga skoðun. Ég fór yfir þetta í ræðu minni áðan. Það er alveg ljóst af orðalagi yfirlýsingarinnar að ríkisstjórnin var vísvitandi að blekkja, með loðnu orðalagi, þessa aðila vinnumarkaðarins og nú leggur hún allt annan skilning í þann texta en mátti augljóslega skilja hann við þær aðstæður sem þá voru uppi.

Þetta er stóralvarlegt og ég held að það sé tímabært að fjölmiðlar gefi því meiri gaum hversu alvarleg staðan er. Það er ótrúlegt að umræðan til dæmis um rammaáætlun skuli ekki hljóta meiri umfjöllun í fjölmiðlum en raun ber vitni, að við skulum sitja uppi með það að umræðan um hana felist helst í því að menn séu gagnrýndir fyrir eitthvert málþóf. (Forseti hringir.) En við sjáum þetta best á yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands í gær. Grunninn er að finna þarna. Grunninn er að finna í því að við höfum ekki lokið rammaáætlun. (Forseti hringir.) Þar er að finna orsökina fyrir því að fjárfesting hefur ekki farið af stað. (Forseti hringir.) Þetta er orsakavaldurinn að svo mörgu í okkar samfélagi.



[11:24]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Án árangurs höfum við reynt að fá fram hvernig unnið var að undirbúningi þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er á dagskrá. Við vitum að ríkisstjórnin fékk málið í hendurnar og hæstv. ráðherrar, umhverfisráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra, fóru síðan höndum um það og margoft hefur verið bent á hvernig það var gert. Við vitum að það var gert mjög einhliða. Sex virkjunum, sem áður höfðu verið í nýtingarflokki á grundvelli draganna að þingsályktunartillögu sem byggðist á vinnu verkefnisstjórnarinnar, var skyndilega ýtt út af borðinu með mjög hæpnum rökum, svo ekki sé meira sagt.

Ég hef þó velt því upp, vegna þess að ég hef viljað reyna að nálgast þetta efnislega og af sanngirni, að í raun og veru getum við litið þannig á að með sínum rökum hafi ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að færa þessa sex virkjunarkosti. Ég er ósammála þeim rökum og tel að þau séu mjög veik. Það er hægt að benda á það varðandi neðri hluta Þjórsár og marga aðra orkukosti.

Á sama tíma gerðist það að ríkisstjórnin hafði í höndunum efnislegar upplýsingar um aðra virkjunarkosti sem höfðu verið til að mynda í biðflokki. Ég hef nefnt í því sambandi bæði Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Þar voru komin fram ný gögn sem að öllu óbreyttu hefðu óhjákvæmilega leitt til að þessir virkjunarkostir hefðu farið með sama hætti úr biðflokki í nýtingarflokk. Þá vaknar spurningin: Af hverju gerðist það ekki? Af hverju voru þessir virkjunarkostir áfram í biðflokki? Ástæðan er mjög einföld: Það var engin efnisleg forsenda. Þetta var ekki skoðað á efnislegum forsendum. Það var leikurinn, það var leikritið sem var sett á fjalirnar. Niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar var nefnilega fundin fyrir fram. Menn komust fyrst að niðurstöðu um að taka ætti virkjanir úr nýtingarflokki og setja í biðflokk og helst úr biðflokki í verndarflokk, en það mátti ekki skoða neina aðra kosti sem mögulega gátu farið til að mynda úr biðflokki í nýtingarflokk. Þetta á til dæmis við um Hólmsárvirkjun. Ég ætla að fara efnislega yfir þetta.

Við undirbúning málsins urðu þau mistök eins og fram hefur komið að menn höfðu ekki nýjustu gögn. Þau komu hins vegar fram við lok umræðunnar við vinnuna. Þá hefði verið kjörið fyrir ríkisstjórnina að skoða og meta með efnislegum hætti hvort þessi virkjunarkostur ætti þá ekki að fara í nýtingarflokk. Það hafði legið fyrir býsna jákvæð niðurstaða um Hólmsárvirkjun í 1. áfanga rammaáætlunar og á grundvelli hennar var síðan unnið að frekari rannsóknum og útfærslum á virkjun Hólmsár. Í apríl 2009 var farið að athuga þann möguleika að virkja Hólmsá um miðlunarlónið við Atley. Í raun og veru var verið að búa til nýja útfærslu á þessari virkjun sem hefði verulega minni umhverfisáhrif en sú útfærsla sem fyrst var metin í rammaáætluninni. Það er þetta atriði sem skiptir svo miklu máli að menn hafi í huga og hefði skipt svo miklu máli ef hæstv. ríkisstjórn hefði látið svo lítið að skoða gögnin, en það var ekki gert. Gögnin voru til staðar og þau voru meira að segja unnin í iðnaðarráðuneytinu. Iðnaðarráðuneytið sjálft vann þessi gögn upp í hendur hæstv. ráðherra þannig að það var hægur vandi fyrir þá að taka afstöðu til þeirra.

Það hefur verið sagt að óvissa hafi verið um áhrif virkjunarinnar á skóglendi. En þegar þetta er skoðað betur kemur fram að birkikjarr á þessu svæði þekur 17 ferkílómetra á rannsóknarsvæði Hólmsárvirkjunar. Af þessu kjarri sem þekur 17 ferkílómetra munu 0,42 ferkílómetrar fara undir vatn við myndun Atleyjarlóns. Það er þess vegna ekki rétt sem haldið hefur verið fram að einhver óvissa sé um áhrif virkjunarinnar á skóglendi eða frekari upplýsingar vanti. Það er ekki óvissa, það er búið að meta þetta og reikna út. Það vantar ekki frekari upplýsingar, þær liggja allar fyrir. Það liggur fyrir að áhrifin á t.d. birkiskóginn, sem er gert dálítið mikið með í umræðunni, eru sáralítil og óvissan er engin.

Það er þetta sem mér gremst við þessa vinnu, hún var svo einhliða. Það var greinilega þannig að fyrst var niðurstaða fundin og síðan búinn til einhvers konar málamyndarökstuðningur fyrir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar. Með slíku háttalagi er grafið (Forseti hringir.) undan trúverðugleika þessarar aðferðafræði.



[11:29]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma að málinu um Hólmsárvirkjun, þ.e. neðri virkjunina. Í rammaáætluninni var líka skoðaður annar kostur, efri kostur við Einhyrning, sem hefur umtalsvert meiri umhverfisleg áhrif á ósnortin víðerni og einnig á vatnasvið á svæðinu þannig að menn féllu frá þeim kosti að eigin frumkvæði og settu meiri þunga á þennan. Þess vegna var það mjög dapurlegt að fyrir einhver mannleg mistök hefðu þau rök sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir þar sem öllu hefur verið svarað — og því til viðbótar var ágreiningur um línulögn, hvar línan ætti að liggja. Það eru rúmir 30 km í byggðalínuna, suðausturlínuna, þannig að það er augljóslega alveg vandræðalaust, enda kemur það allt fram í áðurnefndu minnisblaði frá orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins.

Ég átti samtal við hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi þar sem ég spurði af hverju þessi gögn hefðu ekki verið tekin til skoðunar og hvar frumkvæðisskylda stjórnvalda væri. Nú hefur hv. þingmaður verið ráðherra og þekkir því þessi vinnubrögð. Telur hv. þingmaður að hér sé einhver brotalöm eða jafnvel að brotið hafi verið á frumkvæðisskyldu stjórnvalda þegar gögnin lágu fyrir, sem þau gerðu svo sannarlega?

Í lokaniðurstöðu orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins segir einfaldlega um þennan virkjunarkost að komið hafi fram upplýsingar sem sýni fram á að ekki sé ástæða til að ætla að það sé nein óvissa og því séu næg rök til að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley úr biðflokki í orkunýtingarflokk þar sem fullnægjandi upplýsingar séu til staðar? En ráðherrarnir gerðu ekkert.



[11:31]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað kjarni málsins. Það sem gerðist var að hæstv. ráðherrar brugðust trausti Alþingis. Alþingi ákvað samhljóða að búa til það sem ég hef kallað stoppistöð þar sem hæstv. ráðherrar gátu farið yfir málið. Hvers vegna var það? Ekki til að leggja eitthvert pólitískt mat á málið heldur pólitískt mat sem byggðist á efnislegum forsendum.

Það sem blasir hins vegar algjörlega við og er eins og opin bók þegar maður skoðar málið er að hæstv. ráðherrar skoðuðu þessi mál ekki efnislega. Ef þeir skoðuðu þau gerðu þeir ekkert með niðurstöðurnar. Þess vegna voru þetta fordómar, búið var að dæma þetta fyrir fram. Það er fordómafull aðferð við að leggja fram tillöguna og dregur auðvitað algjörlega úr trúverðugleikanum.

Ég ítreka: Segjum að það hafi verið efnisleg rök fyrir því sem hæstv. ráðherrar voru að gera með því að færa úr nýtingarflokki í biðflokk. Ég er að vísu algjörlega ósammála því, en gefum okkur það samt sem áður svona fyrir umræðuna. Þá hljótum við að gera nákvæmlega sömu kröfur til þeirra virkjunarkosta sem gátu mögulega farið í hina áttina. En það var auðvitað bara ætlunin að fækka í nýtingarflokknum. Það var hin pólitíska meining, stefnumörkunin, „dírektívið“ sem kom úr flokksskrifstofunum, að gera þetta með þeim hætti.

Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að vinnubrögðin séu svona. Og hvað línulögnina áhrærir er það alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, hún lá líka fyrir, 30 km í Sigöldulínu. Það er athyglisvert, eins og hv. þingmaður fór yfir, að það er svo ríkur vilji virkjunaraðila til að draga úr umhverfisáhrifunum af því að þeir sjá það í hendi sér að það er líklegast til að ná árangri og til að geta farið í virkjanirnar. Ég ætla að koma betur að því í síðara andsvari mínu.



[11:34]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja meira frá samtali mínu við hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi og fjalla um þau rök sem hv. þingmaður leggur fram og er mér sammála um, að hér hafi ráðherrar brotið frumkvæðisskyldu stjórnvalda að rannsaka mál til hlítar og gæta meðalhófsins, henda málinu bara til hliðar af því að þeir voru búnir að ákveða niðurstöðuna fyrir fram. Það kom einmitt fram í máli hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar og þeir stjórnarþingmenn sem samþykkir eru málinu, þar með taldir einstaka ráðherrar, hafa einmitt komið hér upp og haldið því fram að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð og við séum að fara að lögum. Vísa þeir þá til laga nr. 48/2011, ef ég man númerið rétt, sem samþykkt voru í þinginu um meðferð rammaáætlunar. Þau voru samþykkt hér samhljóða en það hvarflaði bara ekki að nokkrum manni að hægt væri að túlka þau lög með þeim hætti sem hæstv. ráðherrar gerðu.

Það kom líka fram í máli hæstv. umhverfisráðherra í gær að ekki hafi staðið til að færa einn einasta virkjunarkost úr biðflokki í nýtingarflokk, alveg sama hvaða gögn hafi legið fyrir. Stóð það í þessum lögum? Las hv. þingmaður það út úr þeim lögum þegar hann ýtti á græna takkann og samþykkti lögin að þetta 12 vikna umsagnarferli þýddi að aldrei væri hægt að færa kost úr biðflokki í nýtingarflokk þó að öll rök hnigju að því? Við höfum til að mynda nefnt Hagavatnsvirkjun sem komu fimm umsagnir um og allar jákvæðar, það kom engin neikvæð umsögn. Ef menn væru nú bara samhljóma og trúverðugir í málflutningi sínum. Ef menn segja að virkjunarkostur sé færður í biðflokk vegna margra neikvæðra umsagna ættu þeir að sama skapi að færa annan kost í nýtingarflokk. Varðandi Hólmsárvirkjun þá hníga öll rök að því að færa þann kost í nýtingarflokk vegna þess að það voru mannleg mistök að (Forseti hringir.) týna þeim gögnum. Þau fundust og það er mat sérfræðinga að þau séu fullnægjandi til að setja þann kost í orkunýtingarflokk.



[11:36]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau svör sem hv. þingmaður vísar til frá hæstv. umhverfisráðherra eru mjög alvarleg. Þau koma ekki á óvart, það virðist hafa blasað við. Hæstv. umhverfisráðherra gerir þá ekki annað en að staðfesta allt sem við höfum sagt um málið, að stoppistöðin sem búin var til í góðri trú var misnotuð. Það var aldrei ætlunin að fara efnislega yfir málin. Það var bara ætlunin að finna leið til að geta fullnustað pólitíska stefnumótun stjórnarflokkanna, lægsta samnefnarann sem dygði til þess að koma málinu áfram af því að við vitum það öll að það er bullandi ágreiningur um það á báða bóga, sérstaklega innan Samfylkingarinnar og þar með á milli stjórnarflokkanna.

Það eru annars vegar sjónarmið sem segja: Auðvitað á að nýta orkukostina til atvinnulegrar uppbyggingar og verðmætasköpunar í samræmi við hugmyndir okkar um sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, og hins vegar hinna sem vilja setja þetta allt saman í stóra stopp og eru þegar búnir að gera það með annars vegar þessari þingsályktunartillögu og efnismeðferð meiri hluta umhverfisnefndar.

Auðvitað sjá orkufyrirtækin og framkvæmdaraðilarnir sér hag í því að reyna að útfæra virkjanirnar með þeim hætti að það dragi úr umhverfisáhrifunum. Af hverju? Jú, vegna þess að þeir gera sér grein fyrir því að það er líklegast til þess að sleppa í gegnum öll þau litlu skráargöt sem menn þurfa að fara í gegnum áður en hægt er að fara af stað með framkvæmdir. Það þarf að fara í gegnum rammaáætlun, það þarf að fara í gegnum skipulagsmál, það þarf að fara í gegnum umsagnir sveitarfélaga o.s.frv. Ef menn ganga ekki sæmilega um landið og umhverfi sitt er ekki von til þess að þessar virkjanir nái nokkurn tíma að komast á framkvæmdastig. Þess vegna er svona ríkur vilji til þess að gera vel og þess vegna er það auðvitað ömurlegt að vita til þess að ráðherrar hafi hins vegar kosið að bregðast svona trausti þingsins og nota þetta eingöngu í pólitísku duttlungaskyni.



[11:39]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

[11:54]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætt innlegg hér og einlægt. Við þekkjum skoðanir hv. þingmanns og ég virði þær. Ég hef hins vegar velt því upp í nokkrum ræðum hvort niðurstaða þessarar þingsályktunartillögu hafi færst of nálægt skoðunum hv. þingmanns og fjær hinni breiðari samstöðu. Ég veit það ekki.

Hv. þingmaður las hér upp gagnrýni á aðferðafræðina og ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún deili þeirri skoðun að aðferðafræðin sem við nýtum við þessa flokkun, kannski í öllum fjórum faghópunum eða kannski bara í heild sinni, sé ekki nægilega góð. Ég hef einmitt talað fyrir því að við getum líka treyst komandi kynslóðum til að taka skynsamlegar ákvarðanir þannig að við þurfum ekki núna að taka allar þær ákvarðanir (Forseti hringir.) um að vernda eða nýta og að biðflokkurinn verði stærri.

Ég ætla að fá að koma aðeins inn á biðflokksumræðuna í seinna andsvari.



[11:56]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil fyrst taka fram að ég held að margt hafi verið gríðarlega vel gert í 2. áfanga rammaáætlunar, að fólk hafi lagt mjög mikið á sig og unnið mikla vinnu við satt best að segja engar kjöraðstæður og undir tímapressu. Ég er ekki sammála því sem sumir hafa sagt, að þetta sé bara ónýtt. Margt þarna er gott. Hins vegar er alveg á hreinu að mjög margt þarf að þróa áfram, mjög margt þarf að bæta, mjög margt þegar kemur að því að meta land- og náttúrugæði og annað og líka hagsmuni annarra, líka fjárhagslega hagsmuni annarra sem vilja nýta svæðið í annað en orkunýtingu. Það vantar mjög.

Þar erum við of stutt komin og ég er alveg sammála því, ég hef alltaf sagt að hluti af grunnupplegginu til að byrja með var einmitt að biðflokkur yrði mjög stór til að halda vinnunni áfram til langs tíma. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir, sem sat í verkefnisstjórninni, hefur einmitt staðfest þetta. Það hefur alltaf verið mín nálgun.



[11:57]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekkert athugavert við að biðflokkurinn sé stór og að á hann sé litið sem geymsluflokk þangað til við höfum frekari upplýsingar. Nú kom hv. þingmaður inn á það að hún þyrfti ekki frekari upplýsingar um til dæmis Skjálfanda, hún gæti tekið ákvörðun. Á sama tíma hefur hv. þingmaður komið hér upp — og í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er ákall um að það þurfi miklu fleiri rannsóknir til að setja alla hluti í nýtingarflokk sem þó er ekki ávísun á nýtingu heldur á rannsóknir. Þess vegna hef ég talað fyrir því að annaðhvort verði innan þessa stóra biðflokks svigrúm fyrir aukadeild eða sérbiðflokk, einfaldlega. Ef við viljum ekki setja kostina í nýtingarflokk þar sem þeir geta þar af leiðandi fengið fjármagn mundum við setja þá í biðflokk til rannsókna eða eitthvað slíkt sem væri þar með vísbending um að við vildum setja fjármagn í þá kosti en síðan væri mjög stór biðflokkur alls kyns kosta sem við vildum geyma til síðari tíma, nýrrar þekkingar og frekari rannsókna, (Forseti hringir.) að við tækjum engar ákvarðanir um það. Ég hef hins vegar ekki talað fyrir því að biðflokkurinn allur ætti að verða einhver (Forseti hringir.) virkjunarbiðflokkur, langt þar frá.



[11:58]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ég sagði hér áðan að ég gæti gert það hér og nú ef ég fengi ein að ráða, að setja Skjálfandafljót í vernd, jökulsárnar í Skagafirði, Reykjanesskagann, Sveifluháls — beint í vernd, ekki í bið, beint í vernd. En mitt framlag eins og margra annarra hér, vonandi, þvert á flokka, til þessa starfs er einmitt að gera það ekki, heldur segja: Heyrðu, ég ætla að virða þetta ferli, ég virði það af öllum þeim þrótti sem ég get og leyfa þessum faghópum að vinna áfram sitt starf til að komast að niðurstöðu og geta þannig hjálpað fólki þvert á flokka einmitt til að taka upplýstari ákvarðanir.

Ég held að ég hafi í reynd svarað spurningum hv. þingmanns um biðflokkinn áðan. Þar þurfum við bara að fara varlega, eftir því hvers konar rannsóknir við erum að tala um, sérstaklega þegar kemur að háhitasvæðunum.



[12:00]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir framgöngu hennar í þessu máli öllu saman, sem er til mikillar fyrirmyndar. Við vitum að hún er ákafur náttúruverndarsinni og hún nálgast þetta mjög málefnalega. Í grunninn er ég henni hjartanlega sammála, það skiptir okkur mjög miklu máli að kortleggja til allrar framtíðar hvað við teljum henta til nýtingar og hvað til verndunar. Það er því sorglegt ef þetta mikla og mikilvæga mál brennur hér upp á átakabáli í stað þess að verða farvegur fyrir mun breiðari sátt í virkjunar- og nýtingarmálum og verndunarmálum sem ég held að verði til allrar framtíðar þegar við erum komin í gegnum þessa umræðu.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hverju við þurfum að breyta í aðferðafræðinni í þessu ferli til að það verði ekki svona mikil átök um rammaáætlun eftir flokkspólitískum línum til framtíðar og við getum skapað ferli sem leiðir til frekari sátta eins og við höfum til dæmis séð gerast í Noregi.



[12:01]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta spurningu. Það sem við þurfum að gera er einmitt að tryggja að þetta ferli eyðileggist ekki. Mér finnst umræðan hér hafa verið góð og fín, en inn á milli hafa menn þó haft tilhneigingu til að segja að nú sé allt eyðilagt. Alls ekki, við erum með mjög mikinn grunn til að standa á og byggja á til framtíðar. Það þarf að skerpa á mjög klárum atriðum, það þarf að skerpa á rannsóknum sem varða landslag og jarðminjar og útivist, sérstaklega í námunda við höfuðborgarsvæðið, og skerpa á alls kyns þáttum sem varða hagræn áhrif og möguleika annarra en orkunýtingaraðila til að nýta svæðin.

Samfélagsrannsóknir eru satt best að segja í molum, sem er ein af þremur grunnstoðum sjálfbærrar þróunar. Ef okkur (Forseti hringir.) tekst að styrkja betur þessa þætti til framtíðar og tryggja að þetta samtal haldi áfram (Forseti hringir.) þvert á flokka held ég að við séum að vinna áfram veginn til góðs.



[12:02]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er fróðlegt að heyra. Ég held einmitt að þessi fyrsta lota í gerð rammaáætlunar, eftir að Alþingi samþykkti samhljóða lögin hér í fyrra, leiði margt fram sem við þurfum að breyta í ferlinu og við getum lært af til framtíðar. Það getur gert að verkum að meiri sátt verði um ferlið í heild sinni og komið í veg fyrir mjög mikil pólitísk átök um einstaka kosti. Aðferðafræðin leiðir af sér hvort þetta verði til frekari friðar og sátta um þessi mikilvægu átakamál. Ég held að almennt sé þorri Íslendinga nokkuð sammála í þessu máli. Fólk er almennt frekar náttúruverndarsinnað, hófsamt í nýtingarmálum en vill samt nýta það sem talið er skynsamlegt að nýta.

Auðvitað skýtur það skökku við að sjá að vegna einhverra gagnasendinga og mannlegra mistaka fari kostur eins og Hólmsárvirkjun neðri við Atley ekki úr bið í nýtingu og svo mætti áfram telja. Einhvern veginn þurfum við að lenda þessu máli og komast í gegnum þetta (Forseti hringir.) átakabál núna þannig að það (Forseti hringir.) fuðri ekki hér upp heldur verði samþykkt á endanum svo að við getum haldið áfram að betrumbæta ferlið.



[12:04]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Satt best að segja leyfi ég mér að taka ofan fyrir þeim þingmönnum þeirra flokka sem iðulega eru merktir stóriðjustefnunni sem hafa ítrekað sagt hér í ræðustól að þeir vilji áfram tryggja faglegt ferli þessarar vinnu og að þeir vilji fylgja eftir faglegum niðurstöðum. Ég held að það sé mjög jákvætt og til góðs og því beri að hrósa. Fólk hefur meira að segja sagt: Ég er ósammála þessu og hinu, en ég skal beygja mig undir það. Það held ég að sé jákvætt og gott. Um leið ítreka ég það sem er mjög mikilvægt í þessu ferli líka og það er að til framtíðar hefði verið betra að biðflokkurinn væri enn stærri til að þetta væri langtímaverkefni og fólk gæti síðan tekið ákvarðanir. Það er alltaf mikilvægt að fagleg vinna sé líka þróuð áfram. (Forseti hringir.) Það er aldrei komið neitt eitt lokaorð, orð guðs. Meira að segja Biblían (Forseti hringir.) er full af misvísandi andstæðum þótt hún sé orðin þetta gömul, eins og við þekkjum, og sögð orð guðs.



[12:05]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bæði heiðarlega og efnislega ræðu. Hv. þingmaður harmaði það helst að ýmis jarðhitaverkefni sem núna eru í nýtingarflokki samkvæmt þessari tillögu væru þar og taldi að þau ættu ýmist heima í biðflokki eða verndarflokki.

Við verðum að skoða þetta mál í tilteknu pólitísku ljósi. Ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á að koma ákveðnum virkjunum sem ekki hlutu náð fyrir hennar augum úr nýtingarflokki, eins og þær hefðu átt heima í miðað við drög að þingsályktunartillögunni, í biðflokk. Þá stóð auðvitað ríkisstjórnin frammi fyrir því að geta ekki skilað hingað plaggi þar sem enginn nýtingarflokkur næði máli. Þess vegna er áhersla hæstv. ríkisstjórnar á jarðhitaverkefnin.

Það sem er hins vegar að gerast í meðferð meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, og óttast ég nokkuð að formaður hafi átt þar hlut að máli, er að það er verið að stimpla þessar virkjanir út. Það er verið að búa til viðmið sem eru með þeim hætti að það er alveg ljóst mál að þessi jarðhitaverkefni verða líka út úr myndinni (Forseti hringir.) og þess vegna er þetta í rauninni tillaga (Forseti hringir.) um stopp á framkvæmdum á orkunýtingarsviði.



[12:06]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um að þarna séu skrifuð inn einhver viðmið sem séu óeðlileg eða stoppi framkvæmdir. Þetta eru viðmið sem við satt best að segja lesum öll um í fréttum að blasi við, og erum búin að lesa um í fréttum um nokkurt skeið, þ.e. erfiðleikar varðandi jarðvarmann. Eins og hv. þingmaður hefur komið inn á í ræðum sínum varðar það ýmislegt sem enn er óleyst eins og mengandi affallsvatn, jarðskjálftavirkni, brennisteins-, vetnismengun o.fl. Við erum að ítreka þessi sjónarmið og þá varúðarnálgun sem þarna verður að hafa til hliðsjónar. Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hefði talið rétt að setja fleiri jarðvarmaverkefni í bið einmitt út af öllum þessum óvissuþáttum. Það stendur í lögunum (Forseti hringir.) að þar sem upplýsingar skortir eigi svæði að fara í bið (Forseti hringir.) og þarna skortir verulega upplýsingar.



[12:08]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem Orkustofnun bendir á er mjög mikilvægur þáttur. Hún bendir á að skynsamlegast sé að vinna þessi verkefni, jarðhitaverkefnin annars vegar og vatnsorkuna hins vegar, á sama tíma vegna eðlis jarðhitaverkefnanna. Það tekur lengri tíma að finna út hver raunveruleg orkugeta jarðhitasvæðanna er. Ég er alveg sammála þessu. Þess vegna finnst mér það skjóta svo skökku við og vera algjörlega í ósamræmi við hugmyndafræðina um sjálfbæra nýtingu á orkusviðinu þegar þessu máli er teflt þannig fram að ýta eigi út best rannsökuðu, hagkvæmustu kostunum eins og virkjunum í neðri hluta Þjórsár og fleiri virkjunum en láta jarðhitaverkefnin sitja eftir vegna þess að þau eru í eðli sínu annars konar verkefni og það þarf að vinna þau samhliða. Það er þessi tvískinnungur sem mér finnst blasa við.

Ég vildi líka spyrja hv. þingmann hvort hún hefði ekki talið það koma til dæmis til greina að samþykkja að í nýtingarflokki væri efri hluti (Forseti hringir.) virkjananna í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Holta- og Hvammsvirkjun.



[12:09]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spurði hvort það væri skynsamlegt að vinna þetta á sama tíma. Já, en hvar? Það er auðvitað skynsamlegt þegar kemur að jarðhitanum að vinna áfram þau verkefni þar sem er þegar búið að raska svæðunum, en ekki vaða inn á óröskuð svæði þegar svo mikil óvissa er í kringum þau. Það er mikill ábyrgðarhluti. Það eru ærin verkefni nú þegar í orkunýtingu án þess að Krýsuvíkursvæðið á Reykjanesskaga eða Reykjanesskaginn yfir höfuð séu þar. Það er ekki rétt að ekki sé hægt að vinna þau á sama tíma.

Reyndar hefur eiginlega alveg vantað í þessa umræðu að fjármögnunarvandinn hefur líka stoppað ýmis verkefni. Tökum Hverahlíð sem dæmi. Hvað hefur stoppað þar? Er það ekki fjármögnunarvandi Orkuveitunnar? Hvar er kaupandinn að allri þessari orku? Hvar er hann?

Í stað þess að segja að hér sé verið að stoppa allt, sem er ekki rétt, eigum við þá ekki að fara fram af ábyrgð (Forseti hringir.) varðandi jarðhitann, leyfa sérstaklega þessum gríðarlega dýrmætu svæðum að vera um sinn, þróa áfram þær virkjanir sem fyrir eru (Forseti hringir.) og fólk er að lenda í ýmsum aðkallandi og krefjandi úrlausnarefnum (Forseti hringir.) með?



[12:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þakkir annarra hv. þingmanna til hv. þingmanns fyrir að blanda sér í umræðuna. Það gefur strax svör við mörgum spurningum og varpar ljósi á sjónarmið hennar.

Ég ítreka spurninguna sem kom fram áðan um neðri hluta Þjórsár og hv. þingmaður er ekki búin að svara: Vill hún virkja tvær efri virkjanirnar þar?

Önnur spurning: ASÍ hefur sagt að það að rammaáætlun hafi ekki verið afgreidd eins og til stóð hjá verkefnisstjórninni muni skaða félagsmenn sambandsins — er hv. þingmaður sammála því? Sér hún samhengi milli þess að virkja og nýta auðlindir landsins og þess að hagur verkamanna og heimila í landinu batni? Eða er ASÍ úti á túni í þessu máli?

Nú hefur hv. þingmaður mjög sterka skoðun á ákveðnu sviði — getur hún sett sig í spor hinna sem eru með jafnheitar eða heitari tilfinningar í öfuga átt?



[12:12]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður spyr ég hvort ég geti sett mig í spor hinna. Já, ég get það satt best að segja nokkuð vel. Eins og ég segi hef ég ekki gert kröfu um að óskum mínum sé framfylgt í þessum efnum. Ég hef reyndar lýst mjög eindregið þeirri skoðun minni að ég hefði mjög gjarnan viljað sjá breytingar þarna en við gefum öll eftir og beygjum okkur undir þessa aðferðafræði.

Varðandi ASÍ, hvort þetta skaði félagsmenn þess, þá er stór hluti félagsmanna Alþýðusambands Íslands Íslendingar sem hafa meðal annars, eins og ég kom inn á áðan, sagt í skoðanakönnunum að þeir vilji passa náttúruna okkar, þeir vilji passa landið okkar. Yfirgnæfandi meiri hluti vildi stofna miðhálendisþjóðgarð þegar spurt var um það. Ég held að fólk vilji passa upp á landið okkar og náttúruna og að það líti ekki svo á (Forseti hringir.) að eina leiðin sé að virkja hér hvert fljót (Forseti hringir.) eða hvert dýrmætt jarðhitasvæði. Ég held að almennt líti fólk ekki svo á að það sé eina leiðin út úr (Forseti hringir.) þeirri krísu sem við höfum verið í.



[12:13]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. En tvær efri virkjanirnar í Þjórsá? Það er spurning um þær.

Síðan er spurningin með símanúmerið hjá þjóðinni. Ég hef ekki fundið það enn þá og ég á ekki tal við þjóðina alla daga en mér sýnist fjöldi fólks vera á miðjunni, í hvorugum öfgunum, að fólk vilji sátt um þetta mál. Mér finnst framganga hæstv. umhverfisráðherra hafa eyðilagt þá sátt. Hún tefur málið. Þetta kom fram fyrir rúmu ári. Við værum farin að virkja nú þegar í samræmi við þá niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar sem fram kom ef ekki hefði verið þetta frumhlaup þar sem menn horfa bara út frá eigin skinni, að mér finnst. Það hefur tafið málið, stöðvað hagvöxt og kemur niður á fjölskyldunum þegar síst skyldi, þegar erfiðleikarnir eru hvað mestir. En kannski kemur fólki það ekkert við.



[12:14]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á að hafa ekki svarað spurningu hans um neðri hluta Þjórsár. Ég held að þingheimi sé vel kunnugt um afstöðu mína til neðri hluta Þjórsár. Ef ég man rétt (Gripið fram í.) fjallaði ein af fyrstu ræðunum mínum á þingi, ef ekki jómfrúrræðan, meira og minna um Þjórsá, vinkonu mína, þannig að það svar held ég að liggi fyrir. (Gripið fram í.) Það blasir við hver afstaða mín er í því máli. Það blasir líka við að afstaða mín er sú að Reykjanesvirkjanirnar séu gríðarleg mistök, þ.e. að hafa þær í orkunýtingu. Það er svo margt sem við hefðum getað bætt hér en í þágu þess að virða það ferli sem hefur verið í gangi gerum við minni háttar breytingar, mjög vægar og hóflegar.

Varðandi þetta með þjóðina þá held ég að það sé alveg hárrétt að fólk vilji að það ríki almenn sátt um þessi mál en hún þarf auðvitað að hafa (Forseti hringir.) góðan grunn. Að sjálfsögðu vill fólk atvinnu, fólk vill ekki þurfa að hafa áhyggjur (Forseti hringir.) af skuldum heimilisins eða skuldum orkufyrirtækja o.s.frv., en það er ekki endilega að kalla á að hér verði (Forseti hringir.) hver lækjarspræna eða hvert jökulfljót virkjað heldur að við búum við heilbrigt samfélag þar sem uppbyggileg atvinna er í boði. Það er hægt að gera með ýmsu (Forseti hringir.) móti.



[12:16]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Umræðan hefur staðið í allnokkurn tíma, verið löng og ítarleg. Menn hafa komið mjög víða við í umfjöllun sinni og er kannski ekki að undra í ljósi þess hversu mikilvægt mál er á ferðinni. Við byggjum tilveru okkar og búsetu í landinu á því að nýta gögn þess og gæði til lands og sjávar. Eitt af því sem hefur fleytt okkur áfram í gegnum mikinn vöxt og skapað þau skilyrði að Íslendingar hafa skipað sér á fremstu bekki meðal þjóða heims í lífsgæðum sem þjóðin býr við er meðal annars sú staðreynd að við búum við miklar auðlindir í formi vatnsafls og jarðvarma sem við höfum sem betur fer getað nýtt okkur til góðs og byggt upp þjóðfélag sem er mörgum öðrum til fyrirmyndar. Þau lífsgæði sem við búum við eru á margan hátt eftirsóknarverð fyrir ótölulegan fjölda fólks sem býr vítt um veröld. Aðstæður okkar eru gríðarlega góðar í samanburði við margar aðrar þjóðir veraldar.

Þá kynni einhver að spyrja hvers vegna við værum að þrasa um það hvort við ættum að ganga lengra í því að skapa okkur betri lífskjör. Að sjálfsögðu er það fullkomlega eðlileg og heiðarleg spurning að takast á við. Það vill hins vegar svo til að það er enginn tilbúinn til þess að mæla með því að lífskjör, lífsskilyrði og búsetuskilyrði í okkar ágæta landi rýrni frá þeirri stöðu sem við höfum náð. Við þekkjum það einfaldlega af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað núna í kjölfar hrunsins að mikil átök hafa verið um það hversu mikið og hvernig við eigum að mæta þeim áföllum sem þjóðfélagið varð fyrir við efnahagshrunið. Þar takast menn á um leiðir til að byggja sig upp aftur.

Talað hefur verið um að það mál sem liggur hér fyrir sé ákall um það meðal fólks um allt land að rammaáætlun um þessa þætti sé unnin, þ.e. að við gerum okkur lengri tíma áætlun um hvaða svæði við ætlum að virkja, hvaða svæði við ætlum að vernda og hvar við ætlum að nýta þá orku sem upp úr þeim kann að vera tekin. Það er alveg rétt að eftir því hefur verið kallað í langan tíma og ekki síst af hálfu stjórnmálamanna líka sem hafa lent í því oftar en ekki að standa í þeim sporum að hnakkrífast um hvort það sé til góðs að gera þetta eða hitt og andstæð sjónarmið hafa tekist á. En þannig hefur það verið og þannig mun það að sjálfsögðu alltaf verða. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn standi upp og átök séu um hvaða mál séu til framfara og hvernig eigi að koma þeim í höfn.

Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að einhver öfgasjónarmið í hvora áttina sem er hafi tekið völd í þessari vinnu. Ég held að það sé ekki skýringin á þeim átökum sem standa um þetta verkefni núna. Ég er þeirrar skoðunar að öll þessi vinna og þau skoðanaskipti sem um þetta eru séu til góðs. Þau skila okkur alltaf eitthvað áfram en eðlilega stendur eitthvað út af og um það erum við að takast á.

Ég vil segja líka í ljósi þeirrar umræðu sem oftar en ekki hefur staðið í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum að einhverjir tilteknir einstaklingar geti útnefnt sig sem umhverfissinna, þá fullyrði ég og skal standa með því hvar sem er að Íslendingar allir, þ.e. þeir sem búa hér á landi, eru í eðli sínu og innsta kjarna allir umhverfissinnar. Sá sem treystir sér til og nær þeim árangri að lifa af búsetu í jafnharðbýlu landi og Ísland er, það er töluvert í hann spunnið að umgangast land sitt með þeim hætti að hann geti alið afkomendur sína upp til þess að taka við þeirri arfleifð sem hann skilur við sig. Þannig hefur íslenska þjóðin umgengist landið, sem sögur herma að við höfum numið einhvern tímann fyrir árið 1000. Þannig hefur íslenskri þjóð tekist að lifa af í gegnum aldirnar við sult og seyru oft á tíðum en núna á síðari áratugum við tiltölulega góð skilyrði og mikla búsæld.

Við Íslendingar njótum þrátt fyrir allt enn í dag þeirra gagna og gæða sem landið gefur okkur. Það bendir til þess að við höfum umgengist það með þeim hætti að það gefur af sér enn og elur þjóðina. Sambúð manna, Íslendinga og landsins, hefur verið að stærstum hluta með miklum ágætum í gegnum aldirnar. Vissulega hafa menn framið axarsköft og oft á tíðum hefur landið refsað okkur, harðneskjuleg náttúran getur gefið stór högg og við það búum við. Við reynum að laga okkar tilveru að því að þola þau högg þegar þau koma.

Því spyr maður og það vekur upp nokkra undrun þegar þessi umræða á sér stað núna með þeim hætti sem raun ber vitni — fyrir allnokkru, allmörgum árum, komu stjórnmálamenn sér saman um að setja þessar deilur í íslensku þjóðfélagi í það sem kallað er faglegan búning, faglega vinnu, þá undrar mann eðlilega, og ef til vill þá sem horfa til umræðunnar hér, hvers vegna stjórnmálamenn á Alþingi takist á um þá faglegu niðurstöðu sem þarna var sett af stað og skilaði síðan vinnu sinni til ráðherra. Það er ekkert skrýtið þó að menn undrist það. Ástæðan er fyrst og fremst sú að verið er að gera breytingar á því faglega starfi sem unnið var í áranna rás á grundvelli þeirra samþykkta sem gerðar voru. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það standa þau átök fyrst og fremst um það með hvaða hætti á að ganga til verka við þá nýtingu sem þessir ólíku hópar vilja standa að.

Að því leytinu til má alveg segja og fullyrða að grunnurinn að þeirri tillögugerð sem fyrir liggur er góður. Um hann ríkti breið samstaða, pólitískt, og líka í hinum faglegu hópum svokölluðu. Lögð var mikil vinna í þetta verk. Henni var ætlað að útfæra skynsamleg markmið. Allt þetta varð til þess að við verkið voru bundnar miklar væntingar. Því eru það mér mikil vonbrigði að við skulum standa í þessu þrasi sem raun ber vitni um við síðari umræðu um þá tillögu sem lögð hefur verið fram í málinu.

Ég fullyrði að ástæðan fyrir því að þessar deilur standa er sú að menn hafa gert breytingar á niðurstöðu þess faglega ferlis og þeirri faglegu niðurstöðu sem út úr verkinu kom. Í umræðunni hefur komið fram að áherslubreytingin liggur fyrst og fremst í því að þeim umdeildu virkjunarkostum sem lúta að virkjun vatnsafls er ýtt til hliðar frá því faglega starfi sem áður hafði verið unnið. Eftir standa í rauninni tveir vatnsaflskostir, vatnsaflsvirkjanir, þ.e. Hvalárvirkjun og síðan stækkun á Blöndulóni. Mjög athyglisvert er að það eru þeir einu virkjunarkostir í vatni sem boðið er upp á í þessum efnum og vekur að sjálfsögðu áfram upp spurningar hvers vegna verið er að víkja þeim vatnsaflskostum til hliðar sem tillagan gerir ráð fyrir frá niðurstöðu faghópanna. Jafnvel má fullyrða að verið sé að taka töluvert mikla áhættu á sviði íslenskra þjóðfélagsmála með því að beina sjónum okkar sem þjóðar fyrst og fremst að þeim þætti orkumálanna sem lýtur að jarðvarmanýtingu. Á það bendir hin faglega stofnun sem heitir Orkustofnun, og er í rauninni ríkisstofnun, í umsögn sinni sem hún gefur Alþingi um málið. Í þeirri umsögn sem Orkustofnun sendi inn 8. maí síðastliðinn, þ.e. á þessu ári, er það ítrekað að tillagan eins og hún liggur fyrir muni þrýsta á hraðari nýtingu jarðvarmans, og með þeirri áherslubreytingu sem áður hefur verið í umgengni Íslendinga um þær auðlindir eykst áhættan í tæknilegu og efnahagslegu öryggi. Þar með taka menn ákveðna sénsa eins og sagt er varðandi þá hagkvæmni og þann arð sem af þeim verkum mun leiða. Það þýðir með öðrum orðum að sú hagkvæmni og sú þekking sem við höfum byggt upp verður allt sett undir meiri áhættu en áður hefur verið. Það er ekki mjög æskilegt að mínu mati, ekki síst þegar við erum að horfa til þeirrar stöðu sem íslenskt þjóðarbú er í um þessar mundir.

Þar sem ég nefni það vil ég sérstaklega nefna að ein af umsögnunum sem komið hafa inn um þetta mál er frá fyrirtækinu Gamma sem sérhæfir sig í að meta fjárhagslega þætti ýmissa þátta í íslensku þjóðfélagi. Mat þessa fyrirtækis, sem ég held að sé ágætlega virt á sínu sviði, er í þá veru að við þá breytingu sem gerð er í meðförum stjórnmálamannanna á þessari faglegu niðurstöðu, að leggja þetta plagg sisvona fram, þýðir það að á gildistíma þingsályktunarinnar munum við skapa færri störf, við munum fá minni arð inn í þjóðarbúið og við munum fá minni framleiðni, þ.e. hagvöxtur verður ekki jafnmikill. Þetta eru ekki neinar smáræðis tölur. Eftir því sem mér er sagt metur fyrirtækið Gamma þetta þannig að við missum möguleika á því að búa til fimm þúsund ný störf. Við „töpum“ eða getum ekki aflað 270 milljarða tekna og samdráttur í hagvexti frá því sem áður hafði verið er á milli 4–6%. Þetta eru verulegar og miklar stærðir og full ástæða til að gefa því gaum, sérstaklega þegar haft er í huga að undirbúningur eða rökstuðningurinn fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til frá niðurstöðu faghópanna, verkefnisstjórnarinnar til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir, er ekki nægilega sterkur.

Í því sambandi vil ég nefna það sérstaklega sem fram hefur komið meðal annars í nefndarálitum frá minni hluta atvinnuveganefndar. Þar er rökstutt að iðnaðarráðherra hafi vikið frá þeim tillögum sem verkefnisstjórnin hafi sett fram og það sé augljóst að þjóðhagslega hagkvæmir virkjunarkostir séu látnir sitja á hakanum, og það er sennilega ástæðan fyrir því og þeirri niðurstöðu sem ég gat um hér áðan að ráðgjafarfyrirtækið Gamma hefði komist að.

Það er raunar dálítið einkennilegt þegar maður horfir á smærri myndina í þessum efnum að uppgötva sumt sem þar er sagt og tengist — ég vil staldra sérstaklega við eitt atriði sem kemur fram í umsögn um Gjástykki, sem svo vill til að er í því ágæta kjördæmi sem ég sit fyrir á þingi, Norðausturkjördæmi. Þar segir í niðurstöðu verkefnisstjórnar að Gjástykki fái sæti 26 af sjónarhóli verndunar og í textanum frá faghópnum segir svo, með leyfi forseta:

„Virkjunarkostur sem liggur í nágrenni náttúruminja […] sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar.“

Þetta er sem sagt niðurstaða faghópsins. Virkjunarkostur sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar.

Ein lítil spurning af því tilefni er sú að ef menn eru sammála, er þá einhver þörf á umfjöllun um það mál? Fullyrðingin um að menn séu sammála er mjög óskýr í rauninni. Ef hún ætti að standast væri í rauninni engin þörf á að fjalla um þetta. Ef menn væru sammála um það að þetta væri og bæri að friða þyrfti ekkert að ræða það frekar. Annað atriði sem vekur athygli mína um þetta tiltekna svæði, án þess að vera að gera það að einhverju sérstöku ágreiningsefni, sem kemur fram og er bætt í rökstuðning verkefnishóps ráðuneytanna tveggja sem fengu þetta frá verkefnisstjórninni, er að það svæði hafi verndargildi á heimsmælikvarða án þess að það sé með nokkrum hætti rökstutt frekar. Vissulega get ég alveg tekið undir það að það er svæði á heimsmælikvarða, eins og raunar allt kjördæmið Norðausturland en ég þyrfti þá að rökstyðja það með ákveðnari hætti en þeim sem settur er fram í þessari niðurstöðu. Það er vandséð að átta sig á því á hverju það byggir, sú staðhæfing að þetta hafi verndargildi á heimsmælikvarða. Sennilega byggir það á því hversu vel var fylgst með framvindu Kröflueldanna á sínum tíma.

Ég vil þó geta þess í þessu samhengi varðandi Gjástykkið, þeirra tveggja þátta sem ég hef gert að umtalsefni úr niðurstöðu faghópsins og hins vegar svokölluðum rökstuðningi frá verkefnishópnum varðandi hugtakið menn og síðan yfirlýsinguna um heimsmælikvarðann, þá er annað atriði sem ég tel vert að nefna í þessu sambandi sem sýnir í rauninni hversu einkennilegar brautir þessi mál geta farið. Þannig háttar til að á árunum 2006–2008 unnu sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum ásamt Umhverfisstofnun, landeigendum og öðrum hagsmunasamtökum svæðisskipulag af háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. Það svæðisskipulag var staðfest af umhverfisráðherra í febrúar árið 2008 og allir sáttir. Um svæðisskipulagið ríkti mikil og mjög víðtæk sátt. Sú áætlun sem tók til Gjástykkis og verndaráætlun þess náði einungis til 2% af því svæði sem þar um ræðir þar sem var gert ráð fyrir takmarkaðri orkunýtingu.

Þrátt fyrir alla þá vinnu og þrátt fyrir að sveitarfélögin, hagsmunaaðilar, Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra séu búin að staðfesta mjög takmarkaða nýtingu á þessum örlitla hluta svæðisins, 2%, er gerð tillaga um að þetta verði sett í verndarflokk, þau 2% sem þarna um ræðir. Það þykir mér einkennilegt og sérstaklega þegar sú vinna sem ég gerði að umtalsefni, forseti, er ágætisdæmi um það að óvíða sé í rauninni að finna betra dæmi um að hægt er að fara bil beggja, þ.e. hagsmunir þeirra sem vilja nýta og hinna sem vilja ekkert snerta, þá er í rauninni því tækifæri að mínu mati klúðrað með þeirri tillögu sem liggur fyrir. Mér þykir það mjög miður, sérstaklega þegar þeir sem vilja nýta bjóða upp á það að 98% af tækifærinu sé (Forseti hringir.) friðað, en einungis 2% séu nýtt.



[12:36]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var afar athyglisverð og margt í henni sem fróðlegt væri að fara dýpra ofan í og fá frekari upplýsingar um.

Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og hefur sinnt þeim málum vel og mikið undanfarið og fjárlögin bíða nú 3. umr. hér á þinginu út af þessu máli. Það hefur komið fram í umræðunum að kostnaður við breytingarnar sem gerðar eru sé um 270 milljarðar fyrir þjóðarbúið, 5.000 störf séu að tapast og hagvöxtur sé 4–6%. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði á vefsíðu sinni í gær að ríkisstjórnina skorti algjörlega efnahagsstefnu og þetta væri …

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar og vekur athygli hv. þingmanns á að klukkan er í ólagi. Tímatakan fer fram bara hér hjá forseta. Ég geri viðvart.)

Takk fyrir þetta, frú forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvernig hann líti á tengsl rammaáætlunar við fjárlagagerðina og efnahagsstefnuna og hvernig hann líti á stöðu ríkissjóðs í ljósi þeirra fjárútgjalda sem verið var að samþykkja, meðal annars í fjárlagaáætlun — setji þetta í samhengi við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Hér hefur verið talað um að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eigi að einhverju leyti að koma til móts við þetta 270 milljarða tap og þessi 5.000 störf. Getur hv. þingmaður farið aðeins ofan í tengsl þessa (Forseti hringir.) við fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2013 og svo til lengri tíma?



[12:39]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Ég nefndi þær tölur sem hv. þingmaður bar hér fram varðandi ársverkin, ábatann og hagvöxtinn. Ég legg áherslu á að þetta er væntur ábati, þetta er ekki eitthvað sem við erum að tapa þó að þetta hafi gerst, en við erum að missa af ákveðnum tækifærum að mati þessa fyrirtækis. Að því gefnu að mat fyrirtækisins Gamma sé rétt rímar það mjög illa við fjárlagagerðina og fjárhagsstöðu ríkissjóðs eins og hún birtist okkur í vinnu við fjárlagagerðina. Það sem verra er er að margt í fjárlagagerðinni sem kallar á að hlutir tengdir orkunýtingu geti gengið fram styður ekki þau áform. Að því leytinu má fullyrða að fjárlagafrumvarpið styðji ekki þjóðhagsforsendur fjárlaga. Það leiðir bara til einnar niðurstöðu sem er sú að fjárlagaramminn skekkist, við töpum tekjum og hin erfiða staða verður erfiðari viðfangs. Þannig að þetta bítur allt í skottið á sér. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig standi á því. Ég hef ekki fengið neinar haldbærar skýringar á því, þ.e. röksemdir sem hafa verið lagðar fram fyrir þessari forgangsröðun, ef svo mætti kalla, eru litlar sem engar. Það er mjög miður þegar við glímum hér við gríðarlega erfiða stöðu, hvort heldur er á sviði ríkisfjármála eða í afkomu eða búsetu og lífsskilyrðum almennings í (Forseti hringir.) landinu.



[12:41]
Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vil fara aðeins lengra ofan í þessa umræðu því að ég held að þetta sé mikið áhyggjuefni. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns þegar kemur að fjárlagagerðinni, að við séum ekki að byggja upp nægilega verðmætasköpun til að standa undir nauðsynlegum útgjaldaliðum í fjárlögunum og hvað þá þeirri aukningu sem verið er að setja í ákveðna málaflokka sem ég held að flokkist ekki undir grunnstoðir samfélagsins.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar því að borið hefur á því að ákveðnir stjórnarliðar hafa talað um að þetta sé hluti af breyttri forgangsröðun, þ.e. að sleppa þessum verkefnum upp á 270 milljarða, 5.000 störf. Síðan hafa stjórnarliðar haldið því fram að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eigi að koma til móts við þetta.

Hafa hv. þingmaður og fjárlaganefnd, sem fer með fjárveitingavald ríkissjóðs, kynnt sér þessa fjárfestingaráætlun? Hver er skoðun þingmannsins á því? Telur hv. þingmaður að fjárfestingaráætlunin komi til móts við þessa 270 milljarða? Jafnvel þó að þetta sé, eins og hv. þingmaður kom inn á, væntur ábati hlýtur þetta engu að síður að vera nokkuð nærri lagi, 270 milljarðar, 4–6% minni hagvöxtur og 5.000 störf. Telur hv. þingmaður eftir vinnu sína í fjárlaganefnd að það eigi við rök að styðjast að fjárfestingaráætlunin skili þessum ábata? Ef ekki, hvað áætlar fjárlaganefnd að ábatinn verði mikill? Ég held að það sé mikilvægt hvað varðar nálgun á þeirri umræðu sem við erum í hér.



[12:43]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég skal svara spurningu hv. þingmanns skýrt og skilmerkilega. Ég hef einfaldlega ekki séð neina fjárfestingaráætlun frá þessari ríkisstjórn. Við höfum leitað mjög lengi í fjárlaganefnd að hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun en við höfum hvergi fundið hana. Munurinn á fjárfestingu og stofnkostnaði er sá að fjárfesting er eitthvað sem annaðhvort dregur úr gjöldum eða skapar tekjur, en stofnkostnaður er eitthvað sem kallar á rekstur og er bara hrein og klár útgjöld til viðbótar við það sem fyrir er. Svo háttar til að bróðurpartur þess sem kallað er fjárfestingaráætlun er það sem ég mundi kalla skóflustunguáætlun, því að ætlunin er sú að ríkisstjórnarflokkarnir geti skreytt sig með þessu rétt fyrir kosningar og látið síðan aðra um að reyna að fullnusta þessi áform. Að því leytinu til má kalla þetta skóflustunguáætlunina að þeir ætla öðrum erfiðið en ætla sjálfir að fá heiðurinn af verkinu.

Ekkert í fjárlögunum, ekki stafur, er í raun stuðningur á móti hugsanlegu tapi sem kann að verða af þessu. Þetta er mjög sérstakt þegar maður horfir á hvernig þetta er rökstutt. Við erum að tala um að vatnsaflskostirnir séu settir út vegna varúðarsjónarmiða, en jafnframt er í meirihlutaálitinu hafður fullur vari á því að fara svona hratt í háhitavirkjanir. Það er samræmi á milli þessarar tvíbentu afstöðu meiri hlutans í atvinnuveganefnd og meiri hlutans í fjárlaganefnd, við getum talað um tvö andlit í því sambandi. Að þessu leyti til má segja að stjórnarliðar séu sjálfum sér samkvæmir í því rugli sem þeir leggja til.



[12:45]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Sú var tíðin að menn kröfðust þess að ráðherrar kæmu til fundar um miðjar nætur til að taka þátt í umræðum og hlýða á umræðuna. Ég óska eftir því, frú forseti, að hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mæti hér og hlýði á umræðuna og ekki bara það, heldur að hún taki líka þátt í henni. Það er virðingarvert hvernig hv. formaður umhverfisnefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur tekið þátt í umræðunni og varpað ljósi á ýmis mál. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi hér og varpi ljósi á það af hverju hún fór frá niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar? Af hverju hún braut þá sátt sem farin var? Af hverju hún kastaði stríðshanskanum?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún telji það til hagsbóta fyrir umhverfisverndarsinna og umhverfið að sáttin hafi verið rofin og að sáttin gildi eiginlega bara til næstu kosninga. Eftir það hafi menn frjálst spil um að fara á hendur náttúrunni að gefnu fordæmi.



[12:46]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti vill taka fram að hæstv. ráðherra var hér í nótt og hlýddi á umræðurnar, (Gripið fram í.) tók þátt í þeim. Og þótt hæstv. ráðherra sé ekki í salnum er hún hér í húsi.



[12:46]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um tvær breytingartillögur sem ég hyggst leggja fram við þingsályktunartillöguna. Þær eru báðar byggðar á að hluta til umsögn sem sá sem hér stendur sendi frá atvinnuveganefnd til umhverfis- og samgöngunefndar og styðst við minnisblað orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins hvað rökstuðning hvað báðar þessar breytingartillögur varðar.

Ég hef reynt í umræðunni að fá fram sjónarmið þingmanna stjórnarflokkanna til þess að taka upp umræðu um á hverju hagvöxturinn í þessu landi eigi að byggjast. Verið hafa hugmyndir um uppbyggingu í Helguvík og orkunýtingu á Suðurnesjum í hagvaxtarspám undanfarin ár. Nú er talað um að hagvaxtarspá næstu ára eigi m.a. að byggjast á orkunýtingu í Þingeyjarsýslum og uppbyggingu þar þó svo að alla fjármuni skorti í fjárlögin til að styrkja þá innviði sem eru forsenda þeirrar uppbyggingar. Það var nú reyndar það sama og varðandi Helguvíkina, ekki var neitt fé ætlað í framkvæmdir þar.

Ég kynni hér tvær breytingartillögur, annars vegar breytingartillögu um að færa Hagavatnsvirkjun, þ.e. útfallið, Farið úr Hagavatni, sem braust þar fram fyrir einum 70, 80 árum, í nýjan farveg, að endurheimta það, loka því með stíflu og nýta þá fallhæð sem þar myndast. Það er svolítið skemmtilegt verkefni sem byrjaði sem landgræðsluverkefni og hefur síðan þróast yfir í virkjun. Fimm jákvæðar umsagnir komu í umsagnarferlinu. Engu að síður ákváðu ráðherrarnir að ekki mætti setja neinar virkjanir í nýtingarflokk, vegna þess að búið var að ákveða það pólitískt. Það mætti bara taka þær úr nýtingarflokki og setja þær í bið. Vísuðu ráðherrarnir til þess að það væri hin lagalega umgjörð sem samþykkt var í þinginu. Ég kannast ekki við að sú umræða hafi farið hér fram að það ætti alltaf að færa úr þeim flokkum sem tækju til slíks og færa þá kosti í bið, að það væri verkefni umsagnarferlisins, ég kannast ekki við það. Hins vegar er umsagnarferlið hugsað sem neyðarhemill, stoppistöð, þar sem ráðherrarnir geta komið leiðréttingarsjónarmiðum á framfæri, til að mynda ef skýrari upplýsingar koma varðandi einhvern kost. Auðvitað getur það í mörgum tilvikum verið skynsamlegt að færa hann í bið, en í þessu tilviki hníga öll rök að því að færa þann kost í nýtingarflokk að nýju, orkunýtingarflokk. Það vill svo til að allir fallast á framkvæmdirnar sem eiga að vera þarna, líka umhverfisverndarsinnar, en þeir segja þá: Það má ekki verða arður af þessu. Það má sem sagt ekki setja túrbínu á fallið. Það má byggja stífluna, það má gera vegina, það má gera þetta, það má gera hitt en það má ekki nýta þetta og hafa arð af því. Þá eru nú rökin orðin dálítið hjákátleg, frú forseti.

Hin breytingartillagan varðar Hólmsárvirkjun hina neðri við Atley í Skaftárhreppi. Ég hef komið inn á það í máli mínu að það sé hluti af samfélagslegri sátt. Sveitarfélagið átti í samræðum við hæstv. umhverfisráðherra um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og að setja fjóra virkjunarkosti inn á aðalskipulag. Það er sá kostur sem er bestur, hefur minnst umhverfisáhrif. Það mun augljóslega styrkja innviði sveitarfélagsins með nýjum störfum, mikilli innspýtingu á uppgangstímanum og síðan með varanlegum störfum, ekki mörgum en hugsanlega nægjanlega mörgum til að hjálpa til við að snúa óheillaþróun í atvinnu- og íbúaþróun þessa svæðis með fasteignagjöldum og öðru, svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að auka afhendingaröryggi raforku á þessu svæði þar sem leið byggðalínu er löng. Orka kæmi inn á svæðið og gæti líka orðið til þess að auðvelda það að setja upp og ganga frá þriggja fasa rafmagni á bæi á þessu svæði.

Orkuskrifstofa iðnaðarráðuneytisins (Forseti hringir.) segir í minnisblaði sínu um báða kostina að það sé skynsamlegt og rökrétt (Forseti hringir.) að færa þá úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Því legg ég þessar tvær (Forseti hringir.) tillögur hér fram.



[12:52]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna.

Ég leyfi mér að vitna til álits hv. þingmanns sem er að finna í umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar með þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Það er mjög vandað og greinargott álit og ber að þakka það. Ég vil aðeins eiga skoðanaskipti við hv. þingmann vegna þess að ég sé mjög víða í því áliti að þar er staðhæft allnokkuð um hina pólitísku rammaáætlun og hin pólitísku fingraför sem hv. þingmaður telur vera á því plaggi sem hér liggur fyrir. Sérstaka athygli vekur einmitt það mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni og ekki síður allir þeir sex vatnsaflsvirkjunarkosti sem færðir eru út.

Ég hef ekki heyrt fulltrúa þeirra sjónarmiða sem endurspeglast í tillögugerð meiri hlutans, þ.e. þá sem bera tillöguna fram í því formi sem hún liggur hér fyrir þinginu, gefa skýringar á þeim breytingum sem gerðar voru frá niðurstöðu verkefnisstjórnar til þeirrar pólitísku ályktunar sem hér er lögð fram.

Þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur fylgst mjög vel með málinu og unnið að því væri fróðlegt að heyra hver hans sjónarmið eru og hvort hann hafi orðið einhvers uppvísari í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað af hálfu stjórnarliðanna. Hefur hann heyrt einhverja viðhlítandi og skynsamlegar skýringar á þeirri breytingu sem gerð hefur verið?



[12:54]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér væri hægt að svara spurningunni mjög fljótt og vel: Nei, ég hef ekki fengið nægilegar skýringar. Ég ræddi þó við hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi einmitt um þann þátt. Eiginlega finnst mér það vera brot á frumkvæðisskyldu stjórnvalda að rannsaka ekki virkjunarkost þegar gögn um hann týndust. Síðan fundust þau og voru greinilega metin í ráðuneytunum miðað við jákvæða umsögn orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins. Engu að síður segja ráðherrarnir: Við ætlum ekki að meta þennan kost af því það stendur ekki í lögunum. Hæstv. umhverfisráðherra reyndi að halda því fram að ferlið væri bæði faglegt og löglegt og að sérstaklega væri farið eftir túlkun laganna. Ég kannast ekki við varðandi lög um meðferð rammaáætlunar, sem samþykkt voru hér samhljóða og unnin í þáverandi iðnaðarnefnd, ef ég man rétt, að tilgangur þess að ráðherrar kæmu að málinu væri að færa verkefni úr verndarflokkum og nýtingarflokkum í biðflokk, að það væri verkefnið. Ég kannast ekki við það. Ég held aftur á móti að menn hafi átt að meta gögnin á faglegan hátt, að það hafi verið skylda þeirra. Í báðum þeim tilvikum er það augljóst.

Varðandi neðri hluta Þjórsár vildu menn hlusta á þau rök sem Veiðimálastofnun er ekki sammála, þ.e. að ekki þurfi neinar frekari rannsóknir á fiskigengd. Auðvitað er gott að hafa sífelldar rannsóknir og er Veiðimálastofnun sem rannsóknarstofnun auðvitað fylgjandi því. En hefðu menn viljað taka tillit til þeirra hefðu þeir getað sagt: Ókei, við skulum taka tvær efri virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár og setja þær í nýtingarflokk. Landsvirkjun, virkjunaraðilinn, ætlaði meira að segja að prófa seiðafleytu sem átti að vera við Urriðafoss í efstu virkjun, væri þá komin reynsla á það, og setja Urriðafoss í bið.

Varðandi (Forseti hringir.) „buffer zone“ og Vatnajökulsþjóðgarð eru engin rök, bara pólitísk markmið.



[12:56]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sé það að hin pólitísku fingraför hafa líka valdið því að stærsti hluti þeirra virkjunarkosta sem ekki eru inni og ýtt er til hliðar í annan flokk er í kjördæmi hv. þingmanns, Suðurkjördæmi. Þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur mjög mikla þekkingu á því kjördæmi og er vel tengdur þangað inn væri fróðlegt að heyra mat hans á áhrifum þeirra tillagna sem fyrir liggja í þessu formi frá stjórnarmeirihlutanum á búsetuskilyrði í Suðurkjördæmi.

Mér virðist oftar en ekki hlutir vera afgreiddir af hálfu stjórnarmeirihlutans undir þeim formerkjum að það sé allt í lagi að bíða á meðan reynt er að greiða úr einhverjum pólitískum ágreiningi. Ég hef ástæðu til að ætla að hluti af stjórnarsamkomulaginu, sem að vísu er ekki ritað í stjórnarsáttmálann, sé einfaldlega sá að vatnsaflsvirkjanir séu ekki á dagskrá meðan Vinstri grænir séu í ríkisstjórn (Gripið fram í: Vinstri …) þar af leiðandi veltir maður því fyrir sér hvort sú gjörð sem hér liggur fyrir í formi þingsályktunartillögu sé ekki í raun enn ein atlaga þessarar ríkisstjórnar að búsetuskilyrðum fólks úti á landsbyggðinni. Það væri fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður er sammála því mati mínu. Ég treysti honum til að leggja mat á áhrifin af þeirri pólitísku tillögu á þær aðstæður sem fólk glímir við í hans víðfeðma kjördæmi. Það væri fróðlegt að heyra skoðanir hv. þingmanns í þá veru.



[12:58]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur haldið fundi árlega síðastliðin þrjú ár með þingmönnum Suðurkjördæmis þar sem hún hefur hreinlega spurt: Hvenær verða virkjanir neðri hluta Þjórsár boðnar út? Hvað munu verða til mörg störf og hvenær hefjast framkvæmdirnar? Hvenær verður verðmætasköpunin til? Á Suðurlandi er stór jarðverktakageiri og byggingargeiri sem orðið hefur fyrir miklum áföllum eftir hrun. Einhverjir hafa orðið gjaldþrota, aðrir hafa dregið verulega úr starfsemi. Mjög margt fólk hefur flutt til útlanda, ýmist til tímabundinna starfa eða að öllu leyti og er verulega erfitt atvinnuástand á Suðurlandi í þeim efnum. Ástandið á Suðurnesjum er auðvitað enn verra hvað atvinnuuppbyggingu varðar, þannig að menn hafa horft til atvinnuskapandi framkvæmda. Í margnefndri skýrslu McKinseys er talað um í hverju við erum góð. Þar segir að við séum góð í fiskveiðum og matvælavinnslu og að við stöndum okkur vel í orkugeiranum, að á því eigum við að byggja skammtímauppbygginguna því að það sé svo auðvelt og við höfum svo góða möguleika þar. Til þessa sama hafa íbúarnir í Suðurkjördæmi horft. Ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarflokkanna hafa ætíð svarað því með því að segja að við þurfum að bíða eftir rammaáætlun. En við þurfum ekki að bíða lengur, það stendur ekkert um það. Ég hef bent á það á þessum fundum að hættan sé sú að hér verði ekkert gert.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem ætlar nú að hverfa af þingi, sagði að það væri eitt starf sem hann vildi ekki taka að sér, það væri að vera kosningastjóri þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í næstu kosningum með þessa rammaáætlun þar sem ekkert stendur, þar sem engin atvinnuuppbygging á að fara fram.

Sveitarfélögin hafa verið að aðlaga aðalskipulög sín og svæðisskipulög að þeirri stefnu sem verið hefur um langt skeið, þ.e. að setja inn virkjanir. Ef það verður síðan hluti af landsskipulagi eða engar verða virkjanir í rammaáætlun (Forseti hringir.) … og allt er upp í loft, veit enginn. Sú vinstri veit ekki hvað sú hægri ætlar að gjöra og öfugt í þessari ríkisstjórn, enda sjáum við (Forseti hringir.) hvernig yfirlýsingar ASÍ eru (Forseti hringir.) í garð ríkisstjórnarinnar …