141. löggjafarþing — 53. fundur.
um fundarstjórn.

beiðni um nefndarfund.

[14:06]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mér skilst að áðan hafi verið nefndarfundir hjá nokkrum nefndum, þar á meðal umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd. Í gær kom fram beiðni, m.a. frá þingmönnum Framsóknarflokksins, um að boðað yrði til fundar og ákveðnir gestir fengnir á fundinn. Eftir því sem mér skilst var ekki orðið við því og vil ég gera miklar athugasemdir við það. Ég tel að það þurfi að halda þennan fund í dag sem allra fyrst til að hægt sé að ræða við þá gesti sem óskað var eftir að kæmu.



[14:08]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Í umhverfis- og samgöngunefnd var málið tekið upp á fundi nú í hádeginu og eins og fram hefur komið var það í kjölfar beiðni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd í gær um sameiginlegan fund þessara nefnda með gestum, þ.e. aðilum vinnumarkaðarins, vegna stöðu mála í samskiptum þeirra og ríkisstjórnarinnar, ekki síst með hliðsjón af stöðu rammaáætlunar. Við ítrekuðum sem sagt á nefndarfundi í umhverfis- og samgöngunefnd þessa beiðni. Ekki hefur verið orðið við henni í þeim skilningi að fundur hafi verið ákveðinn. Formaður nefndarinnar (Forseti hringir.) lýsti því yfir að hún hygðist halda fund af þessu tagi, en á henni var að skilja að það væri ekki forgangsmál. Það er auðvitað óásættanlegt í ljósi þess að rammaáætlun er til umfjöllunar (Forseti hringir.) hér í dag.



[14:08]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einmitt ræða þá beiðni sem kom hér fram í gær um að boðað yrði til sameiginlegs fundar í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd með fulltrúum og aðilum vinnumarkaðarins. Það er mjög áríðandi og kom fram í þessari beiðni að þeir fundir yrðu haldnir áður en lokið yrði umræðu um rammaáætlun. Það er því einsýnt að við þurfum að fá svör við því hvort þessir fundir verði haldnir í dag. Hæstv. forseti, sem var á forsetastóli í nótt eða seint í gærkvöldi þegar beiðnin kom fram, vitnaði til þessara funda í nefndunum í hádeginu í dag. Það er engin niðurstaða komin; hún kom alla vega ekki á fundi hv. atvinnuveganefndar áðan. Ég vil bara fá að vita hvort þessir fundir verða haldnir í dag. Að öðrum kosti er það einboðið, virðulegi forseti, að við frestum umræðu um rammaáætlun og tökum til við hana aftur eftir að þessir fundir hafa verið haldnir.



[14:09]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Tími minn var svo naumur hér áðan að ég náði ekki að ljúka máli mínu. Ég vildi geta þess að formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, gat þess að hún hygðist halda fund í næstu viku, kannski síðar. Auðvitað getur hún gert nánar grein fyrir áformum sínum um það efni. Við vöktum athygli á því að þegar fram er komin formleg beiðni frá að minnsta kosti þremur þingmönnum í hverri þingnefnd er skylt að halda fund en auðvitað er ákveðið svigrúm varðandi tímasetningu. Hins vegar, eins og hv. þingmaður Jón Gunnarsson benti á, stendur málið í efnislegu samhengi við þá umfjöllun sem fer hér fram um rammaáætlun þannig að það er engin skynsemi í öðru en að halda nefndarfund hvort sem valið verður að halda fund í hvorri nefnd í sínu lagi eða hafa sameiginlegan fund eins og við fórum reyndar fram á. Það er engin skynsemi í því að geyma þessi fundarhöld þangað til umfjöllun um rammaáætlun er búin því að málið hefur efnislega samstöðu með því sem hér er (Forseti hringir.) til umræðu.