141. löggjafarþing — 60. fundur.
barnalög, 2. umræða.
stjfrv., 476. mál (frestun gildistöku o.fl.). — Þskj. 614, nál. m. brtt. 821 og 831.

[16:29]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta velferðarnefndar. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á barnalögum sem voru samþykkt á síðasta þingi.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Gunnarsdóttur frá innanríkisráðuneytinu og Hrefnu Friðriksdóttur, lektor við Háskóla Íslands.

Með frumvarpinu, sem í eðli sínu er einfalt, eru annars vegar lagðar til efnisbreytingar á nýju lögunum og hins vegar að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2013. Í efnisbreytingunum felst að ráðgjöf og sáttameðferð taki einnig til lögheimilis- og aðfararmála eins og frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2012 var breytt í meðförum Alþingis. Það má því segja að þar sé einungis um samræmis- og lagatæknileg atriði að ræða.

Nefndin hefur samkvæmt beiðni hennar fengið minnisblað frá innanríkisráðuneytinu þar sem fjallað er um ástæður þess að lagt er til að gildistöku laganna verði frestað, sem og hvernig vinnu verði háttað við undirbúning að gildistöku laganna eftir áramót. Kemur þar fram að þar sem lögin hafi verið samþykkt í júní hafi undirbúningur að gildistöku þeirra ekki hafist fyrr en í lok ágúst vegna sumarleyfa. Síðan þá hafi verið haldnir vinnufundir til að leita leiða til að framkvæma sáttameðferð á sem árangursríkastan hátt um allt land. Við þá vinnu hafa komið fram ýmis sjónarmið sem tekin verða til nánari skoðunar. Þá kemur einnig fram að lagaákvæðin um sáttameðferð eru mjög opin og krefjast því mikillar undirbúningsvinnu. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hún geti mótast í meðförum sýslumanna en aðstæður sýslumanna, t.d. varðandi málafjölda, kunna að ráða miklu um hvernig sáttameðferðinni verður hagað hjá einstökum sýslumönnum, t.d. varðandi vinnuframlag og ráðningarform sérfræðinga í málefnum barna og sáttameðferð. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir 30 millj. kr. fjárveitingu til sáttameðferðarinnar á næsta ári sem ráðuneytið telji að sé hæfilegt fjármagn til hálfs árs sáttameðferðar. Ekki fékkst hærri fjárheimild fyrir verkefninu á næsta fjárlagaári vegna aðhalds í ríkisfjármálum eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Meiri hlutinn telur að erfitt sé að áætla kostnað við sáttamiðlun og vandkvæðum bundið að leggja mat á það hvort þær 30 millj. kr. sem veittar eru til verkefnisins dugi jafnvel þó að lögin tækju gildi fyrr en frumvarpið kveður á um. Eins og áður segir er sáttameðferðin í raun og veru enn í mótun og erfitt að segja nákvæmlega til um hversu mikið hún mun kosta.

Fyrir nefndinni kom fram að erfitt væri að fresta gildistöku einstakra ákvæða laganna en annarra ekki þar sem slík framkvæmd væri bæði lagatæknilega flókin og til þess fallin að skapa ákveðna réttaróvissu. Einnig er vert að benda á að það er mat sérfræðinga að útilokað sé að útfæra slíka ráðstöfun svo vel megi fara, erfitt sé til að mynda að aðgreina dómaraheimild og ráðgjöf og sáttameðferð þar sem ráðgjöf og sátt er forsenda þess að dæmd sé sameiginleg forsjá. Það kom einnig ágætlega fram í umræðunni í nefndinni að í raun og veru má segja að sú góða þverpólitíska sátt sem náðist í nefndinni var einmitt að við breyttum frumvarpi ráðherrans og legðum það til að dómaraheimildin væri tekin inn þar sem dómari getur dæmt sameiginlega forsjá og ákveðið ráðgjafar- og samningaferli hefði farið fram.

Þótt heimildarákvæði sé um sáttameðferð í núgildandi lögum er það ekki nógu afgerandi til að byggja dóm um sameiginlega forsjá á. Meiri hlutinn telur brýnt að kapp sé lagt á að ljúka þeirri undirbúningsvinnu sem nauðsynlegt er að fram fari hjá sýslumannsembættum og öðrum þeim er málið varða en telur þó mikilvægt að lögin taki gildi sem fyrst og bendir í því samhengi á að nú þegar eru sex mánuðir liðnir frá samþykkt umræddra breytinga. Í ljósi þess telur meiri hlutinn rétt að stytta frest þann sem gerður er á gildistökuákvæði laganna og leggur til breytingartillögu þess efnis.

Þegar lögin voru samþykkt á Alþingi hafði innanríkisráðuneytið rúmlega sex mánuði til að undirbúa gildistökuna en málið var upphaflega lagt fram á Alþingi þann 17. nóvember 2011. Meiri hlutinn telur að í lögunum felist miklar réttarbætur eins og ráða má af nefndaráliti nefndarinnar frá síðasta þingi. Það er því meiri hlutanum erfitt að samþykkja tillögu til frestunar á gildistöku þeirra en eins og málum er nú háttað telur hann óhjákvæmilegt að fresta gildistökunni en leggur þó til að frestunin verði styttri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að lögin taki gildi 1. apríl 2013. Meiri hlutinn leggur á það ríka áherslu að næstu þrír mánuðir verði nýttir vel til undirbúnings að gildistöku laganna og minnir á að aukið fjármagn geti þurft í verkefnið vegna þeirra þriggja mánaða sem bætt hefur verið við gildistímann.

Þá hefur meiri hlutinn einnig rætt að það er að hluta til óábyrgt að gera annað en að samþykkja þennan frest vegna þess að því miður komst sá kvittur á loft, og má segja má segja að ráðherra hafi rætt það opinberlega, að til stæði að fresta gildistöku laganna. Það varð einhvern veginn til þess að allur undirbúningur hægði á sér í dómskerfinu, réttarkerfinu, samfélaginu og kerfinu öllu þannig að það má segja að með því að ákveða að fresta gildistökunni ekki, eins og ég veit að minni hluti nefndarinnar mun ræða á eftir, heldur láta lögin taka gildi eins og til stóð þann 1. janúar er ég hrædd um að til verði ákveðin réttaróvissa í þessum viðkvæma málaflokki. Það finnst mér maður ekki mega gera í málefnum barna. Þótt hér sé svo sannarlega um margar góðar réttarbætur að ræða tel ég að ef þær eru illa undirbúnar sé betra að nýta þá þrjá mánuði sem við leggjum til til að vinna það mál vel, málefnum barna til mikilla hagsbóta.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað orðanna 1. júlí 2013 í 4. gr. komi 1. apríl 2013.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú er hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Kristján L. Möller, Þuríður Backman og Árni Þór Sigurðsson.



[16:36]
Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Frú forseti. Þetta er í raun og veru tvískipt frumvarp: Annars vegar er í þágu lagalegs samræmis ákvæðum bætt við einstakar greinar laga nr. 61/2012, en þau lög varða breytingar á barnalögum og voru samþykkt í júní sl. — annars vegar er sem sagt bætt við ákvæðum í einstakar greinar þessara laga sem varða heimild til að sækja mál fyrir dómstólum um lögheimili barns. Um þetta fjalla 1., 2. og 3. gr. þessa frumvarps og minni hluti velferðarnefndar, sem stendur að þessu nefndaráliti sem ég er framsögumaður fyrir, gerir ekki athugasemd við þessar greinar og telur mikilvægt að þær verði samþykktar. Hins vegar er í 4. gr. frumvarpsins lagt til að gildistöku umræddra laga, allra laganna, verði frestað til 1. júlí 2013 eða um sex mánuði og á þessa grein fellst minni hlutinn ekki og leggur til að hún verði felld brott. Mig langar að rökstyðja þá tillögu í þessari framsögu.

Á það ber að líta að lög nr. 61/2012, sem voru samþykkt einróma og í góðri sátt í velferðarnefnd 25. júní sl., að ég held, fela í sér ýmsar mjög mikilvægar réttarbætur fyrir börn, foreldra og aðstandendur og þau eiga sér líka nokkurn aðdraganda. Þau varða þann kafla barnalaga sem fjallar um forsjá og umgengni og eru að langmestu leyti samhljóða drögum að frumvarpi sem nefnd á vegum dómsmála- og mannréttindaráðherra skilaði í janúar 2010, fyrir þremur árum.

Meðal nýmæla í þeim er að ákvæði um að réttindi barnsins verði sett inn í barnalög, í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, inntak forsjár og sameiginlegrar forsjár, er gert skýrara, réttur stjúpforeldra og aðstandenda er skýrður sem og réttur forsjárlausra foreldra til upplýsinga um barn sitt, svo að fátt eitt sé nefnt. Þá er líka að finna þarna geysilega mikilvæg ákvæði, réttarfarsleg ákvæði, um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá, sem eru mikil vatnaskil og tímamót í íslenskri löggjöf í þessum málum. Dómarar fá þarna heimild til að dæma sameiginlega forsjá að gefnum tilteknum skilyrðum, sem eru rakin í lögunum. Þetta er líka heimild til aðfarar vegna brots á umgengni eða umgengnisrétti og heimild til að skera sérstaklega úr um fyrir dómi hvar lögheimili barns skuli vera. Þetta eru allt mjög mikilvæg mál.

Öll hafa þessi ákvæði mjög mikilvæg réttarfarsleg áhrif og mega teljast miklar réttarbætur. Það er að mati minni hlutans gríðarlega mikilvægt að almenningur geti treyst því að ákvæði með slíkum réttarfarslegum áhrifum, sem geta varðað erfið tilfinningamál fólks og flókin ágreiningsmál — og mér er kunnugt um dæmi — öðlist gildi á fyrirsjáanlegan og gagnsæjan hátt og að hægt sé að treysta því að ákvarðanir löggjafans í þeim efnum standi. Löggjafinn hefur sagt að þessar réttarfarsbreytingar skuli taka gildi 1. janúar 2013. Það er fólk í þjóðfélaginu sem á í erfiðum forræðismálum sem hefur gengið út frá því að þetta standi. Svona ákvarðanir verða að standa nema veigamikil rök séu fyrir því að þær standi ekki. Ef fresta á slíkum ákvæðum þurfa að vera fyrir því ákaflega traustar röksemdir og það er mat minni hlutans að þær skorti hér.

Rökin fyrir því að fresta eigi gildistöku frumvarpsins og allra þessara réttarbóta eru einkum þau að ekki sé hægt að hefja framkvæmd mikilvægra verkefna sem sýslumönnum eru falin í lögunum fyrr en 1. júlí. Nú skulum við fara aðeins yfir þetta, minni hlutinn dregur þetta mjög í efa. Hér er um að ræða innleiðingu ákvæða um ráðgjöf og sáttameðferð og ákvæða um að sérfræðingar í málefnum barna, á vegum sýslumanna, veiti umsagnir í umgengnismálum og sinni eftirliti í stað barnaverndarnefnda. Sem sagt sáttameðferð og ráðgjöf skal innleidd á ákveðinn hátt á vegum sýslumanna og það er tilflutningur á verkefnum frá barnaverndarnefndum til sýslumanna.

Varðandi sáttameðferðina og ráðgjöfina: Það er vissulega mjög mikilvægt atriði í lögum nr. 61/2012 að það á að koma á sérstakri sáttameðferð, það er rakið í 12. gr. og einnig er ráðgjöfin rakin í 11. gr. Sáttameðferðin felur í sem stystu máli í sér að áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, umgengni eða dagsektir, og einnig lögheimili og aðför, er foreldrum skylt að leita sátta. Sýslumaður skal bjóða aðilum slíkra mála sáttameðferð en foreldrar geta einnig leitað annað. Sáttameðferð skal annaðhvort lokið með samningi eða með vottorði um að sátta hafi verið leitað og ráðherra er síðan falið að setja nánari reglur um sáttameðferð.

Menn tala dálítið í þessu máli eins og sáttameðferð sé ekki fyrir hendi á Íslandi og að frumvarpið feli í sér að henni skuli komið á nánast frá grunni. Þetta er ekki svo. Nú þegar bjóða sýslumenn út um allt land, á grunni gildandi laga, sérfræðiráðgjöf sálfræðinga til foreldra í erfiðum ágreiningsmálum til að leita þeirra bestu lausna af sjónarhóli barnsins og það er í eðli sínu sáttameðferð. Auðvitað geta sýslumenn haldið áfram að bjóða þessa tegund undir merkjum nýrrar sáttameðferðar 1. janúar nk., ég held að það hljóti að vera. Það voru 175 slík mál á vegum sýslumanna úti um allt land árið 2009 þannig að þetta er náttúrlega fyrir hendi og auk þess gerir ákvæðið um sáttameðferð ráð fyrir því að foreldrar geti leitað annað og fjölmargir aðilar í einkageiranum hér á landi bjóða upp á viðurkennda sáttameðferð.

Ljóst er líka að framkvæmd sáttameðferðar af þessu tagi getur verið með ýmsum hætti. Það er að mati minni hlutans alls ekki nógu vel rökstutt að sáttameðferð geti ekki staðið til boða 1. janúar 2013, sérstaklega í ljósi þess að verið er að bjóða upp á hana nú þegar bæði á vegum sýslumanna og úti í samfélaginu með viðurkenndu móti.

Auðvitað er sáttameðferðarskyldan, eins og hún er innleidd í frumvarpinu, mikið framfaramál, en þá vil ég líka vísa í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpinu og benda á þessi lykilorð, með leyfi forseta:

„… innanríkisráðuneytið muni þróa þessi úrræði og þjónustu smám saman.“

Þetta er auðvitað ákveðið lykilatriði.

Það er mjög mikilvægt að sáttameðferðin sé góð og ráðgjafarþjónustan sé góð, en þetta eru í eðli sínu ákvæði eða þjónusta sem verður að þróa yfir tíma og vonandi verður hún alltaf undirseld stöðugum betrumbótum. Hún er fyrir hendi núna með ákveðnum hætti sem sérfræðiráðgjöf á vegum sýslumanna og sem þjónusta í einkageiranum víða í samfélaginu. Við getum byrjað, það er ekkert því til fyrirstöðu, að mati okkar sem að þessu nefndaráliti stöndum, en svo verður auðvitað að betrumbæta þessa þjónustu.

Það vekur athygli mína að innanríkisráðuneytið, samkvæmt ummælum gests sem kom fyrir nefndina, er ekki komið neitt sérstaklega langt á veg með að þróa endanlegt eða fullbúið hugtak yfir það hvernig þessi þjónusta á að líta út. Þá er alveg eins gott að byrja núna á grunni þeirrar þjónustu sem þegar er veitt og að sjálfsögðu betrumbæta hana með tíð og tíma, og vonandi verður hún sem best. Þetta er auðvitað vel hægt.

Síðan er það visst aðalatriði að við séum ekki að binda gildistíma mjög mikilvægra réttarbóta, þeirra réttarbóta sem ég rakti hér áðan, við það hvenær þetta þjónustuform, sáttameðferð og ráðgjöf, telst á einhvern hátt fullbúið. Þetta er í eðli sínu þjónustuform sem verður þróað og betrumbætt og við getum ekki — og það var talað hér áðan um réttaróvissu — skapað þá réttaróvissu í landinu að þessar réttarbætur verði látnar fylgja því hvenær þetta þjónustuform telst á einhvern hátt fullbúið. Það er ekki hægt og við getum ekki skapað það fordæmi hér og nú.

Það er athyglisvert að röksemdirnar fyrir frestun gildistökunnar virðast vera tvenns konar og þetta er svolítið óljóst. Annars vegar er því haldið fram að sáttameðferðin — aðallega sáttameðferðin sem ég hef rakið hér, sem er mikilvæg — sé ekki útfærð. Eins og ég hef rakið er hún í veigamiklum þáttum þegar til staðar í kerfinu. En því er sem sagt haldið fram á einhvern hátt að hún sé ekki útfærð, gott og vel. Ég held að það sé alveg rétt að það eigi eftir að þróa hana og betrumbæta en ég held að það sé ásigkomulag sem við verðum í um nokkurt skeið.

Hins vegar er því haldið fram að ekki sé til nægilegt fé til að standa straum af nýjum verkefnum sem þessar breytingar á barnalögum sem við samþykktum í júní fela í sér. Þessar röksemdir tvær virðast mér reyndar nokkuð ósamrýmanlegar. Annars vegar er því haldið fram — og þetta kom fram í máli hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur hér áðan — að ekki sé búið að útfæra þjónustuna en samt er því haldið fram að ekki sé til fé í hana. Þetta hljómar mótsagnakennt.

Ef ekki er búið að útfæra þjónustuna, ef innanríkisráðuneytið vill halda því fram að ekki sé búið að útfæra þjónustuna, hvernig er þá hægt að meta hvað hún kostar? Og hvernig er þá hægt að halda því fram að ekki sé til peningur í hana? Þetta finnst mér eiginlega óviðunandi — og ekkert eiginlega, mér finnst þetta óviðunandi málflutningur. Ef halda á því fram að ekki sé til peningur í þetta verður að byggja það á einhverju kostnaðarmati. Það liggur ekki fyrir, alla vega ekki í þessari atrennu — nema þó, og nú skulum við tala um fjármálin sérstaklega, það liggur fyrir kostnaðarmat í umsögn með þessu frumvarpi, sem er sama umsögn og var með frumvarpinu til breytinga á barnalögum sem við samþykktum í júní. Þar kemur fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins með kostnaðarmat á þessu öllu saman.

Þar er sagt, og það er mjög athyglisvert, að sáttameðferðin sem slík, sáttameðferðarskyldan, muni kosta nokkurn veginn það sama og sérfræðiþjónusta sálfræðinga sem sýslumenn eru að bjóða upp á úti um allt land, það jafnist nokkurn veginn út, enda er þetta mjög áþekk þjónusta. Sýslumenn voru árið 2009 að bjóða 175 foreldrum í vandræðum þessa þjónustu úti um allt land.

Síðan er vitnað í gögn frá innanríkisráðuneytinu og sagt að þjónustan, aukin ráðgjafarþjónusta til foreldra, muni fela í sér þrjú ný stöðugildi til sýslumanna og það er metið á 22 millj. kr. Síðan er fallist á það sjónarmið, sem sagt er koma frá innanríkisráðuneytinu, að tilflutningur verkefna, tiltekinna eftirlitsverkefna í umgengnismálum frá barnaverndarnefndum til sérfræðinga á vegum sýslumanna, muni fela í sér 2,5 stöðugildi hjá sýslumönnum. Þetta eru sem sagt 5,5 stöðugildi og heildarkostnaður samkvæmt fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, við þessar breytingar á barnalögum og alla þá nýju þjónustu sem þær eiga að fela í sér, er á bilinu 35–40 millj. kr. Þetta er eina kostnaðarmatið sem ég hef séð í þessu máli og mér finnst þetta nokkuð traustvekjandi og sannfærandi kostnaðarmat.

Mér finnst því undarlegt þegar það er síðan sagt fullum fetum í greinargerð með frumvarpinu, og er sögð ein ástæðan fyrir því að fresta verði gildistöku allra laganna — innanríkisráðuneytið segir þó að til verkefnisins séu 30 millj. kr. á þessu ári. Annars vegar höfum við því kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofunni upp á 35–40 millj. kr. og hins vegar áætlun innanríkisráðuneytisins um að verja til þessara verkefna 30 millj. kr.

Hér, hæstv. forseti, ber ekki mjög mikið á milli, finnst mér, alls ekki nógu mikið til að réttlætanlegt sé að fresta gildistöku mjög mikilla réttarbóta á grunni þess að skortur sé á fjármagni. Kostnaðarmatið er 35–40, peningarnir sem liggja fyrir eru 30. Hér er því fiskur undir steini, verð ég að segja. Hvort sem menn halda því fram að fjármagn vanti í þetta og þess vegna verði að fresta gildistöku laganna eða þá að þeir séu ekki tilbúnir með útfærslu á þessu er hvort tveggja mjög ósannfærandi.

Einnig má horfa til þess að ef því er virkilega haldið fram að þetta þjónustuform sé ekki undirbúið innan ráðuneytisins verður að vekja máls á því hvort ekki sé undarlegt að svo sé. Tillögur um sáttameðferð, tillögur um að auka ráðgjöf til foreldra og tillögur um að færa þessi verkefni frá barnaverndarnefndum til sýslumanna lágu fyrir alskapaðar, fullskapaðar, innan ráðuneytis dómsmála og mannréttinda í janúar 2010, og þessum áformum var almennt fagnað, alls staðar. Þetta voru taldar góðar hugmyndir. Þrjú ár eru liðin frá því það var og mér finnst verulega ósannfærandi, og eiginlega umræðuefni í sjálfu sér, ef ráðuneytið telur sig ekki vera tilbúið með útfærslu á þessu og sérstaklega í ljósi þess að verið er að stunda sáttameðferðir, bæði á vegum sýslumanna og einkageirans, úti um allt samfélag.

Minni hlutinn kemst því að þeirri niðurstöðu að það sé algjör óþarfi að fresta gildistöku þessara laga. Ef menn mundu hins vegar endilega vilja fresta sáttameðferðinni, vegna þess að þeir vildu á einhvern hátt útfæra hana betur og fresta nýjum ákvæðum um ráðgjöf, sem þó eru mjög keimlík þeim ákvæðum um ráðgjöf sem þegar eru fyrir hendi, og fresta tilfærslu verkefna frá barnaverndarnefndum til sýslumanna, væri hægt að gera það sérstaklega, ég sé ekki betur. Það var aldrei rökstutt almennilega af neinni dýpt í meðförum nefndarinnar af hverju í ósköpunum, ef menn hefðu áhyggjur af sáttameðferðinni, þyrfti að fresta gildistöku allra laganna. Ég sé ekki betur en að ef menn hefðu áhyggjur af sáttameðferðinni og tilfærslu verkefna frá barnaverndarnefndum til sýslumanna hefði einfaldlega verið hægt að fresta 11. gr., 12. gr., 2. mgr. 18. gr. og a-lið 26. gr. í lögum nr. 61/2012. Þar með væri þessum afmörkuðu greinum, sem varða hina nýju sáttameðferð og tilflutning verkefna frá barnaverndarnefndum til sýslumanna, frestað. Þetta er vel hægt, en ekki gafst tóm til þess í nefndinni að ræða þetta af neinni dýpt.

Að síðustu ætla ég að koma að athugasemdum mínum og okkar sem stöndum að þessu nefndaráliti við málsmeðferðina hér. Eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir kom inn á áðan hefur hæstv. ráðherra gert mönnum það ljóst hér úti í þjóðfélaginu, og ég hef sjálfur orðið vitni að því, að þessum lögum öllum yrði frestað. Maður fór að heyra kvitt um það sem fulltrúi í velferðarnefnd að þeim yrði frestað og fór að heyra kvitt um þetta snemma í haust. Ég varð vitni að því þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir á opnum fundi 8. nóvember að hann hygðist fresta gildistöku þessara laga.

Þá spyr ég: Eru orð ráðherrans lög, er það svo að orð ráðherrans séu lög? Nægir það að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson fari um og segi fólki að lögunum verði frestað? Ég leyfi mér að gera alvarlegar athugasemdir við þetta og sérstaklega í ljósi þess að málið er síðan lagt hér fram á síðasta degi útbýtingar 30. nóvember sl. Það kemur til meðferðar í velferðarnefnd 14. desember og tóm gefst til þess að halda um það tvo fundi, að ég held, kannski þrjá. Það gafst tóm til að fá tvo gesti, annan frá ráðuneytinu og hinn sérfræðing sem kom hingað í 20 mínútur í fundarhléi og ekkert tóm gafst til að ræða við hann af neinni dýpt um alls konar álitamál þessu tengd. Þetta eru algjörlega ólíðandi vinnubrögð, þetta er mjög umdeilanlegt. Það á að fresta mjög mikilvægum réttarbótum og það er ekki hægt að gera það svona.

Minni hlutinn leggur því einfaldlega röksemdir sínar hér á borðið. Við fáum ekki betur séð en það þurfi ekki að fresta þessu. Það mun ekkert hrikalegt gerast þó að þessu verði ekki frestað. Sáttameðferð er í boði mjög víða í samfélaginu og hún mun vonandi halda áfram að þróast og betrumbætast. Minni hlutinn leggur því til að fyrirliggjandi frumvarp verði samþykkt en með eftirfarandi veigamikilli breytingu, að 4. gr., sem fjallar um frestun á öllum gildisákvæðum laganna, falli brott.

Undir þetta skrifa ég, Eygló Harðardóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.



[16:58]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu og rökstuðning. Við deilum því að vera mjög ánægð með þau lög sem við samþykktum einróma hér í þingsal í júní sl. og erum bæði mjög ósátt við að það þurfi að fresta þeim. Þó að það séum að sjálfsögðu bara við hér í þingsal sem getum síðan tekið ákvörðun um það þá tel ég, eftir að vera búin að heyra að það hefur í raun og veru legið í loftinu að fresta ætti þessum lögum, að það hefði leitt til þess að í kerfinu er það vinnulag komið á. Þar er ég á annarri skoðun en hv. þingmaður og vil gjarnan heyra hans álit. Það er sem sagt annar hlutur sem ég held að geti orðið til þess að við verðum því miður að fresta þessum lögum, jafnsorglegt og það er. Þess vegna reynum við að finna þennan milliveg með því að stytta frestunina.

Það sem sannfærði mig síðan endanlega um að við þyrftum að gera þetta var heimsókn eins okkar helsta sérfræðings í barnarétti, Hrefnu Friðriksdóttur lektors við Háskóla Íslands, sem hefur mjög mikið unnið að barnaverndarmálum. Hún var okkar helsti ráðgjafi og við tókum mikið mark á því sem hún hefur skrifað og sagt um hvernig barnalög eiga að vera þegar við vorum að koma þessum lögum á sl. ár.

Hún var mjög ákveðin í því að hún teldi að sáttameðferðin væri ekki tilbúin og menn úti í feltinu væru almennt ekki tilbúnir. Þess vegna sagði hún: Ég held að það sé rétt að þið frestið þessu. Ég held að við verðum bara að gera það. En hún sagði jafnframt: Ég hugsa að það dugi að það sé í þrjá mánuði. Síðan sagði hún jafnframt: Vegna þess hve lagaákvæðin fara mikið hvert inn í annað þá held ég að ekki sé gott að fresta einstökum ákvæðum. (Forseti hringir.) Mér þætti mjög vænt um að fá mat hv. þingmanns á þessum ábendingum Hrefnu Friðriksdóttur.



[17:00]
Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Þessi tiltekni gestur, sem ég ber líka mikla virðingu fyrir, lýsti því líka yfir að hún hefði ekki skoðað ýmis álitamál almennilega í þessu sambandi og hefði þurft meiri tíma til þess. Þessi fundur stóð í einhverjar 20 mínútur eða svo í fundarhléi og manni gafst ekki einu sinni tóm til að spyrja spurninga út í þetta allt saman. Mér finnst ekkert sanngjarnt að vísa á einhvern hátt í þá umræðu, bara á engan hátt.

Svo er það þetta að kerfið búist við því að gildistöku laganna verði frestað. Það er líka fólk þarna úti sem á í forræðismálum og er með hjartað í buxunum yfir því hvort þessi ákvæði gangi ekki örugglega í gildi 1. janúar 2013, eins og við höfum sagt að muni gerast. Hér verða menn að vega og meta. Eigum við ekki að standa varðstöðu um orð Alþingis, niðurstöður löggjafans? Við segjum að þessar réttarfarsbætur eigi að taka gildi 1. janúar 2013. Það er okkar, þingsins, að ákveða þetta. Skilaboð okkar til almennings á þessari stundu eiga að vera þau að það eru ákvarðanir Alþingis sem standa í þessum efnum. Hvað annað ætlum við að bjóða upp á? Eigum við að fara í einhvern réttaróvissuleiðangur með svona mikilvægar réttarbætur og binda gildisákvæði þeirra við það hvenær kerfið telur sig mögulega vera tilbúið í ákveðna tegund af þjónustu?

Svo rakti ég það í ræðu minni að kerfinu er kannski ekki svo mikil vorkunn. Nú þegar er verið að bjóða upp á mjög áþekka, ef ekki nánast sömu, þjónustu á vegum sýslumanna og líka mjög víða úti í þjóðfélaginu. Vegna þess að ákvæði 12. gr. um sáttameðferðina er tiltölulega opið, það kveður bara á um þá skyldu að foreldrar skuli leita sátta, er vel hægt að beina foreldrum (Forseti hringir.) annars vegar til sérfræðinga á vegum sýslumanna núna eins og áður (Forseti hringir.) eða hins vegar til einkaaðila.



[17:03]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki eins og við hv. þingmaður séum mjög ósammála í þessu máli heldur snýst það í raun og veru um þrjá mánuði til eða frá. Það snýst um hvort það væri eðlilegt að við tækjum þessa þrjá mánuði til þess að skoða málið sérstaklega til þess að það sé fullbúið.

Mig langar til þess að benda á að sá ráðgjafi eða sá gestur sem við fengum fyrir nefndina þekkir barnalögin sennilega betur en nokkur annar. Þó að hún, af sinni faglegu ábyrgð, hafi ákveðið að hún vildi ekki segja nákvæmlega til um hvernig væri að taka ákveðin atriði út, þá sagði hún: Ég tel það ekki vera. Og ég held að við verðum að taka það mjög hátíðlega.

Mig langar til þess að árétta að að sjálfsögðu er það Alþingi Íslendinga sem setur lög. Þess utan þurfum við að hafa aðhald með framkvæmdarvaldinu. Það er greinilegt að á einhvern hátt höfum við hugsanlega brugðist í því hlutverki okkar með því að spyrjast fyrir um hvernig þetta mál væri vaxið. Það er alla vega alveg ljóst að ef málinu verður frestað þá höfum við tilefni til þess að fylgjast afar vel með því hvernig er unnið að málinu og munum gera það þessa þrjá mánuði sem því yrði frestað. Þá sinnum við líka öðru hlutverki okkar sem er það að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Því hlutverki mundi ég mjög gjarnan vilja fá að gegna með hv. þingmanni.



[17:04]
Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nánast ekki réttlátt að tala hér um hvað ákveðinn sérfræðingur sagði á mjög stuttum fundi velferðarnefndar þar sem gafst einfaldlega ekkert tóm til þess að ræða málið af neinni dýpt. Til dæmis var hún ekki spurð að því hvort sú sáttameðferð sem væri þegar í boði gæti uppfyllt skilyrði 12. gr. laganna, sem fjallar um sáttameðferð. Það er meginröksemd okkar í minni hlutanum að það sem er í boði núna geti uppfyllt þessi skilyrði, en verði að sjálfsögðu síðan betrumbætt.

Síðan vil ég ræða þetta aðeins. Er í lagi að fresta þessu um þrjá mánuði? Ég ítreka þetta grundvallaratriði. Þetta eru veigamiklar réttarbætur, veigamikil réttarfarsleg atriði sem við ákváðum að tækju gildi 1. janúar 2013. Það á ekkert að spila eða hringla með það. Fyrir því verða að vera afskaplega veigamikil rök. Þau eru ekki fyrir hendi. Ef við ætlum að skapa þetta fordæmi núna, hvað gerist þá 1. apríl ef þjónustuformið er á einhvern óljósan hátt ekki tilbúið? Mér finnst verulega líklegt að það verði ekki tilbúið þá, vegna þess að fulltrúi ráðuneytisins gat á þessum tímapunkti ekki svarað því hvernig þetta þjónustuform ætti að vera. Hún lýsti því yfir að ráðuneytið væri komið tiltölulega skammt á veg. Eigum við þá að bíða með réttarfarsbæturnar og öll þessi lagalegu ákvæði þangað til þetta er orðið alveg kýrskýrt í ráðuneytinu? Þó svo að ráðuneytið hafi haft þrjú ár, ef ekki meira, til þess að þróa þessa þjónustu. Hvaða réttarfarsóvissuleiðangur erum við þá að bjóða þegnum þessa lands upp á?

Að sjálfsögðu látum við ákvæðin taka gildi 1. janúar eins og við ákváðum, við nýtum okkur þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi í þessum efnum (Forseti hringir.) og svo betrumbætum við hana.



[17:07]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að upplýsa forseta og koma fram kvörtun gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hér fyrr í dag var það upplýst að hæstv. umhverfisráðherra hefði hafnað undanþágubeiðni Skaftárhrepps um framlengingu á starfsleyfi sorpbrennslu. Það hefur gríðarleg áhrif á þetta litla sveitarfélag, bæði fjárhagsleg og önnur, verður til þess að sundlauginni þarf að loka og gerir þeim mjög erfitt fyrir. Við þingmenn Suðurkjördæmis óskuðum strax eftir fundi bæði með hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. innanríkisráðherra. Hæstv. umhverfisráðherra sér enga ástæðu til að hitta þingmenn kjördæmisins til að fjalla um gríðarlega hagsmuni lítils sveitarfélags fyrr en einhvern tímann á nýju ári.

Ég vil koma hingað upp, frú forseti, til að koma þessari umkvörtun okkar á framfæri við forseta. Það er jú ein meginskylda okkar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu en það er erfitt þegar framkvæmdarvaldið neitar að hitta okkur, hafnar því.



[17:08]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í sömu erindagjörðum. Ýmislegt hefur gengið á í samskiptum okkar við hæstv. umhverfisráðherra, en mér finnst sá tónn sem hún sendir í svarbréfi, þegar við óskum eftir því að fá fund með henni í dag vegna þess að brýna nauðsyn beri til, ekki ásættanlegur. Fundinn þarf ekki bara að hafa vegna þeirra aðstæðna sem hv. þingmaður rakti hér á undan heldur líka vegna fjárhagslegrar afkomu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er að setja saman fjárhagsáætlun undir leiðsögn eftirlitsnefndar sveitarfélaganna og sú áætlun er í uppnámi vegna þeirrar ákvörðunar hæstv. umhverfisráðherra að veita ekki þessa undanþágu. Þetta vildum við ræða.

Fulltrúar sveitarfélagsins eru í bænum í dag. Við erum að fara inn í jólahátíðina. Það er ömurlegt til þess að vita að við getum ekki tekið hálftíma í að fara yfir þessi mikilvægu mál með fulltrúum þessa sveitarfélags (Forseti hringir.) með þetta að markmiði. Ég vil ítreka að ég held að við getum í sameiningu fundið á þessu viðunandi lausn (Forseti hringir.) en til þess þarf fólk að tala saman.



[17:10]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir með þeim tveim hv. þingmönnum sem hér hafa tjáð sig um málefni Skaftárhrepps. Ég tel mjög mikilvægt að þessi fundur fari fram í dag. Þar sem ég sé að hæstv. umhverfisráðherra er í húsi sé ég ekkert því til fyrirstöðu að af þessum fundi verði t.d. í kvöldverðarhléi. Við megum aldrei gleyma því að kerfið er til þess að þjónusta og tala við fólk en ekki öfugt. Við skulum reyna að átta okkur á stöðunni og sjá hvort einhverjar leiðir eru til þess að senda skemmtilegri jólakveðjur út til þeirra sem búa í Skaftárhreppi en gert var hér í morgun.



[17:11]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ræði hér um frumvarp um breytingar á barnalögum. Ég get ekki með nokkru móti, frú forseti, fellt mig við þá tillögu frá ráðuneytinu að ekki verði af gildistöku laga sem fóru í gegnum þingið í vor og sumar. Ég get ekki fellt mig við það.

Mig langar í örstuttu máli að fara yfir forsöguna. Við í velferðarnefnd, sem höfum starfað þar saman í nokkurn tíma, höfum reynt að einsetja okkur að vinna saman. Kallað hefur verið á það allt þetta kjörtímabil að þingmenn úr öllum flokkum reyni að vinna saman, komi sér saman um eina niðurstöðu og horfi til þess sem sameinar en ekki til þess sem sundrar. Í þessu máli varðandi barnalögin gerðum við það. Það var erfitt og ég var ekki fullkomlega ánægð með allt það sem fór þar í gegn. En með áðurnefnd sjónarmið í huga sætti ég mig við að tala við þá sem með mér sátu í nefndinni og reyna að komast að niðurstöðu. Það varð til þess að frumvarpið fór í gegn mótatkvæðalaust.

Við sem sátum í nefndinni lögðum höfuðáherslu á að þau ákvæði er varða sáttameðferð yrðu að veruleika. Við lýstum í nefndaráliti áhyggjum af því að þessari leið mundi ekki fylgja nægilegt fjármagn, en ljóst er að embættin munu þurfa að standa straum af einhverjum kostnaði vegna þessarar sáttameðferðar. Áður en málið kom hér til atkvæða vorum við fullvissuð um að fjármagn kæmi í þessar breytingar. Þverpólitísk samstaða var um þessar breytingar og í þær átti að koma fjármagn.

Nú stöndum við hér. Það er búið að samþykkja fjárlögin og það er augljóst að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlaði sér ekki að standa við það að láta þessi lög taka gildi. Það er ekki gott. Það þýðir að menn hafa ekki staðið við orð sín. Menn hafa ekki staðið við það að stuðla að því að við hér í þinginu vinnum saman. Ég legg áherslu á að menn átti sig á því hvaða yfirlýsingar er verið að gefa. Ég hef af því miklar áhyggjur. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með að sjá að til standi að fresta gildistöku laganna.

Í þessum lögum er ekki einungis verið að lögfesta ákvæði er varða hina svokölluðu sáttameðferð. Ég tel að nær hefði verið, fyrst ráðuneytið hafði augljóslega langan tíma til að hugsa þessar tillögu sína, að fram hefði komið frumvarp sem frestaði aðeins þeim ákvæðum sem varða sáttameðferðina og tengdum ákvæðum, þau eru alls ekkert öll tengd þessu atriði. Sem dæmi má nefna 1. gr., varðandi réttindi barns. Þar er farið yfir þau grundvallaratriði sem við teljum að barn eigi rétt á. Í 28. gr. á síðan að kom inn skilgreining á því hvert inntak sameiginlegrar forsjár sé. Þetta þarf allt saman að bíða af því að kerfið er ekki tilbúið. Í þessu máli er Alþingi, verði þetta að veruleika, að segja: Já, það er kerfið sem er aðalatriðið en ekki fólkið og réttindin sem lögin eiga að tryggja börnum og foreldrum þeirra.

Ég get ekki fellt mig við þessa aðferðafræði. Ég get ekki fellt mig við að málið komi hér fram á síðustu stundu þannig að nefndarmenn í velferðarnefnd, sem eru allir af vilja gerðir og hafa þá skoðun að lögin eigi að taka gildi, þurfi að sitja uppi með að taka ákvörðun sem þessa. Ég get ekki fellt mig við það. Ég mun þess vegna ekki greiða því atkvæði að lögunum verði frestað, ég tel engar forsendur til þess. Ef við hér á Alþingi ætlum að standa við þau stóru orð að ráða og hafa áhrif á það hvernig löggjöfin er þurfum við að sýna það í verki. Við gerum það með því að hafna því að fresta gildistöku laganna.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á það að í núgildandi lögum er vissulega fjallað um sáttameðferð og í núgildandi lögum eru ákvæði um sáttameðferð. Það er ekki eins og þeir ágætu menn sem starfa á sýslumannsembættunum og stjórna þeim þekki ekki til þess að koma málum í sáttaferli. Það er jafnframt svo að til eru aðilar sem sérhæfa sig í þessu. Á meðan ráðuneytið er að finna út úr því hvernig það vill hafa sáttameðferðina í öllum smáatriðum til framtíðar er til leið sem hægt er að fara. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, herra forseti, að lögin sem við afgreiddum hér í mikilli sátt fyrir síðasta sumarhlé verði að veruleika. Ég mun því ekki styðja það að gildistöku þeirra laga verði frestað.



[17:16]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu um þetta mál um breytingu á barnalögunum. Ég ætla að taka aðeins til máls um þá frestun sem stendur til af meiri hlutanum og er lögð til af ráðherra en sem betur fer styttir nefndin hana um helming.

Ég er mjög ósátt við þetta og finnst það gríðarleg vonbrigði. Það er fjöldi manns sem bíður eftir þessari réttarbót. Málið er viðkvæmt og snýst um fólk, börn og fjölskyldur þeirra. Mér finnst eiginlega óafsakanlegt að fresta málinu og eins óafsakanlegt að gefa það út að því verði frestað áður en Alþingi er búið að ákveða að gera það, Alþingi er löggjafinn. Ég held að vilji sé allt sem þarf í þessu máli og kannski er það einmitt hann sem skortir.

Ég mun ekki styðja þessa frestun og legg til að hún verði felld.



[17:17]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er spurning hvort það sé orðin algjör regla hjá þessari ríkisstjórn að þegar hæstv. ráðherrar eru ekki alveg sammála vilja þingsins komi þeir með frumvarp um að fresta málum aftur og aftur. Vilji þingsins lá alveg fyrir. Það var tekið … (Gripið fram í: Því færri frumvörp, því betra.) Virðulegi forseti. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra sem er í salnum og ætti nú að tala í þessu máli sé sammála mér um að þetta gengur einhvern veginn út á að við náum niðurstöðu í þinginu og síðan er það framkvæmdarvaldsins að fylgja niðurstöðunni eftir. Þessi ríkisstjórn kom með alveg nýja leið. Ef þeir eru ekki sáttir við niðurstöðuna eru lögin samþykkt og síðan frestað út í hið óendanlega. Við greiddum held ég atkvæði um Sjúkratryggingar Íslands. Þar eru menn búnir að fresta því til 2009, 2010, 2011, 2012. Er ætlunin sú sama hér ef svo óheppilega vildi til að menn verði áfram í ríkisstjórn? Á að fresta þessu á hverju einasta ári?

Áætlunin lá alveg fyrir þegar þetta var samþykkt fyrir ári síðan eða hvenær það var. Það er þá sem menn áttu að fara að undirbúa þetta. Svo koma þeir hér og segja: Við erum með allt niður um okkur og það þarf að fresta þessu aftur. Það er ekkert boðlegt. Þetta var réttarbót og eitthvað sem var mjög vel farið yfir, ekki bara í þinginu heldur í þjóðfélaginu. Það er algjörlega fráleitt að fresta því.

Ég treysti því að tillagan verði felld.



[17:19]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma aðeins upp í umræðu um þetta mál eftir að hafa hlustað á þær ræður sem hafa verið fluttar í tengslum við tillöguna sem liggur fyrir frá meiri hluta velferðarnefndar um að breyta frumvarpi innanríkisráðherra sem varðar frestun á gildistöku barnalaganna til 1. júlí 2013. Meiri hluti velferðarnefndar leggur til að þeirri dagsetningu verði breytt í 1. apríl, þ.e. að lögin öðlist gildi fyrr en frumvarp innanríkisráðherra gerir ráð fyrir.

Það er okkur öllum vonbrigði að þetta frumvarp geti ekki orðið að lögum núna um áramótin eins og til stóð. (Gripið fram í: Það getur það alveg.) Fullyrðingar manna sem koma hér og tala eru algerlega út í bláinn. Þeir hafa ekki kynnt sér málið eða vilja ekki hlusta á þá sérfræðinga sem fjalla um það og hafa farið ítarlega yfir það með okkur hvers vegna og hvaða réttaróvissa skapast fyrir þá sem við eiga að búa ef ekki verður brugðist við með þeim hætti sem er lagt til. Við vonumst til að fella þetta mál segja menn, og hvað svo? Hvað eru þeir þá að leiða yfir þá sem eiga að búa við þessi lög og að sjálfsögðu njóta góðs af því þegar þau öðlast að fullu gildi? (Gripið fram í: Þetta er Vinstri grænum til skammar.) Það er bara kjaftæði hjá hv. þingmanni. Hann á að skammast sín fyrir að tala svona.

Síðan kemur (Gripið fram í.) til dæmis hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og ber það á borð að málið snúist bara um að innanríkisráðherra hafi verið andsnúinn tilteknum þáttum frumvarpsins og þess vegna hafi ekkert verið unnið í ráðuneytinu. Ég vil mótmæla því harðlega. Mér er vel kunnugt um að hæstv. innanríkisráðherra hafði tilteknar skoðanir á ákveðnum þáttum málsins. Hann var alls ekkert ósáttur við frumvarpið í heildina enda flutti hann það. Það voru tilteknar breytingar sem nefndin gerði sem hann var ekki endilega sammála en að sjálfsögðu varð frumvarpið að lögum og að sjálfsögðu vinnur ráðuneytið að því að hrinda þeim í framkvæmd í samræmi við þau fyrirmæli sem lögin geyma. Auðvitað hefur það verið gert.

Það kom fram hjá lögfræðingi Barnaverndarstofu sem kom fyrir velferðarnefndina að það hafi í raun mátt segja það strax í upphafi að það þyrfti lengri tíma til undirbúnings heldur en gert var ráð fyrir. Það má spyrja sig af hverju ekki var tekið mark á því strax á þeim tíma af hálfu löggjafans. Menn geta velt því fyrir sér en hér voru sett ákvæði um gildistöku laganna.

Ég vil bara undirstrika að ég er algjörlega sammála því sem kemur fram í nefndaráliti og því viðhorfi sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum Guðmundi Steingrímssyni, Unni Brá Konráðsdóttur og fleirum sem hafa tekið til máls, bæði á vettvangi nefndarinnar og hér. Það er mjög bagalegt að við séum í þeirri stöðu að lögin taki ekki gildi um áramót ef fram fer sem horfir. Ég er algjörlega sammála því en ég er ekki sammála því mati að hægt sé að láta eins og ekkert sé og hægt að láta kylfu ráða kasti um það hvað gerist og hvaða réttarástand skapast um áramótin ef lögin taka gildi og það verður ekki hægt að innleiða þau með þeim hætti sem upphaflega var gert ráð fyrir. Það er sú staða sem ég held að blasi við mörgum sem við eiga að búa og hún sé miklu lakari en það skref sem meiri hluti velferðarnefndar leggur þó til, að fresta gildistöku laganna til 1. apríl. Menn verða að bera ábyrgð á atkvæði sínu hér í þingsal, líka þeir sem ætla að vera á rauða takkanum og segja nei.



[17:24]
Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég spyrja hv. þingmann í hvaða ítarlega rökstuðning sérfræðinga hann er að vísa. Fyrir nefndina í þessu máli komu tveir gestir, annars vegar frá innanríkisráðuneytinu til að kynna frumvarpið og hins vegar kom Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur og vissulega sérfræðingur, í fundarhléi í að ég held 20 mínútur. Ég hef allt annað hugtak yfir ítarlegt í mínum huga þegar ég tala um ítarlegt álit sérfræðinga. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann eigi við þessa heimsókn þegar hann talar um ítarlegt álit sérfræðinga. Ég upplifði þennan fund þannig að það hafi ekki gefist neitt tóm til að ræða mjög mikilvæg álitamál sem blasa við í þessu máli.

Hv. þingmaður verður að rökstyðja af hverju hann telur það mikið glapræði að láta lögin einfaldlega taka gildi 1. janúar 2013 eins og við ákváðum. Þá verður hann væntanlega að horfa til þess í rökstuðningi sínum að sýslumenn eru nú þegar á grunni gildandi laga að bjóða upp á sáttameðferð og ráðgjöf. Árið 2009 buðu sýslumenn 175 foreldrum um landið allt slíka ráðgjöf sem er í eðli sínu sáttameðferð. Þessi ráðgjöf er ráðgjöf sálfræðinga á vegum sýslumanns sem gengur út á að leita bestu lausnanna frá sjónarhóli barnsins í ágreiningsmálum. Þar að auki eru aðilar úti í samfélaginu sem bjóða viðurkennda sáttameðferð. Það liggur fyrir.

Við höfum rökstutt það ítarlega í nefndaráliti að við teljum engan veginn glapræði eða á einhvern hátt erfitt mál fyrir kerfið að lögin taki gildi 1. janúar 2013. Hins vegar (Forseti hringir.) er mikilvægt að þegnar landsins geti gengið út frá því að orð Alþingis standi (Forseti hringir.) þegar það segir hvenær mikilvægar réttarbætur eigi að taka gildi.



[17:26]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi er að gera það núna, fjalla um gildistöku þessara laga. Það liggur fyrir frumvarp frá ráðherra um að fresta gildistöku laganna til 1. júlí 2013. Meiri hluti velferðarnefndar hefur lagt það til eftir umfjöllun í nefndinni og gestakomur að stytta þann tíma til 1. apríl. Ég hef rakið það hér. Ég tel mjög bagalegt að ekki hafi verið hægt að ganga þannig frá hnútum að lögin tækju gildi eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Vonandi verður alla vega einhver skýr niðurstaða í þinginu, hver svo sem hún verður þegar upp er staðið að lokinni atkvæðagreiðslu.

Ég er að vísa meðal annars til heimsóknar sérfræðings í þessum málaflokki sem kom fyrir nefndina. Hv. þingmaður sagði að það hefði verið gert í fundarhléi og hefði ekki verið löng heimsókn. Það er vissulega rétt en hún var mjög gagnleg að mínu viti þar sem einn helsti sérfræðingur okkar á því málasviði sem vinnur í innleiðingunni á þessum lögum fór mjög rækilega yfir hvaða vankantar væru bæði á innleiðingu tímasetningarinnar og á þeirri hugmynd að skipta þessu upp, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson var með hugmyndir um og hefur fært rökstuðning sinn fyrir en ég er ekki sammála. Þannig að ég er að vísa til þess að þeir sem eru að vinna í þessum málum vara okkur eindregið við því að kljúfa þau í sundur eins og ákveðnar hugmyndir eru uppi um og þeir segja: Við þurfum þennan tíma sem hér er lagt til.

Ég kýs að taka mark á viðhorfum þeirra sérfræðinga sem vinna að málinu. Ég tel að þeir hafi að minnsta kosti betri innsýn í stöðu málsins en ég hef. Eins og ég segi kýs ég að reiða mig á það álit og styð það.



[17:28]
Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir tveimur mælskubrögðum í máli hv. þingmanns. Hann segir að hann vísi meðal annars í álit þessa sérfræðings. Meðal annars? Það var enginn annar sérfræðingur sem kom fyrir nefndina, það var bara þessi. Það er ekki hægt að segja meðal annars. Segir hann sérfræðinga? Það voru ekkert margir sérfræðingar. Annars vegar var það fulltrúi ráðuneytisins sem kom ekki sem sérfræðingur í málinu og hins vegar Hrefna Friðriksdóttir sem kom vissulega í 20 mínútur.

Ég endurtek að mér finnst mjög ósanngjarnt að vísa í það samtal sem einhvern allsherjarrökstuðning fyrir þessu frumvarpi og frestun gildistökunnar. Þetta 20 mínútna samtal í fundarhléi var ekki næstum því nógu yfirgripsmikið til þess að hægt sé að nota það sem einhverja röksemd.

Meiri hluti velferðarnefndar verður að rökstyðja að það yrði eitthvert meiri háttar glapræði fyrir kerfið, eins og það er orðað, að lögin taki gildi 1. janúar 2013.

Við höfum haldið því fram í nefndaráliti að það sé þegar verið að bjóða þessa þjónustu. Sú þjónusta fellur vel undir ákvæðið um sáttameðferð sem getið er í 12. gr. laganna. Það er þegar verið að bjóða þá sérfræðiráðgjöf út um allt þjóðfélag og einkageirinn býður líka upp á hana. Hvort við sjáum þessa þjónustu, sáttameðferðina, á einhvern hátt sem betri eða batnandi með tímanum er hins vegar önnur saga. Að sjálfsögðu viljum við bæta þjónustuna en við munum alltaf gera það.

Lykilatriðið er að hún er til staðar. Það eru þess vegna engin sterk rök fyrir því að fresta gildistöku ákvæðanna. Eins og ég rakti í máli mínu er fjármagnið líka til staðar vegna þess að kostnaðarmat fjárlagaskrifstofunnar til að koma á þessari þjónustu hljóðar upp á 35–40 milljónir. Það eru 30 milljónir til verkefnisins samkvæmt innanríkisráðuneytinu. Hér ber ekki nógu mikið á milli (Forseti hringir.) kostnaðarmats og áætlunar til þess að réttlætanlegt sé á nokkurn hátt að fresta (Forseti hringir.) gildistöku þessarar réttarbótar.



[17:31]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er stundum þannig hér í umræðum í þessum sal að fólki hleypur kapp í kinn. Ég vonast til að þannig hafi það verið þegar hv. þingmaður talaði um að við sem töluðum í þessari umræðu vissum ekkert um hvað við værum að tala.

Í núgildandi lögum er ákvæði um sáttameðferð. Það er ekki eins og sýslumannsembættin viti ekkert um hvað sáttameðferð snúist eða kunni ekkert á hana eða þekki ekki til hvers hún skuli notuð. Nú er hins vegar verið að leggja til það nýmæli að ráðgjafar- og sáttameðferðin verði í raun tvískipt eins og birtist í nefndaráliti okkar sem við skrifuðum á síðasta þingi. Þess vegna tel ég að menn sem eiga að framkvæma þessi lög geti gert það. Ég hef trú á því að það sé hægt. Við sem störfum hér í þinginu þurfum oft að vega saman hagsmuni. Við höfum hér frumvarp sem við samþykktum sem lög í fyrra sem fjallar um ýmis atriði, mörg mikilvæg réttindi barna, foreldra og annarra aðstandenda barna.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað réttlætir frestun á öllum þeim ákvæðum þó að ráðuneytið sé ekki búið að skrifa reglurnar um það hvernig sáttameðferðin eigi nákvæmlega að fara fram? Það er nefnilega ekki búið að færa nein rök fyrir því af hverju það þarf að fresta þessu öllu saman. Ég tel að ekki þurfi að fresta þessu.

Ég hvatti til þess í nefndinni að við mundum setjast yfir ákvæðin og athuga hvort við værum á réttri leið með því að fylgja þessu frumvarpi ráðherrans. Ég tel svo einfaldlega ekki vera. Þess vegna veg ég þá hagsmuni meiri að lögin taki gildi um áramótin heldur en þá að fresta þeim af því að kerfið er ekki tilbúið. Kerfið á að þjónusta fólk en ekki öfugt.



[17:33]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hafi komið fram í rökstuðningi sérfræðings sem kom fyrir nefndina að það væri áhættusamt að fara í þessa uppskiptingu, að fara þá leið að splitta þessu upp. Það væri flókið lagatæknilegt mál sem þyrfti talsvert mikla yfirlegu vegna þess að þetta hefði ekki verið undirbúið. Frumvarpið gerir ráð fyrir að frestun á gildistöku til 1. júlí. Það hafði enginn í raun og veru látið sér detta það í hug að fara í slíka uppskiptingu án þess að það hefði verið undirbúið. Það kallaði á heilmikla vinnu. Það tel ég að hafi komið fram í máli sérfræðingsins, sem er kannski einn helsti sérfræðingur okkar í þessu lagaverki. Hún taldi sjálfa sig að minnsta kosti þurfa talsverða yfirlegu til að klára slíkt. Þannig að ég tel að því hafi í raun verið svarað þar.

Þá er spurningin þessi hjá hv. þingmanni: Verður ekki að vega og meta hagsmunina og segja: Það eru meiri hagsmunir barnanna vegna og þeirra sem eiga að búa við þessi lög að innleiða þau þrátt fyrir allt og það sé mikilvægt þó að kerfið sé ekki tilbúið, af því kerfið eigi að þjónusta fólk? Þarna takast auðvitað á tvö meginsjónarmið. Í mínum huga liggur það fyrir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr — og ég er alveg jafnóánægður með það eins og hv. þingmaður að kerfið skuli ekki vera reiðubúið til að hefja innleiðingu um næstu áramót — og hefur komið fram í málinu að kerfið er ekki tilbúið. Ég tel að það skapi réttaróvissu fyrir þá sem við eiga að búa, að láta lög öðlast gildi sem ekki er hægt að innleiða vegna þess að kerfið er ekki tilbúið til þess.

Þess vegna held ég að það séu meiri heildarhagsmunir, já, að fresta gildistöku laganna og reyna að stytta (Forseti hringir.) þann tíma eins og frekast er kostur.



[17:35]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held við verðum að vera sammála um að vera ósammála. Ég tel að þetta skapi ekki réttaróvissu. Ég held hins vegar þvert á móti að það skapi réttaróvissu að fresta gildistöku laga um hver réttindi barns eru, boða frestun á því að hér taki lög gildi um áramótin sem innihalda ákvæði almennt um inntak forsjár, ákvæði sem menn töldu sig vita að mundu taka gildi. Ég tel að það skapi meiri réttaróvissu að fresta því að gildi taki ákvæði um forsjá stjúp- og sambúðarforeldra. Ég tel að það sé eitthvað sem er „aktúelt“ hjá fólki í þeim fjölskylduaðstæðum sem hefur búist við því að þetta ákvæði taki gildi um áramótin.

Gildistakan hefur legið fyrir í nokkurn tíma og ég tel að sú ákvörðun ráðuneytisins að fresta engu að síður öllu heila dæminu í staðinn fyrir að reyna að horfa til þeirra mikilvægu atriða sem fólk býst við að taki gildi og hefur búist við frá því þessi umræða hófst á síðasta þingi, skapi réttaróvissu og ég held að við séum öll sammála um að þessi vinnubrögð séu ekki til fyrirmyndar. Þetta er ömurleg staða. Ég tel að það verði að horfa til heildarinnar og þar með að hafna því að fresta gildistöku laganna.